132. löggjafarþing — 67. fundur
 15. feb. 2006.
skotveiði og friðland í Guðlaugstungum.
fsp. SigurjÞ, 446. mál. — Þskj. 668.

[14:00]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra:

Hvaða samráð var haft við veiðimenn þegar ákvörðun var tekin um að banna skotveiði á stóru landsvæði með auglýsingu, dags. 22. desember sl., um friðland í Guðlaugstungum?

Friðlandið sem hér um ræðir er norður í Húnavatnssýslu og er um 400 ferkílómetrar að stærð. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Í 8. gr. auglýsingarinnar um friðlandið kemur fram að skotveiði sé bönnuð nema til veiða á ref og mink. En þess ber að geta að þetta svæði hefur verið nýtt til veiða á heiðargæs.

Frú forseti. Veiðimönnum hefur verið ráðlagt að beina veiðum í meira mæli að heiðargæs en hlífa grágæs og blesgæs. Í greinargóðu fréttabréfi, Gæsakvaki, sem ritstýrt er af Arnóri Sigfússyni, kemur fram að grágæs sé uppistaðan í veiði gæsaskyttna þrátt fyrir að gæsastofninn sé í rauninni miklu minni en heiðargæsastofninn, en í athugun sem fram fór á Bretlandseyjum kom í ljós heiðargæsastofninn hefur aldrei verið stærri en einmitt um þessar mundir. Ég er á því að þessi ákvörðun um að banna skotveiðar geti snúist upp í andhverfu sína, þ.e. að í rauninni verði ekki um náttúruvernd að ræða að því leyti til að þetta bann getur leitt til þess að veiðin beinist frá heiðargæsinni og að grágæs og blesgæs sem taldar eru eiga undir högg að sækja meðan heiðargæsastofninn hefur aldrei verið stærri.

Þetta mál verður einnig að skoða í því ljósi að þetta er einungis ein friðlýsing af mörgum sem koma skulu, boðaðar hafa verið fleiri friðlýsingar og stærri svæði eiga að verða friðlýst. Þess vegna er ég á því að skoða verði þessa friðlýsingu í því ljósi hvort skotveiðimenn megi eiga von á að með friðlýsingu verði allar veiðar bannaðar sjálfkrafa. Það væri mjög upplýsandi að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls.



[14:03]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Friðlýsing Guðlaugstungna, Svörtutungna og Álfgeirstungna norðvestan Hofsjökuls er í samræmi við náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004–2008. Hún var samþykkt á Alþingi vorið 2004. Friðlýsingin er gerð að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, með samþykki sveitarfélagsins Bólstaðarhlíðarhrepps, í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, en landsvæðið er innan sveitarfélagsins. Friðlýsingin er sú fyrsta af þeim 14 sem eru tilteknar í náttúruverndaráætlun.

Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda mjög víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins eins og fyrirspyrjandi réttilega nefndi í fyrirspurn sinni áðan. Svæðið er mikilvægt varp- og beitiland heiðargæsar og hefur því alþjóðlegt náttúruverndargildi. Tilgangur með friðuninni er m.a. að vernda fæðu- og beitarsvæði heiðargæsa en samkvæmt upplýsingum Náttúrufræðistofnunar er nú talið að 10–16 þúsund heiðargæsir nýti þetta svæði.

Umhverfisstofnun hefur það verkefni samkvæmt lögum að undirbúa friðlýsingar en í því felst að hafa samráð við landeigendur og sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta um mörk og friðlýsingarreglur. Í þessu tilviki þótti Umhverfisstofnun ekki ástæða til að leita álits annarra en sveitarstjórnar enda er landsvæðið ekki í einkaeign.

Haldinn var almennur borgarafundur í sveitarfélaginu til að kynna og fjalla um friðlýsinguna áður en gengið var frá friðlýsingarskilmálum og tillögu stofnunarinnar um friðlýsinguna til ráðuneytisins. Það þótti ekki ástæða til að leita eftir sjónarmiðum skotveiðimanna sérstaklega í þessu tilfelli enda var það mjög skýr afstaða sveitarfélagsins að veiðar á svæðinu ættu að vera bannaðar. Í þessu sambandi má líka benda á að það eru fáir vegir á þessu svæði og þeir geta ekki borið mikla umferð. Hins vegar er líka rétt að benda á að vestan við Blöndu eru mjög víðfeðm veiðisvæði með góðu vegakerfi sem þolir mikla umferð veiðimanna á haustin.

Fyrirspyrjandi nefndi sérstaklega að hann teldi að afleiðingarnar af þessu banni yrðu hugsanlega þær að veiðimenn veldu fremur aðrar gæsategundir til að veiða og þá sérstaklega grágæs og blesgæs. Það er alveg hárrétt hjá honum að blesgæsin er í mikilli hættu og það eru einmitt nýjar fréttir af því að á Bretlandseyjum sé stofninn hruninn. Það er því ljóst að þar er greinilega um mjög mikla hættu að ræða. Hvað varðar hins vegar að friðlýsingar hafi þau áhrif almennt að veiðar verði bannaðar, þá vil ég nefna sérstaklega að þegar við höfum fjallað t.d. um Vatnajökulsþjóð þá er gert ráð fyrir því í skýrslu, sem nefnd sem gerði tillögur um þjóðgarð norðan Vatnajökuls skilaði, að leyfðar verði hefðbundnar nytjar í þeim þjóðgarði og þar með gæti að sjálfsögðu talist skotveiði. Friðlýsing þarf því ekki endilega að þýða að hefðbundnar nytjar séu sjálfkrafa bannaðar. Það fer að sjálfsögðu eftir því að hverju friðlýsingin beinist og í þessu tilviki beinist friðlýsingin sérstaklega að því að vernda m.a. varp og beitiland heiðargæsarinnar.



[14:08]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það kemur fram í lögum um náttúruvernd að hafa eigi samráð við hagsmunaaðila og ég er á því að það hefði farið miklu betur á því þegar verið var að koma þessu skotveiðibanni á að haft hefði verið samráð við skotveiðimenn. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að endurskoða þetta bann, sérstaklega ef svo reynist að veiðar beinist þá frekar í þær tegundir sem eiga undir högg að sækja, svo sem blesgæs, sem hæstv. ráðherra minntist á að væri í einhverri lægð, og grágæs líka. Ég er á því þegar menn hafa farið fram með slíkt og ekki rætt við alla hagsmunaaðila, eins og kom fram í máli ráðherrans, að þá eigi að fara yfir þetta bann og skoða hvort í raun og veru sé þörf á því, hvort við ættum ekki að halda áfram að nýta heiðargæsina til veiða á þessu svæði. Ef full rök eru fyrir því að stofninn hafi aldrei verið stærri eigum við þá ekki að halda áfram að nýta hann til veiða? Það er skoðun mín. Fróðlegt væri að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort ekki sé ráð að leggjast yfir þetta mál og endurskoða hvort í rauninni hafi verið þörf á þessu banni.



[14:09]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil greina sérstaklega frá því við þessa umræðu að borist hefur erindi til umhverfisráðuneytisins frá Skotvís þar sem farið er fram á að þessu banni verði aflétt hvað snertir veiðar á heiðargæs og það erindi verður að sjálfsögðu tekið til efnislegrar skoðunar í umhverfisráðuneytinu. Ég get ekki sagt á þessari stundu hverjar lyktir þess verða en það verður að sjálfsögðu skoðað.

Ég legg hins vegar áherslu á að einn megintilgangurinn með friðlýsingu þessa svæðis er, eins og ég sagði áður, að vernda varp og beitiland heiðargæsarinnar. Ég tel að tekist hafi afskaplega vel til í sambandi við þessa friðlýsingu en að sjálfsögðu munum við skoða þetta mál efnislega með sérfræðingum og hvort ástæða er til að bregðast við þessu erindi frá Skotvís og hvernig.