132. löggjafarþing — 49. fundur
 23. janúar 2006.
Ríkisútvarpið hf., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 401. mál (heildarlög). — Þskj. 517.

[20:00]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Menntamálaráðherra nefndi í upphafsræðu sinni að kjör starfsmanna yrðu óbreytt og óskert við breytinguna samkvæmt þessu frumvarpi. Ég dreg það í efa. Ég efast ekki um að starfsmenn Ríkisútvarpsins séu mjög áhyggjufullir og sé því ástæðu til að ræða réttindi starfsmanna sérstaklega hér.

Í athugasemdum með frumvarpinu er minnst á frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi og umsögn menntamálanefndar um það, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi gerði nefndin athugasemdir við ákvæði er vörðuðu yfirtöku hins nýja félags á réttindum starfsmanna.“

Það er eftirtektarvert að það segir ekkert um hvort farið hafi verið eftir þeim athugasemdum. Ég get ekki séð að svo hafi verið.

Í athugasemdum með frumvarpinu þar sem fjallað er um meginefni frumvarpsins segir, og hefur það verið tekið fram hér fyrr í dag, með leyfi forseta:

„Tryggilega er búið um réttindi núverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, sbr. nánar ákvæði til bráðabirgða II.“

Frú forseti. Þetta stóð líka í síðasta frumvarpi um Ríkisútvarpið sf. Þessi fullyrðing var ekki rétt þá eins og margir bentu á og þessi fullyrðing er heldur ekki rétt núna.

Í frumvarpinu, þ.e. ákvæði til bráðabirgða II um réttindi starfsmanna segir, með leyfi forseta:

„Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.“

Þýðir þetta að réttarstaða ríkisstarfsmanna hjá RÚV breytist ekki? Þegar maður les yfir frumvarpið er ekki annað að sjá en að réttarstaða bæði breytist og skerðist þegar RÚV verður breytt yfir í hlutafélag og þrátt fyrir það að ríkið sé enn þá eini eigandinn.

Þriðja ábendingin: Munu lögin sem eru í gildi um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, gilda áfram um starfsmenn RÚV hf.? Það kemur hvergi fram.

Fjórða atriðið í athugasemdum. Í umræðunni hefur verið minnst á upplýsinga- og stjórnsýslulög fyrr í dag, þau sem eru í gildi. Með þessu frumvarpi virðist ráðherra vera að færa Ríkisútvarpið undan ákvæðum þessara laga. Má þar t.d. nefna reglur um auglýsingar á störfum. Í aðilaskiptalögum, nr. 72/2002, segir í II kafla um réttarvernd starfsmanna, í 3. gr. um launakjör og starfsskilyrði, með leyfi forseta:

„Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færast yfir til framsalshafa.

Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.“

Samkvæmt þessu á RÚV hf. að taka yfir gildandi ráðningarsamninga með þeim réttindum og skyldum, bæði atvinnurekanda og starfsmanna, sem þeim fylgir. Ég spyr: Verður það gert? Rétt er að taka hér fram að í ráðningarsamningi er tilgreint í hvaða lífeyrissjóð starfsmaðurinn greiðir og þá í hvora deildina, t.d. hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Verður staðið við þessi réttindi?

Um biðlaunarétt segir í frumvarpinu í ákvæði til bráðabirgða II um réttindi starfsmanna, með leyfi forseta:

„… þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2008.“

Í þessu sambandi er rétt að benda flutningsmönnum á að í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir í 34 gr., með leyfi forseta:

„Nú er embætti lagt niður og skal þá embættismaður jafnan halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.“

Ég fæ ekki betur séð en að frumvarpið stangist á við þessa grein. Það er ekki heimilt að skerða biðlaunaréttinn, rétt sem starfsmenn hafa áunnið sér og eiga og er þar af leiðandi verndaður í stjórnarskránni.

Frú forseti. Ég hef nefnt sjö atriði þar sem réttindi starfsmanna samkvæmt frumvarpinu eru ekki virt. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir skerðingu á réttindum þeirra starfsmanna sem greiða í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í dag. Ekki er minnst einu orði á þá starfsmenn sem greiða til A-deildar lífeyrissjóðsins og ekkert er minnst á nýja starfsmenn né heldur hvort nýir starfsmenn geta verið áfram í LSR. Þetta eru atriði sem þurfa að vera að hreinu.

Frú forseti. Samkvæmt 3. gr. í aðilaskipalögum, er ég las upp úr hér áðan og ætla að lesa aftur ef ske kynni að það hafi farið fram hjá mönnum, segir um launakjör og starfsskilyrði, með leyfi forseta:

„Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færast yfir til framsalshafa.

Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.“

Það er ekki heimilt að skerða áunnin lífeyrisréttindi eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Síðan spyr ég: Hverjir verða viðsemjendur starfsmanna Ríkisútvarpsins hf.? Verða það Samtök atvinnulífsins? Hverjir semja fyrir hönd þeirra? Verða það BHM eða BSRB? Frú forseti. Fjölmörg atriði varðandi þetta frumvarp vekja óöryggi hjá starfsfólki RÚV. Nú eiga starfsmenn tvo fulltrúa í svokölluðu framkvæmdaráði Ríkisútvarpsins. Í frumvarpi er ekki gert ráð fyrir því og verður það að teljast mjög neikvætt.

Frú forseti. Ég hef farið yfir mörg atriði er varða réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og fæ ekki betur séð en að frumvarpinu sé beinlínis viljandi eða óviljandi ætlað að skerða réttindi starfsmanna RÚV.



[20:09]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mjög skýra skoðun í þessu máli eins og flestöllum öðrum. (Gripið fram í: Öllum málum.) En við erum ekki bara á móti þessu frumvarpi heldur lögðum við einmitt fram á þessu þingi mun skynsamlegra frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Í þeim lögum er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði ríkisútvarp áfram en ekki með hf. í endann. Það er nefnilega vel hægt að laga starfsemi Ríkisútvarpsins og það má vel laga ýmislegt í starfsemi Ríkisútvarpsins þó þar sé mjög margt gott.

Í frumvarpi okkar er t.d. tekið á málefnum útvarpsráðs sem hefur oft verið deilt mikið um. Við viljum einfaldlega leggja niður útvarpsráðið og taka upp dagskrárráð í staðinn og að í þessu dagskrárráði eigi breiður hópur fólks sæti, fulltrúi frá Bandalagi íslenskra listamanna, frá Neytendasamtökunum, sem er mjög mikilvægt, fulltrúi starfsmanna útvarpsins og að sjálfsögðu útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri hljóðvarps og sjónvarps. Frumvarp okkar er lagt fram í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir rekstur Ríkisútvarpsins, efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi.

Það er dálítið vandræðalegt að hlusta á málflutning framsóknarmanna í þessu máli. Þeir eru búnir er að kúvenda í afstöðu sinni og lúffa fyrir Sjálfstæðisflokknum.

(Forseti (JóhS): Forseti biður hv. þingmenn um að halda í lágmarki samræðum hér í salnum þannig að þeir trufli ekki ræðumann.)

Þetta truflaði mig ekki neitt, allt í fína. En hlustið þið samt. Eins og oft áður eru framsóknarmenn að guggna þarna. Auðvitað er þetta bara tímaspursmál, sérstaklega þegar við horfum upp á hverjir eru fremstir í flokki. Það er reyndar athugunarefni út af fyrir sig af hverju þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, skuli styðja þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar því hann er yfirlýstur stuðningsmaður þess að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Þess vegna lít ég bara á þetta sem eitt skrefið í átt að einkavæðingu útvarpsins, vegna þess að þær raddir munu ekkert hljóðna innan Sjálfstæðisflokksins.

Það vekur líka athygli mína í þessu frumvarpi til laga að þó að útvarpið hafi leyfi til að útvarpa tveimur rásum þá er bara ein útvarpsrás skilyrt. Því væri auðvitað skrefið hjá mönnum að leggja niður Rás 2 eða selja hana. Þeir ætluðu einhvern tímann að selja Rás 2 og sennilega starfsmennina með. Ég óttast líka að svæðisútvarpið verði undir í þessum áformum. Er ekki líklegt að einhverjir spekúlantar komi með hugmyndir um hagræðingu? Við þekkjum það nú hjá öðrum ríkisfyrirtækjum sem hafa síðan verið einkavædd. Það þarf að hagræða og þá er byrjað á að leggja niður starfsstöðvar úti á landi. Ég sé alveg fyrir mér að dregið verður úr starfseminni á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Suðurlandi og svo mætti halda áfram.

Þegar fallið er frá því prinsippmáli að Ríkisútvarpið okkar sé ríkisútvarp þá er nefnilega einu sinni farið af stað í einkavæðingarferlinu. Þess vegna væri óskandi að ríkisstjórnin mundi bara sjá að sér og taka frekar upp okkar frumvarp sem er að öllu leyti mun skynsamlegra og skemmtilegra og líka styttra held ég.

Ríkisútvörp eru víða starfrækt í öðrum löndum. Ég nefni sem dæmi Þýskaland, þar eru m.a.s. tvö ríkisútvörp, ARD og ZDF. Í Bretlandi er hin virta stofnun BBC, í Danmörku Danmarks radio og í Austurríki er það ORF. Þetta eru allt ríkisútvörp og lifa ágætlega og skila hlutverki sínu með sóma.

Það er alltaf verið að tala um það í þessum umræðum í kvöld að verið sé að snúa hlutunum til nútímahorfs, að það sé einhvers konar tíðarandi að það eigi að háeffa alla hluti. Þetta er fullkominn misskilningur. Það er alveg hægt að breyta hlutum innan Ríkisútvarpsins án þess að gera það að hlutafélagi.

Meginvandi Ríkisútvarpsins liggur auðvitað í því að það vantar fé til rekstrar svo að það geti sinnt skyldum sínum. Hvernig væri að Alþingi tæki sig saman í andlitinu og veitti fé til innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu í staðinn fyrir að leggja ofuráherslu á að háeffa það? Það þarf líka að auka lýðræðið innan Ríkisútvarpsins og það getum við gert. Á það bendum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í okkar tillögum.

En það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar að svelta til hlýðni stofnanir, háskóla, heilbrigðisþjónustu og Ríkisútvarpið þar til fólk er farið að kalla á skólagjöld eða halda að hlutafélagaformið sé miklu betra til að afla peninga. Svo á að einkavæða einhvern hluta af starfseminni, við þekkjum það úr heilbrigðisþjónustunni. Í langflestum tilfellum verður þetta til hins verra, verður til þess að notandinn þarf að borga meira vegna þess að inn koma milliliðir sem vilja auðvitað græða.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi er lagt til að nefskattur verði tekinn upp. Ég vara mjög við því. Nefskattur er í eðli sínu mjög ósanngjarn. Skattkerfið okkar er byggt upp þannig að það er til þess að jafna kjörin en nefskattur leggst jafnt á þá sem mikið hafa og þá sem lítið hafa. Það hefur einmitt verið bent á það í umræðunum hér í kvöld að á heimili þar sem margir unglingar eru, eldri en 16 ára sem sagt, kemur til með að leggjast hátt gjald. Nú er um að ræða áskrift, sem sagt eitt gjald fyrir hvert heimili. Í einhverjum tilfellum á samt að vera hægt að fella þennan nefskatt alveg niður en mér skilst að það sé hjá einstaklingum sem hafa lægri tekjur en 850 þúsund á ári. Það eru ekki margar fjölskyldur sem falla undir það sem betur fer, en þetta leggst auðvitað þungt á þær fjölskyldur sem eru kannski með heimilistekjur upp á milljón.

Vandinn liggur í því að það þarf að auka fjármagn til Ríkisútvarpsins svo að það geti sinnt skyldum sínum með sóma. Við höfum séð að starfsfólk stofnunarinnar getur lyft grettistaki og nánast gert kraftaverk með það litla fjármagn sem það hefur milli handanna. Á því á auðvitað að byggja.

Hér hefur mikið verið rætt um það hvað þetta sé ómögulegt rekstrarform og erfitt ástand innan Ríkisútvarpsins. Ég held að ástandið innan Ríkisútvarpsins sé ágætt, þar er verið að gera marga góða hluti. Það sýnir okkur að það þarf ekkert að hlutafélagavæða stofnunina til þess að rífa hana upp.

Því hefur margoft verið lofað hér í kvöld að það standi alls ekki til að selja Ríkisútvarpið. Það er undirstrikað með því að í 1. gr. er talað um eignaraðild. En höfum við ekki mörg dæmi um að því hafi einmitt verið lofað að selja ekki ríkisstofnanir þegar þær eru hlutafélagavæddar? Hvað hefur síðan komið á daginn? Það er kannski ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar en við vitum að innan Sjálfstæðisflokksins heyrast margar raddir sem eiga þá ósk heitasta að útvarpið verði selt. Sú ríkisstjórn sem nú situr getur ekki gefið loforð fyrir hönd þeirrar næstu eða þarnæstu. Ég ætla ekkert að efast um góðan ásetning hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta varðar en maður veit aldrei. Það getur verið að eitthvað hafi breyst á morgun eða í næsta mánuði eða eftir kosningar.

Ég held að þetta hafi mikið að segja hvað varðar tilfinningar fólks. Þegar Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi verður miklu minna skref að skipta því upp eða selja einhvern hluta af því. Áður en við vitum vöknum við upp við vondan draum, búið er að selja Ríkisútvarpið alveg eins og frjálshyggjudrengirnir í Sjálfstæðisflokknum vilja.



[20:21]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg við 1. umr. um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Við höfum hér í dag farið yfir frumvarpið og fram hafa komið mismunandi skoðanir á því hjá stjórn og stjórnarandstöðu hvort það skipti einhverju máli hvaða rekstrarform sé á Ríkisútvarpinu. Ég og Vinstri hreyfingin – grænt framboð teljum að það skipti máli hvaða rekstrarform er á Ríkisútvarpinu. Því höfum við lagt fram annað frumvarp til laga um breytingu á núverandi útvarpslögum um Ríkisútvarpið og viljum styrkja Ríkisútvarpið í því rekstrarformi sem það nú býr við. Við gerum okkur grein fyrir því að innan útvarpsins hefur verið togstreita og ákveðið skipulag þar hefur hugsanlega tafið framþróun í dagskrárgerð og möguleika útvarpsins á að þróast. Við leggjum því til að núverandi útvarpsráð verði lagt af en í stað þess verði lýðræðið innan stofnunarinnar eflt og komi dagskrárstjórn í þess stað.

Það er mjög mikilvægt að við eigum áfram öflugan almannamiðil, almannamiðil eins og Ríkisútvarpið er í dag, einn öflugasti fjölmiðill á Íslandi. Nú er verið að vinna að því að móta lagaumhverfi um fjölmiðlun á Íslandi. Þar sem Ríkisútvarpið er hluti af þeirri heild teljum við óráðlegt að hreyfa við lögum um Ríkisútvarpið núna algjörlega án samhengis við þá umræðu sem er að fara í gang á þeim vettvangi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að Ríkisútvarpið verði hluti af þeirri heild. Í það minnsta viljum við — og það hlýtur að vera lágmarkskrafa — að ekki verði farið að breyta lögum um það fyrr en eftir að sú umræða hefur farið fram og settar hafa verið fram mótaðar skoðanir þannig að við getum séð hvernig Ríkisútvarpið fellur inn í þá mynd. Sem betur fer hefur náðst samkomulag og samstarf um að allir þingflokkar standi að þeirri vinnu. Við eigum eftir að sjá hvernig það kemur út.

Ég vara við þeim flumbrugangi að stíga þungt til jarðar á þessum tímapunkti. Við ættum að vinna að hugsanlegum breytingum á Ríkisútvarpinu samhliða því eða a.m.k. þegar við sjáum hvað kemur út úr fjölmiðlafrumvarpinu sem verið er að móta.

Núverandi ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins — það er ekki hægt að hlífa honum í því máli — er haldin þeirri áráttu að hlutafélagavæða eða selja þær ríkisstofnanir sem hægt er. Það er hin ráðandi pólitíska sýn — horft er fram til þess rekstrarforms sem hlýtur að vera lokatakmarkið, þ.e. að einkavæða þessar stofnanir ríkisins. Þegar verið er að tala um að ekki sé um einkavæðingu að ræða heldur sé verið að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins þá er það aðeins eitt skref á þeirri leið að einkavæða eða selja þessa mikilvægu stofnun okkar. Þannig hefur verið unnið og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, sú krafa er undirliggjandi og sú pólitíska skýra sýn er undirliggjandi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum henni algjörlega ósammála og þess vegna erum við m.a. hér á þingi.

Það er líka mikilvægt að hafa þessa framtíðarsýn ljósa og reyna að sporna við. Það er líka mikilvægt að styrkja lýðræðislega stjórnunarhætti og sjálfstæði Ríkisútvarpsins, bæði fjárhagslega og pólitískt. Ég tel að pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu hafi oft og tíðum verið fullmikil og að útvarpsráð hafi með ýmsum hætti haft afskipti af innri málefnum Ríkisútvarpsins sem það hefði mátt láta vera. En ef frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. verður að veruleika verður sú stofnun miklu pólitískari en hún er í dag. Í stað þess að styrkja lýðræðislega stjórnunarhætti og koma fleirum að ábyrgð innan stofnunarinnar mun útvarpsstjóri, eins og aðrir forstjórar þeirra stofnana sem hafa verið hlutafélagavæddar, verða allsráðandi hvað varðar mannaráðningar og í raun allsráðandi varðandi rekstur stofnunarinnar. Sá útvarpsstjóri mun heyra beint undir ráðherra sem hefur það hlutverk bæði að ráða og reka. Pólitískir straumar gætu því orðið mun þyngri en nú er og pólitísk afskipti af innri málefnum stofnunarinnar miklu sterkari. Það kemur ekki beint fram í frumvarpinu en þannig er það.

Það sem hefur háð Ríkisútvarpinu er fjárhagsvandi stofnunarinnar. Það er ekki einsdæmi að sú stofnun hafi liðið fyrir of naumt skömmtuð fjárframlög héðan frá hinu hv. Alþingi heldur á þetta við mjög margar ríkisstofnanir sem eru alveg að sligast undan þeim sparnaðarkröfum sem gerðar eru og án þess að nokkur breyting sé gerð á þjónustuhlutverki þessara stofnana. Mjög margar opinberar stofnanir eiga því í erfiðleikum með að uppfylla hlutverk sitt. Þetta er líka ein af þeim mörgu leiðum sem farnar eru til að brjóta hinn opinbera rekstur niður í það ástand að gerð er krafa um annaðhvort greiðsluþátttöku þeirra sem nota þjónustuna, þ.e. þjónustugjöld, skólagjöld eða sjúklingaskatta, það fer eftir því hvar þjónustan liggur, eða þá að dregið er úr þjónustunni og upp kemur sú krafa að stofnunin standi sig betur. Það sé þá ekkert annað að gera en að hlutafélagavæða hana, selja hana eða koma henni í annan rekstur. Það er því spurning um hvort ástandið í þjóðfélaginu, það spennuástand sem nú ríkir sem leiðir af sér aðhaldskröfur í opinberum rekstri, hvort það er hin raunverulega ástæða eða hvort hún er ekki tekin fegins hendi til að þjarma að opinberum stofnunum til að geta síðan með auðveldari hætti komið þeim úr beinum opinberum rekstri. Þetta sjáum við með Háskóla Íslands, hvernig samkeppnisstaða hans gagnvart Háskólanum í Reykjavík er orðin, hvað þetta misvægi er orðið mikið og krafan um að eitthvað þurfi að gera við Háskóla Íslands í staðinn fyrir að skoða hvernig gert er upp á milli þessara stofnana í rekstrarlegu tilliti.

Hér kom fram, hæstv. forseti, að ef við vildum ekki breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins væru þeir sem vildu halda núverandi rekstri að festast í fortíðinni. Ég tel að við sem viljum halda núverandi rekstrarformi séum að horfa til reynslu annarra þjóða og reynum að gera okkur grein fyrir því hvaða öfl liggja þarna að baki og reynum að horfa blákalt á þá staðreynd að þetta ferli sem byrjar núna með hlutafélagaforminu er bara spor í lengra ferli einkavæðingar núverandi ríkisstjórnar eða þeirra afla sem vilja að fjármagnið ráði frekar en ríkisreknar stofnanir og almannaheill. En það er ótvírætt að hlutverk Ríkisútvarpsins er margþætt og ég get fyrir mitt leyti tekið undir 3. gr. í II. kafla í frumvarpinu um útvarpsþjónustu í almannaþágu og þá þætti sem þar eru taldir upp. Þetta eru þættir sem eru erfiðir á samkeppnismarkaði og því getur Ríkisútvarpið, ef það á að standa undir nafni, ekki eða illa fallið að samkeppnismarkaði miðað við þá upptalningu sem hér er og við gerum kröfu til sem stofnunar.

Varðandi hlutverk útvarpsstjóra og þess hlutverks sem bíður hans að hafa þau völd að fara með ráðningarsamninga einn allra starfsmanna, þar með að semja um kaup og kjör því þá yrði stofnunin komin undan ákvæðum um opinbera kjarasamninga, þá hefur það gerst á undanförnum árum og kom berlega fram í úrskurði Kjaradóms varðandi laun og launahækkanir m.a. þingmanna sem verið var að afnema rétt fyrir helgi, að mikið launaskrið hefur orðið hjá opinberum stofnunum, ekki hjá lægst launaða fólkinu heldur hjá stjórnendum. Með því að hlutafélagavæða hverja ríkisstofnunina á fætur annarri og koma henni undan ákvæðum um laun og kjör opinberra starfsmanna og undir ákvörðun forstjóra til að semja um laun starfsmanna, þá hefur þessi þróun farið á flot. Ef Ríkisútvarpið bætist nú enn í þann hóp stofnana sem verða hlutafélagavæddar þá er þessi sama ríkisstjórn sem skildi ekkert í niðurstöðum og úrskurði Kjaradóms, hvernig hann gat orðið — það launaskrið sem er verða hjá stjórnendum í landinu stuðlar að því að viðhalda þessu launaskriði hjá stjórnendum stofnana í opinberum rekstri en undir því rekstrarformi sem býður upp á það. Ég held því að hæstv. ríkisstjórn ætti nú að skoða málið í þessu samhengi líka, að það sem hún hneykslast á og reynir að kveða niður, ýtir hún svo undir með því að breyta rekstrarformi stofnunarinnar.

Við gerum miklar kröfur til Ríkisútvarpsins og það þarf sannarlega að efla innlenda dagskrárgerð. Efla þarf málskilning og verndun íslenskrar tungu í gegnum Ríkisútvarpið. Það hefur Ríkisútvarpið reynt að standa vörð um en hefur því miður orðið að skera niður dagskrárliðinn Íslenskt mál, sem var hér til nokkurra tugi ára ásamt fleiri þáttum sem hafa verið menningartengdir, fyrir utan mikinn hug og áhuga margra starfsmanna Ríkisútvarpsins að standa sig betur í þessum málum en hafa ekki haft tækifæri til vegna þess að ekki er fjármagn til.

Ég hef áhyggjur af Rás 2 ef frumvarpið verður að lögum þar sem Rás 2 gæti flokkast undir það að vera inni á samkeppnismarkaði. Rás 2 heldur úti léttari dagskrá en Rás 1. Ég tel einboðið að það verði með fyrri verkum þessa hugsanlega nýja útvarpsstjóra eða stofnunar að leggja niður Rás 2. Mér finnst það skína í gegn og ef maður horfir blákalt á að stofnunin eigi eingöngu að sinna því sem ekki truflar samkeppni við aðrar stöðvar.

Aðeins nokkur orð um tekjustofna Ríkisútvarpsins hf. eins og lagt er til í frumvarpinu. Lagt er til að þetta verði nefskattur. Ég óska eftir að hæstv. menntamálanefnd fari mjög vel yfir það. Ég tel þetta ósanngjarnan skatt og legg til að hæstv. menntamálanefnd fari vel yfir frumvarp Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs þar sem við leggjum til að þetta fylgi íbúðum og teljum að þar náum við miklu réttlátari skattheimtu en að hafa þennan hugsanlega nefskatt.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. En mun fylgjast með framvindu málsins gegnum fulltrúa okkar í menntamálanefnd. Ég vona að menntamálanefnd taki sér góðan tíma til að fara yfir frumvarpið og fresti afgreiðslu málsins þar til nýtt frumvarp um fjölmiðla hefur litið dagsins ljós eða öllu frekar, taki þetta frumvarp inn í þá umræðu.



[20:40]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að því frumvarpi sem hér er til umræðu og þeim atriðum sem fram hafa komið í umræðunni í dag. Ég ætla þó ekki að fara ofan í einstök ákvæði frumvarpsins eða gera grein fyrir því í heild sinni vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur gert það og útskýrt frumvarpið á skýran og greinargóðan hátt.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég hygg að flestir þeir sem skoðun hafa á málinu séu sammála um að nauðsynlegt sé að breyta um rekstrarform á Ríkisútvarpinu. Það eru þó örfáir geirfuglar eftir sem halda vilja í núverandi ástand en mér sýnist þó, (Gripið fram í.) ég kem að því á eftir, að flestir séu nokkurn veginn sammála um að núverandi rekstrarfyrirkomulag gengur ekki. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til greinar sem birtist í Morgunblaðinu 19. janúar sl. sem skrifuð var af útvarpsstjóra, Páli Magnússyni.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Nú er rétt í þann mund að hefjast á Alþingi umræða um breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins á grundvelli frumvarps menntamálaráðherra þar að lútandi. Einhverjum kann í fljótu bragði að þykja sem þetta skipti ekki miklu máli, — formið sé aukaatriði en innihaldið aðalatriði. Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun.“

Og síðar í greininni segir útvarpsstjórinn, með leyfi forseta:

„Núverandi rekstrarform kemur beinlínis í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði rekið með skilvirkum og árangursríkum hætti.“ (Gripið fram í: Hvað kemur svo?)

Það er því ljóst að æðstu stjórnendur á Ríkisútvarpinu eru þeirrar skoðunar að verði haldið í núverandi rekstrarfyrirkomulag á Ríkisútvarpinu feli það í sér dauðann sjálfan fyrir Ríkisútvarpið. Ég hef tekið eftir því í umræðunni, m.a. frá hv. þm. Merði Árnasyni að Samfylkingin er hlynnt skipulagsbreytingum á Ríkisútvarpinu. Ég hef líka hoggið eftir því í umræðunni í dag að kallað hefur verið eftir samráði við hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarflokkana í sambandi við þetta mál. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað hafa kvartað mjög yfir því að þeir hafi ekki verið hafðir með í ráðum við samningu þessa frumvarps. Þá er nú einn vandi uppi og ég ætla að útlista hann núna. En það er nefnilega þannig að það er afskaplega erfitt að hafa samráð við stjórnarandstöðuna, stjórnarandstöðu sem samanstendur af þremur flokkum sem talar hver í sína áttina. Ég kom hér upp í umræðunni til að byrja með og fór í andsvör við leiðtoga og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna í þessu máli og spurði þá út í stefnu flokkanna varðandi Ríkisútvarpið. Hvað kom þar í ljós? Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður óbreytt ástand sem er reyndar sérstakt í ljósi þess að útvarpsstjórinn sjálfur hefur talið að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun. Það er því dálítið sérstakt í sjálfu sér að mæla samt sem áður fyrir því fyrirkomulagi. Engu að síður kom það fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að þetta væri stefna Vinstri grænna og undir það sjónarmið tók hv. þm. Þuríður Backman áðan.

Frjálslyndi flokkurinn hefur stefnu sem er í sjálfu sér held ég skynsamlegasta stefnan af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson opnaði alveg fyrir það hér í umræðunni að það væri kannski skynsamlegt að taka upp hlutafélagaformið. Hann vildi bara heyra nánari og sterkari rök fyrir því rekstrarfyrirkomulagi. Að öðru leyti fer stefna Frjálslynda flokksins algjörlega á skjön við stefnu VG í þessu máli.

Síðan er það Samfylkingin. Hv. þingmaður, leiðtogi og talsmaður Samfylkingarinnar í málefnum Ríkisútvarpsins, Mörður Árnason, upplýsti okkur um það í upphafi umræðunnar að Samfylkingin væri þeirrar skoðunar að breyta ætti Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun. Reyndar kom fram í umræðunni síðar að varaformaður og formaður Samfylkingarinnar höfðu lýst því yfir í fjölmiðlum um síðustu helgi að rekstrarfyrirkomulagið sé kannski ekkert sáluhjálparatriði, þau séu hugsanlega tilbúin til þess að opna augun fyrir hlutafélagaforminu að tilteknum ákveðnum skilyrðum. Maður veit því ekki alveg hvar Samfylkingin stendur í þessu.

Þegar maður ber saman stefnu stjórnarandstöðuflokkanna þá liggur það fyrir að stjórnarandstaðan er klofin í afstöðu sinni til þess með hvaða hætti á að reka Ríkisútvarpið. Það sem meira er, segja má að Samfylkingin ein og sér sé í rauninni líka klofin í afstöðu sinni til málsins, en hún verður að eiga það við sig. Hvað sem því líður er dálítið erfitt að eiga samráð við stjórnarandstöðu sem tekur afstöðu eins og þessa til svona mikilvægs máls, getur ekki komið fram undir einni stefnu og getur ekki komið sér saman um hver stefna flokkanna er til málsins. Ekki er líklegt að slíkt samráð skili miklum árangri þrátt fyrir að við í meiri hlutanum séum og höfum alltaf verið reiðubúin til þess að hafa samráð við stjórnarandstöðuna. Hins vegar hafa þau skilyrði sem stjórnarandstaðan hefur sett í málinu verið þannig að hún hefur krafist þess að á allar hennar kröfur verði fallist þegar kemur að Ríkisútvarpinu. Það hefur ekki verið gefið mikið svigrúm til málamiðlana í þessu sambandi. Þetta er nú svona. En ég ætla, til að flækja ekki umræðuna, að halda mig við það að Samfylkingin hafi þó þá stefnu að breyta beri Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun og ætla að koma að því á eftir.

Í umræðunni hefur verið vikið að sjónarmiðum mínum og stefnu minni gagnvart ríkisvaldinu og fjölmiðlum. Það hafa m.a. hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og Hlynur Hallsson gert. Og af því að ég veit að sumir þingmenn munu væntanlega spyrja mig út í mín fyrri orð varðandi ríkisvaldið og rekstur fjölmiðla ætla ég að stela af þeim glæpnum og fara aðeins yfir það.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og er það enn að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil, það er skoðun mín á málinu og hún er ekki ný. Ég hef talað fyrir þeirri skoðun minni á Alþingi og reyndar í opinberri umræðu og verið flutningsmaður að frumvörpum sem mæla fyrir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Þetta er ekkert leyndarmál og ég hef margoft verið spurður um þetta og stend við þá skoðun mína. Hins vegar hefur ekki verið pólitískur vilji innan Alþingis, hvorki meðal stjórnarflokkanna né annarra flokka á þingi eða í þjóðfélaginu fyrir því að einkavæða Ríkisútvarpið. Við skulum bara horfast í augu við það og gefa okkur þá staðreynd sem ég held að allir séu sammála um að meiri hluti þjóðarinnar vill halda í Ríkisútvarpið og að það verði áfram við lýði.

Að því gefnu að svo sé, að því gefnu að ríkið reki ríkisfjölmiðil hlýt ég að gera þá kröfu að rekstur hans sé í skynsamlegu formi og sé af einhverju viti, að Ríkisútvarpið sé rekið á skilvirkan og árangursríkan hátt. Ég verð að segja að þannig hefur það nú ekki verið upp á síðkastið. Við höfum horft á Ríkisútvarpið rekið með tapi ár eftir ár og ég bendi á grein Páls Magnússonar útvarpsstjóra um það að nauðsynlegt er að gera breytingar. Þá er spurningin: Hvaða breytingar eigum við að gera?

Farið hefur verið yfir meðferð þessa máls nokkuð ítarlega og rifjað upp að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin lagði fram frumvarp í fyrra um að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag. Við höfum fengið ábendingar eftir að það frumvarp kom fram frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem gerðar eru athugasemdir um að slíkt rekstrarfyrirkomulag brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki. Vegna þess að í sameignarfélagsforminu felst að hin ótakmarkaða ríkisábyrgð brjóti þessi ákvæði EES-samningsins. Það þurfti náttúrlega að taka afstöðu til þeirra athugasemda og ég hygg að það hafi hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin gert með skynsamlegum hætti og völdu þann möguleika sem í stöðunni var sem skynsamlegastur er, þ.e. að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Með þeirri breytingu er fallið frá hinni ótakmörkuðu ábyrgð á skuldbindingum Ríkisútvarpsins sem hefðu að öðru leyti gert það að verkum t.d. að Ríkisútvarpið gæti aldrei orðið gjaldþrota eins og getið er um í bráðabirgðaniðurstöðu ESA. En í sjálfu sér hefðu líka verið aðrar leiðir í stöðunni, það má alveg halda því fram. Hv. þm. Mörður Árnason hefur bent á að sjálfseignarstofnunarformið hefði getað komið til greina.

Að mínu mati er það sjónarmið, og ég hef sagt það, að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun, en ég er bara ósammála þeirri skoðun, ég er ósammála þeim hugmyndum, ég held að þær séu óskynsamlegar. Af hverju segi ég það? Ég hef varpað hér fram spurningum um hvers vegna menn telja sjálfseignarstofnunarformið skynsamlegra en hlutafélagaformið en ég hef ekki fengið nein svör við því. Samfylkingunni hefur gjörsamlega mistekist að benda á hvers vegna sjálfseignarstofnunarformið er skynsamlegra en hlutafélagaformið. Ég hef líka bent á að það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því þegar menn fara út í atvinnurekstur eða hafa breytt ríkisfyrirtækjum, hvort sem það er á Íslandi eða svo ég taki sem dæmi sænska ríkisútvarpið, finnska ríkisútvarpið eða það norska, að menn hafa valið hlutafélagaleiðina. Af hverju skyldi það vera að menn stofna hlutafélög eða einkahlutafélög utan um allan rekstur en sjálfseignarstofnanir spretta ekki upp á hverju horni? Af hverju skyldi það vera? Það er náttúrlega vegna þess að hlutafélagaformið er miklu heppilegra rekstrarform og það hefur gefist miklu betur í fyrirtækjarekstri en sjálfseignarstofnunarformið, það er alveg ljóst. Meira að segja Háskólinn í Reykjavík — sem hv. þm. Mörður Árnason benti á í útvarpsfréttum RÚV máli sínu til stuðnings um helgina sem dæmi um sjálfseignarstofnun — var sjálfseignarstofnun en hefur nú verið breytt í hlutafélag. Það er vegna þess að stjórnendur Háskólans í Reykjavík mátu það þannig og upplýstu menntamálanefnd um það þegar við vorum að ræða hér um sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands fyrir nokkrum mánuðum, að hlutafélagaformið væri einfaldlega hentugasta rekstrarformið fyrir fyrirtæki sem þessi. Það sama á náttúrlega við um Ríkisútvarpið.

Ég hlýt að kalla eftir því frá þeim sem telja að sjálfseignarstofnunarformið sé skynsamlegra en hlutafélagaformið, ég hlýt að kalla eftir röksemdum fyrir þeim sjónarmiðum sínum. Getur það verið að þeir sem tala fyrir sjálfseignarstofnunarforminu telji að lagaumgjörð eða löggjöf um sjálfseignarstofnanir séu t.d. fullkomnari en löggjöf um hlutafélög? Ég veit það ekki, en ég held að flestir lögfræðingar og þeir sem koma að rekstri fyrirtækja séu sammála um að hlutafélagalöggjöfin er miklu vandaðri, ítarlegri og skynsamlegri en sjálfseignarstofnunarlöggjöfin. Við vitum líka að dómstólar hafa held ég túlkað hvert einasta ákvæði, nánast hvern einasta stafkrók í hlutafélagalögunum, en það sama má ekki segja um sjálfseignarstofnanir, síður en svo. Ákvæði hlutafélagalaga eru líka miklu einfaldari og skýrari en ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir. Þar er kveðið skýrt á um réttindi og skyldur þeirra sem reka slíkar stofnanir, þar er kveðið mjög afgerandi á um stjórnir slíkra félaga, framkvæmdastjórn, hluthafafundi, réttindi hluthafa, skaðabótarétt og refsiábyrgð þeirra sem starfa innan hlutafélagsins.

Ég bendi enn og aftur á að það hlýtur að vera ástæða fyrir því, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að menn hafa í stórum stíl og stórkostlegum stíl valið hlutafélagaformið umfram sjálfseignarstofnunarformið og ekki bara á Íslandi heldur líka í löndunum í kringum okkur. (Gripið fram í.) Þess vegna kalla ég eftir því að þeir sem mæla fyrir því að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun rökstyðji almennilega hvers vegna þeir telja það félagaform heppilegra í rekstri sem þessum en hlutafélagaformið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég tel og er ekki í nokkrum vafa um að vilji menn á annað borð breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, sem ég veit að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill ekki gera en flestir aðrir hygg ég sem skoðun hafa á málinu vilja gera og þar á meðal yfirstjórn Ríkisútvarpsins, þá sé það langheillavænlegast fyrir alla sem að þessu máli koma að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Á því félagaformi hefur reynslan verið best. Það mun gera það að verkum að rekstri þess fyrirtækis verður væntanlega komið á einhverjar skynsamlegar nótur, hægt verði að hagræða í rekstri innan fyrirtækisins. Ég held einnig að með frumvarpinu sé verið, og það hefur verið svona eitur í mínum beinum, að slíta hin pólitísku áhrif stjórnmálaflokkanna í umræddri stofnun eða í þessu fyrirtæki frá því sem nú er.

Frú forseti. Ég held að ég láti þetta duga um málið.



[20:59]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skorti ekkert á dramatíkina í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Ég man ekki hvað hann sagði oft að sjálfur dauðinn væri vís ef Ríkisútvarpið mundi ekki skipta um rekstrarform. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Trúir hann því virkilega sjálfur að Ríkisútvarpið mundi deyja á morgun ef það verður ekki háeffað í hvelli?

Þingmaðurinn upplýsti okkur líka um prívatskoðanir sínar á Ríkisútvarpinu, það var mikið leyndarmál. Hann er sem sagt á þeirri skoðun enn og aftur að að selja eigi Ríkisútvarpið. En hann er búinn að átta sig á því að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar og sem betur fer meiri hluti þingmanna vill ekki selja Ríkisútvarpið en þá tekur hann næstskásta kostinn og vill að það verði hlutafélagavætt. Rökin eru þau að það sé svo miklu hagkvæmara rekstrarform og nefnir sem dæmi að Ríkisútvarpið hafi verið rekið margsinnis með halla.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér ekki grein fyrir því að Ríkisútvarpið hefur verið í fjársvelti og hefur ekki hlotið fjárframlög í samræmi við verðlagsþróun? Þetta er auðvitað grundvallarmálið. Við þurfum að auka fjármagnið til Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið er ágætlega rekið.

Ég efast um að dauðinn sjálfur sé vís jafnvel þó að við höldum Ríkisútvarpinu ríkisútvarpi. Ég vil einnig benda þingmanninum á að þó að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum halda þessu rekstrarformi erum við einmitt með tillögur, frumvarp til laga um breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins. Gott að lesa það.



[21:01]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hv. þingmanni fyrir að stíga hér upp í pontu með bindi í þetta skipti. Miklar framfarir af hans hálfu. (Gripið fram í.) En ég ætla nú að víkja að þeim spurningum sem hann varpaði að mér. Hv. þingmaður (Gripið fram í.) sakaði mig um að vera sérstaklega dramatískur vegna þess að ég talaði um dauðann í minni ræðu. Ég var nú bara að vísa í það sem útvarpsstjóri hefur skrifað um þetta mál, það var hann sem sagði að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun. Ég var nú bara að vísa það sem útvarpsstjórinn segir um þá leið sem flokkur hv. þingmanns leggur til að farin verði varðandi rekstur Ríkisútvarpsins.

Ég vék að mínum prívatskoðunum, það er alveg rétt. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi nú vikið að þeim hér í andsvari áðan við hv. þm. Hjálmar Árnason þannig að mér fannst rétt að sýna honum þá virðingu, hv. þingmanni, að reifa mínar prívatskoðanir til málsins. Ég hygg að ég hafi skýrt út skoðanir mínar varðandi ríkisvaldið og fjölmiðlarekstur. En ég verð að mótmæla því sem kom hér fram í máli hv. þingmanns um að Ríkisútvarpið hefði verið í fjársvelti. Hann spurði hvort ég vissi ekki af því. Ég verð að segja að fjölmiðill sem starfar á samkeppnismarkaði sem fær 2,3 milljarða í forskot umfram aðra fjölmiðla á þeim markaði í formi afnotagjalda sem að njóta lögveðs í öllum sjónvarpstækjum landsmanna, slíkur fjölmiðill er ekki fjársveltur. Þar fyrir utan aflar hann sér, held ég, 730 millj. kr. í formi auglýsingatekna og 92 millj. kr. í formi kostunar. (Forseti hringir.) Þetta er ekkert fjársvelti og komist fjölmiðillinn ekki af með þetta (Forseti hringir.) verður hann náttúrlega að sníða sér stakk eftir vexti.



[21:04]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit alveg að hv. þingmaður var að vitna í orð Páls Magnússonar. Hann endurtók það að minnsta kosti þrisvar sinnum í ræðu sinni. En hv. þingmaður svaraði hins vegar ekki spurningu minni. Spurningin var einföld. Trúir hv. þingmaður því að Ríkisútvarpið muni gefa upp öndina ef ekki verður breytt um rekstrarform? Ég þakka auðvitað hv. þingmanni fyrir að segja okkur sínar prívatskoðanir. Ég var alls ekkert að gera lítið úr því. Bara fínt að það komi fram að hann sé enn þá við sama heygarðshornið í því að vilja selja Ríkisútvarpið. Mér finnst nú samt að það gæti ákveðinnar vanþekkingar hjá hv. þingmanni að segja að Ríkisútvarpið sé með eitthvert forskot af því það fái pening með (Forseti hringir.) afnotagjöldum. Skyldur Ríkisútvarpsins eru nefnilega mjög miklar (Forseti hringir.) og það þarf að uppfylla þær.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að virða ræðutíma.)



[21:05]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við þurfum ekkert að vera að rífast um hvort Ríkisútvarpið njóti forskots gagnvart öðrum fjölmiðlum sem starfa á fjölmiðlamarkaði. Ég held að það sé alveg augljóst að þegar eitt fyrirtæki nýtur lögbundinna afnotagjalda sem eru tryggð með lögveði í öllum viðtækjum landsmanna hljóti það fyrirtæki að hafa ákveðið forskot á aðra sem starfa á þessum markaði. Við erum að tala um 2,3 milljarða sem þessu fyrirtæki eru tryggðir með núverandi kerfi. Varðandi það hvort ég telji að Ríkisútvarpið muni gefa upp öndina verði það ekki gert að hlutafélagi þá held ég að það mundi ekki gerast einn, tveir og þrír. Ég held að hlutafélagaformið við rekstur þessa fjölmiðils sé langskynsamlegast og miklu skynsamara en það fyrirkomulag sem hv. þingmaður talar fyrir vegna (Forseti hringir.) þess að það hefur leitt af sér margra ára taprekstur, því miður.



[21:06]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ein lítil leiðrétting. Það er misskilningur hjá hv. þm. Sigurði Kára að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji ekki gera breytingar á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Við höfum sett fram tillögur í frumvarpsformi þar að lútandi um breytta stjórnsýslu sem gerir hana markvissari og í senn lýðræðislegri. Við erum einnig með tillögur um breytta fjármögnun Ríkisútvarpsins svo annað dæmi sé tekið. Hlutafélög geta verið ágæt í sínu rétta umhverfi. Hvers vegna? Einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi gerir hlutafélagaformið það auðvelt að færa eignarhluti til. Í stað þess að eigendur þurfi að selja fyrirtæki á markaði í einum bita opnar hlutafélagaform inn á meiri möguleika á tilfærslu á eignum. Í annan stað getur hlutafélagaformið verið gott ef opna á fyrir aðhald frá hluthöfum, aðhald á markaði. Hvers vegna? Jú, að þeir sem eigi fyrirtækið geti þar reist kröfur á hluthafafundum og með eftirliti um að jafnvel verði unnið að því að tryggja þeim hámarksarð af þeirra eign. Þetta eru kostirnir við hlutafélagaformið. Hins vegar er það óskiljanlegt að búa til hlutafélag þar sem hluturinn er einn og þeir kostir sem liggja að baki hlutafélagshugsuninni eru ekki fyrir hendi. Ég skil þá mætavel sem vilja gera, hvort sem er þessa stofnun eða aðrar, að hlutafélagi til að selja þær eða færa þær út á markaðinn. Það er skiljanlegt. Þetta er hins vegar fullkomlega óskiljanlegt vegna þess að þetta nýtir ekki þá kosti sem hlutafélagaformið býður upp á.



[21:08]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ósköp vel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur um ýmsar breytingar á Ríkisútvarpinu. En ég get ekki séð að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi lagt til breytingar á því rekstrarformi sem Ríkisútvarpið er rekið í. Það kom beinlínis fram í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman að svo væri ekki. Að Vinstri hreyfingin – grænt framboð legði til óbreytt rekstrarform. Hlutafélagaforminu fylgja ýmsir aðrir kostir en það sem varðar tilfærslu á eignum. Við vitum það líka að hlutafélagaformið getur hentað mjög vel í rekstri þar sem hluthafinn er einn. Hefur það t.d. verið talið sérstaklega óheppilegt fyrir Íslandspóst að hafa þar einn hluthafa? Eða Flugstöð Leifs Eiríkssonar? Ég hygg að ríkið sé eini hluthafinn þar. Aðalatriðið er að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er verið að einfalda mjög rekstur þess og yfirstjórn. Þá mun yfirstjórn Ríkisútvarpsins fara eftir því sem segir í hlutafélagalögum sem gríðarleg reynsla er komin á og við þekkjum og atvinnulífið þekkir og allir þeir sem þar hafa starfað. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og miklu betur en sjálfseignarstofnunarformið mundi gera. Ég hygg að ef Ríkisútvarpinu yrði breytt í sjálfseignarstofnun þyrfti að setja sérlög um Ríkisútvarpið og (Forseti hringir.) starfsemi þess sem sjálfseignarstofnunar.



[21:11]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er sjálfsagt að íhuga hvernig þau sérlög yrðu. Sjálfsagt að íhuga þann kost. Ég held að það hafi ekki verið skynsamlegt að gera Flugstöð Leifs Eiríkssonar að hlutafélagi. Ég hefði haldið að sannir markaðssinnar, sannir samkeppnissinnar, frjálshyggjumenn, hefðu valið aðra hugsun, haft skelina, skurnina í eigu ríkisins og þá einkavætt innvolsið ef menn á annað borð eru á þeim buxunum. Ég held að þetta hafi ekki verið hyggilegt. Ég held nefnilega að menn séu að fara út á þessa braut að vanhugsuðu máli í allt of mörgum tilvikum. Því miður held ég að það sé að gerast. Ég held að það hafi heldur ekki verið hyggilegt varðandi Íslandspóst. Það er alveg rétt að við erum ekki að leggja til að rekstrarforminu verði breytt í þeim skilningi að stofnunin verði ekki opinber stofnun, við erum á því máli. En við gerum hins (Forseti hringir.) vegar tillögur um grundvallarbreytingar á starfseminni til að ná þeim markmiðum sem við eigum öll í sameiningu að vera að ræða í stað (Forseti hringir.) þess að gera formið að trúaratriði eins og ríkisstjórnin gerir.



[21:12]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef einhverjir eru sannkristnir eða sanntrúaðir varðandi formsatriði þá held ég að það sé Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Það virðist vera af trúarástæðum sem sá ágæti stjórnmálaflokkur treystir sér ekki að styðja að ríkisstofnunum sé breytt í hlutafélag (Gripið fram í.) en ekki af einhverjum rökréttum ástæðum. Nei, hv. þingmaður, ég get ekki séð að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi fram til þessa náð að færa fram frambærileg rök gegn hlutafélagaforminu, hvorki hvað varðar þetta atriði og þetta frumvarp eða Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða hvað það er. Hlutafélög hafa fram til þessa verið skammaryrði í munni hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þið hafið nánast af trúarástæðum, (Forseti hringir.) hv. þingmenn, verið á móti þessu félagaformi og óttast að það leiði til endalausrar einkavæðingar, sem er rangt.

(Forseti (JóhS): Forseti áminnir þingmenn enn einu sinni að virða ræðutímann.)



[21:13]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að fara í þessa „jú víst, jú víst“-umræðu um hlutafélög og önnur rekstrarform að sinni. Á hér eftir eina ræðu með skertum tíma og kann að nota hana að einhverju leyti til þess. Verð þó að segja í tilefni af fyrsta andsvarinu hér áðan að það er auðvitað út í hött að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tali um hallann eins og hann sé tilkominn af vondum rekstri á Ríkisútvarpinu. Það getur vel verið að það sé ekki góður rekstur á Ríkisútvarpinu. En hallann, hann ákveður hv. þm. Sigurður Kári Kristánsson hér sjálfur með því að samþykkja fjárlögin því hann er tiltekinn í fjárlögunum hverju sinni. Hv. þingmaður getur skoðað það aftur í tímann. Það stendur: Hallinn skal vera þessi og hallinn skal vera þessi og rekstrarniðurstaðan skal vera þessi. Því er stjórnað að forminu til hér á Alþingi. Því er stjórnað með atkvæði Sigurðar Kára Kristjánssonar hver hallinn er á Ríkisútvarpinu. Þannig er nú það, eins heimskulegt og það er. Mig langaði að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson úr því að hann er tekinn hér upp á gömlum sið — sjaldan bregður mær vana sínum, eins og sagt var í ævintýrinu — að lesa upp úr greinum. Hann hefur mikið lesið upp úr grein eftir Pál Magnússon. En aldrei endinn á þeirri grein sem er svona, með leyfi forseta:

„Utan við efni frumvarpsins — en engu að síður óaðskiljanlegur hluti af formbreytingu Ríkisútvarpsins — er lausn á fjárhagsvanda þess. Stofnunin hefur verið rekin með miklu tapi mörg undanfarin ár og er nú svo komið að allt eigið fé hennar er uppurið og eiginfjárstaðan orðin neikvæð. Við eðlilegar aðstæður ætti eiginfjárhlutfallið að vera 20–40%. Til samanburðar má geta þess að eiginfjárhlutfall NRK“ — norska ríkisútvarpsins — „er um 50%. Það verður að treysta því að ríkisstjórn og Alþingi búi þannig um hnútana við formbreytinguna að hinu nýja félagi verði kleift að sinna þeim skyldum og gegna því mikilvæga hlutverki sem því er ætlað.“ Og spurningin er: Hvað hefur menntamálaráðherra hæstv., ríkisstjórnin hæstv. og Sigurður Kári Kristjánsson hv. þm. gert til þess að þetta gangi upp?



[21:16]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra og ég mun þá væntanlega í framhaldinu stuðla að til þess að því markmiði sem hv. þingmaður lýsti og las upp úr ræðu útvarpsstjóra er akkúrat þetta frumvarp, að koma félaginu í eitthvert rekstrarumhverfi sem gengur þannig að hægt sé að reka þetta fyrirtæki skynsamlega. Ég held að við hv. þm. Mörður Árnason séum sammála um að nauðsynlegt sé að gera þarna skipulagsbreytingar. Yfirstjórn Ríkisútvarpsins er allt of víðfeðm og kostnaðarsöm og það er ástæða til þess að gera þær breytingar sem munu leiða til þess að reksturinn verði skynsamlegri og hagkvæmari.

Ég hygg að greinarhöfundurinn muni koma að máli við hv. menntamálanefnd og þar förum við yfir þessi mál. Ég er svo sem ekki með einhver konkret svör við því hvernig eigi að leysa úr þeim vanda sem hv. þingmaður er nú að reyna að klína á mig og stjórnarmeirihlutann. Gott og vel, hann getur gert það. En auðvitað munum við fara yfir þessi atriði. Þetta er ágætisábending og það verður tekið tillit til hennar.



[21:17]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Það er bara þannig, forseti, að menn sem vitna í greinar verða að vitna í allar greinarnar og vera reiðubúnir að svara út úr í þeim biblíutexta sem þeir vitna í. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur ekki nokkra einustu lausn á því sem Páll Magnússon hefur beðið um í hverri einustu grein sem hann hefur skrifað nú í þrjá eða fjóra mánuði. Hann byrjar þær með því að segja að hann vilji formbreytinguna og síðan segir hann: En formbreytingin er lítils virði ef það á að skilja mig eftir með það tapfyrirtæki sem ég hef hér í höndunum.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki svarað þessu einu orði. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, ekki heldur. Hann segir: Já, ég ætla að diskútera það við greinarhöfundinn í menntamálanefnd. Það er bara ekki nægt svar. Það sem gerist hér og hefur verið bent á og hefur ekki verið svarað enn og ekki hrakið, er að Ríkisútvarpið verður að Ríkisútvarpi hf. ef menn ná fram þessum vilja sínum þannig að lánardrottnar þess geta í raun og veru — það er auðvitað teóría en hún getur orðið praxís — gengið að Ríkisútvarpinu hf. á fyrsta degi og gert það gjaldþrota. Þannig er það.

Meira að segja hv. þm. Hjálmar Árnason talsmaður Framsóknarflokksins hér í umræðunni hélt að það væru 5 milljarðar sem menntamálaráðherrann væri að koma með. Það reyndust vera fimm aurar.



[21:19]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. á þskj. 517. Það er mál 401. Það hafa verið afar frjóar og góðar umræður um þetta mál í dag og munu þær án ef halda áfram. Gríðarlega mikið af góðum athugasemdum hafa komið frá stjórnarandstöðunni við þetta mál sem hæstv. menntamálaráðherra lagði hér fram.

Við vitum það öll og erum sammála um það að mikilvægt er að breyta lögum um Ríkisútvarpið og um það hefur verið þó nokkur sátt og lengi verið eftir því kallað til þess að Ríkisútvarpið eigi hægar um vik að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem við búum við í dag. Fjölmiðlaumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og því mikilvægt að skoða Ríkisútvarpið, stöðu þess og hlutverk í því samhengi. Því hefði verið skynsamlegast og best að taka umræðuna um RÚV samhliða umræðunni um ný fjölmiðlalög. Það hefur farið fram mjög djúp og mikil umræða, þverpólitísk, í svokallaðri fjölmiðlanefnd um ástandið á fjölmiðlamarkaðnum. Því hefur maður undrast hvers vegna Ríkisútvarpið og málefni þess og hlutverk og framtíð hafi ekki verið rædd í því samhengi.

Virðulegi forseti. Um frumvarpið sem hér liggur fyrir verð ég að segja að það veldur gríðarlegum vonbrigðum. Margt í því veldur því að maður verður fyrir vonbrigðum eftir allan þann tíma sem vinna við þetta mál hefur tekið. Ég vil tæpa hér á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi veldur mestum vonbrigðum að hinum beinu pólitísku áhrifum á stjórn Ríkisútvarpsins sem hafa tíðkast hingað til er gefið framhaldslíf. Þessum pólitísku áhrifum er gefið framhaldslíf í frumvarpinu. Við vitum að á undanförnum árum hefur skipan útvarpsráðs og samsetning þess verið gagnrýnd harðlega og hef ég og fleiri tekið undir þá gagnrýni. Þess vegna veldur það gríðarlegum vonbrigðum að sjá það hér að stjórn hins nýja hlutafélags, Ríkisútvarpsins hf., eigi að vera fimm manna stjórn hlutfallskosin frá Alþingi. Þetta þýðir í raun að þarna er bara verið að fækka í gamla útvarpsráðinu, þ.e. það er verið að fækka þar niður í fimm, en samsetningin hlutfallslega verður sú sama, þ.e. þrír frá meiri hluta og tveir frá minni hluta.

Annað í þessu samhengi um framhaldslíf hinna pólitísku áhrifa ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi og sitjandi menntamálaráðherra hverju sinni er staða útvarpsstjórans í þessu frumvarpi, þ.e. að útvarpsstjóri búi við það í sínum störfum að vera ráðinn og rekinn af stjórn Ríkisútvarpsins. Mér finnst, virðulegi forseti, það mjög sérkennileg niðurstaða hæstv. menntamálaráðherra að setja útvarpsstjórann í þessa stöðu og í rauninni hamla starfsfrelsi og möguleikum útvarpsstjóra hverju sinni til þess að innleiða nýja strauma og stefnur og að vera laus við hugsanleg pólitísk afskipti, af því að auðvitað er settur klafi á menn í störfum þeirra með þessu fyrirkomulagi.

Ég tel eðlilegra að fara þá leið sem hv. þm. Mörður Árnason kynnti hér í dag, þ.e. að stjórnin yrði hugsanlega frekar sjö manna og þá yrði bætt inn ís hana við þessa fimm sem nú er gert ráð fyrir tveimur frá starfsmönnum. Þetta tel ég að gæti orðið lýðræðislegra. Þá yrði menntamálaráðherra og þingmeirihluti hans hér ekki með hreinan meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég tel að þetta væri lýðræðislegri leið í starfsemi útvarpsins og að þarna gæti orðið raunveruleg samræða og miklu frjórri umræða en ella um útvarpið sjálft í stað þess ef menn koma beinlínis með skipanir úr ráðuneytinu inn í þessa stjórn.

Til þess að útvarpsstjóri sæti á friðarstóli, hefði frið fyrir afskiptum ráðherra og þingmeirihluta hverju sinni teldi ég það mjög álitlegan kost ef útvarpsstjóri væri skipaður til fimm ára eins og þjóðleikhússtjóri. Þá hefði hann þessi fimm ár til þess að sinna sínu starfi, setja mark sitt á það og hefði ákveðið frelsi.

Ég tel að framkvæmdarvaldið hafi allt of mikil áhrif í þessu frumvarpi miðað við það sem ég hef sagt hér og það veldur mér verulegum áhyggjum, virðulegi forseti, því að markmiðið með jafnróttækum breytingum á lögum um Ríkisútvarpið og hér eiga að verða, á auðvitað að vera að skapa sátt um útvarpið og eyða tortryggni sem hefur skapast á undanförnum árum, tortryggni um pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Þessari tortryggni er alls ekki eytt hér vegna þeirrar stöðu sem útvarpsstjóra er sköpuð í frumvarpinu. Ég tel þetta ekki sanngjarnt gagnvart útvarpsstjórum framtíðarinnar. Þeir þurfa að geta unnið sína vinnu í friði fyrir afskiptum þingmeirihluta hverju sinni og ráðherra hverju sinni. Ég tel þetta mikilvægt lýðræðinu og tel að um Ríkisútvarpið eigi að ríkja friður, um starfsemi þess, og að það eigi að vera laust við alla tortryggni. Mér þætti afar vænt um að heyra viðhorf ráðherra til þessara tveggja hugmynda, þ.e. að við bættust tveir fulltrúar starfsmanna í þá stjórn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og síðan og kannski ekki síst að útvarpsstjóri yrði skipaður í ákveðinn árafjölda, t.d. fimm ár eins og þjóðleikhússtjóri.

Virðulegi forseti. Aðeins um rekstrarformið. Hér er verið að leggja til mjög róttækar breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það er verið að háeffa Ríkisútvarpið. Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef ekki fundið rök fyrir því, hvorki í greinargerð né í ræðu menntamálaráðherra eða annarra sem hér hafa talað af hálfu þingmeirihluta, hvers vegna sjálfseignarstofnun hefur verið hér slegin út af borðinu. Ég tel líka að framsóknarmenn sem létu hvað hæst gegn hlutafélagavæðingu RÚV í fyrra, eða fyrir nokkrum mánuðum síðan, þurfi að svara því skýrar hvers vegna hlutafélagaformið var tekið fram yfir sjálfseignarformið. Sjálfseignarformið hefur gefist mjög vel þar sem það hefur verið nýtt til almannaþjónustu, þjónustu sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Við höfum mýmörg glæsileg dæmi um þess konar stofnanir í samfélagi okkar, t.d. á sviði mennta og líka heilbrigðismála eins og hefur verið rakið hér ágætlega fyrr í dag. Vil ég í þessu sambandi t.d. nefna Viðskiptaháskólann á Bifröst sem er mjög gott dæmi um velheppnaða sjálfseignarstofnun þar sem reksturinn er sjálfstæður og frelsi innan stofnunar er mikið til rekstursins þannig að sveigjanleiki er töluverður.

Virðulegi forseti. Einhver sagði hér fyrr í dag að það væru trúarbrögð hjá Sjálfstæðisflokknum að háeffa Ríkisútvarpið og að nú hafi Framsóknarflokkurinn tekið þá trú. Ég get tekið að mörgu leyti undir þetta. Svona lítur þetta út vegna þess að rökin fyrir háeffun umfram sjálfseignarstofnunarformið sem við þekkjum og hefur nýst vel í okkar samfélagi eru ekki beint að þvælast fyrir manni, hvorki hér í umræðunni né heldur í greinargerð með frumvarpinu.

Frú forseti. Það er mín skoðun að við eigum að reka hér öflugt almannaútvarp og öflugt Ríkisútvarp til framtíðar. Ég verð að nefna það hér að þó svo að það standi í frumvarpinu að bannað sé að selja Ríkisútvarpið tel ég að öryggi Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps yrði betur tryggt og að það verði áfram í ríkiseigu, ef t.d. væri sett ákvæði inn í frumvarpið um að það þyrfti aukinn meiri hluta til að samþykkja sölu á því, ef það kæmi einhvers staðar skýrt fram.

Og vegna þess að hér hefur þetta rekstrarform verið valið, hlutafélagaform, þá finnst mér afar slæmt að í frumvarpinu séu ekki nein skilyrði um upplýsingaskyldu. Á slíku er tekið í frumvarpi sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lagt fram um hlutafélög í opinberri eigu sem ég tel mikilvægt að sé rætt samhliða þessu máli og tel að það frumvarp eigi mikið erindi inn í þessa umræðu um Ríkisútvarpið hf.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur önnur atriði sem ég vil koma inn á í ræðu minni. Meðal annars verð ég að segja að það er margt opið í þessu frumvarpi og margt sem má setja spurningarmerki við. Ég hnaut t.d. um textana í 4. og 5. gr. frumvarpsins, um aðra starfsemi og fjárhagslegan aðskilnað. Mér finnst ekki skýrt í frumvarpinu hvað ríkisfyrirtækinu RÚV hf. verði heimilt að gera umfram skilgreininguna á hlutverki þess sem almannaútvarps. Miðað við textana hér virðist nánast allt leyfilegt ef fjárhagur þess verkefnis verður aðskilinn frá rekstrinum sem snýr að almannaútvarpi og skyldum þess samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Þetta finnst mér óskýrt og það er óskýrt hvaða samkeppnisrekstur RÚV má fara í og hvað þingmeirihlutinn og ráðherra telur eðlilegt, hvort eðlilegt sé að setja þessu einhver mörk eða á þetta að vera alveg opið? Er hér átt við áframhaldandi sölu á T-bolum á netinu eða er verið að tala um hugsanlega sölu á sjónvarpstækjum í framtíðinni? Mér finnst þetta ekki skýrt, það er ekkert í þessu frumvarpi sem segir neitt til um það. Hér mætti skýra betur hvað átt er við og sömuleiðis hvort menn telji eðlilegt að þarna verði sett einhver mörk.

Það hefur farið fram afar góð umræða um innlenda dagskrárgerð hér í dag og í því samhengi hefur verið spurt hvert markmiðið með rekstri almannaútvarps eigi að vera, hvort það eigi að vera áframhaldandi erlent afþreyingarefni þar sem er bein samkeppni um áhorf á því sviði við aðrar einkareknar sjónvarpsstöðvar. Hér hefur verið gerð krafa um að hlutfall innlendrar dagskrárgerðar verði skilgreint í nýjum lögum. Mér finnst það athyglisverð hugmynd og mér finnst við eigum að ræða þá hugmynd frekar og að nefndin eigi að taka hana til ítarlegar umræðu innan nefndarinnar þegar málið kemur þangað.

Það er mín skoðun að þegar Ríkisútvarpið er tekið til svona gagngerðrar endurskoðunar og gagngerðrar breytingar eigi að nota tækifærið og blása til sóknar í innlendri dagskrárgerð, svo sem barnaefni, menningarefni og fréttatengdu efni. Ég tek undir með þeim sem um það hafa rætt hér í dag og vil sjá skýrari sýn í þessum málum. Við erum með tækifæri í höndunum til þess að blása til sóknar í þeim efnum og byggja undir vandaða íslenska dagskrárgerð til framtíðar og ég tel það ekki vera gert með þessu frumvarpi og hefði viljað sjá fram á aukin tækifæri í þeim efnum vegna þess að auðvitað eigum við að nýta Ríkisútvarpið til þess. Við erum með frábært tæki í höndunum, vel menntað og reynslumikið starfsfólk, við erum með tækin og aðstöðuna og annað og því ætti að koma skýrari sýn í þessum efnum samhliða því frumvarpi sem nú er til umræðu.

Virðulegur forseti. Ég get ekki lokið ræðu minni öðruvísi en að nefna nefskattinn sem áætlað er að leggja á okkur Íslendinga. Þetta finnst mér arfavond hugmynd og þetta getur leitt til mikils álags á stórar fjölskyldur þar sem ungmenni yfir 16 ára aldri eru í heimahúsum. Ég verð að segja að þetta er að mörgu leyti dæmigert fyrir ríkisstjórnina vegna þess að álögur á fjölskyldur í landinu eru að aukast og aukast. Það eru leikskólagjöld upp að 6 ára aldri. Síðan eru skertar barnabætur frá 7 ára aldri og nú á nefskattur vegna RÚV að leggjast á fjölskyldur þegar börnin eru orðin 16 ára. Mér líst afar illa á þessa hugmynd, það er ekki hægt endalaust að bæta kostnaði á fjölskyldur. Ég tel að það sé kominn tími til að þessu linni. Þetta er hluti af fjölskyldupólitíkinni sem hér er rekin en þetta er ekki sú fjölskyldupólitík sem menn tala fyrir á hátíðarstundum. Hér er beinlínis verið að leggja auknar álögur á fjölskyldur sem eru með 16 ára og eldri ungmenni í heimahúsum og það líst mér afar illa á.

Virðulegi forseti. Að lokum hefði ég viljað sjá að hér væri verið að búa til ramma utan um sjálfstætt kraftmikið almannaútvarp með skýr markmið og hlutverk og, eins og ég nefndi hér áðan, að gengið væri í þá átt að styrkja innlenda dagksrárgerð með skýrari hætti en gert er. Þetta frumvarp uppfyllir ekkert af þessu og ég tel að pólitísk afskipti verði of mikil ef þetta frumvarp verður að veruleika. Ég tel sömuleiðis, virðulegi forseti, að taka hefði átt á málum heildrænt og í samhengi við þá miklu vinnu sem hefur unnin hefur verið varðandi fjölmiðla í fjölmiðlanefndinni, það hefði verið langskynsamlegast að gera það þannig og við hefðum að mínu mati fengið mun betra frumvarp út úr því. En hér hefur farið fram mjög góð umræða og mjög margar góðar tillögur og hugmyndir til breytinga á frumvarpinu hafa komið fram. Ég vona svo sannarlega að nefndin taki tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram í dag áður en málið kemur aftur til 2. umr. Virðulegi forseti. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. menntamálaráðherra og sömuleiðis fulltrúum meiri hlutans í menntamálanefnd hvort þeir séu opnir fyrir breytingum á frumvarpinu, t.d. þeirri hugmynd að útvarpsstjóri verði skipaður til fimm ára eins og þjóðleikhússtjóri og hvort þeir séu til viðræðu um að stækka stjórnina og hleypa starfsmönnum þar að.



[21:39]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. menntamálaráðherra til laga um Ríkisútvarpið hf. Ég ætlaði að beina nokkrum spurningum til hæstv. menntamálaráðherra í andsvörum í dag en því miður var eftirspurnin meiri en framboðið af andsvaratíma þannig að ég komst ekki að en ég vildi gjarnan að hæstv. menntamálaráðherra yrði viðstödd þannig að ég gæti beint til hennar nokkrum spurningum.

(Forseti (JóhS): Forseti skal gera ráðstafanir til að ná til hæstv. menntamálaráðherra.)

Ég veit ekki almennilega hvar ég á að byrja en það er kannski rétt að geta þess að ég hef flutt frumvarp ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni um sama efni og ég fór fram á það við forseta Alþingis að þessi mál yrðu rædd saman en það var ekki við það komandi þó að mitt frumvarp hafi verið lagt fram fyrr, hafi númer 54 og fjalli um nákvæmlega sama efni, þ.e. Ríkisútvarpið, nema það gengur eilítið lengra, það gengur út á að selja það og ég vildi gjarnan bera þetta saman.

Þá er hæstv. menntamálaráðherra komin í salinn og ég vil beina til hennar nokkrum spurningum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra taki til máls hér á eftir.

Í fyrsta lagi: Af hverju á ríkið að reka fjölmiðla? Þetta er einföld spurning, af hverju á ríkið að reka fjölmiðla, af hverju rekur það ekki dagblöð, bókaútgáfu eða netmiðla o.s.frv.?

Í öðru lagi: Af hverju er þessi oftrú á ríkið? Við erum búin að sjá að það gengur ljómandi vel með bankana. Einu sinni héldu menn að engir nema opinberir starfsmenn gætu afgreitt peninga yfir diskinn. Svo var það afsannað með því að selja báða ríkisbankana og eiginlega þrjá og þetta gengur bara ljómandi vel, hagnaður hefur aldrei verið meiri og laun starfsmanna aldrei hærri. Starfsmennirnir græða ekki hvað síst á því að fyrirtæki séu tekin úr ríkiskrumlunni.

Í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra segir í 1. gr. að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt hlutafélag. Hvernig getur það verið sjálfstætt þegar það er í eigu ríkisins sem er eini eigandinn og það má ekki selja það og meira að segja stjórnin er kosin með furðulegum hætti? Til þess að uppfylla skyldu hlutafjárlaga skal kjósa stjórn á aðalfundi en sú stjórn skal vera kosin af Alþingi áður. Hvers lags kosning er það? Þetta er ekki sjálfstætt hlutafélag fyrir tíu aura þegar þessi eini hluthafi verður að kjósa ákveðna stjórn sem er ákveðin fyrir fram. Þá er það engin kosning. Ég geri athugasemd við að þetta sé sjálfstætt hlutafélag enda er stjórnin náttúrlega kosin af Alþingi og það er pólitísk stjórn og verður ætíð pólitísk stjórn, nákvæmlega eins og útvarpsráð er í dag þar sem einn eigandi á Ríkisútvarpið og stýrir því og setur bara sína skoðun, hina viðteknu pólitísku skoðun á oddinn, sem þingmenn á Alþingi koma sér saman um. Það er erfitt fyrir nýjar skoðanir að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi.

Síðan stendur hér í 4. gr.:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.“

Ef einn starfsmaður kann að kokka þá þarf endilega að nýta þá þekkingu, til að hafa matsölustað eða hvað? Þetta getur farið út um víðan völl, t.d. að gera við útvarpstæki og sjá um rafeindabúnað fyrir ratsjárstöðvar og ég veit ekki hvað. Þetta er því galopið ákvæði.

Ég spyr: Af hverju þarf þetta að vera svona galopið? Á ríkið að fara að þenja sig yfir öll svið eins og hefur sýnt sig í mörgum ríkisfyrirtækjum eða opinberum fyrirtækjum eins og Orkuveitu Reykjavíkur sem fór í Línu.Net öllum til ófarnaðar?

Svo stendur hér í 7. gr.:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar.“

Það er að segja tækjabúnað sem er fjármagnaður með ríkisfé, það á að vera hægt að leigja hann hverjum sem er. Hvar er samkeppnin, hvar er samkeppnisandinn?

Svo stendur hér dálítið merkilegt í 8. gr. sem er í mótsögn við það sem er í öðrum ríkisfyrirtækjum sem er búið að hlutafélagavæða:

„Menntamálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu hf.“

Hvernig stendur á þessu? Af hverju fer fjármálaráðherra ekki með þetta nákvæmlega eins og hann fór með það í Landssímanum og annars staðar með þeim rökum að Landssíminn væri í samkeppni við aðra á sínu sviði og sami ráðherra þyrfti að úrskurða? Hvernig getur menntamálaráðherra úrskurðað í deilumáli milli Ríkisútvarpsins og t.d. 365 ljósvakamiðla þegar hann á og fer með eignarhlutinn? Það held ég að gangi illa. Hann hlýtur að halda með sínu félagi.

Það er dæmalaust, þetta með stjórnina, en ég er búinn að nefna það. Varðandi réttindi starfsmanna er lítið sagt um lífeyrisskuldbindingar, þ.e. hvort þær fari yfir í nýja fyrirtækið. Ég ætla að spyrja að því. Þær geta vaxið óheyrilega eftir á. Ekki er tekið á því hvað gerist ef laun í landinu halda áfram að hækka, ef guð lofar, og lífeyrisskuldbindingarnar snarvaxa. Þær byggjast á launum eftirmanns. Hvað gerist þá með Ríkisútvarpið? Ætlar ríkið að standa við þær skuldbindingar eða á hlutafélagið að gera það? Þetta er óljóst.

Samkvæmt reglunum á stjórnin að taka ákvörðun um lánaskuldbindingar og annað slíkt. Hvað gerist ef hún gerir mistök, eins og gerist í öllum rekstri? Hvað ef hún gerir einhverja vitleysu? Hvað ef hún kaupir eitthvað á borð við Línu.Net og fyrirtækið færi á hausinn? Hvað þá? Hvað gerist með hlutafélag sem ríkið eitt á þar sem Alþingi tilnefnir alla stjórnarmennina óbeint? Hvað gerist ef það fer á hausinn eins og allur rekstur getur gert? Til þess höfum við hlutafélagaformið að þá er það undir eigandanum komið. En hvað skyldi gerast með þetta Ríkisútvarp hf. varðandi almannaheill o.s.frv. sem menn tala um?

Ég ætla rétt aðeins að ræða um tekjustofninn. Ég hef gert tillögu um aðra aðferð í frumvarpi mínu sem ég hefði gjarnan viljað ræða samhliða. Hér er gert ráð fyrir að binda skattinn við 13.500 kr. á ári og það sé tengt gjaldi til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við skulum hugsa okkur að einhver fari að stúdera skattalögin og kanna svona skatta. Hann skoðar skattalögin, eignarskatt o.s.frv. og sér að það er t.d. enginn eignarskattur. Hvernig skyldi honum detta í hug að leita í lögum um útvarpið til að finna skattstofn? Þar er vísað í lög um Framkvæmdasjóð aldraðra. Hvernig skyldi honum detta í hug að leita þar að uppruna gjaldsins? Þetta er ekki hrein lagasetning.

Lögin um Ríkisútvarpið hf. eru ekki skattalög. Það er alveg á hreinu. Gjaldið sem hér er lagt til er sérstakur skattur með sérinnheimtu. Hann er ekki eins og gjaldið til Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þess að fyrirtæki eiga að greiða þennan skatt. Þau greiða ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra. Að öðru leyti er gjaldið eins. En þessi breyting kallar á að búa þarf til sérstakt innheimtukerfi fyrir þau 20 þús. fyrirtæki sem eiga að fara að borga útvarpsgjald. Þá fer að gerast dálítið skrýtið. Þessi 20 þús. fyrirtæki, sem mörg hafa nánast engan rekstur, engan starfsmann og engan til að hlusta á þessa músík eða hlusta á Ríkisútvarpið, hvernig halda menn að þeim lítist á að borga gjald til Ríkisútvarpsins, fyrirtækjum sem hafa ekkert útvarp og enga starfsmenn? Ekki hlustar fyrirtækið sjálft á útvarpið eða horfir á sjónvarpið? Það þarf starfsmenn til þess eða einhverja persónur. Ég er hræddur um að það hvíni í einhverjum og að þetta verði hugsanlega skoðað af einhverjum, af hverju fyrirtæki eiga að borga skatt til Ríkisútvarpsins þar sem enginn starfsmaður er. Þar fyrir utan er þetta náttúrlega skattur á nýsköpun eins og margt annað. Ef menn ætla að stofna nýtt fyrirtæki þá þurfa þeir að byrja á að borga gjald til Ríkisútvarpsins, 13.500 kr.

Skattheimtan er ósanngjörn. Ef menn hafa eina krónu umfram þessar 855.231 kr. í tekjur þá borga þeir 20.000 kr. gjald. Þá borga þeir bæði í Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. 6.000 kr., og síðan 13.000 kr. til Ríkisútvarpsins fyrir að þéna einni krónu of mikið. Það er nú ekki beint réttlátt.

Það er líka skiljanlegt að fólk yfir sjötugt borgi ekki í Framkvæmdasjóð aldraðra, enda rennur það fé til þeirra sjálfra en að þeir borgi ekki til útvarpsins sem hlusta sennilega manna mest á útvarp. Þeir eru ekki allir fátækir. Það er líka til hátekjulífeyrisþegar. Það er til gamalt fólk með háar tekjur. Hvers lags réttlæti er að þeir sem eru sjötugir eða eldri, moldríkir og með mjög háar tekjur, bæði lífeyristekjur og fjármagnstekjur, sleppi við að borga gjald í Ríkisútvarpið en lágtekjufólk, einstæðar mæður o.s.frv., skuli greiða það? Hvar er réttlætið í þessu?

Bæði þessi gjöld, útvarpsgjaldið og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, eru nefskattar. Þar er sama gjaldið fyrir hátekjufólkið, sem munar ekkert um að borga 20.000 kall á ári, og fyrir lágtekjufólkið sem munar sko aldeilis um það. Þessir skattar eru alltaf óréttlátir, félagslega óréttlátir. Ég skil ekkert í að hafa ekki heyrt neitt um það frá þeim vinstri sinnum sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag. Þeir minnast ekki á óréttlætið af því að þetta er skattur. Þetta er ekki gjald fyrir að horfa á Ríkisútvarpið, ekki frekar en í dag. Ætli ég mér t.d. að horfa á Skjá 1, án þess að mig langi að horfa á Ríkisútvarpið, ekki fyrir 10 aura, segjum að ég væri í þeirri stöðu, þá yrði ég að borga til þess þar sem ég ætti sjónvarpstæki. Ég verð að borga til Ríkisútvarpsins ef ég ætla að horfa á samkeppnisaðila sem kostar ekki neitt.

Þetta er skattur, svona nefskattur sem allir borga. En við erum með nefskatt, frú forseti, í kerfinu. Við erum með persónuafslátt sem líta má á sem neikvæðan nefskatt. Af hverju tengjum við það ekki saman? Af hverju tengjum við ekki þennan jákvæða nefskatt upp á 20.000 kall við neikvæða nefskattinn, sem er persónuafslátturinn? Það er hugmyndin sem ég gekk út frá, að persónuafslátturinn yrði lækkaður sem næmi þessari upphæð. Persónuafslátturinn yrði einnig lækkaður, sem er tillaga til viðbótar, um gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það yrði afskaplega einföld innheimta og innheimtan mundi ekki kosta krónu. Persónuafslátturinn yrði lækkaður og síðan mundi Ríkisendurskoðandi, eða einhver góður í fjármálaráðuneytinu, reikna út hve stór hluti af persónuafslættinum rynni til Ríkisútvarpsins og hve mikið færi í Framkvæmdasjóð aldraðra o.s.frv. Þetta væri mjög einföld framkvæmd og mjög einföld greiðsla. Þá segja menn: Þá vita menn ekki hvað þeir greiða til Ríkisútvarpsins. Það má bara tiltaka það á launaseðli. Það mætti tiltaka persónuafsláttinn, þetta gjald í Ríkisútvarpið og þetta í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ef menn vilja endilega að skattgreiðandinn viti hvað hann greiðir fyrir.

Ég legg til að í stað þess sem hér er gert ráð fyrir verði persónuafsláttur lækkaður. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Af hverju var þessi leið ekki farin í stað þess að flækja kerfið, auka vinnu lögfræðinga í landinu sem hafa nú alveg nóg að gera, og endurskoðenda? Svo verða allir skattgreiðendur jafnhissa þegar þeir sjá álagningarseðilinn. Þar er gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, hvað skyldi það nú vera? Gjald til Ríkisútvarpsins, hvað skyldi það nú vera?

Ég ætla að leyfa mér að bera saman þessi tvö frumvörp. Þau eru mjög ámóta en í grundvallaratriðum mismunandi. Í mínu frumvarpi er lagt til að útvarpsráð starfi áfram, útvarpsráð fái allar tekjurnar, eins og í dag, en það bjóði út allan reksturinn. Það framkvæmir ekki neitt sjálft en býður út reksturinn. Þeir sem geta boðið í eru t.d. Ríkisútvarpið hf., sem þá gæti heitið eitthvað annað, 365-miðlar hf. o.s.frv. Allir fjölmiðlar gætu boðið. Alls konar áhugaleikhús gætu boðið, hestamannafélög gætu boðist til að gera þætti um hestamennsku. Skákfélög gætu gert hið sama o.s.frv. Allir gætu boðið í dagskrárgerðina. Ég ætla ekki að reyna að lýsa gróskunni sem yrði hjá ýmsum félögum landsins, m.a. áhugamannaleikhúsum sem gætu gert tilboð til útvarpsráðs, í að gera þennan eða hinn þáttinn. Um leið yrði komið á gæðaeftirliti vegna þess að þegar útvarpsráð býður út dagskrárgerð þarf að skilgreina hvað það ætlar að kaupa og þarf að fylgja því eftir, að það sem það kaupir sé raunverulega til staðar. Til þess yrði komið á gæðaeftirliti, sem vantar í dag. Hvernig getur útvarpsráð haft eftirlit með gæðum sinnar eigin framleiðslu? Það getur það ekki. Það getur ekki gagnrýnt eigin verk út á við.

Ég geri jafnframt ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði selt og starfsmennirnir fái að kaupa helminginn á 70% af verðmæti hlutanna. Þeir eru jú uppistaðan í fyrirtækinu eins og í öllum öðrum fyrirtækjum. Ríkisútvarpið er ekki annað en hinir góðu starfsmenn sem þar starfa. Það er Ríkisútvarpið. Af hverju skyldu þeir ekki njóta þess að mega kaupa hlutabréfin á lægra verði? Þeir mættu síðan búast við því að launin hækki, sem gerist ekki meðan Ríkisútvarpið hangir alltaf á horriminni. Það var ekki rétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan í andsvari við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, að við mynduðum hallann. Nei, það er reksturinn sem myndar hallann. Það er almennt séð enginn hvati hjá ríkisfyrirtækjum til að spara í rekstri. Það er meinið. Þess vegna hefur komið í ljós að ríkisrekstur er yfirleitt óhagkvæmur þótt þar vinni ágætisfólk og ágætisstjórnendur. Þeir hafa bara ekki sama hvata til að reka fyrirtæki vel og ódýrt. Ef Ríkisútvarpið hf. yrði selt, sérstaklega ef starfsmenn eignuðust það, yrði virkilegur hvati til að reka fyrirtækið og skipuleggja störfin betur. Það má gera kraftaverk í þeim efnum. Það vita starfsmennirnir sjálfir. Fyrirtækið mundi skila hagnaði. Það gæti borgað hærri laun og stæði sig örugglega vel í samkeppni við önnur fyrirtæki um að bjóða í verkefni sem útvarpsráð býður út.

Hugmyndin sem ég hef lagt til, ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni, held ég að sé miklu betri. Slíkt fyrirkomulag yrði lyftistöng fyrir menninguna í landinu, að bjóða út verkefni fyrir 2.500 eða 3.000 millj. kr. á ári yrði aldeilis lyftistöng fyrir þá sem vilja framleiða íslenskt menningarefni. Einnig mætti nefna að þeim peningum yrði ekki varið til að kaupa fótboltaleiki frá útlöndum, líklega ekki. Meginmarkmiðið á jú að vera að hvetja til innlendrar framleiðslu. Hitt eru stöðvarnar sjálfar tilbúnar að borga, fótboltaleiki, amerískar kvikmyndir og annað slíkt. Það selst. Það er sjálfvirkt inni í kerfinu. En ég held að innlend menningarframleiðsla mundi njóta þess best ef sú leið yrði farin sem ég og hv. þm. Birgir Ármannsson höfum lagt til.

Mér þykir miður að frumvarp mitt hafi ekki verið rætt samhliða þessu frumvarpi. Ég hefði talið það eðlilegt. Ég vil gera athugasemdir við þá stjórn fundarins. En ég hef borið saman þessi tvö frumvörp. Ég tel að frumvarp hæstv. menntamálaráðherra yrði þó til að bæta stöðuna frá því sem nú er. Ég mun því eiga í vandræðum með að greiða atkvæði þegar þar að kemur.

Væntanlega mun ég greiða atkvæði gegn fyrstu greininni til að byrja með eða sitja hjá. Ég hef enn ekki alveg átta mig á því en kannski verða gerðar viðunandi breytingar í menntamálanefnd. Ég mun a.m.k. sitja hjá við þá grein en að öðru leyti mun ég styðja frumvarp menntamálaráðherra þótt það gangi ekki eins langt og ég gjarnan vildi. Það býður þó upp á leið til að hægt sé að selja það eftir einhvern tíma.



[21:58]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var mjög fróðleg ræða að mörgu leyti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að sitt frumvarp um Ríkisútvarpið gangi lengra en frumvarp ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. vill selja það strax en ríkisstjórnin vilji að svo stöddu aðeins hlutafjárvæða, félagsvæða, stofnunina. Einu vil ég mótmæla sem hv. þingmaður hélt fram, þ.e. að opinber rekstur sé ávallt óhagkvæmari en einkarekstur. Ég held að sú alhæfing dugi ákaflega skammt enda hefur komið í ljós að einkavædd starfsemi, sem iðulega er í einokunarumhverfi, hafi reynst skattborgaranum eða greiðandanum dýrari en einkarekin þjónusta. En talandi um hvata þá er hvatinn einmitt sá hjá eigendum einkarekinna fyrirtækja að taka arð út úr fyrirtækjunum. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að almannaþjónusta sem hefur verið einkavædd er iðulega dýrari. Ég nefni t.d. Sóltún og aðrar öldrunarstofnanir til samanburðar.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að eðlilegt hefði verið að ræða saman öll þau þingmál sem lúta að Ríkisútvarpinu. Ég vil taka undir það. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, hvort hann hyggist temja sér slík vinnubrögð í efnahags- og viðskiptanefnd að taka jafnan skyld mál til umfjöllunar á sama tíma, senda þau út til umsagnar og óska eftir að umræða fari fram um þau í senn. Ætlar hann að hafa slík vinnubrögð þar sem hann verkstýrir málum, t.d. í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins?



[22:00]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Fyrst um þetta síðasta, ég hef tamið mér að ræða þingmál eftir röð. Á morgun eða í fyrramálið munum við ræða nokkur þingmannamál og fara í gegnum umsagnir. Það er ekki þar með sagt að ég lofi því að taka þau út, til þess þarf samþykki þingflokkanna. En ég hef rætt þó nokkuð mikið um þingmannamál.

Hvað það varðar að opinber rekstur sé óhagkvæmari en einkarekstur þá er það náttúrlega bara okkar lífsviðhorf. Hv. þingmaður er á annarri skoðun og hefur aðra lífssýn og ég virði þá lífssýn. Ég fellst hins vegar ekki á hana, ég samþykki hana ekki. Ég þykist hafa séð mjög víða rök fyrir minni skoðun, ekki síst í bankarekstrinum þar sem þóknanir lækkuðu, vaxtamunur lækkaði og allt hefur lækkað en hagnaður hefur stóraukist og laun hafa líka stórhækkað — nú er þessi markaður að verða ein af þremur stærstu útflutningsgreinum landsins. Þær eru fjórar, það er ferðamannaiðnaðurinn, það er iðnaðurinn, sjávarútvegurinn og fjármálastarfsemi.

Það er ekki þannig að menn hugsi bara um að taka arðinn út, heldur er það markmið hluthafanna að framleiða góða vöru og þjónustu svo ódýrt að þeir geti hagnast á öllu saman, að þeir geti fengið gott starfsfólk með því að borga há laun og grætt á öllu saman. Sá er nú galdurinn og þetta tekst yfirleitt ef samkeppniseftirlit er í lagi. Og auðvitað þarf samkeppniseftirlitið að vera í lagi, ég gleymdi kannski að nefna það áðan. Það þarf að tryggja samkeppni á þessum markaði og það þarf að hindra einokun eða fákeppni. Að því gefnu held ég að einkarekstur sé alltaf betri en opinber rekstur, það er mín sannfæring.



[22:03]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú bara staðreynd að einkavædd eða einkarekin almannaþjónusta er iðulega ekki í samkeppnisumhverfi. Þeirri staðreynd vilja menn oft gleyma.

Aðeins um vinnubrögðin hér á Alþingi. Ég fagna því útspili hv. þingmanns að styðja þá viðleitni sem hefur komið fram hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og öðrum stjórnarandstöðuflokkum á þingi að eðlilegt sé að taka sambærileg mál og ræða þau samtímis — t.d. í þessu tilviki öll þau mál sem lúta að Ríkisútvarpinu — og hið sama eigi sér stað í þingnefndum. Ég minnist þess ekki að sá háttur hafi verið hafður á í efnahags- og viðskiptanefnd þó að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að iðulega hefur verið reynt að taka þingmannamál til umfjöllunar í nefndinni undir verkstjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals. En við erum að tala um annan hlut hér, að taka til afgreiðslu og umfjöllunar, hvort sem er hér í þingsal eða í nefndum, þingmál sem eru tengd og senda þau samtímis út til umsagnar og fá síðan umræðu um það samtímis og spyrja þá sem koma til nefndarinnar samtímis um mismunandi valkosti sem boðið er upp á í þinginu. Þetta er yfirleitt ekki gert. En má vænta þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni beita sér fyrir slíkum vinnubrögðum?



[22:04]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst af vinnubrögðum í nefndinni. Ég hef vandað mig við að senda öll mál til umsagnar um leið og þau berast nefndinni, á næsta fundi eru öll mál send til umsagnar, ég man ekki eftir öðru. Þau eru send út til umsagnar og hver og einn einasti nefndarmaður getur bætt inn aðilum þannig að ég held að það sé nú í nokkuð góðum farvegi.

Hins vegar getur orðið dálítið erfitt að ræða mál saman því að maður veit ekki nákvæmlega hvaða mál eiga eftir að koma upp. Það getur verið erfitt að bíða með að ræða umsagnir og annað slíkt og segja: Heyrðu, við ætlum að bíða af því að það eru hugsanlega einhver mál á leiðinni. (ÖJ: Eins og Ríkisútvarpið.) Eins og Ríkisútvarpið, já. Ef það liggur fyrir að það verði lagt fram svipað mál en svo getur það nú brugðist líka.

Hv. þingmaður hefur í gegnum tíðina tamið sér að segja: Staðreyndin er. Hann segir þetta mjög oft og í hvert einasta skipti hugsa ég: Bíddu við, er allt annað ekki staðreynd? Eða verður eitthvað staðreynd bara af því að maður segir: „Staðreyndin er“? Það sem maður segir verður ekkert meiri staðreynd fyrir það. Það er jafnmikil eða jafnlítil staðreynd þó að einhver segi: „Staðreyndin er“ að opinber rekstur sé betri en einkarekstur. Það breytist ekki neitt þó að maður segi þetta. Alltaf þegar menn segja svona, „staðreyndin er“, eða það er alveg skýrt eða klárt, þá spyr ég alltaf: Er þá annað sem maðurinn segir ekki staðreynd? (Gripið fram í.)



[22:06]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Rekstur býr til halla. Já, þannig er það í kennslubókunum að það fer eftir rekstrinum hvort halli er á fyrirtækinu eða ekki. Samt hefur það nú verið þannig í málefnum Ríkisútvarpsins að hallinn hefur verið ákveðinn á þingi. Það var það sem ég var að segja í andsvari áðan vegna þess að það var talið þeim sem hafa farið með reksturinn á Ríkisútvarpinu til lasts að þeir hefðu rekið Ríkisútvarpið með halla. En það hefur verið þannig í fjárlagafrumvarpinu, í athugasemdum við Ríkisútvarpspartinn þar, að ákveðinn halli hefur verið áskilinn, rekstrarniðurstöðurnar ákveðnar fyrir fram.

Það hefur gerst síðustu 10, 15, 20 árin, einmitt í, undarlegt en satt, í valdatíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu, að þeim tekjum sem ríkisstjórnin hefur fengið af afnotagjöldum hafa verið settar skorður og Ríkisútvarpinu sagt að útvega sér tekjur með öðrum hætti. Misjafnir stjórnendur á Ríkisútvarpinu hafa brugðist við með því að hagræða og skera niður á víð og dreif um útvarpið. Þeir hafa líka reynt að nota innheimtukerfið betur, þar á meðal marsbúagöngurnar um hverfin, og þeir hafa einbeitt sér á markaði auglýsinga og kostunar. Það hafa verið viðbrögðin við þessu og þess vegna er það á ábyrgð meiri hluta Alþingis og ríkisstjórnarinnar hvernig hlutunum er fyrir komið. Sú staða sem núna er uppi í fjárhagsmálum Ríkisútvarpsins er á ábyrgð Péturs Blöndals en ekki þeirra sem þar hafa farið með rekstur, sem þeir hafa gert tiltölulega vel miðað við þær aðstæður sem þeir hafa búið við. Það er rétt að menn geri sér grein fyrir þessu áður en þeir fara með staðlausa stafi hér í ræðustól. Það var það sem ég var að vekja athygli á áðan.



[22:08]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Afkoma sérhvers fyrirtækis, jafnt stofnana sem einkafyrirtækja, myndast sem mismunur á tekjum og gjöldum. Það sem stjórnandi fyrirtækis hefur í hendi sér eru í fyrsta lagi gjöldin: Í hvaða gjöld ræðst hann? Hversu snjall er hann að nýta þann mannafla sem hann hefur? Þarf hann allan þennan mannafla? Getur hann komist af með færri og getur hann sparað þetta eða gert það hagkvæmar eða ódýrar eins og hin góða, hagsýna húsmóðir sem oft er vitnað til?

Svo eru það tekjurnar, hvernig nær hann inn tekjum á snjallan hátt og góðan? Það er þetta tvennt sem góður rekstrarmaður gerir og þeir eru mjög mismunandi, rekstrarmennirnir, afskaplega mismunandi. Einn getur rekið fyrirtæki með glimrandi hagnaði á meðan annar gerir það með tapi.

Munurinn á þessu fyrirtæki, RÚV, og öllum öðrum? Það er með fastan tekjupóst, það sigla inn tekjurnar, þeir geta vaðið inn á heimili fólks og heimtað af því tekjur. Sá er munurinn, aðrir aðilar í þjóðfélaginu geta yfirleitt ekki haft þetta svona.



[22:09]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Síðan spyr maður: Hvað nú? Þetta er auðvitað söguleg athugasemd. Ef þetta frumvarp verður að lögum, eða einhver útgáfa af því, þá verður það ekki lengur þannig að halli verði ákvarðaður af fjárlögum. En hvað nú?

Menn fara hér mikinn. Hæstv. menntamálaráðherra ræðir hér fram og aftur um það hvað þetta sé nú frábært hjá sér og yndislegt. Við höfum nú heyrt þær ræður nokkrum sinnum áður og erum hætt að kippa okkur upp við þær.

Það er þannig að Páll Magnússon, í grein sem hér hefur oftlega verið vitnað í, segir, og ekki í fyrsta sinn, að með rekstrarformsbreytingunni verði að leysa þennan fjárhagsvanda. Það sé ekki hægt að búa til hlutafélag, eða hvaða annað rekstrarform sem er, og láta það erfa skuldahalann frá því sem ríkisstjórnin skilur nú eftir sig. Hvað er að gerast hér? Hvar eru tillögur menntamálaráðherra um það? Hvar eru tillögur hv. þm. Péturs Blöndals um að bæta þessa stöðu? Hvaða arður er það sem Ríkisútvarpið hf., eða hvað það nú verður, á að fá? 2,6 milljarðar standa út af lífeyrissjóðsskuldbindingum, 220 millj. kr. á ári. Við höfum ekki heyrt orð um það frá hæstv. menntamálaráðherra og engum hans manna hvað á að verða um þær skuldir.

Þegar ég kom í útvarpsráð 1999 held ég að eigið fé hafi verið milli 15 og 20% og taldist lítið því að það hafði lækkað feikilega frá því fyrir áratug eða svo. Nú er það neikvætt og hv. þm. Pétur Blöndal veit hvað það þýðir. Það þýðir, þannig að ég segi það í fimmta sinn hér í dag, að þann dag sem Ríkisútvarpið verður að hlutafélagi geta lánardrottnar þess í teoríunni sameinast og gert það gjaldþrota.

Það er dæmigert að hér kom upp í kvöld Hjálmar Árnason, talsmaður Framsóknarflokksins, hv. þingmanns í þessum útvarpsmálum. Honum hafði missýnst það í frumvarpinu, eðlilega, að ríkisstjórnin ætlaði að leggja nokkuð duglega og hraustlega 5 milljarða til þessarar nýju stofnunar. Það var því miður misskilningur. (Forseti hringir.) Meira að segja hv. þm. Hjálmar Árnason hafði misskilið þessa upphæð, (Forseti hringir.) hún var 5 milljónir.



[22:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg hvað þessi athugasemd hv. þm. Hjálmars Árnasonar hefur að gera í andsvari við mig, ég get illa svarað fyrir hann.

Það er komið í ljós hver hefur myndað hallann. Það var hv. þm. Mörður Árnason, sem hefur setið í útvarpsráði, að hans eigin sögn, og hefur rekið þetta fyrirtæki. Þar myndast hallinn. Hann myndast í rekstrinum og hvergi annars staðar. Það vita þeir sem einhvern tíma hafa rekið fyrirtæki. Þeir geta ekki farið út í bæ og sagt að einhver annar beri ábyrgð á því að gjöldin hafi farið úr böndunum. Að sjálfsögðu átti Ríkisútvarpið alltaf að reikna með lífeyrisskuldbindingum, það vissi alltaf hverjar þær voru. Það átti að skera niður útgjöldin sem því næmi ef starfsfólkið er svona dýrt. (Gripið fram í.)

Nú er ég því búinn að finna þann sem rak útvarpið með halla allan tímann og ég veit ekki hvort ég á að senda honum reikninginn. (Gripið fram í.)



[22:13]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég kom til þings í dag hafði ég ekki hugsað mér að taka þátt í umræðum um Ríkisútvarpið heldur hlusta á það sem hér færi fram. Eftir að hafa gert það ákvað ég að ekki væri hægt að sitja hér án þess að leggja orð í belg.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði hér í ræðustól í kvöld: Sjaldan bregður mær vana sínum, og vísaði þeim orðum til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Það má eins vísa þeim orðum á menntamálaráðherra hæstv. að sjaldan bregði mær vana sínum. Þetta er sótt í ágæta þjóðsögu og ég ætla ekkert að botna það hver vani meyjarinnar var, menn geta bara skoðað það sjálfir. Ég segi þetta vegna þess að mér fannst pólitískur barnaskapur, eða ófyrirleitni ætti ég kannski að segja, einkenna andsvör þeirra beggja í umræðunni í dag.

Ég hef hlustað nokkuð grannt eftir því sem menn hafa sagt hér og stjórnarandstaðan hefur í þessu máli, eins og í fjölmiðlamálunum yfirleitt, mætt í umræðuna með málefnalegum hætti og lagt fram sín sjónarmið, eins og við gerðum í fjölmiðlamálunum 2004 þegar við bentum á að hægt væri að ná góðri og víðtækri sátt um málefni fjölmiðlanna ef til þess væri einhver vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það ráð var ekki þegið á þeim tíma heldur lagt út í langan og hatramman leiðangur í fjölmiðlamálunum sem endaði eins og allir muna með sneypuför ríkisstjórnarinnar.

Það var ekki fyrr en í fulla hnefana sem hún var tilbúin til að skilja það og læra að í málefnum eins og þessum er hægt að ná nokkuð góðri sátt ef menn vilja leggja sig fram um það. Sett var á laggirnar fjölmiðlanefnd og hún komst að niðurstöðu og hæstv. menntamálaráðherra talaði um sögulegar sættir í því máli. Þessir þættir voru allan tímann inni í myndinni en menn vildu einfaldlega ekki fara út í þetta samráð á þeim tíma. Hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin hefur heldur ekki viljað fara út í neitt samráð um málefni Ríkisútvarpsins. Mér hefur heyrst að þeim hafi fundist þetta svo lítilvægt mál, þetta sé bara spurning um rekstrarform á Ríkisútvarpinu og um það þurfi ekkert víðtækt samráð við stjórnarandstöðuna. Svo er líka kvartað undan því hér af hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að stjórnarandstaðan tali ekki einum rómi í málinu og þar af leiðandi sé ekki hægt að hafa samráð við hana um það. Stjórnarandstaðan þarf ekki að tala einum rómi í sérhverju máli. Stjórnarandstaðan hefur ekki valið sig saman í stjórnarandstöðu. Það eru stjórnarliðanir sem hafa valið sig saman í ríkisstjórn, hafa ákveðið að vera saman í ríkisstjórn og fylgja þar málum fram og hafa nokkurn veginn samstillta skoðun á þeim. Ég hygg að í þessu máli séu a.m.k. þrjár skoðanir uppi í ríkisstjórninni ef ekki fleiri. Það er sú skoðun sem Framsóknarflokkurinn hefur lengst af haft að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfseignarstofnun og fyrir því hafa þeir eflaust frambærileg rök ef þeir töldu að sú leið væri farsælust. Það er sú skoðun sem hefur verið uppi hjá ýmsum í Sjálfstæðisflokknum að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag, það sé farsælasta leiðin. Og svo er sú skoðun sem hér hefur verið túlkuð af hv. þm. Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni líklega líka að eðlilegast væri að selja Ríkisútvarpið. Það eru fleiri þeirrar skoðunar. Ég hygg að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sé líka þeirrar skoðunar að farsælast væri að selja Ríkisútvarpið. Það eru því a.m.k. þrjár skoðanir uppi í stjórnarflokkunum. Sjálfsagt er það ástæðan fyrir því að menn vildu ekki setjast niður og hafa samráð um þetta mál að vandinn var svo mikill að koma sér saman í stjórnarflokkunum að þeir áttu í fullu fangi í þeim efnum.

Hv. þingmaður kvartaði líka undan því að stjórnarandstaðan ætlaðist til þess að fallist yrði á allar kröfur hennar. Stjórnarandstaðan hefur í sjálfu sér ekki verið að setja fram neinar kröfur í þessum málum eins og er. Hér hafa verið reifuð ýmis sjónarmið. Það er alveg ljóst að menn hafa nokkuð skiptar skoðanir á því hvaða form er heppilegast á Ríkisútvarpinu og ég held að það sé bara fullkomlega eðlilegt. Það er ekkert víst að menn næðu sameiginlega landi í því efni en það er hægt í mörgu öðru sem varðar Ríkisútvarpið ef menn vilja því raunverulega vel. Ég held að flestir þingmenn eigi það sammerkt að þeir bera hagsmuni þessa almannaútvarps fyrir brjósti. Þeir telja að Ríkisútvarpið sé mikilvæg starfsemi. Þeir telja að Ríkisútvarpið sé mikilvægt viðmið á fjölmiðlamarkaðnum, ekki síst faglega. Ríkisútvarpið er ákveðin miðja sem aðrir fjölmiðlar miða sig að mörgu leyti við. Það er eins konar miðja eins og Þjóðleikhúsið, eins og sinfónían og óperan. Í kringum þetta, þessa miðju, þessar miðlægu stofnanir verður til ákveðin gróska. Þær gefa nefnilega frá sér og skapa í kringum sig ákveðna grósku. Það er vegna þess að þær eru til sem orðið hefur til markaður fyrir utan. Sjálfstætt starfandi leikhús, tónlistarstarfsemi af ýmsum toga og alls konar fjölmiðlastarfsemi hefur náð að blómstra. Þetta er gott og á að vera til samhliða. Miðlæg, öflug, fagleg stofnun á þessu sviði og síðan gróska úti á markaðnum.

Það má velja Ríkisútvarpinu mismunandi rekstrarform. Samfylkingin hefur talað fyrir því að þetta væri sjálfseignarstofnun. Af hverju höfum við talað fyrir því? Jú, vegna þess að sjálfseignarstofnunarformið gefur kost á að skapa ákveðið sjálfstæði, það skapar Ríkisútvarpinu ákveðið sjálfstæði. Sjálfseignarstofnun er stofnun sem er einkaréttarlegs eðlis rétt eins og hlutafélag. Það skapar ákveðið svigrúm og ákveðið sjálfstæði fyrir Ríkisútvarpið sem við í Samfylkingunni höfum talið mikilvægt að Ríkisútvarpið hefði. Og hins vegar er sjálfseignarstofnunarformið að því leytinu til ágætt að það er þekkt rekstrarform í almannaþjónustu. Það er þekkt rekstrarform í almannaþjónustu sem situr að ákveðnum tekjustofnum eða opinberu fé. Við getum tekið hjúkrunarheimilin, það er þekkt þar. Við getum tekið Listaháskólann og Bifröst, og til skamms tíma Háskólann í Reykjavík. Þetta eru menningarstofnanir sem ekki er gert ráð fyrir að greiði út arð til eigenda sinna. Þar fer allt fé inn í stofnunina aftur. Þær njóta þess að vera fyrirtæki einkaréttarlegs eðlis en þær hafa aðgang að opinberu fé og þar af leiðandi lúta þær að mörgu leyti öðrum lögmálum en hver annar fyrirtækjarekstur. Þess vegna taldi Samfylkingin að þetta væri hentugt form fyrir Ríkisútvarpið og líka og ekki síður vegna þess að það gætir ákveðinnar tortryggni gagnvart hlutafélagaforminu af því að hlutafélagavæðingin hefur hingað til verið undanfari sölu. Við vitum að í Sjálfstæðisflokknum eru uppi sterkar raddir í þá veru að selja beri Ríkisútvarpið. Þess vegna og til að menn gætu náð nokkuð góðri sátt um Ríkisútvarpið við að koma því inn í fyrirkomulag einkaréttarlegs eðlis, skapa því sjálfstæði án þess að vekja tortryggni um sölu, var það hugmynd Samfylkingarinnar að gott væri að velja þetta form. Þetta er ekkert heilagt form. Það var opnað á það í umræðunni af hálfu Marðar Árnasonar, sem var talsmaður okkar í upphafi þessarar umræðu, að Samfylkingin væri tilbúin til að skoða aðrar hliðar á því máli, hún væri tilbúin til þess að uppfylltum ákveðnum kröfum. Það er auðvitað bara mál sem verður að fara í gegnum og mun væntanlega verða skoðað í nefndinni. Það er verkefni nefndarinnar að reyna að koma því viti, vil ég leyfa mér að segja, inn í þetta frumvarp sem enn þá vantar þar upp á.

Það sem Mörður Árnason uppskar við þetta, að opna aðeins gátt til stjórnarflokkanna um Ríkisútvarpið og skoða hvort hægt væri að ná einhverri niðurstöðu í hlutafélagaformið, voru eiginlega bara tæklingar af hálfu hv. menntamálaráðherra. Þess vegna kalla ég það barnaskap, pólitískan barnaskap, að tala með þeim hætti sem ráðherrann gerði hér sem hefði að sjálfsögðu átt að taka því fagnandi að hér væri opnað á ákveðna möguleika í þessum efnum, að opnað væri á ákveðna samræðu um rekstrarform Ríkisútvarpsins. En því var ekki tekið og þá skal það bara þannig vera.

Varðandi inntakið í sjálfu frumvarpinu má hafa ýmsar skoðanir á því hvað í þessu frumvarpi stendur. Ég tel að þó að verið sé að opna þarna á hlutafélagaformið sé um leið líka verið að setja Ríkisútvarpinu ýmsar takmarkanir sem geta reynst því erfiðar. Ég hygg að þessar takmarkanir hafi verið settar vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa verið að semja sín á milli og reyna að geirnegla alla hluti í frumvarpinu vegna þessi að Framsóknarflokkurinn hafi tortryggt Sjálfstæðisflokkinn í þessu efni. Bara eins og segir 1. gr. þar sem stendur:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Síðan vísar ráðherra til þess að þetta sé mikil tímamótagrein vegna þess að áður hafi alltaf staðið í slíkum lögum „nema með samþykki Alþingis“ en viðurkennir þó hér í ræðustól að þetta vald verði ekki af Alþingi tekið. Það breytir því engu hvort þarna stendur „nema með samþykki Alþingis“ eða ekki. Það breytir akkúrat engu.

Takmarkanirnar sem ég var að tala um felast kannski í þessari grein vegna þess að það kann vel að vera að upp komi sú staða hjá Ríkisútvarpinu að það vilji t.d. taka einhvern þátt af starfsemi sinni, einhvern þátt úr rekstri sínum og leggja inn í félag með öðrum aðilum vegna þess að það sé hagkvæmt fyrirkomulag að standa þannig að rekstrinum. Það geta þess vegna verið einhver stúdíó. Það geta verið einhverjir þættir í rekstri félagsins sem það telur að geti verið hagkvæmt að reka í félagi við aðra. Ég fæ ekki séð að þessi grein heimili það. Ég tel að það séu meiri takmarkanir á rekstri Ríkisútvarpsins en t.d. eru í dönsku lögunum, bæði í lögunum um Danmarks radio, sem er þó bara rekið sem hver önnur ríkisstofnun, og í lögunum eins og þau voru um TV 2 í Danmörku sem var að vissu leyti stofnun sem var sambærileg við Ríkisútvarpið vegna þess að TV 2 í Danmörku hafði bæði aðgang að sérstökum tekjustofni og var á auglýsingamarkaði eins og Ríkisútvarpið er. Hér er verið að setja þrengri skorður fyrir Ríkisútvarpið en fyrirtæki í sambærilegum rekstri í öðrum löndum búa við. Mér sýnist því að þetta sé niðurstaða úr einhverri málamiðlun sem gerð hafi verið innan ríkisstjórnarinnar.

Varðandi aðra þætti í frumvarpinu vil ég nefna 3. gr. sem er um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þar er verið að reyna að skilgreina hver sé þessi útvarpsþjónusta í almannaþágu sem Ríkisútvarpið á að halda úti og fær sérstaka tekjustofna til að standa undir. Vegna þess að rökin fyrir því að Ríkisútvarpið hafi sérstakan nefskatt eða afnotagjald, eða hvaða leið sem menn vilja fara í því að tryggja því tekjustofna sem aðrir hafa ekki, eru þau að Ríkisútvarpið standi undir ákveðinni almannaþjónustu, ákveðnum kröfum sem ekki er hægt að gera til annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva með sama hætti.

Mér finnst líka dálítið þunnur þrettándinn í þessari grein um útvarpsþjónustu í almannaþágu og í því sambandi vil ég nefna að ég fæ ekki séð að þar séu gerðar einhverjar sérstakar kröfur til útvarpsins um t.d. framleiðslu á leiknu efni. Ég sé ekki að gerðar séu kröfur til þess, eins og t.d. útvarpsstöðvanna í löndunum í kringum okkur, norrænu stöðvanna, um flutning á evrópsku efni. Ég sé t.d. ekki að hér séu gerðar kröfur eins og voru a.m.k. til skamms tíma áður en TV 2 var gert að hlutafélagi þar sem gerðar voru kröfur um norrænt efni og hvert hlutfallið ætti að vera af slíku efni í dagskrá útvarpsins. Það sem sett er inn í þessa grein um útvarpsþjónustu í almannaþágu er mjög almenns eðlis og ég hefði haldið að þetta þyrfti að vera miklu skýrar framsett ef Ríkisútvarpið á eftir þetta að standast þær kröfur sem EES-samningurinn og Eftirlitsstofnun EFTA gerir til reksturs á þessu sviði. Þetta segi ég vegna þess að það er margt í dönsku lögunum um TV 2 sem hafði, eins og Ríkisútvarpið, annars vegar aðgang að tekjustofni til að standa undir almannaþjónustuþættinum og var hins vegar á samkeppnismarkaði og sótti sér auglýsingatekjur. TV 2 var engu að síður talið hafa gengið á svig við samkeppnislög, að ríkisábyrgðin sem á því var hefði verið misnotuð og danska ríkinu var gert að greiða miklar sektir vegna þess hvernig hlutunum var þar fyrir komið. Það sem var sérstaklega tiltekið í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um TV 2 á sínum tíma var einmitt að þær kröfur sem gerðar voru til TV 2 í Danmörku hafi ekki verið nægilega vel skilgreindar og hvernig tekjurnar sem það fékk síðan aðgang ættu að standa undir þeim kröfum. Með öðrum orðum: Ég hygg að skýra þurfi miklu betur þær kröfur sem gerðar eru til Ríkisútvarpsins og almannaþjónustuþáttar þess en gert er í frumvarpinu.

Það kann vel að vera að menn hafi hugsað sér að skýra þetta betur í samþykkt um Ríkisútvarpið og þá kem ég kannski að þeim þætti sem vantar algerlega og þyrfti að fylgja þessu frumvarpi en það eru hugmyndir ráðherra um samþykkt fyrir Ríkisútvarpið. Hvernig eiga samþykktir um Ríkisútvarpið að líta út? Ég geri ráð fyrir að að þær eigi að samþykkjast á hluthafafundi. Og hver fer með atkvæðisrétt á hluthafafundi? Það er jú menntamálaráðherra og enginn annar. Mér finnst það alger forsenda fyrir því að hægt sé að ræða þetta frumvarp og vinna áfram með það að þessar samþykktir séu lagðar fram hér og menn hafi það fyrir framan sig hvernig fyrstu samþykktir Ríkisútvarpsins sem hlutafélags eigi að líta út. Ég tel líka að hér þurfi að liggja fyrir drög að þeim þjónustusamningi sem talað er um í frumvarpinu, vegna þess að í þjónustusamningnum er gert ráð fyrir að útvarpsþjónustan í almannaþágu verði nánar skilgreind og krafan sem er gerð til Ríkisútvarpsins vegna almannaþjónustuþáttarins. Þetta tvennt, þ.e. annars vegar samþykktir um Ríkisútvarpið sem útfæra nánar almenna starfsemi Ríkisútvarpsins og hins vegar hugmyndir um þjónustusamninginn þar sem kröfurnar um almannaþjónustuútvarpið eru nánar skilgreindar, tel ég að liggja þurfi fyrir áður en málið verður afgreitt úr nefnd þannig að hægt sé að taka afstöðu til þeirra heildarmyndar sem þá blasir við.



[22:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að sá sem hér stendur hefur nú hlustað á ýmsar ræður hjá hv. þingmanni og ekki alltaf á þessum vettvangi, og ég verð að viðurkenna að maður hefur nú sjaldan hlustað á eins dapurlegan málflutning. Hér kom hv. þingmaður fram með hefðbundið lítillæti og hélt því fram að stjórnarliðar hefðu bara verið með pólitískan barnaskap, það var einhvers konar rauður þráður í ræðu hv. þingmanns.

Ef maður skoðar aðeins efni ræðunnar þá var ekki margt sem stóð þarna upp úr. Hér er allt í einu talað mikið um mikilvægi þess að hafa víðtækt samráð. Virðulegur forseti og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég veit ekki betur en hér hafi verið reynt og þess hafi verið krafist og að menn hafi beðið um að fá að vera í nefndum og öðru slíku sem tengist fjölmiðlum og í annan stað hafa menn sérstaklega fundað fyrir framlagninguna, hv. þm. Mörður Árnason, … (MÁ: Hvaða samráð hefur verið um Ríkisútvarpið?) Ég man ekki eftir að það hafi verið gert við önnur tilefni. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til þess að flytja ræðu sína.) (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni, hvaða samráð hefur verið haft um Ríkisútvarpið, Guðlaugur Þór?) (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.) (Gripið fram í.)

Ég held að við þurfum bara að fá dyravörð til að koma þingmanninum eitthvað, róa hann eitthvað niður.

Hvað sem því líður er ánægjulegt að þessi hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar sé farinn að hafa áhuga á samráði því að ég man ekki eftir því á fyrri vinnustað hv. þingmanns að það hafi nokkurn tíma verið gert.

Aðalatriði málsins og það sem ég vil spyrja hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um, vegna þess að nú er talað mikið um sjálfseignarstofnun: Á hvaða tímapunkti varð hv. þingmaður svona fráhverfur hlutafélagaforminu? Ég man ekki betur en eitt það fyrsta sem fyrrverandi borgarstjóri gerði, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, væri að breyta félagslegu húsnæði (Forseti hringir.) í hlutafélag. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, það er bara svo mikið kallað hér fram í að ég þarf nú kannski smátíma til að bera fram spurningu mína.

Mig langar til að fá svar við því: Á hvaða tímapunkti varð hlutafélagaformið svona ómögulegt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?



[22:35]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekkert fráhverf hlutafélagaforminu og hef aldrei verið. Ég talaði heldur ekkert gegn hlutafélagaforminu hér í ræðustól áðan. Ég hef tekið eftir því áður að þingmanninum Guðlaugi Þór Þórðarsyni gengur svolítið illa að heyra þegar ég tala hér úr ræðustól Alþingis, einhverra hluta vegna. Ég talaði um að ég hefði talið heppilegra fyrir Ríkisútvarpið, og færði fyrir því rök, að vera í formi sjálfseignarstofnunar. Ein rökin voru m.a. þau að vegna forsögu málsins og vegna þess hvernig menn væru stemmdir í Sjálfstæðisflokknum treysti fólk því ekki að hlutafélag fæli ekki í sér aðdraganda að sölu. Til þess eru nú refirnir skornir og menn hafa fylgst með því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt hlutafélagavætt sem lið í söluferli. Þess vegna er ákveðin tortryggni og þess vegna hefðum við talið heppilegra að gera þetta að sjálfseignarstofnun. Þá er þetta einkaréttarlegs eðlis, nær því sjálfstæði sem því fylgir, en það þarf ekki að tortryggja það að sjálfseignarstofnun verður trauðla seld.



[22:37]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er hv. þingmaður í fullri alvöru að halda því fram að þetta sé stefna Samfylkingarinnar? Ég vek athygli á að talsmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Mörður Árnason, talaði sömuleiðis fyrir sjálfseignarfyrirkomulaginu fyrr í dag. Nú kemur formaðurinn, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og upplýsir þingheim og þjóð um þessa stefnu Samfylkingarinnar og að þeirri stefnu hafið verið unnið í mörg ár að Ríkisútvarpið skuli vera sjálfseignarstofnun vegna þess hvernig stemmning sé í Sjálfstæðisflokknum, vegna þess að það er einhver stemmning í Sjálfstæðisflokknum. Það eru einu rökin sem hér komu fram.

Ég verð að segja eins og er að ég er nú bjartsýnn maður að eðlisfari en ég á ekki von á því að við verðum í ríkisstjórn um alla eilífð. En það er gott að fá að heyra það frá Samfylkingunni að það er eitthvað sem menn ætla. En það eru einu rökin því að svo sannarlega hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir búið til hlutafélög úr hinum og þessum fyrirtækjum og sérstaklega er áberandi Félagsbústaðir hf., sem er hlutafélag um félagslegt húsnæði. Ég veit ekki til þess að það hvarfli að neinum að selja það fyrirtæki.

Það liggur þá fyrir og hefur verið ítrekað af formanninum og komið fram hjá talsmanni flokksins í þessum málaflokki að umrædd stefna hefur verið undirbúin í mörg ár og að sjálfseignarfyrirkomulagið væri niðurstaðan. Hér kom hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fram og sagði að það væri ekkert vegna þess að þingmaðurinn hefði neitt á móti hlutafélagaforminu, enda getur hún tæplega haldið því fram eftir að hafa unnið þau verk sem hún hefur unnið, en hún sagði að stemmningin væri þannig í Sjálfstæðisflokknum að það væri tortryggni í kringum þetta vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugsanlega einhvern tíma selt það og þar af leiðandi ætti að vera sjálfseignarfyrirkomulag. (Forseti hringir.)

Í fullri alvöru, eru þetta rökin?



[22:39]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt, ég hef tekið þátt í því að gera opinberan rekstur að hlutafélögum. Oftar en ekki hefur það verið undanfari sölu. Þannig var Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar seld, sömuleiðis Pípugerð Reykjavíkurborgar. Þannig var ýmislegt selt sem hafði verið gert að hlutafélögum og það var liður í söluferli rétt eins og hjá ríkinu. En ég hef líka tekið þátt í því að búa til hlutafélag um Félagsbústaði og það er alveg skýrt að Félagsbústaðir verða ekkert seldir nema með samþykki félagsmálaráðherra þannig að það er í rauninni félagsmálaráðherra sem hefur öll forræði á því máli og ekki borgarstjórn Reykjavíkur. Það er því algjörlega kirfilega fyrir það girt að það fyrirtæki verði selt og það er auðvitað hægt að gera svoleiðis í lögum. Það er hægt að búa þannig um hnútana í lögum um Ríkisútvarpið með ýmsum hætti. Það er líka hægt að búa þannig um hnútana í lögum um Ríkisútvarpið að Ríkisútvarpið uppfylli ýmsar kröfur sem opinberum stofnunum er gert að uppfylla. Ég bið bara þingmanninn að lesa frumvarp mitt um hlutafélög í opinberri eigu og þá yrði hann nokkru fróðari um það.



[22:40]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að því í ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði verið býsna málefnaleg í umræðu um þetta frumvarp og það má að mörgu leyti taka undir það og hrósa mörgum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir málefnalega umræðu hér. En það sama verður nú ekki sagt um formann Samfylkingarinnar að öllu leyti, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og sérstaklega ekki fyrsta hluta ræðu hennar en þá notaði hún tækifærið til þess að vera hér með hrokafullar umvandanir í garð þeirra stjórnarliða sem hafa verið að fjalla um þetta mál, að mínu mati á málefnalegan hátt, og kallaði málflutning okkar barnalegan og ófyrirleitinn.

Er það ófyrirleitni að spyrjast fyrir um hver stefna stjórnarandstöðuflokkanna varðandi rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins sé? Hvert rekstrarformið eigi að vera? Það finnst mér ekki. Við höfum óskað eftir stefnu flokkanna um það og fengið þær upplýsingar, og veitti ekki af vegna þess að stefna Samfylkingarinnar í þessu máli hefur verið töluvert á reiki. Ýmist tala menn um sjálfseignarstofnunarformið eða hlutafélagaformið. Auðvitað er það þannig þegar í ljós kemur að stjórnarandstaðan talar ekki einum rómi, menn tala hver í sína áttina, vinstri grænir eru með eina útfærslu, samfylkingarmenn með aðra og frjálslyndir þá þriðju. Það er erfitt að hafa samráð við slíka hjörð.

Nú langar mig til þess að spyrja hv. þingmann um efnisatriði þessa máls. Af hverju telur hún að sjálfseignarstofnunarformið sé hentugra en hlutafélagaformið? Af hverju heldur hv. þingmaður að allir þeir sem eru í rekstri eða langflestir velji hlutafélagaformið umfram sjálfseignarstofnunarformið, (Forseti hringir.) og hvernig ætlar hv. þingmaður að skapa Ríkisútvarpinu það sjálfstæði sem hún talar um sjálfseignarstofnunarforminu umfram hlutafélagaformið? (Forseti hringir.) Ætlar hún að gera það á grundvelli laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eða með einhverjum öðrum hætti?

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að virða tímamörk sem eru takmörkuð í þessum andsvörum og svörum.)



[22:43]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram hér í umræðunni að sitt sýnist hverjum um það hvaða form sé heppilegast að hafa á rekstri Ríkisútvarpsins og yfir það fór ég í ræðu minni áðan. Þannig hafa vinstri grænir talið eðlilegt að það sé það form sem er á Ríkisútvarpinu núna, þ.e. að þetta sé ríkisstofnun, sé rekin sem slík og fært fyrir því sín rök. Sjálfstæðismenn telja best að hafa hlutafélagaformið og þeir hafa út af fyrir sig fært fyrir því rök sem þekkt eru, þ.e. að lög um hlutafélög séu skýr, þetta sé þaulreynt fyrirkomulag o.s.frv.

Við höfum talað fyrir því eins og Framsóknarflokkurinn gerði til skamms tíma að þetta væri sjálfseignarfyrirkomulag. Eins og ég sagði áðan er ástæðan sú að það gefur þessari stofnun það sjálfstæði sem við teljum að hún þurfi. Það form er einkaréttarlegs eðlis en stofnanir eins og Ríkisútvarpið sem hafa beinan aðgang að opinberu fé eru ekki rekin fyrir tekjur sem þau afla sér á markaði eins og sumar stofnanir og fyrirtæki eru, t.d. orkufyrirtækin, þau lúta svolítið öðrum lögmálum. Þess vegna hefur slíkum stofnunum gjarnan verið valið þetta form, sjálfseignarstofnunarformið. Ég nefndi hér háskólastarfsemi og hjúkrunarheimilin og það væri hægt að nefna fleiri slíkar stofnanir sem eru þess eðlis að þær gegna almannaþjónustuhlutverki, þær hafa aðgang að opinberu fé en þær þurfa ákveðið sjálfstæði og ákveðið svigrúm sem fylgir sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu.

Þess vegna höfum talað fyrir því í Samfylkingunni. Við höfum hins vegar opnað á það að við værum tilbúin til viðræðna um hlutafélagaformið. En við höfum bara fengið þannig svör hér í þinginu (Forseti hringir.) að við höfum auðvitað lært að það á aldrei að opna nokkra gátt gagnvart stjórnarliðinu.



[22:45]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt að ekki eigi að opna neina gátt gagnvart stjórnarandstöðunni. En þegar eftir samráði hefur verið leitað hefur ekki verið mikill vilji fyrir því. Ég nefni sem dæmi nýja uppákomu varðandi skipun nefndar um samningu frumvarps um fjölmiðlalög á grundvelli fjölmiðlaskýrslu. Óskað var eftir því af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að stjórnarandstaðan kæmi að þeirri vinnu að semja frumvarpið en ég gat ekki skilið málflutning stjórnarandstöðunnar á annan veg en þann að fengi hún ekki að ráða efni frumvarpsins slægi hún á útrétta sáttarhönd. Hún neitaði að taka þátt í því samráði og samstarfi.

Hv. þingmaður nefndi sjálfseignarstofnanirnar. Ég er þeirrar skoðunar að það rekstrarfyrirkomulag — þó svo að það þekkist þá er það náttúrlega ekki jafn vel þekkt og hlutafélagaformið — sé á undanhaldi. Ég nefni sem dæmi að Háskólinn í Reykjavík hefur tekið upp hlutafélagaformið eftir sameiningu við Tækniháskóla Íslands. Fyrir því voru færð rök af hálfu rekstraraðila þess háskóla, þau rök að betra væri að starfa innan hlutafélagaformsins.

Þegar hv. þingmaður segir að sjálfseignarstofnunarformið skapi meira sjálfstæði velti ég því fyrir mér hvað þingmaðurinn eigi við. Tökum sem dæmi skipan í stjórn slíkrar sjálfseignarstofnunar: Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að slík stjórn yrði skipuð? Yrði hún skipuð af hálfu eigandans, þ.e. ríkisins, (Forseti hringir.) og þess sem ábyrgð ber, þ.e. ráðherrans, eða af einhverjum öðrum? (Forseti hringir.) Hverjir sætu í slíkri stjórn og hversu (Forseti hringir.) sjálfstæðari væru þeir en stjórnarmenn í hlutafélagi?

(Forseti (BÁ): Forseti vekur athygli á tímamörkum í þessum umræðum.)



[22:48]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi verið Donald Rumsfeld sem sagði að sumar ríkisstjórnir væru þannig að ýmist aðhefðust þær ekkert eða færu offari. Hið síðarnefnda á við í fjölmiðlamálinu hvað varðar nefndarskipan ráðherra. Ekki dugði ein nefnd, ekki dugðu tvær nefndir heldur átti að skipa þriðju nefndina til þess að setja saman tillögur í fjölmiðlamálum. Auðvitað bentum við hæstv. menntamálaráðherra á að það væri algjör óþarfi og ofílagt að skipa þriðju nefndina, nefnd á nefnd ofan — það væri hægt að fela þetta mál lögfræðingum og hafa samráð við stjórnarandstöðuna um frumvarpið. Og auðvitað valdi hún að fara þá leið eins og við bentum henni á að væri skynsamlegt.

Ég sagði að það fælist meira sjálfstæði í því að vera með sjálfseignarstofnunarformið en það form sem er á Ríkisútvarpinu núna, þ.e. að vera opinber stofnun. Það fylgir því meira sjálfstæði að vera sjálfseignarstofnun og starfa sem slík en að vera opinber stofnun með því hefðbundna fyrirkomulagi sem þar gildir. Það er ekkert meira sjálfstæði sem fylgir því en hlutafélaginu, það er ósköp sambærilegt, ósköp svipað. Það er bara spurningin um að velja hvora leiðina menn vilja fara. En það er tvímælalaust meira sjálfstæði fólgið í sjálfseignarstofnuninni en innan opinberrar stofnunar eins og hefðin er að reka þær í dag. Hafi þingmaðurinn misskilið mig vona ég að sá misskilningur sé nú leiðréttur.



[22:50]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins tíu mínútur til ráðstöfunar í þessari síðari ræðu minni en er minnugur þess að það kemur dagur eftir þennan dag og málið kemur væntanlega aftur til umræðu hér í þinginu.

Ég hefði skilið þá umræðu sem hér hefur farið fram ef hún hefði átt sér stað fyrir aldarfjórðungi, um 1980. Þá bjuggum við við mikla miðstýringu í opinberum rekstri. Opinberar stofnanir þurftu að sækja um leyfi í hið miðstýrða vald til að fjölga stöðugildum, svo dæmi sé tekið, og menn urðu að leita leyfa og heimilda um stórt og smátt. Þetta er liðin tíð, þetta er löngu liðin tíð.

Áður en ég vík að nokkrum efnisþáttum langar mig til að leggjast í örlitla sögulega upprifjun og vitna í grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði í Morgunblaðið um miðjan nóvember, 11. nóvember sl.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra boðar frumvarp á Alþingi um Ríkisútvarpið fyrir næstu jól og gerir ráð fyrir því að rekstrarfyrirkomulagi RÚV verði breytt. Samkvæmt frétt Bylgjunnar segir ráðherrann, að verið sé að skoða hvort verði fyrir valinu, að gera Ríkisútvarpið að einkahlutafélagi eða sameignarfélagi.

Það þykir mér hraustlega mælt í ljósi þess að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt „Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag“ og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að „breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun“. Loks var ályktað á þessu ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Síðar segir þingmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að það sé eðlilegt núna að huga að úrbótum á núverandi fyrirkomulagi og orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

„Því mega menn ekki gleyma að skoðun Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu er minnihlutaskoðun, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Flokkurinn er einangraður í þessu mikilsverða máli og ekkert réttlætir að gera honum kleift að koma því fram.“

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur einangraður. Hann hefur Framsóknarflokkinn nú sér við hlið. Þess vegna liggur fyrir þinginu frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Um skoðanir Sjálfstæðisflokksins er þetta að segja, og ég ætla að vitna hér í einar þrjár samþykktir. Fyrst í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Gunnarssonar, sem sagði í janúar 1992, með leyfi forseta:

„Ég held einfaldlega að Ríkisútvarpinu sé eins og öðrum opinberum rekstri markaður ákveðinn tími og ég held að sá tími sé einfaldlega liðinn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja Ríkisútvarpið niður.“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði árið 1996, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að markmið, rekstur og fjármögnun Ríkisútvarpsins, ekki síst sjónvarpsins, verði endurskoðuð með tilliti til hagkvæmni og aukinnar samkeppni og að samkeppnisstaða fjölmiðla verði jöfnuð með afnámi lögboðinna áskriftargjalda og jafnframt tryggt að stofnunin fari ekki með öðrum hætti í ríkissjóð.“

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2003 var á nýjan leik ályktað, með leyfi forseta:

„Skylduáskrift að fjölmiðlum verði afnumin nú þegar. Íslenskir neytendur eiga sjálfir að ráða hvort og hvaða fjölmiðla þeir kaupa. Endurskoða skal hlutverk ríkisins á þessum markaði.“

Samband ungra sjálfstæðismanna ályktar 5. ágúst 2005, með leyfi forseta:

„Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn þá skoðun sína að ríkisvaldið hætti rekstri fjölmiðla og RÚV verði selt.“

Þetta eru nokkrar tilvitnanir í samþykktir Sjálfstæðisflokksins, bæði Sambands ungra sjálfstæðismanna og flokksþings Sjálfstæðisflokksins, og lýsir afstöðu sem er alla vega mjög sterk innan flokksins.

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um mismunandi rekstrarform á Ríkisútvarpinu. Það er gert með skírskotun til stjórnsýslu stofnunarinnar, menn ræða með hvaða hætti sé hægt að gera hana markvissari og hagkvæmari. Í öðru lagi er rætt um fjárhagsgrundvöll Ríkisútvarpsins og í þriðja lagi er rætt um sjálfstæði stofnunarinnar.

Fyrst að fyrsta atriðinu. Í frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er tekið á markvissan hátt á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Skorið er á flokkspólitísk yfirráð yfir stofnuninni, við tengjum hana við eigendur sína í gegnum þingið að sönnu, fulltrúar hvers stjórnamálaflokks á Alþingi fá fulltrúa í það sem við köllum dagskrárráð og er sett á laggirnar til að fylgjast með því að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið á sama hátt og stjórn stofnunarinnar á að gera samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Þessi stjórn hefur hins vegar ekki þau sömu tök á stofnuninni og stjórnin sem kosin yrði yfir Ríkisútvarpið samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sú stjórn, sem endurspeglar meirihlutavald á Alþingi, fær vald til þess að ráða og reka útvarpsstjórann, sem síðan er fengið í hendur nánast einvaldsvald innan stofnunarinnar. Á þessu byggist frumvarp ríkisstjórnarinnar. Við erum hins vegar með hugmyndir um að kalla fleiri að þessu dagskrárráði. Við nefnum Neytendasamtök, Samband listamanna, sveitarfélögin í landinu, við viljum breiðan grunn hvað þetta snertir.

Hvað varðar stjórnsýsluna sjálfa innan veggja stofnunarinnar viljum við setja á stofn framkvæmdastjórn líkt og nú er við lýði en við viljum hafa hana breiðari og tryggja aðkomu starfsmanna að stjórn stofnunarinnar hvað þetta snertir. Starfsmenn eiga núna sæti í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar verður þeim úthýst. Við teljum því að við séum að taka á markvissan hátt á stjórnsýslunni í Ríkisútvarpinu. Við erum að færa ákvarðanir um mannaráðningar inn fyrir veggi stofnunarinnar en jafnframt tryggja lýðræðislega aðkomu.

Okkur er umhugað um að styrkja fjárhagsgrundvöllinn. Við höfum hins vegar heyrt tóninn hjá sjálfstæðismönnum í þessari umræðu. Þeir segja að það þurfi að reka stofnunina á fyrirtækjavísu og það þurfi að skera kröftugar niður en gert hefur verið. Það hefur reyndar verið gert vegna þess að rauntekjur Ríkisútvarpsins hafa rýrnað um 15% á áratug. (PHB: Ekki skera niður.) Á sama tíma hefur starfsmönnum verið fækkað um 15%, frá 1996. (PHB: Ekki skera niður, reka betur.) Ekki skera niður, reka betur, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Reka stofnunina betur, já. Þá skulum við fá einhverjar hugmyndir frá honum um hvernig það verði gert. Ég frábið mér þetta fyrirlitningartal í garð þeirra sem hafa stýrt Ríkisútvarpinu. Við erum að tala um miklu stærra og alvarlegra mál en þessu nemur. Við vitum að þrengt hefur verið að ýmissi menningarstarfsemi innan Ríkisútvarpsins og ég óttast að lengra verði gengið í þeim efnum ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga.

Síðan er það sjálfstæðið. Það er ekki tryggt samkvæmt þessu frumvarpi. Flokkspólitísk völd yfir stofnuninni eru treyst, meirihlutavaldið er geirneglt í stjórn stofnunarinnar þannig að það er ekki verið að tryggja sjálfstæðið.

En hvað þá með sjálfseignarstofnunina sem menn eru að hefja hér upp til skýjanna? Ég hef ákveðnar efasemdir um að nokkur þörf sé á að fara út á slíkar brautir. Ég vek athygli á því að ástæðan fyrir því að menn vilja fara yfir í breytt rekstrarform er fyrst og fremst ein, að skerða réttindi starfsmanna, að hafa af starfsfólkinu þau kjör og réttindi sem það býr við núna. Það er deginum ljósara að starfskjör nýráðinna starfsmanna, samkvæmt þeim hugmyndum sem reifaðar hafa verið í dag, eru rýrari en þau hafa verið, það liggur ljóst fyrir. Þar horfum við í (Forseti hringir.) lífeyrisréttinn sérstaklega en einnig önnur réttindi starfsmanna.



[23:00]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hóf mál sitt á því að vitna í grein eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þar sem var seilst aftur til ársins 2001 og rifjaðar upp samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins þá. Nú háttar svo til að flokkurinn verður 90 ára á þessu ári og það er spurning hvort hv. þingmaður ætti ekki að ganga enn lengra aftur og rifja upp fyrstu samþykktir flokksins. Ég hygg að þar hafi ekkert verið minnst á hlutafélög og þá má álykta með sama hætti og hv. þingmaður gerir, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerir reyndar í þessari grein.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, sem er líklega eitt það fjölmennasta sem haldið hefur verið í mörg herrans ár, var mikil vinna lögð í þetta, bæði í aðdraganda þess þings og í sérstökum málefnahópi um menntamál þar sem megináherslan var lögð á þetta. Það varð skýr niðurstaða, eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika var þetta skýr niðurstaða flokksþingsins og ég bið hv. þingmann um að virða þá niðurstöðu. Það var fjöldi fólks sem að þeirri vinnu kom og þetta var hin sameiginlega niðurstaða.

Þá er líka rétt að rifja upp af hverju þessar breytingar og ég gerði grein fyrir því í ræðu minni hér. Afstaða til sölu eða ekki sölu hafði nefnilega ekki legið fyrir m.a. af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Hún liggur núna alveg skýr fyrir og til að segja það rétt einu sinni þá stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið. Það er auðvitað útgangspunktur í þessu sem hv. þingmaður veit og hann á þá að virða það. Ég veit að hann hefur hlustað á þetta hjá hæstv. menntamálaráðherra og hjá þeim stjórnarsinnum sem hér hafa talað. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því nema það sé gert í einhverjum svona hræðsluáróðurstilgangi (Forseti hringir.) að halda því stöðugt fram að grunnurinn að þessu frumvarpi sé sá að selja eigi Ríkisútvarpið. Svo er ekki.



[23:02]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er enginn hræðsluáróður, þetta er bara raunsæi. Ég vil minna hv. þingmann á að sömu fyrirheit voru gefin varðandi Landssímann á sínum tíma. Ég stóð þá hér í ræðupúlti og tók þátt í umræðu og hlustaði á umræðurnar, bæði sjónarmið sem fram voru sett af hálfu Framsóknarflokksins og af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Allt var þetta svikið.

Ég var að rifja upp samþykktir á þingum Sjálfstæðisflokksins og Sambands ungra sjálfstæðismanna. Menn hafa skírskotað til frumvarpa sem hafa legið og liggja fyrir þinginu og menn hafa talað fyrir hér í þingsalnum. Það er gefið mál að ef Ríkisútvarpið er gert að hlutafélagi er verið að stíga eitt skref í þessa átt. Það er alla vega gefið mál að það er auðveldara að koma því á sölu en ella vegna þess að menn hafa þá farið í gegnum ýmis frumstig í málinu, að hafa réttindin af starfsfólkinu og setja stofnunina í markaðsumbúðir og þá er auðveldara að stíga skrefið til fulls. Þetta er bara staðreynd og þetta er bara raunsæi.

Varðandi samþykktir Framsóknarflokksins frá öndverðri síðustu öld, mér kom nú aldrei í hug að fara út í slíkt. Ég var að vitna í þingmann Framsóknarflokksins í blaðagrein sem er nú ekki eldri en að hún birtist 11. nóvember sl. þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Ég er að vitna í þingmann Framsóknarflokksins.



[23:04]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Svo sem hv. þingmaður veit á hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson til að synda nokkuð sínar eigin leiðir. Ég vil árétta að sú niðurstaða sem fékkst á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins var mjög skýr. Menn tóku burt fyrri samþykktir og vildu opna fyrir breytt rekstrarform rétt eins og samþykkt Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins er.

En syndin er lævís og lipur, hv. þingmaður gefur í skyn að á bak við þetta frumvarp búi einhver lævís tilhneiging til að stíga skref rétt eins og sé verið að blekkja. Svo er ekki. Það kann vel að vera að hv. þingmaður telji að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag sé verið að auðvelda sölu. Til þess þarf pólitískan vilja. Eins og komið hefur ítrekað fram í umræðunni er sá vilji ekki til staðar. Það er nákvæmlega enginn meiri hluti fyrir því á hv. Alþingi og ég dreg mjög í efa að hann muni myndast í náinni framtíð. Hvað gerist í einhverri óralangri framtíð vitum við hvorugur um.

Hitt er svo annað mál að mér finnst hv. þingmaður oft agnúast um of gegn því formi sem heitir hlutafélag. Það form hefur rutt sér til rúms, ekki bara hérlendis heldur víða í heimi vegna þess að menn hafa góða reynslu af slíku formi, reynslu af því að standa í rekstri vegna þess að það form felur m.a. í sér ákveðinn sveigjanleika og sá sveigjanleiki er mjög nauðsynlegur Ríkisútvarpinu. Það er það sem starfsmenn Ríkisútvarpsins kalla á vegna þeirrar hörðu samkeppni sem komin er upp á fjölmiðlamarkaði. Að sjálfsögðu vilja starfsmenn, ágætt starfsfólk Ríkisútvarpsins, standa sig í þeirri samkeppni og eru að gera vel en munu gera enn betur þegar þessi formbreyting hefur átt sér stað. Ótti hv. þingmanns um sölu er algjörlega ástæðulaus.



[23:06]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að ég geti ekkert fullyrt um það þá get ég mér til um að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé að synda í sömu átt og flestir, a.m.k. mjög margir stuðningsmenn Framsóknarflokksins og ég held þjóðin almennt. Ég held að þó að viðhorf okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði kunni að vera minnihlutaviðhorf innan þingsins á sama hátt og við vorum með minnihlutaskoðun á Kárahnjúkum og í minni hluta að verja Þjórsárverin, þá held ég að við séum nokkuð í takt við þjóðina. Það held ég að sé staðreynd málsins.

Ég held ekki að af hálfu Framsóknarflokksins og margra sjálfstæðismanna að þetta sé einhver lævís tilraun til að selja Ríkisútvarpið. Ég held að menn meini það margir að ekki standi til að gera það. Ég er hins vegar að benda á að einkavæðing og sala Ríkisútvarpsins verður auðveldari eftir að þetta skref er stigið og að auki, og ég staðnæmist að sjálfsögðu við það, þegar verið er að skerða réttindastöðu starfsfólksins, miðstýra valdinu, færa það undir pólitískan járnhæl í ríkari mæli en verið hefur. Hafa menn hugleitt þetta? Í ríkari mæli en verið hefur.

Síðan er það hitt þegar menn tala um skylduáskrift að Ríkisútvarpinu, það getur vel farið svo að við sem höfum hvað harðast staðið vaktina fyrir Ríkisútvarpið förum að efast um slíka skylduáskrift. Það skyldu menn hugleiða hvort menn eru að skera á tengslin á milli þessarar stofnunar og þjóðarinnar.



[23:09]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli í umræðunni hversu mikinn áhuga hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur á málflutningi Framsóknarflokksins í þessu máli. Ljóst er að hann ber hag Framsóknarflokksins mjög fyrir brjósti og stefnu þess flokks (ÖJ: Hvað með kjósendurna?) hvað varðar málefni Ríkisútvarpsins og ég efast ekki um að hv. þm. Jón Bjarnason ber hag Framsóknarflokksins einnig mjög fyrir brjósti. (Gripið fram í.)

En úr því að hv. þingmaður hefur svona miklar skoðanir á stefnu annarra stjórnmálaflokka í málefnum Ríkisútvarpsins langar mig að varpa aðeins ljósinu að stefnu annars stjórnmálaflokks. Þannig bar við í upphafi þessa kjörtímabils að stjórnarandstöðuflokkarnir riðu hingað til þings undir þeim merkjum að þeir ætluðu að hafa með sér mikið samráð og samstarf, það væri ein sameinuð stjórnarandstaða sem kæmi hingað til þings. Ef ég man rétt var ekki bara blásið í herlúðra heldur var einnig boðað til blaðamannafundar þar sem þetta mikla samráð og samstarf var kynnt.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann um hvað honum finnst um málflutning Samfylkingarinnar í málinu en Samfylkingin hefur opnað á það að Ríkisútvarpið verði hugsanlega gert að hlutafélagi eða þá að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun. Mig langar til að heyra viðhorf hv. þingmanns til málflutnings stærsta stjórnarandstöðuflokksins vegna þess að hann virðist hafa miklar skoðanir á stefnu Framsóknarflokksins í málinu. Ég vil gjarnan heyra skoðun hv. þm. Ögmundar Jónassonar vegna þess að ég veit að hann hefur skoðun á málinu og ég veit að hann hefur skoðun á stefnu Samfylkingarinnar í málinu, (Forseti hringir.) og ég vil fá að heyra viðhorf hans til hennar.



[23:11]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi Framsóknarflokkinn. Já, auðvitað beina menn sjónum sínum að Framsóknarflokknum í málinu vegna þess að menn höfðu treyst á Framsókn. Eftir allar yfirlýsingarnar og allar heitstrengingarnar höfðu menn treyst á Framsókn. Þegar hún bregst eina ferðina enn í þessu mikilvæga máli verða menn fyrir vonbrigðum. Auðvitað vitna menn þá í ummæli þeirra sem þó eru að þráast við. Þess vegna var ég að vitna í skrif hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef horft til Framsóknarflokksins og reynt að höfða til samvisku hans.

Varðandi önnur sjónarmið sem komið hafa fram á þinginu um hlutafélagavæðingu eða opnun á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi þá teljum við það ekki vera æskilegt, alls ekki, við erum því andvíg. Hins vegar vil ég vekja athygli fyrirspyrjanda á því, af því að reynt er að setja fleyg á milli okkar og Samfylkingarinnar í þessu máli, að ég hef sagt fyrr við umræðuna að þingmál sem fram hefur komið hjá Samfylkingunni gengur út að reynt verði að skapa þverpólitíska samstöðu í málinu. Menn töluðu af fyrirlitningu um að setja ætti á fót nefnd til að fjalla um málið og móta sameiginlegar tillögur eða reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Ég styð þetta, við styðjum þetta. Við höfum sett fram okkar tillögur, þær eru mjög skýrar, um með hvaða hætti hægt er að efla stjórnsýslu stofnunarinnar og treysta tekjustofna hennar. (Forseti hringir.) Við höfum sett fram slíkar tillögur. (Forseti hringir.) En við erum að sjálfsögðu reiðubúin að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa því að mjög (Forseti hringir.) mikilvægt er að reyna að ná þverpólitískri samstöðu í þessu máli.



[23:13]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst að vonbrigðin leyna sér ekki hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni í garð Framsóknarflokksins. En á sömu rökum hlýtur hv. þingmaður hafa orðið fyrir verulegum vonbrigðum með málflutning Samfylkingarinnar. Því er haldið fram að verið sé að reka einhvern fleyg á milli stjórnarandstöðuflokkanna í málinu. Ef það hefur verið gert eru það ekki við í stjórnarliðinu sem höfum gert það heldur einhverjir aðrir.

Ég sé ekki mikinn samhljóm í málflutningi Samfylkingarinnar annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar. Ég trúi því heldur ekki að hv. þingmaður hafi ekki skoðanir á málflutningi Samfylkingarinnar vegna þess að nógu miklar skoðanir hefur hann haft í gegnum tíðina á málflutningi annarra stjórnmálaflokka og þá kannski sérstaklega Framsóknarflokksins.

Ég ítreka því spurningu mína um afstöðu og viðhorf hv. þm. Ögmundar Jónassonar til stefnu Samfylkingarinnar í málinu.

Síðan er annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um vegna þess að hann virðist hafa miklar áhyggjur af því að framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins væntanlegur muni hafa of mikil völd, muni hafa of mikið um það að segja hverjir eru ráðnir og hverjir eru reknir. Ég vil benda hv. þingmanni á að auðvitað mun þessi nýi framkvæmdastjóri og útvarpsstjóri starfa undir stjórn félagsins og vera undir boðum hennar eða skipunarvaldi settur. Hann mun bara hafa sömu völd og framkvæmdastjórar (Forseti hringir.) í öðrum hlutafélögum hafa. Ég spyr: Hvers vegna eiga aðrar reglur að gilda um framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins en gilda um framkvæmdastjóra í öðrum félögum?



[23:15]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarpið er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Því verður ekki líkt við hvaða fyrirtæki sem er. Það er menningarstofnun í eigu þjóðarinnar sem á að starfa samkvæmt lögum sem Alþingi setur. Það sem meira er, hún á að veita lýðræðislegt aðhald. Hún er mikilvægur umræðuvettvangur, á að vera kjölfesta í lýðræðislegri umræðu í landinu. Það er mjög mikilvægt að búa svo um hnúta að Ríkisútvarpið sé í reynd sjálfstætt, í þeim skilningi að valdapólitísk öfl ráðskist ekki með það.

Staðreyndin er sú að sá sem fær nánast einræðisvald innan stofnunarinnar, alræðisvald í hendur, er settur undir rammpólitískan járnhæl. Það er meiri hlutinn á Alþingi sem kemur til með að stýra stofnuninni. Sú stjórn getur ráðið og rekið þann mann. Sú hætta er fyrir hendi að stjórnarmeirihlutinn hafi útvarpsstjóra í vasanum. Mér finnst sannast sagna óhugnanlegt að hlusta samhljóminn í því sem heyrist frá skrifstofu útvarpsstjóra og ræðum Sjálfstæðisflokksins, sem stýrir þessu máli. (SKK: Hvað með Samfylkinguna?) Jú, ég hef rætt um sjónarmið Samfylkingarinnar. Ég hef gert það málefnalega. En við stöndum frammi fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn, með litlu Framsókn í vasanum, þröngvar þessu máli í gegn og treystir völd sín yfir Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Ég stóð í þeirri meiningu að það ætti að skera á slíkt tengsl í stað þess að treysta þau.



[23:18]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ó, þetta er indælt stríð. Ég er með tvær fyrirspurnir til hæstv. menntamálaráðherra. Önnur fyrirspurnin er sérstaklega vegna þess að í dag eru 33 ár síðan gos hófst í Vestmannaeyjum. Þar var ég starfandi sem loftskeytamaður þegar gosið hófst. Ég skildi þá hvers virði Ríkisútvarpið var. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort ekki sé öruggt að Ríkisútvarpið sé sá öryggisventill sem ég tel að eigi að vera og vísa þar í 11. tölulið 3. gr. í frumvarpinu.

Á hinn bóginn spyr ég hæstv. menntamálaráðherra um réttindi starfsmanna þegar þetta verður einkavætt, gert að hlutafélagi eða hvað það skal heita. Hvað með veikindarétt starfsmanna eftir þá breytingu? Ég veit að sem opinberir starfsmenn hafa þeir veikindarétt í 6–12 mánuði í dag, eftir starfsaldri. Hver verða réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins þegar þessu verður breytt?

Herra forseti. Ég vil minnast einnig á tekjuöflun Ríkisútvarpsins. Ég tek undir með virðulegum þingmanni Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi nefskatt á íbúðir og framlag af fjárlögum að hluta. Mér hrýs hugur við nefskatti á alla meðlimi fjölskyldunnar. Ég skal nefna að ég á barnabörn sem eru þríburar, sem eru að verða 12 ára, stúlkur í fjölskyldunni er einnig drengur sem er einu ári yngri. Þegar þau verða 18 ára, miðað við frumvarpið, ættu þau að greiða 81 þús. kr. á ári fyrir afnot af fjölmiðlinum. Hv. þingmaður Hjálmar Árnason benti á hugsanlega félagslega aðgerð en mér hugnast ekki sú aðferð.



[23:21]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hygg ég einnig, og kannski fleiri, gerum einkum þrenns konar athugasemdir við frumvarpið sem hér liggur frammi. Við höfum reyndar einnig nefnt þrjú atriði þar sem við erum sammála frumvarpsflytjandanum.

Við höfum talað um rekstrarformið sem hér hefur tekið mest rúm í umræðunni. Við höfum líka, og í raun og veru fyrst og fremst, talað um hlutverk útvarpsins, innihald þess sem almannaútvarps og hvernig það rímar við þá fjármögnun, að þriðjungi með auglýsingum og kostun, sem hæstv. menntamálaráðherra gerir ráð fyrir í frumvarpinu. Við höfum líka bent á að þetta frumvarp leysi ekki það vandamál sem hefur verið hvað mest áberandi og mætt hvað mestri gagnrýni á síðustu árum og áratugum, sem er pólitísk stjórnun á Ríkisútvarpinu.

Það er ástæða til að fara yfir þennan síðasta lið. Hann hefur ekki fengið mikið rúm. Einkum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kosið að ræða frekar um hlutafélög og önnur rekstrarform. Reyndar hefur hæstv. menntamálaráðherra látið liggja að því að hér sé eingöngu um rekstrarformsbreytingu að ræða. Hvað varðar hin pólitísku áhrif, hina pólitísku stjórnun, er það rétt hjá hæstv. menntamálaráðherra, að ekki er gerð nein tilraun til að breyta því ásigkomulagi sem nú er á Ríkisútvarpinu að því leyti.

Við Samfylkingarmenn höfum skosið, vegna þeirrar vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum, að fara í gegnum frumvarpið um Ríkisútvarpið út frá hlutverki þess sem almannaútvarps. Við höfðum sjálfstraust til að leggja þetta frumvarp til grundvallar, svo sem eins og til æfingar, til að athuga hvernig mætti gera það þannig úr garði að við gætum samþykkt það. Við gerðum það m.a. vegna þess að miklar líkur eru til þess að í framtíðinni, vonandi á næstu missirum, komist Samfylkingin í stjórn og fái þar það ágæta hlutverk að glíma við breytingar á Ríkisútvarpinu eins og það er nú. Við miðum vinnu okkar því við praktískar lausnir. Ég vil fara yfir hvað við getum ímyndað okkur að muni vinna gegn hinum beinu pólitísku áhrifum, annars vegar stjórnmálaflokkanna í gegnum þingið og hins vegar stjórnmálamannsins sem gegnir hlutverki menntamálaráðherra hverju sinni. Hvernig er hægt að sjá til að þau dofni þannig að stjórnmálamennirnir sjái um það eftirlit sem þeir eiga að sjá um fyrir hönd almennings en hins vegar skerði það ekki sjálfstæði Ríkisútvarpsins og ritstjórnarlegt frelsi þar á bæ?

Ef við tökum þetta frumvarp er auðvitað ekki við hæfi að gera ráð fyrir því árið 2006 að áfram sé ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráði, sem heitir að vísu stjórn. Það er auðvitað gamla útvarpsráðið. Í raun er stjórnin mjög lík útvarpsráði eins og það vinnur núna og hefur gert í 5–10 ár. Það sýnir vel vandræðaganginn við að reyna að troða Ríkisútvarpinu inn í hlutafélagsformið hvernig til tekst með stjórnina. Í hlutafélagsforminu er gert ráð fyrir aðalfundi á hverju ári og skipað fyrir um það. Þá á eigandinn, handhafi hlutabréfsins, að mæta á hverju ári og kjósa í stjórn eins og hluthafar gera á hverju ári í venjulegum hlutafélögum. Því er þó þannig komið fyrir að hann kýs ekki sjálfur í stjórnina heldur á Alþingi að kjósa í stjórnina á hverju ári. Þá kemur upp hið skrýtna fyrirkomulag að ekki er einungis um ríkisstjórnarmeirihluta að ræða heldur hefur umboð stjórnarmannanna þrengst mjög og takmarkast. Það þrengist þannig að þeir hafa umboð í eitt ár í einu. Þeir hafa ekki umboð einhver kjörtímabil þar sem þeir geta þó hagað sér á ákveðinn hátt sjálfstætt gagnvart þeim sem gaf þeim umboðið, þ.e. Alþingi, eða réttara sagt þingflokkunum því þannig er það í rauninni.

Þetta er töluvert kviksyndi. En úr þessu er hægt að leysa með ákveðnum hætti. Katrín Júlíusdóttir nefndi það t.d. áðan og hafði eftir mér. Ég hafði ekki nefnt þann möguleika við þessa umræðu en við höfum talað um það í Samfylkingunni og því var ákaflega eðlilegt að hún gerði það. Við höfum ímyndað okkur að þessi meiri hluti gæti verið fjölskipaður með því að bæta tveimur starfsmönnum við þá fimm sem þar eru fyrir og þá sé enginn ríkisstjórnarmeirihluti í útvarpsráðinu. Það er eðlilegast að þar sé hvorki meiri hluti né minni hluti heldur ráði menn ráðum sínum með hagsmuni fyrirtækisins í huga og komist þannig að hinu rétta, eins og gerist víða í sveitarstjórnum þar sem meiri hluti og minni hluti eru svona meira upp á punt, sérstaklega í þeim minni. Það er líka sjálfsagt að breyta þessu þannig að það sé ekki þetta eins árs kjörtímabil, jafnvel þótt viðhaldið væri þessum aðalfundi á hverju ári, heldur að kjósa stjórnina alla á þingi til lengri tíma, eins og nefnt var áður.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði að þetta frumvarp stæðist öll tilmæli Evrópuráðsins R(96) 10, um sjálfstæði almannaútvarps. Ég er hér með tilvitnun og skal lesa fyrstu setninguna í athugasemdum um viðmiðunarreglur 5: „Til að tryggja sjálfstæði stjórnar almannaútvarpsstofnunar er mikilvægt að stjórnirnar séu ekki háðar neins konar stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar afskiptum við starf sitt.“

Hvernig er hægt að vera meira háður stjórnmálalegum afskiptum en að vera kosinn á hverju ári til stjórnarsetu? Það er undarlegt.

Við höfum líka gert athugasemdir við ráðningartíma útvarpsstjóra. Við teljum að hann verði að hafa starfsfrið og því sé út í hött að ráða hann eins og nú er gert, að hægt sé að reka hann daginn eftir. Við spyrjum að því: Af hverju má ekki ráða hann til til fimm ára? Af hverju má ekki gera það með auknum meiri hluta í þessari stjórn eins og hún yrði? Þannig væri klárt að menn væru sammála um að ráða hann eða reka. Við höfum líka talað um, og erum ekki fyrst til þess, að eðlilegt væri að við Ríkisútvarpið starfaði einhvers konar eftirlitsráð, eins og það er kallað í evrópskum plöggum, eða akademía sem væri fulltrúi neytenda, með öðrum hætti en stjórnin er eða útvarpsráðið. Þar kæmi saman breiður hópur. Slíkt ráð gæti komið saman einu sinni eða tvisvar á ári, kannski svipað og kirkjuþing án þess að ég ætli að bera þau fyrirbrigði nánar saman. Það væri kannski fyrst og fremst ráðgefandi en fyrir hópinn þyrfti að leggja skýrslur og ályktanir. Það væri ekki óeðlilegt, ef slíkur hópur kæmist á og reyndist vel, að hann þyrfti jafnframt að gefa samþykki sitt við þeim samþykktum sem menntamálaráðherra ætlar að láta gera á hluthafafundum. Með því yrði temprað vald ráðherrans og reyndar útvarpsstjórans einnig. Þar með kæmist á kerfi í Ríkisútvarpinu sem er þess virði að prófa.

Þetta höfum við rætt um að gæti verið snjallt að gera. En því miður kemur ekkert út úr meiri hlutanum nema fúkyrði. Frá menntamálaráðherra kemur ekki annað en belgingur, sama hvað við leggjum fram. Ég vil þó nota tækifærið og koma þessu á framfæri. Ekki síst vegna þess að þá vita menn betur hvers þeir eiga von og hvaða hugmyndir við höfum fram að færa í kosningabaráttunni vorið 2007 og eftir að við tökum við stjórnartaumum á því sumri.

Ég vil segja að gefnu tilefni að vissulega höfum við, Vinstri hreyfingin — grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn ekki nákvæmlega sömu hugmyndir um Ríkisútvarpið. Ég vil þó að segja að ég treysti mér vel til að ná samkomulagi við þá flokka um málið vegna þess að báðir vilja þeir að Ríkisútvarpið sé almannaútvarp. Það er einlæg hugsjón (Forseti hringir.) hjá öllum þessum flokkum og er þeim sameiginleg.



[23:31]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er rætt við 1. umr. frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. sem felur að meginstofni í sér að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og breyta þar með rekstrarformi og ýmsu í ytri ramma útvarpsins og þá líka starfsháttum og innra skipulagi.

Kannski kristallast ólík sjónarmið í þessu máli í orðum sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson viðhafði hér áðan þegar hann sagði: „Hvers vegna á ekki útvarpsstjóri eða framkvæmdastjóri útvarpsins að vera bara eins og hver annar forstjóri fyrir hverju öðru hlutafélagi? Hvers vegna á að vera önnur umgjörð um framkvæmdastjóra útvarpsins en framkvæmdastjóra hlutafélaga almennt?“ Þetta er jú spurning út af fyrir sig.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lítum á Ríkisútvarpið sem almannaþjónustustofnun, mikilvæga stofnun til að standa að ákveðinni þjónustu fyrir almenning. Það er menningarstofnun. Það er fréttastofnun. Það er stofnun til þess að miðla upplýsingum. Það er öryggisstofnun. Það er almenningsstofnun og hlutverk þess er fyrst og fremst það.

Hlutafélag aftur á móti er umgjörð um fyrirtæki í samkeppnisatvinnurekstri. Hlutafélag er umgjörð um fyrirtæki sem fyrst og fremst er ætlað að skila eigendum sínum fjárhagslegum arði. Hlutafélag er umgjörð þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að selja hluta úr félaginu, enda heitir það hlutafélag. Það er hægt að selja fáa eða marga eða alla hluti hlutafélagsins. Þetta er þá tilgangurinn þegar verið er að stofna hlutafélag, þ.e. að fella það að samkeppnisumhverfi í atvinnurekstri. Ég er alveg sammála kostum hlutafélagsformsins við þær aðstæður. Atvinnurekstur í samkeppni getur verið til sölu að hluta eða öllu leyti. Hann hefur það hlutverk að skila eigendum sínum hámarksarði. Þetta getur vel hentað í samkeppnisatvinnurekstri. En þegar litið er á Ríkisútvarpið, á þjónustustofnun sem fyrst og fremst þjónar almenningshagsmunum, þá hentar þetta form engan veginn. Þess vegna kristallast ólík sjónarmið í orðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þegar hv. þingmaður gerir ekki greinarmun á því hvort Ríkisútvarpið sé þjónustustofnun eða bara fyrirtæki í rekstri. En fyrirtæki í rekstri sem hlutafélag ber númer eitt að skila eigendum sínum arði af rekstrinum.

Við höfum hér fordæmi fyrir því hvernig fer þegar það ferli hefst að breyta þjónustustofnunum í hlutafélög einmitt í þeim tilgangi, eins og hér hefur komið fram, að nútímavæða þær. Menn hafa talað um að þeir væru að nútímavæða þær og þess vegna þurfi að breyta þeim í hlutafélög.

Frú forseti. Ég hef verið forstöðumaður fyrir ríkisstofnun og ég taldi mig alveg sæmilega hafa nútímavætt hana. Ég fann aldrei að það hamlaði mér eða starfseminni eða stofnuninni á nokkurn hátt þó að hún væri ríkisstofnun. Ég leit á stofnunina sem þjónustustofnun við almenning, við þjóðina og að sjálfsögðu var allt sem laut að rekstri og rekstrarhagkvæmni haft í heiðri eins og kostur var, að sjálfsögðu. Enda þótt stofnun sé ríkisstofnun þá er ekki þar með sagt að kasta eigi fyrir róða öllu því sem heitir hagkvæmni í rekstri, fjarri því. Það er því blekkingartal þegar sagt er að nútímavæða þurfi reksturinn og að það sé aðeins hægt með því að hlutafélagavæða. Það sýnir bara, frú forseti, dómadags vankunnáttu þeirra sem láta sér slíkt um munn fara. Ég verð eiginlega að halda að hv. þingmenn viti betur en að láta sér um munn fara að þetta sé nauðsynlegt til þess að nútímavæða reksturinn og að ekki sé hægt að gera það innan viðja ríkisstofnunar.

Nema þá, frú forseti, að menn séu að horfa til þeirra vandræða sem þeir stóðu frammi fyrir fyrir skömmu varðandi Kjaradóm og kjaranefnd því að ýmsir forstjórar ríkisstofnana heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd og fá laun sín ákveðin þannig. Aðrir starfsmenn fá laun sín samkvæmt ákvörðun kjarasamninga opinberra starfsmanna á einn eða annan veg. En með því að breyta þessu í hlutafélag losna menn við að fella þessa starfsmenn undir almenna kjarasamninga, forstjórana, og geta gert við þá sérsamninga og þurfa þá ekki að liggja andvaka um jól og áramót vegna þess að einhver Kjaradómur hefur úrskurðað þeim laun. Með því að kippa framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins út fyrir sviga, taka hann út fyrir almenna launaákvörðun alveg eins og framkvæmdastjóra Íslandspósts — er hann ekki formaður Samtaka atvinnulífsins núna? Hann er líka forstjóri fyrir ríkisstofnun en laun hans eru ekki ákveðin af Kjaradómi, nei, samkvæmt sérstakri ákvörðun þeirrar stjórnar sem ræður hann. Er þetta þó að fullu ríkisstofnun. Eins er með Samkeppniseftirlitið og eins er með Fjármálaeftirlitið. — Eru menn kannski að reyna að forðast andvökunætur út af Kjaradómi með því að taka hann þarna út fyrir sviga? Alla vega býst ég við að laun forstjóra Ríkisútvarpsins samkvæmt nýjum lögum verði ekkert í líkingu við þau laun sem verið var að takast á um hér við Kjaradóm. Ég dreg þetta hérna fram, frú forseti, því að hér hefur verið lögð áhersla á að þetta verði áfram ríkisfyrirtæki að fullu í eigu ríkisins en lúti hins vegar öðrum lögmálum.

Hér hefur verið á það minnst að þetta hafi áður verið gert og svardagar gefnir um að ekki eigi að selja. Í aðdraganda hlutafélagsvæðingar Pósts og síma árið 1996 birtist viðtal við þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal í 4. tölublaði 8. árgangs BSRB-tíðinda frá 1995. Þar segir, með leyfi forseta:

„Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem eingöngu notar stafrænt símakerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada, sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu, þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.“

Hefur einhver álasað eða fundið að því að Ríkisútvarpið hafi ekki fylgst með á tæknisviðinu eftir því sem það hefur fengið fjármagn til? Þó að við höfum gagnrýnt það að Ríkisútvarpið skuli ekki veita með betri þjónustu úti um land og að útvarpssendingar séu takmarkaðar víða um land þá hygg ég þó að ekki sé hægt að væna Ríkisútvarpið um að það hafi ekki reynt að gera sitt og fylgjast vel með alveg eins og þáverandi samgönguráðherra sagði um Póst og síma. Hann hældi honum fyrir það hvað honum var vel stjórnað og hvað allir reyndu að gera eins gott úr öllu sem þeir höfðu á milli handanna og kostur var. Ekki var það það ástæðan og það er hliðstætt því sem er í dag.

Svo segir þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem er rekin eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum, þótt í smáu sé, nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútímaviðskiptaháttum.“

Já, það er nú meira hvað þessir alþingismenn þvælast fyrir. Þeir eru greinilega mesti þrándur í götu fyrir nútímavæðingunni ef eitthvað á að vera að marka þær setningar sem sagðar eru þarna og hafa verið sagðar hér í dag. Þeir eru þrándur í götu þess að hægt sé að bregðast vel og snögglega við samkvæmt nútímaviðskiptaháttum.

Svo segir þáverandi samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur.“ — Takið eftir starfsöryggi. — „Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“

Ef við hefðum sett bara Ríkisútvarpið þarna inn í staðinn hefðu þetta verið eiginlega alveg nákvæmlega sömu orðin og hæstv. virðulegur menntamálaráðherra viðhafði hér. Við hefðum bara getað sett Ríkisútvarpið í staðinn fyrir Póst og síma og þá væru þetta eiginlega nákvæmlega sömu orðin og standa í greinargerðinni með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og nákvæmlega það sem hæstv. menntamálaráðherra sagði.

Hver var síðan niðurstaðan með Landssímann þrátt fyrir alla þessa svardaga? Fyrst var gefin heimild til þess að hlutaféð væri selt og síðan var hann seldur. Og hver ætli hafi verið sýnileg afstaða þjóðarinnar gagnvart því máli? Í hverri stórri skoðanakönnuninni á fætur annarri kom fram að mikill meiri hluti, allt upp í 80% þeirra sem tóku þátt í þeim skoðanakönnunum sem gerðar voru síðustu mánuðina áður en Landssíminn var seldur voru andvíg sölunni en samt var hann seldur. Þessi andstaða var vituð. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að þetta fari ekki nákvæmlega á sömu leið með þjónustustofnunina Ríkisútvarpið? Að minnsta kosti er vilji áhrifamikilla þingmanna annars stjórnarflokksins alveg klár, Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa meira að segja flutt þingmál þar sem lögð var áhersla á að selja Ríkisútvarpið, frumvarp til laga á yfirstandandi löggjafarþingi, mál nr. 54 á þskj. 54. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson. Þar segir á bls. 6, með leyfi forseta:

„Einkavæðing RÚV. Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, verði felld úr gildi 1. janúar 2007, en nánar tilgreind ákvæði þeirra verði tekin upp í útvarpslög, nr. 53/2000. Stofnað verði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins og það selt.“

Þannig er vilji áhrifamanna Sjálfstæðisflokksins. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, einnar af mikilvægustu nefndum þingsins af öllum öðrum mikilvægum og þess vegna greinilega háttsettur í trúnaðarstöðum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, setur þetta fram.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði hér til flokkssamþykkta, bæði Sjálfstæðisflokksins og ungra sjálfstæðismanna, þar sem sömu sjónarmið eru áréttuð. Það er því alveg ljóst hvert stefnt er. Hv. þm. Ögmundur Jónasson rifjaði líka upp flokkssamþykktir Framsóknarflokksins og vitnaði í skrif hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hafði rakið það mjög ítarlega að Framsóknarflokkurinn hefði afdráttarlaust hafnað því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið því að hann vissi að það mundi leiða til sölu þess. En Framsóknarflokkurinn hefur látið undan og vilji Sjálfstæðisflokksins orðið ofan á.

Frú forseti. Það er því ljóst í hvaða feril verið er að fara. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið þar sem byggt er á þeim grundvallarsjónarmiðum, hugsjónum og afstöðu að Ríkisútvarpið sé almannaþjónustustofnun til að þjóna almenningi. Markmiðið er ekki að skaffa eigendum hámarksarð eins og gert er þegar verið er að stofna hlutafélög. Við leggjum líka áherslu á lýðræðislega uppbyggingu Ríkisútvarpsins. Greinir þar verulega á í þeim áherslum sem lagðar eru upp í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Þar er gert ráð fyrir að aðild starfsmanna t.d. að stjórn útvarpsins sé engin, hún sé slegin út. Maður veltir því fyrir sér hvað bærist innra með ráðherra hjá flokki sem stundum hefur kennt sig við lýðræði og kallar sig Sjálfstæðisflokk. En grunnlýðræði er einmitt ekki síst það að starfsmenn geti orðið þátttakendur í stjórnun þess fyrirtækis sem þeir starfa hjá. Það er kostur að þekking þeirra, reynsla og metnaður fyrir hönd þeirrar stofnunar sem þeir vinna hjá geti átt sér farveg í gegnum stjórnun á þeirri stofnun. Nei, þetta er talið geta truflað hugsanlegar arðgreiðslur. Alla vega er þetta eitt af grundvallaratriðunum sem lagt er upp með að starfsmenn hafi sem minnsta aðkomu að stjórnun Ríkisútvarpsins. Það gengur þvert á lýðræðishugmyndir og áherslur varðandi lýðræði í atvinnurekstri hjá fyrirtækjum og stofnunum sem hefur þó verið aðall í þróun í stjórnun og rekstri stofnana á undanförnum árum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem fór hér mjög ítarlega í gegnum þessi mál, sagði að verið væri að fara 25 til 40 ár aftur í tímann hvað varðar stjórnun og hugmyndir um stjórnun hvort heldur væri fyrirtækja eða stofnana. Ég er honum sammála. Hér er verið að fara langt aftur í tímann með því að taka upp forneskjuleg vinnubrögð við að byggja upp stjórnun fyrirtækis hvað þá heldur almannaþjónustustofnunar eins og Ríkisútvarpið er.

Frú forseti. Ég hlýt að harma þá ógæfu sem er að dynja yfir heilu stjórnmálaflokkana með því að koma hér og flytja frumvarp til laga um jafnmikilvæga þjónustustofnun, almannaþjónustustofnun, og Ríkisútvarpið er og breyta því annars vegar í seljanlegt fyrirtæki og hins vegar að færa stjórnun og starfsumgjörð þess áratugi (Forseti hringir.) aftur í tímann.



[23:51]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla mér kannski um of að halda bæði vöku og athygli hv. þingmanna þegar svo langt er liðið á kvöld og eftir þá löngu umræðu sem hér hefur staðið í allan dag. Þetta hefur að mörgu leyti verið fróðleg og á köflum málefnaleg umræða þar sem sjónarmið hafa tekist á en það eru nokkrir punktar sem mig langaði sérstaklega að vekja eftirtekt á og koma sjónarmiðum mínum á framfæri varðandi þá.

Fyrst vil ég nefna, frú forseti, að ég hef lesið með athygli þær greinar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur skrifað um þessi efni og hlustað á ýmis viðtöl sem hæstv. ráðherra hefur farið í vegna þessa máls. Það vekur eftirtekt mína að í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði í gær dregur hún sérstaklega fram að í niðurstöðum fjölmiðlanefndar sem skilaði skýrslu á síðasta vori væri efsta mál á niðurstöðulista þeirrar nefndar að efla verði Ríkisútvarpið. Þess vegna kemur mér á óvart að hæstv. ráðherra, ef hún ber hag Ríkisútvarpsins svona fyrir brjósti, skuli vera svo sein sem raun ber vitni að koma af stað starfi til að vinna frumvarp á grundvelli þeirrar skýrslu. Muni ég rétt, frú forseti, skilaði sú nefnd afrakstri sínum þegar á síðastliðnu vori. Hvernig ber þá við að hæstv. ráðherra hefur ekki gert reka að því að koma af stað starfi til að vinna úr þessum mikilvægu niðurstöðum, sem hæstv. ráðherra sagði á sínum tíma að fæli í sér sögulega sátt, fyrr en núna? Ég spyr sérstaklega vegna þess að það er alveg ljóst að í þessu frumvarpi er ekki bara verið að ræða formið eins og hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa þó nefnt. Hér er að finna mikilvæga stefnumarkandi grein um framtíð Ríkisútvarpsins, þ.e. 3. gr., þar sem verið er að reyna að reifa og skilgreina útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þetta er það sem hæstv. ráðherra sagði síðast í grein í Fréttablaðinu í gær að ætti að verða eitt af stóru verkefnunum í vinnu nefndarinnar sem á eftir að semja frumvarp. Hvernig má þá vera, ef hæstv. ráðherra ber svo fyrir brjósti hag almannaútvarpsins, að hún láti þetta tvennt ekki fylgjast að?

Mér finnst það rækalli mikið sleifarlag af hálfu hæstv. ráðherra að láta líða sjö, átta mánuði áður en hún hefst handa við að láta vinna frumvarp úr gögnum fjölmiðlanefndarinnar. Það hefði verið leikur fyrir hana, ef svo er sem hæstv. ráðherra hefur sagt að það sé svo mikil sátt um málið, að gera það strax í sumar og vera reiðubúin með það fyrir jól. Þá hefðu menn getað verið að ræða þetta saman og við mundum kannski sjá hvert það leiðarljós er sem hæstv. ráðherra fylgir varðandi framtíð Ríkisútvarpsins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Af hverju var hún svona lengi að koma þessari vinnu af stað? Í öðru lagi: Af hverju lætur hún þessi tvö mál ekki fylgjast að? Því það er alveg ljóst að þetta frumvarp er ekki bara um formið, þó að menn hafi kosið að gera það aðallega að umræðuefni í dag, heldur er hér verið að reifa í töluvert ítarlegu máli þá stefnu sem Ríkisútvarpið á að fylgja í framtíðinni og þess vegna hefði þetta tvennt átt að fylgjast að.

Frú forseti. Eftir að hafa setið sem fulltrúi Alþingis Íslendinga í Evrópuráðinu og kynnt mér alveg sérstaklega starfsemi fjölmiðlaskrifstofu ráðsins kemur mér mjög á óvart að hæstv. ráðherra skuli halda því fram alveg blákalt að sá umbúnaður sem hér er á stjórn Ríkisútvarpsins hf., ef frumvarpið verður samþykkt, falli í öllu, eins og hæstv. ráðherra sagði í dag, að tilmælum Evrópuráðsins. Ég tel að því fari víðs fjarri. Grundvallarskilyrði af hálfu Evrópuráðsins þegar það ráðleggur nýfrjálsum ríkjum í Austur- og Mið-Evrópu með hvaða hætti þau eigi að byggja upp sitt almannaútvarp er að aðskilja hina nýju stofnun frá hinu pólitíska valdi. Segja má að það sé að vissu marki stigið svolítið skref frá hinu pólitíska valdi með því að pólitískur handhafi framkvæmdarvalds skipar ekki lengur eða ræður í meiri háttar stöður í stofnuninni. En hver er breytingin þegar skyggnst er undir yfirborð frumvarpsins? Þá sjáum við líka að að sumu leyti er tekið skref í átt að auknu pólitísku valdi. Ég á hér við þá staðreynd að það er alveg ljóst að stjórn fyrirtækisins er áfram pólitískt kjörin, þó að hæstv. ráðherra skipi til málamynda stjórnina er hún kjörin hér. En breytingin er sú að fulltrúarnir sem hér eru kjörnir eru undir meira agavaldi en áður vegna þess að nú eru þeir bara kjörnir til eins árs í senn. Það þýðir að það er ákaflega auðvelt að koma þeim frá sem víkja út af spori og fjarlægja þá. Að þessu leyti má setja að agi tyftunar sem er yfirvofandi feli í sér meiri ógn gagnvart þeim en í núverandi kerfi. Með sama hætti mætti halda því fram að ráðningarháttur útvarpsstjóra feli hið sama í sér. Hann hefur ekki vernd, eins og kemur nú fram í tilmælum Evrópuráðsins, tímalega gagnvart því að verða hugsanlega vikið frá ef hann fer út af sporinu.

Nú kemur mér ekki til hugar að hvorki núverandi hæstv. ráðherra né aðrir mundu grípa til svo drastískra ráða en þarna er eigi að síður ekki nægilega vel um hnúta búið. Þegar ég ræði þetta og samband þess einstaklings sem er ráðherra hverju sinni og hins sem er útvarpsstjóri þá vil ég leyfa mér að taka þær persónur og leikendur sem eru á sviðinu út fyrir sviga. En staðreyndin er samt sem áður sú að einmitt í gegnum tengsl handhafa framkvæmdarvaldsins að þessu leyti og löggjafarvaldsins sem kýs fulltrúana í útvarpsráðið sem aftur ræður útvarpsstjórann, á meðan þessi umbúnaður er, hefur sá sem er ráðherra málaflokksins giska mikil völd í sínum höndum. Ég kemst því að þeirri skoðun, frú forseti, að það sé töluvert fjarri því að þetta standist algjörlega þau tilmæli sem Evrópuráðið veitir. Það hefur margsinnis komið fyrir, eins og hv. þingmenn vita, að 1. þm. Reykv. n. hafi haft rangt fyrir sér og það er vel hugsanlegt að ég hafi rangt fyrir mér í þessu efni og hugsanlegt að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér, en það er leið til að skera úr um það. Það er hægt að fá fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins til að skoða það og gefa skriflega umsögn um það. Því langar mig að spyrja hæstv. menntamálaráðherra og hv. formann menntamálanefndar hvort þau séu ekki bæði þeirrar skoðunar að það væri æskilegt til að engin tvímæli væru á þessu að slík umsögn lægi fyrir áður en þetta frumvarp verður í gadda slegið og samþykkt af Alþingi. Ef hæstv. ráðherra er algerlega sannfærð um að hún hafi rétt fyrir sér á hún ekkert á hættu. Ég skal þá beygja mig í duftið og segja að hún hafi haft rétt fyrir sér þegar það liggur fyrir en ekki fyrr en þá.

Munurinn á mér og þeim hv. þingmanni sem hér situr inni í afherbergi, Ögmundi Jónassyni, varðandi ríkisrekstur almennt er sá að ég er í prinsippinu ekki á móti því að ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki í opinberri eigu séu gerð að hlutafélögum, ég hef margsinnis tekið þátt í því. Ég er heldur ekki á móti því, frekar með því, að samkeppnisrekstur í eigu ríkisins sé færður yfir á einkamarkað, það hefur margsinnis komið fram. En ástæðan fyrir því að ég er fullur efasemda um að rétt sé að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er sá beygur minn að það sé fyrsta skrefið í þá átt að selja það. Nú er það svo að hæstv. menntamálaráðherra hefur hér haft uppi svardaga og hún hefur sagt: Það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Má ég minna á að það er ekki langt síðan sú sáttargerð sem ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar kom fram. Hæstv. ráðherra kallaði hana sögulega, taldi mjög merkilegt að samstaða hefði náðst innan nefndar þar sem allir teygðu sig langt til þess að ná málamiðlun, um það var m.a.s. deilt í sumum flokkum, þar á meðal mínum.

En hin sögulega sátt lifði ekki lengi vegna þess að þegar hæstv. menntamálaráðherra var tugtuð til af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, sem þá var á sínum síðustu pólitísku metrum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá bognaði hún eins og strá og hún féll frá hinni sögulegu sátt. Sporin hræða. Hæstv. menntamálaráðherra, sem hafði faðmað og kysst þessa sátt eins og mær í tilhugalífi opinberlega, skipti um skoðun á einni nóttu og það þurfti ekki annað en einn sterkan stjórnmálamanna til þess að hósta á hana.

Það eru margir öflugir í Sjálfstæðisflokknum í dag og það eru uppvaxandi ungir og efnilegir menn sem að sjálfsögðu munu gera það sem þeir geta til þess að koma fram sinni skoðun. Það vill svo til að eitt af vonarstirnum Sjálfstæðisflokksins, hinn ungi þingmaður sem treyst er fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að leiða menntamálin í gegnum þingið, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur mjög klára skoðun á þessu. Það er sú skoðun sem Samband ungra sjálfstæðismanna hefur haft mjög lengi. Það er sú skoðun sem af og til hefur heyrst á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Það er t.d. sú fundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins sem í dag er tíu ára gömul en hefur aldrei verið úr gildi felld svo að ég viti, sem laut að því að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, verkstjóri hæstv. menntamálaráðherra hér í þinginu, er alinn upp í þessum anda, hreinskilinn ungur maður og hann hefur ekkert farið dult með skoðun sína hér í dag. Hann var spurður að því hvaða afstöðu hann hefði til fyrri yfirlýsinga sinna um að selja Ríkisútvarpið og hv. þingmaður bara gekkst við þeim. Það hefur ekkert breyst á þeim bæ.

Þrír öflugir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki bara lýst vilja sínum til þess að selja Ríkisútvarpið, þeir hafa beinlínis gert Alþingi tillögu um að hefjast handa við að selja það. Ég minnist þess þegar ég var töluvert yngri á vellinum með félaga Jóni Baldvin 1995 þá sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn væri svo skroppinn hugsjónum að hann hefði bara tvennt á sinni stefnuskrá, sem var rétt varðandi þær kosningar, að efla guðskristni í landinu og selja Rás 2. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum.

Því legg ég lítinn trúnað og lítið traust á yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra varðandi þetta frumvarp um að ekkert skuli selt — í ljós kemur þegar ég les það að það er opnað á það að selja Rás 2. Í 2. tölulið 3. gr. kemur beinlínis fram að það er heimilt að þessu frumvarpi samþykktu að selja Rás 2. Þar segir að RÚV hf. skuli einungis bera skylda til þess að reka eina sjónvarpsrás og eina útvarpsrás. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er allt í lagi að koma hinum frá, svo einfalt er það nú. Þannig að því miður, sporin hræða.

Hér í dag kom vitni í stólinn. Hv. þm. Hjálmar Árnason, partur af þeim flokki sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að lúskra í duftið í þessu máli. Hann kom og sagði að fyrir ári hefði verið mikill kvíði í Framsóknarflokknum um það að ef frumvarp af þessum toga yrði samþykkt þá yrði RÚV selt. Af hverju? Vegna þess, eins og hann sagði hér í stólnum: Við vissum til þess að margir þingmenn sjálfstæðismanna vilja selja RÚV. Hann sagði í dag að það væru margir þingmenn sem vildu það. Hann taldi hins vegar að það hefði verið slegið undir þann möguleika með orðalaginu í 1. gr. um að sala sé óheimil. Frú forseti, ég gef nú lítið fyrir það. Ég hef nú sjálfur verið í liði ríkisstjórnar sem setti svipuð lög. Þau hlutafélög eru ekki lengur í eigu ríkisins og ég á minn þátt í því líka. Þar var um allt annað mál að ræða.

Hér hafa menn deilt um hvort hafa eigi það form að hafa sjálfseignarfélag í atvinnurekstri eða hlutafélag. Fyrstur manna skal ég játa að hlutafélög eru auðvitað giska lipur í rekstri og þau eru þekkt út í hörgul. Það gerist fátt í hlutafélögum sem menn hafa ekki kynnst áður þannig að það er auðvelt að leysa margvíslegan vanda. En hlutafélagsformið hefur fyrst og fremst verið notað í kringum fyrirtæki þar sem menn eru að ávaxta sína peninga, fyrirtæki í rekstri að reyna að hafa af því fjárhagslegan ávinning. Það gildir allt annað um fyrirtæki sem eru í opinberri eigu eða stofnanir. Það er allt annar tilgangur með þeim og það eru aðrar hefðir. Ég verð að segja það að sjálfseignarstofnun gengur a.m.k. vel upp innan ramma laganna. Hún er kirfilega gróðursett innan vébanda einkaréttarins. Hún er líka þekkt úr atvinnulífinu, m.a.s. þekkt að því að helsta útungunarstöð Sjálfstæðisflokksins, virtur skóli, Verslunarskólinn, var áratugum saman rekinn sem sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Ef einhverjir þekkja kosti þess fyrirkomulags þá eru það hinir ungu tyrkir íhaldsins sem hér hafa stundum streymt á síðustu áratugum í gegn.

Framsóknarflokkurinn var vélaður til þess að samþykkja þetta. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég heyrði hæstv. forsætisráðherra segja það, og á það reyndar hér á borði mínu í útskrift af frétt, að ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn skipti um skoðun hafi verið sú staðreynd, sagði hann, að ESA teldi að það væri nauðsynlegt að hafa þetta sem hlutafélag til þess að það stæðist ákveðin skilyrði. Sú var ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn skipti um skoðun.

Svo hlustaði ég á mál hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem ég hef áður sagt í minni ræðu að er hreinskilinn ungur maður. Hann sagði það alveg hreint út hér í dag að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gengi alveg, hitt væri bara miklu betra.

Þegar maður les síðan greinargerðina með þessu frumvarpi kemur í ljós að þar er sagt svart á hvítu að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gengur alveg að því leyti til að hún uppfyllir skilyrðin sem ESA setur um að ótakmörkuð ríkisábyrgð sé ríkisstuðningur og sömuleiðis um aðskilnað samkeppnisrekstrar frá ríkisstyrktum rekstri. Það er m.a.s. sagt hér á tveimur stöðum að hlutafélagsformið þyki henta betur. Það er ekki sagt: Hlutafélagsformið er það eina sem gildir. Það þykir henta betur. En höfundar frumvarpsins, og fyrir það fær hæstv. menntamálaráðherra hrós, segja svart á hvítu á bls. 10 að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri gangi.

Hvaða ályktun dregur maður þá af þessu? Er það svo að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin beri það fyrst og fremst fyrir brjósti að ná sátt um þessa breytingu, að ná sátt um breytingu á Ríkisútvarpinu? Ef svo væri mundi hún þá ekki taka minnsta mögulega samnefnarann, þ.e. annan af þeim tveimur möguleikum sem ríkisstjórnin sjálf segir að komi til greina? Hún segir að vísu að annar sé betri. Hefði hún þá ekki tekið þetta? Jú. Af því dreg ég þá ályktun eina, frú forseti, að hér sé um að ræða einhvers konar trúarbrögð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég tel sem sagt að það mundi vel ganga, og það séu hefðir fyrir því og það sé lagarammi fyrir því, að sjálfseignarstofnunarformið yrði haft um Ríkisútvarpið. Ástæðan fyrir því, og ég ítreka það, að ég hef miklar efasemdir um hlutafélagsformið er fyrst og fremst sú að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Sporin hræða. Ég treysti ekki yfirlýsingum hæstv. menntamálaráðherra af því að frumvarpið opnar á annað og ég treysti ekki orðum hv. þm. Sigurðar Kára varðandi þetta vegna þess að hann hefur sjálfur lýst öðru yfir í formi tillögu hér í þinginu. Ég treysti því ekki þegar ríkisstjórnin segir að RÚV verði ekki selt vegna þess að ég veit að um allan Sjálfstæðisflokkinn glittir í þennan vilja, hann er skjalfestur í formi samþykkta hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, í gömlum landsfundarsamþykktum.

Það sem mér finnst sorglegast og enda ræðu mína á því, frú forseti, er sú staðreynd að hér í dag hefur enginn úr liði ríkisstjórnarinnar talað um með hvaða hætti megi efla Ríkisútvarpið. Það var rauði þráðurinn í niðurstöðu tveggja nefnda, sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði um fjölmiðla á Íslandi, að það sem skipti langmestu máli væri að efla Ríkisútvarpið vegna þess að það væri langbesta vörnin gegn því að fjölmiðlakeðjur eða fjölmiðlarisar næðu einokunarstöðu varðandi skoðanamyndun hér á landi. Það er þess vegna sem ég á svo bágt með að skilja: Af hverju kemur ekki ríkisstjórnarliðið með einhverjar hugmyndir um það?

Að lokum, frú forseti, ég byrjaði ræðu mína á því að kvarta undan því að hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki viljað ræða þetta í samfylgd frumvarps um fjölmiðla á Íslandi almennt og stöðu Ríkisútvarpsins þar, (Forseti hringir.) en ætlar hún ekki að ljúka þessari umræðu með því að leyfa okkur að skyggnast inn í kistil sinn um það hvernig hún sér (Forseti hringir.) RÚV þróast í framtíðinni?



[00:12]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágæt, yfirgripsmikil og málefnaleg ræða hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ein lítils háttar leiðrétting þar sem vísað var í mínar skoðanir á ríkisrekstri og hlutafélagavæðingu. Í sumum tilvikum hef ég verið því fylgjandi að stofnanir og starfsemi sem áður var á vegum samfélagsins, ríkisins eða sveitarfélags, væri færð út á markaðstorgið. Ég hef talið að þar væri um að ræða samkeppnisrekstur sem ætti heima á markaði. Ég nefni Gutenberg, prentsmiðju sem á sínum tíma var rekin af ríkinu. Ég nefni SR-mjöl, verksmiðjur sem voru seldar. — Við gagnrýndum það að vísu á hvern hátt staðið var að sölunni, sem var ekki til fyrirmyndar. — Ég nefni Áburðarverksmiðjuna þar sem einnig var uppi gagnrýni um söluverð og sölumáta en það er önnur saga. Þetta vildi ég leiðrétta.

Ég vil aðeins nefna eitt varðandi einkavæðinguna eða hlutafélagavæðinguna. Þar tek ég undir með hv. þingmanni, það er ástæða til að ætla eða óttast að þetta sé fyrsta skref í ákveðnu ferli til sölu. En það er annað sem einnig hangir á spýtunni og það er að hlutafélagavæðingin rýrir réttarstöðu starfsfólksins. Það er verið að boða kerfisbreytingar á Ríkisútvarpinu sem ég tel mjög varasamar. Það er verið að færa einræðisvald í hendur framkvæmdastjóranum, útvarpsstjóranum, en hann er síðan settur undir flokkspólitískan hæl. Meiri hlutinn hér á Alþingi hverju sinni skipar stjórn yfir stofnunina sem ræður þennan sama einvald og rekur hann þannig að þar er bein tenging inn í stjórnarmeirihlutavaldið hér á Alþingi. (Forseti hringir.) Ég stóð í þeirri trú að menn ætluðu að veikja þessi tengsl en ekki treysta þau.



[00:14]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má hv. þm. Össur Skarphéðinsson eiga að hann var nú heldur málefnalegri í sinni ræðu hér en eftirmaður hans í formannsstóli Samfylkingarinnar. Það ber að hrósa mönnum þegar þeir eiga það skilið.

Ég hef ekki séð ástæðu til að fara eitthvað frekar yfir mínar skoðanir á ríkisrekstri og fjölmiðlum. Ég held að ég hafi reifað þau sjónarmið ágætlega í ræðu minni áðan. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að mín sjónarmið í því efni hafa ekki breyst, þau eru alveg hin sömu. En hv. þingmaður spurði mig og varpaði þeirri spurningu líka til hæstv. menntamálaráðherra hvort það væri æskilegt við vinnslu þessa máls að leita umsagnar fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur starfað um langt skeið innan Evrópuráðsins og þekkir þar vel til. Þetta er ágæt ábending og við meðferð málsins í hv. menntamálanefnd munum við gefa gaum að því sem Evrópuráðið hefur sagt um þessi málefni. En ég vil benda hv. þingmanni á að það er Alþingi Íslendinga sem fer með löggjafarvaldið hér, ekki Evrópuráðið. Alþingi, ríkisstjórnin og þingmenn þurfa ekkert á neinu heilbrigðisvottorði frá Evrópuráðinu að halda áður en sett eru lög um Ríkisútvarpið. Þó að ábendingin hafi verið ágæt tel ég ekki nauðsynlegt að leita umsagnar frá þeirri ágætu skrifstofu. En ég tel að það komi vel til greina að kanna þau sjónarmið og þau stefnumið sem frá henni hafa stafað (Forseti hringir.) við meðferð þessa máls í nefndinni.



[00:16]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég nú að fara að vanda um við mér yngri og örugglega miklu vitrari menn, en heldur fannst mér þessi ræða bera vott um fullmikinn þótta og stærilæti af hálfu hv. formanns menntamálanefndar. Gott og vel, ég get tekið í sjálfu sér undir allt sem hv. þingmaður sagði. Við þurfum ekkert að fara eftir Evrópuráðinu. Við þurfum ekkert heilbrigðisvottorð. En má ég rifja upp fyrir hv. þingmanni af hverju ég nefndi þetta? Það var vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra sagði að þetta stæðist tilmæli Evrópuráðsins í einu og öllu. Ég leyfi mér að efast um það og það er því sem ég segi: Látum skoða það.

Nú tel ég að Evrópuráðið hafi skipt gríðarlega miklu máli varðandi ýmsa þætti í uppbyggingu lýðræðis í Austur-Evrópu eftir að kalda stríðinu lauk og m.a. hefur ágætur Íslendingur, sem nú starfar í forsætisráðuneytinu komið að því að leiðbeina þeim um slíkt. En nú veit ég, af því að ég hef einmitt starfað þar, hvaða möguleikar eru opnir og færir þar. Það er ekki langt síðan það var þjóðaratkvæðagreiðsla í Slóveníu um fjölmiðlalög, mjög svipuð þeim og tekist var á um hér um árið. Þá var beint til ríkisstjórnarinnar að sækjast eftir slíkum álitum. Því var hafnað. En þeir þingmenn slóvenskir sem áttu sæti í Evrópuráðinu óskuðu þá skriflega eftir því við fjölmiðlaskrifstofuna að fá slíkt álit. Ef hæstv. ríkisstjórn skirrist við að verða við þessari sjálfsögðu beiðni má íhuga slíkt.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég veit að hv. þingmaður er einarðlegur í málflutningi sínum og skoðunum og það er akkúrat það sem ég óttast. Ég óttast að hv. þingmaður standi við það sem hann segi. Hv. þingmaður hefur sagt að hann vilji selja RÚV og það er einmitt það sem ég hræðist.

Svona breytingar eru eins og breytingar á jarðskorpunni. Þar færast flekar til. Í stjórnmálunum færast kynslóðir til. Það gerist skyndilega. Og sú kynslóð innan flokksins sem hv. þingmaður tilheyrir mun, óttast ég, fyrr en seinna reyna að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að það hlutafélag sem hér er verið að búa til verði selt.



[00:19]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið aftur og hrósa hv. þingmanni fyrir að vera málefnalegur í sinni umræðu um þetta mál, málefnalegri en sumir aðrir sem tekið hafa til máls hér úr hans flokki um þetta frumvarp.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla miklu meira um fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. En mig langar til þess að víkja að öðru atriði og það er nú kannski það sem hv. þingmaður nefndi hér síðast. Hv. þingmaður sagðist ekki treysta Sjálfstæðisflokknum. Hann óttaðist það að með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag yrði stigið fyrsta skrefið í þá átt að selja RÚV.

Gott og vel. Nú stendur reyndar í frumvarpinu að það standi ekki til að gera það og að það sé beinlínis óheimilt. En það er greinilegt að hv. þingmaður treystir ekki stjórnarflokkunum og sérstaklega ekki Sjálfstæðisflokknum. Hann treystir okkur varla — hvað eigum við að segja — út í sjoppu í þessu máli, ef svo má að orði komast. En mig langar til þess spyrja hv. þingmann af því að hann hefur nú talað hér fyrir sjálfseignarstofnunarforminu og svona haft efasemdir um hlutafélagsformið: Ef við gefum okkur að Ríkisútvarpinu yrði breytt í sjálfseignarstofnun og ef við gefum okkur líka að einhver ríkisstjórn, hvort sem það væri þessi ríkisstjórn eða önnur, jafnvel sú sem hv. þingmaður ætti aðild að, fengi nú þá hugmynd að selja Ríkisútvarpið, einkavæða Ríkisútvarpið, hvaða máli mundi þá skipta fyrir meðferð slíks máls, meðferð slíkra breytinga hvort Ríkisútvarpinu væri breytt hér í hlutafélag eða í sjálfseignarstofnun? Í mínum huga mundi það ekki skipta neinu máli. Í báðum tilvikum þyrfti viðkomandi ríkisstjórn að grípa til nákvæmlega sömu aðgerða (Forseti hringir.) vildi hún hrinda slíkum áformum í framkvæmd.



[00:21]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það mundi skipta mjög miklu máli. Til þess að breyta slíkum lögum þyrfti að taka langt tilhlaup til þess að komast yfir þann skurð. En að þessu frumvarpi samþykktu þyrfti bara að taka eitt lítið skerf og það væri enginn skurður. Í fyrra tilvikinu væri það ógerlegt, tel ég, um mjög langan aldur nema að Sjálfstæðisflokkurinn fengi meiri hluta og ég held að hv. þingmaður hafi sjálfur eða einhver í hans flokki talið það ákaflega ólíklegt og reyndar gert einhverjum stjórnarandstæðingi það upp að hann teldi möguleika á slíku. Ég tel nú sem betur fer að svo sé ekki.

Hins vegar sjáum við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú um langa hríð stuðst við hækju sem hann getur sveiflað eins og hann vill og gert við hvað sem hann vill. Menn sjá það í máli eftir máli að Sjálfstæðisflokkurinn ber bókstaflega Framsóknarflokkinn til hlýðni. Þetta er bara síðasta málið í langri runu slíkra mála.

Hv. þingmaður undirstrikaði síðan það sem ég sagði hér, að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Nú er það svo að alla jafna treysti ég stjórnmálaflokkum til þess að a.m.k. burðast við að fylgja sinni stefnu. Að því leytinu til veit ég að í þessu máli mundi Sjálfstæðisflokkurinn reyna að fylgja þeirri stefnu sem auðvitað glittir í mjög víða undir yfirborðinu. Ég treysti því engan veginn þegar hæstv. ráðherra og hv. formaður menntamálanefndar segja að það sé ekkert á dagskrá að selja Ríkisútvarpið. Ég veit að það er ekkert á dagskrá núna. En ég sé bara að í frumvarpinu er opnað á að selja hluta af Ríkisútvarpinu. Það er í samræmi við gamla stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er í samræmi við yfirlýsingar hv. formanns menntamálanefndar og ég hef langa og bitra reynslu af því að Sjálfstæðisflokkurinn reynir að standa við stefnu af þessu tagi.



[00:23]
Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hér fer nú að ljúka ítarlegri og mikilli umræðu um Ríkisútvarpið og frumvarp ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Umræðan hefur verið ítarleg og góð og mörg rök benda til þess að þetta frumvarp sé afar vanhugsað og að mjög skynsamlegt væri að vísa því frá.

Æpandi þögn Framsóknarflokksins í þessari umræðu hefur líka vakið mikla athygli. Eini þingmaður Framsóknarflokksins sem tekið hefur til máls í þessari löngu umræðu er hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann hefur fengið það óskemmtilega og vanþakkláta hlutverk að verja hér kúvendingu Framsóknarflokksins í málinu. Hann hamraði auðvitað á því að ekki stæði til að selja Ríkisútvarpið, að það hvarflaði ekki að neinum. En hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér í pontu að hann liti á þetta frumvarp sem bara fyrsta skrefið í átt að því að einkavæða útvarpið og fleiri hafa tekið undir mál hans eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar. Þannig liggur einmitt málið. Á þetta höfum við einmitt verið að benda. Þetta er bara fyrsta skrefið í einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Við höfum dæmi um — og það hefur verið fjallað um það ítarlega hér í dag og í kvöld — að menn hafa breytt afstöðu sinni á einni nóttu.

Það sem stendur upp úr og hefur komið fram í þessum umræðum er að ef þetta frumvarp nær fram að ganga verður stjórn Ríkisútvarpsins ólýðræðislegri en nú er. Það er opnað fyrir möguleika á að selja Rás 2 og mikil óvissa ríkir um rétt starfsfólks Ríkisútvarpsins. Þetta ætti auðvitað að duga okkur til að sjá að þetta frumvarp er afar óskynsamlegt. Ég vona að í meðförum menntamálanefndar verði gerðar miklar breytingar á frumvarpinu og helst verði það dregið til baka.

Til er vegur út úr þessari krísu ríkisstjórnarinnar. Sá er að líta til frumvarps Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gerir skynsamlegar breytingar á Ríkisútvarpinu sem gætu haft mjög jákvæðar afleiðingar fyrir útvarpið og þjóðina alla í för með sér.



[00:26]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er langt liðið á daginn og komið nokkuð inn í nóttina. Engu að síður finnst mér þingmenn halda vel dampi og umræðan verið skemmtileg og innihaldsrík og ég vil þakka sérstaklega fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mikilvæga málefni sem snertir breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Það sem mér finnst þó standa upp úr er að það er samhljómur. Ég er svona að reyna að greina þennan samhljóm í þá veru að það er samhljómur yfirgnæfandi meiri hluta þingheims að við viljum starfrækja öflugt Ríkisútvarp sem hafi tækifæri og möguleika til þess að sinna því hlutverki sem við ætlumst til að það standi undir, þ.e. öflugt menningarhlutverk og þjónustu sem og almannaþjónustuhlutverk. Ég vil því meina að í þessu öllu saman sé jákvæður samhljómur sem maður sér glitta í. Í þetta glittir akkúrat eftir umræðu dagsins.

Menn hafa komið víða við. Menn hafa rætt meðal annars fjölmiðlalöggjöfina, fjölmiðlaskýrsluna. Örstutt út af því langar mig að geta þess að það er alveg rétt að á sínum tíma, í sumar eða vor, urðu ákveðnar sögulegar sættir sem ég tel að hafi náðst í þá veru að fjölmiðlanefndin, þverpólitísk fjölmiðlanefnd, náði sameiginlegri niðurstöðu meðal annars í þá veru að hér ætti að rækja öflugt almannaútvarp, útvarp í almannaþágu. Ég tel einmitt að með því frumvarpi sem við ræðum í dag séum við að koma til móts við þessa tillögu fjölmiðlanefndarinnar. En þess ber líka að geta að minni hluti nefndarinnar kom síðan með sérálit, í tillögu fjölmiðlanefndarinnar, í þá veru að þetta ætti allt saman að ræða saman. Það lá hins vegar allan tímann ljóst fyrir að það var hvorki afstaða mín né annarra sem standa að ríkisstjórninni enda erum við að tala hér fyrst og fremst um breytt rekstrarform sem gerir Ríkisútvarpinu kleift að standa undir almannaþjónustuhlutverkinu. Ég leitaði eftir því að halda í þessa sátt sem er afar mikilvæg og brýn vegna þessa mikilvæga málefnis sem almenn löggjöf um fjölmiðla snertir. Menn hafa sagt: „Ja, enn ein nefndin sem er verið að biðja okkur um að skipa í.“ Ég verð að segja að ég var algjörlega ósammála og nokkuð hissa þegar formaður Samfylkingarinnar kom inn á þetta og sagði að þetta væri bara enn ein nefndin. Mér finnst talað hér af lítilsvirðingu um þátt sem snertir löggjafarsamkunduna, þ.e. þann að semja frumvörp því það er einn mikilvægasti þátturinn. Það er ekki bara eitthvert lagatæknilegt atriði, eins og menn reyndu að afgreiða tilnefningar í þá nefnd. Það er ekki lagatæknilegt atriði eingöngu að semja frumvarp því löggjafinn þarf að senda frá sér vel útskýrt hvort tiltekin atriði í slíku frumvarpi eigi að skýra þröngt eða rúmt. (Gripið fram í.) Það er ekkert lagatæknilegt atriði.

Engu að síður var það afar jákvætt að í því bréfi sem mér var síðan sent út af tilnefningunum þá var alveg skýrt að stjórnarandstaðan var engu að síður tilbúin að hitta þá lögfræðinga sem semja frumvarpið og lýsti því sérstaklega yfir. Það skiptir mig í rauninni ekki öllu máli hvernig eigi að útfæra það að koma saman, hitta fólk og ræða hlutina, hvort það heiti hópur, fundur eða nefnd. Meginatriðið er að allir flokkar komi að því að semja almennt frumvarp um fjölmiðla. Það er hið mikilvæga í þessu öllu saman. Eins og ég gat um áðan finnst mér rauði þráðurinn í umræðunni í dag vera að við erum sammála um að það skiptir máli að hafa hér öflugt Ríkisútvarp. Við erum ekki sammála um þær leiðir sem við viljum fara til að ná fram því þýðingarmikla hlutverki og markmiði.

Ég hafði nokkuð gaman af að hlusta hinn snaggaralega þingmann og mikla ræðuskörung, hv. þingmann Össur Skarphéðinsson, sem kom hér upp undir lok umræðunnar. Hann kom víða við, m.a. að fjölmiðlanefndinni sem ég minntist á á hér áðan. En hann tók undir að það þyrfti að efla Ríkisútvarpið. Þetta væri ekki bara spurning um form. Ég vil taka undir það sem útvarpsstjóri sagði m.a. í grein sinni og við höfum verið að segja hér í dag. Að formið skiptir máli til að ná markmiðinu. Og markmiðið er að efla menningarhlutverkið. Formið skiptir máli í þá veru. Ég hef mikla trú á því að sú leið sem hér er farin, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, leiði til að við munum sjá Ríkisútvarpið eygja möguleika í þá veru efla innlenda dagskrárgerð, efla menningarhlutverkið, efla þá þætti sem koma fram í 3. gr. og snerta hlutverk Ríkisútvarpsins í almannaþágu.

Hér er verið að ræða hvort Ríkisútvarpið eigi að vera ríkisstofnun áfram, sjálfseignarstofnun eða hlutafélag og sýnist sitt hverjum. Mér finnst þessi umræða hafa dregið fram hversu skiptar skoðanir eru á meðal stjórnarandstöðuflokkanna. Stefna Vinstri grænna er alveg skýr. Þeir vilja halda áfram að reka Ríkisútvarpið undir formi ríkisstofnunar meðan Frjálslyndir ljá máls á því að fara hlutafélagaleiðina að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir nokkurt þóf var hægt að sjá stefnu Samfylkingarinnar eða glitta í hvernig hún sér þessu áorkað. Það kom í ljós að Samfylkingin vill fara sjálfseignarstofnunarleiðina en engu að síður var alveg ljóst í máli formanns flokksins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er Samfylkingin reiðubúin að fara hlutafélagaleiðina. Það stefnuleysi sem kemur fram í þessari umræðu er vissulega ekki hv. þingmanni Össuri Skarphéðinssyni að kenna því nú er allt annar einstaklingur í brúnni hjá Samfylkingunni sem virðist ekki hafa sömu skýru stefnu varðandi málefni flokksins og hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hafði þegar hann var formaður Samfylkingarinnar.

Ég vil aðeins fara yfir það af hverju við erum að fara hlutafélagaleiðina. Ég tel það rétt því að það er akkúrat sá þáttur sem hefur verið hvað mest til umræðu. Það er alveg rétt að það er ekki alltaf einfalt að velja félagaform þegar stofnað er til nýs atvinnurekstrar eða þegar rekstri ríkisstofnunar er breytt. Við mat á því þarf auðvitað að líta til markmiðs með rekstri félagsins, hversu mikil velta er á félaginu, hvers eðlis reksturinn er, hvaða reynsla er á einstökum félagaformum o.s.frv.

Ef við aðeins lítum yfir sjálfseignarstofnunina verður að segjast eins og er að jafnvel þó að stofnuð yrði sjálfseignarstofnun um rekstur Ríkisútvarpsins þá leiða ákvæði laga frá 1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt skipulagsskrá og laga frá 1999, nr. 33, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, til að lögin mundu ekki gilda um stofnunina. Hvað þýðir það? Af þeim sökum þyrfti að skilgreina ítarlega í sérlögum um sjálfseignarstofnunina hvert skipulag hennar yrði o.s.frv. Þannig að lögin yrðu í sjálfu sér mjög heftandi fyrir starfsemina því þau þyrftu að vera algerlega niðurnjörvuð. Það er akkúrat það sem við erum að forðast með þessu frumvarpi því það sem háir Ríkisútvarpinu í dag eru núgildandi lög sem eru mjög niðurnjörvuð varðandi alla starfsemi og skipulag Ríkisútvarpsins. Í þau lög er í dag niðurnjörvað hversu margir framkvæmdastjórar eiga að vera o.s.frv. Þannig að sú leið sem við erum að fara með þessari breytingu á Ríkisútvarpinu er að mæla ekki fyrir um innri skipan RÚV í lögum heldur að fela stjórn félagsins að ákveða að teknu tilliti til þess sem hentar síðan best hverju sinni. Ég held að þetta sé afar mikilvægt atriði, sérstaklega í ljósi þeirra hröðu breytinga sem eiga sér stað á fjölmiðlamarkaði og þeirra ítarlegu krafna, sem eru í rauninni auknar með þessu frumvarpi, til almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins. Ég tel að með þessari leið, og er sannfærð um það, séum við að skapa skilyrði fyrir Ríkisútvarpið til að bregðast við nýjum aðstæðum á fjölmiðlamarkaði til að geta uppfyllt þær kröfur sem við gerum til ríkisútvarps í almannaþjónustu.

Það er líka rétt að undirstrika, og það kom m.a. fram í máli hv. þingmanns Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, að rekstur Ríkisútvarpsins undir hlutafélagaforminu fellur undir regluverkið sem við þekkjum mjög vel og er afar þekkt og á sér ríka sögu hér á landi. Í lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, er að finna skýr ákvæði um réttindi og skyldur stjórnar, framkvæmdastjóra, hluthafa, stöðu endurskoðanda o.fl. Þessar reglur eru mjög þekktar. Eins og komið hefur verið inn á eru líka mörg dómafordæmi um hvernig eigi síðan að leysa úr álitamálum tengdum rekstri hlutafélaga. Þannig að lagaumhverfið í kringum hlutafélög er mjög skýrt meðan það er mjög óskýrt varðandi sjálfseignarstofnanir, og ef á að setja það í lög er það allt að því hamlandi. Enda má benda á að þegar Reykjavíkurborg var undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hv. þingmanns, sem ákvað að breyta Félagsbústöðum Reykjavíkurborgar í annað rekstrarform, þá var þeim breytt yfir í hlutafélag. Hvernig er síðan stjórn þess hlutafélags valin? Hún er valin af borgarstjórn eða borgarráði. Sem sagt pólitískt skipuð stjórn. Hvað er að því að skipa stjórn með þeim hætti?

Ég skil að mörgu leyti vangaveltur og þá umræðu sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson hafa dregið hérna fram og hvet hv. menntamálanefnd og formann menntamálanefndar til að fara vel yfir þær athugasemdir sem þessir ágætu þingmenn hafa vikið að. En ég vil líka benda á það sem hv. þingmaður Ögmundur Jónasson hefur margoft bent á hér úr þessum ræðustól, að hann er ekkert tortrygginn gagnvart þeim fulltrúum sem kjörnir eru af Alþingi. Hann hefur margítrekað það og sagt að hann treysti slíkum fulltrúum alveg jafn vel, ef ekki betur en fulltrúum sem valist hafa utan úr bæ. Af hverju er það? Það er út af því að þingið er lýðræðislega kjörið og fulltrúar þess hafa lýðræðislegt umboð á bak við sig. Það er líka alveg ljóst með þessu nýja fyrirkomulagi er verið að minnka pólitísk afskipti markvisst. Það er verið að koma í veg fyrir pólitísk afskipti því þetta er (Gripið fram í.) stjórn hlutafélags sem hefur ekkert með dagskrá að gera og á ekkert að hafa með dagskrá að gera og er með fulltingi Alþingis á bak við sig.

Hér hafa verið dregnar fram tillögur eins og það að starfsmenn eigi að eiga þátt í stjórn félagsins. Gott og vel. Ég hvet menntamálanefnd hv. til að fara vel yfir þær hugmyndir sem hafa verið settar fram í dag varðandi stjórn hlutafélagsins. En af hverju frekar starfsmenn Ríkisútvarpsins? Af hverju ekki allt eins hlustendur? Af hverju ekki allt eins einhverjir aðrir einstaklingar en starfsmennirnir? Ég hef valið þá leið og komið með þá tillögu að best væri að stjórn hlutafélagsins væri kosin af Alþingi vegna þess að það eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar þegnanna í landinu. Það er ósköp eðlilegt að fara þá leið. Það er líka kveðið alveg skýrt á um hvert hlutverk stjórnarinnar er. Það kemur fram í 9. gr. og 10. gr. frumvarpsins þar sem farið er gaumgæfilega yfir stjórn Ríkisútvarpsins og starfssvið hennar. Og í 11. gr. eru dregnar fram skyldur útvarpsstjóra, hann er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins og hann er einnig æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.

Virðulegi forseti. Hér er því verið að gera allt miklu skýrar en gert er í núgildandi lagaumhverfi og það sem skiptir mestu máli og er rauði þráðurinn í þessu öllu er að það er verið að skapa skilyrði fyrir Ríkisútvarpið og þá starfsmenn sem þar eru að til starfrækja hlutverk og uppfylla kröfur sem við hér á hinu háa Alþingi gerum til Ríkisútvarpsins. Þannig að það sé alveg skýrt og ljóst. Og ég hvet þá þingmenn sem eru í hv. menntamálanefnd til að fara gaumgæfilega yfir athugasemdir sem berast nefndinni.



[00:42]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þegar hæstv. menntamálaráðherra talaði hér síðast þá spurði ég hana spurningar sem hún svaraði án þess að ráðfæra sig við embættismenn sína. En nú hefur hún fengið langan tíma til að gera það og ég vil þess vegna ítreka spurninguna. Hún var um það af hverju ekki væri gerð grein fyrir samþykktum félagsins og stofnsamningi þess í greinargerðinni eða í ræðu ráðherrans. Það var minnt á að það hefði þó verið gert í frumvarpinu á síðasta þingi, að minnsta kosti í stofnsamningnum. Svarið var að að þetta lægi allt saman svo ljóst fyrir í hlutafélagalögunum. Ég var með þessi hlutafélagalög með mér, en eins og þingheimur veit kunnum við Ögmundur Jónasson, hv. þingmaður, þau utan að. Mér gafst ekki tími til að vitna í þau þá í stuttu seinna andsvari en nú skal ég taka dæmi fyrir hæstv. ráðherra. Í 8., 10. og 11. gr. laganna er vitnað í samþykktir félagsins sem engin grein er gerð fyrir. Í 10. gr. er m.a. þessi setning, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti en að framan greinir ákveðst starfssvið stjórnar í samþykktum félagsins, …“

Í 9. gr. hlutafjárlaganna, sem ráðherrann vísaði til að væri svona skýr, eru 13 liðir um hvernig samþykktir eigi m.a. að greina. Einn af þeim liðum, 6. liðurinn fjallar um stjórnina og hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Fjölda eða hámarks- og lágmarksfjölda stjórnarmanna og varastjórnarmanna, svo og endurskoðenda eða skoðunarmanna. Þá skal þar ákveða kjörtímabil stjórnarmanna og endurskoðenda.“

Er þetta greinin sem vísað er til í 10. gr. frumvarps menntamálaráðherra? Eða var það eitthvað annað? Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að koma með þessar samþykktir? Af hverju að skilja það eftir þegar á þremur stöðum er vísað til þessarar samþykktar sem menntamálaráðherra hæstv. ætlar sér (Forseti hringir.) einn að samþykkja á hluthafafundi?



[00:44]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af sínu alkunna lítillæti kemur hv. þingmaður Mörður Árnason upp og spyr þessarar spurningar. Ég get ekki annað en svarað því á sama veg og ég gerði hér fyrr í dag, að vísa til hlutafélagalaga sem eru afar skýr eins og þau eru í lögum í dag. Það er auðvitað meginmunurinn á því frumvarpi sem við ræðum um í dag og því sem við ræddum sl. vor. En það eru og voru ekki til skýr ákvæði um sameignarfélög. En að sjálfsögðu hvet ég hv. þingmenn að fara vel yfir þetta í hv. menntamálanefnd sem mun fara vel yfir frumvarpið og kynna sér málið þá enn betur þar.



[00:45]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það fæst ekkert út úr hæstv. menntamálaráðherra. Annaðhvort hefur hún ekki samið frumvarpið og getur þess vegna ekki staðið skil á því hér eða þá að hún kann ekki hlutafélagalögin sem hún vitnar þó ótæpilega til og hefur bent öðrum á að lesa, sem menn gerðu nú áður en hún benti á það.

Þrettán liðir eru í 9. gr. Einn þeirra fjallar um stjórnina. Til þeirrar greinar er vísað í frumvarpi ráðherrans og hún getur engu svarað nema því að fjalla eigi um þetta í nefndinni. Þá verður hún tekin á orðinu nákvæmlega, hæstv. ráðherra, og þetta verður skilið þannig að hún leggi fram eða sendi mönnum sínum, sem eru tíðir gestir í menntamálanefnd, drög að þessum samþykktum. Það verði þá þannig og við skiljum það svo og komumst þá að þeirri niðurstöðu hér þegar klukkuna vantar korter í eitt að svarið við þessum tveimur andsvörum hjá mér sé það að menntamálaráðherra treysti sér kannski til að láta embættismennina liggja yfir þessu í nokkra daga og koma síðan með þetta í nefndina. Ég treysti því að það verði gert því að svona flausturslega á ekki að vinna frumvörp og greinargerðir. Það eiga að liggja fyrir svör og það er ekki bara við þingmenn að eiga í því heldur alla þjóðina. Þegar ráðherrar leggja fram frumvörp eiga að liggja fyrir svör þannig að frumvörpin séu algjörlega gagnsæ og almenningur geti tekið þau til umræðu og þingmenn geti vitað hvað átt er við í frumvörpum ráðherrans.

Hér hefur hún hreinlega brugðist. Á þremur stöðum er vitnað í 8., 10. og 11. gr. Ráðherrann veit ekkert til hvers er vitnað og vitnar í hlutafélagalögin sem hún kann ekki sjálf og setur leppa fyrir bæði augu þegar henni er bent á að þetta standist ekki.



[00:47]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki kemur mér til hugar að ég greini hroka eða því um líkt í máli hv. þingmanns, það kemur mér ekki til hugar. En ég get ekki annað en bent hv. þingmanni á þau lög sem eru í landinu og kynna sér þau betur jafnframt því að koma með þennan málflutning í hv. menntamálanefnd.

Ég vil einnig geta þess, og það hef ég líka margoft sagt, að varðandi frekari útfærslu á því hvaða hlutverki við viljum sjá Ríkisútvarpið gegna og hvernig það á að starfa þá höfum við verið að skoða það og ég hvet hv. þingmenn í menntamálanefnd til að athuga það sérstaklega og forvitnast betur um hvernig t.d. samkomulag hefur tekist á milli Danmarks Radio og menningarmálaráðherrans eða ráðuneytisins þar eða hvaða fyrirkomulag er varðandi útfærslu á menningarhlutverki og almannaþjónustuhlutverki BBC í Bretlandi.



[00:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér mjög skiljanlegt að hæstv. menntamálaráðherra vilji gefa umræðunni það yfirbragð að hana hafi einkennt jákvæður samhljómur, þannig held ég að hæstv. ráðherra hafi orðað það. (Menntmrh.: Reynt að greina.) Að því leyti sem allir er tekið hafa þátt í umræðunni segjast hafa göfug markmið að leiðarljósi þá er að sönnu samhljómur. Hins vegar erum við að ræða frumvarp um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem mjög mikil óeining ríkir um og breytingartillögur ríkisstjórnarinnar eru mjög harðlega gagnrýndar.

Hæstv. menntamálaráðherra segir að allt skipulagsfyrirkomulag Ríkisútvarpsins sé niðurnjörvað, mikilvægt sé að losa um það. Þá skulum við gera það, menn eru sammála um að gera það. Þetta er hægt að gera hjá ríkisstofnuninni auðveldlega og við höfum sett fram tillögu um hvernig það megi gera.

Það sem lagt er til í frumvarpinu er að allt mannahald, allur rekstur stofnunarinnar verði færður á ábyrgð eins aðila, framkvæmdastjórans, útvarpsstjórans. Sá aðili, útvarpsstjórinn, er síðan settur undir pólitískan járnhæl. Meiri hlutinn á Alþingi ræður þennan mann eða rekur þennan mann. Ég er ekki á móti því að Alþingi kjósi fulltrúa í stjórn umræddrar stofnunar, það er rétt hjá hæstv. ráðherra. En ég vil koma í veg fyrir að meirihlutasjónarmið á Alþingi, þeir sem fara með framkvæmdarvaldið hverju sinni ráði stofnuninni. Þess vegna höfum við lagt til að aðkoma fleiri aðila verði tryggð. Það leggjum við til í frumvarpi okkar.



[00:50]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að eftir umræðuna í dag hef ég reynt að greina hvort einhver samhljómur væri á meðal þingmanna hér í salnum. Ég vil meina að í megindráttum sé sá samhljómur að við viljum starfrækja hér öflugt útvarp í almannaþágu en síðan greinir okkur á um leiðir til að ná því markmiði. Ég leyni því ekkert að ég tel og er sannfærð um að sú leið sem farin er í frumvarpinu muni leiða til þess að við sjáum enn öflugra ríkisútvarp sem uppfyllir þetta menningarhlutverk og kröfur um aukna innlenda dagskrárgerð til að efla íslenska tungu o.s.frv. Það hlutverk verði mun betur innt af hendi en er í dag og er það þó ágætt. En tækifærin verða meiri og betri fyrir Ríkisútvarpið til að sinna þessu.

Mig langar til að vekja athygli hv. þingmanns á því af því að ég veit ekki betur en Vinstri grænir eigi líka aðild að borgarstjórn Reykjavíkur sem samþykkti að þeirri samfélagslegu stofnun sem Félagsbústaðirnir í Reykjavík eru yrði breytt yfir í hlutafélag. Ég sé ekki að Félagsbústaðirnir hafi beðið neitt tjón við það, miklu frekar að þeir hafi sinnt hlutverki sínu ágætlega og ekki komið neitt til umræðu á þeim bænum að selja þá. Ég segi að það gildir nákvæmlega sama um Ríkisútvarpið. Markmiðin eru skýr, það eru ekki áform núverandi ríkisstjórnar að selja Ríkisútvarpið, síður en svo.



[00:52]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, hér hafa menn talað um mikilvægi þess að starfrækja öflugt ríkisútvarp í almannaþágu. Engu að síður hafa margir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins talað um mikilvægi þess að við búum stofnuninni það rekstrarform að hún verði duglegri að skera niður, reka stofnunina hallalaust. Hef ég misskilið þetta? Ég held ekki.

Varðandi áform um að selja eða selja ekki hafa menn bent á þá stefnu sem margir alþingismenn og flokkar á borð við Sjálfstæðisflokkinn hafa verið að beita sér fyrir. Ég trúi því alveg að hæstv. ráðherra meini það sem hún segir í þessu efni, ég trúi því alveg. En hlutirnir gerast ekki svona.

Fyrst er stofnun svelt. Þá gerist það að starfsmenn hennar gefast upp og segja: Allt er betra en núverandi fyrirkomulag. Þá er hún gerð að hlutafélagi til að þjóna pólitískum markmiðum þeirra sem nú fara með völdin. Næsta skref er það að stofnunin kemur til með að búa við fjársvelti eða þörf er á meira fjármagni inn í reksturinn. Þá verður sagt: Við, Morgunblaðið eða aðrir aðilar, erum reiðubúin að koma með fjármagn, talsvert fjármagn inn í stofnunina. Er einhver sem ætlar að standa í vegi fyrir því að slíkir aðilar styrki stofnunina með því að veita meira fjármagn þarna inn? Er það ekki gott?

Þannig gerist þetta. Ekki vegna þess að áform séu uppi um að svíkja gefin fyrirheit. Þetta gerist einfaldlega þegar búið er að breyta rekstrarforminu, setja stofnunina í (Forseti hringir.) markaðspakkningu og upp á færibandið til einkavæðingar. Það er það sem verið er að gera með þessu frumvarpi.



[00:54]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum einfaldlega ósammála um þetta. Ég er einnig ósammála hv. þingmanni um að Ríkisútvarpið hafi verið svelt í gegnum tíðina. Það er ekki stofnun sem er svelt sem er með 2,3 milljarða í afnotagjöld og 750 milljónir í auglýsingar, það er ekki stofnun sem er svelt, engan veginn.

Hins vegar hafa orðið miklar og örar breytingar á fjölmiðlamarkaði. Við erum sammála um að við viljum hafa Ríkisútvarpið en því verður að vera gert kleift að starfrækja sig og sinna skyldum sínum í þágu menningar og almannaþjónustu undir því umhverfi sem við búum og lifum við í dag. Það umhverfi er að taka mjög örum breytingum. Þess vegna er ég sannfærð um að hlutafélagaformið er best til þess fallið að veita Ríkisútvarpinu það svigrúm og þau tækifæri sem það þarf til að standast þær kröfur sem við gerum til þess. Þess vegna erum við að fara þá leið til að styrkja Ríkisútvarpið, m.a. til að sjá fjölbreyttari innlenda dagskrárgerð o.s.frv.