132. löggjafarþing — 59. fundur
 6. feb. 2006.
uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:05]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hafa skilaboð í fjölmiðlum frá ráðherrum og öðrum ráðamönnum verið nokkuð misvísandi hvað varðar uppbyggingu álvera á komandi árum og má segja að þar reki sig hvað á annars horn. Ég vil rifja upp í því sambandi að fyrir tæpum tveimur árum sagði Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, á alþjóðlegri ál- og orkuráðstefnu að rými væri fyrir eitt nýtt álver hér á landi á næsta áratug og þegar heildarframleiðsla á áli næði 1 millj. tonna á ári værum við komin að ákveðnum mörkum. Þetta sama sagði hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir í útvarpsfréttum í júní, að milljón tonn væri hámarkið.

Skyndilega dúkka hins vegar upp hugmyndir um stækkun í Straumsvík og tvö ný álver. Þá var það sem hæstv. umhverfisráðherra sagði að menn væru komnir fram úr sér í þessari umræðu og ef af stækkun yrði í Straumsvík væri ekki pláss fyrir fleiri álver.

Fyrir norðan var hæstv. iðnaðarráðherra að kynna hugmyndir um álversuppbyggingu á Norðurlandi og sagði þar að álver á Norðurlandi væri óháð því sem gerðist fyrir sunnan. Þó að af stækkun yrði í Straumsvík og byggingu í Helguvík kæmi það ekki í veg fyrir álver fyrir norðan og Norðlendingar hefðu aldrei verið eins nærri því að fá álver, eins og hún orðaði það. Þegar hún var spurð út í ummæli hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli sagði hún, og ég held að ég hafi það orðrétt eftir henni, við viðmælanda, þann sem spurði: Treystu á mig, takið ekki mark á umhverfisráðherra.

Nú spyr ég: Á hverjum á að taka mark í þessu máli? Eftir höfðinu dansa limirnir, og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Telur hann að það sé pláss fyrir stækkun í Straumsvík og nýtt álver fyrir norðan innan Kyoto-bókunarinnar og telur hann að það sé pláss fyrir allar þessar framkvæmdir fyrir árið 2012, innan ramma þeirra hagstjórnarmarkmiða sem menn hafa sett sér, m.a. um stöðugleika?



[15:06]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur fyrir og hefur gert lengi að það er áhugi hjá fyrirtækinu Alcan að stækka álverið í Straumsvík. Nú hefur verið farið fram á samningaviðræður um orkuverð vegna þeirrar framkvæmdar. Annað liggur ekki fyrir.

Það liggur líka fyrir að Alcoa hefur áhuga fyrir að reisa álver á Norðurlandi og er að leita eftir samningum um það. Það liggur enn fremur fyrir að fyrirtækið Century hefur áhuga fyrir að reisa álver í Helguvík.

Mér finnst af hinu góða að slíkur áhugi sé fyrir hendi og mér finnst það af hinu góða að það sé áhugi í viðkomandi byggðum á að auka atvinnu á því svæði. Síðan verður að koma í ljós hvort samningar takast. Það er að mínu mati ljóst að það ræðst ekki síst af því hvort hægt verði að skaffa rafmagn til þessara fyrirtækja. Það liggur alveg ljóst fyrir að það mun taka alllangan tíma.

Þegar þetta liggur síðan ljósar fyrir þarf að raða því upp og sjá hvernig það rúmast í efnahagslífi okkar. Ég tel alls ekki tímabært að fullyrða neitt um það.

En mér finnst mjög undarlegt að á Alþingi skuli menn vera svona andvígir því að þessi umræða fari fram, nánast andvígir því að þessi sveitarfélög leiti eftir auknum atvinnutækifærum og vilja ekki gefa mönnum ráðrúm til að fara yfir það. (Gripið fram í: Er það hægt?) Það er margt hægt, já, ef vilji er fyrir hendi. Ekki kannski allt en það er margt hægt, en það verður að vera einhver vilji.

Að því er varðar Kyoto-bókunina skal ég koma að því í seinna svari mínu vegna þess að ég hef ekki tíma til þess núna.



[15:09]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég spurði ákveðinnar spurningar og fékk ekki mjög ákveðið svar. Satt að segja var svarið nokkuð loðið, þ.e. ríkisstjórnin ætlar að sjá til þess að viðræður verði uppi við þessa þrjá aðila um byggingu álvers í Helguvík, fyrir norðan og stækkun í Straumsvík. Síðan á að koma í ljós hvort samningar takast.

Ég hlýt hins vegar að líta svo á, virðulegur forseti, þar sem því hefur ekki verið svarað með öðrum hætti að þessar þrjár framkvæmdir rúmist ekki innan Kyoto-bókunarinnar og rúmist ekki innan þeirra hagstjórnarmarkmiða sem við höfum sett okkur, þ.e. eitt af þessum þremur getur gert það en ekki þrjú. Er þá ekki verið að draga þrjú fyrirtæki og þrjú sveitarfélög á asnaeyrum með því að segja þetta ekki skýrt í ræðustól Alþingis, virðulegur forseti?



[15:10]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég man þá tíð þegar við sömdum um Kyoto-bókunina. Þá sagði þáverandi formaður Samfylkingarinnar að sú beiðni yrði hlegin út af borðinu.

Það liggur fyrir að við höfum heimild til að byggja stóriðju sem samsvarar 1.600 þús. tonnum af CO 2 . Það ákvæði gildir til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki. Ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti á Íslandi. Það vil ég að sé alveg skýrt.

Ég veit að sjálfsagt telja margir hér inni að einhverjar frekari kröfur af okkar hálfu í þeim efnum verði hlegnar út af borðinu, og kannski vill núverandi formaður Samfylkingarinnar segja það. En sú mun verða krafa núverandi ríkisstjórnar.



[15:11]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vitna í umhverfisráðherra sem sagði í fréttum að það væri ljóst að ef stækkun í Straumsvík yrði eins og að var stefnt yrðu Íslendingar búnir að fylla í mengunarkvóta sinn í Kyoto-bókuninni og ekki yrði pláss fyrir fleiri álver nema með frekari mengunarkvótum eða stórfelldum samdrætti í mengun á öðrum sviðum.

Nú hef ég skilið hæstv. ráðherra þannig að hann hyggist beita sér fyrir því að Íslendingar fái frekari mengunarkvóta eftir 2012, en fyrir 2012 liggur alveg ljóst fyrir hvað við megum gera. Innan þess kvóta rúmast ekki allar þessar framkvæmdir. Það er því verið að draga þrjú fyrirtæki og þrjú sveitarfélög á asnaeyrum ef þeim er gefið undir fótinn með að fyrir þann tíma nái menn að fara í framkvæmdir í þessum sveitarfélögum. Innan kvótans rúmast annaðhvort stækkun eða eitt álver fram til ársins 2012. Er ekki rétt að segja það þá skýrt og vera ekki að láta menn gæla við þá hugsun að hér geti komið einhverjar framkvæmdir sem hvorki standast þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gert né heldur þau markmið sem við höfum í hagstjórn?



[15:12]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta er ósköp einfalt. Það liggur alveg ljóst fyrir að aðeins eitt af þessum fyrirtækjum telur líklegt að það geti lokið þessum framkvæmdum fyrir árið 2012. Það er varðandi álverið í Straumsvík ef samningar takast þá um það. Við vitum ekkert um það.

Að því er varðar bæði Alcoa og eftir því sem ég best veit Century líka eru uppi hugmyndir um að það verði síðar. Það hefur verið nefnt árið 2012 í því sambandi en það er hið alfyrsta. Þetta útilokar ekkert hvað annað, þ.e. ef menn hafa þá stefnu að vilja virkja frekar í landinu og nýta íslenskar auðlindar til að geta tekið þátt í því að minnka losun í heiminum. Ég vildi gjarnan heyra frá hv. formanni Samfylkingarinnar hvort hún telur rétt að við gerum það. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir þessi fyrirtæki að stór stjórnarandstöðuflokkur eins og Samfylkingin tali skýrt í þeim efnum.