132. löggjafarþing — 80. fundur
 8. mars 2006.
vatnalög, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 268. mál (heildarlög). — Þskj. 281, nál. 858 og 864, brtt. 859.

[18:22]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þær umræður sem hér fóru fram áðan um störf þingsins voru fróðlegar, kannski einkum það sem kom fram í máli forseta um að sú ráðstöfun að efna hér til fundar klukkan sex á miðvikudegi, fundar sem á samkvæmt orðum hv. þm. Drífu Hjartardóttur að standa út í nóttina, sé til komin vegna þess að stjórnarflokkarnir eða ríkisstjórnin, ég man ekki hvort var, leggi sérstaka áherslu á að þetta mál klárist.

Nú er það svo, forseti, að í dag er 8. mars eins og fram kom í umræðunni. Það er alþjóðadagur kvenna þó að það komi þessu máli ekki einkum við en sá dagur er hvergi nærri þinglokum þeim sem áætluð voru í starfsáætlun þingsins. Ég hygg að lokadagur þingsins að þessu sinni sé í fyrstu viku maí, að ég hygg 5. maí, þó man ég það ekki mjög vel. Þess má reyndar geta að ef það er 5. maí er hann líka merkur dagur, nefnilega m.a. afmælisdagur Karls Marx sem kemur að vísu þessu máli jafnlítið við og 8. mars.

Sé það ætlun ríkisstjórnarinnar að klára málið, keyra það í gegn og gera það á þessu þingi, hefur hún einfaldlega nógan tíma til þess. Það eru tæpir tveir mánuðir þangað til þingi á að ljúka samkvæmt þeirri starfsáætlun sem kynnt hefur verið og fyrir lá í haust. Ég verð að segja, andstæðingur þessa frumvarps sem ég er, að ef stjórnarflokkarnir standa saman um það og ekki verða brotthlaup úr flokkunum tel ég allar líkur á því að ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum takist að koma þessu máli í gegn á þeim tæpu tveimur mánuðum sem eftir standa af þinginu. Þess vegna skil ég ekki þessa röksemd hæstv. forseta hér í umræðunum og tel að gæfulegra hefði verið fyrir hann og fyrir störf þingsins að sleppa þeim fundi sem hér er settur á klukkan sex á miðvikudegi og funda um málið með venjulegum hætti þegar tími gefst til síðar í vikunni, eða síðar í mánuðinum því að þessi vika mun nú vera ásett, einn þingdagur eftir auk þess dags sem hér líður og hann er ætlaður umræðum um störf alþjóðanefnda.

Ég verð svo að segja það líka, bæta því við, forseti, að ég tel það ekki vera í raun og veru áferðarfögur rök sem forseti þingsins viðhefur, að hann hagi sér eftir því sem stjórnarflokkarnir eða ríkisstjórnin eða forsætisráðherra vill. Vissulega hlýtur forseti þingsins að miða við að klára þá dagskrá sem fyrir höndum er en hann á að gera það að mínu áliti í samræmi við góðar venjur á þinginu og í sem mestu samráði og samstarfi við alla þingmenn sem til næst og við forustu þeirra hópa sem þingmennirnir skipa sér í, nefnilega þingflokkana.

Þetta vekur svo athygli mína, líka fleiri þingmanna og þeirra sem fylgjast hér með störfum okkar, á þeim krafti, að ég segi ekki á því forsi, sem notaður er til að þrýsta þessu máli í gegn. Um það er rétt að fara nokkrum orðum. Það er auðvitað þannig, forseti, að ýmsar ástæður leggjast saman í því. Ein ástæðan er sjálfsagt sú að þetta sé nánast persónulegt metnaðarmál þess ráðherra sem flutti frumvarpið, nefnilega hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, því að hún flutti þetta sama frumvarp í fyrra og þá varð það ekki útrætt og var raunar fórnað með nokkrum hætti þegar kom að þinglokum og önnur mál tekin fram fyrir það. Iðnaðarráðherra tókst að nota þann tíma sem henni var með því veittur til þess að bæta frumvarpið í nokkrum lítilvægum — ja, ekki lítilvægum, ég tek það orð aftur — í nokkrum tiltölulega smáum atriðum, en mikilvægum, því að allt þetta frumvarp er auðvitað mjög mikilvægt. Hún kom síðan aftur með það hér en hafði ekkert annað lært og starfsmenn hennar á þeim fresti sem til gafst með þinghléi í sumar en þessi nokkru smáu atriði. Þó var tíminn notaður til þess að reyna að berja niður nokkra af umsagnaraðilum málsins og það má sjá á t.d. umsögn frá Umhverfisstofnun að hún hefur átt í nokkru stríði vegna umsagnar sinnar um fyrra frumvarp. Þó hefur meira að segja það ætlunarverk ekki gengið nógu vel því að Umhverfisstofnun telur sig standa við sitt og nánast, eins og hún segir að lokum umsagnar sinnar, að jörðin snúist nú samt, þrátt fyrir þær afsökunarbeiðnir sem hún var látin fara með í frumvarpinu.

Einn þáttur í þessari keyrslu er sjálfsagt einfalt metnaðarmál hæstv. iðnaðarráðherra sem satt að segja hefur ekki gengið allt of vel núna þennan þingvetur og ekki hinn fyrri við að koma málum sínum með þokkalegum hætti í gegnum þingið. Hún hefur ekki staðið sig mjög vel í því að mæla fyrir málunum eða verja þau þegar að er fundið og þau gagnrýnd.

Í öðru lagi kann að vera að hér sé um að ræða einhvers konar metnaðarmál Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. forsætisráðherra. Fyrir utan það að hann taki tillit til metnaðar samflokksmanns síns í stóli iðnaðarráðherra má ætla af þeim sögum sem borist hafa af yfirlýsingum hans um þetta mál að hann líti svo á að það sé sérstakt heiðursmál fyrir ríkisstjórnina að koma þessu hratt og vel í gegn.

Það má líka vera að það sé í einhverju sambandi við gengi forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hans, þá reyndar ekki einkum hér í þinginu þar sem við erum auðvitað í minni hluta og sú aðalregla lýðræðisins nær að sjálfsögðu fram að ganga að það sem meiri hlutinn er samstæður um er samþykkt. Þetta er frekar í samfélaginu öllu og á fjölmiðlavettvangi sérstaklega þar sem forsætisráðherranum hefur illa tekist að skapa byr sinni ríkisstjórn og frægja sjálfan sig sem þó var ætlunarverk hans og Framsóknarflokksins með þeim ráðagerðum sem ákveðnar voru við myndun síðustu ríkisstjórnar þar sem títtnefndur ráðherra sem hann þá var gat knúið það fram vegna fylgislækkunar hjá Sjálfstæðisflokki að hann færi með ráðuneytið að lokum þótt flokkur hans fengi rétt rúm 16% og þar með minna fylgi en Framsóknarflokkurinn hafði fengið frá stofnun með undantekningu sem ég held að eigi við um stofnárið og síðan annarri sem á við um kosningarnar 1956. Þá bauð Framsóknarflokkurinn fram í félagi við Alþýðuflokkinn í svokölluðu hræðslubandalagi og fékk þess vegna í staðtölunum minna fylgi en var í raun og veru. Alþýðuflokkurinn hafði það hlutverk í þeim kosningum að taka við fylgi í bæjunum, í þéttbýlinu, en Framsóknarflokkurinn í sveitunum.

Þó finnst mér þetta ekki að öllu leyti skýra þennan gang sem hér er hafður á. Maður hlýtur því að leita skýringar annars staðar en í persónulegum metnaði manna og einhvers konar óefnislegum ákvörðunum. Það er auðvitað ekkert skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa að þessu frumvarpi og styðja það með ráðum og dáð. Einkum er fátt furðulegt við það að sjálfstæðismenn á borð við Sigurð Kára Kristjánsson sem er sá eini sem hefur tekið þátt í þessari umræðu af hálfu þess flokks skuli vera áfram um þetta frumvarp og það sem í því felst vegna þess að það er gömul stefna Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. hægri arms hans og í síðari tíð hins nýlíberalíska arms, að gera allt samfélagið að einum stórum markaði. Þeir segja sem svo að úr því að markaðurinn getur leyst ýmis þau mál sem þarf að leysa í atvinnulífinu og í efnahagskerfinu eigi markaðurinn líka að leysa öll mál önnur. Hinn eðlilegi markaður sé samkvæmt skólabókinni einhvers konar leikvöllur þar sem hver einstaklingur fer með ákveðinn hlut, honum er útdeilt ákveðnum verðmætum í upphafi og síðan á hin ósýnilega hönd að sjá um afganginn. Það er sem sé trúin á hina ósýnilegu hönd sem Adam Smith nefndi fyrstur í hagfræðilegum skilningi en mun vera sótt í sjálfan Shakespeare eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur rakið í fróðlegum pistlum sem ég hygg að finna megi á heimasíðu hans ef djúpt er farið og veitt á ytri miðum.

Þessi stefna Sjálfstæðisflokksins, hægri-nýlíberalísk stefna, er að sjálfsögðu bakgrunnur þess að sem allra flest auðæfi eða verðmæti á þessu landi, og reyndar öðrum, séu tekin úr einhvers konar sameiginlegri eigu eða umsjón og afhent einstaklingum eða samtökum eða félagi þeirra í fyrirtækjum til að síðan skapist með þau markaðshagkerfi. Stefna Sjálfstæðisflokksins undanfarin má segja 20 ár, allt frá því að fulltrúar frjálshyggjunnar tóku við af Geir Hallgrímssyni, formanni flokksins, á sínum tíma hefur mótað stjórn Sjálfstæðisflokksins og orðræðu hans. Hún náði yfir auðlindir lands og hafs en einnig yfir þau verðmæti sem samfélagið sjálft hefur búið til. Menn hafa skapað í sameiningu t.d. þau verðmæti sem felast í menntastofnunum og þeirri hefð sem stendur þeim að baki. Einnig hefur verið um rætt að markaðslögmálin eigi við í þeirri velferðarþjónustu sem við höfum komið okkur upp hér á Íslandi og sjálfstæðismenn aðrir en hægri armur flokksins hafa tekið þátt í að móta. Í Sjálfstæðisflokknum hafa heyrst kröfur um að heilbrigðiskerfið verði tekið og skipt í sundur og sett líka á markað. Það verður hins vegar að segjast eins og er að þessar raddir um heilbrigðiskerfið einkum hafa heldur hljóðnað að undanförnu, hvort sem það er af þeim ástæðum að hægri armurinn og nýlíberalistarnir hafi gefist upp á kenningasmíð um þau efni eða vegna þess að það teljist ekki taktvíst, það sé ekki talið vænlegt til árangurs að halda fram slíkum kenningum þar sem heilbrigðisþjónustan er þrátt fyrir allt eitt af því sem okkur er hjartfólgnast í því samfélagi sem við lifum nú í. (JÁ: … lóðaúthlutanir.)

Svo eru lóðaúthlutanir, já. Svo kemur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni, af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson minnist á það, að hverfa gjörsamlega frá hinum nýlíberalísku kenningum sínum og leita í annan fornan streng í þeim flokki sem er auðvitað það að halda verndarhendi yfir ýmiss konar fylgifiskum flokksins, eða leiðtogum eftir því hvernig maður lítur á hlutina, og standa fyrir úthlutun gæða á opinberum vegum til manna sem þykja hafa sérstaklega unnið fyrir því með starfi í þágu flokksins eða vinskap manns, eins og segir í gömlum kvæðum. Stundum er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sviptist til á milli þessara tveggja hefða, ef það orð má nota í fleirtölu, í flokkssögunni. Auðvitað er svo til fleira í flokknum. Þar á meðal hefur fram á þennan dag verið örlítill hægri sósíaldemókratískur armur eða hópur í flokknum. Ég hygg að hann hafi reyndar yfirgefið þingflokk Sjálfstæðisflokksins þegar Katrín Fjeldsted fór úr honum við síðustu kosningar.

Þetta var sagt, forseti, til að sýna fram á að það er ekkert óeðlilegt við að Sjálfstæðisflokkurinn standi hér að baki. Út af fyrir sig er hið eina furðulega við framkomu Sjálfstæðisflokksins það að hann skuli pressa svona á að þetta frumvarp verði að veruleika, ef hann þá gerir það. Eins og sagt var hér áðan er eini fulltrúi hans í þessari umræðu hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Við höfum ekki heyrt í öðrum sjálfstæðismönnum hér og vitum í sjálfu sér ekki hvort þeir eru drifkraftur í þessu efni eða hvaða frumkvæði þeir hafa sýnt í því að þrýsta þessu hér í gegnum þingið. Forseti Alþingis er auðvitað sjálfstæðismaður en ég hygg að þrátt fyrir að ég kunni að hafa vikið að henni ekki eins vinsamlega og mér þætti sjálfum gott að gera standi forseti Alþingis ekki í sjálfu sér að baki þessari aðferð sem hér er beitt við að ræða frumvarp í byrjun mars, tæpum tveimur mánuðum fyrir væntanleg þinglok.

Kemur þá að hlut Framsóknarflokksins í þessu spili. Sá er munur á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum hvað þetta frumvarp varðar að það eru menn úr Framsóknarflokknum sem keyra það áfram, sem standa að baki því. Þar er auðvitað hæstv. iðnaðarráðherra fremst í flokki, Valgerður Sverrisdóttir, sem flytur þetta frumvarp lítt breytt eftir ófarirnar á fyrra þingi. Þar er hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson sem mun hafa beitt sér sérstaklega fyrir því að þetta frumvarp yrði keyrt hér áfram. Síðan er það hv. formaður iðnaðarnefndar Birkir Jón Jónsson sem hér hefur fylgt málinu eftir nauðugur viljugur, ég veit ekki hvort, viljugur sjálfsagt því að hann er ungur og ákafur þingmaður, eins og honum sæmir og er sagt í góðri meiningu en ekki honum til lasts. Hann hefur verið fulltrúi Framsóknarflokksins í þessari umræðu og lagt á það mikla áherslu að þetta frumvarp fari í gegn. Hann mun hafa þrýst því líka áfram innan iðnaðarnefndar — ég á þar ekki sæti en hef auðvitað heyrt af vinnubrögðum þar — gegn mótbárum þeirra sem þar sitja af hálfu stjórnarandstöðunnar sem þótti málið ekki nógu þroskað til að fara hér í 2. umr.

Sá er líka munur á þessum tveimur flokkum, Framsóknarflokki annars vegar og Sjálfstæðisflokki hins vegar, að upphaflegur hugmyndagrunnur þeirra er ólíkur. Framsóknarflokkurinn sem stofnaður er árið 1916 og var samsettur hér á Alþingi, var ekki stofnaður í einhverjum sal eða á einhverjum velli í bænum heldur er búinn til af fulltrúum hér á Alþingi. Hann var stofnaður af bændum árið 1916, sem voru allar götur frá 1845, frá því að Alþingi hið nýja var sett á fót, sterkt stjórnmálaafl á landinu. Framsóknarflokkurinn var lengi vel fyrst og fremst fulltrúi þeirra hagsmuna sem bændur almennt höfðu í stjórnmálum. Þá háttaði þannig til að nokkru áður en Framsóknarflokkurinn var stofnaður lauk leiguliðaskipulagi hér á landi þannig að bændur voru mjög burðug stétt og merkileg, íslenskir bændur, í sögulegu ljósi að ég hygg þegar litið er til grannlanda, að minnsta kosti til Evrópu. Þeir eiga sér auðvitað hliðstæðu í sterkri bændastétt í norrænu ríkjunum. Bændur lögðu áherslu á tiltekin mál. Það má kannski segja að þeir hafi á sínum tíma orðið, við vaxandi stéttaskiptingu þegar íslenska iðnbyltingin stóð yfir, mjög sterkur millihópur sem tókst að ná ákveðinni forustu á fyrri hluta aldarinnar í íslensku þjóðfélagi. Það má segja að Framsóknarflokkurinn hafi verið burðarflokkur þangað til Sjálfstæðisflokkurinn tók við og var það langt fram á fjórða áratuginn.

Þótt bændaflokkurinn Framsóknarflokkur liti auðvitað til vinstri og hægri í senn má í heildina segja að Framsóknarflokkurinn hafi skipað sér vinstra megin við miðju í hinu pólitíska litrófi og í hinum stóru spurningum á þessum tíma. Um það ber vitni t.d. stjórn hinna vinnandi stétta og ekki síður stjórnmálaskoðanir og stjórnmálaverk eins af helstu leiðtogum hans frá þessum tíma, Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem hafði þann draum, og þótti þá alls ekki fráleitur og margir í raun og veru höfðu, að það tækist þrátt fyrir vaxandi þéttbýli og síeflt iðnsamfélag að halda á Íslandi samfélagi sem bæri svip fornra tíma með þeim hætti að það væri mannlíf, sterkt atvinnulíf og verðmætauppspretta í sveitum landsins, í dreifbýli, og að kraftur dreifbýlisins gæti með nokkrum hætti haldið hinum verri áhrifum þéttbýlisins í skefjum.

Jónas frá Hriflu skoðaði þetta auðvitað þannig að Framsóknarflokkurinn ætti, sem fulltrúi bændastéttarinnar og dreifbýlisins, að vera í samvinnu við öfl í þéttbýlinu sem gætu kallað fram það einhvers konar ástand sem honum hentaði, þ.e. Framsóknarflokknum og bændum í sveitunum. Jónas og Framsóknarflokkurinn tóku þess vegna upp samstarf við vaxandi hreyfingu verkalýðs í þéttbýlinu. Það var undir þeim fánum sem mynduð var á sínum tíma stjórn hinna vinnandi stétta sem ég rakti hér áðan.

Það má segja að þrátt fyrir ýmiss konar viðburði í sögu 20. aldar sem hjálpaði mönnum á Íslandi ekki frekar en annars staðar til að ná markmiðum sínum í stjórnmálum hafði Framsóknarflokkurinn að mestu verið hallur undir vinstri sjónarmið, a.m.k. tók hann þátt í uppbyggingu velferðarkerfisins, uppbyggingu almannatrygginga hér á landi og ýmsum þeim framfaramálum sem menn komu af stað og kláruðu á árunum milli stríða.

Það má svo hins vegar segja, úr því að við erum stödd hér á þessum tíma og erum að tala um Framsóknarflokkinn, að andstaðan milli Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins sem var hinn heppilegi samstarfsmaður kristallaðist í því að Alþýðuflokkurinn, og reyndar Kommúnistaflokkurinn þegar hann var til, taldi að leggja bæri áherslu á iðnvæðingu í borgunum til að efla þar atvinnu og kannski til að þróa hér upp kapítalískt samfélag sem menn höfðu þá kenningar um að væri nauðsynlegur undanfari hinnar miklu sósíalísku byltingar. En þetta vildi Framsóknarflokkurinn síður og lagði áherslu á að atvinnuuppbyggingin færi fram í sveitunum og leit lengi á þéttbýlið, þá sérstaklega Reykjavík, sem nánast neikvætt fyrirbæri sem bæri að halda í skefjum. Það er kannski við hæfi að rifja upp að það höfðu bændur auðvitað lengi haldið og er kannski það neikvæða, af því að ég er búinn að hrósa bændastéttinni, að þeir höfðu haldið þéttbýlinu í skefjum, ekki bara á þessum tíma, í upphafi 20. aldar eða á milli stríða þar sem það var nú orðið vonlaust verk, heldur í raun og veru aldirnar áður með ákvæðum sem þrengdu að þurrabúðum og með lagaákvæðum um vistarband sem varin voru með því að ekki færi fólk á flakk og yrði göngumenn. Sagnfræðingar nú á tímum telja að það hafi fyrst og fremst beinst gegn því að hér mynduðust kaupstaðir á fyrri öldum til þess að halda völdum bænda, í upphafi sennilega kannski frekar stórbænda eða lágaðals, á landinu og tökum þeirra á auðæfum þess, ekki síst auðæfum sjávar. Sjálfstæðir smábændur en þó einkum stórbændur og lágaðall höfðu þá auðlind í sínum höndum að mestu, eins og við þekkjum úr Íslandssögunni og sögu einstakra héraða, t.d. hér á suðvesturhorninu því að hér voru miklar verstöðvar eins og allir vita.

Bændur á Íslandi eru að ég hygg merkilegir umfram bændur í grannlöndunum, ekki minnst vegna þess að þeir áttu hér hlut að feikilega öflugri og gagnmerkri hreyfingu sem þeir auðvitað fengu að utan eins og eðlilegt er nú um Íslendinga, en þeim tókst að skapa íslenskt form. Ég á að sjálfsögðu við samvinnuhreyfinguna. Hún á upptök sín í Þingeyjarsýslum. Það er vert að minnast þess af því að Þingeyingar eru nú töluvert í fréttunum. Kannski má segja að íslensk samvinnuhreyfing hafi kviknað einmitt þar vegna þess að þar voru sjálfstæðir smábændur algengastir og höfðu verið frá því á öndverðri 19. öld en lítið um stórbændur. Það háttar einfaldlega þannig til í Þingeyjarsýslum. Síðan koma þessir straumar í Þingeyjarsýslur frá útlöndum sem Þingeyingar tóku beint inn, m.a. vegna þess að um það leyti voru hér Norðmenn að veiða síld og hval. Á þeim stöðum sem þeir bjuggu um sig á landinu höfðu íbúarnir bein tengsl við útlönd og það þurfti sem sé ekki að láta miðla sér þekkingu um t.d. Reykjavík, eða aðrar miðstöðvar.

Þetta var auðvitað merkilegt vegna þess að það hittist svo á á þessum tímum að einmitt Norðmenn, umfram Dani, voru bæði efnahagslegt og menningarlegt stórveldi. Þess vegna var mikið gagn að tengslum manna við Norðmenn. Það má segja í framhjáhlaupi að ég held að við höfum ekki viðurkennt þau tengsl og ekki virt þau sem bæri. Þau eru margs konar og ég held að samvinnuhreyfingin og bókmenntir í Þingeyjarsýslu séu aðeins eitt formið.

Annað er raunar viðurkennt á síðari tímum, tengt framþróun í húsagerðarlist þar sem tréhúsin og bárujárnshúsin og Schweitzerstíllinn eru í raun og veru komin frá Noregi þó að þau eigi sér auðvitað víðari rætur, samanber það listsögulega hugtak sem um þau er notað og ég nefndi áðan, þ.e. kennd við Sviss.

Samvinnuhreyfingin var merkilegt fyrirbrigði og upphafsár hennar voru auðvitað liður í íslenskri sjálfstæðisbaráttu með ýmsum hætti. Ég ætla ekki að rekja þá sögu í smáatriðum enda hygg ég að það hafi verið gert fyrr á tímum úr þessum stól, nægilega, en ég legg áherslu á að hún var á sínum tíma jákvætt fyrirbrigði. Hún beindist að kaupmönnum sem oft voru af erlendri rót. Sú draumsýn var uppi í samvinnuhreyfingunni hvað verslun varðaði að hægt væri að skipuleggja verslun til hagsbóta þeim framleiðendum sem til hennar þurftu að leggja samkvæmt hinum fornu verslunarviðskiptum landsmanna sem lögðu til kaupmannanna vöru sína úr sveitum og fengu í staðinn þá matvöru og aðrar nauðsynjar og auðvitað munaðarvöru sem ekki gat komið annars staðar að en að utan.

Eins var auðvitað með fiskinn. Útvegsbændur lögðu hann líka inn í þessa verslun og það var sem sagt draumur þeirra að skapa verslunarfyrirkomulag sem væri þeim til hagsbóta.

Sorgarsögu samvinnuhreyfingarinnar hygg ég að allir þekki sem á mig hlýða. Lok samvinnuhreyfingarinnar eru mönnum í fersku minni, þeim sem eru komnir af unglingsaldri. Það má segja, svona stuttlega, að samvinnuhreyfingin og Framsóknarflokkurinn hafi vafist saman á heldur óheppilegan hátt. Það er satt að segja sérkennilegt en þó satt að að ýmsu leyti á saga samvinnuhreyfingarinnar nokkuð skylt við sögu Sovétríkjanna. Það er gráglettin tilviljun að samvinnuhreyfingin eða Samband íslenskra samvinnufélaga gaf upp öndina á mjög svipuðum tíma og Sovétríkin sálugu. Það er glannalegt að halda fram svona samlíkingum og þær ná auðvitað ekki lengra en þær ná, en það má segja að í upphafi hafi staðið í báðum þessum fyrirbrigðum hugsjónamenn sem litu svo á að þeir væru að gera sér og þó einkum samfélagi sínu og þeim málstað sem þeir stóðu fyrir og því fólki sem þeir unnu fyrir mikið gagn. Síðan trénuðust hugsjónirnar í hinum erfiða praxís lífsbaráttunnar og að lokum urðu það örlög þessara ákaflega ólíku, að sjálfsögðu, fyrirbrigða að þau fóru að ganga fyrir sjálfum sér og þeir sem völdust þar til forustu fóru smátt og smátt að líta svo á að þeir væru ríkið, ríkið væri rekið í þeirra þágu, og þá kom upp sú staða sem George Orwell lýsir vel í Dýrabæ sínum að sumir urðu jafnari en aðrir.

Framsóknarflokkurinn lenti í því, a.m.k. eftir stríð, að standa einkum vörð um hagsmuni fyrirtækis eða fyrirtækjasamsteypu sem hét Samband íslenskra samvinnufélaga. Við það að standa vörð um hagsmuni fyrirtækjasamsteypunnar virðist mörgum framsóknarmönnum hafa gleymst að upphaflega stóð til að standa vörð um hagsmuni samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar og um það mannlíf sem menn töldu að hún gæti auðgað og gert ríkara, um hagsmuni bændastéttarinnar og hagsmuni fólks í dreifbýlinu. Þetta úrkynjaðist sem sé, kannski ekki á ósvipaðan hátt og lýst er í bók Orwells, í það að Framsóknarflokkurinn fór að hugsa um hagsmuni fyrirtækisins sjálfs, standa vörð um þá og myndaði bandalög vegna þeirra hagsmuna, bæði reyndar til vinstri og hægri en einkum var það þannig að hagsmunir Sambands íslenskra samvinnufélaga urðu annar póllinn í fyrirtækjaveldi á Íslandi. Hinn var svo samtvinnað veldi auðmanna og kaupsýslumanna sem sameinuðust í Sjálfstæðisflokknum.

Á ýmsu gekk í samskiptum þessum en þegar ljóst varð, u.þ.b. á 9. áratugnum, að Samband íslenskra samvinnufélaga riðaði til falls á svipuðum tíma og fóru að sjást merki um það að Sovétríkin stæðu ekki traustum fótum lengur á sinni jörðu, að vísu aðeins hjá hinum framsýnustu mönnum, varð líka vart þeirrar tilhneigingar hjá Framsóknarflokknum og í forustu Sambands íslenskra samvinnufélaga að í raun væri verkefnið ekki að bjarga Sambandinu, sem þá var í raun og veru sjálffallið, ekki að fremja hagsmuni samvinnuhreyfingarinnar sem menn töldu vera sögulega dauða, ekki að bæta hag bændastéttar eða reyna að koma dreifbýli til vegs og virðingar með nýjum hætti, heldur að verja hagsmuni forustunnar í þessum félögum, þessum fyrirtækjum sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði komið sér upp og samanstóð af og myndaði það fyrirbæri.

Í Sovétríkjunum var þessi hópur kallaður nómenklatúra sem er eitt af nokkrum orðum í rússnesku sem hafa orðið alþjóðamál. Einstakir menn úr hinni gömlu nómenklatúru Sovétríkjanna féllu að sjálfsögðu með því ríki, jafnvel þeir sem hefðu kannski helst átt að bjargast, svo sem Gorbatsjov, félagi Íslendinga sem er á leiðinni hingað til lands seinna á árinu. Í heildina hefur það gerst sem fræðimenn um Rússland og Sovétríkin benda á, að flestir úr þessari nómenklatúru hafa bjargast úr þeim atburðum sem þar hafa orðið, og meira en bjargast, þeir eru jafnráðandi nú og þeir voru þá. Sögulegt hlutverk Jeltsíns og Pútíns varð það, að öðrum gjörðum þeirra ólöstuðum, a.m.k. óræddum, að koma þessari gömlu nómenklatúru úr Sovétskipaninni fyrir í nýju ríki, í nýju rússnesku stórveldi, sem að vísu var algjör andstæða hins gamla að því leyti að þar voru teknir upp hreinir hrákapítalískir hættir svo að helst minnti á skrípamyndir úr upphafi kapítalismans á 19. öld. Í stórum dráttum hélst þó sú stéttaskipting eða hópaskipting sem við lýði var í gömlu Sovétríkjunum.

Það er svo önugt í þessari samlíkingu að í raun og veru, þótt ég vilji nú engum gera það að líkja honum við klíkuna í Sovétríkjunum, urðu afdrif Framsóknarflokksins og Sambandshópsins svipuð. Vissulega er samvinnuhreyfingin fallin og samvinnuhugsjónirnar dauðar, a.m.k. í Framsóknarflokknum … (BJJ: Framsókn lifir.) Ég kem að því síðar hvernig geti staðið á því að hún gerir það. En nómenklatúran úr Sambandinu og úr Framsóknarflokknum hefur bjargast. Þetta hefur Framsóknarflokknum tekist að gera.

Það var um tíma, áður en þeir viðburðir urðu sem ég var hér að tala um, kannski á milli 1980 og 1990, á þeim áratug, kannski nokkru fyrr, sem Framsóknarflokkurinn stóð frammi fyrir því — og nú er ég að tala um tímabilið áður en ljóst var að samvinnuhreyfingin mundi falla — að hann þurfti að bregðast við nýjum aðstæðum í samfélaginu, í ljósi þess ósköp einfaldlega að dreifbýlið var ekki lengur sá mikli atkvæðaakur og valdsuppspretta sem það hafði verið fyrr á tímum. Það var ljóst að Framsóknarflokkurinn varð, ef hann ætlaði að halda lífi, að koma sér fyrir í þéttbýlinu með einhverjum hætti og höfða til annarra hópa en þeirra sem mynduðu samvinnuhreyfinguna og ýmist unnu í sveitum, á býlunum, eða tóku þátt í fyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar í héraðslægu þéttbýli. Við sem þá vorum ungir að íhuga stjórnmál töldum að ef Framsóknarflokknum tækist vel til kynni hann að eiga sér framtíð — þetta var nú ekki frumlegt — svipaðir og ámóta flokkar í öðrum löndum. Við horfðum auðvitað til annarra norrænna ríkja í því efni. Við töldum að flokkurinn gæti orðið með einhverjum hætti líkur Miðflokknum í Svíþjóð eða í Noregi, Centerpartiet heitir það í Svíþjóð og Senterpartiet að ég hygg í Noregi, flokkur sem vissulega á kjarnafylgi sitt á landsbyggðinni — sem er skár stödd þar en hér á margan hátt, í Svíþjóð og Noregi, a.m.k. í Noregi, það er erfiðara að mæla stöðu landsbyggðarinnar víða í Svíþjóð — með þeim hætti að Framsóknarflokkurinn sneri sér að öfgalausri mið-vinstristefnu, höfðaði til ýmissa millihópa í þéttbýli, kannski þeirra hópa sem höfðu lent út undan, má segja, milli áherslu stóra hægri flokksins á sitt fólk þar sem megintillitið var tekið til stórfyrirtækja og stóreignamanna á annan bóginn, og svo verkalýðsflokkanna á hinn bóginn til þeirra sem ekki fundu sig á þeim tímum í verkalýðsflokkunum tveimur sem hér voru við lýði. Menn litu á það sem kost fyrir Framsóknarflokkinn að samsama sig með einhverjum hætti þeirri umhverfishreyfingu sem þá var á æskudögum, að Framsóknarflokkurinn yrði einhvers konar viðtaki hennar þannig að talað sé nú umhverfisfagsslangur.

Þetta auðvitað reyndi Framsóknarflokkurinn. Það má segja að þetta hafi verið pólitísk meginlína formanns hans, Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra mörgum sinnum og nú eins þeirra sem standa í forustu náttúruverndar og umhverfishreyfingar, að færa flokkinn frá fortíð sinni í samvinnuhreyfingu og dreifbýli yfir í þetta. Ég hygg að Steingrímur, sem myndaði ýmsar stjórnir og varð auðvitað að haga seglum eftir vindi eins og menn þurfa að gera í stjórnmálum, hafi verið einlægur í því þegar hann hafði eftir föður sínum að allt væri betra en íhaldið og að þrátt fyrir breytingarnar hafi hann fylgt fram þeirri grunnstefnu Framsóknarflokksins að vera vinstri flokkur í hinum almennu átökum milli vinstri og hægri þar sem áherslan er annars vegar á sem mesta markaðsvæðingu í samfélaginu og hins vegar á það að við byggjum hér velferðarþjónustu og setjum markaðnum ramma og leikreglur þannig að hann sé notaður sem þjónn en ekki hafður að húsbónda.

Steingrímur Hermannsson átti kannski hvað glæstasta stund á sínum ágæta ferli sem stjórnmálamaður, sem kjörinn fulltrúi, í síðustu ríkisstjórn sinni þegar hann var forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar frá 1988 til 1991 og má um þá ríkisstjórn töluvert tala. Til þess að sýna fram á það hver meginlínan var í flokkshugmynd Steingríms Hermannssonar undirbjó sú ríkisstjórn, Steingrímur Hermannsson í félagi við forustu Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson o.fl., forustu Alþýðubandalagsins, Ólaf Ragnar Grímsson o.fl., og reyndar frjálslyndan flokk sem hér var uppi, hægra megin í pólitísku litrófi og hét Borgaraflokkurinn, m.a. það að hömlum yrði létt af fjármagnsflutningum sem þá höfðu lengi staðið, undirbjó inngönguna á Evrópska efnahagssvæðið og tengslin við Evrópusambandið. Þrátt fyrir að Steingrímur sjálfur legðist reyndar gegn því sambandi síðar meir er þetta engu að síðar staðreynd. Sú ríkisstjórn lagði einnig grunninn að þjóðarsáttarsamningunum 1990, fyrst við samtök opinberra starfsmanna, þ.e. fyrst gerði ríkið samninga við opinbera starfsmenn, og síðar tókust þjóðarsáttarsamningarnir á almennum vinnumarkaði í framhaldi af því. Ég segi að hún hafi lagt grunninn að því og er þá ekki með neinum hætti að taka heiðurinn af þeirri sáttargjörð frá þeim sem eiga hann svo sannarlega skilinn, sem var þáverandi forusta í verkalýðshreyfingunni annars vegar og samtökum atvinnurekenda hins vegar.

Þarna var rekin í félagi þeirra Steingríms, Ólafs Ragnars og Jóns Baldvins, það sem ég kallaði áðan öfgalausa vinstri stefnu. Um hinn græna lit Steingríms Hermannssonar efast enginn. Ég man ekki hvort það var í hans tíð, það kann að hafa verið áður, sem merki Framsóknarflokksins var hannað en það er sem kunnugt er grænt. Þetta benti til þess sem menn höfðu haldið í kringum 1980 að yrði framtíð Framsóknarflokksins. Það gekk að vísu á ýmsu með fylgi hans í könnunum en hins vegar má segja að þegar þessi ríkisstjórn hætti störfum og Framsóknarflokkurinn komst í stjórnarandstöðu hafi þessari stefnu verið snúið og að bylting sú sem fram fór gegn Steingrími Hermannssyni á þessum tíma og leiddi til þess að hann hætti störfum hafi haldið áfram á stjórnarandstöðutímabilinu 1991–1995.

Þá komst að völdum Halldór Ásgrímsson og ég hygg að hann hafi verið, sjálfrátt eða ósjálfrátt, fulltrúi þeirrar stefnu sem við tók, sem var sú í fyrsta lagi að tryggja nómenklatúrunni í Sambandinu framhaldslíf í nýjum fyrirtækjum og í öðru lagi að snúa frá hinni öfgalausu vinstri stefnu og að þynna hinn græna lit af Framsóknarflokknum, snúa frá þeim áherslum á umhverfismál sem upp höfðu komist í tíð Steingríms Hermannssonar og virtust ætla að verða þar miklu sterkari en þau voru þó orðin. Ætli sagnfræðingar þeir sem síðar munu fást við þessa sögu komist ekki að því að lokum að Halldóri Ásgrímssyni og félögum hans í forustu Framsóknarflokksins hafi verið bein þörf á því að taka upp samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn árið 1995 og jafnvel fyrr? Þeir hafi í raun og veru litið á það árið 1995, fyrir utan að flokkakerfið var ekki þannig að það væri sjálfsagt að mynda ríkisstjórn með vinstri öflunum, sem fullkomlega eðlilegt að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum vegna þess að einmitt í slíkri stjórn gæti hinn nýi Framsóknarflokkur orðið til og skapast? Það voru sem sé sameiginlegir hagsmunir sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu á þessum tíma, það skipti máli að koma nómenklatúrunni annars vegar og hins vegar gömlu fyrirtækjunum fyrir í nýjum heimi sem ég held að öll stjórnmálaöfl á Íslandi hafi átt sinn þátt í að skapa — ég skal þó ekki tala hér fyrir munn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — nýjum heimi í fjármálum og nýjum heimi í atvinnulífinu og það hafi verið mjög nauðsynlegt fyrir Framsóknarflokkinn að eiga þau helmingaskipti við Sjálfstæðisflokkinn sem raunin varð. Með öðrum hætti hefði það ætlunarverk mistekist að koma nómenklatúrunni úr Sambandinu og úr flokknum fyrir í hinu nýja samfélagi. Fyrirtækin stóðu einfaldlega fremur höllum fæti og hefðu sennilega meira og minna horfið, a.m.k. sem eitthvert afl eða stærð, ef ekki hefði verið hægt að beita þessu pólitíska vopni sem Framsóknarflokkurinn varð þeim á þessum tíma.

Þetta kristallast auðvitað — ég tek fram, forseti, að ég tel mig ekki vera með neinar persónuárásir eins og alltaf er sagt ef um það er rætt — í tveimur af forustumönnum Framsóknarflokksins, annars vegar Halldóri Ásgrímssyni sem sjálfur er stóreignamaður og hefur átt þess von allan tímann og menn hafa spurt eðlilega um það ástand vegna þess að hann hefur sjálfur sem stjórnmálamaður staðið fyrir ýmsum breytingum sem hafa gert hans hlut betri og ættmenna hans, og hins vegar í Finni Ingólfssyni sem hér var talinn á sínum tíma væntanlegur arftaki Halldórs en valdi viðskiptavettvanginn fram fyrir það, a.m.k. að sinni. Nú hefur það orðið til tíðinda síðustu dagana að kallað er aftur til Finns Ingólfssonar eftir síðustu vandræði Framsóknarflokksins í forustumálunum, krónprinsakreppuna sem svo er kölluð. Það er sjálfur Styrmir Gunnarsson af öllum mönnum sem kallar eftir Finni til nýrra áhrifa og forustu í Framsóknarflokknum. Ritstjóra Morgunblaðsins, sjálfstæðismanninum Styrmi Gunnarssyni, finnst eðlilegt að Finnur Ingólfsson sé kallaður aftur eftir að hann er orðinn milljónamæringur á verkum Framsóknarflokksins, eftir að hann sem fulltrúi nómenklatúrunnar er búinn að koma sér fyrir, þ.e. Framsóknarflokkurinn er búinn að koma honum fyrir, í kerfi auðs og valda í góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það sé svo lítil osmósa á milli þessara tveggja arma Framsóknarflokksins, hins pólitíska arms og hins viðskiptalega, að það sé eðlilegt að menn skiptist á.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem stendur hér í dyrunum, leyfði sér um daginn, sjálfsagt með ófyrirleitni og ókurteisi, ég efa það ekki, að minnast á þetta þegar kvaddur var Árni Magnússon, góður drengur reyndar. Hann fékk nú að heyra það, þannig að ég tali hér venjulega íslensku, en í raun vakti hv. þingmaður ekki athygli á öðru en því að það er eins um ýmsar skæruliðahreyfingar og -samtök sem við höfum fyrir augunum dag hvern úti í löndum að tveir armar eru í þessari hreyfingu. Annar er viðskiptalegur og hinn er pólitískur.

Niðurstaða mín er sú að Framsóknarflokkurinn sé hreinlega kominn með nýja hagsmuni, að hann sé hættur, hafi gefist upp á því að vera fulltrúi bænda eða dreifbýlis, hann hafi ekki fundið neina þá millihópa í þéttbýlinu sem Senterpartiet í Noregi tókst. Hann hafi ekki átt þess kost vegna stærðar og styrks Sjálfstæðisflokksins og vegna þess að hægri flokknum hér á landi hefur tekist að vera sú breiðfylking sem raun ber vitni, a.m.k. fram að tímum Davíðs Oddssonar. Framsóknarflokknum hefur mistekist að fara leið systurflokksins í Danmörku, þ.e. flokksins Venstre sem á svipaða fortíð og Framsóknarflokkurinn, að verða annar hægri flokkur þó að það sé kannski það sem vakti fyrir Halldóri Ásgrímssyni og flokksforustunni milli 1991 og 1995. Flokkurinn bregst þannig við að helstu hagsmunir sem honum tengjast eru hagsmunir þessarar gömlu nómenklatúru, hagsmunir þeirra fyrirtækja sem nú standa í hinum viðskiptalega armi hreyfingarinnar og þá ver hann í botn.

Síðan hafa menn spurt á undanförnum dögum: Hvað er Framsóknarflokkurinn? Svar sem hér var veitt frammi á göngum var eiginlega það að Framsóknarflokkurinn væri, fyrir utan það að vera þessi hagsmunasamtök, einkum vinnumiðlun. Hinum pólitíska armi þyrfti að halda uppi og það þyrfti að gerast í pólitísku samstarfi, eins og nú væri, við stóran flokk, við höfuðból sem gæti veitt hjáleigunni ýmis gæði. Síðan væri Framsóknarflokkurinn í raun og veru vinnumiðlun þar sem efnilegir menn gætu gengið að störfum, þingstörfum og pólitískum störfum en einnig störfum í hinum viðskiptalega armi þegar mönnum þætti svo við horfa. Kannski er það rétt að Framsóknarflokkurinn nú sé annars vegar hagsmunasamtök og hins vegar vinnumiðlun með ágæt tengsl við auglýsingastofur og gangi þannig áfram hér að vera þetta undarlega pólitíska fyrirbrigði, að bæta sér upp skort á baklandi með því að taka sér eins konar viðskiptalega stöðu í stjórnmálum.

Það er í samræmi við þetta, forseti, þannig að ég komi að frumvarpi um vatnalög sem hér eru til umræðu, hvaða hagsmunir tengjast þeim lögum og þeirri skipan sem við höfum haft í þeim efnum. Árið 1923 eða þar um kring komust menn að niðurstöðu um að best væri að lokum að fela landeigendum umráð yfir vatni. Þetta hafði, eins og áður hefur verið rakið hér, verið mikið deiluefni í landinu og það er kannski rétt að fara aðeins yfir það af hverju það var deiluefni. Það var ekki með þeim hætti eins og hæstv. iðnaðarráðherra gaf í skyn í 1. umr. um málið, að hér hefði hið gamla bændasamfélag með einhverjum hætti haft skipan sem það hefði svo framlengt — í hinu gamla bændasamfélagi giltu ákvæði Jónsbókar, sum þeirra með stoð í Grágás, og gekk vel — heldur spratt deilan af því að Ísland var þá í árdaga iðnbyltingar og kapítalisma og kaupsýslumenn og iðnjöfrar sem þá voru uppi eða a.m.k. ætluðu sér að vera uppi — iðjuhöldur er það nefnt í vatnalögunum frá 1923 — fóru hér um landið í byrjun aldarinnar og gerðu tilraun til þess að kaupa upp vatnsföll til að nýta þau síðan ein og sér síðar meir. Þetta vakti upp andstöðu, ótta og megnan óvilja, ekki síst í sveitum landsins, þar sem ljóst var að þessir iðjuhöldar og kaupsýslumenn hefðu ekki áhuga á öðru en því að láta vatnsföllin sjálf ganga kaupum og sölum, þeim í hag sem …

(Forseti (SP): Forseti vill inna hv. þingmann eftir því hvort hann hyggist ljúka máli sínu von bráðar þar sem forseti hefur í hyggju að gera hér matarhlé milli klukkan hálfátta og átta.)

Forseti. Ég hyggst ekki ljúka máli mínu alveg strax, á örlítið eftir af því, en er mjög sáttur við boðað matarhlé.