132. löggjafarþing — 67. fundur
 15. feb. 2006.
stúdentspróf.
fsp. AKG, 358. mál. — Þskj. 392.

[12:23]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér áðan fór fram umræða sem er hluti af mikilli umræðu í samfélaginu, um nám til stúdentsprófs. Þar er um mikilvægt mál að ræða. Það þarf að nýta tímann vel og fara með varfærni í breytingar á námi til stúdentsprófs. Þar er margs að gæta.

Ég heyrði fyrir nokkru að meðalnámstími til stúdentsprófs á Íslandi væri fimm ár. Þetta vakti athygli mína og mér fannst það ótrúlegt. En ég er næsta viss um að þetta er rétt. Heimildirnar sem vísað var í voru opinberar. Ég tel mikilvægt að fá sundurgreiningu á lengd námstímans svo að hægt sé að taka tillit til mismunandi aðila við hugsanlegar breytingar á náminu sem unnið er að undir stjórn hæstv. menntamálaráðherra. Ég veit að margir fullorðnir taka sér mörg ár til að safna einingum til stúdentsprófs. Hið sama er að segja um fjarnema. Það er hið besta mál að fólk geti stundað nám með þessum hætti og safnað einingum í próf og haldið áfram að læra. Eins kann vinna með námi að hafa nokkuð að segja í þessu efni.

Ég spurði reyndar ekki hvort munur væri á kynjum eftir lengd á námi til stúdentsprófs. En það væri mjög forvitnileg breyta og eins hvort munur er á tímalengd til stúdentsprófs eftir aldri nemenda við upphaf náms. Það er sannarlega efni í aðra fyrirspurn.

Spurningarnar sem ég spyr hæstv. menntamálaráðherra eru:

1. Hve langan tíma tekur nám til stúdentsprófs að meðaltali hjá öllum nemendum annars vegar og hins vegar að frátöldum fjarnemum?

2. Hve langan tíma tekur námið að meðaltali í fjölbrautaskólum annars vegar og menntaskólum hins vegar, að frátöldum fjarnemum?



[12:26]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hagstofa Íslands hefur kerfisbundið safnað upplýsingum um íslenska framhaldsskóla fyrir ráðuneyti menntamála. Til að finna hve langan tíma nám til stúdentsprófs tekur að meðaltali valdi Hagstofan alla stúdenta í framhaldsskólum almanaksárið 2004. Um er að ræða nemendur sem komu inn í nemendaskrá árið 1990 eða síðar. Teknar voru upplýsingar úr prófaskrá, hvenær nemendur hófu nám, frá hvaða skóla þeir voru brautskráðir og hvenær þeir voru brautskráðir. Þannig fæst hve lengi þau stunduðu námið. Í tölum Hagstofunnar eru námshlé nemenda ekki dregin frá þegar reiknaður er meðalnámstími til stúdentsprófs og hefur það því einhver áhrif til hækkunar.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er meðallengd náms allra nemenda til stúdentsprófs 4,9 ár eða tæp 5 ár. Meðaltal að frátöldum fjarnemendum er einnig 4,9 ár. Ef einungis dagskólanemendur eru skoðaðir eru þeir að meðaltali 4,8 ár að ljúka stúdentsprófi.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spurði einnig:

„Hve langan tíma tekur námið að meðaltali í fjölbrautaskólum annars vegar og menntaskólum hins vegar, að frátöldum fjarnemum?“

Til að svara þessari spurningu voru annars vegar valdir skólar sem eingöngu kenna nám til stúdentsprófs, bóknámsskólar, og hins vegar skólar með blandað námsframboð sem brautskrá stúdenta samkvæmt ákveðinni flokkun. Við vitum að þeir hafa m.a. almennar brautir og fleira. Í ljós kemur að nemendur í skólum með blandað námsframboð eru, að frátöldum fjarnemum, að meðaltali 5,3 ár að ljúka námi til stúdentsprófs. En nemendur í bóknámsskólum eru, að frátöldum fjarnemum, 4,2 ár að ljúka stúdentsprófi.

Munurinn á námstímanum í bóknámsskólunum annars vegar og blönduðu skólunum hins vegar skýrist líklega fyrst og fremst af því að nemendur bóknámsskólanna hafa nánast allir skilyrði til að hefja stúdentsnámið strax að loknum grunnskóla. Margir þeirra sem hefja stúdentsnám í blönduðu skólunum hefja skólagöngu sína á almennri námsbraut til undirbúnings frekara námi á bóknámsbrautum. Það lengir námið. Í blönduðu skólana sækja líka gjarnan eldri nemendur sem hefja nám til stúdentsprófs að loknu námi á öðrum brautum eða þeir sem skipta úr bóknámsskóla í blandaða skóla.

Ég vil sérstaklega draga fram að almenna brautin er fyrirkomulag sem framhaldsskólunum var veitt svigrúm til þess að nota á sínum tíma. Hið jákvæða varðandi almennu brautirnar var að þeim var veitt sjálfstæði til að móta námið og það hefur gefist ágætlega. Engu að síður teljum við að fara þurfi sérstaklega yfir þetta. Ég bendi á það að þetta er einn af þeim punktum sem felast í þessu tíu punkta samkomulagi á milli menntamálráðuneytisins og Kennarasambandsins. Við viljum fara gaumgæfilega yfir þá möguleika sem almenna brautin gefur okkur í skólakerfinu. Það hefur sýnt sig að hún skilar því að við náum inn nemendum sem hefðu ekki fengið inni í skólakerfinu og við náum að koma þeim áfram. Það þarf engu að síður að huga að því hvernig má útfæra brautina nánar.

Ég tek undir með hv. þingmanni með að athyglisvert væri að fara gaumgæfilega yfir kynjaskiptinguna. Við vitum hins vegar að ákveðin teikn eru á lofti varðandi drengina í skólum landsins sem við þurfum sérstaklega að huga að. Ég þarf ekki annað en að minna á PISA-könnunina, varðandi 15 ára nemendur í grunnskóla, þar sem stúlkurnar í skólum landsins eru framúrskarandi í stærðfræði meðan drengirnir eru við meðaltal. Það er hlutur sem huga þarf að á mörgum stigum innan menntakerfisins.



[12:30]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þetta eru fróðlegar upplýsingar sem hér koma fram og hefði verið enn fróðlegra að sjá sambærilegar tölur um starfsnámsbrautir og frekari upplýsingar um kynjaskiptingu. Grundvallarspurningin í þessu hlýtur hins vegar að vera: Hvað er það sem veldur námshraða? Við þeirri spurningu er að sjálfsögðu ekkert einfalt svar. En það er rétt að vekja athygli á því að kostir áfangakerfisins eru einmitt þeir að geta lagað sig að ólíkum námsþörfum og getu nemenda. Það er sveigjanleikinn. Ég hygg hins vegar að ef við ætlum að reyna að svara þessari stóru spurningu, hvað veldur námshraða, þá verðum við að taka inn það merkilega hugtak gildismat. Gildismat nemanda hverju sinni. Ég leyfi mér að fullyrða að eitt stærsta vandamálið, ef má kalla það svo, sé hversu mikið nemendur vinna með námi. Ekki endilega til að eiga fyrir salti í grautinn eða námsbókum heldur til að sinna ýmsu tómstundagamni. Kannski er það æskilegt en það hlýtur að koma niður á námi og metnaði og er í sjálfu sér ekkert einfalt að leysa. (Forseti hringir.)



[12:31]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert svar og merkileg fyrirspurn og gott að það liggi fyrir inni í umræðunni um námshraða og styttingu á námi. Það vakti einmitt athygli á dögunum í máli Jóns Torfa Jónassonar, prófessors í háskólanum, að um leið og námshraði og aldur íslenskra stúdenta er hærri en víðast í Evrópu og á Norðurlöndunum þá er útskriftaraldur úr háskólum hins vegar sá sami og síst hærri hér, jafnvel lægri hér en sums staðar annars staðar. Það er svolítið merkilegt í þessu ljósi þar sem skólakerfið þar útskrifar nemendur fyrr sem stúdenta yfirleitt.

Þetta er merkileg umræða og jákvætt að tölur liggi henni til grundvallar. Fjölbrautaskólarnir spanna litríka flóru og breiða og eðlilega er þessi tala hærri þar. En markmiðið er, eins og við höfum talað fyrir undanfarin missiri, að fjölga þeim sem útskrifast fyrr og þessi tala undirstrikar það svo rækilega að það þarf að gera með öllum góðum ráðum.



[12:32]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi svör sem eru í raun mjög upplýsandi. Í þeim kemur í ljós mikill munur á námstíma til stúdentsprófs á milli bekkjarskólanna eða menntaskólanna annars vegar og fjölbrautaskólanna hins vegar. Hæstv. ráðherra rakti hugsanlega eina af mörgum ástæðum þess. Ég vil leggja áherslu á það í máli mínu að ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er einmitt sú endurskoðun sem stendur yfir og vinna að námi til stúdentsprófs. Við hljótum alltaf að leita eftir því að hafa undirbúninginn sem vandaðastan og þannig úr garði gerðan að hann henti sem flestum, bæði hvað varðar innihald og einnig hvað varðar þann tíma sem það tekur að ná settu marki, þ.e. stúdentsprófinu í þessu tilfelli.

Hæstv. ráðherra minntist á áhyggjur af drengjum í skólakerfinu og ég held að það sé vissulega ástæða til að skoða það því þeir hafa náð þar lakari árangri almennt. Það er vissulega ástæða til að reyna að finna hvernig er hægt að bæta líðan þeirra í skólanum og bæta árangur þeirra. En jafnframt verðum við líka að skoða hvernig stúlkunum líður í skólanum og hversu mikla ánægju þær hafa af námi sínu. Þá staðreynd að stúlkum gengur betur og þær ná betri árangri í skóla má ekki eingöngu skrifa á það að áhugasvið þeirra falli betur að því sem fram er sett í skólanum, (Forseti hringir.) heldur vitum við að stúlkur eru oft og tíðum samviskusamari (Forseti hringir.) framan af aldri og ég held að það sé það sem kemur þarna í ljós.



[12:35]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Að mörgu leyti má taka undir síðustu orð hv. þm. og fyrirspyrjanda Önnu Kristínar Gunnarsdóttur varðandi stúlkurnar. Það einkennilega við þær niðurstöður er að stúlkurnar hafa ekki sama sjálfstraust í námi og strákarnir. Strákarnir eru fullir af sjálfstrausti en ná ekki sama árangri. Þetta er m.a. ein af þeim niðurstöðum sem við sjáum í Písa-rannsókninni sem væri gaman að fara betur yfir við betra tækifæri. Auðvitað er mér ofarlega í huga það samkomulag sem við höfum gert við kennarasambandið og þar er m.a. einn punktur sem snertir náms- og starfsráðgjöf í skólanum. Ég tel það afar brýnt verkefni að við förum gaumgæfilega yfir þau skil, 9. og 10. bekkinn, og síðan fyrsta árið í framhaldsskóla til að reyna að leiðbeina nemendum, m.a. inn á þeirra áhugasvið og það svið sem þau telja sig spjara sig hvað best á. Hvar liggur áhuginn? Hvar er hann? Ég held að það skipti mjög miklu máli að við beinum þeim nemendum ekki í bóknám eða starfsnám sem síðan hentar ekki að fara inn á þær brautir. Það er gjarnan þannig að menn fara sjálfkrafa í bóknámsskólana án þess í rauninni að vera að hugleiða mikið hvert leiðin liggur og svo öfugt.

Það skiptir miklu máli að námsráðgjöfin sé efld á síðari stigum í grunnskóla og á fyrstu stigum í framhaldsskóla. Það er hlutur sem við ætlum að fara vel yfir. Ég tel líka rétt að draga fram námstæknina. Hún er m.a. dregin fram í hinni títtnefndu bláu skýrslu sem snertir breytta námsskipan til stúdentsprófs. Þar er lögð mikil áhersla á að breyta námstækninni og m.a. leggja aukna áherslu á (Forseti hringir.) heimanám og heimavinnu.