132. löggjafarþing — 79. fundur
 8. mars 2006.
jafn réttur til tónlistarnáms.
fsp. KolH og JBjarn, 264. mál. — Þskj. 277.

[12:31]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ég og Jón Bjarnason, höfum leyft okkur að beina til hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn um jafnan rétt fólks til tónlistarnáms. Ég vil í upphafi máls míns leyfa mér að vitna til orða Sigurðar Flosasonar tónlistarmanns og aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla FÍH.

Hann segir í Morgunblaðsgrein föstudaginn 17. febrúar, með leyfi forseta:

„Málefni íslenskra tónlistarskóla eru komin í þvílíkt öngþveiti að ég fæ ekki lengur orða bundist. Árangur skólanna lofa allir sem til þekkja og þegar svo ber undir vilja allir Lilju kveðið hafa. Framkoma stjórnmálamanna í garð þessara menntastofnana er hins vegar með öllu óskiljanleg. Reyndar er háttalag þeirra ekki síður slæmt gagnvart nemendum skólanna, aðstandendum þeirra, kennurum skólanna og stjórnendum. Vegna aðgerða stjórnvalda hefur skapast óvissa um ýmsa þætti starfseminnar, óásættanlegt ástand sem getur af sér óöryggi og óánægju allra sem í skólunum starfa. Og til hvers höfum við þá gengið götuna sem dr. Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi menntamálaráðherra ruddi árið 1963? Er það til að upplifa þann glundroða og þá niðurlægingu sem nú blasir við okkur?“ segir Sigurður Flosason í Morgunblaðsgrein, frú forseti.

Nú er það svo að stjórnvöld, hið opinbera, ríki og borg og lítil sveitarfélög hafa deilt um kostnaðarskiptingu í nokkurn tíma. Enn eru í fullu gildi lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og samkvæmt þeim kemur skýrt fram að menntamálaráðherra ber ábyrgð á hinum faglega þætti tónlistarskólanna, þ.e. viðurkenningu nýrra tónlistarskóla og gerð samræmdrar námskrár fyrir tónlistarfræðslu á öllum skólastigum. Hins vegar hafa, eins og ég sagði áðan, verið deildar meiningar varðandi kostnaðarskiptingu þessa náms og síðan vorið 2003 fór Samband íslenskra sveitarfélaga formlega fram á það við hæstv. menntamálaráðherra að kostnaðarskipting á fyrirkomulagi tónlistarkennslu yrði endurskoðuð, sérstaklega þó á framhaldsskólastigi. Samkvæmt svörum sem ég fékk frá fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, herra Tómasi Inga Olrich, í október 2003, var stofnuð nefnd í júní það ár sem í voru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og í umboði þeirrar nefndar kom það fram að henni væri ætlað að fjalla um kostnaðarskiptinguna og fyrirkomulag tónlistarkennslu á framhaldsskólastigi. Nú skilst mér að það sé komið samkomulag um þá skiptingu sem lýtur þó eingöngu að þreyttum einingum til stúdentsprófs og þykir mér það nokkurt umhugsunarefni.

Svo hefur verið starfandi nefnd um endurskoðun laga um þennan fjárhagslega stuðning síðan vorið 2004 eftir því sem ég best veit. Þar hefur allt staðið fast og nú stefnir í það óefni sem Sigurður Flosason lýsir. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við þessir þingmenn höfum beint fyrirliggjandi spurningu um jafnrétti fólks til tónlistarnáms til hæstv. menntamálaráðherra.



[12:35]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Áður en ég fer í það að svara spurningu fyrirspyrjanda, hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, finnst mér rétt að segja frá því sem hún kom í rauninni inn á áðan, að lögin um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla eru frá árinu 1985 en samkvæmt þeim greiða sveitarfélög sem reka tónlistarskóla launakostnað kennara og skólastjóra. Einkareknir tónlistarskólar sem hlotið hafa samþykki sveitarstjórnar, þá iðulega í formi þjónustusamnings, og sérstakt samþykki menntamálaráðuneytisins geta fengið greiddan launakostnað kennara og skólastjóra úr sveitarsjóði.

Á móti þessum fjárstuðningi sveitarfélaga er tónlistarskólum ætlað að innheimta skólagjöld sem standa undir öðrum rekstrarkostnaði en launum kennara og skólastjóra. Hlutverk ráðuneytis menntamála samkvæmt lögunum er annars vegar að veita tónlistarskólunum sérstakt samþykki og hins vegar að hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu í landinu.

Ráðuneytið hefur því samkvæmt þessu gefið út aðalnámskrá tónlistarskóla árið 2000 sem er gefin út í tíu heftum og skiptist í almennan hluta aðalnámskrár og níu einstaka greinahluta. Eftirlitshlutverki ráðuneytisins er einkum sinnt með tvennum hætti: Í fyrsta lagi er sérstök prófnefnd tónlistarskóla sem starfar á vegum Sambands tónlistarskólastjóra, Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna með fjárstuðningi menntamálaráðuneytis og annast sú nefnd samræmt og hlutlaust mat á áfangaprófum í tónlistarskólum í samræmi við aðalnámskrána. Einnig safnar ráðuneytið upplýsingum um starfsemi tónlistarskóla og skipar samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar sem fjallar m.a. um námskrárgerð, námsgagnagerð, þróunarstarf, mat á skólastarfi og fleiri þætti.

Ef við förum í a-lið spurningar hv. þingmanns: „Hvernig hyggst ráðherra tryggja að nemendur alls staðar á landinu hafi jafna möguleika til tónlistarnáms?“ þá er eins og ég hef þegar sagt, rekstur og fjárhagslegur stuðningur við tónlistarskóla á hendi sveitarfélaga og sú skipan er í samræmi við lög og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og mundi þá ekki breyta lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Tónlistarfræðslan er þó ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga, samkvæmt lögunum, heldur er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það ákveður að veita fjármuni til þessa málaflokks og forgangsraða ráðstöfun fjárins í samræmi við stefnu sína í tónlistarfræðslumálum, sem sagt sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. Það væri því í andstöðu við 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga að menntamálaráðherra mundi beita sér fyrir því að öll sveitarfélög í landinu veittu nemendum jafna möguleika til tónlistarnáms.

Hins vegar og þrátt fyrir þetta hef ég engu að síður beitt mér fyrir því að leitast við að jafna aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum til tónlistarnáms, þrátt fyrir enga lagaskyldu, með því að taka þátt í kennslukostnaði tónlistarskóla vegna framhaldsskólanemenda sem stunda tónlistarnám á tónlistarkjörsviði listnámsbrauta framhaldsskóla eða fá síðan tónlistarnám sitt metið til eininga sem hluta af lokaprófi til framhaldsskóla.

Í þessu skyni var einmitt gert þetta samkomulag sem hv. þingmaður talaði um milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og gilti fyrir skólaárið 2004–2005. Að undanförnu hafa staðið yfir viðræður milli ráðuneytisins og sambandsins um með hvaða hætti væri unnt að framlengja þetta samkomulag en ég dreg ekki dul á að mér hugnast ekki vel að leysa þessi mál til eins árs í senn, fyrst og fremst með það í huga að það er ekki stöðugleiki fyrir íslenska tónlistarnemendur að hið opinbera, þá á ég ekki síst við að sveitarfélögin og ríkið, skuli ekki leysa þessi mál til langs tíma.

Ég vil líka undirstrika það að á þessum fundum með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en þau hafa komið nokkuð mörgum sinnum í ráðuneytið að undanförnu til þess að fara yfir mál tónlistarskólanna, þá hef ég reynt að stuðla að lausn sem væri lausn til framtíðar og þá er ég líka að líta til skólakerfisins eins og það lítur út núna í dag að grunnskólinn og leikskólinn eru á forræði sveitarfélaga og síðan framhaldsskólinn á forræði ríkisins. Ég held að þetta sé þáttur sem við eigum sérstaklega að huga að. Það hafa orðið breytingar á tónlistarnáminu, eins og hv. þingmaður veit, það er grunnstig, miðstig og síðan framhaldsstigið og ég er nokkuð sannfærð um að það er þáttur sem við eigum sérstaklega að fara yfir. Þetta mundi auðvitað þýða einhverjar tilfærslur á fjármunum frá sveitarfélögum yfir til ríkisins en ég tel að það væri eðlilegt og í samræmi við heildarsamhengið í skólakerfið að ríki og sveitarfélög mundu komast að þessari niðurstöðu, að allt listnám væri skipulagt með þessum hætti, þetta væri einfalt og gegnsætt fyrir tónlistarnemendur eða aðra listnámsnemendur. Menn vissu hver bæri ábyrgðina á hverju stigi. Að þessu hef ég verið að vinna og við skulum bíða og sjá hvað setur, enn eru samræður á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins hvað þetta varðar.



[12:40]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Tónlistarnám, tónlistarkennsla er eitt af metnaðarmálum í mörgum sveitarfélögum úti um land, þar sem víða er lögð mikil áhersla á öflugt tónlistarlíf. Þegar þessir nemendur verða síðan að fara frá heimabyggðum sínum í framhaldsskóla til Reykjavíkur, Akureyrar eða annað, verður brot á tónlistarnámi þeirra vegna þess að þau eiga ekki sama aðgang að tónlistarnámi þar eins og í heimabyggð sinni. Ráðherrann segir: Bíðum og sjáum. Enn hefur samningurinn milli sveitarfélaganna og ríkisins varðandi kostnað við tónlistarnám í framhaldsskólunum ekki verið endurnýjaður, ekki frá síðustu áramótum. Börnin líða fyrir þetta, það er tónlistarnáminu sem blæðir og þó að hæstv. ráðherra og forustumenn sveitarfélaga geti verið að togast á um þessa peninga þá eru þetta í fyrsta lagi ekki háar upphæðir en í öðru lagi er þetta veruleg skerðing á réttindum þessa unga fólks (Forseti hringir.) og sérstaklega vil ég nefna ungt fólk utan af landi sem verður að fara heiman til náms, frú forseti.



[12:41]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta svar var með því rýrara sem komið hefur frá hæstv. menntamálaráðherra. Það ríkir ákveðinn glundroði og ákveðið ófremdarástand í málefnum tónlistarskólanna, það er öllum morgunljóst og hefur verið ofarlega í umræðu núna um nokkurra missira skeið. Í þessu ástandi miðju við þessari ágætu og málefnalegu fyrirspurn kemur hæstv. menntamálaráðherra hér upp, víkur sér undan ábyrgð og skilar auðu, þegar veruleikinn er sá að það er brotinn réttur á mörgum börnum og mörgum nemendum í tónlistarskólunum út af þessu ófremdarástandi. Út af hverju sem það er og út af hverju sem það hefur skapast ber hæstv. menntamálaráðherra fullkomna pólitíska ábyrgð á því að starfsemi tónlistarskólanna sé bærilega hnökralaus og gangi þannig fyrir sig að ástandið sé ekki til skammar og ekki ríki sá glundroði í málefnum tónlistarskólanna sem uppi er og hefur verið uppi núna um nokkurra missira skeið. Þar er ábyrgðin skýr, þar er ábyrgðin menntamálaráðherra og það er hennar að gangast við þeirri ábyrgð en ekki að víkjast undan henni með svörum eins og fram komu hérna áðan.



[12:42]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Málefni tónlistarskólanna eru óviðunandi og við í Frjálslynda flokknum höfum verið að skoða þau mál og setja niður fyrir okkur hvað við viljum gera og í nýútkominni málefnahandbók okkar er sérstakur kafli um málefni tónlistarskóla, sem fólk getur lesið. Við teljum að ríkissjóður eigi að kosta tónlistarnám nemenda á framhaldsstigi í tónlistarskólum á sama hátt og annað nám sem er stundað í framhaldsskólum landsins og þeir fjármunir sem sveitarfélögin fá eða verja til niðurgreiðslu á tónlistarnámi barna og unglinga eiga að gagnast öllum jafnt og engum skal mismunað. Menntamálaráðuneytið á síðan að gera námskrá fyrir kennaramenntun í tónlist og setja reglur um réttindi og skyldur tónlistarkennara og síðan eiga lengra komnir nemendur í tónlist að fá námið að fullu metið sem einingar til stúdentsprófs. Það hlýtur að vera skylda stjórnvalda að sjá til þess að tónlistarnám á Íslandi sé metið eins og allt annað nám, það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa og það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að málefni tónlistarskólanna verði lagfærð ekki seinna en strax.



[12:44]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin sem gefa auðvitað til kynna að þetta mál er ekki í forgangi innan menntamálaráðuneytisins og það er afar miður. Auðvitað er það svo að ástæðu þess ástands sem nú ríkir má að hluta til rekja til þeirra aðstæðna sem Reykjavíkurborg hefur gripið til til þess að knýja fram endurskoðun laganna á fjárhagslegri skiptingu, eða með fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskóla og þær aðgerðir hafa valdið nemendum verulegum baga, bæði nemendum sem eiga lögheimili í Reykjavíkurborg sem og nemendum sem eiga lögheimili úti á landi. Það skiptir máli að ekki sé farið á svig við ákvæði laga um einkakennslu í aðalnámsgrein. Þetta er eitt af því sem hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á og svaraði ekki áðan.

Það tíðkast orðið í auknum mæli að sveitarfélög knýi tónlistarskólana til að breyta kennslutilhögun í sparnaðarskyni úr einkatímum í hóptíma. Þetta á t.d. við um kennslu á hljóðfæri þar sem dæmi eru um að nokkrir nemendur séu saman í tíma en greiði námsgjöld eins og um einkatíma væri að ræða. Mismunurinn er þá notaður til launagreiðslna en það er andstætt 10. gr. laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Ofan í þetta atriði verður hæstv. menntamálaráðherra að fara og það er gríðarlega mikilvægt að tónlistarskólunum úti um allt land sé gerð grein fyrir því hver hugur hæstv. menntamálaráðherra er í þessum efnum. Til þess að það komi í ljós þarf hæstv. menntamálaráðherra að setja kraft í þá vinnu sem er í gangi og sjá til þess að jafnrétti fólks til tónlistarnáms verði tryggt.

Síðan vil ég segja varðandi framhaldsskólamálin: Ég er ekki sátt við það að menntamálaráðherra eða ríkið greiði eingöngu fyrir þreyttar einingar þeirra barna sem eru ... (Menntmrh.: Á framhaldsstiginu.) Nú? Hæstv. ráðherra grípur fram í og ef það er vilji hæstv. ráðherra að greiða allt framhaldsstigið í tónlist þá fagna ég, ef það er yfirlýsing ráðherrans hér í þessum sal, þá eru það tíðindi því það þýðir þá að sveitarfélögin verða eingöngu ábyrg fyrir grunnstiginu og miðstiginu og það er veruleg framför frá því sem verið hefur.



[12:46]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er hreint út sagt hjákátlegt að hlusta á þetta glundroðatal þegar hv. þingmaður er einmitt fulltrúi þess flokks sem skapaði þennan glundroða með því að segja einhliða upp ábyrgð sinni, eins og fulltrúar Reykjavíkurborgar gerðu gagnvart tónlistarnemum í landinu. Það er fyrst og fremst Reykjavíkurborg með Samfylkinguna í broddi fylkingar sem leiddi til þess glundroða sem nú ríkir meðal tónlistarnema. Það er algerlega óásættanlegt hvernig þetta ástand er. Það verður bara að segjast eins og er. Ríkið ber ekki þá ábyrgð. Ég fór vel yfir hvert hlutverk ríkisins er. Hins vegar hef ég engu að síður beitt mér fyrir því að reyna að leysa þetta mál. Það þarf að gera það. Þess vegna sagði ég hér áðan að við þurfum að skoða skólakerfið heildstætt.

Við þurfum að segja: Grunnskólinn er á forræði sveitarfélaga og framhaldsskólinn á forræði ríkisins. En ég hef líka rætt það sérstaklega, og hvet þá hv. þingmenn sem eru fulltrúar þeirra flokka sem koma að sveitarstjórnum hér á landi, að við förum sérstaklega yfir hvort æskilegt sé að sveitarfélögin beri ábyrgð og grunn- og miðstigi og ríkisvaldið beri síðan ábyrgð á framhaldsstiginu. Það þýðir að sjálfsögðu töluverðan kostnað af hendi ríkisins sem ætti að vera hægt að millifæra í kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður bara að leysast. Að mínu mati er þetta tæknilegt atriði.

En ég vil sérstaklega undirstrika að ég hef beitt mér fyrir því að fundin verði lausn á þessu máli. Ástandið í dag er óásættanlegt og það ástand er fyrst og fremst tilkomið vegna ábyrgðarleysis, stefnuleysis Samfylkingarinnar í tónlistarmálum hér í borginni. Ákvörðun sem sprengdi upp þetta annars ágæta ástand sem var á tónlistarmálum. En gott og vel. Við verðum bara að bíta í það súra epli og horfa á aðstæðurnar eins og þær eru í dag og reyna að leysa þær fyrir hönd tónlistarnema í landinu.