132. löggjafarþing — 76. fundur
 3. mars 2006.
strandsiglingar, fyrri umræða.
þáltill. JBjarn o.fl., 251. mál (uppbygging). — Þskj. 251.

[10:44]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson frá Frjálslynda flokknum, Þuríður Backman frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Sigurjón Þórðarson frá Frjálslynda flokknum og Ögmundur Jónasson frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Þessi tillaga hefur verið flutt á tveimur undanförnum þingum og fékk í sjálfu sér mikla umfjöllun í nefnd en af einhverjum ástæðum hefur hún ekki komið til síðari umr. og afgreiðslu þingsins þrátt fyrir að mikill áhugi hafi verið á málinu, sem ég kem að síðar í mínu máli. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2006.“

1. febrúar 2006 er reyndar liðinn. Það skýrist af því að tillagan var lögð fram í upphafi haustþings og kemur ekki á dagskrá þingsins fyrr en nú.

Með þessari tillögu er svofelld greinargerð:

„Tillaga þessi var lögð fram á 131. löggjafarþingi og er nú lögð fram lítið breytt frá þeirri framlagningu. Flestar umsagnir sem borist hafa um tillöguna hafa verið jákvæðar.

Á síðustu árum hafa strandsiglingar smám saman verið að leggjast af hér á landi. Flutningsmenn telja að ekki verði við það unað enda má fullyrða að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur nú. Því leggja þeir til að samgönguráðherra verði falið að undirbúa að strandsiglingar verði hafnar með tilstyrk hins opinbera á grundvelli útboða. Brýnt er að ráðherra grípi strax til aðgerða.

Á 128. löggjafarþingi lagði fyrsti flutningsmaður ásamt fleirum fram tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Þar var lagt til að samgönguráðherra yrði falið að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er léti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land væru öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og fleiru. Samgöngunefnd lagði til að þeirri tillögu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Í svari við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns til samgönguráðherra á 130. löggjafarþingi um framgang þeirrar tillögu kom fram að ráðherra hefði ekki skipað strandsiglinganefnd en að ráðuneytið hefði í störfum sínum talið eðlilegt að stofnanir þess beindu athygli að strandsiglingum á grundvelli ábendinga og ágætra hugmynda í greinargerð með tillögunni. Ráðherra tók þá fram að hann teldi að tillagan frá 128. löggjafarþingi hefði verið þarft innlegg í umræðuna og að við endurskoðun á samgönguáætlun hlyti að verða litið til ákveðinna þátta sem þar voru nefndir.“

Herra forseti. Því miður reyndust þetta innstæðulaus orð hjá hæstv. ráðherra því að í raun hefur ekkert verið gert af hálfu ráðuneytisins til að koma þessu máli frekar á siglingu, ef svo má að orði kveða. Þrátt fyrir mikinn og eindreginn áhuga og ábendingar fjölmargra aðila í samfélaginu hefur ráðuneytið dregið lappirnar í þessum efnum og kem ég að því síðar hverjar gætu verið líklegar ástæður þess.

„Þess er vert að geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fallist á að aðstoðarkerfi sem Bretar hafi komið á til að færa flutninga af vegum og yfir í siglingar og hóflegur styrkur ríkis til slíkra aðgerða brjóti ekki gegn samkeppnisreglum bandalagsins. Einnig hafa nýlega verið fluttar af því fréttir að Evrópusambandið sjálft hyggist nú stórauka framlög til að efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og öðrum siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun og létta álagi af vegum. Í því sambandi má nefna að hér á landi er talið að ending vega í sumum landshlutum minnki um helming ef þungaflutningar aukast sem svarar því vörumagni sem nú er flutt sjóleiðis.

Flutningsmenn þessar tillögu telja mjög mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2006. Því er hér lagt til að ráðherra skili tillögum sínum sem allra fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 2006“ — eins og segir hér en við gætum hæglega samið um að það verði 1. maí 2006.

„Með framangreindri tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar frá 128. löggjafarþingi fylgdi ítarleg greinargerð og vísa flutningsmenn til hennar hvað varðar ýmis rök fyrir mikilvægi þess að strandsiglingar við allt landið verði tryggðar, svo sem hvað varðar umhverfissjónarmið, byggðaáhrif og samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum“ — auk umferðaröryggis, herra forseti, sem ekki hvað síst hefur verið í umræðu nú.

Með þessari tillögu fylgja greinar, bréf og umsagnir um strandsiglingar sem ég leyfi mér að vísa í. Ég ætla að lesa hér úr grein frá Landvernd, frá 3. ágúst 2004, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í vikunni sem leið tilkynntu Eimskip að fyrirtækið hygðist leggja niður strandsiglingar við Ísland. Er þetta í beinu framhaldi af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í vöruflutningum síðustu ár. Skipum í strandsiglingum hefur fækkað óðum á meðan sífellt hefur bæst í her vöruflutningabifreiða sem þeysa um vegi landsins. Ástæða þessarar þróunar er sögð vera sá flutningshraði sem krafist er í samfélagi okkar.

Umræðan í tengslum við þessa ákvörðun Eimskipa hefur fyrst og fremst beinst að áhrifum hennar á slit vega og aukna hættu í umferðinni. Stórir vöruflutningabílar geta valdið miklu tjóni og alvarlegum slysum lendi þeir í árekstri auk þess sem flutningur hættulegra efna á vegum getur verið varasamur. Vegaslit vörubíla er margfalt á við fólksbíla og svo virðist sem ekki hafi tekist að færa kostnaðinn við vegaslit yfir á vörubíla í samræmi við notkun þeirra.

Landvernd vill vekja athygli á því að neikvæðar afleiðingar vöruflutninga á landi eru ekki eingöngu bundnar við slys og vegaslit. Landflutningar fela í sér allt að sjöfalt meiri losun koldíoxíðs en strandflutningar og hefur losun koldíoxíðs frá landflutningum aukist um 67%.

Það blasir því við að rík ástæða er til að efla strandflutninga hér við land til að draga úr hættu á slysum og sliti vega og til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.“

Ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta er tveggja ára gömul yfirlýsing frá Landvernd. Nú er Eimskip ekki lengur til, óskabarn þjóðarinnar, búið er að afhenda það gróðabröskurum og ekkert skip er lengur skráð hér á landi á þeirra vegum að því er ég best veit. En Landvernd leggur einmitt áherslu á umhverfissjónarmið.

Fleiri góðar greinar fylgja þessu nefndaráliti. Ég vil t.d. minna á umfjöllun sem verið hefur hér að undanförnu um álagið á vegunum, um umferðaröryggið og einnig um hagkvæmnina. Evrópusambandið hefur ítrekað lagt fram heimildir fyrir lönd innan Evrópusambandsins til þess að niðurgreiða sjóflutninga. Það leggur mikla áherslu á það af þessum ástæðum. Því leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að við tökum þetta rækilega upp og látum kanna hagkvæmni þess nú þegar að taka upp strandsiglingar. Það er annars hlálegt í þessum efnum að í samgönguáætlun sem gilda átti frá 2004–2014 og samþykkt var á Alþingi, var lögð rík áhersla á sjóflutninga, strandflutninga, og það væri hluti af stefnu ríkisins að strandflutningar, sjóflutningar, væru einn mikilvægasti þátturinn í flutningakerfi landsins. Því hefur á engan hátt verið fylgt eftir eins og dæmin sanna.

Við vitum að sjávarþorp úti um land byggðu samkeppnisstöðu sína á öflugu strandflutningakerfi. Með því að strandflutningar eru lagðir niður lenda þau úr leið. Þó að viss rök séu fyrir því að hagkvæmara sé að flytja pakkavöru og dagvöru með flutningabílum um landið þá er fjarri því að hægt sé að segja og færa rök fyrir því að það sé nauðsynlegt varðandi fisk, áburð, olíu og annan þungaflutning sem er miklu betur er kominn með sjóflutningum en flutningum á landi.

Herra forseti. Ég ek mikið á þjóðvegum landsins og ég finn hvernig þeir láta undan þessum gríðarlegu þungaflutningum. Þeir ganga í bylgjum þegar maður mætir þessum stóru flutningabílum. Ég er sannfærður um að það væri miklu heilladrýgri stefna að færa þessa flutninga eins og kostur er út á sjó enda er það stefna annarra þjóða þar sem því verður við komið og því skyldum við ekki gera það? Í rauninni hafa flestallir aðilar mælt með því að slíkt verði gert, aðilar sem eiga allt sitt undir þessum flutningum. Því er þessi tillaga flutt í þeirri eindregnu von að hún hljóti brautargengi og að við verðum komin með öflugt strandsiglingakerfi með fram ströndum landsins frá og með næsta hausti.



[10:57]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afskaplega þörfu máli sem hefur brunnið á landsmönnum um alllanga hríð. Ég lít svo á að núna sé nokkurn veginn liðinn sá tilraunatími sem verið hefur undanfarin ár. Strandsiglingar lögðust af fyrir nokkrum árum. Reyndar var gerð mjög athyglisverð og góð tilraun þar sem flutningaskipið Jaxlinn ferðaðist á milli hafna og leysti margan vanda á þeim tíma sem það starfaði en því miður lagðist sú starfsemi af og væntanlega mun hún ekki fara af stað aftur. Ég hef ekki haft spurnir af því en hef þó verið að reyna að fá upplýsingar um það.

Farið var yfir ýmis rök með þessu í greinargerð og í ræðu hv. flutningsmanns en hver einasti maður sem ferðast um þjóðvegi landsins hlýtur að verða var við þessa dreka, stóru flutningabílana sem ferðast þar um. Þeir keyra yfirleitt frekar hratt hvort heldur vegirnir eru greiðir og tvíbreiðir eða mjóir og þröngir. Sum af þeim rökum voru þau að vegakerfið væri að batna, búið væri að leggja bundið slitlag og vegirnir þyldu betur þessa miklu umferð en áður. Þetta er ekki rétt vegna þess að bundið slitlag er ekki miðað við umferð og þungaflutninga af þessu tagi fyrir utan það að ákveðin landsvæði, sem ég þekki mjög vel til, eru alls ekki komin með bundið slitlag heldur eru með gömlu vegina. Ég fyrir mitt leyti er búinn að keyra sömu vegarspottana vestur á firði sunnanverða frá því að ég fékk bílprófið 17 ára gamall og það eru orðin þó nokkuð mörg ár síðan. Vegakerfið ber þetta ekki á nokkurn hátt. Og það má alveg sjá það þar sem umferð hefur verið mikil af þessum þungaflutningum hvernig vegirnir spænast upp og verða nánast ófærir venjulegum ökutækjum fyrir utan þá hættu sem hlýst af því að mæta þeim og reyna að komast fram úr þeim sem er einn hluti af þessu.

Það er athyglisvert að Morgunblaðið, blað allra landsmanna, fjallar um þetta fyrir tæpum tveimur árum, og er þá að svara hv. þm. Ögmundi Jónassyni, og veltir upp spurningunni: „Sitja ekki allir við sama borð?“ Og það er svona heldur að skilja á ritstjórnargreininni að það vanti mikið á það.

Með leyfi hæstv. forseta, les ég hér upp úr greininni sem er fylgiskjal II með tillögunni:

„Vegakerfið hefur smátt og smátt verið að batna. Það er betra vegakerfi með varanlegu slitlagi, sem hefur orðið til þess að flutningar hafa færst af sjó yfir á land.“ — Ég gat reyndar um það áðan að þetta er alhæfing sem ég tek ekki undir. — „Er hugsanlegt að hið opinbera mismuni flutningafyrirtækjum á einhvern hátt eftir því, hvort flutningar fara fram með skipum eða flutningabílum? Er hugsanlegt að opinber gjaldtaka geri það að verkum að landflutningar verði hagkvæmari? Er hugsanlegt að landflutningafyrirtækin eigi að greiða meira en þau gera fyrir notkun á vegum?

Þessum spurningum þurfa stjórnvöld að svara í þeim umræðum, sem nú standa yfir um flutningamál“ — segir Morgunblaðið fyrir tveimur árum.

Ég held að stjórnvöld hafi ekki svarað þessu og það er greinilegt að þau hafa ekki brugðist við þessu eins og þörf er á og þyrfti að gera, því að enn eru þessir flutningabílar á ferðinni á vegum sem ekki þola umferðina. Enn verða tafir á flutningum. Það má ekki gleyma því að vegna þessa álags á vegina verður Vegagerðin oft og tíðum að beita þungatakmörkunum. Það þýðir einfaldlega að fara þarf með flutninga aðra leið en þeim er ætlað eða að hluta þarf þá í miklu smærri einingar. Það er dýrara og hver borgar brúsann? Óhjákvæmilega er það neytandinn sem borgar brúsann. Það er alltaf þannig.

Ég held að skilgreina þurfi hvers konar flutninga eigi að flytja á vegunum, hvers konar flutninga er heppilegt að flytja í lofti og hvaða flutningar þurfi að fara á sjó. Ég vil nefna dæmi, þar sem það fer í vöxt að flytja hús milli landshluta, af smið vestur á fjörðum sem smíðar sumarhús. Ef flytja þarf slíkt hús á vegum landsins þarf hann vernd, hann þarf sérstakar aðstæður, sérstakan flutningabíl og það er undir hælinn lagt að bíllinn komist þá vegi sem þarf að flytja það vegna þungatakmarkana á þeim tíma. Hann þarf sérstaka lögreglufylgd og hann þarf að greiða fyrir þetta allt saman. En hins vegar meðan Jaxlinn var í förum kom hann húsinu niður á bryggju og það fór þar um borð og þurfti enga sérstaka vernd í flutningi, það var bara tekið upp í höfninni.

Sama má t.d. segja um báta sem fluttir eru milli staða. Það er mikið fyrirtæki að koma þeim á bíla en þeir voru um mjög langa tíð fluttir á skipunum. Þannig mætti lengi telja en eftir stendur að vegakerfið er engan veginn tilbúið til að taka við þessum flutningum og þótt það væri tilbúið má spyrja hvort það sé í rauninni eðlilegt að eyríki eins og Ísland hafni algjörlega sjóflutningum í kringum eyjuna. Það er mjög sérkennileg staða og mjög óeðlileg staða. Ég held að þessi þingsályktunartillaga um strandsiglingar sé þess virði að hún sé virkilega vel skoðuð af stjórnvöldum og ég vænti þess að hún fái góða umfjöllun og afgreiðslu í nefnd.



[11:04]
Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason, fyrsti flutningsmaður þessa máls, fór vel yfir kosti þess að við legðum á ný áherslu á strandsiglingar við landið. Það er ánægjulegt að þingmenn Frjálslynda flokksins skuli tilbúnir að leggja fram tillöguna ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í umræðum á þinginu í gær kom fram að mikill samhljómur er milli þingmanna Samfylkingar um þetta mál. Ég vona að breið samstaða myndist um málið. Nú vantar aðeins fulltrúa tveggja flokka til að taka málið endanlega í sátt.

Í öllum umræðum um samgöngumál á þinginu er talað um að flutningar hafi færst upp á vegina í miklum mæli. Það hefur auðvitað ýmsan vanda í för mér sér. Vegirnir eru hreinlega ekki gerðir fyrir þungaflutninga. Ég vil meina að við séum að kasta krónunni til að spara aurinn vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt að flytja þungavarning í gámum á milli landshorna með skipum. Það er ekki gáfulegt að gera það með flutningabílum. Oft hefur verið bent á að einn flutningabíll með tengivagni skemmi vegina jafnmikið og 10 þús. fólksbílar. Þetta eru tölur frá Vegagerðinni. Þar fyrir utan eru skipaflutningar mun umhverfisvænni kostur og mætti halda um það langt mál.

Sem betur fer er eitthvað að gerast í siglingamálum þjóðarinnar. Ég vil t.d. nefna að það eru að komast á reglulegar siglingar milli Akureyri og Evrópu. Ég fagna því að það skuli gerast. En reyndar er merkilegt að þar eru Norðmenn í fararbroddi. Þessi hugmynd, um að bjóða út siglingaleiðir líkt og gert er í fluginu, er mjög góð. Ég held að það eigi að nást samkomulag á þinginu um að þetta sé þjóðhagslega hagkvæm leið og mjög gáfuleg upp á framtíðina.

Það er skrítið að flutningum til og frá landinu skuli miðstýrt frá Reykjavík. Gámar eru fluttir af Norður- og Austurlandi um vegina til Reykjavíkur. Þeir eru settir í skip og fluttir til annarra landa. Það er hluti af miðstýringaráráttunni í þjóðfélaginu.

Ég vona að þessi tillaga til þingsályktunar fái nú góða umfjöllun í samgöngunefnd og verði samþykkt hér þannig að strax í haust verði farið í að bjóða út siglingar. Þá horfi ég fram á bjartari tíma í umhverfis- og samgöngumálum þjóðarinnar.



[11:08]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mikið framfaramál sem ég er sannfærður um að breið samstaða er um á Íslandi. Það er flutt af þingmönnum úr tveimur flokkum eins og fram kom í umræðunni, annars vegar þingmönnum úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hins vegar þingmönnum úr Frjálslynda flokknum. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Jón Bjarnason, sem hefur beitt sér mjög fyrir þessu máli í langan tíma. Fyrir nokkrum árum fór hann fyrir okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og flutti þingsályktunartillögu um að rækileg úttekt yrði gerð á strandsiglingum við Ísland með það fyrir augum að efla siglingarnar. Síðan hafði hann forgöngu um þetta þingmál, þ.e. tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Það gengur út á samgönguráðherra undirbúi að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Við erum að sjálfsögðu opin fyrir öllum leiðum sem fara mætti í þessu sambandi. (ÖS: Viljið þið bjóða út?) Hugsanlega mætti bjóða það út. (Gripið fram í.) Aðrar hugmyndir hafa einnig verið viðraðar.

Ég tel t.d. fyrir mitt leyti koma til greina að hér yrði komið á fyrirtæki eða stofnun á vegum hins opinbera sem annaðist strandsiglingar. Það mundi sinna þjóðhagslega hagkvæmu hlutverki. Eins og hér hefur komið fram er hagkvæmt að flytja þungan varning sem er fluttur á landi í dag aftur sjóleiðis. Það er gert með tilliti til mengunar og álags á vegakerfið. En með fullhlöðnum flutningabíl með tengivagni er álagið á vegina á milli 20–30 þús. sinnum meira en af fólksbíl.

Þegar að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður í upphafi 10. áratugarins, það mun hafa verið árið 1992, fór fram mikil umræða um það á Alþingi og einnig í fjölmiðlum. Morgunblaðið birti leiðara 24. mars árið 1992 þar sem fjallað var um þetta efni. Þar segir að einkavæðing strandsiglinga mundi, og nú vitna ég orðrétt í leiðarann, með leyfi forseta: „... tryggja nauðsynlega þjónustu eftir hagkvæmustu og ódýrustu tiltækum leiðum. Og létta jafnframt áhætturekstri og oftar en ekki taprekstri af ríkissjóði og þar með skattgreiðendum.“

Í leiðaranum voru miklar efasemdir um að einkavæðingin væri til hagsbóta fyrir neytendur og samfélagið allt. Menn töldu eindregið að svo yrði enda segir þar, með leyfi forseta:

„Svo er að sjá sem samgönguráðherra hafi haldið svo á þessu máli, að samfélagið hljóti af nokkurn hag. Af ríkissjóði hefur verið létt verulegum útgjöldum, án þess að þjónusta hafi skerst. Vonir standa og til að samkeppni Eimskips, Samskipa og annarra, sem strandsiglingar stunda, muni svara eftirspurn neytenda … Flest bendir því til þess að einkavæðing strandsiglinga muni takast vel.“

Þarna reyndist leiðarahöfundur Morgunblaðsins ekki sannspár og sannaðist þar eina ferðina enn að vafasamt er að setja jafnaðarmerki milli hagsmuna einstakra fyrirtækja annars vegar og þjóðarhags hins vegar. Í þessum skrifum kemur fram sá misskilningur að menn væru lausir allra mála eftir að hætt var að niðurgreiða eða styrkja Skipaútgerð ríkisins. Mönnum yfirsást að stuðningur ríkisins við samgöngukerfið kæmi fram í öðru formi, þ.e. nauðsyn þess að styrkja vegakerfið og búa það undir þungaflutninga.

Í umræðum á þingi hafa menn úr öllum stjórnmálaflokkum tekið undir þá hugsun sem þetta frumvarp byggir á. Einu skulum við ekki gleyma í þessu sambandi, þ.e. að þegar hefur verið ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar sem eru forsenda flutninga á sjó. Hafnirnar víðs vegar um landið standa, sumar ónýttar hvað þennan þátt snertir.

Menn trúðu því er leiðarinn var skrifaður að skipafélögin mundu vinna með þjóðarhag í huga en það er löngu liðin tíð. Það er ekki langt síðan Eimskipafélagið lýsti því yfir að það væri hætt að vera skipafélag heldur væru eigendurnir grúppa, eins og tíðkast að tala um slíka hópa, sem sinnti ekki siglingum og annaðist ekki siglingar til og frá landinu og umhverfis landið. Nei, nú var það fyrst og fremst fjárfestingarhópur. Þegar þessi ákvörðun var tekin hjá Eimskipafélaginu var það ekki svo að félagið væri á vonarvöl. En afskriftir á árinu 2004 voru áætlaðar 2.300 millj. kr. og gert var ráð fyrir að afkoma ársins 2005, nú er ég að vitna í gamlar tölur sem koma þó fram í greinargerð með þessu þingmáli, yrði um 3.000 millj. kr. og um 3.500 millj. kr. árið 2006. Þetta eru áætlanir sem á sínum tíma lágu fyrir. Þarna er með öðrum orðum um að ræða mikinn hagnað af starfsemi Eimskipafélagsins. En menn hugsuðu einfaldlega sem svo að hægt væri að fjárfesta og hafa enn meira með því að beina fjármununum í fjárfestingar innan lands og utan.

Við slíkar aðstæður ber samfélaginu að grípa inn í á annan hátt. Við höfum fundið fyrir því að það hefur ekki fengið góðar undirtektir af hálfu annarra en þingmanna úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ríkið komi inn í þessar siglingar með beinum hætti, sem ég hef t.d. sjálfur sett fram tillögur um. (ÖS: Hvar?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvar ég hafi sett þessar tillögur fram. Það gerði ég m.a. í blaðagrein sem ég birti í Morgunblaðinu 4. ágúst 2004 og er hér sem fylgigagn í þessu máli ef hv. þingmaður hefur áhuga á að kynna sér það nánar, sem hann greinilega ekki hefur gert. Það kom fram í frammíkalli hans áðan.

Við viljum hins vegar ná árangri og erum reiðubúnir að fara aðrar leiðir og fela hugsanlega öðrum aðilum sem sýna (Forseti hringir.) þessu málefni áhuga, þar með komin skýringin á útboðsleið okkar.



[11:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er oftast sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um það sem betur mætti fara. Þó verð ég í upphafi máls míns að segja að ég átti fremur von á dauða mínum fyrirvaralitlum en því að ég gæti orðið sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það væri æskilegt að bjóða út rekstur. Ég hef jafnan hlýtt með athygli og stundum af nokkurri einurð stutt hv. þingmann þegar hann hefur goldið varhuga við því að menn færu of langt út á þá braut. En svo lærir sem lifir og nú allt í einu sit ég hér í þessum sal og hlusta á mína ágætu félaga í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði flytja tillögu sem byggir á útboði á siglingum. Ég fagna því, herra forseti. Mér finnst þetta jákvæð hugarfarsbreyting hjá hv. þingmönnum, sérstaklega hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þegar hann skrifaði sína ágætu grein 4. ágúst 2004 í Morgunblaðið var hann ekki kominn það langt á þróunarbrautinni að hann teldi heppilegt að leggja til útboð. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur hins vegar hjálpað honum áfram á þeirri braut og leggur hér fyrir alveg prýðilega tillögu sem byggist að mörgu leyti á ýmsum hugmyndum sem nú þegar hafa verið reyndar í flugrekstri þannig að ég get ekki annað en fallist á að þetta sé jákvæður partur tillögunnar.

Sú staðreynd olli mér líka nokkurri gleði að ein af meginröksemdunum í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem er svo rækilega í gadda slegin í greinargerðinni, er sú stefna Evrópusambandsins að taka upp strandsiglingar til þess einmitt að vernda umhverfið. Ég er algjörlega sammála þeirri röksemdafærslu, flutti svipaða ræðu hér í gær sem byggðist einmitt á ákveðnum umhverfisrökum. Ég er hins vegar ekki jafn vel að mér í Evrópusambandinu og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég gerði mér ekki ljóst að Evrópusambandið væri komið svona langt í þessu, en þetta hvort tveggja gleður mig.

Að öðru leyti, herra forseti, er ég þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að skoða þennan möguleika, að velta því rækilega fyrir sér, skoða og gera tilraunir með hvort hægt sé að beina umferð af vegum landsins út á hafið aftur með einhvers konar hvata af hálfu ríkisins. Þetta hefur verið reynt í flugi þegar einstök flugfélög hafa lagt af flugleiðir vegna þess að þau hafa ekki talið sig hafa nægar tekjur til þess að geta staðið undir því. Þar hefur það gefið góða raun að fara inn á þessa braut. Ég tel því gott að skoða þetta mál hvað varðar strandsiglingarnar.

Hv. þm. Kristján Möller, félagi minn í Samfylkingunni, hefur lagt á þetta mikla áherslu og ég man ekki betur en þetta sé einmitt partur af þeirri þingsályktunartillögu sem hann hefur lagt fram með öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar um aðgerðir sem miða að því að lækka vöruverð. Þá var hv. þingmaður ásamt félögum sínum að reyna að benda á leiðir til þess að flytja vörur út á landsbyggðina með ódýrari hætti en í dag. Það eru ein rök með þessu. Önnur rök eru auðvitað þau sem komu fram hjá báðum þeim hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér töluðu áðan, að þeir miklu flutningar sem eiga sér stað á vegunum skapa í senn vaxandi hættu fyrir aðra sem ferðast um vegakerfið og jafnframt hafa þeir í för með sér mikinn kostnað fyrir hið opinbera. Það má með vissum hætti segja að þær gríðarlegu upphæðir sem þarf að leggja í viðhald á vegakerfinu vegna notkunar þessara stóru dreka, sem svo voru kallaðir hér áðan, séu eins konar niðurgreiðsla á flutningum þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Þau skipafélög tvö sem áður stunduðu strandflutninga tóku meðvitaða ákvörðun um að flytja flutninga sína af hafinu yfir á vegakerfið vegna þess að því er vel við haldið af ríkinu, og það kostar mikið. Hver af þessum drekum spænir upp vegina í jafnmiklum mæli og tíu þúsund fólksbifreiðar. Það hlýtur að hafa í för með sér mikinn kostnað.

Umhverfisleg rök eru þó að mínu viti sterkasta röksemdin fyrir tilraun af þessu tagi. Við búum við það Íslendingar að við þurfum að standast ákveðna alþjóðlega mælikvarða, axla skuldbindingar sem við höfum tekið á okkar herðar með staðfestingu Kyoto-sáttmálans, og það liggur alveg ljóst fyrir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að íhuga þessi missirin munu sprengja þá sáttmála. Ríkisstjórnin er upptekin af því að bjóða álver hér, þar og alls staðar og við vitum að af hálfu Framsóknarflokksins er fyrst og fremst um að ræða tilraun til þess að veiða atkvæði. Þetta er nokkuð örvæntingarfull viðleitni flokks sem er í vanda til þess að reyna að seilast til atkvæða.

Gott og vel, ég ætla ekki að fara út í miklar umræður um það. En ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að mér finnst vera mikið ósamræmi hjá ríkisstjórninni. Hún skapar annars vegar væntingar um framkvæmdir sem munu sprengja þau mörk sem við megum fara upp í varðandi losun á gróðurhúsalofttegundum en gerir hins vegar ekkert til þess að reyna að draga úr þeirri losun í samfélaginu almennt. Þriðjungurinn af þeirri losun sem stafar af mannlífi á Íslandi tengist samgöngum og það er alveg ljóst að ef hægt væri að draga úr umferð, ef t.d. væri hægt að taka upp vöruflutninga á hafi, mundi losun vegna samgangna minnka töluvert mikið. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða og láta reikna út.

Ég sakna þess reyndar hjá hinum ágæta umhverfisvæna flokki, sem flytur þessa ágætu tillögu, að þetta skuli ekki vera veigameiri röksemd í greinargerðinni með annars ágætri tillögu. Á eina staðnum sem þessa er getið er það gert með vísan í hið ágæta samband Evrópusambandið. Út af fyrir sig er það gott að Evrópusambandið skuli vera orðið sverð og skjöldur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli — það hefur löngum verið athvarf mitt í stormum tímanna og gleðilegt að fleiri skuli finna þar skjól.

Að lokum, herra forseti, vil ég ítreka að mér finnst sú leið sem hér er farin jákvæð. Hún er í samræmi við þær hugmyndir sem annar flokkur í stjórnarandstöðunni, Samfylkingin, hefur lagt fram og fyrir henni eru mörg rök. Reynsla er komin á þetta kerfi hvað varðar flugsamgöngur, þetta mundi auka öryggi á vegum landsins en það sem skiptir mestu máli er að þetta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.



[11:25]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir mjög góða ræðu og mjög góðar undirtektir við þetta mál. Þau rök sem hann lagði áherslu á eru hin mikilvægu rök í málinu.

Hann gerði hinn umhverfislega þátt sérstaklega að umtalsefni en í tillögu okkar er vísað til sams konar tillögu sem flutt var árið 2002–2003. Ítarlega er farið í gegnum hinn umhverfislega þátt í þeirri tillögu, herra forseti, þar sem reiknaður er út samanburður á losun koltvísýrings frá flutningsbílum og skipum, t.d. á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar og frá Reykjavík til Ísafjarðar. Þar er farið mjög ítarlega í gegnum þessa útreikninga einmitt hvað varðar koltvísýringinn eins og hv. þingmaður lagði áherslu á. Þessi umhverfislegi þáttur er gríðarlega mikilvægur og er, eins og hv. þm. minntist á, önnur ástæðan fyrir því að Evrópusambandið gerir sérstaka undantekningu varðandi sjóflutninga, að það megi mismuna flutningsleiðum með því að ríkið styrki sjóflutninga. Evrópusambandið hefur nú haft það sem aðalsmerki sitt að allt eigi að vera gegnsætt samkeppnisumhverfi en það hefur einmitt lagt áherslu á að heimila ríkisstuðning við sjóflutninga, bæði af umhverfisástæðum og líka af samgönguástæðum, eins og hv. þingmaður kom inn á og getið er í greinargerðinni. (Forseti hringir.) Þessir þættir eru tíundaðir hér og eru að sjálfsögðu mjög mikilvægir, herra forseti.



[11:27]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason má ekki taka það svo að ég sé að leggja það honum til lasts að hann hafi sótt í smiðju Evrópusambandsins. Það kemur mér á óvart hvað hann er vel að sér um þau mál, hann flytur hér í andsvari nýjar upplýsingar sem mér voru ekki kunnugar úr fórum Evrópusambandsins. Það gleður mig að þó að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé enn a.m.k. heldur á móti aðild skuli hún vera að skoða hvaða kosti það samband hefði í för með sér. Nýjar kannanir sýna að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem nýtur miklu meiri stuðnings núna í könnunum en í síðustu kosningum, býr við það að meira en þriðjungur stuðningsmanna hennar er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst því ekkert athugavert við að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli beita og tefla fram sömu rökum og Evrópusambandið.

Ég vil hins vegar geta þess að umhverfisrökin í þessu máli hafa orðið sterkari á síðustu árum og það eru þau sem hreyfa við mér. Mér finnst þau rök skipta miklu máli og ég er viss um, af því að fyrrverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins er í salnum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að hún mun örugglega hér í umræðunni á eftir kynna okkur viðhorf flokks síns til þessara mála.

Ég tel að í umræðu um tillögu af þessu tagi, sem er um það að ríkið beiti afli sínu í formi einhvers konar efnahagslegs hvata til þess að fá menn til þess að hefja þessa flutninga, hljóti það að vega miklu þyngra nú en áður að þessi leið er líkleg til þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við Íslendingar og heimurinn erum að lenda í vanda vegna þeirrar losunar. Hér er ágæt leið sem, eins og hv. þm. Jón Bjarnason bendir á, er (Forseti hringir.) meira að segja stimpluð af Evrópusambandinu.



[11:29]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þó að Evrópusambandið hafi vit á einhverjum hlutum þarf það ekkert að vera neitt verra fyrir það ef það er á annað borð skynsamlegt. En þannig er mál með vexti að við erum aðilar að þessum ákvæðum í gegnum samning okkar við Evrópusambandið. Sú aðild var notuð sem rök gegn tillögunni þegar við fluttum hana fyrst á þingi árið 1999 eða 2000. Þau rök voru notuð að þetta mætti ekki vegna þess að reglur innan Evrópusambandsins, sem við værum aðilar að, bönnuðu mismunun af því tagi að ríkið kæmi inn í einhvern einn flutningsmáta umfram annan. En síðan þá hefur það gerst að Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, sem við erum aðilar að, hefur breytt þessum reglum og núna er mjög afdráttarlaust hvatt til þess að ríkisstjórnir kanni með hvaða hætti þær geta þrýst flutningum út á sjó.

Annað er nýtt í þessu, bara svona til upplýsingar: Skipafélögin hafa einmitt hvatt til þess og heimilað að einstök ríki beiti aðgerðum til þess að tryggja að þau eigi heimahafnir í viðkomandi löndum. Evrópusambandið sá að ef þessum reglum yrði beitt alveg stíft færi allur kaupskipaflotinn frá Evrópu og ætti heimahafnir í öðrum álfum og það var hin ástæðan fyrir því að Evrópusambandið breytti þessum reglum, reglum sem við erum þó aðilar að. Þetta hefur þau áhrif að það eru ekki lengur rök hér gegn því að ríkið beiti afli sínu eftir því sem skynsamlegt getur talist til þess að koma á og styrkja og efla strandflutninga.



[11:32]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni til upplýsingar um hugmyndir sem ég hef reifað áður í því samhengi hvaða leið eigi að fara til að tryggja strandsiglingar. Í Morgunblaðsgrein sem ég skrifaði í ágúst 2004, segir m.a., með leyfi forseta:

„Íslendingar hafa varið miklum fjármunum í hafnargerð víðs vegar um landið, bæði fyrir fiskiskipaflotann og einnig flutningaskip. Margt bendir til þess að sjóflutningar séu hagkvæmur kostur í þjóðhagslegu tilliti. Gæti verið ráð að samfélagið tæki höndum saman um að koma á strandsiglingum að nýju? Fyrirtækið gæti t.d. heitið Skipaútgerð ríkisins. Nafnið skiptir ekki öllu máli. Hitt skiptir máli að við förum í alvöru að hugleiða hvort við eigum annarra kosta völ en að byrja upp á nýtt og hefja uppbyggingarstarf á þeim sviðum þar sem ríkisstjórnir síðasta hálfan annan áratuginn hafa gengið harðast fram í einkavæðingu.“

Þetta er sjónarmið sem ég stend við enn í dag. En ég er tilbúinn að fara aðrar leiðir og skoða útboðsleið. Ég er hvorki með né á móti útboðum sem slíkum. Þau geta verið ágæt og réttlætanleg í mörgu tilviki. Í öðrum tilvikum tel ég þau vera röng. Núna verðum við að horfast í augu við miðstýringaráráttu Evrópusambandsins sem setur okkur þröngar skorður í þessu efni sem ýmsum öðrum. Það er bannað samkvæmt heilagri ritningu Evrópusambandsins að fara þá leið sem ég tel vera vænlegasta í þessum málum. Þá horfum við af raunsæi á málin og horfum til þess sem líklegt er að nái fram að ganga með þverpólitískri samstöðu hér á þinginu.

Ég fagna hins vegar almennt ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ræða hans var jákvæð og ég tek undir alla meginþætti í málflutningi hans.



[11:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður benti á að með þessari tillögu væru flutningsmenn í reynd að laga sig að þeirri staðreynd að Evrópusambandið setur ákveðnar kvaðir og reisir vissar skorður við aðferðum. Það kemur t.d. í veg fyrir þann hugsanlega gamla draum hv. þingmanns að endurreisa hið ágæta fyrirtæki Skipaútgerð ríkisins. Það er heldur ekkert að því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagi sig að nýju umhverfi. Hluti af því nýja umhverfi er að þessi sterki stjórnarandstöðuflokkur býr við þá sérkennilegu staðreynd að vera harkalega andsnúinn í orði, að minnsta kosti, Evrópusambandinu, en 39% af stuðningsmönnum flokksins eru hins vegar trúandi á það sem hv. þingmaður kallaði heilaga ritningu Evrópusambandsins. Ég skil það mætavel að hv. þingmaður, eða a.m.k. sumir félagar hans, dragi svolítið úr áköfum árásum sínum á Evrópusambandið. Það gæti haft töluverð áhrif á fylgi flokksins. Er ég þó ekki að ýja að því að hv. þingmaður og félagar hans séu neinir sérstakir hentistefnumenn umfram það sem gengur og gerist í íslenskum stjórnmálum.

Það sem mér finnst líka merkilegt er að hv. þm. Ögmundur Jónasson — sem hefur nú innrætt mér allt aðra heilaga ritningu, sem sé þá að vera á móti útboðum, ég hef stundum tekið þátt í herhlaupum hans á hendur ríkisstjórninni vegna þess — flytur hér tillögu sem lýtur að útboðum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson telur, og nú vísa ég beint í greinargerð með tillögunni, með leyfi forseta, „mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2006.“

Þá erum við kannski komin í hring og ef ég væri grimmur og dónalegur, sem ég hef nú (Forseti hringir.) lagt af á seinni árum, mundi ég segja að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri fulltrúi fyrir nýjan útboðsflokk. En auðvitað vitum við að svo er ekki.



[11:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum mjög skýra afstöðu til Evrópusambandsins. Sú afstaða helgast af því að við erum alþjóðlega sinnuð. Við erum alþjóðlega sinnaður flokkur og teljum að innilokunarstefna Evrópusambandsins sé hamlandi fyrir Ísland. Þar eru reistar mjög miðstýrðar skorður við hvers kyns lýðræðislegum ákvörðunum og á slíkum forsendum höfum við mjög miklar efasemdir og erum andstæð því t.d. að Ísland gangi í Evrópusambandið, þó að við höfum að sjálfsögðu samskipti og reynum að hafa jákvæð áhrif á þróun innan Evrópusambandsins eftir þeim leiðum sem eru okkur færar.

Ég tel útboð hvorki vera góð né slæm. Útboð eru ágæt í sumum tilvikum. Ég hef stutt útboð á ýmsum sviðum. Útboð hins vegar innan velferðarþjónustunnar, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., er allt annar hlutur. Ég hef mjög miklar efasemdir um slíkt og tel að það geti bitnað á þjónustunni og gæðum hennar. Ég held að við eigum að hrista af okkur íhaldssama hugsun. Íhaldssöm hugsun getur verið fólgin í að leggjast flatur fyrir tíðarandanum hverju sinni og líta á það sem einhvern hrikalegan hlut ef einhver leyfi sér t.d. að orða þá hugsun að samfélagið, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, gangist fyrir einhverju sem flokkast undir atvinnustarfsemi. Það er íhaldssöm hugsun sem ég tel að Samfylkingin og aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi eigi að horfa svolítið gagnrýnir á. Við erum þarna óhrædd við slíkan tíðaranda og tilbúin að fara leiðir sem áður reyndust vel ef við teljum þær skynsamlegar. Við hins vegar erum í þessu máli að leita eftir samstöðu (Forseti hringir.) til að ná niðurstöðu í það og fögnum þeim sem ganga í lið með okkur.



[11:38]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kjarninn í ræðu hv. þingmanns var þessi: Brjótum af okkur hlekki hugarfarsins. Ég er sammála því. Ég er sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði um útboð í ræðu sinni áðan. Ég vona að hæstv. forseti leyfi mér, þó að ég víki að eins út af efninu sem við erum að ræða, að svara ákveðnum athugasemdum hv. þingmanns um Evrópusambandið. Brjótum af okkur hlekki hugarfarsins gagnvart Evrópusambandinu líka. Ég er sammála hv. þingmanni um að Evrópusambandið hefur í frammi ákveðna innilokunarstefnu. En ég er ósammála því að hún hafi einhverja óhagkvæmni í för með sér fyrir Ísland. Þvert á móti út frá hinum þröngu sjónarmiðum Íslands hefur hún ýmislegt jákvætt í för með sér. En hún hefur mjög neikvæðar afleiðingar fyrir aðra hluti í heiminum. Fyrir fátækari ríkin, fyrir þróunarríkin.

Þess vegna tel ég að flokkur sem nýtur stuðnings 40% fólks sem styður aðild að Evrópusambandinu eigi að brjóta af sér hlekki hugarfarsins og taka upp nýja afstöðu. Koma með okkur í þetta. Förum inn í Evrópusambandið og breytum þeirri afstöðu. Brjótum niður tollmúrana sem Evrópusambandið hefur slegið um sig til að leyfa hinum fátækari ríkjum heims, eins og Afríkuríkjunum, að notfæra sér ódýrt vinnuafl sitt, ódýrar auðlindir til að búa til vörur sem mundu geta fengið greiða leið, ef ekki væru tollmúrar, inn á markaði Evrópusambandsins. Það yrði öllum til hagsbóta, okkur sem mundum búa innan þess en miklu fremur þeim sem við þurfum að hjálpa. Því það sem skiptir máli í þessu er að jafnaðarmenn hafa alltaf sagt, og segja enn í dag, að viðskiptafrelsið er undirstaða þess að þjóðirnar brjótist til bjargálna. Þess vegna ég segi við hv. þingmenn VG: Brjótið af ykkur hlekki hugarfarsins og skoðið þessa hluti upp á nýtt. Vegna þess að ef þetta er skoðað heildstætt kemur í ljós að þetta yrði jákvætt fyrir þá sem þeir vilja hjálpa helst. Lítilmagnanum í (Forseti hringir.) heiminum.



[11:41]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um strandsiglingar. Í umræðunni er búið að fara út og suður í allar áttir. Kjarni málsins er að mínu mati sá að vegir landsins þola engan veginn þá þungaflutninga sem hafa verið undanfarin ár. Þetta er stórhættulegt fyrir umferð og ýmis banaslys og stórslys hafa orðið á fólki. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta og ein leiðin er að mínu mati sú að athuga ítarlega að koma á strandsiglingum.

Talað hefur verið um eyðingu á vegum o.s.frv. En það hefur ekki verið minnst á eitt atriði sem ég tel mjög mikilsvert. Það er slit og mengun á vegum af nagladekkjum. Ég held að það sé umræða sem þyrfti að taka fyrr en seinna. Við sjáum sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu hvernig göturnar hafa farið undanfarnar vikur og mánuði.

En ég er mjög jákvæður fyrir þessari tillögu og ég vona að hún fái brautargengi og þetta hafi góð áhrif fyrir land og þjóð.



[11:42]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ágætar umræður um það mál sem hér er sem er um strandsiglingar. Tillaga þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins er um að gengið verði í það að koma á siglingum meðfram ströndum landsins, skipulegu flutningakerfi. Þó svo að menn hafi farið á víð og dreif í umræðunni hafa allir þingmenn sem tekið hafa til máls stutt málið mjög afdráttarlaust. Reyndar gerðist það sama hér fyrr. Fyrst fluttum þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þessa tillögu um strandsiglingar. Þetta er í þriðja skipti sem tillagan er flutt. Þá fór hún til samgöngunefndar og umsagnar. Þær umsagnir sem komu gengu nánast allar út á það að taka bæri upp strandsiglingar og bent var m.a. á þá útboðsleið sem hér er lögð til að megi kanna.

Einnig hefur verið rækilega bent á hinn gríðarlega háa flutningskostnað sem er á vörum út um land og þá fákeppni og nánast einokun sem orðin er í flutningum á landinu. Það eru orðin tvö fyrirtæki sem ráða nánast öllum flutningum í landinu og skammta sér verð.

Þessi tillaga um strandsiglingar hefur fengið mjög góðar undirtektir. Ég er hér með grein úr Morgunblaðinu frá því sunnudaginn 5. febrúar 2006. Þar er mjög ítarleg umfjöllun um þessa miklu flutninga á vegunum og þar segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: „Eiga risarnir vegina?“

Síðan segir:

„Vörubifreiðum á þjóðvegum landsins hefur fjölgað mikið síðustu ár og margir hafa velt vöngum yfir því hvaða áhrif þetta hafi á umferðaröryggi. Einn viðmælenda Morgunblaðsins líkti ástandinu á þjóðvegunum raunar við rússneska rúllettu.“

Þetta er lýsing á því hversu miklu hættuástandi þessir stóru flutningabílar valda á þjóðvegum landsins.

Við höfum lagt hér saman hagkvæmni í flutningum. Við höfum talað um umhverfismál og að sjóflutningar draga úr losun koltvísýrings í andrúmslofti miðað við landflutninga. Þetta er umferðaröryggismál og þetta er líka mál sem snertir jöfnun í samkeppni staða hvar sem er á landinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég þakka fyrir góðan stuðning við tillöguna og vona að hún verði, að umræðu lokinni, send til hv. samgöngunefndar. (ÖS: Hver er afstaða Framsóknarflokksins? Á hún ekki að koma fram?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veltir fyrir sér skoðun Framsóknarflokksins. Ég held að hann sé ekki einn um það.