132. löggjafarþing — 51. fundur
 25. janúar 2006.
brú yfir Jökulsá á Fjöllum.
fsp. HBl, 335. mál. — Þskj. 369.

[13:03]
Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt og ekki hefur farið fram hjá neinum er brúin yfir Jökulsá á Fjöllum veikasti hlekkurinn á hringveginum. Hún hefur ekki fullan burð og langt er að fara frá Akureyri til Egilsstaða ef aka þarf allan hringinn. Af þeim sökum höfum við fulltrúar Austurlands og Norðurlands áhuga á því að tengja betur saman þessi svæði, sem ég veit að hæstv. ráðherra skilur. Hann skilur vel að það skiptir máli að tengja saman Vesturland, Vestfirði og Norðvesturland og skilur um leið hversu nauðsynlegt er að tengja saman Norðausturland og Austurland. Af þeim sökum spurði ég hæstv. ráðherra 16. nóvember sl. þessarar sömu spurningar.

Ég ítreka það við hæstv. ráðherra að ég vil gjarnan fá um það yfirlýsingu að það verði unnið svo hratt að undirbúningi nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum að af tæknilegum ástæðum verði hægt að bjóða hana út haustið 2006 og í síðasta lagi vorið 2007. Þessu svaraði hæstv. ráðherra með þessum ummælum, með leyfi hæstv. forseta:

„Virðulegur forseti. Það er frá því að segja um brúna á Jökulsá á Fjöllum að hún hefur verið í svipuðu ástandi í marga áratugi þannig að þar er ekkert nýtt á ferðinni. Jafnframt er rétt að ítreka það og undirstrika að hér verða engar yfirlýsingar gefnar af hálfu samgönguráðherra um það hvenær verk sem ekki eru á samgönguáætlun, sem Alþingi hefur ekki afgreitt, verða boðin út. Þó að samgönguráðherrar séu áhrifamiklir þá gengur það ekki þannig fyrir sig að hægt sé að gefa yfirlýsingar um hvaða verk verða boðin út sem ekki hafa þegar fengið eðlilega meðferð við undirbúning samgönguáætlunar.“

Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti, og ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra, hann hefur ekki síðasta orðið um það hvernig gengið verður frá samgönguáætlun hér á Alþingi heldur er það þingið og þingmenn sem ákveða það. Þess vegna var ég ekki að spyrja hann um það hvenær verkið yrði sett á samgönguáætlun heldur laut spurning mín að því að tæknilegur undirbúningur, hönnun og annað því um líkt, yrði því ekki til fyrirstöðu að hægt yrði að að ráðast í verkið. Af þeim sökum ítreka ég spurningu mína sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra 16. nóvember sl.:

Hvenær má búast við að undirbúningi og hönnun nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum ljúki?



[13:06]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvenær má búast við að undirbúningi og hönnun nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum ljúki?“

Svar mitt er byggt á upplýsingum frá Vegagerðinni og er þannig:

Athuganir standa yfir á brúarstæði á hringvegi á Jökulsá á Fjöllum. Gert er ráð fyrir því að val brúarstæðis liggi fyrir innan tíðar. Eftir það er unnt að hefja verkhönnun sem gæti lokið fyrri hluta ársins 2007. Til skoðunar væru tvær veglínur. Í fyrsta lagi er veglína um þúsund metrum neðan við núverandi brú. Gert er ráð fyrir að vegagerðarkostnaður við þessa leið verði um 140 millj. kr. og að hún stytti hringveginn um 420 metra. Áætlað er að þarna yrði gerð 208 metra stálbogabrú með upptengdri akbraut. Fyrstu áætlanir um kostnað, en þær eru gerðar með fyrirvara um að enn eru fjölmörg atriði óljós varðandi aðstæður, hljóða upp á um 670 millj. kr.

Í öðru lagi er um að ræða veglínu um 600 metrum ofan við núverandi brú. Við þessa leið er vegagerðarkostnaður áætlaður um 75 millj. kr. og stytting hringvegarins um 1,1 km. Áætlað er að þarna yrðu annaðhvort gerðar tvær 120 metra langar eftirspenntar brýr hvor sínum megin við eiði í ánni eða að gerð yrði 230 metra löng steypt eftirspennt brú í vestari hluta farvegsins.

Fyrstu áætlanir um kostnað hljóða upp á 525 millj. kr. fyrir tvær 120 metra langar brýr og um 470 millj. kr. fyrir eina 230 metra langa brú en allar þessar tölur eru að sjálfsögðu gefnar með fyrirvara um að enn eru fjölmörg atriði óljós varðandi aðstæður. Kostnaður samkvæmt þessum áætlunum fyrir seinni veglínu — auk þess sem stytting hringvegarins er einnig meiri við þá leið.Vegur á seinni veglínunni er einnig talinn vera auðveldari í byggingu og viðhaldi. Þá hefur verið á það bent að líkur bendi til að brú á þeim stað, 600 metrum fyrir ofan núverandi veglínu, kunni að standa betur í hamfaraflóði þar sem vatn mun eiga greiðari leið úr farvegi sínum við þær aðstæður. Það er alveg ljóst að endurbygging brúar yfir Jökulsá á Fjöllum er mikilvægt verkefni sem við þurfum að takast á við. Brúin ber núna allan venjulegan þunga en þegar einhver yfirþungi er á ferð þarf að fara aðra leið, sem hv. þingmenn þekkja, það þarf því að huga að endurbyggingu þessarar brúar auk endurbóta á veginum sem liggur að henni. Þar að auki er brúin einbreið og er þess vegna eitt af þeim brúarmannvirkjum sem þarf að huga að út frá öryggissjónarhorni. En stærðirnar í kostnaði eru þær sem ég greindi frá áðan og ég tel að við endurskoðun á samgönguáætluninni, sem nú er unnið að, sé eðlilegt að taka til við skoðun á þessu verkefni og í því ljósi er unnið að umræddum athugunum af hálfu Vegagerðarinnar.



[13:10]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er afar fallegt mannvirki en gamalt og auðvitað barn síns tíma. Það er kominn tími til að þar verði byggð ný og betri brú, ekki aðeins vegna þess að hún þolir ekki ákveðinn þunga heldur sérstaklega vegna þess að hún er mjög mjó. Nokkur dæmi eru um að þurft hefur að flytja nýbyggða sumarbústaði frá Akureyri og austur en þá þurfti að fara stóran krók því ekki er hægt að fara yfir brúna.

Ferðamannastraumur er að aukast mjög á þessu svæði, þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og náttúra þessa svæðis býður upp á það. Það er því afar mikilvægt að framkvæmdum verði hraðað. Það gleður mig að heyra að verið sé að vinna í þessum málum og að á næsta ári megi búast við að hönnun nýrrar brúar verði tilbúin.



[13:11]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þessa fyrirspurn og tel að undir öllum kringumstæðum eigi að reyna að flýta þessari framkvæmd Austfirðingum og Íslendingum öllum til hagsbóta.



[13:12]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrirspurn um nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að skoða þær aðstæður sem þar eru og þá sérstaklega með tilliti til hugsanlegra hamfarahlaupa. Landslag og aðstæður eru kannski ekki alveg með venjulegum hætti og þar af leiðandi er ekki nóg að horfa eingöngu til styttingar eða þeirra þátta sem venja er að horfa til þegar verið er að leggja nýjan veg og nýja brú og þá með tilliti til kostnaðar. Brúin er einbreið, hún er hættuleg af þeim sökum. Hún tekur venjulegan flutning en það er ekki hægt að fara þar yfir með t.d. hús og þungavöru, eins og hér hefur verið lýst. Slíkir flutningar verða æ algengari þannig að ég tel mjög mikilvægt að hraða og vinna vel að undirbúningi þessarar brúar.



[13:13]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að taka málið hér upp. Líkt og kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra þá er mikilvægt verkefni hér á ferð. Ég fagna því að við höfum möguleika til að taka tillit til þess í endurskoðun samgönguáætlunar og vonandi verður það jafnvel fyrr að við sjáum fram á einhverjar framkvæmdir fyrir norðan. Það er ekki síst vegna umferðaröryggis en þó líka vegna aukinna þungaflutninga en með uppbyggingu stóriðjuhafnar og stórútflutningshafnar á Reyðarfirði munu flutningar aukast enn frekar. Við því verðum við að bregðast líkt og verið er að gera núna.



[13:14]
Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra komst svo að orði að verkhönnun gæti lokið á öndverðu ári 2007. Ég leyfi mér að taka þessi ummæli svo að í þeim felist sá vilji hans að ekki standi á mannafla og fjármunum að ljúka hönnun svo fljótt sem verða má og hægt verði að bjóða þetta verk út á miðju ári 2007 ef fjármunir eru fyrir hendi.

Nú er ef til vill við því að búast að meira fé verði lagt í samgönguáætlun og þá liggur ljóst fyrir að þetta er sú brú á hringveginum sem þýðingarmest er. Ekki verður fram hjá því horft.

Ég rifjaði það upp í báðum ræðum mínum í nóvember að ástandið væri þannig að verktakar á Akureyri hefðu orðið að fara á vaði yfir Jökulsá á Fjöllum með tæki sín. Ég veit ekki hvað menn mundu segja í öðrum fjórðungum ef þeim yrði þannig stillt upp að þeir yrðu að fara yfir slíkt vatnsfall á vaði til að komast leiðar sinnar með tæki og búnað. Ég er hræddur um að einhvers staðar heyrðist eitthvað. En menn eru hraustir fyrir norðan.

Ég vil líka segja af því að rætt var um að taka stóran krók. Krókurinn getur verið allur hringurinn nema þessi stutti spölur milli Akureyrar og Egilsstaða, ef við hugsum um þá tvo staði, vegna þess að vegurinn upp að Dettifossi opnaðist ekki fyrr en í miðjum júnímánuði á þessu sumri og var þó veturinn ekki erfiður. Við getum því ekki haldið því fram að það sé nema sumarvegur á milli Kelduhverfis og hringvegarins en úr því verður nú bætt. Það er verið að tala um að leggja veg niður að Dettifossi og bjóða það út í beinu framhaldi af því. Þar sem það er stefna stjórnvalda að leggja umsvifalaust vegi um þjóðgarða veit ég að ekki stendur á því að leggja fram það fé sem upp á vantar. Við sjáum það á ýmsum öðrum þjóðgörðum að stjórnvöldum er í mun að hafa góða vegi í þjóðgörðum.



[13:16]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er deginum ljósara að það er ekki ásættanlegt að við getum ekki flutt það sem þarf að flytja um vegakerfið, um hringveginn. Hvað varðar brúna yfir Jökulsá þá koma fyrst og fremst upp vandamál þegar flytja þarf mjög breiðan farm, sem er breiðari en svo að hann komist um brúna miklu. Breiddin skiptir fremur máli en að þunginn sé svo mikill að brúin þoli ekki fargið. Í slíkum tilvikum leysa menn vandann með því að fara á vaði en að öðru leyti er brúin í ágætu standi. Það er nauðsynlegt að vekja athygli á því og undirstrika það sérstaklega.

Hvað varðar framkvæmdir þarf auðvitað að fjalla um þær í samgönguáætlun og varðandi vegagerð á þessu svæði þá hef ég marglýst því yfir að vegur að Dettifossi er mikilvæg framkvæmd líkt og er á öðrum sambærilegum svæðum svo sem í þjóðgörðum. Ég fagna því að fleiri hafi sama skilning á því og ég.