132. löggjafarþing — 49. fundur
 23. janúar 2006.
umferðaröryggismál.

[15:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til samgönguráðherra. Hún snýr að umferðaröryggismálum sem hafa verið áberandi að undanförnu og ég held að verði meira áberandi í nánustu framtíð. Ég hef áður spurt samgönguráðherra út í þessi mál. Svör hans við þeim spurningum mínum hafa verið ánægjuleg og sýna að hæstv. ráðherra er vakandi í málaflokknum, sem er afskaplega mikilvægt. Ég er sannfærður um að samfara þeirri samgöngubyltingu sem staðið hefur yfir á undanförnum árum veitir okkur ekki af sambærilegu átaki í þessum málaflokki.

Fyrirspurn mín, virðulegi forseti, hljóðar svo:

Á síðasta ári undirrituðu Umferðarstofa og ríkislögreglustjóri samning um aukið hraðaeftirlit á skilgreindum svæðum á þjóðvegakerfinu. Það er samdóma álit manna að vel hafi tekist til í alla staði hvað það varðar. Þess vegna langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort ætlunin sé að halda áfram samstarfi á milli Umferðarstofu og ríkislögreglustjóra með það fyrir augum að byggja ofan á þann góða árangur sem náðist á síðasta ári. Hvernig verður staðið að því samstarfi?



[15:35]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að gefa mér færi á að svara þessari spurningu. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni var á síðasta ári í gildi samningur á milli Umferðarstofu, lögreglunnar og Vegagerðar, um sérstakar aðgerðir á sviði umferðaröryggismála. Sá samningur var gerður á grundvelli umferðaröryggisáætlunarinnar sem er hluti af samgönguáætlun.

Skemmst er frá því að segja að þessi samningur bar mjög góðan árangur. Samstarf Vegagerðar og Umferðarstofu annars vegar og lögreglunnar hins vegar leiddi í ljós að ástæða er til að þessir aðilar hafi áfram með sér samstarf á þeim nótum sem gert var. Núna er unnið að endurskoðun á þessum samningi, sem var tilraunasamningur. Ég geri ráð fyrir því að hann verði endurnýjaður strax og búið er að meta aðstæður, árangurinn af þessu starfi og hvar menn telji mikilvægast að bera niður í aðgerðum á vegunum.

Sjónum var sérstaklega beint að hertu eftirliti með hraðakstri, ölvunarakstri og því að tryggja að ökumenn og farþegar væru með öryggisbelti. Ég geri ráð fyrir því að á næstunni verði þessi samningur endurnýjaður og þá til alls ársins þannig að sem mestur árangur náist. Við munum nýta fjármuni sem við höfum í umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar til þeirra samstarfsverkefna.



[15:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég vil nota tækifærið og hvetja ráðherra til þess að sinna þessum málaflokki áfram af alúð og gefa ekkert eftir í þeim efnum. Það liggur fyrir að þetta er stór málaflokkur, ekki bara á Íslandi heldur í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við.

Austurríkismenn sem núna eru að taka við forustu í Evrópusambandinu leggja áherslu á að á næstu sex mánuðum verði þetta eitt af þeim málum sem efst verði á baugi á þeim vettvangi. Við höfum t.d. séð land eins og Frakkland ná gríðarlegum árangri með samhæfðum aðgerðum niður allt stjórnstigið í þessum málaflokki. Hvert slys er gríðarlega dýrt eins og við þekkjum, ekki bara í peningum heldur fyrst og fremst tilfinningalega, ef viðkomandi aðili slasast illa eða það fer verr, að hann fellur frá.

Ég hvet því ráðherra áfram í þessum málaflokki. Ég vonast til að við sjáum bæði gott samstarf milli þeirra aðila sem hann nefndi og síðan verði gengið í aðra þá þætti sem nauðsynlegt er.



[15:38]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bæta ögn við það sem áður hefur komið fram. Ég tel að þessi samningur milli lögreglunnar, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu sé mikilvægur. En aðrir þættir öryggismálanna en þeir sem snúa að ökumönnum skipta auðvitað mjög miklu. Hv. þingmaður hefur áður varpað fram spurningum um þau mál, þ.e. hvað varðar aðstæður í vegakerfinu.

Við höfum lagt ríka áherslu á að Vegagerðin herði á kröfum um öryggisatriði á vegunum sjálfum. Nýjasta dæmið um þessa breyttu stefnu er Svínahraunsvegurinn þar sem víraleiðarar eru á milli akreina. Ég tel að það skipti afskaplega miklu máli. Það er liður í skipulögðum aðgerðum okkar í þeim tilgangi að auka öryggi í vegakerfinu.