132. löggjafarþing — 77. fundur
 6. mars 2006.
skatttekjur af umferð.

[15:24]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Í nýlegu svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn frá mér sem var m.a. um heildarskatttekjur ríkissjóðs af umferð og bílainnflutningi síðastliðin 10 ár, kemur ýmislegt afar merkilegt í ljós, eins og t.d. þetta:

Bráðabirgðatölur fyrir árið 2005 eru hvorki meira né minna en rúmir 47 milljarðar kr. skattar af umferð og bílainnflutningi. Af þessum 47 milljörðum eru tæplega 9 milljarðar kr. áætlaðir í virðisaukaskattstekjur af rekstri einkabíla. Tekjur af bifreiðakaupum eru um 19,5 milljarðar kr. Tekjur af notkun ökutækja eru rétt tæpir 19 milljarðar kr. Virðulegi forseti. Í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka hafa tekjur ríkissjóðs af ökutækjum aukist um hvorki meira né minna en 23 milljarða kr. á verðlagi síðustu áramóta. Og tekjur af ökutækjum sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist á sama tíma úr 3,7% í 4,8%. Heildarfjárveiting til vegamála er hins vegar, virðulegi forseti, aðeins rétt tæpir 15 milljarðar kr. á árinu 2004, og að mig minnir svipuð tala árið 2005. Þetta þýðir, samkvæmt útreikningi, að u.þ.b. 32 milljarðar kr. hafa runnið beint í ríkissjóð og gagnast því ekki vegagerð eða rekstri og viðhaldi þjóðvega landsins.

Virðulegi forseti. Spurningin til hæstv. fjármálaráðherra er því þessi: Stendur til að lækka skatta ríkissjóðs af bifreiðanotkun landsmanna, t.d. bensíngjaldi eða olíugjaldi eða aðra stórskatta ríkisstjórnarinnar? Eða á að auka fé til framkvæmda á næstu árum? Þá er ég auðvitað að tala um annað en hina venjulegu 1–2 milljarða sem settir eru inn aukalega til vegagerðar á kosningaári. En eins og menn vita á að kjósa á næsta ári þannig að þá má vænta þess að inn komi 1–2 milljarðar. En ég spyr: Verður meira?

(Forseti (SP): Forseti verður að segja að hann telur of mikið ónæði hér í salnum af því hv. þingmenn eru hér að tala saman. Forseti biður hv. þingmenn að taka tillit til þess að hér eru menn að varpa fram fyrirspurnum til ráðherra.)



[15:27]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég verð nú í upphafi svarsins að lýsa yfir aðdáun minni á reikningskunnáttu hv. þingmanns og geri því skóna að það sé rétt reiknað í svari mínu. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að tekjur hins opinbera af alls konar bifreiðum hafa aukist talsvert á undanförnum árum. Það er í takt við þá aukningu á tekjum sem orðið hefur hjá ríkissjóði vegna þess hversu vel hefur árað, hversu hagvöxtur hefur verið mikill og hversu kaupmáttur þjóðarinnar hefur aukist mikið að undanförnu.

Eins og lesa má um í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir aukningu til vegamála á næsta ári en vegna hinna miklu þenslu sem hefur verið í hagkerfinu að undanförnu hefur verið minna svigrúm fyrir aðrar umsvifamiklar framkvæmdir í hagkerfinu. Þegar dregur úr þeirri þenslu er gert ráð fyrir að umsvif í vegaframkvæmdum muni aukast, eins og sjá má í langtímaáætluninni.

Aðrar ákvarðanir en þar er um að ræða hafa ekki verið teknar. Ef áætlanir ganga fram á ég ekki sérstaklega von á að breytingar verði þar á. Það eru heldur ekki uppi neinar sérstakar áætlanir um að gera breytingar á innheimtu þessara gjalda. En ég vil þó minna á að í dag er um að ræða tímabundna lækkun á olíugjaldinu sem kom til vegna þess að heimsmarkaðsverð á dísilolíu hefur verið óeðlilega hátt á undanförnum árum. Sú ákvörðun var tekin í sambandi við upptöku á nýju kerfi hvað varðar (Forseti hringir.) innheimtu af umferðinni.



[15:29]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég verð auðvitað líka taka undir að ég er sammála því að hæstv. fjármálaráðherra kann að reikna. Reikna upp skatta á landsmenn. Hann og hæstv. ráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, eru snillingar að reikna upp skatta, samanber það sem kemur hér fram. Skattahækkanir á umferð og bílainnflutningi sem hafa orðið síðastliðin 10 ár eru líklega heimsmet. Við höfum verið að ræða hér um aðra skatta á almenning í landinu, hvernig þeir hafa verið reiknaðir upp og hafa stórhækkað, sem hefur verið staðfest af prófessorum og öðrum og nýlega í Ríkisútvarpi allra landsmanna. Þó svo að hæstv. ráðherra hafi skrifað þeim og mótmælt því.

En virðulegi forseti. Þótt það komi hér fram hjá hæstv. ráðherra að kannski verði fjögurra krónu afsláttur af hverjum olíulítra vegna olíugjalds framlengdur þá spyr ég auðvitað um þessa ofurskatta vegna þess að þeir leggjast mjög misjafnt á fólk, t.d. er það ljóst að áður en þungaskattinum var breytt yfir í olíugjald þá hækkaði hann mjög mikið og olíugjaldið er líka svimandi hátt. Þetta leiðir til stórhækkunar flutningskostnaðar (Forseti hringir.) hér innan lands og ég hlýt að spyrja ráðherra hvort þetta komi ekki til tals vegna þess að það hefur verið rætt innan ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að lækka þessa flutningsskatta af umferð.



[15:30]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það virðist vera með Samfylkinguna að þar séu ekki bara uppi tvær skoðanir á álmálinu heldur virðast líka vera uppi tvær skoðanir hvað varðar ríkisfjármálin. Önnur skoðunin er sú að þess sé ekki gætt nægjanlega vel að hafa aðhald í ríkisrekstrinum og hafa afganginn nægjanlega mikinn eða menn hafa áhyggjur af því að skattheimtan sé ekki nægjanleg. Svo er uppi hin skoðunin þar sem menn vilja bæði auka framkvæmdirnar og lækka skattana. Það virðist vera að hv. þm. Kristján Möller sé fulltrúi þeirrar skoðunar, a.m.k. miðað við það sem hann segir hér í dag. Það verður auðvitað svo að vera en ég held að við verðum almennt að gera kröfu til þess að menn séu með samræmi í málflutningi sínum, bæði einstaklingar og (Forseti hringir.) flokkar þegar verið er að fjalla um svo mikilvæg mál, frú forseti.



[15:32]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega samræmi í málflutningi núverandi og fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að sækja tekjur ríkissjóðs og skattleggja eins og raun ber vitni um.

Virðulegi forseti. Ég spyr t.d. um það og hef ekki fengið svar við því, vegna þess að rætt var um það innan ríkisstjórnarinnar fyrir síðustu kosningar að lækka t.d. álögur á flutningskostnaði. Ég tók dæmi um þungaskattinn, ég tók dæmi um olíugjaldið. Það hefur verið fjallað um þetta innan ríkisstjórnarinnar, þrjú ráðuneyti voru látin skila skýrslu rétt fyrir kosningar. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur hins vegar sagt að hún hafi gefist upp á því að berjast fyrir lækkun flutningskostnaðar, svo ég taki bara það dæmi, vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni. (Viðskrh.: Ég hef aldrei sagt það.) Það hefur komið þar fram. Þess vegna er eðlilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem er með ríkissjóð þar sem flæðir núna út úr af skatttekjum af umferð, þar með talið af flutningskostnaði, hvort ekki sé ráð að fara þá leið að lækka þessa skattheimtu og auðvelda þar með t.d. rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni sem eiga mjög í vök að verjast núna út af þessum svimandi háu flutningsgjöldum. (Forseti hringir.) Auðvitað fer þetta líka beint út í verðlag til fólks.



[15:33]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Eins og kom fram í frammíkalli frá hæstv. viðskiptaráðherra fór hv. síðasti ræðumaður með rangt mál hér í ræðustólnum (KLM: Það er ekki rétt.) hvað varðar flutningskostnaðinn.

Hv. þingmaður nefndi áðan að sennilega væri um heimsmet að ræða í auknum álögum á umferðina. Ég get svo sem ekki fullyrt um það, (KLM: Enda dálítið …) ég ætla hins vegar ekki að fullyrða um nein önnur heimsmet. Ég ætla hins vegar að fullyrða að það sé mjög erfitt, og hv. þingmaður þarf að leita um langan veg og sennilega jafnvel í langan tíma, til að finna aðra eins stöðu hvað varðar hagvöxt og kaupmáttaraukningu og þá sem hér hefur verið á undanförnum árum. Það er hún sem er að koma fram í hinum auknu tekjum hjá okkur. Við gerum hins vegar líka ráð fyrir því í langtímaáætlun í ríkisfjármálum að þessi mikli hagvöxtur verði ekki viðvarandi næstu árin og þá munum við þurfa á öllum okkar tekjum að halda plús það sem við höfum þegar lagt til hliðar til að halda uppi framkvæmdum á næstu árum til þess að geta (Forseti hringir.) haldið áfram að bæta kjör landsmanna.