132. löggjafarþing — 66. fundur
 14. feb. 2006.
lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði, 1. umræða.
stjfrv., 520. mál (skipulag löggæslunnar, greiningardeildir). — Þskj. 759.

[14:07]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Frumvarpið hefur að geyma tillögur um nýskipan lögreglumála.

Hvarvetna vill almenningur að öryggi sitt sé sem best tryggt með góðri og öflugri löggæslu og það er skylda stjórnvalda að sinna kröfum í þessu efni og bregðast við þeim í samræmi við aðstæður á hverjum tíma. Þann tíma sem ég hef gegnt embætti dómsmálaráðherra hef ég leitast við að skapa lögreglunni sem bestar aðstæður til að sinna mikilvægum störfum sínum. Þegar ákvarðanir voru teknar um nýtt skipulag sérsveitar lögreglunnar og eflingu hennar lagði ég áherslu á nauðsyn þess að efla öryggi lögreglunnar sjálfrar og þar með allra landsmanna. Styrking sérsveitarinnar hefur skilað góðum árangri og framkvæmd áætlunar um stækkun hennar lýkur á þessu ári.

Ég hef einnig beitt mér fyrir umræðum um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og bent á að á vettvangi Evrópuráðsins hefur t.d. verið unnið verulegt starf til að móta inntak þessara aðferða í ljósi breyttra áherslna þegar krafa er gerð um að lögregla rannsaki ekki aðeins afbrot heldur haldi einnig úti rannsóknum til að koma í veg fyrir afbrot. Rannsóknir lögreglu í því skyni að koma í veg fyrir afbrot má kenna við forvörn sem byggist á greiningu á atvikum og ábendingum.

Þá hef ég vakið máls á því að inntak hættumats lögreglu eða annarra aðila sem axla ábyrgð á öryggi borgaranna hafi breyst vegna hryðjuverkaárása undanfarin ár. Annars konar vá steðjar nú að opnum og frjálsum þjóðfélögum en á tímum kalda stríðsins þegar tvær meginfylkingar stóðu andspænis hvor annarri, gráar fyrir járnum. Öryggisgæsla í víðtækum skilningi hvílir nú meira á herðum lögreglu en áður og hlýtur löggjöf um ytra og innra starf lögreglu að taka mið af því.

Í þessu frumvarpi er fjallað um hina ytri umgjörð lögreglunnar og skipulag en ekki heimildir hennar til rannsókna, handtöku og annað vald hennar til að halda uppi röð og reglu. Ákvæði lögreglulaga eða laga um meðferð opinberra mála sem snerta þessa þætti eru óbreytt þótt frumvarpið verði samþykkt. Hér er því um að ræða skref til að skapa starfi lögreglunnar nýja umgjörð, skref vegna ákæruvalds og nýjar lögheimildir lögreglu við rannsóknir við önnur störf verða stigin síðar og kynnt Alþingi.

Sný ég mér þá að efni frumvarpsins sérstaklega.

Landssamband lögreglumanna hefur oft ályktað á þann veg undanfarin ár að efla ætti einstök lögreglulið með því að stækka umdæmi þeirra. Sýslumenn hafa einnig rætt þessi mál í sinn hóp og hvatt til breytinga. Ég taldi nauðsynlegt að leiða þetta mál til lykta á skipulegan hátt og skipaði haustið 2004 verkefnisstjórn til þess, í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi í löggæslu í því skyni að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til sýslumannsembætta væri varið, og í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt væri forgangsröð við úrlausn verkefna og sett mælanleg markmið fyrir löggæsluna.

Verkefnisstjórnin fékk einnig önnur verkefni, þar á meðal að meta reynslu af lögreglulögunum sem sett voru fyrir tíu árum og skipulagi og verkaskiptingu sem þá kom til sögunnar, og einnig skyldi hún taka afstöðu til sjónarmiða sem fram hefðu komið um skipulag ákæruvalds.

Ég setti verkefnisstjórn þá meginreglu að stækkun lögregluumdæma leiddi ekki til þess að sýslumönnum yrði fækkað. Verkefnisstjórn skilaði ítarlegri skýrslu í janúar 2005. Skýrslunni fylgdu tillögur fjögurra sérfróðra manna um skipulag lögreglunnar. Í skýrslunni er að finna greinargott yfirlit og mat á núverandi stöðu mála. Þá voru gerðar tillögur að efnisatriðum í löggæsluáætlun til næstu ára og í þriðja lagi er rakið með hvaða hætti skuli styrkja og efla löggæslu í landinu.

Það varð meginniðurstaða verkefnisstjórnarinnar að vegna smæðar ættu mörg lögreglulið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í skýrslu verkefnisstjórnar, á bls. 35, segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Almenningur og stjórnvöld gera í dag miklar kröfur til lögreglunnar og hennar starfa. Krafan er sú að lögreglan sinni öllum störfum sínum vel og í samræmi við þarfir og þróun samfélagsins á hverjum tíma, svo og þarfir íbúa í hverju umdæmi fyrir sig. Lögreglan á samkvæmt þessum kröfum að vera skilvirk og árangur af störfum hennar mikill, á sama tíma og hún á að vera opin og jákvæð gagnvart óskum og þörfum hins almenna borgara, vera sýnileg í störfum sínum og umfram allt tryggja öryggi almennings og stjórnvalda. Samhliða þessum kröfum á lögreglan einnig að vera í stakk búin til að sinna vel rannsóknum flókinna sakamála, tileinka sér hratt og vel nýjungar í störfum sínum, taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu og rannsóknum sakamála og sjá til þess að rannsóknum allra mála, jafnt stórra sem lítilla, sé lokið innan hæfilegs tíma og hagað í samræmi við ákvæði laga, mannréttindasáttmála og stjórnarskrár. Þessu til viðbótar má nefna að auknar kröfur eru gerðar til forstöðumanna og stjórnenda opinberra stofnana almennt í tengslum við rekstur þeirra í víðum skilningi þess orðs, en á undanförnum árum hafa stjórnunarheimildir verið færðar til stofnana, kröfur um vandaða stjórnsýsluhætti aukist með tilkomu stjórnsýslulaga og upplýsingalaga og nýjar stjórnunaraðferðir eins og árangursstjórnun hafa verið innleiddar. Allt hefur þetta í för með sér auknar kröfur til stjórnenda og starfsmanna opinberra stofnana, þar á meðal lögreglu.“

Með vísan til þessa lagði verkefnisstjórnin til að lögregluumdæmum yrði fækkað úr 26 og þau yrðu 5–7. Yrði ekki unnt að ganga svo langt í stækkun umdæma vildi verkefnisstjórnin að samvinna og samstarf lögregluembætta yrði stóraukið. Með stækkun og fækkun umdæma um land allt yrði lögreglu gert kleift að standa betur undir þeim kröfum sem til hennar væru gerðar á öllum sviðum og margvíslegir kostir sköpuðust til að styrkja starf lögreglunnar.

Skýrsla verkefnisstjórnar vakti miklar umræður meðal sýslumanna og lögreglumanna. Landssamband lögreglumanna fagnaði skýrslunni og tillögunum og taldi þær koma til móts við sjónarmið sín. Sýslumannafélagið efndi til sérstaks félagsfundar um efni skýrslunnar og ályktaði um stækkun lögregluumdæma. Lagði félagið til að lögregluumdæmi yrðu stækkuð og þeim fækkað, þau yrðu alls 12–16.

Eftir umræður um tillögurnar skipaði ég vorið 2005 framkvæmdanefnd til að útfæra nánar tillögur verkefnisstjórnar. Skyldi framkvæmdanefndin móta tillögur um fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma. Áhersla var lögð á að með stækkun lögregluumdæma væri verið að auka og efla þjónustu lögreglu við íbúa landsins og styrkja hana á öllum sviðum, bæði við rannsóknir sakamála og almenna löggæslu. Framkvæmdanefndin skilaði tillögum sínum í lok október 2005 og lagði til að lögregluumdæmi í landinu yrðu fimmtán, þar af sjö sem bæru ábyrgð á rannsókn og saksókn stórra og flókinna mála. Þessi embætti skyldu einnig bera ábyrgð á því að samræma vaktkerfi lögregluembætta á sínu starfssvæði í þeim tilgangi að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu en áður. Var það mat framkvæmdanefndarinnar að með þessari skipan yrðu rannsóknir sakamála betri, markvissari og öflugri alls staðar á landinu, sýnileg löggæsla mundi aukast og unnt yrði að halda úti sólarhringsvöktum lögreglu víðar á landinu en nú er.

Þegar tillögur framkvæmdanefndarinnar lágu fyrir var henni falið að kynna þær með því að efna til funda um land allt með lögreglustjórum, lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum þar sem hlustað væri eftir sjónarmiðum og viðhorfum heimamanna til þeirra. Efnt var til margra funda um landið og einnig voru sérstakir fundir með þeim aðilum sem eftir því óskuðu og vildu fara nánar yfir einstaka atriði og koma á framfæri sjónarmiðum sínum.

Vel á fjórða hundrað manns sóttu fundi nefndarinnar auk þeirra sem mættu til sérstakra funda. Að lokinni þessari ítarlegu yfirferð yfir málið með hagsmunaaðilum um land allt skilaði framkvæmdanefndin framhaldsskýrslu og lagði þar til nokkrar breytingar frá upphaflegum tillögum í samræmi við athugasemdir og sjónarmið sem fram höfðu komið í framangreindu kynningarferli.

Í mínum huga er ekki vafi á því að vel og faglega var staðið að undirbúningi þessa máls af hálfu verkefnisstjórnarinnar og síðan framkvæmdanefndarinnar. Öllum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og viðhorfum, og miklar umræður sköpuðust á undirbúningstímanum um einstaka þætti í tillögum framkvæmdanefndarinnar, jafnvel smáatriði í sumum tilvikum. Hlustað var eftir öllum þessum sjónarmiðum og afstaða tekin til þeirra sem í sumum tilvikum leiddi til þess að breytingar voru gerðar frá upphaflegum tillögum.

Hin góða kynning á málinu hefur leitt til þess að umræður um einstaka þætti þess hafa almennt byggst á góðum og gildum rökum. Þess hefur þó orðið vart að það vinnuheiti á undirbúningsstigi að nefna þau sjö embætti þar sem rannsóknardeildir verða starfræktar til að sinna flóknum og stórum málum, lykilembætti hefur valdið misskilningi.

Dæmi um slíkan misskilning má lesa í Morgunblaðinu í morgun þar sem sagt var frá því að á netinu væri hafin söfnun undirskrifta í þeim tilgangi að halda lykilembættum lögregluumdæmisins í Borgarnesi, eins og það er orðað. Í texta sem fólk er hvatt til að undirrita er greinilega talið að í hugtakinu lykilembætti felist annað og meira hlutverk en að reka rannsóknardeild og stuðla að samræmingu vakta. Af textanum má einnig ætla að í Borgarnesi sé starfrækt eitthvert lykilembætti nú sem eigi að flytja á Akranes. Hið rétta er að rannsóknarlögreglumaður hefur verið á Akranesi en ekki í Borgarnesi og með frumvarpinu er ákveðið að hann verði áfram á Akranesi og þar verði þess vegna rannsóknardeildin sem annist rannsóknir stórra og flókinna mála.

Að halda því fram eins og gert er í þeim texta sem birtur er í Morgunblaðinu, að með þessari skipan sé fótunum kippt undan eðlilegri löggæslu á svæðinu og í framhaldi af þeim flutningi megi fastlega búast við að héraðsdómur og sýslumannsembættin fari þá sömu leið áður en langt um líður, er í besta falli misskilningur, byggður á ótrúlegri vanþekkingu, en í hinu versta vísvitandi tilraun til að blekkja fólk til að undirrita alrangan texta.

Í umræðum hefur einnig vottað fyrir áhyggjum af sameiningu lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu. Í mínum huga er enginn vafi á því að löggæsla á höfuðborgarsvæðinu mun eflast með hinni nýju skipan og rétt er að hafa það í huga að þegar um löggæslu á höfuðborgarsvæðinu er rætt hefur um nokkurra ára bil eða í rúm fimm ár fjarskiptamiðstöð lögreglunnar starfað á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan starfað sem ein heild undir stjórn hennar þegar úrlausn verkefna kallar á samhæfingu á mörgum liðum. Þá er ekki kallað á lögreglumenn eftir umdæmum, heldur kallað á þá eftir því hvaða bíll er næstur á vettvangi hverju sinni.

Það er einnig svo að árangur af sameiginlegum átaksverkefnum lögreglu á þessu sviði er mjög hvetjandi. Þannig hefur átak sem lögregluliðin í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi staðið að, með sérsveit ríkislögreglustjóra, til að stemma stigu við athöfnum handrukkara skilað mjög athyglisverðum og jákvæðum árangri á undanförnum mánuðum. Raunar má segja hið sama um átak sem lögreglan á Akureyri og sérsveitin þar hafa gert í sama skyni. Með því að sameina lögreglulið á höfuðborgarsvæðinu er viðurkenndur í reynd samruni sveitarfélaga hér þegar tekið er á verkefnum sem varða heill og öryggi alls almennings.

Þetta hefur verið gert með því að sameina slökkvilið sem sveitarfélög reka og almannavarnanefndir sem starfa á vegum sveitarfélaga. Raunar er löngu tímabært að lögreglan sigli í kjölfarið.

Frumvarpið sem ég mæli fyrir hefur að geyma tillögur um nýskipan lögreglumála sem byggjast á því vandaða starfi sem ég hef lýst hér að framan og birtist í skýrslum verkefnisstjórnar og tillögum hennar. Ég mun nú gera nánari grein fyrir helstu meginatriðum sem í frumvarpinu felast.

Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á 5. gr. lögreglulaga. Hún fjallar í heild sinni um hlutverk og verkefni ríkislögreglustjóra og í b-lið 2. mgr. er nú mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri skuli starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoði auk þess lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota.

Af orðum sem fallið hafa opinberlega vegna frumvarpsins hefði mátt ætla að þar væri í fyrsta sinn að finna ákvæði um skyldur rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra til að rannsaka landráð og brot af því tagi sem nefnd voru. Hér er um misskilning að ræða eins og augljóst er af lestri núgildandi laga.

Breytingar samkvæmt frumvarpinu byggjast á umræðunum um nýskipan lögreglumála. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að ekki verði lengur mælt fyrir um að þessi rannsóknardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra skuli vera öðrum lögregluembættum til aðstoðar við rannsóknir alvarlegra brota. Er þetta lagt til með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum samkvæmt frumvarpinu á rannsóknum stórra og flókinna mála hjá rannsóknardeildum við sjö lögregluembætti. Með þeirri skipan minnkar þörf fyrir rannsóknaraðstoð þótt hún hverfi að sjálfsögðu ekki en lagt er til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um aðstoðina.

Í þessari grein frumvarpsins segir að ríkislögreglustjóri skuli „starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“ Með ákvæðinu um greiningardeild er lögð áhersla á þær skyldur lögreglu að rannsaka ekki aðeins afbrot sem hafa verið framin, heldur stundi hún einnig rannsóknir til að koma í veg fyrir að afbrot verði framin. Mikilvægt er, eins og rakið er í skýrslu verkefnisstjórnar um nýskipan lögreglumála, að hugað sé sérstaklega að leiðum til að stemma stigu við hættum á skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi. Lögreglan verður að leggja sig fram um að greina skipulagða glæpastarfsemi, safna á einn stað upplýsingum frá innlendum og erlendum lögregluliðum og leggja mat á hættu sem tengist t.d. fíkniefnabrotum, mansali, skipulögðu vændi, peningaþvætti og öðrum afbrotum sem hafa alþjóðlega vídd.

Hið sama á við vegna hryðjuverka.

Alþjóðlegt samstarf lögregluliða til að draga úr hættu á hryðjuverkum vex jafnt og þétt. Þessi hætta getur tekið á sig ýmsar myndir, eins og sjá má núna vegna vanda Dana eftir birtingu skopmynda Jótlandspóstsins.

Í samræmi við nauðsynlegan sveigjanleika í starfi lögreglu er einnig lagt til í frumvarpinu að ráðherra geti ákveðið að við einstök embætti lögreglustjóra starfi undir eftirliti ríkislögreglustjóra greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Er þá sérstaklega horft til stærstu embættanna sem hafa vegna sérstöðu og sérþekkingar forsendur til að leggja starf af mörkum á þessu sviði. Má þar minnast á góðan árangur fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli sem hefur í mörgum tilvikum á grunni vandaðs áhættumats lagt hald á umtalsvert magn fíkniefna. Þessar árangursríku aðferðir við löggæslu verður að styrkja og miðar frumvarpið að því.

Eins og áður hefur verið rakið verða tillögur um nýskipan lögreglumála meginefni þessa frumvarps. Lagt er til að lögregluumdæmi í landinu verði 15 í stað 26, og að við sjö af 15 lögregluembættum verði sérstakar rannsóknardeildir. Með þessu er tryggt að sérþekking til að takast á við rannsóknir afbrota þróist víðar á landinu og löggæsla styrkist þannig og eflist alls staðar.

Frumvarpið boðar verulegar breytingar á skipulagi löggæslu á suðvesturhorni landsins. Annars vegar er gert ráð fyrir að nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi. Hins vegar verður lagt til að lögregluembættin tvö í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli verði sameinuð undir einni stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum verður jafnframt sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Um þessa skipan hefur náðst gott samkomulag milli dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis en ráðuneytin munu sameiginlega setja leiðbeinandi reglur varðandi verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

Samkvæmt frumvarpinu fjölgar þeim sýslumönnum sem ekki fara með lögreglustjórn. Nú er sýslumaðurinn í Reykjavík hinn eini sem ekki stjórnar lögreglu en verði frumvarpið að lögum slást sýslumenn í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Búðardal, Patreksfirði, Bolungarvík, Hólmavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn og Vík í hópinn með honum.

Við hin stærri sýslumannsembætti hefur verkefnum fjölgað svo verulega undanfarin ár að brotthvarf lögreglustjórnar auðveldar stjórnendum þeirra að takast á við aukið álag á öðrum sviðum. Að því er sýslumannsembættið í Reykjanesbæ varðar er unnið að því að flytja þangað framleiðslu á vegabréfum og öðrum skilríkjum með nýjum tækjabúnaði.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur sett sér markmið um að flytja verkefni á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess til sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Eru þessi verkefni tíunduð í greinargerð frumvarpsins.

Stærsta verkefnið til þessa er að koma á fót innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar við sýslumannsembættið á Blönduósi. Með því verkefni er ekki einungis verið að styrkja og efla þessa mikilvægu starfsemi, heldur er einnig verið að skapa fjölda nýrra starfa á landsbyggðinni. Áform um frekari verkefnaflutning til sýslumannsembætta eru mislangt komin en hér má nefna tvö verkefni sem eru á undirbúningsstigi. Annars vegar stendur til að flytja bótanefnd og þau verkefni sem henni tengjast til sýslumannsins á Siglufirði og hins vegar útgáfu Lögbirtingablaðs til sýslumannsins í Vík.

Frumvarpið hefur að geyma aðrar breytingar sem taldar eru nauðsynlegar í tengslum við endurskipulagningu lögregluumdæmanna. Má þar nefna að lagt er til að heiti varalögreglustjóra verði breytt í aðstoðarlögreglustjóra og að slíkar stöður verði innan stóru lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Þá er heimilað að fleiri en einn aðstoðarlögreglustjóri starfi hjá hverju liði. Frumvarpið heimilar í fyrsta sinn að lögreglumenn sem sérstaklega hafa menntað sig til stjórnunarstarfa innan lögreglunnar geti hlotið skipun sem aðstoðarlögreglustjórar. Þetta er eðlilegt skref í ljósi framhaldsmenntunar innan Lögregluskóla ríkisins. Undanfarin ár hefur skólinn í samráði við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands staðið fyrir sérstöku stjórnunarnámi fyrir lögreglumenn og lögreglustjóra með athyglisverðum og góðum árangri.

Lagðar eru til breytingar á inntökuskilyrðum nýnema við Lögregluskóla ríkisins í samræmi við tillögur valnefndar skólans. Lagt er til að aldurshámark verði hækkað í 40 ár, breytingar verði gerðar á kröfum um tungumálakunnáttu og að valnefnd skilgreini kröfur um inntökuprófin í stað skólanefndar.

Að lokum er ástæða til að vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er þar lagt til að starfsmenn lögregluembættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu njóti forgangs til starfa hjá nýju embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt að þeir skuli við flutning til starfa hjá nýju embætti njóta áunninna réttinda sinna. Með þessu móti er tryggt að þeir sem gegna tilgreindum stöðum hjá embættunum þremur standi framar öðrum þegar kemur að því að stofna og skipuleggja nýtt embætti. Einnig er tryggt að þeir glati ekki áunnum réttindum sínum við tilfærslu í starfi þegar lögin koma til framkvæmda. Með þessu er stuðlað að sem minnstri röskun á stöðu og högum starfsmanna og spornað gegn kostnaði vegna biðlaunagreiðslna.

Í öðru lagi er ætlunin að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins verði skipaður eigi síðar en 1. júlí nk. og verður hlutverk hans út árið að undirbúa stofnun embættisins.

Í þriðja lagi er ráð fyrir því gert að skipuð verði nefnd til ráðgjafar við stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu og flutnings starfsmanna til þess. Þar munu stéttarfélög sem að þessu koma eiga fulltrúa, auk þess sem starfsmenn embættanna þriggja skipa fulltrúa í nefndina.

Loks er lagt til að skipuð verði óháð þriggja manna nefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd breytinga samkvæmt frumvarpinu í heild og skila skýrslu til ráðherra um hvernig til hafi tekist.

Virðulegi forseti. Þetta mál á sér langan aðdraganda og ég leyfi mér að segja að allur undirbúningur þess hafi verið vandaður eins og hér hefur verið lýst. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þessum málum með vönduðum hætti og fallist Alþingi á tillögurnar sem hér hafa verið kynntar þarf að hrinda þeim í framkvæmd af vandvirkni og fagmennsku. Samhliða því sem málið er lagt fyrir Alþingi hef ég fengið til liðs við dómsmálaráðuneytið sérstakan verkefnisstjóra til að fylgja framkvæmd þessara víðtæku breytinga eftir, verði frumvarpið samþykkt. Ólafur Kristófer Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, hefur tekið þetta verkefni að sér. Hann býr yfir mikilli reynslu á þessu sviði og hefur m.a. endurskipulagt löggæslu á Snæfellsnesi á farsælan hátt. Hann mun vinna að þessu verki í samvinnu við sérfræðinga hjá embætti ríkislögreglustjóra. Mikilvægt er að góð sátt og samvinna takist á milli lögregluliða um innleiðingu þessara breytinga og ekki síður að allt verði verkið unnið í náinni og góðri samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[14:31]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á því að segja að ég er ekki sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann gaf í skyn að Borgfirðingar vissu ekki hvað þeir væru að skrifa undir í undirskriftalistasöfnun sinni gegn þessum áformum hæstv. dómsmálaráðherra. Ég er á því að fólkið viti fullvel hvað það meinar þegar það ritar nafn sitt á þessa lista.

Ég ætlaði að beina eftirfarandi spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra, sem varðar greiningardeildina sem ég furða mig reyndar á að skuli ekki heita öryggislögregla. Nú kemur fram í þessu frumvarpi að það eigi ekki að leiða til aukins kostnaðar en samt sem áður er verið að setja á stofn nýja deild. Hvaðan eiga fjármunir að koma? Margir utan af landi óttast að það verði einmitt niðurskurður á landsbyggðinni, á löggæslunni þar, og sparaður peningur sem á síðan að nota til að efla hér einhverja öryggislögreglu (Forseti hringir.) í Reykjavík.



[14:33]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður get ég ekki gert að því ef hv. þingmaður telur að sá texti sem kynntur er til undirskriftar í Borgarbyggð sé réttur og sýnir það að hann hefði betur hlustað á ræðu mína og kynnt sér um hvað þetta frumvarp snýst.

Varðandi kostnaðarþáttinn hefur verið lagt mat á málið af hálfu fjármálaráðuneytisins samkvæmt tillögum dómsmálaráðuneytisins og frumvarpið á ekki að leiða til aukins kostnaðar. Þetta er spurning um forgangsröðun og spurning um skiptingu verkefna og spurning um að deild verði til sem hafi sérgreint þetta verkefni.



[14:33]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst um skiptingu verkefna, sagði hæstv. dómsmálaráðherra. Er verið að draga úr verkefnum lögreglumanna á landsbyggðinni? Fólk á landsbyggðinni óttast það vegna þess að alltaf þegar haldin eru íþróttamót eða skemmtanir er lögreglunni gert að senda reikning fyrir löggæslukostnaði. Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hvaðan eiga fjármunirnir að koma til þess að starfrækja nýja öryggislögreglu hér á Reykjavíkursvæðinu? Eiga þeir að koma utan af landi eða hvaðan eiga þeir að koma? Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra eigi að svara því.

Síðan segir hann að mikill árangur hafi orðið af því að efla víkingasveitina. Vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra hafði orð á því að hann vildi hafa mælanleg markmið vil ég spyrja: Hefur hann mælt þennan árangur með einhverjum hætti, frú forseti?



[14:34]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gefur sér þá forsendu að hér eigi að stofna öryggislögreglu og þess vegna vanti peninga. Það er bara ekki í þessu frumvarpi. Það er í hugarheimi þingmannsins. Það stendur ekki neitt um það í þessu frumvarpi þannig að ef þingmaðurinn gefur sér ranga forsendu kemst hann að sjálfsögðu að rangri niðurstöðu um frumvarpið. (SigurjÞ: Hvaðan eiga peningarnir að koma?)



[14:35]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra tveggja spurninga. Fyrri spurning mín til hæstv. ráðherra varðar embættið í Vestmannaeyjum — bara svo að það sé alveg á hreinu áður en við höldum áfram í umræðunni — í 3. gr. lagafrumvarpsins kemur fram að við embætti lögreglustjórans á Selfossi skuli vera rannsóknardeild fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum. Nú hef ég fengið svolítið misvísandi fréttir af því að sú ákvörðun hafi hugsanlega verið dregin til baka, að það eigi að taka embætti rannsóknarlögreglumanns frá Vestmannaeyjum og færa það upp á Selfoss. Mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvað er rétt í þessu máli.

Hin spurning mín til hæstv. ráðherra varðar flutning verkefna út á land hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Ráðherra flutti okkur hér jákvæðar fréttir af flutningi nokkurra verkefna og ekki nema gott eitt um það að segja. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hver sé tímaramminn á þessu verkefni, þ.e. að flytja þau út á land. Hvenær sér ráðherra fyrir sér að þessu verði lokið?



[14:36]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í þeim skýrslum sem ég vitnaði til að ekki eru ráðgerðar breytingar á fjárveitingum til sýslumannsins í Vestmannaeyjum og ekki breyting þess vegna á starfsemi sýslumannsembættisins þar.

Varðandi tímarammana er það svo að við höfum ekki sett þessu nein tímamörk. Aðalatriðið er að efnislega verði vel að verki staðið og að þau markmið sem við höfum sett okkur náist. Það finnst mér meginatriði en ekki tímamörk í slíkum vangaveltum.

Við höfum sett hér fram tillögur. Það er verið að vinna að tillögum varðandi framkvæmd mála á Blönduósi sem er fyrsta verkefnið. Samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að þar hefjist starfsemi núna í vor og þannig mun þetta verða koll af kolli og fer eftir umfangi verkefna og þeirri efnislegu niðurstöðu sem menn komast að um skynsemi flutningsins þegar þau hafa verið undirbúin nægilega vel.



[14:37]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara spurningu minni varðandi Vestmannaeyjar. Ég spurði hvort það væri rétt, sem ég skil af lestri þessa frumvarps, að það ætti að taka starf rannsóknarlögreglumanns frá Vestmannaeyjum og flytja það upp á land. Ef svo er finnst mér að ráðherra ætti að segja okkur það skýrum orðum því að fólk í Vestmannaeyjum bíður eftir því að fá að heyra það frá ráðherra hvað eigi að gera í þessu máli.

Fréttir af þessu eru svolítið misvísandi og ruglingskenndar og mér finnst að stjórnvöld séu á vissan hátt að reyna að þokuleggja þetta mál. Það er mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar haldi rannsóknarlögreglumanni úti í Eyjum vegna þess að aðstæður í Vestmannaeyjum eru svo allt öðruvísi en annars staðar á landinu. Hvers vegna er það? Jú, það er enginn vegur út í Vestmannaeyjar, það er oft illfært þangað og ég tel mjög mikilvægt að Vestmannaeyingar haldi rannsóknarlögreglu í Eyjunum.

Hvað hitt varðar, flutning embætta eða verkefna út á land finnst mér að með þessu frumvarpi ætti að fylgja einhvers konar tímarammi því að þetta skapar svo sannarlega ákveðnar væntingar mjög víða.



[14:38]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta þáttinn í ræðu hv. þingmanns fjallar þetta frumvarp ekki um flutning verkefna út á land, heldur nýskipan lögreglumála. Það er alveg sérstakt viðfangsefni sem ráðuneytið vinnur að án þess að þurfa að setja fram lög um það að flytja verkefni út á land.

Eins og ég sagði vitnaði ég í gögn sem fylgja þessu og hafa verið kynnt, m.a. fyrir Vestmannaeyingum. Í þeim gögnum segir alveg skýrt að á stöðu rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum verði engin breyting. Það kemur alveg skýrt fram. Ég tel að þingmaðurinn standi hér upp til að ýta undir einhverjar grunsemdir sem eru ekki á neinum rökum reistar ef menn hafa kynnt sér gögn málsins sem þingmaðurinn hefur greinilega ekki gert.



[14:39]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á 130. löggjafarþingi flutti ég ásamt þingmönnum úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum tillögu til þingsályktunar um breytingar á skipulagi á framkvæmd löggæslu. Frumvarp hæstv. ráðherra tekur að hluta til mið af þeim hugmyndum eins og um að lögregluumdæmin verði stækkuð og rannsóknardeildir styrktar eða stofnaðar við embættin.

En það var grundvallaratriði í tillögum okkar þingmannanna að ráðist yrði í það brýna verkefni að móta reglur um lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi fyrir sig til að gætt sé almannaöryggis og að réttaröryggis íbúa sé tryggt í samræmi við lögreglulög.

Ég sé ekki að þetta hafi verið gert í þeirri nýskipan sem hæstv. ráðherra kynnir hér þó að það sé raunverulega grundvallaratriði að við breytingar á skipulagi og framkvæmd löggæslu sé byggt á úttekt á þörf fyrir lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

Ég spyr ráðherra hvort þetta hafi verið gert og ef ekki, hvers vegna ekki.



[14:40]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem liggur að baki þessu verki er 128 blaðsíður. Þar er tekið á öllum þáttum varðandi löggæslu í landinu og m.a. farið yfir mannaflaþörf til að átta sig á því hvernig best sé að þessu verki staðið. Á grundvelli þess eru þessar tillögur gerðar. Það er ekki verið að gera þessar tillögur til að veikja löggæsluna, heldur styrkja hana og efla. Þá mun fjöldi lögreglumanna að sjálfsögðu taka mið af því sem þörf er fyrir. Ég veit ekki hvort verkefnisstjórnin lagði á sig að lesa þessa þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður vitnar til. Ef svo hefur ekki verið gert er ekki annað hægt en að afsaka það, ef þar hefur komið fram eitthvert grundvallarsjónarmið sem verður að taka tillit til ef menn ætla að huga að góðri löggæslu í landinu.

Ég tel að með þessu frumvarpi og þeirri vinnu sem liggur þar að baki sé tekið tillit til allra sjónarmiða sem þarf að hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð.



[14:41]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið vandi þegar tekið er tillit til þarfar varðandi lágmarksþjónustu og aukna löggæslu að það komi niður á hinni almennu löggæslu í landinu, sá grunur læðist að manni þegar ekki á að auka neitt fjármagn til löggæslunnar og einungis er um tilfærslu að ræða.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti staðið hér og fullvissað okkur um að þetta muni ekki koma niður á almennri löggæslu í landinu og að mönnun lögreglunnar taki mið af þeirri þörf sem er fyrir lágmarksþjónustu og lágmarksfjölda lögreglumanna í hverju umdæmi.

Það er grundvallaratriði að ráðherrann geri grein fyrir því hér. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins kemur fram að frekari kostnaðargreining og áætlanagerð varðandi ýmsar skipulags- og rekstrarhagræðingar eigi að fara fram. Hvað þýðir þetta eiginlega?

Ég get ekki séð að tillögur ráðherrans mótist af þörfinni sem er fyrir það að bæta hér almenna löggæslu og byggja á tillögum sem grundvallast á (Forseti hringir.) lágmarksþjónustu og þörf fyrir lögregluna.



[14:42]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta byggist á þeim sjónarmiðum sem þingmaðurinn nefnir, þessar tillögur. Ef hún vill nálgast það á grundvelli tillögu sem hún hefur sjálf flutt og greinargerð sem hún hefur samið og lagt fram í þinginu, og það orðalag kemur ekki fram í þessum gögnum, segi ég: Það verður að biðja þingmanninn afsökunar á því ef hún hefur fundið upp eitthvert sjónarmið í þessu sem dugar betur en sú rannsóknarvinna hefur leitt til sem við störfum eftir hér. Ef þingmaðurinn hefur einhver slík sjónarmið væri mjög æskilegt að þau lægju (JóhS: Þetta bara svarar ekki grundvallarspurningunni.) betur fyrir.

Ég er að svara spurningunni.



[14:43]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fyllist alltaf varúð þegar verið er að leggja til að Alþingi samþykki lög sem veiti framkvæmdarvaldinu heimild til að fylgjast með einstaklingum eða hópum sem ekkert hafa til saka unnið og einhverjir ótilteknir embættismenn með matskenndri ákvörðun líta á að kunni að vera grunsamlegir.

Hér er um byltingarkennt nýmæli að ræða í löggæslu sem felst í því að fá að setja upp greiningardeild. Í frumvarpinu sjálfu er það afskaplega lítið útskýrt hvað á að fara fram innan hennar en hæstv. ráðherra sagði að hún ætti ekki aðeins að rannsaka afbrot sem hafa verið framin, heldur skuli hún líka stunda rannsóknir til að koma í veg fyrir að landráð verði framin eða brot gegn æðstu stjórnvöldum. Það þýðir að það er verið að fylgjast með fólki og ég spyr: Er þetta vísir að leyniþjónustu hér á landi?



[14:45]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kemur í frumvarpinu er verið að tala um greiningardeild sem á að safna gögnum og leggja mat á þróun til að hafa það markmið sem hv. þingmaður nefndi, að koma í veg fyrir að afbrot verði framið. Á þetta er lögð rík áhersla af öllum þjóðum og öllum ríkjum núna. Varðandi heimildir þessarar deildar er ekki tekið á því í þessu frumvarpi, það er sérstakt álitaefni sem þarf að fjalla um á Alþingi og ég gat þess sérstaklega að við hefðum í þessu efni t.d. tekið mið af umræðum um þessi mál á vettvangi Evrópuráðsins. Það liggja fyrir ítarlegar rannsóknir á vettvangi Evrópuráðsins um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og þegar við fjöllum um efnisþætti þessa máls hér á þingi og annars staðar munum við að sjálfsögðu taka mið af því sem er skynsamlegast talið til að sameina það að gæta öryggis borgaranna, bæði eins og lögregla getur gert það og líka eins og við viljum að þess sé gætt með mannréttindi að leiðarljósi.



[14:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að skjóta sér á bak við Evrópuráðið. Ég gjörþekki þá skýrslu sem hæstv. ráðherra vísar til.

Ég gjörþekki líka þá samþykkt Evrópuráðsins þar sem skýrt er tekið fram að það verði að hafa lýðræðislegt eftirlit með einmitt deildum af þessu tagi. Það er hvergi að finna hér. Ég óttaðist að til stæði að taka síðar upp annars konar lögheimildir til deildar af þessu tagi. Það kom fram í máli ráðherrans og stendur reyndar líka í frumvarpinu að það standi til síðar að láta samþykkja á Alþingi sambærilegar lögheimildir og þær deildir hafa sem við köllum leyniþjónustu í öðrum löndum. Hvaða heimildir hafa þær? Jú, þær mega njósna um fólk, hlera o.s.frv. Við höfum aldrei á Íslandi leitt neinar almennar heimildir í lög til þessa og ég verð því miður að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég treysti mér ekki til að láta ríkislögreglustjóra hafa vald til að ákveða eftirlit með hinum og þessum einstaklingum í þessu samfélagi eða (Forseti hringir.) tilteknum hópum.



[14:47]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmanninn að gæta þess hvað hann er að segja hér í ræðustólnum. Hann er að leggja út af þessu frumvarpi á allt annan veg en efni frumvarpsins gefur til kynna. Hér er verið að tala um að greiningardeild lögreglunnar sinni því verkefni sem þarna er lýst og hann fer að tala um leyniþjónustu, starfsemi ríkja sem reka slíka starfsemi og ímynda sér einhverja hluti sem hann segist hafa (Gripið fram í.) kynnst á vettvangi Evrópuráðsins.

Evrópuráðið hefur ekki gefið út neinar leiðbeiningar um starfsemi leyniþjónustu. Evrópuráðið hefur fjallað um það hvernig hin almenna lögregla getur haft réttarheimildir til að gæta öryggis borgaranna án þess að stofnaðar séu leyniþjónustur. Það er um það sem þetta snýst, sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Ef menn á enskri tungu eru að tala um leyniþjónustu og annað slíkt nota þeir ekki þau hugtök sem við erum að nota í þessu frumvarpi til lögreglulaga. Þó að hv. þingmaður sé vel kunnugur málefnum Evrópuráðsins verður hann líka að skilja hvað þar fer fram.



[14:48]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem vekur upp spurningar og jafnvel áhyggjur. Þessar áhyggjur eru ekki síst komnar til vegna sögu þess hæstv. ráðherra sem leggur þetta frumvarp fram. Það þarf nefnilega að setja þetta frumvarp í samhengi við önnur frumvörp sem þessi sami ráðherra hefur lagt fram hér á þingi.

Frú forseti. Sporin hræða. En af hverju hræða þau? Það er ekki langt síðan hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram lagafrumvarp sem átti að heimila hleranir án dómsúrskurðar, en fyrir aðeins fimm árum kom frumvarp frá sama ráðuneyti og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason ræður núna um breytingar á hlerunarheimildum lögreglu. Þá var tekið fram í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Þar sem aðgerðir [þ.e. hleranir ] sem þessar hafa í för með sér mjög verulega skerðingu á friðhelgi einkalífs sem m.a. er lýst friðhelg í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er eðlilegt að dómsúrskurð þurfi jafnan til þeirra til þess að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar.“

Þetta sendi þáverandi dómsmálaráðherra frá sér, en fimm árum seinna þegar nýr hæstv. ráðherra var kominn í ráðuneytið, hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, hafði þetta viðhorf gjörbreyst. Nú átti að heimila hleranir án dómsúrskurðar sem er gróft brot á þeim meginreglum sem flestir vilja starfa eftir. Sem betur fer gátum við í allsherjarnefndinni komið í veg fyrir að hleranir án dómsúrskurðar yrðu leyfðar eins og hæstv. dómsmálaráðherra vildi ná fram.

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra var ekki af baki dottinn. Hann lagði því fram frumvarp á Alþingi sem heimilar lögreglu að halda eftir gögnum frá verjanda ótímabundið. Þá komu fram trúverðugar efasemdir um að slíkt stæðist mannréttindasáttmála Evrópu. Í þetta sinn tókst hæstv. ráðherra að fá málið samþykkt hér á þingi.

Á síðasta þingi lagði síðan þessi sami hæstv. ráðherra fram lagafrumvarp, sem var samþykkt, sem skerti möguleika borgaranna á gjafsókn vegna réttarhalda. Þá var afnuminn réttur einstaklinga á gjafsókn í málum sem hafa verulega almenna þýðingu eða varða verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda. Þetta var réttlætt með sparnaði en á fundum allsherjarnefndar kom í ljós að sparnaðurinn yrði um 10 millj. kr. á ári sem verður að teljast aum fjárhæð í ljósi þess réttar sem þá var verið að afnema.

Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason fékk sömuleiðis samþykkt hér á þingi afskaplega slæm og svínsleg lög um málefni útlendinga ekki alls fyrir löngu. Þá voru skert réttindi fjölda Íslendinga til að sameinast erlendum maka sínum á grundvelli hjúskapar vegna skilyrðis laganna um 24 ára aldur. Þar var einnig komið í veg fyrir eðlilega fjölskyldusameiningu með svokallaðri 66 ára reglu þar sem afar og ömmur undir þeim aldri hafa ekki lengur rétt á dvalarleyfi vegna fjölskyldutengsla. Í hinum nýsamþykktu útlendingalögum var einnig að finna heimild til Útlendingastofnunar til að fara fram á lífsýnatöku úr útlendingum. Sönnunarbyrðinni var jafnframt snúið við þannig að viðkomandi Íslendingar og erlendir makar þeirra þurfa nú að sanna fyrir yfirvöldum að þeir búa ekki í málamyndahjónabandi.

Frú forseti. Það er hægt að taka fleiri dæmi af vondum fyrirætlunum hæstv. dómsmálaráðherra. Í upphafi þessa kjörtímabils lagði hann fram frumvarp um fangelsismál sem var svo illa unnið að hann neyddist til að draga það til baka. Við samningu þess frumvarps var ekki haft samráð við neinn hlutaðeigandi aðila, svo sem fanga, aðstandendur fanga eða fangaverði. Ekkert markmið var í frumvarpinu, engin meðferðarúrræði og heimildir til að leita á gestum án rökstudds gruns voru auknar. Á þremur árum hefur síðan hæstv. dómsmálaráðherra þrefaldað fjölda sérsveitarmanna og aukið fjárframlög til ríkislögreglustjóra um 30%. Til að bæta ofan á alla þessa upptalningu hafa flokksmenn Sjálfstæðisflokksins varið hér á þingi skilyrðislausan rétt atvinnurekenda til að taka lífsýni úr starfsfólki sínu.

Frú forseti. Hinn rauði þráður í störfum Sjálfstæðisflokksins og hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar kemur þó ekki á óvart ef rifjuð er upp ræða Björns sem hann hélt á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands þann 26. september 2003 þar sem 50 ára afmæli gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu var fagnað. Þvert á almenna skoðun um að mannréttindasáttmáli Evrópu hafi svokallað stjórnarskrárígildi þar sem almenn löggjöf skuli vera m.a. túlkuð í ljósi samningsins talaði hæstv. dómsmálaráðherra gegn slíku. Hann ræddi m.a. í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Allt tal um að mannréttindasáttmálinn hafi nokkurs konar stjórnarskrárígildi er einungis lögfræðileg óskhyggja þeirra sem láta berast með tískustraumum jafnvel frá Strassborg.“

Þvert á allar meginkenningar lögfræði hafnaði hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason þar hinu lifandi eðli samningsins og taldi að aðeins ætti að túlka mannréttindasáttmála frá orðanna hljóðan. Það er hins vegar afar forneskjulegt viðhorf sem flestir fræðimenn hafa hafnað enda þarf samningur eins og mannréttindasáttmáli Evrópu og túlkun hans að þróast í takt við breytta tíma. Friðhelgi einkalífsins þýðir t.d. allt annað í dag en fyrir 50 árum þegar mannréttindasáttmáli Evrópu var gerður.

Frú forseti. Eins og áheyrendur og þingheimur heyra er ástæða til að hafa áhyggjur af frumvörpum hæstv. dómsmálaráðherra. Sporin hræða, frú forseti. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu er lagt til að sett verði á fót sérstök greiningardeild sem rannsaka á landráð og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk og óvini ríkisins. Slík deild væri algjört nýmæli hér á landi. Því vakna ýmsar spurningar við lestur þessa frumvarps sem þingheimur þarf að fá svör við frá hæstv. dómsmálaráðherra og ég vona að hann nái þeim hér öllum á eftir.

1. Hvað kallar á þessa breytingu að mati hæstv. ráðherra? Hver er eiginlega vandinn og hverjir eru hinir svokölluðu óvinir ríkisins að mati ráðherrans? Í núgildandi lögreglulögum segir að ríkislögreglustjóra beri „að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota“. En hvað kallar á að hæstv. dómsmálaráðherra vill núna bæta við nýrri greiningardeild í lögin?

2. Mig langar að vita hvert verði eiginlega verkefni þessarar deildar. Hvað mun hún gera dagsdaglega og hvert er hlutverk hennar? Hvernig verður þessi vinna unnin hjá greiningardeildinni? Þessi deild mun án efa sinna forvarnamati og reyndar áhættumati eins og stendur í sjálfu frumvarpinu og hæstv. ráðherra hefur staðfest í umræðunni. En hvernig fer þetta áhættumat fram? Sömuleiðis segir að þessi deild eigi að greina hættu á afbrotum, en hvernig mun sú vinna fara fram? Hver er munurinn á þessari greiningardeild og hefðbundinni leyniþjónustu eins og við þekkjum í Evrópu?

3. Mun stofnun þessarar deildar auka eftirlit með þegnum þessa lands?

4. Við þurfum að fá að vita hvernig og hvort þessi vinna fari nú þegar fram hjá ríkislögreglustjóra. Er verið að setja ramma utan um eitthvað sem er nú þegar til staðar? Hvernig er þetta áhættumat sem ráðherra talar um unnið í núverandi kerfi?

5. Hverjar verða starfsheimildir þessarar greiningardeildar? Í þessu frumvarpi er ekkert minnst á heimildir þessarar starfsemi. Það er bara stofnuð greiningardeild sem á að rannsaka þessi mál og gera áhættumat. Það er því ekki rétt eins og heyrst hefur í umræðunni í samfélaginu að hér sé verið að skjóta stoðum undir heimildir einhverrar starfsemi sem er nú þegar til staðar.

Þess vegna er reyndar líka torskilið að það standi í sjálfu frumvarpinu á bls. 6. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði um greiningardeild tryggja að þannig sé um hnúta búið hér að þeir sem falið er að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum.“

Í þessu frumvarpi er ekkert talað um starfsheimildir þessarar greiningardeildar og þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur það til að leggja fram frumvarp sem breytir heimildum lögreglu hvað þetta varðar? Í grein hæstv. dómsmálaráðherra frá því í gær segir ráðherrann að lögreglan þurfi sambærilegar heimildir og lögreglur í öðrum ríkjum. Þá langar mig í framhaldi af því að spyrja: Hvað vantar á að mati hæstv. ráðherra og hvaða auknu heimildir til lögreglunnar ætlar hann að tryggja henni?

6. Í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er heimild fyrir því að stofna fleiri svona greiningardeildir við önnur embætti. Stendur það til og af hverju vill hæstv. dómsmálaráðherra hafa fleiri en eina svona deild?

7. Hver mun vinna í þessari greiningardeild og hversu margir? Hvað mun hún kosta? Í kostnaðarmati fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þessarar breytingar. Eitthvað hlýtur svona deild að kosta þrátt fyrir að hæstv. ráðherra segi í umræðunni að þetta snúist einungis um forgangsröðun.

8. Hvernig verður eftirlitið með þessari greiningardeild? Verður einhvers konar eftirlit af hálfu hins opinbera á þessari nýstofnuðu greiningardeild?

9. Eru einhverjar breytingar áætlaðar á þjóðskrá og staðsetningu hennar hvað þetta varðar? Í þjóðskrá koma auðvitað margs konar upplýsingar fram sem gætu nýst í hinu svokallaða áhættumati greiningardeildarinnar.

Frú forseti. Eins og ég segi vakna margar spurningar vegna þessa frumvarps og hverjar séu eiginlega forsendur fyrir svona greiningardeild. Er verið að stofna leyniþjónustu eins og heyrst hefur í umræðunni? Mun þessi greiningardeild einfaldlega finna sér verkefni verði lítið að gera hjá henni, og hverjar verða heimildir hennar?

Frú forseti. Þetta frumvarp snýr ekki eingöngu að því að setja á fót greiningardeild eða leyniþjónustu hjá ríkislögreglustjóra heldur einnig um breytingar á lögregluumdæmum. Það er hins vegar ýmislegt jákvætt við þær breytingar en auðvitað setjum við í Samfylkingunni þann fyrirvara að þjónustan og löggæslan skerðist ekki. Það er ljóst að sums staðar hefur fólk áhyggjur af stöðu mála hvað þetta varðar enda er löggæslan einn af grundvallarþáttum í öllum samfélögum. Í Hafnarfirði og Kópavogi hefur fólk t.d. áhyggjur af að þjónustan skerðist eitthvað en þetta eru þau sveitarfélög sem hafa hvað fæsta lögreglumenn á hvern íbúa. Í þeirri sameiningu sem hér er verið að leggja til geta hins vegar verið sóknarfæri fyrir þessi sveitarfélög og það munum við auðvitað skoða í allsherjarnefndinni.

Samfylkingin hefur áður barist á þingi fyrir því að endurskoðunar væri þörf á skipulagi og framkvæmd lögreglunnar. Aðalatriðið er að þjónustan skerðist ekki, að nýting á fjármunum og vinnuafli batni og lögreglan styrkist.

Að lokum langar mig að minnast á í samhengi við stofnun þessarar greiningardeildar við embætti ríkislögreglustjóra að frelsisskerðing er oftast nær hægfara en verður ekki í einu vetfangi. Aukið eftirlit og skerðing á persónuréttindum eru ætíð réttlætt með fögrum orðum og góðum tilgangi. Það getur nefnilega verið styttra í stóra bróður sem George Orwell lýsti en margir halda. Við verðum því að vera á tánum þegar kemur að hugðarefnum hæstv. dómsmálaráðherra því að reynslan einfaldlega sýnir að þörf er á slíku.



[15:00]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst örfá mjög almenn orð um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ég vil byrja á því að segja að ég hef fram að færa ákveðna gagnrýni, eða kannski ætti öllu heldur að segja áhyggjur vegna þeirrar áherslu sem er að finna í frumvarpinu og er ég þar að sjálfsögðu að víkja að svokallaðri greiningardeild sem á að hafa það hlutverk með hendi að leggja mat á hættu á hryðjuverkum, ásamt meiru, og rannsaka það sem kallað er landráð.

Hitt sem ég vildi segja um þetta frumvarp almenns eðlis er að ég tel það að mörgu leyti geta orðið til góðs enda er það sprottið upp úr hugmyndum sem lengi hafa verið á döfinni hjá lögreglumönnum og sýslumönnum, eins og vikið er að í athugasemdum við lagafrumvarpið og einnig má hrósa því að leitað hefur verið eftir sjónarmiðum margra aðila og reynt að efna til almennrar umræðu um þær víðtæku skipulagsbreytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Um einstaka þætti þeirra breytinga ætla ég ekki að tjá mig enda tel ég mikilvægt að málið fái mjög vandaða umfjöllun í nefndum þingsins og fyrir nefndina munu að sjálfsögðu koma hagsmunaaðilar, Landssamband lögreglumanna, sýslumenn og ýmsir sem hljóta að verða til kvaddir. Um einstakar skipulagsbreytingar ætla ég því ekki að tjá mig að sinni en mun hlusta grannt eftir því hvað þessir aðilar koma til með að segja.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í lögunum þar sem vikið er að réttindum starfsmanna en þar segir á þá leið að við hvers kyns flutning starfa skuli starfsmenn njóta áunninna réttinda sinna. Samkvæmt hefð er þar verið að vísa í stöðu manna, það er verið að vísa í kjör, laun og önnur kjör og menn horfa að sjálfsögðu einnig til röskunar á högum sem kunna að leiða af flutningum. Á allt þetta á eftir að reyna en ég ætla ekki að gefa mér neitt annað á þessu stigi en að reynt verði að standa við þau fyrirheit sem er að finna í ákvæði til bráðabirgða, að fullu. Alþingi mun að sjálfsögðu fylgjast með framkvæmdinni þegar þar að kemur.

Það er sitthvað sem ekki er í frumvarpinu sem maður hefði gjarnan viljað sjá þar, eins og efling á efnahagsbrotadeild lögreglunnar. Reyndar skal sagt að þar er fyrst og fremst um fjárhagsstuðning að ræða, ekki endilega skipulagsbreytingar en þetta frumvarp fjallar náttúrlega fyrst og fremst um skipulagsbreytingar hjá lögreglunni. En það má minna á að ekki alls fyrir löngu var hér á ferð nefnd frá Evrópuráðinu, hygg ég að hún hafi verið, sem gaf okkur þau ráð að við skyldum stórefla efnahagsbrotadeildina þannig að hún væri fær um að takast á við verkefni sem nýr heimur færði okkur, miklu stærri og alvarlegri efnahagsbrot, og deildin eins og að henni væri búið væri ekki í stakk búin til að sinna slíkum verkefnum. En eins og ég segi er það hugsanlega ekki verkefni þessara laga að taka á slíku en því nefni ég þetta að hér er ég að tala um áherslur og það eru þær áherslur sem lúta að leyniþjónustu og landráðum sem ég vil sérstaklega vekja athygli á.

Ég á sannast að sagna erfitt með að átta mig á hvað þessar lagabreytingar sem hér er gerð tillaga um þýða. Þó vil ég taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að við þurfum að skoða málin heildstætt og skoða þau skref sem verið er að stíga hvert á fætur öðru hvað þetta varðar. Hann nefndi réttilega að Alþingi hefði á liðnum árum haft til umfjöllunar margvísleg lög sem snerta réttindi borgaranna og minnti á lög um hleranir án dómsúrskurðar, eða öllu heldur lagafrumvarp sem aldrei fór í gegnum þingið. Ég vil minna á fleiri lög, t.d. Schengen-samkomulagið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða þingmenn þess höfðu ákveðnar efasemdir um en þar segir í 6. gr. þess samkomulags, svo dæmi sé tekið, að heimilt sé að skrá upplýsingar um einstaklinga í upplýsingakerfið, þ.e. Schengen, m.a. ef ætla má af fyrri hegðun einstaklings — það segir á þessa leið í þessum lögum — eða af öðrum ástæðum að tilgangur hans með komu hingað til lands eða á Schengen-svæðið sé að fremja skemmdarverk, stunda njósnir eða ólöglega upplýsingastarfsemi. Ég man eftir að ég vakti athygli á því í umræðu um Schengen-samkomulagið á sínum tíma hve matskennd ákvæði af þessu tagi væru. Þá voru nýafstaðin mótmæli í Seattle í Bandaríkjunum þar sem Alþjóðaviðskiptastofnunin, World Trade Organization, hafði nýlokið fundi og mikil mótmæli höfðu tengst fundinum, rúður brotnar í ráðstefnuhöllum o.s.frv. Í augum ráðstefnuhaldara var þar eflaust verið að fremja skemmdarverk en í mínum augum og augum hundruða þúsunda manna og milljóna tuga var verið að koma á framfæri öflugum mótmælum gegn stefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hefur því miður gengið þvert á almannahag og sérstaklega hagsmuni fátækra þjóða heimsins. Skemmdarverk í augum eins getur verið þjóðþrifaverk í augum annars. Það sem ég er að vekja athygli á er hversu matskenndir þessir hlutir eru og þegar þeir eru færðir á bak við tjöldin og færðir embættismönnum, þess vegna í hendur lögreglunni. Ég vil taka það fram að ég ber fullt traust til íslensku lögreglunnar, þetta snýst ekki um það, en okkur ber að stíga varlega til jarðar, og ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem einmitt komst þannig að orði.

Þá ætla ég aðeins að líta á þær breytingar sem verið er að gera á lögunum og það væri fróðlegt að hæstv. dómsmálaráðherra skýrði nánar hvað fyrir honum vekti. Í 1. gr. frumvarpsins sem liggur fyrir þinginu er verið að gera tillögu um breytingu á 5. gr. lögreglulaga. Þar segir í 2. tölul., með leyfi forseta:

„Sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum eru:

a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot,

b. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota.“

Síðan eru fleiri töluliðir og fleiri liðir í þessari grein. Nú á b-liður þar sem vikið er á landráðunum að orðast á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„B-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“

Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvort orðalagið er ekki alveg ljóst hvað hér vakir fyrir löggjafanum því það er talað um að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild en síðan kemur fram í athugasemdum við greinina að þetta sé ein og sama deildin, eða hvað? En í athugasemdum við þessa grein segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er lagt til að lögreglurannsóknardeild sem rannsakar brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og stjórnvöldum þess skuli jafnframt vera greiningardeild sem hafi það hlutverk að vinna áhættumat vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi eða öðru sem ógnað getur öryggi ríkisins.“

Þetta virðist vera ein og sama deildin, eða hvað? En það hefur verið bætt í um hlutverk hennar frá fyrri lögum, nefnilega að annast það sem kallað er áhættumat, mat á áhættu á hryðjuverkum. Hvernig er unnið að því að gera slíkt mat? Maður þarf væntanlega að reyna að grafast fyrir um hvað hugsanlega vakir fyrir aðilum sem líklegir eru til slíkra verka. Og hvað þarf til að afla slíkra upplýsinga, því ekki bera þeir slík áform á torg? Það þarf væntanlega að njósna um þá. Þarf að fylgjast með því sem þeir gera. Hér er komið að þessari tengingu við leyniþjónustu og þegar við heyrum það síðan að heimildir embættisins til vinnubragða og verka munu ráðast af því hvað leyniþjónustur í Evrópu komi til með að gera, þær vinnureglur sem þær komi til með að setja sjálfum sér, þá erum við komin ansi nærri leyniþjónustuhugsuninni.

Ég kvaddi mér hljóðs hér fyrir fáeinum dögum til að vekja máls á þessu, gerði það í mjög andstuttum stíl á tveimur mínútum, en ég gat um það að á a.m.k. þremur stöðum í íslenskum lögum er vikið að landráðum sem hér á að vera verkefni sérstakrar greiningardeildar. Það er í fyrsta lagi í lögreglulögunum. Síðan er það í almennum hegningarlögum, þar eru landráð skilgreind í 87. gr., og síðan er vikið að landráðum í lögum um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, svo ég hafi titil þeirra laga réttan eftir. Þar segir í c-lið 3. tölul. 2. gr., með leyfi forseta:

„Til brota gegn öryggi Íslands eða Bandaríkjanna teljast:

1. landráð; 2. skemmdarverk, njósnir og brot á hvers konar lögum, er varða leyndarmál íslenska ríkisins eða Bandaríkjanna, eða leyndarmál, er varða varnir Íslands eða Bandaríkjanna.“

Síðan segir áfram í c-lið 7. tölul. 2. gr., með leyfi forseta:

„Stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna skulu gefa hvor öðrum skýrslur um árangur hvers konar rannsóknar og saksóknar í málinu, þar sem lögsögu getur borið undir hvorn aðila sem er.“

Hér er sem sagt kveðið á um það að Íslendingar, íslensk stjórnvöld, skuli gefa bandarískum stjórnvöldum upplýsingar um þá vitneskju sem þau komast yfir og lúta að hugsanlegu landráði. Þar er komið að þeirri spurningu sem ég vildi beina til hæstv. dómsmálaráðherra: Þarf ekki að búa svo um hnútana ef greiningardeild af því tagi sem kveðið er á um í lögunum verður komið á laggirnar — og er reyndar fyrir hendi núna undir öðru nafni og hæstv. ráðherra segir okkur að það sé ekki að verða nein eðlisbreyting á þó ég hafi ákveðnar efasemdir um það og gagnrýni þær áherslur sem fram koma í þessu frumvarpi hvað þetta snertir og alla umgjörðina um það — að slíkar deildir hjá lögreglunni hafi sérstaka upplýsingaskyldu gagnvart Alþingi Íslendinga? Þetta tíðkast í sumum löndum og hefur t.d. verið við lýði í Noregi, að því er ég best veit, að þingið fær aðgang að upplýsingum sem snúa að því sem menn skilgreina sem landráð eða rannsóknir á hryðjuverkum eða einhverri ógn gegn þjóð og ríki. Ég vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvað honum finnist um slíkt.

Sjálfur hef ég mjög miklar efasemdir um að yfirleitt sé komið á fót starfsemi af þessu tagi. En ég hef þann fyrirvara að ef slíkt verður ofan á, og það er vissulega ofan á, tel ég skipta mjög miklu máli að þingið, lýðræðislegir fulltrúar, hafi aðgang að upplýsingum sem þar koma fram. Það þarf ekki að fara langt til að vísa í njósnir á vegum ríkisins, t.d. í Noregi. Þar var njósnað um vinstri sinnaða stjórnmálamenn á sínum tíma og án þess að aðrir vissu en framkvæmdarvaldið og þá einnig lögreglan. Þetta er mjög óeðlilegt og mjög hættulegur hlutur. Við eigum að stíga afar varlega til jarðar þegar við erum komin inn á þessar brautir. Ég ítreka að ég hef miklar efasemdir um það yfirleitt að við eigum að fara út í þessar hugsanlegu landráðarannsóknir. Við eigum að efla almenna löggæslu í landinu og taka á því sem er saknæmt gagnvart íslenskum hegningarlögum, og geri ég þá ákveðna fyrirvara við þær greinar sem fjalla um svokallað landráð.

Við sjáum það sem er að gerast í ýmsum ríkjum. Í Bandaríkjunum situr mjög öfgafull og að mínum dómi mjög hættuleg ríkisstjórn, hættuleg lýðræðinu og mannréttindum ekki bara að heiman heldur einnig heima. Sjálfur Bush forseti er farinn að brigsla andstæðingum sínum, og jafnvel í Demókrataflokknum, um landráð, ýja að slíku, farinn að nota þessi ákvæði bandarískra laga til að gefa í skyn að menn séu hættulegir ríki og eigin þjóð.

Ég er alls ekki að gera því skóna að slíkt sé uppi hér. Ég er einvörðungu að vekja athygli á hinu stóra samhengi hlutanna. Ef það er rétt sem fram kemur í máli hæstv. dómsmálaráðherra, að það sé í reynd ekki að verða nein eðlisbreyting á starfsemi lögreglunnar, hvers vegna þá þessar ríku áherslur, sem fram koma í máli hans og í greinargerð með frumvarpinu, á að það þurfi að efla hér varnir og forvarnir gegn hugsanlegum hryðjuverkum og landráðum?



[15:20]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom víða við í ræðu sinni og má taka undir það með honum að þegar þessi mál eru til umræðu verður jafnan að hafa í huga virðingu fyrir mannréttindum. Auðvitað verður alltaf að nálgast auknar valdheimildir hins opinbera til eftirlits með borgurunum af varúð. Hins vegar er það líka ein af grundvallarskyldum ríkisvaldsins að vernda öryggi borgaranna og síðan er það um leið grundvallarskylda ríkisvaldsins að standa vörð um þá stjórnskipan sem er í landinu. Í lýðræðisríki mega menn ekki missa sjónar á því að það geti þurft að standa vörð við það lýðræðisskipulag sem við búum við.

Varðandi efnisatriði í ræðu hv. þingmanns þá verð ég að segja að hann, eins og reyndar sumir aðrir hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í dag, virðist vera að tala um annað frumvarp en það sem liggur á borðum. Mörg af þeim atriðum sem þeir beina spjótum sínum að er ekki að finna í frumvarpinu sem við ræðum hér. Mér finnst því mikilvægt að það komi fram að þetta frumvarp felur sem slíkt ekki í sér neinar breytingar á því hvað er refsivert í landinu. Þau brot sem vísað er til í sambandi við verkefni rannsóknar- og greiningardeildar eru refsiverð og hafa verið refsiverð um langa hríð.

Frumvarpið felur heldur ekki í sér auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Við erum ekki að fjalla um það efni. Það er ekki efni þessa frumvarps. Frumvarpið sem við hér ræðum að því er lýtur að rannsóknar- og greiningardeildinni felur í sér breytt skipulag sem á að gera það að verkum að skipulag lögreglunnar henti betur til að sinna þeirri starfsemi sem hún ber ábyrgð á nú þegar.



[15:22]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annars vegar er okkur sagt að það sé ekki að verða nein eðlisbreyting á starfsemi lögreglunnar, hins vegar koma fram nýjar áherslur. Nú er því bætt við lagatextann að þeir sem eiga að rannsaka hryðjuverk, landráð og ógn við ríkið eigi að leggja mat á þá hættu sem að steðjar, eigi að framkvæma einhvers konar áhættumat.

Ég hef spurt: Erum við hér að tala um njósnastarfsemi? Ef við erum að tala um njósnastarfsemi þá hef ég sagt tvennt: Í fyrsta lagi er ég andvígur því að færa slík völd til lögreglunnar, ég tala nú ekki um að slíkt sé gert án þess að heimildir séu fullljósar. Í öðru lagi spyr ég: Ef það verður ofan á að slíkt verður gert og slíkt heimilað, eins og reyndar er gert að einhverju leyti í núverandi lögum á fremur óljósan hátt, þá tel ég mjög mikilvægt að þingið og lýðræðislega kjörnir fulltrúar komist þar að sem eftirlitsaðili. Þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson á eftir að koma öðru sinni upp í andsvar, ég gef mér það, þætti mér fróðlegt að heyra álit hans á þessu. Ég bíð einnig eftir að heyra álit hæstv. dómsmálaráðherra. Er ekki eðlilegt að styrkja tengslin á milli lögreglu og Alþingis, lýðræðislega kjörinna fulltrúa, að þessu leyti? Er það ekki lýðræðinu til góðs af því að við erum báðir að tala um lýðræðið og mannréttindin?



[15:24]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ljóst af frumvarpinu, og skýrt í greinargerð sem með því fylgir, að með því að stofna þessa rannsóknar- og greiningardeild er ætlunin að gera það að verkum að lögreglan verði betur fær um að sinna því hlutverki sem hún hefur að þessu leyti í dag. Hún hefur ákveðnar skyldur í þessu sambandi og sú skylda verður hin sama og áður en hins vegar má segja að skipulagi lögreglunnar sé breytt með þeim hætti að hún geti betur sinnt því.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi umræða á sér stað hér á landi og í löndum í kringum okkur. Við höfum á undanförnum árum séð vaxandi ógn af hryðjuverkum og sú ógn hefur með ýmsum hætti færst nær okkur Íslendingum. Vá sem var mjög fjarlæg fyrir einhverjum árum eða áratugum er miklu nærtækari í dag. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og í sjálfu sér hrósvert, að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hafa tekið forustu um að reyna að búa þannig um hnútana að Íslendingar séu betur til þess fallnir að bregðast við slíkri vá. Ég held að þingmenn ættu að geta sameinast um það að ríkisvaldið hafi þau tæki og það skipulag sem gerir því kleift að vernda líf, heilsu og öryggi borgaranna með þessu móti.

Auðvitað er ég sammála hv. þingmanni um að það verður alltaf að gæta þess vandlega að ganga ekki á svig við grundvallarreglur um vernd persónuréttinda, einkalífs og aðra slíka þætti. Það verður hins vegar að finna ákveðið jafnvægi hvað þetta varðar vegna þess að til að vernda öryggið þarf í sumum tilvikum að bregðast við með viðeigandi hætti.



[15:26]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hafa þeir einmitt sagt í einræðisríkjunum. Til að vernda öryggi borgaranna og ríkisins þurfi að bregðast við á viðeigandi hátt. Ég mundi fara varlega í að hrósa ríkisstjórn sem fór með íslenska þjóð í árásarstríð gegn Afganistan og gegn Írak að henni forspurðri. Ég mundi fara varlega í að hrósa slíkri ríkisstjórn fyrir mannréttindi. Ég mundi fara mjög varlega í það.

Það er alveg rétt að víða stafar ógn af hryðjuverkum en það steðjar líka ógn að frelsi og lýðréttindum. Með því að herða á hvers kyns eftirliti með borgurunum, mér liggur við að segja ofsóknum gegn borgurunum, — við verðum vitni að því nánast upp á dag hvern í Bandaríkjunum og víða um heim — steðjar ógn að frelsi og lýðréttindum. Það er rétt sem var sagt hér fyrr í dag að hvað þetta snertir hræða sporin. Við eigum að fara varlega í allri lagasmíð sem þrengir að einstaklingnum og einstaklingsfrelsinu í landinu.



[15:28]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns að lýsa ánægju minni og hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir vinnulagið við undirbúning þessa frumvarps, fyrir hið víðtæka samráð og samvinnu sem hann hefur haft við fulltrúa allra þeirra sem málið varðar. Mér finnst ástæða til að taka það fram vegna þess að ég hef úr þessum ræðustóli í annan tíma gagnrýnt hæstv. ráðherra fyrir skort á samráði.

Það er ljóst, og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því í ræðu sinni, hver undanfari þessa frumvarps er. Hann rakti það að helstu hvatamenn að breytingum á skipun lögregluumdæma, sem er meginefni frumvarpsins, væri lögreglan sjálf. Það væri Landssamband lögreglumanna sem fyrst hefði hreyft máls á þessu og reynt að fylgja málinu eftir. Ráðherrann gerði grein fyrir störfum og skipunarbréfi þeirrar verkefnastjórnar sem var falin upphafsvinnan að undirbúningi þessa frumvarps. Hann rakti síðan koll af kolli hvernig frumvarpið hefur verið undirbúið, efni frumvarpsins kynnt og leitast við að fá viðbrögð við því, og í síðustu atrennu var brugðist við ýmsum þeim ábendingum sem komu fram við kynninguna.

Mér finnst líka vegna ræðna frá öðrum hv. þingmönnum í umræðunni vert að vekja athygli á því að forsendur frumvarpsins eru mjög skýrar. Forsendurnar eru skýrar og markmiðin eru mjög skýr. Meginefni frumvarpsins er að breyta umdæmaskipan lögreglu og markmiðin eru stærri umdæmi og sameining lögregluliða sem er ætlað fyrst og fremst að styrkja og efla lögregluna og gera henni betur kleift að sinna lögbundnum verkefnum sínum, lögbundnu hlutverki sínu, þeim hlutverkum sem við í annarri löggjöf felum lögreglunni.

Það sem þetta snýst í rauninni um er hvernig við getum eflt þjónustu við borgarana vegna þess að hlutverk lögreglunnar er að gæta öryggis borgaranna og þetta snýst um þjónustu. Kröfur fólks um allt land byggja á því að þetta sé gert sem réttast og skynsamlegast þannig að fólk geti treyst því að öryggis þess sé gætt og það njóti þeirrar þjónustu sem lögreglan á að veita. Þá er ég að tala bæði um almenna löggæslu og líka rannsókn sakamála. Þetta verður m.a. gert með því að samræma vaktkerfi lögregluembætta m.a. í því skyni sem oft hefur verið kallað eftir í þessum þingsal eða úr þessum ræðustól, að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu sem mörgum hefur fundist vanta upp á eins og fyrirkomulagið hefur verið.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, um það sem er meginefni frumvarpsins en hefur kannski að vissu leyti fengið minni umræðu en annað og það sem minna fer fyrir í frumvarpstextanum sjálfum. Mig langar líka, herra forseti, að lýsa miklum stuðningi við þær breytingar sem frumvarpið að þessu leyti felur í sér. Það sem hins vegar hefur verið meira rætt í umræðunni í dag og er alls ekki að finna í frumvarpinu af því að því miður hafa ræður sumra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst snúist um það sem ekki er í frumvarpinu og um hluti sem tilheyra allt annarri umræðu hér í þingi eða einhvers staðar utan úr heimi.

Þá vil ég nefna greiningardeildina. Sá misskilningur virðist vera uppi eða alla vega er reynt að halda því á lofti að verið sé að gera eitthvað allt annað en frumvarpið hljóðar upp á. Það sem frumvarpið segir fyrst og fremst er að svokölluð rannsóknardeild eða lögreglurannsóknardeild sem er falið að rannsaka tiltekin brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins verði jafnframt greiningardeild. Hún á að heita lögreglurannsóknar- og greiningardeild innan embættis ríkislögreglustjóra. Eina nýskipanin er í rauninni sú að þeirri deild er falið að leggja mat á áhættu vegna tiltekinna afbrota og í frumvarpinu er gerð grein fyrir því hvers konar afbrot það eru. Og það eru ekki eins og hver önnur afbrot heldur þau sem ég nefndi, þ.e. landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Rétt er að halda því til haga vegna umræðunnar sem búin er að vera um málið að í frumvarpinu er ekki að finna neinar nýjar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu, engar. Í frumvarpinu er heldur ekki að finna neitt nýtt refsiákvæði. Einungis er verið að víkka út verksvið og hlutverk þessarar deildar og breyta heitinu á henni.

Svo vil ég halda því til haga að lögreglan fær engar nýjar rannsóknarheimildir nema með atbeina Alþingis. Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan tiltekið frumvarp um hleranir án dómsúrskurðar vil ég líka árétta eins og hv. þingmaður gerði að það frumvarp fór ekki í gegnum þingið. Eftir að búið er að mæla fyrir málum fara þau til þingnefndar, allsherjarnefndar í þessu tilviki, eins og fór um það mál þar sem menn gátu komið að sjónarmiðum sínum. Rannsóknarheimildir verða því ekki auknar eða þeim breytt nema með atbeina þingsins, ekki frekar en að refsiákvæðum verði breytt nema atbeini þingsins komi til. Þessu vildi ég halda til haga.

Hins vegar finnst mér að þeim ræðum sem hérna hafa verið haldnar sé meira og minna ætlað að vekja tortryggni gagnvart lögreglu og gagnvart stjórnvöldum. Mig langar í því samhengi að nefna málstofu sem Norðurlandaráð stóð fyrir og var haldin í Ósló núna fyrir nokkrum vikum. Þar áttu Norðurlandaráðsliðar þess kost að hlusta á lögreglustjóra norsku öryggislögreglunnar, þar sem hann gerði grein fyrir meginhlutverki stofnunar sinnar í samráði og samstarfi við aðrar sams konar evrópskrar stofnanir, systurstofnanir. Það var áhættumat. Það var að leggja mat á áhættu, m.a. á hryðjuverkum og ekki bara hryðjuverkum heldur af annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Hvað erum við að tala um þegar við segjum alþjóðleg glæpastarfsemi? Við erum m.a. að tala um mansal á konum og börnum til kynlífsþrælkunar. Við erum að tala um samstarf um þau brot sem ekki stöðvast við landamæri, sem hafa einmitt þau einkenni að teygja sig yfir landamæri ríkja. Þess vegna er samstarfið svo þýðingarmikið.

Það mat þessa ágæta norska embættismanns sem vakti mesta athygli í þessari málstofu og líka í norskum fjölmiðlum var þegar hann áréttaði að vissulega þyrfti lögreglan að vera á varðbergi og halda vöku sinni við landamæravörslu og gagnvart hvers konar öfga- og vígamönnum sem koma yfir landamæri. En mat þeirra hafði leitt í ljós, og hann vildi meina að það væri samevrópskt mat, að hættuna væri ekki síður að finna innan lands. Og hann nefndi í því tilviki, af því að við erum að tala um hryðjuverk, tvo jaðarhópa. Annars vegar nefndi hann fólk af annarri eða þriðju kynslóð innflytjenda sem hafa íslamskan menningarbakgrunn og ganga til liðs við trúarofstækishópa, ofbeldisfulla trúarofstækishópa. Hins vegar nefndi hann fólk af evrópsku bergi brotið, í þessu tilviki fólk af norsku bergi brotið, kynslóð fram af kynslóð öfgaþjóðernissinna og nýnasista. Hann sagði líka og hafði það eftir fyrrverandi norskum dómsmálaráðherra að íslam er ekki sama og íslam. Þetta eru jaðarhópar á báða kanta. Ég nefni þetta sem dæmi um áhættumat sem hann gerði okkur grein fyrir á þeim fundi.

Annað meginefni þess fundar sem mér finnst vert að hafa orð á hér vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um að við þyrftum að hafa heildstæða sýn á þetta mál. Hitt meginatriðið sem lögð var áhersla á á fundinum var þessi gullni meðalvegur. Gullni meðalvegurinn sem við þurfum að rata er annars vegar milli nægilegra öflugra tækja og rannsóknarheimilda lögreglu og ríkisstjórna, og hins vegar persónufrelsis og lýðréttinda borgaranna. Alþingi Íslendinga hefur það í hendi sér að gæta þessa jafnvægis af því að eins og ég sagði áðan verður ekki aukið eða breytt rannsóknarheimildum lögreglu né refsiákvæðum bætt við eða þeim breytt nema með atbeina Alþingis. Auðvitað erum við öll á því að hvers konar sértækar aðgerðir eða lagasetning í baráttu gegn hryðjuverkum megi aldrei ganga svo langt að hún stríði gegn grundvallarreglum réttarríkisins og þeim mannréttindum sem baráttunni er ætlað að verja. Þess vegna hljótum við að leggjast á eitt með því að rata þennan gullna meðalveg en við megum ekki alltaf tala þannig að öryggi borgaranna sé einskis virði því það er fyrst og fremst hlutverk lögreglunnar að standa vörð um sem handhafa ríkisvaldsins.

Herra forseti. Varðandi lögbundið mat á áhættu vegna tiltekinna afbrota hef ég nefnt dæmi um það og vísaði í orð lögreglustjóra í Noregi. En af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði út af því áðan að líklega þyrfti að njósna um aðila eða fylgjast með hvað menn væru að gera, þá vil ég vekja athygli á því að lögreglunni ber, ekki síst á grundvelli alþjóðlegra sáttmála ekki bara að rannsaka brot sem til hennar eru kærð heldur ber henni að vera vakandi yfir fleiru. Vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar var mér sérstaklega hugsað til mansalsins. Þau brot eru ekki kærð. Það er enginn sem kærir þau og það er m.a. hlutverk greiningardeildar að því marki sem hún er útfærð í frumvarpinu að leggja mat á hættu á þess konar brotum. Lögreglan þarf eftir öðrum leiðum, hún getur ekki setið og beðið eftir kæru, að leggja mat á hættuna og hún þarf að leita leiða til að rannsaka og upplýsa slík brot. Þetta snýr ekki eingöngu að persónuvernd almennra, friðelskandi, löghlýðinna borgara. Við erum líka að tala um þá sem stunda slíka iðju og vinna hana í ljósi þess mikla hagnaðar sem þeir geta eignað sér.

En enn og aftur, herra forseti, langar mig að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og árétta að það sem ekki er í því sagt er ekki í því sagt og hvet til þess að menn taki þá umræðu ef og þegar kemur að því að hæstv. dómsmálaráðherra kemur fram með eitthvert frumvarp eða leggur til einhverjar breytingar sem lúta að breytingum á refsiákvæðum eða auknum eða breyttum rannsóknarheimildum lögreglu, en það er bara önnur umræða að mínu mati.



[15:42]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sem betur fer er enn þá málfrelsi hér á landi og í þessum sal og hv. þm. Jónína Bjartmarz má auðvitað hafa skoðanir á því hvenær okkur beri að ræða hugðarefni okkar í tengslum við þessi mál eða önnur. Hún hefur fyllsta rétt til þess og mér er alveg sama um það.

En umræðan sem hún var að snúa sér að áðan var í reynd umræðan sem ekki hafði farið fram í dag að mínu mati. Það var enginn sem sagði að öryggi borgaranna skipti ekki máli. Það voru þau orð sem hún lagði í munn ræðumanna hér. Að sjálfsögðu skiptir öryggi borganna máli, persónufrelsið líka, eins og reyndar hv. þingmaður lagði ríka áherslu á. Menn verða með einhverjum hætti að finna þarna ákveðinn meðalveg.

Ástæðan fyrir því að menn stíga upp á tærnar í málinu er sú staðreynd að hæstv. ráðherra kynnir til leiks nýja deild, greiningardeild. Hann segir í framsögu sinni að hún eigi þegar tímar líða fram að hafa sambærilegar lögheimildir og aðrar svipaðar deildir í öðrum löndum. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni þegar hún segir að við séum að ræða hér mál sem fyrst og fremst eigi við annars staðar en hér. Hæstv. ráðherra talaði með þeim hætti og þegar hann var spurður í andsvari kom fram, bæði hjá honum og síðar hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, að það væri seinni tíma mál að leggja fyrir aðferðir og heimildir fyrir þessa nýju greiningardeild. Samkvæmt því getum við gengið út frá því sem vísu að þess verði a.m.k. freistað þá er eðlilegt að menn spyrji: Hvaða heimildir eru þetta? Eru það t.d. heimildir sem eiga að gefa ríkislögreglustjóra færi á því með lögum að fylgja eftir umhverfisverndarsinnum sem hingað koma til lands og hafa uppi mótmæli að ógna þeim með því að elta þá við hvert fótmál eins og í sumar?



[15:45]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst ánægju yfir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson veitir mér hér málfrelsi. Að sama skapi hef ég aldrei gert neina tilraun og mun aldrei gera til að takmarka málfrelsi hv. þingmanns. En þegar reynt er að afflytja efni frumvarps, eins og mér finnst ákveðnir hv. þingmenn hafa gert hér í dag með því að fjalla um það sem ekki er einu sinni fjallað um í frumvarpinu, þá er mér það algjörlega frjálst að vekja athygli á því.

Það er alveg ljóst að umrædd rannsóknar- og greiningardeild ríkislögreglustjóra hlýtur að vera samstarfsaðili við aðrar sambærilegar deildir á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Vegna eðlis þeirra brota sem ég fjallaði um í ræðu minni og deildinni er ætlað að rannsaka hlýtur samstarf yfir landamæri að vera í brennidepli. Hvað rannsóknarheimildirnar varðar heyrði ég það ekki á ræðu hæstv. ráðherra að hann væri að boða einhverjar frekari rannsóknarheimildir. Ég geri fyllilega ráð fyrir og þykist vita að þessi deild fer nákvæmlega með þær rannsóknarheimildir sem löggjafinn hefur veitt henni til þessa, og þær eru margar þær sömu, af því að við leggjum stundum upp úr norrænu lagasamræmi, og lögreglan í nágrannalöndum okkar hefur. Þetta er spurningin um hver beitir þeim. Áhættumatið bætist við það sem við höfum búið við og ég studdi mjög í ræðu minni áðan að lögreglunni væri falið að gera það vegna eðlis þessara afbrota sem ekki eru kærð. Lögreglan þarf að leita þau uppi svipað og fíkniefnabrotin. Við hljótum að standa vörð um það að efla lögregluna af því að öll viljum við vinna bug á og vinna gegn þeim afbrotum.



[15:46]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða sem formaður Landssambands lögreglumanna hefði sjálfur getað flutt og ég get í flestum tilvikum tekið undir það sem sagt var. Við eigum að efla alþjóðlegt samstarf á sviði löggæslunnar og við eigum að gera það sem hægt er innan marka a.m.k. þeirra mælikvarða sem við höfum alist upp við varðandi persónufrelsi.

Sporin hræða. Ég er svolítið hræddur við frumvarp sem mér finnst hálfvegis vera eins og óútfylltur tékki. Greiningardeild, hvað á hún að gera? Áhættumat, hvernig á það að fara fram? Menn greina ekki hættuna nema menn hafi upplýsingar. Menn verða þá að safna þeim. Um hverja? Þá hópa sem hugsanlega kunna að fremja brot gegn æðstu stjórnvöldum landsins? Hvaða hópar eru það? Hverjir eiga að taka ákvörðun um það með hverjum á að fylgjast og hver á að gæta gæslumannanna? Þessum spurningum er ósvarað.

Ég þekki hæstv. dómsmálaráðherra það vel að ég hlustaði grannt á ræðu hans, mér fundust nefnilega vera litlar skýringar á greiningardeildinni í þessu frumvarpi. Þær komu frekar fram í ræðu hæstv. ráðherra og þar kom sú skoðun fram að það ætti að rannsaka óframda glæpi, þ.e. það ætti með öðrum orðum að afla upplýsinga um það sem hugsanlega kynni að gerast, brot gagnvart æðstu stjórnvöldum. Hvernig á að gera það? Með því að fylgjast með fólki? Þá hugsa ég til sumarsins þegar ríkislögreglustjóri lét elta við hvert fótmál þvert yfir landið fólk sem hingað kom til að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Eru það slíkir hópar sem á að fylgjast með? Eru það þeir sem fremja mansal, peningaþvætti? Ég geri mjög skýran greinarmun á þessum tegundum glæpa sem við ræðum hér og það kemur ekki fram hér með hvaða hætti á að taka ákvarðanir um slíkt eftirlit.



[15:49]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka í seinna andsvari að í þessu frumvarpi er ekki að finna neinar nýjar eða breyttar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu og engin ný refsiákvæði, bara svo við höldum því til haga.

Brot sem lögreglan hefur ekki vitneskju um geta fyrst og fremst verið óupplýst brot. Í frumvarpinu og í greinargerðinni segir beinlínis að það séu m.a. brot og áhættumat vegna hryðjuverka, alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem mansals. Þessi brot eru ekki kærð. Fyrir fram vitum við ekki um sekt eða sakleysi en lögreglan þarf að leggjast í vinnu til að upplýsa slík brot og getur þurft að beita mörgum þeim rannsóknarheimildum sem Alþingi hefur fram á þennan dag veitt henni. Stundum kemur í ljós að um sekt er að ræða, okkur tekst að koma höndum á brotamenn. Í öðrum tilvikum er það ekki. En brotin eru þess eðlis að við hljótum að styðja, ekki bara það að lögreglunni sé falið þetta hlutverk og þessi skylda heldur að hún hafi samstarf við lögreglu í öðrum ríkjum, ekki síst í hinum norrænu ríkjunum. Þessi brot eru öll þess eðlis að þau stöðvast ekki við landamæri. Þau kalla á og krefjast alþjóðlegs samstarfs og við verðum að vera í stakk búin, m.a. í stjórnskipun lögreglunnar, að geta sinnt þessu samstarfi. Ekki að vera þiggjendur í öllu heldur að vera veitendur. Mér finnst sjálfsagt að fullvalda ríki búi sjálft að einhverju leyti að þeim upplýsingum sem það þarf með en þurfi ekki í öllum tilvikum að leita til annarra. En ég legg áherslu á samstarfið.



[15:51]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz dregur línu, gerir greinarmun annars vegar á milli brota sem eru ekki kærð og krefjast rannsóknar af hálfu lögreglunnar og hins vegar brota sem eru kærð. Þessi greinarmunur getur átt við í vissu samhengi en ekki í þessu, tel ég. Ekki alla vega til að túlka mitt mál eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur gert eða lagt út af mínum orðum. Við erum öll sammála um það, hygg ég, að það eigi að grafast fyrir um brot á borð við mansal, eiturlyfjasölu og smygl, peningaþvætti og annað af því tagi. Við höfum stundum deilt um það hvaða aðferðum eigi að vera heimilt að beita við slíkar rannsóknir og mjög mikilvægt að þingið og löggjafinn setji ákveðnar reglur um það, að við komum okkur saman um slíkar reglur. Þetta held ég að sé ekki átakamál í sjálfu sér að öðru leyti en því að við viljum ganga misjafnlega langt hvað rannsóknirnar snertir.

Þegar hins vegar kemur að markalínunum á milli þess sem menn geta kallað landráð, skemmdarverk eða hryðjuverk og pólitískra glæpa vakna spurningar. Það eru slíkar markalínur sem eru að verða harla óljósar og ég vísaði þar til þess sem er að gerast í Bandaríkjunum þar sem ýjað er að því að þeir sem gagnrýna stjórnarstefnuna og stjórnvöld séu hættulegir öryggi ríkisins, að þeir stundi landráð. Þegar komið er inn á þær brautir verðum við að hafa varann á. Það er rangt að ég hafi verið að mála skrattann á vegginn með þessu frumvarpi, alls ekki. Ég lagði áherslu á þær breytingar sem verið var að gera og kallaði eftir upplýsingum frá hæstv. dómsmálaráðherra um hvað í þeim fælist en ég var síður en svo að gera því skóna að hér væru einhver stór grundvallaratriði á ferðinni. Ég talaði um áherslubreytingar og kallaði eftir skýringum hæstv. ráðherra hvað þær snertir.



[15:53]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að eftir að búið er að vísa þessu máli til hv. allsherjarnefndar eigi nefndarmenn kost á því að fara í saumana á því, spyrja fulltrúa ríkislögreglustjóra um hvernig þeir hyggist vinna þetta, starfa innan þess hlutverks sem við felum þeim með frumvarpinu. Ég vænti þess að við spyrjum þá líka hvernig samstarfi þeirra sé háttað t.d. við lögregluyfirvöld á hinum Norðurlöndunum og hvort sú starfsemi sem þeir sjá fyrir sér innan þess ramma sem er áhættumatið verði að einhverju leyti öðruvísi, en ég geri ráð fyrir að málið skýrist heilmikið þar. Við fáum sérfræðinga á þessu sviði til fundar við nefndina. En það er ekkert af þessu auðvelt, herra forseti. Það er ekkert af þessu auðvelt og þess vegna lagði ég í ræðu minni megináhersluna á hinn gullna meðalveg — hvernig við þurfum að feta hann, gullna meðalveginn, á milli þess að útvega lögreglunni þau tæki og þær heimildir sem hún þarf til að tryggja öryggi borgaranna, verja okkur gegn hryðjuverkum og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi og svo hins vegar persónufrelsið og lýðréttindin. Þetta er erfitt og við þurfum alltaf að halda vöku okkar.

Ég vil aðeins í einu taka undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan, herra forseti. Það eru þessar markalínur. Ég hlustaði á fulltrúa Evrópuþingsins á þessari sömu málstofu fjalla um erfiðleikana við að skilgreina hryðjuverkamanninn. Við þekkjum hann öll þegar hann er búinn að sprengja eitthvað í loft upp. Við þekkjum hann flest þá en hvernig eigum við að skilgreina hann í orðum vegna þessarar markalínu, eins og einhver sagði einhvern tíma: Hryðjuverkamaður í hugum eins er frelsishetja í hugum annars. Svona flókið er þetta.

Ég er ekki að gera lítið úr persónuréttindunum. En ég vil halda því á lofti að meginefni þessa frumvarps er að standa vörð um öryggi borgaranna og um þjónustu lögreglunnar og stjórnvalda gagnvart borgurunum, tryggja öryggi þeirra.



[15:55]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um að hv. þm. Jónínu Bjartmarz hafi tekist að finna hinn gullna meðalveg sem hún vísar til. Alla vega fannst mér hún ekki ganga þann veg í ræðu sinni. Hún felldi mjög ákveðna dóma um þá sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og lagði út af orðum þeirra á rangan veg, að mínu mati.

En ég vil spyrja hv. þm. Jónínu Bjartmarz um eitt atriði. Gefum okkur að við séum sammála um að viðfangsefnið sé flókið og erfitt og þurfi rækilegrar umræðu við og rækilegs aðhalds. Ef komið er á fót deild innan lögreglunnar — eða slík deild efld því hún er þar fyrir hendi að einhverju leyti eða þetta verkefni — telur þingmaðurinn æskilegt að efla aðkomu þingsins eða eftirlit af hálfu löggjafarsamkomunnar eins og tíðkast sums staðar í öðrum ríkjum? Ég held að í norska þinginu t.d. hafi sérstök nefnd það verkefni með höndum að hafa eftirlit með lögreglunni hvað þetta snertir. Ég vildi gjarnan heyra viðhorf hv þm. Jónínu Bjartmarz hvað þetta varðar.



[15:57]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist vita að einmitt í norska þinginu er sérstök þingnefnd sem starfar mjög náið með lögreglunni. En það er ekkert í ljósi þess að það er verið að setja á fót greiningardeild hér. Hún starfar bara náið með lögreglunni, sérstaklega þeirri deild sem lýtur að verksviði eins og þessari greiningardeild er ætlað að hafa. Hugsunin er þá sú að þarna séu kjörnir fulltrúar fólksins sem hún ber sig saman við og upplýsir, og ég geri ráð fyrir því að þeir fundir séu í trúnaði. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu en ég sé hins vegar engin tengsl við þessa umræðu. Það er svo margt annað í norska Stórþinginu og víðast hvar í þjóðþingum í kringum okkur sem er á allt annan veg en við búum við á Alþingi Íslendinga.

Enn og aftur ætla ég að ítreka, herra forseti, að við erum að tala um að breyta heiti og fela ákveðinni deild hjá ríkislögreglustjóra að meta áhættu á tilteknum afbrotum. Það eru engar nýjar rannsóknarheimildir. Ég er alveg opin fyrir þeirri hugmynd að stofna sérstaka nefnd sem fer yfir þær rannsóknarheimildir sem íslenska lögreglan hefur í dag, sem ég geri ekki ráð fyrir að breytist mikið á næstunni. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að við fáum af einhverju öðru samhengi tilefni til að ræða akkúrat þetta hvort sem það er í allsherjarnefnd eða af tilefni einhvers konar þingmáls í þessum sal.



[15:59]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þeim sjónarmiðum sem ég hef einkum áhuga á að koma fram í þessari umræðu hef ég þegar að mestu leyti komið fram í andsvörum fyrr í dag. Áður en ég kem að því áhersluatriði sem ég hef einkum fjallað um, greiningardeildinni, langar mig að segja að þetta frumvarp fjallar að verulegu leyti um ákveðna breytingu á lögregluumdæmum og stjórn þeirra. Frá því að ég kom inn á þing árið 1991 má segja að tilraunir ráðamanna til að reyna að breyta þessum umdæmum hafi verið sagan endalausa. Það hefur reynst ákaflega erfitt að breyta og stækka og stundum fækka lögreglustjóraembættum og sýslumannsembættum. Jafnan rísa upp litlir og stórir höfðingjar í kjördæmum landsins sem vilja ekki að neitt færist yfir kjördæmamörkin og þess vegna hefur oft reynst töluvert erfitt að ná fram breytingum af þessu tagi.

Í stærstu dráttum eru þetta ágætar tillögur sem hér er að finna hjá hæstv. dómsmálaráðherra um þennan kafla frumvarpsins og geri ég í sjálfu sér engar sérstakar athugasemdir við það. Ég held að þetta sé að mörgu leyti vel til þess fallið að gera embættin skilvirkari en ég er hins vegar meðvitaður um það að eins og jafnan áður á hæstv. dómsmálaráðherra í höggi við marga sem telja að vegið sé að hagsmunum sinna kjördæma. Ég met drift hæstv. dómsmálaráðherra og vilja til að ráðast til atlögu gegn slíkum hagsmunum, sem ég hef mörgum sinnum áður kallað sérhagsmuni, og óska honum gæfu og gengis til að koma því í verk.

Ég hef í þessari umræðu fyrst og fremst staldrað við 1. gr. þar sem verið er að leggja til að sett verði á fót sérstök greiningardeild. Ég er ósammála því sem hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði áðan að það væri í reynd ekki verið að gera neitt nema gefa deild nýtt nafn. Það er alls ekki rétt. Það kemur glögglega fram í þessu frumvarpi og greinargerðinni, og auðvitað skýrast í máli hæstv. ráðherra, að verið er að búa til nýtt verkefni fyrir þá lögreglurannsóknardeild sem er fyrir hendi. Það kemur skýrt fram í greinargerðinni, af því að hv. þm. Jónína Bjartmarz fjallaði fyrst og fremst um mansal og hryðjuverk, að þessari deild er líka ætlað að taka á öðrum hlutum. Það er erfitt fyrir mig að standa hér og ræða þetta frumvarp eftir að hafa lesið það til hlítar en vera samt ekki alveg klár á því hvaða verkefni önnur þessi deild á að fást við.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði eðlilega að það væri nauðsynlegt að hafa gott samstarf við Norðurlöndin. Ég er þeirrar skoðunar að það sé jafnvel enn ríkari nauðsyn að hafa samstarf við önnur lönd til að vinna bug á þeim glæpum sem hún bar sérstaklega fyrir brjósti, þ.e. hryðjuverkum og mansali, peningaþvætti og annars konar glæpastarfsemi. Í athugasemdum við frumvarpið er hins vegar sagt að lögreglurannsóknardeildin eigi ekki bara að rannsaka landráð og síðan þessar tegundir glæpa heldur líka annað sem ógnað getur öryggi ríkisins. Það væri í sjálfu sér fróðlegt fyrir mig og aðra þingmenn við 1. umr., þar sem við erum að freista þess að brjóta málið til mergjar, að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvað þetta annað gæti hugsanlega verið.

Ég hef fyrr í ræðum mínum í dag t.d. vísað til þess þegar mér fannst íslenskir og reyndar líka erlendir umhverfisverndarsinnar sæta harðræði af hálfu embættis ríkislögreglustjóra. Það harðræði fólst í því að þessu fólki var fylgt eftir þvert yfir landið og jafnan látið vita með einhverjum hætti af návist lögreglunnar. Ég tel að í slíkri háttsemi af hálfu lögreglunnar felist ákveðin ógn og mér er meinilla við ef það eiga að vera vinnubrögð í framtíðinni, og ég hef miklar efasemdir um að lagaheimildir séu fyrir slíku eins og nú er.

Hæstv. ráðherra sagði að í framtíðinni væri ætlunin að þessi greiningardeild hefði sambærilegar lögheimildir og samsvarandi deildir í nágrannalöndunum og þeim löndum sem við þurfum að eiga gott samstarf við á þessu sviði. Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða heimildir eru þetta? Ég hjó eftir því að hann sagði að slíkar tillögur yrðu hugsanlega kynntar síðar. Mig langar þá að spyrja hann og fá svör við því hvort það sé á döfinni að leggja fram frumvarp sem gefi þessari deild einhvers konar nýjar heimildir umfram þær sem er að finna núna og ef svo er þá spyr ég hann líka hvort ekki hefði verið rétt að láta þetta tvennt fylgjast að. Ég lít nefnilega svo á að ef þessum spurningum er ekki svarað séum við í reynd að gefa út óútfyllta ávísun.

Ég tek líka eftir því að hæstv. ráðherra leggur til að eftir atvikum verði heimilt að stofna greiningardeildir af þessu tagi við önnur embætti í landinu ef þörf krefur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað í því felst, við hvaða aðstæður væri hugsanlega þörf á því að stofna slíkar greiningardeildir annars staðar. Ég geld varhuga við áhættugreiningunni og tel að þingið þurfi að ræða af mikilli alvöru afleiðingar þess að veita heimild til að fara út í greiningu af því tagi. Hún byggist á því að safna saman upplýsingum um einstaklinga eða hópa og ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er það sem mun taka ákvörðun um hvaða einstaklingar og hugsanlega hópar yrðu undir slíku eftirliti og þyrftu að sæta því að upplýsingum yrði safnað um þá? Það eru þessi atriði sem ég er helst hræddur við og það er þess vegna sem ég hef velt þessum spurningum upp í umræðunni í dag.

Ég var líka viðstaddur og tók sjálfur þátt í umræðum á þingi Evrópuráðsins fyrir tæpu ári þar sem lögð var fram skýrsla og í framhaldi af því voru samþykkt tilmæli sem vörðuðu einmitt lýðræðislegt eftirlit með hvers konar upplýsingasveitum af þessu tagi, hvort heldur menn kalla það leyniþjónustur eða öryggislögreglu. Rík áhersla var lögð á það að kjörnir fulltrúar fólksins kæmu með einhverjum hætti að því, að sjálfsögðu í fullum trúnaði, að hafa eftirlit með því hvaða heimildir slíkar sveitir fengju í sínar hendur og hvernig þeim væri beitt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að með einhverjum hætti komi inn í lög af þessu tagi, ef þetta á að samþykkjast, ákvæði um það hver það er sem á að gæta gæslumannanna og það getur enginn gert nema kjörnir fulltrúar fólksins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þetta þurfi að tryggja í lögum.

Síðan langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé svo að þetta tiltekna ákvæði, sem er að finna í 1. gr. a-liðarins, hafi verið hluti af niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar sem samþykkt var á sínum tíma. Mig minnti nefnilega að sú verkefnisstjórn hefði lagt fram að vísu ítarlegar tillögur en ég man ekki eftir því að þetta hafi verið hluti af því. Það kann hins vegar að vera misminni mitt og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji upplýsa mig um þetta.

Að öðru leyti skiptir mestu máli að finna hinn gullna meðalveg. Að af fremsta megni sé reynt að gæta öryggis borgaranna án þess að of langt sé seilst inn á það svið sem við höfum talið persónufrelsið afmarka. Af þessu hafa menn áhyggjur vítt um lönd í dag. Við vitum það öll að í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum greip um sig mikil skelfing í mörgum löndum heims. Í viðbragðsflýtinum voru þá samþykktar ýmsar heimildir til handa framkvæmdarvaldi hinna ýmsu ríkja til að fylgjast með og grípa til tiltekinna ráða í því skyni að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig. Í kjölfarið hafa runnið tvær grímur á menn víða um lönd og sums staðar finnst fólki og stjórnmálamönnum að menn hafi haft fullmikinn hraða á sér og gengið of langt í þeim efnum. Það er því nauðsynlegt að við rösum ekki um ráð fram og vitum nákvæmlega hvað það er sem við erum að fara að samþykkja hér. Eftir að hafa þaullesið þetta frumvarp og greinargerðina og hlustað á hvert einasta orð hæstv. ráðherra er ég ekki algerlega viss um hvað felst í þeim heimildum sem verið er að leggja til að Alþingi samþykki.



[16:10]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögreglulögum. Fyrri ræðumenn hafa ýmsir talað um að við eigum að ræða þetta mál í ljósi fyrri verka hæstv. ráðherra. Menn hafa þá lagt það út á þann veg að allt sem hæstv. dómsmálaráðherra hafi lagt fram hafi verið slæmt. Ég ætla að bera blak af hæstv. ráðherra, hann hefur bætt úr ýmsu sem hefur í byrjun litið illa út. Ég vonast til þess að hann verði einnig tilbúinn að verða við ýmsum réttmætum breytingum á þessu frumvarpi þannig að það geti orðið tiltölulega góð sátt um þetta mál. Það er náttúrlega fáránlegt að afgreiða lögreglulög í einhverri ósátt eða pólitískum ágreiningi. Ég er á því að við eigum að ræða frumvarpið með það að markmiði að þolanleg sátt verði um málið.

Ég vil taka fram að hæstv. ráðherra er ekki alls varnað hvað það varðar að taka tillit til ábendinga, t.d. um umdeilt mál sem minnst var á fyrr í umræðunni og snertir fangelsismál. Það var dregið til baka og ég vil reikna það hæstv. ráðherra til tekna, það er gott þegar menn sjá að sér. Einnig var hlerunarfrumvarpið lagfært þannig að þingheimur gat sæst á það. Hæstv. ráðherra dró líka umdeilt fjölmiðlafrumvarp til baka sumarið 2004, hann sá greinilega eftir því frumvarpi og taldi það ekki eiga rétt á sér. Ég er á því að við eigum að ræða þetta frumvarp með þeim hætti að við getum komist að niðurstöðu og jafnvel sæst á það. Við eigum ekki að deila um þetta heldur nálgast frumvarpið með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu. En það verður samt að segjast eins og er að þegar ég spurði hæstv. ráðherra út í frumvarpið fannst mér hann vera hálfhvumpinn og ekki svara þeim spurningum sem ég beindi að honum. Þær vörðuðu það að verið væri að stofna til nýrrar deildar og nýrra verkefna hjá ríkislögreglustjóra og það kom hvergi skýrt fram í máli hæstv. ráðherra hvaðan þeir fjármunir ættu að koma.

Hin spurningin varðaði víkingasveitina. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki til hvernig hann mældi árangur stóraukins liðssafnaðar víkingasveitar hjá lögreglunni í landinu og mér finnst það miður, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra talaði mjög um að markmið ættu að vera mælanleg.

Ég er ekki pólitískt sammála hæstv. ráðherra hvað varðar áherslur hans í löggæslumálum. Ég er á því að það sé vafasamt að leggja alla áherslu á víkingasveitina. Önnur verkefni blasa við sem snerta hagsmuni almennings í meira mæli og þá á ég við umferðarlöggæslu. Ef við lítum til þess að á þriðja tug manna lætur lífið á hverju ári í umferðinni — það hafa verið teknar saman skýrslur um það, frú forseti, að um milljarða tjón er að ræða, jafnvel á annan tug milljarða í alvarlegustu umferðarbrotunum — hefði ég lagt áherslu einmitt á þann málaflokk en minni áherslu á víkingasveitina. Þó að hér hafi verið fullyrt að einhver árangur væri af starfrækslu hennar þá forðaðist hæstv. ráðherra að svara því hver sá árangur væri en eflaust gerir hann það í lokaræðu sinni.

En varðandi stofnun greiningardeildar sem á að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins þá tek ég undir með ýmsum sem það hafa gagnrýnt. Það verður að leggja meira til grundvallar en gert er í frumvarpinu til að stofna slíka deild. Hér er farið almennum orðum um hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi í heiminum. Ég er á því að rökin fyrir því verði að vera skýrari þannig að hægt sé að leggja blessun sína yfir það. Einnig finnst mér að hæstv. ráðherra ætti að kappkosta að gera málið þannig úr garði að allir geti fallist á það. Eins ætti einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Ég átta mig ekki á að þetta sé greiningardeild eða hvernig hún á að starfa. Það hefur ekki komið fram. Á hún að lesa blöðin, fylgjast með fréttum í sjónvarpinu, fylgjast ákveðnu fólki eða þjóðfélagshópum? Mér finnst að áður en við höldum áfram með þetta mál þurfi að fara fram hreinskiptin umræða um hvað þessi deild eigi að gera.

Um stofnun slíkrar deildar þarf einnig að ríkja sátt. Hún verður að njóta trausts í samfélaginu. Það er ekki nóg að hún njóti trausts hæstv. dómsmálaráðherra eða ríkislögreglustjóra heldur verður almenningur að vera þess fullviss að eftirlit sé með deild sem á að fylgjast með svo mikilvægum málaflokkum. Ég er á því að það yrði málinu til framdráttar að ákveðið eftirlit, t.d. Alþingis, væri með þessari deild. Það hefur komið fram, m.a. í máli hæstv. ráðherra, að deildin eigi að vera í samstarfi við sambærilegar stofnanir í nágrannaríkjunum. Þess vegna verða menn að koma hreint fram hvað þetta varðar.

Ég vildi hins vegar einnig gera að umtalsefni að menn óttast það mjög á landsbyggðinni að löggæsluverkefni verði dregin suður og þetta frumvarp sé liður í því. Mér finnst miður að hæstv. ráðherra svari ekki hvort að svo sé. Með frumvarpinu er stofnað til aukins kostnaðar í Reykjavík auk þess sem embættin á landsbyggðinni eru sameinuð að einhverju leyti. Ég er á því að það verði að koma fram hvaðan fjármunirnir í greiningardeildina eiga að koma. Mér finnst sanngjarnt að hæstv. ráðherra svari því með einhverjum hætti.

Hvers vegna er þessi tortryggni á landsbyggðinni? Jú, t.d. hefur hæstv. ráðherra rukkað um löggæslukostnað ef landsbyggðarmenn halda litlar hátíðir. Þá er jafnvel sendur reikningur á undan, áður en viðkomandi hátíð er haldin. (Dómsmrh.: Hvenær hefur það verið gert?) Það hefur t.d. verið gert í Skagafirði að ganga þurfti frá löggæslukostnaði áður en ungmennalandsmót í Skagafirði var haldið. Um það stóðu miklar deilur. Ég hef flutt frumvarp þess efnis að frá því verði gengið að menn þurfi ekki að standa í þrasi um löggæslukostnað.

Eitt af því sem fólk á landsbyggðinni óttast, frú forseti, er að þetta frumvarp búi til einhverja nýja sveit hjá ríkislögreglustjóra í Reykjavík en dragi úr verkefnum á landsbyggðinni. Ef við skoðum hvar alvarlegu umferðarslysin eru þá eru þau oft úti á þjóðvegunum. Mér finnst að áherslurnar ættu að vera þar en ekki endilega á að fjölga víkingasveitarmönnum. Umferðareftirlit og löggæsla í umferðinni skiptir almenning miklu máli. Ég er á því að við ættum að ræða það fremur en fjölgun víkingasveita og slíkt.

Annað er vert að skoða af þessu tilefni. Menn vilja fylgjast með og greina atburði, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Mér finnst það gott mál. Ég gæti jafnvel tekið undir slíkt frumvarp, að setja þyrfti slíka stofnun á fót. En þá þurfa menn líka að búa svo um hnúta að með því sé eftirlit og almenn sátt um það. Slík mál má ekki eingöngu reka af einum flokki eða hæstv. dómsmálaráðherra. Það þarf að vera almenn sátt um svona mál ef fara á út í breytingar af því tagi. En það væri líka ágætt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að hugleiða, vegna þess að honum er umhugað um brot gegn stjórnskipan ríkisins, æðstu stjórnvöldum og lýðræðislegri skipan, stöðu þeirra flokka sem sækjast eftir opinberu valdi. Það þarf náttúrlega líka að hafa eftirlit með þeim og því hvernig þeir fjármagna sig, frú forseti.

Ég er á því að menn sem gera svo ríkar kröfur um að setja meira í að greina hætturnar verði að líta í eigin barm, frú forseti. Hvernig fjármagna þeir sig? Það er t.d. orðið mjög dýrt að taka þátt í prófkjörum. Þetta kostar milljónir fyrir menn sem sækjast eftir almannavaldi. Ég sé að einhverjum þykir þetta ekki koma málinu við, en þetta snertir málið. (Dómsmrh.: Ekki Frjálslynda flokkinn.) Ég heyri á hæstv. ráðherra að honum er umhugað um Frjálslynda flokkinn. (ÖS: Hann er hræddur við ykkur.) Það má sjá á heimasíðu hans að hann er hræddur við ýmsa aðila. Þar ritar hann um Baug, þríhyrninga og ýmsar samsæriskenningar. En ég vona sannarlega að þetta frumvarp um greiningu á hættum sem steðja að stjórnskipan ríkisins beinist ekki að þessum hópum, háskólanum, Öryrkjabandalaginu og stjórnarandstöðunni. Ég býst við að menn séu að velta öðrum hlutum fyrir sér í þessu efni.

Mér finnst samt sem áður, frú forseti, að þeir sem alltaf eru að greina hluti sem geti verið hættulegir lýðræðisskipan og æðstu stjórnvöldum ættu einnig að gera kröfur til sín, t.d. um að opna bókhald sitt. Hver fjármagnar Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn? Þar verða almannahagsmunir að ráða og verður að hafa eftirlit með því líka. Ég vonast til að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég beindi til hans í upphafi máls míns. Hann er oft málefnalegur þótt við deilum kannski ekki sömu sýn á löggæslumálin. Ég vil frekar efla umferðareftirlitið. Ég tel að það varði fremur hagsmuni almennings en víkingasveitin. Hvaðan eiga að koma fjármunirnir í þessa greiningardeild? Menn óttast að dregið verði saman í löggæslunni á landsbyggðinni. Ég hef bent á, varðandi þetta frumvarp sem miðar að því að hagræða og jafnvel að draga saman úti á landi hjá sumum embættum, m.a. á Sauðárkróki, að mér finnst þetta svolítið sérkennilegur sparnaður, að fara alltaf út á land til að finna einhverja smáaura. Það blasir við öllum sem skoða sviðið og velta fyrir sér hvert fjármunirnir í löggæslunni fara að þeir enda á höfuðborgarsvæðinu.

Það er vissulega unnið að sameiningu lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu. En menn sjá hins vegar að öðrum megin við Snorrabrautina er embætti sem veltir um milljarði og hinum megin við götuna eru aðrir milljarðar. Þar mætti ef til vill ná fram hagræðingu en menn fara alltaf til Hólmavíkur eða Sauðárkróks til að ná í einhverjar krónur. Mér finnst að þetta þurfi að koma fram og fara þurfi í gegnum þessa þætti. Ég vonast til þess, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, að hæstv. dómsmálaráðherra sjái að sér. Hann hefur átt ágæta spretti af og til í að ná sátt um mál, t.d. um hlerunarmálið, hann dró til baka fangelsismálið, um fullnustu refsinga og síðast en ekki síst dró hann til baka löggjöfina um fjölmiðlafrumvarpið. Hann sá að sér þar. Um slík mál þarf að ríkja sátt í þjóðfélaginu.



[16:25]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda mig við að ræða um skipan lögreglumála og fara aðeins yfir það sem hefur gerst í þessu máli.

Björn Bjarnason, hæstv. ráðherra hefur farið yfir tillögurnar sem framkvæmdanefndin kom með. Þær gerðu ráð fyrir fækkun lögregluumdæma úr 26 í 15 og að stofnuð yrðu sjö lykilembætti sem eiga að annast rannsóknir og fleira. Hæstv. ráðherra gerði fáar breytingar á þessum tillögum. En hann gerði tvær sem snerta Norðvesturkjördæmi, svo ég haldi mig við að fara yfir stöðuna þar. Ég held að það gefi góða mynd af því sem stendur til. Annars vegar breytti hann því að lykilembætti fyrir Vesturland skyldi verða á Akranesi í stað Borgarness. Hins vegar átti Hólmavík að tilheyra sýslumannsembættinu á Ísafirði.

Fyrirkomulagið á lögreglumálum á landinu er náttúrlega barn síns tíma. Bættar samgöngur og bylting í samskiptamöguleikum, t.d. í fjarskiptum, tölvutækni og tækjabúnaði við löggæslustörf, hefur fyrir löngu skapað mikla möguleika á endurskipulagningu lögreglumála. Markmiðið er að efla þjónustu löggæslunnar, gera hana hagkvæmari og styrkja hana. Í vegi fyrir breytingum í þessa átt hefur staðið svolítið merkileg íhaldssemi. Hún er undarleg og helst sambærileg við þá andstöðu sem verið hefur við stækkun og eflingu sveitarfélaga í landinu. Eins mætti nefna andstöðu og tregðu við að breyta prestaköllum. Þetta er sem sagt fremur pólitískt viðnám við þróun til meiri hagræðingar.

Dómsmálaráðherrar síðustu ára hafa svo sem allir séð nauðsyn þess að endurskipuleggja lögreglumálin en ekki haft krafta til að taka þær ákvarðanir. Sýslumenn og aðrir fyrirmenn í ýmsum héruðum hafa risið öndvert gegn flestum hugmyndum um breytingar þar til núna. Þá tillögu sem nú er fram komin ber því ekki að vanþakka þó hún sé engan veginn nógu burðug. Við verðum, eftir að hafa beðið lengi eftir úrbótum á þessu sviði, að gefa ráðherranum prik fyrir viðleitni þótt sannarlega hefði mátt gera betur a.m.k. hvað varðar skipulag þessara mála á Vesturlandi. Ég hef oft látið í ljós þá skoðun mína að Vesturland ætti að vera eitt lögregluumdæmi. Hvar lögreglustjóri svæðisins eigi að sitja hef ég látið liggja á milli hluta enda finnst mér það ekki skipta öllu máli í þessu efni. Hann gæti t.d. setið á Akranesi, Borgarnesi eða Stykkishólmi.

Það kemur reyndar skýrt fram í skýrslu verkefnisstjórnar sem kom út snemma á síðasta ári að þetta væri ákjósanlegasta fyrirkomulagið, þ.e. að hafa eitt lögregluumdæmi á Vesturlandi. Því miður hefur skort á getu og kjark hæstv. dómsmálaráðherra til að fara að þeirri tillögu. Niðurstaðan er því þrjú lögregluumdæmi. Eitt þeirra myndar hring um Snæfellsjökul, annað nær yfir flatlendi vestur af Akrafjalli, það er ekki mjög stórt. Hið þriðja nær yfir Vesturland að öðru leyti. Þetta er ekki mjög gáfulegt fyrirkomulag, eða hvað? Væri ekki nær að hafa Vesturland sem eitt lögregluumdæmi og að lögsagnarmörkin væru þá eingöngu í kringum það í staðinn fyrir að kljúfa það upp í þrjá parta eins og gert er ráð fyrir?

Allir hljóta að sjá að þetta er ekki skynsamleg niðurstaða. En að mínu viti er ljóst að stækkun og efling umdæmanna á landsvísu færir okkur fram á veginn, mun skila betri þjónustu og meira öryggi til borgaranna. Stofnun lykilembætta gefur vísbendingu um að stjórnvöld vilji halda áfram á þeirri braut sem hér er byrjað að feta. Ég óttast hins vegar að upp muni koma togstreita um starfsfyrirkomulag og verkefni milli lykilembættanna og þeirra embætta sem undir þau eiga að heyra. Vonandi verður hægt að ná fram endurbótum á þessum tillögum á Alþingi þegar fjallað verður um málið.

Á það vil ég leggja áherslu á, hæstv. forseti, þegar fjallað verður um þetta mál, þótt menn hafi ekki rætt þetta mál sérlega mikið í dag og haft áhuga á öðrum hlutum frumvarpsins, að ég óska eindregið eftir því að í nefndinni fari menn vandlega yfir þetta atriði og reyni að átta sig á því hvort eigi nú ekki að ganga lengra en gert er. Ég tel t.d. að Vesturland sé ágætisdæmi um að ganga megi alla leið í því að breyta þessu svæði í eitt lögreglusvæði og hafa einn lögreglustjóra á svæðinu.

Það er að mínu viti ávísun á erfiðleika í samstarfi og togstreitu á milli embætta að setja upp slíkt lykilembætti. Það á að hafa einhvers konar boðvald yfir (Dómsmrh.: Það er ekki rétt.) hinum embættunum, ráða rannsóknum og öðru slíku. Hæstv. ráðherra svarar því þá hér á eftir ef hann telur að það sé nú engin hætta á því að það verði togstreita. (Dómsmrh.: Það er rangt.) Hæstv. ráðherra hefur væntanlega hlustað á sýslumenn á þessum svæðum. Þeir virðast sumir hverjir sömu skoðunar og ég, að það sé hætta á togstreitu milli embættanna.

Ég tel ástæðu til að huga að því. Ég bið þá hæstv. ráðherra að rökstyðja það þannig að menn sem ekki eru gáfaðri en ég skilji af hverju hafa skuli þrjú lögsagnarumdæmi á Vesturlandi þegar eitt þeirra nær yfir nánast allt Vesturland en hin yfir mjög takmarkað svæði, annars vegar í kringum Snæfellsjökul og hins vegar flatlendið vestur af Akrafjalli. Þetta held ég að segi sína sögu um að menn skorti pólitískan kjark til að ganga alla leið og gera það sem skynsamlegast er. Það liggur í augum uppi.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um málið að sinni en hvet nefndarmenn til að huga vel að þessu, skoða málið vandlega og taka því ekki sem gefnu að hæstv. ráðherra hafi komist að allra bestu niðurstöðu sem hægt er að finna. Þannig er það einfaldlega ekki. Þótt búið sé að leggja svo mikla vinnu í þetta mál er niðurstaðan ekki sú skynsamlegasta. Það er a.m.k. ljóst að mínu mati að það á að ganga lengra. En ástæðan fyrir því að menn gera það ekki er að menn skortir pólitískan kjark og styrk til að klára málið skynsamlega.



[16:34]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að leggja hér nokkur orð í 1. umr. um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þetta mál fer nú til nefndar og ég geri ráð fyrir að þar verði ítarlega farið í gegnum þau atriði sem hér er verið að leggja til, bæði breytingar og aðrar nýjar áherslur. Þá komi þar inn umsagnir og álit þeirra aðila sem þessar breytingar snerta. Ég vil sérstaklega víkja að þeim breytingum sem er verið að leggja til á stöðu og verkefnum sýslumannsembættanna, lögreglunnar og lögreglustjórnarinnar, sérstaklega út um land.

Nú er það svo að sýslumennirnir eru umboðsmenn ríkisvaldsins í héraði og eru þar í rauninni nánasti tengiliður milli íbúanna og ríkisvaldsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið sé varlega í breytingar á stöðu og verkefnum sýslumannsembættanna og varast að þjónustan færist fjær íbúunum eða að þessi tengsl verði lengri og óhentugri. Hér er ekki gert ráð fyrir að fækka sýslumönnum sem ég tel að sé vel. Landsbyggðin á orðið á öllu von af hálfu ríkisvaldsins í niðurskurði opinberra starfa og þjónustu. En hér er ekki svo og ég vil í upphafi máls míns láta í ljósi ánægju með þær áherslur, þótt seint komi fram á ferli þessarar ríkisstjórnar, að færa verkefni út til sýslumannsembættanna og ný þjónustuverkefni sem mörg hver eru unnin á landsvísu en markmiðið er að vista þau hjá sýslumannsembættunum. Þó að seint sé — þó vonandi sé nú komið að lokum setu þessarar ríkisstjórnar — þá er þó gott til þess að vita að hún sé að huga að þessu svona í restina, frú forseti. En að sjálfsögðu hefði hún mátt huga að þessu fyrr og vonandi mun hæstv. ráðherra, og ég hef enga ástæðu til annars en að treysta því, ráðast í það af fullum krafti og heilindum að færa verkefni til sýslumannsembættanna og styrkja stöðu þeirra sem starfsstöðva. Og gott um það.

Hitt er svo annað mál með forsjá lögreglumanna og lögreglunnar í héraði. Það hefur verið órjúfanlegur hlutur af starfi sýslumannanna að fara jafnframt með lögregluvald í sínu umdæmi. Þá hefur sýslumaðurinn getað beitt lögreglunni eða ráðstafað kröftum hennar í almannaþágu eftir því sem kröfur hafa verið uppi um og kallað til hverju sinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því sjónarmiði til haga að hlutverk lögreglunnar er ekki fyrst og fremst að elta uppi og reyna að finna glæpamenn á einhverjum sviðum þótt það reynist óhjákvæmilega stundum vera verkefni þeirra. En hlutverk lögreglunnar er að mínu viti fyrst og fremst þjónusta, margháttuð opinber öryggisþjónusta við íbúana á viðkomandi svæði. Þess vegna er nánd við lögregluna hvað það varðar mjög mikilvæg. Út um dreifbýlið er víða verið að skera niður margháttaða opinbera þjónustu. Ekki síst hvað varðar almannaöryggi. Við vitum að lögreglan er oft fyrst á vettvang þegar eitthvað ber upp á, hvort sem það er í umferð eða að aðstoða í erfiðri færð og þess háttar. Nándin við lögregluþjónana hvað þetta varðar skiptir máli.

Þess vegna ætti hlutverk ríkisins frekar að vera að koma til móts við dreifbýlissveitarfélög og styrkja og efla þar þjónustu lögreglunnar í öryggis- og almannaþjónustumálum. Ég vil bara draga þetta fram vegna þess að í umræðum um lögreglumál virðist henni alltaf vera stillt þannig upp að hún sé fyrst og fremst einhver andstæðingur almenns íbúa á einhvern hátt eða að hún sé alltaf að leita að einhverjum sökudólgum. Ég vil leggja áherslu á að eigi að vera algjör aukaþáttur en ekki meginmál, þótt nauðsynlegur sé við ýmsar aðstæður en virðist oft vera dregið fram sem helsta hlutverk hennar.

Af breytingum sem hér er verið að leggja til á umdæmi verkefnis sýslumannanna er t.d. að sýslumaðurinn í Borgarnesi fari með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal. Þó að allar fjarlægðir séu að styttast með bættum samgöngum er ég ekki viss um að þetta sé endilega besta ráðstöfunin. Á það hefur verið bent að býsna langt sé milli Búðardals og Patreksfjarðar, þar sem hinn sýslumaðurinn er þá, það þykir ærin vegalengd, og nú á að fara að lengja hana enn með því að yfirstjórn lögreglumála verði annars vegar frá Borgarnesi og hins vegar frá Patreksfirði og reyndar kannski ekki fyrr en á Ísafirði. Ég hefði talið að það ætti að skoða að styrkja löggæsluna í Búðardal og það mætti athuga að byggja upp þjónustu á Reykhólum eða í þeim hluta Austur-Barðastrandarsýslu sem er í bestum samgöngulegum tengslum við Búðardal. Það mætti t.d. staðsetja tvo til þrjá lögreglumenn í Búðardal, eða í Búðardal og á Reykhólum, sem litu lögreglustjórn sýslumannsins í Búðardal. Mér finnst mjög hæpin ráðstöfun að leggja lögreglustjórnina í Búðardal niður og færa hana í Borgarnes, eins og hér er verið að leggja til. Ég tel nauðsynlegt að farið sé mjög ítarlega ofan í þetta í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.

Sama er reyndar að segja um lögreglustjórnina á Hólmavík en í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hún fari undir Ísafjörð. Það er nú bara svo að Hólmavík er ekkert í neinu sérstöku þjónustusambandi við Ísafjörð. Þarna eru líklega milli 200–300 kílómetrar á milli og þjónustuleiðin frá Hólmavík hefur gjarnan legið inn Strandir og suður á bóginn. Þannig að þjónustulega er samleið með Ísafirði hvað þetta varðar að mínu viti ekki svo nærtæk. Væri þá nær að huga að auknu samstarfi milli Hólmavíkur og Búðardals. Ég tala nú ekki um þegar vegur verður kominn yfir Arnkötludal að þá má heldur horfa á þetta svæði sem þjónustueiningu ef nauðsynlegt er að stækka hana. Mér finnst því sú hugmynd að setja sýslumanninn yfir lögregluna í Hólmavík vera mjög umdeilanleg og það eigi að fara vandlega ofan í það af nefndinni hvort þarna sé verið að fara skynsamlega að.

Þarna má nefna fleiri sýslumannsembætti sem verið er að skera af lögreglustjórnina. Til dæmis með lögreglustjórn umdæmis sýslumanns á Höfn, að með það fari sýslumenn á Eskifirði og lögreglustjóraumdæmi sýslumannsins í Vík, fari sýslumaðurinn á Hvolsvelli. Vel má vera að eitthvað af þessum atriðum geti verið skynsamleg. En ég tel samt mjög mikilvægt að farið sé rækilega ofan í þau í nefnd. Menn skilgreini fyrir sér þjónustuhlutverk lögreglunnar og sýslumannsembættanna og hvort ekki megi þá huga að víðtækari verkefnum þeirra sem þarna starfa, frekar en að vera að skera af.

Því það er nú svo að því fjær sem stjórnunin fer því óvirkara verður þetta og því fjær færist öll ákvarðanataka og öll þjónusta frá íbúunum, sem er þróun sem við upplifum reyndar allt of oft og er að mínu viti röng. Við eigum að færa þjónustuna og ábyrgðina sem næst íbúunum og til þeirra sem eru umboðsaðilar á vettvangi en ekki færa hana fjær eins og hér er verið að leggja til í ákveðnum tilvikum.

Þá er hér talað um rannsóknardeildirnar líka, sérstakar rannsóknardeildir, og að skipta landinu niður í umdæmi hvað það varðar. Það finnst mér líka þurfa nákvæmrar skoðunar við. Sjálfsagt þarf að fara ofan í skilgreiningar á hlutverki þessara umdæma, á hvaða forsendum verið er að skipta landinu í umdæmi með þessum hætti. En það er a.m.k. ljóst að verið er að leggja upp einhvers konar höfuðmiðstöðvar. Kannski er það undirbúningur að því að leggja niður í áföngum eða veikja þau sýslumannsembætti og lögreglustjóraembætti sem áfram fá að vera og búa þau undir að verða lögð niður eða starfsemi þeirra takmörkuð enn frekar. Það er greinilega eitthvað slíkt sem er innbyggt í það sem verið er að leggja hér upp, að skipta landinu í umdæmi sem smám saman taka yfir með þessum hætti.

Lagt er til að hjá lögreglustjóranum á Akranesi verði rannsóknardeild fyrir lögreglustjórann í Borgarnesi og Stykkishólmi. Á Ísafirði verði deild fyrir Vestfirði alla frá Hólmavík til Patreksfjarðar, sem vantar mikið upp á enn þá að séu í samgöngulegum tengslum, t.d. Patreksfjörður og Ísafjörður stóran hluta af árinu vegna vegasamgangna, þar eru ekki beinar vegasamgöngur á milli. Því verður ekki séð að þetta sé besta leiðin, að slá þeim saman undir eina slíka rannsóknardeild með yfirumsjón með þessum málefnum, eins og hér er lagt til.

Tökum síðan Norðurland. Það er kannski fráleitasta dæmið þar sem gert er ráð fyrir að lögreglustjórinn á Akureyri fari með rannsóknardeild og umboð lögreglustjórans á Blönduósi, Sauðárkróki og Húsavík. Nú eru bæði Húnavatnssýslur og Skagafjörður nokkuð stór landsvæði og býsna fjölmenn byggð. Mér finnst einboðið, ég verð að segja það, að sérstök rannsóknardeild og sú miðstöð sem henni fylgir verði staðsett í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslum. Einnig er það svo að umferðin, þjónustuumferðin, liggur fyrst og fremst suður á bóginn úr Skagafirði, frá Blönduósi og frá Húnavatnssýslum frekar en norður á bóginn til Akureyrar. Samgöngu- og þjónustutengsl eru því miklu minni í þá áttina og því mjög óeðlilegt að setja málið þannig upp að Akureyri verði eins konar miðstöð fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur hvað þetta varðar. Auk þess skiptir líka máli fyrir þetta landsvæði, Skagafjörð og Húnavatnssýslur, að þetta starf sé staðsett þar, það treystir þá þjónustukjarna sem þar eru og eflir þá á alla lund í þessum málaflokkum. Þess vegna tel ég mjög hæpið að ætla að gera Akureyri að miðstöð fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur hvað þetta varðar og ég hygg reyndar að bæði Skagfirðingar og Húnvetningar séu óvanir því að vera settir undir Akureyri og finnst það ekki hugnanlegt í þessum málum frekar en mörgum öðrum.

Allt þetta verður að skoðast í hv. allsherjarnefnd sem væntanlega fær frumvarpið til umsagnar. Þangað koma bæði umsagnir og sýn íbúanna, fólksins á þessum svæðum, sem eiga í rauninni að hafa mest um þessi mál að segja því að þessi þjónusta snýr að þeim. Fólkið á þessum svæðum sem á að vera notendur og njóta þessarar þjónustu lögreglunnar og sýslumannsembættanna á að hafa mest um það að segja hvernig hún er uppbyggð og hvernig henni er stýrt innan landsvæðanna.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta mál að sinni. Ég hafði forgöngu um utandagskrárumræðu fyrr á þessu þingi um þessi mál þar sem ég og hæstv. dómsmálaráðherra skiptumst á skoðunum um þau og ég kom með áherslur viðlíka þeim sem ég hef nefnt hér. Ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd, sem fær málið til umfjöllunar, vinni það betur og við fáum vonandi að sjá frumvarpið í breyttri mynd þegar það kemur til 2. umr.



[16:52]Útbýting:

[16:52]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Mig langar aðeins til að leggja orð í belg um nokkur atriði þessa frumvarps sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir í dag.

Í fyrsta lagi um 1. gr. frumvarpsins varðandi það að hér skuli skilgreint nýtt hlutverk fyrir embætti ríkislögreglustjóra, samkvæmt þeim lögum um lögreglu sem eru í gildi núna, að starfrækja eigi lögreglurannsóknardeild og greiningardeild til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess sem leggja eigi mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Ég vil í upphafi máls míns að lýsa því yfir að mér líst í sjálfu sér ekkert illa á að þetta verði gert, en ég spyr: Hvers vegna er þessi mikla hógværð, hvers vegna er verið að kalla þetta lögreglurannsóknardeild eða greiningardeild? Mér finnst að frekar ætti að taka skrefið til fulls og kalla þetta hreinlega öryggislögreglu. Öll lönd í kringum okkur eru með slík batterí á sínu framfæri. Það væri miklu heiðarlegra og hreinskilnara að nefna hlutina réttum nöfnum í stað þess að vera með einhverja skrúðmælgi eins og greiningardeild. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að við séum með einhvers konar deild innan lögreglunnar sem rannsakar slíka hluti. Ég sé reyndar í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins að talað er um að hún eigi líka að greina hættu sem tengist fíkniefnabrotum, talað er um fíkniefnabrot, skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk og annað sem varðar öryggi ríkisins. Við eigum að sjálfsögðu að hafa viðbúnað hvað varðar þessa hluti og eigum ekkert að skammast okkur fyrir það, alls ekki. Þetta vildi ég sagt hafa um þessa litlu grein.

Hitt sem mig langaði til að nefna eru atriði varðandi það að fækka á lögregluumdæmunum. Það virðist hafa mætt þó nokkurri tortryggni og skapað töluvert miklar umræður. Ég hef verið að kynna mér gögn málsins, lesa greinar og skýrslur og annað sem viðkemur málinu og ég verð að segja að það þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart að þetta veki miklar umræður. Lögreglan nýtur mikils álits hér á landi, ég held að hún sé að öllu jöfnu í mjög miklum metum meðal almennings. Íslenskir lögreglumenn skila afskaplega góðu starfi og sinna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Ég held að hlutverk þeirra sé ekki síst veigamikið einmitt í hinum dreifðu byggðum landsins. Það veitir fólki ákveðna öryggistilfinningu að vita að lögreglustöð er á staðnum og þar séu menn viðbúnir á vakt til að bregðast við ef vandi eða hætta steðjar að. Það er á margan hátt mjög skiljanlegt að fólki bregði við þegar það heyrir af því, eins og málið lítur út, að leggja eigi niður lögregluembætti á tilteknum stöðum og það hafi ýmislegt við það athuga.

Lögregluumdæmin í landinu eiga samkvæmt þessu að verða 15 talsins. Þau eru:

Akranes,

Borgarnes, en Búðardalur á að fara undir Borgarnes,

Stykkishólmur,

Ísafjörður, en Hólmavík, Bolungarvík og Patreksfjörður eiga að fara undir Ísafjörð,

Blönduós,

Sauðárkrókur,

Akureyri, en Siglufjörður og Ólafsfjörður eiga að fara undir Akureyri,

Húsavík,

Seyðisfjörður,

Eskifjörður, en Höfn á að fara undir Eskifjörð,

Hvolsvöllur, en Vík á að fara undir Hvolsvöll,

Vestmannaeyjar,

Selfoss,

Suðurnes, en Keflavík og Keflavíkurflugvöllur eiga að heyra undir lögregluumdæmi Suðurnesja.

Síðan á að sameina embættin á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavík, Kópavog og Hafnarfjörð.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Ísland er stórt land og samgöngur víða úti á landi geta oft og tíðum verið erfiðar, sérstaklega þegar færð er slæm. Við sjáum að færa á undir einn hatt lögregluumdæmi sem eru á erfiðum stöðum, til að mynda á Vestfjörðum. Höfn á t.d. að fara undir Eskifjörð og loks á Vík að fara undir Hvolsvöll. Það getur verið torfært á milli þessara staða. En ég reikna með því og er í raun og veru viss um að þeir sem hafa unnið að undirbúningi þessa máls hafi gert sér fulla grein fyrir þessu. Ég sé að ferill málsins hefur að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. Það er rakið í athugasemdum við frumvarpið að haft hafi verið samráð við fólk úti á landi og það hefur líka verið hlustað á athugasemdir þess. Mér sýnist vera tekið tillit til margra þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við tillögur nefndarinnar eða þeirra nefnda sem hafa unnið að þessu máli.

Ég vildi koma þessum athugasemdum mínum að þannig að það sé bókað að ég hef varann á mér hvað þetta varðar. Ég er hálfefins um að þessar breytingar eigi kannski í öllum tilvikum fyllilega rétt á sér en er að sjálfsögðu reiðubúinn að taka rökum og hlusta á rök varðandi það að svona eigi þetta að vera til framtíðar.

Ég ítreka að lögreglan skiptir mjög miklu máli. Og ég held að það skipti líka miklu máli fyrir marga á þessum stöðum, fyrir sjálfsímynd þeirra og jafnvel sjálfstraust, að þar sé fyrir hendi góð og trúverðug löggæsla. Það skiptir mjög mikli máli fyrir borgarana því að meginhlutverk lögreglunnar í landinu er að tryggja öryggi þeirra.

Annað sem mig langaði að koma að, virðulegi forseti, í þessu ræðukorni mínu er það sem kemur fram í í athugasemdum með frumvarpinu þar sem vikið er að því að efla eigi sýslumannsembættin víða um land og þá flytja verkefni af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Ég kom að því áðan í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra þar sem ég spurði hann hver tímaramminn væri á þessu. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að til að framkvæma þessa hluti þarf að breyta lögum og fara út í alls konar undirbúning í kringum þetta. En ég sakna þess þó að ekki skuli vera kveðið neins staðar á um hver tímaramminn á þessu öllu eigi að vera.

Það eru mjög margir úti á landi sem telja að ávöxtunum sé mjög misskipt hvað það varðar að dreifa ríkisstofnunum og embættum um landið og að allt of mikið af opinberum embættum og störfum á vegum ríkisins hafi safnast á höfuðborgarsvæðið. Ég get tekið undir þau sjónarmið. Ég hygg að víða úti á landi séu kannski ákveðnar væntingar um að eitthvað af þeim verkefnum sem hér er talað um, sem eru miðstöð ættleiðinga, sjóðir og skipulagsskrár, miðstöð fasteignasölueftirlits, útgáfa Lögbirtingablaðs, málefni bótanefndar, málefni skjalaþýðenda, miðstöð eftirlits með útfararþjónustu og miðstöð happdrættiseftirlits, og þau störf sem fylgja þeim komi til með að falla í skaut ákveðinna byggðarlaga þó að ég viti svo sem ekkert nánar um það.

Ég heyrði áðan að hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að útgáfa Lögbirtingablaðsins ætti að færast til Víkur. Það er að sjálfsögðu jákvætt en ég hefði gjarnan viljað fá að heyra svolítið meira um hvaða fyrirætlanir eru uppi um öll hin verkefnin og líka hvenær þetta eigi að koma til framkvæmda þannig að við vitum, þegar frumvarpið fer nú til meðhöndlunar í nefnd, hvað það er sem í raun og veru vakir fyrir stjórnvöldum.

Ég er mikill stuðningsmaður þess að fara grannt út í það að endurskoða með hvaða hætti við getum fært ríkisstofnanir og verkefni á vegum ríkisins út á land. Mér finnst stjórnvöld hvergi hafa staðið sig nægilega vel í þeim efnum og að það sé fyllilega kominn tími til að við skoðum þetta og framkvæmum meira í þessa veru, miklu meira en við höfum gert fram til þessa. Ég hef aðeins verið að kynna mér til að mynda reynslu Norðmanna af þessum málum, las síðast í morgun þá skýrslu sem ég held hér á, sem fjallar einmitt um reynslu Norðmanna af því að flytja opinber störf út á land. Ég verð að segja að það sem kemur fram í þessari skýrslu er á margan hátt mjög hvetjandi. Reynsla þeirra er að mörgu leyti mjög athyglisverð og hún hefur á margan hátt verið góð. Þetta er ekki einfalt mál en það skilar mjög miklu þar sem þetta hefur verið gert og virðist, nánast undantekningalaust, hafa tekist mjög vel hjá þeim þegar upp er staðið. Norðmenn hafa stundað þetta síðastliðin 40 ár, verið með þá pólitík að reyna eftir fremsta megni að færa störf á vegum hins opinbera út á land. Það hefur styrkt byggðir og á margan hátt haft mjög jákvæða hluti í för með sér.

Ég er sannfærður um að verkefnin sem hér er talað um mundu svo sannarlega verða til þess að styrkja þá staði sem fengju þau í sínar hendur, því að ég sé að margt af því sem hér er nefnt hlýtur að kalla á að fólkið sem tekur að sér þau störf sé fólk með tiltölulega mikla menntun og þetta séu stöðug störf, ef svo má segja, og tryggi þar með stöðugleika og hafi í för með sér marga jákvæða þætti fyrir landsbyggðina.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum aðeins koma nánar inn á það sem ég spurði hæstv. ráðherra um í andsvari þegar hann flutti flutningsræðu sína fyrir frumvarpinu, en það er um málefni Vestmannaeyja. Mér finnst alls ekki koma nægilega tryggilega fram í þeim pappírum sem ég hef séð að áfram verði rannsóknarlögreglumaður í Vestmannaeyjum eins og talað hefur verið um. Einungis er sagt í viðbótarskýrslu framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála, þar sem kemur réttilega fram að menn hafi hlustað á athugasemdir varðandi Vestmannaeyjar, og það er að mínu mati ekki nægilega vel tryggt í þeim skrifuðu orðum að rannsóknarlögreglumaður verði áfram í Eyjum, einungis er sagt að fjárveitingar til embættisins í Vestmannaeyjum verði tryggðar áfram en ekkert er nánar sagt til um með hvaða hætti þeim fjármunum verði síðan varið. Það væri gott ef það kæmi fram með skýrari hætti í meðförum þessa máls fyrir nefnd að þetta verði tryggt, því að ég tel mjög mikilvægt að rannsóknarlögreglumaður sé til staðar í Vestmannaeyjum. Reynslan sýnir að full þörf er á því. Vestmannaeyingar búa við mikla landfræðilega sérstöðu sem stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að taka fullt tillit til í verkum sínum.



[17:04]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og vona að hún hafi orðið til að skýra ýmislegt í þessu frumvarpi og þau atriði sem menn hafa verið að velta fyrir sér. (Gripið fram í.) Mun ég nú víkja að ýmsum atriðum ef ég fæ málfrið fyrir frammíköllum.

Hvað varðar það sem talað var um undir lokin og það sem hv. þingmenn veltu fyrir sér varðandi stækkun umdæmanna og síðan spurningin um nálægð lögreglumanna þá vil ég taka fram að ekki er gert ráð fyrir því að lögreglustöðvar verði lagðar niður. Það kemur sérstaklega fram í greinargerðinni á bls. 8, með leyfi forseta:

„Lögreglustöðvum verður ekki lokað vegna breytinga á lögregluumdæmum og sérstaklega er áformað að ákveðið verði í reglugerð að lögregluvarðstofur utan aðalstöðvar lögreglu skuli vera í Búðardal, á Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík auk þeirra staða sem nú eru tilgreindir í reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Þeir staðir eru Ólafsvík, Grundarfjörður, Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Fáskrúðsfjörður og Grindavík.“

Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til að þessum lögreglustöðvum verði lokað. Það er áréttað í greinargerð með frumvarpinu að það verði sett inn í reglugerðina að lögreglustöðvar skuli vera á þessum stöðum. Ég held því að þær áhyggjur séu með öllu ástæðulausar.

Ég vil líka geta þess að það er algerlega rangt að draga upp þá mynd, eins og kom fram í máli tveggja þingmanna, að það að rannsóknardeildir starfi við sjö embætti í landinu feli í sér að þau embætti séu eitthvað yfir önnur embætti sett og að verið sé að fela þeim embættum einhvers konar yfirstjórn yfir öðrum lögregluembættum í þeim umdæmum sem þessar rannsóknardeildir ná til. Svo er ekki. Það er ekki gert ráð fyrir því, heldur að í hverjum landshluta byggist upp nægilega stór eining rannsóknarlögreglumanna til að geta sinnt stórum og flóknum málum og að sú þjónusta sé færð nær íbúunum en er með þeirri skipan sem nú gildir. Það er einmitt þess vegna sem farið er sérstaklega í að breyta ákvæðum í 5. gr. lögreglulaganna, sem kemur síðan inn á rannsóknardeildina og greiningardeildina, til að árétta það að menn þurfi ekki að sækja þessa þjónustu til ríkislögreglustjóra heldur sé ætlunin að byggja upp slíka þekkingu og þjónustu í héruðunum, nær borgurunum, á sjö stöðum á landinu. Þessir menn eiga að koma að því að rannsaka stór og flókin mál sem upp koma og taka á þeim en þeir eru ekki yfir aðra settir og sýslumenn eru ekki yfir aðra settir. Þess vegna er það rangt sem hér var gefið til kynna, þegar talað er á þann veg, sérstaklega af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem endurspeglast líka í þeim texta sem skorað er á fólk í Borgarbyggð að skrifa undir, þar sem látið er í veðri vaka að einhvers konar valdboðsheimildir fylgi því að rannsóknardeildirnar séu á sjö stöðum á landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn átti sig á þessu þannig að þeir fari ekki með vitlausan boðskap um efni frumvarpsins og er nauðsynlegt að leiðrétta það hér vegna orða tveggja þingmanna í umræðunni.

Rannsóknarlögreglumaður í Vestmannaeyjum — það er ekki verið að breyta lögregluliðinu í Vestmannaeyjum á neinn hátt. Þar er rannsóknarlögreglumaður. Ég sé því ekki hvers vegna á að gera það tortryggilegt þegar tekið er fram að því verði ekki breytt og fjölda lögreglumanna verði ekki breytt í Vestmannaeyjum. Þarna er líka verið að gefa til kynna að verið sé að breyta einhverju sem ekki á að breyta með þessu frumvarpi. Nóg er að ræða um það sem breytt verður, annað að draga þær ályktanir af frumvarpinu að breytingarnar séu meiri en þar er mælt fyrir um og er þess vegna ástæða til að taka þetta sérstaklega fram.

Hvað þennan lið frumvarpsins varðar sérstaklega þá kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann væri að velta fyrir sér þessari spurningu með Hólmavík og Ísafjörð eða Hólmavík og Búðardal. Í upphaflegum tillögum, áður en þetta fór í kynningu til sveitarfélaganna, var gert ráð fyrir að Hólmavík og Búðardalur féllu undir lögreglustjórann í Borgarnesi en á fundum á Vestfjörðum var eindregið lagst gegn því að Hólmavík yrði skilin frá Ísafirði. Þess vegna var ákvörðun tekin um við lokagerð málsins að Hólmavík yrði í umdæmi lögreglustjórans á Ísafirði. Þar er því farið að eindregnum óskum heimamanna og tekið tillit til þeirra. Ég heyri að hv. þm. Jón Bjarnason er þessu ósammála og raunar virtist mér á ræðu hans að hann fyndi frumvarpinu allt til foráttu og teldi að það ætti engan rétt á sér. Verið væri að skerða svo hag íbúa um landið að þetta væri í raun og veru slíkt frumvarp að ekki væri rétt að það næði fram að ganga. Að minnsta kosti skildi ég hann þannig að hann vonaðist til að nefndin breytti því öllu á þann veg að þarna yrði í raun og veru engin breyting. Dálítið furðuleg ræða. Ef við eigum ekki að taka mið af því sem fram kom t.d. á þeim fundum þegar rætt var við heimamenn og þeir óskuðu sérstaklega eftir því að vera ekki með Búðardal og Borgarfirði heldur falla undir Ísafjörð, þá finnst mér langt gengið í kröfum til ráðuneytisins um að hunsa sjónarmið íbúa. Eins þegar hv. þingmaður talar um að eðlilegt sé að Reykhólahreppur falli undir Búðardal, þá virðist hann alveg horfa fram hjá því að Reykhólahreppsíbúar hafi, að ég held, tvisvar sinnum hafnað því að verða hluti af lögsagnarumdæmi sem falla mundi undir Búðardal. Hann virðist því ekki taka neitt mið af því sem fólk í þessum byggðarlögum hefur um þetta að segja.

Síðan ræddi hv. þm. Sigurjón Þórðarson hvað eftir annað um að verið sé að taka peninga af landsbyggðinni og setja þá í að fjölga mönnum vegna greiningardeildar. Þetta er misskilningur. Það kemur hvergi fram í frumvarpinu að slíkt eigi að gera. Þvert á móti stendur þar að efla eigi sýslumannsembætti úti á landi og eina fjárhæðin sem nefnd er í greinargerð frumvarpsins er 50 millj. kr. sem fluttar verði með þeim verkefnum sem ráðgert er að flytja út á landsbyggðina. Ég get því miður ekki nefnt dagsetningar í því efni, ekki frekar nú en þegar ég tók til máls í andsvörum, ég ætla ekki að gera það en vísa til þess sem stendur í frumvarpinu. Ég tel að það verkefni sem við erum að vinna að í samvinnu við sýslumanninn á Blönduósi sé ákveðið lykilverkefni í þessu og leiðsagnarverkefni sem þarf að hafa í huga þegar hugað er að öðrum verkefnum.

Hinn þáttur umræðunnar snerist að verulegu leyti um svokallaða greiningardeild og þar drógu menn skrattann á vegginn með mismunandi sterkum litum. Sterkasti liturinn var hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem sá skrattann aðallega í dómsmálaráðherranum, dæmalaust vitlaus ræða og barnaleg í þessum umræðum. Enn og aftur fer þingmaðurinn í sama farið og flytur þessa barnalegu ræðu sína eins og hún breyti einhverju um efni þess máls sem verið er að fjalla um. Andúð hans á dómsmálaráðherra er greinileg og hefur margoft komið fram en hún breytir engu um nauðsyn þess að fjalla um alvarleg málefni sem snerta öryggi ríkisins, lögreglumál og annað slíkt. Ef þingmaðurinn kemst ekki yfir þann þröskuld sem hann sér í ráðherranum verður hann bara að eiga það við sig. Við ræðum um þetta málefni á málefnalegum forsendum en ekki með þeim einkennilega hætti sem þingmaðurinn kýs að ræða þessi mál.

Varðandi þá spurningu hvort þörf sé á greiningardeild þá heyri ég á öllum þingmönnum hér að þeir telja þörf á því að lögreglan sinni þessum verkefnum. Það er enginn ágreiningur um það. Allir þingmenn sem hér hafa tekið til máls og gert þetta að sérstöku umtalsefni eru sammála um að nauðsynlegt sé að lögreglan sinni því að gæta öryggis ríkisins og að líta beri til þessara hluta. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er hins vegar undrandi á því að menn séu farnir að hafa áherslurnar öðruvísi en áður. Það stafar af því að umhverfið hefur breyst, það stafar af því að nauðsynlegt er að ræða þessi mál á öðrum forsendum og taka mið af því umhverfi sem við lifum í og störfum í. Það er aðalatriðið í þessu máli.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði: Hvar er fjallað um þetta í skýrslu verkefnisstjórnarinnar? Í skýrslu verkefnisstjórnarinnar er fjallað um þetta t.d. með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Skýrari reglur um starfsemi öryggislögreglu. Samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er það hlutverk ríkislögreglustjóra m.a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Í helstu nágrannalöndum okkar er verkefnum af þessu tagi sinnt af lögreglu, en iðulega í sérstakri deild eða sérstakri öryggislögreglu,“ — sem ekki er verið að leggja til hér — „sem starfar á grundvelli skýrra lagaheimilda og jafnvel sérstakrar löggjafar og samkvæmt þeirri löggjöf undir sérstöku eftirliti.“

Ef við stígum það skref sem hérna er verið að tala um er eðlilegt að við setjum um það sérstök lög og höfum þá líka sérstakt eftirlit sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala um, ef við teljum það nauðsynlegt. Ef það er það sem þingmenn telja nauðsynlegt, að stofna hér sérstaka öryggislögreglu til að huga að sérstöku eftirliti, hvernig sem því er háttað, þá er það sérstakt viðfangsefni sem við erum ekki að fjalla um hér.

Hins vegar varðandi það þegar spurt er um eftirlit með lögreglunni, þá hefur ríkissaksóknari sérstakar skyldur til eftirlits með henni, einnig dómstólarnir og síðan að sjálfsögðu ráðuneytið og ráðherrann gagnvart þinginu. Ég held því að gagnvart lögreglunni séu allar eftirlitsheimildir þannig að viðunandi sé á allan mælikvarða. Enda hefur aldrei verið gerð nein athugasemd við það af hálfu neins eftirlitsaðila sem hingað hefur komið að þar sé einhver pottur brotinn varðandi þá þætti í löggjöf okkar.

Eins og segir í þessari skýrslu, ef menn ætla að stíga það skref að stofna hér öryggislögreglu þá er það annað mál og þá þarf um það sérstaka löggjöf og þarf að huga að því sérstaklega. Það er ekki gert í þessu frumvarpi, í því er verið að tala um rannsóknardeild lögreglu og greiningardeild og lögð áhersla á greiningarþáttinn. Það er líka gert hér í umræddri skýrslu. Og þá taka menn dæmi sem eru þekkt og standa mönnum nær eins og t.d. bara efling grenndar- og hverfalöggæslu. Hvað felst í því að efla grenndar- og hverfalöggæslu? Hvað felst í því að lögreglumenn tileinki sér þekkingu á ákveðnum hverfum eða ákveðnum byggðum í landinu? Í því felst að þeir séu reiðubúnir til að afla sér þeirrar þekkingar um þróun mála á því svæði, að þeir geti greint áhættu sem að steðjar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir einhverja hættu sem að íbúunum stafar. Það sem við erum að leggja áherslu á með þessu, greiningardeild á vegum ríkislögreglustjóra eins og kemur fram, er alþjóðleg glæpastarfsemi, skipulögð glæpastarfsemi, hryðjuverk. Það má því segja að við séum að uppfæra starf sem við getum kallað hverfalögreglu líka, grenndarlögreglu þar sem menn eru að greina ákveðna strauma og við leggjum áherslu á þá þætti. Þetta eru atriði sem menn mega ekki missa sjónar á. Og ef þeir vilja ekki að þetta tæki sé skilgreint og þetta sé sagt í lögum og að menn átti sig á því að lögreglan hafi það hlutverk sem við felum þessari deild, þá finnst mér menn horfa fram hjá ákveðnum hluta af heimsmynd okkar og neita að horfast í augu við hann. Svo mála þeir skrattann á vegginn, verða hræddir og segja, nei, það er betra að gera ekki neitt, eins og mátti skilja að sumu leyti af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar. (Gripið fram í.)

Það er þetta sem við þurfum að huga að og um þetta er verið er að tala um í frumvarpinu. Allt annað, og það þótti mér fróðlegt að heyra, að næstu skref sem þingmenn vilja stíga eru þess eðlis að þeir eru að velta því fyrir sér eftirfarandi: Á dómsmálaráðherra að koma inn í þingið með lagafrumvarp sem byggist á því að við séum að koma á laggirnar öryggislögreglu eða einhvers konar leyniþjónustu? Það bíður þá og gæti orðið næsta verkefni ef þingmenn vilja að ég vinni að því, ég mun þá að sjálfsögðu huga að því. Það er vikið að því í þessari skýrslu að ef það eigi að gera, þá eigi að gera það með sérstökum lögum og þá þurfi að huga að sérstöku eftirliti. Í því frumvarpi sem ég er að kynna í dag er ekki farið inn á það. (Gripið fram í.) Ég gaf það ekkert til kynna. Ég hef ekki gefið neitt slíkt til kynna því ég tel að greiningardeild sé eins og ákveðin grenndarrannsóknardeild fyrir landið allt, hún skynjar þær hættur sem að landinu steðja en notar sams konar aðferðir, átta sig á sams konar aðferðum og hafa gefist vel við baráttu gegn fíkniefnum og slíkum hlutum. Fíkniefnalögreglan nær ekki árangri nema hún leggi áherslu á greiningu og mat á áhættu. Hún nær engum árangri nema hún afli sér upplýsinga og reyni að draga ályktanir af þeim upplýsingum sem hún getur aflað sér.

Í dag bárust fréttir af því að tveir Litháar hefðu verið handteknir vegna fíkniefnamáls á Keflavíkurflugvelli. Ég fullyrði að handtaka þessara manna byggist á áhættumati og greiningu sem unnin er af fíkniefnalögreglu og lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli þar sem tekið er mið af ákveðnum vísbendingum sem leiðir til að þessir menn finnast. Þetta eigum við að viðurkenna (Forseti hringir.) og þessa starfsemi ber að virða og það er hún sem við erum að árétta með því frumvarpi sem ég er að flytja hér í dag.



[17:20]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er leitun á jafn viðkvæmum ráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra er gagnvart sínum eigin verkum. Það getur vel verið að hann vilji fela þau verk. En ég er að endurspegla málflutning nánast allra mannréttindasamtaka þessa lands gagnvart þeim áherslum í frumvörpum sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir þjóðina, hvort sem það eru hleranir án dómsuppúrskurðar, skerðing á gjafsókn, svínsleg útlendingalög og svo mætti lengi telja. Þannig að ég tel að við eigum að setja þetta í samhengi við hvaða vegferð við erum á. Þetta mál vekur einfaldlega spurningar um á hvaða leið við erum. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra í níu liðum málefnalegra spurninga um hver vandinn sé eiginlega. Hverjir eru óvinir ríkisins? Hver verða verkefni þessarar greiningardeildar dagsdaglega? Hvernig fer þetta áhættumat fram? Mun eftirlit með borgurunum aukast? Er svona vinna í gangi núna? Hvað með þjóðskrána? Hvaða starfsheimildir vill ráðherrann auka til að þær verði sambærilegar við heimildir erlendra lögreglna? Og svo mætti lengi telja. Hæstv. ráðherra kaus hins vegar að vera ómerkilegur og ómálefnalegur í svari sínu og leitaðist við (Forseti hringir.) að svara engum af þessum spurningum sem við (Forseti hringir.) þingmenn eigum heimtingu á að (Forseti hringir.) fá svör við.



[17:21]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki svara þessum þingmanni meðan hann nálgast viðfangsefni sitt á þennan hátt. Hann getur verið alveg viss um að ég mun ekki svara neinni spurningu frá honum meðan hann nálgast viðfangsefni sitt þannig. Ég get hins vegar sagt honum það núna að þegar hann er farinn að dylgja um að þjóðskráin sé eitthvert tæki sem sé hættulegt líka, að þá finnst mér vera komið út fyrir allan þjófabálk.



[17:22]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hagar sér hérna í þingsal. Að neita að svara þingmanni sem spyr málefnalegra spurninga á hvaða vegferð hann sé og hvað felist í þessu frumvarpi sem hann ætlast til að við samþykkjum. Það var ekkert verið að dylgja um þjóðskrá. Það eina sem ég var að spyrja um var hvort einhverjar breytingar stæðu til varðandi þjóðskrána. Það var eina spurningin. Fólk getur bara lesið það í ræðu minni þegar hún verður gefin út hvort þar hafi falist einhverjar dylgjur. Það eru málefnalegar spurningar sem felast í málflutningi mínum og við eigum einfaldlega heimtingu á að vita þetta. Mun eftirlit með borgurum aukast ef við samþykkjum þetta frumvarp? Hvernig fer þetta áhættumat fram? Er þessi vinna nú þegar í gangi?

Eru þetta ómálefnalegar spurningar? Það hafa meira að segja aðrir þingmenn spurt svipaðra spurninga. Ég skil ekki hvernig hæstv. dómsmálaráðherra heldur að hann geti komist upp með að leggja einhvern hv. þingmann í einelti með að neita að svara honum vegna þeirra staðreynda að hann dregur fram fyrri mál þessa ráðherra. Ég átta mig ekki á þessum málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra og ég krefst þess að hann svari málefnalegum spurningum mínum.



[17:23]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svarað hv. þingmanni og hef ekkert við svar mitt að bæta. Meðan hann heldur þessum hætti að nálgast viðfangsefnið hér á þennan ómálefnalega hátt þá ætla ég ekki að taka þátt í þeim leik.



[17:23]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessu frumvarpi um breytingu á lögreglulögum, og þá ekki síður í greinargerð með frumvarpinu og í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, er lögð áhersla á að ástæða sé til að leggja aukna áherslu á rannsóknir á hryðjuverkum og landráðum, sem svo eru nefnd. Hér erum við farin að feta okkur inn á vettvang sem er harla pólitískur því markalínur á milli afbrota og pólitísks andófs eru iðulega mjög óljósar. Þegar hæstv. ráðherra vísar í breytt umhverfi er það einmitt þetta umhverfi sem hefur verið að breytast og því ástæða til að stíga varlega til jarðar. Ég vil taka undir spurningar hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, um að áhættumatið, í hverju það felist að mati hæstv. dómsmálaráðherra. Og hvernig á þetta mat á áhættu á hryðjuverkum og skipulegri glæpastarfsemi að fara fram? Þar vísa ég sérstaklega í (Forseti hringir.) hinn pólitíska þátt.



[17:24]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta hættumat er mjög vandmeðfarið. Það er oft erfitt að átta sig á hvað er hættulegt og hvað er ekki hættulegt. Við getum best séð það núna af umræðunum í nágrannalandi okkar Danmörku. Við getum lesið það út úr ræðum og svörum forsætisráðherra Dana þegar hann fjallar um afleiðingar þess að danskt dagblað birti 12 skopmyndir af Múhameð spámanni. Við getum séð þar hvernig menn mátu það þegar þetta var birt fyrir nokkrum mánuðum og í hvaða stöðu menn eru komnir núna. Þannig að það er ekki hægt að gefa neitt eitt svar um þetta. En hins vegar verða menn að hafa tæki til að greina og átta sig á þróun og geta brugðist við þegar á þarf að halda.



[17:25]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú erum við komin inn á mjög flókna og erfiða umræðu sem ekki verður afgreidd hér í svari og andsvari. En ég tel að viðbrögðin við því sem er að gerast í Danmörku eftir birtingu á teikningum í Jyllandsposten verði ekki mætt með auknum lögreglurannsóknum eða með því að efla leyniþjónustu. En það er önnur saga. Það sem ég vil fá nánari skýringar á hjá hæstv. dómsmálaráðherra er hvort hann sjái ástæðu til að efla tengsl og eftirlit af hálfu þingsins og hugsanlega þingnefndar sem hefði slíkt hlutverk með höndum gagnvart rannsóknar- og svokallaðri greiningardeild lögreglunnar. Ég veit að hæstv. ráðherra kom inn á þetta í svari sínu áðan en ég vildi fá nánari skýringar á hugmyndum hans um það efni.



[17:26]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel í sjálfu sér að það sé ekki verið að stíga neitt það skref með þessu frumvarpi sem kallar á sérstakt eftirlit af hálfu Alþingis. En Alþingi hefur að sjálfsögðu öll tæki líka til að skoða þessi mál, kalla menn fyrir sig þegar verið er að fjalla um mál eins og þetta þegar það kemur til þingnefndar. Þá fá menn embættismenn og geta fengið yfirmenn lögreglunnar á sinn fund og spurt og fengið þau svör sem þeir menn geta gefið. Þannig að Alþingi hefur tæki til að fylgjast með almennum störfum lögreglunnar. Eins og ég sagði, þá er það ríkissaksóknari, dómstólarnir, dómsmálaráðherra og síðan þingið með því að fá menn á fundi þegar verið er að fjalla mál af þessum toga eins og við erum að ræða hér.



[17:27]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra vék að rannsóknardeildunum sem á að koma upp í hverjum landshluta. Ég er sammála áherslum hæstv. ráðherra í að það eigi að gera það. En ég benti á það í ræðu minni að Norðurland vestra er þar með sett undir annan landshluta, þ.e. undir Norðurland eystra. En annars erum við með þessa skiptingu: Vesturland, Vestfirðir, Austurland, Suðurland, og síðan höfuðborgarsvæðið sem sérstök skipting gildir um. Þannig að ég lagði til að það yrði skoðað hvað þetta embætti varðar með gamla Norðurland vestra eða Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Varðandi samstarf að öðru leyti þá tel ég að margt sé til fyrirmyndar hjá hæstv. ráðherra í þessari vinnu. (Forseti hringir.) En þó tel ég að eðlilegt sé að viðkomandi íbúar eða sveitarfélög fái að koma inn með athugasemdir og ábendingar svo hægt sé að skoða vandlega (Forseti hringir.) hvernig þessu verði sem best hagað.

(Forseti (DH): Ég bið hv. þingmann að virða tímann.)



[17:28]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þau byggðarlög sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, Skagafjörð og Húnavatnssýslur, þá hefur ráðuneytið verið í sambandi við forustumenn í þeim sveitarfélögum og er nú að vinna að sérstöku verkefni með sveitarfélaginu á Blönduósi og við höfum hitt menn úr Skagafirði. Við höfum rætt við þá og farið yfir þessi mál þannig að það stendur ekki á ráðuneytinu að efna til funda og viðræðna við þessi sveitarfélög eins og öll önnur. Þannig að það er ekki það sem vantar upp á í þetta.



[17:29]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því í ræðu minni hér að ég fagnaði frumkvæði ráðherrans í að flytja verkefni til lögreglustjóranna og til sýslumannsembættanna út um land. Ég treysti líka hæstv. ráðherra til að hlusta á og vinna með heimaaðilum í að útfæra þessi lög og þessa breyttu skipan. Ég benti á atriði sem að mínu mati ber að skoða betur. Ég benti á Hólmavík, Búðardal og á Reykhóla. Ég tel að það sé mjög réttmætt og að öll þessi sjónarmið komi síðan inn í hv. nefnd og þar verði þetta skoðað. En að öðru leyti — mér er nú ekki gjarnt að hæla hæstv. dómsmálaráðherra fyrir vinnubrögð — hefur hæstv. ráðherra lagt mikla vinnu í þetta frumvarp og í ýmislegt sem að því lýtur, og ég vona bara að svo verði (Forseti hringir.) áfram til góðra og farsælla lykta.



[17:30]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að segja að ég tel að enginn hæstv. ráðherra eigi að leyfa sér að tala niður til nokkurs þingmanns eins og hæstv. ráðherra gerði áðan. Ég hvet hæstv. forseta til að velta fyrir sér hvort ekki ætti að senda hæstv. ráðherra til Tógó til að láta hann slaka á eða jafnvel kæla fætur sína í hinu ferska og frísklega Þingvallavatni.

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði hér að þingmenn hefðu í dag talað með þeim hætti að þeir væru að óska eftir því að hingað inn í þingið kæmu einhvers konar hugmyndir eða tillögur um öryggislögreglu. Það er rangt. Það hefur enginn þingmaður nefnt það hér í dag. Ég varpaði nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra. Sumum svaraði hann, sumum ekki. Ein af þeim var þessi, og hana endurtek ég:

Hyggst hæstv. ráðherra leggja fram frumvarp sem miðar að því að veita þessari greiningardeild eða lögreglurannsóknardeildinni einhvers konar nýjar heimildir umfram þær sem nú þegar eru til staðar til þess að sinna hlutverki sínu?



[17:32]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi frumvarp sem snertir heimildir lögreglunnar er það annars vegar í lögreglulögunum og hins vegar í lögunum um meðferð opinberra mála sem hafa verið lengi til endurskoðunar. Réttarfarsnefnd hefur sent ráðuneytinu tillögur sínar. Skipti hafa farið fram á upplýsingum og skoðanaskipti verið á milli ráðuneytisins og réttarfarsnefndar. Þessi mál hafa komið þar til umræðu. Fyrir liggur skýrsla frá 1999 um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu. Það kemur til álita við gerð þess frumvarps þannig að þessi mál koma þar til álita og í samskiptum ráðuneytisins og réttarfarsnefndar og síðan er það ráðherra að taka ákvörðun um það sem hann leggur fyrir þingið.



[17:32]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Er þá ekki rétt hjá mér að draga þá ályktun að það sé til umþóttunar hjá ráðuneytinu að leggja fram frumvarp eins og það sem ég var hér að spyrja hæstv. ráðherra út í? Af því tilefni langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Er hugsanlegt að það frumvarp verði lagt fram á þessu þingi?



[17:33]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef stefnt að því að geta lagt fram frumvarp um meðferð sakamála eins og þetta frumvarp mun væntanlega heita, ekki lengur um meðferð opinberra mála, heldur meðferð sakamála. Ég hef stefnt að því að geta lagt það fram til kynningar á þessu þingi. Ég mun ekki leggja það fram með ósk um að þingið taki það til afgreiðslu á þessu vorþingi. Ég tel að það þurfi lengri aðdraganda, við þurfum að ræða það helst í sumar og leggja það síðan fram aftur næsta haust, og þá munu menn geta rætt atriði eins og heimildir lögreglu og önnur slík atriði sem tekið er á í þeim lögum.



[17:34]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera langorður núna en mig langar aðeins að nota mitt seinna tækifæri í 1. umr. þessa frumvarps í þeirri von minni að hæstv. dómsmálaráðherra treysti sér til að svara spurningum mínum.

Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, sem núna labbar út, sagði í upphafi máls síns að hann vonaði að þessi umræða skipti máli. Hún hefur ekki gert það vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra kaus að svara öllum öðrum þingmönnum en þeim sem hér stendur. Ég hef sjaldan orðið vitni að jafnmiklum dónaskap og hæstv. dómsmálaráðherra sýndi í þessu máli. Ég tel að ræða mín hafi verið málefnaleg og ég dró fram hans fyrri verk, hans fyrri frumvörp, og ég ætla ekki að taka þátt í þeim leik að fela mál hans. Þó að hann vilji ekki fá þau í dagsljósið tel ég mikilvægt umræðunnar vegna að við ræðum þetta frumvarp í samhengi við það á hvaða leið við erum.

Frelsið fer aldrei í einu vetfangi, það fer hægfara, hefur einhver sagt. Þess vegna þurfum við að setja þetta í samhengi. Það sem ég minntist á var að þessi hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem heimilar hleranir án dómsúrskurðar. Það er bara staðreynd. Allsherjarnefndin gat komið í veg fyrir að það yrði samþykkt. Það er sömuleiðis staðreynd að þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra skerti gjafsókn, það var gert í fyrra. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra setti umdeild útlendingalög sem nánast öll mannréttindasamtök, Persónuvernd, Lögmannafélagið o.s.frv. voru mótfallin. Þetta var eitt af þeim málum sem ég dró fram hér. Þessi sami dómsmálaráðherra hefur sömuleiðis breytt lögunum þannig að halda megi eftir gögnum frá verjanda. Þessi sami hæstv. dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir því að sérsveitin hefur þrefaldast á þremur árum og hann hefur lýst yfir mjög sérkennilegu viðhorfi gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég setti þetta allt í þetta samhengi því að þetta er lífsskoðun hæstv. dómsmálaráðherra, hún endurspeglast að sjálfsögðu í áherslumálum hans. Ég er bara einfaldlega ósammála hans lífsskoðun — sem betur fer, segi ég — en þó að ég sé ekki sammála hæstv. dómsmálaráðherra, og ég veit að hann mun ekkert vera sammála mér, getur hann a.m.k. svarað spurningum mínum. Hann hefur þeim skyldum að gegna hér í þingsal að svara spurningum hv. þingmanna.

Það fólust engar dylgjur í spurningum mínum. Þetta voru málefnalegar spurningar um hvað felist í þessu frumvarpi, og ekkert meira en það. Það má alveg sjá þær spurningar, þær voru ekki gildishlaðnar á neinn hátt eða neitt slíkt. Þetta var tölusett í níu liðum og ég fékk sáralítil svör frá hæstv. dómsmálaráðherra þegar hann reyndi að svara öðrum hv. þingmönnum þar sem sumum spurningum minna var ekki teflt fram af neinum nema mér.

Það er alveg með ólíkindum hvernig hæstv. dómsmálaráðherra kýs að líta á þetta mál hvað mig varðar sérstaklega. Hann grípur iðulega til þess ráðs að kalla málflutning minn barnalegan, og endurtekur það ítrekað. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem minn málflutningur á að vera barnalegur, og ég veit að fleiri hv. þingmenn sjálfstæðismanna hafa gripið til þeirrar snilldarlegu röksemdafærslu að afgreiða málflutning þeirra sem þeir eru ósammála með þeim rökum. Að sama skapi hlýtur málflutningur ýmissa mannréttindasamtaka, Lögmannafélagsins, Persónuverndar í sumum tilvikum o.s.frv. að vera líka barnalegur því að öll þessi mál sem ég taldi upp áðan voru gagnrýnd af þessum aðilum.

Ég ætla svo sem ekkert að lengja þetta sérstaklega. Mig langaði aftur að ítreka spurningar mínar. Mig langaði að fá frá hæstv. dómsmálaráðherra svör við því hvern hann telji eiginlega vandann vera, hvort hann sjái einhverja óvini ríkisins núna. Mig langaði líka að vita hvort vinnan væri nú þegar í gangi hjá ríkislögreglustjóraembættinu. Það hefur ekki komið fram. Er þessi vinna nú þegar í gangi og er hann að sníða stakk og ramma utan um starfsemi sem nú þegar er í gangi? Mun eftirlitið aukast með þessari lagabreytingu? Því hefur ekkert verið svarað.

Hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki enn þá nefnt starfsheimildir sem hann vill veita lögreglunni og eiga að vera sambærilegar starfsheimildum annarra ríkja. Hann hefur boðað að hugsanlega komi fram frumvarp en mig langar gjarnan að heyra hvaða heimildir hann vill veita lögreglunni, hvað vanti á að hans mati.

Enn ein spurningin sem ekki hefur fengist svar við varðar það að þetta frumvarp opni á fleiri en eina greiningardeild — stendur það til og hver er þá þörfin á slíku?

Síðan má endanlega velta fyrir sér hvað felist í þessu áhættumati, í þessari greiningu á hættunni. Hvað mun þessi deild gera dagsdaglega?

Að lokum hefur verið komið inn á kostnaðinn. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að þetta kosti ekki neitt en að sjálfsögðu mun svona deild kosta eitthvað. Hvernig á að mæta þeim kostnaði?

Ég á ekkert von á að hæstv. dómsmálaráðherra vilji svara mér í þetta skiptið frekar en í hið fyrra en mér finnst mjög leiðinlegt hvernig hann kemur hérna fram, og við sérstaklega mig. Ég held að ekki hafi verið tilefni til að haga sér svona og mér fannst þessi hegðun og þessi viðbrögð hans vera honum til skammar. Ég er ekki að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að vera sammála mér, heldur bara að hann sinni því starfi sínu að svara þingheimi sem leggur málefnalegar spurningar fyrir hann. Það tel ég mig hafa gert.



[17:40]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að taka hér til máls til að mótmæla því sérstaklega að það sé lífsskoðun mín að hér séu stundaðar símahleranir án dómsúrskurðar, að það sé einhver lífsskoðun mín að svo sé. Og það sé lífsskoðun mín að hér séu í gildi lög í landinu sem takmarki ólögmæta komu fólks til landsins, að þetta byggist á lífsskoðun minni, eins og hv. þingmaður segir, og að við séum ósammála um lífsskoðun vegna þessa.

Svo segir hv. þingmaður að ég hafi sett hitt og þetta. Þetta eru allt ákvæði sem samþykkt hafa verið á Alþingi eftir langar umræður og meðferð í nefnd. Ég hef flutt ákveðnar tillögur og ég tel að það sé ekki ámælisvert, m.a. þegar menn kvarta undan því að framkvæmdarvaldið ráði öllu í landinu og snúi þinginu eins og skopparakringlu í kringum sig, að ráðherra leggi fram tillögur sem taki breytingum í þinginu, eins og það sé líka til marks um að þingmaðurinn hafi betri lífsskoðanir en ég að einhverjum frumvörpum sé breytt í þingnefndum.

Þetta hefur ekkert með lífsskoðun að gera. Þetta hefur með það að gera að það er verið að takast á um viðfangsefni líðandi stundar þar sem menn koma með tillögur, takast á um þær á lýðræðislegum vettvangi og komast síðan að niðurstöðu. Það er þess vegna þessi óvirðing við Alþingi sem kemur fram í ummælum þingmannsins og óvirðing við störf þingmanna sem kemur fram í ummælum þingmannsins um meðferð mála í þinginu sem veldur því að ég tel að það sé ekki svaravert að eiga við hann orðastað hér á þessum stað. Það er þessi óvirðing við það að ráðherrann komi með tillögur, leggi þær fram í þinginu, rökræði þær, þær fari í nefnd og síðan taki þær breytingum, að það sé einhver spurning um lífsskoðun mína — þetta er spurning um lýðræðislega stjórnarhætti, almennar umræður og almenna og góða stjórnarhætti í landinu.

Ég sætti mig vel við það að frumvarp sem ég flyt taki breytingum. Það var ég sem átti frumkvæðið að því að kalla frumvarpið um fullnustu refsinga til baka þegar ég sá að það þurfti að betrumbæta það. Það var ekki þingmaðurinn sem stóð fyrir því. Þingmaðurinn hefur ekki staðið fyrir neinum umbótum í lagasetningu frá því að hann kom inn á Alþingi. Og hann hefur haldið þannig á málum sem hann hefur flutt að þeim hefur öllum verið hafnað af þingheimi og enginn viljað taka mark á þeim.



[17:42]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var með sérkennilegustu ræðum sem ég hef nokkurn tíma heyrt. Hæstv. dómsmálaráðherra hélt tölu um að þetta væri bara alls ekki lífsskoðun hans, öll þessi mál sem hann leggur hér fram á þingi. Það er með ólíkindum þegar við lítum á afrekalista hans, þann afrekalista sem hann hefur náð hér í gegn á þessu kjörtímabili, að hann tengist ekkert lífsskoðun hans eða áherslu. Hæstv. dómsmálaráðherra er sá maður sem leggur fram þessi frumvörp. Þetta eru ekki þingmannafrumvörp. Hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að leggja fram frumvarp sem lýtur að því að heimila hleranir án dómsúrskurða. Hæstv. dómsmálaráðherra ákveður að leggja fram frumvarp sem skerðir gjafsókn og hann breytir útlendingalögunum. Frumkvæðið og frumvörpin koma frá hæstv. dómsmálaráðherra, þau koma ekki héðan frá þinginu. Það er með ólíkindum að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ákveða að hlaupa frá sínum eigin málum og vísa hér í: Ja, Alþingi samþykkti þetta.

Þessi mál koma frá hæstv. dómsmálaráðherra og hann þarf bara að taka ábyrgð á sínum eigin málum. Það er með ólíkindum að hann skuli vera svona viðkvæmur gagnvart sinni eigin lífsskoðun. En sem betur fer deili ég ekki lífsskoðun hans, og það hefur komið hér skýrt fram í dag.

Svo talar hæstv. dómsmálaráðherra um óvirðingu gagnvart Alþingi. Hver sýndi Alþingi óvirðingu með því að taka sérstaklega fram að hann mundi ekki svara spurningum þessa þingmanns því að honum líkaði ekki málflutningur hans? Það var hæstv. dómsmálaráðherra. Það er óvirðing við Alþingi. Sá sem hér stendur er hluti af Alþingi og hæstv. dómsmálaráðherra hefur skyldu til að svara okkur hér í þingheimi. Hann er að biðja okkur um að samþykkja frumvarp sitt sem ég hafði efasemdir um og vil fá svör við spurningum varðandi það, og svo talar hann um óvirðingu við Alþingi. Það er með ólíkindum.

Svo kvartar hann yfir því að ég hafi ekki náð fram neinum umbótamálum hér á þingi. Ég veit ekki betur en að ég hafi ítrekað lagt fram mjög góð mál á þingi en þau sofna eins og öll önnur þingmannamál hér í nefndunum og þannig er bara vinnulag þessa ríkisstjórnarmeirihluta. Hann hleypir ekkert öðrum málum í gegn en sínum eigin og þá bara frá hæstv. ráðherrum. Hann hleypir ekki einu sinni í gegn málum (Forseti hringir.) frá stjórnarþingmönnum. (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að hv. stjórnarþingmenn sætti sig við það.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmann að virða ræðutíma.)



[17:45]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er lífsskoðun hv. þingmanns sem birtist t.d. í því þegar hann var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar. Kom lífsskoðun þingmannsins fram í þeim tölum sem þar birtust og hvernig að því öllu var staðið?

Menn verða að skilja á milli annars vegar tillagna sem lagðar eru fram, vinnubragða á fundum og síðan þess sem þeir kalla lífsskoðun. Ég hef þá lífsskoðun, ef þingmaðurinn vill ræða mína lífsskoðun, að að sjálfsögðu eigum við að búa í frjálsu, opnu þjóðfélagi þar sem hver borgari getur búið við öryggi. Ég tel að í tillögum mínum, sem ég hef lagt hér fram, stuðli ég að því. Ég sætti mig vel við að þingmenn hafi aðra skoðun á þessu og einhver tæknileg atriði við útfærslu á frumvörpum ráði niðurstöðum þeirra frekar en textinn sjálfur sem kemur inn í þingið. Ég tel að það sé bara liður í eðlilegum þingstörfum og skammast mín ekkert fyrir það. Ég tel ekki að vegið sé að mér á nokkurn hátt þótt það sé rifjað upp.

Málflutningur hv. þingmanns er með þeim hætti að ef menn ætla að stunda hér málefnalegar umræður verða þeir að ræða við einhverja aðra, eins og ég hef gert hér í þessum umræðum.



[17:46]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra er við sama heygarðshornið. Nú tekur hæstv. dómsmálaráðherra þátt í einhverjum dylgjum um varaformannskjör mitt og dregur það inn í þetta mál. Ég get alveg upplýst hæstv. dómsmálaráðherra, sem var ekki á þeim blessaða landsfundi, að það var ekkert óeðlilegt við framkvæmd þeirrar kosningar sem ég hlaut þar. Það hefur ítrekað verið staðfest af öllum þar til bærum aðilum. Ég skil ekki hvernig hæstv. dómsmálaráðherra dettur í hug að lepja upp rógburð og lygi sem hefur birst varðandi þá kosningu. Ég nota því þetta tækifæri og svara því til að það er ekkert til í því og það er með ólíkindum að hæstv. dómsmálaráðherra kynni sér ekki málið aðeins betur áður en hann dregur það hér inn í ræðu á Alþingi.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir að auðvitað eigum við að búa í frjálsu, opnu samfélagi. Ég deili að minnsta kosti þeirri lífsskoðun með honum. Ég set hins vegar spurningarmerki þegar ég skoða áhersluatriði og þau frumvörp sem koma frá hæstv. dómsmálaráðherra. Og þá á ég, sem þingmaður, að spyrja: Á hvaða vegferð erum við?

Ef við skoðum öll þessi mál í samhengi virðist þar vera rauður þráður að því að þrengja, skerða persónuréttindi og opna á auknar heimildir lögreglu í eina átt. Auðvitað hef ég áhyggjur af því. Ég hefði líka haldið að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áhyggjur af þessu. Eins og reynslan á mínum stutta þingferli hefur sýnt mér samþykkja hv. stjórnarþingmenn allt möglunarlaust sem kemur frá hæstv. ráðherrum. Það er áhyggjuefni.

Ég ætla ekkert að lengja þetta sérstaklega. Ég hef ekki enn þá fengið svör við spurningum mínum sem eru málefnalegar. Ég mun þá bara taka þær spurningar upp í allsherjarnefndinni og spyrja embættismennina fyrst ég fæ ekki hæstv. ráðherra til að svara fyrir sitt eigið frumvarp og vona að ég fái eitthvað út úr þeim.



[17:48]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn getur fengið svör við öllum þessum spurningum í þingnefndinni, nema einni. Þegar hann heldur því fram að ég hafi flutt ræðu á 50 ára afmæli mannréttindasáttmála Evrópu og talað þar á einhvern þann veg um sáttmálann og störf Mannréttindadómstólsins að einsdæmi væri fer hann enn og aftur með rangt mál. Það er alls ekki svo. Hingað kom t.d. í sumar danskur prófessor og flutti erindi í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann hélt fram þessum sömu sjónarmiðum með skýrum og góðum rökum. Á fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna á síðasta ári var fjallað um þetta málefni sérstaklega, lýst yfir áhyggjum af því sem kallað er dómstólavæðingin, lýst yfir áhyggjum af því hvernig alþjóðlegir dómstólar eru að seilast og taka völd af t.d. þjóðþingum — þingmaðurinn hefur væntanlega ekki áhyggjur af því. Þingmaðurinn hefur engar áhyggjur af því hvernig mál þróast hér á þessu þingi. Þar er vakið máls á því að alþjóðadómstólar eru farnir að taka völdin af þjóðþingunum og ákveða fyrir þau hvernig á að framfylgja lögum, hvernig á að túlka lögin, hvernig á að þvinga upp á þjóðir ákvæðum sem aldrei hafa verið samþykkt á þingum eins og dæmin sanna.

Af þessu hefur þingmaðurinn ekki neinar áhyggjur heldur sakar mig um einhverjar skoðanir sem hann telur algjörlega úreltar og fáránlegar, skoðanir sem eru að ryðja sér til rúms og vekja mikla athygli og er nauðsynlegt að ræða.



[17:49]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta hafa verið mjög merkilegar umræður hér síðustu mínúturnar. Hæstv. dómsmálaráðherra virðist hafa misst algjörlega stjórn á sér. Það þarf ekki nema eina ræðu stjórnarandstæðings til þess að hæstv. ráðherra missi gjörsamlega taumhald á sér, neiti að svara spurningum sem lagðar eru fram og hreyti alls konar skætingi í viðkomandi þingmann. Það er ekki hæstv. ráðherra til sóma.

Satt að segja áttar maður sig ekki alveg á þessu. Annar ráðherra missti stjórn á sér fyrir helgina. Hvað gengur eiginlega á á stjórnarheimilinu? Líður mönnum ekki nógu vel þar, eða hvað? Það er a.m.k. mjög sérkennilegt að hæstv. ráðherrar skuli ekki hafa meiri ró yfir sér hér í ræðustól en raun ber vitni síðustu dagana.

Ég ætla svo sem ekki að fara að elta ólar við það sem hæstv. ráðherra var að segja en það gengur auðvitað ekki annað en að ráðherra svari þeim spurningum sem eru lagðar fram og svari þingmönnum af fullri virðingu. Það síðasta sem hæstv. ráðherra var að tala um fékk mig til að biðja að lokum um orðið. Í lokaorðum sínum fór hann að ræða um það vandamál að einhverjir alþjóðadómstólar væru farnir að taka fram fyrir hendurnar á þjóðþingum. Auðvitað skín í gegnum þetta ergelsi hæstv. ráðherra vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur ekki umgengist málefni eins og mannréttindi af fullri virðingu. Hún hefur fengið flengingar úti í heimi. Auðvitað er sárt að fá slíkt. Auðvitað finnst hæstv. ráðherra að dómstólarnir hafi farið offari þegar þeir hafa vogað sér að komast að annarri niðurstöðu en ríkisstjórnin í landinu. Hæstiréttur hefur gert það á Íslandi, komist að annarri niðurstöðu en ríkisstjórnin. Hæstv. ráðherra man vel eftir því og finnst það sárt. Þess vegna kvartar hann yfir því að dómstólar séu að taka af sér völd.

Það er nú einu sinni þannig að í þessu landi, eins og flestum öðrum löndum á heimskringlunni, hafa menn framselt vald sitt með tilteknum hætti til alþjóðadómstóla. Það kostar sitt. Þá þurfa menn að horfast í augu við það að mönnum sé sagt til, og það hefur verið gert. Það er hins vegar nýtt hér að Hæstiréttur taki fram fyrir hendur á ríkisstjórnum og Alþingi, eins og gerst hefur á undanförnum árum. Það er vegna þess að Alþingi samþykkti lög sem gáfu Hæstarétti ástæðu til þess. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hafði ekki gert sér fullkomlega grein fyrir þessu. Það kemur honum á óvart og hæstv. ríkisstjórn, og hann er sár yfir þessu. Þess vegna talaði hann svona í lokin á ræðu sinni.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma ró á huga sinn, láta sig hafa það að svara þeim spurningum sem hv. þingmenn bera fram, jafnvel þótt honum finnist þær ekkert endilega skemmtilegar, og sýni þeim a.m.k. fulla virðingu.