132. löggjafarþing — 67. fundur
 15. feb. 2006.
barnaklám á netinu.
fsp. SandF, 506. mál. — Þskj. 739.

[14:41]
Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Barnaklám af hvaða tagi sem er er yfirleitt framhliðin á vísvitandi og óafsakanlegum glæpum gagnvart börnum. Við heyrum daglegar fregnir af barnaklámi á netinu og fáum blandast hugur um að möguleikar nýrrar tækni hafa stóraukið umsvif glæpamanna sem misnota saklaus börn til að auðgast. Til marks um það nefni ég að Barnaheillum hafa borist ógrynni ábendinga um barnaklámssíður á netinu.

Oftar en ekki er um að ræða börn úr ríkjum þriðja heimsins, sem búa við litlar varnir af hálfu stjórnvalda í löndum sínum og hefur í sumum tilvikum verið rænt eða þau beinlínis verið seld til að svala hvötum barnaníðinga.

Stjórnvöld hér á landi hafa vissulega gripið til varna. Alþingi hefur sett ákvæði í hegningarlög sem bannar fólki hér á landi að hlaða niður barnaklámi á tölvur sínar. Það er beinlínis refsivert að skoða slíkt efni á tölvu sinni. Síðan þau lög voru sett hefur sigið hratt á ógæfuhliðina í þessum efnum en sem betur fer hefur tæknin gefið nýja möguleika til að sporna gegn glæpum af þessu tagi.

Á nýlegri ráðstefnu Barnaheilla kom fram að tæknilega er hægt að taka upp sérstakar netsíur sem mundu hindra aðgang Íslendinga að vefsvæðum sem innihalda barnaklám. Norðmenn hafa tekið upp netsíur í þeim tilgangi. Mér finnst þetta athyglisvert og er þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld eigi að gera slíkt hið sama.

Ég vil undirstrika að ég aðhyllist sem grundvallarreglu að ríkið og hið opinbera eigi að hafa sem allra minnst afskipti af persónulegum högum og einkalífi fólks. Í þessu tilviki er ég þó þeirrar skoðunar að réttlætanlegt sé að ríkið grípi inn í með þessum hætti. Afstaða mín byggist á því að óhjákvæmilegt sé að líta svo á að notendur barnakláms séu þátttakendur í þeim glæpum sem eru forsendan fyrir framleiðslu þess. Þeir eiga því aðild að kynferðisbrotum gegn börnum þótt þau fari fram annars staðar í heiminum. Ég tel að það felist svo ríkir hagsmunir í því að stöðva þau brot að það réttlæti fyllilega að ríkið grípi til aðgerða af þessu tagi til að hindra þau. Ég hef því leyft mér að leggja fram fyrirspurn til míns kæra hæstv. dómsmálaráðherra um þetta:

Telur ráðherra að unnt sé að grípa til annarra löglegra ráða en nú er gert til að koma í veg fyrir skoðun barnakláms á netinu hér á landi, t.d. að setja upp netsíur sem hindra slíkt?



[14:44]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og fyrir að vekja máls á þessu. Í mínum huga er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að stemma stigu við ófögnuði af þessum toga. Vandamálið er flókið sökum þess að tækninni fleygir ört fram á þessu sviði og netið á sér engin landamæri eins og kunnugt er. Þá þarf að huga að lagalegum atriðum í þessu sambandi.

Lögreglan, undir forustu embættis ríkislögreglustjóra, hefur kannað ýmsar leiðir í þessum efnum og m.a. kynnt sér hvað lögregluyfirvöld í nágrannalöndum okkar hafa gert. Lögreglan hefur einnig átt gott samstarf við Barnaheill um þessi mál, m.a. í tengslum við ráðstefnu sem hv. fyrirspyrjandi nefndi. En hún var haldin í síðasta mánuði.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að norsk lögregluyfirvöld hafa náð góðri samvinnu við internetfyrirtæki í því skyni að heft útbreiðslu barnakláms. Það felst m.a. í því að þegar menn reyna að fara inn á þekktar barnaklámssíður koma upp skilaboð frá internetfyrirtækinu um að aðgangur að viðkomandi síðu sé lokaður að beiðni lögreglu, hvort sem menn reyna að komast þar inn með efni eða reyna að opna þær síður. Viðkomandi er bent á að hafa samband við lögreglu ef hann telji að aðgangi að síðu sé ranglega lokað.

Lögreglan hefur óskað eftir samstarfi við internetfyrirtæki hér á landi í því skyni að kom upp netsíum af þessum toga sem komi í veg fyrir að viðskiptavinir geti skoðað vefsíður sem innihalda barnaklám. Allir þættir þess máls eru til skoðunar, m.a. það sem snýr að vernd persónuupplýsinga og öðrum lagalegum þáttum. Vonast er til að samstarfið verði að veruleika á næstu vikum eða mánuðum.

Þá er í dómsmálaráðuneytinu unnið að lagabreytingum til að íslenska ríkið geti uppfyllt skuldbindingar sínar á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot, frá 23. maí árið 2001. En Ísland undirritaði þann samning í nóvember 2001. Með samningnum er leitast við að móta sameiginlega stefnu við mótun refsilöggjafar sem hafi að markmiði að veita borgurunum refsivernd gegn ólögmætri háttsemi sem drýgð er með notkun upplýsingatækni, þ.e. netinu. Það yrði gert með því að setja viðeigandi löggjöf og auka alþjóðlega samvinnu á þessu sviði. Markmið samningsins er:

1. Að samræma almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á sviði tölvubrota.

2. Að innleiða nauðsynlegar réttarfarsreglur svo hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti.

3. Að setja á laggirnar skilvirkt og fljótvirkt kerfi alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði.

Í samningnum eru m.a. ákvæði er varða barnaklám. Gert er ráð fyrir nýju úrræði við rannsókn sakamála vegna brota sem framin eru með atbeina upplýsingatækni. Það tekur mið af hættu á því að tölvugögnum sem hafa að geyma sönnun fyrir broti verði spillt eða breytt. Þessi ákvæði samningsins kalla á lagabreytingar hér á landi. Ég stefni að því að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp þar sem mælt verði fyrir um nauðsynlegar lagabreytingar til að íslenska ríkið geti uppfyllt skuldbindingar sínar á grundvelli þess samnings.

Þá vil ég einnig minna á að á síðasta þingi, síðasta ári, voru miklar umræður í þinginu um frumvarp sem samgönguráðherra flutti á þeim tíma. Það gerði ráð fyrir skráningu á IP-númerum, eins og þingmenn muna væntanlega. Það mætti nokkurri andstöðu í þinginu en náði engu að síður fram að ganga og samþykkt þess frumvarps, sem nú er orðið að lögum, auðveldar einnig eftirlit af þessu tagi.



[14:48]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er hreyft afar viðkvæmu en mikilvægu máli, barnaklámi á netinu, og ég vil fagna svörum hæstv. dómsmálaráðherra — segi nú ekki míns kæra dómsmálaráðherra þó það eigi næstum því við í þessu tilfelli. Það er greinilega verið að vinna að þessum málum í ráðuneytinu og það er ánægjulegt. Við höfum dæmi um að netsíur komi að góðum notum og þar hafa Norðmenn sýnt ákveðið frumkvæði og sjálfsagt að nýta sér reynslu þeirra.

Í síðustu viku var ráðstefna um netnotkun barna og unglinga þar sem þessi mál voru rædd í þaula, ekki bara barnaklám heldur líka öll samskipti á netinu. Við þurfum að vera vakandi hvað þetta varðar á hverjum degi því að eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði, og þekkir sennilega manna best, þekkir netið engin landamæri.



[14:49]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Samtökin Barnaheill hafa hér á landi haft forgöngu um að hvetja fólk til að gera viðvart um barnaklám á netinu, mjög þarft og mikilvægt framtak sem hefur borið þó nokkurn árangur. Mig langar af því tilefni og vegna svara hæstv. dómsmálaráðherra að inna hann eftir því hvort þær viðræður sem hafnar eru við netþjónustufyrirtæki vísi þann veginn að hægt sé að ná svipuðu eða sambærilegu samkomulagi og gert hefur verið í Noregi eða hvort fram hafi komið einhverjir fyrirvarar eða aðrir þeir meinbugir af hálfu fyrirtækjanna að kannski sé þetta ekki eins auðsótt mál eins og mátti álykta af máli hæstv. ráðherra.



[14:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Söndru Franks fyrir þessa fyrirspurn. Það hefur margoft komið fram í þessari stuttu umræðu að um gífurlega mikilvægt mál er að ræða, ég held að þingheimur allur geti sameinast um það. Það er mjög ánægjulegt að hæstv. dómsmálaráðherra tekur á því eins og raun ber vitni. Eðli málsins samkvæmt þarf að stíga varlega til jarðar þegar um er að ræða persónuréttindi, og þá er ég að vísa í þætti sem tengjast persónuvernd hins almenna netnotanda og öðru slíku, en þó verður að taka á því af einurð og ákveðni. Ég heyri á svörum hæstv. ráðherra að þannig er unnið að málum. Ég vonast til þess að niðurstaða náist sem allra fyrst. Þetta mál er þess eðlis að við þurfum öll að berjast gegn því og með öllum tiltækum ráðum.



[14:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan taka til máls um þá ágætu fyrirspurn sem hér er borin fram. Það er þyngra en tárum taki að við skulum þurfa að afbera barnaklám á netinu. Okkur ber skylda til þess, bæði stjórnmálamönnum, lögreglu og öllum sem geta lagt hönd á plóg, að hafna barnaklámi. Þetta er ein ógeðfelldasta birting á mannlegu eðli sem hugsast getur. Ég vil sérstaklega fagna því sem kom fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að hann muni taka upp einhvers konar samstarf um netsíur. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að lögreglan fái ábendingar frá öllum þeim sem verða varir við barnaklám á netinu. Það er geysilega mikilvægt að við tökum á þessu með eins harkalegum hætti og hægt er án þess að ganga á vernd fólks samkvæmt stjórnarskrá o.s.frv. Barnaklám er svo alvarlegur hlutur að við eigum algerlega að hafna því í öllu birtingarformi.



[14:53]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Samfylkingarinnar, Söndru Franks, fyrir að hefja máls á fyrirbrigðinu „netsíur“ til að reyna að vernda þjóðina fyrir barnaklámi. Í mínum huga er barnaklám, sem er undirrót margs ills, ein sú stærsta skömm sem hvílir á mannkyninu í dag. Það má hvergi gefa eftir í baráttunni og ég bæði trúi því og treysti að bæði hv. þingmaður og hæstv. ráðherra í sínum kærleik taki hressilega á þessu máli.



[14:53]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Aldrei þessu vant verð ég að taka undir lofsyrði þingmanna um hæstv. dómsmálaráðherra. Þau svör sem hann veitti voru ákaflega skýr. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé með virkum hætti að íhuga það og reyndar að hrinda í framkvæmd, heyrðist mér, að taka upp netsíur til að varna því að menn geti notað barnaklám á netinu. Sérhver einstaklingur sem gerir það er um leið þátttakandi í glæp.

Ég er sjálfur nýkominn frá Afríkuríki þar sem lítil lög virtust í framkvæmd og þar sem stjórnvöld höfðu séð sig tilneydd til að fara í opinbera herferð gegn erlendum barnaníðingum sem beinlínis komu til landsins í þeim tilgangi að taka upp barnaklám til að selja annars staðar. Það eru börn í þriðja heiminum sem verða verst úti og við þurfum af öllum þeim krafti sem við getum að taka þátt í að útrýma þessu. Ég fagna bæði frumkvæði hv. þingmanns og svörum hæstv. ráðherra.



[14:55]
Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að hæstv. ráðherra skuli með svo jákvæðum hætti taka undir hugmyndir um að netsíum verði beitt til að draga úr notkun og þar með framleiðslu á barnaklámi. Ég nefndi það fyrr í ræðu minni, eins og hæstv. ráðherra gerði í svari sínu, að Norðmenn hefðu tekið þær upp og virtust satt að segja mjög ánægðir með það. Þar í landi fá netþjónusturnar lista yfir ólöglegar vefsíður frá yfirvöldum og þeim er lokað þannig að menn komast ekki inn á þær. Í stað þess opnast síðan og upp kemur gluggi sem segir viðkomandi að hann hafi reynt að komast inn á ólöglega vefsíðu.

Í Noregi hafa daglega mælst allt að 7 þúsund tilraunir til að komast inn á síður af þessu tagi. Engin skrá er hins vegar haldin yfir þá sem reyna slíkt enda væri það fráleitt að mínum dómi og í andstöðu við stjórnarskrá og persónuverndarlög. Svipað kerfi væri auðvelt að taka upp hér á landi og ég hef skoðað hvernig Norðmenn taka á þessu máli í lögum og stjórnarskrá. Þar var stjórnarskránni breytt fyrir skömmu og tjáningarfrelsisákvæðið var endurskoðað með mjög róttækum hætti. Almennt var það rýmkað mjög en hins vegar þrengt hvað varðar barnaklám. Norska stjórnarskráin veitir hinu opinbera sérstakar heimildir til að grípa til aðgerða sem hindra miðlun og notkun barnakláms á netinu og í hvítbók norsku ríkisstjórnarinnar, þar sem breytingartillögur hennar voru upphaflega kynntar, var það rökstutt með því að þar væru meiri hagsmunir, þ.e. hagsmunir barnanna, teknir fram yfir réttinn til að tjá sig með hætti sem fallið gæti undir barnaklám. Ég er því sjónarmiði algerlega sammála og ég tel að netsíur séu mjög góð leið til að vinna gegn barnaklámi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér af krafti fyrir því að þær verði teknar upp í þeim tilgangi.



[14:57]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum þátttakendum í þessum umræðum fyrir viðhorfin sem hér hafa komið fram og einnig fyrirspyrjanda fyrir þær upplýsingar sem hún hefur miðlað til þingsins um hvernig Norðmenn hafa staðið að þessu og hvaða ráðstafanir þeir hafa þurft að gera með breytingu jafnvel á stjórnarskránni til að ná þessu fram. Ég veit ekki til þess að slík vandamál hafi komið upp hér en að vissu leyti er ég þar að tala um hluti sem ég hef ekki kannað til hlítar. Eins og fram kom í máli mínu er lögreglan að vinna að því að stofna til samstarfs við internetfyrirtækin um þetta. Frjálsir samningar eru náttúrlega besta leiðin í slíku. Ég hef ekki fengið spurnir af því að nein fyrirstaða sé af hálfu fyrirtækjanna enda held ég að það sé öllum fyrirtækjum fyrir bestu að fá ekki þann stimpil á sig að þau vilji ekki starfa með lögreglunni að því að koma í veg fyrir að netið sé misnotað á þennan veg. Það eitt að við ræðum þetta hér og sá þungi sem er í störfum lögreglunnar, Barnaheilla og annarra í þessu máli ætti að knýja fyrirtæki til að taka höndum saman með yfirvöldum og koma í veg fyrir að ófögnuður af þessu tagi leiki lausum hala á netinu. Vissulega á það kannski við um fleiri þætti þegar litið er til netheima en þetta er þó sá þáttur sem ég held að allir ættu að geta sameinast um að eigi að útrýma. Enginn heiðvirður þjónustuaðili eða maður á að standa þannig að málum að þetta sé opið fyrir fólk sem kannski fer inn á slíkar síður fyrir misskilning og lendir sjálft í hremmingum við það. Ég tel því að lögreglan eigi að vinna að þessu og einnig eigi þjónustufyrirtækin að sjá metnað sinn í því að setja upp síur sem þau geta sjálf sett upp án þess að fá fyrirmæli um það frá lögreglunni.