132. löggjafarþing — 61. fundur
 8. feb. 2006.
öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
fsp. ÁRJ og GÖg, 481. mál. — Þskj. 711.

[13:38]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og spyr ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur hvort ráðherra telji þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, hvort uppi séu áform um að koma á slíkri deild, og þá hvenær.

Nú er hér á landi engin sérstök deild til fyrir aldraða geðsjúka, en sá hópur þarf sérhæfða þjónustu. Þeir hafa verið vistaðir á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss og á öldrunarsviði sama spítala en sumir voru áður á Arnarholti. Þessir sjúklingar hafa verið að velkjast á milli þessara deilda. Þetta eru oft sjúklingar sem eiga ekki samleið með öðrum öldruðum og það gerir það einnig að verkum að hjúkrunarheimilin veigra sér við að taka við þessum sjúklingum þegar læknismeðferð er lokið. Þeir hafa verið að taka þá inn til bráðabirgða til að sjá hvernig gengur. En oftast hefur það ekki gengið.

Einhverjir þessara sjúklinga eru langveikir og dvelja heima með göngudeildarþjónustu frá geðsviði sem er gott á meðan það er hægt. En þegar þeir verða veikari eru þeir lagðir inn, annaðhvort á geðdeildina og taka þá upp endurhæfingarpláss, eða þeir lenda inni á öldrunardeildum vegna þess að oft hrjá þá ýmsir aðrir sjúkdómar, oft margir líkamlegir kvillar.

Ég er sammála því fagfólki sem telur að þörf sé á sérstakri öldrunargeðdeild, þ.e. meðferðardeild fyrir þessa sjúklinga og þá deild fyrir 18–20 manns sem bæði öldrunarsviðið og geðsviðið koma að. Svo þarf auðvitað að huga að hjúkrunarúrræðum fyrir þessa öldruðu geðsjúka því að þau eru engin. Þetta fólk þarf að vera sér því það truflar aðra vistmenn og sjúklinga. Það er því orðið mjög brýnt að leysa vanda þessa fólks. Það þarf ekki nema einn svona sjúkling til að koma öllu í uppnám.

Hæstv. ráðherra var spurður út í þessi mál fyrir þremur árum og sagði þá að núverandi fyrirkomulag væri skipulag sem fagfólk væri ekki ósátt við. Nú er annað uppi á teningnum. Fagfólk telur að það þurfi að sinna þessum málum betur. Það er ekki hægt að bjóða öldruðum sjúklingum og öldruðum geðsjúkum að dvelja saman á deild. Þeim finnst sér oft ógnað, bæði sjúklingum og aðstandendum þeirra.

Í nágrannalöndum okkar eru alls staðar reknar sérstakar öldrunargeðdeildir og sums staðar margar á sama spítalanum og þær eru taldar mjög nauðsynlegar. Hér er engin slík deild. Það er ekki eðlilegt, að mínu mati, í 300 þúsund manna samfélagi eins og okkar. Því spyrjum við hv. þingmenn:

Telur ráðherra þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, eru uppi áform um að koma á slíkri deild, og þá hvenær?



[13:41]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður og 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður hafa beint til mín fyrirspurn um hvort ég telji þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, hvort áform séu um að það verði gert.

Virðulegi forseti. Málefni aldraðra er ört vaxandi málaflokkur. Þjónustan er viðkvæm og verkefnin varða nær öll svið heilbrigðisþjónustunnar. Einn mikilvægra þátta hennar er geðheilbrigðisþjónusta sem segja má að sé að mörgu leyti frábrugðin og að sumu leyti flóknari þegar um er að ræða aldraða en yngra fólk. Þetta er ekki síst vegna þess að oft fara saman hjá öldruðum fjölþætt heilsufarsvandamál og því mikil lyfjanotkun samhliða heilabilunareinkennum og minnissjúkdómum þar sem erfitt getur verið að greina á milli orsakar og afleiðingar. Í ljósi þess er það mat mitt að aldraðir þurfi á sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu að halda. Aftur á móti er ekki einhlítt hvernig standa skuli að slíkri þjónustu og hvernig henni skuli fyrir komið.

Í desember síðastliðinn skipaði ég 15 manna faghóp undir formennsku skrifstofustjóra öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem ég fól að koma með ábendingar um hvernig bæta má geðheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi. Hópurinn er skipaður þannig að innan hans er tryggð góð yfirsýn yfir málaflokkinn, fagþekking og reynsla. Ég ætla hópnum tiltölulega skamman tíma til að fara yfir þessi mál og vænti þess að hann skili mér greinargerð með ábendingum sínum í lok mars þar sem fram kemur hvar helst þarf að bæta þjónustuna og hvaða leiðir séu vænlegastar. Faghópurinn hefur þegar haldið tvo vinnufundi og mér er kunnugt um að sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir aldraða á stofnunum og fyrirkomulag slíkrar þjónustu er meðal þess sem hefur verið rætt sérstaklega innan hópsins.

Í framhaldi af þessari vinnu, sem ég vona að verði lokið á þeim tíma sem ég hef sett til þessara verka, mun ég taka ákvörðun um helstu áherslur og forgangsröðun verkefna sem lúta að geðheilbrigðisþjónustu við aldraða.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns.



[13:43]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu hér og þakka svör hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er mjög mikil gæfa að hafa unnið á deild eða stofnun fyrir gamalt fólk með geðrænan vanda. Það þekki ég af eigin raun. Danir hafa verið mjög framarlega þar. Þegar þeir lokuðu sínum kleppsspítala eða St. Hans þá var stofnunin flutt í litlar einingar á mjög góðum stað og með sérstaklega góðum aðbúnaði. Það má búast við fjölgun í þessum hópi miðað við umræðuna nú. Núna er þessi hópur ósýnilegur og á sér fáa talsmenn. Það er afar brýnt að vera með einhverja framtíðarmúsík í því og kannski er brýnt að gera úttekt til að byggja til framtíðar. Mér finnst það albrýnast núna því eins og er þá er þessi hópur að hluta til enn þá inni á gamla Kleppi og hefur kannski bara elst þar með stofnuninni, því miður, í stað þess að njóta sérúrræða sem henta þessum hópi.



[13:45]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en ég held að málefni eldri borgara fái sjaldan þann hljómgrunn sem þau eiga skilið. Sum svið sem skipta aldraða mjög miklu máli liggja einfaldlega í þagnargildi og einn þeirra málaflokka er geðheilbrigðisþjónusta og þar á meðal þunglyndi meðal eldri borgara.

Ég hef tvisvar sinnum lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á þunglyndi eldri borgara þar sem m.a. átti að skoða umfang vandans, orsakir og forvarnir en í bæði skiptin hefur þingmálið verið svæft í meðförum stjórnarmeirihlutans.

Varðandi geðheilbrigðisþjónustuna má benda á að erlendis má finna sérstakar geðdeildir fyrir aldraða og heilsugæsluþjónustu fyrir aldraða með geðræn vandamál. Miðað við stöðuna í Noregi ættu tvær slíkar stofnanir að vera hér á landi. Hér á landi er hins vegar engin sérstök öldrunargeðdeild og ég gæti vel ímyndað mér að á Landakoti væri hægt að hugsa sér sérstaka öldrunargeðdeild án mikils kostnaðar þar sem þar er margt fagfólk þegar að störfum.

Ég vil að lokum fagna því að ráðherra viðurkenni að aldraðir þurfi sérstök úrræði hvað þetta varðar en (Forseti hringir.) ég vil þó kalla eftir aðeins skýrari sýn hans (Forseti hringir.) og skoðun á sjálfu málinu en ekki vísun í einhvern vinnuhóp sem á eftir að skila sínu áliti.



[13:46]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Úrræði geðsjúkra á Íslandi hafa verið í nokkrum brennidepli á liðnum missirum eins og málefni eldri borgara því að margt í málefnum þessara hópa er í ólestri. Það er óviðunandi og kannski sameinast þetta sérstaklega á krossgötum á milli þessara tveggja hópa ef um er að ræða gamalt fólk sem er geðsjúkt og á við slík vandamál að stríða.

Ástandið meðal margra í þeim hópi kallar bókstaflega á það að sérstök geðdeild fyrir gamalt fólk verði stofnuð eins og komið er inn á í þessari prýðilegu fyrirspurn hv. þingmanna. Ég vil nota tækifærið til að skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir úrræðum. Hann hefur viðrað þau sjónarmið á liðnum missirum að það verði að taka sérstaklega á í málefnum geðsjúkra og það verði að taka sérstaklega á í málefnum aldraðra. Þarna er um að ræða mál sem kallar á brýnar úrbætur. Vandamál af þessu tagi sliga þær fjölskyldur sem eiga við þau að stríða (Forseti hringir.) og það verður að ráða bót á.



[13:47]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka mikilvæga umræðu vegna þessarar fyrirspurnar. Ég heyri að það er annar tónn í hæstv. ráðherra en var fyrir þremur árum. Skilningur á þessum málaflokki hefur aukist, bæði á þeim sjúkdómi sem hér um ræðir, geðsjúkdómum, og síðan þörfum aldraðra með geðsjúkdóma. Öldruðum fjölgar, þessi þjónusta er viðkvæm og mikilvægt að henni verði komið á. Ég er sannfærð um að það þarf að koma á sérstakri öldrunargeðdeild og ég get ekki heyrt annað en hæstv. ráðherra sé nánast á þeirri skoðun líka.

Ég vil nefna það hér að það er ekki alltaf svo að aldraðir sem eru með geðsjúkdóma séu líka heilabilaðir eins og mér fannst hægt að skilja á ræðu hæstv. ráðherra. En engu að síður, faghópur er að störfum, honum er gefinn stuttur tími til að skila niðurstöðum og ég fagna því. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ef niðurstaða faghópsins verður sú að öldrunargeðdeild verði komið á mun ráðherra gera það. Hversu langan tíma telur hann að þurfi til að koma slíkri þjónustu á? Það er orðin mjög brýn þörf fyrir slíka þjónustu og eins og bent var á hér áðan þá ættu að vera tvær slíkar deildir starfandi hér á landi miðað við mannfjölda í samanburði við þörfina í Noregi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ef það verður niðurstaða nefndarinnar í lok mars að koma á slíkri öldrunarþjónustu, hvenær verður slík deild komin í gagnið hér á landi?



[13:49]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Sýn mín á þau mál er varða geðheilbrigðisþjónustu við aldraða er almennt á þann veg að þjóna fólki sem mest úti í samfélaginu. Hins vegar geta ekki allir notið þeirrar þjónustu, ég geri mér grein fyrir því. Það þarf að leysa á annan veg. En ég sé ekki fyrir mér stórar geðdeildir fyrir aldraða. Ég tel að það sé liðin tíð. Við þurfum að hafa slík úrræði í smærri sambýlum. Það er mikið að gerast í búsetumálum geðfatlaðra núna, menn eru að fara yfir það hvernig eigi að verja 1,5 milljörðum kr. í að bæta búsetuúrræði þeirra. Það mun væntanlega leiða til þess að útskrifaður verður af geðdeild Landspítalans töluvert stór hópur fólks. Það mundi þá þýða einhverjar breytingar þar og þetta vil ég sjá þegar niðurstöður starfshópsins koma.

Ég tel að það séu möguleikar núna á því að aðhafast í þessu máli. Við erum í miðjum klíðum í miklum skipulagsbreytingum varðandi búsetuúrræði en almennt talað vil ég byggja þjónustuna þannig upp að geðfötluðum sé þjónað úti í samfélaginu sem mest en það kunna alltaf að vera einhverjir og þar á meðal aldraðir sem þurfa úrræði á stofnunum. En stórar geðdeildir, hvort sem það er fyrir geðfatlaða almennt eða aldraða, ég vona að þær heyri sögunni til.