132. löggjafarþing — 49. fundur
 23. janúar 2006.
fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

[15:04]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil beina til hæstv. forsætisráðherra fyrirspurn er varðar fjárframlög til stjórnmálaflokka.

Nú stendur yfir prófkjörsbarátta hjá Framsóknarflokknum og sá fjáraustur er einsdæmi, tel ég, í prófkjörsbaráttu í Íslandssögunni. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvaðan þessir fjármunir komi. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvað líður því að settur verði einhver rammi um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi? Þetta ástand er algerlega ólíðandi og menn verða að fara í aðrar heimsálfur til að finna viðlíka reglur og eru hér.

Auðvitað eru menn að koma sér hjá því að svara fyrirspurn sem þessari með því að segja: Málið er í nefnd. Jú, málið er í nefnd og það bólar ekkert á því að við fáum eitthvað út úr því nefndarstarfi. Ég tel að í raun sé mjög einfalt að setja reglur um þessa hluti, herra forseti. Það er bara að fara til annarra landa og sjá hvernig reglurnar eru þar. Það eru ágætisreglur í Noregi og menn geta einfaldlega tekið þær upp. Ég er á því að í þeim fjáraustri sem við sjáum í sambandi við þetta prófkjör í Reykjavík séu miklum mun hærri upphæðir en t.d. Frjálslyndi flokkurinn hefur til umráða til að auglýsa í allri kosningabaráttu sinni. Hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi?

Herra forseti. Þetta er ótrúlegt. Eru menn að þakka fyrir sig? Er það S-hópurinn sem er að skila fjármunum til baka inn í prófkjörsbaráttuna? Við verðum að gæta að því að hér er um að ræða aðstoðarmann forsætisráðherra sem er í fullu starfi sem slíkur og virðist hafa ógrynni fjár til að kynna stefnumál sín. Ég verð að segja að þessar reglur og ástandið hér þjónar ekki almannahagsmunum í landinu.



[15:06]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um hvað einstakir frambjóðendur flokka eyða í kosningabaráttu sína í sambandi við prófkjör. Hitt er svo annað mál að það er mjög mikilvægt að fram fari prófkjör hjá flokkunum í landinu og að öflug starfsemi sé í kringum þau.

Ég vísa hins vegar til þess að ég setti nýlega á laggirnar nefnd til að fara yfir þessi mál og þar eiga sæti fulltrúar allra flokka. Ég vænti þess að fulltrúi Frjálslynda flokksins hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri í því nefndarstarfi. Niðurstaða þeirrar nefndar er háð því að gott samkomulag takist milli stjórnmálaflokkanna um þetta mál. Ég veit ekki betur en að það starf gangi prýðilega og að fulltrúi Frjálslynda flokksins hafi unnið að málum í nefndinni af dugnaði og heilindum. Ég vænti þess að hv. þingmaður hafi þolinmæði til að gefa fulltrúum stjórnmálaflokkanna tækifæri til að vinna þetta mál til enda. Ég efast ekki um að hann hafi margar ágætar tillögur í málinu og það er ekkert vandamál, hv. þingmaður, að koma þeim þá á framfæri, hvort sem er við formann nefndarinnar eða þann fulltrúa sem þinn flokkur hefur skipað í hana.



[15:07]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Þessi umrædda nefnd átti að skila af sér um áramótin og ég er á því að það sem tefji sé einkum það að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn vilja hafa ástandið óbreytt. Þeir vilja ekki klára dæmið. Þetta er mjög einfalt mál. Allar þjóðirnar hér í kring sem við viljum miða okkur við hafa reglur um þessa hluti. Það liggur á borðinu hver styrkir stjórnmálastarfsemina. Hættan er sú að hagsmunir fárra fjársterkra verði látnir ráða en ekki heildarhagsmunir þjóðarinnar. Við höfum séð þetta, m.a. þegar Búnaðarbankinn var afhentur S-hópi Framsóknarflokksins.

Við höfum líka séð hvernig unnið hefur verið að því að færa fiskimið hringinn í kringum landið í einkaeign. Þetta hefur valdið byggðaröskun og ekki hefur þetta byggt upp fiskstofnana. Það eru mörg svona mál sem koma upp aftur og aftur og ég er á því að ef við ætlum að ná árangri, þokast í lýðræðisátt, verði að taka til í þessum efnum.