132. löggjafarþing — 79. fundur
 8. mars 2006.
fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.
fsp. JóhS, 551. mál. — Þskj. 799.

[12:14]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég beini spurningum til forsætisráðherra um störf nefndar sem vinnur að því að fjalla um lagalega umgerð stjórnmálastarfsemi á Íslandi eins og það er orðað í skipunarbréfi nefndarinnar. Þessi nefnd var skipuð í sumar í kjölfar umræðu á Alþingi um skýrslu forsætisráðherra um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Í skýrslu forsætisráðherra kom fram að nefndin mundi skila tillögum sínum fyrir lok árs 2005 og það eru meira en tveir mánuðir síðan niðurstaða átti að liggja fyrir. Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þess megi vænta að niðurstöður úr starfi nefndarinnar, og þá væntanlega lagafrumvarp sem því fylgdi um setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka, liggi fyrir fljótlega þannig að málið kæmi þá til kasta þingsins með það góðum fyrirvara að hægt væri að lögfesta frumvarp um fjármál stjórnmálaflokkanna áður en þessu þingi lýkur.

Það eru tvennar kosningar fram undan, bæði til sveitarstjórna og Alþingis, á þessu og næsta ári, og afar brýnt að stjórnmálaflokkarnir manni sig upp í lagasetningu um fjárreiður stjórnmálaflokkanna sem taki gildi áður en kosningarnar bresta á þannig að fjármál stjórnmálaflokkanna og styrkveitingar til þeirra verði gegnsæ og opin í þeim kosningum. Það hefur vitaskuld dregist allt of lengi að setja lög um fjármál stjórnmálaflokka eins og tíðkast hjá öllum siðmenntuðum þjóðum. Ísland er sennilega eina landið í Vestur-Evrópu fyrir utan Sviss sem ekki hefur sett slík lög. Rúmur áratugur er nú síðan Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði nefnd í þetta mál. Þá voru uppi áform um lagasetningu um fjármál flokkanna í kjölfar þess að á árinu 1993 samþykkti Alþingi að framlög lögaðila til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti og það var forsenda margra þingmanna fyrir þeirri lagasetningu að í kjölfarið fylgdu lög um opnar fjárreiður stjórnmálaflokka. Ótækt er líka hve mikil leynd hefur hvílt yfir þessum framlögum og útilokað hefur verið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá fram gegnum skattagögn hve há þessi fjárhæð er til stjórnmálaflokkanna en þessi fjárhæð er falin inni í heildarfrádráttarliðum sem ýmsir aðilar í samfélaginu, eins og ýmis líknarfélög, fá líka. Samkvæmt mínum upplýsingum er hæglega hægt að keyra út úr skattagögnum hve mikið hefur verið veitt í frádrátt til lögaðila vegna stuðnings þeirra við stjórnmálaflokka ef vilji væri til þess. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að skattyfirvöld geti gefið upp hve háar fjárhæðir lögaðilar hafa dregið frá skatti vegna framlaga til stjórnmálastarfsemi og það verði hægt að fá upplýsingar um það í framtíðinni.

Brýnt er líka að í þeirri lagasetningu sem væntanlega mun koma fyrir þingið um opnar fjárreiður stjórnmálaflokkanna komi fram að frambjóðendur í prófkjöri upplýsi um útgjöld vegna prófkjörsbaráttu og einhverjar reglur verði líka að setja um upplýsingaskyldu þegar um stærri framlög er að ræða hjá einstöku frambjóðendum, en um það er hæstv. ráðherra líka spurður.



[12:17]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda þá skipaði ég nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka í júlí 2005 til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfseminnar. Sú nefndarskipun kom í kjölfar skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi í apríl 2005 um fjármál stjórnmálaflokkanna sem hv. fyrirspyrjandi óskaði eftir. Nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka er enn að störfum og hefur fundað reglulega um það efni sem henni var falið til umfjöllunar.

Í fyrrnefndri skýrslu sem var lögð fyrir Alþingi í apríl 2005 kom fram sú von að niðurstaða úr starfi nefndarinnar gæti legið fyrir, fyrir lok árs 2005. En þar sem ekki náðist að skipa í nefndina fyrr en í júlímánuði, m.a. vegna þess hvað tilnefningar bárust seint, var alltaf ljóst að tíminn væri naumt skammtaður. Í lok árs 2005 varð endanlega ljóst að ekki næðist að ljúka nefndarstörfum innan þeirra marka. Ástæða þess er helst sú að nefndin hefur lagt í mikla upplýsingaöflun og mikið magn gagna verið lagt fyrir nefndina til umfjöllunar og úrvinnslu. Þá hafa verið greindir helstu þættir regluvefs um þetta efni í nálægum löndum. Nefndin var einhuga um að óska þess að fá frekari tíma til að fjalla um málið í lok síðasta árs og var orðið við þeirri ósk af hálfu ráðuneytisins. Ég vil minna á að starf nefndarinnar er á forræði nefndarmanna sjálfra sem allir eru fulltrúar stjórnmálaflokkanna í landinu. Nefndin fundar reglulega og vinnur að málinu með skilvirkum hætti með aðstoð fulltrúa forsætisráðuneytisins.

Af þessum ástæðum tel ég ekki eðlilegt að setja nefndarstarfinu einhver tímamörk eða úrslitakosti enda væntanlega vænlegast til árangurs að gefa nefndinni ráðrúm til að vinna að málinu eins og vilji og samkomulag innan hennar stendur til. Ekki síst með tilliti til samsetningar nefndarinnar.

Hvað varðar að öðru leyti þær spurningar sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín vil ég minna á þá afstöðu sem fram kom í fyrrnefndri skýrslu forsætisráðherra um málefnið, að mikilvægt sé að samstaða sé milli stjórnmálaflokkanna um meginreglur um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfis stjórnmálaflokkanna. Af þeirri ástæðu er það mitt mat að forræði á stefnumörkun um starfsumhverfi stjórnmálaflokka eigi að vera á vettvangi fulltrúa flokkanna sjálfra enda væri annað verklag beinlínis varhugavert út frá lýðræðislegum meginreglum.

Í ljósi þess að nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna er nú að fjalla um þessi mál tel ég óeðlilegt að gefa yfirlýsingar um afmarkaða þætti þeirra umfram það sem kom fram í þeirri skýrslu sem ég lagði fram á Alþingi í apríl 2005. Eðlilegast og æskilegast hlýtur að vera að nefnd fulltrúa flokkanna fái ráðrúm til komast að niðurstöðu og skila tillögum sem allir nefndarmenn hafa orðið ásáttir um.



[12:21]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má alveg túlka svör hæstv. forsætisráðherra þannig að það sé enginn raunverulegur vilji til slíkrar lagasetningar um fjárræði stjórnmálaflokkanna. Að slíka löggjöf skorti varpar skugga á stjórnmálalífið og elur á alls konar tortryggni um starfsemi flokkanna hvort sem hún á við rök að styðjast eða ekki. En síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að setja reglur um þetta. Það væri mjög gagnlegt að fá yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra um viðhorf hans til þeirra hluta, þar sem tekið væri til frambjóðenda í prófkjörum og birtir reikningar og framlög til frambjóðendanna. Ég held að fjárausturinn og auglýsingaflóðið á undanförnum mánuðum og missirum í prófkjörum til borgarstjórnar og Alþingis hafi orðið til að mörgum blöskrar. Það má fullyrða að aðgöngumiðinn að sæmilega öruggu sæti í borgarstjórn og á þingi kosti oft og tíðum 4–8 millj. kr.

Þá má nú spyrja um jafnræði þeirra sem hafa aðgengi að peningunum eða búa yfir fjármunum eða þeirra sem hafa það ekki þegar (Forseti hringir.) kostar svo mikið að taka þátt í lýðræðinu.



[12:23]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Maður verður alltaf jafn hissa þegar þessi umræða kemur upp hvers vegna í ósköpunum það tekur svona langan tíma fyrir stjórnmálaflokkana að fallast á að birta reikninga sína. Ég get ekki ímyndað mér að þetta þurfi að vera svona flókið. Við í Frjálslynda flokknum höfum birt reikninga okkar allt frá upphafi og ætlum að gera það áfram og vilji einhverjir spyrja nánar út í hvernig þeir eru, eða hvaða greiðslur standa á bak við einstakar fjárhæðir þar, þá er ekkert vandamál að hafa samband við framkvæmdastjóra flokksins og fá þær upplýsingar.

Það er alveg rétt sem kemur fram hér, það er orðið mjög mikið umhugsunarefni þegar maður sér hvað aðgöngumiðinn að þátttöku í stjórnmálum í sveitarstjórnum, borgarstjórn eða hér inni á hinu háa Alþingi, virðist oft og tíðum orðinn dýr. Miklu dýrari en svo að nokkur einstaklingur geti staðið þar á bak við. Það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að frambjóðendur sem fara út í dýrar og viðamiklar kosningabaráttur geri jafnframt grein fyrir hvaðan peningarnir koma sem standa þarna að baki.



[12:24]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að stjórnmálaflokkarnir séu að vinna að því að samræma reglur um fjármál stjórnmálaflokka hér á landi. Samfylkingin tekur þátt í því verkefni eins og aðrir flokkar í þeirri nefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði.

Reyndar finnst mér samt merkilegt að hlusta á hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala um að menn séu að eyða miklum peningum í prófkjör og að menn eigi að birta reikninga sína og annað slíkt, þegar Samfylkingin sjálf er með allt niður um sig í þeim efnum. Samfylkingin birtir ekki framlög einstaklinga eða fyrirtækja sem eru undir ákveðnum mörkum. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Reykjavík gáfu ekki upp hverjir styrktu þá fyrir prófkjörið sem þar fór fram. Var það þó eitt dýrasta prófkjör sem hefur farið fram fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Ég hvet því hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að taka til í eigin ranni í þessum efnum áður en þeir gera sig heilaga hér í ræðustóli á hv. Alþingi. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um samræmdar reglur og að því er unnið.



[12:25]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil bara segja nokkur orð. Ef fjármagn eða peningar ráða ferðinni í hverjir eru fulltrúar þjóðarinnar, þá er lýðræðinu illa farið.



[12:26]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara árétta að hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er alltaf gerð nákvæm grein fyrir kostnaði hvað varðar rekstur flokksins, flokksdeilda, og öðru því er lýtur að pólitísku starfi flokksins og framboðsmálum. Við teljum þetta eiginlega hornstein lýðræðisins að þetta sé allt saman á hreinu, gagnvart öllum almenningi, bæði innan flokks og utan. Okkur finnst það dapurt að enn skuli þvælast fyrir stjórnmálaflokkum að ganga hér hreint til verks og vera með skýrar reglur svo ekki þurfi að vera uppi neinar getgátur um hvernig fjármögnun er. (Forseti hringir.) Lýðræðið er í húfi að þetta sé allt á hreinu. (Forseti hringir.)



[12:27]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað til vansa hve lengi stjórnmálaflokkarnir hafa verið að væflast með þetta mál sín á milli eins og heita kartöflu án þess að ná fram nokkurri niðurstöðu um lagasetningu. Forsætisráðherra segir að nefndin sé í gagnasöfnun. Ég vil minna á að nefnd Davíðs Oddssonar starfaði í þrjú, fjögur ár og var í eilífri gagnasöfnun. Það tók tvö eða þrjú ár að svara skýrslu sem ég bað um eftir að nefnd Davíðs Oddssonar skilaði af sér. Hún var tvö, þrjú ár að afla gagna í þá skýrslu áður en hægt var að leggja hana fyrir þingið. Nú er enn þá verið að safna gögnum. Það liggja fyrir allar upplýsingar í þessu máli varðandi gögnin. Bæði í úttekt Davíðs Oddssonar sem var gerð á sínum tíma og í skýrslunni.

Mér finnst, og ég hef af því alvarlegar áhyggjur, hvað hæstv. ráðherra er skoðanalaus í þessu máli. Telur hann enga ástæðu til að setja nefndinni ákveðinn tímaramma? Finnst hæstv. forsætisráðherra það engu máli skipta að þessi mál séu komin á hreint fyrir næstu kosningar svo ákveðnar samræmdar reglur gildi milli flokkanna um að birta reikninga kosningabaráttunnar? Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Er ekki ástæða til að gefa nefndinni ákveðinn tímaramma í þessu efni?

Almenningur gerir kröfu um gegnsæi og sýnileika í stjórnsýslunni til að koma í veg fyrir spillingu og stuðla að góðum stjórnsýsluháttum. Flokkarnir hafa dagað uppi sem nátttröll í þeirri breytingu sem orðið hefur í opnun í stjórnsýslunni. Það á greinilega að reyna að halda þessu máli áfram með þeim hætti sem gert hefur verið, að draga lappirnar í þessu og það er alveg einsýnt að menn muni ekki skila af sér neinni niðurstöðu þannig að hægt sé að lögfesta hér lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna áður en þessu þingi lýkur. En þá gætu sveitarstjórnarkosningar tekið mið af því.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, hvers vegna hann telur sig t.d. ekki geta svarað lið tvö og þrjú í þessari fyrirspurn, sem eru beinar fyrirspurnir til ráðherra um hans skoðun á þessu máli.



[12:29]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vil nú hvetja fulltrúa stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi til að ræða við nefndarmenn viðkomandi flokka í þessari nefnd. Ég vil spyrja á móti: Er ekki mikilvægt að ná samstöðu um þessi mál? (JóhS: Ég hef rætt við fulltrúa flokksins og þess vegna hef ég áhyggjur.) Það getur vel verið að einhverjir þingmenn hér á hv. Alþingi séu ekki fulltrúar neins flokks. Það eru alveg nýjar fréttir fyrir mér.

En ég hef litið svo á að það væri nauðsynlegt að vinna að samstöðu í þessu máli. Ég hef sagt það mjög skýrt að ég tel nauðsynlegt að setja reglur í þessu sambandi. Að við setjum löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna. En ég tel algjörlega nauðsynlegt að vinna að því með fulltrúum allra flokka á Alþingi.

Ef einhverjir hv. þingmenn vilja vinna það með einhverjum öðrum hætti þá er mikilvægt að fá það fram. Ef hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir telur ekki nauðsynlegt að Samfylkingin taki þátt í þessu máli og það sé hægt að vinna að málinu án Samfylkingarinnar, þá er það skoðun út af fyrir sig. Ég hef talið nauðsynlegt að það væri hægt að ná samstöðu líka með þeim flokki. Enda á hann marga fulltrúa hér á Alþingi. Ég hvet hv. þingmann til að ræða þetta innan síns flokks. Því ég veit ekki betur en hún starfi innan hans. Að hve miklu leyti hún ber ábyrgð á starfinu þar veit ég ekki. En ég hef haldið hingað til að hún starfaði að fullu innan flokksins.