132. löggjafarþing — 67. fundur
 15. feb. 2006.
öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.
fsp. VF, 479. mál. — Þskj. 707.

[14:29]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Hávær umræða var í þjóðfélaginu síðasta haust um aðstöðu aldraðra íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Sólvangi í Hafnarfirði þar sem m.a. var rætt um fjölda vistmanna í hverju herbergi. Umræðan róaðist nokkuð eftir utandagskrárumræðu á Alþingi þann 8. nóvember sl. þegar hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, vakti athygli á aðbúnaði og aðstæðum aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum almennt og spurði þar m.a. um endurbætur á Sólvangi.

Í svari hæstv. heilbrigðisráðherra kom m.a. fram varðandi aðbúnað á Sólvangi að undirbúningur að endurbótum væri hafinn og að á árinu 2004 hafi verið þar tvö fimmbýli, 19 þríbýli og 5 einbýli en í nóvember sl. hafi ekki verið um nein fimmbýli að ræða. Jafnframt sagðist ráðherra vonast til að innan árs yrði öllum þríbýlum breytt í tvíbýli. Auk þessa kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra að ákveðið hefði verið að innrétta eina hæð til að hægt væri að hafa þar sérgreinda deild fyrir heilabilaða sjúklinga.

Fyrirspurn mín, frú forseti, er byggð á framansögðu og þeirri tilkynningu sem kom frá ráðherra í utandagskrárumræðunni, en þar sagði hæstv. ráðherra orðrétt:

„Rétt er að það komi fram að ég hef skipað nefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði …“

Ég hef tröllatrú á hæstv. heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni en taldi rétt að halda málinu vakandi og sendi því inn þessa fyrirspurn fyrir nokkrum vikum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvað líður störfum nefndar sem ráðherra skipaði til að gera tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði?

2. Hvenær tók nefndin til starfa og hvenær er áætlað að hún skili niðurstöðum sínum?

3. Hvaða endurbætur hafa verið gerðar á aðstæðum vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum?



[14:32]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Suðvest. hefur beint til mín fyrirspurn um störf nefndar sem falið var að gera tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Einnig spyr hv. þingmaður hvaða endurbætur hafi verið gerðar á aðstöðu vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum.

Virðulegi forseti. Nefnd um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði skipaði ég með bréfi þann 31. október síðastliðinn. Hún hefur skilað mér tillögum sínum og voru þær kynntar opinberlega á mánudag. Nefndin hefur unnið mjög gott starf. Tillögur hennar eru metnaðarfullar. Þær liggja fyrir opinberlega og ég hygg að þær séu komnar á netið. Þær lúta jafnt að uppbyggingu á þjónustu á vegum bæjarfélagsins og ríkisins og hafa verið unnar í góðu samstarfi við aðila í Hafnarfirði og bæjaryfirvöld þar.

Hv. þingmaður spyr hvaða endurbætur hafi verið gerðar á aðstöðu vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum. Þar hefur verið útbúin sérstök deild með sjö rýmum fyrir heilabilaða, eins og ég gat um í utandagskrárumræðu fyrir jól. Þessa dagana verið að leggja lokahönd á frágang þeirra rýma.

Vegna þrengsla á Sólvangi var í desember ákveðið að stöðva inntöku nýrra vistmanna og er gert ráð fyrir að íbúar þar verði ekki fleiri en 60 í lok ársins 2006 í staðinn fyrir að þeir voru 84 í haust. En þeir eru nú 66 talsins þessa dagana.

Ég vil geta þess, af því að það kom í fréttum á einhverjum fréttastöðvum að Hafnfirðingar ættu forgang á Hrafnistu, að samningar okkar við Hrafnistu lúta að því að gefa þeim heimild til að breyta 10 dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Að þeim er tímabundinn forgangur vegna þess að verið er að rýmka á Sólvangi. Það eru staðreyndir máls og tímabundinn aðgangur að fimm rýmum á Vífilsstöðum.

Með þessum upplýsingum vona ég að spurningum hv. þingmanns hafi verið svarað. Ég vil endurtaka að vinna þessarar nefndar er mjög góð og ég horfi með bjartsýni til að vinna á þeim nótum sem skýrslan gerir ráð fyrir.



[14:35]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Valdimar Friðriksson sagði að hann hefði tröllatrú á hæstv. heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni. Ég deili því með þingmanninum enda hefur hann unnið mikið og gott starf á afar stuttum tíma. Sett var á laggirnar nefnd sem byrjaði að starfa í byrjun nóvember. Hún er búin að skila af sér núna. Vinnan gekk hratt. Það eru einungis um rúmir þrír mánuðir síðan hún hóf störf. Skýrslan er komin á netið og hægt að nálgast hana á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins.

Í skýrslunni komu fram mjög framsýnar tillögur. Ég vil sérstaklega draga fram að leggja á áherslu á heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, að hún verði samþætt. Ég held að það sé geysilega mikilvægt. Ég er viss um að það er hægt að spara og gera betur en við erum að gera í dag með samþættingu og efla þjónustuna fyrir sama pening. Auðvitað mun það kosta meira í framtíðinni. En svo á að byggja upp nýtt hjúkrunarheimili með nýrri hugmyndafræði. Ég fagna þessu.



[14:36]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að þessi spurning skuli tekin fyrir í dag. Í vikunni voru kynntar hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um hvernig eigi að standa að uppbyggingu öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Ég vil óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þessar hugmyndir því að þær hafa ferskan blæ. Þar eru hugmyndir sem hafa verið í umræðunni meðal manna, meðal fagaðila og meðal aldraðra en hafa í raun ekki verið útfærðar með þessum hætti fyrr. Ég vil óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þessar hugmyndir og vona að þeim verði hrint í framkvæmd sem allra fyrst.

Meginatriði skýrslunnar lúta að samþættingu á hjúkrunar- og félagsþjónustu, hvíldarinnlögnum og jafnframt upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu fyrir aldraða. Sá aldurshópur, og reyndar flestir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, verða dálítið ráðvilltir þegar þeir standa frammi fyrir því að taka ákvarðanir sem varða heilbrigði þeirra. Þetta er því mjög til bóta.



[14:37]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Jóni Kristjánssyni fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem þátt tóku í umræðunni. Maður átti ekki von á því að ráðherra og þessi nefnd mundu vinna svo hratt sem hér hefur komið fram, þ.e. hún starfaði í þrjá mánuði. Því ber að fagna. Frá aðilum sem sátu í nefndinni hef ég heyrt að verkefnisstjórinn, starfsmaður ráðherra, hafi fengið sérstakt hól fyrir.

En það er nauðsynlegt að halda þessu máli vakandi. Ég vænti þess að þeim hugmyndum sem fram eru komnar verði komið í verk hið fyrsta, þær sem ekki eru þegar komnar í framkvæmd og aðbúnaður þar megi verða hinn besti í framtíðinni.



[14:38]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar umræður um þetta mál og endurtek þakkir til þeirra sem unnu að skýrslunni. Starfið var til fyrirmyndar, samstarf heimamanna og ráðuneytisins. Skýrslan er, ef hv. þingmenn kynna sér hana, mjög góð handbók, sérstaklega um heimaþjónustuna. Það besta við hana er að hún byggir á traustum grunni, byggir á könnunum og samtölum við eldra fólk í Hafnarfirði. Þar kom fram sá eindregni vilji þeirra að vera sem lengst heima í sínu umhverfi. Þeim verður gert það kleift með eflingu þjónustu, sem að hluta til er á hendi sveitarfélagsins og að hluta á hendi ríkisins, þ.e. sérstaklega heimahjúkrunin.

Þetta rímar við sjónarmið forustumanna eldri borgara. Þeir hafa hvatt til að vinna á þeim nótum að fólk geti verið sem lengst heima í sínu umhverfi þótt vissulega útrými það ekki þörfinni á hjúkrunarrýmum eða rýmum fyrir þá sem þurfa mikla hjúkrun eða sólarhringshjúkrun. En þetta er sá farvegur sem ég tel að við eigum að vinna í.