132. löggjafarþing — 60. fundur
 7. feb. 2006.
hlutafélög, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 444. mál (stjórnhættir, starfskjör stjórnenda). — Þskj. 666.

og 

einkahlutafélög, 1. umræða.
stjfrv., 445. mál (stjórnhættir, starfskjör stjórnenda). — Þskj. 667.

[17:47]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (frh.):

Virðulegi forseti. Þegar ég gerði hlé á máli mínu var ég að spyrja hæstv. ráðherra um sparisjóðina, hvaða reglur giltu þar um gagnsæi í starfskjörum stjórnenda sparisjóðanna og hvort ráðherra ætlaði beita sér fyrir reglum um upplýsingaskyldu þeirra með sama hætti og gildir um t.d. bankana. Varðandi lífeyrissjóðina þá setti Fjármálaeftirlitið nokkuð skýrar reglur um upplýsingagjöf lífeyrissjóða í ársreikningum varðandi launakjör stjórnenda þeirra. Þar kemur fram að í ársreikningum eigi að tilgreina heildarfjárhæð launa og þóknunar til stjórnar og framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna vegna starfa í þágu sjóðsins. Upplýsingarnar á að sérgreina á einstaka stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Það er t.d. ekki í þessu frumvarpi eftir því sem ég best fæ skilið varðandi þau ákvæði sem lúta að starfskjörum stjórnenda. Í ákvæðið varðandi lífeyrissjóðina vantar að vísu að ársfundir samþykki starfskjarastefnu fyrir stjórnendur og þar með talið starfslokasamninga. Flutti ég um það frumvarp sem lagt var fram á þinginu fyrir einum eða tveimur dögum að því er varðar lífeyrissjóðina, en út af stendur varðandi sparisjóðina og spyr ég hæstv. ráðherra um það.

Mig langar að fara í 3. gr. frumvarpsins sem ég tel að nú sé komin í allt annan búning en nefnd viðskiptaráðherra lagði til. Sú nefnd lagði til, og ætla ég að vitna orðrétt í skýrslu nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Til að tryggja hluthöfum meiri áhrif varðandi starfskjör stjórnenda leggur nefndin til að sett verði lagaákvæði um að stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en fjóra hluthafa verði skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga.“

Í frumvarpi ráðherrans segir, með leyfi forseta:

„Félagsstjórn í félagi, sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 59. gr. laga nr. 144/1994, um ársreikninga, eða hlutafélagi sem ríkissjóður á helmingshlut eða meira í og lýtur endurskoðun skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, skal samþykkja stefnumið félagsins …“

Þarna stendur „skal samþykkja stefnumið félagsins“. Ég spyr ráðherra: Á hluthafafundur samkvæmt þessu ákvæði að samþykkja starfslokasamninga? Taka þeir ekki gildi fyrr en hluthafafundur er búinn að samþykkja þá? Á hluthafafundur að samþykkja kaupréttarsamninga eða einungis stefnumiðin eins og hér stendur?

Ég held áfram lestri úr 3. gr. frumvarpsins:

„… skal samþykkja stefnumið félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess. Í stefnumiðunum skulu koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjarastefnu stjórnenda og stjórnarmanna og stefnu félags varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn. Jafnframt skal koma þar fram hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum …“ — Síðan er talið upp t.d. árangurstengdar greiðslur, starfslokasamningar og þess háttar.

Ég get ekki séð annað en að félagsstjórn eigi að samþykkja stefnumiðin sem leggja á fyrir aðalfund. Ég tel að hér sé miklu skemur gengið en hvað varðar þau ákvæði sem gilda um félög sem skráð eru í Kauphöllinni. Þar er meira að segja gengið svo langt að talað er um að upplýsa eigi um starfskjör einstakra stjórnenda og stjórnarmanna.

Mér finnst þetta mjög loðið ákvæði og óljóst hvað það þýðir. Getur ráðherra t.d. svarað þeirri spurningu: Felur þetta ákvæði í sér að hluthafafundur þurfi að samþykkja t.d. starfslokasamninga? Það var t.d. eitt af þeim ákvæðum sem nefnd ráðherrans lagði til að þeir tækju ekki í gildi fyrr en hluthafafundur væri búinn að samþykkja þá. Eins spyr ég hvort upplýsa eigi um starfskjör einstakra stjórnenda og stjórnarmanna og hvort leggja þurfi það fyrir hluthafafund. Þetta er allt saman mjög óljóst og þarf að fara mjög vel yfir í efnahags- og viðskiptanefnd.

Síðan spyr ég: Hvaða áhrif hefur það ef frumvarpið sem við erum að ræða gengur skemur en reglur Kauphallarinnar? Kauphöllin er með ákveðnar reglur. Verður Kauphöllin að breyta reglum sínum, draga úr þeim ef lögin ganga skemur en reglur Kauphallarinnar? Mér er ekki alveg ljóst hvort svo sé, en það er full ástæða til að skoða það. Ég spyr hvort þessi ákvæði nái líka til endurskoðenda hlutafélaganna. Það er í lögunum um Kauphöllina að ákvæðin ná til endurskoðenda líka. Ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Í reglum Kauphallarinnar segir, með leyfi forseta:

„Upplýsingar um laun, greiðslur og hvers konar hlunnindi frá félagi á undangengnu fjárhagsári til einstakra stjórnarmanna og æðsta stjórnanda sérstaklega.“

Þetta eru upplýsingar sem tilgreina á í ársreikningi. Ég spyr: Verður þetta með sama hætti að því er varðar þær breytingar sem verið er að gera á hlutafélögunum varðandi starfskjör stjórnenda. Þetta tel ég mikilvægt að fá fram.

Síðan er rétt að ég fari yfir það, virðulegi forseti, sem ráðherrann tekur út úr sínu frumvarpi en var í tillögum nefndar viðskiptaráðherra. Af hverju, og ég bið ráðherrann að rökstyðja það, var ástæða til að taka út: „… skylt verði að upplýsa stjórn um öll viðskipti félagsins við tengda aðila ef viðskiptin teljast veruleg. Þá er einnig lagt til að stjórn verði gert skylt að gera grein fyrir öllum slíkum viðskiptum sem farið hafa fram á árinu á aðalfundi félagsins.“

Virðulegi forseti. Mér dugar ekki að ráðherra segi bara að komið hafi fram athugasemdir frá einstaka aðilum, kannski hagsmunaaðilum, um að taka þetta út. Það þurfa að vera gild rök fyrir því hjá ráðherra að taka út svo mikilvæga tillögu frá nefnd ráðherrans.

Ég spyr líka: Af hverju var ástæða til að taka út það sem nefndin lagði til: „að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem féllu undir eðlileg störf stjórnarformanns.“ Af hverju var ástæða til að taka þetta út?

Ég spyr um nokkrar mikilvægar tillögur í viðbót. Þær eru einar 10 eða 11 sem ráðherra hefur ekki treyst sér til að taka upp frá nefndinni.

Í fyrsta lagi: „Nefndin mælir með því að í starfsreglum stjórna hlutafélaga og einkahlutafélaga skuli tekin afstaða til þess hvort þörf sé á því að skipa sérstakar undirnefndir, t.d. til að fylgjast með, fjalla um og gera tillögur varðandi innra eftirlit, bókhald og endurskoðun, kjaramál æðstu stjórnenda, tilnefningar í stjórn og stjórnhætti félagsins.“ Af hverju er þessi mikilvæga tillaga felld út hér?

Ég nefni líka: „Nefndin mælir með því að löggjöf um yfirtökur og yfirtökutilboð verði endurskoðuð sem fyrst til að tryggja jafna meðferð hluthafa í yfirtökum og aukna vernd fyrir eigendur minni hluta hlutafjár.“ Er þetta í athugun hjá hæstv. ráðherra sem mælt er með varðandi löggjöf um yfirtöku og yfirtökutilboð?

Ég spyr líka um það sem nefndin leggur hér til: „Nefndin telur tímabært að lagt verði í vinnu við að skoða laga- og rekstrarumhverfi annarra fyrirtækja- og félagaforma. Sérstaklega virðist í mörgum tilfellum ástæða til að huga sérstaklega að því hverjir eiga eigið fé þessara fyrirtækja og hvort og þá hvernig þeir geta framselt þá kröfu.“

Ég fer fram á að ráðherrann rökstyðji af hverju hún hefur fellt út mörg mikilvæg ákvæði sem nefnd viðskiptaráðherra lagði til. Ég fagna því sem fram kemur í frumvarpinu að heimilt sé að höfða skaðabótamál, sem er ákveðin vernd fyrir minni hlutann, og einnig ef ástæða er til og ákveðinn hluti hluthafa minni hluta telur rétt að fram fari sérstaklega rannsókn á ákveðnum málum að það sé þá heimilt samkvæmt þessu.

Það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað spyrja ráðherrann að líka sem snerta leikreglur á viðskiptamarkaðnum og fjármálamarkaðnum. Ég spyr ráðherra hvort verið sé að skoða það sem ráðherrann lofaði að huga að, þ.e. að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhluti í óskiptum fyrirtækjarekstri. Það er nefnilega ástæða til að taka upp verðbréfalöggjöfina líka. Ég er einmitt með það í skoðun og mun væntanlega verða lagt fram frumvarp það að lútandi á næstu dögum, t.d. um þann þátt sem ég nefni hér. Í því sambandi vil ég nefna það sem ráðherra sagði fyrr á þessu þingi í fyrirspurn sem ég var með til ráðherrans. Ég hef gert athugasemdir við, og kalla það spillta fjármálagjörninga, kaup stjórnenda fjármálafyrirtækja á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum sem þeir vinna hjá og þau eru orðin algeng. Þar hafa viðgengist viðskiptahættir sem benda til siðlausra fjármálagjörninga, eins og þegar lykilstjórnendur í fjármálastofnunum kaupa hlutabréf í eigin banka, eiga þau í stuttan tíma og græða svo hundruð milljóna á sölu þeirra. Ofan á það bætist síðan að stjórnendur telja sig ekki hafa neinar skyldur að upplýsa hvernig þessi hlutabréfakaup eru fjármögnuð og hvort stofnanir sem þeir vinna hjá láni fyrir hlutabréfakaupunum og á hvaða kjörum. Ég spurði ráðherra um þetta og þó að ráðherrann vildi ekki banna lánveitingar til stjórnenda og stjórnarmanna úr því fjármálafyrirtæki sem þeir starfa hjá, vildi hún endurskoða hvort núgildandi ákvæði gætu talist fullnægjandi, sem kveða á um að lán til framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja séu háð samþykki stjórnar.

Um slík viðskipti eru ákvæði t.d. hjá Kauphöllinni sem ástæða væri til að skoða. Eru þau undir kaflanum um óvenjuleg viðskipti:. „Þá ber að upplýsa um fjárhæðir lána, svo og veðsetningar, ábyrgðir og tryggingar, sem veitt hafa verið þeim sem getið er í lið 2.5.2 eða nátengdum aðilum sundurliðað ásamt upplýsingum um vexti, greiðslukjör og aðra helstu skilmála.“ Það er mjög skynsamlegt að hafa þetta ákvæði inni og á auðvitað að gilda um aðrar lánastofnanir einnig og ætti vel heima í þessum lögum eða a.m.k. lögum um verðbréfaviðskipti.

Ég vil líka spyrja ráðherrann hvort hún telji ástæðu til að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhlut í óskyldu fyrirtæki eða rekstri. Ég spurði ráðherrann um þetta fyrir einu eða tveimur árum síðan og þá taldi hún ekki ástæðu til að skoða það á þeirri stundu en vildi sjá hvernig málin þróuðust. Og ég spyr hæstv. ráðherra hér í lokin hvort einhver breyting sé á afstöðu ráðherra til þess að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhlut í óskyldum fyrirtækjarekstri. Allt snertir þetta bættar leikreglur á fjármálamarkaðnum og að bæta viðskiptaumhverfið og þess vegna vildi ég fá svör ráðherrans við því við þessa umræðu.



[18:00]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp, um hlutafélög og einkahlutafélög, sem byggjast á tillögum nefndar sem ráðherra skipaði um þau atriði sem frumvörpin fjalla um. Ég tel að þessi frumvörp séu mjög til bóta. Það er nefnilega þannig, öndvert við það sem sumir halda, að atvinnulífið gengur út á heiðarleika og skilvirkar reglur svo menn viti hvað er rétt og hvað er rangt og að eftirlit og annað slíkt sé hratt og að góðs siðferðis sé gætt í hvívetna. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið að fá einmitt reglur af því tagi sem hér er verið að ræða um, að upplýst sé um t.d. stöðu þeirra sem bjóða sig fram til stjórnar eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég get tekið undir nánast allt hér nema það að ég set ákveðinn fyrirvara við að stjórnarmenn séu að taka ákvörðun um eigin kjör í þessum tillögum. Það má að sjálfsögðu ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þetta mál til umsagnar, hvort stefnumiðin skuli innifela stjórnarmennina sjálfa sem semja þau, en þau þurfa að sjálfsögðu að fást samþykkt á aðalfundi. Síðan er kannski spurningin um það hvernig það ferli er þegar stefnumiðin eru lögð fyrir aðalfund, hvort einstakir hluthafar hafa þá breytingarrétt eða tillögurétt um breytingar á stefnumiðunum á aðalfundinum þannig að þetta sé nú virkt.

Svo er það spurningin um hvort upplýst sé um þau kjör sem greidd hafa verið á liðnu ári fyrir aðalfundinn þannig að þetta sé bæði stefnumið fram í tímann og síðan skýrsla um hvernig til tókst.

Þær tillögur sem hér eru lagðar til eru allar til mikilla bóta, það er t.d. verið að tryggja hag minni hluthafa með því að draga úr nauðsynlegum fjölda þeirra sem geta óskað eftir ýmsum breytingum og athugasemdum úr 1/4 í 1/10. Ég fagna því þessu frumvarpi að öllu leyti.

Ég rak augun í eitt atriði, frú forseti, og það er ákvæðið um starfslokasamninga. Ég hef aldrei skilið það fyrirbæri. Ég skil alveg að menn borgi mönnum fyrir að taka til starfa og vinna en ég hef aldrei skilið að mönnum sé borgað fyrir að hætta störfum hjá fyrirtæki. Þeir starfslokasamningar sem maður heyrir af eru yfirleitt fullnæging á kröfum sem menn hafa áunnið sér í starfi og eru kallaðir starfslokasamningar, t.d. þegar lífeyrisréttur er greiddur út, uppsagnarfrestur er greiddur út eða eitthvað slíkt. Það mundi ég ekki kalla starfslokasamninga heldur er einungis verið að fullnægja ráðningarsamningi. Ég mundi því vilja skoða þetta ákvæði um starfslokasamningana í hv. nefnd.

Að öðru leyti held ég að þetta sé mjög til bóta og ég reikna með því að nefndin muni fara í gegnum það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hér um frávik frá tillögum nefndarinnar sem skipuð var, sem mér sýnast nú ekki stórvægileg en það er sjálfsagt að skoða þau. Það varðar t.d. það hvaða félög eigi að gera samninga eða áætlanir af þessu tagi. Það er eitthvað veikara í frumvarpinu en í tillögum nefndarinnar en það á sér örugglega eðlilegar skýringar. Það er spurning hvað þetta á að vera víðtækt.

Hvað samspilið við Kauphöllina snertir þá reikna ég með að þau skilyrði sem hér eru sett séu eins og alltaf lágmarksskilyrði. Menn geta sett strangari skilyrði, t.d. um þá sem vilja skráningu í Kauphöll — að þar séu sett viðbótarskilyrði sem menn þurfi að uppfylla til að fá þar skráningu.

Ég vil endurtaka það að ég fagna þessu frumvarpi, það er mjög til bóta. Það mun væntanlega verða til þess að skýra marga hluti, senda skilaboð út í atvinnulífið um hvað er rétt og rangt í viðskiptalífinu. Ég endurtek það að viðskiptalífið byggist að miklu leyti á heiðarleika.



[18:05]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir ágætisathugasemdir frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ég tala nú ekki um formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að hafa tekið til máls hér.

Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir þetta mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þar verður farið yfir rökstuðning sem snýr að því hvers vegna frumvarpið er ekki nákvæmlega það sem kom út úr viðskiptalífsnefndinni. Það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ekki er tekið á öllum þeim atriðum sem þar voru sett fram. Það á allt sínar skýringar að mínu mati. Ég tel að við höfum farið bil beggja og því hafi vissulega komið fram athugasemdir við ákveðna þætti. Það er ekki þar með sagt að tekið hafi verið tillit til þess alls.

Það er þó eitt atriði sem ég vil byrja á að ræða og varðar líka fyrirspurn frá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég vil, með leyfi forseta, endurtaka hluta úr ræðunni sem ég flutti áðan:

„Felld hafa verið niður ákvæði um störf stjórnarformanns í hlutafélögum og ákvæði um viðskipti við tengda aðila í hlutafélögum. Viss ákvæði í hlutafélagalögum og ásetningarlögum snerta eftir sem áður þessi atriði. Þannig eru takmarkandi ákvæði nú þegar í hlutafélagalögum, þ.e. þess efnis að framkvæmdastjórar megi ekki jafnframt vera stjórnarformenn.

Hvað snertir viðskipti við tengda aðila í hlutafélögum voru sett svipuð ákvæði um það efni í ársreikningalög síðasta vor.“

Svipuð ákvæði voru sem sagt sett í ársreikningalög. Þetta er eitt af því sem hv. nefnd getur skoðað frekar.

Síðan var það ákvæði í 3. gr. sem hv. þingmaður talar um og varðar leiðbeinandi ákvæði eða ekki, sum eru sem sagt bindandi fyrir félagastjórn eins og kemur fram í textanum. En ég held að þetta sé eitt af því sem þarf bara að skoða frekar í nefndinni. En hluthafafundur þarf að samþykkja svokallaða starfslokasamninga eins og þar kemur fram.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að auðvitað setur Kauphöllin sér strangar reglur og þau félög sem þar eru skráð þurfa að lúta þeim. Þau ganga í ýmsum tilfellum lengra en hér er kveðið á um og þá að sjálfsögðu gilda þær reglur.

Síðan spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um sparisjóðina og kannski var ég svolítið á hlaupum og áttaði mig ekki alveg nógu vel á því. Ég get einungis sagt að ekkert frumvarp er í undirbúningi um sparisjóðina núna, en það er sem sagt aðeins óljóst í mínum huga hvað það var sérstaklega sem hv. þingmaður var að leita eftir í því sambandi. (JóhS: Upplýsa um kjörin hjá sparisjóðunum.) Já, það er náttúrlega eitt af því sem kemur ekki inn á þetta.

Ég er sem sagt stolt af því að hafa lagt þetta frumvarp hér fram og þó fyrr hefði verið og vonast til þess að það eigi greiða leið í gegnum þingið. Að sjálfsögðu er þetta víðtækt og tekur á ákaflega mörgum þáttum sem varða viðskiptalífið. En þó að undirbúningurinn hafi, að mínu mati, allur verið mjög faglegur og nákvæmur og allt sem þarna er sett fram vel úthugsað veit ég að nefndin þarf að gefa sér allgóðan tíma til þess að fara yfir málið.



[18:09]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. ráðherra skautar hér á mikilli hraðferð í svörum sínum við þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram. Ég geri mér ekki miklar vonir um að fá frekari svör frá henni þannig að við verðum að taka þetta upp í nefndinni og fara yfir það lið fyrir lið af hverju ekki voru teknar upp þær tillögur sem nefnd ráðherrans lagði til.

Þriðja greinin er að mörgu leyti lykilgrein í þessu og ég held að þar sé verið að draga verulega úr því sem nefndin lagði til í sínum tillögum, sem eru mjög skýrar, að hluthafa verði skylt að fá samþykkt hluthafafundar og starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Þetta stendur ekki í 3. gr. frumvarpsins. Talað er um að það eigi að samþykkja stefnumið og þau stefnumið á að samþykkja á aðalfundi félagsins. Ráðherra sagði að vísu hér úr ræðustól að hluthafafundur ætti að samþykkja starfslokasamninga. Þá liggur það fyrir og þá skulum við bara skrifa það berum orðum inn í frumvarpið þannig að það fari ekki á milli mála.

Varðandi sparisjóðina þá standa þeir kannski einir eftir, þeir einu sem ekki þurfa að upplýsa um kjör, starfslokasamninga og hlunnindagreiðslur, eins og verið er að reyna að koma á með frumvarpinu — sem við hljótum þá að þurfa að betrumbæta — og eins og gert er varðandi skráð félög í Kauphöllinni. Ég spurði ráðherrann að því hvort hún mundi leggja fram frumvarp varðandi sparisjóðina þess efnis að þeir þurfi að upplýsa með sama hætti um kjör stjórnenda og stjórna hjá sér. Ég held að það sé mikilvægt að fá það fram.

Ég spurði ráðherrann einnig um ýmislegt annað sem snertir verðbréfamarkaðinn sem við hefðum nú átt að gefa okkur tíma í að ræða hér, en hæstv. ráðherra vill greinilega ekki ræða. Ætti ekki að setja ákvæði um lánafyrirgreiðslur til stjórnenda, þegar þeir eru að kaupa hlutabréf í eigin fjármálastofnun, alveg eins og er t.d. varðandi félög í Kauphöllinni. Ég spurði líka hvort ekki væri rétt að takmarka þann tíma sem viðskiptabankar geta átt eignarhlut í óskyldum fyrirtækjarekstri og hæstv. ráðherra sá enga ástæðu til að (Forseti hringir.) svara því frekar. Það er því erfitt að eiga orðastað við hæstv. ráðherra.



[18:11]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður tekur nú oft og tíðum dálítið mörg mál upp og fer kannski aðeins út fyrir það málefni sem er til umfjöllunar hverju sinni. (Gripið fram í.) En ég dáist mjög að þekkingu hennar á þessu sviði og efast ekki um einlægni hvað það varðar að þarna séu lög og reglur í lagi.

Það er svo sem ýmislegt verið að vinna í viðskiptaráðuneytinu og ýmis frumvörp í undirbúningi sem ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar út í hér. Það gefst þá tími til þess síðar að fjalla frekar um ýmislegt annað sem varðar markaðinn. Ég vil hins vegar segja það hreint út og sagði það reyndar hér áðan að við erum ekki með í undirbúningi neitt frumvarp sem varðar sparisjóðina að þessu sinni — sem er eiginlega frétt út af fyrir sig því að við höfum verið með mörg frumvörp um sparisjóðina. Ég horfi hér á hv. þm. Pétur Blöndal, ég sé að hann er mjög leiður að heyra að ekki skuli neitt vera á ferðinni um sparisjóðina en þannig er það nú.

Ég ítreka að tækifæri gefst til þess í hv. nefnd að fara miklu nánar yfir það hvers vegna frumvarpið er ekki nákvæmlega það sem kom út úr viðskiptalífsnefndinni. En ég segi það eitt að ég er mjög stolt og sátt við frumvarpið eins og það lítur út núna.



[18:13]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er engu nær um það hvort hæstv. ráðherra telur að það eigi að setja lög um sparisjóðina að því er varðar starfskjör stjórnenda. Ekkert slíkt er á döfinni, segir ráðherra, en hefur hún skoðun á því hvort það eigi að setja slík ákvæði inn í löggjöfina um sparisjóðina? Það er mikilvægt að fá það fram að þetta séu þá einu lánastofnanirnar sem standa eftir þar sem ekki þarf að upplýsa um kjör stjórnenda. (Viðskrh.: Ég þori ekki að opna á sparisjóðabreytingar.) Hæstv. ráðherra er alveg óhætt að gera það, það getur vel verið að við þingmenn þurfum þá að taka okkur til og skoða það fyrst ráðherrann ætlar að heykjast á því að þeir hafi sömu upplýsingaskyldu og aðrar lánastofnanir sem ég tel auðvitað ófært.

Mér finnst líka vont að geta ekki átt orðastað við ráðherrann um nokkur atriði sem snerta fjármálamarkaðinn og viðskiptalífið, það er jú það sem við erum að ræða hér. Ég spurði t.d. um það sem Kauphöllin kallar eftir hjá skráðum félögum, eins og lánafyrirgreiðslu stjórnenda lánastofnana og bankastofnana, sem eru að selja sjálfum sér hlutabréf og fá til þess lán og enginn veit á hvaða kjörum — eða hvort lánastofnun á yfirleitt að vera heimilt að lána til stjórnenda til þess að þeir geti keypt hlutabréf sem þeir græða á kannski á mjög stuttum tíma svo hundruðum milljóna skiptir. Við þekkjum a.m.k. tvö nýleg dæmi um það og hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu við mig ekki fyrir löngu að hún vildi skoða hvort það ætti að herða ákvæði í löggjöf þar að lútandi. Hæstv. ráðherra skautar alltaf fram hjá því hér þó að ég spyrji aftur og aftur hvort hún sé eitthvað að láta skoða það. Enda er það svo að ég er sest sjálf niður við að smíða frumvarp um þessa og aðra þætti sem er nauðsynlegt að ná fram til þess að hér séu eðlilegar leikreglur á fjármálamarkaðnum, til þess að tryggja betri minnihlutavernd, t.d. í stjórnun bankastofnana. (Forseti hringir.) Mér þykir það miður, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi sér hjá því aftur og aftur að svara spurningum mínum.