132. löggjafarþing — 72. fundur
 22. feb. 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:01]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í ljósi þeirra hræringa sem nú eiga sér stað í fjármála- og efnahagskerfinu en sem kunnugt er hefur krónan fallið um 9% og hlutabréf lækkað mikið í viðskiptum í Kauphöll Íslands, bæði í gær og í morgun. Þetta gerist í kjölfar þess að alþjóðamatsfyrirtækið Fitch Ratings sendi frá sér alvarlega viðvörun um efnahagsstjórn á Íslandi og jafnframt þau skilaboð að breyting kunni að verða á lánshæfismati ríkissjóðs Íslands verði ekki breyting á.

Í fjölmiðlum í gær kom einnig fram gagnrýni af hálfu Seðlabanka Íslands þar sem bent var á að þetta hljóti að verða stjórnvöldum og þeim sem stýra efnahagslífinu alvarleg áminning. Um nokkurra missira skeið hafa ýmis teikn um hættuástand hrannast upp, nokkuð sem Seðlabankinn hefur lýst sem ógnarjafnvægi í íslensku efnahagslífi, og við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum margoft varað við viðvarandi viðskiptahalla, þenslu sem hefur verið handstýrð af hálfu ríkisstjórnarinnar, sem aftur hefur leitt til hávaxtastefnu, mikils vaxtamunar við útlönd og þar af leiðandi erfiðrar samkeppnisstöðu útflutningsgreina.

Auðvitað hlaut að koma að því fyrr eða síðar að gengi krónunnar aðlagaðist framleiðslugetu íslensks efnahagslífs. Enn á eftir að koma í ljós hvert framhaldið verður nú og vonandi verða engar snöggar breytingar, enda í samræmi við óskir okkar, og nokkuð sem við höfum talað fyrir í tvö ár, að gripið verði til víðtækra ráðstafana til varnar íslensku atvinnulífi svo hræringar í fjármálalífinu og þar af leiðandi atvinnulífinu öllu verði án kollsteypu.

Það er slæmt að geta ekki átt orðastað við hæstv. forsætisráðherra um þetta efni en hann mun hafa haldið utan til Lundúna í morgun, bæði til fundahalda og til að fylgjast þar með knattspyrnuleik í kvöld.

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á því að fyrir Alþingi liggur þingmál frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þar sem settar eru fram tillögur, sniðnar að því að beina íslensku fjármála- og efnahagslífi (Forseti hringir.) inn á öruggari mið en við erum á nú.



[12:03]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það eru vissulega athyglisverðar athugasemdir sem koma fram í matsskýrslu Fitch-fyrirtækisins sem birt var í gær. Að sumu leyti koma þær á óvart og að öðru leyti ekki. Þær komu á óvart vegna þess að það eru aðeins þrjár vikur síðan að Moody's-matsfyrirtækið staðfesti lánshæfismatið með stöðugum horfum. Þær koma síðan hins vegar ekki á óvart vegna þeirrar umræðu sem verið hefur undanfarin missiri um mikla útlánaaukningu og auknar lántökur hjá bönkunum samfara skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga og viðskiptahallanum.

Vissulega er um að ræða gagnrýni á ríkisfjármálin í þessari skýrslu. Það má segja að sú gagnrýni sé tvenns konar, annars vegar á skattalækkanir ríkisstjórnarinnar, og athyglisvert að Fitch skuli staðfesta að um sé að ræða skattalækkanir og að þær hafi áhrif í hagkerfinu, og hins vegar gagnrýni á það að ríkisstjórnin skuli hvorki með beinum né óbeinum hætti leitast nægjanlega við að hafa áhrif á markaðinn, áhrif á þensluna og ákvarðanir í viðskiptalífinu. Það er vegna þess, eins og þar kemur fram, að ríkisstjórnin hefur talið að viðskiptalífið og markaðurinn hafi kraft og getu og vilja til að bregðast við aðstæðum sem þessum.

Þau atriði sem þarna eru gagnrýnd eru að segja má grundvallaratriði í þeim árangri sem höfum náð í efnahagslífinu að undanförnu, þ.e. skattalækkanir og aukið frjálsræði í viðskiptalífinu. Það er auðvitað vandi að snúa frá því nú þegar við nálgumst toppinn í hagsveiflunni og eigum frekar von á lægri hagvexti á næsta ári en nú hefur verið.



[12:05]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það má sannarlega segja að hæstv. ríkisstjórn hafi fengið alvarlega áminningu með þessu mati frá Fitch. Það má eiginlega segja að ríkisstjórnin hafi fengið gula spjaldið.

Þetta er alvarleg áminning til okkar Íslendinga. Öllum sérfræðingum ber saman um, þar á meðal hjá Fitch, að ríkið hafi ekki tekið nægilega mikið á í þessum málum og sett allt sitt traust og trúss á peningamálastefnu Seðlabankans. Þess vegna er rétt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessari áminningu eða hvort það eigi bara að loka augunum. Leiðir þetta til einhverra breytinga á efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar? Til dæmis hefur komið fram síðustu daga, og það er kannski gott dæmi um hvað þetta sveiflast allt frá einum degi til annars, að hæstv. forsætisráðherra hefur flengst milli fjölmiðla í síðustu viku og upphafi þessarar og boðað að hér verði byggð á næstu 6–8 eða kannski 10 árum 2–3 og jafnvel 4 álver. Í fréttum í gær kveður hins vegar við allt annan tón hjá hæstv. forsætisráðherra. Hvaða skilaboð er verið að senda til markaðarins með þessum misvísandi upplýsingum hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar? Hvað er hér á ferðinni? Auðvitað skiptir svona lagað máli og hefur áhrif á þennan viðkvæma markað.

Vonandi róast þetta, virðulegi forseti, og vonandi erum við það sterk efnahagslega að við stöndum þetta af okkur. En þetta er alvarlega áminning, eins og ég sagði, þetta er gula spjaldið. Ég ætti kannski að leyfa mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin hvort það sé kannski hjá þannig hjá Fitch að þeir kunni heldur ekki að reikna.



[12:07]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vara við því að tala mjög óvarlega þó að þessi spádómur frá Fitch-fyrirtækinu hafi komið. Við erum núna í toppi okkar efnahagssveiflu og auðvitað tekur það á. Lánshæfismat okkar hefur verið afar hátt um langan tíma og ég spái því að svo verði áfram. Við megum ekki oftúlka þessa spá, þetta er spá sem gerð er einmitt þegar við erum á toppi efnahagssveiflu okkar og þenslu og það hýtur að taka í.

Hvað er það sem spádómurinn segir, þetta ágæta fyrirtæki? Þeir spá því að svo kunni að fara að mat okkar verði neikvætt. Þeir spá því en eru ekki að leggja þann dóm á að svo sé í dag. Þetta hefur áður gerst, menn hafa áður spáð slíku á síðustu 10 árum en sá spádómur reyndist ekki vera réttur, við fengum hina svokölluðu frægu mjúku lendingu. Þá er líka hægt að vekja athygli á því að í efnahagslífi okkar núna njóta fyrirtækin góðs, m.a. fékk einn af bönkunum okkar hæsta mat, sambærilegt við það sem ríkissjóður fær. Við hljótum líka að velta fyrir okkur ástæðunum, af hverju er þetta ástand núna? Það eru margvíslegar ástæður og ekki rétt, eins og hér bar við, að taka eitthvert eitt dæmi. Eitt af því sem við hljótum að horfa á er hvernig við afgreiðum fjárlög með meiri afgangi en nokkru sinni. Sá þáttur ætti að vera í þokkalegu lagi. Við vitum hins vegar að neyslan er mikil, en stærsti hlutinn á væntanlega rætur að rekja til þess að erlendir fjárfestar fjárfesta í íslenskum bréfum og gera þar hugsanlega út á mikinn vaxtamun sem er hérlendis. Það skyldi þó ekki vera ástæða til þess einmitt fyrir Seðlabankann að skoða það að lækka þá vexti til að hinir erlendu fjárfestar (Forseti hringir.) geri ekki út á þennan vaxtamun (Forseti hringir.) sem er líklega stærsta ástæðan.



[12:09]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það var við því að búast að fram kæmu aðvörunarorð frá aðilum á markaði, eins og hér hefur gerst. Það er full ástæða fyrir ríkisstjórnina til að taka þau alvarlegar en viðvaranir frá innlendum stofnunum og frá stjórnarandstöðunni í efnahagsumræðunni undanfarið. Tal um hina mjúku lendingu, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason viðhafði og hæstv. forsætisráðherra gerði í gærkvöldi, er til vitnis um kæruleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hin mjúka lending 2001 var 9% verðbólga. Nærri 10% verðbólga. Hvergi í þróuðu ríki leyfði forsætisráðherra sér að lýsa því yfir að nærri 10% verðbólga væri mjúk lending. Nærri 10% verðbólga á einhverjum skuldsettustu heimilum í Evrópu er verulegt áfall og áhyggjuefni. Þess vegna þarf af yfirvegun en af mikilli alvöru að hlusta á ábendingar og athugasemdir um það sem betur má fara í efnahagsstjórninni. Við hljótum að fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur þegar brugðist við með því að lýsa því yfir að þrjú álver komi ekki til greina. Ég held að það sé mikilvægt að ríkisstjórnin taki af tvímæli um það hvort tvö ný álver komi til greina. Markaðurinn þarf augljóslega að vita hvort ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir hundrað og eitthvað milljarða nýjum fjárfestingum eða þrjú hundruð milljarða nýjum fjárfestingum hér fyrir forgöngu ríkisstjórnarinnar á næstu missirum. Auðvitað hefur það líka áhrif á það mikla þensluástand sem hér er.

Umfram allt er rétt að fjalla um þessar aðvaranir af aðgát og varfærni vegna þess að við vitum líka að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf er þróttmikið (Forseti hringir.) og burðugt ef ríkisstjórnin vinnur með því en ekki (Forseti hringir.) gegn því með að auka sífellt á þensluna og hella olíu á eldinn.



[12:12]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þær hræringar sem núna eru á fjármálamarkaðnum koma í sjálfu sér ekki á óvart, það sem við veltum frekar fyrir okkur er hvað gerist í framhaldinu.

Viðvörunarorð sem koma frá þessu erlenda matsfyrirtæki á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eru í sjálfu sér ekki ný. Þau eru nákvæmlega sömu viðvörunarorð og við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum verið með hér. Þau eru nákvæmlega sömu viðvörunarorð og atvinnulífið, ferðaþjónustan, fiskvinnslan, útgerðin, hátækniiðnaðurinn, allar útflutningsgreinarnar hafa verið með nákvæmlega sömu viðvörunarorð en ríkisstjórnin hefur keyrt á mjög harðri ríkisvæddri stóriðjustefnu.

Þegar talað er um ríkisafskiptin er ekki verið að benda á ríkisfjármálin, það er mesti misskilningur. Bent er á hin gríðarlegu ríkisafskipti sem fara nú fram í stóriðjunni, í virkjunarframkvæmdunum þar sem ríkisfyrirtækjum er beitt. Kallað er eftir stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum, breytingu sem felur það í sér að styrkja stöðu útflutningsgreinanna og jafnframt að hverfa af þessari ríkisvæddu stóriðjubraut. Jafnframt er það líka góð áminning, eins og hæstv. fjármálaráðherra minntist á, að skattalækkunarstefnan sem kemur alfarið hátekjufólkinu til góða er röng. Það er það sem verið er að gagnrýna og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra skilji gagnrýnina. Ég er ekki viss um að fyrirtækið sé að mæla með þeim hlutfallslegu skattahækkunum sem lægstu tekjurnar verða fyrir. Öll þessi atriði hafa verið nefnd áður en það er ástæða til að krefjast þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) skipti hér um og breyti stefnu.



[12:14]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hagstjórn ríkisstjórnarinnar fær slæma einkunn í því mati sem við erum að ræða hér, frá fyrirtækinu Fitch Ratings. Þetta nýja mat felur í sér ákveðinn áfellisdóm yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur í raun verið að leika sér að eldinum og tekið talsverða áhættu í hagstjórninni.

Í raun og veru þurfa þessi tíðindi ekki að koma okkur á óvart eða í opna skjöldu. Við höfum séð hættumörkin hvarvetna. Viðvarandi viðskiptahalli, sem fór í 15% á síðasta ári, er sá mesti frá því að mælingar hófust, stöðugur útlánavöxtur, gríðarleg aukning erlendra skulda, sem nú eru komnar yfir 400% af útflutningstekjum, meiri skuldsetning þjóðarbúsins en í nokkru öðru OECD-ríki, stöðugt hækkandi stýrivextir og hækkandi gengi krónunnar — allt er þetta órækur vitnisburður um verulega ofhitnun í hagkerfinu.

Við höfum bent á þetta, þingmenn Samfylkingarinnar, á Alþingi, hagfræðingar hafa bent á þetta, Seðlabankinn, forustumenn í verkalýðshreyfingunni en það er sama hvaðan það kemur, ríkisstjórnin hefur skellt skollaeyrum við þessu, firrt sig allri ábyrgð og vísað vandanum á Seðlabankann sem eigi að sjá um að laga þetta. Það sem er kannski verra er að um leið hefur hæstv. ríkisstjórn kynt undir með því að ala á ótímabærum væntingum um stórfelldar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Efnahagsstefnan hlýtur að snúast um að beita hagstjórnaraðgerðum í ríkisfjármálum en ekki síður að stjórna væntingum. Þegar þensla er í hagkerfinu skiptir máli að beita stjórntækjum ríkisins til að halda aftur af ónauðsynlegum fjárfestingum, örva sparnað og hvetja fólk og fyrirtæki til að fara sér hægt. Það hlýtur að vera mikilvægt nú, þegar þessi viðvörun hefur fengist, að ríkisstjórnin taki hana alvarlega, hún hlusti, sitji ekki kyrr eins og hún hefur gert undanfarið, heldur bregðist við og fari að taka á þessu vandamáli af ábyrgð og festu.



[12:16]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nokkuð lengi hafa verið blikur á lofti í efnahagsmálum. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála með sjálfan hæstv. forætisráðherra í fararbroddi sem er nú í öðrum verkum þessa dagana. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við tíðindunum? Það væri fróðlegt að fá að heyra. Hið eina sem hefur komið fram er að hæstv. forsætisráðherra talar um að taka á ríkisfjármálum á næsta ári en það virðist eins og að þetta sé ekki meira áhyggjuefni en svo að það eigi að taka á ríkisútgjöldum árið 2007.

Hvað hefði átt að vera búið að gera í stjórn efnahagsmála? Auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að taka á ríkisútgjöldum. Það hefur komið fram að ríkisútgjöld hafa aukist um 120 milljarða á föstu verðlagi frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum og það er vissulega áhyggjuefni. Það kom fram í spjallþætti í sjónvarpi í morgun að það var eins og að þetta kæmi hv. formanni fjárlaganefndar algjörlega á óvart og það segir náttúrlega sína sögu.

Síðan kemur hér hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins og talar um að lækka stýrivexti til að bregðast að einhverju leyti við vandanum. En hvað er að gerast? Ég get ekki betur séð á netmiðlum en að gengið sé að lækka á íslensku krónunni. Er þá eitthvert vit í að fara að lækka vexti? Ég hefði talið að það mundi jafnvel leiða til þveröfugrar niðurstöðu en þeirrar sem óskað er.

En það eru fleiri blikur á lofti og það er skuldasöfnun þjóðarinnar. Þetta er eitt skuldugasta þjóðarbú í heimi og ef vextir halda áfram að hækka í útlöndum er hætt við að það komi einnig við pyngju þjóðarbúsins og það er annað sem hæstv. forsætisráðherra ætti að hafa í huga.



[12:18]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að taka þessi skilaboð mjög alvarlega því að núna á einum sólarhring eða svo hefur gengisvísitalan hækkað um sem nemur u.þ.b. 9%. Þetta er vitaskuld mikil breyting á mjög skömmum tíma. En það verður að taka á þessu af yfirvegun og festu og menn verða að vanda mjög það sem sagt er í þessari umræðu því að hún hefur áhrif á markaðinn. Menn verða því að taka þessi skilaboð alvarlega og fara mjög vandlega yfir það hvernig menn hyggjast bregðast við, og hvort menn hyggjast bregðast við.

Það olli mér því talsverðum vonbrigðum þegar hæstv. fjármálaráðherra kom í ræðustól áðan og hafði af því mestar áhyggjur, eða talaði helst um það, að Fitch Ratings staðfesti að um skattalækkanir væri að ræða. Fitch Ratings fjallaði ekkert um skattbyrðina eða hvort hún hefði aukist undanfarin 10 ár, heldur fjallaði hæstv. fjármálaráðherra um það að tilteknir aðilar hefðu staðfest að um skattalækkanir væri að ræða. Þetta var honum efst í huga við þær aðstæður sem við erum núna að fjalla um, þegar gengið hefur fallið um 9%.

Það kom einnig fram í þessu mati að ríkissjóður er ásakaður um að skila ekki nægum afgangi og láta Seðlabankann sitja einan uppi með ábyrgð á íslensku efnahagslífi. Þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin verður að taka vandlega til skoðunar og einnig verða sveitarfélög að skoða mjög vandlega hvar þau geta tekið á. Markmið okkar allra sameiginlega hlýtur að vera það að ná mjúkri lendingu. Hvort hér sé á ferðinni eðlileg aðlögun er ekki gott að segja en meginatriðið er að menn taki á þessu af ábyrgð og festu og fjalli um það á þann hátt að stjórnmálamenn efni ekki til (Forseti hringir.) enn frekari ófriðar á þessum markaði en orðið er.



[12:20]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem síðasti hv. ræðumaður, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sagði áðan, það ber að fjalla um þessa skýrslu Fitch Ratings af varkárni og alvöru. Vissulega verður ekkert horft fram hjá þeim ábendingum sem þar koma fram. Ég verð að segja að það er ánægjulegt hversu margir hv. þingmenn hafa hér í dag tekið undir það að það verði hafa stjórn á ríkisfjármálunum. Það er athyglisvert að heyra þetta frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem flesta daga koma hér upp hver á fætur öðrum og krefjast aukinna ríkisútgjalda til hinna og þessara málaflokka. Fitch Ratings leggur mikla áherslu á þetta og hið sama hafa greiningardeildir gert, Seðlabankinn líka. Það er mikilvægt ef hér er að nást samstaða um að stemma verði stigu við aukningu ríkisútgjalda. En þá verða hv. þingmenn líka að gæta sín á því að koma hér ekki daginn út og daginn inn sífellt með nýjar tillögur um aukningu ríkisútgjalda til hinna og þessara málaflokka. Við vitum að það er mikill hiti í hagkerfinu og við verðum líka að velta fyrir okkur hvernig hagkerfið er undir það búið að takast á við þetta. Þá verðum við að hafa í huga að hagkerfið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum, miklum breytingum sem gera það að verkum að það er hæfara til að takast á við þessa nýju stöðu en áður var.

Við höfum á undanförnum dögum séð fréttir sem reyndar hafa ekki vakið mikla athygli en hafa samt skipt máli um mat erlendra aðila á samkeppnishæfni hagkerfisins. OECD birti í síðustu viku niðurstöðu um að Ísland væri í 6. sæti yfir ríkustu lönd heims, Forbes segir að Ísland sé 3. vinsamlegasta landið fyrir erlenda fjárfesta, Wall Street Journal listar Ísland í 5. sæti (Forseti hringir.) yfir þau lönd þar sem mest viðskiptafrelsi ríkir. Viðskiptaháskólinn IMD í Sviss og World Economic Forum (Forseti hringir.) telja Ísland með 5. og 7. samkeppnishæfasta hagkerfi heims. (Forseti hringir.) Það skiptir máli í þessu sambandi (Forseti hringir.) vegna þess að það gerir okkur (Forseti hringir.) hæfari til að takast á við þessar breyttu aðstæður.



[12:23]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er ýmislegt jákvætt í efnahagsmálum Íslendinga, sem betur fer. Við þurfum hins vegar að taka mark á ábendingum sem við fáum, eins og þessari. Það hefði verið betur að ríkisstjórnin hefði tekið mark á öllum þeim ábendingum sem hún hefur fengið varðandi umræður um efnahagsmál hér á síðustu missirum. Það er í raun og veru sáralítið nýtt í þessum ábendingum sem þarna koma fram.

Við erum auðvitað búin að benda á það margoft að það þarf að ná tökum á ríkisútgjöldunum, það þarf að sýna ábyrgð við stjórn efnahagsmála. Á þessu hefur staðið, því miður, og þess vegna m.a. fáum við þetta mat nú og þær ábendingar sem hér koma fram. (Gripið fram í: Skera niður.) Það er t.d. athyglisvert þegar hæstv. fjármálaráðherra telur þetta vera fyrst og fremst stimpil á það að nú eigi sér stað skattalækkanir. Margoft hefur verið bent á það í þingsölum að skattalækkanir eiga sér stað hjá ákveðnum hópum. Það sem hefur verið gagnrýnt er hvernig skattalækkununum hefur verið skipt, þ.e. að jafnvel sé náð í tekjur hjá öðrum hópum til að lækka skatta á hinum tekjuhærri. Það er á þetta sem hefur verið bent og það er þetta sem hefur verið gagnrýnt.

Frú forseti. Í athyglisverðri forustugrein í Morgunblaðinu í dag segir m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Það, sem telja má nýjan flöt á málinu hvað gagnrýni Fitch á hagstjórnina varðar, er samanburðurinn við fjármálakreppuna í Japan og fleiri Asíuríkjum í lok síðustu aldar. Fyrirtækið segir að ástæðan fyrir aðgerðaleysi ríkisvaldsins sé sú skoðun stjórnvalda að núverandi ójafnvægi í efnahagslífinu eigi rætur sínar að rekja til einkageirans og muni lagast af sjálfu sér.“

Frú forseti. Þetta er í raun og veru í hnotskurn stefna ríkisstjórnarinnar, að þetta muni allt saman lagast af sjálfu sér. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin horfi á raunveruleikann og nýti þau verkfæri sem hún á, þ.e. ríkisfjármálin, og treysti ekki eingöngu á einkageirann og Seðlabankann.

Frú forseti. Svo að við gleymum okkur ekki í svartnættinu vonumst við auðvitað til þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) læri af þessum ábendingum — og við munum tryggja mjúka lendingu.



[12:25]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að menn afvegaleiði ekki þessa umræðu. Það vekur athygli mína af hve lítilli alvöru talsmaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Hjálmar Árnason, tekur varnaðarorð Seðlabanka Íslands og alþjóðamatsfyrirtækisins Fitch Ratings. Í greiningu þessa fyrirtækis segir m.a. að hrein erlend skuldastaða Íslands sé hærri en nokkurs annars lands sem metið er af fyrirtækinu. Bent er á ósjálfbæran viðskiptahalla, hratt vaxandi erlendar skuldir og ríkisfjármálin. Þar eru menn að sjálfsögðu fyrst og fremst að vísa til stóriðjustefnunnar. Menn eru ekki að tala um framlag hér til öryrkja eða til einstakra málaflokka. Menn eru að tala um ríkisfjármálin í stóru samhengi.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta hafi að mörgu leyti komið á óvart, eða þannig skildi ég hann. Þetta er hins vegar í samræmi við ábendingar og varnaðarorð, ekki aðeins frá Seðlabanka Íslands, ekki aðeins frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hér á Alþingi, heldur frá atvinnulífinu í heild sinni á Íslandi, sjávarútveginum, ferðaþjónustunni, hátækniiðnaðinum. Og þessar raddir hafa farið hækkandi í seinni tíð.

Staðreyndin er sú að vandann má rekja til rangrar efnahagsstjórnunar á Íslandi. Með efnahagsstjórn sinni, og þá sérstaklega stórfelldum ríkisafskiptum af uppbyggingu stóriðju og yfirlýsingum um að þar á verði framhald, hefur ríkisvaldið haft áhrif á væntingar varðandi gjaldmiðilinn á komandi árum sem síðan hefur örvað innstreymi fjármagns á íslenskan lánamarkað og valdið þenslu. Þarna er samhengið að sjá í því sem nú er að gerast.

Nú er spurningin til ríkisstjórnarinnar: Verður gerð grundvallarbreyting á? Megum við vænta breyttrar efnahagsstjórnunar (Forseti hringir.) á Íslandi á komandi tíð? Og þar er ekki síst vísað til stóriðjustefnunnar.



[12:27]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það sem ég sagði um að þetta kæmi á óvart var vegna þess að fyrir þremur vikum fengum við staðfestingu á bæði mati og horfum frá öðru fyrirtæki sem er fyrirtækið Moody's. Ég fagna því hins vegar hvað það kemur skýrt fram hjá mörgum ræðumönnum, sérstaklega þingmönnum Samfylkingarinnar, að það eigi að fara af aðgát og varfærni í þessa umræðu vegna þess að markaðir eru auðvitað viðkvæmir um þessar mundir. Fagna ég sérstaklega því sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þar sem hann nefndi hlut sveitarfélaganna í hagstjórninni.

Það sem ég vil benda sérstaklega á er það að staða ríkissjóðs er ekki gagnrýnd í þessari skýrslu, heldur einmitt talað um að hún sé að styrkjast. Staða bankanna er heldur ekki gagnrýnd, sagt að hún sé sterk. En útgjaldaaukningin og þar með skuldasöfnun, bæði fyrirtækja og einstaklinga því tengd, er gagnrýnd og það að ríkið hafi ekki hamlað nægjanlega á móti þessari þróun. Þar er og getur verið meiningarmunur á. Stóriðjustefnan er alls ekki gagnrýnd, það er langt því frá. (Gripið fram í: Ríkis…)

Síðan varðandi viðbrögð markaðarins eru þau, a.m.k. enn sem komið er, ekki meiri en svo að þau samræmast þeim spám sem uppi hafa verið um það hvernig gengi gjaldmiðla mundi þróast á undangengnum og yfirstandandi missirum. En við eigum auðvitað eftir að sjá enn betur hvernig markaðurinn bregst við. (Gripið fram í.)

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar, við stöndum auðvitað við langtímastefnu okkar í ríkisfjármálum sem er mjög varfærin. Hins vegar heyrist mér á sumum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir vilji fara í mikinn niðurskurð og skattahækkanir. Ég held hins vegar að farsælast sé að við höldum okkur við það að reyna að auka hagvöxtinn til lengri tíma litið og það gerum við með því að halda m.a. áfram að hvetja til þess að erlendir aðilar fjárfesti hér í álverum.

Ég er ánægður að heyra að hv. þm. Kristján Möller hefur ekki tapað húmornum og ég er þeirrar skoðunar að Fitch kunni að reikna og kannski hefur hv. þingmaður líka (Forseti hringir.) tekið sig á reikningi.