132. löggjafarþing — 77. fundur
 6. mars 2006.
fréttir af jarðskjálftum.

[15:12]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.

Klukkan hálfþrjú varð mikill jarðskjálfti um 8 km austur af Krýsuvík. Ég hygg að við höfum öll fundið þennan jarðskjálfta í Reykjavík en hann mældist víst 4,5–5 á Richter. Ég sat sjálfur á skrifstofu minni og fann hann mjög greinilega. Mín fyrstu viðbrögð voru að leita frétta af því hvað væri að gerast.

Hér hefur oft verið talað um að Ríkisútvarpið gegni mjög mikilvægu hlutverki, öryggishlutverki, en ég verð að segja að það olli mér miklum vonbrigðum að þegar ég kveikti á Ríkisútvarpinu þá voru þar engar fréttir af því hvað hér væri á seyði, hvorki í sjónvarpinu né á Rás 1. Þar var bara einhver sinfóníutónlist og engar fréttir af því hvað hugsanlega væri að gerast.

Nú munum við öll, virðulegi forseti, hvað gerðist hér á landi árið 2000 þegar Suðurlandsskjálftarnir riðu yfir og við vitum það öll að þeir skjálftar ollu mikilli skelfingu og sú skelfing situr enn í mjög mörgum. Við skulum ekki gera lítið úr því. Þess vegna finnst mér það mjög alvarlegt og ámælisvert að Ríkisútvarpið skuli ekki strax hafa farið í loftið með fréttir af því sem hér var að gerast vegna þess að ég er viss um að fólk, sérstaklega fólk í nágrenni við þennan jarðskjálfta, fólk á Suðurlandi og Reykjanesi hafi orðið skelfingu lostið, orðið hrætt eðlilega og það hafi leitað að upplýsingum. En þarna var bara þögnin, engar upplýsingar þangað til NFS-sjónvarpsstöðin, einkarekin sjónvarpsstöð fór í loftið með fréttir um það bil 15 mínútum eftir að skjálftinn reið yfir. Mig langar því til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það finnist engar aðgerðaráætlanir af hendi stjórnvalda um það hvað gera skuli til að koma upplýsingum til almennings þegar svona alvarlegir atburðir gerast.



[15:14]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég veit ekki um þennan atburð. Ef hér var um alvarlegan atburð að ræða þá trúi ég ekki öðru en ég hefði verið látinn vita. Almannavarnir ríkisins eru skipulagðar með þeim hætti að það er beint samband við nokkra ráðherra í ríkisstjórninni þar á meðal forsætisráðherra. Slíkur sími er bæði á skrifstofu minni og heimili mínu þannig að ef eitthvað alvarlegt gerist þá á ég að vita það strax. Ég verð þess vegna að ganga út frá því að hér hafi ekki verið um alvarlegan atburð að ræða. Ég treysti því að ef svo væri þá vissi ég af því á þessari stundu og útsendingar Ríkisútvarpsins hefðu verið rofnar. En ég hef ekki fengið neina vitneskju um þann atburð sem hv. þingmaður spurði um.



[15:15]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má vel vera svo að sérfræðingar okkar, hvað varðar jarðskjálfta hafi ekki fyllst neinni skelfingu og hafi talið að hér hafi ekki verið neinn alvarlegur atburður á ferðinni. Við skulum vona að það sé rétt. En það eru hins vegar íbúar í þessu landi, fólk sem fyllist ótta þegar svona lagað gerist og það fólk á heimtingu á upplýsingum í upplýsingasamfélaginu á Íslandi árið 2006. Það á skilyrðislausa heimtingu á því að verða upplýst strax og svona atburðir verða.

Ég minni til að mynda á að það er mjög margt fólk sem býr á Suðurnesjum og Suðurlandi sem vinnur hér í Reykjavík, langt fjarri heimilum sínum. Það hefur í raun og veru hefur ekki haft hugmynd um, fyrr en kannski núna, hvernig ástandið virkilega er heima hjá því. Þess vegna hlýtur það að vera undrunarefni og mjög ámælisvert ef stjórnvöld geta ekki brugðist betur við en við sáum hér gerast áðan.