132. löggjafarþing — 80. fundur
 8. mars 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

boðun þingfundar.

[18:02]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um störf þingsins til þess að halda því til haga og mótmæla því að hér sé settur nýr fundur klukkan sex síðdegis til að ræða það frumvarp sem hefur verið rætt og eru miklar deilur um, vatnalög. Ég vil segja, virðulegi forseti, máli mínu til stuðnings, að á fundi með forseta og þingflokksformönnum á mánudaginn þar sem rædd var vikuáætlun var gert ráð fyrir einum kvöldfundi, sem var í gær, og ekki talað um þennan fund nú.

Ég legg mikla áherslu á, virðulegi forseti, að bæði starfsáætlun og vikuáætlun sem settar eru fram séu haldnar og þingmenn geti treyst því sem þar er sett fram. Þingmenn hafa jú ýmsum öðrum skyldum að gegna og þurfa að ráðstafa sér til ýmissa annarra starfa, svo sem til funda í kjördæmum og annað slíkt. Þess vegna verða þingmenn að geta treyst á þau atriði.

Hér er hins vegar verið að setja nýjan fund á miðvikudegi klukkan sex að loknum þingflokksfundum til þess að ræða það frumvarp sem hér er sett á dagskrá, vatnalög. Ég vil, virðulegi forseti, að það komi fram að við í stjórnarandstöðunni mótmælum þessum fundi og því ráðslagi sem hér er og viljum þá um leið spyrja virðulegan forseta hvað það eigi þá að halda lengi áfram á þessu kvöldi með þetta mál. Það er nauðsynlegt að við vitum tímaáætlun og hvað á að halda lengi áfram.



[18:04]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að frumvarp ríkisstjórnarinnar um vatnalög er farið að trufla stórlega þinghaldið, setja þinghaldið úr skorðum, og sá fundur sem hér er að hefjast að boði hæstv. forseta þingsins er dæmi um það. Til hans er boðað gegn mótmælum allrar stjórnarandstöðunnar. Við höfum komið okkar mótmælum á framfæri á fundi þingflokksformanna með forseta þingsins og þau mótmæli eru hér með ítrekuð.



[18:05]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég varð satt best að segja svolítið hissa þegar ég varð þess áskynja að hér hefði aftur verið boðað til þingfundar klukkan sex. Við hófum þingfund í dag klukkan tólf og höfum verið hér í ati í allan dag. Ég átti ekki von á því að þessi fundur yrði núna því að á fundi formanna þingflokkanna á mánudag var hvergi minnst á möguleikann á því að hér yrði kvöldfundur á miðvikudegi.

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa bókað sig í kvöld á fund á vegum borgarstjórnarframboðs Frjálslynda flokksins hér í Reykjavík. Nú er það allt saman í uppnámi, óvíst um hvort við getum tekið þátt í þeim fundi, sem þó var mikilvægur, en við verðum bara að sjá til, sjá hvað setur. Um leið er rétt að koma á framfæri líka fyrir hönd þingflokks Frjálslynda flokksins mótmælum gegn því að boðað sé til kvöldfundar með svo skömmum fyrirvara. Að lokum, virðulegi forseti, væri líka dýrmætt að fá að vita hver áætlunin er þá fram á kvöldið. Á að vera fundur hér í allt kvöld? Er verið að hugsa um að fara eitthvað inn í nóttina eða hvað vakir fyrir hæstv. forseta? Því enn og aftur, eins og ég sagði, ber þetta mjög brátt að og mörg eigum við að sjálfsögðu skyldum að gegna. Hér er fjölskyldufólk með ung börn og og það kemur sér því bagalega að vera hér í kvöld. En ef það þarf að vera svo þá er ég tilbúinn í slaginn hvenær sem er.



[18:07]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að jafnan þegar ágreiningur kemur upp í einhverjum tilteknum málum og umræða dregst eitthvað þá skal ætíð sett á einhvers konar vakta- eða vertíðarstemmning til þess að ljúka málum, eins og hér sé mikil vá fyrir dyrum sökum þess að tekist sé á málefnalega í þinginu og þá grípi yfirstjórn þingsins til þeirra ráða að setja á fundi í þinginu hvenær sem er til þess eins að ljúka umræðu, til þess eins að geta keyrt málin áfram. Þetta eru afar óheppileg vinnubrögð og afar óvönduð.

Ég hlýt að spyrja eins og margir, sökum þess að hér er verið að hverfa frá áætlun sem lá fyrir á mánudag: Hvert er vandamálið? Hvað er það í lagasetningu sem þarf að breyta? Nú hafa vatnalög, sem nú eru undir, staðið í rúmlega 80 ár. Þarf að setja á einhverja sérstaka kvöldfundi til þess að ljúka eða reyna að ljúka umræðu um þessi tilteknu mál?

Ef váin er svo stórkostleg að það kalli á að menn þurfi að haga skipulagi þingsins með þessum hætti væri þá ekki a.m.k. lágmark að hæstv. iðnaðarráðherra væri þá á vettvangi til þess eins að upplýsa okkur um það hvert vandamálið sé, í hverju váin er fólgin og hvernig eigi að greiða úr þeim mikla vanda sem uppi er. Í þinginu er hugsanlega málefnalegur ágreiningur um lagasetningu og þá er gripið til þess — ég verð að leyfa mér að kalla það svo, virðulegi forseti — ofbeldis að keyra fundi langt fram á nótt, sem er í engum takti eða í samræmi við þær áætlanir sem lágu fyrir í upphafi vikunnar. Ég vil því leyfa mér eins og aðrir hér (Forseti hringir.) að mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega, virðulegur forseti.



[18:09]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill mótmæla því sérstaklega að hv. þingmaður tali um „ofbeldi“ í þessu sambandi og minnir á að í 63. gr. þingskapa stendur að forseti ákveði dagskrá hvers fundar o.s.frv. Hv. þingmenn geta kynnt sér það.



[18:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vildi þá gjarnan fá ræðutíma hv. þm. Drífu Hjartardóttur úr því að hún dró sig til baka. (Gripið fram í: … rauðu ljósi …) Það er rétt að ég tilkynni formlega að ég hyggst nota þann rétt sem ég hef til þess að taka þátt í þessari umræðu um störf þingsins.

Það er auðvitað svo að forseti hefur allan þann rétt sem 63. gr. og fleiri greinar gera ráð fyrir. En það er líka þannig að ef forseti þingsins ætlar að sinna starfi sínu af alúð og gætni leitast forsetinn við að hafa hlutina með skaplegu móti í þinginu og hafa þingmenn með sér en ekki á móti, bæði þingmenn stjórnarinnar og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Forseta, með hvaða atkvæðum sem hann er nú kjörinn, ber að mínu áliti, og ég held fleiri, að líta á sig sem forseta alls þingsins. Nú vill til að sá forseti sem nú situr er sérstakur áhugamaður um breytingar á störfum þingsins og á heimasíðu Alþingis var sett hinn 3. mars sl. frétt um för forseta Alþingis ásamt tveimur varaforsetum til New York á þing kvenþingforseta í heiminum.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á fundinum ræddu þingforsetarnir hvernig breyta mætti starfsháttum þinga til að stuðla að auknu jafnrétti. Forseti Alþingis sagði frá áherslum sínum, m.a. á nauðsyn þess að vinnutími þingmanna yrði fjölskylduvænni og að stuðlað yrði að jafnari dreifingu vinnuálags á hverju löggjafarþingi.“

Ég spyr: Nú er 8. mars, nú eru fimm dagar liðnir og það er 8. mars, sem er nú ekki hvaða dagur sem er heldur einmitt mikill fjölskyldudagur eða a.m.k. mikill kvennadagur. Hefur forseti Alþingis skipt um skoðun í þessu efni frá því að hún flutti ræðuna á fundi kvenþingforseta í New York hinn 3. mars sl.?



[18:12]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Að gefnu tilefni vill forseti láta þess getið að frumvarpi til vatnalaga var útbýtt 3. nóvember sl. Fyrsta umræða fór fram dagana 7. og 14. nóvember, tók tæpar sex klukkustundir. Nefndaráliti meiri hluta var útbýtt þann 3. mars, 2. umr. hófst 6. mars og var haldið áfram 7. mars. Í henni hafa hingað til talað sjö ræðumenn og 2. umr. staðið í heild með andsvörum í rúmlega 13 klukkustundir samtals þannig að nú þegar hefur þetta mál verið rætt hér í þinginu í 19 klukkustundir og enn eru 11 á mælendaskrá í 2. umr.

Forseti bauðst til þess að semja um framhald málsins á þann veg að það yrði ekki rætt meira í þessari viku á kvöld- og næturfundum heldur yrði umræðunni haldið áfram á mánudag og, ef þyrfti, lokið á þriðjudag í næstu viku. Forseta fannst fara vel á því að um þetta mikilvæga mál yrði ekki rætt á kvöld- og næturfundum heldur á daginn. Jafnframt telur forseti að það sé ekki fjölskylduvænt að vera með þingfundi á kvöldin og næturnar, eins og raunar hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson minntist á í ræðu sinni áðan þar sem sumir hv. þingmenn eru með ung börn.

Varðandi það sem hv. þm. Mörður Árnason tók hér sérstaklega til umræðu út af fundarhöldum mínum í New York með öðrum forsetum þjóðþinga þá er það svo sannarlega minn ásetningur, og vonandi næst gott samkomulag um það við hv. þingmenn, að draga úr þessu vinnulagi, þessu vertíðarfyrirkomulagi sem hefur verið hér á þingfundum. En því miður náðist ekki samkomulag um þessa málsmeðferð á fundi sem forseti hélt með þingflokksformönnum í hádeginu í dag. Forseti átti raunar líka fund með þingflokksformönnum seint í gærkvöldi.

Niðurstaðan er því sú að þar sem þetta mál er mál sem stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að ljúka og ljóst er að hv. stjórnarandstöðuþingmönnum liggur mikið á hjarta hyggst forseti halda áfram fundi svo að ljúka megi 2. umr. um málið.



[18:15]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hæstv. forseti sagði hér áðan, þetta er mjög mikilvægt mál og á auðvitað að ræða hér að degi til. Það er fráleitt að málið sé tekið á dagskrá bara sisvona. Þetta mál var ekki á dagskrá þessa dags og þeir sem hafa ætlað að fylgjast hér með eða taka þátt í umræðunni hafa þess vegna ekki gert ráð fyrir því að málið yrði hér rætt á þessum degi.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. forseti ekkert geta kvartað undan því þó að þingflokksformenn hafi ekki treyst sér til að semja um einhver endalok í þessu máli. Það er ekkert hægt að semja fyrir þingmenn um það vegna þess að fjölmargir þingmenn eiga eftir að tjá sig um þetta mál og eiga örugglega eftir að tala um það mjög lengi. Þingið verður bara að gefa sér tíma til að fara yfir málið því að því tengjast svo mörg og mikilvæg atriði að það er að mínu viti ekki neitt annað meira aðkallandi í störfum Alþingis en að ræða þetta mál. Það eru svo fjölmörg atriði sem menn þurfa að fara yfir í sambandi við nýtingu á auðlindum, um það hvernig við lítum á vatnið, eignarhald í þeim skilningi sem hér er sett fram, nýja skilgreiningu á eignarhaldi vatns, það er ekkert minna, og síðan alla auðlindapólitíkina sem hangir saman við þetta mál og þá lagasetningu sem ætti að fylgjast að í gegnum Alþingi.

Til þessa þurfa menn bara að gefa sér tíma og ég tel að hæstv. forseti muni auðvitað gefa þingmönnum allan þann tíma sem þeir kjósa að taka sér til þess og muni ekki þrengja að þingflokksformönnum með einhverjum samningatilboðum (Forseti hringir.) um það að menn hætti hér umræðum.



[18:17]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma því hér að að mér þykir góð ráðstöfun hjá hæstv. forseta að leyfa þessa umræðu í kvöld. Ég var sjálf á forsetastóli í gær og hlustaði á ræðurnar. Mér þóttu þær heldur einkennilegar þar sem lesið var endalaust upp úr umsögnum. Lítil efnisleg umræða má segja að hafi verið um málið nema hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem mér þótti afskaplega gott að hlusta á. (Gripið fram í.) Ég held að þingmenn ættu þá bara að fagna því að fá að tala endalaust um þetta mál. Sumir hafa talað hér í fimm klukkutíma, aðrir einn og hálfan til þrjá og margir eru enn á mælendaskrá og aldrei að vita nema við önnur setjum okkur á mælendaskrá ef við teljum að við komumst einhvern tímann að. En stjórnarandstaðan ætlar að einoka þennan ræðutíma algjörlega með því að halda hér maraþonræður (Gripið fram í: … þingflokkana.) sem ég held að hv. þingmenn (Gripið fram í.) græði ekki mikið á, að tala í fimm klukkutíma og halda uppi málþófi.

Ég held að þetta hafi verið góð ráðstöfun hjá forseta og tel að það sé gott að þeir sem vilja ræða þetta mál geti bara rætt það hér út í nóttina. Verði þeim að góðu. (SigurjÞ: Farin heim?)



[18:19]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svolítið sérkennilegt að hlýða hér á einkunnagjöf sem stjórnarliðar (DrH: Það gerið þið aldrei.) telja sig umkomna að veita okkur í stjórnarandstöðunni um þetta mál. Hér eru málin sett upp eins og það sé okkur eitthvert sérstakt kappsmál að tala mikið og lengi í þessu máli.

Okkur er það kappsmál að þessu þingmáli verði vísað frá og að við stöðvum þetta mál.

Við höfum engan áhuga á að tala mikið og lengi um ný vatnalög. Við viljum að málinu verði vísað frá í þinginu og stjórnarandstaðan hefur sameinast um tillögu þess efnis. Þetta er okkar krafa. Málflutningur okkar gengur út á að fá þessu framgengt. Það er á þeirri forsendu sem við höfum ekki viljað semja um málalyktir í þessu máli. Þetta er ástæðan. Við erum að sjálfsögðu á þeirri skoðun að það eigi að virða vinnutíma hér í þinginu og viðhafa skynsamleg vinnubrögð. Við erum því fylgjandi en við erum ekki tilbúin að kokgleypa þetta frumvarp sem er sett fram í óþökk mjög margra og fjölmennra félagasamtaka í landinu, aðila sem starfa að umhverfisvernd, verkalýðssamtakanna og ýmissa almannasamtaka. Út á þetta gengur barátta okkar hér í þinginu.

Ég get fyrir mitt leyti staðfest það sem kom fram í máli hæstv. forseta þingsins. En menn verða líka að virða hvað það er sem fyrir okkur vakir í þessu efni. Við viljum burt með þetta frumvarp.