132. löggjafarþing — 74. fundur
 23. feb. 2006.
landshlutaverkefni í skógrækt, 1. umræða.
stjfrv., 555. mál (samræming laga, endurgreiðsla framlaga o.fl.). — Þskj. 809.

[13:31]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um landshlutaverkefni í skógrækt á þskj. 809 sem er 555. mál Alþingis. Með frumvarpinu er ætlunin að sameina í ein lög þrenn sem nú gilda um landshlutaskógrækt, þ.e. lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997.

Í ákvæði I til bráðabirgða í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni kemur fram að landbúnaðarráðherra skuli fjórum árum frá setningu laganna endurskoða ákvæði þeirra, auk ákvæða laga um Héraðsskóga og Suðurlandsskóga.

Ljóst er að nokkuð er komið fram yfir þann tíma sem átti að endurskoða lögin en það á sér eðlilegar skýringar. Frumvarpið hefur verið nokkuð lengi í vinnslu og leitað hefur verið lögfræðiálita og umsagna frá þeim aðilum sem málið helst varðar, m.a. barst þaðan álit Skógræktar ríkisins og forsvarsmanna verkefnanna á drögum ráðuneytisins að frumvarpinu.

Ég sé einnig ástæðu til að taka fram, þar sem að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins, að þetta frumvarp er óháð þeirri umræðu. Hvort eða hvenær þær stofnanir verða sameinaðar breytir ekki nauðsyn þess að ákveðin lög gildi um stuðning ríkisins við landshlutaverkefni í skógrækt eins og verið hefur. Landshlutaverkefnin starfa óháð fyrrgreindum stofnunum í dag þótt náin samvinna sé með Skógrækt ríkisins og verkefnunum. Engin áform eru um að svo verði ekki áfram.

Reynslan af landshlutaverkefnum og framkvæmd laganna hefur verið mjög góð. Mikill áhugi er um allt land á verkefnunum, ekki aðeins meðal þátttakenda heldur einnig annarra, svo sem sveitarstjórna og almennings. Nú hafa verið gerðir um 760 samningar við skógræktarbændur og aðra landeigendur og rúmlega 100 jarðir eru á biðlista. Alls hafa verið gróðursettar um 40 milljónir plantna í um 18 þúsund hektara lands.

Hins vegar hefur reynslan sýnt að þörf er á að kveða skýrar á um ýmis atriði núgildandi laga. Þar má nefna ákvæði um endurgreiðslu skógræktarframlags, fyrningu þeirra og ákvæði, um þau tilvik er skógarbóndi hefur vanefnt samning, vilji skógarbóndi segja upp samningi eða skógræktarverkefnið sjálft losna undan samningi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurgreiðslubyrði af tekjum skógarbænda falli niður. Í núgildandi lögum er þetta hlutfall 15–35% af söluverðmæti hvers rúmmetra en það er mismunandi eftir verkefnum. Sterk rök hafa verið færð fyrir því að ef skógrækt eigi að þróast og eflast sem ný atvinnugrein hér á landi megi endurgreiðslubyrðin ekki verða of há þar eð landeigendur verða að sjá sér hag í að fella trén og koma afurðunum á markað.

Einnig hefur verið bent á að þegar timburskógar verða felldir og afurðir settar á markað gefast margar leiðir fyrir stjórnvöld til að skattleggja atvinnugreinina á raunhæfan máta. Má benda á að endurgreiðsluhlutfallið er heldur ekki til staðar á Írlandi sem hóf sína miklu skógrækt fyrir um 80 árum. Hún er ein af auðlindum frænda okkar á Írlandi. Nauðsynlegt er að benda á að virðisauki skógræktar felst auk timburframleiðslu í mörgu öðru, svo sem bindingu kolefnis, fjölbreyttara náttúrufari, heftingu jarðvegseyðingar, uppgræðslu lands, að ógleymdu margháttuðu útivistargildi svo eitthvað sé nefnt. Um þetta er sérstaklega getið í 1. gr. frumvarpsins, um tilgang og markmið laganna. Greinin er að mestu efnislega samhljóða tilsvarandi greinum í núgildandi lögum og viðurkennt að markmið með skógrækt geti verið margvísleg og misjöfn og háð bæði aðstæðum og óskum landeigenda á hverjum stað.

Þá er sömuleiðis sett fram það markmið sem stefnt hefur verið að frá því að landshlutabundnu verkefnin hófu göngu sína, að stefnt skuli að ræktun skóga á a.m.k. 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 metra línunnar á svæði hvers verkefnis. Samkvæmt núgildandi lögum eru starfandi sex landshlutabundin skógræktarverkefni. Þau eru Héraðsskógar, Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Austurlandsskógar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að landshlutaverkefnin verði eftirleiðis fimm talsins og taki Héraðsskógar á Austurlandi við verkefnum Héraðsskóga og Austurlandsskóga með brottfalli laganna um Héraðsskóga. Með tilkomu Austurlandsskóga var Héraðsskógum falið að stýra verkefninu en fulltrúar skógarbænda á Austurlandi bættust við í stjórnina. Þótt framlög til Héraðsskóga og Austurlandsskóga hafi verið aðskilin er um sameiginlegan rekstur þeirra að ræða á skrifstofu, stjórnun og hvað mannafla varðar. Er þessum þáttum skipt hlutfallslega á verkefnin. Eðlilegt er talið að á Austurlandi starfi eitt skógræktarverkefni eins og í öðrum landshlutum.

Í frumvarpinu er stjórnsýsluleg staða verkefnanna skilgreind. Verkefnin heyra undir landbúnaðarráðherra en eru að öðru leyti sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Einnig kemur fram að framlög verkefnanna eru bundin við lögbýli. Með hliðsjón af því að eitt af markmiðum laganna er að treysta byggð og efla atvinnu þykir eðlilegt að binda verkefnin áfram við lögbýli. Þróunin á undanförnum fimm árum hefur verið á þá leið að fjölmörg ný lögbýli hafa verið stofnuð til sveita. Mörg þessara býla eru stofnuð til að hefja þar starfsemi í skógrækt. Með lögbýlisskilyrðinu þykir markmiðum laganna vel náð.

Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni er gert ráð fyrir að verkefnin fari að áætlun til 40 ára og verði henni skipt niður í 10 ára tímabil. Í frumvarpinu er þetta skýrt frekar og gert ráð fyrir endurskoðun áætlunarinnar á 10 ára fresti eða oftar. Breyting þessi er í takt við nútímavinnubrögð í skipulagsmálum og gerir verkefnunum kleift að aðlagast breyttum forsendum og nýjum áherslum sem fram kunna að koma. Í frumvarpinu eru einnig nýmæli sem ætlað er að tryggja að áætlanir landshlutabundnu skógræktarverkefnanna taki mið af þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur áætlað til skógræktarverkefnanna til 10 ára í senn. Með þessu er einnig ætlunin að tryggja ákveðin fyrirsjáanleika í störfum verkefnanna.

Kveðið er á um að landbúnaðarráðherra leggi fram þingsályktunartillögu á Alþingi um fjárframlög til verkefnanna. Ákvörðun Alþingis ræður svo fjárveitingunum sem verkefnin taka mið af við áætlanagerð sína og framkvæmdir. Eðli verkefnanna og framkvæmdir í skógrækt kalla á langtímaáætlanir um fjárveitingar. Þær tryggja trúverðugleika og markvissara og skilvirkara starf. Vorið 2003 samþykkti Alþingi þingsályktun í anda þess sem hér er lagt til að verði lögboðið. Sú þingsályktun var til fimm ára og markaði tímamót hvað varðar alla áætlanagerð fyrir verkefnin.

Fimmta grein er að mestu samhljóða 7. gr. laga um Suðurlandsskóga. Gert er ráð fyrir því að stjórn hvers landshlutabundins verkefnis sé í höndum þriggja manna stjórnar sem skipuð verði til fjögurra ára í senn. Í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni er gert ráð fyrir fjögurra manna stjórn. Breytingin er lögð til svo að auka megi hagkvæmni í rekstri verkefnanna og minnka yfirbyggingu þeirra. Með skipan stjórnarinnar er tryggt að tekið sé mið af sjónarmiðum skógarbænda og fagsjónarmiðum þeim sem Skógrækt ríkisins er ætlað að endurspegla. Ráðherra skipar síðan þriðja mann stjórnarinnar án tilnefningar.

Með þessari breytingu er ekki gert ráð fyrir aðkomu Skógræktarfélags Íslands að stjórn verkefnanna eins og var í lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni og gilti fyrir Norðurlandsskóga, Vesturlandsskóga og Skjólskóga á Vestfjörðum. Þetta atriði hefur verið mikið skoðað og rætt. Rétt er að benda á að skógræktarfélögin eru frjáls félög og starfa ekki eftir lögum frá Alþingi. Þrátt fyrir mikið skógræktarstarf þeirra í áratugi verður ekki séð að nauðsyn sé á aðild þeirra að landshlutabundnu verkefnunum sem starfa á allt öðrum forsendum.

Á það hefur einnig verið lögð áhersla, að fækka eigi í stjórnum verkefnanna eins og hér er lagt til. Bent hefur verið á að ef vilji er til að fjölga í stjórnunum geti allt eins verið eðlilegt að sveitarfélögin, sem leggja mikið upp úr velgengni verkefnanna, eigi þar fulltrúa ekki síður en skógræktarfélög. Það nýmæli er í 5. gr. frumvarpsins að gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra setji stjórnum verkefnanna starfsreglur. Með setningu slíkra reglna verður leitast við að tryggja sem best samræmda framkvæmd hjá verkefnunum.

Þá eru sömuleiðis nýmæli í 6. gr. frumvarpsins um að samningar við þátttakendur skuli vera til 40 ára. Í núgildandi lögum eru ekki ákvæði um gildistíma samninga. Sú hefð hefur þó skapast að gera samninga til 10 ára með ákvæðum sem ná til allt að 40 ára. Með ákvæðinu um samningstíma eru tekin af öll tvímæli um gildistíma þeirra.

Í 7. gr. er nýmæli sem ætlað er að skýra réttarstöðu og uppgjör aðila skógræktarsamnings ef aðilar vilja losna undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Í 1. mgr. er tilgreint hvernig skuli fara að vilji landeigandi losa land sitt í heild eða að hluta undan samningi áður en gildistími hans rennur út. Með þessu ákvæði verður til reiknuð „skuld“ eða endurgreiðslufjárhæð sem telst þá vera „skuld“ skógarbónda við viðkomandi landshlutaverkefni. Er hugsanlegt að slík reiknuð „skuld“ geti haft neikvæð áhrif á markaðsverð jarðar. Til að draga úr slíkum áhrifum er gert ráð fyrir að „skuldin“ fyrnist með tíma. Ákvæðið er skýrt frekar í greinargerð frumvarpsins.

Í núgildandi lög hefur hins vegar vantað skýr ákvæði um meðferð mála ef skógarbóndi vill hætta í verkefni. Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði um það þegar verkefnisstjórn vill losna undan samningsskuldbindingum. Greinin kveður á um lágmarksmálsmeðferðarreglur ef svo ber undir.

Í 8. gr. er að finna nýmæli um rétt landshlutaverkefnis til að rifta samningum og endurheimta framlög hafi þátttakendur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Örfá tilvik hafa komið upp þar sem samningsbundinn skógarbóndi hefur vanrækt skyldur sínar, einkum um að vernda skógræktarsvæði fyrir beit. Hætta er á slíku við eigendaskipti jarða ef nýr landeigandi er ekki eins áhugasamur um skógrækt og sá sem gerði samninginn. Engin ákvæði eru í núgildandi lögum sem taka á þessum málum og er staða verkefnanna veik gagnvart landeigendum sem ítrekað brjóta samning.

Um 9. gr. er það helst að segja að hún er samhljóða 5. gr núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni, hluta 4. gr. laga um Suðurlandsskóga og hluta 4. gr. laga um Héraðsskóga. Kveðið er á um að framlög skuli nema allt að 97% af kostnaði, en það hlutfall er tilgreint í lögum um Héraðsskóga og notað af öllum verkefnunum. Greinin hefur því enga breytingu á rekstri verkefnanna í för með sér .

Hæstv. forseti. Liðin eru 15 ár síðan landshlutabundnu skógræktarverkefnin hófu göngu sína. Frá upphafi hafa þau notið stuðnings stjórnvalda og Alþingis. Þingmenn allra flokka hafa veitt þeim brautargengi og tryggt framlög til þeirra á fjárlögum. Það hefur ríkt samstaða um þessa atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Fyrir það ber að þakka.

Ég ítreka að með þessu frumvarpi er ætlunin að sameina núgildandi þrenn lög í ein og skýrari lög. Menn hafa talið nokkur atriði í núgildandi lögum fremur óskýr og því er mikilvægt að þetta mál fái brautargengi til að menn þekki reglurnar og lögin um verkefnin séu skýr.

Það er von mín að sú sátt sem ríkt hefur með landshlutabundnu skógræktarverkefnunum verði áfram og sátt náist um frumvarpið sem hér er lagt fram.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.



[13:49]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort aldrei hafi komið til tals við undirbúning að samningu þessa frumvarps að færa þessi verkefni undir Skógrækt ríkisins. Nú er verið að búa til verkefni eða tryggja það, verði þetta frumvarp að lögum, að landshlutabundin skógræktarverkefni séu algerlega á hendi og á ábyrgð hæstv. ráðherra. Það er skipað í stjórnir, búnar eru til fimm nýjar þriggja manna stjórnir, hver stjórn ræður til sín starfsmann. Allir þessir starfsmenn heyra undir ráðherra og síðan er ætlast til þess sýnist mér í frumvarpinu að skilað verði skýrslu einu sinni á ári sem Skógrækt ríkisins fer yfir. Hefði ekki verið einfaldara og kannski faglegra í ljósi þess verkefnis sem hér er verið að ræða að tryggja þessu verkefni samastað hjá Skógrækt ríkisins ellegar hjá Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins þegar þær stofnanir hafa verið sameinaðar? Sem vonandi verður og síðar náttúrlega færðar undir umhverfisráðuneytið, það segir sig sjálft, en það verður væntanlega ekki gert með þessu frumvarpi.

Hér er í raun og veru verið að setja þetta verkefni algerlega í hendur ráðherrans, hálfs milljarðs kr. fjárveitingu samkvæmt fjárlögum þessa árs og það verður ekki séð í fljótu bragði að neinir aðrir hafi aðkomu að stjórnun verkefnisins.



[13:51]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að skógrækt er um víða veröld landbúnaður, ekki umhverfismál. Vissulega hefði það getað komið til greina að skella öllum þessum verkefnum inn í Skógrækt ríkisins. Staðreyndin er sú að Alþingi hefur tekið þá ákvörðun og ríkisstjórnin að það að planta trjám sé verkefni bænda á Íslandi og eigenda lögbýla. Það er ekki verkefni ríkisins í sjálfu sér. Það er verkefni þeirra sem eiga landið og ábyrgðin er þeirra. Þetta hefur gefist vel að mati manna, áhuginn er mikill eins og ég hef farið yfir. 760 bújarðir eru komnar í slíka samninga og sjá framtíð sína.

Hins vegar er það ljóst í frumvarpinu að Skógrækt ríkisins á mann inni í verkefnunum, sinn fagaðila og verkefnin sækja ráð, kjör og þekkingu til Skógræktar ríkisins. Þarna er því eðlileg brú á milli og mikið samstarf. En ég tel mjög eðlilegt að þetta séu sérstök verkefni gerð með þessum hætti í ljósi þess að Alþingi leggur fram peninga til að búa til nýja auðlind á Íslandi fyrir þjóðina og felur ákveðnum aðilum, sem eru eigendur lögbýlanna, að planta henni í landið.



[13:52]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. landbúnaðarráðherra bendir á að Skógrækt ríkisins á skv. 5. gr. frumvarpsins mann í hverri stjórn. En væri þá ekki ráð að koma því þannig fyrir að a.m.k. önnur ríkisstofnun, Náttúrufræðistofnun, sem m.a. hefur með höndum gerð og rannsóknir vegna gróðurfarskorta og rannsóknir á vistkerfinu, ætti líka mann í slíkri stjórn ef á annað borð á að setja á svona stjórnkerfi yfir þetta? Þó það sé þannig hér að landbúnaðarráðuneytið skilgreini skógræktina kannski meira sem atvinnuveg en náttúruvernd eða umhverfismál þá er þetta auðvitað allt í senn í raun og veru, og mér finnst að gæta þurfi þess að taka tillit til allra sjónarmiða í málinu. Það má ekki bara fara í skógræktina án tillits til vistkerfis, gróðurfarskorta eða annarra umhverfissjónarmiða.



[13:53]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skógræktarverkefnin hafa sett sér mjög skýr vinnubrögð sem aðrir aðilar í landinu, svo sem Náttúrufræðistofnun og fleiri, hafa komið að til að varðveita vistkerfi og menningarleg verðmæti sögunnar. Þarna hefur því verið mikið samstarf og skýrar reglur um hvernig að er farið. En ég hygg að það séu svona vinnubrögð samtímans í ljósi þess að skógræktin og skógræktarstarfsemin í landinu heyrir undir landbúnaðarráðherra að rugla ekki með það mikið á milli ráðuneyta. Ábyrgðin er á þessari hendi og fer þessa leið, það hefur ekkert verið í umræðunni að fletja þetta neitt út með þessum hætti. Miklu frekar að eiga gott samstarf og leita ráða hjá stofnunum sem gegna mikilvægu hlutverki eins og Náttúrufræðistofnun og fleiri sem mikið samstarf er haft við.



[13:55]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir framsöguna. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í 1. gr. að það fjármagn sem á að fara til landshlutabundinna verkefna er ákveðið á fjárlögum hverju sinni. Mikilvægt er að gerð sé áætlun til lengri tíma, tíu ára eins og gert er ráð fyrir í greinargerðinni, og að það standist. Á Alþingi hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um landshlutabundin verkefni, eins og með Héraðsskóga, þar sem fjárframlög voru sett niður til fimm ára en við það hefur ekki verið staðið við afgreiðslu fjárlaga. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það muni ekki ríkja enn frekari óvissa um framlög til þessara miklu verkefna ef á að treysta á fjárlög hverju sinni, hafa ekki alveg hreint bundinn, niðurnegldan samning.

Ég vil einnig spyrja um skipulagsmál og það sem snýr að sveitarfélögunum þar sem þau hafa ekki aðila í stjórn samkvæmt frumvarpinu. Hvernig koma þessar áætlanir að deiliskipulagi sveitarfélaganna og aðalskipulagi? Hvernig er þetta látið passa saman?

Í þriðja lagi. Var eitthvað rætt um nytjar skógarafurða við vinnslu þessa frumvarps til að auka verðmæti afurðanna sem koma úr nytjaskógunum? Þessi atvinnugrein er nefnilega orðin mjög mikilvæg fyrir fjölda bænda á lögbýlum og mikilvægt að auka verðmæti afurðanna sem koma frá verkefninu.



[13:57]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þuríður Backman veit að Alþingi fer með fjárlagavaldið, það setur fjárlög einu sinni á ári. Þess vegna stendur þetta þannig að menn búa við það. Hér er skýrt tekið fram að landbúnaðarráðherra byggi fjárlögin á ályktun Alþingis. Jú, það kann að vera að það væri fastara í hendi ef samningur væri til staðar, eins og hv. þingmaður minnti á, en sú leið er ekki farin, þetta getur komið inn á vegamál og annað. Ég held að mikill skilningur hafi verið í ríkisstjórninni og hér á Alþingi á því að menn þurfi að standa við þessar áætlanir eins og þær eru settar fram. Það er lengi verið að sá til trésins og mikil vinna sem þar hefur farið fram sem þá fer til einskis sá undirbúningur. Hér hefur því nokkurn veginn verið staðið við ályktanir um skógræktarverkefnin og ég held að skógræktarverkefnin séu tiltölulega sátt við þau fjárframlög sem hér hafa fengist á síðustu árum. Þetta er komið yfir einar 500 milljónir til að skapa þessa auðlind.

Hvað varðar nytjarnar sem hv. þingmaður minntist á er það stórt og annað verkefni sem unnið er að með mörgum aðilum og er auðvitað verkefni sem menn þurfa nú að huga að í ríkum mæli. Ráðuneytið er að gera það, skógræktarbændurnir og verkefnin eru að sinna því og þar hafa ýmsir aðilar mikinn áhuga á að koma að slíku verki. Hið stóra verkefni framtíðarinnar er að huga að grisjun skóganna, huga að úrvinnslunni og það verður auðvitað glæsilegt og hlýtur að vera keppikefli t.d. þeirra sem framleiða húsgögn, parkett og fleira að fara að ná samkomulagi við skógarbændur um að nýta íslenskan við til þess verkefnis, en það er sem sé annað verkefni sem er í fullum gangi.



[13:59]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að næstum því hefur verið staðið við áætlanir landshlutabundnu skógræktarverkefnanna en ekki alveg og vantaði töluvert upp á þegar Héraðsskógaverkefnið er tekið sem heild. Það er mjög bagalegt fyrir þessa atvinnugrein sem byggir á útplöntun og þarf að hafa tryggt fjármagn til að geta staðið við ræktun eins og kallað er eftir.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni um skipulagsmálin, deiliskipulag og aðalskipulagsmál, þar sem þetta nær oft yfir fleiri en eitt sveitarfélag, og hvernig staðið er að samræmingu og samþættingu þessara stóru verkefna og skipulagsmála.



[14:00]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skipulagsmál heyra undir sveitarfélögin. Það liggur ljóst fyrir að mikil vinna er í gangi víða um land í þeim málum. Það er mjög eðlilegt og mikilvægt að deiliskipulag og aðalskipulag liggi fyrir. Það er auðvitað í fullri vinnslu og ef ég man þetta rétt á þeim störfum að vera lokið fyrir árið 2008 að ég hygg. En samkvæmt þessu er unnið í samstarfi við sveitarfélögin og að því að skógræktarverkefnin falli undir skipulagið.



[14:01]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í mikla efnisumræðu um frumvarpið sem hér er til umræðu. Mér sýnist það vera til bóta, þ.e. til einföldunar með sameiningu þriggja lagabálka. Í 3. gr. frumvarpsins er þó atriði sem nauðsynlegt er að vekja athygli og fær væntanlega góða umræðu í landbúnaðarnefnd, þ.e. varðandi nafngiftir á þessum verkefnum. Ég tek eftir því að það er ekki alveg fullt samræmi, miðað við tillöguna sem hér liggur fyrir, að landshlutaverkefnin séu Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Héraðsskógar á Austurlandi. Auðvitað getur verið viðkvæmt að eiga við nafngiftir og það er augljóst að Héraðsskógaverkefnið er elsta verkefnið. Það hefur ef ég man rétt verið í gangi frá 1991 og þar af leiðandi er kannski viðkvæmt að breyta því nafni.

En það stingur í augun að tveir landshlutar séu með aðrar nafngiftir en hinir, þ.e. Skjólskógar gætu til samræmis verið Vestfjarðaskógar og á hinn bóginn væru Austurlandsskógar. Ég held að það sé rétt að nefndin fari yfir þetta. Það er örlítið ankannalegt fyrir Austfirðinga að tala um Héraðsskóga á Austurlandi öllu. Það er auðvitað ákveðið svæði á Austurlandi sem heitir Hérað. Þegar sú nafngift er notuð þá kallar hún eðlilega á þær hugrenningar að átt sé við svæðið þar sem þessir skógar eru. En það er auðvitað ekki merkingin. Menn vilja hafa skóga um allt Austurland. Ég held að hæstv. ráðherra sé örugglega sammála mér um að það megi fegra töluvert, þótt fallegt sé, á Austurlandi með skógum.

En varðandi stjórnina þá virðast mér breytingarnar frekar til einföldunar, þ.e. í sumum verkefnum hafi verið fjögurra manna stjórnir og sé ekki óeðlilegt að þær séu þriggja manna. Það er aðeins spurning varðandi tengingar t.d. við sveitarfélög, hvort menn hafi hugleitt það við samningu frumvarpsins hvort það væri eðlilegt að sveitarfélögin eða landshlutasamtök sveitarfélaganna ættu fulltrúa í stjórnum.



[14:03]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var auðvitað yndisleg ræða. Hv. þingmaður þakkaði þann einfaldleika sem verið var að setja málið í en svo kom flækjan. Hann skildi ekkert í nafngiftum og mér fannst, hæstv. forseti, að hv. þingmaður færi út af í máli sínu. Þegar við hugsum um það fallega nafn Héraðsskóga, Fljótsdalshérað. Hvað er fegurra til? Hvað kemur manni í hug annað en sólskinið fyrir austan og bjartur dagur og … (KolH: Og álver.) hnjúkaþeyr, uppbygging sem þar ríkir og krafturinn í byggðinni.

Héraðsskógar eru dýrmætasta nafn í hinni nýju skógræktarsögu. Þar eru frumkvöðlarnir, þar tóku menn við verkefnum frá Skógrækt ríkisins og hafa verið frumkvöðlarnir sem hafa borið þetta það vel áfram en nú eru það verkefni um allt Ísland. Þess vegna verða þeir á fjörðunum að sætta sig við að falla undir hinn stóra himin héraðsins og þetta heiti Héraðsskógar. Ég vona að við ruglum ekki og týnum ekki þeirri nafngift í störfum þingsins. Ég treysti á hv. formann landbúnaðarnefndar að vera mér hjálpleg við að halda í nafnið Héraðsskógar.



[14:05]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var rétt hjá hæstv. ráðherra að ég fagnaði þeirri einföldun sem hér er boðuð. Ég vildi aðstoða hæstv. ráðherra við það að gera málið enn einfaldara en vera ekki með nafngiftir út og suður. Ég heyri hins vegar að málið er mun viðkvæmara gagnvart hæstv. ráðherra en ég hélt. Ég hélt að þetta væri ekki svo viðkvæmt sem heyra mátti frá hæstv. ráðherra. En ef það yrði til að tryggja það betur og setja meiri kraft í skógrækt á landinu að halda þessari nafngift þá geri ég ekki miklar athugasemdir við það.

Ég benti á að þetta er ekki í anda málhefðarinnar fyrir austan, að tala um Hérað og láta það ná um allt Austurland. Fljótsdalshérað er að sjálfsögðu, eins og hæstv. ráðherra sagði, afskaplega fallegt og nafnið einnig mjög fallegt. En það á bara við ákveðið svæði og hefðin er sú að það eigi við þetta ákveðna svæði. Ég held að hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar, verði að gefa sér smátíma í að skoða hvort ekki sé hægt að finna lausn á þessu máli þannig að við höldum í einfaldleikann. Hins vegar má ekki gleyma að forustumenn skógræktarinnar voru af Héraði og eðlilegt að halda því á lofti.



[14:06]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég rökstyðji enn betur hve gott nafnið er þá eru Héraðsskógar eins og gaflinn í þessu verkefni. Norðurlandsskógar og Suðurlandsskógar eru síðan sem langar hliðar og síðan hið yndislega nafn Skjólskógar á Vestfjörðum þannig að þetta er allt í samræmi og allir skynja hvert verkefnið er.

Suðurlandsskógar hljóta að vera fyrir sunnan, Norðurlandsskógar fyrir norðan, Héraðsskógar á hinu fallega Fljótsdalshéraði með fjörðunum með og Skjólskógar á Vestfjörðum. Ég er afar stoltur af þessum nöfnum og raunar fastheldinn á þau. Ég vona að ég fái að sannfæra minn ágæta vin, hv. þm. Einar Má Sigurðarson, um að rugla ekki meira í þessum nafngiftum. Þær eru góðar og þær standa.



[14:07]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er um rætt, um landshlutaverkefni í skógrækt, fjallar um miklu meira en það sem fram hefur komið í andsvörum við hæstv. ráðherra. Ég held að ekki sé hjá því komist að við gaumgæfum heildarstefnu okkar varðandi skógræktarmál, sem snertir síðan stefnu okkar almennt í náttúruverndarmálum. Mér er í fersku minni skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem átelur ríkisstjórnina fyrir að standa sig ekki nægilega vel í ákveðnum þáttum umhverfisverndarinnar og því að fara að alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist. Á ég þar sérstaklega við samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika. Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika kemur upp í hugann þegar skógræktarverkefni okkar eru skoðuð, á hvern hátt hefur verið staðið að þeim og stutt við bakið á þeim. Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan þá höfum við sett mikla fjármuni í að skapa þessa auðlind, hæstv. ráðherra sagði áðan að 500 millj. kr. hefðu þegar farið í að skapa þessa auðlind, þ.e. auðlindina í skógrækt okkar.

Mér þykir skorta á að hæstv. ráðherra hafi skýrt okkur frá því hvernig hann sér fyrir sér að haldið verði á málum til framtíðar. Mér er vel kunnugt um þá áætlun sem við eigum, þingsályktunartillögu sem samþykkt var á 128. löggjafarþingi um skógrækt á tímabilinu 2004–2008. En þegar við rýnum í upplýsingar þar, sem eru handhægar í þingskjölum, þá vantar okkur kannski þegar öllu er á botninn hvolft skýrslu frá hæstv. landbúnaðarráðherra um það hvernig málum hefur undið fram.

Skógræktaráætlunin sem við vinnum eftir hefur fyrst og fremst að geyma ákvæði um hve mikla fjármuni skuli setja í einstök verkefni en minna um þýðingu þeirra og hvernig við viljum sjá skógræktina sem atvinnuveg, þ.e. að skógarhögg verði stundað sem atvinnugrein af alvöru á Íslandi. Hæstv. ráðherra mætti oftar nota tækifærið til að segja okkur á hvern hátt hann sjái þann atvinnuveg þróast á Íslandi. Sömuleiðis er í skógræktaráætlun okkar ákvæði um þjóðskóga. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjallað sérstaklega um það hlutverk Skógræktar ríkisins að vernda náttúrlega skóga. Þar er og fjallað um þau merkilegu skóglendi sem Skógrækt ríkisins hefur í vörslu sinni til að sinna því hlutverki. Þjóðskógarnir eru, eftir því sem segir í greinargerð um skógræktaráætlun okkar, fjölnytja skógar þar sem saman fara verndarsjónarmið, útivist fyrir almenning, rannsóknir, þróun og lítils háttar viðarframleiðsla.

Hlutverk skógræktar okkar er margþætt og margslungið. Það skiptir verulegu máli að hæstv. ráðherra sýni okkur oftar á spil sín í þessum efnum, að við sjáum hvert stefnir bæði með tilliti til verndarhagsmuna og verndaráætlun varðandi náttúrlega skóga, hvernig er háttað samstarfi milli landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis í þeim efnum. Að því leyti get ég fallist á það sem hæstv. ráðherra segir, að atvinnuvegurinn skógrækt eða skógarhögg geti heyrt undir landbúnaðarráðherra sem landnytjaatvinnuvegur.

Hins vegar verður landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti að hafa mjög öflugt, opið og skilgreint samstarf um verndarþátt þessara mála. Við alþingismenn höfum ekki fengið á okkar borð nægilega yfirgripsmiklar upplýsingar um hvernig þessu samstarfi er háttað, á hvern hátt hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands skarast við stofnanir landbúnaðarráðuneytisins, á hvern hátt Landbúnaðarháskólinn er fléttaður inn í þetta, bæði rannsóknarhlutverk hans og hlutverki hans við að byggja upp þessa nýju atvinnugrein. Skógarhögg er sannarlega ný atvinnugrein á Íslandi og ég hefði viljað heyra hæstv. ráðherra fara örlítið dýpra í málin en raunin varð.

Þá erum við kannski komin að mínu hjartans máli og vonandi fleiri sem skipa þingheim. Það er sjálfbærni skógræktarverkefnanna og sjálfbær þróun almennt. Ég held ég hafi lesið málið frá orði til orðs eins og það kemur fram í frumvarpi til laga. Ég sé ekki að sjálfbær skógrækt sé skilgreind sem slík. Mér finnst það nokkuð athyglisvert og jafnvel áhyggjuefni í ljósi þess að nýverið kom út skýrsla frá norrænu ráðherranefndinni varðandi endurskoðuð markmið og verkefni Norðurlandanna í sjálfbærri þróun. Það er stefna sem samþykkt var af forsætisráðherrum Norðurlandanna í nóvember 1998. Hún var undirrituð fyrir Íslands hönd á sínum tíma. Við höfum gefið þessa stefnu út í viðamikilli og efnismikilli bók sem ríkisstjórninni var gert að stýra eftir. Hún segir okkur að í orði kveðnu stýri hún eftir þessari stefnu.

Þegar við skoðum nýútkomna skýrslu með endurskoðuðum markmiðum og verkefnum á árabilinu 2005–2008 þá rekumst við á kaflann um skógrækt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Markmiðið er sjálfbær skógrækt þar sem nýtingu og stjórnun skóga og skógarsvæða er þannig háttað að skógar bæði nú og í framtíðinni geta gegnt vistvænu, efnahagslegu og þjóðfélagslegu hlutverki. Skógrækt á að vera samkeppnishæf til að geta tryggt tekjur og störf og framleitt hágæða timburvörur. Í skógrækt á einnig að tryggja og standa vörð um hollar og lífvænlegar auðlindir skógarins, líffræðilega fjölbreytni og önnur umhverfisverðmæti. Skóginn á líka að nota til útivista og tómstunda.“

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst að í þessum kafla þessarar norrænu skýrslu komi fram veigamikil atriði sem hæstv. landbúnaðarráðherra lætur engu getið í þingmáli sínu. Mér finnst miður að menn skuli ekki átta sig á hversu víðtæk stefna hefur verið unnin upp í hendurnar á okkur, hve góð áform eru til staðar í þeirri norrænu stefnu sem sér hvergi stað í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málefnum sem snerta framtíðarsýn til sjálfbærrar þróunar. Ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái þróast á næstu örfáum árum rannsóknir á skógrækt. Þá er ég að tala um tvíþættar rannsóknir, annars vegar náttúrurannsóknir sem byggja á að náttúrulegur skógur sé rannsakaður og áætlun sé gerð um áframhaldandi verndun hans, mögulega eflingu og útbreiðslu og svo að hinu leytinu rannsóknir varðandi mögulega nýja atvinnugrein sem lýtur þá að skógrækt sem atvinnu til skógarhöggs.

Mér finnst nauðsynlegt að hæstv. ráðherra uppfræði þingheim um á hvern hátt þeim verkefnum sem við höfum sett fjármuni í vindur fram. Ég auglýsi þess vegna eftir því að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir því hvernig þeim verkefnum reiðir af og á hvern hátt hann sjái nánustu framtíð í þessum efnum. Hæstv. forseti, mér finnst dýptin í þessu máli talsverð þótt hennar gætti ekki í máli hæstv. ráðherra. Ég vil leggja áherslu á að Skógræktin þurfi að leggja áherslu á líffræðilegan fjölbreytileika. Eins og ég vék að í upphafi máls míns hefur ríkisstjórnin fengið ákúrur fyrir að fara ekki nægilega eftir þeim samningi sem hún þó hefur undirgengist í þeim efnum.

Mér finnst að þess þurfi að sjá stað að einhver vinna sé í gangi sem tryggi vernd grunnvatns okkar eða á hvern hátt binding koltvísýrings í skógi vindur fram. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar varðandi það? Hvað á hún að vera umfangsmikil og hvar á hún að vera? Mér finnst vanta heilmikið í þetta mál til að ég geti sagt að ég sé sátt við það.

Eitt af því sem Norðurlandabúar leggja áherslu á varðandi sjálfbæra nýtingu skógarins er margvíslegt hlutverk skóganna í samfélaginu. Norðurlöndin leggja áherslu á að ræða allar ákvarðanir sínar varðandi skógrækt á opinberum vettvangi, sem mér hefur fundist skorta á hér. Mér fyndist að vera ætti meiri opinber umræða um skógræktarmál og hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því í framhaldi af þessu þingmáli, að efla umræðuna, hafa hana opnari og sjá t.d. til þess að umhverfisverndarsamtök komist inn í þessa umræðu og séu hvött til að taka þátt í henni.

Norðurlandabúar leggja líka mikla áherslu á umhverfismerkta skógrækt, þar sem ræktaðir eru skógar samkvæmt alþjóðlegum vottunarstöðlum sem heimila sérstaka vottun framleiðslunnar. Ég tel afar mikilvægt, ef á að efna til stórfellds skógarhöggs og iðnaðar í tengslum við skógrækt og skógarhögg á Íslandi, að við skipum okkur fremst í flokk landa með umhverfisvottaða framleiðslu. Ég veit satt að segja ekki hvort eitthvað slíkt sé á prjónum hæstv. ráðherra. Ég treysti því að hann segi okkur meira um þau efni í síðari ræðu sinni. Það skiptir máli að við þróum í enn frekari mæli náttúruumhverfisvæna starfshætti í skógrækt. Við þurfum að leggja verulega áherslu á að framleiðsluvörur í skógræktinni séu umhverfisvænar og þurfum að krefjast skráningar á lagalegum og sjálfbærum uppruna timburafurða.

Varðandi síðan félagslegt hlutverk skóganna í þjóðfélaginu þá er rétt að geta þess að það þarf að tryggja aðgengi að skógum. Það er mikilvæg forsenda fyrir virka útivist í skógræktarumhverfi. Ég hef sjálft lent í því að koma í gamla skógrækt í Skorradalnum, afar gróskumikla skógrækt, sem er svo óaðgengileg sem frekast getur verið. Þar kemst ekki nokkur maður um og hæstv. ráðherra þarf aðeins að skoða hvort möguleiki fólks til útivistar í skóglendi sé nægilega mikill og á hvern hátt við getum tryggt að skógarnir okkar verði opnaðir til umgengni fyrir almenning.

Síðan þarf að skoða eða ræða a.m.k. um ólík búsvæði á Íslandi, með tilliti til skógræktar. Ég sakna umræðu um á hvern hátt búsvæði okkar henta misvel til skógræktar þannig að plöntur, dýralíf og búsvæði séu virt, hið besta sé nýtt í þeim og meðvitaðar ákvarðanir teknir. Allt þetta þarf að gera í öflugri samvinnu við útivistarsamtök, skógareigendasamtök, náttúruverndarsamtök, samtök landeigenda og eigenda lögbýla.

Hæstv. forseti. Mér finnst afar þarft mál á ferðinni. Varðandi breytingar á þessu fyrirkomulagi hef ég kannski ekki svo stór eða mikil sjónarmið uppi. En ég tel að í málinu búi tækifæri fyrir dýpri umræðu en hæstv. ráðherra bryddar upp á í málinu. Ég hvet til að hæstv. ráðherra haldi áfram að efla skógræktina og umræðuna um skógrækt og tryggi að sú umræða verði ævinlega á dýptina.



[14:20]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var afskaplega fræðandi ræða hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur en mér fannst samt sem áður hún kannski ekki skilja málið alveg nógu vel að mínu mati af því að mér finnst skilgreiningarnar varðandi þetta frumvarp koma afskaplega vel fram, um hvað frumvarpið fjallar og eins til hvers við erum að rækta þennan skóg. Að sjálfsögðu þarf að fara varlega og skipulag sveitarfélaga á að segja til um hvaða svæði eiga að vera undir skógrækt og hvaða svæði eiga að vera undir aðra landbúnaðarstarfsemi, t.d. kornrækt o.s.frv.

Þegar talað er um sjálfbæra skógrækt sjáum við að hún verður til t.d. í gömlum birkiskógum sem eru friðaðir. Það er sjálfbært, þeir fara að sá sér sjálfir. Ég er ekki viss um að við séum að tala um sama hlutinn en það er það sem mér datt í hug.

Ég hélt að hv. þingmaður mundi fagna því verulega sem við erum að gera með skógræktinni hvað varðar bindingu kolefnis, sem ég tel vera afskaplega mikilvægt hlutverk. Fyrir það fyrsta er þetta gott búsílag fyrir byggðir landsins, það er mikið byggðamál þegar 760 bújarðir taka þátt í að koma í veg fyrir jarðvegseyðingu oft og tíðum, uppgræðslu og landgræðslu. Þetta verða ekki alls staðar nytjaskógar nema kannski á nokkrum fáum svæðum á landinu. Aðalatriðið eru þessir landgræðsluskógar að mínu mati og binding kolefnis sem ég tel að sé með þýðingarmeiri verkefnum í skógrækt.



[14:23]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanns landbúnaðarnefndar Alþingis, gefur kannski svolítið í skyn þetta sem ég var að tala um, að hver og einn ræðir skógrækt út frá sínum eigin tilfinningum. Hv. þingmaður hefur ákveðnar skoðanir í þessum efnum, t.d. þá að það verði aldrei nytjaskógrækt á litlum svæðum í landinu. Ég spyr. Er hæstv. ráðherra sammála því? Erum við sem sagt að tala um að aðeins verði á fáeinum svæðum á landinu einhvers konar nytjaskógrækt? Og á hvern hátt erum við að tala um bindingu koltvísýrings í skógrækt?

Við vitum það öll sem hér erum inni að skógur bindur ekki kolefni nema í takmarkaðan tíma. Kolefnið bindur hann fyrst og fremst meðan hann er í vexti, síðan verður ákveðin stöðnun og svo fer hann að fölna og þá losar hann aftur kolefnin. Þetta er ákveðið hringrásarferli og ef við ætlum að gera áætlun um að binda verulegt magn kolefnis í skógi þurfum við að láta þær áætlanir liggja á borðinu þannig að við getum rætt um þær af einhverju viti en ekki út frá tilfinningum okkar eða hugmyndum hvers og eins. Þess vegna segi ég að mér finnst vanta stefnumörkun þar sem tekið er verulega vel á öllum þáttum þessa máls.

Varðandi sjálfbærni birkiskóganna okkar þá eru þeir auðvitað skógar sem bjarga sér sjálfir ef ekki er sótt að þeim varðandi landnytjar, uppblástur og annað slíkt. Þeir þurfa því ákveðinnar verndar við. Það er alveg ljóst. En ég er fyrst og fremst að tala um sjálfbæra nýtingu skógarins sem er til staðar. Við erum ekki með náttúrulegan skóg sem við getum sagt að við getum farið að stunda skógarhögg í og verulega umfangsmikla timburframleiðslu. Það er allt í ræktuðum skógi. Ég held að við þurfum að ræða um sjálfbæra nýtingu þeirra skóga sem eru til staðar á Íslandi sem plantað er sérstaklega með nýtingu og skógarhögg í huga.



[14:25]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu erum við að rækta skóg m.a. með það að markmiði að framleiða viðarafurðir en það verður ekki hægt alls staðar á landinu. Það var það sem ég var að segja. Til þess eru ýmsar ástæður og ég sé að það getur ekki verið alls staðar en það getur verið víða.

Að mínu mati hefur verið gríðarlega mikil umræða í þjóðfélaginu um skógrækt, gríðarlega mikil. Það sem hefur verið gert varðandi aðgengi fólks í þessa fáu skóga okkar hefur verið til fyrirmyndar. Unnið hefur verið í að búa til stíga, bæta aðgengið, ekki bara í þjóðgörðunum heldur líka á þeim skógræktarsvæðum sem eru almenningseign, þ.e. í þjóðskógunum og skógum sem skógræktarfélögin hafa verið að koma upp á undanförnum árum. En svo getur verið að einhverjir einkaaðilar loki sínu svæði. En reyndar eru til önnur lög um aðgengi allra að landinu og ekki má hefta aðgengi fólks um landið og það á alveg jafnt við um skóga og önnur svæði.

Ég tel að frumvarpið sé afskaplega gott. Ég held að það skipti miklu máli einmitt að sameina lögin um þessa skóga í einn lagabálk. Þessi verkefni hafa sýnt að þau hafa verið geysilega öflug, mikið byggðamál að mínu mati og hefur verið afskaplega skemmtilegt að fylgjast með þessu. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og hafa umhverfið, stofninn með í því hvað verið er að gera. Það skiptir líka heilmiklu máli að vinna saman.



[14:27]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formanni landbúnaðarnefndar finnst umræðan um skógrækt vera mjög mikil í landinu. Það virðist þá vera að ég þurfi að játa það á mig að ég hafi ekki komist í þær upplýsingar sem ættu að liggja fyrir því að mig vantaði upplýsingar fyrir þessa umræðu sem ég taldi að ættu að liggja fyrir í þingskjölum, í skýrslum frá hæstv. ráðherra eða á heimasíðu landbúnaðarráðuneytisins. Í fljótu bragði fann ég ekki þær upplýsingar sem ég leitaði að, t.d. um stefnumörkun í skógrækt hvað varðar sjálfbæra þróun, hvernig samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika fléttast inn í skógrækt á Íslandi og ákveðna þætti sem mér fannst vera spurningar mínar sem kviknuðu. Þær voru þess eðlis að ég fann ekki auðveldlega svör við þeim. Þess vegna tel ég að einboðið sé að við dýpkum þessa umræðu og efnum til hennar á mjög breiðum grunni. Ég held að hv. formaður landbúnaðarnefndar hljóti að fagna því ef stjórnarandstaðan ætlar að lýsa því yfir að hún sé tilbúin í að dýpka og breikka umræðuna til muna og halda henni úti á öflugan hátt sem oftast og víðast. Það hlýtur að vera gott mál.

Ég held að að hluta til sé það ábyrgð sem hæstv. ráðherra hefur á sínum herðum hvað varðar það að kveikja umræðu, breikka hana svolítið eða dýpka, efna til málþinga og gefa út ritlinga eða bæklinga eða koma með skýrslur hingað inn í þingsali. Við höfum ótal tækifæri til að dýpka umræðuna sem ég held að full þörf sé á.

Ég er með í höndunum þingsályktunartillöguna um skógrækt á árabilinu 2004–2008 og þar segir að í uppbyggingu skógræktar að undanförnu hafi þjóðskógarnir okkar orðið útundan og ég hugsa þegar ég les þessa setningu, æ hjálpi mér, þurfum við ekki að taka betur á í þeim efnum? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvar stöndum við núna varðandi þjóðskógana okkar? Erum við á undanhaldi í þeim efnum eða er búið að snúa undanhaldinu við? En eins og ég segi, meiri umræða er örugglega af hinu góða.



[14:29]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Til að það verði ekki misskilið sem á eftir kemur vil ég taka svolítið ofan fyrir hæstv. ráðherra. Mér finnst hann hafa staðið sig nokkuð vel í að slást fyrir því að fjármunir komi til þeirra verkefna sem hér er verið að fást við. Vonandi hefur honum tekist að tryggja framtíð þeirra verkefna hvað fjármunina varðar því að auðvitað eru menn að tala um langtímaverkefni og vonandi að á því sé fullkominn skilningur að ekki er hægt að fara í skógræktarátak af þessu tagi öðruvísi en skilningur sé á því átaki sem nær yfir mörg kjörtímabil. Menn þurfa að hugsa í áratugum og mannsöldrum en ekki kjörtímabilum þegar verið er að tala um slíkt sem þetta.

Ég ætla að byrja á að tala aðeins um það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi varðandi nafngiftir á þessum skógum, en ég ætla að koma að því svolítið frá annarri hlið. Ég er ekki að leggja til að menn noti sömu nöfn á skógana austur á fjörðum og vestur á fjörðum eða að menn breyti þeim nöfnum. Hins vegar finnst mér þetta lagaheiti óþjált og tel að það væri kannski ástæða til að finna eitthvert annað nafn á verkefnið sem slíkt, þ.e. aðkomu ríkisins að því. Við tölum annars vegar um þjóðskóga og við gætum t.d. talað um landsskóga hvað þetta varðar. Ég minni á að einu sinni voru landshafnir í landinu. Þær hétu ekki sömu nöfnunum allar en þær voru allar landshafnir. Það væri því hægt að líta svo á að um landsskóga væri að ræða eða nota eitthvert annað nafn, ég geri ekki mikið með það í sjálfu sér en nota það hér til að koma því á framfæri sem ég er að tala um að menn hafi eitthvert slíkt nafn. Það er annað sem mér finnst líka skipta máli og það er að þjóðin viti hvar peningar hennar liggja. Ég spyr: Er gert ráð fyrir að þessi svæði séu merkt einhvers staðar, þessir skógar, svo fólk viti hvaða skógar þetta eru, hvað séu þá landsskógar í þessu tilfelli og hvað ekki?

Varðandi skipulagið og undirbúninginn við þetta þá geri ég ráð fyrir að verið sé að tala um að einhvers konar landnýtingaráætlun þurfi að liggja fyrir. Sú áætlun verður á ábyrgð sveitarfélaganna á viðkomandi svæði sem bera ábyrgð á skipulagsmálum en grunnrannsóknir í á þessum landsvæðum auðvitað þurfa að vera til í sveitarfélögunum til þess að ekki verði einhver vandamál eða slys vegna ákvarðana um skógrækt af þessu tagi. Ég efast ekki um að menn hafi þetta allt í huga en ég sé það ekki alveg í textanum. Mér finnst nefndin þurfa að skoða það vel hvort líklegt sé að upp komi einhver vandamál vegna umferðar vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir að hægt sé að njóta þess umhverfis sem skógarnir skapa, að sveitarfélögin hafi staðið sig í því að gera göngustíga og aðkomuleiðir sem gefi kost á þessu, að þeir sem fá þessa fjármuni geri líka ráð fyrir að það sé gott og gaman að fara um þessi svæði og njóta umhverfisins.

Ég tel reyndar að 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins þar sem talað er um „ræktun skógar með það að meginmarkmiði að fegra land“ geti kannski í mörgum tilfellum verið veigamesti liðurinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr möguleikum skógræktar sem atvinnugreinar á Íslandi, ég verð að játa það á mig að ég hef ekki vit á því að meta þá möguleika en mér finnst ég alveg hafa vit á því að meta það að skógrækt og landsfegrun sem fylgir því, vel skipulögð vinna hvað varðar aðkomumöguleika fólks, framtíðarsýn sem viðkomandi sveitarfélag hefur fyrir svæðið, landnýtingarskipulag og annað slíkt sem þarf að liggja fyrir, geti gefið þessum verkefnum gríðarlega mikið vægi í framtíðinni.

Ég vildi koma þessu á framfæri og af því að mér finnst ég ekki sjá það í sjálfum frumvarpstextanum að þar sé neins konar hald til að setja reglugerðir sem gera ráð fyrir að hægt sé að nýta þetta land með tilteknum hætti. Það verður auðvitað að horfast í augu við það að land sem menn taka undir skógrækt getur verið mjög viðkvæmt, það getur þurft að koma í veg fyrir umferð um það á meðan plönturnar eru að ná sér á strik o.s.frv. Það er ekkert athugavert við það, bara sjálfsagt mál, en það á ekki að verða þannig að slíkt svæði verði heilagur reitur sem einungis bóndinn getur farið um og skoðað. Þetta eiga að vera verðmæti sem þjóðin getur notið.

Það er framlag mitt til þessarar umræðu að nefndin fari yfir það hvort hún telji að vandamál af þessu tagi geti komið upp. Ég legg mikla áherslu á að menn skoði hvernig rannsóknir á möguleikum til landnýtingar í sveitarfélögunum og skipulag sveitarfélaganna gangi fyrir sig, að vel sé fyrir því samstarfi séð, sem verður að vera í upphafi, að vel sé staðið að því skipulagi sem menn koma sér upp í einstökum sveitarfélögum hvað varðar slíka skógrækt í framtíðinni og að það sé hugsað út frá öllum hliðum, ekki aðeins út frá hugsanlegum nýtingarmöguleikum til að hafa tekjur af heldur út frá náttúrunni, umhverfinu og möguleikum fólks til að njóta þess umhverfis.



[14:37]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður um skógrækt sem hér hafa farið fram. Fyrst þegar menn hófu að leggja fram frumvörp, sem síðar urðu að lögum, um landshlutaskóga sem við erum að ræða í dag, verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki mikla trú á því sem möguleika til að efla atvinnulíf í byggðum landsins, nema þá bara um stund meðan á gróðursetningu stæði. En ég hef komist á aðra skoðun eftir að hafa farið um landið og skoðað þá flesta. Ég held að þarna séu meiri möguleikar en menn töldu áður.

Það er líka ýmislegt í umhverfinu sem vinnur með þessum skógum. Eitt af því sem við eigum við að glíma, mannkynið sem heild, er hlýnun lofthjúpsins og það er líklegt að hér hlýni á þessari öld, illu heilli. En ein af hinum jákvæðu afleiðingum þess er að öllum líkindum sú að skógar munu eiga miklu auðveldara uppdráttar en menn töldu og af þeim sökum er líklegt að hér verði meiri möguleikar til að efla nytjaskóga og raunverulega atvinnu sem stendur undir sjálfri sér, með kannski einhverjum tilstyrk í upphafi af hálfu ríkisins, en menn töldu áður.

Ég er þeirrar skoðunar, í framhaldi af máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að því miður skipti skógarnir og landgræðslan ekki mjög miklu máli, raunar töluvert litlu, varðandi bindingu koltvíoxíðs. Þær tölur sem ég hef séð um það sýna, því miður, að þó að auðvitað sé það jákvætt er það ekkert sem skiptir verulega miklum sköpum fyrir losun okkar Íslendinga. En það er jákvætt og taka ber tillit til þess líka.

Margvíslegar umræður hafa verið um skógrækt á síðustu árum. Ég hef t.d. verið í þessum ræðustól áður og hvatt hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir meiri rannsóknum á sviði skógræktar. Ég held að engin atvinnugrein geti orðið öflug nema á bak við hana standi öflug rannsóknarvinna. Við eigum merka skógfræðinga sem hafa mikla reynslu af þeim séríslensku aðstæðum sem hér eru. Slíka vinnu þarf að efla.

Mig langar í framhaldi af þessari umræðu að varpa því til hæstv. ráðherra hvort ekki séu í gangi tilraunir sem tengjast hugsanlega landshlutabundnum skógarverkefnum sem varða ekki beinlínis nytjaskóga en varða ásýnd landsins og upprunalegt gróðurfar landsins. Ég á við hina íslensku birkiskóga. Hér eru enn þá til leifar fornra skóga, eins og Bæjarstaðaskógur í Skaftafelli, sem eru algerlega einstakir. Hvert sem maður fer um norðurslóðir sér maður aldrei annan eins birkiskóg og þar. Þetta er alveg sérstakur skógur þó að lúpínan sé illu heilli nánast að kæfa þann góða skóg og ungviðið eigi erfitt að spretta þar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Eru ekki, í tengslum við slík verkefni, rannsóknir í gangi sem miða að því að notfæra sér það erfðaefni sem þarna er að finna til að koma upp birkiskógum af þessu tagi víðar þar sem við vitum úr Íslendingasögum, sem ég eins og hæstv. landbúnaðarráðherra trúum nánast hverju orði í, að stóðu til forna nægilega miklir til að heilir herir gátu í þeim fólgist?

Í framhaldi af þessu, frú forseti, langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvað líður störfum nefndar sem hefur verið að vinna að sameiningu landgræðslu og skógræktar. Ekki að ég sé að leggjast gegn slíku en ég hef farið um Austurland og hef hrifist af því hversu vel hefur tekist þar til um skógræktina og ég hygg að það sé ekki síst vegna návistar við þá miðstöð sem höfuðskrifstofa Skógræktarinnar á Egilsstöðum er. Mig langar því til að spyrja hinn velheyrandi hæstv. landbúnaðarráðherra hvort einhver áform séu uppi um það að flytja Skógrækt ríkisins frá Egilsstöðum eitthvert annað. Reynsla mín af hæstv. ráðherra er auðvitað sú að hann er umfram allt allt annað en kjördæmapotari og ef slíkar áætlanir eru uppi þá er ég alveg viss um að þær miða ekki að því að flytja höfuðstöðvar skógræktarinnar í hans eigið kjördæmi. Samt vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra, fyrst við erum að tala um skógrækt, hver er staða þessa máls núna?



[14:42]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá gagnlegu og góðu umræðu sem fram hefur farið um málið, þær mörgu athugasemdir og mörg þau góðu sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni. En það má segja um síðustu ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að slík ræða komi úr sólarátt. Hann minntist á ýmis atriði sem vert er að ræða. Hann spurði um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, hvað því liði eða hvort það væri á dagskrá. Ég hef boðað að það sé á dagskrá að því leyti að verið er að fara yfir þetta með þessum fyrirtækjum. Liggur það fyrir á næstunni hvaða atriði það eru sem gera það að verkum að menn vilja sameina, hvort það sé brýn þörf og hvort það sé skynsamlegt. Þetta mun liggja fyrir á næstu dögum, vona ég, og þá förum við yfir það mál. Ég hef talið að sá tími væri kominn vegna þeirrar breyttu stöðu að bændurnir rækta skóginn. Þeir eru líka landgræðslubændur. Þetta eru stjórnsýslustofnanir og vísindastofnanir sem hafa á hendi rannsóknir og fagleg störf og geta þess vegna verið ein stofnun.

Ég hef jafnframt alltaf fullvissað menn um það í þessari umræðu að bæði fyrirtækin, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan, starfa um allt land. Það væri fáheyrt ef menn staðsettu ekki, þótt sameinað væri, fyrirtækið þannig að ákveðnar höfuðstöðvar skógræktarinnar yrðu áfram fyrir austan þar sem hjarta þeirra verkefna hefur þróast. Ég hef það hugarfar sjálfur að ef til þessa kæmi yrði þetta miklu frekar til þess að styrkja Austurland, Hallormsstað og Egilsstaði, með auknum verkefnum en að taka frá þeim verkefni. Síðan er hinn stóri staðurinn í málinu, þetta eru tveir hjartastaðir, og það er auðvitað Gunnarsholt þar sem saga Landgræðslunnar liggur. Ég sé mjög stór hlutverk fyrir báða þessa staði þótt sameinaðir yrðu og tel reyndar að ekki verði sameinað nema þetta liggi alveg skýrt fyrir.

Hv. þingmaður og reyndar fleiri hafa sagt í þessari umræðu um rannsóknir að það þurfi meiri rannsóknir og ég get tekið undir það. Skógræktin stundar auðvitað miklar rannsóknir eins og þekkt er hér uppi á Mógilsá og víðar og hefur unnið að skógræktarverkefnunum og þjóðskógunum og þar liggja mörg vísindaleg afrek fyrir, bæði í að finna upp kvæni og afbrigði og finna út hvaða tegundir passa í landið okkar og veðráttuna og jafnframt að rannsaka þjóðskógana, þannig að það eru mörg verkefni sem liggja fyrir hvað það varðar. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem margir hverjir hafa ítrekað mikilvægi þess í ræðum sínum að leggja mikla áherslu á rannsóknir.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom einnig mjög sterkt inn á þetta í ræðu sinni og ræddi t.d. um rannsóknir út frá hinni væntanlegu og nýju búgrein sem skógurinn væri og síðan ýmsar náttúrufarslegar rannsóknir sem mikilvægt væri að hafa, eins og hér kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Þetta eru stór verkefni sem ég tel mikilvæg, að styrkja rannsóknir og vísindastörf inni í Skógrækt ríkisins enn frekar í sessi og síðan er hitt sem hefur komið skýrt fram í þessari umræðu hvað skipulagsmál varðar, hvar skóginum er plantað. Það er ekkert sama. Þar hafa menn sett sér vandaðar reglur og það er t.d. eitt sem er bara mjög mikilvægt að við eigum landið stórt, við höfum ákveðið jú að einhver 5% af láglendi verði með skógi, það er ekki stórt svæði. En þar er líka mikilvægt að velja land sem hentar vel undir skóg, taka ekki akra eða engi, taka ekki ræktunarland. Við þurfum í framtíðinni kannski á öllu okkar landi að halda til landbúnaðar og eigum ekki að leggja það undir skógrækt heldur nota mela og hlíðar og staði sem eru vel fallnir til að rækta skóg. Þetta er eitt stórt verkefni, skógræktarverkefni, sem er mjög vel hugsað af landbúnaðarráðuneytinu og jafnframt Skógrækt ríkisins, þannig að ég tek undir þetta.

Hér hafa hv. þingmenn hafa líka rætt um, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að þingið þyrfti í rauninni að fá skýrslu frá landbúnaðarráðuneytinu um þessi verkefni og hvernig þeim mundi vinda fram. Ég get alveg tekið undir að það væri þess virði til þess að skapa samstöðu hér í þinginu, að með reglulegu millibili kæmi út skýrsla með upplýsingum um hvernig þessi verkefni stæðu, hver þróun þeirra væri og árangur af þeim o.s.frv. Þannig að þingið sem er samstiga um fjármögnun þessara verkefna og að skapa þessa auðlind geti sem allra best fylgst með málinu.

Hv. þingmaður ræddi enn fremur um að það væri eðlilegt að halda málþing um þróun skógarins og skógræktarverkefnanna. Málþing eru oft á dagskrá hjá stofnunum Bændasamtakanna og landbúnaðarráðuneytisins, þar eru haldin myndarleg málþing þar sem þessi mál eru auðvitað oft á dagskrá. Ég tel líka alveg eðlilega hugsun og kannski mikilvægt að við höldum svona málþing með þjóðinni um þá þróun sem er að verða því það þarf að ríkja sátt um þessi mál. Ég sé ekki fyrir mér að við plöntum skóginum þannig að við hættum að sjá fjöllin. Ég vil hefja augu mín til fjallanna þegar ég fer um landið og sjá þau í fjarlægð fögur og blá. Það er mikilvægt að um þetta ríki sátt og skipulagið sé klárt, hvar eigi að rækta skóg.

Ég hygg að við styðjumst mjög við hina norrænu stefnu og hið norræna samstarf. Skógrækt ríkisins, landshlutabundnu verkefnin og landbúnaðarráðuneytið hér eru í miklu samstarfi við frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Þangað sækjum við mikla þekkingu og eigum gott samstarf og njótum ráða þeirra á mörgum sviðum, þannig að auðvitað styðjumst við við hina norrænu stefnu og hugsum um hina alþjóðlegu samninga, líffræðilegan fjölbreytileika og allt sem snýr að þessu máli.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom hér inn á það að merkja þá bæi sem væru í þessum verkefnum. Við höfum ekki lagt þær kvaðir á skógarbændurna sem gera þessa samninga að þeir væru með skóga sína opna, miklu frekar hefur verið horft á að þjóðskógarnir, skógarnir sem eru í eigu ríkisins, sem voru lokaðir fyrir örfáum árum síðan, væru opnaðir og þar gerðar gönguleiðir og skapað næði.

Í merkilegri könnun sem gerð var fyrir stuttu kom í ljós að hlutfallslega fleiri Íslendingar fara nú orðið út í skóg en Danir, sem er dæmi um þann gríðarlega mikla áhuga sem Íslendingar hafa á skógum sínum. Þetta verkefni Skógræktar ríkisins, sem er glæsilegt, að opna skógana smám saman til þess að gefa almenningi hlutdeild og aðgang að náttúrunni er alveg sérstaklega þakkarvert. Því þarf auðvitað að fylgja enn betur eftir til þess að fólk njóti skógarins í ríkari mæli.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson ræddi um að merkingar á lögbýlum væru í skógaræktarverkefnum. Ég sagði að við hefðum ekki lagt þá kröfu á skógræktarbændur, því þeir leggja auðvitað fram vinnuframlag sitt en það má auðvitað hugsa sér það. Það kann vel að vera, af því að skógræktarbændur eru mjög stoltir af sínum verkum, að þeir vilji sjálfir merkja við býli sín að hér búi skógarbóndi og menn séu velkomnir í skógarkaffi eða að skapa afþreyingu, þess vegna leyft fólki að ganga í gegnum skóginn. Mér finnst þetta ágætis hugmynd og þess virði að ræða hana við skógarbændur og velta henni fyrir sér því að það er auðvitað mikið framlag sem fer til þessara verkefna til að búa til auðlindina og verður vonandi að tekjum fyrir fólkið sem á jörðunum býr. Þetta má því vel hugsa sér að mínu mati og væri í rauninni glæsilegt að merkja skógarjarðirnar með þessum hætti.

Hitt er svo ljóst að þessi verkefni, skógræktarverkefnin, hafa eflt byggðina mikið, hækkað verð á landi, vakið áhuga á landinu og eru hluti af þeirri miklu nýsköpun sem á sér stað í íslenskum sveitum í dag. Þar á sér stað mikil nýsköpun sem snýst um skóginn, um íslenska hestinn, um ferðaþjónustuna og um svo margt sem býr í náttúrunni og fólkið er að gera að tekjulind hjá sér og dregur fólk að. Landverð hefur hækkað, landið er dýrmætara, fleiri og fleiri vilja búa í sveitum þessa lands og ég hef stundum sagt að það er nánast að komast í tísku að búa í sveitinni og bera hið fallega gamla, íslenska nafn bóndi. Það hefur orðið mikil viðhorfsbreyting á stuttum tíma hvað þetta varðar.

Ég vil þá í lokin, hæstv. forseti, þakka þá góðu umræðu sem hefur farið fram um málið og veit að landbúnaðarnefnd mun nú með þeim fulltrúum sem þar sitja taka til hendinni og fara yfir þetta mál og styrkja það kannski enn frekar.



[14:55]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir þessa ræðu og þau skýru svör sem hann veitti. Ég spurði hæstv. ráðherra út í hvort mögulegt væri, ef af samruna Landgræðslu og Skógræktar yrði, að höfuðstöðvar Skógræktarinnar yrðu fluttar af Austurlandi. Hæstv. ráðherra svaraði alveg skýrt í þessu efni, hann sagði að jafnvel þó að stofnanirnar yrðu sameinaðar þá mundu höfuðstöðvar þessara tveggja greina, annars vegar Landgræðslu og hins vegar Skógræktar, áfram verða á þeim stöðum sem þær eru nú og ég fagna því.

Sömuleiðis finnst mér það mikilvægt að hæstv. ráðherra sagði að hann teldi að miðstöðvar Skógræktarinnar ættu hvergi betur heima en í því höfuðbóli íslenskrar skógræktar sem Austurland er. Þar höfum við Hallormsstaðaskóg og þar höfum við margra áratuga mikilvæga tilraunastarfsemi á sviði nýrra tegunda og nýrra kvæma. Enn fremur fannst mér það eftirtektarvert og þakkarvert hjá hæstv. ráðherra að hann sagði að ef af samruna þessara tveggja stofnana yrði mundi það að öllum líkindum hafa í för með sér aukinn flutning verkefna til höfuðstöðva Skógræktarinnar á Austurlandi. Það fannst mér vasklega mælt og styð hæstv. ráðherra í þessu eins og öllum öðrum góðum verkum sem hann kann að beita sér fyrir og þau eru sem betur fer töluvert mörg.