132. löggjafarþing — 56. fundur
 1. feb. 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

útreikningar fjármálaráðuneytis í skattamálum – Fríhöfnin.

[12:03]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað fjármálaráðuneytið treysti sér til að reikna og hvað ekki. Það hefur komið á daginn að ef upplýsingar geta verið erfiðar pólitískt séð fyrir hæstv. ráðherra þá er eins og allar reiknimaskínur stoppi í ráðuneytinu. Þá vísa ég til þess að þegar ég óskaði eftir því að ráðuneytið reiknaði út hver misskiptingin mundi verða þegar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar hefðu náð fram að ganga fengust engin svör við því. Þá bar hæstv. ráðherra því við að ekki væri hægt að taka tillit til þess að vinnuframboð mundi breytast við það að breyta tekjuskattsprósentunni.

Mér finnst þetta vera mjög lélegar mótbárur ef borið er saman við svör hæstv. ráðherra hér í utandagskrárumræðu þar sem hann svaraði fyrirspurnum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá voru reiknaðar fram og aftur í tímann mínustölur og plústölur og ég veit ekki hvað út frá hinum ýmsu forsendum.

Ég ætla að nota tækifærið hér og fá líka einhvern botn í þá útreikninga sem hafa komið frá ráðuneytinu. Í þessum útreikningum ráðherra virðist vera ákveðin blekking og ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort hann reikni með sömu krónutölu árið 1994 í þessum dæmum sínum, 120 þús. kr., þegar hann er að reikna skattbyrðina það ár og noti síðan aftur sömu krónutölu þegar verið er að miða út skattgreiðslur af sömu krónutölu árið 2006. Fyrir þá sem ekki vita það hafa laun tvöfaldast á þessum tíma til ársins 2005 þannig að það er algjörlega ósambærilegt að bera saman skattbyrði á krónutölunni 120 þús. árið 1995 og síðan árið 2006. Ég óska eftir því að fá einhvern botn (Forseti hringir.) í þessa útreikninga ráðuneytisins.



[12:05]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru eiginlega tvær spurningar sem hv. þingmaður ber fram. Fyrri spurningin er um það hvað hægt sé að reikna. Það er auðvitað hægt að reikna nánast hvað sem er ef menn gefa sér einhverjar forsendur. Þar sem hv. þingmaður skilur greinilega ekki mínus-skatta þá er það þegar greiðslur úr ríkissjóði eru meiri en skattarnir og viðkomandi fær greitt úr ríkissjóði, svo hv. þm. Kristján Möller skilji þetta nú einu sinni.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði hvað fjármálaráðuneytið hefði ekki treyst sér til þess að gera, en það er að meta launaþróunina og leggja hana síðan til grundvallar útreikningnum. Þó að það hafi gerst í tíð fyrrv. fjármálaráðherra að slík niðurstaða fékkst held ég að það sé rétt af fjármálaráðuneytinu að vera ekki að leggja til grundvallar í útreikningum spár um það hver launaþróunin mundi hugsanlega verða. Ef einhverjar tilteknar forsendur eru hins vegar gefnar er hægt að reikna út frá því.

Hvað síðari spurninguna varðar er bæði um að ræða, í dæmunum sem komu fram í fréttatilkynningu ráðuneytisins, tölur sem eru þá launatölur fyrir árið 1994, og þær reiknaðar á reglum ársins 1994, reglum ársins 2006 og reglum ársins 2007, og síðan eru tölurnar uppfærðar miðað við þróun. Þau dæmi sem þarna eru sýna bæði að skattbyrðin er lægri á síðara árinu en á því fyrra — það staðfestir það sem allir hér vita sem hafa glöggvað sig á þessu án þess að vera með pólitísku gleraugun sín á nefinu (Forseti hringir.) að um raunverulegar skattalækkanir hefur verið að ræða.



[12:07]
Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna máls sem hefur verið nokkuð í fréttum að undanförnu, nefnilega að til standi af hálfu fjármálaráðuneytisins að breyta reglugerð þannig að söluúrval í Fríhöfninni í Leifsstöð verði takmarkað. Ég varð að láta segja mér þetta þremur sinnum áður en ég tryði, einfaldlega vegna þess að ég taldi að náðst hefði þokkaleg sátt um það með hvaða hætti Flugstöð Leifs Eiríkssonar yrði rekin — þar sem væri í bland ríkisrekstur og í stækkuninni hafa síðan einkaaðilar verið að koma inn — um það hélt ég að væri sátt.

Það skiptir einnig máli, herra forseti, að stjórn flugstöðvarinnar hefur tekið ákvörðun um mikla stækkun upp á 5 milljarða kr. og fyrir þeirri ákvörðun liggja ákveðnar forsendur, forsendur um tekjur til stofnunarinnar. Þess vegna hlýtur slíkt að vera í uppnámi, ef rétt reynist, ef breyta á þeim forsendum eins og fréttir hafa verið um enda er komuverslunin einn aðaltekjustofn þessarar ágætu stofnunar.

Það hefur komið fram að ef þessar forsendur breytast kunna 50–60 störf í flugstöðinni að vera í uppnámi. Ef maður skoðar það sem er að gerast, m.a. í samdrætti varnarliðsins, þá hafa Suðurnesjabúar einmitt horft til þess að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið að skapa og mun vonandi áfram skapa fleiri störf. Þess vegna hefur þessi frétt komið afskaplega illa við menn og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver flugufótur er fyrir henni.

Það er líka rétt að minna á það að þegar Norðmenn tóku ekki alls fyrir löngu upp sambærilega komuverslun og við höfum urðu menn varir við það að verslun Norðmanna í flughöfnum, t.d. í Bretlandi, datt niður.



[12:10]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Það er líkt framsóknarmönnum, virðulegi forseti, að reyna að rugla umræðuna sem hér er farin af stað um aukna skattbyrði á lágtekju- og meðaltekjufólk með því að taka upp óskylt mál. Þetta er auðvitað það sama og hæstv. fjármálaráðherra gerir. Hann heldur áfram sínum blekkingarleik, reynir að rugla fólk og slá ryki í augu þess til þess að fólk fái ekki sannleikann á borðið — sannleikann sem er sá að skattbyrði hefur verið að aukast verulega hjá lágtekju- og meðaltekjufólki. Hæstv. ráðherra hefur ekki tekist, þrátt fyrir að hann hafi reynt það, að hrekja þá útreikninga sem Stefán Ólafsson hefur sett fram, sem sýna fram á að 90% heimila í landinu hafa mátt sæta aukinni skattbyrði á síðustu tíu árum.

Núna setur hæstv. ráðherra fram skálduð dæmi og útreikningum er hagrætt til þess að fá þá niðurstöðu sem hann er að leita eftir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki látið keyra niðurstöður um rauntekjur og skattgreiðslur allra einstaklinga í viðkomandi fjölskylduformi fyrir tímabilið 1994–2004 upp úr skattframtölum í staðinn fyrir að skálda einhver dæmi sem passa honum? Barnabótunum hagræðir hann líka og biður bara um útreikninga varðandi börn undir sjö ára aldri en ekki þar yfir þar sem foreldrar margra barna fá ekki barnabætur.

Komið hefur fram hjá öldruðum að sérfræðingahópur fjármála-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðneytis og Landssambands eldri borgara hefur staðfest útreikninga eldri borgara sem sýna fram á að skattur af 100 þús. kr. tekjum, rauntekjum á árinu 1988 — þá var enginn skattur greiddur af þeim — og af tekjum sem samsvara 100 þús. kr. í dag voru greidd 3,3% árið 1991 (Forseti hringir.) en 9,4% árið 2005. Þetta hefur verið staðfest af fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra um það.



[12:12]
Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að ræða hér málefni Fríhafnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en hér fór af stað umræða um skattamál á undan þeirri umræðu og ég held að það sé rétt að nota tímann sem ég hef, þann takamarkaða, til að fara í gegnum skattamálin og taka þátt í umræðu um Fríhöfnina síðar.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri mikilvægt að reikna og það væri hægt að reikna hvað sem væri ef maður gæfi sér bara forsendur. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, það er hægt að reikna hvað sem er. En það er mikilvægt þegar maður er búinn að vera að reikna að segja satt um útkomuna, hver hún er. Það er nú einu sinni þannig að versta lygi sem til er er svokallaður hálfsannleikur.

Í Morgunblaðinu í gær voru tvær greinar um skattamál eftir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, það var hæstv. umhverfisráðherra og síðan var það hv. þm. Ásta Möller sem skrifaði: „Er aukinn kaupmáttur byrði?“ Skrýtin spurning.

Hvað segir hv. þingmaður í lok greinar sinnar:

„Aðalatriðið er þó að launahækkanir síðustu ára og almennt lækkað skatthlutfall hafa leitt til þess að fólk hefur að meðaltali 60% meira á milli handanna eftir skatt en á árinu 1994 og láglaunafólk enn meira. Er það ekki aðalatriðið?“

Þetta segir hv. þingmaður í grein sinni og maður veltir fyrir sér: Bíddu, skilur maður hlutina ekki rétt? Í vefriti fjármálaráðuneytisins frá 19. janúar stendur, með leyfi forseta:

„Hefur sá hópur hjóna sem skipar sér í lægstu tekjutíundina búið við stöðuga aukningu kaupmáttar og ráðstöfunartekna og eru þær nú 28% hærri en þær voru árið 1994.“

Já, 28% hærri. Hv. þm. Ásta Möller segir að meðaltalið sé 60% og það er rétt hjá henni. Láglaunafólkið hafði það betra. Láglaunafólkið hefur notið 28%. Hverjir hafa þá notið hátt yfir 60% þannig að meðaltalið sé 60%, hæstv. ráðherra?



[12:14]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, ein spurning: Hvor aðilinn mundi eiga fyrir sólarlandaferð vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar á árinu 2007, sá sem hefur 100 þús. kr. í kaup eða sá sem hefur milljón kr. í kaup? Báðir borga sömu skattprósentu, síðan kemur persónuafslátturinn í mínus. Hvor skyldi nú eiga fyrir sólarlandaferð, hæstv. ráðherra?

Það er maðurinn með milljónirnar sem hefur hagnast um 40 þús. kr. á skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Þá erum við ekki að tala um afnám hátekjuskattsins, hæstv. ráðherra, sem færði hátekjufólkinu enn viðbót.

Mér finnst ekki þurfa að rífast mikið um útfærsluna á skattstefnu ríkisstjórnarinnar, hún liggur nokkuð ljós fyrir. Eitt prósent af 100 þúsund er eitt þúsund krónur og eitt prósent af milljón er tíu þúsund krónur, hæstv. ráðherra. Þetta hljóta allir að skilja alveg sama hversu lengi ráðherrann reiknar aftur á bak og áfram og hvort sem hann miðar við kaupgjald á árinu 1994 eða kaupgjald í dag. Hann notar sömu krónutöluna.



[12:16]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að ræða ítarlega skattbreytingarnar og hvað þar liggur til grundvallar en það er líka mikilvægt að ræða málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Fríhafnarverslunarinnar. Vil ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að taka það mál upp. Um er að ræða stóran vinnustað og atvinna margra er í húfi og þar skapast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að huga að framtíð verslunarinnar með þrjá þætti í huga.

1. Huga þarf að hagsmunum neytenda. Í versluninni, eins og hún er nú, er mjög mikið vöruúrval. Hún er prýðilega rekin að því leyti.

2. Ríkissjóður hefur geysilegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta og að því þarf einnig að huga.

3. Huga þarf að starfsöryggi og hagsmunum starfsfólks. Ég legg áherslu á að allir þessir þættir verði teknir til skoðunar ef um einhverjar breytingar verður að ræða á því fyrirkomulagi sem er við lýði í Fríhafnarversluninni.



[12:17]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Bæði þau mál sem hér hefur borið á góma í umræðum um störf þingsins eru þess virði að þeim verði gefinn nokkur gaumur hér á næstu dögum. Þeim verður ekki gerð skil með fullnægjandi hætti á þeim stutta tíma sem við höfum til ráðstöfunar hér.

Hvað varðar skattamálin vildi ég koma því á framfæri að sú umræða sem átt hefur sér stað, og hefur ekki síst verið haldið uppi af hálfu talsmanna Samfylkingarinnar, eins og t.d. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, er afar villandi. Ef við horfum á skattkerfi okkar felst í því kerfi að með auknum tekjum verður aukin skattbyrði. Kerfið okkar er þannig upp byggt. Það er svokallað prógressíft kerfi sem gerir ráð fyrir því að skatthlutfall sé hið sama en hins vegar sé persónuafsláttur tiltölulega hár, sá hæsti sem um getur í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Persónuafsláttur er hærri hér en nokkurs staðar annars staðar sem ég þekki til.

En þetta gerir það að verkum að því hærri tekjur sem menn hafa umfram þessi skattleysismörk þeim mun hærra hlutfall borga þeir í skatt. Sá sem er með 150 þús. kr. í tekjur á mánuði borgar u.þ.b. 16% af sínum tekjum í tekjuskatt og útsvar. Sá sem er með 250 þús. kr., 100 þús. kr. meira, borgar 23% í skatt. Hann hefur hærri tekjur en persónufrádrátturinn er sá sami og því borgar hann hærra hlutfall. Því fleiri sem hafa hærri tekjur þeim mun hærra hlutfall er greitt í skatt, en er það vandamálið? Er það vandamál, hæstv. forseti? Er það vandamál að tekjur í þjóðfélaginu hafa aukist svo mikið að meiri skatttekjur skila sér til ríkissjóðs? Er það vandamálið? Er það hið stóra vandamál?

Það skiptir mestu máli að kaupmáttur tekna eftir skatt hefur stóraukist á undanförnum árum og á því verður framhald.



[12:19]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki hægt að koma hreint fram í þessum málum? Hann ber því við að það sé ekki hægt að sjá launaþróun fram í tímann, en menn geta séð hagvöxt mörg ár fram í tímann. Ef einhverjar viðkvæmar upplýsingar eru á ferð þá bara stoppar allt.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að ég bað ekkert um að sjá launaþróun. Ég bað um að reiknað yrði út frá þeim launum sem voru greidd í landinu árið 2003. Hvers vegna er það ekki hægt? Það er vegna þess að það er óþægilegt.

Í öðru lagi vil ég benda hæstv. ráðherra á að ef hann ætlar að koma þessari umræðu á eitthvert vitrænt plan þá á hann að setja dæmið þannig upp að hægt sé að skilja hvað verið er að gera. Nema það sé ætlun hans að koma ekki hreint fram, sveipa staðreyndir þoku og fela raunverulegar gerðir ríkisstjórnarinnar. Tökum t.d. dæmi eitt, sem ég spurði hæstv. ráðherra út í, og hann svaraði með orðinu bæði — það væru bæði rauntölur og bæði eitthvað annað. Ég veit í rauninni ekki hvað hann var að fara. En dæmið snýst um það hver skattbyrðin var á launum sem voru 120 þús. kr. árið 1994, hvort það sé sambærilegt að bera það saman við sömu krónutölu árið 2006. Ég segi nei. Það er miklu nær að bera það saman út frá launaþróuninni sem hefur orðið í landinu. Miklu nær væri fyrir hæstv. ráðherra að bera það saman við 240 þúsund kr. Á því dæmi sést að skattbyrðin hefur aukist, þ.e. ef tekið er mið af launaþróun í landinu.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á tekjuskattinn, að það væri eitthvert vandamál að hann hefði aukist. Ég sé að tíma mínum er lokið og ætla ekki út fyrir þau mörk. Ég vil einungis benda, frú forseti, hv. þingmanni á að kynna sér tryggingargjaldið sem hefur verið hækkað nær tvöfalt.



[12:22]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir teljist nú varla óvilhallur dómari um það hvað mér tekst að skýra út fyrir fólki og hvað ekki. Hins vegar er einfalt að svara henni því sem hún er að spyrja um, þ.e. hvers vegna ég miða ekki við árið 1994 og árið 2004. (Gripið fram í.) Vegna þess að í ár er árið 2006 og á árinu 2005 og 2006 hafa skattar verið lækkaðir. Ef menn ætla að koma hreint fram, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson talar um, eiga menn að taka það inn í dæmið til að geta skoðað stöðuna.

Ég verð líka að firra mig ábyrgð á skilningi hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, þ.e. hvað hann skilur af þeim dæmum sem eru í fréttatilkynningunni á netinu. Þar eru bæði dæmi um það að tölurnar séu teknar og reiknað út frá þeim (Gripið fram í.) eins og þær voru fyrir 12 árum og eins og þær eru í ár, eins og skattarnir væru á næsta ári. Síðan eru líka tekin dæmi þar sem tölurnar eru reiknaðar upp miðað við þróun og þá kemur það sama út, að skatturinn hefur lækkað. Þetta sýnir sennilega það eitt að hv. þingmaður hefur ekki lesið fréttatilkynninguna alla í gegn. (SigurjÞ: Jú, jú.) Hann hefur einfaldlega ekki gert það.

Ég verð að svara hv. þm. Hjálmari Árnasyni á þann veg að samkvæmt tollalögum, sem samþykkt voru á vorþinginu og tóku gildi nú um áramótin, ber ráðuneytinu að skilgreina umsvif Fríhafnarinnar, sérstaklega komuverslunarinnar, í reglugerð. Verið er að vinna að því en engar áætlanir eru um að takmarka þau neitt sérstaklega.

Ég verð þó að segja að ég er mest hissa á því að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli engan áhuga hafa á að ræða málefni Fríhafnarinnar og Flugstöðvarinnar heldur vilji tönnlast á útúrsnúningum varðandi skattamálin.