132. löggjafarþing — 70. fundur
 20. feb. 2006.
skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:24]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. fjármálaráðherra og snýst um það hvers vegna lántakendur hjá Íbúðalánasjóði fái ekki að skuldbreyta lánum sínum hjá sjóðnum til að nýta sér lægri vexti án þess að greiða af því stimpilgjöld. Eins og öllum er kunnugt er tekið 1,5% stimpilgjald af öllum lánum, jafnt þegar skuldbreytt er sem annað. Sem dæmi eru það 150 þús. kr. af 10 millj. kr. láni. Þetta gerir það auðvitað að verkum, virðulegi forseti, að fjárhagslegur ávinningur lántakandans við skuldbreytingu kemur ekki fram fyrr en eftir eitt og hálft til tvö ár þegar tekið er tillit til þeirra peninga sem þarf að greiða ríkissjóði í stimpilgjöld af skuldbreytingu á láninu. Lántakendur sem eru með gömul íbúðasjóðslán, segjum t.d. á 5,1% vöxtum, fá ekki þennan fjárhagslega ávinning strax sem þeir ættu auðvitað að geta fengið strax.

Virðulegi forseti. Það kemur fram í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á síðasta þingi að ríkissjóður náði sér í 4,4 milljarða í tekjur af stimpilgjöldum frá því í september 2004, þ.e. þegar þessi samkeppni á íbúðalánamarkaði hófst, til janúar 2005. Ég hef því miður ekki tölur fyrir aðra mánuði á árinu 2005. Þetta eru miklir peningar og þess vegna ítreka ég þá spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna er þetta ekki leyft? Í öðru lagi: Stendur til að breyta því að á jafnsjálfsagðan hátt við skuldbreytingu hjá Íbúðalánasjóði, og þess vegna innan sama banka, verði leyft að gera það án þess að rukka af því stimpilgjöld?



[15:26]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er athyglisvert að fá svona spurningu frá hv. þingmanni. Ástæðan fyrir þeirri stöðu mála sem hv. þingmaður lýsti er sú að ríkissjóður þarfnast tekna til að standa undir þeim útgjöldum sem ríkissjóði ber að standa straum af, m.a. í velferðarkerfinu. Þetta er ein af þeim tekjuöflunarleiðum sem Alþingi hefur samþykkt að nýta sér í þessum tilgangi. Það má auðvitað hugsa sér að Alþingi aflaði þessara tekna á einhvern annan hátt og sjálfsagt mun það koma til skoðunar í framtíðinni þegar við endurskoðum tekjuöflunarkerfi ríkisins. Auðvitað gæti líka komið til, ef menn vildu hafa það þannig, að skattheimta á þennan hátt yrði minnkuð en útgjöld yrðu lækkuð á móti. Auðvitað þurfum við líka að endurskoða útgjöld ríkisins, eins og við þurfum að endurskoða tekjuöflunina.

Þetta er nú ekki flóknara mál en svo að ég er búinn að fara yfir það á einni mínútu og ég verð eiginlega að undrast það að hv. þingmaður skuli ekki hafa áttað sig á þessu. Mig grunar þó helst að þetta sé ein af þeim hugmyndum sem hv. þingmaður fær til að vekja á sjálfum sér athygli og reyna að gera lítið úr því sem verið er að vinna í ríkisfjármálunum. Hann telur sjálfsagt að þetta sé til skammtímavinsælda fallið. Það kerfi sem við höfum verið með í gildi hvað þetta varðar hefur verið í gildi í allmörg ár, við þekkjum það mjög vel og hv. þingmaður á að þekkja það líka.



[15:28]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hefur gerst á ráðherrabekknum hérna vinstra megin við mig. Mér finnst að það sé eins og þeir hafi farið vitlaust fram úr, ráðherrar sem sitja þarna og hafa lent í því að svara hér fyrirspurnum.

Fyrirspurn mín varðaði einfaldlega það, virðulegi forseti, að þetta er óréttlát skattheimta. Hvað réttlætir það að rukka stimpilgjald aftur af skuldbreytingu til þess að fá að nýta sér lægri vexti sem eru í boði núna en voru ekki í boði fyrir nokkrum árum? Hvað á ráðherra með að koma með svar um að þetta sé eingöngu um að þingmaður sé að vekja á sér athygli og gera lítið úr skattheimtu ríkissjóðs? Það er ekkert verið að gera lítið úr skattheimtu ríkissjóðs, virðulegi forseti.

Við vitum það að fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og núverandi fjármálaráðherra eru sennilega mestu skattheimtumenn sem nokkurn tíma hafa verið uppi á Íslandi. Bestu dæmin eru í tekjuskattinum, og við getum líka tekið nýlegt dæmi sem hefur komið fram um skatt af umferð og bílainnflutningi. Það eru sennilega 35 milljarðar umfram það sem fer til vegamála og það hefur aukist um 25 milljarða (Forseti hringir.) á núvirði í tíð ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég spyr eingöngu hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Finnst honum það ekki ósanngjarnt að rukka tvisvar stimpilgjald af skuldbreytingum?



[15:30]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það þarf ekki endilega að vera tvisvar, það getur verið þrisvar og getur verið fjórum sinnum. Þú getur skuldbreytt endalaust. Ég ætla ekki að halda því fram sérstaklega að skattheimta sé eitthvað sérstaklega réttlát, að einhverjir tilteknir skattar séu réttlátari en aðrir skattar. Það má deila um það út í hið óendanlega.

En séu stimpilgjöldin óréttlát í dag þá hafa þau verið það lengi, hv. þingmaður. Og svo ættirðu að skammast þín fyrir það að í hvert einasta skipti sem þú kemur hér upp þá upplýsir þú þjóðina um hve lélegur þú ert í reikningi. Þú heldur fram tómum bábiljum um skattheimtuna og hvernig að henni er staðið hvað eftir annað og ferð með rangt mál. Menn eiga að hugsa sig um áður en þeir gera það hvað eftir annað.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að fara að þingsköpum. Það á ekki að ávarpa einstaklinga.)

Ertu að tala um þingmann eða ráðherra?

(Forseti (SP): Ráðherrann er líka þingmaður, hæstv. fjármálaráðherra sem talaði síðast.)



[15:31]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágæt lok á umræðunni um stimpilgjöld og skattheimtu ríkissjóðs sem stýrt er af fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins með því að nefna síðustu orð hæstv. fjármálaráðherra um málið. Eins og ég sagði áðan veit ég ekki hvað hefur gerst á ráðherrabekknum. Vonandi koma ekki fleiri ráðherrar vinstra megin frá til að svara í dag. Það er eitthvað að þarna.

Orðin sem hæstv. ráðherra lét frá sér eru kannski ágæt síðustu orð um þetta og hitta ráðherrann fyrir sjálfan. Þau lýsa því hvað hann verður hvumpinn þegar rætt er um hina miklu skattheimtu Sjálfstæðisflokksins, sama hvort um er að ræða tekjuskatt eða skatt af umferð. Samgönguráðherra var hér fyrir nokkrum dögum að hækka um 100% umferðargjöld. Svona má lengi telja.

Í mínum huga, virðulegi forseti, eru stimpilgjöld mjög óréttlát skattheimta. En mér finnst sem ég hafi lesið að Sjálfstæðisflokkurinn vilji líka afnema stimpilgjöld. En að taka þau margsinnis við skuldbreytingu finnst of langt gengið.



[15:32]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður kynni að reikna þá mundi hann ekki rugla saman tveimur hugtökum sem eru annars vegar tekjur ríkissjóðs og hins vegar skattheimta. Skattheimtan hefur minnkað. Hún hefur minnkað í tíð fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. En tekjur ríkissjóðs hafa aukist. Þær hafa aukist vegna þess að okkur hefur vegnað vel í efnahagslífinu undanfarin ár. Það vill þannig til að á því tímabili hafa starfað fjármálaráðherrar frá Sjálfstæðisflokknum. Það er rétt hjá hv. þingmanni.

Fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins skammast sín ekki fyrir þá stöðu og þeir skammast sín ekki fyrir þá þróun … (Gripið fram í.) — ég heyri að þingmönnum Samfylkingarinnar er órótt á bekkjunum — en þeir skammast sín ekki fyrir þá stöðu íslenska þjóðarbúsins í dag. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður er greinilega órólegur.

Það eru fáir ríkissjóðir sem standa betur heldur en íslenski ríkissjóðurinn í dag. Það eru fá þjóðfélög sem geta státað af minni skattheimtu en verið hefur á þessu landi þessi árin.