132. löggjafarþing — 75. fundur
 2. mars 2006.
tekjustofnar sveitarfélaga, 1. umræða.
frv. SJS o.fl., 141. mál (hámark útsvarsheimildar). — Þskj. 141.

[14:10]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta frumvarp flytur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en 1. flutningsmaður er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og tala ég fyrir því í hans fjarveru.

Þetta frumvarp felur í sér þá breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að heimildir sveitarfélaganna til álagningar útsvars eru rýmkaðar um eitt prósentustig, færðar úr 13,03% í 14,03% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í viðeigandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarpið er upphaflega flutt í beinum tengslum við lögfestingu áforma ríkisstjórnarinnar um að halda áfram lækkun tekjuskatts um sama hundraðshluta, þ.e. eitt prósentustig, en samanlagt álagningarhlutfall tekjuskatts og hámarks útsvarsheimildar mun haldast óbreytt nái frumvarpið fram að ganga. Með öðrum orðum erum við einvörðungu að ræða um tilfærslur frá ríki til sveitarfélaga á skattpeningum. Hvergi yrði því um skattahækkun að ræða en lækkunin réðist af því í hve miklum mæli sveitarfélögin nýttu sér aukið svigrúm til útsvarshækkunar á móti lækkun á tekjuskatti til ríkissjóðs. Sams konar frumvarp var flutt á síðasta þingi, þ.e. 131. löggjafarþinginu, í tengslum við þá skattalækkun sem þá var fram undan og tók gildi 1. janúar 2005. Það frumvarp náði ekki fram að ganga. Ekki er síður þörf nú en þá að gripið verði til róttækra aðgerða til að bæta óviðunandi afkomu sveitarfélaganna. Engin varanleg úrlausn er fólgin í þeim takmörkuðu og tímabundnu aðgerðum sem niðurstaða síðustu endurskoðunarnefndar um tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, þá loksins hún leit dagsins ljós í marsmánuði árið 2005, felur í sér. Þær tillögur eru að mestu bundnar við ráðstafanir sem hanga á því að sveitarfélög sameinist og framlögin verði að stærstum hluta tímabundin.

Það er skoðun flutningsmanna að ekki verði undan því vikist að grípa til ráðstafana til að bæta stöðu sveitarfélaganna. Afkoma þeirra, sem vissulega er mismunandi, er í það heila tekið óviðunandi og hefur verið svo lengi. Þannig hafa sveitarfélögin sem heild verið gerð upp með halla og safnað skuldum nokkurn veginn samfellt í einn og hálfan áratug. Og á sama tíma og ríkið hefur létt skuldbyrðinni af sér og greitt niður skuldir hefur hlutskipti sveitarfélaganna, einkum þeirra sem standa verst að vígi, versnað að sama skapi. Teljist ríkissjóður aflögufær um skatttekjur, sem vissulega má deila um, hlýtur að vera nærtækast að færa þær tekjur, a.m.k. að einhverjum hluta, yfir til sveitarfélaganna. Á sveitarfélögunum standa miklar og vaxandi kröfur um þjónustu. Þau hafa tekið við ýmsum nýjum verkefnum og fengið á herðar sínar nýjar skyldur, t.d. á sviði umhverfismála sem snerta eftirlit og leyfisveitingar, sem ekki hafa fylgt auknir tekjumöguleikar. Í samskiptum við ríkisvaldið virðist sífellt sækja í það far að það halli á sveitarfélögin.

Með yfirtöku kostnaðarsamra málaflokka hafa sveitarfélögin, hvað sem líður deilum um fullnægjandi tekjustofna á móti, óumdeilanlega fengið með í kaupunum miklar væntingar um úrbætur og aukin útgjöld, eins og sannast í tilviki grunnskólans. Í ýmsum samstarfsverkefnum hallar og á sveitarfélögin með því að ríkið bindur kostnaðarþátttöku sína við framlög á fjárlögum sem oftar en ekki hrökkva hvergi nærri fyrir því kostnaðarhlutfalli sem ríkinu er að nafninu til ætlað að standa straum af. Dæmi um þetta eru húsaleigubætur. Svipaða sögu er einnig að segja af ákveðnum stofnkostnaðarverkefnum þar sem ætlunin er að ríki og sveitarfélög deili kostnaðinum. Óraunhæf kostnaðarviðmið eða norm valda því að ríkið leggur iðulega minna af mörkum hlutfallslega að lokum en ætlunin er, jafnvel samkvæmt lögbundnu kostnaðarhlutfalli. Loks er þess að geta að sveitarfélögin hafa orðið fyrir tekjutapi vegna ákvarðana um mál, óskyld þeim, svo sem um hagstæðara skattalegt umhverfi einkahlutafélaga sem leitt hefur til mikillar fjölgunar þeirra og tekjutaps sveitarfélaganna í formi minni útsvarstekna á móti sem talið er nema milljarði króna eða liðlega það. Þetta var mjög til umræðu á sínum tíma þegar sköttum var breytt.

Svigrúm sveitarfélaganna til sjálfstæðra ákvarðana í uppbyggingu og rekstri og til umbóta, t.d. í félags- og umhverfismálum eða til að hlúa að nýsköpun í almennu atvinnulífi, er afar takmarkað eins og að líkum lætur í ljósi bágrar fjárhagsstöðu þeirra upp til hópa. Tilvist sveitarfélaganna einkennist af varnarbaráttu og sóknarfæri verða fá. Slíkt er óviðunandi því auðvitað þurfa sveitarfélögin að geta þróað og byggt upp þjónustu sína og tekið skref fram á við til eflingar velferðarsamfélaginu sem þau leggja ekki síst grunn að. Sem dæmi um slík verkefni má nefna það baráttumál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leikskóladvöl verði gerð gjaldfrjáls með sérstöku samstarfsverkefni sveitarfélaganna og ríkisins, en flutningsmenn þessa frumvarps flytja jafnframt um það tillögu á yfirstandandi þingi. Sama gildir um möguleika þeirra til að bæta kjör starfsmanna sinna og koma til móts við kröfur um launahækkanir, þó réttmætar og nauðsynlegar séu, til að sveitarfélögin geti verið samkeppnisfær um hæft starfsfólk. Sú spennitreyja sem sveitarfélögin eru í að þessu leyti kristallaðist í kennaradeilunni á síðasta ári og í nýafstöðnum samningum við starfsmannafélög innan sveitarfélaganna sem semja við launanefnd sveitarfélaganna. Þar kom í ljós hve misvel sveitarfélögin eru í stakk búin til þess að bæta kjör starfsmanna sinna. Sum sveitarfélög eru mjög aðþrengd hvað þetta snertir, önnur búa við betri kost. Alvarlegast er þó auðvitað að áframhaldandi fjárhagsvandi sveitarfélaganna grefur almennt séð undan þeirri mikilvægu nærþjónustu og þeim umhverfis- og velferðarverkefnum sem sveitarfélögin hafa með höndum. Þannig veikjast undirstöður velferðarsamfélagsins og sveitarstjórnir sjá sig jafnvel knúnar til óyndisúrræða eins og að selja eignir og láta af hendi aðstöðu sem þó er ómissandi fyrir undirstöðu samfélagsþjónustu á þeirra vegum. Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með því þegar sveitarfélögin hafa verið að selja frá sér ýmsa grunnþjónustu, nokkuð sem flestum á þeim bæjum hefur verið meinilla við en hafa ekki átt annarra kosta völ en að afla fjár með þessu móti.

Tekjutap ríkissjóðs vegna áformaðrar eins prósentustigs lækkunar tekjuskatts nemur nálægt fimm og hálfum milljarði kr., segir í greinargerð þessa frumvarps, þ.e. brúttó, en fjórum og hálfum milljarði kr. nettó. Sé heimild sveitarfélaganna til hækkunar útsvars aukin að sama skapi og fari úr 13,03% í 14,03%, þá gæfi það sveitarfélögunum svigrúm af sömu stærðargráðu til að auka útsvarstekjur sínar. Síðan er það spurning hvort sveitarfélögin mundu öll nýta þá heimild sem þessi lagabreyting opnaði á. Það er engan veginn víst að þau mundu öll gera það og það hefur verið allur gangur á því hve langt sveitarfélögin hafa gengið hvað þetta snertir. Auknar heimildir til innheimtu útsvars væri þó skref í rétta átt fyrir sveitarfélögin, það mundi auka nokkuð svigrúm þeirra og sjálfstæði hvað varðar tekjuöflun og ef slíkri aðgerð yrði fylgt eftir með breytingum á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs þannig að framlög sjóðsins nýtist til enn frekari tekjujöfnunar og jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaganna gæti það orðið til umtalsverðra bóta. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að auðvitað nýtast sveitarfélögunum misvel eðli málsins samkvæmt heimildir til hækkunar útsvars. Útsvarið er eftir sem áður langstærsti einstaki tekjustofn sveitarfélaganna, og skilar yfir 60% af tekjum þeirra, þannig að eigi að gera umtalsverðar ráðstafanir til að auka tekjur þeirra er erfitt annað en útsvarið komi þar a.m.k. við sögu.

Ég hef stuðst við greinargerð sem fylgir þessu frumvarpi í framsöguræðu minni með frumvarpinu. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir skattkerfisbreytingum á liðnum missirum og enn fleiri eru í pípunum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur varað við þeirri vinnuaðferð sem ríkisstjórnin hefur notað. Við höfum einn flokka haft efasemdir um að lækka skatta, þ.e. að draga úr tekjum ríkis og sveitarfélaga, einfaldlega vegna þess að við viljum hafa fjármuni til ráðstöfunar til að sinna þeim verkefnum sem eru félagsleg í eðli sínu og við viljum að sé á hendi ríkis eða sveitarfélaga og þá þurfum við að sjálfsögðu að sjá þeim fyrir tekjustofnum.

Nú er það svo að ríkið er sæmilega vel haldið nú um stundir og skattalækkanir, þ.e. prósentulækkanir á sköttum, hafa ekki komið að sök. Reyndar hafa menn verið að deila um skattbyrðina og hafa menn þá einnig horft til persónuafsláttar, skattleysismarkanna. Menn hafa bent á að skattbyrðin hafi ekki lækkað með lægri prósentu, einfaldlega vegna þess að skattleysismörkin hafi ekki fylgt launum. Þegar litið er til langs tíma þurfi að horfa einnig til þess þegar skattbyrðin er mæld. Hitt er svo annað mál og um það velkist ég ekki í vafa að sú ríkisstjórn sem nú situr stefnir að því að lækka skatta í landinu og hún beitir þá þeim rökum að lægri skattbyrði þurfi ekki að leiða til minni skattheimtu þegar upp er staðið. Þetta eru röksemdir sem vert er að ræða og alltaf spurning hvar eigi að finna skurðarlínuna en ég bendi á að við megum ekki láta blindast af því ástandi sem við búum við nú, miklar skatttekjur ríkissjóðs, vegna þess að það eru að hluta til nokkuð sem kallað hefur verið þensluskattar sem þessu valda. Mjög mikill innflutningur skilar t.d. verulegum tekjum í ríkissjóð. Ef hann síðan drægist saman, ef okkur tækist með öðrum orðum að minnka viðskiptahalla þjóðarinnar, sem er hættulega mikill eins og við vitum, þá mundu tekjur ríkissjóðs dragast saman að sama skapi. Þá er spurningin: Hvar höfum við stillt skattamörkin, hvar höfum við stillt skatttekjurnar, hversu traustir eru tekjustofnarnir? Rísa þeir undir þeim skuldbindingum sem við viljum leggja á samfélagið, hvort sem er ríki eða sveitarfélög?

Þarna viljum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fara mjög varlega enda leggjum við áherslu á að ríki og sveitarfélög séu vel í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað að gera. Við leggjum áherslu á að hlutur sveitarfélaganna hefur verið vanræktur hvað þetta snertir í seinni tíð og það er kannski sérstök ástæða til að velta því fyrir sér núna þegar menn eru að ræða um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni að það er einmitt þarna sem skórinn kreppir, þ.e. í fjárhagsvanda sveitarfélaganna á landsbyggðinni. Það er einmitt þar sem sveitarfélögin búa við erfiðastan kost. Okkar frumvarp miðar að því beinlínis að bæta kjör þessara sveitarfélaga.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þetta frumvarp gangi til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.



[14:25]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér athyglisvert frumvarp til laga um það að heimila sveitarfélögum að hækka útsvarsstofn sinn úr hámarki núna 13,03% í 14,03%. Ég segi athyglisvert vegna þess að þetta eykur á sjálfsforræði sveitarfélaganna og ég er hlynntur því, herra forseti.

Við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga hafa skatttekjur verið fluttar með, útsvarsprósentan hefur verið hækkuð en skattprósenta lækkuð. Fyrir hinn venjulega borgara sést þetta ekki dagsdaglega því að hann borgar sína staðgreiðslu, bæði í útsvar og ríkissjóð, og flestir vita ekki að þeir borga útsvar af fyrstu krónu, það er almennt ekki vitað — þ.e. að ríkið borgar fyrir þá útsvarið af fyrstu krónu þannig að það er enginn persónufrádráttur í útsvarinu. Ríkið fer því ekki að fá skatt af tekjum fólks fyrr en við 107 þús. kr., eitthvað svoleiðis. Þessi flutningur verkefna hefur reynst mjög dýr og ráðdeildarsamir borgarar hafa spurt sig hvort sveitarfélögin séu eins ráðdeildarsöm og borgararnir sjálfir sem þurfa að gæta sín í peningamálum í húshaldinu.

Einhvern tíma steig fram maður og spurði: Hver vill ekki borga hærri skatta? Hann var svo sannfærður um að allir mundu vilja borga hærri skatta, sá maður, skrifaði um það grein. Ég er nú ekki alveg viss um það, herra forseti. Ég hygg að mjög margur Íslendingurinn telji sig betur geta ráðstafað sínum peningum en með einhverjum kjörnum fulltrúa í sveitarstjórn eða á Alþingi og fari miklu, miklu betur með og kunni miklu betur að fara með.

Í þessu frumvarpi felst, vegna þess að það er tilhneiging hjá sveitarfélögum að fara upp í hámarkið, þau trúa því væntanlega að allir vilji borga hærri skatta, að prósentan mundi fljótlega hækka. Það er alltaf nóg að eyða peningum í, hvort sem það eru feikidýr íþróttamannvirki eða mjög ríflegar hækkanir launa opinberra starfsmanna í það og það skiptið o.s.frv. Það er alltaf hægt að setja peninga í einhver verkefni og þau eru yfirleitt góð og gegn.

Þetta frumvarp felur í sér að staðgreiðsla manna mun hækka um 1% á örskömmum tíma, það er mín spá. Það þýðir að meðalmaðurinn í ASÍ, sem er með 300 þús. kr. á mánuði fyrir harða og mikla vinnu, og kona hans munu borga 6 þús. kr. meira á mánuði í skatta. Auðvitað fáum við eitthvað af þessu til baka í aukinni þjónustu en það þarf þó ekki endilega að vera. Feikidýr íþróttamannvirki gefa yfirleitt ekki af sér meiri þjónustu.

Svo hafa sveitarfélögin auk þess farið í einkaframkvæmd og þannig dulið skuldbindingu á komandi kynslóðir, á börnin okkar. Þau hafa með þeim hætti búið til skuldbindingu sem börnin okkar munu þurfa að borga. Það er mjög miður að eftirlitsnefnd með sveitarfélögum skuli ekki hafa tekið á þessum vanda og spurt hreinlega: Hvað gerist ef þið viljið hætta þessu, ef þið viljið hætta að leigja þetta íþróttamannvirki, hvað gerist þá? Getur næsta sveitarstjórn hætt þessu?

Margir borgarar telja að búið sé að spenna bogann til hins ýtrasta í skattlagningu. Umræðan hefur verið dálítið undarleg núna undanfarið því að menn eru ýmist að tala um skattalækkun eða skattahækkun eftir því hvernig þeir líta á málið, en ég ætla nú ekki að fara út í það.

En ég ætla í sambandi við þetta frumvarp, af því að mér finnst það athyglisvert, að stinga upp á eftirfarandi hugmynd sem gæti tengst þessu. Hún er sú að sérhverri sveitarstjórn sé árlega skylt að leggja fram tvær fjárhagsáætlanir, annars vegar með miklum framkvæmdum, miklum hækkunum launa og háu útsvari o.s.frv. og hins vegar með minni framkvæmdum og minni hækkunum launa og a.m.k. 1% lægra útsvari. Borgararnir geti svo kosið hvort þeir vilja. Þá yrði sveitarstjórnunum veitt raunverulegt aðhald og þær yrðu að fara að sýna hagkvæmni og ráðdeildarsemi í rekstri, nákvæmlega eins og borgarinn sjálfur verður að gera heima hjá sér, nákvæmlega eins og hann verður að gera til þess að geta borgað þessa miklu skatta.

Ég reikna með því að flutningsmenn þessa frumvarps vilji náttúrlega bara sjá enn meiri samneyslu og enn meiri skatta. Ég veit nú ekki alveg hvar mörkin liggja hjá þeim, hvort þeir vilja taka hverja einustu krónu úr vasa launþegans og láta hann fá hana aftur í formi bóta og réttinda, eða hvar þeir mundu vilja stoppa. En mér sýnist að þeir vilji alltaf fá meiri og meiri skatta og seilast dýpra og dýpra ofan í vasa skattgreiðenda.



[14:31]
Pétur Bjarnason (Fl):

Hæstv. forseti. Afkoma sveitarfélaga er frekar slæm og hefur verið um nokkuð langa hríð og farið versnandi. Ég tek undir með nafna mínum að það er ágætt að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa gengið fram í því síðastliðinn áratug að draga til sín aukin verkefni og semja um það við ríkisvaldið hvernig með skuli fara. Ég tel hins vegar að í mörgum tilvikum hafi sveitarstjórnarmenn gengið of hart fram af löngun sinni til að fá aukin verkefni og hreinlega samið af sér. Það virðist vera að svo hafi verið gert vegna þess að eftir því sem umsvif þeirra hafa aukist og þau hafa fengið meira til sín hefur staðan versnað. Einhvers staðar liggur eitthvað á milli hluta.

Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, að hækka hlut sveitarfélaga um 1% og hækka með því skattheimtu um 1%. Ég er ekki sammála þessari leið og ég tel að við eigum ekki að létta þeirri ábyrgð af ríkisvaldinu eða af sveitarfélögunum að semja sjálf um mál sín á milli. Það hlýtur að verða að finna réttan flöt á því hvaða verkefni ríkið á að hafa með höndum og hvaða verkefni sveitarfélög eiga að hafa með höndum, og þeir sem það ákveða verða jafnframt að koma sér saman um þá skiptingu sem verður á tekjustofnum til að hægt sé að halda þessu uppi. Ég held að það sé alveg ófrávíkjanlegt.

Það er fleira sem kemur til og veldur vandræðum sveitarfélaga. Ég get t.d. nefnt að þrátt fyrir að fasteignaverð hafi farið mjög hækkandi á þessu svæði og víða í nágrenninu og á stærstu þéttbýliskjörnum annars staðar, svo og á Austurlandi þar sem stóriðja kemur til, hafa tekjur sveitarfélaga víðs vegar í dreifbýli stórlækkað vegna þess að íbúðir hafa stórlækkað í verði og þau hafa ekki haft möguleika á að hafa jafnmiklar tekjur af fasteignasköttum og ella væri. Það er hlutur sem mætti skoða verulega. Því þrátt fyrir að tekjurnar af fasteignasköttunum séu svona lágar eru skyldurnar sem sveitarfélagið hefur við fasteignaeigendur nokkurn veginn þær sömu. Það þarf að annast fráveitumál, gatnagerð og allt það sem til þéttbýlisins heyrir. Svoleiðis að þarna er einn hlutinn.

Það var svolítið merkileg hugmynd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með um tvær fjárhagsáætlanir. Að hafa hámark og lágmark. Út af fyrir sig er það athyglisverð spurning hvort íbúarnir ættu ekki að hafa eitthvert forræði í því sem gert verður. En eins og er er forræði íbúanna fólgið í kosningu manna til þessara hluta á fjögurra ára fresti. Þessi hugmynd er samt alveg þess virði að velta henni fyrir sér og það má segja að hv. þingmaður sé þarna að leggja til einhvers konar þjóðval og þjóðaratkvæði, svona í smærri stíl. Margir eru hlynntir því. En það er ekki nóg að gera fjárhagsáætlanir. Það þarf líka að gera þær sannar og réttar og sjá til að þær standist. Það hefur stundum verið svolítill misbrestur á því hjá sveitarfélögum líka.

En ég vildi nú, frú forseti, fyrst og fremst koma hérna upp til að lýsa því að ég tel þetta ekki rétta leið, að hækka skattana með þessu móti í heildina. Ég tel að sveitarfélögin og ríkið eigi að semja um hlutfall tekna sín á milli eftir því hvaða þarfir eru skilgreindar hvorum megin. Hins vegar gæti ég rætt heilmikið um skattamál yfir höfuð. Frjálslyndi flokkurinn hefur ákveðna stefnu í skattamálum. Við höfum haldið því fram að persónuafsláttur ætti að vera hærri. Við höfum haldið því fram að tekjutengingar t.d. við maka séu of miklar. Við höfum haldið því fram að jaðarskattar séu allt of miklir og við höfum haldið því fram að aldraðir eigi að hafa möguleika á atvinnufrelsi, þ.e. án þegnskylduvinnu. Sú umræða hefur farið fram víða í þjóðfélaginu og hér líka að tekjulágir aldraðir einstaklingar sem eru á bótum frá Tryggingastofnun fá um 1.800 kr. af hverjum 10.000 kr. sem þeir vinna fyrir, umfram þessar bætur sínar. Minnsta kosti þær fyrstu. Þetta er alvarlegt mál og það mætti taka umræðu um skattamál á þessum grunni. En ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri.



[14:36]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar menn ræða um skattheimtu til sveitarfélaganna hefur hér í sölum Alþingis ævinlega svifið furðuleg forræðishyggja yfir vötnum. Ég hef þá skoðun að sveitarstjórnarmenn beri pólitíska ábyrgð ekkert síður en alþingismenn. Þess vegna þurfa tekjustofnar sveitarfélaganna að hafa þannig svigrúm að sveitarfélög, eða þeir sem þar hafa tekið á sig ábyrgð, geti sinnt þeim skyldum og hugðarefnum sem kjósendur á viðkomandi svæði hafa kosið þá til. Ég tel þess vegna að mörg sveitarfélög hafi lent í miklum erfiðleikum, og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, vegna þess að tekjurnar sem þau hafa haft til að sinna lögbundnum skyldum sínum hafa ekki dugað. Það er svo aftur spurning hvort hið opinbera eigi þá að hlaupa undir bagga með einhverjum hætti. Það er ekki bæði hægt að banna mönnum að bjarga sér og bregðast þeirri skyldu að koma til móts við þær þarfir sem eru fyrir hendi á svæðinu. Það er þess vegna sem ég tel að svigrúm sveitarstjórnarmanna til þess að taka ákvarðanir um álagningu gjalda þurfi að vera nægilegt til að standa undir skyldunum. Það er metið hér í Alþingi með þeim hætti að það er mjög umdeilanlegt. Ég er talsmaður þess að menn stækki sveitarfélögin. En meðan þau eru svona lítil verða menn að taka tillit til stöðunnar. Mörg sveitarfélög í þessu landi eyða núna allt upp í 90% af fjármunum sem þau hafa til ráðstöfunar eingöngu í skólamál. Þá sjá nú allir hvað er eftir til að gera alla aðra hluti sem eru á verksviði og falla undir skyldur sveitarfélaganna.

Ég mæli gegn þeirri forræðishyggju sem svífur hér oft yfir vötnunum hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna. Sveitarstjórnarmenn eiga að standa og falla með gerðum sínum. Þeir eiga að leggja fram sína stefnu um hvaða verkefni þeir vilja að verði unnin í sveitarfélögunum. Fólkið á auðvitað að kjósa nýja menn til starfa ef menn hafa ekki staðið við það sem þeir hafa sagt fyrir kosningar.

Síðan er ástæða til að velta því fyrir sér eftir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan, sem stakk upp á því að skylda sveitarfélögin til að leggja fram tvær fjárhagsáætlanir, aðra með mikilli þjónustu og háum gjöldum en hina með knappari hætti. Síðan ættu menn að kjósa um þetta í sveitarfélögunum. Mér þykir lýðræðisvakningin aldeilis hafa náð til Péturs úr því hann telur að árlega eigi menn að standa frammi fyrir einhverjum slíkum valkostum. Spurningin er hvort hann eigi ekki að snúa þessu að sjálfum sér sem ábyrgðarmaður hér á ríkisstjórn. Það gæti vel verið að fólkið í landinu hefði allt aðra skoðun á því hvað ætti að standa í fjárlögum hverju sinni heldur en hv. þingmaður hefur og þeir sem hafa verið meðreiðarsveinar hans í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það gæti t.d. vel verið að fólkið í landinu mundi í stórum meiri hluta komast að þeirri niðurstöðu að það ætti að setja verulega meiri fjármuni til að koma til móts við þarfir aldraðra í þessu landi en gert hefur verið. Ég er algjörlega viss um að þannig er það.

Það er auðvitað hægt að fagna því ef hv. þingmaður vill fara að hlusta eftir því sem fólkið í landinu vill með einhverjum slíkum hætti eins og þessum. Það er þá vel og mér finnst að það væri þá full ástæða til að rækta þessa umræðu við hv. þingmann. Kannski hefur hann verið að ræða þetta í sínum þingflokki og þar eru kannski vatnaskil á ferðinni, að þar ætli menn að fara að hlusta á grasið vaxa allt í kringum sig. Mér hefur ekki fundist að sú heyrn væri allt of næm sem þar hefur verið til staðar því það hefur alla vega legið fyrir mjög lengi að það hefur vantað fjármuni til ýmissa hluta í samfélaginu þó nógir séu þeir í annað. Ég mæli auðvitað með því að menn fylgist með því hvað fólkið vill en það hefur ekki verið gert á ríkisstjórnarbænum undanfarið.



[14:41]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Meginefni þessarar tillögu, sem hér er flutt af hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er að heimila hækkun á útsvari. Ástæðan fyrir þessari tillögu er öllum auðsæ. Hún felst í því að á síðustu árum hefur ríkið ekki staðið við fyrirheit um aukna tekjustofna sveitarfélaganna. Við höfum séð langdregnar samningaviðræður millum fulltrúa sveitarfélaganna og ríkisvaldsins á stundum við það að renna út í sandinn. Þegar lyktir urðu í því samningaþrefi var niðurstaðan þannig að ég tel að sveitarfélögin beri áfram mjög skarðan hlut frá borði. Þetta veldur því að sveitarfélögin eru rekin með vaxandi erfiðleikum í fjárhagslegu tilliti. Mörg þeirra eru ákaflega skuldsett. Flest þeirra, fyrir utan þau allra stærstu, þurfa að verja langstærstum hluta tekna sinna í þjónustu við íbúana. Eftir því sem fleiri verkefni færast yfir til sveitarfélaganna aukast líka kröfurnar á að bæta gæði þeirrar þjónustu. Við sjáum það t.d. í grunnskólanum. Hann var færður yfir. Það kom fram í máli hv. þm. Péturs Bjarnasonar að að líkindum hefðu sveitarfélög verið hlunnfarin í þeim flutningi. Það er hugsanlegt. Þau sættust þó á þetta á sínum tíma. En síðan þetta gerðist hafa kröfur íbúanna í sveitarfélögunum um bættan skóla aukist. Vegna þess að það er skemmra milli þeirra stjórnmálamanna sem taka ákvarðanir um þá þjónustu og þeirra sem njóta hennar er auðveldara fyrir íbúana að hafa áhrif. Þetta hefur leitt til þess að t.d. hér í Reykjavík, undir forustu Reykjavíkurlistans og þeirra flokka sem að honum standa, þá hefur grunnskólinn stórbatnað. Þetta þekki ég sem er foreldri tveggja lítilla telpna í einum af þessum skólum. Ég ber það ekki saman hvað það miklu meira lagt sérstaklega í þau börn sem hafa ákveðnar sérþarfir. Ég fagna því. En þetta kostar peninga. Það er þess vegna ekki síst að sveitarfélögin hafa verið að óska eftir auknu fjármagni.

Aðrar breytingar hafa líka gerst fyrir tilverknað ríkisins sem hafa leitt til tekjufalls sveitarfélaga. Ég var nú einn af þeim sem ekki voru alveg sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni og fleirum í hans flokki um að liðka til fyrir stofnun einkahlutafélaga. Ég samþykkti það á sínum tíma en ég gerði mér hins vegar grein fyrir þessu. Ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bentum margsinnis á að þetta mundi leiða til ákveðins tekjufalls fyrir sveitarfélögin. Útsvarið sem þau fá í greiðslur minnkar. Það er einfaldlega svo. Það verður að meta að þetta sé um það bil 1,3–1,5 milljarðar á ári sem þetta þýðir í tekjutap. Það er alveg gríðarlega mikil breyting. Það er biti sem klípur verulega.

Þess vegna hygg ég að þeir þingmenn sem flytja þessa tillögu séu að velta fyrir sér ákveðnum möguleikum í að auka tekjustofnana. Menn hafa goldið varhuga við því. Hv. þm. Pétur Blöndal virtist vera því mjög andsnúinn og það er í stíl við skattstefnu Sjálfstæðisflokksins og viðhorf hans til þjónustu við íbúana. Ég velti því samt fyrir mér hvort það sé ekki rétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson var að segja hérna. Á ekki að draga úr forræðishyggju ríkisins gagnvart sveitarfélögum og láta hina kjörnu fulltrúa standa frammi fyrir kjósendum með þær ákvarðanir sem þeir taka? Það er hin lýðræðislega aðferð til að finna meðalhófið milli góðrar þjónustu og viðunandi skattstigs. Ég held t.d. að það væri hugsanlegt að fara þarna eitthvert ákveðið millistig. Innan Samfylkingarinnar höfum við stundum verið að ræða það að veita eigi heimild til sveitarfélaga til að hækka útsvar tímabundið til að standa fyrir ákveðnum stórverkefnum, t.d. byggingu íþróttahúss eða byggingu einhverra annarra mannvirkja sem íbúarnir telja þörf á. Þá yrði um að ræða tímabundna heimild, hún yrði tímasett áður en að ákvörðun er tekin og menn yrðu að standa við það. Ef slík tímabundin hækkun veldur síðan úlfúð í byggðarlaginu og mætir andstöðu þeirra sem þar búa kemur það væntanlega fram í næstu kosningum þar á eftir.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með athyglisverða hugmynd um að í reynd ætti að leggja fram tvær tillögur að fjárhagsáætlun á hverju ári. Íbúar gætu þá valið á milli. Þetta er tillaga sem er í reynd í ætt við beint lýðræði, hún er stig að beinu lýðræði. En þó ekki eins og ég get fellt mig við. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram bæði hugmyndir og tillögu, reyndar þingsályktunartillögu og jafnvel frumvarp, um að beint lýðræði verði tekið upp eða skref stigin í átt að því innan sveitarfélaga. Þá gætu íbúarnir með beinum hætti tekið mikilvægar ákvarðanir um mál sem varða þá miklu, stefnumótandi ákvarðanir í stórum málaflokkum. Við höfum t.d. nefnt umhverfismál, skipulagsmál og gæði skólaþjónustu. Við höfum líka reifað þann möguleika í tengslum við umræðuna um breytingu á stjórnarskrá, þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla hefur mjög komið til umræðu, að svipað ákvæði væri hugsanlega sett til að vernda rétt íbúanna að þessu leyti í sambandi við stjórnarskrána. En ég og ég held flestir sem hafa tekið þátt í umræðum um beint lýðræði af þessu tagi höfum alltaf dregið mörkin við eina ákveðna forsendu. Menn eiga t.d. ekki að fá að greiða atkvæði, teljum við, um fjárlög íslenska ríkisins. Sú afstaða hefur komið fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Að sama skapi er ég þeirrar skoðunar að ef menn fara þessa leið varðandi stjórn ríkisins eigi að reisa sömu skorður varðandi stjórn sveitarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja slíkar ákvarðanir í beina atkvæðagreiðslu sem fella mætti undir allsherjaratkvæðagreiðslu. Ég tel hins vegar að þetta skref hv. þm. Péturs H. Blöndals sé mjög áþekkt slíku.

Ég rifja það aðeins upp, frú forseti, að í Bandaríkjunum, þar sem ég hef skoðað mjög rækilega með hvaða hætti beint lýðræði er iðkað, er eitt mjög áberandi. Eftir að teknar voru upp í vaxandi mæli beinar kosningar um einstök mál, í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem kjósendur hafa farveg til að krefjast atkvæðagreiðslu um nánast hvaðeina, blasir ein tilhneiging við. Hún kom strax fram í Kaliforníu þar sem þetta var fyrst á dagskrá og fyrst iðkuð með vel útfærðum hætti. Upp koma hreyfingar og hópar sem berjast fyrir því að draga úr skattheimtu og fylgifiskur þess er alltaf minni þjónusta. Þar sem menn hafa með þessum hætti getað greitt atkvæði um skattstefnu, og það felst í reynd í hugmynd hv. þm. Péturs Blöndals, kemur í ljós að það er mjög auðvelt að fá íbúana til að fallast á það. En það kostar hins vegar mjög mikið varðandi réttindi ýmissa annarra sem oft búa við lítil efni. Það kemur t.d. í ljós í þessum ríkjum að þar eru gæði menntunar ekki jafnmikil og áður. Þar hefur dregið úr gæðum skólakerfisins vegna þess að skólakerfið er eitt af því sem dregur til sín mesta fjármagnið. Þessi þróun er því að sjálfsögðu heppileg fyrir þá sem hafa, sérstaklega í Bandaríkjunum, afl auðmagnsins til að berjast opinberlega í harðvítugri auglýsingabaráttu fyrir málum af þessu tagi. Þeir sem hugsanlega gjalda þess á hinum endanum, þeir sem eru ungir, fátækir, í lægri þjóðfélagsstigum launalega, þeir gjalda þessa. Þá erum við komin að spurningunni um jafnræði og rétt meiri hlutans til þess beinlínis að draga úr lífsgæðum minni hlutans sem er efnalítill. Ég tel alla vega rétt að draga þetta inn í þessa umræðu því mér finnst ástæða til að gjalda varhuga við því að við fetum inn á þá braut sem kom fram hjá þessum hv. þingmanni, braut sem felur í sér áfanga að allsherjarkosningu íbúa um fjárhagsáætlun og þar með skattstefnu. Það er utan við þau mörk sem við höfum rætt hér í þessum sölum þegar við höfum talað um allsherjaratkvæðagreiðslu, hvort sem er innan sveitarfélaga eða á vettvangi þjóðarinnar allrar.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa tjáð sig opinberlega, t.d. um þjóðaratkvæðagreiðslur, hafa jafnan látið þann botnlanga fylgja að þá kæmi að sjálfsögðu sterklega til greina að undanþiggja ákveðna hluti eins og fjárlög ríkisins. Þar er ég þeim sammála og þar dreg ég mörkin. Þess vegna er ég andstæður þessari hugmynd. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli eigi að auka forræði sveitarfélaganna yfir eigin hag. Ég lagði hér áðan fram þá hugmynd að hugsanlega væri hægt að fara þarna ákveðinn milliveg og leyfa sveitarfélögunum að hækka útsvarsheimtur vegna tiltekinna verkefna sem standa í tiltekinn tíma. Ég held að mætti alveg skoða það rækilega.

Að lokum, frú forseti, vil ég taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni: Það sem skiptir auðvitað mestu máli fyrir þá íbúa í landinu sem búa í litlum sveitarfélögum er að þau stækki og verði fær um að taka við auknum verkefnum. Það eru margvísleg verkefni sem bíða. Ég er t.d. í hópi þeirra þingmanna sem telja að það sé brýnt að leysa ákveðna kreppu sem er á vissum stigum framhaldsskólakerfisins með því að færa hann yfir til sveitarfélaganna. Ég tel að reynslan af grunnskólunum gagnvart neytendum, þeim sem njóta menntunarinnar á skólastiginu, sé það jákvæð að mér finnst þetta einboðið. En þá þarf með einhverjum hætti að flytja tekjustofna frá ríkinu á móti en mér finnst algerlega skorta umræðu um það atriði. Ég tók eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kom hér í stólinn um daginn og talaði fjálglega um að hún vildi gjarnan skoða þá hugmynd að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna. Með svipuðum hætti tala margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins af því að þeir vita að það fellur í góðan jarðveg. En þeir hugsa málið aldrei til enda. Þeir ræða aldrei hinn hlutann, hvernig á þá að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaganna? Hvernig á að flytja fjármagnið á milli þessara tveggja valdstiga? Það er eitt af því sem við þurfum að ræða í tengslum við þessa hluti.

Ég vildi nota tækifærið út af þessari ágætu tillögu frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem vakti mig og marga til umhugsunar, til að reifa þessi atriði.

(Forseti (RG): Forseti vill vekja athygli þingmanna á að umræddur tími er nú liðinn sem ætlaður var til þessarar umræðu. En þar sem eingöngu tveir eru á mælendaskrá ætlar forseti að biðja þingmenn, þá sem eru á mælendaskrá, að taka tillit til þess.)



[14:54]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Af því tilefni að forsetinn hefur gert mönnum viðvart um að tiltekinn tími sem er ætlaður til umræðunnar sé liðinn vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég er ekki aðili að slíku samkomulagi. Það gerði enginn slíkt samkomulag fyrir mig. Þetta var rætt í mínum þingflokki fyrir röskri viku þegar svipaður háttur var hafður á. Þá voru þau skýru boð færð inn í þann þingflokk að hér væri einungis um eitt afmarkað tilvik að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt að hægt sé að nota þetta til að ryðja mönnum út af mælendalista eins og var gert í síðustu viku, þar sem ég m.a. tók mig út af mælendaskrá í máli nokkurra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins af því ég vildi ekki verða til að deyða það mál hér vegna þessara tímamarka. Ég er á móti þessu og vil að það komi alveg skýrt fram að það mun enginn semja fyrir mig um slíkt.



[14:55]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Ég skal vera stuttorður og vonandi gagnorður. Ég vil benda á óskir Félags eldri borgara á landinu. Ósk þeirra er sú að málaflokkur eldri borgara verði fluttur til sveitarfélaga. En þá þarf að tryggja sveitarfélögum að fjármagn frá ríkinu sé nægjanlegt til að þessum flokki verði sinnt eðlilega. Ég held að allir eldri borgarar sjái að nærþjónusta sveitarfélaganna er miklu betri og öflugri og jákvæðari en sú þjónusta sem er á vegum ríkisins í dag. Ég vil koma þessu á framfæri þar sem ég er sennilega elsti maðurinn sem situr á þingi núna í dag.



[14:56]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá prýðilegu umræðu sem hefur farið fram um þetta lagafrumvarp sem borið er fram af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og gengur út á að rýmka heimildir sveitarstjórna til útsvars, en frumvarpið er sett fram í samhengi við tillögur ríkisstjórnarinnar, og reyndar framkvæmd nú orðið, um að lækka tekjuskattsprósentuna almennt. Hér erum við því að gera ráð fyrir tilfærslum á skattheimtu, að færa skattfé, sem áður rann til ríkisins, til sveitarfélaganna, ef þau svo kjósa.

Ég vil að mörgu leyti taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni hvað varðar forræðishyggju gagnvart sveitarfélögum í landinu. Ég er honum sammála um að í reynd eigi það að vera ákvörðun þeirra hve langt eða skammt eftir atvikum þau ganga í skattheimtu. Þannig skildi ég orð hv. þingmanns, að í reynd ætti ekki að vera þak á útsvarsprósentunni. Þakið sem yrði myndað kæmi til sögunnar í pólitískum stefnuyfirlýsingum og í þeim veruleika sem sveitarstjórnarmenn síðan smíðuðu í þeim stakki sem þeir sniðu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal var á annarri skoðun ef ég skildi hann rétt. Hann vildi ekki ganga lengra í að rýmka skattheimildir sveitarfélaganna og spurði: Hvar endar það ef menn halda áfram að rýmka útsvarsprósentuna? Það kemur fram í yfirliti sem birtist með frumvarpinu að því fer fjarri að öll sveitarfélög í landinu hafi nýtt útsvarsheimildir sínar. Mörg sveitarfélaganna hafa að vísu gert það. En það er engu að síður allmikill hópur sveitarfélaga sem er undir því marki sem nú er heimilt, þ.e. 13,3%.

Síðan hafði hv. þm. Pétur H. Blöndal nokkur orð um skattstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vildi skattleggja sífellt meira og meira. Það er alrangt. Við erum ekki skattaflokkur í þeim skilningi að við teljum að skattar séu af hinu góða, óháð því hversu langt er gengið eða hver er skattlagður. Við deilum um það hvernig eigi að deila skattbyrðinni. Okkur finnst henni ekki réttlátlega deilt, skattar eru ekki lagðir á þjóðina á réttlátan máta. Við viljum ýmsar breytingar og höfum flutt um það tillögur. Við höfum viljað hækka fjármagnstekjuskatt, svo dæmi sé tekið, en reyndar viljað létta skattheimtu af smásparandanum í fjármagnstekjuskattkerfinu. Við höfum viljað skattleggja meira þá sem eru aflögufærir en minna hina sem hafa minna á milli handa. Þannig höfum við mótmælt skattheimtu á öryrkja, atvinnulausa og láglaunafólk svo dæmi sé tekið.

Við viljum hins vegar vera sjálfum okkur samkvæm og afla þeirra tekna sem við viljum framkvæma fyrir. Það er svo allt annar handleggur. Við viljum sýna ábyrgð hvað það snertir. Ég er einnig sammála hv. þm. Pétri Bjarnasyni, Frjálslynda flokki, að sveitarfélögin hafi iðulega verið of fús til að ganga til samninga um tilfærslur á verkefnum án þess að þeim séu tryggðir nægilegir tekjustofnar til að rísa undir þeim skuldbindingum sem slíku fylgja. Ég held að þetta sé alveg hárrétt ábending af hans hálfu. Þannig er ég því fylgjandi, svo dæmi sé tekið, að ýmis verkefni séu færð til sveitarfélaganna en að því tilskildu, og það er mjög mikilvægt, að þeim séu áður tryggðir nægilegir tekjustofnar.

Síðan spannst mjög fróðleg og skemmtileg umræða hér um þjóðaratkvæðagreiðslur og atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem mér finnst mjög umhugsunarverð. Hann vísaði til reynslu í Bandaríkjunum og tók dæmi um hvernig lýðræðislegar kosningar geta hæglega snúist upp í þá andhverfu sína að bitna á hinum veikustu í þjóðfélaginu. Þegar horft er mjög afmarkað á tiltekna þætti og það síðan sett inn í atkvæðagreiðslu vilji það stundum gleymast að það er í fleiri horn að líta. Það vilji gleymast að til fleiri þátta er að líta í samfélagsþjónustunni og ef fjármagninu er beint á einn stað öðrum fremur kunni þeir að vera illa settir. Þetta finnst mér vera mjög gott innlegg í þessa umræðu. En mér fannst hins vegar þær hugmyndir sem hv. þm. Pétur H. Blöndal setti fram, um tvær fjárhagsáætlanir og tvær framkvæmdaáætlanir, að mörgu leyti skemmtilegar og vel umræðunnar virði og rétt að þróa þær áfram. En í reynd er þetta eins konar framlenging á því fyrirkomulagi sem við búum við. Stjórnmálaflokkarnir eru náttúrlega í mjög grófum dráttum að setja fram stefnu hvað varðar skattheimtu og framkvæmdir þó að þetta séu miklu afmarkaðri og skýrari línur sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill draga upp með tilliti til slíkra kosninga. Þetta er athyglisverð umræða og mikilvægt að taka hana hér í þingsal og þróa hana síðan áfram.

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal líka hvað varðar einkaframkvæmdina, og þær skuldbindingar sem þar er iðulega verið að gefa, ábyrgðarlaust, á framtíðina. Fjármögnun einkaframkvæmdar kemur iðulega ekki fram í bókhaldi sveitarfélaga og ríkis en byggist á skuldbindingu um viðskipti til langs tíma og þar af leiðandi skattheimtu á komandi árum. Þetta er ábending sem áður hefur komið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og er alveg hárrétt og í þeim anda sem ég hef mjög oft talað fyrir hér í þingsalnum.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mál og ítreka ósk um að frumvarpið verði látið ganga til umfjöllunar og afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.