132. löggjafarþing — 71. fundur
 21. feb. 2006.
háskólar, 1. umræða.
frv. KolH og SJS, 59. mál (jafnrétti til náms, skólagjöld). — Þskj. 59.

[14:59]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla, og er flutningsmaður ásamt mér hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Frumvarp þetta er ekki mikið að vöxtum en það varðar réttlæti háskólanema. Það gengur út á það að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum verði óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla, og þar með án skólagjalda.

2. gr. í frumvarpinu er lagatæknilegs eðlis og 3. gr. varðar gildistöku en í greinargerð kemur fram að frumvarpið hafi verið lagt fram á síðasta löggjafarþingi og hafi ekki orðið útrætt. Því er það endurflutt óbreytt.

Forsaga þessa máls er sú að á síðasta löggjafarþingi fóru í gegn lög um afnám laga um Tækniháskóla Íslands sem gengu út á það að Tækniháskóla Íslands var í raun og veru breytt í einkahlutafélag með Háskóla Reykjavíkur. Samruni þessara tveggja skóla kallaði á afar mikla umræðu í þingsölum um sjálfsögð réttlætismál sem tengjast skólagjöldum. Ástæðan var sú að ákveðin námsbraut Tækniháskóla Íslands fyrrverandi var með breytingunni lokuð inni í einkahlutafélagi sem krefst skólagjalda af nemum sínum. Tæknifræðin, sú námsgrein sem um ræðir, er ekki kennd í öðrum háskólum án skólagjalda svoleiðis að þar með lítum við, flutningsmenn þessa frumvarps, svo til að þar með séu þeim sem vilja leggja stund á þessa ákveðnu námsgrein lokaðar leiðirnar nema þeir telji sér fært að greiða þau skólagjöld sem upp eru sett í viðkomandi stofnun.

Frú forseti. Háskólinn í Reykjavík sem Tækniháskólinn heyrir nú undir innheimtir á þessu skólaári um 200 þús. kr. í skólagjöld af nemum sínum í fullu námi. Það stendur til að hækka það um 20 þús. kr. á næsta ári, þ.e. þá verða það 220 þús. kr. sem hver nemi greiðir. Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum þetta allsendis óásættanlegt. Til að tryggja jafnrétti til náms teljum við að ævinlega verði að vera í boði allar námsgreinar sem kenndar eru hér á landi án þess að fólk sé knúið til að greiða skólagjöld fyrir þær.

Æ fleiri atvinnugreinar gera kröfur um háskólapróf. Sívaxandi hluti hvers kyns náms hérlendis er á háskólastigi og það bendir allt til að sú þróun haldi áfram og að með tímanum verði háskólanám af einhverju tagi lokaáfangi í allri almennri menntun ef að líkum lætur. Af þessu leiðir að menntun verður stöðugt mikilvægari sem lykill að fjölbreyttum atvinnutækifærum og að sama skapi enn þýðingarmeiri fyrir atvinnulíf og samfélag. Jafnrétti til náms er því að mati okkar sem flytjum þessa tillögu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, lykillinn að jöfnum tækifærum.

Skólagjöld eru í eðli sínu andstæð þessari jafnréttishugsjón okkar. Sé litið á þær námsleiðir sem nú eru í boði á háskólastigi hérlendis er ljóst að þó nokkuð vantar upp á jafnrétti í þessu tilliti. Tilefni frumvarpsins er einkum sú ákvörðun menntamálayfirvalda að leggja Tækniháskóla Íslands niður og færa stærstan hluta þess náms sem þar er í boði undir einkahlutafélag sem leggur skólagjöld á nemendur. Með þessari breytingu verði jafnrétti til náms í tæknigreinum á Íslandi skert verulega að okkar mati.

Sömuleiðis er getið um það í greinargerðinni að Listaháskóli Íslands sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins innheimti skólagjöld en á yfirstandandi skólaári nema þau tæpum 200 þús. kr. á ári fyrir 3–4 ára nám í tónlist, myndlist, leiklist, hönnun og arkitektúr sem ýmist lýkur með BA- eða BFA-gráðu. Þess vegna má gera ráð fyrir því, eins og segir í greinargerð, að hver nemandi í Listaháskóla Íslands verði að reiða fram milli 600 og 800 þús. kr. í skólagjöld fyrir háskólagráðu sína. Við getum þess að rétt sé að hafa einnig til hliðsjónar við meðferð alls þessa máls að þá þurfi að athuga hvort endurskoðun þessa þáttar í lögunum um háskóla sé réttlætanleg eða eigi að fara fram svo að það sama gildi um alla opinbera háskóla í þessum efnum.

Við flutningsmenn teljum afar brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að rýra möguleika háskólanema eða stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er sem sagt að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms og teljum við þetta samrýmast menntastefnu þeirri sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur nýverið endurnýjað og var samþykkt endurnýjuð á síðasta landsfundi flokksins.

Að öðru leyti vísa ég varðandi þetta mál til þeirra athugasemda sem ég gerði á síðasta ári þegar við fjölluðum um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Þau sjónarmið má kynna sér í nefndaráliti 2. minni hluta menntamálanefndar sem ég ritaði undir og er að finna á þskj. 796 frá síðasta löggjafarþingi.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar til umfjöllunar.



[15:05]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 136/1997. Það er auðvitað hið besta mál að taka til gaumgæfilegrar athugunar að sjálfseignarstofnun á háskólastigi og einkareknum háskólum sé óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla. Hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, Kolbrún Halldórsdóttir, fór einmitt vel yfir það hvaða staða varð í raun og veru til þess að þetta frumvarp er lagt fram.

Það er alveg deginum ljósara að skólagjöld eru í eðli sínu andstæð þeirri jafnréttishugsjón sem við höfum haft að leiðarljósi í menntamálum þjóðarinnar. Nú hafa einkareknu skólarnir forskot á ríkisreknu skólana með því að innheimta skólagjöld af nemendum sínum en fá auk þess tekjur frá ríkinu til jafns við þær tekjur sem ríkisreknu skólarnir fá. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál og hefur verið rætt mjög mikið á þingi. Grunnurinn að því er að háskólanám á Íslandi er í fjársvelti. Hæstv. menntamálaráðherra talar oft um að framlög til háskólanáms og menntunar hafi aukist mjög mikið á síðustu árum og í tíð þessarar ríkisstjórnar en gleymir hins vegar að segja frá því að háskólanemum hefur fjölgað miklu meira þannig að framlög á hvern nemanda hafa í raun og veru minnkað.

Dæmi um þetta er Háskólinn á Akureyri. Þaðan hafa jafnvel heyrst raddir um það að þau sjái sig knúin til að fara fram á það að innheimta skólagjöld sem væri auðvitað mjög alvarlegur hlutur. Það er verið að svelta háskólana til þess að gera kröfur um að fá að taka skólagjöld af nemendum sínum. Nú þegar eru tekin eins konar skólagjöld af nemendum með innritunargjöldum sem eru óeðlilega há sé talað um kostnað við að innrita nemendurna. Þetta eru í raun dulbúin skólagjöld þó að þau séu ekki neitt í námunda við það sem skólagjöld yrðu ef þeim yrði komið á í ríkisskólum. Nemendum fjölgar en framlög til háskólanna aukast ekki að sama skapi.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að t.d. í Listaháskólanum sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins þurfa nemendur að greiða umtalsverð skólagjöld, tæplega 200 þús. á yfirstandandi skólaári, og það leiðir að því að nemandi þar þarf að punga út 600–800 þús. kr. fyrir BA-gráðu sína. Það er auðvitað stórfurðulegt.

Ef við viljum raunverulega jafnrétti til náms hlýtur það að vera krafa okkar að námið sé gjaldfrjálst, að allir eigi kost á því, að uppfylltum menntunarskilyrðum að sjálfsögðu, að mennta sig óháð fjárhag foreldra eða sínum eigin. Þetta ætti að vera algjörlega óumdeilanlegt. En þegar við bætist að jafnvel nám sem ekki er hægt að stunda í ríkisskólum er síðan í boði í einkaskólum og tekið gjald fyrir erum við komin á braut mismununar. Þess vegna legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt hið snarasta, að við förum að líta á menntamál sem grunnjafnréttismál og að við einbeitum okkur að því að styrkja háskólana í landinu og meta þann auð sem verið er að skapa í háskólunum fyrir allt þjóðfélagið. Það er eitthvað sem við ættum að líta til.



[15:11]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Það kemur auðvitað ekki á óvart að tveir hv. þingmenn Vinstri grænna skuli flytja frumvarp sem felur það í sér að þrengja að háskólastarfi undir því yfirskini að með því sé verið að jafna rétt manna. Oftast næst er það nú svo að þegar þrengt er að hlutum hefur það þveröfug áhrif við það sem lagt er til því að reglustikumenn og þeir sem vilja hafa allt í hendi sér og þykjast sjá hluti fyrir hafa einatt og raunar oftast rangt fyrir sér.

Í þessu frumvarpi er lagt til, með leyfi hæstv. forseta, að ný svohljóðandi málsgrein bætist við 3. gr. laga um háskóla:

„Sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla.“

Eins og ég skil þessa grein, hæstv. forseti, gengur jafnaðarhugsjón þessara hv. þingmanna svo langt að þau vilja frekar að ekki sé kostur á því að stunda ákveðið nám ef það hefur í för með sér að þeir sem leggja stund á námið þurfa að greiða nokkur skólagjöld. Þá vilja þeir fremur að námsgreinin sé ekki kennd. Þetta er auðvitað ótrúleg þröngsýni en út af fyrir sig er ágætt að frumvarp af þessu tagi komi fram til að skýra þann mun sem er á stefnu stjórnmálaflokka hér á landi og ég geri raunar ráð fyrir því að sá flokkur sem stendur næst Vinstri grænum í litrófi stjórnmálanna, Samfylkingin, muni vera á sömu skoðun. Þingmenn Samfylkingar hafa lýst mjög eindregið yfir andstöðu við skólagjöld á háskólastigi. Þó þori ég ekki að fullyrða um það en ég sé að hér er einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar staddur sem oft telur ekki eftir sér að stíga í ræðustól, hv. þm. Suðurnesja Jón Gunnarsson.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að rifja upp síðustu málsgrein greinargerðarinnar:

„Flutningsmenn telja brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms.“

Frumvarpið er ekki lagt þannig upp, heldur þannig að betra sé að námsgreinin sé ekki kennd heldur en að menn eigi kost á henni fyrir nokkur skólagjöld. Eins og greinin er orðuð blasir það bersýnilega við.

Ég sá að hv. þingmaður hristi höfuðið svo að kannski er ástæða til að endurtaka málsgreinina eins og hún liggur fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla.“

Þetta felur í sér að það á að reyna að hamla gegn því að sjálfseignarstofnanir og einkareknir skólar geti tekið upp nám í greinum sem ekki eru kenndar í ríkisskólum.



[15:15]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal misskilur eitthvað þetta frumvarp en eins og hann las upp hér þá er það alls ekki markmið frumvarpsins að þrengja að háskólastarfi á nokkurn hátt. Ég leyfi mér að minna hv. þingmann á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur einmitt lagt fram tillögur á þinginu um aukin framlög til háskólanna, t.d. Háskólans á Akureyri, en þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað fellt þær. Síðast í morgun mótmæltu nemendur við Háskólann á Akureyri sinnuleysi stjórnvalda, ríkisstjórnarflokkanna sérstaklega, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og áhugaleysi bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri sem svo illa vill til að einmitt er skipaður sömu flokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Við höfum hins vegar ekki legið á liði okkar við að benda á mikilvægi háskólanáms og að það beri að efla og þetta frumvarp hamlar auðvitað alls ekki gegn því. Það bendir bara á að ekki á að innheimta skólagjöld af námi sem ekki er í boði hjá ríkisreknum skólum. Ríkisreknu skólarnir eða einkaskólarnir eiga að taka þetta nám upp en þurfa hins vegar ekki að taka fyrir það skólagjöld. Í því felst að ríkisvaldið þarf að leggja aðeins meira á sig, veita aðeins meiri framlög til háskólamenntunar í landinu til að allir geti stundað nám á jafnréttisgrundvelli.



[15:18]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og glöggt kom fram í niðurlagi andsvars hv. þingmanns felur þetta frumvarp í sér hömlur við því eða vinnur gegn því að sjálfseignarstofnunum sé gert kleift að efna til nýrra námsgreina með skólagjöldum. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er að í sjálfseignarstofnunum verði ekki hægt að bjóða upp á háskólamenntun með skólagjöldum nema viðkomandi námsgreinar séu kenndar í ríkisskólunum. Með þessu er auðvitað verið að torvelda háskólastarf, torvelda háskólamenntun og þarf ekki að fjölyrða um það.

Hitt þykir mér hálfbroslegt þegar hv. þingmenn Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar brigsla mér um það að ég hafi ekki viljað styðja háskólanám á Akureyri og ég vil … (ÖS: Þú vildir það.) Það er hægt að yfirbjóða alla, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þér er það að vísu ekki jafnlagið og þeim sem hóf þessa umræðu. Auðvitað er alltaf hægt að yfirbjóða menn en ég get fullvissað hv. þingmann um það að vel verður séð fyrir því að Háskólinn á Akureyri geti unnið á heilbrigðum grundvelli.



[15:19]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal er mikill stuðningsmaður Háskólans á Akureyri, og það er vel — það væri betra ef fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins styddu jafndyggilega við bakið á Háskólanum á Akureyri — en að vísu ekki á ögurstundu þegar greidd voru atkvæði í þinginu t.d. til fjáraukalaga, þá veit ég ekki betur en hv. þingmaður hafi greitt atkvæði gegn tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aukin framlög til Háskólans á Akureyri nema hann hafi kannski verið fjarverandi eða setið hjá. Ég veit það ekki, ég hef ekki farið nákvæmlega ofan í þá atkvæðagreiðslu, en ég veit fyrir víst að hv. þm. Halldór Blöndal studdi hana ekki, því miður.

Hér segir í greinargerð, og er best að ég lesi þetta aftur:

„Flutningsmenn telja brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms.“

Nemendur hugsa sig tvisvar eða jafnvel þrisvar um ef þeir þurfa að fara í nám þar sem há skólagjöld eru tekin. Ég hélt að ég og hv. þm. Halldór Blöndal gætum orðið sammála um að það sé frekar augljóst að nemendur fara frekar í nám þar sem þeir þurfa ekki að punga út háum upphæðum í skólagjöld fyrir námið en þar sem þeir þurfa að gera það.



[15:21]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sá þáttur í ræðu hv. þingmanns sem varðaði þetta frumvarp var endurtekning á því sem áður var sagt, að fyrir hv. þingmanni vakir að setja hömlur við því að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytt nám ef það kostar það að viðkomandi þurfi að greiða skólagjöld. Þarna erum við á öndverðum meiði og er ekkert við því að segja.

Hitt atriðið, að stjórnarandstaðan komi með útgjaldatillögur við fjárlög, er ekkert óvenjulegt. Stjórnarandstaðan velur sér eitt og annað hverju sinni. Stundum þykir stjórnarandstöðunni rétt að flytja enga útgjaldatillögu til að lýsa andstyggð sinni á stefnu ríkisstjórnar. Stundum er allt löðrandi í tillögum um aukin útgjöld. Þannig lá á Vinstri grænum við afgreiðslu síðustu fjárlaga að þeim þótti rétt að leggja til aukin útgjöld. Það var þeirra pólitíska mat að það væri rétt. Má vera að þeir uni vel við sinn hlut og þyki sem þeir hafi staðið sig vel (Gripið fram í.) en auðvitað getur það ekki gengið að einhverjir dyntir ráði því hvernig menn afgreiða fjárlög. Þetta veit hv. þingmaður eins og ég.

Hitt er rétt sem hv. þingmaður segir að það verður auðvitað að tryggja það að Háskólinn á Akureyri hafi eðlilegan rekstrargrundvöll.



[15:23]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla í örstuttu máli að taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál. Tillagan sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram er allrar athygli verð og tilgangurinn er ákaflega góður. Hann er sá að allir eigi jafnan kost á háskólanámi hér á landi. Ég er í grundvallaratriðum sammála því að reyna eigi að gefa fólki kost á að verða sér úti um mikla menntun. Ég hef áður lýst þeirri skoðun í þessum sal að ég tel að eitt af því sem auðgi íslenskt samfélag sé sú staðreynd að Íslendingar sækja mjög til þekkingarbrunna í öðrum heimsálfum og af því að við erum á mörkum heimsálfa þá er það þannig að hér er oft suðupottur nýrra hugmynda, bæði að vestan og austan. Þetta er mjög jákvætt.

Ég hef velt mikið fyrir mér skólagjöldum og ég er í grundvallaratriðum mjög óhress með skólagjöld. Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að efla og treysta ríkisháskólana eins og hægt er, sérstaklega í þeirri samkeppni sem þeir standa núna í. Auðvitað eru nýju háskólarnir að byggja sig upp og hafa af þeim sökum fengið góðan stuðning hjá ríkinu og ég sýti það ekki. Margir þeirra eru að gera góða hluti. Ég hef líka sagt að ef verið er að styðja slíka skóla eigi ekki bara að gera það sökum kennslunnar sem þeir inna af höndum heldur líka rannsóknanna. Enginn háskóli stendur undir nafninu akademía nema hann sinni líka rannsóknum.

Þá er komið að þeim vanda hvernig hægt sé að sætta tilvist Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Kennaraháskólans og annarra háskóla hins opinbera andspænis háskólum sem ég vil ekki kalla einkarekna heldur sjálfseignarháskóla. Ég er þeirrar skoðunar að það nám sem menn eiga þar kost á auki val námsmannsins. Þá er spurning hvort sú staðreynd að þar eru háskólagjöld komi í veg fyrir að menn geti notfært sér þetta val og í sumum tilvikum er það efalaust svo.

Ég hef þess vegna, svo ég reyni að reifa hugmyndir mínar í mjög stuttu máli og vonandi kjarnyrtu, komist á þá skoðun að bjóða eigi upp á ókeypis nám við opinberu háskólana þannig að menn eigi kost á því að ljúka þar ekki bara grunnnámi heldur líka framhaldsrannsóknarnámi. Ég var einu sinni þeirrar skoðunar að hugsanlega væri hægt að gera málamiðlun um að slíkt nám greiddi skólagjöld en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi ekki fundið rökræna brú í því. Ég tel hins vegar að ekki eigi að leggja stein í götu þeirra skóla sem á annað borð vilja bjóða upp á slíkt sérnám með skólagjöldum. Ég tel aftur á móti að ekki sé hægt að gera það með öðrum hætti en að líka verði komið upp styrkjakerfi sem er þannig að ýmsir sem vilja sækja þá skóla án þess hugsanlega að eiga sömu von og allir aðrir sem í þá sækja að geta greitt há námslán aftur til baka, eigi að njóta slíkra styrkja. Ég er t.d. að hugsa um þá staðreynd að háskólamenntað fólk sem er að einhverju leyti fatlað býr við fimm sinnum hærra atvinnuleysi en aðrir akademískir borgarar. Slíkt fólk getur ekki vænst þess að greiða til baka skólagjöld og námslán með sama hætti og aðrir og ég tel að það eigi að setja upp einhvers konar styrkjakerfi fyrir það og sömuleiðis fyrir unga, einstæða foreldra sem eru með töluverða ómegð og geta hugsanlega ekki heldur vænst þess að geta greitt slíkt niður.

Í grundvallaratriðum er ég þeirrar skoðunar að það eigi ekki að tálma vöxt þessara skóla í þessa veru þó ég sé reiðubúinn til að rökræða það og skoða það. Þetta er skoðun mín og niðurstaða mín eftir að hafa skoðað þetta töluvert vel.

Ég held að það skipti máli að menn hafi valfrelsi. Grundvallartilgangurinn með tillögu þeirra ágætu þingmanna sem hér mæltu fyrir þingflokk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að fjárhagsaðstæður stýri ekki valinu eða komi í veg fyrir að menn geti notfært sér þetta nám. Ég held að þessar aðferðir, þar sem ákveðnum hópum sé gert að njóta þessa vals ef þeir vilja með því að styrkja þá sérstaklega til þess, sé hugsanlega leið til að sætta þessi sjónarmið.

Ég vil líka draga fram að ég er þeirrar skoðunar að ókeypis menntun eigi að vera í boði af hálfu íslenska ríkisins, alveg frá leikskóla og til loka æðstu námsgráðu, þ.e. að þeir sem ljúka doktorsnámi á Íslandi eigi ekki að þurfa að greiða fyrir framhaldsnámið og það get ég rökstutt með öðrum rökum. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir framvindu atvinnulífs eins og því er hagað að þekkingin sem verður til í því námi skili sér sem best inn í samfélagið. Það er hagur okkar að halda þessu fólki í landinu þannig að sú þekking sem það býr yfir komi strax til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf en erlendar þjóðir hafi ekki forskot á hæfni þess. Það er reynsla mín, eftir að hafa sjálfir farið í gegnum slíkt nám og unnið við sama bekk og borð og mörg ágæt doktorsefni, að það er á þessu skeiði ævinnar sem vísindamaðurinn býr oft til þær hugmyndir sem hann er að vinna úr alla sína ævi. Það eru aukin rök fyrir því að framhaldsnám ríkisháskóla verði jafnan ókeypis.



[15:29]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli gefa hér þá yfirlýsingu sem hann gerði að hann væri orðinn þeirrar skoðunar, og ég ímynda mér að það sé sameiginlegt sjónarmið Samfylkingarinnar, að það eigi ekki að innheimta skólagjöld í mastersnámi í Háskóla Íslands. Mér finnst það afar mikið fagnaðarefni.

Ég tek líka undir með hv. þingmanni varðandi fjölbreytnina í námi. Ég hef alltaf fagnað hverju einasta nýja tækifæri sem íslenskir háskólastúdentar hafa til fjölbreytni í námi. Ég er alveg sátt við að það séu sjálfseignarstofnanir eða einkaskólar sem hafi tækifæri til að vera í flórunni ásamt með Háskóla Íslands. Ég er hins vegar algerlega sannfærð um að Háskóli Íslands á að vera þjóðskóli. Hann á að vera fyrir alla og allir þeir sem vilja stunda háskólanám eiga að geta haft þar mikið val um nám sem ekki krefst skólagjalda. Mér finnst ósanngjarnt að ákveðnar greinar geti verið lokaðar inni í sjálfseignarstofnunum og einkaskólum þannig að einstaklingar sem vilja læra án þess að greiða skólagjöld af því að þeir vilja ekki fara út í stórskuldir og taka há námslán eigi þess kost að læra allar helstu greinar án þess að þurfa að greiða fyrir það skólagjöld. Ég tel að tæknigreinarnar sem lokaðar voru inni í Háskólanum í Reykjavík í fyrra , þegar lögunum var breytt og lögin um Tækniháskóla Íslands voru afnumin, eigi að standa til boða þeim stúdentum sem þær vilja læra án skólagjalda. Það er ekki svo í dag. Það er kveikjan að þessu frumvarpi.



[15:31]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég fór í nám á sínum tíma erlendis var það vegna þess að ekki var nokkur kostur á því að læra það hér heima til lokagráðu. Það var tiltölulega lítið, sérhæft svið fiskilífeðlisfræði. Ég held að ég mundi aldrei gera þá kröfu til þess að það væri hægt í sjálfu sér að bjóða upp á sjálfstæða námsbraut í því innan Háskóla Íslands. Þó er það ekki útilokað með ákveðnum þverfaglegum tilfæringum. En ég tel að mitt mesta happ í lífinu hafi verið að vera í fjögur ár við bresku hafrannsóknastofnunina í öllum þeim kraumandi potti alþjóðlegra hugmynda. Þar voru doktorsefni frá öllum heiminum, einn á hverri deild, ungir og færir vísindamenn sem sannarlega voru að gera frábæra hluti. Ég held að ekkert hafi gefið mér jafnmikla ögun í hugsun og fimi í að komast að niðurstöðu og það.

Það er einmitt hæfileiki minn — ef hann er þá fyrir hendi — til þess að hugsa sjálfstætt sem gerir það að verkum að ég hef breytt sjálfur um afstöðu til skólagjalda á mastersnám og doktorsnám á Íslandi. Ég var þeirrar skoðunar áður að það væri hægt að verja það og rökstyðja. En ég hef hugsað það eftir tveim mismunandi leiðum og komist að þeirri niðurstöðu — og ég lýsti annarri hér í lokum ræðu minnar — komist að því að svo er sennilega ekki.

Með sama hætti verð ég líka að viðurkenna að þeir fordómar sem blunduðu í brjósti mér gagnvart sjálfstæðu háskólunum í upphafi hafa dálítið horfið. Ég get ekki annað en sagt að ég er ánægður og hrifinn af þróttinum sem er að finna í þeim og ég er glaður yfir metnaðinum sem þar er. Ég hélt fyrst að þetta ættu að vera svona stuttar námsbrautir, að þetta ætti að vera súpergaggó. Þetta eru að verða alvöru rannsóknarstofnanir sem leggja af mörkum mjög merkilegt framlag og gera öðruvísi kröfur.

En ég vil að það sé gert vel við ríkisháskólann. Hugsanlega er þá rétt að einbeita sér að sterkum, voldugum námsbrautum heldur en að dreifa því á margar smærri, (Forseti hringir.) eins og fiskilífeðlisfræði.



[15:33]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa að hv. þingmaður hafi haft verulega gott af því að fara til útlanda að læra sína fiskilífeðlisfræði. Ótal margir stúdentar og doktorsnemar geta sagt nákvæmlega það sama og tekið undir með hv. þingmanni. Ég held ekki að við getum nokkru sinni boðið upp á allar námsbrautir hugsanlegar í veröldinni á Íslandi. Ég er ekki haldin þeirri grillu, sannarlega ekki.

Hins vegar tel ég að tæknifræðin, sem var lokuð inni í einkaskólanum, Háskólanum í Reykjavík, í fyrra sé þannig grein að hún eigi að standa þeim til boða sem kjósa að læra í þjóðskóla, sem kjósa að læra án þess að þurfa að greiða fyrir það 220 þús. kr. á ári í skólagjöld. Við erum því aðeins kannski að tala um ólíka núansa.

Ég tel að þróttur og metnaður þessara sjálfstæðu skóla sé nauðsynlegur inn í okkar háskólaflóru. En ég er líka jafnsannfærð um að ríkisstjórnin og ríkisvaldið eigi að standa (Forseti hringir.) af miklu alefli vörð um jafnrétti til náms í okkar þjóðskóla.



[15:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er hugsanlega rétt sem hv. þingmaður sagði um tækniskólana. Það var sérstakt dæmi. Þegar ég skoðaði það á síðasta ári þegar þetta fór hér í gegn var ég nú ekki sammála því sem þar var að gerast og get alveg tekið undir með hv. þingmanni.

Hins vegar er þetta spurning um val. Menn fara í þessa skóla til þess að ávaxta sína talentu sem þeir eru fæddir með inni í sér og hugsanlega til þess í lífinu að fá meira út úr því, gæða það meira ríkidæmi og hugsanlega til þess að fá auknar tekjur.

En hv. þingmaður gæti nú hallað sér fram og spurt hv. þm. Söndru Franks að þessu því að hún hefur sjálf notfært sér þetta val og er eftir því sem ég best veit einmitt nemandi í einum af þessum skólum milli þess sem hún vinnur hér fyrir lítilmagnann á þingi.



[15:36]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér var ekki alveg ljóst hver var afstaða hv. þingmanns til þessa frumvarps sem hér liggur fyrir. Á hinn bóginn kom fram í ræðu hans að hann telur að við opinbera háskóla eigi að bjóða upp á ókeypis nám, hvort sem það er mastersnám eða doktorsnám eða hverju nafni sem nefnist. En hv. þingmaður áttaði sig á því um leið og hann sagði það að þetta mundi auðvitað hafa það í för með sér að draga yrði úr slíku námsframboði í hinum ríkisrekna háskóla og þess vegna bætti hann við að auðvitað yrðu námsbrautirnar fáar, voldugar en fáar, í hinum ríkisrekna háskóla sem þýðir að hann hugsar sér að ríkisreknu háskólarnir bjóði upp á mjög fábreytilegt nám miðað við alla flóruna sem háskólanám yfirleitt býður upp á, en einkaskólarnir skuli þá annast það sem sértækara er og þá standa undir því með skólagjöldum að sínu leyti.

Þetta er athyglisvert. Eins og ég skil hv. þingmann þá þýðir þetta með öðrum orðum að hann er sammála mér um að frumvarpið eins og það er lagt hér fram vinnur gegn því að menn geti aflað sér þeirrar háskólamenntunar hér á landi sem hugur þeirra stendur til ef sú háskólamenntun er á sértæku sviði eða fitjað er upp á einhverju nýju.



[15:38]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í lýðræðislegri umræðu er það þannig að menn koma fram með sterk sjónarmið og ræða þau, eins og við gerum hér, og komast að niðurstöðu. Hv. þingmenn VG hafa mjög afdráttarlausa afstöðu í þessu máli. Mín er ekki jafnafdráttarlaus. Ég held að málflutningur þeirra verðskuldi það fyllilega að við skoðum rök þeirra og síðan kemst þingið að ákveðinni niðurstöðu.

Ég er sem sagt sammála því, frú forseti, að þessir nýju háskólar og þessar stundum sértæku námsbrautir þeirra auki val nemenda. Ég er yfirleitt þeirrar skoðunar að það sé betra. Ég er valfrelsi fylgjandi. Í hinum besta heimi allra heima mundi ég gjarnan vilja sjá að ríkið styrkti fólk sem nemur skólagjöldunum. En ég veit að það er ekki hægt. Að hluta til gerir það það með námslánunum vegna þess að eins og þau eru uppbyggð er hluti þeirra styrkur. (GÞÞ: Helmingurinn.) „Helmingurinn,“ kallar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fram í og það er náttúrlega biti sem rífur í.

Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sem er mitt viðhorf, ókeypis skóli til loka æðstu námsgráðu, dragi endilega úr framboði á námsbrautum vegna þess að doktorsgráður eru oft þverfaglegar, skera á margar deildir og greinar og það er hægt að fjölga mjög doktorum án þess að auka við námsbrautir. Ég dreg hins vegar í efa að hægt væri að fjölga námsbrautum til magistersgráðu nema með auknu framlagi ríkisins.

Grundvallarviðhorf mitt er sem sagt þetta: Ókeypis skóli frá leikskóla til loka æðstu gráðu og val ef menn vilja í öðrum skólum. En þá verður ríkið að koma með góð námslán og það verður líka að setja upp styrkjakerfi fyrir þá sem ekki, undir fáum kringumstæðum, gætu notfært sér þetta val. Það eru þeir hópar sem ég lýsti hér áðan.



[15:40]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Niðurstaðan er á nýjan leik sú, eftir að hafa hlustað á hv. þingmann, að hann sé sömu skoðunar og ég um að skólagjöld á háskólastigi hafi ýtt undir það að flóran hefur orðið meiri en ella og að nýir og sterkir skólar á háskólastigi hafi orðið til, eins og skólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík. Það er svo auðvitað er röksemd gegn því að frumvarp eins og það sem hér liggur fyrir sé samþykkt.



[15:41]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um ákaflega margt, t.d. friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, eins og komið hefur fram í þessum sal. En hv. þingmaður getur ekki endilega beitt þessari röksemdafærslu til þess að búa til fylgi mitt við skólagjöld. Ef hv. þingmaður væri ekki háttvirtur heldur hæstvirtur og sæti í ríkisstjórn og færi t.d. með menntamál hefði hann vafalítið getað beitt sér fyrir því að þessir skólar hefðu byggst upp með jafnöflugum hætti með stærra framlagi af hálfu ríkisins gegn því að dregið væri úr skólagjöldum.

Hv. þingmaður talar hér sjálfur þannig að skólagjöld séu ill nauðsyn. Ég tel að hægt sé að fallast þarna á ákveðna línu sem ég hef reynt að draga í ræðum mínum. En það er með þeim skilyrðum sem ég sagði hér áðan, að það verða að vera drjúg námslán og sterkir styrkir fyrir þá sem af fjárhagslegum ástæðum geta ekki notfært sé þetta valfrelsi. En ég tel að valfrelsið hafi auðgað skólaflóruna.



[15:42]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög ánægjulegt að hlýða á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og heyra að við erum sammála um að nám frá leikskóla upp í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla eigi að vera gjaldfrjálst. Það finnst mér afar jákvætt að heyra frá hv. þingmanni, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar.

Ég get líka verið honum sammála um að það er mjög mikilvægt að við leitum okkur þekkingar utan landsteinanna. Hins vegar lendir maður í dálítið einkennilegri stöðu, t.d. ef stundað er myndlistarnám, eins og ég gerði, að þurfa að borga skólagjöld í skólanum hér á Íslandi. Síðan fór ég til Þýskalands í framhaldsnám, í mastersnám, og þar voru engin skólagjöld og algjörlega gjaldfrjáls skóli. Hið sama gildir í mörgum tilfellum fyrir vestan okkur í Kanada eða á Norðurlöndunum og þetta finnst mér vera mjög jákvætt.

Nú er það auðvitað þannig að námsmenn eru líka hvattir til að fara til náms í löndum þar sem himinhá skólagjöld eru tekin, t.d. í Bretlandi. Þá höfum við sem betur fer Lánasjóð íslenskra námsmanna sem hleypur undir bagga. Reyndar er það nú svo að lánin sem Lánasjóðurinn veitir eru oft ekki bara lán vegna þess að maður greiðir þau til baka sem hlutfall af tekjum. Myndlistarmenn t.d. hafa yfirleitt ekki það háar tekjur að þeir geti borgað námslánin upp þannig að þau koma þá út í raun og veru sem styrkir.



[15:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg kunnugt um það hvernig gjöld eru innheimt af nemendum í þeim löndum sem hv. þingmaður nefnir. En auðvitað trúi ég því. Því var öðruvísi háttað þar sem ég var í námi. Þar voru mjög há skólagjöld. Reyndar varð breyting gjör á meðan á mínu námi stóð þar. Ég var svo heppinn að ég naut stuðnings þannig að bresk stjórnvöld greiddu fyrir menntun mína. Ég var sem sagt hér á fyrstu árum mínum af ýmsum skoðanabræðrum hv. þingmanns kallaður „One of Maggie´s boys“ frá því að Margrét Thatcher greiddi fyrir menntun mína í Bretlandi í fjögur ár.

Vandamálið sem hv. þingmaður nefnir er raunverulegt. Það er þetta: Margir sækja sér menntun í greinum sem eru ólíklegar til þess að skila viðkomandi það miklum tekjum að þeir geti staðið undir miklum greiðslum af háum lánum. Ég hef þess vegna oft og tíðum reifað hugmynd — hana er reyndar að finna með öðrum hætti í frumvarpi sem hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson og aðrir úr Samfylkingunni hafa lagt fram — þar sem gert er ráð fyrir að ákveðnar greinar séu styrkhæfari en aðrar, þ.e. að þeir sem ekki leggja í nám sem er líklegt til mjög mikilla tekna að því loknu eigi kost á slíkum stuðningi. Það er mjög nauðsynlegt bara fyrir grósku mannlífsins og fjölbreytni mannlífsins að mönnum sé líka haldið til verka í þeim greinum.

Ég nefni t.d. íslenskudeild við Háskóla Íslands sem hefur á síðasta einum og hálfa áratug drabbast niður vegna áhugaleysis stjórnvalda. Kennarar voru þar 15. Þeir eru 11 núna. Ég hef t.d. sagt að til þess að laða menn að þeim eldi menningararfleifðarinnar þá eigi að styrkja þá. Þetta er ekkert annað en það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mundi kalla lögmál framboðs og eftirspurnar.



[15:46]
Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mergurinn málsins. Ég held að við verðum að auka fjölbreytni náms, ekki bara með því að styrkja nemendur heldur einnig með því að styrkja skólana með almennilegum framlögum til að þeir geti boðið upp á fjölbreytt og víðsýnt nám í sem flestum greinum.

Hv. þm. Halldór Blöndal hélt því fram áðan að þetta frumvarp mundi þrengja kost okkar eða útiloka jafnvel einhverjar greinar. Ég held þvert á móti að ef við förum í það samhliða að styrkja nemendur eða ákveðnar greinar þá yrði það til bóta. Það eru t.d. greinar í Háskóla Íslands sem eru sennilega ekki mjög arðbærar, t.d. fornleifafræði sem samt er vert að leggja áherslu á. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefnir réttilega íslenskudeildina í þessum efnum, að það mætti styrkja þessar greinar mun betur. Þannig held ég að við fáum fjölbreytt (Forseti hringir.) háskólanám á Íslandi.