132. löggjafarþing — 65. fundur
 13. feb. 2006.
stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar, fyrri umræða.
þáltill. KolH o.fl., 56. mál. — Þskj. 56.

[17:52]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hingað er ég mætt öðru sinni í dag með mál af allt öðrum toga. Nú ætla ég að mæla fyrir þingsályktunartillögu, sem ég hef reyndar mælt fyrir áður líka, um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar. Þessi tillaga er flutt af þingmönnum sem eiga sæti í umhverfisnefnd — ég verð að biðja starfsmenn þingsins að hjálpa mér, ég sé að ég er með þingskjalið frá því í fyrra, og rétta mér tillöguna eins og hún er á gildandi þingskjali, sem er nr. 56. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn umhverfisnefndar Alþingis: Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Það er sem sagt einn úr hverjum flokki þannig að ég hefði haldið að hér værum við með mál í höndunum sem gulltryggt væri að kæmist í gegn á þessu þingi. Ég ætla að hefja mál mitt á því að segja að ég óska svo sannarlega að þær vonir mínar rætist.

Hér er um að ræða tillögu þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, Samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar yrði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði samkvæmt tillögunni sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skuli tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skuli gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli.

Síðan er hér lokamálsgrein tillögunnar um að samgönguráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar.

Ef við gerum ráð fyrir því að tillagan verði samþykkt hér í vor þá held ég að hjólreiðamenn geti farið að hlakka til að frumvarp á grundvelli hennar verði þá mögulega lagt fram vorið 2007.

Eins og fram kom í máli mínu áðan hef ég lagt þessa tillögu fram áður með öðrum þingmönnum. Nokkur fjöldi þingmanna hefur nú þegar komið að því að flytja þetta mál með mér. Við höfum líka sent það út til umsagnar. Það voru einir ellefu aðilar sem sendu okkur umsagnir á sínum tíma um tillöguna. Það var Árvekni, átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, það var Eyþing, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Landssamtök hjólreiðamanna, Landvernd, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðarráð og Umferðarstofa. Allir hafa þessir aðilar sent inn umsagnir og þær voru vægast sagt, herra forseti, afar jákvæðar. Lýst var öflugum stuðningi við efni tillögunnar, auk þess sem fróðlegar upplýsingar komu fram í umsögnunum, t.d. í umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbsins, en þessi samtök hafa verið iðin við að skrifa um málefnið. Tillagan hefur fengið stuðning í blaðagreinum. Fjallað hefur verið um hana í Hjólhestinum, fréttabréfi Íslenska fjallahjólaklúbbsins, og við höfum mátt lesa fróðleik frá Landssamtökum hjólreiðamanna t.d. í athugasemdum sem okkur hafa borist hér á Alþingi við umferðaröryggisáætlunina sem við samþykktum og á að gilda frá 2002–2012.

Mér finnst mikilvægt að það komi fram hér, eins og sagt er í greinargerð, að þessi tillaga styðst við hugmyndafræði um sjálfbærar samgöngur en slík hugmyndafræði byggist á því að samgöngur taki mið af markmiðum um sjálfbæra þróun, og að við alla áætlunargerð sé megináhersla lögð á að leita leiða til að halda neikvæðum þáttum samgangna í lágmarki.

Nú vitum við sem búum hér í borginni að þeir gerast æ fleiri dagarnir á hverju ári þar sem svifryksmengun er yfir leyfilegum mörkum, þ.e. yfir mörkum sem heilsufar einstaklinga er talið þola. Það er því algjörlega ljóst að við verðum að grípa til einhverra aðgerða. Ef okkur tekst að fjölga hjólandi vegfarendum í umferðinni verður það til þess að draga úr svifryksmenguninni og þar með að auka loftgæði allra borgarbúa. Við erum jú sú höfuðborg á norðurhveli jarðar sem státar sig af hreinu lofti, en það er þannig að loftgæðin hér í Reykjavíkurborg eru í vetrarstillum yfir hættumörkum. Þessu verðum við að breyta og það er sameiginleg ábyrgð okkar að það verði gert. Ég tel best að gera það með því að opna leiðir fyrir hjólreiðafólk svo hægt sé að nota hjólið sem samgöngutæki en ekki einvörðungu sem útivistartæki eins og nú er. Við vitum öll að Reykjavíkurborg og reyndar sveitarfélögin hér í nágrenninu hafa verið að leggja útivistarstíga sem ekki eru endilega til þess fallnir að hjólreiðafólk geti valið sér stystu mögulegu leið á milli staða a og b. Hjólreiðastígarnir liggja jafngjarnan í úthverfum eða útjaðri sveitarfélaganna en eru ekki samhliða umferðaræðum t.d. Ef við eigum að gera hjólreiðafólki það kleift að nýta samgöngutækið sem það kýs sér á eins skilvirkan hátt og mögulegt er verðum við að heimila fólki að fara stystu leiðir á milli staða.

Hjólreiðafólk á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig átt við þann vanda að glíma að þéttbýlisstaðirnir hér á svæðinu eru ekki tengdir með hjólastígum. Það er á ábyrgð ríkisvaldsins að stofnbrautir séu lagðar í gegnum þéttbýlisstaði og við höfum skilgreindar stofnbrautir í þéttbýli hér á höfuðborgarsvæðinu en þess hefur ekki verið gætt að hjólreiðastígar eða hjólreiðabrautir fylgdu þeim stofnbrautum. Ef stjórnvöld meina eitthvað með þeim yfirlýsingum sem fram koma í gildandi samgönguáætlun um það að auka beri hlut sjálfbærra samgangna í kerfinu sem heild verðum við að gera hér bragarbót, það er alveg ljóst. Sú bragarbót felst í því að búa til stofnbrautakerfi sem gerir líka ráð fyrir hjólinu.

Eins og lesa má í þessari greinargerð, forseti, og ég hef svo sem vikið að hér í ræðum oftar en einu sinni áður, er ljóst að við Íslendingar erum eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Norðurlandaþjóðirnar hafa staðið sig mjög vel í því að gera hjólið að gildandi samgöngutæki í umferðinni. Þær hafa skapað samfelld grunnkerfi fyrir hjólreiðarnar sínar. Þetta er til fyrirmyndar og þarna eru módel sem er auðvelt að horfa til og líta á með tilliti til eftirbreytni.

Þess má geta að samgönguráðherrar í Evrópusambandsríkjunum hafa samþykkt áætlun sem miðar að því að tekið verði tillit til sjónarmiða umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar í stefnu í samgöngumálum almennt. Einnig má geta þess að almenningssamgöngurnar — sem við höfum svo sem ekki getað innleitt hér í þeim mæli sem ég hefði óskað, og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gjarnan talað fyrir — eru einn hluti í þessu samgöngukerfi sem við þurfum líka að taka til alvarlegrar skoðunar. Auðvitað þarf að leggja áherslu á fjölþættar og samsettar samgöngur í borgum. Okkur ber skylda til samkvæmt alþjóðlegum samningum að tryggja að samgönguhættir okkar mengi minna en þeir hafa gert hingað til þannig að hér er kjörið tækifæri. Setjum hjólreiðastígana í vegalögin, gerum hjólreiðarnar að alvöru valkosti og tryggjum loftgæði þeirra borgarbúa sem um göturnar fara á þann hátt að við aukum vægi hjólsins í umferðinni.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þessa tillögu hér og nú. Ég ítreka að ég hef fengið afar jákvæð viðbrögð við henni og við flutningsmenn hennar, m.a. á umhverfisþingi hæstv. umhverfisráðherra sem haldið var fyrir ekki margt löngu hér í Reykjavík. Ég treysti því að nú sé jarðvegurinn frjór og lítið annað að gera en að samþykkja þetta. Ég treysti því að unnin verði áætlun um það hvernig við komum hjólreiðastígunum okkar inn í vegalög svo að tryggja megi að ábyrgðin af því að slíkar hjólreiðabrautir verði lagðar sé á herðum ríkisvaldsins, og síðan geta sveitarfélögin með öflugum hætti prjónað sína stíga saman við það kerfi sem þannig yrði til.



[18:02]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar. Það er afar ánægjulegt að þetta mál sé á dagskrá og ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, að vonandi er jarðvegur núna fyrir því að málið fari hratt í gegn. Enda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nú verði skipuð nefnd til að undirbúa áætlun um lagabreytingar sem gerir ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór einmitt vel yfir það áðan að búið er að fá umsagnir frá félagasamtökum og aðilum sem tengjast þessu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Landvernd, Umferðarráði, Landsbjörgu og Umferðarstofu og fleirum. Umsagnirnar voru afar jákvæðar og lýstu yfir öflugum stuðningi við efni tillögunnar. Auk þess hefur verið tekið tillit til fróðlegra upplýsinga sem komu frá t.d. Landssamtökum hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbnum.

Mikil vakning hefur verið hér á landi á síðustu árum í hjólreiðum. Hjólreiðafólki og hjólum hefur fjölgað mjög mikið. Það er ánægjulegt. Hluti af hjólreiðafólki lítur fyrst og fremst á þetta sem útivistartæki, fyrir líkamsrækt og íþróttir. En sá hópur sem lítur á þetta sem samgöngutæki er alltaf að stækka. Ef stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar kæmist á má leiða líkur að því að þeir sem munu nota reiðhjólið sem alvörusamgöngutæki muni fjölga mjög.

Við höfum dæmi um það frá löndum eins og Hollandi og Danmörku þar sem sýn okkar af landinu er þannig að mjög margir nota reiðhjólið sem góðan flutningsmáta. Ég þekki það frá Þýskalandi, þar sem ég var búsettur í átta ár, að fjölmargir þar nota reiðhjól og það fer ekki endilega eftir veðurfari eða landslagi. Margir halda að reiðhjól geti aldrei orðið alvörusamgöngumáti vegna þess að hér sé vindasamt og rigning eða brekkur miklar. Í rauninni eru það engar hömlur gagnvart reiðhjólum í dag og gildir að búa sig vel og almennilega. Reyndar er það svo að í mörgum borgum er kostur að hafa reiðhjólið. Maður kemst hraðar á milli staða á reiðhjólinu en með bíl, t.d. á háannatímum, vegna þess að leiðirnar eru oft styttri. Miklu einfaldara er að gera reiðhjólastíga í undirgöngum en meðfram heilu götunum og mörg dæmi eru um að hægt sé að fara styttri og einfaldari leiðir á reiðhjólunum. Þetta er einnig ódýrara í sambandi við uppbyggingu vegakerfisins.

Talað hefur verið um að flutningur um göturnar sé að aukast, en umrætt stofnbrautakerfi gæti verið liður í að draga úr notkun einkabílanna. Ég sé það fyrir mér að fólki gæti fjölgað mjög sem fer að hjóla til vinnu. Við sjáum bara hvað hefur gerst hérna sem betur fer á síðustu árum innan höfuðborgarsvæðisins. En betur má ef duga skal. Það er vissulega kominn vísir að hjólreiðaleiðum sem stytta leiðir og gera hlutina einfaldari. En það vantar heildstæða sýn í þessum málum. Það vantar að sveitarfélögin vinni saman og ríkið komi með það á dagskrá að Vegagerðin taki mið af hjólreiðamönnum nákvæmlega eins og allt er nú miðað við bíla.

Ég held að þetta sé þróun sem við getum ýtt á eftir og tekið þátt í að skapa. Að hjólreiðar verði viðurkenndur og fullgildur kostur í samgöngumálum og, eins og segir í greinargerð, að fyrst þá verður stefnan á sjálfbærar samgöngur trúverðug.



[18:08]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað, hv. þingmönnum, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Hlyni Hallssyni, sem hafa flutt ágætisræður. Ég vonast samt til að sá ágæti þingmaður, Hlynur Hallsson, fari að muna hvað ég heiti þegar fram líða stundir en hann hefur tilhneigingu til að fara rangt með föðurnafn mitt. Ég í það minnsta hafði ekki hugmynd um að ég væri Þorvaldsson fyrr en hv. þingmaður upplýsti það áðan. Ég býst fastlega við því að hann hafi þá eitthvað ruglast á mér og ágætismanni sem var áberandi í þjóðlífinu fyrir nokkrum áratugum. Sem er nú synd, vegna þess að ég var í menntaskóla með hv. þm. Hlyni Hallssyni og mér finnst að hann eigi að muna nafnið mitt. En það kemur örugglega þegar fram líða stundir.

En hvað sem því líður, það er ekki efni máls heldur er ánægjulegt að sjá þessa þingsályktunartillögu þar sem 1. flutningsmaður er hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir en meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Ég held ég fari alveg rétt með að þetta eru þingmenn úr öllum flokkum sem eru á Alþingi. Enda er málið þess eðlis að góð sátt ætti að vera um að reyna að efla hjólreiðar í landinu og sem betur fer hefur það þróast í rétta átt. Það er að vísu mjög langt síðan menn lögðu hjólreiðastíga hér í Reykjavík og ég held ég fari rétt með að það sé fyrsta sveitarfélagið sem lagði hjólreiðastíga. Það var í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Ég held að pólitísk samstaða hafi verið um það þá. Síðan hefur verið unnið myndarlega að því að leggja hjólreiðastíga og göngustíga víðs vegar um borgina. Það eru ekki rosalega mörg ár síðan, rúmlega tíu ár, eitthvað slíkt, að ríkið fór að setja brýr. Það var held ég þáverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, sem var í forsvari fyrir því að fyrstu brýrnar yfir umferðaræðar voru settar í Reykjavíkurborg. Það gerir að verkum að hægt er að hjóla á milli flestra svæða innan borgarinnar. En það er alveg hárrétt sem kom fram hjá öðrum hvorum alþingismanninum sem hér talaði á undan, ég held að það hafi verið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að ekki er alltaf um stystu leiðir á milli staða að ræða. Það er auðvitað mjög óhentugt vegna þess að það eru miklir möguleikar að vera með mjög stuttar reiðhjólaleiðir innan borgarinnar, ef vilji er fyrir hendi. Það hefur vantað upp á að menn klári þetta verkefni og gangi þannig frá að við séum með hjólreiðastíga sem gera það að verkum að hægt sé að koma úr íbúðahverfunum til helstu vinnustaða, eins og hérna í miðborginni, á sem stystum tíma. En svo sannarlega er mjög mikið af glæsilegum göngu- og hjólreiðastígum. Og þeir eru það mikið notaðir sumir að ég held að það veitti jafnvel ekkert af því að tvöfalda þá. Því þegar fólk er með barnavagna, á hjólum, gangandi og annað slíkt, þá eru þeir fljótir að fyllast.

Einn borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, Jórunn Frímannsdóttir, hefur flutt fyrir okkur sjálfstæðismenn í borgarstjórn tillögu í umhverfisráði borgarinnar, sem ég held að því miður að hafi ekki verið fylgt eftir, að þetta verði samræmt á milli sveitarfélaga, þ.e. göngustígarnir. Því önnur sveitarfélög hafa gengið á eftir og eru svo sannarlega komin með nokkuð góða hjóla- og göngustíga. En það vantar upp á að þarna sé samræmt á milli og ég held að þetta verkefni á höfuðborgarsvæðinu sé tiltölulega einfalt.

En við eigum að sjálfsögðu að setja markið hærra. Því eins og kom fram hjá hv. þm. Hlyni Hallssyni sem vísaði í reynslu sína frá öðrum löndum, frá Þýskalandi held ég að það hafi verið, að þrátt fyrir að við búum við öðruvísi veðurfar en aðrar þjóðir er þetta svo sannarlega valkostur fyrir mjög marga. Það er æskilegt þegar við erum með ógnir, sérstaklega vegna hreyfingarleysis og þess háttar, að við sköpum aðstöðu fyrir fólk að geta notað reiðhjólið. Það er til fólk sem notar reiðhjól til og frá vinnu. Sem betur fer er þróun í jákvæða átt hvað það varðar. En það sem vantar upp á er að okkur vantar aðstöðu á mörgum vinnustöðum þar sem fólk getur skipt um föt og farið í sturtu og annað slíkt. Því það er auðvitað forsenda ef fólk ætlar að hjóla í vinnuna. Við sjáum það bara með þennan vinnustað hér að þó að við búum svo vel að hafa slíka aðstöðu, þá held ég ekki að mörg okkar notfæri sér það, því miður. En sé nú strax á svipbrigðum hér í salnum að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er ein af þeim sem eru til fyrirmyndar í þessum málum og hefur nýtt sér aðstöðuna og er það vel. Og megum við hin taka það upp eftir hv. þingmanni.

Það er meira að segja svo, og ég hef séð það, að vagnar eru dregnir á eftir hjólinu, ég hef að vísu ekki notað það beint sjálfur. Ég hef hjólað mikið með fjölskyldunni, þ.e. með yngri börnin aftan á sértilgerðum stólum. En það er líka til og fer í vöxt að vagnar eru dregnir á eftir hjólinu, sem ég hef ekki prófað sjálfur. En það sem ég er að reyna að segja eða leggja áherslu á er að þetta er til líka þrátt fyrir að maður beri fyrir sig að einungis sé hægt að fara á milli staða með fjölskylduna í bílum, þá er það ekki svo. Það er margt fólk sem notfærir sér þetta, alveg sama á hvaða aldri börnin eru. Þau geta að sjálfsögðu hjólað sjálf ef þau eru komin á ákveðinn aldur en ef þau eru yngri eru til alls konar aðferðir til að þau geti farið um með mjög öruggum hætti.

Aðalatriðið í mínum huga er að við notum allar leiðir til að sjá til þess að þetta verði raunhæfir valkostir. Einn er sá að hjóla innan höfuðborgarsvæðisins, en vonandi í nánustu framtíð og það er kannski kominn vísir að því, getum við hjólað á milli annarra staða líka. Því það er alveg frábær leið til að fara um landið á reiðhjóli. Það er algjörlega frábær leið. En það getur verið hættulegt að fara hér eftir þjóðvegakerfinu. Auðvitað er það hægt og eru það helst útlendingar sem gera það. En það hlýtur að vera mjög hættulegt og ekki kannski besta leiðin til þess ef menn ætla að fara á reiðhjólum á annað borð.

Það hefur oft verið sagt að skemmtilegasta leiðin til að ferðast um landið sé á hesti, og ég get tekið undir það. Það er mjög skemmtilegt. En svo sannarlega eiga reiðhjól líka að vera valkostur hvað þetta varðar. Þó svo að við séum ekki að fara að stíga þau skref að gera hjólreiðabraut með hringveginum þá eigum við að vinna jafnt og þétt að því. Þess vegna líst mér vel á þessa tillögu til þingsályktunar og vona að hún fái skjóta og góða afgreiðslu og við fáum góða niðurstöðu þar. Ég sagði það á umhverfisþinginu og stend enn þá við það, ég held að það sé markmið í sjálfu sér að við sköpum þjóðfélag þar sem hjólreiðar, eins og önnur útivist, sé raunverulegur valkostur. Því fleiri sem nýta sér reiðhjólið þeim mun betra og ég óska hv. flutningsmönnum til hamingju með þessa ágætu þingsályktunartillögu.



[18:16]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara þakka þessa umræðu og sérstaklega vil ég þakka hv. formanni umhverfisnefndar Alþingis fyrir þau orð sem hann lét hér falla. Því ég tel að þar með sé umhverfisnefnd Alþingis svo gott sem sameinuð á bak við þessa tillögu. En umfjöllun um hana fer auðvitað fram í samgöngunefnd Alþingis. Svo ég treysti því að umhverfisnefndin standi saman og hnippi hraustlega í samgöngunefnd til að málið fái jákvæða afgreiðslu þar og góða framgöngu.

Ég tel afar mikilvægt að hafa þau meðmæli sem hér hafa fengist frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, í þeim efnum. Ég vil taka undir með honum, það er nauðsynlegt fyrir okkur alþingismenn að nota þær leiðir sem við höfum til að hjólreiðar verði raunhæfur valkostur í samgöngumálum. Við höfum orðið vitni að því að hér í Reykjavík er verið að bæta við umferðarmannvirkjum á hverju einasta ári sem ekki eru til þess fallin að hleypa hjólreiðafólki um. Nú átti í skipulagskösinni hér niðri í Vatnsmýri, þar sem Hringbrautin hefur verið sett niður af því hún var flutt, þá átti að leysa mál hjólreiðamanna með glæsibrag. Og hvernig var það gert? Með því að byggja stórar og miklar brýr yfir göturnar. Þær eru þannig hannaðar að maður þarf að hjóla um það bil einn kílómetra í vitlausa átt áður en maður kemur inn á brúna sem leiðir mann yfir götuna. Svo fer maður annan kílómetra í vitlausa átt þegar maður fer út af brúnni. Þannig að við Reykvíkingar stöndum hér og störum á þetta fyrirbæri í Vatnsmýrinni sem á að vera til að leysa vandræði hjólreiðafólks á þessum stóru og erfiðu gatnamótum. En þá er það gert á þann hátt að það virðist ekki vera skilningur á því að hjólreiðafólk þarf líka að komast á skömmum tíma frá einum stað til annars. En ekki að vera hjóla eilífar rósir og krúsidúllur. Ég held að við eigum langt í land með að skilja þarfir hjólreiðafólks og að viðurkenna hvað það er sem þarf í umferðarmannvirkin svo hjólin eigi þar greiðan aðgang og til hægt sé að nýta hjólin sem samgöngutæki.

Ég get talað fyrir því hér af því ég hef reynt það, ég bý reyndar ekki langt frá miðbænum, en ég nota hjólið sem samgöngutæki. Ég hjóla hér stærstan hluta ársins til og frá vinnu. Það er ekki bara heilsubót að því í líkamlegum skilningi eins og getið var um í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þór Þórðarsonar, heldur er það ekki síður andlega upplífgandi að hjóla, anda að sér fersku lofti, vera í sambandi við fólkið sem maður mætir á götunni, hitta aðra hjólandi vegfarendur sem ævinlega eru brosandi á hjólum sínum, þannig að þetta hefur verulega jákvæð áhrif. Ég held að við eigum að sameinast í svona átaki, efla bæði geðheilsu okkar og líkamlega heilsu með því að fjölmenna á hjólin og sjá til að umferðarmannvirki okkar séu þannig hönnuð að hjólin eigi greiða leið um samgöngukerfið.

Að þessari umræðu lokinni, hæstv. forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar til umfjöllunar.