132. löggjafarþing — 79. fundur
 8. mars 2006.
áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.
fsp. ÖS, 184. mál. — Þskj. 184.

[13:59]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Lengi hafa verið kenningar um að mikið fiskveiðiálag, sem beinist sérstaklega að fiskum af ákveðinni stærð, geti haft óheillavænleg áhrif á arfgerð þeirra fiska sem verið er að nytja. Þessi kenning byggir á þeirri staðreynd að þegar t.d. Íslendingar veiða þorsk hefur í áranna rás veiðinni fyrst og fremst verið beint að þeim þorski sem er dýrastur og það er sá þorskur sem er stærstur. Það er hins vegar líka sá þorskur sem býr yfir genum sem stýra síðbúnum kynþroska og háum aldri og nokkuð hröðum vexti. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að fyrir utan að þessi fiskur er langverðmætastur í aflanum er hann einnig gríðarlega mikilvægur fyrir nýliðun stofnsins. Stórar hrygnur og gamlar framleiða stærri hrogn og lífvænleiki þeirra er meiri. Rannsóknir hafa sýnt það á öðrum tegundum að stórar hrygnur fæða af sér afsprengi sem eru 3,5 sinnum líklegri til að lifa af og vaxa þrisvar sinnum meira en smærri. Þetta liggur fyrir í vísindalegum textum.

Nú er margt sem bendir til þess að hugsanlega hafi veiðar áhrif á erfðasamsetningu þorsksins. Veiðarnar hafa á síðustu áratugum orðið miklu þyngri en áður og fiskveiðiálagið, sérstaklega á stærri hluta þorsksins, hefur orðið meira en ella. Í þessu felst í reynd að það á sér stað ákveðið val. Flotinn er í reynd að fjarlægja með veiðum sínum hlutfallslega meira magn af fiski sem býr yfir genum sem leiða til síðbúins kynþroska og stórra fiska en eftir er skilinn fiskur sem hefur samkvæmt genasamsetningu eðli til þess að verða smærri og líka til að fæða af sér smærri hrogn og þar með ungviði sem er ekki eins líklegt til þess að komist á legg. Ef rétt er, ef þessi þróun er í gangi eru áhrifin á afrakstur stofnanna líkleg til þess að verða með tvenns konar hætti neikvæð.

Í fyrsta lagi, þegar fram í sækir munum við veiða fisk sem er smærri og verður kynþroska fyrr og lifir skemur. Jafnframt erum við að fjarlægja þann stóra fisk sem hefur lengt hrygningartímabilið og þar af leiðandi gert það líklegra að hrygningin nái árangri. Í þriðja lagi erum við að framleiða fisk sem býr til lélegri undanælingja.

Því hef ég spurt hæstv. ráðherra hvort hann telji að vísbendingar séu (Forseti hringir.) um að veiðarnar á þorski hafi hugsanlega breytt erfðum stofnanna þannig að fiskur verði kynþroska fyrr en áður (Forseti hringir.) og vaxi hægar. Ef svo er, hvort hann telji að það hafi áhrif á afrakstur stofnanna til frambúðar.



[14:03]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Reykv. n. fyrir ákaflega athyglisverðar og mikilvægar spurningar og enn fremur fyrir ræðuna þar sem hann fylgdi spurningum sínum úr hlaði. Ég held að ýmsar af þeim vangaveltum sem hv. þingmaður var hér með eigi mikið erindi inn í umræðuna, sem er svo mikilvæg og menn hafa verið að taka upp með ýmsum hætti nú nýlega m.a. í viðtali við Jónas Bjarnason í Morgunblaðinu fyrir skemmstu.

Það er hins vegar mjög erfitt að greina á milli áhrifa umhverfis og erfða á vöxt og kynþroska fiska. Á síðari árum benda rannsóknir til að erfðabreytingar í þorski hafi orðið vegna veiða í stofnum sem hafa verið ofnýttir og hrunið, eins og við austurströnd Kanada. Veiðiálag hefur mikið að segja um hvort og þá hversu hratt slíkar breytingar verða. Það er ljóst að við Ísland hefur veiðiálag verið mun minna en til að mynda við Kanada við Norðursjó og því minni líkur á að slíkar breytingar hafi átt sér stað. Samt sem áður hafa þess sést merki í stofnmælingu botnfiska undanfarin ár að þorskur verði kynþroska nokkru yngri en áður var en vöxtur virðist ekki hafa minnkað að sama skapi. Auk þess hafa erfðafræðirannsóknir bent til þess að íslenski þorskstofninn sé ekki eins einsleitur og áður var talið sem gerir erfiðara að draga alveg einhlítar ályktanir.

Hafrannsóknastofnun hefur hafið átaksverkefni þar sem ætlunin er að skoða söguleg gögn til að meta áhrif veiða á íslenska þorskstofninn. Auk þess er stofnunin að skoða áhrif loðnuframboðs á vöxt þorsks. Jafnframt er unnið að doktorsverkefni við Háskóla Íslands þar sem rannsakaðar eru breytingar í erfðaefni þorsks frá því um 1950. Niðurstöðu þessara verkefna er að vænta á næstu þremur árum og þá liggja væntanlega fyrir ítarlegri svör við ofangreindri spurningu.

Hv. þingmaður spurði enn fremur:

„Ef svo er, hvaða áhrif gæti það haft á afrakstur stofnanna til frambúðar?“

Ef veiðarnar hafa þau þróunarfræðilegu eða erfðafræðilegu áhrif að þorskur vaxi hægar og verði kynþroska fyrr gæti það leitt til minnkaðrar afrakstursgetu stofnsins. Hægari vöxtur leiðir til minni meðalþyngdar við gefinn aldur, sem þýðir að fleiri þorskar fari yfir hvert tonn vegna þess að það verður minnkandi afrakstur á hvern nýliða. Lækkun á kynþroskaaldri leiðir til þess að fleiri þorskar hrygna en áður miðað við sama veiðimynstur en líklega verður afrakstur þeirrar hrygningar minni en hjá stórvaxnari stofni sökum þess að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að stærri hrygnur hrygna ekki einungis fleiri eggjum heldur einnig lífvænlegri afkvæmum. Þetta er það sem hv. þingmaður lagði einmitt áherslu á í ræðu sinni hér áðan og er algjört lykilatriði

Þannig má gera ráð fyrir að framangreind áhrif gætu einnig leitt til minni nýliðunar og á heildina litið gætu slíkar breytingar því leitt til minni afrakstursgetu þorskstofnsins. Ég undirstrika það að þetta mál og þetta samhengi skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Á undanförnum missirum og fáeinum árum hefur verið reynt að bregðast við þessu. Við sem höfum setið í sjávarútvegsnefnd Alþingis og fengið reglulega fyrirlestra um ýmis mál tengd þessu frá ýmsum aðilum, ekki síst frá Hafrannsóknastofnun, höfum séð það sem er algerlega óyggjandi: Hvaða skoðun sem menn hafa annars á því hvort eðlilegt hefði verið að auka eða minnka veiðiálagið frá því sem verið hefur undanfarin ár þá er alveg ljóst að við höfum gengið allt of nærri stærsta þorskinum. Það blasir við þegar við skoðum þetta í tiltölulega stuttu eða löngu sögulega samhengi, við höfum gengið of nærri stærsta þorskinum.

Menn hafa gripið til ýmissa ráða, bæði til hrygningarstopps eins og menn þekkja og ekki síst hefur reglunum um hámarksmöskvastærð verið breytt og hún minnkuð. Það hefur auðvitað dregið úr sókninni í stærsta þorskinn. Ég bendi á að formaður Sjómannasambands Íslands fjallar um þessi mál, reyndar af allt öðru tilefni og í öðru samhengi, í nýjustu Fiskifréttum og vekur einmitt athygli á því að sóknin í þennan stærsta þorsk hafi minnkað á undanförnum vertíðum, getum við sagt, einni eða tveimur vertíðum, vegna þessara ákvarðana sem þegar hafa verið teknar. Ég tel þetta skynsamlegt. Ég mun halda því áfram að beita þessum reglum um hámarksmöskvastærðina, m.a. sem lið í því að bregðast við þessu máli sem ég tel að skipti mjög miklu.

Það skiptir líka miklu fyrir okkur að við leggjum aukna áherslu á þessa erfðafræðilegu þætti. Við höfum verið að byggja upp í landinu mikla erfðafræðilega þekkingu, bæði innan Hafrannsóknastofnunar og síðan hjá ýmsum sjálfstæðum fyrirtækjum eins og t.d. Íslenskri erfðagreiningu og Procaria, svo ég nefni bara tvö dæmi um fyrirtæki sem hafa aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði. Það væri ekki óeðlilegt að við reyndum að kalla eftir viðhorfum þeirra til þessara mála og ég t.d. vænti þess að þær hugmyndir sem ég ætla að hrinda í framkvæmd á næstu vikum, um auknar rannsóknir utan Hafrannsóknastofnunar, geti m.a. beinst að þessu.



[14:08]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég er á því að þessi umræða um erfðafræðina sé á algerum villigötum. Ég segi það vegna þess að menn hafa séð að þorskur í Breiðafirðinum hefur verið hægvaxta en þegar honum hefur síðan verið gefið að éta og hann hefur verið settur í fiskeldisker hefur nánast mátt horfa á hann stækka þannig að ekki hafa erfðirnar verið að þvælast fyrir honum þar.

Hins vegar verða hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn að íhuga þversögnina sem felst í því að stærstu hrygnurnar komi alltaf á legg lífvænlegustu hrygnunum. Hvað ætti það að þýða í erfðafræðilegu samhengi? Við ættum ekki að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að þær stóru sem hrygna munu auðvitað hafa árangur sem erfiði og koma sínum afkvæmum á legg á meðan minni ná ekki árangri.

Hins vegar verða menn að gæta að því að þegar og áður en fiskur kemur inn í veiðarnar þá virka aðrir þættir, þá virka náttúruleg afföll. Áður en fiskur kemur inn í veiðarnar virka þau eingöngu og ekki veiðarnar. Þá er ekkert stærðarval.



[14:09]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér fannst svar hæstv. sjávarútvegsráðherra bera merki um það að í þessum efnum er endalaust blaðrað en ekkert gert. Við höfum gengið of nærri stærsta þorskinum, það er að vísu alveg rétt. En hverjir skyldu það hafa verið sem bera ábyrgð á því? Það eru sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Forveri núverandi ráðherra lét veiða niður hrygningarstofn þorsksins, fletja hann út í saltfisk og troða honum ofan í kavíartúbur. Það er það sem gerðist og það eru ekki mörg ár síðan. Fyrir það reisti sá ráðherra sér ævarandi níðstöng. Loksins þegar okkur tókst að byggja upp hrygningarstofn þorsksins fóru þeir af stað í taumlausri græðgi og stútuðu honum. Síðan hefur hann verið í sárum og verður það sjálfsagt áfram.

Mér finnst þetta ekkert voðalega flókið. Fiskurinn verður kynþroska fyrr vegna þess að honum líður illa, hann hefur ekki nógu mikið æti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýtur að vita það eins og ég og hann veit það. Ég veit að hann veit að þegar dýrum líður illa sjá þau fram á að þau muni ekki lifa neitt voðalega lengi og hvað gera þau þá? Þau ákveða að reyna að fjölga sér til að koma genunum áfram og það er nákvæmlega þetta sem er að gerast.



[14:10]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa menn talað töluvert um netaveiðarnar í því samhengi að þar hafi verið tekið eitthvað á málum. Nú hefur dregið verulega mikið úr netaveiðum við landið þannig að áhrifin af því að nota aðra möskvastærð í netaveiðum eru minni en þau hafa verið áður. Við vitum líka af því að mat á því á hvaða veiðislóðum fiskiskipin eru hefur verið mjög glöggt á undanförnum árum og stóru útgerðarfyrirtækin og kannski þau smærri líka hafa sent stóru fiskiskipin norðaustur af landinu til að hirða upp stærsta fiskinn þar þannig að það er ekki lát á sókn í stærsta fiskinn við landið þó svo menn hafi loksins komið auga á að breyta ætti möskvastærðinni. En það hafði verið talað um það á bryggjunum í tíu ár áður en það rann upp fyrir mönnum í stjórnkerfinu að það yrði að gera eitthvað í málunum. Ég ætla að vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra láti náttúruna njóta vafans og bíði ekki endalaust eftir rannsóknum heldur reyni að gera eitthvað í málunum sem allra fyrst.



[14:12]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra: Við höfum gengið allt of nærri stærsta fiskinum. Það var líka efnislegt inntak þess sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði hér áðan.

Það skiptir miklu máli varðandi nýliðun að hafa góða aldurs- og stærðardreifingu í þorskinum vegna þess að mismunandi gamlir og stórir þorskar hrygna á mismunandi tímum og því eru meiri líkur á að við fáum góða dreifingu í hrygningunni og einhver hluti hennar falli að æskilegum blóma í hafinu þannig að nýliðunin verði góð.

Hæstv. ráðherra sagði að það hefði komið fram í gögnum Hafró að kynþroskahlutfallið hefði farið lækkandi og það er staðreynd og það er áhyggjuefni. Það hefur gerst út um allt Norður-Atlantshaf. En hann sagði líka að af þeim gögnum mætti ætla að vöxtur hefði ekki orðið hægari. Ég veit ekki hvað ég vil segja um það en í skýrslu nefndar um líffræðilega stjórnun fiskveiða, sem var gefin út deginum fyrir afmælisdaginn minn árið 2004, segir svart á hvítu að meðalaldur og meðalþyngd einstaklinga í afla hafi farið lækkandi. Þar er það svo staðfest sem við sögðum báðir að jafnframt hefur orðið veruleg fækkun í elstu aldurshópum hrygningarstofns. Þetta skiptir mjög miklu máli. Orð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar voru auðvitað ekki út í loftið en það er hins vegar rangt hjá honum að nálgast þetta einungis út frá umhverfisaðstæðum, þ.e. framboð á fæðu. Þetta ræðst af tvennu: Af erfðum og umhverfisaðstæðum. Ef við erum að breyta öðru, þ.e. erfðum, hefur það einhvers konar afleiðingar. Ef við erum að fjarlægja úr stofninum þau gen sem stýra síðbúnum kynþroska og hröðum vexti og skilja eftir gen sem stýra snemmbúnum kynþroska og hægum vexti þá erum við að búa til stofn sem fjölgar sér ekki nægilega og gefur þar að auki miklu minna af sér á hvern veiddan fisk en áður. Þetta er hættan.



[14:14]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er satt að segja ekki viss um hvort ég bæti mikið umræðuna þó ég reyni að kveða upp úr um það hvor hafi betur í þessari umræðu, erfðafræðingar eða einhverjir aðrir. Ég held hins vegar að það blasi einfaldlega við það sem ég var að segja. Það er augljóst mál að við gengum of nærri þessum stærsta fiski í sókninni. Það er hins vegar fortíð. Núna erum við að reyna að stýra veiðunum og draga úr þessari sókn með ýmsum hætti.

Það er hins vegar algerlega hárrétt, sem hv. 2. þm. Norðvest. sagði áðan, að við megum ekki eingöngu einblína á netaveiðarnar. Netaveiðarnar hafa minnkað mjög mikið á undanförnum árum af ýmsum ástæðum og það er enginn vafi á því að nýjustu ákvarðanir okkar um það að draga úr hámarksmöskvastærð hafa líka þau áhrif að netaveiðarnar verða erfiðari. Það sjáum við m.a. allar tölur um.

Það er ekki rétt að það sé ekkert lát á sókn í stærsta fiskinn. Það hefur dregið úr því. Það sjáum við bara á tölum og það heyrum við líka á ummælum þeirra sem fylgjast með þessum málum frá degi til dags. Hins vegar þýðir það ekki að við eigum ekki að hyggja að öðrum málum, t.d. eins og fæðuframboðinu sem ég hygg að við ræðum á eftir. Þó að við reynum að hafa áhrif á sókn í stærsta fiskinn þýðir það ekki að við eigum ekkert að hyggja að fæðuframboðinu. Við þurfum að hafa í huga mjög fjölþætt atriði þegar við ræðum fiskveiðistjórnarmál, sóknarmynstrið, sóknargetuna, sóknarþungann, hvernig við göngum um auðlindina gagnvart smæsta fiskinum, hvernig við gerum það gagnvart stærri fiskinum og hvernig við tryggjum að fæðuframboðið sé sem stöðugast og jafnast þannig að fiskurinn hafi nægilegt að éta og viðhaldi sér þannig.