132. löggjafarþing — 65. fundur
 13. feb. 2006.
umræður utan dagskrár.

tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:36]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir að taka upp umræðu hér í dag við hæstv. forsætisráðherra um tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi. Svo árum skiptir hafa íslensk heimili greitt tugum prósentna hærra verð fyrir mat og aðrar nauðsynjavöru en nágrannar þeirra í Evrópu.

Í umræðunni eru ýmsar skýringar gefnar og sökudólgar dregnir fram. Reglan er sú að allir sverja af sér ábyrgðina og vísar hver á annan. Á síðustu missirum hafa verið birtar ítarlegar skýrslur sem gefa glöggar upplýsingar um hvað veldur háu matvælaverði hér á landi. Gegnum tíðina hefur landfræðileg lega landsins, flutningskostnaður, smæð markaðarins og skortur á samkeppni á mörgum mörkuðum verið notað sem skýring á háu matvælaverði. Þessar skýringar duga þó ekki lengur einar og sér. Miklar breytingar í verslunarumhverfi síðustu ára hafa dregið úr áhrifum þessa. Bætt hagstjórn, minni verðbólguþrýstingur og aukin samskipti við útlönd hafa leitt til þess að kerfisbundinn munur á verðlagi hér og erlendis fer minnkandi og er hverfandi í mörgum vöruflokkum.

Þetta á við um alla vöruflokka nema matvöru. Ég endurtek, nema matvöru. Kannanir síðustu ára hafa ítrekað sýnt um 40–50% hærra verð á matvöru hér á landi miðað við nágrannalönd okkar. Skýrslur Hagfræðistofnunar, Samkeppniseftirlitsins og fleiri aðila segja okkur að það er mikil einföldun að taka einhvern einn þátt út sem meginorsök hás matvælaverðs. Þannig er rangt að skella skuldinni t.d. á innflutningsgjöld eða fákeppni eingöngu. Sannleikurinn er sá að enginn, hvorki bændur, kaupmenn, birgjar né stjórnvöld, er stikkfrí þegar leitað er skýringa og lausna.

En hvað veldur háu matvælaverði hér á landi? Er það tollavernd og aðrar innflutningshömlur á búvörum?

Þótt opinber stuðningur við landbúnað á Íslandi hafi farið minnkandi er hann enn með því hæsta sem gerist. Einkum er um tollavernd að ræða. Hagfræðistofnun telur að lækka megi matarreikning landsmanna um 5–10% ef innflutningshömlum á landbúnaðarvörum yrði aflétt. Því til áréttingar má benda á að niðurfelling tolla á ákveðnar tegundir grænmetis lækkaði verð þess til neytenda um 15% á árinu 2002.

Er fákeppni á matvörumarkaði um að kenna?

Það er óumdeilt að mikil samþjöppun hefur átt sér stað á matvörumarkaði á síðustu árum. Nú bera þrjár matvörukeðjur höfuð og herðar yfir aðra smásala og hafa samanlagt 89% af markaðnum sem er helmingi hærri hlutdeild en þrjár stærstu keðjurnar höfðu fyrir 10 árum. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort samhengi sé milli aukinnar fákeppni á matvörumarkaði og meiri hækkunar matvælaverðs hér á landi á síðustu árum en annars staðar á Norðurlöndunum, eins og hefur komið fram í skýrslu Hagfræðistofnunar. Yfirlýsingar Samkeppniseftirlitsins í kjölfar samnorrænnar skýrslu, sem birt var í desember sl., um aukið eftirlit vegna fákeppni á matvörumarkaði gefur vonir. Hins vegar verða stjórnvöld að meta hverju sinni hvort þau ráða yfir nægum heimildum til að hafa hemil á fákeppni á þessum markaði.

Skýrir lega landsins og flutningskostnaður matvöruverð?

Hagfræðistofnun telur í skýrslu sinni að þessir þættir skýri ekki nema hluta verðmunar á Íslandi og annars staðar.

Eru skattar á matvöru hærri hér á landi en annars staðar?

Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar virðast vörugjöld og önnur skattlagning ekki skipta sköpum um mun á verðlagi hér á landi og í grannlöndum. Heildarskatttekjur sem hluti af landsframleiðslu eru lægri hér á landi en að meðaltali í Vestur-Evrópu. Hins vegar er virðisaukaskattur á matvæli nokkru hærri en í öðrum löndum. Óhjákvæmilegt er að líta til þess að lækkun virðisaukaskatts á ýmsar matvörur á 10. áratugnum leiddi til 5% lækkunar matvöruverðs í landinu. Hins vegar verður að benda á að haldbær hagfræðileg rök hafi verið færð fyrir því að lækkun virðisaukaskatts á matvæli muni ekki skila sér í samsvarandi lækkun matvöruverðs á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er ljóst af þeim gögnum um matvælamarkaðinn sem fyrir liggja að stjórnvaldsákvarðanir skipta verulegu máli varðandi lækkun matvælaverðs. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að samþjöppun á matvörumarkaði undir merkjum hagræðingar og magninnkaupa og styrking krónunnar hefur ekki skilað sér í lækkuðu matvælaverði til almennings. Því verður að leggja ríka áherslu á hlutverk samkeppnisyfirvalda og almennings til að skapa þeim aðhald sem starfa við matvöruframleiðslu, innflutning og smásölu.



[15:41]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli en það var einmitt um miðjan desember sl. sem Samkeppniseftirlitið gaf út samnorræna skýrslu um þessi mál þar sem fram kom að verð á matvöru á Íslandi væri rúmlega 40% hærra en í löndum Evrópusambandsins. Síðan var sagt í upphafi þessarar skýrslu að innflutningshömlur á búvörum virtust vera helsta ástæðan. Þessi skýrsla hefur valdið verulegum umræðum hér á landi um ástæður fyrir háu matvælaverði og því sá ég ástæðu, af þessum ástæðum og mörgum öðrum, til að skipa sérstaka nefnd þar sem saman kæmu fulltrúar stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, samtaka bænda og Samtaka atvinnulífsins til að fara yfir þessa þætti, fjalla um helstu orsakaþætti matvælaverðsins og gera tillögur um hvernig ráða megi bót á því.

Nú liggur fyrir heilmikið efni um þessi mál, eins og hv. þingmaður tók fram. Bæði liggur fyrir þessi samnorræna skýrsla og skýrsla frá Hagfræðistofnuninni um samanburð á matvælaverði á Íslandi, Norðurlöndunum og í Evrópusambandinu. Einnig liggur fyrir skýrsla Rannsóknarseturs verslunarinnar um skattlagningu vöru og þjónustu á Íslandi. Ég er sammála hv. þingmanni að hér er um flókið samspil að ræða en fyrir þessu háa matvælaverði eru margar ástæður. Ég tel hins vegar mikilvægt að þeir aðilar sem einkum hafa fjallað um þetta mál komi saman og fjalli um það í þeirri nefnd sem ég skipaði vegna þess að fram hafa komið ólík sjónarmið hjá þessum aðilum. Það er alveg ljóst að einn þáttur ræður þar miklu, þ.e. samkeppnisumhverfið. Það kemur fram hjá Samkeppniseftirlitinu að það hyggist leggja ríka áherslu á eftirlit með samkeppnisháttum á matvörumarkaði á næstunni, og er það vel. Það er líka ljóst að reglur um innflutning á landbúnaðarvörum, bæði tollar og innflutningshöft, skipta þarna allmiklu máli. Þar hefur orðið veruleg breyting á undanförnum árum, og meiri breytingar fyrirsjáanlegar í nánustu framtíð. Það er mikilvægt að vel takist til við þær breytingar, bæði vegna hagsmuna bænda og jafnframt vegna hagsmuna neytenda landsins.

Vörugjöld eru há hér á landi og það er enginn vafi á því að þau skekkja samkeppnisstöðu atvinnugreina hér á landi og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að gera breytingar á vörugjöldum. Hvernig það skilar sér síðan í lægra matvöruverði vil ég ekki fullyrða um á þessu stigi en það er eitt af því sem þessi nefnd þarf að fara yfir.

Loks er að nefna aðra skattlagningu ríkisvaldsins, þá fyrst og fremst virðisaukaskattinn. Það má ætla að lækkun á virðisaukaskatti skili sér í lægra matvöruverði en hins vegar óttast margir að vegna þeirrar þenslu sem er almennt í þjóðfélaginu og mikillar eftirspurnar þar muni sú lækkun ekki skila sér í þeim mæli sem menn gætu annars reiknað með, þ.e. að lækkunin skili sér ekki öll til neytenda, heldur fari hún jafnframt til þeirra sem versla með vöruna.

Allt eru þetta þættir sem skipta miklu máli. Sú nefnd sem ég nefndi hefur þegar tekið til starfa. Hún var skipuð í upphafi árs og hélt sinn fyrsta fund 13. janúar, annan hinn 9. febrúar og mun síðan halda sinn næsta fund 16. febrúar. Ég vænti góðs af þessu nefndarstarfi og vonast eftir að nefndin skili tillögum um það hvernig hægt sé að standa að því að lækka matvælaverð þannig að það verði síðan tillögur sem ríkisstjórn og Alþingi geti tekið afstöðu til.



[15:46]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Undanfarin missiri hefur Samfylkingin með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur verið í fararbroddi í umræðu um lækkun matvælaverðs á Íslandi. Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir skýrslum um málið og lagt fram þingmál á Alþingi sem lúta að lækkun matvælaverðs. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar fellt þær tillögur. Samfylkingin hefur sömuleiðis ítrekað lagt fram tillögur um að efla Samkeppniseftirlitið en stjórnarflokkarnir hafa sömuleiðis fellt þær tillögur.

Kjarni málsins er að lækkun matvælaverðs hefur ekki verið forgangsmál Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins. Þessir flokkar hafa fengið næg tækifæri til að lækka matvælaverðið en þeir hafa beinlínis kosið gegn slíkum tillögum. Eina útspil ríkisstjórnarinnar í þessu máli er að skipa nefnd til að kanna matvælaverðið. Það virðist hafa farið fram hjá stjórnarherrunum að fjölmargar nefndir hafa skilað tillögum undanfarin missiri um leiðir til að lækka matvælaverð. Það þarf bara að framkvæma þær. Þessar leiðir virðast því öllum ljósar nema ríkisstjórnarflokkunum sem nú vilja setja vandamálið í nefnd.

Tekjuöflun ríkissjóðs vegna matvæla með tollum og vörugjöldum á matvæli ásamt skattlagningu matvæla í 14% þrep í stað 7% eykur álögur á almenning vegna matvælakaupa um 11 milljarða kr. Þessi forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna hækkar því matarreikning íslenskra fjölskyldna um 160 þús. kr. á ári. Það er ekki náttúrulögmál að hafa eitt hæsta matvælaverð í heimi á Íslandi en ríkisstjórnin hefur margs konar leiðir til að lækka matarreikning landsmanna. Ef ríkisstjórnin hefur raunverulegan áhuga á því að stuðla að lægra matvælaverði ætti hún að endurskoða vörugjöld og tolla og helst afnema með öllu, lækka virðisaukaskatt af matvælum eins og Samfylkingin hefur ítrekað lagt til hér á þingi, auka samkeppniseftirlit en ekki greiða atkvæði gegn fjárveitingum til þess eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert og síðan eigum við að draga úr innflutningshömlum.

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið aðra (Forseti hringir.) leið. Hún skipaði nefnd.



[15:49]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg. Það er stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur, fyrir landsmenn alla, að ná vöruverði niður og ekki síst launafólk á lágum launum.

Ég tel að við þurfum að hafa þrennt í huga. Við eigum ekki að einblína bara á vöruverðið, við eigum að horfa til hollustu- og manneldissjónarmiða. Þannig væri ekki eftirsóknarvert að flytja inn til landsins ruslmat á lágu verði. Í öðru lagi á að horfa til innlendra hagsmuna, byggðasjónarmiða, hagsmuna bændastéttarinnar og þeirra þúsunda sem starfa í íslenskri matvælaframleiðslu. Þetta tengist fyrra atriðinu, manneldis- og hollustuháttum, vegna þess að íslensk landbúnaðarframleiðsla er mjög heilnæm og góð.

Í þriðja lagi er mikilvægt að horfa heildstætt á málin. Hér vísa ég í mjög vandaða vinnu Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtakanna, en hún hefur greint matvælamarkaðinn vel, skiptingu á milli innfluttrar vöru og innlendrar framleiðslu og hvernig verðþróunin hefur orðið hér á landi. Þá hefur komið fram í þessum rannsóknum að innflutt vara sem er ekki með tolla, korn og brauð, er 67% dýrari hér en í Evrópu. Hvernig stendur á þessu? Hér er ekki tollunum til að dreifa. Ef við værum með sömu tolla og Evrópusambandið á sykri, sem er tollfrjáls hingað, væri sykurinn hér miklu dýrari.

Við eigum að forðast alhæfingar og ég tek undir með hv. frummælanda, Ástu Möller, að það er ekkert eitt sem veldur hér hærra vöruverði. Við eigum að horfa á alla þættina, samþjöppun hér á matvælamarkaði, vissulega tollana og við eigum að horfa til neytendaverndar. Ég fagna því fyrir mitt leyti að sett hafi verið niður nefnd (Forseti hringir.) á vegum forsætisráðuneytisins til þess að fara í saumana á þessu máli. Ég bind vonir við að eitthvað vitrænt komi út úr þeirri vinnu.



[15:51]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Íslensk matvæli eru dýrari en matvæli annars staðar. Svo var að heyra á máli frummælanda að það mætti rekja að mestu til innflutningshafta en ég vil leggja mikla áherslu á það í allri umræðu um matvælaverð að íslenskur landbúnaður skiptir verulega miklu máli. Við heyrum það skýrt í fréttum þessa dagana, t.d. kemur fuglaflensa niður í hverju landinu á fætur öðru. Fyrir nokkrum missirum herjaði kúariða á heimsbyggðina þannig að við megum ekki fórna þessum hagsmunum fyrir lægra matvælaverð um stundarsakir.

Einnig vil ég nefna að það þarf að fara yfir landbúnaðarkerfið. Þetta er miðstýrt kerfi sem þarf að taka til í. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur því miður stuðlað að því að gera kerfið dýrara, t.d. með því að gera slátrun fjár dýrari en hún þyrfti að vera með því að taka upp evrópskar reglur sem engin þörf var fyrir. Einnig má gagnrýna styrkjakerfið í mjólkuriðnaðinum, það má færa rök fyrir því að styrkirnir sem skattgreiðendur greiða renni út úr greininni í miklum mæli.

Ég vonast svo sannarlega til þess, frú forseti, að þessi nefndarskipun skili einhverju betra af sér, þessi nefnd sem hæstv. forsætisráðherra hleypti af stokkunum fyrir nokkrum mánuðum. Við höfum séð að markmið þeirra nefnda sem þessi ríkisstjórn hefur skipað hafa oft verið meira að drepa málum á dreif en að finna lausn á vandanum. Við sjáum t.d. þegar settar eru nefndir um fiskveiðistjórn, byggðamál, að ekkert kemur út úr þeim.

Ég er á því að neytendur eigi heimtingu á því að eitthvað komi út úr þessu nefndarstarfi, frú forseti.



[15:53]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég var dálítið undrandi á því að heyra talsmann Samfylkingarinnar hér áðan, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, bregðast svona neikvætt við nefndarskipun forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Ég hefði haldið að flokkur umræðu- og samræðustjórnmála væri því afar fylgjandi að fara þá leið til að ná niðurstöðu í þessu máli sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um að sé æskilegt markmið.

Ef við skoðum skýringar á háu matvælaverði hér á landi held ég að þær séu að einhverju leyti náttúrulegar. Við erum með smærri markað en víða, við erum með ákveðna fjarlægð frá löndum í kringum okkur, við erum hugsanlega með verri aðstæður til ýmiss konar landbúnaðarframleiðslu en aðrir. En það er alveg rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að þetta skýrir stöðuna ekki nema að hluta. Við vitum að á þessu sviði skipta opinberar samkeppnishömlur ákveðnu máli, bæði innflutningsvernd með tollmúrum, samkeppnishömlur sem lúta að landbúnaðinum sjálfum og gera það að verkum að ekki gilda sömu lögmál í landbúnaðinum og í flestum öðrum atvinnugreinum. Það skiptir líka máli, eins og komið hefur fram, að hér eru ýmiss konar skattar lagðir á matvæli sem hækka vöruverðið og það skiptir enn fremur máli að hér er fákeppni á markaðnum sem gerir það að verkum að lögmál markaðarins njóta sín ekki eins og ella væri.

Ég held að það sé ástæða til að fagna því sem fram hefur komið, bæði af hálfu hæstv. forsætisráðherra hér áðan og raunar áður af hálfu bæði hæstv. fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, að ástæða sé til að endurskoða vörugjaldaþáttinn sérstaklega. Ég bendi líka á virðisaukaskattinn því að ýmsar matvörur lenda í efra þrepi virðisaukaskatts og auðvitað hefur það áhrif á verð til neytenda.

Síðan er afar mikilvægt (Forseti hringir.) að við skoðum hinar opinberu samkeppnishömlur með það að markmiði að sömu lögmál gildi í þessari atvinnugrein og öðrum.



[15:56]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Í umræðunni um matvælaverð á Íslandi hefur m.a. verið lagt út frá samanburði á matvælaverði hér á landi og í öðrum löndum. Í því sambandi hefur verið talað um svonefnt Evrópuverð á matvælum sem sé mun hagstæðara verðlag en verðlag hér á landi. En hvað er þetta Evrópuverð á matvælum? Það liggur fyrir að innan Evrópusambandsins er matvælaverð mjög mismunandi. Til dæmis er matvælaverð í Danmörku mun hærra en í Suður-Evrópu, t.d. á Spáni. Það er því óljóst hvað átt er við þegar rætt er um Evrópuverð á matvælum.

Í umræðunni er íslenskur landbúnaður gjarnan blóraböggull, talað um að landbúnaðarkerfið, tollar og innflutningsreglur séu með þeim hætti að landbúnaðarvörur séu á hærra verði hér og það sé meginorsök þess að aðrar vörur séu það líka. Þetta er að miklu leyti rangt því að mikið af landbúnaðarafurðum er flutt inn til landsins án tolla og takmarkana en er samt sem áður dýrara hér en annars staðar. Það væri fróðlegt að heyra skýringar verslunarinnar á þessum verðmun.

Íslenskur landbúnaður hefur gengið í gegnum miklar breytingar. Um er að ræða aðlögun að gerbreyttum aðstæðum frá fyrri tíð til mun frjálsari viðskiptahátta en áður. Vegna alþjóðlegra viðskiptasamninga mun samkeppni frá erlendum landbúnaðarvörum aukast og er unnið að aðlögun að þeim breytingum. Til framtíðar litið verður slík aðlögun að eiga sér stað, innlend framleiðsla er okkur mikilvæg og hún er ein forsenda matvælaöryggis og þess að við séum sjálfstæð þjóð.

Mikið hefur farið fyrir umræðu um að lækka beri virðisaukaskatt á matvæli. Vissulega er það leið en slíkt yrði að skoða vandlega til að tryggja að smásöluverð á matvælum lækkaði til neytenda en lenti ekki í vasa verslunarinnar.

Virðulegi forseti. Verðlag á matvælum endurspeglar að miklu leyti kaupgetu almennings í hverju landi. Það sýnir tölfræðin, m.a. í samanburði Evrópusambandslandanna. Ég tel að mikil kaupgeta hér á landi almennt sé einn mesti áhrifavaldur verðlags hér á landi. Getur ekki verið að það sé m.a. ein ástæða þess að landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn frjálst og án tolla eru seldar á hærra verði hér en víða annars staðar?



[15:58]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi það úr ræðustól áðan að hann furðaði sig á því að Samfylkingin væri ekki hrifin af nefndarskipan þar sem við værum svo mikið fyrir samræðustjórnmál. En markmiðið með samræðustjórnmálum hjá Samfylkingunni er að ná niðurstöðu og láta verkin tala eftir að hafa talað saman. Það er það sem við höfum verið að gera á undanförnum vikum og mánuðum. Hvað varðar þær niðurstöður, þær fjölmörgu niðurstöður, sem hafa fengist úr nefndarstarfi undanfarin ár um matvælaverðið. Við höfum lagt vinnu í að útfæra tillögur okkar til úrbóta. Þannig er það með samræðustjórnmálin en hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei komist á það stig að láta verkin tala í þessum málum.

Það er alveg hárrétt sem kom hér fram hjá hv. málshefjanda, og ég þakka henni innilega fyrir að taka þetta upp hér á þingi, að það er enginn, eins og hv. frummælandi nefndi það, stikkfrí þegar um er að ræða verð á matvörum. Stjórnvaldsákvarðanir skipta hins vegar verulegu máli og við höfum skýrslur til að byggja á. Við höfum skýrslur frá Hagfræðistofnun og við höfum núna skýrslu sem Samkeppniseftirlitið vann og skilaði 15. desember eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan. Það var samnorrænt verkefni. Af hverju? Vegna þess að Norðurlöndin öll eru með hærra matvöruverð en gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Það er kominn tími til að taka á því og þá er skipaður samstarfshópur sem nær sameiginlegri niðurstöðu. Hvað á að gera við þessar niðurstöður? Setja þær í nefnd, eina nefndina enn, þegar við getum tekið á tollum, vörugjöldum og virðisaukaskattinum? Við getum eflt Samkeppniseftirlitið svo að samþjöppun á markaði verði ekki eins mikil og hún er. Það er staðreynd að hún er ekki bara í smásölunni, heldur líka hjá þeim sem sjá um innkaupin. Við verðum að efla eftirlitið og láta verkin tala.



[16:00]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil, eins og aðrir þingmenn, þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta mál hér upp um matvælaverð. Hún nefndi nokkra þætti sem þar hefðu áhrif og spurði eftirfarandi spurningar: Hvar getur hið opinbera komið inn?

Ég vil aðeins nefna einn þátt, sem hún kom einmitt inn á, það eru samkeppnismálin og fákeppnin. Það hlýtur að vekja upp margar spurningar að tveir eða þrír aðilar eru komnir með meginhluta af allri smásölu og reyndar heildsölu á þessum vörum í landinu. Ég spyr: Er ekki kominn tími til að sett sé hámark á það hvað hver aðili má fara með stóran hluta af umsvifum eins og þessum í samfélaginu? Maður getur spurt sig: Hverjum þjónar það t.d. þegar Hagar, móðurfyrirtæki sem er í eigu Baugs og rekur m.a. Bónus, Hagkaup, 10–11 og fleiri verslanir, fóru í verðstríð við sjálfa sig, ef svo má segja, eða örfáa aðila fyrir áramótin og segjast hafa tapað á því 700 millj. kr.? Jú, með því að selja mjólkurlítrann á krónu o.s.frv.

Hver græðir á slíkum vinnubrögðum? Jú, það er hægt að drepa einhverja en þegar upp er staðið er þetta háttalag ekki hagur fyrir öfluga matvöruverlsun í landinu. Þess vegna tel ég mjög koma til greina að banna „dumping“ svokallað, þegar vörur eru seldar langtímum saman undir framleiðslukostnaðarverði. Tökum kjötstríðið hér fyrir nokkru síðan. Það á ekki að leyfa t.d. að fjármálastofnun, banki, eigi kjötframleiðslufyrirtæki, jafnvel sláturhús, og sé svo með allt í viðskiptum og ráði þess vegna verði og geti dumpað verði á kjöti á markaðnum eins og gerðist á sínum tíma með svínakjötið.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram frumvarp sem takmarkar slíkt og gerir það óheimilt. Það er hægt að koma að þessum málum á mörgum sviðum, frú forseti.



[16:02]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hefur farið fram hér í dag um matvælaverð á Íslandi. Það hefur verið gagnrýnt af sumum þingmönnum, sérstaklega hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, að forsætisráðherra hafi skipað nefnd til þess að gera tillögur um hvernig megi standa að lækkun matvælaverðs hér á Íslandi. Það hefur jafnframt komið fram að margar skýrslur liggja fyrir. Velflestar þessara skýrslna koma með tillögur sem jafnvel stangast á þannig að það er hárrétt ákvörðun hjá hæstv. forsætisráðherra að skipa nefnd til þess að fara yfir þessar tillögur og koma með uppástungur um hvernig á að taka á þessu máli.

Í fyrri ræðu minni ræddi ég um hin ýmsu tæki sem stjórnvöld hafa til þess að hafa áhrif á lækkun matvælaverðs hér á landi. Að mínu mati eru veigamestu tækin þau sem fela í sér lækkun á tollum og vörugjöldum á matvörum og aðgerðir til þess að bregðast við fákeppni á markaði. Það er staðreynd að afnám tolla á grænmeti, sem var ákvörðun stjórnvalda árið 2002, leiddi til 15% lækkunar á grænmetisverði á þessum tegundum. Slíkar ákvarðanir eru á valdi stjórnvalda.

Fákeppni á matvörumarkaði er staðreynd. Það kallar á aukið eftirlit samkeppnisyfirvalda og almennings. Það er eftirtektarvert að á sama tíma og verð á mörgum vörutegundum hefur færst til samræmis við verð í öðrum löndum er matvælaverð stöðugt 40–50% hærra hér á landi en annars staðar.

Mörgum knýjandi spurningum er ósvarað. Við hljótum t.d. að spyrja okkur hvers vegna sterk staða krónunnar, fækkun milliliða, bein kaup smásala á vörum frá útlöndum, sterkari staða smásala gagnvart birgjum og hagkvæmni stærðarinnar með sameiningu matvörukeðja á síðustu árum hefur ekki skilað sér í lækkuðu matvælaverði. Mér sýnist óhjákvæmilegt að spyrja hvort samþjöppun á matvælamarkaði hafi unnið gegn hagsmunum neytenda. Við hljótum jafnframt að spyrja hvers vegna verðlag á vörum eins og korni, brauðvörum, sem ekki njóta tollverndar, er tugum prósenta hærra hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því að verð á sykri og gosi er svo miklu hærra hér á landi en annars staðar og hið sama á við um kaffi, te og kakó.

Að lokum vildi ég gjarnan fá að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort nefndin hafi einhver tímamörk.



[16:05]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Út af þessari síðustu spurningu sem kom frá hv. þingmanni þá er nefndin að skoða og útbúa verk- og tímaáætlun. Ég vænti þess að nefndin geti skilað áliti sínu síðar á þessu ári. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að tillögur frá henni gætu legið fyrir næsta haust og ég vænti þess að svo verði.

En út af þeirri umræðu sem fer fram um matvælaverð hér á landi — þó að það sé rétt að það sé almennt hærra en við skulum segja t.d. í Suður-Evrópu — þá eyðir íslenska fjölskyldan lægra hlutfalli af sínum ráðstöfunartekjum til matvælainnkaupa en t.d. fjölskyldur í Suður-Evrópu. Á árinu 2004 var það liðlega 16% hér á landi en í landi eins og Spáni, þar sem matvælaverð er mun lægra, er hlutfallið mun hærra. Það er nú þannig að velmeguninni fylgir hærra verðlag og það á bæði við um Ísland og Noreg. Í Noregi er matvælaverð mun hærra en annars staðar, en við skulum hafa í huga að Noregur og Ísland hafa trónað í efstu sætunum yfir velmegun í heiminum.

Það er líka misskilningur að framlög til landbúnaðarmála hér á landi séu miklu hærri en almennt gerist. Það er rétt að hafa í huga að á árinu 1990 voru framlög til landbúnaðarmála 8,6% af fjárlögum en á árinu 2003 voru framlög til landbúnaðarmála 3,8%. Þau hafa farið mjög lækkandi á undanförnum árum og áratug og eru nú ekki almennt hærri en gengur og gerist í öðrum löndum í kringum okkur.