132. löggjafarþing — 77. fundur
 6. mars 2006.
yfirlýsing Alcan um lokun álversins í Straumsvík.

[15:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefur upplýst að álsamsteypan Alcan hafi haft í hótunum ef ekki yrði heimiluð stækkun á álverinu í Straumsvík. Talsmaður Alcan-samsteypunnar hefur hvorki viljað játa því né neita að orðsendingar þessa efnis hefðu farið á milli Alcan og íslenskra stjórnvalda en lagði áherslu á að engar hótanir hefðu átt sér stað. Það voru heldur ekki orð hæstv. forsætisráðherra Íslands. En auðvitað er í því fólgin hótun ef stjórnvöldum er gerð grein fyrir því að til álita komi að loka álverinu í Straumsvík ef ekki verði farið að vilja álfyrirtækisins.

Straumsvík er stór vinnustaður og eðlilegt að menn leggi við hlustir þegar svona er talað. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa upplýst þjóðina um samskipti stjórnvalda við álfyrirtækið af þessu tilefni. En þessi atburður sýnir okkur hins vegar hvar völdin koma til með að liggja í þjóðfélaginu með stefnu ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst Framsóknarflokksins, að gera Íslandi háð álframleiðslu hvað varðar allt að þriðjungi efnahagsstarfseminnar. Er hæstv. forsætisráðherra sammála því mati að litlu efnahagskerfi eins og okkar sé betur borgið fyrir þá fjölbreyttri efnahagsstarfsemi en fáum fjölþjóðlegum auðhringum?

Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða forsvarsmenn Alcan hafi tekið þátt í viðræðum við íslensk stjórnvöld og að hæstv. forsætisráðherra upplýsi þingið um samskipti sín við þá.



[15:05]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Á sl. ári komi hingað til lands einn af forstjórum Alcan og bað um fund með mér og átti með mér afskaplega eðlilegan og hreinskilinn fund. Ég er þannig gerður að ég vil gera mér grein fyrir hlutunum og ég vænti þess að hv. þingmaður sé einnig þannig gerður. Ég var síðan spurður að því hvort ég héldi að gæti komið til greina að ef álverið yrði ekki stækkað, yrði því lokað. Ég sagði að það gæti orðið á næsta áratug eða svo.

Nú vil ég taka það fram að engar slíkar dagsetningar komu fram í þessu samtali og engar hótanir voru settar fram. En það liggur í hlutarins eðli að ef fyrirtæki geta ekki þróast miðað við framtíðarkröfur og breyttar aðstæður þá hefur það áhrif á þau og þannig er það með álver. Þannig er það með álverið í Straumsvík.

Nú má vel vera að hv. þm. Ögmundur Jónasson vilji ekki hafa þessar sjálfsögðu staðreyndir fyrir framan sig þegar hann talar um þessi mál. Hann hefur m.a. sagt frá því að forsætisráðherra hafi verið beittur hótunum. Það er rangt. Og sumir þingmenn hafa verið að hafa það eftir. Hér var um fullkomlega eðlilegt samtal að ræða þar sem ég reyndi að gera mér sem besta grein fyrir staðreyndum og ég er sannfærður um að ef þetta fyrirtæki og önnur fyrirtæki geta ekki þróast með þeim hætti sem aðstæður kalla á þá hefur það þessi áhrif. Það má vel vera að hv. þingmaður vilji ekki hafa þær upplýsingar þegar hann ræðir þetta mál en það er óþarfi af honum að setja þær í þetta samhengi.



[15:07]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég var einmitt að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að reiða þessar upplýsingar fram. Hann segir að þetta séu eðlileg samskipti, engar hótanir hafi átt sér stað. Auðvitað eru fólgnar í því hótanir þegar sagt er við ríkisstjórn Íslands að fari hún ekki að vilja álrisans komi hugsanlega til þess að álverinu verði lokað. En um hitt vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann mér sammála um það að þetta sé alvarleg áminning til Íslendinga um að verða ekki háðir stórfyrirtækjum, stórum auðhringum eins og Alcan, og stefna ríkisstjórnarinnar gengur reyndar út á? Hér hefur verið talað um rafmagn til stækkunar álversins en það eru aðrir þættir.

Í ágætri grein sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, sem skipar efsta sætið hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í Hafnarfirði, ritar í Morgunblaðið í dag þá vekur hún athygli á því að það séu ekki einvörðungu þessir þættir sem kunni að koma til álita heldur einnig mengunarþættir. Verður íslensku ríkisstjórninni stillt upp við vegg að því leyti líka?



[15:08]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tel að þetta mál sé í fullkomlega eðlilegum farvegi og það er verið að fara yfir það á öllum stigum. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að Orkuveita Reykjavíkur hefur m.a. lofað því að selja 40% af orkunni til Alcan ef af stækkun verður. (Gripið fram í.) Og það var gert samhljóða. Það styðja Vinstri grænir í Reykjavík. Það styður Samfylkingin í Reykjavík. Hvernig stendur á því að Vinstri grænir og Samfylkingin á Alþingi tala í hverju einasta máli út og suður? Er ekki hægt að fara fram á að það komi einhver samræmdur málflutningur frá þessu fólki? Það er eitt í dag og annað á morgun. (Gripið fram í: Þetta eru tveir flokkar.) Það er allt út og suður hjá báðum, hv. þingmaður. Samfylkingin í Hafnarfirði styður þetta væntanlega, Samfylkingin í borgarstjórn Reykjavíkur styður þetta en það virðist sem Samfylkingin á Alþingi sé á móti þessu. Ef það er ekki út og suður, hv. fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, þá veit ég ekki hvað er út og suður.



[15:10]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að kynna sér þær samþykktir sem gerðar hafa verið í Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar hann hefur gert það mun hann hætta þessum tilraunum til útúrsnúninga. (Forsrh.: Geturðu upplýst okkur um þær?)

Hitt finnst mér vera áhyggjuefni af hve mikilli léttúð og hve miklu alvöruleysi hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar tekur á þessum málum og hann svarar því ekki þegar þeirri spurningu er beint til hans hvort stefna ríkisstjórnarinnar um að gera þriðjung af efnahagsstarfsemi á Íslandi feli ekki í sér hættur og hvort þetta sé ekki áminning um þær hættur þegar stórfyrirtæki, auðhringur á borð við Alcan setur okkur stóllinn fyrir dyrnar á þann hátt sem hér hefur verið upplýst um.



[15:11]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að styðja atvinnuuppbyggingu í landinu og skoða alla möguleika í því sambandi. Við teljum að það skipti svo miklu máli að sem flestir hafi atvinnu í þessu landi að við tökum því ekki af neinni léttúð þegar verið er að tala um ný störf. Ég heyri að hv. þingmaður Ögmundur Jónasson vill taka það af léttúð og útiloka ákveðna hluti, það megi ekki einu sinni ræða þá. Það finnst mér vera ábyrgðarleysi gagnvart hinum vinnandi manni í þessu landi. En ég skora á hv. þingmann að upplýsa Alþingi um allar þessar bókanir Vinstri grænna í Reykjavík þannig að við vitum hverjar þær eru. Ég hef ekki heyrt um þær og ég vona að þeim hafi ekki verið stungið undir stól en ég vildi gjarnan fá að sjá þær.