132. löggjafarþing — 67. fundur
 15. feb. 2006.
þjónusta svæðisútvarps.
fsp. AKG, 487. mál. — Þskj. 718.

[13:15]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða um svæðisútvarp en eins og fram kom í máli fjölmargra þingmanna, og reyndar allra þeirra sem hér töluðu áðan, eru svæðisútvörp mjög gagnlegur og merkilegur miðill og gegna mikilvægu hlutverki. Svæðisútvörpin afla sér efnis á mismunandi vegu. Hjá þeim eru fastir starfsmenn, mismargir eftir umfangi starfseminnar á hverjum stað, á Egilsstöðum, Akureyri, Selfossi og Ísafirði, en auk fastra starfsmanna er um að ræða fréttaritara úti í byggðum sem eru staðsettar fjær aðalstöðvunum, þangað sem erfiðara er fyrir fastráðna fréttamenn eða starfsmenn að sækja fréttir og jafnframt erfiðara að komast á snoðir um ef eitthvað er um að vera. Það er engu að síður mjög mikilvægt að fréttir og efni berist frá þeim svæðum þjónustusvæðis viðkomandi stöðvar sem fjær liggja aðalstöðvunum, reyndar höfum við oft heyrt kvartað yfir því að það sé ákveðin tilhneiging til þess að efnisumfjöllun og fréttir séu frekar frá þeim stöðum þar sem aðalstöðvarnar eru eða stöðum sem næst þeim liggja.

Mér er líka kunnugt um að það hefur verið dregið úr starfsemi fréttaritara og reyndar hefur föstum starfsmönnum utan starfsstöðvanna verið fækkað á undanförnum árum, sem gerir aftur hlutverk fréttaritaranna enn þá mikilvægara.

Ég legg því nokkrar spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hve hátt hlutfall af fréttaefni svæðisstöðva Ríkisútvarpsins er frá svæðum utan byggðarlagsins þar sem viðkomandi stöð er (Egilsstaða, Akureyrar, Selfoss, Ísafjarðar), sundurliðað eftir stöðvum og eftir hljóðvarpi og sjónvarpi?

2. Hve mikið af því efni er unnið af fréttariturum hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar?

3. Hve háu hlutfalli af fréttaefni svæðisstöðvanna er útvarpað á landsrás Ríkisútvarpsins?



[13:18]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hv. þingmaður hefur lagt fyrir mig fyrirspurn á þskj. 718, um þjónustu svæðisútvarps, og er fyrirspurnin í þremur liðum eins og hv. þingmaður kom inn á.

„1. Hve hátt hlutfall af fréttaefni svæðisstöðva Ríkisútvarpsins er frá svæðum utan byggðarlagsins þar sem viðkomandi stöð er (Egilsstaða, Akureyrar, Selfoss, Ísafjarðar), sundurliðað eftir stöðvum og eftir hljóðvarpi og sjónvarpi?

2. Hve mikið af því efni er unnið af fréttariturum hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar?

3. Hve háu hlutfalli af fréttaefni svæðisstöðvanna er útvarpað á landsrás Ríkisútvarpsins?“

Ég leitaði eftir upplýsingum frá Ríkisútvarpinu og í svari þess kemur fram að fréttir sem Ríkisútvarpið flytur, hvort heldur er í sjónvarpi eða útvarpi, í svæðisútvarpi eða á landsrás, eru ekki flokkaðar með þeim hætti að unnt sé að svara fyrirspurninni. Á svæðisstöðvum Ríkisútvarpsins á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum eru fastráðnir fréttamenn sem vinna fyrir útvarpið, sjónvarpið og viðkomandi svæðisstöð og því er ógerlegt að gera greinarmun á milli fréttaritara hljóðvarps annars vegar og sjónvarps hins vegar.

Á Selfossi vinna tveir menn við fréttaöflun fyrir Ríkisútvarpið, annar fyrir Fréttastofu sjónvarps og hinn fyrir útvarpið en af framansögðu leiðir að það er ekki hægt að gera grein fyrir hvernig framlög þeirra skiptast.

Hvað síðasta lið fyrirspurnarinnar varðar verð ég enn og aftur að vísa til þess að slíkar athuganir hafa ekki verið gerðar af hálfu Ríkisútvarpsins. Það krefðist gríðarlegrar vinnu að fara nákvæmlega í gegnum allar fréttir til að finna slíkt út auk þess sem það væri alltaf túlkunaratriði því frétt um tiltekinn atburð eða málefni er að jafnaði sérstaklega unnin fyrir hvern miðil.

Niðurstaðan er því í stuttu máli sú að því miður, frú forseti, reyndist ekki gerlegt að verða við ósk hv. fyrirspyrjanda og veita svör við spurningum hans því að upplýsingar af því tagi sem óskað var eftir liggja ekki fyrir hjá Ríkisútvarpinu.



[13:21]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég er nú svo hógvær maður að eðlisfari að ég ætlaði bara að bíða eftir hv. þm. Merði Árnasyni en nú hef ég komist að og við erum aftur að ræða svæðisútvörp. Auðvitað er leitt að geta ekki fengið svör við þeim spurningum sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spyr en það er rétt að ítreka það hversu mikilvægar svæðisstöðvarnar eru. Þær ná yfir stórt svæði, á Egilsstöðum t.d. nær það alveg frá Vopnafirði og suður á Höfn í Hornafirði og það er mjög mikilvægt að hafa fréttaritara á öllum þessum svæðum. Ég held að við ættum frekar að beita okkur fyrir því að efla þessar stöðvar og efla þjónustu þeirra. Þær eru mikilvægar, ekki bara á hverju svæði fyrir sig heldur líka á landsrásinni. Sem betur fer er efni sem fjallað hefur verið um í svæðisútvarpinu oft tekið inn á landsrásina og þess vegna er full ástæða til þess (Forseti hringir.) að efla svæðisútvörpin frekar en hitt.



[13:22]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi orðið að melda pass í svörum við þeim fyrirspurnum sem voru lagðar fram þá held ég að það dyljist engum sem á annað borð fylgist með efni Ríkisútvarpsins að svæðisstöðvarnar skipta mjög miklu máli fyrir fréttaöflun inn á fréttastofurnar hér í Reykjavík, bæði Fréttastofu sjónvarps og líka Fréttastofu útvarps. Ég er sannfærður um að fréttir sem koma utan af landi eru nær alltaf gott efni, góðar fréttir sem vekja áhuga og umtal.

Þó að hér sé búið að stofna eins konar borgríki er ansi grunnt í sveitamanninn í öllum Íslendingum og við viljum gjarnan fá fréttir utan af landi, af fólkinu sem þar býr og þeirri lífsbaráttu sem það heyr.

Ég vil svo líka nefna annað sem er mjög mikilvægt til viðbótar við þessi svæðisútvörp en það eru héraðsfréttablöðin. Það þarf að efla þau með einhverjum hætti en það er efni í aðra umræðu.



[13:24]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að benda á tvennt í sambandi við þessa fyrirspurn frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Það fyrra er að líklega er hann vanmetinn sá hlutur frétta sem kemur frá starfsmönnum svæðisstöðva Ríkisútvarpsins og ratar inn í almennar fréttir útvarpsins. Ég held að menn megi ekki horfa fram hjá því að fréttaritarar eða starfsmenn svæðisútvarpa vinna ekki einvörðungu að svæðisfréttum heldur að almennri fréttaöflun fyrir Ríkisútvarpið. Mér finnst fyrirspurnin bera með sér að ekki sé hugað að því.

Ég vil einnig beina því til hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að fréttir svæðisstöðvanna verði birtar á netinu með sama hætti og venjulegir fréttatímar (Forseti hringir.) þannig að menn geti hlustað á þær á netinu síðar.



[13:25]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja eins og er að ég held að ég hafi ekki heyrt svar sem er jafnþunnt í roðinu og svar hæstv. menntamálaráðherra hér áðan. Það var eiginlega aldeilis óvanalegt og ótrúlegt að ég fékk ekki svar við neinni af spurningunum sem ég varpaði fram. Sú staðreynd vekur auðvitað upp enn þá fleiri spurningar, þ.e. telst það ekkert mikilvægt hjá Ríkisútvarpinu að fylgjast með því hvernig þessari starfsemi er háttað innan svæðanna? Er það ekki á neinn hátt skoðað hvernig svæðisstöðvarnar sinna hlutverki sínu og er yfir höfuð ekkert eftirlit með því?

Mér þykir þetta leitt því að ég held að með slíku eftirliti og slíkri skoðun væri hægt að bæta starfsemi svæðisstöðvanna. Þó að þær séu góðar eru þær ekki algóðar, það er hægt að bæta þær, m.a. með því að efla starfsemi fréttaritara, eins og hér hefur komið fram, og skapa þeim færi á að sinna enn þá betur hlutverki sínu, að miðla fréttum innan svæðanna og frá svæðunum inn á landsrásirnar.



[13:27]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég met það þannig að Ríkisútvarpið hafi frekar kosið að setja það fjármagn sem ellegar færi í eftirlit af því tagi sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir er að kalla eftir, þ.e. eftirlit með því hvernig svæðisstöðvarnar sinna hlutverki sínu eins og hv. þingmaður orðaði það, í að styrkja svæðisstöðvarnar sjálfar og reyna að hlúa að þeim. Ég get ekki annað en sagt að í megindráttum eru svæðisútvörpin starfrækt með nokkuð öflugum hætti og svæðisstöðvarnar sinna ákveðinni þjónustu sem er mjög eftirsótt.

Ég er því nokkuð sannfærð um það, um leið og mér þykir það leitt að geta ekki svarað nákvæmlega fyrirspurn hv. þingmanns, að þeim kostnaði sem hlytist af því að halda uppi slíku eftirliti væri betur varið í dagskrárgerð innan Ríkisútvarpsins.

Ég vil einnig vekja athygli á því að á vefnum ruv.is er hægt að nálgast fréttir svæðisstöðvanna en engu að síður er ábending hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar athyglisverð, Ríkisútvarpið gæti hugað að því að leyfa hlustendum um allt land að njóta þess sem kemur fram á svæðisstöðvunum með því að tengjast inni á vefnum hljóðinu líka.