132. löggjafarþing — 51. fundur
 25. janúar 2006.
fjármálafræðsla í skólum.
fsp. VF, 322. mál. — Þskj. 354.

[12:35]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um fjármálafræðslu í skólum. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Í hvaða bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla fer fram kennsla í meðferð fjármuna?

2. Hvaða námsefni er kennt og hver eru meginatriði fjármálafræðslunnar?

Ástæða þessarar fyrirspurnar er svar sem mér barst frá hæstv. dómsmálaráðherra í desember sl. um gjaldþrot ungs fólks, 20–30 ára, og um árangurslaus fjárnám hjá ungu fólki á aldrinum 15–30 ára. Svarið við þeirri fyrirspurn var virkilega sláandi og því ástæða fyrir hið háa Alþingi að athuga hvað við getum gert til að efla þekkingu ungs fólks á fjármálum. Ég hafði hugsað mér að koma með þingsályktunartillögu í þessu sambandi en það hefur þegar verið gert eins og ég mun koma að í síðari ræðu minni.

Í svari dómsmálaráðherra eru einungis teknir fyrstu 11 mánuðir ársins 2005 þar sem fyrirspurninni var svarað í desember sl. og því vil ég miða saman árin 2001 og 2004. Á árinu 2001 voru árangurslaus fjárnám ungs fólks frá 15–30 ára 864 en á árinu 2004 voru árangurslaus fjárnám ungs fólks 1.234, þ.e. árangurslaus fjárnám hjá ungu fólki hafa aukist um 42% á fjórum árum. Þetta eru virkilega sláandi tölur, frú forseti, og því ástæða til að bregðast við.

Í lokaverkefni Breka Karlssonar í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík kemst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að fjármálalæsi íslenskra ungmenna sé verulega ábótavant. Könnunin leiðir jafnframt í ljós að flestir unglingar fá upplýsingar um fjármál frá foreldrum. Íslensk ungmenni vilja kennslu og þurfa hana en er hún veitt í skólakerfinu og það nægilega?

Afi hefur eflaust lifað nokkurs konar debet-lífi á sínum tíma en nú á tímum gróðahyggju lifa ungmennin kredit-lífi. Þau eyða áður en þau afla og eru hvött til þess. Þau eyða um efni fram og safna skuldum án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Í finnskri rannsókn um norræn ungmenni, þar á meðal Íslendinga, kemur í ljós að þau fá ekki næga fræðslu í fjármálum nema þá helst hjá lánveitendum sjálfum. Eru þeir rétti aðilinn? Ef við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk steypi sér í skuldir, lendi í fjárnámi, gjaldþroti eða jafnvel eins og dæmi eru um svipti sig lífi þurfum við að fræða ungmenni um meðferð fjármuna í skólum landsins.



[12:38]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Í hvaða bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla fer fram kennsla í meðferð fjármuna?“

Margvíslegar breytingar hafa orðið á fjármálaumhverfi á Íslandi á undanförnum árum og hefur hv. þingmaður m.a. komið inn á það. Það er sífellt flóknara að vera þátttakandi og neytandi í okkar nútímasamfélagi. Íslensk börn og unglingar hafa almennt meira fé á milli handanna, sem í sjálfu sér má segja að sé fagnaðarefni ef vel er með farið, og eru í auknum mæli augljós markhópur sem kaupendur vöru og þjónustu. Af þessum sökum er fræðsla um fjármál í grunn- og framhaldsskólum afar mikilvæg og brýn.

Aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla setja skólum almenn markmið um nám og kennslu í einstökum námsgreinum. Aðallega er fjallað um fjármál og neytendamál í lífsleikni, heimilisfræði og samfélagsfræði í grunnskóla og í lífsleikni og í samfélagsgreinum í framhaldsskóla. Námsgreinin lífsleikni hefur verið skyldunámsgrein á grunn- og framhaldsskólastigi frá því að núgildandi aðalnámskrár voru gefnar út árið 1999. Markmið hennar, lífsleikninnar, er að styrkja einstaklinginn í hvívetna og búa hann undir að takast á við lífið. Í lífsleikni er sérstaklega fjallað um neytendamál og fjármál og í námskrám eru sett fram markmið þar að lútandi. Á þetta bæði við um grunn- og framhaldsskólana. Samkvæmt aðalnámskrám fer kennsla um fjármál og neytendamál aðallega fram á unglingastiginu í grunnskólanum, þ.e. í 8., 9. og 10. bekk og svo í framhaldsskóla. Markmið í aðalnámskrám eru öll nemendamiðuð. Lokamarkmið í lífsleikni við lok grunnskóla eru m.a. að nemendur — það er kannski rétt að fara aðeins yfir það — þekki og hafi innsýn í það að vera neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi og það felur í sér grundvallarþekkingu um réttindi neytenda, fjármál einstaklinga og samfélags, auglýsingar og áhrif þeirra, neyslu og umhverfi, auðlindir jarðar, híbýli, fatnað o.fl. og m.a. verð og gæði matvæla. Hliðstæð markmið má síðan finna í heimilisfræðum og samfélagsgreinum grunnskóla.

Sérstaklega er fjallað um fjármál í lífsleikni sem kjarnagrein í framhaldsskóla. Þar er stefnt að því að nemandi verði meðvitaður um ábyrgð sína sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi eins og þar segir. Hagfræði er kjörsvið á bóknámsbrautum framhaldsskóla. Þar geta nemendur m.a. valið hagfræðikjörsvið. Auk þess geta nemendur á hinum ýmsu brautum framhaldsskólans numið fjármálagreinar í frjálsu vali. Loks má benda á að rekstrargreinar eru hluti af námi fyrir iðnsveina til iðnmeistaraprófs en þær snúa reyndar meira að fjármálum fyrirtækja en einstaklinganna sjálfra.

Rétt er að vekja athygli á því að nú stendur yfir endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla og í drögum starfshóps um breytingar á námskrá í lífsleikni er að finna tillögur um að styrkja enn frekar markmið um fjármála- og neytendafræðslu. Í þessum tillögum er m.a. stuðst við norræna skýrslu frá árinu 2000 um neytendafræðslu á Norðurlöndunum þar sem m.a. er lögð áhersla á mikilvægi fjármálafræðslu fyrir ungt fólk í dag og settar fram tillögur um markmið um fjármál einstaklinga, réttindi þeirra og skyldur, auglýsingar og áhrifavalda, neytendur, umhverfismál, siðferði o.fl.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að í drögum starfshóps um breytingar á námskrám í samfélagsgreinum framhaldsskóla eru viðskiptafræði og hagfræði styrktar sem kjörsviðsgreinar og settar fram tillögur um nýja áfanga, m.a. um fjármál einstaklinga og helstu hugtök á sviði fjármála almennt.

Aðalnámskrár leggja meginlínur um nám og kennslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir að einstakir skólar útfæri síðan markmið aðalnámskrár í skólanámskrám sínum og velji námsefni í samræmi við áherslur í kennslunni.

Í öðru lagi er spurt: „Hvaða námsefni er kennt og hver eru meginatriði fjármálafræðslunnar?“

Rétt er að undirstrika það að ráðuneytið ákvarðar ekki kennsluefni í námskránum. Einstakir grunnskólar og framhaldsskólar velja það efni og þær kennsluaðferðir hverju sinni sem henta best til að stefna að settum markmiðum og er það í samræmi við þá áherslu að efla svigrúm og sjálfstæði skóla.

Námsgagnastofnun sér um útgáfu námsgagna fyrir grunnskóla samkvæmt lögum um grunnskóla. Samkvæmt upplýsingum frá henni, þ.e. Námsgagnastofnun, hafa grunnskólar m.a. notað námsefnið Auraráð sem stofnunin gaf út árið 2005. Það er vinnuhefti um fjármál og þar má finna umfjöllun um helstu atriði í sambandi við fjármál einstaklinga og má þar nefna skatta, greiðslukort, lántökur, vanskil, lífeyrissjóði o.fl. Fjallað er stuttlega um hvert atriði og því fylgt eftir með verkefnum. Í mörgum verkefnum skólanna er gert ráð fyrir upplýsingaleit og notkun reiknivéla á netinu og stuttar kennsluleiðbeiningar eru á vef Námsgagnastofnunar eða nams.is sem er ágætisvefur og gott að fara inn á.

Ýmsir aðilar svo sem bankar og fjármálastofnanir hafa einnig gefið út námsefni um fjármál fyrir nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum til þess að halda einstaklingunum sem mest upplýstum, láta þá vera meðvitaða um þá miklu ábyrgð sem felst í því að meðhöndla peninga.



[12:43]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þetta mál að auka fjármálafræðslu í skólum. Ég þekki mjög vel hve einfaldur aðgangur er að fjármagni fyrir ungt fólk og í sumum tilfellum og jafnvel mörgum lendir ábyrgðin á foreldrunum. Þess vegna tel ég að fjármálafræðsla í skólum sé mjög mikið uppeldislegt atriði, frú forseti.



[12:44]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir svörin. Hér voru fagrar lýsingar á markmiðum og hvað eigi að gera. Lífsleikni er nefnd hér sérstaklega. Ég hafði samband við Flensborgarskóla og þar eru kenndir 8–10 tímar um fjármál. Það getur verið jarðfræðikennari eða dönskukennari sem kennir lífsleikni. Jú, það koma stundum einhverjir frá fjármálastofnunum til að aðstoða. Ekkert er kennt í Flensborg um vanskil, ábyrgðir eða hættu á fjárnámum. Námsefnið er samið af kennurunum sjálfum, ekkert hefur komið frá ráðuneytinu.

Samþykkt var þingsályktun, þskj. 909, fyrir nokkrum árum frá Rannveigu Guðmundsdóttur sem ég ætla að fá að lesa hér upp, frú forseti:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.

Markmið fjármálafræðslunnar verði:

1. að taka til meðferðar sem flest er viðkemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,

2. að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:

a. að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,

b. að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,

c. að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.“

Því miður, frú forseti, er það yfirleitt svo að frumkvæðið að þessu kemur frá einstökum kennurum, eða eins og frá sýslumanninum á Ólafsfirði að koma þar inn í lífsleiknitíma og kenna. Þetta er ekki skipulega gert og því hefur ráðuneytið algerlega brugðist hvað varðar samþykkt þessarar þingsályktunar.



[12:46]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. Valdimari L. Friðrikssyni því það er einmitt verið að fara sérstaklega yfir þessa þætti. Það er verið að veita skólunum svigrúm og mér finnst miður, og kemur kannski ekki á óvart, sú forsjárhyggja sem skín í gegn hjá hv. þingmanni að ráðuneytið eigi ekki bara að setja fram almennar reglur í gegnum námskrá. Við veitum skólunum svigrúm. Mér finnst líka miður (Gripið fram í.) að hv. þingmaður hafi komið hingað í ræðustól Alþingis og gagnrýnt Flensborgarskólann sem hefur náttúrlega líka sitt svigrúm eins og aðrir skólar til að velja námsefni og gerir það. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er verið að vinna að þessu. Verið er að auka fræðslu markvisst varðandi fjármál einstaklinga á öllum stigum skólasamfélagsins eins og ég kom inn á áðan og benti m.a. á þau námsgögn sem Námsgagnastofnun hefur sett fram á unglingastigi í grunnskóla.

Hins vegar er líka rétt að draga fram að ég hef átt samræður við m.a. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja sem hafa lýst yfir miklum áhuga á þessu máli sem og ákveðnir skólar sem vilja leggja sig mjög fram varðandi þetta tiltekna efni. En aðalatriðið er að verið er að vinna í þessu. Það er verið að efla fræðslu varðandi fjármál einstaklinga því að allir eru meðvitaðir um það, a.m.k. í skólasamfélaginu, að efla þurfi þekkingu nemenda á öllum skólastigum varðandi fjármál fyrirtækja. Ef það er stefna Samfylkingarinnar varðandi námskrár að auka forsjána þá er það stefna sem kemur ekki á óvart en það er ágætt að fá hana undirstrikaða frá hv. þingmanni.