132. löggjafarþing — 64. fundur
 10. feb. 2006.
heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar, 1. umræða.
stjfrv., 456. mál. — Þskj. 681.

[11:43]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að viðkomandi mál hafi dottið úr huga mínum vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram.

En ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Af því þessi virkjun var nú m.a. hér til umræðu þá var því haldið fram að það væri nú dálítið annað að tala um þá virkjun eða Kárahnjúkavirkjun, vegna þess að Kárahnjúkavirkjun hefði verið hugsuð fyrir einn framleiðanda á tilteknum málmi sem er ál.

Nú halda menn því oft fram að þegar sá málmur er framleiddur sé aðeins verið að framleiða eina vörutegund. En það vill nú svo til að t.d. í álverinu í Straumsvík eru framleiddar 200 vörutegundir. Þar er um hátækniiðnað að ræða. En það var nú einmitt við þær aðstæður sem Búrfellsvirkjun var reist. Hún var reist til að útvega rafmagn fyrir eitt tiltekið fyrirtæki í Straumsvík sem hefur starfað síðan. Það vill svo til að þetta tiltekna fyrirtæki hefur keypt rafmagn af þessari virkjun í öll þessi ár og nú er hún nær fullafskrifuð og allar tekjur sem verða af henni í framtíðinni eru hreinar tekjur.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það sama mun verða með Kárahnjúkavirkjun. Ég endurtek að ég held að það sé afskaplega lítil áhætta í sambandi við þá virkjun miðað við það útlit sem er í heiminum í dag í sambandi við orkumál. Ég tel að það sé ekki sambærilegt við margar aðrar atvinnugreinar sem menn eru að fara út í. Það eru engar líkur á öðru en að á næstu áratugum verði skortur á orku í heiminum.

En eins og hv. þingmönnum er kunnugt um þá var fyrirtækið Landsvirkjun stofnað með lögum nr. 59/1965. Stofnendur fyrirtækisins voru íslenska ríkið og Reykjavíkurborg og skyldi hvor aðili um sig eiga helmingshlut. Meðal þess sem ríkið lagði til sem stofnframlag samkvæmt sameignarsamningi voru vatnsréttindi vegna 210 megavatta virkjunar í Þjórsá við Búrfell ásamt landi sem til þurfti vegna virkjunarinnar.

Forsvarsmenn ríkisins voru í þeirri góðu trú að ríkið væri eigandi þessara réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952. Nýlegir úrskurðir óbyggðanefndar um Gnúpverjaafrétt 21. mars 2002 og Landmannaafrétt 10. desember 2004 setja þarna strik í reikninginn sem hér er verið að taka á. Samkvæmt þeim hafði Titan h/f og þeir aðilar sem félagið leiddi rétt sinn frá ekki eignarrétt yfir landinu sem Búrfellsvirkjun er reist á né þau vatnsréttindi sem talið var. Eignartilkalli Landsvirkjunar var þannig hafnað í þessum úrskurðum og telst umrætt svæði þjóðlenda í skilningi laga og fer ríkið þar af leiðandi með eignarréttinn.

Í athugasemdum með frumvarpinu er ítarlega rakið hverjar voru forsendur óbyggðanefndar fyrir þessari niðurstöðu. Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar eignarrétti að þessum réttindum er varða Búrfellsvirkjun. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað með nefndum sameignarsamningi á sínum tíma að því marki sem hann náði til ráðstöfunar þess lands og vatnsréttinda á nefndu svæði, sem ríkið taldi sig eiganda að við gerð sameignarsamningsins frá 1965.

Það svæði sem hér um ræðir er um 25 ferkílómetrar beggja vegna við Þjórsá þar sem eru mannvirki og athafnasvæði Landsvirkjunar vegna Búrfellsvirkjunar. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir að landinu fylgi vatnsréttindi í Þjórsá að því marki sem þarf til, allt að 310 megavatta afl. Þess ber að geta að málshöfðunarfrestur vegna úrskurðar óbyggðanefndar um Landmannaafrétt rann út í september 2005 án þess að mál væri höfðað. Mál til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar um Gnúpverjaafrétt var þingfest 20. nóvember 2002 en hefur legið í láginni síðan. Ef frumvarpið verður að lögum verður eftir atvikum gerður fyrirvari í afsali til Landsvirkjunar um niðurstöðu þessa dómsmáls.

Frú forseti. Ég tel ekki ástæðu til að reifa þetta frumvarp frekar. Ég tel að það sé alveg skýrt hvað hér er á ferðinni og með því er ríkið að standa við það sem það gerði í góðri trú árið 1965 og að sjálfsögðu ber ríkinu að standa við slíka samninga þegar nýjar aðstæður koma upp og ríkið hefur alla möguleika til þess, með því að leggja til við Alþingi að samþykkja að þessi réttindi verði færð til Landsvirkjunar með þeim hætti sem hér er lagt til og ekki þurfi að koma til málaferla í þessu sambandi. Ég vænti þess að hv. þingmenn geti fallist á það þó að þessi samningur hafi verið gerður nokkuð löngu áður en nokkur þeirra sem eiga sæti á Alþingi nú komu á þing. Þessi samningur var ekki gerður á sínum tíma á ábyrgð nokkurs þess þingmanns sem hér situr en hann var gerður af hálfu ríkisins og með þessu frumvarpi er verið að leitast við að við hann verði staðið þannig að ekki þurfi að koma til málaferla af þeim sökum.

Ég vil svo að lokinni þessari umræðu biðja um að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.



[11:52]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert mál sem vekur upp margar áleitnar spurningar í miklu stærra samhengi um séreign og þjóðareign á auðlindum. Vissulega kemur málið til með umræddum hætti fyrir þessum áratugum síðan. En ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra að því — sérstaklega í því ljósi að yfir stendur umræða um hvernig við tryggjum best eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, í stjórnarskrá o.s.frv. — hvort það væri ekki miklu sanngjarnari og betri leið að gera samning við Landsvirkjun um leigu, um einhvers konar afsal eða leigu á samningum um að nýta þessi réttindi, sem eru afmörkuð í tíma. Þar yrði sérstaklega tekið til þess hvernig að því verði staðið að skila þeim til baka en um yrði að ræða einhvers konar leigusamning og réttindaafsal eða réttindasáttmála til handa Landsvirkjun frá ríkinu. Væri það ekki betri leið að fara í stað þess að afhenda afsalið að eignarhaldinu yfir til fyrirtækisins sem getur skipt um eignarhald á næstu árum o.s.frv. Ef fram fer sem horfir mun fyrirtækið sjálfsagt verða selt og einkavætt einhvern tímann í framtíðinni. Er ekki miklu réttlátara og sanngjarnara til að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum og þessari auðlind — og þeim mörgu áleitnu spurningum öðrum sem uppi eru, svo sem um eignarhaldið á Landsvirkjun, hvernig sú eign er til komin og skiptinguna á milli borgar, ríkis og Akureyrarbæjar? Og hvernig fer með annað svæði þarna upp með Þjórsá? En væri það ekki mikið vitrænna og skynsamlegra að afmarka í tíma einhvers konar réttindasáttmála til Landsvirkjunar um nýtingu á þessum réttindum og þessari afmörkuðu auðlind?



[11:54]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það í upphafi, út af því sem hv. þingmaður sagði, að ég hef afskaplega miklar efasemdir um að rétt sé að selja fyrirtækið Landsvirkjun. Ég tel að það fyrirtæki sé með þeim hætti að eðlilegt sé að það sé í eigu ríkisins. Hins vegar má vel vera að það geti komið til greina að einhverjir aðrir komi eitthvað inn í það í lengri framtíð.

En vandinn við þá leið sem hv. þingmaður benti hér á er sá að ríkið gerði þennan samning á sínum tíma gagnvart meðeigendum sínum í Landsvirkjun og lagði þetta fram inn í þann samning. Þannig að ef ríkið stendur ekki við það þá kann það að vera skaðabótaskylt gagnvart fyrirtækinu eða meðeigendum sínum með einhverjum hætti. Þar sem hægt er að lagfæra það þannig að algerlega sé staðið við þann samning eins og hann var í upphafi, eins og öll efni standa til, þá er það hreinlega niðurstaðan að það sé rétt af ríkisins hálfu að gera það. Að gera nákvæmlega það sem samið var um 1965 og ríkið getur það, enda heimili Alþingi það með þessu frumvarpi.

En ég tel hins vegar rétt að farið sé yfir þau sjónarmið sem hv. þingmaður kom hér með við umræðu um þetta mál í nefnd. Aðalatriðið er að sjálfsögðu af ríkisins hálfu að þetta mál sé leyst þannig að fyrirtækið geti starfað með eðlilegum hætti eins og stofnað var til með byggingu þessarar virkjunar og menn gerðu í góðri trú.



[11:56]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er það rétt. En nú hafa svo margar og margvíslegar forsendur breyst á þessum 40 árum frá því að Landsvirkjun var stofnuð. Þjóðlenduúrskurðurinn hefur t.d. gengið og öll þau mál, óbyggðamálin. Það hefur svo margt gjörbreyst að kannski er hæpið að líta á það sem einhvers konar samningsrof eða sáttmálarof að afsala fyrirtækinu réttindum og nýtingu á auðlindunum til lengri tíma og breyta þannig forsendum samningsins frá því fyrir 41 ári.

Þess fyrir utan vil ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að hann telji að það eigi ekki að selja Landsvirkjun eða einkavæða. Ég held að það hefði verið mikið óheillaspor. Það hefur oft mátt skilja hæstv. iðnaðarráðherra þannig á liðnum missirum að hún telji að það eigi að selja Landsvirkjun eða stefna að einhvers konar einkavæðingu á fyrirtækinu. En ég vil fagna því að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir afdráttarlaust og skýrt að Landsvirkjun eigi ekki að selja eða einkavæða. Þannig að það verður þá alla vega ekki á döfinni í hans forsætisráðherratíð. Ég vil fagna því og taka undir þá skoðun forsætisráðherra.



[11:57]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á svipuðum nótum og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson í þessu. Ég skildi einmitt þjóðlendulögin og markmið þeirra þannig að þar væri ætlunin ekki aðeins að skýra eignarhald á landi og auðlindum heldur væri það einnig meiningin að það væri það sem ríkið mundi eiga. Ég get ekki séð að það ætti að vera nauðsynlegt að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarréttindum eins og kveðið er á um.

Nú er það þannig að Landsvirkjun er í eigu opinberra aðila, í eigu ríkisins og tveggja sveitarfélaga, stórra sveitarfélaga. Það má segja að hún sé með þessu þjóðareign sem við viljum leggja áherslu á að verði áfram. Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hafi farið fram neinar viðræður milli eigenda Landsvirkjunar, ríkisins og þessara sveitarfélaga, um að leysa þetta mál með öðrum hætti eins og leigu á þessum réttindum, nýtingarrétti til ákveðins tíma sem gæti fullnægt eðlilegum þörfum og rekstrarskilyrðum Landsvirkjunar. Að mínu mati væri það miklu betri nálgun.

Ég bendi á þetta í því sambandi að nú er verið að tala um að einkavæða eða hlutafélagavæða raforkugeirann, hann þurfi að komast á samkeppnismarkað og þar á meðal náttúrlega Landsvirkjun. Þannig að aðstæður eru allt aðrar nú en var þegar Landsvirkjun var stofnuð sem klárt almannaþjónustufyrirtæki. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur þetta ekkert verið rætt á þessum nótum?



[12:00]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Gert var ráð fyrir því að ríkið yrði eitt eigandi Landsvirkjunar í dag. Svo hefði orðið ef þær fyrirætlanir hefðu gengið upp sem stofnað var til fyrir alllöngu síðan, þegar fulltrúar Reykjavíkurborgar fóru þess á leit við ríkið að það keypti hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Reyndar var Akureyrarbær samstiga í því máli.

Það vill svo til að einhverra hluta vegna hefur flokkur hv. þingmanns, Vinstri grænir, alfarið lagst gegn því að ríkið keypti eignarhlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Þó bað Reykjavíkurborg um það og borgarstjóri fór þess á leit við ríkisstjórnina að ganga til slíkra viðræðna, m.a. í umboði Vinstri grænna. En þegar til átti að taka vildi flokkurinn ekki standa við upprunalega samþykkt sína og beiðni. Það fæ ég með engu móti skilið en vera má að hv. þingmaður viti eitthvað um það. Það er náttúrlega með eindæmum að ekki sé hægt að treysta því þegar gengið er til slíkra samninga að einhver alvara búi þar að baki.

Við höfum viljað leysa þetta málefni. Þess vegna var staðið við það sem upphaflega var stofnað til. Það er gert með þessu frumvarpi. Með því er staðið við orð og undirskriftir þeirra manna sem að því stóðu. Yrði það ekki gert kæmi upp ný staða en þetta er sagt í því ljósi að við höfðum gert ráð fyrir því að ríkið væri núna orðið eini eigandi Landsvirkjunar.



[12:02]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eigi að taka orð hæstv. forsætisráðherra gild er frumvarpið alger tímaskekkja miðað við eignarhaldið eins nú er. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort ekki hefðu farið fram neinar viðræður um þetta ákveðna atriði milli eignaraðila. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki heldur fór að velta fyrir sér kaupum ríkisins á Landsvirkjun.

Ég get upplýst hæstv. forsætisráðherra um að þegar sú umræða var í gangi fyrir um ári þá kom hæstv. iðnaðarráðherra í fjölmiðla og lýsti því að markmið hennar væri að einkavæða og selja Landsvirkjun. Það var bara spurning um tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað í sömu veruna. Þannig er það að Reykjavíkurborg, fólkið, eigi Landsvirkjun viss trygging fyrir því að ríkisstjórnin einkavæði ekki og selji Landsvirkjun. Hæstv. ráðherra sagði áðan að það stæði ekki til. Hið sama var sagt um Símann. Ég efast ekki um að ráðherra segi að ekki standi til að selja Landsvirkjun einmitt þegar hann segir það. En á morgun getur hæstv. ráðherra sagt allt annað. (Forseti hringir.) Það skulum við hafa í huga.



[12:03]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann að temja sér að hafa rétt eftir. Iðnaðarráðherra hefur aldrei lýst því yfir sem hv. þingmaður heldur fram. (JBjarn: Nei nei.) Það er rangt. Það er rangt hjá hv. þingmanni, eins og svo margt sem hann hefur sagt í þessum málum.

Ég man eftir því að hv. þingmaður sagði skömmu fyrir jól í fjölmiðlum að ekki nokkur maður í Skagafirði hefði áhuga á að virkja þar. (JBjarn: Það er rangt.) Ekki nokkur maður. Ég hlustaði á það í fjölmiðlum.

Nú vill svo til að fulltrúar þriggja flokka í Skagafirði hafa lagt á það áherslu að orkulindir héraðsins verði nýttar til framgangs héraðinu. En hv. þingmaður talar á Alþingi eins og það sé ekki áhugamál fólksins í því byggðarlagi. Auðvitað veit ég að þar eru einhverjir aðilar andvígir því. En ég vil biðja hv. þingmann að temja sér að hafa rétt eftir.



[12:04]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni áhugavert mál, kannski bæði lögfræðilega og sögulega. Ég vek athygli á því að í athugasemdum með frumvarpinu er að finna bráðskemmtilega, athyglisverða og áhugaverða greinargerð, sérstaklega fyrir áhugamenn um sagnfræði. Þar eru tíndar til skemmtilegar upplýsingar um þróun sögunnar varðandi vatns- og landsréttindi á þessu svæði.

Þetta frumvarp til laga kemur til vegna þess að fallið hefur úrskurður. Tilkalli til Landsvirkjunar til eignarhalds á þessu svæði og réttinda þar hefur verið hafnað. Þetta svæði telst því þjóðlenda og ríkið fer þar með eignarrétt samkvæmt lögum.

Landsvirkjun er hlutafélag í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, eins og tilgreint er á bls. 5 í þessu frumvarpi. Ég velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum eigi að láta Landsvirkjun hafa þetta svæði og þessi réttindi án endurgjalds. Væri ekki nær að Landsvirkjun tæki þessi réttindi og þetta landsvæði á leigu til langs tíma? Hér var talað um að líftími virkjunarinnar yrði a.m.k. 100 ár í viðbót, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í dag, að hér yrði hreinlega gerður leigusamningur við ríkið og síðan yrði tekjunum af þessum samningi varið til uppbyggingar í héraðinu. Oft hefur réttilega verið bent á að Sunnlendingar njóti allt of lítils ávaxtanna af þeim miklu orkuverum sem hafa verið reist á landsvæðinu. Er ekki kominn tími til að gaumgæfa hvort ekki sé komin aðstaða til að þeir fari að njóta þeirra?



[12:07]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að mæla nokkur orð um þetta mál. Ég tel ástæðu til að velta þeim hlutum fyrir sér.

Ég get vel skilið það að menn vilji fara einfaldar leiðir til að leysa úr vanda af þessu tagi og eins og hæstv. forsætisráðherra sagði er hægt að standa fullkomlega við samninginn sem gerður var á sínum tíma með þeim gjörningi sem hér er lagður til. Þetta þarf þó ekki endilega að vera eina leiðin í málinu.

Ég tel að það sé ástæða til að menn a.m.k. velti fyrir sér hvaða stöðu þjóðarauðlindin komi til með að hafa í framtíðinni. Það er mín skoðun og reyndar von og trú að menn muni við endurskoðun stjórnarskrárinnar gera ráð fyrir því að þjóðarauðlindir verði þar inni, að ákvæði verði um auðlindir í þjóðareign, orkuauðlindir hafsins og ýmsar aðrar auðlindir. Menn mundu styðjast við tillögur auðlindanefndar sem undirbjó að hið opinbera eða Alþingi geti tekist á við þetta verkefni, sem er að mínu viti eitt af þeim allra stærstu í stjórnmálum á Íslandi sem stendur, þ.e. endurskoðun stjórnarskrárinnar og frágangur á þjóðarauðlindum ásamt öðrum stórum málum sem menn hafa rætt í sambandi við endurskoðunina.

Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig þessum auðlindum verði fyrir komið, orkuauðlindum sem raforkufyrirtækin í landinu nýta sér. Ef við skoðum hugmyndir auðlindanefndar er það nokkuð einfalt gagnvart auðlindum eins og þessum. Menn gera hreinlega ráð fyrir því að annaðhvort fái sá sem nýtir auðlindina hana í hendur með þeirri kvöð að hann skili auðlindinni og landinu aftur í sama horfi og hann tók við henni, eftir þann afmarkaða tíma sem gert er ráð fyrir að viðkomandi hafi auðlindina í sínum höndum. Á hinn bóginn gæti hann skilað til baka auðlindinni ásamt þeim mannvirkjum í fullum rekstri sem reist hafa verið á viðkomandi stað til að nýta hana. Ég held að ágætisdæmi, eða módel fyrir slíkt, sé t.d. samningurinn um Hvalfjarðargöngin. Sá aðili sem fékk það verkefni fékk í hendur að gera göngin, reka þau ákveðinn tíma og skila þeim skuldlausum en í fullum rekstri til ríkisins. Þannig væri í sjálfu sér einfalt að ganga frá nýtingu þjóðarauðlinda. Þegar nýtingartíma lýkur er hægt að bjóða aftur út nýtingarréttinn handa þeim aðilum sem þá væru tilbúnir að sækjast eftir honum.

Huga þarf vandlega að því hvaða auðlindir við viljum hafa fyrir þjóðarauðlindir. Mér finnst að það liggi í augum uppi að úr því að ríkið hefur eignarhald á þeim auðlindum sem hér um ræðir eigi menn að sjá til að þær verði áfram í eigu almennings þótt menn hafi kannski mismunandi skoðanir á því hvort orkumannvirkin og reksturinn eigi að vera í höndum hins opinbera. Það er allt annað mál. Þótt ég taki undir að ástæðulaust sé að ræða um sölu á Landsvirkjun þá geri ég mér grein fyrir því að aðrir geti haft aðra skoðun á því. Ég vil taka þá umræðu upp og hef til þess fullan rétt. Yrði það gert teldi ég að sú umræða ætti að snúast um rekstur Landsvirkjunar og eignarhald á mannvirkjunum, en menn eigi að skoða vandlega að orkulindirnar sjálfar verði í þjóðareign. Þeir sem nýta þær yrðu að greiða fyrir aðganginn að þeim eða nýtinguna á þeim og úr því yrði skorið með jafnræðisreglum hverjir fái og hvaða verð skuli greitt.

En svo er annar hlutur sem ég vil ræða í samhengi við þetta. Í gögnum málsins er farið yfir stofnun Landsvirkjunar og eignarhaldið á henni. Ég hef margoft rætt um það í sölum Alþingis að þar hafi ekki verið vel að málum staðið. Að mörgu leyti var illa staðið að því frá hendi hins opinbera að því leyti að Landsvirkjun skyldi sett saman með því eignarhaldi sem um ræðir, þ.e. að Reykjavíkurborg eigi þarna 45–46% og Akureyringar tæp 5%. Eignarhaldið á þessum dýrmætu orkulindum eða orkufyrirtækjum öllu heldur hefur fyrst og fremst orðið til fyrir forgöngu hins opinbera. Menn hafa talað um gríðarlegar upphæðir og ég held að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að líta svolítið í eigin barm og velta fyrir sér hvort skynsamlegt hafi verið að koma í veg fyrir lausn þessa máls. Þeir vinstri grænir sem tókst að koma í veg fyrir lausn málsins í vetur þurfa að standa ábyrgð á því að það gæti kostað ríkissjóð meiri peninga að leysa það síðar og orðið flóknara en hefði þurft að vera.

Ég dreg athygli að einu sem kemur hér fram í gögnum og ég ætla aðeins að fara yfir það. Hér er kafli um stofnun Landsvirkjunar og framlög eigenda og þar er talið upp hvað samningsaðilar lögðu fram í upphafi. Það var sem sagt eignarhlutur í Sogsvirkjun — ríkissjóður lagði hann fram — og vatnsréttindi sem ríkissjóður átti í Soginu ásamt lóðum. Síðan var réttur til að, með leyfi forseta, „hagnýta allt vatnsafl Sogsins, ásamt nauðsynlegum miðlunarvirkjum.

3. Vatnsréttindi vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell, ásamt landi …“

Ég les ekki meira um það en síðan kemur, með leyfi forseta: „Með setningu laga nr. 37/1971 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 59/1965, um Landsvirkjun. Hinar helstu voru þær að skv. 2. gr. var bætt við 4. gr. laganna svohljóðandi málsgrein:

„Landsvirkjun tekur enn fremur við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins til virkjana í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss …“

Samkvæmt þessu er Landsvirkjun heimilt að reisa 210 MW raforkuver við Þjórsá við Búrfell, 170 MW raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss og 170 MW raforkuver í Tungnaá við Sigöldu ásamt aðalorkuveitum.

Öll þessi réttindi sem þarna voru færð til Landsvirkjunar voru gríðarlega mikils virði en það kemur fram að „engar breytingar urðu þó á eignarhlut aðila“ við þessa ákvörðun. Ég segi þess vegna að þetta sé enn eitt dæmið um það að þarna hafi menn haldið illa á málum fyrir hönd ríkisins gagnvart meðeigendum sínum sem eru Akureyringar og Reykvíkingar. Síðan hefur þessi aðgangur að kannski hagkvæmustu auðlindum okkar í vatnsafli, sem Landsvirkjun hefur nýtt sér á undanförnum árum og hefur orðið til að byggja upp þá auðlegð sem liggur í Landsvirkjun, verið færður á silfurfati í hendur þessara meðeigenda ásamt auðvitað okkur hinum sem eigum sameiginlega ríkissjóð. Ég ætla ekki að fara yfir það hvernig þessar eignir urðu til sem voru stofninn að Landsvirkjun en þær eru einungis örlítill hluti af verðmæti Landsvirkjunar í dag. Þess vegna held ég því fram, og hef margsagt það í sölum Alþingis, að það eigi að skoða eignarhald á öðrum virkjunum og raforkufyrirtækjum í þessu landi — þá er ég t.d. að tala um Rarik, með það fyrir augum hvort ekki eigi að afhenda eignarhlut í þeim til fólksins í þeim sveitarfélögum sem hefur byggt upp þau mannvirki með viðskiptum sínum við Rarik og að leitast við að rétta svolítið af þá vitleysu sem var gerð með því að taka eignaraðilana inn í Landsvirkjun með þeim hætti sem gert var. Auðvitað verður ekki snúið þar til baka.

Menn mega ekki taka orð mín svo að ég ætlist til þess að menn fari eitthvað að rífast um eignarhald Reykjavíkurborgar og Akureyringa í Landsvirkjun. Ég bendi einfaldlega á hvernig þessir eignarhlutar hafa orðið til og að það sé óeðlilegt annað en að menn reyni með einhverjum hætti að bæta fyrir mistökin. Þeim hafa verið rétt gríðarlega mikil verðmæti fram yfir aðra landsmenn með þeim samningum sem þarna voru gerðir. Auðvitað á að grípa tækifærið núna þegar verið er að endurskipuleggja raforkugeirann, grípa tækifærið til að rétta þessa hluti dálítið af. Það er vel hægt að gera það. Ég sé fyrir mér að Rarik verði þá að hlutafélagi ásamt t.d. Orkubúi Vestfjarða og að sveitarfélögunum í landinu verði metinn hlutur og þau eignist hlutabréf í því fyrirtæki. Þau sveitarfélög geta þá selt þann hlut sinn ef þau kjósa en a.m.k. yrði með þeim hætti búið til öflugt fyrirtæki sem gæti tekið þátt í samkeppninni á raforkumarkaðnum sem menn eru að reyna að skapa hér og getur engan veginn orðið til með þeim hætti að menn steypi hér saman Rarik og Landsvirkjun ásamt Orkubúi Vestfjarða og búi til einhvern gríðarlega stóran risa á þessum markaði. Svo er enginn annar til að keppa við hann en Orkuveitan í Reykjavík sem Reykvíkingar eiga að langstærstum hluta líka.

Þarna finnst mér að menn þurfi að fara vandlega yfir málin og ég sé ekki að það liggi neitt beint við að halda því fram að ríkissjóður, eða landsmenn í gegnum ríkissjóð, eigi Rarik. Það liggur að mínu viti ekki fyrir, það má alveg eins líta til þess með hvaða hætti það fyrirtæki hefur orðið til með viðskiptum við fólkið í landinu. Í ljósi þess sem ég er búinn að vera að tala um hvað varðar eignamyndun í Landsvirkjun og gríðarlega eignamyndun Reykjavíkurborgar og Akureyrar í fyrirtækinu á þeim forsendum sem liggja fyrir endurtek ég það bara. Mér finnst full ástæða til að menn fari yfir þessi mál í heild og beini því til hæstv. forsætisráðherra að hann hugsi þetta mál. Tækifærið til að gera þetta er núna. Endurskipulagningin er í gangi á raforkumarkaðnum og það er að mínu viti full ástæða til að skoða málið út frá þeim forsendum sem ég hef verið að tala um.



[12:21]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel sjálfsagt að fara yfir þessi mál og ég vil bara endurtaka það sem ég sagði. Ég er þeirrar skoðunar að langeðlilegast hefði verið að ljúka þessu máli með því að ríkið keypti hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun samkvæmt því mati sem þar lá fyrir. Það var óánægja hjá Reykjavíkurborg með það mat og ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún væri tilbúin að hnika einhverju til í því sambandi en þrátt fyrir það, af undarlegum ástæðum sem ég veit þó heldur meira um, varð ekki af því. Það hefði verið langeðlilegast í þessu máli eins og fulltrúar Reykjavíkurborgar báðu um. Þar með væri þetta allt saman komið í hendur ríkisins sem væri langeðlilegast við þær aðstæður sem nú eru á raforkumarkaði.

Það er mjög erfitt fyrir Reykjavíkurborg að vera annars vegar aðili að Landsvirkjun og hins vegar eigandi Orkuveitu Reykjavíkur. Það er komin samkeppni milli raforkufyrirtækja í landinu og ég sé ekki hvernig það er hægt til frambúðar að fulltrúar Reykjavíkurborgar sitji bæði í stjórn Orkuveitunnar og líka í stjórn Landsvirkjunar enda koma alltaf upp álitamál í slíkri samkeppni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það þarf að fá hreinna borð í þessu og það hefði verið langbest að leysa það með þeim hætti. En það liggur alveg ljóst fyrir að Reykjavíkurborg hefði gífurlegan hagnað af slíkri sölu, og Akureyrarbær jafnframt.



[12:23]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála því sem hæstv. forsætisráðherra var að segja, og tel mjög miður að mönnum hafi ekki tekist að ljúka þessu máli. Við vitum hvernig það gekk fyrir sig og ég tel ástæðu til að menn reyni að gera betur og klára þetta með einhverjum hætti þó að ég óttist að það muni kosta stærri upphæðir en annars hefði gerst. Það kann að hafa verið ástæðan fyrir því að vinstri grænir lögðust gegn málinu að þeir hafi talið að hægt væri að fá hærra verð fyrir þessar eignir.

Annað var þó gefið upp í umræðunum. Það var gefið upp að þeir væru að reyna að koma í veg fyrir að Landsvirkjun yrði seld sem í sjálfu sér er mjög undarlegt vegna þess að ég get ekki séð að ef einhverjum dytti í hug að selja Landsvirkjun væri í sjálfu sér neitt erfiðara að selja hana þó að Reykjavíkurborg og Akureyri ættu eitthvað í henni. Það er bara handavinna í sjálfu sér að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi og selja það ef menn vilja það. Það vil ég ekki.

Það var annað sem mig langaði til að fá svör við hjá hæstv. forsætisráðherra, viðbrögð við þeim vangaveltum mínum sem ég hef áður viðrað hér að ástæða sé til að skoða það, þegar fyrir liggur hver eignamyndun Akureyringa og Reykvíkinga verður vegna Landsvirkjunar, hvort með einhverjum hætti eigi ekki að jafna það út gagnvart öðrum sveitarfélögum með eignarhaldi í Rarik eða öðrum orkufyrirtækjum. Þannig væri hægt að jafna á klyfjunum. Þessi samningur við Akureyringa og Reykvíkinga færir þeim gríðarleg verðmæti sem eru að mínu viti fyrst og fremst komin til vegna þess að þetta fyrirtæki hefur nýtt sameiginlegar orkulindir okkar og það er óeðlilegt annað en að það sé skoðað þegar það liggur fyrir hver (Forseti hringir.) sá auður er.



[12:25]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Landsvirkjun má áætla að eigendur Landsvirkjunar, ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, hafi í gegnum tíðina lagt fram rúman milljarð á núvirði í fjármagni inn í þetta fyrirtæki. Það var metið, og ef ég man rétt á 56 milljarða, núna um áramótin og það var sá samningur sem fulltrúar Reykjavíkurborgar höfnuðu.

Þetta eru hins vegar staðreyndir. Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg á 45% í Landsvirkjun og Akureyrarbær á 5%. Þannig var gengið frá þessum samningum í upphafi og það ber að virða eignarréttinn í þessu sem öðru.

Varðandi önnur sveitarfélög í landinu er náttúrlega ljóst að ríkisvaldið þarf að koma til móts við þau þeirra sem hafa minni tekjur. Það hefur ríkið gert í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í gegnum tíðina. Í eitt skipti hefur þó verið brugðið út af því með því að kaupa eitt tiltekið orkufyrirtæki á Vestfjörðum af eigendum þar. Það var reynt að gera það á verði sem mætti telja bæði sanngjarnt og eðlilegt gagnvart þessum sveitarfélögum og varð til að létta nokkuð á þeim. Ég get ekki farið frekar út í það en ég sé ekki alveg hvernig á að koma til móts við önnur sveitarfélög í þessu sambandi á þessu stigi. Að mínu mati er ljóst að við þurfum að halda áfram að efla Jöfnunarsjóð sveitarfélaga því að mörg sveitarfélög í landinu geta því miður ekki staðið undir öllum þeim skuldbindingum sem þau standa frammi fyrir í framtíðinni.



[12:28]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hæstv. forsætisráðherra getur ekki talað mjög skýrt um þetta mál. Orð hans eru dýr. Ég bind hins vegar vonir við það að þegar fyrir liggur hver eignamyndunin verður raunverulega hjá Reykjavíkurborg og Akureyri af því að hafa fengið að taka þátt í þessu fyrirtæki í gegnum tíðina geti menn, ef þeir hafa til þess pólitískan vilja, metið hvernig þessi hagnaður hefur orðið til og hvað eigi þar að leggja til grundvallar og þá hvort viðskipti annarra landsins þegna við t.d. fyrirtæki eins og Rarik ættu ekki að gefa tilefni til þess að sú eignamyndun, sá auður sem hefur orðið til við rekstur Rariks, komi með einhverjum hætti í hendur þeirra byggðarlaga sem hafa byggt þann auð upp. Það er ekkert óskaplega flókið mál. Annað eins og það að reikna það út hefur verið leyst á vegum hins opinbera. Ég tel mikla ástæðu til þess, endurtek það hér og ætla að hafa það mín síðustu orð um þetta núna að full ástæða er til að bæta fyrir þessi mistök fortíðarinnar. Ég er ekkert að sakast við þá sem gerðu þessa samninga á sínum tíma. Þeir hafa sjálfsagt ekkert velt því fyrir sér eða áttu ekki möguleika á að sjá inn í framtíðina með þeim hætti að þeir vissu til hvers þetta mundi leiða. En alveg gríðarleg eignamyndun er auðséð í dag og fyrir mjög lágt framlag í raun og veru. Þessi eignamyndun hefur fyrst og fremst orðið til fyrir forustu hins opinbera.



[12:30]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar er til umræðu og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir því.

Eins og komið hefur fram felur frumvarpið í sér að afsala eignarréttindum á þessu landi og þessum vatnsréttindum til Landsvirkjunar. Þetta svæði er innan þjóðlendna og ég hefði talið að markmiðið með þjóðlendulögum hefði verið á sínum tíma, og að unnið væri að því, að skilgreina það land og þær náttúruauðlindir sem innan þjóðlendnanna féllu sem hlut ríkisins, hlut þjóðarinnar sem sameign og væru í sjálfu sér ekki til sölu. Hér er lagt til að þessum eignarrétti verði afsalað.

Ég segi það alveg hreint út að ég tel þetta ranga stefnu. Ég get tekið undir sjónarmið hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem fór áðan í gegnum það að náttúruauðlindir eigi að vera eign þjóðarinnar, ævarandi eign hennar. Hitt er svo annað mál hvort afmörkuðum sérgreindum nýtingarrétti sé ráðstafað til einhvers ákveðins tíma til skilgreindrar starfsemi eins og t.d. orkuöflunar eins og hér er verið að fjalla um. Þetta tel ég að eigi að vera hin algilda regla, hvort sem um er að ræða auðlindir í landi eins og vatnsréttindi eða hvort það er fiskveiðiauðlindin í sjónum svo að dæmi séu tekin. Það á aldrei að afsala eignarréttinum á því.

Ég geri mér þó grein fyrir því að þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, leggur mikið kapp á að einkavæða og selja og markaðsvæða þessi réttindi. Við höfum fyrir þinginu frumvarp til vatnalaga sem heimila þá að vatnslindin sem slík sé markaðsvara. Ég er þessu andvígur. Það er sitt hvað hvort um ákveðinn nýtingarrétt er að ræða sem er veittur með ákveðnum skilyrðum, en eignarhald á vatnsréttindunum tel ég alveg alranga stefnu.

Hæstv. forsætisráðherra kom inn á það í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að gera þetta til að forða hugsanlegum skaðabótakröfum af hálfu Landsvirkjunar þegar í ljós kom að eignin sem slík félli innan þjóðlendna og þess vegna hafi þurft að skýra stöðu málsins. Ég er sammála nauðsyn þess að skýra stöðu málsins. Þá hefði mér fundist eðlilegast að eignaraðilarnir að Landsvirkjun sem eru allir opinberir, ríkið fyrir hönd þjóðarinnar, Reykjavíkurborg fyrir hönd íbúa Reykjavíkur og Akureyri fyrir hönd Akureyrar — allt eru það almannafélög sem standa að baki þessari eign — ræddu saman um hvernig tekið yrði á þessum málum þannig að ekki truflaði rekstur Landsvirkjunar án þess að afsala sér varanlegum eignarréttindum eins og hér er lagt til.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á það líka hvernig hlutirnir væru ef þeir væru metnir inn í fyrirtækið og benti á að eignarréttindi hefðu ekki verið metin sem framlag inn í fyrirtækið af hálfu ríkisins og spurði hvort nú væri ætlunin að meta það sérstaklega. Virkjunarrétturinn og það að eignast vatnsréttindin hljóta að vera gríðarlega mikil eign en það hefur einmitt verið einn mesti veikleiki og galli í stefnu núverandi stjórnvalda í virkjunarmálum að meta fórnarkostnað auðlindarinnar til ráðstöfunar til virkjunar til núlls, meta náttúruna, vatnsréttindin, á núll inn í orkufyrirtækin. Síðan geta menn reiknað arðsemiskröfu á fjárfestinguna þegar menn eru búnir að skera af þennan fórnarkostnað sem lagður er fram við ráðstöfun á þessum auðlindum. Þetta sýnir hinn mikla veikleika sem er við stefnu þessarar ríkisstjórnar í virkjunarmálum að meta náttúruna á núll. Það virðist líka eiga að gera í þessu frumvarpi hér, að meta vatnsréttindin og land virkjunarlandsins á núll inn í þetta fyrirtæki, Landsvirkjun.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi umræða verði tekin áður en við samþykkjum það frumvarp sem hér er um að leggja eignarhald á vatni og landi Búrfellsvirkjunar verðlaust inn í Landsvirkjun. Skoðun mín er reyndar sú að þetta eigi ekki að gera, það eigi ekki að leggja eignarhaldið inn heldur fyrst og fremst nýtingarréttinn. Ég legg áherslu á, frú forseti, að það verði skoðað mjög vandlega í iðnaðarnefnd að við ráðstöfum ekki með þessum hætti eignarhaldi á náttúruauðlindum okkar eins og hér er lagt til.

Þetta mál er alveg óháð því hver afdrif eignarhalds á Landsvirkjun verða. Þetta lýtur fyrst og fremst að réttindum þjóðarinnar, réttindum framtíðarinnar til að eiga auðlindina vatn og selja hana ekki í hendur einstakra fyrirtækja. Hæstv. forsætisráðherra svaraði í andsvörum sem ég átti við hann áðan í engu spurningum mínum, heldur varði tíma sínum í að draga athyglina að öðrum atriðum sem honum voru greinilega mjög viðkvæm. (SigurjÞ: Talaði hann um Evrópusambandið?) Hann talaði nú ekki um Evrópusambandið, nei, frú forseti, en hann talaði um eignarhald á orkuveitunum og lýsti þar áhuga sínum fyrir hönd ríkisins til að komast yfir Landsvirkjun, að ná eignarhlutum sveitarfélaganna, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, undir ríkið og það mundi gefa honum frjálsari hendur. Að sjálfsögðu mundi það gefa ríkinu frjálsari hendur til að ráðstafa þessu fyrirtæki eins og því mundi sýnast. (Gripið fram í.)

Málið er að í hugum okkar vinstri grænna eru orkufyrirtækin þjónustufyrirtæki sem eiga að hafa það markmið að skapa raforku, orku til einstaklinga, heimila og atvinnulífsins á sem hagkvæmustu verði, á sem jöfnustum kjörum. Á grundvelli þess byggjum við síðan upp samkeppnishæfa búsetu og atvinnulíf. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum ekki hrifin af afleiðingum nýjustu raforkulaga sem Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir. Nú síðast komu hörð mótmæli frá Alþýðusambandi Íslands sem mótmælti hinum gríðarlegu raforkuverðshækkunum sem komu í kjölfar hinna nýju raforkulaga, markaðsvæðingar raforkukerfisins. Ég hef áður lesið upp hörð mótmæli frá Samtökum atvinnulífsins við gríðarlegri hækkun raforkuverðs vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins. Við höfum vitnað í umsagnir einstakra byggðarlaga sem hafa orðið mjög hart úti í stórhækkuðu raforkuverði vegna markaðsvæðingar raforkukerfisins sem hefur verið dregin áfram af Framsóknarflokknum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur meira að segja gortað af því. Ég held að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins séu að verða ein um að gorta af árangrinum í markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Það er í þessu ljósi sem við, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, bæði á Alþingi og í borgarstjórn Reykjavíkur höfum lagst gegn því að hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun yrði seldur. Það þjónar hvorki hagsmunum Reykvíkinga sem íbúum né annarra landsmanna (SigurjÞ: Og leyndinni í kringum …) að selja hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Með því að halda eignarhlutnum er það viss trygging fyrir því að Landsvirkjun fari ekki á markaðsvæðingarvagn þessarar ríkisstjórnar, ráðherra Framsóknarflokksins, því það eru engir hagsmunir Reykvíkinga (SigurjÞ: Við fáum ekki að vita það.) fólgnir í því að standa frammi fyrir stórhækkun raforkuverðs. Ég held að við ættum fyrst að ljúka þessum málum með markaðsvæðingu raforkukerfisins, raforkulögunum, reyna að draga til baka eitthvað af því mikla óhagræði og þeim miklu álögum sem það hefur leitt yfir íbúa landsins og atvinnufyrirtækin áður en við höldum áfram í markaðsvæðingunni.

Hæstv. forsætisráðherra fór einnig inn á að ekki stæði til að selja Landsvirkjun og vitnaði til þess að ég hefði sagt að hæstv. iðnaðarráðherra hefði látið að því liggja. Ég hef undir höndum útprentun af viðtali hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur frá 17. febrúar fyrir ári síðan og vil gjarnan vitna til þess, með leyfi forseta. Þar er verið að fjalla um viljayfirlýsingu sem iðnaðarráðherra og þáverandi fjármálaráðherra skrifuðu undir varðandi kaup á Landsvirkjun. Með leyfi forseta, fréttamaður spyr:

„En þessi viljayfirlýsing sem var undirrituð í dag, er þetta eins og talað er um fyrsta skref í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?“

Þá svarar Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra:

„Já, það eru uppi áform um það að breyta síðan þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008 og þá eru þau komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna. Og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag er ekki ólíklegt, og reyndar áform uppi um það, að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður það ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til að ríkið haldi eitt utan um það.“

Fréttamaður spyr:

„Sérðu fyrir þér hverjum verður boðið að kaupa hlut í þessu hlutafélagi sem þá verður stofnað um Landsvirkjun? Getur almenningur keypt eða verður þetta boðið út einhvern veginn öðruvísi?“

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra svarar:

„Við erum ekki komin svo langt. Þetta er svo langt frammi í framtíðinni en almennt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið að selja eignir sínar að þá hefur það verið gert allt mjög faglega, vil ég halda fram. Það hefur svo sem gengið ágætlega það sem við höfum einkavætt fram að þessu.“

Herra forseti. Hugur iðnaðarráðherra til framtíðar Landsvirkjunar leynir sér ekkert í þessu viðtali. Ég er ekkert að draga í efa að hæstv. forsætisráðherra meini það nú þegar hann stendur hér í ræðustól að ekki standi til að selja Landsvirkjun þó svo Sjálfstæðisflokkurinn hafi ályktað um það og verið með stöðugar yfirlýsingar um að það sé næsta skref. Ég dreg ekki í efa að forsætisráðherra meinar það sem hann segir núna. En það er eins og stundum hefur verið sagt: Menn kannski meina það um leið og þeir segja það.

Þegar Síminn var á sínum tíma hlutafélagavæddur lýsti þáverandi samgönguráðherra yfir með miklum svardögum að ekki stæði til að selja hann. Síminn var síðan seldur. Þetta er til að rifja upp hvað getur gerst. Hlutafélagavæðing Rariks, sem nú liggur fyrir frumvarp um frá ríkisstjórninni, er einmitt liður í einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkugeirans, og ég hef bent á hvaða afleiðingar það hefur þegar haft.

Ég tek á vissan hátt undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson kom inn á. Orkufyrirtækin Rarik og Landsvirkjun eru byggð upp sem eign þjóðarinnar, eign íbúanna, eign notendanna, eign sveitarfélaganna. Þannig hefur þetta byggst upp. Ef nú á að fara að markaðsvæða þau og færa eignir fyrirtækjanna upp með þeim hætti, búa það undir markaðsvæðingu og jafnvel sölu. Þá líta hlutirnir allt öðruvísi út. Ég vil taka undir það að ég tel eðlilegt að þau sveitarfélög sem vilja t.d. leysa til sín hluti í Rarik eigi að fá að gera það. Ég minni á að bæði Norðurorka og Skagafjarðarveitur hafa lagt fram erindi og óskað eftir viðræðum á síðasta vetri við ríkisvaldið um að fá keypta eða leysta til sín hluti Rariks á viðkomandi svæðum. Því hefur ekki verið svarað og ekki hefur verið orðið við þeim óskum um viðræður. Ég tel að það eigi að gera það því ef heimamenn telja að þessu sé betur varið með þeim hætti á að hlusta á það.

Ég minni á að kaup Rariks á Rafveitu Sauðárkróks á sínum tíma voru mjög umdeild og margir Skagfirðingar eru enn þeirrar skoðunar að það hafi verið gríðarleg mistök að selja Rafveitu Sauðárkróks. Hún var þeim mikilvæg, bæði sem þjónustustofnun og hvati í atvinnulífinu. Ég get tekið mörg dæmi um það. Þess vegna finnst mér alveg einboðið að það eigi að svara óskum heimaaðila um að fá að kaupa til sín t.d. Rafveitu Sauðárkróks og hugsanlega eignir Rariks á þessu svæði og styrkja þar með og efla Skagafjarðarveitur sem eru sem betur fer enn þá í eigu sveitarfélagsins og eru þar í öflugu starfi.

Enn eru orð hæstv. forsætisráðherra á þann veg að vitna til þess með röngum hætti sem ég hef sagt um afstöðu Skagfirðinga til stóriðjumála og virkjana og til þess að fórna Jökulsánum. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að meiri hluti þeirra sem tóku afstöðu í því máli á síðasta vetri var því andvígur að fórna Jökulsánum undir virkjanir og ég vona að það standi enn. En ég ítreka, herra forseti, að ég tel að þetta frumvarp þurfi mjög gagngerrar skoðunar við áður en það kemur aftur til 2. umr.



[12:50]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka ræðumanni fyrir efnismikla og fróðlega ræðu. Hann minntist á markaðsvæðingu raforkukerfisins. Mér finnst kannski eins og hv. þingmaður ræði ekki málið í heild sinni, hvort það megi ekki líta á þetta mál sem hluta af markaðsvæðingu stjórnmálanna. Við höfum orðið varir við að þeir sem fengu að kaupa Búnaðarbankann fyrir lítið fyrir tilstilli hæstv. forsætisráðherra hafa núna sýnt mikinn vilja til þess einmitt að komast inn í markaðsvæðingu raforkukerfisins. Ber ekki að líta á það? Það væri líka fróðlegt að fá að heyra það, þegar hæstv. forsætisráðherra tekur umræðuna saman í lokin, hvort sú gæti verið ástæðan.



[12:51]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að ýmsar hvatir eru undirliggjandi gæti manni dottið í hug. Ég var í ræðu minni fyrst og fremst að tala um þetta frumvarp sem lýtur að því að afsala eignarrétti á vatni og landi til Landsvirkjunar og vara við því. Það ætti frekar að leigja það sem slíkt en eignarrétturinn ætti alltaf að vera í höndum þjóðarinnar.

Hitt er alveg rétt, sem hv. þingmaður benti á, að það er ásókn í raforkugeirann. Við minnumst yfirlýsingar fyrrv. eiganda ESSO, sem var að selja ESSO og lét þess þá um leið getið að næstu vænlegustu fjárfestingarverkefnin væru í orkugeiranum, í orkuverunum. Það er því alveg ljóst hvert stefnir. Hins vegar óttast ég að bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra, ef marka má orð hans, kikni auðveldlega í hnjánum undan ásókn aðila í að komast yfir orkuverin, og ég er ekki viss um að það verði þá á háu verði.



[12:53]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Nú eru þeir aðilar sem hafa lýst yfir áhuga á þessum kaupum nátengdir Framsóknarflokknum og hafa áður fengið að kaupa ríkiseignir fyrir lítið. Ég er á því að til þess að allir hagsmunir séu ljósir í þessum málum þurfi að opna bókhald stjórnmálaflokkanna. Opið bókhald stjórnmálaflokka er lykillinn að því að við þurfum ekki að ræða þetta svona, lykillinn að því að allir hagsmunir séu ljósir.

Ég er á því að þessi umræða, þó svo við séum að ræða afmarkað mál eins og vatnsréttindi, tengist því að stjórnmálaflokkarnir hafa lokað bókhald. Það getur þess vegna verið þeirra hagsmunamál að þjóna fjársterkum sérhagsmunum, herra forseti, í stað þess að líta til hagsmuna alls almennings. Við sjáum að það hefur gerst hér hvað eftir annað í þjóðfélaginu. Við höfum séð það varðandi stjórn fiskveiða, þar virðast þröngir sérhagsmunir hafa ráðið og það hefur bitnað á sjávarþorpum víðs vegar um land. Við vorum að ræða byggðaáætlun í gær og þá kom fram að það voru einmitt sjávarþorpin sem höfðu orðið fyrir barðinu á stjórnarstefnu hæstv. forsætisráðherra m.a. og iðnaðarráðherra sem hafa ekki viljað ljá máls á því að breyta stefnunni þó að hún gangi þvert á hagsmuni þorra þjóðarinnar. Þetta er óþolandi og ég er á því að til þess að breyta þessu þurfi einmitt að opna bókhald stjórnmálaflokkanna, herra forseti.



[12:55]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem deilt áhyggjum þingmannsins í þessum efnum en það sem ég er fyrst og fremst að fjalla um eru vatnsréttindin, hið varanlega eignarhald á vatni og á landi, í þessu tilviki gagnvart virkjunaraðila, Landsvirkjun, í kringum Búrfell.

Ég tel að þjóðin eigi að eiga þessar eignir og ekki eigi að framselja þær með þeim hætti sem hér er verið að leggja til. Það er allt annað að ráðstafa nýtingarréttinum til einhvers tíma en það á ekki að gera þetta, hvort sem Landsvirkjun verður áfram í eign þjóðarinnar eða ef svo óheppilega vildi til að hún yrði markaðsvædd og seld, þá er þetta grundvallaratriði.

Fyrir utan það legg ég líka áherslu á að rafmagn í sjálfu sér er hluti af grunnþjónustu við atvinnulíf og búsetu og líf í landinu og á ekki í sjálfu sér að vera rekið á arðsemisgrunni. Arðurinn á fyrst og fremst að koma í gegnum öflugt atvinnulíf og samkeppnishæfa búsetu. Hvernig eigum við líka að fara í einhverja raunverulega virka samkeppni um raforku í lokuðu landi — eylandi eins og okkar land er — þegar slík samkeppni gengur illa í löndum sem eru umgirt öðrum löndum á alla kanta? Þessi hugmyndafræði um einhverja virka samkeppni hér á landi, að hún skaffi lægra rafmagn, er dæmd til að mistakast. Það sanna dæmin í þeim gríðarlegu hækkunum á raforkuverði sem við höfum mátt upplifa núna á þessu ári og hinu síðasta, sérstaklega á þessu ári eftir að markaðsvæðing raforkunnar er farin að koma til framkvæmda.



[12:57]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hirða um þau lágkúrulegu orðaskipti sem áttu sér stað milli tveggja síðustu ræðumanna. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um það mál sem hér er til umræðu, þá dæmalausu ræðu. Ég verð að viðurkenna það að eftir að hafa hlustað á ræðuna stend ég eiginlega í þeim sporum að mér finnst eins og hv. þingmaður skilji ekki málið.

Hér er um það að ræða að flutt er lagafrumvarp til að staðfesta gjörning sem fór fram árið 1965 og hefur komið í ljós að þurfi að setja inn í lög það ákvæði sem hér er í frumvarpinu til að skýra þann gjörning. Ég hélt að fortíðarmaður eins og hv. þm. Jón Bjarnason væri sammála því að það væri rétt að gera slíkt ef kæmi í ljós að það þyrfti. En ég vildi gjarnan heyra hjá hv. þingmanni hvort það er réttur skilningur hjá mér að hann skilji ekki þetta mál.



[12:58]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. Magnús Stefánsson hefði hlýtt á mál mitt þá hefði hann fengið svarið við því. Ég sagði eitthvað í þá veruna, herra forseti, að að sjálfsögðu þyrfti að taka á og hreinsa óvissu hvað þetta varðar og snertir fyrirtækið.

Ég benti líka á, herra forseti, að þetta fyrirtæki væri alfarið í eigu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, og hafi líka verið það á sínum tíma þegar það var stofnað. Þess vegna ætti fyrsta skrefið í þessu að vera það að eignaraðilarnir hittust og ræddu hvort ekki væri hægt að komast að viðunandi niðurstöðu sem tryggði hæfilegt rekstrarrými og réttindi fyrirtækisins án þess að til þess kæmi að afsala eignarrétti á vatnsauðlindinni og öðru því sem nauðsynlegt kann að teljast fyrir virkjunina.

Þetta voru mín orð, herra forseti, og ég vona að hv. þm. Magnús Stefánsson hafi fylgst með þeim í þetta skiptið og átti sig á hvað ég hef sagt.



[13:00]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns eins og ég sagði áðan. Ég verð að viðurkenna að ég er engu nær. Ég met það svo að hv. þingmaður hreinlega sé ekki með á nótunum hvað varðar efni þessa máls.



[13:00]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að þetta sé hinn klassíski vandi framsóknarmanna, að þegar fyrir dyrum stendur að afsala sér landi eða auðlindum í varanlegan tíma sé það svo sjálfsagt að fyrir þeim sé það ekkert mál. Það má vel vera. Kannski eru þeir svo blindaðir af einkavæðingar- og markaðshugsjónum í raforkukerfinu að þeir geti ekki séð eða horft til þátta sem þessara. Þá er það náttúrlega ekki bara þeirra vandamál. Versta vandamálið er að þeir skuli vera aðilar að ríkisstjórn landsins með iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem horfa ekki til þess að vatnið sem auðlind á að vera eign framtíðarinnar, ekki söluvara. Náttúruauðlindir sem slíkar eiga ekki að vera markaðsvara, hvorki í nútíð né framtíð, en hæfilegur nýtingarréttur og möguleiki til þeirra umsvifa sem við erum ásátt um að verði gætt getur verið framselt til lengri eða skemmri tíma eftir atvikum.

En vatnið, auðlindin vatn, á að vera eign þjóðarinnar og á að vera eign framtíðarinnar.



[13:02]Útbýting: