132. löggjafarþing — 64. fundur
 10. feb. 2006.
heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 456. mál. — Þskj. 681.

[13:37]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Flutningsmaður þessa er hæstv. forsætisráðherra og mig langar að spyrja forseta hvort hann sé í húsinu.

(Forseti (BÁ): Forseti hyggur að hæstv. forsætisráðherra hafi þurft að fara úr húsi. En hæstv. forsætisráðherra var kunnugt um að umræðan mundi halda áfram eftir matarhlé.)

Forseti reiknar þá með því að hann sé að fylgjast með umræðunni því ræða mín snýr mjög að hans fyrri verkum, meðal annars því þegar ríkið afsalar sér réttindum svo sem varðandi fiskveiðar og ríkisbanka.

(Forseti (BÁ): Forseti gerir ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra fylgist með því sem hér ...)

Ég ætlaði nefnilega ekki að tefja þessa umræðu. Ég ætla að flytja fremur stutta ræðu en hefði þótt vænt um ef hæstv. forsætisráðherra hlýddi á mál mitt. Reiknar forseti með að svo sé?

(Forseti (BÁ): Ef hv. þingmaður óskar eftir því skal forseti koma skilaboðum til hæstv. forsætisráðherra.)

Ég ætla að halda áfram með þessa ræðu í þeirri von að hæstv. forsætisráðherra leggi við hlustir. En því miður hefur framganga hans þegar ríkið hefur afsalað sér réttindum verið slík að það mætti halda að honum væri alveg sama. Ég er á því að það þurfi að fara rækilega yfir þessi mál.

Ein meginástæðan fyrir því að ég ákvað að halda þessa ræðu voru orð hv. þm. Magnúsar Stefánssonar. Þegar ég var í andsvörum við hv. þm. Jón Bjarnason þá fannst honum lágkúrulegt að ég skyldi blanda saman bókhaldi stjórnmálaflokka og svo því þegar ríkið væri að afsala sér réttindum. Þess vegna finnst mér rétt að fara rækilega yfir það því svo virðist sem þessi ágæti hv. þingmaður átti sig ekki á samhenginu. Þess vegna er mjög þarft að fara yfir þetta málefni.

Við getum farið yfir það að þegar ríkið hefur verið að koma frá sér eignum þá hafa þær stundum lent í höndum þeirra sem eru nátengdir flokkunum og þá liggja fyrir bæði grunsemdir og vissa um að svo sé, svo sem þegar fyrrum ráðherrar stóðu í samningaviðræðum um kaup á Búnaðarbankanum, svokallaður S-hópur sem er nátengdur Framsóknarflokknum. Áður en við afsölum okkur fleiri ríkiseignum þá þurfum við að búa svo um hnútana að ekki sé grunur um þetta. Hvernig gerum við það? Með því að opna bókhald stjórnmálaflokkanna í landinu. Ég er sannfærður um að meginþorri fólks í landinu vill að svo sé, enda er það fyrirkomulag sem hér ríkir alger undantekning. Menn þurfa að leita út fyrir Evrópu til að finna hliðstæðu við þessa leynd. Hættan við hana er sú að stjórnmálamenn sem vilja koma sér áfram í prófkjörum og heilu stjórnmálaflokkarnir kannski freistist til að treysta á fjársterka aðila sem veita fjármuni inn í dýrar kosningavélar flokkanna í stað þess að gæta almannahagsmuna. Ef allt er opið sér almenningur hvaðan peningurinn kemur, svo sem í prófkjörin núna hjá Samfylkingunni og ég tala nú ekki um hjá Framsóknarflokknum þar sem umræðan hefur verið sú að menn hafa einfaldlega keypt sér sæti. Það er þörf á því að fara í gegnum þetta. En það er eins og hv. þm. Magnús Stefánsson hafi ekki áttað sig á þessu. Hann kallaði þetta lágkúrulegt, ef ég man rétt. Það er það bara ekki. Um þetta snúast stjórnmálin, að allt sé uppi á borðinu eða sem mest og hvað þá fjármál þeirra sem sækjast eftir almannavaldi, fá að fara með vald og geta ráðstafað eignum. Hagsmunir þeirra eiga einnig að vera ljósir. Það stríðir í rauninni gegn allri skynsemi að svo sé ekki. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í gegnum þetta.

Við getum farið yfir fleiri mál. Þegar Landsbanki Íslands var seldur var rifinn út úr honum hlutur sem bankinn átti í Vátryggingafélagi Íslands og hann færður í hendurnar á aðilum þóknanlegum Framsóknarflokknum. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi. Og nú þegar hæstv. iðnaðarráðherra talar um að einkavæða raforkukerfið þá verðum við að búa svo um hnútana að það verði ekki fært í hendurnar á einhverjum flokksgæðingi. Við eigum ekki að líða það. Þess vegna eigum við að ræða þessa hluti saman. Ég vona að fólk átti sig á því. Það hefur komið fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra, m.a. í Kastljóssþætti sem hv. þm. Jón Bjarnason minntist á, að sú sé ætlunin og það má líta svo á að þetta litla myndskreytta frumvarp sé liður í því að búa svo um hnútana að þetta verði sett í sölubúning. Þess vegna er vert að fara rækilega í gegnum þessa umræðu alla.

Það er líka vert að fara yfir það að mér finnst eins og hæstv. iðnaðarráðherra hafi alltaf komið sér hjá því að ræða fleiri þætti í sambandi við þetta mál, t.d. það sem snýr að almenningi. Hvers vegna eigum við að markaðsvæða raforkukerfið? Það hafa aldrei komið nein rök fyrir því. Ég er fylgjandi því að sem mest sé á markaði og að sem mest sé í höndum einkaaðila. En það er ekki líklegt að fólkið í landinu styðji þessa stefnu áfram þegar það fær alltaf hærri og hærri rafmagnsreikning frá Framsóknarflokknum. Hvers vegna ætti fólkið í landinu þá að styðja áframhaldandi markaðsvæðingu? Ég sem er virkilega fylgjandi því að sem mest sé hjá einkaaðilum get ekki tekið undir þessa stefnu þegar fólkið í landinu fær alltaf hærri og hærri reikning.

Við verðum líka að gæta að öðru, þ.e. að við erum bara að tala um markaðsvæðingu á litlum hluta af heildarraforkuframleiðslunni, einungis 20%. 80% verða í föstum samningum til stóriðjunnar. Hæstv. iðnaðarráðherra ætti að svara öðru einnig, þ.e. hvers vegna við getum boðið hlutfallslega lægra orkuverð til stóriðjufyrirtækja en löndin í kringum okkur sem eru jafnvel að flytja álverksmiðjur. En síðan ef það heitir annar iðnaður sem er ekki eins stór í sniðum þá þarf að borga tiltölulega hærra verð og jafnvel miklu hærra verð en tíðkast í löndunum í kringum okkur. Þetta er eitt af því sem er ósvarað.

Þó svo ég nái ekki í skottið á hæstv. forsætisráðherra til að svara því hvort ekki væri ráð, áður en menn fara í frekari markaðsvæðingu og sölu á ríkiseignum — það blasir við öllum — að opna bókhald stjórnmálaflokkanna þannig að kjósendur hafi vissu fyrir því að ekki sé verið að selja eignirnar til þeirra sem hafa verið gjafmildir í flokkssjóði þá er ég viss um að hann mun svara þessu seinna hér á þinginu. Ég hyggst jafnvel leggja fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um hvort það sé ekki einmitt lykillinn að því að einkavæðingarstefna og markaðsvæðing verði trúverðug í framtíðinni.



[13:47]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir einlæga ræðu hans. Hann kom þar m.a. inn á tvo hluti sem eru okkur báðum mikið hjartans mál. Það er annars vegar upplýsingar um fjárhag, eða réttara sagt um bókhald stjórnmálaflokkanna. Og til að fylla út í umræðuna vil ég af þessu tilefni minna hv. þm. Sigurjón Þórðarson á að það er að störfum nefnd með aðkomu allra stjórnmálaflokkanna, eftir því sem ég best veit, sem forsætisráðherra skipaði einmitt til að fjalla um þetta. Spurningin er síðan hvort flokkarnir komast þar ekki að sameiginlegri niðurstöðu þannig að þær forsendur sem hv. þingmaður nefndi fyrir áframhaldandi einkavæðingu og afsali á réttindum ríkisins liggi þá fyrir að loknum störfum þeirrar nefndar.

Hitt sem ég vil einnig árétta, af því að hv. þingmaður lagði ekki minni áherslu á að fjármál þeirra sem sækjast eftir að fara með opinbert vald séu uppi á borðinu, er að á síðasta þingi sendi Framsóknarflokkurinn forsætisnefnd erindi um þetta og hvatti til þess að settar yrðu samræmdar reglur fyrir alla þingflokkana um þetta. Framsóknarflokkurinn ákvað síðan fyrir sitt leyti að bíða ekki eftir því að menn næðu saman heldur dreif í því að birta þessar upplýsingar um alla þingmenn og ráðherra þess flokks. Og svona til að halda því til haga þá er öðrum flokkum á þingi auðvitað í sjálfsvald sett að gera slíkt hið sama og taka sér Framsóknarflokkinn að því leyti til fyrirmyndar.

Ég deili áhuga þingmannsins á þessu tvennu og hef verið talsmaður þess ekki bara að gera eins og við í Framsóknarflokknum gerðum, að birta upplýsingar um okkar eigin fjármál og tengsl, heldur jafnframt að upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkanna séu opinberar og aðgengilegar. Við eigum svo eftir að sjá hver niðurstaðan verður í þessari nefnd sem allir flokkar á þingi eiga aðkomu að.



[13:49]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að hægt er að eiga bandamann í hv. þingmanni til að koma þessum málum á hreint en það er löngu orðið tímabært og ég vonast til þess að sú umræða sem fer fram nú verði einnig til að ýta við þessu máli en mig grunar að það hafi ekki endilega verið ætlunin hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hann setti þessa nefnd af stað að hún skilaði einhverju. Ég held að þessi nefnd hafi verið mest sett af stað vegna þess að umræðan var orðin þung á þeim tímapunkti og þetta var kannski liður í því að fresta umræðunni. Því miður hefur nefndin ekki enn skilað neinni niðurstöðu. Ég fylgist mjög grannt með nefndarstarfinu og ég held að ég sé ekki að brjóta neinn trúnað þó að ég upplýsi að starf nefndarinnar sé ekki komið neitt ákaflega langt. Það er ekki komið neitt lagafrumvarp en það er verulega brýnt að ganga frá þessum málum eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz tók undir. Ég er á því að ef það yrði, yrði það lýðræðinu mjög til góðs.



[13:50]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir í morgun, frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Er hæstv. forsætisráðherra ekki í húsinu?

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. forsætisráðherra er ekki í húsinu en honum var kunnugt um að framhald yrði á umræðunni en eftir því sem forseti kemst næst varð hann knúinn til að fara til annarra verkefna. Forsætisráðherra hefur aftur verið látinn vita að umræðan haldi áfram og að nærveru hans sé óskað.)

Gæti ég þá beðið með ræðu mína þar til hæstv. forsætisráðherra kemur í hús?

(Forseti (BÁ): Forseti telur rétt að láta umræðuna halda áfram og sjá hvað kemur út úr þeim skilaboðum sem borin hafa verið til forsætisráðherra.)

Virðulegi forseti. Ég tek þá ákvörðun til greina og hef ræðu mína en vonast til að hæstv. forsætisráðherra hraði sér í hús hið fyrsta, en nái hann ekki hingað í tæka tíð þá kynni hann sér innihald þeirrar ræðu sem ég ætla að flytja núna. Þar mun ég benda á ákveðna hluti sem ég hygg að sé vert að taka til gaumgæfilegrar athugunar þegar þetta mál fer til meðferðar hjá hv. allsherjarnefnd.

Eins og fyrr sagði ræðum við frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Málið er tilkomið vegna úrskurðar óbyggðanefndar um það landsvæði sem Búrfellsvirkjun og vatnasvæði hennar er á. Óbyggðanefnd hefur úrskurðað að þessi landsvæði tilheyri ríkinu, þetta sé þjóðlenda sem eru þá landsvæði utan eignarlanda og ríkið sé eigandi hvers konar landsréttinda og hlunninda innan svæða sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Forsaga málsins er sú að þegar Landsvirkjun var stofnuð með lögum árið 1965 þá voru stofnendur fyrirtækisins ríkisstjórnin og borgarstjórn Reykjavíkur. Hvor um sig skyldi þá eiga helming fyrirtækisins. Þegar lög um Landsvirkjun voru samþykkt á hinu háa Alþingi fyrir 40 árum sagði í 4. gr. þeirra laga, eins og greint er frá í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Jafnframt tekur Landsvirkjun við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins og Reykjavíkurborgar til virkjana í Sogi og Þjórsá við Búrfell, sbr. 6. gr., svo og öllum áætlunum og undirbúningsframkvæmdum ríkisins vegna virkjunar við Búrfell.“

Og í 6. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Landsvirkjun er heimilt að reisa allt að 210 MW raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til að tryggja rekstur hennar. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær, sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

Hér er sem sagt kveðið á um að Landsvirkjun fær þessi vatnsréttindi og réttindi ríkisins í Þjórsá við Búrfell. Þarna eru menn í þeirri trú að ríkið eigi þessi réttindi og þeir eru að sjálfsögðu að höndla þarna í góðri trú. Það skal ekkert dregið í efa, ég hygg að svo hafi ekki verið einungis um ríkið heldur alla sem áttu hlut að máli. Í athugasemdum með frumvarpinu eru sögulegar forsendur fyrir þessu raktar ítarlega með ágætum hætti. Hér er talað um Einar Benediktsson, þann merka athafnamann og listamann og síðan fossafélagið Titan og margt skemmtilegt má að lesa í þessari ágætu samantekt. En eins og áður sagði leiddi þetta til þess að árið 1965 er Landsvirkjun stofnuð af ríkinu og Reykjavíkurborg sem leggur þetta til í púkkið, ef svo má segja. Virkjun var síðan byggð, mikið átak á sínum tíma, stórt framfaraskref hygg ég að allir séu sammála um í dag. Það hefur m.a. komið fram í morgun í máli hæstv. forsætisráðherra að þessi virkjun sé í raun og veru betri í dag en hún var þegar hún var reist, svona mannvirki séu mjög varanleg ef vel er að þeim staðið, sem ekki skal dregið í efa. Eflaust er það alveg rétt sem hæstv. forsætisráðherra segir að virkjunin sé miklu betra mannvirki núna en hún var. Það hafa að sjálfsögðu verið gerðar þarna tæknilegar umbætur og annað þess háttar.

Það hefur líka komið fram í máli hæstv. forsætisráðherra að virkjunin sé að fullu afskrifuð. Ég held að það megi leiða líkum að því að þessi virkjun sé núna mjög arðbær. Hæstv. forsætisráðherra hefur bent á að sennilega verði þessi virkjun í fullum rekstri a.m.k. 100 ár í viðbót, hafi ég tekið rétt eftir í morgun, en virkjunarmannvirki sem eru afskrifuð að fullu verði í rekstri og mali gull í a.m.k. heila öld. Ég held að það sé engum vafa undirorpið að þessi mannvirki munu hreinlega verða til þess að þarna verði malað gull nánast í orðsins fyllstu merkingu. Þarna er fyrir hendi mikil mjólkurkýr sem heyrir undir Landsvirkjun sem í dag er í eigu ríkisins að hálfu en Reykjavíkurborg á 44,525% og Akureyrarbær 5,475%.

Það sem gerist núna með þessum úrskurði óbyggðanefndar er, eins og áður sagði, að þessi nefnd sem vinnur samkvæmt sérstökum lögum um þjóðlendur kemst að þeirri niðurstöðu að eignartilkalli Landsvirkjunar á þessu svæði er hafnað og þetta svæði telst því þjóðlenda í skilningi laganna og samkvæmt þessum lögum fer ríkið þar með eignarrétt. Það leikur enginn vafi á þessu. Þessi úrskurður liggur fyrir en það var ríkisstjórnin sem lét fara í þessa vinnu og þetta var gert undir forsæti þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haarde, sem nú er hæstv. utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og þetta varð niðurstaðan. Þetta gerir það að verkum að menn standa frammi fyrir algerlega nýjum veruleika og þess vegna eru þessi lög núna sett, að ég hygg til að reyna að bjarga málinu einhvern veginn fyrir horn. Það er verið að koma með lög til að það verði hreinlega úrskurðað af hálfu Alþingis, til að Alþingi veiti þessa heimild eða taki ákvörðun um að Landsvirkjun skuli eiga þau réttindi sem fylgja virkjuninni. Í viðauka við lögin er birt kort yfir svæðismörk virkjunarinnar og mannvirki sem fylgja henni, bæði yfirfallsvegir, inntaksmannvirki, varnargarðar, sjálf aflstöðin, lónið og þar fram eftir götunum.

Mig langar hins vegar til að velta upp við þessi tímamót hvort endilega þurfi að vera sjálfgefið, virðulegi forseti, að ríkið hreinlega afsali sér þessu öllu til Landsvirkjunar án þess að nokkuð komi í staðinn. Hvers vegna í ósköpunum á það að vera svona sjálfgefinn hlutur? Mér finnst ekki sjálfgefið að svo sé því ef við skoðum málið þá má færa fyrir því rök að ríkið gerði þetta á sínum tíma í góðri trú. Það eru liðin 40 ár síðan. Fyrirtækið sem tók við þessum heimanmundi í búið ef svo má segja, þ.e. vatnsréttindum og réttindum ríkisins í Þjórsá við Búrfell, hlaut líka að taka við þessu í góðri trú en síðan kemur þessi úrskurður 40 árum síðar og þá breytist allt og á sama tíma er búið að afskrifa þetta mannvirki.

Mér finnst ekki hægt að færa nægilega góð rök fyrir því að þetta réttlæti það að hægt sé að láta Landsvirkjun hafa þetta nánast orðalaust og Alþingi afgreiði það bara með eins konar gúmmístimpli athugasemdalaust. Ég hygg að báðir aðilar hljóti að bera hér einhverja ábyrgð, bæði Landsvirkjun og ríkið, og að það sé full ástæða til að líta svo á að hér sé í raun og veru hreint borð í þessu máli og það verði að skoða það alveg upp á nýtt.

Ég velti fyrir mér þeirri hugmynd, virðulegi forseti, hvort ekki sé hreinlega ástæða til þess að ríkið geri leigusamning við Landsvirkjun um afnotaréttinn á þessu svæði, á vatnsaflinu og landsvæðinu þarna í kring, leigusamning til að mynda til 100 ára, þ.e. þann líftíma sem við ætlum að verði á þessari virkjun, a.m.k. miðað við orð hæstv. forsætisráðherra. Hugsanlega er þessi tími lengri og það verður þá hægt að endurnýja samninginn. En gerður yrði leigusamningur og Landsvirkjun mundi hreinlega greiða leigu til ríkisins fyrir afnot af þessu svæði. Er það ekki bara sanngjarnt? Landsvirkjun er sjálfstætt fyrirtæki og hvers vegna ættum við að láta þetta sjálfstæða fyrirtæki hafa þessa náttúruauðlind ókeypis, mér finnst það ekki réttlátt, og að það séu þá eigendurnir, þ.e. ríkissjóður 50% og Reykjavíkurborg og Akureyri, sem fái síðan arðinn af virkjuninni í sína vasa.

Mig langar til að velta því upp og vekja athygli á því að fólkið sem býr á Suðurlandi, íbúar Suðurlands, fólkið í héruðunum þarna í kring hefur síðustu áratugina þurft að leggja til náttúruauðlindir sínar eða þær náttúruauðlindir sem eru á þeirra svæðum, og þá er ég að tala um fallvötnin, til orkuframleiðslu. Þessi landshluti hefur því miður ekki fengið að njóta sem skyldi þessarar miklu orkuframleiðslu og þeirra verðmæta sem sú orkuframleiðsla hefur skapað. Orkan hefur verið flutt út úr landshlutanum nánast alveg frá upphafi. Er ekki kominn tími til að þessi landshluti fái að njóta þessa? Er hér ekki komið gullið tækifæri til að koma málum þannig fyrir að þetta yrði að veruleika? Því velti ég upp þeirri hugmynd, eins og ég sagði áðan, að gerður verði leigusamningur við Landsvirkjun sem greiddi þá sanngjarnt verð fyrir afnotaréttinn, ef svo má segja, fyrir leiguna á gæðum þessarar auðlindar. Ríkið tæki við peningunum en peningarnir yrðu þá hugsanlega settir í einhvern ákveðinn sjóð eða eyrnamerktir með einhverjum hætti þannig að þeir nýttust til góðs fyrir Suðurland, sveitirnar þarna í kring, t.d. til atvinnuuppbyggingar, til skóla eða einhvers annars sem varðar velferð fólks á svæðinu. Mér finnst það fyllilega þess virði að það verði athugað og skoðað. Ég veit t.d. að í Noregi eru ríkustu sveitarfélögin þar ekki þau sveitarfélög sem hafa hugsanlega aðgang að olíu- og gaslindum, það eru sveitarfélögin sem höfðu yfir að ráða vatnsréttindum til virkjana. Það eru sveitarfélögin sem bjuggu svo vel að vera á svæðum þar sem voru vatnsföll sem hægt var að virkja og þessi vatnsföll hafa malað gull fyrir þjóðarbúið og sveitarfélögin á viðkomandi svæðum hafa að sjálfsögðu fengið sinn skerf af kökunni. Mér finnst bara sjálfsagt og eðlilegt að svo sé.

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið til að velta þessari hugmynd hér upp. Það finnast eflaust fleiri rök með þessu og að sjálfsögðu hljóta líka að finnast rök á móti. Ég býst við að lögfræðingar Landsvirkjunar séu búnir að liggja yfir þessu máli og skoða þetta ítarlega frá öllum hliðum og eigi jafnvel einhvers staðar gambít til að mæta einmitt þeirri hugmynd sem ég varpaði fram. Ég skal ekkert um það segja en það kæmi mér ekki á óvart. Ég reikna með að þetta mál verði tekið til ítarlegrar umfjöllunar í allsherjarnefnd og þetta verði skoðað og að heimamenn verði kallaðir á fund nefndarinnar og álit þeirra fengið til að mynda og vonandi á þessari hugmynd og hvort þetta sé hugsanlega fær leið, hvort hægt sé skoða þetta mál lögfræðilega og finna þennan flöt á málinu. Það má vel vera að það kosti málaferli en væri bara ekki allt í lagi að láta reyna á það og fá þann úrskurð? Við getum hugsað okkur aðrar virkjanir, hugsanlega önnur svæði. Þetta gæti skapað eins konar lagalegt fordæmi, ég skal ekki um það segja, ég er ekki lögfræðimenntaður. Ég hef svo sem ekki legið mikið yfir þessum málum, virðulegi forseti, en mér finnst þetta hugmynd sem vert væri að skoða og því kvaddi ég mér hljóðs og vakti athygli á þessum fleti á málinu.



[14:06]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar áðan þar sem hann fór nokkrum orðum um að honum fyndist eðlilegt að Suðurkjördæmi eða gamla Suðurlandskjördæmið fengi að njóta þeirrar orku sem framleidd er á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. Þessu er ég hjartanlega sammála og hef lengi talað í sömu átt og hv. þingmaður gerði áðan.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um að á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga er starfandi nefnd sem fékk nafnið stóriðjunefnd sem er að kanna þessi mál sérstaklega og fara yfir með hvaða hætti byggja megi upp orkufrekan iðnað í Suðurkjördæmi með tilliti til þess að nýta þá orku sem þar er, bæði raforku og hitaorku. Þau verkefni eru í gangi á vegum heimaaðila og ég vænti þess að það geti orðið eitthvert framhald á því og einhver niðurstaða sem leiði til þess að þar verði atvinnuuppbygging, sérstaklega við Þorlákshöfn, sem er sú höfn sem hugsanlega kann að verða útflutningshöfn ef þetta nær fram að ganga.

Á sama hátt eru menn á Reykjanesi að reyna að koma þeirri orku sem þar er í lóg og nýta hana til stóriðjuframkvæmda í Helguvík. Mér finnst því ofur eðlilegt að við leggjum mikla áherslu á það, þingmenn Suðurkjördæmis, að þessi orka verði notuð í kjördæminu og það á auðvitað að hafa forgang á okkar svæði.



[14:08]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir að koma hér upp. Þetta var kannski ekki alveg andsvar við ræðu mína, frekar athugasemd eða hugsanlega framhald á ræðu minni fremur en beint andsvar. Hann var í raun og veru ekki að andmæla því sem ég sagði. Ég get alveg tekið undir það sem hann sagði hér. Það eru fyllilega réttmætar og góðar athugasemdir varðandi orkuna sem framleidd er á Suðurlandi að eðlilegt sé að það verði skoðað mjög gaumgæfilega hvort landshlutinn geti ekki einmitt notfært sér þessa orku betur en gert hefur verið til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Mig langar þá til að nota tækifærið og spyrja hv. þm. Kjartan Ólafsson hvort hann hafi myndað sér skoðun á þeim hugmyndum sem ég varpaði hér upp um Búrfellsvirkjun, hvort honum þyki þá ekki eðlilegt að það sé skoðað að gera hreinlega samning við Landsvirkjun til lengri tíma um leiguafnot af svæðinu, að ríkið geri slíkan samning og að leigutekjum af þeim samningi verði síðan varið til góðra verka heima í héraði, þ.e. í nágrannahéruðum þessarar virkjunar, og heimamenn mundu þannig fá notið einhvers hluta af þeim tekjum sem munu sannarlega verða af þessari virkjun á næstu árum, því eins og málum er háttað í dag á að láta Landsvirkjun hafa þetta endurgjaldslaust. Það á ekkert að koma í staðinn, íbúar Suðurlands munu ekki eiga neitt í Landsvirkjun, það eru Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og síðan auðvitað ríkið. Það er kannski helst með óbeinum hætti í gegnum ríkið sem íbúar Suðurlands munu eiga aðgang að Landsvirkjun en þar fyrir utan á ég erfitt með að sjá að þeir peningar sem koma í kassann fyrir þessa virkjun verði Sunnlendingum svo mjög til góða.



[14:10]
Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi áðan að ég hefði fylgst með umræðunni en ekki kannski lagt mikið til hennar. Það er m.a. vegna þess að ég á sæti í hv. allsherjarnefnd þangað sem málinu verður vísað og þar mun ég taka þátt í umræðum og skoðanaskiptum sem þar verða uppi.

Ég get hins vegar alveg upplýst hv. þingmann um að mér finnst það skoðunarvert sem komið hefur fram í umræðunni í dag varðandi þann gerning sem verið er að leggja hér fyrir, að það sé ekki sjálfgefið að ríkið afsali sér landi og réttindum til Landsvirkjunar þar sem Landsvirkjun er einungis í 50% eigu ríkisins. Við eigum að gæta hagsmuna ríkisins og þarna erum við að afsala hluta af réttindum til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Mér finnst við þurfa að skoða það fyrst og fremst áður en við förum að velta því fyrir okkur í ræðustól hvar við eigum að dreifa gullinu sem kann að vera þarna. Ég er ekki tilbúinn að taka þá umræðu í þessum ræðustól að svo stöddu. Aðalatriðið er að við skoðum hvaða verðmæti eru þarna og hvort eðlilegt sé að þau fari með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.



[14:12]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að enda þótt hv. þingmaður eigi sæti í allsherjarnefnd hefði hann átt að koma hér upp og lýsa afstöðu sinni til þessa frumvarps eins og það liggur fyrir núna. Í störfum Alþingis skiptir verulegu máli þegar þingmenn koma upp í ræðustól að þeir lýsi afstöðu sinni til einstakra mála. Ræður eru hluti af lögskýringargögnum, þær hafa verið notaðar sem hluti af lögskýringargögnum til að mynda við úrskurði. (KÓ: Og nefndarálit.) Og nefndarálit að sjálfsögðu líka. Það skiptir þó nokkuð miklu máli að þingmenn komi upp og lýsi skoðun sinni og mér finnst að þingmenn Suðurkjördæmis hefðu átt að koma hér upp einn af öðrum og tjá sig um frumvarpið, því að ég tel að hér sé í raun og veru verið að takast á um grundvallarhagsmuni fólks í kjördæminu. Við erum að tala um auðlindanýtingu, nýtingu á algerum grundvallarauðlindum og það eru einmitt orkuauðlindirnar sem eru kannski helsta og dýrasta djásn Suðurlands. Framsýnir menn sáu það strax fyrir mörgum áratugum að orkan væri einmitt eitt af dýrustu djásnunum af mörgum djásnum Suðurlands. Einar Benediktsson var einn þeirra en það má líka nefna aðra merka menn eins og Jónas Jónsson frá Hriflu. Nóg um það, virðulegi forseti.

Ég fagna því samt þrátt fyrir þetta að hv. þm. Kjartan Ólafsson sé þó í allsherjarnefnd og vænti þess þá að hann taki þar málið föstum tökum og gæti hagsmuna umbjóðenda sinna, sem eru kjósendur á Suðurlandi, og að hér verði ekki gengið til verknaðar sem menn munu síðar sjá að hafi verið mikil mistök og mikil auðæfi verði kannski höfð af íbúum Suðurlands og það algerlega að ósekju.



[14:14]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Það hefur komið fram í umræðunni í dag að óbyggðanefnd hefur úrskurðað að ekki hafi verið heimilt að afsala þessu landi til Landsvirkjunar fyrir um 40 árum síðan. Mér þætti því eðlilegra, í staðinn fyrir að heimila hæstv. forsætisráðherra að gera það núna sem ekki mátti gera fyrir 40 árum síðan, að við skoðuðum þessi mál í rólegheitum. Ég vil reyndar setja alla varnagla við að þetta land og þessi réttindi séu lögð upp í hendurnar á fyrirtækinu Landsvirkjun.

Nú er það yfirlýst stefna formanns Sjálfstæðisflokksins, sem er hæstv. utanríkisráðherra um þessar mundir, að selja beri Landsvirkjun einhvern tíma í framtíðinni, í nánustu framtíð, og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Friðrik Sophusson, sem er núverandi forstjóri Landsvirkjunar, hefur einnig lýst þessum skoðunum sínum oft og ítarlega. Ekki síst þess vegna held ég að það sé í raun og veru mjög alvarlegt að ætla að gefa fyrirtækinu þessi réttindi og þetta land og síðan verði búinn til úr því peningur, vegna þess að við vitum alveg að ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga verður fyrirtækið selt og þá verður þetta land, sem er auðvitað verðmætt land og verður enn þá verðmætara í framtíðinni, selt með.

Í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur frumvarpsins er öflun lagaheimildar fyrir forsætisráðherra til að afsala tilteknum réttindum til Landsvirkjunar sem ætlun ríkisins var að leggja til fyrirtækisins við stofnun þess árið 1965, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti og Landmannaafrétti var framsal þessara réttinda þá byggt á vanheimild. Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á kostnað eða tekjur ríkissjóðs. “

Þarna vil ég leyfa mér að vera ósammála fjárlagaskrifstofunni vegna þess að ég held að þetta hafi einmitt áhrif á tekjur ríkissjóðs. Eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði áðan er auðvitað hægt að búa til alls kyns reglur um það, t.d. að leigja þetta land til Landsvirkjunar. Reyndar liggur nú fyrir iðnaðarnefnd mikið og skrýtið frumvarp um vatnalög og gerðar hafa verið margvíslegar athugasemdir við það frumvarp og vonandi verður það dregið til baka á þessu þingi. Þetta er auðvitað hluti af því.

Ég vona að allsherjarnefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og falli frá þessari heimild til hæstv. forsætisráðherra.