132. löggjafarþing — 75. fundur
 2. mars 2006.
umræður utan dagskrár.

stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:36]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær varð þjóðin vitni að því þegar forstjórar Alcoa-álhringsins lýstu því yfir hvar þeir áformuðu að reisa álver á Íslandi. Húsavík hefði orðið fyrir valinu. Þetta gerðu þeir í viðurvist Valgerðar Sverrisdóttur, hæstv. iðnaðarráðherra, sem komin var til New York að boði Alcoa að taka við boðskap þeirra, ásamt íslenskum sveitarstjórnarmönnum. Að sögn Valgerðar hafði forstjóri Alcoa aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum — það er örugglega rétt. Að erlendum fyrirtækjum skuli sett algert sjálfdæmi um stór og afdrifarík mál af þessu tagi sem hafa gríðarleg áhrif, ekki bara á viðkomandi svæði heldur á náttúru og efnahag landsins alls er örugglega séríslenskt fyrirbæri bundið við ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Athöfnin ytra var dapurleg en táknræn um leið fyrir niðurlægingu lands og þjóðar á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í yfirlýsingu Alcoa frá í gær segir, með leyfi forseta:

„Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á fréttamannafundi í New York að staðarvalið væri mikilvægur áfangi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.“

Það er nefnilega það. Er það sem sagt áframhaldandi óbreytt stefna ríkisstjórnarinnar að hér skuli byggja öll þau álver sem hægt er að lokka erlenda auðhringa til að reisa hvað sem það kostar annað atvinnulíf og þó að efnahagslegum stöðugleika sé þar með stefnt í enn meiri voða en ella?

Nú er það svo að mjög misvísandi skilaboð eru tekin að berast frá ríkisstjórninni. Í ræðu Geirs H. Haardes, hæstv. utanríkisráðherra, um daginn, „þá og því aðeins ræðunni“, var hver varnaglinn sleginn á fætur öðrum. Hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, sagði í framhaldi af samkomulagi Landsvirkjunar og Alcan á dögunum, um að hefja viðræður um orkusölu til stækkunar álversins í Straumsvík, að ekki væri pláss fyrir meira en eitt álver í viðbót innan ramma Kyoto-skuldbindinganna. Hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, sagði að vísu norður í landi nokkrum dögum síðar að ekkert væri að marka umhverfisráðherrann og orð hennar.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hrúgar líka upp fyrirvörum. Í grein sem hann birtir á heimasíðu sinni í gær ítrekar þessi ráðherra Sjálfstæðisflokksins varnaðarorð sín.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Svo er líka nauðsynlegt að slá varnagla. Engar þær framkvæmdir sem hafa verið í umræðunni eru ákveðnar.“

Síðar segir hann: „… það er fráleitt að tala, eins og stundum er gert, að yfir okkur sé að hellast á morgun eitthvað óskaplegt magn nýrra álversframkvæmda. Það er því rétt að menn andi nú rólega.“

Hæstv. forseti. Vissulega má með sanni segja að alltaf sé rétt að anda rólega og sýna yfirvegun. En svo rólegir í tíðinni mega menn ekki verða að þeir sýni andvaraleysi og sofandahátt. Það er staðreynd að verið er að stefna í stórfellda áframhaldandi uppbyggingu stóriðju í landinu á komandi árum. Lítum á eftirfarandi staðreyndir:

Viðræður eru að fara af stað á milli Landsvirkjunar og Alcan um stækkun, í reynd nýtt álver í Straumsvík með framleiðslu upp á hátt í 300 þús. tonn. Viljayfirlýsing gærdagsins er um 250 þús. tonna álver við Húsavík hið minnsta. Reyndar lýsti forstjóri Alcoa því strax yfir að hugur þeirra stæði til stærra álvers af Reyðarfjarðarstærðinni, sem sagt 350 þús. tonn eða þaðan af meira. Vaknar þá spurning um hvaðan öll sú orka á að koma og hvað felst í orðalaginu „gufuorka að mestu leyti“ eins og segir í yfirlýsingum frá Alcoa. Á að sækja viðbótina í Skjálfandafljót, Héraðsvötn eða hvað?

Í útvarpsfréttum í morgun staðfesti svo bæjarstjórinn í Reykjanesbæ að áform um 250 þús. tonna álver í Helguvík eru einnig á fullri ferð og þar telja menn sig ekkert þurfa við ríkisstjórnina að tala, það þurfi enga framsóknarráðherra að senda til útlanda vegna þess verkefnis. Þetta gerist við þær aðstæður að varnaðarorðum rignir yfir úr öllum áttum. Nefna má málsmetandi menn úr atvinnulífinu eins og Ágúst Guðmundsson, stjórnarformann Bakkavarar og Hörð Arnarson, forstjóra Marels. Alþjóðleg matsfyrirtæki lýsa miklum áhyggjum og hafa sum breytt mati sínu á horfum þjóðarbúsins úr stöðugum í neikvæðar, eins og kunnugt er.

Hvað gerir ríkisstjórnin við þessar aðstæður? Hún hellir meiri olíu á eldinn og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Bara væntingarnar um fréttir gærdagsins hækkuðu gengi krónunnar í fyrradag, lækkuðu þar með á nýjan leik tekjur sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar, lækkuðu kaup íslenskra sjómanna. Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið í leiðara í dag reyna að slá á væntingar. En er það nóg? Fríar það Sjálfstæðisflokkinn af allri ábyrgð að setja slíka fyrirvara? Sá tími er liðinn að mínum dómi að Sjálfstæðisflokkurinn geti leyft sér að sitja á áhorfendabekkjunum í þessu risavaxna hagsmunamáli þjóðarinnar.

Hæstv. forseti. Spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra eru þessar: Hver er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi uppbyggingu álvera hérlendis, nýrra eða stækkun þeirra? Ætlar ríkisstjórnin að hleypa þremur nýjum risavöxnum álverksmiðjum með tilheyrandi virkjunum af stað (Forseti hringir.) á næstu 3–5 árum? Ef ekki, hvernig ætlar þá ríkisstjórnin að stýra hlutunum? Hefur hún sett einhverja (Forseti hringir.) fyrirvara gagnvart þeim aðilum sem nú undirbúa málin sem hægt er að grípa til ef allir vilja nú fara af stað í einu? Og hverju svarar ríkisstjórnin þeim varnaðarorðum, innlendum sem erlendum, sem sífellt fjölgar og ganga út á að óbreytt (Forseti hringir.) sigling gangi ekki upp og hljóti að enda með ósköpum?

(Forseti (BÁ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða takmarkaðan ræðutíma í þessum umræðum.)



[13:42]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Staðan í þessum málum er afskaplega skýr og það er ekki mikið nýtt í þeirri stöðu. Viðræður standa yfir milli aðila um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík. Orkuveita Reykjavíkur hefur þegar gefið vilyrði fyrir 40% af þeirri orku og ég veit ekki betur en að í stjórn þess fyrirtækis sitji m.a. fulltrúi frá flokki hv. fyrirspyrjanda, Ögmundar Jónassonar.

Síðan standa yfir viðræður við Landsvirkjun um hvort Landsvirkjun geti útvegað orku það sem á vantar. Ekki er hægt að fullyrða um það á þessu stigi hvort þeir samningar nást. Ef þeir nást er verið að ræða þar um framkvæmdir á árunum 2007–2010. Síðan liggur fyrir sá vilji að reist verði álver á Norðurlandi og ákveðið hefur verið að ganga til frekari athugana í því máli og samninga um það. Í gær kom fram að líklegt væri að það gæti gerst á árunum 2010–2012 eða 2013.

Ef þetta gengur upp hefur hvorki Landsvirkjun né Orkuveita Reykjavíkur frekari orku til að selja á því tímabili sem fram undan er. Hvaða orku Hitaveita Suðurnesja hefur til þeirra hugmynda sem uppi eru á Suðurnesjum er ekki hægt að svara á þessu stigi eða þá hvenær.

Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því að þetta hafi vond áhrif á efnahagslífið. Það er nú rétt að halda því til haga að ef af stækkun verður í Straumsvík á næsta áratug og álveri á Norðurlandi mun það skapa störf fyrir 2.000–2.500 manns. Hagvöxtur verður 5–6% meiri en annars hefði orðið og ég vænti þess að það sé jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf. Það liggur líka fyrir að tekjur ríkissjóðs verða á bilinu 10–15 milljörðum meiri en annars hefði orðið.

Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af því hvað gerist með skuldbindingar okkar að því er varðar Kyoto. Fyrir liggur að ef af þessu verður í Straumsvík og fyrirhugaðri framkvæmd á Norðurlandi rúmast það ágætlega innan skuldbindinga okkar. Þá yrði það þannig að meðaltalslosun á umræddu tímabili yrði einhvers staðar í kringum 1.500 þús. tonn. Skuldbindingar okkar eru 1.600 þús. tonn.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um að nú eru í byggingu í heiminum álver sem munu nota raforku frá vatnsafli og gufu með ársframleiðslu 1.100 þús. tonn, álver sem fá raforku frá jarðgasi munu framleiða 1.450 þús. tonn og þau sem fá raforku fá kolaorkuverum munu framleiða fyrir tæplega 1 milljón tonn á ári. Það vill svo til að ef byggt er álver sem drifið er með kolum er um 14–15 sinnum meiri losun að ræða en með vatnsafli, með jarðgasi átta sinnum meiri. Það liggur náttúrlega fyrir að ef ekkert verður af neinum framkvæmdum hér á landi verður einfaldlega meira reist af álverum í heiminum sem drifin verða með kolum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að tala um hnattræn áhrif. Að halda því fram að það sé neikvætt fyrir umhverfismál í heiminum að við Íslendingar nýtum okkar vistvænu orku er náttúrlega algjörlega fráleitt. Ég hélt að hv. þingmaður hefði meiri áhuga fyrir hnattrænum áhrifum en eingöngu áhrifum hér á landi. Hann gerir mikið úr því að fólk hittist í New York, það er alveg skelfilegt að hans mati. Það er náttúrlega ekki hægt að vera með þessa einangrunarstefnu sem vinstri grænir eru með. Ég get upplýst hann um að það er engin framkvæmdaáætlun til af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda eru engar slíkar áætlanir í þessu landi. Það var í gamla Sovéthagkerfinu.

Það hefur ekki verið ákveðið neitt í þessu máli endanlega. Það standa yfir samningar (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hv. þingmaður fari nú að skilja það því að (Forseti hringir.) fyrir tíu dögum spurði hann nákvæmlega sömu spurninganna.



[13:47]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir sú niðurstaða að komi til álversframkvæmda norðan lands sé Húsavík besti kosturinn. Það er út af fyrir sig skynsamleg niðurstaða og ágætt að hún liggi fyrir en þar með er bara hálf sagan sögð. Það er afstaða okkar í Samfylkingunni að á næstu tíu árum sé aðeins rými fyrir framkvæmdir í álversmálum upp á 250 þús. tonn og af því leiðir að það er ekki hægt að fara í alla þá uppbyggingu sem nú er í umræðunni. Þær mundu valda óbætanlegum ruðningsáhrifum í hagkerfinu og rúmast ekki innan skuldbindinga okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni vegna þess að það væri ekki hægt að endurnýja loftslagssamninga okkar með sama hætti ef þetta yrði að veruleika.

Forsætisráðherra sagði í tilefni af áliti Fitch Ratings að það væri ekki svigrúm fyrir allar þessar framkvæmdir og nú er komið að því að taka ábyrgð á þeim orðum. Álfyrirtækin verða að fá skýr skilaboð um að hér verði ekki boðið upp á frjálsa nýtingu takmarkaðra auðlinda í lofti eða á láði. En aðalatriði málsins er þó það að okkur liggur ekkert á, það er enginn atvinnubrestur í landinu og ég tel því að nú eigi að gera hlé á ákvarðanaferlinu um ný álver, gera þær náttúrufarskannanir sem nauðsynlegar eru vegna nýtingar jarðvarma og skoða ítarlega alla virkjunarkosti sem til álita koma. Að því loknu á að velja þann kost sem hagkvæmastur er fyrir þjóðina.

Ég tel líka að það eigi að skoða það af fullri alvöru hvort fara eigi nýjar leiðir í þessum málum, að afnema þær ívilnanir sem virkjanir og stóriðjufyrirtæki hafa notið og gera kröfu til þess að greitt verði fyrir aðganginn að náttúruauðlindunum. Það er tímabært að stóriðjuframkvæmdir búi við sömu starfsskilyrði og aðrar atvinnugreinar í landinu.



[13:49]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Stóru tíðindin frá því í gær voru þau að Alcoa ætlar að halda áfram að undirbúa álver á Íslandi og taka mið af því að það verði við Húsavík. Þetta eru stóru tíðindin, þetta eru stórtíðindi fyrir Húsvíkinga og þá sem þar búa í nágrenninu en fyrir okkur hin eru þetta ekki stórtíðindi. Þetta eru ekki þannig tíðindi að við þurfum að taka tillit til þess í þeim útreikningum sem við erum að vinna að í fjármálaráðuneytinu því að það liggur engin ákvörðun fyrir í þessum efnum.

Það liggur heldur ekki fyrir ákvörðun um það að stækka eitthvert annað álver og þar af leiðandi höfum við heldur ekki forsendur til þess að taka tillit til þess í útreikningum okkar og langtímaáætlunum. Það er hins vegar athugunarvert að horfa á langtímaáætlanir okkar því þær gera ráð fyrir því að þegar álversframkvæmdum lýkur á þessu ári muni hagvöxtur falla úr 5% í 2,5% á næsta ári og að því er menn best geta spáð verða 2,5% á árunum 2008 og 2009 líka.

Þetta er talsvert minni hagvöxtur en við höfum búið við að jafnaði frá því árið 1995 en einmitt á því tímabili hafa staðið yfir talsvert miklar álversframkvæmdir. Það er stefna ríkisstjórnarinnar og það er stefna Sjálfstæðisflokksins að nýta innlendar orkuauðlindir og að því er unnið eftir því sem kostur er og rétt þykir. Ákvarðanir þarf hins vegar að taka á eðlilegan hátt. Því er rangt hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn sitji á áhorfendabekkjunum.

Það var hins vegar athyglisvert að heyra málflutning formanns Samfylkingarinnar og ég velti því fyrir mér hvort ég og aðrir Hafnfirðingar eigum að skilja málflutning hennar þannig að best sé að hætta við þær samningaviðræður sem Alcan stendur nú í við Landsvirkjun varðandi hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík.



[13:52]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um stóru tíðindin. Það eru sannarlega stór tíðindi. Í gær var okkur sagt frá 250 þús. tonna álveri á Bakka og það er talað um Helguvík með álíka stærð. Það er verið að stækka Norðurál, það er verið að byggja nýtt álver á Austurlandi og það er verið að tala um stækkun í Straumsvík. Þetta eru mikil tíðindi.

Ég vil samgleðjast íbúum á Austfjörðum og Norðurlandi eystra annars vegar með að fá að sjá atvinnu á svæðinu og hins vegar að fá von, en ég vil minna á það að vonir fyrir austan voru mjög rýrar í roðinu til þess að lifa á um langan tíma og Norðurland eystra er ekki með þessi spil í hendi enn þá.

Frjálslyndi flokkurinn styður skynsamlega nýtingu orkulinda þó með þeim fyrirvara að umhverfimat verði gert og náttúran njóti vafans í öllum tilvikum. En af hverju eru menn að gleðjast yfir að fá þarna atvinnutækifæri? Það er vegna þess að atvinna á landsbyggðinni, atvinnutækifærum á landsbyggðinni hefur fækkað stórlega, fólkinu hefur fækkað og eftir sem áður, þrátt fyrir fámenni, þá er ekki atvinna fyrir alla. Þess vegna gleðjast menn. Það er vegna þess að stefna stjórnvalda hefur leitt til þess að það er nánast hrun á landsbyggðinni. Á að bregðast við því með fleiri álverum? Á að setja álver á Norðurland vestra, á Vestfirði, á Vesturland? Er þetta lausnin á byggðavandanum?

Ég held að það væri betra að líta aðeins nær og skoða þær auðlindir sem við höfum, ekki bara jarðvarmans og vatnsorkunnar heldur líka til þeirra náttúruauðlinda sem við eigum að virkja. Við eigum að nýta einstaklingsframtakið eftir því sem unnt er og nota það okkur til framdráttar. Samfélag sem byggir eingöngu á verksmiðjurekstri er og verður fátæklegt samfélag. Álglýjan hefur byrgt okkur alla sýn á skynsamlega nýtingu auðlinda okkar hér á Íslandi.



[13:54]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst hvert stefnir. Af máli hæstv. forsætisráðherra má auðvitað ráða að það eigi ekki að gefa neitt eftir í þessum málum. Það er ljóst að álversframkvæmdir á Húsavík og möguleg stækkun í Straumsvík og að öllum líkindum hin frjálsu viðskipti á Suðurnesjum, eins og bæjarstjóri Reykjanesbæjar kallaði það í morgun varðandi álver í Helguvík ganga öll eftir. Það er líka ljóst að álveri á Húsavík er ekki ætlað að taka til starfa fyrr en eftir 2012 eða eftir fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar, eftir að því tímabili er lokið.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða losunarheimildir ætlar hann að vera búinn að sækja í rann loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir þann tíma? Það er alveg ljóst að álver blása meiru út í loftið en koltvísýringi. Koltvísýringurinn er það eina sem er undanþegið í bókunarákvæðinu okkar, hinu íslenska ákvæði. Það eru PSC-efnin ekki og íslensk stjórnvöld eru að gera sér vonir um að álverin sem við erum að reisa hér geti takmarkað útstreymi sitt á PSC-efnunum en ég sé ekki að allt þetta eigi að ganga eftir. Ég sé ekki hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að láta þetta ganga upp á sama tíma og það er ljóst að Alcoa er að reisa álver í Fjarðabyggð sem losar 12 kíló af brennisteinsdíoxíði á hvert brætt áltonn á sama tíma og Alþjóðabankinn lánar ekki út á verkefni sem fara yfir eitt kíló brennisteinsdíoxíði á hvert brætt áltonn. Hér hangir því svo margt á spýtunni og það er svo flókið að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta þessi áform ganga eftir.

Síðan má náttúrlega nefna það að fréttatilkynning sú sem gefin var út frá Alcoa í gær gefur það auðvitað til kynna að stjórnvöld róa hér á bak við. Þetta er allt merkt og stimplað af stjórnvöldum í bak og fyrir, öll þessi áform, þannig að þetta er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í álversuppbyggingum.



[13:56]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að fagna þeim áfanga sem náðist í gær þegar gengið var frá samningi milli ríkisstjórnarinnar og Alcoa um undirbúning að byggingu álvers við Húsavík og ég lýsi þeirri von minni að af þeim framkvæmdum verði.

Andstæðingar uppbyggingar atvinnulífs á þessu sviði finna álverum flest til foráttu. Skemmst er að minnast geðillskunnar sem gaus úr munni foringja Vinstri grænna í gær og sendir hann m.a. flokksfélögum sínum á Norðurlandi tóninn vegna stuðnings þeirra við málið þannig að það er greinilegur klofningur á þeim bænum.

Því er haldið fram að stórframkvæmdirnar á Austurlandi séu meginorsök þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslensku efnahagslífi og séu að ganga að útflutningsgreinunum nánast dauðum. Þetta er auðvitað alrangt og hreint áróðursbragð. Það liggur fyrir að áhrif framkvæmdanna eru lítil í efnahagslegu tilliti, aðrir þættir hafa þar mun meiri áhrif. Það er ljóst að mikil umsvif á fjármálamarkaði eru megináhrifavaldur í þessu efni.

Eftir áralanga stöðnun í atvinnulífi landsmanna var á sínum tíma ráðist í uppbyggingu Norðuráls í Hvalfirði. Sú framkvæmd réði hvað mestu um það að hjól atvinnulífsins fóru að snúast á nýjan leik og upp frá því urðu miklar framfarir í efnahags- og atvinnulífi. Við höfum haldið áfram á þeirri braut með öðrum verkefnum og nú hillir undir framhald á því með álveri við Húsavík. Ef af verður munu framkvæmdirnar á Húsavík ekki hefjast fyrr en árið 2010 — þær munu ekki hefjast á morgun.

Ýmsir hafa haft efasemdir um efnahagskerfið að það þoli þá framkvæmd en ég er þess fullviss að slíkar áhyggjur eru ástæðulausar. Með framkvæmdinni sjáum við fram á áframhaldandi góðan hagvöxt í allmörg ár og auknar útflutningstekjur varanlega til framtíðar.



[13:58]
Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég fagna ákvörðun um ítarlega könnun á hagkvæmni þess að byggja stóran vinnustað á Norðurlandi og nýta jarðorku svæðisins til þess og tel að valið á Bakka við Húsavík sé skynsamlegasti kosturinn út frá atvinnu- og byggðasjónarmiðum. Tímaramminn er líka heppilegur og góður út frá stöðu efnahagsmála og öðrum tímasettum stórframkvæmdum sem flestar hverjar verða á höfuðborgarsvæðinu næstu árin og fram að hugsanlegri álversbyggingu á Húsavík. Mikil samstaða Húsvíkinga og nágranna skiptir auðvitað sköpum og það er líka mikilvægt að atvinnurekendur finni sig velkomna á viðkomandi svæði. Ef af þessu verður mun þetta hafa gríðarlega jákvæð áhrif á byggðaþróun í Þingeyjarsýslu og nágrenni og teygja anga sína til Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins alls með tilkomu Vaðlaheiðarganga vonandi á næstu árum. Þetta verkefni snertir því stóran hluta Norðurlands.

Virðulegi forseti. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er orðin „ný auðlind“ innan gæsalappa og meira að segja takmörkuð auðlind ef svo má að orði komast. Þessari auðlind á því að skipta sem jafnast milli landshluta og landsmanna enda sameiginleg eign okkar allra. Einn þriðja hluta af þessum kvóta okkar er eytt hérna á höfuðborgarsvæðinu, bæði Straumsvík og í Hvalfirði. Svipuðum hluta verður eytt fyrir austan með tilkomu Fjarðaráls. Þá er u.þ.b. einn þriðji hluti eftir sem ég tel að eigi að koma í hlut Norðlendinga og fellur Húsavíkurverkefnið þar vel að.

Að lokum þetta, virðulegi forseti: Ég tel og vona að þessi ákvörðun verði til þess að sætta ólík sjónarmið og að sátt geti myndast um þessa framkvæmd milli náttúruverndarsinna og þeirra sem vilja efla landsbyggðina og sporna gegn frekari náttúruspjöllum með áframhaldandi fækkun íbúa landsbyggðarinnar. Ég fagna því líka, virðulegi forseti, að ýmsir ráðherrar eru farnir að draga í land hvað varðar fjölda álvera sem á að byggja hér á næstu árum. Það eru mikilvæg skilaboð inn í efnahagslíf landsmanna.



[14:00]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var mikil gleði og ánægja á Húsavík í gær þegar Alcoa kynnti staðarvalsákvörðun sína. Lagið New York, New York var spilað á mikilli hátíð Þingeyinga í tilefni af því að ríkisstjórn Íslands og Alcoa hafa undirritað samkomulag í New York um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt 250 þús. tonna álver á Bakka við Húsavík.

Í framhaldinu verðum við að vona að það gangi vel að semja um orkuverð. Það ætti að geta legið fyrir í haust. Rannsóknarholur verða boraðar í sumar sem nýtast munu væntanlegri virkjun. Á næstu þremur árum munu svo fara fram rannsóknir og undirbúningur sem hleypur á milljörðum ef tekst að semja um orkuverðið. Það eitt mun strax hafa mikil áhrif á öll umsvif á Norðurlandi. Helmingur orkuafhendingarinnar á að geta farið fram 2012 og næsti áfangi er svo 2015. En hvernig sem á það er litið mun fara í gang á Norðurlandi mikið uppbyggingartímabil sem mun taka yfir næstu tíu ár ef vel tekst til um orkusamninga. Orkan verður jarðvarmaorka og það ætti að kæta þá sem mest hafa barist gegn vatnsaflsvirkjunum.

Sú bjartsýni og framkvæmdagleði sem fylgir ákvörðunum þeim sem þegar er búið að taka er strax farin að segja til sín á Húsavík eins og komið hefur fram í fréttum hvað varðar ásókn í fasteignir með tilheyrandi hækkunum á fasteignaverði. Álver eru góðir vinnustaðir, það sýnir sig af reynslunni í Straumsvík og á Grundartanga. Það þýðir ekkert að hrista höfuðið yfir því, þannig er það. (Forseti hringir.) Starfsmannaveltan í þessum fyrirtækjum segir sína sögu.



[14:02]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það þurfti að sjálfsögðu ekki að koma á óvart að það brytist út mikill fögnuður á Húsavík í gær þegar þessar fréttir bárust. Það er nú einu sinni þannig að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins hefur því miður orðið að sætta sig við vonbrigði á vonbrigði ofan allt of mörg undanfarin ár. Vegna hvers? Jú, vegna gersamlega mislukkaðrar byggðastefnu stjórnvalda, vegna gersamlega mislukkaðrar sjávarútvegsstefnu stjórnvalda þar sem hvert klúðrið hefur rekið annað. Þetta hefur að sjálfsögðu brotið niður byggðirnar og eyðilagt drauma fólks um framtíð og að sjálfsögðu fagnar það því nú þegar talað er um að það eigi að fara út í könnun á því að reisa 250 þús. tonna álver við Húsavík. Það er að sjálfsögðu full ástæða til þess að óska Húsvíkingum og öllum sem búa í Þingeyjarsýslum og á norðaustanverðu landinu til hamingju með þetta. Fólk verður jú að hafa vinnu, fólk verður að geta brauðfætt sig og sína. Þess vegna er það ekkert undarlegt að fólk skuli gleðjast yfir tíðindunum.

Mér finnst hins vegar svolítið undarlegt að horfa upp á ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra í New York í aðalstöðvum erlends auðhrings. Mér finnst það umhugsunarvert. Hvers vegna látum við Íslendingar útlendinga ráða ferðinni í þessum efnum? Hvar eru allir íslensku fjárfestarnir með alla sína milljarða sem nú eru í útrás? Af hverju fjárfesta þeir ekki í álverum hér á landi? Hér er fyrir hendi mikil þekking í framleiðslu á áli. Það eru fyrirtæki sem framleiða hátæknibúnað til að nota í álverum. Af hverju getum við Íslendingar ekki átt þessi álver sjálfir og rekið þau á okkar eigin forsendum og þannig séð til þess að hagnaðurinn af rekstri þessara fyrirtækja verði eftir í landinu, ekki bara tekjur fyrir vinnu og selda þjónustu?



[14:05]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sjaldan mun eins mikið hafa verið haft við og í þessari utanför til New York af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það var ekki einvörðungu svo að með í för væru sveitarstjórnarmenn að beiðni ríkisstjórnarinnar heldur voru allir æðstu yfirmenn í iðnaðarráðuneytinu í föruneyti ráðherrans. Og það finnst forsætisráðherra Íslands hið besta mál að þessi hópur skuli taka við skipunum, krjúpandi við borð auðhrings í New York. Mér finnst ákaflega dapurlegt að hlýða á þessa umræðu.

Ekkert hefur breyst, segir ráðherrann enn fremur. Við erum sem sagt enn þá með á borðinu álstefnu Framsóknarflokksins, að fara úr 300 þús. tonna framleiðslu í 1,5 milljónir, ekkert hefur breyst. Engin tíðindi, segir síðan fjármálaráðherra, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, við þessa umræðu, engin tíðindi.

Ég get fullvissað hann um það að mönnum þykja þetta tíðindi í íslenskum sjávarútvegi og mönnum þykja þetta tíðindi í tæknifyrirtækjunum sem eru að hrökklast úr landi vegna þessarar stefnu. Íslenskum sjómönnum þykja þetta tíðindi, hæstv. fjármálaráðherra, því að með þessum yfirlýsingum einum lækkuðu tekjur þeirra við gengisbreytingarnar í gær. Þetta eru staðreyndir og þetta þykja Íslendingum vera tíðindi þótt menn séu hér sofandi.

Við erum ekki á áhorfendabekkjunum, segir hæstv. fjármálaráðherra. Við héldum það mörg að Sjálfstæðisflokkurinn hefði setið á áhorfendabekkjunum en þó að Framsókn dragi álvagninn þá er það svo að þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir stopp þá stöðvast sá vagn. Og nú höfum við fengið það staðfest frá Sjálfstæðisflokknum að þetta er allt saman með hans blessun.

Að lokum þetta, (Forseti hringir.) hæstv. forseti: Við stöndum frammi fyrir valkostum. (Forseti hringir.) Spurningin er ekki um störf, heldur hvar störfin eru búin til. Viljum við (Forseti hringir.) fjölbreytni á Íslandi eða viljum við setja alla í stóriðjuálið?



[14:07]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Svo að því sé nú haldið til haga þá er viðskiptaráðstefna í New York sem m.a. mun hafa verið tilefni þess að hæstv. viðskiptaráðherra er þar staddur.

Mér finnst þetta hafa verið afskaplega athyglisverð umræða. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er nú hér í hliðarsal, vill fresta þessu öllu saman. Síðan kemur hv. þm. Kristján Möller og vill engu fresta. Af hverju á að fresta öllu saman? Hvað er verið að tala um að nýta? Það er verið að tala um að virkja í Þjórsá virkjanir sem þegar hafa farið í gegnum umhverfismat. Það er verið að tala um að virkja við Kröflu og í Bjarnarflagi og rannsaka svæðið á Þeistareykjum. Af hverju þarf að fresta því? Hver er ástæðan fyrir því að það þarf að fara að fresta því?

Við þurfum hins vegar að svara þessari spurningu: Erum við tilbúin til þess að sætta okkur við að hagvöxtur verði hér á næsta kjörtímabili — og mér skilst að það séu nú ýmsir sem ætli að komast til valda þá — á bilinu hálft til eitt prósent lægri að meðaltali ef ekkert verður af neinum þessara framkvæmda? Erum við tilbúin til þess að sætta okkur við það að tekjur ríkissjóðs verði 10–15 milljörðum lægri? Ég býst við því að það standi í hv. þingmönnum. Nei, það stendur ekki í öllum. Sennilega er þá hv. þingmaður, og hv. þingmenn Vinstri grænna líka, tilbúinn til að sætta sig við vaxandi atvinnuleysi á næsta kjörtímabili. Það er ekki hægt að dæma allt út frá (Gripið fram í.) deginum í dag.

Ég sagði hér, hv. þingmaður, að þetta væri spurningin um 2.000–2.500 störf. Það þýðir ekki að koma hér skipti eftir skipti og segja: Við verðum bara að gera eitthvað annað. Þá verður hv. þingmaður að koma hérna einhvern tíma og skýra frá því hvað það er.