132. löggjafarþing — 77. fundur
 6. mars 2006.
útgáfa starfsleyfa til stóriðju.

[15:16]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir ákvörðun Landsvirkjunar um að ræða einungis við Alcan um raforkusamninga vegna álversins í Straumsvík. Gangi þær fyrirætlanir eftir verður framleiðslugetan árið 2010, 1.066.000 tonn af áli. Þar með verður aukning árlegrar losunar CO 2 frá árinu 1990 orðin 1,6 millj. tonn og íslenska ákvæðið fullnýtt samkvæmt þeim skilningi sem í það hefur verið lagður fram til þessa.

Nú hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar allt einu boðað þjóðinni nýjan fögnuð. Það á að lesa ákvæðið með öðrum gleraugum. Í ákvæðinu stendur í íslenskri þýðingu: … ákveður að heildarútstreymi koltvíoxíðs á iðnaðarvinnslu skuli ekki fara yfir 1,6 millj. tonna koltvíoxíðs að meðaltali á ári á fyrsta á skuldbindingartímabilinu. Er hæstv. umhverfisráðherra sammála þeim skilningi að hér sé átt við losunarheimildir hvers árs fyrir sig eða er hún sammála nýja skilningnum sem iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa boðað, að það eigi að búa til meðaltal úr öllum árum tímabilsins sem hér um ræðir?

Það er heldur enginn fyrirvari um losunarheimildir í nýja samkomulaginu um álverið á Bakka. Þá hljóta íslensk stjórnvöld að verða að svara þeirri spurningu hver ber ábyrgð á því að útvega losunarheimildir fyrir þeirri loftmengun sem fer fram úr íslenska ákvæðinu ef þessi áform verða að veruleika. Getur það verið að íslensk stjórnvöld hafi skapað sér þá stöðu að Alcoa eigi kröfu á að hefja framleiðslu áls á Bakka án þess að leggja til mengunarkvóta? Ég óska eftir að hæstv. umhverfisráðherra svari þessum spurningum.



[15:18]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er erfitt að svara spurningum um það sem enginn veit hvernig lítur út eftir einhver ár. Enginn veit það í dag vegna þess að það er ekki búið að taka ákvörðun um neitt af því sem hefur verið í umræðunni. Það eru nú staðreyndir þessa máls. Ég held að okkur væri því nær að bíða eftir því að þessi mynd verði eitthvað ljósari en hún er í dag. Við vitum ekki enn þá hvort verður af stækkun álversins í Straumsvík. Það standa yfir könnunarviðræður um álver á Húsavík. Það er ekkert í hendi heldur um það svo að öll þessi mál eru í þvílíkri óvissu að við getum ekkert sagt um það í dag hversu miklar framkvæmdir verða við álver í framtíðinni.

Hvað snertir hins vegar íslenska ákvæðið þá er það algjörlega fullljóst að það eru að meðaltali 1.600.000 tonn á ári. Það er hægt að jafna því yfir tímabilið, þannig er ákvæðið. Það eru staðreyndir málsins. Það skiptir auðvitað máli í því sambandi hvenær álver kemur inn því það er hægt að jafna því á allt tímabilið.



[15:20]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er þá alveg skýrt að hæstv. ráðherra er að segja okkur að það eigi að reikna út meðaltalið. En þetta sé ekki meðaltal innan ársins. Þetta þýðir að hæstv. ráðherra virðist vera sátt við að gefa út starfsleyfi þegar kemur til loka þessa tímabils, til fyrirtækja sem væru að framleiða fram yfir íslenska ákvæðið þannig að Íslendingar gætu þá ekki skrifað undir nýtt samkomulag sem yrði samhljóða því sem var skrifað undir síðast. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Er hún tilbúin að skrifa undir slíkt ef á á að herða? Ég spyr líka: Telur umhverfisráðherra að það sé viðunandi staða sem hún er í, ef menn ákveða að flytja inn mengunarkvóta að þá sé hægt að gera það endalaust? Og að óbreyttum lögum verði hæstv. umhverfisráðherra að skrifa undir starfsleyfi til allra fyrirtækja sem sækja um að fá að framleiða ál á Íslandi svo framarlega sem þeir flytji inn mengunarkvóta fyrir þeirri starfsemi sem þeir eru með? Er það viðunandi (Forseti hringir.) að mati hæstv. ráðherra?



[15:21]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður er enn við sama heygarðshornið og virðist gefa sér að það sem er enn þá á umræðustigi að um það sé búið að taka ákvarðanir. Það er algjörlega útilokað að svara spurningu af þessu tagi eins og þingmaðurinn setur hana fram. (Gripið fram í.) Við skulum hafa staðreyndir málsins á borðinu áður en hægt er að svara spurningum af þessu tagi.



[15:22]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra er með útúrsnúninga hér. Ég var að spyrja um túlkun á ákvæðinu. Ég var að spyrja hvernig hæstv. ráðherra mundi svara því ef hún stæði í þeim sporum sem stefnir í að hún komi til með að standa í. Og hæstv. ráðherra á að geta svarað hvort hún sé sammála því og hvort hún sé tilbúin til þess — ef hún verður umhverfisráðherra þá, sem ég er kannski ekki að spá að verði — þegar kemur til þess að skrifað verði undir nýjan loftslagssamning að þá þurfi Íslendingar að koma knékrjúpandi og biðja um viðbótarkvóta og ef þeir fá hann ekki geti þeir ekki skrifað undir óbreyttan samning. Er hæstv. umhverfisráðherra tilbúin til að ganga þessa göngu?

Ég spyr vegna þess að mér finnst full ástæða til að við fáum svör við því. Mér finnst líka full ástæða til að við fáum svör við því hvort umhverfisráðherra er tilbúin til að hafa þessi lög óbreytt þannig að hún þurfi að skrifa undir allan innflutning á mengunarkvótum, hve mikill sem hann verður. En þannig eru lögin í landinu núna. (Gripið fram í.)



[15:23]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Af þessu tilefni vil ég segja, af því hér er náttúrlega verið að vísa í Kyoto-bókunina, að við Íslendingar munum standa við skuldbindingar okkar gagnvart Kyoto. Það er algjörlega ljóst, hv. þingmaður. Það þýðir ekkert að koma hér í ræðustól hvað eftir annað eins og hv. þingmaður hefur gert hérna í dag og krefjast svara um eitthvað sem enginn veit hvað er. Ég er ekki sá spámaður, eins og hann þykist telja sig vera, að ég geti sagt nákvæmlega fyrir um hvernig þessi mál þróast og það getur enginn hér í þessum sal.