132. löggjafarþing — 57. fundur
 1. feb. 2006.
rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 288. mál (vatnsaflsrannsóknir, leyfi o.fl.). — Þskj. 709.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:15]

[16:04]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við greiðum nú atkvæði um er ekki mikið að vöxtum. Hins vegar liggur ríkisstjórninni mjög á að fá það samþykkt og afgreitt sem lög frá Alþingi.

Ákvæði frumvarpsins eru tekin út úr mun stærra lagafrumvarpi um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Það frumvarp hefur sætt mikilli andstöðu í þjóðfélaginu almennt og hér innan veggja Alþingis einnig. Þess vegna brá ríkisstjórnin á það ráð að fara þessa flýtimeðferð til að ná fram ásetningi sínum til að auðvelda iðnaðarráðherra að veita leyfi til rannsókna á virkjunarkostum en sem kunnugt er vill hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórn halda áfram virkjunum í þágu erlendra álfyrirtækja sem sækja nú inn í landið vegna skattfríðinda og lægsta orkuverðs sem um getur í okkar heimshluta. Í veigamiklum atriðum er um að ræða sérkjör sem ekki eru í boði fyrir íslenskan atvinnurekstur.

Í þessari atkvæðagreiðslu skilja leiðir, annars vegar á milli þeirra sem vilja auðvelda ríkisstjórninni að halda lengra inn á stóriðjubrautina á kostnað íslensks atvinnulífs og íslenskrar náttúru og hins vegar hinna sem vilja hlúa að íslenskum atvinnurekstri, fjölbreytni í atvinnulífinu og síðast en ekki síst að íslenskri náttúru.

Afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er skýr og hún er afdráttarlaus. Núna viljum við álstopp. Við viljum álstopp í þágu fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við viljum álstopp í þágu íslenskrar náttúru.



[16:06]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp sem við greiðum nú atkvæði um er ekki stórt að vöxtum og það er sakleysið uppmálað. Það gengur ekki út á annað en að orkufyrirtæki fái að rannsaka vatnsafl og eigi það tryggt að fá þann kostnað endurgreiddan ef annað fyrirtæki fær virkjunarréttinn síðar. Það er nú allt og sumt. Um þetta hafa hv. þingmenn Vinstri grænna þurft að tjá sig mikið, svo klukkutímum skiptir. En ég er hrædd um að það hafi verið einhver misskilningur í því (HlH: Hjá hverjum?) hvernig staðið var að málum.

Ég ítreka það að þetta frumvarp gengur ekki út á annað en það sem ég kom inn á áður.



Frv.  samþ. með 39:5 atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁMM,  ÁRJ,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  BjörgvS,  BBj,  DJ,  DrH,  EKG,  GHj,  GÞÞ,  GHall,  GÖg,  GÖrl,  HBl,  HjÁ,  JÁ,  JóhS,  JGunn,  JKÓ,  KJúl,  KÓ,  KLM,  MS,  MF,  MÁ,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SÞorg,  SF,  StB,  VS,  ÞKG,  ÞSveinb.
nei:  HlH,  JBjarn,  KolH,  ÞBack,  ÖJ.
19 þm. (ÁMöl,  EOK,  EMS,  GHH,  GAK,  GÁ,  HÁs,  HHj,  ISG,  JónK,  JBjart,  KHG,  LB,  MÞH,  SigurjÞ,  SP,  SæS,  VF,  ÖS) fjarstaddir.
5 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[16:08]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um felur í sér auknar og rýmri heimildir til handa iðnaðarráðherra til að undirbúa fleiri stórvirkjanir í vatnsföllum landsins fyrir álbræðslur og álæði sem heltekur ríkisstjórnina. Jafnframt eru þessi rannsóknarleyfi gerð að markaðsvöru, þau geta nú gengið kaupum og sölum með leyfi ráðherra.

Frú forseti. Sum vatnsföll eru hafin yfir það að þau eigi að rannsaka með tilliti til stórvirkjana fyrir álbræðslu. Þar á meðal eru jökulvötnin í Skagafirði, Héraðsvötnin. Þar á meðal er Skjálfandafljót með Aldeyjarfossi, svo nokkuð sé nefnt. Þessi vötn á ekki að fela í hendur iðnaðarráðherra. Þau eiga að fá að renna frjáls til sjávar.

Því, frú forseti, segi ég nei við þessu frumvarpi sem hér er verið að greiða atkvæði um.



[16:09]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér í ræðustól að þetta frumvarp væri sakleysið uppmálað og hæstv. iðnaðarráðherra var einmitt sakleysið uppmálað á fjölmennum fundi í Listagilinu á Akureyri í gærkvöldi þar sem fjölmargir andstæðingar álvers á Norðurlandi voru mættir og nokkrir virkjunar- og álverssinnar líka reyndar. (Gripið fram í.) Það heyrðist ekki mikið í þeim á þessum fundi, þeir voru með ótakmarkaðan ræðutíma að sjálfsögðu. Ég segi nei við þessu frumvarpi vegna þess að þetta frumvarp er liður í álvæðingu Íslands og þessa álvæðingu viljum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stoppa og þessa álvæðingu vill þjóðin líka stoppa. Við spyrjum að leikslokum, frú forseti.



[16:11]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra leyfði sér að segja í ræðustóli rétt áðan að þetta frumvarp sé sakleysið uppmálað. Það eru hræðileg öfugmæli, frú forseti, því þetta frumvarp hjálpar hæstv. iðnaðarráðherra að koma fleiri náttúruperlum á Íslandi í lóg fyrir erlenda álauðhringa. Hæstv. iðnaðarráðherra setur þetta frumvarp fram til þess eins að orkufyrirtæki sem stundi rannsóknir á vatnsafli verði ekki lengur svona treg, eins og segir í greinargerð hæstv. ráðherra með þessu frumvarpi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum sátt við að orkufyrirtæki á Íslandi séu treg til að rannsaka virkjunarkosti í vatnsafli fyrir erlend álfyrirtæki. Við erum hins vegar ekki treg til að sjá til þess að staðinn sé vörður um íslenska náttúru. Það gerum við með andstöðu okkar við þetta frumvarp. Hún hefur verið mjög öflug og kröftug og við höfum talað hér lengi, eins og hæstv. ráðherra hefur gagnrýnt okkur fyrir. Við erum stolt af því hversu lengi við höfum talað í þessu frumvarpi og stolt af þeirri andstöðu sem hefur komið fram hjá okkur. Ég segi nei.



[16:12]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fyrir þá sem standa vörð er mikilvægt að kalla ekki til hjálpar t.d. með kallinu úlfur, úlfur fyrr en hættan er ljós. Þetta frumvarp sem við greiðum atkvæði um er niðurstaðan á nokkuð löngu ferli þar sem stjórnarandstaðan sameinuð hefur náð verulegum árangri. Hún hefur gert það með því að það vilyrði sem sóst var eftir og var í lögunum um vatnsafl er nú einungis í gildi um hitaveitur. Auðvitað eru hættur hér og þar á ferð en ég vek athygli á því að með ákvæði til bráðabirgða er í raun og veru þannig gengið frá málum að ráðherra getur a.m.k. ekki veitt nýtingarleyfi nema þegar tveir eða fleiri sækja um og siðferðilega getur hún í raun og veru ekki veitt neinum einum nýtingarleyfi þar sem nefnd á að fjalla um málið og skila í formi lagafrumvarps 15. september á þessu ári. Ég segi því já.



[16:13]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna langra umræðna hv. þingmanna Vinstri grænna um þetta mál sem þeir hafa í rauninni haldið uppi til þess að finna fætur undir það að þeir séu þeir einu sem berjist fyrir náttúruvernd á Íslandi en ekki vegna þess máls sem hér er á ferðinni, þá geri ég eftirfarandi grein fyrir mínu atkvæði: (Gripið fram í.)

Það er þannig að þetta frumvarp snýst eingöngu um að hægt sé að veita leyfi til að rannsaka vatnsföll á Íslandi og líka möguleika til orkunýtingar vegna orku sem er framleidd með jarðhita. Þetta snýst ekki um neitt annað. Hvernig menn fara svo með þetta til nýtingar í framtíðinni fer auðvitað eftir þeim reglum sem settar verða í kjölfarið. Þær reglur eru ekki orðnar til. Hæstv. ráðherra getur ekki veitt vilyrði á grundvelli þessara laga lengur. (Forseti hringir.)