132. löggjafarþing — 56. fundur
 1. feb. 2006.
vasapeningar öryrkja.
fsp. ÁRJ, 324. mál. — Þskj. 356.

[14:54]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég beini hér fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um það hvort áform séu uppi um að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeninga öryrkja sem dveljast á stofnun og þá til að hækka ráðstöfunartekjur þeirra á einhvern hátt.

Öryrkjum á vasapeningum hefur fækkað mjög á undanförnum árum en fyrir svona 10 árum voru þeir mun fleiri. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun frá 2004 eru aðeins eftir 240 öryrkjar með vasapeninga frá Tryggingastofnun. Það er nánast búið að afleggja vasapeningakerfið gagnvart öryrkjum og þeir sem höfðu þá eru núna komnir með heimili á sambýlum eða þjónustuíbúðum ýmiss konar, halda örorkugreiðslum sínum og greiða af þeim kostnað, svo sem fæðiskostnað, leigu o.s.frv., og halda reisn sinni hvað það varðar.

Því miður eru enn þá 240 öryrkjar heimilislausir inni á sjúkrastofnunum. Árið 2003 samþykktum við hér breytingu á almannatryggingalögunum um það að öryrkjar fengju aldurstengda hækkun eftir því hvenær á ævinni þeir yrðu öryrkjar. Þeir sem urðu öryrkjar ungir, eða verða öryrkjar ungir, fá uppbót vegna þess að þeir eiga yfirleitt ekki tök á því að safna sér réttindum í lífeyrissjóði. Hér hafa setið eftir þeir öryrkjar sem eru margir hverjir langveikir, geðsjúkir, og eru með heimili á sjúkrastofnunum, eins og t.d. á Kleppsspítala. Þetta voru 240 manns árið 2004 eins og ég sagði áðan og þetta fólk hefur til ráðstöfunar 21.993 kr., sem eru óskertir vasapeningar, og þeir skerðast um 65% ef aðrar tekjur fara yfir 7 þús. kr. og verða að engu eða falla algjörlega niður ef menn eru með aðrar tekjur upp á 42 þús. kr. En þetta fólk hefur yfirleitt ekki tök á því að afla sér nokkurra viðbótartekna.

Þess vegna finnst mér ástæða til að kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugað að þessum hópi hvað varðar aldurstengdu örorkuna því að það hefur einnig komið fram, og kom fram í vetur í samræðum mínum við félagsráðgjafa á spítala hér í borg sem annast einmitt hóp þessara einstaklinga, að sveitarfélögin styrkja þessa einstaklinga ekki lengur. Áður fengu þeir jólauppbót og ýmsa styrki frá sveitarfélaginu sem þá reyndar skerti vasapeningana en það (Forseti hringir.) er ekki lengur til staðar. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi íhugað aldurstengda uppbót til þessa hóps.



[14:57]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir beinir til mín fyrirspurn um hvort áformað sé að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeningum öryrkja sem dveljast á stofnunum.

Til að hægt sé að svara spurningunni verður að finna út hvað átt er við með öryrkjum sem dveljast á stofnunum. Á stofnunum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eru sjúklingar sem dvelja á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Þessir sjúklingar geta verið örorkulífeyrisþegar og ef þeir dvelja lengri tíma á sjúkrahúsi eða hjúkrunarheimili falla niður örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins en í stað þeirra greiðir stofnunin mánaðarlegt ráðstöfunarfé, svokallaða vasapeninga. Á sjúkrahúsum eru sjúklingar eða öryrkjar á öllum aldri og á hjúkrunarheimilum geta verið sjúklingar eða öryrkjar yngri en 67 ára en síðarnefndi hópurinn er lítill. Erfitt er að afmarka þann hóp sem spurt er um en ég mun reyna að svara fyrirspurninni eins og hægt er.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir vasapeninga til sjúklinga sem dvelja í lengri tíma á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum. Ég hef ekki áform um að greiða aldurstengda uppbót á vasapeninga. Ég hef áður greint frá því að ég telji koma til álita að endurskoða fyrirkomulag á greiðslum fyrir stofnanir fyrir aldraðra og vasapeningagreiðslur Tryggingastofnunar til þeirra. Sama gildir auðvitað um þá öryrkja sem eru yngri en 67 ára og dvelja langdvölum á sjúkrahúsum eða á hjúkrunarheimilum og fá greidda vasapeninga.

Fyrirspurninni er því svarað á þann hátt að ekki eru uppi áform um að taka upp aldurstengda hækkun eða uppbót á vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins en þessi atriði mundu koma til skoðunar ef fyrirkomulag greiðslu við langtímastofnanavist aldraðra og öryrkja yrði endurskoðað. Það má bæta við að sú endurskoðun er reyndar komin í gang í samstarfsnefnd sem hefur nýlega hafið störf um málefni aldraðra og reikna má með því að niðurstaða hennar gildi um öryrkja einnig.



[14:59]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Hann hyggst ekki koma á aldurstengdri uppbót eða hækkun fyrir þessa öryrkja, þessa 240 sem eiga heimili sitt inni á sjúkrastofnun, sem margir hverjir eru langveikir, geðsjúkir öryrkjar. Það harma ég.

En ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að endurskoða þetta fyrirkomulag. Það er auðvitað löngu úrelt og gamaldags og verður að endurskoðast. En á meðan verið er að endurskoða það er þarna hópur sem býr við lakari kjör en aðrir. Þessi hópur er upp á aðstandendur sína kominn með framfærslu. Ég hef verið í sambandi við aðstandendur geðsjúkra, þessara langveiku einstaklinga sem eru á þessum sjúkrastofnunum enn þá, sem verður vonandi fljótlega liðin tíð, og þetta fólk er algjörlega upp á aðstandendur sína komið. Þetta eru oft geðsjúkir, þeir reykja, sem er kostnaðarsamt, og þeir geta ekki keypt sér föt til skiptanna fyrir þessa peninga, hvað þá leyft sér nokkuð annað.

Ég bið hæstv. ráðherra að skoða hvort ekki sé ástæða til að bæta kjör þessa hóps, þessara fáu einstaklinga þangað til búið er að afnema þetta gamaldags og niðurlægjandi kerfi sem vasapeningakerfið er. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að endurskoða. Þangað til búið verður að laga það þarf auðvitað að koma þessum hópi til einhverrar aðstoðar þannig að hann þurfi ekki að búa við það að geta í rauninni á engan hátt bætt kjör sín og sé alltaf upp á sína nánustu kominn ef hann ætlar að leyfa sér nokkurn skapaðan hlut.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það og síðan þegar vasapeningakerfið verður aflagt, sem verður vonandi fljótt, fellur þetta náttúrlega um sjálft sig. En þetta fólk hefur aldrei fengið þessa aldurstengdu uppbót sem aðrir hafa fengið sem halda sínum lífeyrisgreiðslum.



[15:02]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika að þetta kerfi er til endurskoðunar og samtök aldraðra og forustumenn þeirra hafa lagt á það sérstaka áherslu að það verði gert. Ég vona að sú vinna gangi fljótt fyrir sig og að við komumst að niðurstöðu um þessi efni. Vinna nefndar sem á að fjalla um þetta er farin af stað og ég vona að við getum sagt tíðindi af þessu áður en langt um líður.