132. löggjafarþing — 47. fundur
 20. janúar 2006.
Kjaradómur og kjaranefnd, 2. umræða.
stjfrv., 417. mál (ógilding úrskurðar). — Þskj. 634, nál. 651 og 652, brtt. 653.

[11:35]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, sem er að finna á þingskjali 651, 417. mál, frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Aðalsteinsson frá BHM, Ragnar Ingimundarson frá BSRB, Guðrúnu Zoëga frá kjaranefnd, Hjördísi Hákonardóttur, Benedikt Bogason og Arngrím Ísberg frá Dómarafélagi Íslands, Garðar Garðarsson frá Kjaradómi, Eirík Hilmarsson frá Hagstofu Íslands, Birgi Björn Sigurjónsson frá kjaraþróunardeild Reykjavíkurborgar, Sigurð Líndal, Eirík Tómasson, Skúla Eggert Þórðarson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Ólaf Hauksson frá Sýslumannafélagi Íslands, sr. Ólaf Jóhannsson frá Prestafélagi Íslands, Bolla Þór Bollason frá Félagi ráðuneytisstjóra og Baldur Guðlaugsson, Gunnar Björnsson og Þórhall Vilhjálmsson frá fjármálaráðuneyti. Sumir gestanna komu tvisvar á fund nefndarinnar. Þá bárust nefndinni m.a. afrit af bréfi Dómarafélags Íslands til Alþingis, ályktun stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana og athugasemdir frá Sýslumannafélagi Íslands. Nefndin aflaði auk þess fjölda gagna.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ríkisstjórnin hyggst skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Meðal þess sem nefndinni er ætlað að skoða er hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi launaákvarðana Kjaradóms og kjaranefndar þannig að betra samræmis sé gætt í starfskjörum þeim sem þær ná til, bæði innbyrðis og gagnvart almennum vinnumarkaði. Enn fremur er nefndinni ætlað að huga að þeim viðmiðunum og fyrirmælum sem einstökum aðilum eru sett í lögum um launaákvarðanir sínar. Fram hefur komið að þegar hefur verið skipaður formaður fyrir nefndina og að formlega hafi verið óskað eftir tilnefningum þingflokka í nefndina. Þær tilnefningar hafa enn ekki borist en hafin er vinna við gagnaöflun fyrir nefndina. Meiri hlutinn leggur á það áherslu að þessi nefnd hefji störf sem fyrst og vinni svo ötullega að drög að frumvarpi geti legið fyrir í lok mars næstkomandi þannig að hægt verði að samþykkja nýja skipan þessara mála fyrir lok þings.

Frú forseti. Í máli gesta, þeim gögnum sem aflað var og í umræðum nefndarmanna komu mörg sjónarmið fram. Voru þau rædd ítarlega. Upp úr stendur það sjónarmið að þessi hækkun launa æðstu stjórnenda ríkisins hefði komið á mjög viðkvæmum tíma. Aðilar vinnumarkaðarins voru nýbúnir ásamt ríkisstjórninni að fara í gegnum þríhliða samninga vegna þess að verðbólguviðmið kjarasamninga stóðust ekki og höfðu náð hófsamlegri launahækkun í trausti þess að það kæmi í veg fyrir víxlhækkanir launa og verðlags. Mikil launahækkun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms stuttu seinna til æðstu stjórnenda ríkisins vakti sterk viðbrögð og leiddi til óróa á vinnumarkaði sem gat ógnað þeim efnahagslega stöðugleika sem að var stefnt og náðst hefur. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir það og undir það sjónarmið vill meiri hlutinn taka og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Ásta Möller og Sæunn Stefánsdóttir.



[11:40]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þótti og þykir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar vægast sagt athyglisvert í ljósi þess að þar kemur nánast ekkert fram af þeirri umræðu sem fram fór í efnahags- og viðskiptanefnd meðan málið var þar til meðferðar. Hvergi er greint frá því í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að hver einn og einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom galt varhuga við því að þetta frumvarp færi óbreytt í gegnum þingið. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal gat þess heldur ekki að dregið var fram á afar skýran hátt í umræðum fyrir nefndinni að Kjaradómur og niðurstaða Kjaradóms endurspeglar aðeins þá launaþróun sem verið hefur í landinu undanfarin missiri. Kjaradómur hefur sagt sjálfur að hann hafi horft þar til fyrsta ársfjórðungs 2003.

Þetta er sá veruleiki sem fram kom í nefndinni og dregur einnig fram að það sem hér er kannski fyrst og fremst verið að gera af hálfu meiri hlutans er að reyna að koma í veg fyrir að þessi úrskurður endurspegli þá launaþróun sem verið hefur í landinu og þá gliðnun sem átt hefur sér stað milli þeirra sem meira hafa og milli þeirra sem minna hafa. Þá gliðnun er verið að reyna að fela í því orðagjálfri sem birtist í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér þykir óskaplega miður þegar þetta er gert með þeim hætti því að í tilvikum eins og þessum endurspeglar álitið á engan hátt þá vinnu sem fram fór í nefndinni. Ég tel afar mikilvægt að þegar menn koma inn á hið háa Alþingi og flytja mál sitt, þá að minnsta kosti kynni þeir öðrum hv. þingmönnum hvaða sjónarmið komu fram í nefndinni því ella er til lítils að sitja marga fundi í nefndinni og fara vandlega yfir mál. Það vil ég þó segja hv. formanni til hróss, að hann kallaði fyrir nefndina þá sem um var beðið og umræðan var að mörgu leyti góð og áhugaverð og af þeirri ástæðu er miður að umræðunni skuli ekki gerð einhver skil, eða einhver tilraun gerð til að gera umræðunni skil í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Virðulegi forseti. Ég geri nú grein fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og einnig breytingartillögu sem við flytjum við það frumvarp sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég mun gera grein fyrir því áliti og þeirri tillögu. En áður en ég kem að álitinu er ekki hægt annað en að vekja sérstaka athygli á hvernig ríkisstjórnin brást við þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir. Það er alveg ljóst að viðbrögð hennar voru geysilega fálmkennd og báru þess glöggt merki að forusta hennar er afskaplega veik. Án þess að ég kannski telji mig vita nákvæmlega hvað gerist í herbúðum ríkisstjórnarinnar virðist manni sem brotthvarf fyrrverandi utanríkisráðherra úr ríkisstjórninni hafi skipt þar verulegu máli. Að minnsta kosti voru viðbrögðin mjög fálmkennd og birtust m.a. í afar athyglisverðum bréfaskriftum sem hæstv. forsætisráðherra átti við Kjaradóm um hvort Kjaradómur gæti komist að annarri niðurstöðu á grundvelli sömu laga sem hann áður hafði komist að sinni niðurstöðu og hefur síðan eftir það gert ítarlega grein fyrir að Kjaradómur var aðeins að bregðast við þeirri launaþróun sem átt hefur sér stað í landinu.

Það kom einnig skýrt fram í efnahags- og viðskiptanefnd — það er slæmt að hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson sé ekki hér í salnum — að hinir svokölluðu stofnanasamningar sem voru ákveðnir með lagabreytingum 1996 og tóku síðan gildi fljótlega upp úr árinu 1997 hafa haft geysilega mikil áhrif á þá launaþróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og endurspeglar aðeins að ríkisstjórnin hefur algerlega misst tökin á þessum málum því hún á hátíðarstundum ber sér jafnan á brjóst fyrir aðhald og góða stjórn í efnahagsmálum. Þessi tilraun ríkisstjórnarinnar er til að kasta ryki framan í almenning í því skyni að hylja að það sem raunverulega hefur átt sér stað er vegna aðhaldsleysis og getuleysis ríkisstjórnarinnar til að halda utan um sín mál.

Það er veruleikinn í málinu og kom afar skýrt fram í umræðum í nefndinni. Það er það sem fyrst og fremst er verið að hylja. Þó að minni hlutinn sé eindregið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fresta framkvæmd úrskurðarins til að reyna að sporna gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað í launamálum, þ.e. þeirri gliðnun sem átt hefur sér stað milli þeirra sem meira hafa og þeirra sem minna hafa, þá er hann ekki tilbúin að taka þátt í því leikriti að reyna að halda því fram að afnám þessa úrskurðar muni tryggja áframhaldandi stöðugleika í landinu eða ná fram þeirri sátt sem við sem í minni hlutanum sitjum viljum ná. En við erum hins vegar tilbúin að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að ná því markmiði.

Eins og ég ræddi áðan endurspeglar sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara aðeins þá staðreynd að hún hefur einhvern veginn ekki hugmynd um hvernig leysa megi úr þeirri stöðu sem upp kom í samfélaginu eftir úrskurð Kjaradóms. Ég minntist áðan á hin undarlegu bréfaskrif og yfirlýsingar sem fylgdu í kjölfarið og í framhaldi af því birtist þetta frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi, sem ríkisstjórnin hafði nú nokkuð góðan tíma til að undirbúa. En hver einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom taldi að það stæðist ekki. Hver og einn einasti lögfræðingur sem fyrir nefndina kom til að ræða þann þátt málsins hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrár, taldi að það stæðist ekki. (Gripið fram í.)

Og aðeins af því hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar hér fram í að einhverjir kunni að hafa trú á að þetta standist stjórnarskrá, þá var eitt þeirra atriða sem kom til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd spurningin um hvort lækka mætti laun forseta Íslands. Menn geta haft hvaða skoðun sem er á því hvort núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar eigi rétt á sér eða ekki. Það breytir ekki hinu að það stendur þarna. Það stendur mjög skýrum orðum, orðalagið er ekki hægt að misskilja, þ.e. að launakjörum forseta verði ekki breytt á miðju kjörtímabili. Það sem vekur kannski sérstaklega eftirtekt er að á löggjafarþinginu 1999–2000 flutti hv. þm. Pétur H. Blöndal frumvarp til laga um afnám skattfrelsis forseta Íslands sem síðan varð að lögum. Í framsöguræðu með því tiltekna frumvarpi sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar …“

Þetta sagði hv. þingmaður á löggjafarþinginu 1999–2000 og taldi að ekki væri hægt að gera breytingar á launakjörum forseta á miðju kjörtímabili. Þetta er sami skilningur og menn höfðu uppi árið 1992 þegar bráðabirgðalög voru sett. En þá miðuðust breytingar á launakjörum forseta einmitt við upphaf kjörtímabils. Þá er heimilt að gera breytingar á launakjörum forseta og ekki athugasemdir við það. Það að leggja núna til breytingar á launakjörum forseta, eins og hér er gert ráð fyrir, á sér ekkert fordæmi þrátt fyrir það sem fram kemur í greinargerð ríkisstjórnar í því frumvarpi sem hún hefur lagt fram. Mér þykir því miður ef hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem kvað svo skýrt að orði fyrir nokkrum árum að ekki mætti hreyfa við launakjörum forseta á miðju kjörtímabili vegna ákvæðis stjórnarskrárinnar, hefur snúist svona gersamlega í málinu þrátt fyrir skýlaus orð stjórnarskrárinnar. Ég veit að hv. þingmaður á það til að smeygja sér undan pilsfaldi flokksins og taka sjálfstæða og eigin ákvörðun í málum. Ég vona að hann í þessu tilviki hafi ekki verið beygður til að fylgja niðurstöðu ríkisstjórnarinnar, jafnóvönduð og hún er.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég að gera grein fyrir áliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem við stöndum að, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson og Ögmundur Jónasson.

Úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 um hækkun launa æðstu embættismanna ríkisins endurspeglar þá launaþróun sem orðið hefur í landinu. Sú þróun hefur aukið launamuninn milli þeirra sem sterkast og veikast standa á íslenskum vinnumarkaði. Af þessum sökum kallaði úrskurðurinn fram sterk viðbrögð í samfélaginu. Stjórnarandstaðan krafðist þess þegar í stað að Alþingi yrði kallað saman til að fjalla um úrskurðinn áður en hann kæmi til framkvæmda. Við því var ekki orðið og kom úrskurðurinn því til framkvæmda 1. janúar sl. sem gerir málið allt mun erfiðara viðfangs. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í upphafi voru mjög fálmkennd sem m.a. birtist í undarlegu bréfi forsætisráðherra til Kjaradóms. Minni hlutinn vísar því allri ábyrgð á stöðu málsins og málsmeðferð á hendur ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á Alþingi.

Lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd vöruðu allir sem einn eindregið við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara. Þeir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili. Í ljósi þess mikla vafa sem leikur á því hvort frumvarp ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá getur minni hlutinn ekki staðið að afgreiðslu þess.

Minni hlutinn telur að bregðast verði við úrskurði Kjaradóms en getur ekki fellt sig við þá leið sem ríkisstjórnin leggur til. Minni hlutinn leggur því fram breytingartillögu í þá veru að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember sl. komi ekki til framkvæmda frá 1. febrúar til 1. júní.

Lagt er til að fjármálaráðherra skipi nefnd sem í eigi sæti m.a. fulltrúar allra þingflokka. Ekki er kveðið á um fjölda nefndarmanna að öðru leyti. Nefndin skal endurskoða núgildandi fyrirkomulag á launakjörum þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Nefndin skal leggja fram tillögur í formi frumvarps fyrir 15. mars nk. Kveða skal upp nýjan úrskurð um launakjör þeirra sem tillagan tekur til fyrir 1. júní nk. samkvæmt nýjum lögum. Skal úrskurðurinn gilda frá og með 1. febrúar 2006.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Ég ætla að síðan gera örlitla grein fyrir þeirri breytingartillögu sem við leggjum fram, þ.e. sá sem hér stendur, hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson og Ögmundur Jónasson, auk þess sem Guðjón Arnar Kristjánsson er henni samþykkur. En þar segir:

Þrátt fyrir úrskurð Kjaradóms frá 19. desember 2005 skal hann ekki koma til framkvæmda frá og með 1. febrúar 2006 til 1. júní sama ár. Á þeim tíma er Kjaradómi einnig óheimilt að kveða upp úrskurði um launakjör.

Fjármálaráðherra skal skipa nefnd, m.a. með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Hún skal endurskoða fyrirkomulag á launakjörum þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Nefndin skili tillögum í formi lagafrumvarps sem lagt verði fyrir Alþingi eigi síðar en 15. mars 2006. Í tillögunum skal m.a. kveðið á um almennar forsendur sem leggja skal til grundvallar þegar kveðið er á um launakjör þeirra sem lögin taka til.

Úrskurð samkvæmt nýjum lögum skal kveða upp fyrir 1. júní nk. Skal hann gilda frá og með 1. febrúar 2006.

Þetta er sú breytingartillaga sem við leggjum fram. En eins og ég hef áður rakið í máli mínu og nauðsynlegt er að hafa í huga er að tillagan er lögð fram í þeirri stöðu að úrskurður Kjaradóms er þegar kominn til framkvæmda. Tillagan gerir ekki ráð fyrir að þingmenn taki 2,5% launahækkun um næstu mánaðamót heldur einungis að framkvæmd úrskurðarins frá því í desember verði frestað. Þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir að Alþingi ákveði með lögum launakjör alþingismanna. Sú ákvörðun var tekin fyrir nokkrum árum að hafa þann háttinn á að aðrir en alþingismenn tækju þessa ákvörðun. Ég tel mikilvægt, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því hvernig því máli eigi að vera fyrir komið, að fram fari ítarleg umræða um hvernig best sé að haga þessum málum áður en Alþingi tekur slíka ákvörðun. Ég veit að mismunandi sjónarmið eru uppi um hvernig þá ákvörðun eigi taka en ég held að mikilvægt sé áður en svona ákvörðun er tekin að fram fari ítarleg umræða en ekki er gert ráð fyrir því í tillögu ríkisstjórnarinnar. Þar er einfaldlega gert ráð fyrir því að þingmenn muni hækka um 2,5% miðað við þá stöðu sem var áður en úrskurður Kjaradóms í desember var kveðinn upp. Í þessu birtist sú yfirlýsing okkar að við erum ekki þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að ákveða þetta með þessum hætti, að minnsta kosti ekki nú um stundir.

Í tillögu okkar er ekki gert ráð fyrir því að úrskurðurinn verði afnuminn heldur að framkvæmd úrskurðarins verði frestað, að ný nefnd verði sett á laggirnar sem skili úrskurði í formi lagafrumvarps sem hægt verði að leggja fyrir Alþingi fyrir 15. mars næstkomandi. Það hefði í för með sér að Alþingi gæti ákveðið nýtt fyrirkomulag um hvernig þessum málum verði skipað og hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar. Í framhaldi af því að Alþingi hafi tekið þessa ákvörðun verði kveðinn upp nýr úrskurður sem taki gildi frá og með 1. febrúar 2006.

Með því að samþykkja nú tillögu um að úrskurðurinn muni gilda frá 1. febrúar 2006 getur enginn haft væntingar um að viðkomandi eigi rétt á tilteknum launum frá og með 1. febrúar vegna þess að það er búið að ákveða það fyrirfram að úrskurðurinn eigi að taka gildi frá og með þessum tíma.

Í annan stað ef einhver væri ósáttur við þessa niðurstöðu þá mundi ekki reyna á það nema menn væru ósáttir við forsendurnar sem lægju til grundvallar nýjum úrskurði eða nýrri aðferðafræði við það að ákveða hvernig launin ættu að vera. Að minni hyggju og fleiri stenst þessi aðferð að öllu leyti stjórnarskrá. Með því að fara þessa leið er ekki verið að afnema réttindi einhliða án þess að menn gefi sér tóm til að fara mjög vandlega yfir hvernig best sé að haga þessum málum. Það er okkar mat að verði sú leið farin sé ekki verið að hafa réttindi af neinum á þessari stundu en á hinn bóginn gefist mönnum tóm til að fara betur yfir málið og vanda mjög hvernig að breytingunum verði staðið og tryggja þannig að við þurfum ekki sífellt að hafa áhyggjur af því að hornsteinn regluverks okkar, stjórnarskráin sjálf, skuli ætíð þurfa að þvælast fyrir lagasetningarvaldinu í þeim skilningi að við við virðumst mjög oft fara út á ystu nöf í þeim efnum og stjórnarskráin fær ekki að njóta vafans. Við getum ekki sætt okkur við það að stjórnarskráin fái ekki að njóta vafans í þessum efnum. Þess vegna leggjum við fram þessa tillögu. Hún nær þeim markmiðum sem ég held að allur þingheimur sé í reynd sammála um en aðferðina tel ég fyllilega standast stjórnarskrá. Þess vegna viljum við fara þessa leið og í reynd viljum við einnig hvetja meiri hlutann á Alþingi til að koma með okkur í þá vegferð að finna skynsamlegan flöt á því hvernig haga eigi þessum málum því það er sameiginlegt markmið okkar og ég held að það væri afar farsælt ef hægt væri að ná sáttum um þá leið sem við leggjum til á hinu háa Alþingi. Ég held að það væri stórmannlegt af meiri hlutanum á hinu háa Alþingi og ríkisstjórninni að fallast á þau sjónarmið sem fram komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og ég hef farið ágætlega yfir í ræðu minni.

En áður en ég lýk máli mínu ætla ég að leyfa mér að lesa upp úr bréfi sem formaður Kjaradóms sendi hæstv. forsætisráðherra þegar hann útskýrði hvers vegna úrskurður Kjaradóms var kveðinn upp og hvaða forsendur dómurinn lagði til grundvallar þeirrar niðurstöðu sem fékkst. En í þeim orðum endurspeglast að nokkru leyti sá veruleiki sem launaþróunin sýnir og við megum ekki hér á hinu háa Alþingi kasta ryki í augu almennings, verkalýðshreyfingarinnar og annarra um að launaþróunin sé einhver allt önnur en hún birtist í öllum vísitölum sem hægt er að skoða. Ég ætla að lesa upp örstuttan kafla úr bréfi formanns Kjaradóms til hæstv. forsætisráðherra sem er ritað á Þorláksmessu ársins 2005 en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Laun sem greidd eru þeim embættismönnum sem sambærilegir geta talist við þá sem Kjaradómur hefur úrskurðað laun hafa af ýmsum ástæðum hækkað meira en þau laun sem Kjaradómur hefur ákvarðað á þessu tímabili. Stafar það einkum af tveimur ástæðum: Annars vegar af því að Kjaradómur hækkaði ekki laun 1. janúar 2004 og hins vegar er það afleiðing af kjarasamningum sem ríkisvaldið hefur gert við starfsmenn sína á tímabilinu. Má þar einkum benda á að þann 26. apríl 2005 staðfesti fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga BHM-félaganna sem undirritað var þann 28. febrúar og síðan samþykkt í einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu felst kerfisbreyting þannig að 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir þau félög sem eru aðilar að því. Launatöflur þessara félaga hækkuðu mikið en meðalhækkun var á tímabilinu 5–5,5%.

Í framhaldi af þessum kjarasamningum ákvað kjaranefnd þann 28. júní sl. að hækka laun þeirra embættismanna sem undir hana heyra um 4,5% afturvirkt frá 1. febrúar 2005. Afleiðingar þessara samninga sem aftur endurspeglast í ákvörðun kjaranefndar eru þær að verulega munaði orðið á launum þeirra sem tóku laun samkvæmt ákvörðun Kjaradóms annars vegar og viðmiðunarhópanna hins vegar.“

Með öðrum orðum er Kjaradómur með þessari ákvörðun aðeins að endurspegla þá þróun sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Minni hlutinn er hins vegar tilbúinn til þess og leggur til að framkvæmd úrskurðarins verði frestað og leitað verði nýrra leiða til þess að koma ríkisstjórninni úr þeim vanda sem hún hefur sjálf komið sér í með því að verða ekki við tilmælum stjórnarandstöðunnar og kalla þing saman áður en úrskurðurinn kom til framkvæmda. Sú staðreynd að þing var ekki kallað saman, að ekki var tekið á þessum málum áður en úrskurðurinn kom til framkvæmda, það er það sem hefur sett okkur í þann vanda sem ég hef hér rakið og hefur gert það að verkum að flestir þeir sem tjá sig eða allir þeir sem hafa tjáð sig um það hvort leið ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrá telja að svo sé ekki.



[12:09]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði athugasemdir við nefndarálit meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar og taldi að skort hefði á efnisleg rök og vildi að gerð yrði grein fyrir efnislegri umræðu sem fór fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það má því segja að með þessum athugasemdum mætti ætla að sjálfur gerði hv. þingmaður meiri kröfu til þess nefndarálits sem hann stendur fyrir þrátt fyrir að það standi varla almennilega undir því að hafa rakið efnislega umræðu með þeim hætti sem fór fram í nefndinni. Til dæmis segir í nefndarálitinu að lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd hafi allir sem einn eindregið varað við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara.

Ég kannast ekki við að allir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina hafi haft þessi viðhorf og t.d. er ég nokkuð viss um að lögfræðingarnir Garðar Garðarsson, Baldur Guðlaugsson og Gunnar Björnsson kannist ekki við að hafa varað eindregið við að fara þessa leið né heldur get ég tekið undir að t.d. lögfræðingarnir Sigurður Líndal og Eiríkur Tómasson, sem sérstaklega voru kallaðir á fund nefndarinnar, kannist við að hægt sé að túlka orð þeirra með þeim hætti að þeir teldu víst, þ.e. hefðu vissu fyrir, að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, eins og segir í nefndarálitinu. Þeir töluðu hins vegar um að fara þyrfti varlega, en þeir höfðu enga vissu fyrir því. Það var ekki eins og þeir væru að greina frá því hver þeirra niðurstaðan væri, að þetta væri öruggt. Þeir sögðu varlega, sterkari orð höfðu þeir ekki um það. Jafnframt er ekki hægt að draga þá ályktun af dómafordæmum sem voru dregin til efnahags- og viðskiptanefndar að þau styðji þessa fullyrðingu.



[12:11]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi setið báða eða alla þá fundi sem efnahags- og viðskiptanefnd hélt þegar umræður um þetta mál fóru fram. Hver einn og einasti lögfræðingur sem var spurður um hvort þetta stæðist stjórnarskrá svaraði á þann veg að hann teldi það afar ólíklegt. Það var reyndar þannig að þeir lögfræðingar sem voru spurðir sögðu til að mynda varðandi eignarréttarákvæðið að það væri nánast víst að það mundi ekki standast. Hið sama má segja um ákvæðið um forsetann. Þeir kváðu misfast að orði eftir því hvaða ákvæði stjórnarskrárinnar var um að ræða, eftir því hvort rætt var um eignarréttarákvæðið, um ákvæðið um jafnræði eða um ákvæðið um forsetann. Á sama hátt guldu þeir allir varhuga við afturvirkni en það er meginregla að lög skuli ekki vera afturvirk. Þeir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina og tjáðu sig um þetta tiltekna atriði kváðu allir sem einn upp úr um að ekki ætti að fara þessa leið sem ríkisstjórnin er að fara. En samt sem áður stendur það eftir, og því er best að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki eðlilegt þegar svona mikill vafi leikur á að frumvarp eða hugmyndir sem ríkisstjórnin er með standist stjórnarskrá, að draga það fram í meirihlutaáliti þegar svona eindregið er varað við því að fara slíka leið. Er ekki eðlilegt að koma slíkum sjónarmiðum á framfæri? Ég spyr hv. þingmann að því.



[12:13]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki alveg hvernig hv. þingmaður skilgreinir hverjir eru lögfræðingar og hverjir eru ekki lögfræðingar. Er hann segja að Gunnar Björnsson og Baldur Guðlaugsson, sem viðhöfðu aldeilis ekki þessi orð, séu ekki lögfræðingar? Eða hvernig ber að skilja þetta þegar hann segir allir sem einn? Það er ekki hægt að fullyrða neitt með þessum hætti eins og gert er í nefndarálitinu.

Síðan benti ég jafnframt á að lögfræðingar sem voru beðnir um að draga fram dómafordæmi gátu ekki fundið dómafordæmi sem styðja þá fullyrðingu að þetta færi gegn stjórnarskránni.

Varðandi forsetann þá er líka í nefndarálitinu fullyrðing um að stjórnarskráin heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili og látið að því liggja að allir lögfræðingarnir sem einn hafi talið víst að stjórnarskráin heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili. Þetta er bara alrangt. Það var enginn lögfræðingur sem tjáði sig með þessum hætti að hægt sé að fullyrða slíkt, eins og kemur fram í nefndarálitinu. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands var margoft lesin, en þar segir: „Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“ Jafnframt er vísað í greinargerð með stjórnarskránni, með umræddri grein stjórnarskrárinnar, þar sem segir:

„En ákvæðið miðar að því að hindra, að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi eftir á reyni með þessum hætti að ná sér niðri á forseta. Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt, að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Ég held að það hafi ekki verið nokkur vafi í huga flestra þingmanna þarna inni að ekki sé hægt að fullyrða með þeim hætti sem minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir tilraun til.



[12:16]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera þá játningu hér að kannski birtist í þessari ræðu sá veruleiki sem endurspeglast svo í nefndarálitinu. Það er talið rétt að segja ekkert frá þeirri umræðu sem fram fór og koma síðan hér og halda því fram sem manni dettur í hug, því sem hentar á því tímabili. Þetta er með hreinum ólíkindum. Hver einn og einasti lögfræðingur sem var spurður um stjórnarskrána taldi að þetta færi í bága við hana. (Gripið fram í: Baldur Guðlaugsson.) Baldur Guðlaugsson var ekki spurður um þetta. Bara til að halda því til haga. Hver einasti lögfræðingur sem var spurður nefndi þetta með þessum hætti. Eiríkur Tómasson talaði mjög skýrt fyrir þessu. Sigurður Líndal vísaði í minkadóma og fleiri dóma sem nefndir voru í þessari umræðu. Ég spyr: Var hv. þingmaður ekki á fundinum þó líkaminn hafi verið þarna? Fylgdist hv. þingmaður ekkert með þeirri umræðu sem fram fór? Það er með hreinum ólíkindum þegar menn koma hér, hv. þingmenn meiri hlutans, með nefndarálit sem greinir ekkert frá umræðum og halda því fram að eitthvað allt annað hafi farið fram en það sem raunverulega fór fram.



[12:17]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér greinir menn á um hvað lögfræðingar sögðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Sitt sýnist hverjum. En ég vil, vegna þess að við höfum þá ekki hér inni í þingsalnum, vitna í orð Sigurðar Líndals, prófessors í lögum, sem kom fram í fréttum sjónvarps 29. desember á síðasta ári. Þar sagði hann þegar verið var að ræða þessi mál, með leyfi forseta:

„Ég tel að það séu nú veruleg vandkvæði á því en ekki útilokað.“

Þá var verið að ræða um hvort Alþingi Íslendinga gæti breytt lögunum afturvirkt. Þetta er nákvæmlega það sem kom fram í nefndinni: Lögfræðingar tala um að það þurfi að fara varlega en þeir töluðu alls ekki um að þetta væri útilokað. Þeir sögðu alls ekkert af eða á um það. Það kom fram að til grundvallar þyrfti að liggja brýn nauðsyn eða réttmæt rök, og við teljum svo vera. Taka þurfti pólitíska ákvörðun og það gerum við hér í þessu máli. Það er það sem við höfum til hliðsjónar. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt það orðrétt að þetta kæmi alls ekki til greina. Ég vil að það komi fram.

En ég fór nú aðallega hér upp í andsvar vegna orða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um að ríkisstjórnin hefði ekki haft hugmynd um hvernig átti að snúa sér í málinu þegar þessi dómur féll. Ríkisstjórnin vissi það alveg og vildi bregðast hratt við og skipa vinnuhóp sem átti að vinna hratt að því að endurskoða kjaradóminn og átti sá hópur að skila af sér fyrir þingbyrjun núna í þessari viku. Ég held að það hefði verið langfarsælast ef menn hefðu tekið þátt í því og við hefðum verið að ræða hér endurskoðun á þeim vinnureglum núna, en ekki í lok mars.



[12:19]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sumu leyti tekið undir lokaorð hv. þingmanns, vel má vera að skynsamlegra hefði verið að hefja þessa vinnu strax. En það breytir ekki hinu að vandinn verður sá sem við stöndum frammi fyrir í dag þegar úrskurðurinn kemur til framkvæmda. Þar eru eiginlega vatnaskil — þá verður þessi vandi til. Í þeim skilningi hefði kannski ekki skipt öllu hvort þessi vinna hefði farið fram strax í byrjun janúar eða hvort hún á sér stað síðar. Við erum að bregðast við þeirri staðreynd að úrskurðurinn er kominn til framkvæmda með þeirri tillögu sem við hér leggjum til.

Mér þótti á hinn bóginn miður að skynja það viðhorf sem mér fannst koma fram í ræðu hv. þingmanns, og þá ætla ég ekki að gera ágreining um hversu fast lögmennirnir kváðu að orði um þessa hluti. Hv. þingmaður er tilbúinn til þess, þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem höfð eru uppi, að leyfa stjórnarskránni ekki að njóta vafans. (Gripið fram í.) Ég er að vitna hér í orð hv. þingmanns sem sagði að mikill vafi hefði leikið á því að þetta stæðist. Ég er bara að taka þau orð. Ég er ekki að taka þann skilning sem ég hef á málinu. En hv. þingmaður sagði að lögmennirnir hefðu sagt að á þessu léki mikill vafi. Mér þykir miður að þau viðhorf skuli þá vera uppi í tilvikum sem þessum að hv. þingmenn séu ekki tilbúnir að láta stjórnarskrána (Forseti hringir.) njóta vafans.



[12:22]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað mistúlkað orð mín því það kom ekki fram hjá mér að það léki mikill vafi á þessu. Ég sagði að það væri brýn nauðsyn og réttmæt rök fyrir því að við erum að taka þessar ákvarðanir sem við erum að framfylgja hér í dag. Þannig að það er nú ekki rétt. En ég fagna því sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er ekki mikill munur á túlkunum okkar og menn geta auðvitað túlkað orð fram og til baka og það er auðvitað kjarni málsins. En það er líka þannig þegar við skoðum þessar tillögur, bæði meiri og minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að það ber kannski ekki mjög mikið á milli. Ég held að það sé mikilvægt að við klárum þessa umræðu í dag og förum að koma þessu máli í þann farveg sem það á að fara, þ.e. að þessi nefnd geti tekið til starfa því öll viljum við að þetta fari í annan farveg og verði klárað. Ég efast ekki um að við eigum eftir að ræða þá niðurstöðu, vonandi í vor áður en þing klárast.



[12:23]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég harma að ekki skuli hafa náðst þverpólitísk samstaða hér á Alþingi um afgreiðslu þessa máls. Þegar óánægjualdan í þjóðfélaginu reis í kjölfar úrskurðar Kjaradóms 19. desember sl. lýsti stjórnarandstaðan á Alþingi því yfir, og gerði reyndar kröfu um, að þing yrði kallað saman þegar í stað til að bregðast við kröfu þjóðfélagsins. Hver var sú krafa? Af hverju stafaði sú reiði sem gerði vart við sig í þjóðfélaginu á þessum tíma? Hún stafaði af því mikla kjaramisrétti sem þjóðin er að verða vitni að. Við erum að verða vitni að því annars vegar að stóreignamenn, sem margir hverjir hafa komist yfir auð sinn vegna pólitískra vildargreiða, eru að höndla hér, einir og sér, eru að höndla persónulega, fyrir marga milljarða, í einu tilvikinu 5,5 milljarða á einu bretti. Þetta eru einstaklingar sem búa yfir þessum auð sem þeir hafa safnað til sín í skjóli þeirrar ríkisstjórnar sem situr að völdum. Annars vegar er fólk að horfa upp á þetta, upp á starfslokasamninga sem nema hundruðum milljóna kr., upp á mánaðarlaun sem eru talin í milljónum, tugum milljóna og jafnvel hundruðum milljóna. Hins vegar horfum við til láglaunafólksins og millitekjufólksins, að ekki sé talað um öryrkja og atvinnulausa sem eru búin slík afarkjör að fólk nær ekki endum saman, á ekki fyrir nauðþurftum.

Þegar úrskurður Kjaradóms fellur þykir hann táknrænn um þessa þróun. Krafa stjórnarandstöðunnar um að þing kæmi saman laut að því að við ræddum ekki einvörðungu um niðurstöðu Kjaradóms, að við létum ekki sitja við það eitt að ýta honum út af borðinu og stíga þannig fyrstu skrefin til að jafna kjörin innan opinbera geirans sem er sjálfsagður hlutur að gera. Nei, við vildum stíga stærri skref. Við vildum ræða úrræði sem löggjafinn gæti gripið til núna til að draga úr kjaramisréttinu í þjóðfélaginu. Við vildum t.d. ræða skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur orðið þess valdandi að álögur á láglaunafólk hafa aukist stórlega á sama tíma og stóreignafólkið er lagt í bómull, létt af því sköttum. Eða gera menn sér grein fyrir að þegar skattaáform ríkisstjórnarinnar eru komin til framkvæmda þá mun sá einstaklingur sem aflar 12 millj. kr. á ári hagnast vegna skattkerfisbreytinga stjórnvalda um 1 millj. kr. á ári. Á sama tíma og öryrkinn kemur til með að greiða sem nemur örorkubótum í tvo mánuði í skatta. Þetta er hin pólitíska stefna sem við vildum ræða. Og ekki bara að ræða heldur reyna að ná samstöðu um úrræði sem dragi úr þessu hróplega misrétti í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hafnaði kröfu stjórnarandstöðunnar. Hún treysti sér ekki til að horfast í augu við afleiðingar eigin gerða. Hún vildi einskorða umræðuna við það eitt að taka á úrskurði Kjaradóms. Við höfðum lýst því yfir, og gerðum það allar götur frá því að málið kom upp á borðið, að við værum því samþykk. En við vildum ekki láta sitja við þetta eitt heldur stíga skref til kjarajöfnunar í þjóðfélaginu. Það ber að harma að stjórnvöld skuli ekki hafa haft vilja til að verða við þeim réttmætu kröfum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram tillögur hér á Alþingi í haust sem ganga út á kjarajöfnun — að létta byrðunum af láglauna- og lágtekjufólkinu og bæta stöðu þess innan velferðarkerfisins með því að draga úr og afnema helst gjaldtöku, t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar. Við erum því fylgjandi að létta sköttum af þeim sem búa við bágborin kjör. Í tillögum okkar um hækkun fjármagnstekjuskatts er að finna ákvæði um persónuafslátt til smásparandans. Þegar eignarskatturinn kom til umfjöllunar, áform ríkisstjórnarinnar um að nema hann úr gildi, bentum við á að við ættum að aðgreina annars vegar þann hóp sem býr við góð kjör, að ekki sé minnst á ofurkjörin, stóreignafólkið, og hins vegar hina sem búa við bágborin kjör. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. kr. greiða sem nemur að meðaltali 900 þús. kr. í skatt á ári. Hann er numinn brott. Hann er numinn brott með öllu. Þetta eru geysilegar kjarabætur fyrir þennan hóp. En hinir sem ekkert eiga og hafa ekki úr að spila nema örorkubótum, atvinnuleysisbótum eða lágum launum hagnast að sjálfsögðu ekki með þessum breytingum.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum fram tillögur um að breyta eignarskattinum þannig að skattviðmiðið yrði hækkað verulega en stóreignamenn yrðu hins vegar ekki undanþegnir skatti. Okkar tillögur hafa þannig gengið út á að jafna kjörin í þjóðfélaginu. Út á það gekk krafa þjóðarinnar í desembermánuði. Niðurstaða Kjaradóms, eins og ég gat um áðan, var hins vegar táknræn fyrir þessa þróun. Að vissu leyti má segja að í öllum athöfnum ríkisstjórnarinnar í tengslum við málið felist afneitun á að horfast í augu við afleiðingar eigin gerða. Eða muna menn eftir umræðunni sem fram fór í þessum sal árið 1996, um breytta réttar- og réttindastöðu starfsmanna hins opinbera? Þar var kveðið á um í lögum að reynt yrði að færa kjaraumhverfi innan hins opinbera til samræmis við það sem tíðkast á einkamarkaði, ekki bara hjá láglaunafólki heldur líka hjá þeim sem stæðu á toppnum. Þetta var yfirlýst stefna, yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar. Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós, ávextirnir af ræktunarstarfi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hlustið á málflutninginn og rökstuðninginn úr stjórnarherbúðunum þegar þessi mál eru rædd. Menn hafa ekki áhyggjur af því kjaramisrétti sem dómur Kjaradóms er ein vísbendingin um. Menn hafa ekki áhyggjur af kjaramisréttinu sem slíku, heldur hinu að launafólkið, láglaunafólk, millitekjufólk, öryrkinn og hinn atvinnulausi, komi auga á misréttið og geri kröfur sér til handa. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin vill grípa til aðgerða og engin önnur.

Það kemur fram í áliti meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd að niðurstaða Kjaradóms hafi vakið sterk viðbrögð og leitt til óróa á vinnumarkaði og aðgerðir stjórnarmeirihlutans lúti að því einu að lægja þær öldur. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur H. Blöndal, kom í ræðustól þegar þetta mál kom fyrst til umfjöllunar og sagði eitthvað á þá leið að það væri áhyggjuefni hvaða kjör þingmönnum væru búin. Það fældi fólk frá, þ.e. einhverja af vinum þingmannsins frá því að sækjast eftir slíku starfi. Hann gagnrýnir með öðrum orðum ekki kjörin sem slík heldur hvernig þessa hluti ber að. Út á það gengur gagnrýnin. Okkar gagnrýni lýtur á hinn bóginn að kjaramisréttinu, bæði í samfélaginu almennt og einnig innan hins opinbera. Við höfum orðið vitni að kjarasamningum þar sem betur er gert við þá sem standa ofar en hina sem standa neðar í launastiganum. Þetta eru staðreyndir. Þær hafa verið staðfestar í umræðum um þetta mál og umfjöllun innan efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessi mál núna þótt fullt tilefni væri til að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar á fjölmörgum sviðum, stefnu sem hefur leitt af sér misrétti á misrétti ofan. Um það er hægt að taka fjölmörg dæmi en ég mun ekki gera það að sinni. Ég hefði hins vegar viljað leggja áherslu á að með þessu máli, með úrskurði Kjaradóms, birtist aðeins ein mynd. Þetta er birtingarmynd hins mikla misréttis sem skapast hefur í samfélaginu. Reyndar er það rangt orðalag að segja að það hafi skapast, það hefur verið skapað vegna þess að að baki því búa ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Hæstv. forseti. Við höfum gert grein fyrir tillögum okkar. Ég vísa þar í mál hv. framsögumanns Lúðvíks Bergvinssonar. Við teljum að aðferð okkar, við að ýta ákvörðun eða niðurstöðu Kjaradóms út af borðinu, sé heppilegri og skynsamlegri og betur í takt við þær ábendingar sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk um málið frá sérfróðum aðilum sem til voru kallaðir. Við viljum ganga lengra en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að því leyti að við viljum að niðurstöður Kjaradóms frá 19. desember verði að öllu leyti settar á ís. Að öllu leyti og engin 2,5% launahækkun núna. Engin. Við viljum að fest verði í lög skuldbindandi dagsetning um að nýtt fyrirkomulag liggi fyrir um miðjan marsmánuð og að þeir sem komi til með að taka ákvarðanir fyrir 1. júní næstkomandi komi að hreinu borði. Þar horfi þeir aftur til 1. febrúar. Það er ekki þar með sagt að þeir geti ekki ákveðið að frá 1. febrúar skuli engin launahækkun koma til framkvæmda. Við bindum ákvörðunaraðilann ekki niður að því leyti.

Það sem liggur á að gera er að ná samstöðu í þinginu um með hvaða hætti eigi að ákvarða launakjör þeirra sem nú heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd. Ég hef sett fram þingmál um það efni. Fyrir allmörgum árum setti ég fram tillögu um tiltekið fyrirkomulag. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni núna. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma núna, hvað sem síðar verður þegar þessi mál koma að nýju til kasta þingsins. En síðan tek ég undir með hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni með að þeir lögfróðu aðilar sem til voru kvaddir höfðu miklar efasemdir um og settu fram skýr og afdráttarlaus varnaðarorð við því að nálgun ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans kynni að brjóta í bága við stjórnarskrá.

Það er ekkert launungarmál, ég hef oft látið það koma fram opinberlega, að ég tel að menn hafi iðulega gengið of langt í að telja stjórnarskránni ógnað. Persónulega fannst mér ábendingar lögfræðinganna ekki vera sannfærandi. Ég er ekki sannfærður um niðurstöðu þeirra þótt við skírskotum til málflutnings þeirra í nefndaráliti okkar. Að sjálfsögðu, þótt ég sé ekki sammála niðurstöðum þeirra, finnst mér að Alþingi beri skylda til að taka varnaðarorð þeirra alvarlega og að haga lagasetningu þannig að ekki leiki vafi á að menn umgangist stjórnarskrána af tilhlýðilegri virðingu. Að sjálfsögðu vil ég styðja slíkt, hvað sem líður persónulegri skoðun minni á málinu.

Hæstv. forseti. Ég gæti haft um þetta fleiri orð en hér var gerð grein fyrir afstöðu okkar í ræðu talsmanns minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar og læt ég því máli mínu lokið.



[12:40]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á eitt atriði í ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar, sem ég er ekki alveg fyllilega sammála. Ég hefði viljað heyra betri skýringar af hans hálfu, þ.e. varðandi það að í nefndaráliti og breytingartillögum minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sé gengið lengra en í tillögum meiri hlutans. Hv. þingmaður talar um að sú nefnd sem vonandi verður skipuð fyrir vorið komi að hreinu borði. Ég er ekki alveg sammála því. Mín túlkun er sú — væntanlega er hv. þingmaður með aðra túlkun á því — að við gerum ráð fyrir 2,5% hækkun eins og gerist og gengur á almennum vinnumarkaði. Þetta er mildari aðgerð og eðlilegt að hún fylgi þeirri þróun, a.m.k. að okkar mati. En þá líka er allt frá.

Við erum ekki með restina hangandi yfir þessari nefnd. Nefndin þarf því ekki að byrja á að taka tillit til, ef hún kæmist að þeirri niðurstöðu að hækka eigi launin, hvort það verði afturvirkt eða ekki. En hjá okkur er ekki um neitt slíkt að ræða. Ég mundi því kannski vilja fá betri útskýringar á þessu. Mér finnst að í tillögum okkar liggi skýrt fyrir að nefndin muni koma að hreinu borði. Engin afturvirkni, engir afgangar eftir frá því í desember.

Ég vildi benda á þetta en jafnframt fagna orðum hv. þingmanns. Ég er honum fyllilega sammála um að við eigum að ná samstöðu í þinginu með vorinu um hver starfsskilyrði Kjaradóms eigi að vera í framtíðinni.



[12:43]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin sú að ég hef verið því fylgjandi, út á það gekk þingmál mitt á sínum tíma, fyrir rúmum tíu árum, að Alþingi tæki ákvörðun um þessi launakjör og stæði og félli með þeirri ákvörðun. Fyrir því var ekki vilji á Alþingi. Með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er slík ákvörðun hins vegar tekin. Alþingi hefur tekið ákvörðun um að laun þingmanna og þeirra sem heyra undir Kjaradóm skuli hækka um 2,5% 1. febrúar.

Ég er andvígur því, nema að menn vilji ganga alla leið og fara að þeim tillögum sem ég lagði fram. Alþingi tekur þessa ákvörðun. Stjórnarandstaðan á Alþingi vill hins vegar ganga lengra að því leyti að launaákvörðunum verði öllum ýtt út af borðinu og engar hækkanir komi til sögunnar. Eða hvaða náttúrulögmál telja menn þessi 2,5% vera? Hver hefur umboð til að ákvarða það fyrir allt kjaraumhverfið í landinu? Það er bara alrangt. Ég vísa því alfarið til föðurhúsanna. Hver hefur ákvörðunarvald í því efni? (Gripið fram í.) Það er ekki niðurstaða víðtækrar þjóðarsáttar, því fer fjarri. Það er bara alrangt.

Ef menn vilja taka þá línu sem ég er talsmaður fyrir, að draga úr kjaramun í þjóðfélaginu almennt og innan hins opinbera, hvers vegna ekki byrja þá á þessum toppi og setja á hann bremsu á meðan unnið verður að því að ýta upp á við þeim sem búa við léleg eða miðlungs kjör? Það er sú stefna sem ég er fylgjandi. En ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi vill greinilega að ákvarðanir verði teknar hér um laun þeirra sem heyra undir Kjaradóm. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir hvað þetta snertir. Við göngum lengra að þessu leyti og viljum hreint borð fyrir nýtt ákvörðunarferli.



[12:45]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson verðum ekki alveg sammála um þetta atriði vegna þess að í tillögu hv. minni hluta er verið að fresta úrskurðinum en ekki fella hann úr gildi eins og í tillögu okkar í meiri hlutanum. Eins og kom fram í máli mínu áðan töldum við að það væri mildari aðgerð að þessi 2,5% mundu fylgja eins og hefur gerst á almennum vinnumarkaði. Hv. þingmaður talaði um hreint borð og það er mín skoðun að við séum að skapa nefndinni hreint borð og ég vil ítreka það hér.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að hann hefði lagt fram mál um að Alþingi tæki sjálft ákvörðun um launakjör. Það er eitt af því sem verður væntanlega rætt í þessari vinnu, við ræðum það þá í framhaldinu. Það er alveg ljóst, eins og fram kom í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að það er alveg sama í hvaða farvegi þessi mál verða. Slíkar ákvarðanir verða alltaf óvinsælar hvað varðar Alþingi en ég held að það sé mjög mikilvægt að launahækkanir komi fram með eðlilegri hætti eins og á almenna markaðnum en ekki í svona miklum stökkum. En við förum í þessa umræðu með opnum huga. En ég vil ítreka þau orð mín hér að ég tel svo sannarlega að við séum að gefa nefndinni fullt svigrúm og hreint borð. Við erum ekki að fresta úrskurðinum. Við sitjum ekki uppi með restina af prósentuhækkun heldur fellum hana úr gildi.



[12:47]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna ættu ákvarðanir um launakjör þingmanna alltaf að vera óvinsælar? Er það ekki bara ef þær eru ranglátar eða siðlausar? Hvers vegna er ekki hægt að taka ákvarðanir um þessi launakjör sem menn telja réttlátar? Ég held að það sé hægt.

Ég spyr hv. þingmann sem á eftir að koma inn í umræðuna: Hvers vegna vill þingmaðurinn að hátekjufólkinu, þeim sem tróna á toppnum, beri sama hlutfallshækkun og láglaunafólkinu, lægsta fólkinu, sama hlutfallshækkun miklu fleiri krónur að sjálfsögðu? Hvaða náttúrulögmál eru þetta? Ég bara spyr.

Ef menn vilja taka þessa kjaraákvörðun inn í (DJ: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, nei. Það hefur margoft verið samið um krónutöluhækkun í samningum. Ég hef staðið að slíkum samningum. (PHB: Ekki þú.) Ég hef gert það jú, við höfum gert það og það hefur margoft verið gert. Jú, jú. Ég get farið í ítarlega umræðu um þetta við hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ef þingið vill taka inn á sitt borð ákvarðanir um launakjör alþingismanna og ráðherra, gott og vel, þá er ég því fylgjandi en þá skulum við vera sjálfum okkur samkvæm og ganga alla leið. Hér er þingið hins vegar, samkvæmt tillögu stjórnar meiri hlutans, að taka þetta ákvörðunarvald í eigin hendur og grípur einhverja tölu úr samningum úti á vinnumarkaði, 2,5% og telur sig eiga rétt á því líka. Hvaða rétt telur Alþingi og stjórnarmeirihlutinn sig eiga á því? Ég hélt að við værum að grípa til þessara ráðstafana til að draga úr kjaramismun í samfélaginu. Er engin meining á bak við það? Við leggjum þess vegna til að dómnum verði ýtt út af borðinu að öllu leyti og menn gangi að hreinu borði.



[12:49]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til þess, þar sem við erum að tala um kjaramál í þessu þjóðfélagi, að fara nokkrum orðum um kjarastefnu ríkisstjórnarinnar. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að vaxandi mismunur er í þjóðfélaginu milli þeirra sem hafa hæstu launin og bestu kjörin og þeirra sem lakast eru settir í kjörum, þ.e. þeirra sem hafa lægstu launin. Það má líka nefna eldri borgara, það má nefna öryrkja og ríkisstjórnin stuðlar að því að það dragi enn frekar í sundur í rauntekjum fólks með skattstefnu sinni.

Það er auðvitað hægt að hafa skattstefnu í þessu landi sem kæmi fólki með lægri tekjur verulega til góða. Við í Frjálslynda flokknum höfum ítrekað bent á að skattstefna sem hefði haft það að markmiði, úr því að menn vildu skoða hvort ekki mætti laga til í skattkerfinu, að hækka persónuafsláttinn verulega hefði verið raunhæfasta kjarabótin fyrir þá sem lægri hafa launin. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að þegar ríkisstjórnin er að fjölga skattgreiðendum með því að breikka skattstofninn — fjölga skattgreiðendum í lágtekjuhópunum, fjölga skattgreiðendum í hópum verkamanna og iðnverkamanna, eldri borgara og öryrkja — þá er verið að leggja tekjuskatt á fólk sem hefur varla nægilegar tekjur sér til framfærslu. Það þýðir ekkert að mæla því í mót að fólk með 100 þús. kr. í tekjur greiðir tekjuskatta, 9 þús. kr. um það bil í tekjuskatta. Þetta fólk hefur ekki notið neinna sérstakra kjarabóta í gegnum breytingar á skattkerfinu miðað við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið. Ríkisstjórnin valdi þá forgangsröðun að aflétta hátekjuskatti á fólk með háar tekjur, valdi þá forgangsröðun að fara í flata prósentulækkun á tekjuskatti sem kemur þeim eðlilega best sem hæstar hafa tekjurnar. Það liggur ljóst fyrir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur valið hvað varðar breytingar á tekjuskatti virka þannig að þeir sem hafa hæstu launin fá miklu fleiri krónur í vasann en þeir sem lægri tekjurnar hafa.

Um þetta er grundvallarágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar að því leyti að við höfum talið að eðlilegra væri að reyna að hækka rauntekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar meira — það hefði verið auðveldast að gera með því að setja fjármuni í persónuafsláttinn. Ef skattar eru lækkaðir um 1%, eins og ríkisstjórnin hefur valið, lækka tekjur ríkissjóðs um 4 milljarðar kr. Ef þeir peningar hefðu verið settir yfir í persónuafsláttinn þá lægi hækkunin þar fyrir sömu fjármuni á bilinu 2.500–2.600 kr. hjá einstaklingi. Það hefði sem sagt verið hægt að fara þá leið í skattstefnunni að hækka persónuafsláttinn um kannski tæpar 11 þús. kr. á kjörtímabilinu í stað þess að fara í 4% lækkun á tekjuskattinum, þ.e. 1% á síðasta ári, 1% nú og síðan 2% á kosningaárinu 2007. Við teljum að það hefði komið láglaunafólkinu miklu betur og orðið til þess að hér væri í raun og veru verið að hífa upp þá sem lægri hafa launin sem hefðu notið þeirra skattbreytinga betur í rauntekjum sínum en núverandi stefna leiðir af sér.

Hæstv. forseti. Það hefur ýmislegt merkilegt komið í ljós við yfirferð á þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd. Það hafa verið dregnar fram upplýsingar um það að í okkar launaþróun er samanburður við það sem er að gerast í kerfinu og við höfum tvenns konar fyrirkomulag: Við höfum lög um Kjaradóm og kjaranefnd og kjaranefndin úrskurðar yfir ákveðinn hóp og Kjaradómur yfir annan hóp.

Ég held að þetta sé ekki mjög gott fyrirkomulag, hæstv. forseti. Það er hætta á því að í þessum ákvörðunum, annars vegar kjaranefndar og hins vegar Kjaradóms, verði víxlverkun upp á við — Kjaradómur fer inn á forsendur kjaranefndar sem venjulega úrskurðar hækkanir á undan. Kjaranefndin hefur fundið sér viðmiðanir í sambærilegum störfum eða eins og það er metið, m.a. hjá ríki, borg og sveitarfélögum og þetta verður svona skrúfa upp á við. Það kann að vera að ef allar breytingar í launakerfinu lægju ljósar fyrir þegar hver og einn gerir kjarasamninga fyrir sína starfsstétt þá gæti þetta fyrirkomulag gengið. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, hæstv. forseti, að þegar þessi lög um Kjaradóm og kjaranefnd verða endurskoðuð eigi að horfa til þess hvort ekki eigi að vera eingöngu einn úrskurðaraðili, þ.e. annaðhvort kjaranefnd eða Kjaradómur eða hvað svo sem við köllum það. Ég lít svo á að Kjaradómur sé í raun og veru gerðardómur. Úrskurður Kjaradóms er ígildi kjarasamnings vegna þess löggjafinn hefur jú valið þetta fyrirkomulag til að komast að niðurstöðu um laun ákveðinna hópa í þjóðfélaginu. Þegar niðurstaðan er fengin verður úrskurðurinn ígildi kjarasamnings að mínu viti. Þetta er svo sem fyrirkomulag sem hefur viðgengist víða og menn hafa oft notað gerðardóma til að ákvarða laun og launabreytingar þegar ekki hefur tekist að leysa mál á annan hátt. Ég er ekkert viss um, og hef sagt það áður úr þessum ræðustóli, að við finnum annað betra fyrirkomulag til framtíðar en að hafa einhvers konar dóm eða nefnd til að ákveða laun alþingismanna og annarra sem efstir eru í opinberu kerfi.

Hitt er annað, hæstv. forseti, og kem ég þá að víxlverkuninni aftur, að í kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði eru innibyggð ýmis atriði sem ekki eru fyrir séð. Ég geri þó ráð fyrir því að með lengri reynslu manna af ýmsum ákvæðum í samningum opinberra starfsmanna safnist smátt og smátt upp gagnleg vitneskja hvað það varðar. Þeir sem sjá um að semja ættu þá að geta þekkt betur afleiðingar sem fylgdu varðandi launahækkanir á gildistíma kjarasamnings.

Kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði hafa innibyggð ýmis atriði sem ekki eru fyrirséð þó að ég geri ráð fyrir að með lengri reynslu manna af ýmsum ákvæðum sem eru í samningum opinberra starfsmanna komi smátt og smátt til þekking sem gerir það að verkum að þeir sem eru að semja vita betur hvaða afleiðingar fylgja varðandi launahækkanir á gildistíma kjarasamnings. En það virðist samt sem áður vera svo, hæstv. forseti, að í þessum launasamningum séu ákveðnar skrúfur sem virðast bara geta skrúfast upp á við. Okkur hafa verið kynntar niðurstöður í samningum BHM við ríkið og í samningum BSRB og síðan hefur auðvitað verið samið við mörg sveitarfélög. Það virðist vera svo, hæstv. forseti, að vegna ýmissa ákvæða sem eru í þessum samningum séu enn þá inni í kerfinu launahækkanir sem koma munu til framkvæmda um mitt þetta ár og sem eftir á að taka tillit til við ákvörðun launa kjaranefndarfólks og kjaradómsfólks sem heyra undir þessar stofnanir.

Hæstv. forseti. Af þeim upplýsingum sem fram komu í efnahags- og viðskiptanefnd og ýmsum orðatiltækjum sem þar voru notuð um það sem ég vil kalla hálfpartinn sjálfvirka hækkun, hækkunarskrúfu í þessum kjarasamningum, verður ekki nákvæmlega séð fyrir hvað þetta muni leiða af sér. En að öllu samanlögðu er alveg ljóst að það mun leiða til hækkana miðað við það kerfi sem við höfum.

Síðan verð ég að segja, hæstv. forseti, að þær upplýsingar sem komið hafa fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, virðast vera þannig að það séu þó nokkur rök fyrir niðurstöðu Kjaradóms. Þó hef ég þar á einn afar sterkan fyrirvara. Ég tel að það hafi verið misráðið, nánast afglöp hjá Kjaradómi að taka núna inn þau 3% sem skilin voru eftir í janúar 2004. Það var búið að kveða upp úrskurði í Kjaradómi fyrir þann umdeilda úrskurð sem við ræðum hér án þess að þessi prósentuhækkun hafi verið tekin inn. Ég tel að ekki hefði átt að taka þessar prósentur inn við þessi áramót og það hafi í raun og veru verið mjög vanhugsuð aðgerð að gera það úr því menn gerðu það ekki á sínum tíma þegar aðrar stéttir fengu viðmiðunarhækkanir um áramótin 2003/2004.

Ef það hefði ekki verið gert í þessum dómi hefði launahækkun til alþingismanna og annarra í þessum skala verið um 5% í stað 8,18. Ég tel að það hefði verið rökréttari niðurstaða og tel misráðið í ákvörðun Kjaradóms að hafa tekið þessa viðmiðun inn. Eins og ég sagði áðan hef ég miklar efasemdir um að það eigi að vera tvær stofnanir í þessu launaferli, Kjaradómur og kjaranefnd. Það er full ástæða til að endurskoða lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og fara yfir hvernig þessum málum á að vera fyrirkomið í framtíðinni, í fyrsta lagi að það verði ekki endalaus víxlskrúfa upp á við þar sem Einbjörn miðar við Tvíbjörn o.s.frv. Og í öðru lagi að setja kannski um það skýrari fyrirmæli við hvaða atriði á að miða í ákvörðunum Kjaradóms. En eins og komið hefur fram í bréfaskriftum milli Kjaradóms og hæstv. forsætisráðherra þá lítur Kjaradómur svo á, ef túlka má bréf formanns Kjaradóms, að leiðsögn Kjaradóms um þau atriði sem snúa að viðmiðun við hinn almenna vinnumarkað séu heldur veikburða. Í mínum huga eru þau ekki mjög veikburða því þar segir: „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“ Þetta er samt túlkun þeirra og hefur sennilega mótast í niðurstöðum Kjaradóms alveg frá 1992.

Ég tel fulla ástæðu til að unnið verði vel að því að endurskoða lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og vonandi tekst það vel. Á grundvelli nýrra laga verði síðan til Kjaradómur eða kjaranefnd eða hvaða niðurstöðu menn komast að þar. Ég tel í raun og veru að það eigi bara að vera eitt ákvörðunarferli, þ.e. annaðhvort Kjaradómur eða kjaranefnd og það sé ekkert sjálfgefið þegar slík stofnun kveður upp úrskurð um launaviðmiðanir fyrir starfsmenn í hinu opinbera kerfi að þá fylgi alþingismenn alltaf með í þeirri ákvörðun á sama tímapunkti eða dómarar o.s.frv. Það sé sem sagt ekki skrifað í lagatextann að allir hópar sem undir ákvörðunina heyri fái breytingar á sama tímapunkti þó að það sé einn og sami aðili sem kveði upp niðurstöðuna. Ég held að það sé betra en að hafa þá viðmiðun sem menn hafa í dag að Kjaradómur miðar við niðurstöðu kjaranefndar o.s.frv. o.s.frv.

Það liggur ljóst fyrir, virðulegi forseti, að það hefði verið miklu auðveldara að fást við þessi mál öllsömul ef við hefðum borið gæfu til þess að taka þessi lög úr sambandi fyrir áramót þannig að þau hefðu aldrei komið til framkvæmda. Það var tillaga stjórnarandstöðunnar að gera slíkt, að kalla þingið saman og fella lögin úr gildi, stöðva framkvæmdina með lögum áður en hún kæmi til framkvæmda. Nú sitjum við uppi með það að þessi laun hafa verið greidd og það er greinilegt af viðtölum við þá lögmenn og ýmsa aðila sem komið hafa á fund efnahags- og viðskiptanefndar að þeir draga þá ályktun að það sé miklu erfiðara að taka á þessum málum eftir að launagreiðslur hafa komið til framkvæmda. Þar af leiðandi er það niðurstaða mín, hæstv. forseti, að það hafi verið mjög misráðið hjá hæstv. forsætisráðherra að taka ekki því tilboði stjórnarandstöðunnar sem lá fyrir milli jóla og nýárs, að taka þetta mál inn í þingið og afgreiða það á tiltölulega stuttum tíma. Ég held að við höfum nefnt að hægt væri að afgreiða þetta á tveimur klukkustundum í þinginu og láta þessi lög ekki koma til framkvæmda. Það hefði verið miklu eðlilegri framgangsmáti á málinu og mundi gera okkur málið auðveldara og við værum lengra komin í málinu en við erum í dag varðandi það að skoða lög um kjaranefnd og Kjaradóm. Ég tel því að það hafi verið mistök hjá hæstv. forsætisráðherra að þiggja ekki þetta boð stjórnarandstöðunnar að kalla þingið saman. Og ég tel að það hafi verið mistök hjá Kjaradómi að taka þessi 3% inn í úrskurðinn nú svo ég dragi það saman í stuttu máli sem ég hef verið að segja hér.

Hitt verð ég að segja, hæstv. forseti, að það virðist ljóst að tilefni sé til launahækkana vegna þess að það er launaskrið í opinbera geiranum. Það kemur til af ýmsum ástæðum. Þar hafa verið nefndir stofnanasamningar og launaflokkahækkanir og svokallað vörpunarákvæði, nýyrði sem ég heyrði fyrst í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem mönnum er varpað upp á við í launakerfinu ef samanburður á milli launaflokka er meiri en ákveðin prósenta. Allt virðast þetta vera nokkuð sjálfvirkar skrúfur í launaskriði í opinbera geiranum og það er auðvitað allt öðruvísi fyrirkomulag og ákvarðanir en á almenna vinnumarkaðnum. Mér sýnist, hæstv. forseti, og get ekki dregið dul á það að almennir verkamenn í landinu og iðnverkafólk sé að dragast aftur úr fólki sem vinnur hjá því opinbera, ríki og sveitarfélögum. Ákvarðanir kjaranefndar og Kjaradóms byggjast svo á þessu launaskriði ofan á þessi kerfi og þar er verið að hækka hæstu launin um þær prósentur sem við höfum verið að tala hér um. Þetta leiðir auðvitað til þess að það dregur áfram í sundur með stéttum í þjóðfélaginu. Þeir sem njóta launaskriðs og ákveðinna viðmiðana við það og fá hækkanir út á það bæta kjör sín miklu meira en verkafólkið, það situr eftir. Þetta virðist hafa átt sér stað og vera innbyggt í BHM- og BSRB-samningana og það er líka ljóst, hæstv. forseti, að ýmsir samningar við sveitarfélög vítt og breitt um landið, bæði á suðvesturhorninu og annars staðar, taka mið af þessu og þar er einnig um prósentuhækkanir að ræða sem ekki koma til verkafólks og iðnverkafólks. Það er ekki með slíkan samanburð tryggðan í samningum sínum.

Niðurstaðan á síðasta hausti varðandi laun verkamanna var sú að gera örlitla hækkun í prósentum, innan við 1% ef ég man rétt, og síðan eingreiðslu upp á 26 þús. kr. Að vísu var samið um önnur atriði eins og aðkomu ríkisins að örorkuþættinum í lífeyrissjóðakerfinu, sem ég tel mjög mikilsverða fyrir þessar stéttir í framtíðinni, og fleiri atriði. En eftir sem áður sýnist mér að málin séu þannig að það dragi frekar í sundur milli stétta hér á landi, þ.e. á milli verkamanna og iðnverkamanna og þeirra sem taka laun í opinberu kerfi.

Það hefur stundum verið sagt og haft að máltæki að verður sé verkamaðurinn launa sinna. Tek ég undir það. Ég tel afar misráðið að þær stéttir sem oftast vinna á lægstu töxtum þjóðfélagsins séu látnar sitja eftir vegna þess að í launakerfi annarra sé falin sjálfvirk skrúfa upp á við. Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort forustu ASÍ hafi ekki verið ljóst að slík ákvæði væru inni í kjarasamningum annarra stétta. Menn virðast hafa haft hugboð um það síðastliðið haust hvað þarna gæti verið á ferð án þess að hafa kannski séð það nákvæmlega fyrir. Þá er ég að tala um þá niðurstöðu sem Kjaradómur komst að og færði rök fyrir í efnahags- og viðskiptanefnd, að launaskriðið sem gert var ráð fyrir í ákvörðuninni væri að eiga sér stað.

Þess vegna held ég, hæstv. forseti, að verkafólk þurfi að huga vel að stöðu sinni og halda á lofti rétti sínum ef það á ekki að dragast verulega aftur úr í launamálum. Ég geri mér vel grein fyrir því að sú launaþróun sem gæti farið af stað við þá samanburðarfræði kann að verða þjóðfélaginu mjög erfið í þessari stöðu. Mér finnst samt að við verðum bara að horfast í augu við það. Það getur ekki verið svo að við unum því að launaskrið í opinbera geiranum og í hærri launakerfum þjóðfélagsins sé innbyggt í kerfið en að þeir sem hafa lægri launin og þeirra viðmiðanir dragist aftur úr.

Þetta held ég að menn þurfi að athuga vel og þess vegna er sú staða sem við erum í auðvitað afar viðkvæm. Við í minni hlutanum leggjum því til, og ég held að það sé rökrétt þótt erfitt sé eftir að lögin hafa komið til framkvæmda, að ákvörðun Kjaradóms verði tekin algerlega úr sambandi um skamman tíma og að unnið verði hratt að því að semja nýjan lagagrunn fyrir Kjaradóm og kjaranefnd fyrir 15. mars. Jafnframt yrði auðvitað að huga að því hvernig þessi sjálfvirkni hefur átt sér stað og reyna að semja lögin í samræmi við að ákvarðanaferlið verði að taka mið af því sem er að gerast í launakerfum á almenna vinnumarkaðnum í meira mæli en verið hefur.

Það getur ekki verið svo til framtíðar, hæstv. forseti, að opinberi geirinn dragi launahækkanirnar áfram í þjóðfélaginu. Það hlýtur að þurfa að taka mið af framleiðslugetu og taka mið af því hvað framleiðsluatvinnuvegirnir, útflutningsatvinnuvegirnir þola varðandi launakjör. Að það sé litið til þeirra starfa þegar verið er að velta fyrir sér hverjar viðmiðanir eigi að vera í framtíðinni.

Ég held sem sagt, hæstv. forseti, að þegar þessu ferli verði lokið þurfi sérstaklega að huga að kjörum verkafólks í landinu. Mér sýnist það vera að dragast aftur úr öðrum. Auðvitað verður verkafólkið sjálft að taka upp sína vakt og fylgja því eftir í hvaða stöðu það er að komast. En þær upplýsingar sem hafa verið lagðar fram í þessu máli benda til að það sé launaskrið. Að það verði ekkert fram hjá því horft. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að svo virðist sem ákvæði í ýmsum kjarasamningum um launaskrið sé sjálfvirkt og þar af leiðandi verða viðmiðanir upp á við í kjaranefnd og Kjaradómi.

Ég sé ekki sömu ákvæði í hinum almennu kjarasamningum. Þess vegna held ég að ef áfram heldur óbreytt muni draga enn frekar í sundur með þeim sem eru í hærri tekjunum og fólks á almennum vinnumarkaði. Þess vegna held ég að það sé rétt, hæstv. forseti, að staldra nú við og setja þessi lög, taka þetta ferli úr sambandi og skoða málin með það að markmiði að slík gliðnun haldi ekki áfram í þjóðfélaginu en hún hlýtur eingöngu að geta endað með sprengingu á vinnumarkaði og miklum átökum. Því að sjálfsögðu mun verkafólkið ekki una því að það sitji eftir þegar aðrir eru að taka til sín.



[13:21]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. um Kjaradóm og úrskurð hans og þau frumvörp sem eru lögð hér fram. Það er rétt sem hefur komið fram að þegar þessi úrskurður féll 19. desember sl. þá olli hann töluverðum úlfaþyt. Ástæðurnar fyrir því taldi ég alveg augljósar. Ég tek það fram í upphafi að ég gerði skýra grein fyrir því að ég taldi heppilegra að Alþingi tæki þetta fyrir strax og afgreiddi þetta fyrir áramót. Það varð ekki niðurstaðan. Það er kannski ekkert aðalatriði en ég er eindregið þeirrar skoðunar að það hefði verið heppilegra og ítreka það nú.

Formaður kjararáðs og formaður kjaranefndar hafa báðir komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í umræðunum og reynt að færa rök fyrir þessari gjörð, þessari hækkun. Ég tel þau rök ekki standast. Í gær var lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd plagg frá Hagstofu Íslands, dagsett 19. janúar, sem sýndi launaþróun eins og Hagstofan reiknar hana út miðað við fjórða ársfjórðung árið 1999. Það má alltaf deila um þann tíma ársins sem menn setja upp í svona samanburði. Það er alveg rétt. En fjórði ársfjórðungur 1999 er ekkert vitlausari viðmiðun en hvað annað. Og þar kom mjög skýrt fram að sú launaþróun sem verið hefur er þannig að hinn almenni launamarkaður hefur hækkað minnst. Næst koma ríkisstarfsmenn og bankastarfsmenn og hæstu launin og mestu hækkanir hafa tekið þeir sem taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar og kjararáðs. Þetta eru tölur Hagstofunnar. Þær voru lagðar fram í gær. Að þeir sem um þetta véla geti fundið sér rök fyrir því að hækka enn frekar, eins og kom fram 19. desember, það er út af fyrir sig þeirra mál. Það er nú þannig, virðulegi forseti, að þeir sem vilja finna sér viðmiðun til hækkunar þeim tekst það oftast. Það þekkjum við bara úr hinni almennu kjarabaráttu, mönnum tekst það yfirleitt alltaf. Þannig er hún knúin áfram frá ári til árs með því að finna nýjar viðmiðanir sem réttlæta kröfurnar. Ég tel hins vegar og sagði strax að þetta stenst ekki. Það er ekki staða í þjóðfélaginu til þess á nokkurn hátt að réttlæta það að þessar hækkanir gangi fram. Ástæðan er mjög skýr að mínum dómi, virðulegi forseti. Hún er það atriði sem skiptir öllu máli varðandi gerð kjarasamninga. Það er rauði þráðurinn sem heldur saman kjarasamningum og er aðalatriðið í kjarasamningum. En það er friðarskyldan sem fylgir samningunum sem er jú aðalatriðið á hverjum tíma.

Þess vegna taldi ég skýrt og ljóst að það mætti ekki gerast að þetta næði fram að ganga. Í þeim umræðum sem urðu í gær í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég sat þá komu fram ýmsir lögskýrendur og hlutverk lögskýrenda er að sumu leyti mjög skiljanlegt þegar þeir koma fyrir slíkar nefndir og eiga að fjalla um mál eins og þessi sem við erum nú að fara í gegnum. Þeir tala stundum eins og véfréttir og ekkert skrýtið við það í sjálfu sér. Hins vegar hjó ég eftir því, virðulegi forseti, og það kom fram í framsöguræðum stjórnarandstöðunnar, bæði hjá hv. þingmanni Lúðvík Bergvinssyni og hv. þingmanni Ögmundi Jónassyni, að þeir sögðu mjög rangt frá. Þeir sögðu mjög rangt frá því sem kom fram hjá þeim lögskýrendum sem hér voru að tala (Gripið fram í: Lögskýrendum?) og frá því sem kom fram í nefndinni. (Gripið fram í: Viltu skýra það nánar?)

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn getur vænst þess að ég haldi áfram ræðunni og þar kemur skýringin, hann getur verið alveg rólegur. Eins og kom fram áðan taldi ég að það væri heppilegra að gera þetta fyrir áramót og sagði það mjög skýrt opinberlega. Það hafa eflaust komið fram einhver vafaatriði og einhver vandræði við að gera þetta eftir á. Það eru allir sammála um að eftirvirk lög séu til vandræða. Þarna komu fram ýmsir þættir sem menn töldu að þyrfti að athuga mjög gaumgæfilega, t.d. varðandi ákvæði í stjórnarskrá um laun forseta. Varðandi það atriði var sá sem kvað einna fastast að orði um það, sá ágæti lögfræðingur og prófessor, Eiríkur Tómasson. Ég legg heiður minn að veði að ég man það orðrétt hvað hann sagði. Hann sagði við nefndina: Ég hallast frekar að því að þetta fái ekki staðist. En inntakið í því sem þeir sögðu við okkur eins og ég gat skilið það var að fara þyrfti afar varlega í þessu máli og þegar svo væri komið að við værum að fjalla um lög sem virkuðu afturvirkt, þá væri það aðalatriði málsins að það væri sýnt fram á hver sú þjóðarnauðsyn væri að þau lög væru sett. Það var (Gripið fram í: Við hvern sagði hann þetta?) megininntak í ræðu Eiríks Tómassonar og Sigurðar Líndal. Það var megininntak í ræðu þeirra. (Gripið fram í: Ha?) Því skýrar og því ákveðnara sem það kæmi fram með rökum hvaða þjóðarnauðsyn krefji að þetta verði gert þeim mun líklegra væri ef málið kæmi til kasta dómstóla að dómstólar staðfestu ákvörðun þingsins. Þetta var meginniðurstaða í ræðu þeirra og tali.

Ég tel að hv. þingmenn hafi farið mjög rangt með þetta þegar þeir kveða á um annað. (Gripið fram í: Hef ég verið sofandi?) Ég er alveg sammála þessum hv. lögskýrendum. Ég tel að þetta sé meginmálið. Það er verið að flytja þetta frumvarp vegna þess að það er þjóðarnauðsyn að gera það. Það er tilgangurinn og það helgar að það sé gert. Auðvitað er ekkert gamanmál að fara ofan í niðurstöður Kjaradóms. Menn gera það af því að það er mjög brýn þjóðhagsleg nauðsyn á því að það verði gert. Þess vegna er þetta frumvarp flutt. Ég fæ nú ekki betur heyrt, virðulegi forseti, en að allir séu nokkurn veginn sammála því. Stjórnarandstaðan jafnt sem stjórnarsinnar. Ég ætla minnsta kosti að ég hafi skilið það þannig þó þeir velji þann kostinn að segja að önnur aðferðafræði hafi verið heppilegri. Þeir velja þann kost. (Gripið fram í.) Þá skil ég það þannig að þeir séu efnislega, og það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þingmanns Ögmundar Jónassonar áðan, að hann teldi mjög brýnt þjóðhagslega að þetta fengi ekki fram að ganga. Ég skildi ræðu hans þannig. Þannig að ég held að menn séu ekki efnislega ósammála um þetta þó það sé eflaust rétt að deila megi nokkuð um það hvaða málsmeðferð hafi verið heppilegust.

En hvað er það þá, virðulegi forseti, sem gerir þetta svo brýnt? (Gripið fram í: Já, núna kemur það sem við höfum beðið eftir.) Það er rétt að fara yfir það nokkrum orðum. Það er rétt að fara yfir það hvað gerir þetta mál svo brýnt og hvað er í húfi fyrir þetta þjóðfélag. (Gripið fram í.) Við skulum aðeins rifja upp hvernig við höfum staðið að launamálum. Við lentum í þeirri ógæfu, þessi þjóð í nærri tvo áratugi, á síðustu öld, á 8. og 9. áratugnum, að hér ríkti meiri óðaverðbólga og meiri óstjórn efnahagsmála en aðrar Evrópuþjóðir máttu búa við. Það hefti allt, það eyðilagði efnahagslífið, það dró úr öllum möguleikum til hagvaxtar. Við vorum fastir í þessari gildru. Allir vildu losna úr henni en enginn gat komist úr henni. Hvað gerðist á þessum tíma mikillar verðbólgu? Stöðugir kjarasamningar, kjarasamningar aftur og aftur. Alltaf knúnir fram, af hverju? Knúnir fram af réttlætinu, virðulegi forseti, vegna þess að verðbólgan var alltaf að skekkja ráðstöfunartekjur fólksins. Knúnir fram af réttlætinu, nýir og nýir kjarasamningar, og ekkert gekk.

Hvernig skyldi svo hafa verið umhorfs hér eftir kannski 20 ára stöðugar hækkanir, allt í nafni réttlætisins? Menn hækkuðu hér laun um mörg þúsund prósent. Allt í nafni réttlætisins. Hvernig var þá umhorfs? Varla þverfótað fyrir réttlæti eða hvað? Nei, ætli það, virðulegi forseti. Ætli það hafi verið þannig. Það var sko aldeilis ekki þannig. Okkur tókst að komast út úr þessu volæði. Okkur tókst, sem betur fer, að komast út úr þessu, þessari þjóð til mikillar blessunar. Það hafa margir, þó nokkrir, séð ástæðu til að skrifa jafnvel bækur um það sem menn hafa kallað þjóðarsátt 1990. Ég hef aðeins gjóað augunum að þessum skrifum, aðeins litið á þetta. Fæ ekki séð að þeir sem hafa mest um þetta sagt og skrifað hafi stækkað mikið af þeirri frásögn. En það var mjög einfalt, virðulegi forseti, hvers vegna tókst að búa til þessa þjóðarsáttarsamninga. Það var mjög einfalt. Það var verkalýðsforusta Íslands sem stóð að þessum samningum, knúin áfram af einmitt forustumönnum hinna lægst launuðu. Hvernig skyldi standa á því, virðulegi forseti? Það stóð þannig á því að fólkið í landinu, sérstaklega það lægst launaða, sá og hafði uppskorið að það var dæmt til að tapa í þessu verðbólgustríði. Það fór alltaf verst út úr þessu. Undir öllum kringumstæðum tapaði það. Það var þess vegna sem það vildi knýja á um að reyna nýjar leiðir. Vegna þess að það vissi að með verðbólgunni var það dæmt til að tapa. Það voru engin önnur dularfull rök sem lágu til þess að við komumst út úr þessu. Það var nákvæmlega þetta og ekkert annað.

Það hefur verið okkur til ótrúlegrar blessunar að við skyldum komast út úr verðbólgunni og að hér hafi verið þokkalegt efnahagsumhverfi í núna á annan áratug. Hér hefur verið mesta framfaraskeið í sögu Íslands og allir hafa notið gríðarlegra ávaxta af því.

Það er ástæða til að fara í gegnum þessa launasamninga. Alþýðusamband Íslands hefur allan tímann verið í forystu hvað þá ábyrgð varðar. Það er rétt, sem margsinnis hefur verið bent á, að ríkinu gekk illa lengi vel að hemja laun starfsmanna sinna. Þar munar mestu um mistök sem urðu við kjarasamninga 1997 sem voru kannski vel hugsaðir en illa undirbúnir. Það var aftur sem það mistókst 2001. Ég vil taka það fram sérstaklega, virðulegi forseti, að ég álít, og tel mig hafa skoðað það allrækilega, að þeir kjarasamningar sem ríkistarfsmenn gerðu á síðasta ári eða vorið 2005 séu að flestu leyti mjög ábyrgir. Þeir eru innan þess ramma sem við ætluðum okkur að lifa við og þar inni í eru líka þær hækkanir sem nú er verið að ræða, þ.e. rammarnir sem eru ætlaðir til stofnanasamninganna. Það er rangt að þeir séu einhver ný viðbót þar í. Það lá fyrir við gerð kjarasamninganna hverjir þeir væru og hvert vægi þeirra væri. Þannig að ég er mjög ósammála því sem menn segja nú að sá þáttur, sem á að koma til framkvæmda 1. maí nk., hafi verið ný rök til að hækka laun hjá þeim sem taka laun samkvæmt kjaranefnd og Kjaradómi. Það er rangt.

Menn skulu hafa þetta í huga jafnframt því að við höfum verið að hækka hér raunlaun meira en aðrar þjóðir og erum á ystu nöf. Ég hef margsinnis farið í gegnum það. Ég hef margsinnis gert það, virðulegi forseti, að vara menn við hversu tæpt við stöndum og hversu hættulegt það sé fyrir eina þjóð að ganga svo óvarlega fram sem raun ber vitni.

Það má vera alveg ljóst að hefði Kjaradómur fengið að vera hér óáreittur með þeim kauphækkunum sem hann ætlaði til alþingismanna og annarra embættismanna sem fylgja þeim dómi hefðum við átt á hættu að sú friðarskylda sem heldur samningunum saman hefði verið rofin. Friðarskyldan sem heldur þeim saman. Það var því lífsnauðsyn að grípa inn í. Það á ekkert skylt við það, virðulegi forseti, hver laun alþingismanna ættu að vera. Ekkert skylt við það. Það er eflaust hægt að færa fyrir því ýmis rök að alþingismenn ættu að hafa helmingi hærri laun eða jafnvel helmingi lægri laun, það skiptir ekki máli. Það geta allir flutt svoleiðis ræður. Það má líka segja að það væri betra að þeir hefðu enn þá meiri laun. Það gæti líka vel verið. Þó held ég nú, virðulegi forseti, að það sé ekkert til bóta ef það væri svo að það væri ferð til fjár að setjast á Alþingi. Ég held að það væri nú ekkert til bóta. En hitt er annað mál að laun alþingismanna, eins og annarra Íslendinga, hafa sannarlega batnað mjög, þ.e. ráðstöfunartekjur þeirra. Þeir hafa ekki undan neinu að kvarta.

Það getur enginn nema Alþingi gengið fram undir þessum kringumstæðum til að reyna að stoppa þá hættu sem er til staðar í þjóðfélaginu, stoppa þessar hækkanir, ekki í nafni réttlætisins heldur í nafni þjóðarnauðsynjar. Það getur enginn gengið fram nema Alþingi sjálft. Alþingi getur ekki verið ábyrgt í tali sínu og gjörðum nema það þori að byrja á sjálfu sér. Það var það sem knúði á um að það frumvarp sem hér liggur fyrir yrði flutt og samþykkt á Alþingi.

Það er mjög varasamt hvernig menn tala oft um laun og launaþróun. Menn fara mjög óvarlega. Á hátíðisdögum lýðskrumaranna er hrópað þetta venjulega: Allt skal jafnt, allt skal jafnt. Það getur verið fallegt og gott. En það er það ekki í framkvæmd. (Gripið fram í.) Við búum í þjóðfélagi þar sem það er eðlilegt og ekkert við það athuga að ýmis reynsla, menntun og kunnátta skapar mönnum mismunandi kjör. Þú getur gengið fram og samið við trésmiðinn einn daginn og hann getur verið ánægður með kaupið sitt þann daginn. En daginn eftir, þegar þú semur um enn þá hærra kaup við handlangarann hans, þá gerir trésmiðurinn hvað? Hann segir upp. Hann er farinn. Það er ekki hægt að ganga svona um þennan garð. Menn verða að fara varlega. (Gripið fram í.)

Kjaramálaráðstefna sveitarfélaganna stendur nú yfir og það er sannarlega ástæða til að senda þær óskir þangað að forustumönnum sveitarfélaga takist að slökkva þá elda sem loga. Það er mikil þörf á því. (Gripið fram í: Hverjir kveiktu þá elda?) Það er stundum sagt að það sé hættulegt þegar börn fá byssur. Börn með byssur séu hættuleg. Það er mjög hættulegt þegar óvitar fara með hluti sem þeir þekkja ekki. Það er mjög slæmt.

Í gærkvöldi var sagt frá því í fréttum — öllum til undrunar, eða hvað? — að einir 50 leikskólakennarar væru búnir að segja upp í Reykjavík. Hvernig stóð á því að þeir fóru að segja upp? Voru þeir ekki með kjarasamninga? Höfðu þeir ekki samþykkt kjarasamningana sína? Hvernig í ósköpunum skyldi hafa staðið á því? Hvað var það sem rak þá áfram? Menn eiga að þekkja þessa hluti. Menn eiga að vita hvernig þessir hlutir eru. Það þýðir ekkert að ganga fram í barnaskapnum. Við höfum farið í gegnum kjarasamninga áratugum saman. Sjálfur eyddi ég upp undir 20 árum ævi minnar í að taka þátt í þessu. Menn eiga að vita að það þarf að fara varlega. Það verður að gera það. Þetta eru nú einu sinni mannheimar og menn verða að gæta sín. Það er líka rétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að það er ástæða til að hafa áhyggjur af launamarkaðnum. Það er ástæða til þess. Hann benti á það réttilega að hinn almenni launamarkaður væri að dragast aftur úr og hann sagði líka réttilega að það væri rangt ef ríkið ætlaði að draga vagninn varðandi þróun launamála. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er ákveðin hætta á ferðum, sérstaklega gagnvart þeirri peningastefnu sem hér er í gangi sem dregur niður mátt framleiðslunnar og verðmætasköpunarinnar en eykur þjónustuna og verslunina — þar sem við erum að kaupa vörur á niðursettum gjaldeyri sem er hafður á útsölu eins og viðskiptahallinn sýnir.

Það er því rétt, virðulegi forseti, að hafa það í huga sem lögspekingarnir ágætu, þeir Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal, lögðu alla áherslu á í máli sínu við efnahags- og viðskiptanefnd, að það er þjóðarnauðsyn sem krefst þess (Gripið fram í: Þeir sögðu ekkert um það.) að þessi dómur fái ekki fram að ganga. Það er sú þjóðarnauðsyn sem krefst þess að við gerum þetta. Þess vegna erum við að (Gripið fram í.) því og það er niðurstaða þessa máls. Það er aðalatriðið og ég vona að það komi fram að enginn hv. þingmaður hér verði á móti þessu máli þó þeir kannski telji það sér til einhvers framdráttar að segja að önnur málsmeðferð hefði verið heppilegri og því ætli þeir að sitja hjá. Það kann að vera en allt um hitt, þetta er gjört til að sýna að Alþingi hefur miklar áhyggjur af þeirri launaþróun sem er á Íslandi. Alþingi verður á næstu dögum, vikum, mánuðum og missirum að sýna ábyrgð í öllu sínu starfi. Við höfum þanið efnahagslífið mjög óvarlega og nú verður hver maður að vera á vaktinni, reyna að gæta sín af fremsta megni þannig að við fáum mjúka lendingu út úr þessari miklu uppsveiflu. Annað væri óbærilegt, sérstaklega fyrir hina lægst launuðu í þessu þjóðfélagi.



[13:44]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún var vægast sagt athyglisverð sú ræða sem hv. þingmaður flutti þar sem hann reyndi af veikum mætti að bera blak af þeirri ríkisstjórn sem hann styður hér á hinu háa Alþingi. Hv. þingmaður notaði þá samlíkingu að það væri vont ef óvitar fengju völd eða börn hefðu byssur. Það er kannski þetta sem hv. þingmaður á við, þ.e. línurit yfir launaþróun opinberra starfsmanna og þeirra sem vinna hjá ríkinu. Það er kannski það sem hv. þingmaður átti við þegar hann sagði að það væri slæmt að óvitar hefðu völd eða börn hefðu byssur. Hv. þingmaður hefur nefnilega flutt þessa ræðu, þessa tilteknu ræðu, við hverja fjárlagagerð núna í mörg ár. Það kemur fram í þessum úrskurði Kjaradóms að hv. þingmaður hafði rétt fyrir sér. Ríkisstjórnin er algerlega búin að missa tökin á ríkisfjármálum og launaþróun hjá ríkinu. Þess vegna má segja sem svo að þessi niðurstaða Kjaradóms sé staðfesting á því að hv. þingmaður hafi haft rétt fyrir sér þegar hann hefur flutt sínar árlegu fjárlagaræður. En nú kemur hv. þingmaður með allt aðra ræðu. Allir aðrir eru nú tilnefndir sem sökudólgar og bera ábyrgð á því að launaþróun kunni að einhverju leyti hjá einhverjum hópum að hafa farið úr böndum.

En ég vil aðeins, áður en ég lýk þessu andsvari, leiðrétta hv. þingmann þegar hann leyfði sér að halda því fram að Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal hefðu talið nauðsynlegt að komast að þessari niðurstöðu. Sigurður Líndal sagði: Ef það á að fara þessa leið þá þarf að rökstyðja það sem þjóðarnauðsyn. Aðspurður í fjölmiðlum sagði hann meira að segja (Forseti hringir.) að hann sæi ekki að hér væri þjóðarnauðsyn. Það er afar mikilvægt að ekki sé farið með rangt mál um skoðanir þeirra sem vísað er til í (Forseti hringir.) meirihlutaáliti.



[13:46]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór að öllu leyti rétt með eins og þingmaðurinn staðfesti. Það var nákvæmlega rétt eftir þessum mönnum haft. Það er að mínum dómi þjóðarnauðsyn að þetta fái fram að ganga og ég hef verið að reyna að rökstyðja það og skal rökstyðja það enn frekar ef þörf er á.

Þegar ég talaði um börn með byssur þá átti ég við gjörð Reykjavíkurborgar nýverið þegar hún hleypti upp kjarasamningum sínum. Það var alveg ljóst af máli mínu um hvern ég var að tala og hvað ég meinti, enda liggur það alveg fyrir. Þess vegna var ég að óska þeim blessunar, þeim forustumönnum sveitarfélaga á Íslandi sem sitja núna allir saman í örvæntingu sinni að reyna að slökkva þá elda sem ógna flestöllum sveitarfélögum sem hafa engin efni á að verða við þeim kröfum sem að þeim er beint í dag.



[13:47]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var dálítið gott að fram skyldi koma að börnin með byssurnar voru þá væntanlega borgaryfirvöld.

Hv. þingmaður, eins og fleiri fulltrúar stjórnarliðsins á þingi, gleymdi eða vildi ekki koma því á framfæri að fram kom í efnahags- og viðskiptanefnd að þróun launa hjá borginni er u.þ.b. 8% lægri en þróun launa hjá ríkinu. Það kom ekki fram hjá hv. þingmanni, enda hefur maður orðið var við það hjá stjórnarliðinu í umræðunni að menn velja sér það sem þeir vilja setja fram og hentar hverju sinni. Það er ekkert annað sem endurspeglaðist í þessari ræðu frekar en hjá fyrri hv. ræðumönnum stjórnarliðsins í dag, að menn velja sér og segja það sem hentar án þess að greina á nokkurn hátt, á skriflegan hátt frá því sem raunverulega átti sér stað í nefndinni. En ég virði hv. þingmanni það til vorkunnar að hann skuli ætíð stíga fram þegar þarf að verja vondar gjörðir ríkisstjórnarinnar. Hann er duglegur þingmaður.



[13:48]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ár eftir ár við hverja einustu fjárlagaumræðu hef ég allt frá árinu 1999 varað við launaþróun ríkisins. Því miður hafa fáir tekið undir með mér ef þá nokkur maður.

Þær tölur sem liggja fyrir í dag staðfesta það, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði, ég hef haft rétt fyrir mér allan tímann. (MÁ: Hver ber ábyrgð á þessari ríkisstjórn?) Í öllum þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér, það liggur ekki fyrir skýrt sundurliðað hjá Hagstofunni, en samkvæmt öllum þeim tölum og öllum þeim gögnum sem ég hef fengið í hendurnar verður því miður að segja að það bendir allt til þess að þrátt fyrir að óvarlega hafi verið farið hjá ríkinu virðast sveitarfélögin hafa samið um enn hærri hækkanir. (Gripið fram í: Nei.) Ef annað kemur í ljós þætti mér vænt um að sjá það. En þau gögn sem ég hef undir höndum benda öll til hins gagnstæða, því miður, sveitarstjórnirnar hafa samið um enn meiri hækkanir.



[13:50]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefðum farið með rangt mál varðandi það sem fram hefði farið í efnahags- og viðskiptanefnd og þá sérstaklega með tilvísan til ummæla lögfræðinga sem komu á fund nefndarinnar. Staðreyndin er sú, og það hefur komið fram í máli mínu áður, að ég hef haft ákveðnar efasemdir um að staðhæfingar um stjórnarskrárbrot standist. Það er mín persónulega skoðun og hún hefur margoft komið fram í nefndinni, hér á Alþingi og opinberlega í fjölmiðlum.

Það kom mér hins vegar á óvart hversu afdráttarlausir lögfræðingarnir voru í varnaðarorðum sínum. Ég ætla að láta rökstuðninginn liggja á milli hluta en þeir gengu mjög langt í því, sérstaklega Eiríkur Tómasson, að vara við því að frumvarp ríkisstjórnarinnar kynni að stangast á við stjórnarskrá lýðveldisins. Vísað var í lögin, í stjórnarskrárákvæðið og í skýringargagn með stjórnarskrárákvæðinu. Mér fannst það ekki vera sannfærandi málflutningur, ég tek það skýrt fram, en varnaðarorðin voru mjög afdráttarlaus og mjög skýr. Við teljum að okkur beri skylda til þess að færa þær upplýsingar hér inn í þingið.

Ég lýsi furðu minni á því að í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar skuli þessa ekki finna stað. Það finnst mér mjög gagnrýnisvert og tek heils hugar undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni hvað þetta varðar. Menn skulu því fara mjög varlega í ásökunum á hendur okkur í þessu efni. Þegar um það er að ræða að varnaðarorð séu sett fram um hugsanlegt stjórnarskrárbrot ber að sjálfsögðu að taka það alvarlega og vísa til þess í áliti viðkomandi nefndar.



[13:52]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi þá fyrir frásagnir þeirra. Í texta nefndarálits minni hlutans stendur, með leyfi forseta:

„Þeir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili.“

Ég sagði frá því, virðulegi forseti, að ég legði heiður minn að veði að ég myndi það nákvæmlega orðrétt hvað Eiríkur Tómasson sagði. Hann sagði: Ég hallast frekar að því — og ég endurtek þetta hér (MÁ: Viltu ná í …?) og við getum þá kallað manninn til vitnis um það sjálfan, við vorum nú tíu eða tólf á fundinum. Ég ítreka þetta og er reiðubúinn að gera það aftur og aftur. Ég gagnrýni það þegar menn fara svo óvarlega og svo rangt með. Ég hef ástæðu til þess vegna þess að þegar við erum að fá menn, virta lögfræðinga, til að koma og tala við okkur þá tel ég að það minnsta sem við getum gert sé að hafa það rétt eftir sem menn sögðu. Þeir lögðu sig alla fram um að segja hug sinn, ég efast ekkert um það, ég ber fullt traust til þeirra. Þess vegna eigum við að sýna þeim þá virðingu að fara rétt með þeirra mál.



[13:53]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ábyrgðarhluti að hafa eftir mönnum og vissulega viljum við hafa það sem satt er í þessum efnum.

Það sem ég ítreka er þetta: Það kom mér á óvart, af því að vísað er í Eirík Tómasson sérstaklega, hversu afdráttarlaus hann var. Ég átti orðastað og orðaskipti við lagaprófessorinn því að ég taldi röksemdafærslu hans ekki vera sannfærandi. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson man eftir þeim orðaskiptum. Ég furðaði mig á því hversu langt lagaprófessorinn gekk í þessu efni því að ég ítreka að ég var ekki sammála því og það hefur komið ítrekað fram af minni hálfu.

Í lokin þetta: Er það rétt skilið hjá mér að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi síður áhyggjur af kjaramisréttinu sem við verðum vitni að núna innan opinbera kerfisins og í þjóðfélaginu almennt en hinu að almenningur og launafólk og sérstaklega láglaunafólk í landinu komi auga á þetta misrétti?



[13:54]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig eyða til þess heilmiklum tíma í ræðu minni áðan að segja frá því og rifja það upp hvernig það var þá áratugi þegar við börðumst í hvað mestri verðbólgu og hver niðurstaða þess var. Niðurstaðan varð sú að hinir lægst launuðu töpuðu alltaf þeim slag. Það var síðan vegna þess að þeir komust að því og skildu það að þeir stóðu fyrir því að reyna að koma okkur út úr þessari vitleysu.

Ég hef sannarlega áhyggjur af því hvernig fer fyrir þjóðfélaginu ef við förum í sama farveg aftur því að ég veit að þá verður það sama upp á teningnum, hinir lægst launuðu munu sannarlega fara verst út úr því dæmi. (Gripið fram í.) Þess vegna er það sem ég hef af því stórkostlegar áhyggjur ef við missum tökin á kjaramálunum, launamálum, verðbólgumálum og efnahagsmálum því að þá veit ég hverjir fara verst út úr því. Það eru þeir sem lakast standa að vígi í þjóðfélaginu. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að við megum ekki misstíga okkur núna í einu eða neinu. (Gripið fram í.)



[13:56]
Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur farið hér mikinn varðandi þetta frumvarp. Það eru nokkur atriði hérna sem ég tel rétt að leiðrétta og það er kannski ekki óeðlilegt að hann fari rangt með varðandi kjarasamninga því að það eru nokkrir áratugir síðan hann sjálfur stóð í þeim, styttra síðan hjá þeim er hér stendur.

Hv. þingmaður talaði um að það hefðu verið slæmir og óábyrgir samningar sem gerðir voru árið 2001. Rétt er að það komi fram að þeir samningar ríkisins beindust fyrst og fremst að því að lagfæra eða leiðrétta laun hinna lægst launuðu með svokölluðum launapottum. Ég spyr því hv. þingmann: Hvað var svona slæmt við þær launaleiðréttingar til hinna lægst launuðu?

Hv. þingmaður talaði jafnframt um að samningarnir 2005 hafi verið mun ábyrgari. Ég spyr: Hvað eru þeir í raun svo miklu frábrugðnari samningunum frá 2001? Að mínu viti eru þeir ósköp svipaðir. Ég er hérna með kjarasamninginn ef hv. þingmaður vill renna yfir hann. Þann 1. maí nk. munu fara fram miklar launaleiðréttingar fyrir þá lægst launuðu samkvæmt þeim samningi. Lægstu taxtar munu þar hjá ríkinu m.a. hækka um 12% þann 1. maí samkvæmt samningnum. Hver ber ábyrgð á kjarasamningum ríkisins? Er það ekki sjálfur hæstv. fjármálaráðherra? Það er hann sem kvittar undir. Ef hann kvittar undir hlýtur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson jafnframt að bera ábyrgð á þeim.



[13:58]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég hætti afskiptum af kjaramálum 1992, lauk þá herskyldu minni á þeim vettvangi og vonast ég til þess að koma aldrei nálægt því aftur.

Samningarnir 1997 og 2001 hjá ríkinu voru eflaust vel meintir og góð meining þar á bak við. Þeir voru óundirbúnir að öllu leyti varðandi stofnanasamningana. Það gleymdist og hafði ekki verið undirbúið þannig að forstöðumenn stofnananna hefðu vald á málinu. Niðurstaða beggja varð sú að launaþróunin varð hærri í heild en gert hafði verið ráð fyrir og menn töldu að samið yrði um þegar samningarnir voru tilkynntir. Þeir urðu hærri. Ég hef margsinnis farið yfir það hér á þinginu að í reyndina voru kauphækkanir ríkisstarfsmanna meiri en menn töldu sig hafa samið um. Það voru mistökin. Ég kalla það mistök.

Í kjarasamningunum núna í vor er einmitt gengið frá stofnanasamningum á miklu tryggari hátt að mínum dómi. Þar er alveg skýrt og undirritaður skilningur allra hvað það sé og það sé innan ákveðinna ramma. Þess vegna tel ég þá ábyrgari. Rammarnir fyrir stofnanasamningana eru inni í heildarupphæðinni sem við tilkynntum og settum fram þegar við tilkynntum hvað samningarnir hefðu í för með sér. Við fórum yfir það, ég fór yfir það ásamt Magnúsi Stefánssyni, við sátum yfir þessu fyrir hönd fjárlaganefndar. Auðvitað ber ég ábyrgð á því.

Aðilar vinnumarkaðarins skoðuðu þetta líka gaumgæfilega. Forustumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands lýstu hinu sama yfir. Það lá fyrir að menn voru sammála um þessa samninga, þó að þeir væru alveg á mörkunum að vera innan þess efnahagsramma sem við ætluðum okkur, þá voru þeir aðeins innan hans. Þess vegna voru þeir ábyrgir.



[14:00]
Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur fer hrópandinn að vestan með rangfærslur. Annars vegar er það þannig með stofnanasamningana að það er ekki búið að gera þá. Hvernig getur hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson vitað hvernig þeir eru? Það er ekki búið að gera þá. Það er verið að vinna í þeim.

Hins vegar, varðandi launahækkanir í samningunum 2001 þá vissu þeir sem þar skrifuðu undir nákvæmlega hvað það mundi þýða. Þeim samningum fylgdu launapottar og menn vissu nákvæmlega hvernig ætti að fara með þá. Enn og aftur býð ég hv. þingmanni kjarasamninginn til lestrar.



[14:00]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að launahækkanir ríkisins, sem samið var um árin 1997 og 2001, reyndust í framkvæmd hærri en tilkynnt hafði verið og menn gerðu ráð fyrir. (VF: Ráðherra skrifaði undir þá samninga.) Það liggur ljóst fyrir og má fletta upp á því hvar sem er. (Gripið fram í.) Það er hægt að fletta upp á því hvar sem er. (VF: Ráðherra skrifaði undir.) Ég hef orðið. Vill hæstv. forseti þagga niður í þingmanninum?

(Forseti (BÁ): Ég vil áminna þingmenn um að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Þegar við fórum yfir samninginn í vor, 2005, töldum við sem skoðuðum hann — ég var einn sem skoðaði hann, það var skylda mín — að tryggilega væri gengið frá, það lá fyrir sameiginlegur skilningur allra aðila á því, hvað stofnanasamningarnir þýddu, hvað var innan þeirra ramma. Frá því var miklu betur og öruggar gengið en hafði verið í samningunum 1997 og 2001. Það liggur fyrir.

Framkvæmd þessa er eftir og er verið að undirbúa hana. Hún er í gangi. Ég hef hingað til treyst því að þeir munu ganga eftir (Forseti hringir.) eins við ætluðum. Ég hef ekki séð annað og meðan ég sé ekki annað þá treysti ég því.



[14:02]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Málið sem við ræðum hér er komið til 2. umr. og engar breytingar hafa verið gerðar á upphaflega frumvarpinu. Það er ástæða til að nefna það vegna þess að mjög margir hlutir hafa verið dregnir fram sem benda til þess að menn verði að stíga varlegar til jarðar en gert hefur verið hvað varðar stjórnarskrána. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir þau atriði en vil segja að þegar ljóst er að vafi leikur á því hvort brotið muni gegn stjórnarskránni þá eiga þingmenn að láta stjórnarskrána njóta vafans.

Væri það erfitt í þessu tilviki? Ég held ekki. Ég held að það væri ekki mjög erfitt. Ég lít líka þannig á að þetta mál sé í raun fremur táknrænt en að gríðarlegar upphæðir séu á ferðinni sem skipti máli hvað varðar viðmiðun í launum á landinu. Vegna þess að möguleikarnir til að breyta launakjörum þeirra sem hér eiga í hlut eru afskaplega litlir. Menn geta mótað nýja launastefnu og haft áhrif á framhaldið, á þróun þeirra launa sem verða greidd í framtíðinni. En það breytist ekki mikið gagnvart þeim launakjörum sem í gildi eru.

Hér er gríðarlega mikið í húfi sagði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson áðan. Hann kallaði þetta þjóðarnauðsyn, að Alþingi gerði þær breytingar sem hér stendur til að gera. Ég dreg mjög í efa að hægt sé að kalla það þjóðarnauðsyn. Til að þetta mál gagnist eins og menn ætlast til þá þarf fólkið í verkalýðsfélögunum að sjá gripið til ráða sem skipta það miklu máli til að hægt sé að halda áfram svipaðri stefnu hvað varðar hina svokölluðu þjóðarsátt og verið hefur. Ég dreg mjög í efa að það sé hægt að sannfæra verkalýðsfélögin um þetta. Verkalýðsforingjarnir hafa, frá því að þjóðarsáttin komst á, haft það hlutverk að sannfæra sitt fólk um að skynsamlegast sé fyrir það að samþykkja þá samninga sem gerðir hafa verið hverju sinni. Það hefur sannarlega ekki alltaf verið auðvelt. Menn hafa einfaldlega séð að þeir sitja eftir með Svarta Pétur. Það hefur sést í hverjum samningnum eftir annan, að lægstu launabæturnar hafa gengið til almenns launafólks í landinu. Aðrir hafa fengið miklu meira. Ríkið hefur rekið aðra launastefnu gagnvart starfsmönnum sínum en þá sem komið hefur út úr samningum á almennum vinnumarkaði.

Ríkið hefur auk þessa rekið skattastefnu sem hefur komið öðrum til góða en þeim sem búa hér við almenn launakjör. Ég vil þess vegna segja: Ríkið og stjórnvöld í þessu landi hafa í raun svikið þjóðarsáttina. Hvernig geta menn látið sér detta í hug að kippa Kjaradómi úr sambandi og gera ekkert annað en að lýsa yfir með óljósum orðum að þar hafi verið á ferðinni stefnubreyting í launamálum hins opinbera? Telja menn að það dugi til að almennt launafólk í landinu sætti sig við að halda áfram í sama fari og það hefur gert fram að þessu? Mér dettur það ekki í hug.

Ég verð að segja að ef verkalýðsleiðtogarnir sem kölluðu á að úrskurður Kjaradóms yrði felldur úr gildi hafa gert það í þeim tilgangi að varðveita þjóðarsáttina óbreytta til framtíðar þá hafa þeir brugðist sínu fólki. Það er ekki hægt að bjóða almenningi í landinu upp á áframhaldandi þjóðarsátt þar sem almennt launafólk situr eftir með Svarta Pétur. Ef stjórnvöld treysta sér hins vegar til að lýsa yfir að breyta skuli launastefnu ríkisins og skattstefnunni þannig að komið verði til móts við fólkið í landinu og þjóðarsáttin endurlífguð með þeim hætti að menn ætli að koma til móts við þá sem orðið hafa eftir í þessu kapphlaupi þá er hægt að búa til þjóðarsátt. Ég held að skilaboðin til launanefndar sveitarfélaga verði gagnslítil ef þau verða eingöngu fólgin í að kippa til baka þessari niðurstöðu Kjaradóms og gera ekkert meira. Það dugir ekki.

Ég ætla ekki að blanda mér í einhver samanburðarfræði um hverjir hafi hækkað mest og hverjir minnst hjá hinu opinbera, hjá Reykjavíkurborg eða á hinum almenna launamarkaði. Það er hins vegar ekki þrætuefni að gagnvart almennu launafólki snerist þjóðarsáttin ekki bara um launasamninga. Hún hefur allan tímann snúist um almenn kjör fólks í landinu. Það er einmitt ríkisvaldið sem stjórnar gríðarlega stórum þáttum í þeim málum, þ.e. annars vegar sköttum og hins vegar launastefnu hins opinbera. Í báðum tilfellum hefur ríkið svikið samkomulagið. Það hefur svikið þjóðarsáttina í báðum tilfellum. Ég held því ekki fram að það hafi verið að yfirlögðu ráði hvað varðar launastefnu hins opinbera. Það kann vel að vera að þar hafi menn verið óheppnir eða sofið á verðinum og ekki velt nógu vel fyrir sér hvað þeir voru að gera. En ég fullyrði að það er að yfirlögðu ráði sem skattstefnunni sem er í gildi núna var komið á. Milli stjórnarflokkanna fóru fram umræður og var samningaþóf um skattabreytingarnar. Við vitum að hverju er stefnt í því. Það liggur allt fyrir. Niðurstaðan af því er sú að það eru þeir sem hafa bestu kjörin í þessu landi sem fá þar viðbót en hinir hafa minna eða ekkert út úr þeim breytingum. Þær hafa jafnvel skilað sumum, því miður helst þeim sem hefðu þurft á kjarabótum að halda, verri kjörum heldur en þeir bjuggu við áður.

Þannig er gliðnunin sem orðið hefur í samfélaginu á undanförnum árum. Menn geta ekki kallað eftir þjóðarsátt, eins og hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson gerir hér, endurvakinni þjóðarsátt, eins og hálfs áratugs gamalli, inn í þær aðstæður sem nú ríkja. Þá verða menn að búa til nýjan möguleika, nýja sátt. Hún hlýtur að felast í að ríkisvaldið lýsi yfir nýrri launastefnu og nýrri skattastefnu og séð verði til þess að í komandi kjarasamningum megi vænta betri kjara hjá því fólki sem hefur setið eftir með Svarta Pétur í mörg ár á grundvelli svokallaðrar þjóðarsáttar, leitt áfram af verkalýðsforingjunum sínum, sem hafa séð þróunina hjá hinu opinbera og í skattkerfinu. Þeir hafa samt verið tilbúnir að leggja til að samið yrði um svokallaða hóflega kjarasamninga en sjá líklega fyrir endann á þeirri stefnu. Þróunin verður ekki stöðvuð með því að samþykkja þetta mál. Það þarf meira til.

Ég krefst þess að ríkisvaldið leggi sig fram við að skapa nýja þjóðarsátt um breytta skattstefnu, breytta launastefnu ríkisins, nýja þjóðarsátt um hækkun lægstu launa og bætt kjör þeirra sem hafa það erfiðara en aðrir í þessu samfélagi.



[14:12]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og var því viðstödd umræðu nefndarinnar um þetta mál. Það var mjög gagnleg og fróðleg umræða og víða komið við. Þess vegna finnst afar sérstætt að meiri hlutinn skuli ekki telja sig þurfa að setja í nefndarálit sitt neitt um þá umfjöllun sem þar fór fram. Það sýnir manni ljóslega að meiri hluti nefndarinnar er ekki með góða samvisku gagnvart frumvarpinu sem hér á að fara greiða atkvæði um.

Kannski má rekja það til þess að þeir hafi séð ljósið að endingu, að skynsamlegra hefði verið að fara þá leið sem við í stjórnarandstöðunni lögðum til, þ.e. að áður en úrskurður Kjaradóms tók gildi 1. janúar hefði verið skynsamlegra að koma saman til þings og fresta gildistöku þess úrskurðar um tiltekinn tíma, kannski þrjá til fjóra mánuði, á meðan menn áttuðu sig á hvernig best væri að taka á málinu. Þá hefði m.a. gefist svigrúm til þess, fyrir nefndina sem á að setja á laggirnar í kjölfar þessa úrskurðar, að endurskipuleggja það fyrirkomulag sem er á ákvörðun launa fyrir kjaradóms- og kjaranefndarfólk. Hugsanlega hefði verið hægt að taka mið af þeirri niðurstöð við að fella þennan úrskurð úr gildi.

Málið er allt erfiðara viðfangs eftir að úrskurður Kjaradóms tók gildi 1. janúar, þegar rétturinn er orðinn virkur gagnvart því fólki sem átti að fá kjarabætur með úrskurði Kjaradóms. Það að rétturinn sé orðinn virkur er góður stuðningur við þá sem ætla að sækja rétt sinn fyrir dómstólunum til að hnekkja þeirri ákvörðun Alþingis sem meiri hlutinn ætlar sér greinilega að taka.

Það kom skýrt fram í máli þeirra lögmanna sem fjölluðu um þetta að þegar rétturinn væri orðinn virkur væru miklu meiri líkur á að þeir sem leituðu réttar síns fyrir dómi vegna þeirrar leiðar sem hér á að fara mundu ná því fram að þessum lögum yrði hnekkt.

Það er full ástæða til að fara yfir það mál vegna þess að það var töluvert mikið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd hver áhrifin yrðu ef þessum úrskurði yrði breytt með lögum. Það er töluverður þungi og alvara af hálfu dómara og Dómarafélags Íslands að láta þetta ekki óátalið yfir sig ganga og sést það best á því bréfi sem Dómarafélagið sendi efnahags- og viðskiptanefnd þar sem þeir telja að ekki sé hægt að breyta úrskurði Kjaradóms vegna eignarréttarákvæðis í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Færa þeir rök fyrir máli sínu og komast að þeirri niðurstöðu í bréfinu til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem orðrétt segir:

„Kæmi hins vegar til að Alþingi samþykkti breytingar í þá veru kynni félagið að telja sig knúið til að láta reyna á hvort þær væru samrýmanlegar stjórnarskránni.“

Fulltrúar Dómarafélagsins komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og ég marka það svo af ummælum fulltrúa Dómarafélagsins sem mættu fyrir nefndina að það liggi raunverulega í loftinu að annaðhvort einstaka dómarar eða Dómarafélag Íslands í heild sinni fari með málið fyrir dómstóla.

Alltaf þegar stjórnarskráin er undir og vafi leikur á hvort lög sem verið er að setja hér standist stjórnarskrána ber auðvitað að fara varlega í því efni og hefur niðurstaða stjórnarandstöðunnar tekið mið af því. Ég leitaði m.a. eftir því hjá þeim fulltrúum sem komu á fund nefndarinnar, bæði prófessorum og t.d. formanni kjaranefndar, Guðrúnu Zoëga, hvort það væri betra að fara þá leið sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt hér til og lýstum því efnislega hvaða hugmyndir væru þar uppi. Það kom fram m.a. hjá Guðrúnu Zoëga að hún teldi það til bóta að frumvarpinu yrði breytt í þá veru að þessum úrskurði yrði frestað þar til nefndin sem á að skipa hafi lokið störfum, en þó kannski ekki lengur en tiltekinn tíma. Það er raunverulega sú leið sem við förum hér og það er sú leið sem t.d. formaður kjaranefndar lýsti að væri til bóta að breyta frumvarpinu. Lagaprófessorarnir sögðu að það væri miklu minni hætta á að hægt væri að hnekkja fyrir dómstólum þeirri leið sem við værum að fara heldur en þeirri leið sem stjórnarflokkarnir hafa valið.

Ákvæðið í 2. mgr. 1. gr., svokallað frystingarákvæði, var nokkuð til umræðu þar sem verið er að taka úr sambandi ákvarðanir Kjaradóms og kjaranefndar það sem eftir lifir þessa árs þar sem dómurinn og kjaranefndin eiga einungis að taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Það kom fram í nefndinni að hækkanir eru í pípunum hjá BHM-félögum um allt að 3,8% og það lá nokkurn veginn fyrir að kjaranefnd hefði að óbreyttu, ef Alþingi hefði ekki verið að hlutast til í málinu, og eftir atvikum Kjaradómur, tekið mið af þeim hækkunum sem þar koma fram í maí. Frumvarpið tekur á því að kjaranefnd og Kjaradómur geta ekkert gert að því er varðar aðrar hækkanir á þessu ári. Formaður Kjaranefndar lýsti því svo að það leiddi til þess að það byggðist upp þrýstingur sem erfitt væri að ráða við þegar safnast hefðu upp á þessu ári einhverjar hækkanir sem kjaranefndarfólk hefði lögum samkvæmt átt að fá og þá mundi gliðna á milli kjaranefndarfólksins annars vegar sem hefur ekki samningsrétt og annarra sem fá laun sín eftir samningsbundnum ákvæðum í lögum og viðbótarlaun og þess háttar í gegnum stofnanasamninga. Þetta safnaðist upp í þrýsting sem erfitt yrði að ráða við og leiðrétta. Við höfum auðvitað áhyggjur af þessu. Kjaranefnd ákveður laun fyrir 2.000 manns og þarna eru allar ákvarðanir hvað varðar kjör þeirra teknar úr sambandi.

Ákvæðið í 2. málsl. 2. mgr. frumvarpsins segir einungis, með leyfi forseta:

„Telji Kjaradómur eða kjaranefnd að á þessu tímabili sé sérstök ástæða til breytinga á kjörum einstakra embættismanna eða hópa, vegna breytinga á umfangi starfa eða á verkefnum og verksviði þeirra, skal þess gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði.“

Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu ákvæði, taldi það nokkuð óljóst og óskýrt og hafði ekki alveg á tilfinningunni til hvers það mundi leiða. En formaður kjaranefndar og að mig minnir formaður Kjaradóms líka sögðu að þetta mundi ekki hafa nein áhrif í þá veru að laun kjaradómsfólks eða kjaranefndarfólks mundu hækka út af öðrum hækkunum sem yrðu á vinnumarkaðinum á þessum tíma, heldur litu þau svo á að þetta ákvæði yrði einungis nýtt ef um væri að ræða einhverjar breytingar í störfum hjá einstaklingum sem fá laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar eða ákvarðana hennar. Það er því alveg ljóst að verið er að frysta þessi laun út allan tímann.

Við töldum því betra, í stjórnarandstöðunni, að fara þá leið sem við leggjum hér til sem er á margan hátt skynsamlegri vegna þess að hún færir okkur fjær því að það sé Alþingi sjálft sem ákvarði launin, en að hluta er meiri hlutinn að ákveða núna 2,5% launahækkun fyrir þingmenn, ráðherra og aðra sem Kjaradómur ákvarðar laun fyrir. Með því að fara þá leið sem við viljum, að fresta þessu alfarið í tiltekinn tíma og líka þessari 2,5% hækkun þannig að engin hækkun kæmi 1. febrúar, þá væri það í höndum þeirrar nefndar sem nú á að fara að endurskoða fyrirkomulagið á launakjörunum að ákvarða hver þessi laun yrðu. Ég vil ekki upplifa það aftur, sem ég held að ekki sé ávinningur að, að stofna til einhverrar þingfararkaupsnefndar eða að þingið fari sjálft að ákveða laun sín en að hluta til er verið að gera það með þeim lögum sem hér á að fara að setja.

Við þessa umræðu tel ég ástæðu til að vitna aðeins í bréf Félags forstöðumanna ríkisstofnana sem voru mjög harðorðir þegar þeir komu á fund nefndarinnar og töldu gengið mjög á rétt kjaranefndarfólks með þessu frumvarpi. Kannski áttuðu sig ekki allir á því, a.m.k. ekki í upphafi þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir og fyrir lá að Alþingi mundi taka á því máli, að löggjöfin snerti kjaranefndarfólk með einhverjum hætti. Það gerir það svo sannarlega að því er varðar viðmiðunarstéttir þegar í pípunum eru launahækkanir á þessu ári. En það segir, og það er mjög vitnað til þeirrar sérstöðu kjaranefndarfólks að hafa ekki samningsrétt, í bréfi eða ályktun stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, með leyfi forseta:

„Um einstök atriði frumvarpsins þykir verða að gera athugasemdir við 2. mgr. 1. gr. þess. Gengur það orðalag gegn meginanda gildandi laga og er í reynd grundvallarbreyting á eðli og fyrirkomulagi því sem Kjaradómi og kjaranefnd er ætlað að starfa eftir. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarpsins kemur fram að Kjaradómi og kjaranefnd sé beinlínis bannað að taka tillit til launahækkana einstakra hópa eða launaskriðs sem verða kunni. Er þetta varhugavert og álitamál að fái staðist, að laun þröngs hóps starfsmanna hins opinbera séu fryst með þessum hætti. Sérstaklega þykir þetta vera vafasamt í ljósi þess að það er tilgangur og eðli laganna um Kjaradóm og kjaranefnd að launaákvarðanir þeirra taki tillit til þróunar launa annarra hópa. Þá verður ekki annað ráðið með gagnályktun frá orðalagi frumvarpsins en að ætlast sé til að Kjaradómur og kjaranefnd líti fram hjá þróun launa opinberra starfsmanna sem hefur verið meginviðmiðunarhópur Kjaradóms og kjaranefndar. Er það veruleg breyting frá gildandi lögum. Vekja má athygli á að fram undan eru svokallaðir stofnanasamningar við opinbera starfsmenn þar sem þegar er búið að ákveða að laun hækki á bilinu 2,4%–3,8% í maí 2006. Að þeim samningum loknum hefði mátt ætla að kjaranefnd og eftir atvikum Kjaradómur hefði tekið tillit til þessa við ákvörðun launa skjólstæðinga sinna síðar á þessu ári. Ef frumvarpið verður að lögum óbreytt mun óhjákvæmilega skapast óeðlilegt misræmi á milli launa forstöðumanna og annarra starfsmanna stofnana.

Þá verður að gera athugasemdir við einstök efnisatriði frumvarpsins og orðalag þess. Hugtakið „afmarkaðra hópa” er ekki skýrt og óljóst við hvað er átt og hverjar skuli vera forsendur Kjaradóms og kjaranefndar þegar þeir aðilar taka ákvörðun hvort og þá við hvaða kringumstæður launabreytingar skuli verða. Bann við að taka tillit til launaskriðs er einnig alvarlega umhugsunarvert.“

Þeir gagnrýna þetta áfram í þessu bréfi og vísa til þess að þeim einstaklingum í þjónustu hins opinbera sem gegna þeim störfum sem talin eru upp í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, er með þeim lögum gert skylt að hlíta launaákvörðun Kjaradóms og kjaranefndar og þannig sviptir samningsfrelsi um laun sín.

Það er ljóst að það er mjög þungt í fulltrúum þeirra hópa sem kjaranefnd ákveður laun fyrir út því að þessi leið skuli vera farin. Þeir segja að verði frumvarpið að lögum skapist réttaróvissa svo og mörg lagaleg álitaefni. Ég býst því við að málinu sé ekki lokið af hálfu þessara aðila þó að ég viti í raun og veru ekki um það en eitt er víst að það var mjög þungt í þeim hljóðið.

Það var athyglisverð tillaga sem kom fram hjá fulltrúa eins hóps þeirra sem kjaranefnd ákveður laun fyrir. Hann taldi skynsamlegra að fara þá leið að láta úrskurð Kjaradóms einungis ná til þingmanna og ráðherra en að ákvarðanir Kjaradóms gengju að öðru leyti fram gagnvart öðrum hópum. Það er auðvitað umhugsunar virði hvort það hefði nægt til að lægja þær öldur sem eru í þjóðfélaginu ef farin hefði verið sú leið að láta þann úrskurð Kjaradóms sem hér á að hnekkja einungis ná yfir þingmenn og ráðherra. Það er ljóst að reiðialdan í þjóðfélaginu beinist mest gegn þingmönnum og ráðherrum, a.m.k. virðist það koma fram. En ég er ekki viss um að það hefði dugað að láta þetta ganga fram gagnvart öðrum hópum innan Kjaradóms vegna þess að reiðialdan er mjög mikil í þjóðfélaginu almennt út af því launamisrétti sem gengið hefur í gegn á undanförnum árum og missirum. Þegar úrskurður Kjaradóms lá fyrir hefur það greinilega verið eitthvað sem fyllti mælinn og þessi reiðialda braust út.

Hjá efnahags- og viðskiptanefnd voru fulltrúar frá forsætisráðuneytinu spurðir hvort ekki hefði legið fyrir, þegar menn voru að skoða það í nóvember hvort segja ætti upp samningum á almenna vinnumarkaðnum, sú hækkun sem kjaranefndarfólk ætti að fá, þ.e. 4,5% hækkun. Svarið við því var jú, að það hefði verið tekið inn í þetta mat. Samt var það niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að launabreytingar annarra hópa væru ekki þess eðlis að það kallaði á uppsögn kjarasamninga.

Það er athyglisvert að hækkanir kjaranefndarfólksins, sem voru að hluta færðar yfir til kjaradómshópsins sem komið hefur af stað slíkri reiðiöldu, lágu fyrir í nóvember þar sem tekið var mið af þeim. Það var samt ekki niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að launabreytingar annarra hópa, m.a. kjaranefndarfólks, væru þess eðlis að það kallaði á uppsögn kjarasamninga. Nú þegar færa á kjaradómsfólkinu sömu hækkun og kjaranefndarfólkið hefur fengið þá setja aðilar vinnumarkaðarins hnefann í borðið. Maður spyr: Af hverju var það ekki gert fyrr? Það hlýtur að hafa verið tilefni til þess fyrr að grípa inn í málið fyrst það er tilefni til þessi núna.

Ég held að það sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum vikum og sú gliðnun sem er að verða í þjóðfélaginu í kjaramálum sýni okkur að stokka þurfi upp launakerfi ríkisins og gera það gegnsærra og sýnilegra. Ef þeim sem hæst tala um stöðugleikann, sem er auðvitað nauðsynlegt að viðhalda, meina eitthvað með orðum sínum þá ættu þeir að beita sér fyrir breytingu á launastefnunni. Hvernig væri t.d. að frysta laun þeirra sem mest hafa fyrir í tvö til þrjú ár, bæði á almenna markaðnum og einkamarkaðnum, nota þann tíma til að minnka launabilið og færa upp fólk með lágar- og meðaltekjur? Það væri fróðlegt að vita hvort samstaða næðist um það, að frysta almennt efsta lagið í þjóðfélaginu, bæði á einkamarkaði og almenna markaðnum í góðan tíma, tvö til þrjú ár. Þann tíma mætti nota til að færa upp þá sem lægstir eru, á botninum og fólk með meðaltekjur.

Mér fannst það athyglisvert, í andsvörum áðan hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að hann talaði um börnin með byssurnar. Hættulega aðila í þjóðfélaginu sem settu allt á hvolf í kjaramálum. Þegar hann var inntur eftir því við hverja hann ætti þá var það borgin. Hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson taldi sér sæma að koma upp og gera þær litlu hækkanir, sem lægst launaða fólkið í umönnunarstéttunum fékk, blóraböggla fyrir því að allt stefndi á annan endann í þjóðfélaginu. Það er ekki sæmandi að stilla málinu upp með þeim hætti. Það er ástæða til að minna þá á, sem hæst hafa látið vegna þess að borgarstjórinn vogaði sér að lyfta upp lægstu launum fólks í umönnunarstéttunum, að fram kom hjá fulltrúa kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar að laun þess fólks sem Reykjavíkurborg semur fyrir lægju nálægt því sem gerist á almenna vinnumarkaðnum. Eins kom fram að launamunur þeirra sem taka laun hjá ríkinu væri á milli 6–8% hærri en hjá þeim sem taka laun samkvæmt ákvörðunum Reykjavíkurborgar.

Það fær mig þá til að líta til þess sem hér hefur verið nefnt, þ.e. til hinna svokölluðu stofnanasamninga og viðbótarlauna í ríkiskerfinu. Ýmsir sem komu á fund nefndarinnar töldu að það hefði hækkað verulega laun viðmiðunarhópa, með ákveðnu launaskriði hjá viðmiðunarhópum sem kjaranefnd og Kjaradómur taka ákvarðanir um laun fyrir.

Ríkið er í samkeppni við almenna vinnumarkaðinn um hæft starfsfólk. Því er mikilvægt að ríkið hafi ákveðið svigrúm til að mæta samkeppni um starfsfólk. En launastefnan má þó ekki verða þannig að viðbótarlaun eða ákvarðanir í stofnanasamningum gangi einungis til þeirra sem eru í efstu lögum í ríkiskerfinu. Sjá verður til þess að slíkt gangi líka til fólks sem er á lægri launum í ríkiskerfinu og til fólks með meðaltekjur. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun sem hefur átt sér stað, t.d. varðandi viðbótarlaun ríkisstarfsmanna sem hafa gilt örfá síðustu ár. Um slík viðbótarlaun gilda engar samræmdar reglur. Þar er um að ræða geðþóttaákvarðanir forstöðumanna hverju sinni um hvernig þeim er útdeilt. Við höfum það fyrir okkur á þinginu, það liggur t.d. fyrir í úttekt Ríkisendurskoðunar á viðbótarlaunum ríkisstarfsmanna fyrir árið 2002, hvernig þessi viðbótarlaun skiptast á milli þeirra sem vinna hjá ríkinu.

Það er ljóst af skýrslu og upplýsingum frá Ríkisendurskoðun, í kjölfar þess að ég bað um að það yrði skoðað, hvernig viðbótarlaunin koma út, t.d. hvernig þau skiptast milli kynja og milli þeirra sem fá hæstu og lægstu launin. Þar kemur fram að hæstu viðbótarlaunin fara til þeirra starfsmanna sem gegna hæstri stöðu innan hverrar stofnunar. Þannig er það. Það er ljóst, sé skipting kynja í störfum hjá ríkinu skoðuð, að þessar viðbótarlaunagreiðslur hafa frekar gengið til karla en kvenna. Fram kom að konur fá að meðaltali einungis um 56% af þeirri fjárhæð sem karlar fá. Þetta þarf að skoða. Ef einhverjir pottar eru til fyrir viðbótarlaun innan ríkiskerfisins, sem ég er ekki að gagnrýna í sjálfu sér, þá verða stjórnvöld að sjá til að um slíkt gildi samræmdar reglur og að markmið séu sett um hvernig eigi að verja viðbótarlaunum þannig að þau auki ekki á gliðnun, t.d. á milli kynja í ríkiskerfinu. En það hefur augljóslega gerst fram til þessa.

Ég hef margsinnis kallað eftir samræmdum reglum. Þegar ég sá að viðbótarlaunin voru notuð, m.a. til að auka á gliðnun milli karla og kvenna innan ríkiskerfisins, þá óskaði ég eftir því að Jafnréttisstofa athugaði málið sérstaklega. Hún taldi að upplýsingar sem kæmu fram væru of óljósar til að hægt væri að segja nákvæmlega til um hvort jafnréttislög væru brotin. En Jafnréttisstofa beindi því til fjármálaráðherra, fyrir að minnsta kosti tveimur árum síðan, að settar yrðu samræmdar reglur um greiðslur viðbótarlauna. Það var upplýst af Gunnari Björnssyni í fjármálaráðuneytinu, sem fer með launamálin, að samræmdar reglur hefðu enn ekki verið settar og er það miður, virðulegi forseti.

Ég tel að full ástæða sé til að fara nánar í það hvernig þessu er háttað. Ég mun gera það. Það getur ekki gengið að halda uppi slíkri launastefnu og verja töluverðu fjármagni í greiðslu viðbótarlauna sem leiða bæði til aukinnar gliðnunar milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa og jafnframt aukist með þeim launabilið milli kynjanna. Á árinu 2002 voru t.d. greiddar sem viðbótarlaun 788 millj. kr., í einingargreiðslum úr launakerfi ríkisins sem Ríkisendurskoðun lítur á sem viðbótarlaun, nema í þeim tilvikum er samið hefur verið um að það sé endurgjald fyrir yfirvinnu sem er tímamæld. En að hluta eru viðbótarlaunin líka notuð sem yfirvinnugreiðslur þar sem ekki er krafist vinnuframlags. Þau eru líka í sumum tilvikum akstursgreiðslur sem, eins og Ríkisendurskoðun segir, eru notaðar sem viðbótarlaun. Árið 2002 fengu 702 karlar akstursgreiðslur á móti 445 konum. Að baki þeim greiðslum liggur fastur 2.000 km samningur sem skilar um 110 þús. kr. Ríkisendurskoðun metur að líklegt sé að einhver hluti þeirra greiðslna séu viðbótarlaun. Það er ástæða til að skoða þessi mál og við sjáum hvílíkur frumskógur launakerfið er, ekki bara á einkamarkaði heldur virðist það ekki eiga síður við í ríkiskerfinu.

Nokkuð hefur verið rætt, virðulegi forseti, um hvort þingið hafi heimild til að breyta launum forseta Íslands á kjörtímabilinu. Ég verð að segja að mér fannst lagaprófessorinn Eiríkur Tómasson nokkuð afdráttarlaus um það á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að óheimilt væri að lækka laun forsetans. Ég held að hann hafi orðað það svo að hann hallaðist að því að óheimilt væri að lækka laun forsetans, þ.e. að það væri brot á stjórnarskránni. Prófessor Sigurður Líndal hafði aðeins aðrar áherslur. Hann taldi að ef hægt væri að sýna fram á að ekki hefði orðið raunlækkun á kjörtímabilinu þá gæti þetta hugsanlega gengið. En ég held að þingið sé á vafasömum brautum gagnvart stjórnarskránni sem slíkri og því ákvæði sem þar er þegar kemur að því að hnekkja dóminum gagnvart forsetanum.

Ég sé, virðulegi forseti, ekki ástæðu til að hafa orð mín mikið fleiri þótt af ýmsu sé að taka. Ég vil þó nefna að vert er að hafa áhyggjur af þróuninni í kjaramálum og þeirri gliðnun sem orðið hefur í tekjuskiptingunni í samfélaginu. Ganga þarf til þess af einurð og markvisst af aðilum vinnumarkaðarins að skoða hvað hægt er að gera til að taka á því. Við sjáum ekki bara gliðnun tekjubilsins heldur, eins og fram hefur komið á undanförnum dögum sem er reyndar ekki nýtt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, hefur líka orðið veruleg gliðnun á milli tekjuhárra hópa og fólks með lágar tekjur og meðaltekjur að því er varðar skattgreiðslur til samfélagsins með aukinni skattbyrði hinna síðarnefndu. Það er athyglisvert að þótt slíkur munur hafi orðið á launum milli tekjuhárra og tekjulágra þá eykst sá munur eftir skatta, þ.e. verður þrisvar sinnum meiri. Skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hafa þannig aukið gliðnun milli tekjuhópa meira en launaþróunin. Gliðnun hefur orðið þrisvar sinnum meiri með þyngri skattbyrði hjá tekjulægstu hópunum á móti því sem gliðnað hefur á milli hópa í almennum kjörum á markaði. Það er ótrúlegt að horfa til þess sem hefur verið að gerast með skattbreytingunum. Þetta kemur mjög skýrt fram í þeirri úttekt sem Stefán Ólafsson hefur gert á því máli. Hann hefur skoðað þróunina á skattbyrðinni hér á landi í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar, hafi maður í huga kjaramál einstakra stétta eða þau mál í heild sinni, að sjá frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og er staðráðin í að láta ganga fram óbreytt. Ég held að ef við hefðum haft meiri tíma til að skoða þetta mál þá hefði kannski verið hægt að ná meiri samstöðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það. Stjórnarandstaðan telur að leiðin sem við leggjum til nái sama markmiði en með henni sé farið varlegar gagnvart stjórnarskránni, sem ég tel skyldu okkar þingmanna að hafa í huga.



[14:45]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræðir eins og oft áður um nauðsyn betra siðferðis og gagnsæis launa. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann taki starfskostnaðargreiðslur sem þingmönnum er heimilt að taka, og fjórir til fimm þingmenn taka ekki, án þess að hafa reikning á móti? Í öðru lagi hvort hv. þingmaður taki dagpeninga sem eru 80% af kostnaði þrátt fyrir að hótel séu greidd og hvernig hann telji þá peninga inni í heimilisbókhaldinu? Eru þetta tekjur eða er þetta kostnaður? Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann taki þá vildarpunkta sem flugfélögin veita farþegum sínum um allan heim, sem er afskaplega siðlaust að mínu mati, og líti þannig á að telja beri þá fram til skatts o.s.frv. Að síðustu vildi ég spyrja hvort hv. þingmaður hafi skoðað lífeyrisréttindi þingmanna, hvort hann hafi flutt nokkurt frumvarp um að breyta því.



[14:46]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var líkt hv. þingmanni að færa umræðuna niður á einstaklingsplan og spyrja út í mitt heimilisbókhald í tengslum við þetta frumvarp. Þær greiðslur sem ég þigg, bæði sem laun og starfskostnað, eru samkvæmt lögum og reglum og ekkert við það að athuga. Ekki nokkur skapaður hlutur. Það er allt opinbert hvernig laun og kjör þingmanna eru. Það er auðvitað gegnsæi í því. Það vita allir hvernig þessum starfskostnaði er háttað og af honum er greiddur skattur. Dagpeningakerfið þekkja allir. Ég er nú ábyggilega í hópi þeirra þingmanna sem minnst ferðast á vegum þingsins. Varðandi það hvort ég þiggi eða telji fram vildarpunkta þá reyndi ég að gefa þá fáu vildarpunkta sem ég hef fengið upp í skattaskýrslunni síðast — svo ég fari nú bara út í mitt heimilisbókhald fyrst hv. þingmaður er svona áhugasamur um það — en það eru greinilega ekki til neinar reglur í ríkiskerfinu um hvernig á að draga þetta frá til skatts. Ég varð ekki vör við, þó að ég teldi þetta fram, að nokkuð væri til að byggja á hvað það varðar að færa þetta inn á skattskýrsluna. Ég gat um þá vildarpunkta sem ég nýtti en það var ekki að sjá að það breytti neinu í niðurstöðunni varðandi mínar skattgreiðslur.

Mér finnst hálfósmekklegt af hv. þingmanni að fara einstaklingsbundið ofan í mitt heimilisbókhald vegna þess að þær greiðslur sem ég fékk frá hinu opinbera eru allar fyrir opnum og tjöldum og þar er ekkert að fela. (Gripið fram í.)



[14:48]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður situr í forsætisnefnd Alþingis og ákvarðar t.d. dagpeningana. Þannig að þetta er nú ekki alveg óviðkomandi hv. þingmanni. Þau atriði sem ég nefndi eru allt atriði sem ég hef gert miklar athugasemdir við. Ég vil að laun þingmanna séu uppi á borðum algjörlega og þau séu á hreinu svo menn geti áttað sig á hver þau eru. Ég hef flutt frumvarp um að þingmenn taki lífeyrisréttindi eins og annað fólk og hækki launin sem því nemur þannig að það sé á hreinu hvernig þessum málum er háttað. Ég tek undir með hv. þingmanni. Öll leynd í launum er óeðlileg og alveg sérstaklega hjá opinberum starfsmönnum og forráðamönnum ríkisins. Það kemur sérstaklega niður á jafnrétti karla og kvenna t.d. eins og hv. þingmaður hefur mörgum sinnum benti á. Ég skora á hv. þingmann að breyta þessum reglum um dagpeninga þannig að þingmenn fái greitt samkvæmt kostnaði. Ég hef alltaf átt í vandræðum með þessa dagpeninga. Hef reyndar sent þá að mestu leyti til Hjálparstofnunar kirkjunnar, það eru held ég 700–800 þús. kall eða eða eitthvað svoleiðis gegnum tíðina.

Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm, herra forseti. Það er ekki hægt að tala um að eitthvað sé prívat og persónulegt hjá mér sjálfum og það komi engum við. Þetta eru reglur sem við setjum sjálf. Við setjum sjálf reglur um lífeyrisréttindi þingmanna. Við setjum sjálf reglur um starfskostnaðargreiðslurnar sem eru alveg ótrúlegt fyrirbæri. Við setjum sjálf, eða forsætisnefnd, reglur um dagpeninga. Og vildarpunktar flugfélaganna — við ráðum því að sjálfsögðu ekki, það er um allan heim. En það er afskaplega ósiðlegt kerfi og ég held að þingmenn ættu saman að berjast gegn því.



[14:50]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talar nú sjálfur siðapostulinn á þingi og eins og hreinn engill; (PHB: Ha, nei.) taki ekki dagpeninga, taki ekki starfskostnað og geri ekki hitt og þetta. Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmaður hafi mikið verið að hjálpa mér í því þegar ég hef hér á undanförnum árum verið að reyna að fá fram meira gagnsæi í launakerfi ríkisins með ýmsum hætti. Ég hef ekki orðið vör við að ég hafi haft nokkurn stuðning af hv. þingmanni í því efni. Ég hef ekki setið yfir því í forsætisnefnd að ákveða dagpeningagreiðslur þingmanna. Ég veit ekki einu sinni til þess að það sé sérstaklega forsætisnefnd sem ákveður þær greiðslur. Ég hef haldið að það væri eitthvað sem fjármálaráðuneytið gerði. Af hverju snýr hv. þingmaður sér ekki til hæstv. fjármálaráðherra og lætur taka í gegn þetta dagpeningakerfi almennt hjá ríkinu? Ég hef ekki orðið vör við að hv. þingmaður hafi verið að beita sér í að taka upp dagpeningakerfi hjá ríkinu. Ef honum þykir þetta dagpeningakerfi hjá ríkinu svona ósiðlegt, af hverju snýr hann sér ekki að sínum flokksbróður? Hverjir hafa ráðið fjármálaráðuneytinu á undanförnum 10–15 árum eða allt of lengi? Það er fjármálaráðherra. Það er í höndum hans að breyta þessu. Ég hef oft og iðulega gagnrýnt t.d hvernig háttað er fyrirkomulagi á bílum hjá ráðherrum. Ég hef gagnrýnt ferðakostnað hjá ríkinu og viljað fá hann lækkaðan. Ég hef gagnrýnt dagpeningagreiðslur, hvað þær eru háar. Það er í höndum fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að breyta því. Ég hef lagt til að lækka þessar greiðslur, ferðakostnað og dagpeningagreiðslur hjá ríkinu, á hverju ári um að minnsta kosti 15% og hv. þingmaður hefur í hvert skipti við fjárlagagerðina fellt þær tillögur. Hann hefur fellt þær. Af því að hann er greinilega svona sáttur við þetta kerfi. (Gripið fram í.) En ég skora á hv. þingmann að tala við (Forseti hringir.) flokksbróður sinn og láta breyta dagpeningakerfinu. Ég hugsa að hann fái stuðning minn til þess. (Forseti hringir.)



[14:52]
Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir og hefur verið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég átti sæti við afgreiðslu málsins í efnahags- og viðskiptanefnd og vil eins og aðrir koma inn á þá annars ágætu umfjöllun sem þar átti sér stað. Við fengum fjölda gesta og miklar upplýsingar og áttum þar ágætisumræðu að ég tel.

Menn hafa rifjað með ýmsum hætti upp aðdraganda málsins, eða það andrúmsloft sem myndaðist við úrskurð Kjaradóms fyrir jól. Ég sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að rifja það neitt frekar upp. Hér hafa menn einnig rætt um mismunandi sýn á þróun kjara.

Eins og fram hefur komið var á þessum tíma nýlokið endurskoðun á forsendum kjarasamninga og fyrir hendi lá þríhliða samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Menn vita, eins og hér hefur komið fram, hvaða viðbrögð urðu við Kjaradómnum og við því þurfti að bregðast.

Ríkisstjórnin tók það frumkvæði í málinu að koma fram með þá tillögu að allir flokkar sem sæti eiga á Alþingi mundu eiga fulltrúa í nefnd sem mundi fara yfir starfsreglur og leikreglur Kjaradóms og kjaranefndar. Stjórnarandstaðan hafnaði því tilboði, vildi ganga fyrst frá lögum þar sem úrskurðurinn yrði felldur úr gildi eða honum frestað. Nú liggur það frumvarp fyrir og mér sýnist af umræðum hv. þingmanna að ekki beri í sjálfu sér mikið á milli þeirra leiða sem liggja fyrir þinginu. Ég held að það sé mikilvægt að okkur takist að klára þetta mál sem allra fyrst, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem m.a. á sér stað á launaráðstefnu sveitarfélaganna — þau skilaboð sem koma frá þingi og stjórnvöldum eru mikilvæg inn í þá umræðu. Ég tel að með því sýnum við þann vilja okkar í verki að halda frið á vinnumarkaðnum.



[14:55]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Það er nú komið að lokum þessarar umræðu um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég ætla að fara í gegnum nokkur þau atriði sem rædd voru í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Menn hafa getið um áhrif Kjaradóms og þessarar lagasetningar á forseta Íslands. Samkvæmt Kjaradómi átti hann að hækka um 6,15% frá 1. janúar og samkvæmt þessu frumvarpi er það lækkað niður í 2,5% frá 1. febrúar eða um 3,65%. Rökin fyrir því að ekki megi skerða laun forsetans hafa menn rakið til ákvæða í stjórnarskrá, en þar stendur í 9. gr. 2. mgr., með leyfi herra forseta:

„Ákveða skal með lögum“ — ég endurtek með lögum — „greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald.“

Og síðan:

„Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“

Það er þetta ákvæði sem menn hafa fett fingur út í en það hefur eiginlega enginn talað um fyrri hlutann þar sem stendur að ákveða eigi með lögum en ekki með dómi, sem er dálítið athyglisvert. Ég skoðaði greinargerð með því frumvarpi að stjórnarskrá sem samþykkt var 1944. Þar segir svo um 9. gr., með leyfi herra forseta:

„Fyrri hluti síðari mgr. er hliðstæður því sem um konung hefði gilt.“

Forsetinn er í rauninni ígildi konungs sem er dálítið athyglisvert. Síðari hlutinn er aftur á móti nýmæli í íslenskum lögum, þ.e. ákvæðið um að óheimilt sé að lækka greiðslur þessar til forseta á kjörtímabili hans. Og áfram segir, með leyfi herra forseta:

„En ákvæðið miðar að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarráðum verði beitt gegn forseta eða Alþingi eftir á reyni með þessum hætti að ná sér niðri á forseta.“

Það á að koma í veg fyrir að Alþingi nái sér niður á forseta með að lækka launin hans.

„Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Herra forseti. Nú skil ég nokkurn veginn íslensku og að mínu mati segir þetta mér það að þau laun sem forsetinn hafði við upphaf kjörtímabilsins megi ekki skerða að krónutölu. Ég get ómögulega skilið þetta öðruvísi, herra forseti.

Menn hafa nefnt til sögunnar að þegar skattfrelsi forsetans var afnumið árið 2000 hafi einmitt verið vísað í þetta ákvæði og það í mínu eigin frumvarpi. Það er rétt. Enda kom fram í úrskurði Kjaradóms af því tilefni, að hann hækkaði laun forsetans úr 615 þús. kr. í 1.250 þús. Hann tvöfaldaði launin vegna þess að forsetinn missti skattfrelsið. Sem segir mér að forsetinn var með ígildi 1.250 þús. kr. og ef ekkert hefði komið til hefði hann verið skertur niður í 615 þús. við það að borga skatta. Hann hefði verið skertur úr 1.250 þús., sem voru hans raunverulegu laun af því hann borgaði ekki skatt, niður í 615 þús. og borga skatt af því. Það var þvílík kjaraskerðing, herra forseti, það hefði örugglega lækkað laun hans niður fyrir þá krónutölu sem hann hafði í byrjun kjörtímabilsins. Af þessari ástæðu taldi flutningsmaður frumvarpsins á sínum tíma að taka þyrfti mið af þessu í Kjaradómi. En sú hækkun sem við núna erum að taka af forsetanum og hefur staðið í einn heilan mánuð eru 3,65%. Það er nokkuð víst, herra forseti, og nokkuð öruggt að laun forsetans fara ekki niður fyrir þá krónutölu sem hann hafði í upphafi kjörtímabilsins. Þannig að ég er engan veginn sannfærður um að þetta ákvæði í stjórnarskránni sé brotið. Ég er bara alls ekki sannfærður. Ég er eiginlega sannfærður um það gagnstæða án þess að ég vilji þó fara að dæma í því máli, ef forsetinn skyldi nú fara í mál út af þessu og það færi fyrir Hæstarétt.

Þá var eignarrétturinn ræddur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að laun væri eignarréttur. Eins og ég gat um í 1. umr. get ég engan veginn fallist á það því þegar ég ræð mig til vinnu eða þegar fólk ræður sig til vinnu almennt, þá leggur það fram vinnuframlag og fær laun í staðinn og yfirleitt stenst þetta á, mönnum er borgað réttlátlega, þ.e. samningurinn um að taka sér vinnu, leggja fram vinnuframlag og fá laun í staðinn, verðmæti þess samnings er yfirleitt núll. Það er ekkert sérstakt við þann samning í sjálfu sér, ekki frekar en ef ég sel bílinn minn á milljón þá afhendi ég bílinn og fæ milljón í staðinn og það er ekkert verðmæti í þeim samningi sem slíkum. Í vinnusamningnum hafa launin því ekkert verðmæti í sjálfu sér af því að vinnan kemur á móti. Hins vegar gæti launahækkun hugsanlega verið eign ef hún væri ákveðin til allrar framtíðar og ekki hægt að breyta henni. En nú er það svo að þeir launþegar sem þiggja laun samkvæmt Kjaradómi og kjaranefnd ákvarða ekki laun sín sjálfir og þeir verða að sæta ákvörðun annars staðar frá, frá Kjaradómi eða Alþingi sem setur lög um Kjaradóm. Valdið liggur því hjá Alþingi, enda eðlilegt þar sem Alþingi hefur fjárveitingavald. Enginn annar má ráðstafa peningum úr ríkissjóði nema Alþingi. Með þeim rökum getur Alþingi því að sjálfsögðu gripið inn í og hækkað eða skert laun þeirra sem þarna þiggja laun, af því að þeir ákveða það ekki sjálfir. Alþingi er heimilt að gera það núna. Það brýtur þá ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskránni af því að Alþingi hefur fjárveitingavald samkvæmt henni, þ.e. 41. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá var nokkuð rætt um jafnræðisreglu, að ekki mætti skerða laun þeirra sem fá laun samkvæmt Kjaradómi og miðað við þá sem fá laun samkvæmt kjaranefnd. Nú er fólk með alls konar kjör um allt þjóðfélagið. Það er verið að hækka þennan og ekki hinn. Það hefur hingað til ekki verið talið brjóta einhverja jafnræðisreglu þótt einn fái hærri laun en annar eða einn sé lækkaður í launum með verðbólgu eða með beinum hætti. Það hefur hingað til ekki verið talið brjóta neina jafnræðisreglu þannig að ég get ekki fallist á þessa grein, líka vegna þess að það kom fram hjá gestum nefndarinnar að þessi lagasetning væri nægilega almenn til að beinast ekki gegn einstaklingum. Það hefði verið verra ef eingöngu þingmenn hefðu verið látnir sæta henni. Það hefði þá verið þrengri hópur og þá er ekki hægt að tala um að um almenna aðgerð sé að ræða.

Á móti þessum rökum og móti þeim sjónarmiðum sem þarna koma fram um forseta Íslands, eignarréttinn og jafnræðisregluna þá koma að sjálfsögðu þau stóru mál sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ræddi um. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði um hættuna á víxlverkun launa og verðlags sem við höfum afskaplega bitra reynslu af. Allir tapa á því og sérstaklega þeir sem verst eru settir, frú forseti. Þess vegna er meginsjónarmiðið að gæta þess að hin viðkvæma staða á launamarkaði fari ekki úr skorðum. Það er meginmarkmiðið á bak við þessa lagasetningu og ryður öðrum minni háttar markmiðum eða sjónarmiðum á brott.

Eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði höfum við undanfarið orðið vitni að ákveðinni tilraun sem sýnir einmitt hversu vinnumarkaðurinn er viðkvæmur. Ákveðinn borgarstjóri hér á landi ákvað að hækka laun lægst launaða fólksins, mjög göfugt markmið og hefur verið reynt oft og tíðum. Því miður fóru launahækkanirnar dálítið upp launastigann þannig að mér er sagt að jafnvel fólk sem hefur yfir 200 þúsund og þar af hærra hafi fengið launahækkun líka. Og hvað gerist? Allt í einu rignir inn uppsagnarbréfum hjá þeim hinum sama borgarstjóra og hann situr allt í einu á bólakafi í uppsagnarbréfum óánægðra starfsmanna vegna þess að hann hækkaði launin, frú forseti. Þetta segir okkur hve viðkvæmt er að grípa inn í það jafnvægi sem er, allt í einu er fólk sem er með menntun verr sett en þeir sem ekki hafa menntun. Þess vegna þurfum við að fara mjög gætilega og mér finnst þessi tilraun borgarstjóra hafa sýnt okkur hvað við þurfum að fara varlega í þessum efnum og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.

Það er alltaf dálítið vandræðalegt eins og ég gat um í 1. umr. að ræða um sín eigin laun og ég benti á ákveðna leið til að vega á móti því. Inn í það koma að sjálfsögðu mörg mál eins og lífeyrisréttur, starfskostnaðargreiðslur o.s.frv. Það er athyglisvert að það var lagt fram eftirlaunafrumvarp í desember 2003 sem var samþykkt. Mjög mikið hefur verið talað um að það hafi verið þingmönnum til hagsbóta. En nú hefur verið reiknað út að hinn almenni þingmaður tapaði á þessu eftirlaunafrumvarpi, hver og einn einasti þingmaður tapaði 1–3% á því. Það hefur ekki komið fram í umræðunni en væri afskaplega nauðsynlegt að það komi fram að almenni þingmaðurinn tapaði á eftirlaunafrumvarpinu samkvæmt útreikningum tryggingafræðinga og ég vil gjarnan að það komi fram. En þetta er einn anginn af því að hafa launin sýnileg og ég legg mikla áherslu á að launin verði sýnileg enda hef ég flutt um það frumvarp í tvígang að þingmenn séu með lífeyrisréttindi eins og almennir borgarar þessa lands í almennum lífeyrissjóðum og að þingfararkaupið sé ákveðið á beinni hátt og greinilegar en í dag.

Frú forseti. Í tillögum minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að þeir leggja fram eilítið öðruvísi tillögur en meiri hlutinn. Þeir leggja til að það komi engin hækkun frá 1. febrúar og sú lækkun eða sú frysting renni út 1. júní næstkomandi. og þeir ætla að setja þetta í nefnd eins og margt annað er sett í nefnd. Ef sú nefnd skilar ekki niðurstöðu og ekkert gerist þá hækka launin sjálfvirkt 1. júní. Það er oft talað um það og meira að segja stjórnarandstæðingar sjálfir hafa oft, (Gripið fram í: … talar sem stjórnmálamaður?) í þessum stól stend ég sem stjórnmálamaður. (Gripið fram í.) Nei, oft er það þannig að stjórnarandstæðingar tala um að málið sé saltað í nefnd og það er akkúrat það sem þeir ætla að gera. Og ef nefndin gerir ekki neitt eins og oft vill verða þá hækka launin. Þetta er nefnilega athyglisvert. En munurinn er sá að þær tillögur sem meiri hlutinn leggur til er að hækka launin um hálft prósent (Gripið fram í: 2,5.) 2,5 já, og skipa nefnd en ef nefndin gerir ekki neitt þá bara verður það 2,5% í heilt ár. Svo kemur Kjaradómur aftur. (Gripið fram í: Já, er það ekki já?) Já, já. En það er munurinn á þessu að ef nefndin ekki skilar niðurstöðu þá er frysting á þessum launum í heilt ár. (Gripið fram í.) Það er von að hv. stjórnarandstæðingar séu órólegir yfir þessu því þetta er merkileg niðurstaða (Gripið fram í.) vegna þess að ef nefndin þeirra skilar ekki niðurstöðu þá hækka launin 1. júní um 8% og þá er þetta allt saman sýndarleikur. Þetta var um tillögur hv. minni hluta.

Síðan ætla ég að fara í gegnum nefndarálit — það er von að hv. þingmenn í minni hlutanum séu órólegir yfir þessu — það verður enn þá meira gaman að lesa nefndarálit minni hlutans og ég hygg að lögfræðingar muni verða tregir að koma á fund nefndarinnar eftir að þeir heyra það sem hér stendur.

„Lögfræðingar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd vöruðu allir sem einn eindregið við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara.“ Á fund nefndarinnar kom fullt af lögfræðingum. Ég man ekki til að Baldur Guðlaugsson hafi varað við þessu.“ (Gripið fram í: … sambönd og var ekki spurður um það.) Það er alveg sama, í nefndarálitinu stendur þetta svona. Menn geta ekkert … (Gripið fram í.) Get ég fengið frið fyrir frammíköllum órólegra og vandræðalegra þingmanna sem eru komnir alveg út í horn. (Gripið fram í.) Síðan stendur í nefndarálitinu: „Lögfræðingarnir töldu víst að frumvarpið færi gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði, …“ Lögfræðingarnir töldu víst, sem sagt á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar dæmdu þessir lögfræðingar. Þeir töldu bara víst, (Gripið fram í: Þeir töldu víst já.) það var enginn efi, þetta bara er svona. Ég er nærri viss um að þessir háttvirtu lögfræðingar, ég hlýddi reyndar á þeirra mál, sögðu þetta ekki. Ég er viss um að þeir eru ekki sáttir við svona meðhöndlun á ummælum sínum.

Síðan kemur og þá er haft eftir lögfræðingum: „… auk þess sem orðalag 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki að laun forseta séu lækkuð á miðju kjörtímabili.“ Það er enginn efi í neinum huga neins staðar að lögfræðingarnir sögðu þetta, en þeir dæmdu ekki á fundi hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. (Gripið fram í.) Vegna þess að meiri hlutinn vildi ekki fara að dæma um þessi atriði í nefndarálitinu, ekki eins og minni hlutinn er búinn að gera.

(Forseti (SP): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Takk. En svo gerist dálítið merkilegt. Þrátt fyrir að hv. þingmenn minni hlutans hafi svona óskaplegar efasemdir um stjórnarskrána, þrjú atriði sem þeir telja jafnvel að brjóti hana, þá leggja þeir engu að síður til í breytingartillögu sinni: Þrátt fyrir úrskurð Kjaradóms skal hann ekki koma til framkvæmda frá og með 1. febrúar. Þá er það bara allt í lagi. Þarna er ákveðinn tvískinnungur í gangi og dálítil rökleysa.

Frú forseti. Í 1. umr. ræddi ég um framhaldið og ég tel að það sé útilokað að annar en Alþingi ákvarði laun ráðherra og dómenda. Ég held að þingið eigi ekkert að skorast undan því. Ég hef reyndar bent á leið sem leysir þann vanda að menn séu að ákveða eigin laun. Það vill nefnilega svo til að hv. þingmenn eru kosnir á fjögurra ára fresti af þjóðinni og bera þá ábyrgð. Og ef þeir taka rangar ákvarðanir um eigin laun þá er annað fólk kosið á þing. Ég hef lagt til að fráfarandi þing ákvarði laun næsta þings tímanlega, t.d. í vor. (Gripið fram í: ... ekki sameinað.) Nei. Þeim úti í þjóðfélaginu sem finnst þetta vera óskaplega há laun og sjá ofsjónum yfir því geta þá bara boðið sig fram til þings og séð hvort þeir njóti trausts hjá þjóðinni til að gegna þessu embætti, það eykst þá samkeppnin um þingmennskuna og við sitjum á veikari grein. Ég held að þetta sé eiginlega besta lausnin án þess að ég vilji leggja nefndinni sem á að skipa, einhverjar reglur um það. Alþingi á að sjálfsögðu að ákvarða með lögum eins og stendur í stjórnarskránni um forseta, það stendur nefnilega í 9. gr. stjórnarskrárinnar: „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta …“ Þannig að í stjórnarskránni stendur að að ákveða eigi með lögum en ekki með dómi svo ég held að Alþingi eigi ekkert að komast undan því að ákvarða laun æðstu stjórnenda með lögum og menn geti svo haft einhver verðtryggingarákvæði innan kjörtímabilsins eða eitthvað slíkt en ég held að við komumst ekki hjá því og það verður miklu meiri sátt um það ef þetta verður gert tímanlega, áður en framboðsfrestur í prófkjörum og slíku og uppstilling lista hefur farið fram.

Ég þakka mjög góða og málefnalega umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var unnið mjög stíft og hratt og mjög vel og ég held að öll þau sjónarmið sem hafi komið fram hafi fengið góða umræðu. Ég vil líka þakka þessa umræðu. Hún hefur verið mjög góð og málefnaleg og svo vona ég að þetta mál fái gott gengi í þinginu.



[15:15]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í máli hv. þingmanns í dag að hann teldi afar áhugavert og raunar bráðnauðsynlegt að öll laun væru uppi á borðinu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er einn flutningsmanna frumvarps, 23. máls, og hvað skyldi það kveða á um? Frumvarp það gerir ráð fyrir að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af. (Gripið fram í.) Sem sagt að það eigi að taka út af borðinu að menn geti séð hvaða laun eru greidd í landinu og að reikna megi það út eins og hægt er að gera í dag og að þær skattskrár sem núna liggja frammi og eru til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi verði það ekki lengur.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessi orð þingmannsins í dag eru í algerri andstöðu við það frumvarp sem hann flytur. (Gripið fram í: Það er nú einhver misskilningur.)



[15:16]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt um þetta. Ég er hlynntur frelsi einstaklingsins og ég er hlynntur verndun persónuupplýsinga. Þetta eru mjög viðkvæmar persónuupplýsingar. Þær voru settar upp á sínum tíma þegar skatteftirlit var miklu veikara og skatteftirlitið fólst í eftirliti samborgaranna. Ég tel að þetta sé löngu úrelt fyrirbæri.



[15:16]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo vildi til að hv. þm. Pétur H. Blöndal átti hér orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fór fram á að allar hennar tekjur og greiðslur, ráðstöfun ferðapunkta, ferðakostnaður og annað slíkt væri opinbert. Hann og taldi afar nauðsynlegt að allar greiðslur og öll laun lægju fyrir. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni því ég held að það eigi að vera opinbert hvað við höfum í laun og að það eigi líka að vera opinbert hvað stéttir hafi í laun almennt í landinu þannig að menn sjái laun og launaskrið en stundi ekki þann feluleik sem núna á sér stað með því að reyna að fela hvað raunverulega sé að gerast á markaðnum.

Mér þykir hins vegar leitt að hv. þingmaður skuli vera tvísaga í málflutningi sínum, þ.e. að leggja annars vegar til að birt séu öll laun eins þingmanns og annarra en leggja svo fram frumvarp um að fela launakjör í landinu.



[15:17]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað alls ekki um öll laun. Ég bað ekki um fjármagnstekjur eða önnur laun (Gripið fram í.) sem hv. þingmenn fá annars staðar heldur eingöngu þau laun sem hv. þingmaður, ásamt með öðrum þingmönnum, ákvarðar sjálf.



[15:18]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talaði um forsetann og stjórnarskrárákvæðið. Hann vitnaði í það að sérstaklega hefði verið tekið fram í athugasemdum 1944 með stjórnarskrárfrumvarpinu að ákvæðin væru einungis til að vernda rétt forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft en engan veginn hafi þau tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur. Þetta held ég að verði ekki skilið öðruvísi í ljósi sögunnar en að menn hafi talið að forsetinn ætti ekki neina kröfu á verðlagshækkunum á sín laun á því kjörtímabili sem hann sæti og það getur ekki dugað sem skýring á því að það eigi að lækka ákvörðuð laun forsetans eins og hér stendur til af hálfu meiri hlutans og ég tel skýlaust brot á stjórnarskránni.



[15:19]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst ræðan sem hv. þingmaður flutti áðan afar kúnstug og er kannski langt til jafnað að í sömu ræðunni gangi hann í tvígang gegn sínum eigin frumvörpum sem hann hefur áður flutt. Það hlýtur að vera einhvers konar met á hinu háa Alþingi. Árið 2000 flutti hv. þingmaður frumvarp um skattfrelsi forseta og tók þar sérstaklega fram — hann er 1. flutningsmaður málsins — tók sérstaklega fram að ekki væri heimilt að lækka laun forseta á miðju kjörtímabili. Þetta var árið 2000. Hann lagði það sérstaklega fram í frumvarpi og tók þetta fram í greinargerð. Það þarf svo sem ekkert ímyndunarafl til að láta sér til hugar koma að þekkt persóna á Spaugstofunni hefði kannski gert þetta á svipaðan hátt, þ.e. orðið svona tvísaga. Nú segir hv. þingmaður að það fari ekki gegn stjórnarskránni að lækka laun forseta en í greinargerð árið 2000 var þetta ekki heimilt. Þetta er eiginlega svo (Forseti hringir.) kúnstugt, virðulegi forseti, að hv. þingmaður verður að eiga skömmina sjálfur.



[15:20]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvaða erindi orðin kúnstugt og Spaugstofan eiga í málefnaumræðu á hinu háa Alþingi. Ég fór sérstaklega í gegnum þetta í ræðunni og hv. þingmaður hefur bara ekkert hlustað á það. Ég fór sérstaklega í gegnum það að skattfrelsi þýddi helming af launum forseta. Hann var í rauninni með 1.250 þúsund og hefði lækkað niður í 615 þúsund samkvæmt niðurstöðu Kjaradóms. Hann hefði farið niður fyrir launin sem hann hafði í upphafi kjörtímabilsins í krónutölu. Þetta er því enginn tvískinnungur. Þetta er bara nákvæmlega rökrétt eins og ég lagði það fram.



[15:21]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég leyfi mér bara að lesa beint upp úr greinargerð frumvarps hv. þingmanns sem var lagt fram á þinginu árið 2000, svo enginn misskilningur sé nú á ferðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar ...“

Með öðrum orðum þá verður launakjörum forseta ekki breytt nema í upphafi kjörtímabils. Þetta segir berum orðum í greinargerð hv. þingmanns með sínu eigin frumvarpi. Nú kemur hv. þingmaður og mótmælir því og telur það ekki við hæfi að líkja honum saman við þekkta persónu úr Spaugstofunni sem ekki hikaði við, þegar hann taldi það eiga við, að skipta um hest í miðri á. En það að hv. þingmaður skuli í einni ræðu fara gegn tveimur frumvörpum sem hann sjálfur hefur flutt hlýtur að vera einhvers konar met á hinu háa Alþingi.



[15:22]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður telur að eftir því sem hann endurtekur eitthvað oftar þá verði það meira satt. Þetta var ekkert satt sem hann sagði því að þegar skattfrelsið var afnumið lækkuðu raunveruleg laun forsetans um helming, frú forseti, frá því sem áður hafði verið og fóru niður fyrir það sem þau voru í byrjun kjörtímabils þannig að ... (Gripið fram í.) já, það var akkúrat það sem ég átti við. Það var vísað í þessa grein í stjórnarskránni einmitt út af þessu. Það er alveg sama hvað ég segi þetta oft, svo virðist sem hv. þingmaður taki ekki eftir því. Sú hækkun sem við erum að afnema núna hjá forsetanum stóð í heilan mánuð og var rétt rúmlega 3%.



[15:23]
Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oft og tíðum talað hreinlega niður til öryrkja og láglaunafólks og talið það geta lifað nánast á loftinu einu saman. Vegna ummæla hans áðan í ræðu um ástæðu launaskriðs á Íslandi tel ég rétt að fá alveg skýr svör frá þessum talsmanni Sjálfstæðisflokksins.

Í fyrsta lagi: Telur hann að launaskrið á Íslandi sé láglaunafólki að kenna?

Í öðru lagi: Er þingmaðurinn á móti því að lægstu laun á Íslandi hækki?

Ég held að það sé ágætt fyrir okkur öll og þjóðina að fá það alveg skýrt hvort þessi talsmaður Sjálfstæðisflokksins sé með þessa stefnu alveg skýra.



[15:24]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil bara alls ekki hvernig þessar fyrirspurnir koma í þessa umræðu. Ég bara skil það ekki, fyrirgefið. (Gripið fram í.) Nei, nei, í fyrsta lagi: Hef ég talað niður til öryrkja og láglaunafólks? Það fullyrðir hv. þingmaður og ég bið hann um að staðfesta það og sanna það. (VF: Það er bókfært.) Það er bókfært! Það er ekki nóg að segja að það sé bókfært. Hann þarf að sanna það og það er engin sönnun að segja að það sé bókfært.

Síðan spyr hann mig hvort launaskrið sé láglaunafólki að kenna. Hef ég einhvern tíma sagt það. (VF: Þú gafst það í skyn áðan.) Það vill nefnilega þannig til að þegar ég kom inn á þing 1995 þá talaði ég mörgum sinnum um að lægstu laun væru skammarlega lág. Þá voru þau 42 þúsund. Það hefur sem betur fer breyst. Það tókst að hækka lægstu laun og ég ætla að vona að það takist áfram að hækka lægstu laun án þess að það hafi áhrif upp allan skalann. En svona fullyrðingar eins og hjá hv. þingmanni eru ótrúlegar.



[15:25]
Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Því miður svaraði hv. þm. Pétur H. Blöndal ekki þessum fyrirspurnum. Þetta kom nokkurn veginn fram í ræðu hans áðan, alla vega mátti skilja það á þeirri ræðu. Þess vegna ítreka ég þær. Í fyrsta lagi: Telur hv. þm. Pétur H. Blöndal að launaskrið á Íslandi sé láglaunafólki hreinlega að kenna, þ.e. að láglaunafólkið sé vandamálið? Í öðru lagi: Er þingmaðurinn á móti því að lægstu laun á Íslandi hækki? Þannig hefur hann ávallt talað.



[15:26]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er það ekki lægst launaða fólkinu að kenna að það sé launaskrið á Íslandi. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum hv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu að ég haldi því fram. Ég vil að sjálfsögðu að lægstu laun hækki. Ég sagði það sérstaklega áðan að ég vil að lægstu laun hækki. Ég hef alveg sérstakan áhuga á því. En ég vil að hv. þingmaður taki aftur að ég hafi talað niður til öryrkja og láglaunafólks eða sanni það.



[15:26]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu sem hefur kannski um margt verið ágæt, en um annað hefur hún valdið talsverðum vonbrigðum. Það sem hefur valdið mér hvað mestum vonbrigðum er afstaða stjórnarliða til stjórnarskrárinnar.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að þeir séu vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. En þeir sem hingað hafa komið upp og tjáð sig hafa allir viðurkennt að í tengslum við þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þá séu menn tilbúnir að taka áhættu varðandi þann vafa sem uppi er viðkomandi stjórnarskránni og það þykir mér óskaplega miður. Ég held að við eigum að virða stjórnarskrána á þann veg að í vafatilvikum eigi stjórnarskráin að njóta vafans. Þessi afstaða þykir mér miður og mér þykir hún benda til þess að menn hafi einfaldlega verið of lengi við völd, ellegar mundu þeir ekki nálgast verkefnið, að mínu mati, út frá þessu sjónarmiði. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með þá afstöðu stjórnarliða að þeir hafi það meginsjónarmið í málinu að stjórnarskráin eigi ekki að njóta vafans og það þykir mér miður.

Annað vil ég einnig nefna í lokin vegna orða hv. þm. Pétur H. Blöndals. Í ræðu sinni talaði hv. þingmaður um að verið sé að lækka laun um 3,44%, minnir mig, þ.e. ef ég man töluna rétt úr hans ræðu. (PHB: ... forsetann.) Það kann að vera að hv. þingmaður hafi verið að tala um forseta. Ég vil aðeins vekja athygli á því að hér er það að gerast í fyrsta lagi að ríkisstjórnin er að leggja til að úrskurður Kjaradóms verði felldur úr gildi. Þegar hann er felldur úr gildi er um leið ákveðið að hækka laun um 2,5%. Með öðrum orðum er Alþingi að taka ákvörðun um að hækka laun ráðherra og þingmanna. Það er mikilvægt að þessar staðreyndir séu á hreinu í umræðunni og menn snúi ekki út úr þessu eins og mér fannst á ræðu hv. þingmanns.

Að þessum orðum sögðum er í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem umræðan hefur skilað í dag. Ég tel að það hefði átt að geta náðst góð sátt hér á þingi um að ljúka þessu og þá þannig að við skildum ekki stjórnarskrána eftir í uppnámi eins og sú leið sem meiri hlutinn hefur ákveðið að fara gerir í stað þess að reyna að lenda málinu vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft er í reynd enginn ágreiningur milli meiri og minni hluta hér á þingi um að afnema áhrif úrskurðar Kjaradóms frá því í desember. En vegna hinna fjölmörgu athugasemda sem fram hafa komið um þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara og einnig um þá ákvörðun sem hún tekur með því að hækka laun ráðherra og þingmanna, þ.e. að láta lögin eða Alþingi kveða á um þetta, þá treystum við okkur ekki til að fylgja henni eftir. Við höfum hins vegar lagt fram okkar hugmynd sem við teljum að standist ákvæði stjórnarskrár fullkomlega og teljum að um þá leið hefði átt að geta náðst góð sátt. Ég held að mjög mikilvægt sé að Alþingi sendi skýr skilaboð frá sér um að Alþingi sé ekki tilbúið að standa að og byggja undir þá launaþróun sem verið hefur á undanförnum missirum þar sem bilið milli þeirra sem meira mega sín og þeirra sem minna mega sín breikkar sífellt. Við lítum á þetta sem lið í því að sporna gegn þeirri þróun og viljum heldur ekki taka þátt í því að draga upp þá mynd að launaþróun sé önnur en birtist í Kjaradómi og á þann hátt kasta ryki í augu verkalýðshreyfingarinnar og almennings í landinu.