132. löggjafarþing — 81. fundur
 9. mars 2006.
NATO-þingið 2005, ein umræða.
skýrsla ÍNATO, 585. mál. — Þskj. 860.

[19:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2005. Ég hef setið skamma stund í þessari nefnd en vil segja það strax í upphafi, ekki síst með tilliti til umræðna sem urðu hér fyrr í morgun um afskipti mín af Atlantshafsbandalaginu af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að ég hygg að það sé engin nefnd sem ég hef komið að sem starfar á alþjóðlega vísu fyrir þingið þar sem hefur verið jafnfróðlegt að starfa og einmitt þarna.

Segja má að starfsemi NATO-þingsins hafi markast af því á síðasta ári að upp kom krytur og erfiðleikar í samstarfi Atlantshafsbandalagsþjóðanna í kjölfar Íraksstríðsins. Um þann meiningarmun hafa staðið töluverðar umræður, á köflum harkalegar, á þeim þingum sem við fulltrúarnir höfum verið á. Sömuleiðis hefur starfið líka markast af því að hlutverk Atlantshafsbandalagsins hefur verið að breytast og það má segja að það svið viðfangsefna sem það sinnir hafi breyst og það hefur haslað sér völl í verkefnum víða utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins.

Við höfum, fulltrúar Íslendinga á þinginu, sótt alla þá fundi sem haldnir hafa verið á vegum NATO-þingsins á þessu ári og tekið virkan þátt í umræðum þar. Ég er viss um að það er forvitnilegt fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að vita það og heyra frá mínum munni að ég hef sennilega hvergi á mínum ferli, þ.e. í starfi á alþjóðlega vísu fyrir Alþingi Íslendinga, tekið þátt í jafnhreinskilnum og opinskáum umræðum og einmitt innan ýmissa stofnana NATO-þingsins.

Til að mynda er á hverju ári haldið í Washington svokallað Transatlantic Forum þar sem koma fulltrúar hinna ýmsu deilda sem að þinginu standa og eiga þess kost að eiga skoðanaskipti við ýmsa þá sem eru að móta stefnuna af hálfu Atlantshafsbandalagsins. Ég get þess sérstaklega að þegar ég var staddur á þeim fundi í Washington í desember síðastliðnum þá spurði ég nokkuð harðra og nærgöngulla spurninga um afstöðu Bandaríkjamanna til ýmissa þátta. Ég t.d. rifja það hér upp að ég innti sérstaklega eftir því hver yrðu viðbrögð Bandaríkjamanna ef Íranar héldu áfram að þráast við að fara að tilmælum Alþjóðakjarnorkueftirlitsstofnunarinnar. Ég spurði út í hvort það kæmi til greina að Bandaríkjamenn gripu til hernaðarlegra viðbragða. Það var ákaflega merkilegt að fulltrúi beint úr miðju stjórnkerfisins, frá sjálfu Pentagon, sem varð fyrir svörum sagði það alveg skýrt og skorinort að það væri viðbragð sem þeir mundu ekki afskrifa.

Ég átti þess jafnframt kost að varpa fram spurningum í kjölfar hádegisverðarfundar með manni sem nýlega hafði þá látið af störfum sem yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjastjórnar og ég spurði hann sömu spurningar. Það var athyglisvert að sá fyrrverandi yfirmaður Bandaríkjahers sagði alveg skýrt og skorinort að þó að hernaðarleg íhlutun í málefni Írana væru ekki ofarlega á dagskrá væri hún eitt af þeim meðulum sem menn íhuguðu.

Ég nefni þetta sérstaklega hér til að undirstrika það að innan vébanda þingsins eiga fulltrúar kost á að fá upplýsingar frá fyrstu hendi og spyrja harðra spurninga og fá svör sem a.m.k. vöktu undrun mína fyrir hreinskilni þeirra.

Ég er t.d. viss um að það hefði verið nokkurt nýnæmi fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson að eiga þess kost að varpa fram svipuðum spurningum og ég gerði til fulltrúa bandarískra stjórnvalda í Washington. Ég spurði þá t.d. um möguleikana á að þeir töpuðu stríðinu í Írak og það kom alveg skýrt fram af hálfu þeirra að þeir töldu að á því væru möguleikar. Svipuð viðhorf hafði ég ekki heyrt af vörum fulltrúa ýmissa annarra, viljugra þjóða. Ég á þá við, frú forseti, íslensku ríkisstjórnina.

En það sem er fróðlegt við þessi þing er að þarna eiga ákaflega víðfeðm sjónarmið fulltrúa. Þarna eiga t.d. flestöll ríki sem á sínum tíma voru talin til áhrifasvæðis hinna föllnu Sovétríkja fulltrúa. Þarna sitja Rússar. Ég átti þess sérstakan kost, af því ég er formaður Íslandsdeildarinnar, að sitja fund formanna deilda úr hinum ýmsu þjóðþingum, sem haldinn var í aðdraganda síðasta ársfundar í Kaupmannahöfn, með Rússum sérstaklega til að ræða ýmis ágreiningsmál þar. Það voru töluvert hreinskilnar umræður. Þar var m.a. reifuð sú staðreynd að mörgum sem fylgjast með tengslum Rússa og Bandaríkjamanna á alþjóðlega vísu finnst eins og heldur sé hlaupin stirfni og kuldi í þau samskipti. Það var hart deilt á Rússa sem svöruðu fullum hálsi og bentu á að það væri fullkomlega eðlilegt af þeirra hálfu að rísa aðeins upp á tærnar þegar horft væri til þeirrar staðreyndar að Bandaríkjamenn séu núna, þrátt fyrir þá stefnu sem við Íslendingar finnum á eigin skinni, að draga úr herstöðvum víðs vegar um heiminn, að setja niður herstöðvar í ýmsum af hinum gömlu gervihnöttum Sovétríkjanna, þ.e. nálægt landamærum Rússlands. Þetta, sögðu Rússar, er ástæðan fyrir því að það hefur svona heldur brostið á með frera í stað þess funa sem ríkti á tímum perestrojku um nokkurt skeið í samskiptum risaveldanna tveggja.

Það var ákaflega fróðlegt að fylgjast með þessum skoðanaskiptum á millum fulltrúa stórveldanna tveggja og verða þess áskynja hvað menn voru hreinskilnir. Þarna ræddu menn það alveg hreint út að í sumum héruðum lýðveldanna sem eru á Kákasussvæðinu, og áður tengdust Rússum með formlegum hætti í gegnum Sovétríkin, hafa t.d. Bandaríkjamenn verið að styðja ýmiss konar aðskilnaðarhreyfingar, eins og t.d. í Abkasíu þaðan sem Stalín fékk sín góðu vín, svo ég rifji það nú upp fyrir hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem, eins og ég, er áhugamaður um sögu og þar með líka um smekk hinna fornu ráðamanna í Sovétríkjunum.

Þetta hefur auðvitað verið þyrnir í augum ýmissa sem vildu gjarnan sjá hlutina með öðrum hætti. En slík smáatriði sem koma fram — smáatriði segi ég, frú forseti, og ætti auðvitað að draga þá athugasemd til baka því auðvitað eru þetta ekki smáatriði fyrir þá sem á þessum svæðum búa — eru partur af veruleika sem við sjáum ekki oft í fjölmiðlum okkar hér heima. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hvað það er sem veldur því að stórveldi ýfast við og reisa hár sitt á feldunum og jafnvel stinga við fótunum stundum. Það er vegna þess að þó allt virðist með felldu ríkir samt undarleg togstreita oft og tíðum á milli þeirra þar sem annað stórveldanna reynir með einhverjum hætti að tryggja stöðu sína og hitt svarar með því að gera slíkt hið sama annars staðar.

Á því ári sem liðið er hefur það gerst í sögu þessarar nefndar, að á einu ári voru þrír formenn kjörnir. Árið byrjaði með því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var kjörinn formaður nefndarinnar en þegar leið á árið var kjörinn nýr formaður. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét af því starfi og núverandi sendiherra okkar í Stokkhólmi tók við því og á síðastliðnu hausti var ég síðan kjörinn formaður nefndarinnar. Samvinna innan nefndarinnar hefur auðvitað verið með miklum ágætum og sannarlega má vona að sá friður sem ríkir innan nefndarinnar smiti nokkuð út til þeirra svæða sem Atlantshafsbandalagið, eða a.m.k. þingmannasamkunda þess, lætur til sín taka með einhverjum hætti.

Aðeins í lokin, frú forseti, fyrir utan það að ég er í nefndinni ásamt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni, þá er hv. þm. Magnús Stefánsson einnig í nefndinni.

Þingmannasamkundan er dálítið sérkennileg að því leyti til að þegar sambandið var stofnað, Atlantshafsbandalagið, 1949, þá var það ekki partur af neinni formlegri stofnun. Það var ekki fyrr en 1954 sem þingmannasamkundan var sett á stofn. Hún var upphaflega til að samræma viðhorf og ræða það sem var á döfinni hjá bandalaginu sjálfu. Á seinni árum er hún fyrst og fremst vettvangur skoðanaskipta og í vaxandi mæli hafa alls konar viðhorf komið þar fram og fulltrúar margvíslegra viðhorfa átt það sæti. Ég hef þegar nefnt þau ríki sem voru áður á áhrifasvæði hinna gömlu Sovétríkja. Rússar láta þarna töluvert til sín taka. Á síðustu árum hafa líka löndin við Miðjarðarhaf í vaxandi mæli sótt í að komast inn á þetta þing og eiga þar fulltrúa sína. Það hefur góðfúslega verið heimilað. Þannig að núna eiga þarna ýmis Norður-Afríkuríki fulltrúa sem tjá mjög merkileg viðhorf, ekki síst á þessum síðustu tímum og kannski verstu þegar segja má að komnir séu upp á yfirborðið ákveðnir árekstrar á milli mismunandi trúarviðhorfa í heiminum. Það er mjög fróðlegt að vera viðstaddur slíkar umræður.

Frú forseti. Í lokin vil ég geta þess að auk mín skrifa þeir hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Stefánsson undir þessa skýrslu.



[19:55]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að mér öðru hvoru í ræðu sinni langar mig til að gjalda í líku. Ég fagna því að hv. þingmaður hafi átt hreinskilnislegar viðræður yfir hádegisverði með fulltrúum Pentagon og er þá væntanlega að vísa í fund í McNair-virkinu í Washington sem vísað er til í skýrslunni. Þar voru rædd samkvæmt skýrslunni ýmis málefni sem NATO hefur haft afskipti af, Íran, Afganistan, innrásin í Írak o.fl. Þetta verður mér allt umhugsunarefni þegar aðild Íslands að þessu hernaðarbandalagi er annars vegar.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, jafnaðarmannsins Össurar Skarphéðinssonar, hvort hann telji það vera heppilegt fyrir Íslendinga að þróa þetta samstarf innan hernaðarbandalagsins NATO áfram. Þá hef ég einnig í huga þá breytingu sem orðið hefur á því bandalagi með auknum áhrifum Bandaríkjamanna innan bandalagsins. Annars vegar hef ég það í huga og hins vegar þá valkosti sem bjóðast. Við ræddum áðan, eða hér var öllu heldur kynnt skýrsla frá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, sem einnig á grundvelli þingmannasamstarfs er miklu víðtækara samstarf en sem nemur því sem gerist á evrópskri grundu. Hvort hann telji ekki heppilegra að við beinum kröftum okkar inn á þann vettvang í stað þess að leggja þá rækt sem við gerum við samskiptin (Forseti hringir.) við hernaðarbandalagið NATO.



[19:57]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki að annað útiloki hitt og ég tel að þó við leggjum rækt við þátttöku okkar og starf innan NATO-þingsins og þess sambands þá útiloki það alls ekki að við tækjum í ríkari mæli þátt í starfsemi ÖSE. Það hefur reyndar margsinnis komið upp í þessum umræðum.

En ég skal vera alveg hreinskilinn við hv. þingmann. Ég el þá von í brjósti að Atlantshafsbandalagið breytist og það verði ekki, eins og hv. þingmaður gjarnan lýsir því, árásarbandalag. Ég held að það sé það ekki í dag. Það þurfti ekki Atlantshafsbandalagið til þess að t.d. íslenska ríkisstjórnin lýsti stuðningi sínum við innrásina í Írak.

Í reynd er það þannig að enda þótt Atlantshafsbandalagið sé í vaxandi mæli að taka að sér aðgerðir, t.d. í Afganistan, þá var Atlantshafsbandalagið ekki formlega aðilinn sem hóf þær aðgerðir sem þar var gripið til. Það eru einstök ríki sem taka þar þátt, og eins og ég rifjaði upp fyrr í dag þá er það svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð á aðild að ríkisstjórn í Noregi, eins og reyndar Samfylkingin í gegnum systurflokk sinn þar. Sú ríkisstjórn hefur t.d. nýlega, væntanlega samkvæmt einhvers konar óskum frá Atlantshafsbandalaginu og ríkjum þar innan, sent þotur til Afganistans. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður mundi gera ef það væri beinlínis svo að íslenska ríkisstjórnin mundi, hugsanlega með samþykki Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, senda herfylki til Afganistans. Nú veit ég að hv. þingmaður er andsnúinn því sem við höfum þegar gert þar. En í hnotskurn er svar mitt það að þátttaka í öðru útilokar ekki þátttöku og þróun á þátttöku í (Forseti hringir.) hinu.



[20:00]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að það hefur verið uppi ágreiningur innan norsku ríkisstjórnarinnar um utanríkisstefnuna sem varð þess m.a. valdandi að utanríkisráðherrann gekk á fund bandaríska sendiherrans í Osló, ef ég man rétt, til að segja að áherslur vinstri flokksins í Íraksmálum, eða ég man ekki nákvæmlega hvað það var, væru ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Þar fyrir utan mundi ég ekki treysta mér til að samþykkja allt sem frá norsku ríkisstjórninni kemur hversu góð sem hún er með bundið fyrir augun. Þannig að ég er ekki tilbúinn að skrifa upp á allt sem hún gerir.

NATO kunni að breytast. NATO hefur verið að breytast og á mjög slæman hátt. Það stendur í grunnsáttmála NATO að árás á eitt ríki jafngildi árás á önnur. Það sem hefur verið að breytast í áherslum NATO á 10. áratugnum, og mjög ákveðið eftir samþykkt í Washington 1999 og síðan í framhaldinu í Prag og áfram, er að menn fara að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Ógn við eitt ríki er ógn við annað. Það er stutt yfir í árás á annað ef það er samþykkt fyrir því að bregðast við ógninni á fyrirbyggjandi hátt. Á sama tíma var lögð áhersla á hreyfanlegar hersveitir. Á sama tíma var lögð áhersla á heiminn allan. Hann var allur undir. Við horfðum ekki bara á okkar þröngu landamæri.

Hver er það sem líklegastur er til að verða fyrir ógn? Það er sá sem ógnar öðrum. Það eru Bandaríkin. Og aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu NATO er af þeim sökum orðin Íslendingum mjög hættuleg. Besta skrefið sem við gætum stigið til að verja okkur og treysta öryggi okkar er að ganga úr NATO (Forseti hringir.) og hafa eins mikla fjarlægð og mögulegt er á milli okkar og haukanna í Washington.



[20:02]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo hjartanlega ósammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að Ísland eigi að ganga úr Atlantshafsbandalaginu. Ég held miklu frekar að við eigum að beita áhrifum okkar til að þróa það í þá átt sem ég tel að það sé að þróast. Ég er alveg ósammála hv. þingmanni um að þessi samþykkt sem hann vísar til 1999 hafi leitt til þess að eðli NATO hafi breyst og versnað. Þvert á móti er ég dálítið hlynntur þeirri hugsun að Atlantshafsbandalagið hafi heiminn undir varðandi t.d. ákveðnar aðgerðir.

Það sem ég á við er t.d.: (Gripið fram í.) Tökum Afríku. Ég hefði fagnað því, segi ég núna, þó ég hafi ekki haft hugsun á því að segja þá skoðun upphátt meðan á því stóð, ef Atlantshafsbandalagið hefði t.d. með einhverjum hætti reynt að stilla til friðar þegar átökin og þjóðarmorðið varð í Rúanda. Ég tel einfaldlega að það hefði þurft að kosta öllu til til að koma í veg fyrir það. Hvað gerðist í staðinn? Jú, heimurinn stóð átekta og beið og gerði ekki neitt. Þetta var svarta Afríka, og heimurinn skeytti einskis. Við höfum lesið lýsingar og bækur um það sem gerðist þar og hversu fullkomlega áhrifalaust það fámenna lið var sem þar var sett af hálfu Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar. Ég tek þetta sem dæmi. Ég gæti tekið fleiri dæmi í Afríku. Ég ætla að taka eitt til viðbótar.

Ég tel það meira en einnar messu virði að hafa freistað þess að senda t.d. lið frá Atlantshafsbandalaginu til þess að reyna að bjarga þeim sem verið er að drepa, limlesta og nauðga í Darfúr í Súdan. Því miður. Ef engar aðrar leiðir eru færar en þessi þá vel ég hana. Ef spurningin er um það að bjarga mannslífum þá vel ég hana.

Ég rifja það upp sem formaður Alþýðubandalagsins gamall sagði einu sinni úr þessum ræðustól. Ég el þá von í brjósti mér að Atlantshafsbandalagið breytist í friðarbandalag. Við vitum báðir hver það var sem mælti þau orð.



[20:04]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að hafa langt mál þó fullt tilefni sé til að fara í langa og mikla umræðu um þetta efni. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi þá hörmulegu atburði sem áttu sér stað í Rúanda á sínum tíma. Hann nefnir einnig Darfúr, að þar hafi verið og sé enn nauðsyn til staðar því að þar sé ástandið enn þá mjög alvarlegt og mjög slæmt. En á sínum tíma í Rúanda hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir þau hryllilegu fjöldamorð sem þá voru framin ef um það hefði myndast samstaða. Það mætti nefna mörg önnur dæmi. Það má t.d. nefna Tsjetsjeníu þar sem Rússar hafa farið með ofbeldi og fjöldamorðum miðstýrðum frá Moskvu, þar sem ekki hafa verið framin minni ódæðisverk en þar sem verst gerist.

En hvers vegna hreyfir enginn andmælum svo eftir verði tekið? Það er vegna þess að Tsjetsjenía er á áhrifasvæði stórveldis. Ég tel að heimurinn þurfi að komast undan því ægivaldi sem stórveldin hafa yfir öðrum þjóðum.

Það var mér mjög lærdómsríkt þegar ég á sínum tíma átti þess kost að vera á þingi Sameinuðu þjóðanna í hálfan mánuð árið 1997 og fylgjast með starfi innan veggja þeirra samtaka. Það sem mér þótti mest sláandi var hvernig ríki heimsins mynduðu blokkir. Það voru ríku vestrænu iðnaðarþjóðirnar sem ekki eru allar vestrænar. Þar var Ástralía líka innan borðs og þau ríki sem áttu samleið í efnahagslegu og pólitísku tilliti. Síðan voru fátæk ríki þriðja heimsins svokallaða. Áður hafði austurblokkin verið til, kommúnistablokkin sem er svo til hrunin. En innan þessara vébanda tóku menn sínar ákvarðanir og réðu sínum ráðum, og það er enginn Olof Palme lengur í Evrópu. Þær raddir eru þagnaðar sem voru sjálfstæðar.

Það sem ég vildi sagt hafa, ég er að reyna koma þessu út úr mér á tiltölulega óskipulegan hátt, er að við eigum að brjótast undan ægivaldi stórveldanna, út úr þessum gömlu hernaðarblokkum og reyna að fara að tala máli samvisku okkar, sjálfstætt. Það eiga Íslendingar að gera. Forsenda þess er að ganga úr hernaðarbandalaginu NATO. Ég tel að það væri til góðs. Ég held að það væri heiminum til góðs að sundra því bandalagi.

Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki hafa einhver tæki til að taka á einræðisherrum og sporna gegn ofbeldi þegar það er uppi. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að slíkir möguleikar þurfa að vera fyrir hendi. Það er á þeirri forsendu sem ég nefndi ÖSE hér áðan. Ég minnist þess að á Balkanskaganum á sínum tíma var verið að leggja grunninn að eftirlitskerfi á vegum ÖSE þegar Bandaríkjamenn slógu í borðið og ákváðu að fara sínu fram.

Það sem þeir síðan hafa gert aftur og ítrekað er að beita NATO. Það hafa þeir gert í Afganistan. Það hefur verið rætt um slíkt í Írak. Og í Miðausturlöndum hefur verið talað um að setja sveitir á vegum NATO inn á herteknu svæðin. (Gripið fram í: Arafat talaði um það.) Það teldi ég ekki vera til góðs. Arafat talaði um það. Ég kannast ekki við það. Það má vera að það sé rétt hjá hv. þingmanni.

Ég man hitt að fyrir fáeinum mánuðum var haldin ráðstefna, ég held að hún hafi verið í Egyptalandi, þar sem fjallað var um þessar hugmyndir NATO. Það var boðað til fundar. Sumum var boðið, öðrum ekki. Þar var valið úr. Ég man að ég skrifaði um þetta grein og hefði gjarnan viljað rifja hana upp núna. (Gripið fram í: Hún er á heimasíðunni ogmundur.is.) Hana er að finna á heimasíðunni minni, það er alveg rétt, þar er sagt frá þessum fundi og framgöngu NATO, þar sem alla vega róttæk öfl og frelsissinnuð öfl á þessum slóðum frábuðu sér aðkomu hernaðarbandalagsins NATO sem menn sjá fyrst og fremst sem framlengingu á Bandaríkjunum og sterkustu herveldunum í Evrópu og þá ekki síst Bretlandi sem hefur fylgt Bandaríkjastjórn mjög að málum í þeim voðaverkum sem hún er ábyrg fyrir á síðustu árum.



[20:10]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist þess að ég spurði sjálfur á fundi þar sem framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins var hvort það kæmi til greina, án þess að taka afstöðu til þess, að Atlantshafsbandalagið tæki að sér friðargæsluhlutverk í Palestínu. Tilefni þess var að þær vangaveltur komu fram meðal Palestínumanna sjálfra, meðal Al Fata. Það var tilefni til þeirrar umræðu. Ekki treysti ég mér nú til að fullyrða það nákvæmlega hverjir tóku undir það hér á landi. En það voru ýmsir sem komu mér á óvart.

Til marks um það hvað það er oft erfitt að taka ákvarðanir þegar um líf og dauða er að tefla þá nefni ég það atvik sem hv. þingmaður nefndi hér, þegar loftárásirnar voru gerðar á Kosovo. Ég minnist þess t.d. í umræðum í útvarpi að ég tók undir þær. Ég hef margsinnis verið atyrtur fyrir það. Á þessum tíma var um það að ræða að menn urðu að taka afstöðu. Hvað átti að gera? Það var verið að drepa þúsundir manna nákvæmlega þann dag sem ráðist var í þessar aðgerðir. Það var ráðist í loftárásirnar til að stilla til friðar. Reka frá þá heri eða þær sveitir sem lutu forustu manna sem núna er verið að draga til dóms fyrir stríðsglæpi í Haag.

Það kann að vera að þetta hafi verið röng ákvörðun. En á þeim tíma urðu þjóðir heimsins með einhverjum hætti að bregðast við. Þetta var ákvörðun sem var tekin, rétt eða röng, við þær aðstæður að enn eitt þjóðarmorðið var í uppsiglingu á Balkanskaga. Það var verið að drepa þúsundir manna, konur, börn og karla, þann dag.

Til marks um það líka hvað það er oft erfitt að taka ákvarðanir nefni ég að hv. þingmaður tilheyrir alþjóðlegri hreyfingu sem á fulltrúa í ríkisstjórn Noregs sem hefur setið áfram þó að ríkisstjórnin hafi tekið þátt í aðgerðum NATO í Afganistan með því að senda þangað eina af þremur flugþotnaherdeildum. (Forseti hringir.) Það sýnir bara hvað það er vandlifað í þessum heimi. Ekki hafa þeir góðu herrar sem hv. þingmaður styður farið úr ríkisstjórninni í mótmælaskyni. Mundi hann gera það hér á Íslandi? (Forseti hringir.) Ég skal svara fyrir hans hönd. Ég held að hann mundi gera það.



[20:12]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vandlifað í þessum heimi. Það er alveg rétt. Varðandi árásirnar á Balkanskaganum á sínum tíma þá er það nú staðreynd, sem kom í ljós eftir að þær árásir voru gerðar, að fjöldamorðin og ódæðisverkin voru einkum framin eftir að þær árásir hófust. Það er mat þeirra sem ég alla vega hef kynnt mér málin hjá að þær árásir hafi orðið til að kveikja elda sem ella hefði verið hægt að slökkva.

Alla vega var búið að setja málin í farveg þar sem ÖSE gegndi lykilhlutverki en það voru málalyktir sem Bandaríkjastjórn og ráðandi öfl í NATO vildu ekki sætta sig við.

Ég ætla að heita hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni því að sýna honum bók eða jafnvel gefa honum bók um aðdragandann að þessum atburðum þar sem fréttamenn frá öllum helstu fjölmiðlum heimsins, vestanhafs og austan, BBC, Daily Telegraph, bandarískum sjónvarpsstöðvum, frönskum, þýskum, ræða þessi mál og sýna fram á þær lygar sem beitt var í aðdraganda stríðsins.

Það er nokkuð sem minnir okkur einnig á lygarnar og ósannindin sem árásin á Írak var á sínum tíma réttlætt með. Þannig að að þessu leyti er einnig vandlifað í þessum heimi og oft þegar við töldum okkur vera að samþykkja erfiðar ákvarðanir á grundvelli þess að við værum að forða fólki frá mikilli ógæfu og hörmungum þá hefur sagan leitt í ljós að við (Forseti hringir.) höfum allt of oft verið blekkt.



[20:14]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það voru rangar upplýsingar sem leiddu til ákvörðunar íslensku ríkisstjórnarinnar um stuðninginn við Írak. Það kom t.d. fram í viðtali sem hæstv. forsætisráðherra veitti í Blaðinu hér á haustdögum. Hann sagði þá að ef hann hefði vitað það sem hann vissi síðar hefði hann ekki veitt stuðning þeirri ákvörðun sem tekin var.

Þegar menn hins vegar tóku á sínum tíma ákvarðanir um loftárásir á Kosovo, og ég sagði áðan hreinskilnislega við hv. þingmann að á þeim tíma studdi ég það, á þeim degi sem í það var ráðist, var fyrirvarinn allur annar. Það er hugsanlegt að það hafi verið einhverjar blekkingar þar líka. Á þeim tíma setti ég mig í spor þeirra sem höfðu yfir vígbúnaðartækjum og mannafla að ráða og stóð andspænis því að þeir að minnsta kosti töldu, og ég held að það hafi ekki verið nein vitleysa, að þá dagana væri verið að drepa þúsundir manna, þúsundir Evrópubúa annars staðar í álfu okkar.

Hvað átti að gera þar? Balkanskaginn logaði í ófriði og þau miklu hrannmorð sem upplýst hefur orðið um áttu sér flest, hygg ég, eða hin alvarlegustu, stað áður en þetta varð. Það er hugsanlegt að það sé rangminni mitt. Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið. En ég set mig í spor þessa fólks sem tekur ákvarðanir og ég hugsa að ég hefði tekið slíka ákvörðun sjálfur. Þess vegna hef ég alltaf gengist við því að ég sagði þetta á þeim tíma og hef aldrei hopað frá því. Þetta var miðað við bestu vitneskju og þær upplýsingar sem lágu fyrir í fjölmiðlum þá, ekki bara á Íslandi heldur annars staðar líka.

En ég tek eftir því að hv. þingmaður svaraði því í engu, í fjórða skiptið sem ég nefni það, að ágætir skoðanabræður hans og systur eiga aðild að ríkisstjórn sem t.d. tekur í miklu ríkari mæli en Íslendingar þátt í því sem er að gerast í Afganistan. (Forseti hringir.)



[20:17]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er rétt að ríkisstjórn Noregs er að taka þátt í stríðinu í Afganistan eða Írak og það með stuðningi vinstri hreyfingarinnar eða vinstri flokksins, sem ég held að sé ekki, þá finnst mér það vera ámælisvert, vissulega. (Gripið fram í: Hún situr í ríkisstjórninni.) Hún situr í ríkisstjórninni sem gerir það, já, já, og mér finnst það vera ámælisvert ef svo er.

Hins vegar held ég að þetta sé svolítið málum blandið þó að ég kunni ekki allar staðreyndir málsins, alls ekki, og treysti mér ekki til að ræða það þess vegna nánar. En eftir því sem ég best veit hefur verið uppi ágreiningur um áherslur í ríkisstjórninni hvað þetta varðar og svo mikill varð hann að það leiddi til þess að efnt var til sérstaks fundar með sendiherra Bandaríkjastjórnar af hálfu norska utanríkisráðherrans til að skýra afstöðu norsku stjórnarinnar þrátt fyrir þessi mótmæli og þrátt fyrir afstöðu vinstri flokksins. En þetta er mál sem ég einfaldlega mun kynna mér nánar.

Ef það er rétt að hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra iðrist þess að hafa stutt innrásina í Írak og heitið stuðningi Íslendinga með því að gera okkur eina af viljugu þjóðum heimsins í því efni, ber honum að sjálfsögðu skylda til að koma hér á Alþingi og lýsa þessu yfir vegna þess að við höfum margoft krafið hann um það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sá sem hér stendur og fleiri þingmenn úr okkar flokkum. Það er því eðlilegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.

Varðandi ástand mála (Forseti hringir.) á Balkanskaga á sínum tíma er það langt og flókið (Forseti hringir.) mál sem þyrfti lengri umræðu við til að eitthvert gagn yrði að.