132. löggjafarþing — 84. fundur
 13. mars 2006.
vatnalög, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 268. mál (heildarlög). — Þskj. 281, nál. 858 og 864, brtt. 859.

[17:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er ekki oft sem ég þakka hæstv. forseta sérstaklega fyrir að fá orðið en ég verð að segja að mér var orðið nokkuð mál, ég held ég sé búinn að vera á mælendaskrá og bíða eftir að fá að tala allar götur síðan einhvern tíma í síðustu viku.

Pólitík snýst oft og tíðum upp í hörð átök um auðlindir. Auðlindir hafa alltaf verið umdeildar og nýting auðlinda felur í sér möguleika til mikillar verðmætasköpunar. Þess vegna er ekki óeðlilegt þó að tekist sé á um auðlindir. Þegar við horfum aftur í okkar eigin sögu blasir við að oft hafa orðið harkaleg átök á millum pólitískra flokka sem snúast um auðlindir. Átök okkar við aðrar þjóðir, frú forseti, hafa líka öðru fremur snúist um auðlindir. Sjálfstæðisbarátta okkar við Dani var öðrum þræði ekki bara helguð viðleitninni til að vernda menningararfleifð, tungu, bókmenntir og sjálfstæða þjóðarsál, heldur ekki síst að fá tækifæri til þess að beita hugviti okkar, þrótti og framtaki til að nýta þær auðlindir sem við Íslendingar töldum að við ættum yfir að búa í landhelginni og á landinu sjálfu. Má rifja það upp að harkalegustu átök sem Íslendingar hafa lent í við aðrar þjóðir, a.m.k. frá því að ég eignaðist barnsminni og síðan minni fullorðins manns, eru átök við Breta. Landhelgisstríðin sem við unnum snerust að sjálfsögðu ekki um neitt annað en auðlindir, auðlindir okkar.

Vert er að rifja það líka upp, frú forseti, að þegar við erum í þessum sal að tala hugsanlega um breytingar á stöðu Íslands gagnvart öðrum þjóðum, gagnvart Evrópusambandinu, þá snýst sú deila að verulegu marki, ekki öllu en að verulegu marki um auðlindir og yfirráð okkar yfir auðlindum. Það er nú einfaldlega þannig. Þegar ég og aðrir, sem eru tiltölulega frjálslyndir gagnvart Evrópusambandinu, segja að Íslendingar eigi að láta á reyna hvað þeim gæti tekist að fá fram með umsókn að aðild snúast mótrökin sem ýmsir hv. þingmenn tefla fram, t.d. hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og auðvitað hins þjóðernissinnaða, í góðri merkingu, flokks sjálfstæðismanna, alltaf um auðlindir og yfirráð okkar yfir auðlindum í hafinu. Pólitísk átök á Íslandi snúast því um auðlindir og hafa gert mjög lengi.

Ég steig fyrst inn á þing sem nýkjörinn alþingismaður á vordögum 1991. Eina málið sem ég minnist að menn hafi þá reist hér á hinu háa Alþingi fyrir utan mjög merkar breytingar sem gerðar voru á þinginu þegar það var gert að einni málstofu, snerust einmitt um auðlindir. Þau átök sem ég hef tekið þátt í sem alþingismaður harðast frá því að ég var kjörinn á þing hafa snúist um auðlindirnar. Hörðustu átök síðustu áratuga hafa snúist um auðlindina í hafinu. Og, frú forseti, um hvað hafa þau átök öðru fremur teygt sig og snúist um? Um nýtingarrétt á auðlind og hvort breyta eigi henni yfir í séreignarrétt.

Þegar ég tek afstöðu til þessa máls, sem t.d. hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, formanni iðnaðarnefndar, finnst snúast um léttvæg málefni, er ég ekki bara að hugsa um þessa auðlind, vatnið, sem í dag hefur ekki náð því mikla verðmæti sem spáð er að hún nái á næstu öld. Ég er hugsa m.a. um það fordæmi.

Í dag er það þannig að landeigendurnir, sem hv. formaður iðnaðarnefndar og fleiri þingmenn telja sig vera að verja, hafa nýtingarrétt á þessari auðlind. Breytingin sem við sjáum að verið er að gera beinlínis varðar það að þeim nýtingarrétti er verið að breyta yfir í séreignarrétt. Ég óttast það auðvitað, frú forseti, og hika ekki við að opinbera þann ótta minn því að það er að verulegu leyti undirstaðan í minni hörðu andstöðu við málið, ég óttast vissulega að þetta sé fordæmi sem muni verða beitt til að taka aðrar auðlindir úr lendum nýtingarréttar yfir á kjörlendi séreignarréttarins. Þetta er það sem ég óttast.

Þetta er öðrum þræði baráttan á milli frjálshyggju annars vegar og félagslegra viðhorfa hins vegar. Ég fylgi félagslegum viðhorfum og í æ ríkari mæli eftir því sem aldurinn færist yfir mig. Ég veit að hv. þm. Birkir Jón Jónsson meinar ekki illa en ég er ekki viss um að hann hafi algjörlega gert sér grein fyrir því hvað er verið að takast á um. Í dag segja menn: Það er engu verið að breyta, þetta er bara formbreyting, þetta er breyting sem engu skiptir. En breytingin er samt sem áður sú að þeir sem hafa haft nýtingarrétt að auðlindinni munu núna fá séreignarrétt að henni.

Ef hv. fylgjendur frumvarpsins og þeim sem er virkilega blásin í brjóst ástríða fyrir framgangi þess, ef þeir mundu t.d. kynna sér hvernig menn sem velta fyrir sér auðæfasköpun framtíðarinnar sjá vatnið, þá ættu menn eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, að lesa nýlegt eintak, tölublað af tímaritinu Fortune. Tímaritið Fortune eins og hið enska nafn gefur til kynna snýst um auð og verðmæti. Þar eru menn að spá í framtíðina og velta fyrir sér: Hvar liggur verðmætasköpun framtíðarinnar? Ástæðan er sú að lesendur tímaritsins eru jafnan menn sem vilja festa fé sitt í einhverju sem skilar miklum arði þegar til framtíðar kemur. Þar er, hv. formaður iðnaðarnefndar, nýlega skrifað að vatn muni á 21. öldinni ná sömu verðmætum og olía á þessari öld. Það liggur því alveg ljóst fyrir, frú forseti, að þeir sem eru að velta fyrir sér hvernig menn muni skapa auð í framtíðinni horfa til vatnsins. Þegar við sem erum hér í þessum sal veltum fyrir okkur hverjir möguleikarnir eru, þá er rétt að við skoðum þær breytingar sem eru að verða á okkar alþjóðlega umhverfi.

Hv. þm. Jón Bjarnason las hérna um daginn ákafleg fróðlega grein úr íslensku dagblaði þar sem vel lesinn og þekkingarfróður blaðmaður hafði skrifað mikinn bálk um það hvernig vatnsmálin eru að þróast í heiminum. Það var tvennt sem stóð upp úr þar. Í fyrsta lagi að svo virðist sem frjálshyggjumenn, þeir stjórnmálamenn víðs vegar um heiminn sem telja sig sérstakan málsvara frjálshyggjunnar — sem núna eru að vísu á undanhaldi — og með Alþjóðabankann í brjósti fylkingar virðast hafa gert það að einhvers konar sérstöku markmiði að einkavæða vatn. Hv. þm. Jón Bjarnason rakti mörg dæmi um það og hvernig það hefði reyndar í ýmsum löndum þriðja heimsins, þróunarríkjanna, þar sem vatn er af skornum skammti leitt hörmungar yfir fólk. Það hefði leitt til þess jafnvel að ríkisstjórnirnar hefðu þurft að skerast í leikinn. Og það sem var fróðlegt var að vatnsfyrirtækin sem hv. þingmaður nefndi, t.d. fyrirtækin Suez og Thames Authority Water Management, hefðu reynt að koma sér út úr þeim samningum sem þau höfðu gert, m.a. vegna þess að komin var svo mikil andstaða meðal íbúanna í þeim ríkjum þar sem þetta var, t.d. í Úrúgvæ, að það lá við borð að uppreisn yrði gerð gegn þessum fyrirtækjum. Þá reyndu þau auðvitað að koma sér út úr samningunum með þeim hætti, knýja ríkisstjórnir þessara landa til þess að reka sig út. Hvers vegna? Til þess að fá skaðabætur.

Þetta ber að lesa í tengslum við það og skoða. Það er ekki langt síðan, hvort það var á síðasta hausti, a.m.k. á síðasta ári, að á Íslandi var haldin mikil ráðstefna frjálshyggjumanna. Ég minnist þess að ég sá hinn vaska svein, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, mæta þar og sitja framarlega á bekk og í fjölmiðlum var sýnt að hann og ýmsir ágætir upprennandi frjálshyggjumenn í liði Sjálfstæðisflokksins voru mættir. Hver var boðskapurinn sem þeir voru að nema þarna m.a.? Jú, á því þingi var talað um öðru fremur að ganga yrði lengra í þá átt að einkavæða þjónustu sem ríkið innir af höndum gagnvart íbúunum. Það var talið, minnist ég, sérstaklega af einum bandarískum fræðimanni, að það yrði mjög erfitt sökum þjóðfélagsgerðar á Vesturlöndum og ekki síst á Íslandi að ráðast í að einkavæða t.d. heilbrigðiskerfi eða skólakerfi. En á það var bent að það væri ýmislegt annað í innviðum ríkisins sem hægt væri enn þá að færa á lendur einkamarkaðarins, þ.e. þjónustufyrirtæki á borð við vatnsveitur. Ég spyr sjálfan mig, frú forseti: Gæti þetta verið ástæðan fyrir því að efnilegur ungur stjórnmálamaður í borgarstjórnarmálum í Reykjavík, Gísli Marteinn Baldursson, missti það út úr sér í aðdraganda prófkjörsbaráttu sinnar að honum fyndist til greina koma að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur? Getur verið að þetta sé sami þráðurinn sem þarna er verið að spinna og teygir sig frá höfuðstöðvum og höfuðvígi hugsunar frjálshyggjunnar, sem liggur nú a.m.k. með hálfan búkinn innan Alþjóðabankans eða gerði það, og teygir sig hingað til lands með sérstakri ráðstefnu og læðist alla leið inn í huga ungra og upprennandi stjórnmálamanna eins og þessa tilvonandi borgarfulltrúa?

Ég rifja það líka upp, frú forseti, að þegar hinn nýi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Hilmar Haarde, hélt sína fyrstu ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um daginn og ávarpaði flokk sinn, þá bar hann auðvitað fram þau mál sem hann hyggst berjast fyrir sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Eitt af því sem hann sagði var einmitt að nauðsynlegt væri að beita sér fyrir frekari einkavæðingu. Ef menn taka frá heilbrigðiskerfið og skólakerfið er ekki mikið eftir. Þá er eftir dreifikerfi fyrir raforku, Landsvirkjun er eftir og orkuöflun innan vébanda ríkisins og það eru eftir vatnsveitur. Höfum við ekki þegar stigið skref að því? Að sjálfsögðu. Við tengjum þetta allt saman.

Ég sagði hérna áðan, sérstaklega til upprifjunar fyrir hv. þm. Birki Jón Jónsson, að tímaritið Fortune hefði sérstaklega getið þess nýlega í grein að vatn væri auðlind 21. aldarinnar — og ég veit að þetta er fróðlegt fyrir hv. þm. Mörð Árnason sem nú gengur í salinn, skínandi af áhuga á þessu máli:

„Vatn“ — segir Fortune — „verður á 21. öldinni verðmætari auðlind en olía var á 20. öldinni.“

Frú forseti. Láir einhver mér þá þó að ég staldri við, þegar ég sit í huga mér heima í stofunni á Vesturgötu 73 og er að lesa Morgunblaðið að morgni 10. janúar sl.? Þá rennur fyrir augum mér grein eftir mann sem er forustumaður í athafnalífi Íslendinga, einn af þeim sem hafa staðið fyrir svolitlum anga útrásarinnar, og er nátengdur forustu Framsóknarflokksins. Þessi mikli auðjöfur, sem núna þessa dagana er töluvert í fréttum vegna fyrirætlana sinna um fjárfestingar, segir í þessari grein 10. janúar að nú sé kominn tími fyrir það fyrirtæki sem hann veitti þá forstöðu að láta af höndum fyrirtæki sem var í samsteypunni, þ.e. Olíufélagið hf., vegna þess að aðstæður væru að skapast sem væru heppilegar fyrir olíufélögin að hasla sér völl í orkuframleiðslu, t.d. í vatni.

Maður veltir því fyrir sér, frú forseti, af því að við sumir sem höfum setið hér lengi, og erum orðnir eldri en tvævetur, kunnum að leggja saman tvo og tvo og stundum birtist fyrir augum okkar munstur sem reynslan sýnir að hefur tilhneigingu til að koma gleggra fram með framvindu tímans og verða partur af raunveruleikanum. Gæti verið að sá miklu asi sem er á bak við það að koma þessu máli í gegn tengist með einhverjum hætti þeim tveimur, þremur staðreyndum sem ég hef hér talið upp? Í fyrsta lagi að alþjóðlega er litið á vatn sem auðlind þessarar aldar, jafnvel dýrmætara en olían var á síðustu öld. Í öðru lagi að því er sérstaklega þrýst fram af talsmönnum frjálshyggjunnar vítt um lönd að það eigi að ganga lengra í þá átt að einkavæða almannaþjónustu. Í þriðja lagi að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur sagt opinberlega að það kunni að koma til greina að einkavæða Orkuveituna. Í fjórða lagi að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir í fyrstu ræðu sem hann heldur sem formaður Sjálfstæðisflokksins að leggja verði meiri áherslu á einkavæðingu. Og í fimmta lagi að ákafamaður í athafnalífi þjóðarinnar, sem tengist Framsóknarflokknum, talar um að olíufélögin eigi nú að hasla sér völl í vatni.

Frú forseti. Eru þetta allt saman tilviljanir? Hugsanlega. En ég velti því samt fyrir mér hvort verið að það renni einhver silfur- ef ekki gulllitaður leyniþráður á millum allra þessara staðreynda. Í öllu falli er það mér óskiljanlegt hversu þungt er haldið og fast á þessu máli af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins.

Hæstv. forseti hefur lýst því mörgum sinnum yfir hér, og undir það hafa þingmenn tekið, að hún hafi beitt sér fyrir sáttum í þessu máli. Ekki dreg ég það í efa eitt einasta augnablik. Ég veit ekki í hverju þær sáttaumleitanir felast. Hugsanlega í því að sefa stjórnarandstöðuna og reyna að fá hana til þess að dragast á það að ljúka þessari umræðu fyrr en seinna. Það er hlutverk forseta að reyna slíkt. En það sem mér finnst skipta máli er líka að sanngirni sé beitt gagnvart stjórnarandstöðunni. Reynsla mín, sem hef nú tekið þátt í ýmiss konar átökum á hinu háa Alþingi, bæði sem alþingismaður sem styður stjórn og stjórnarandstæðingur, er sú að ef stjórnarandstöðunni er sýnd sanngirni sýnir hún sanngirni á móti. Til þess að stjórnarandstaðan geti litið svo á að hér sé ekki með harðnesju og offorsi farið fram þarf hún t.d. að fá tóm til þess að brjóta mál sem rædd eru á þinginu til mergjar. Hún þarf að geta rætt þau til þrautar, skoðað út í hörgul.

Það mál sem hér hefur verið til umræðu síðustu vikuna var tekið út úr hv. iðnaðarnefnd í andstöðu við þingmenn stjórnarandstöðunnar. Iðnaðarnefndarmenn Samfylkingarinnar, Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vildu fá að skoða þetta mál betur vegna þess, eins og hér hefur margsinnis komið fram, að menn voru einfaldlega ósáttir við þessa hörku og þennan hraða. Menn skildu ekki hvaða nauður rak til flýtisins.

Hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa sagt það aftur og aftur, hæstv. iðnaðarráðherra tönnlast á því í hvert einasta skipti sem hún kemur upp til að ræða málin, hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, hefur þrástagast á því í hverri einustu af þeim 30 ræðum sem hann hefur haldið hér síðustu viku, að breytingin sé formbreyting, hún sé ekki eðlisbreyting. Þá veltir maður fyrir sér, frú forseti, að vilji menn ná sátt í málinu þá byrja þeir á því að sýna stjórnarandstöðunni sanngirni. Og er það ekki ósanngirni að hleypa í slíkan hnút máli sem stjórnarliðar sjálfir segja að skipti í reynd ekki máli og sé bara formbreyting?

Það er alltaf gott fyrir öll lið að hafa innan sinna raða einhvern sem má líta á sem gamlan og vitran Lappa, einhvern sem er reiðubúinn til að meta stöðuna ískalt, helst undan öðru sjónarhorni en gerist og gengur í þessum sölum og úr meiri fjarlægð. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er kannski sá sem næst kemst því í röðum Sjálfstæðisflokksins að falla undir skilgreininguna á hinum gamla og vitra Lappa. Oft hefur hv. þingmaður komið og nálgast málin með öðrum hætti en aðrir þingmenn og oft hefur hann verið býsna glúrinn í að finna lausnir á ýmsu. Og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður iðnaðarnefndar, muni ég rétt, kom hér í dag og hvatti menn til sátta. Hann sagði það hreint út í þessum ræðustól að samþykkt þessa frumvarps breytti engu til eða frá.

Frú forseti. Ef það er þannig að stjórnarliðið telur af einlægni að samþykkt frumvarpsins skipti engu til eða frá, hvers vegna kæla menn þá ekki málið, eins og Einar Oddur Kristjánsson, hv. þingmaður Flateyringa og annarra góðra Vestfirðinga, lagði til í dag? Hvernig kæla menn málið? Þeir taka það úr umræðu eins og hér, taka það úr svona harkalegri umræðu eins og hér hefur staðið og setja það í ískalt vatn, þ.e. láta það aðeins bíða.

Frú forseti. Hvað mundi það kosta hæstv. stjórnarlið? Ekki neitt. Þeir hafa sjálfir lýst því yfir, hver og einn einasti, að málið feli ekki í sér eðlisbreytingu. Við tölum hins vegar út úr pokanum í stjórnarandstöðunni og við erum ekkert að fela það að okkur grunar að hér sé farið með lævi. Við teljum okkur hafa ástæðu til þess að ætla að hér sé ekki um jafneinfalda formbreytingu að ræða og menn vilja vera láta. Við teljum a.m.k. að það sé ástæða til þess að skoða hvort þetta mál kynni hugsanlega að vera rekið svona hratt af því að upp hafi komið óleyst vandamál t.d. við Þjórsárvirkjanirnar, sem nú á senn að fara að ráðast í, eða jafnvel við ýmsa þætti hinna viðamiklu og flóknu framkvæmda við Kárahnjúka. Gæti það hugsast?

Frú forseti. Aðalhöfundur þessa frumvarps heitir Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður. Við þekkjum hann ekki bara af afspurn heldur á okkar eigin skinni, við sem í stjórnarandstöðunni erum. Hann er jafnan kallaður til þegar leysa þarf erfið vandamál fyrir hæstv. ríkisstjórn, þegar hún þarf að smokra málum í gegn, stundum með heldur ótraustum rökum. Þetta er sami góði lögmaðurinn og var fenginn til að stýra starfi fjölmiðlanefndarinnar. Og ekki bara það, þetta er sami lögmaðurinn og fenginn var til að búa til rök handa ríkisstjórninni um að hægt væri að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á sínum tíma, eftir að forseti synjaði staðfestingar, einungis að þeirri forsendu uppfylltri að búið væri að setja einhvers konar skilyrði um hlutfall og þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Með öðrum orðum er þessi maður fyrir ríkisstjórnina, svo ég leyfi mér að grípa til engilsaxnesku, „trouble shooter“. Hann er sá sem kemur með fallstykki sitt og skýtur niður erfiðar hindranir sem verða á vegi ríkisstjórnarinnar. Gæti verið að það séu einhvers konar hindranir núna á vegi ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem hún ber mest fyrir brjósti og að þessi ágæti hæstaréttarlögmaður sé fenginn til þess að skjóta þær niður? En Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður er heiðarlegur og ærlegur maður, það veit ég. Ég hef bæði lent í sennum við hann í allsherjarnefnd í tengslum við fjölmiðlalögin og reyndar með vissum hætti á vettvangi stjórnarskrárnefndar. Það er mín reynsla af honum að hann segi satt og rétt frá.

Á föstudaginn var upplýst hér í þinginu að Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður hefði deginum áður, á ráðstefnu í Háskóla Íslands um vatnalagafrumvarpið, rætt, aðspurður, hvort samþykkt þessa frumvarps mundi hugsanlega breyta einhverju varðandi stórvirkjanir. Karl Axelsson svaraði því til að það væri hugsanlegt að samþykkt vatnalagafrumvarpsins hefði áhrif á réttarstöðu sem tengdist afskiptum og eignarhaldi eigenda að Kárahnjúkum, þ.e. landsvæðinu sem tengist virkjunum þar. Þetta er auðvitað töluvert annað, frú forseti, en okkur hefur verið sagt. Ef svo er, er ekki lengur hægt að halda því fram með nokkrum rökum að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki raunverulega eðlisbreytingu.

Við óskuðum þá eftir því, ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson og reyndar fleiri, að gert yrði hlé á umræðunni og henni ekki haldið fram fyrr en búið væri að fá tóm til þess að ræða málið í iðnaðarnefnd og spyrja aðalhöfund frumvarpsins út í þessi orð. Og það verð ég að segja hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, formanni iðnaðarnefndar, til hróss að hann varð við þessari bón. Að vísu tók hálfan dag að þræla því út úr honum að fallast á það en hann gerði það að lokum og hafi hann hrós fyrir það.

Þessi fundur var síðan haldinn í dag. Þar kom þessi ágæti hæstaréttarlögmaður og sat fyrir svörum, maðurinn sem samdi frumvarpið upp úr drögum sem hann fékk frá Eyvindi Gunnarssyni, öðrum lögmanni. Þessi ágæti lögmaður skildi eftir bréf í iðnaðarnefnd, ég nefni það sérstaklega vegna þess að ég er ekki í iðnaðarnefnd, sit ekki í henni, hafði einungis spurnir af fundi nefndarinnar í gegnum félaga mína þar, en hv. þingmenn létu mér í té lítið skjal sem lögmaðurinn skildi eftir þar sem allt þetta sem ég er að segja kemur beinlínis fram. Þar skrifar Karl Axelsson svohljóðandi texta, sem hann tjáði fulltrúum okkar að væri í rauninni viðhorf hans til þeirrar spurningar sem kom upp í framhaldi af ræðu hans í Háskóla Íslands, og ég leyfi mér að lesa upp úr honum, með leyfi forseta:

„Tækni nútímans gerir það mögulegt að flytja stærstu fljót landsins úr náttúrulegum farvegum sínum og óraleið um aðra farvegi til sjávar. Slíkar stórframkvæmdir geta varðað gríðarlegan fjölda fasteigna og vatnsréttindi þeirra. Við erum búin að sjá forsmekkinn af þessu vegna Kárahnjúkavirkjunar þar sem Jökulsá á Dal er flutt úr farvegi sínum og kemur til með að renna um farveg annars fljóts, þ.e. Jökulsár á Fljótsdal og Lagarfljóts til sjávar.“

Síðan, frú forseti, kemur þessi setning, sem svarar í reynd spurningum okkar, og hún kemur úr tölvu aðalhöfundar frumvarpsins sem við erum að ræða. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Miklar vangaveltur og spurningar hafa þegar vaknað, annars vegar um réttarstöðu fasteignareigenda við Jökulsá á Dal, sem sviptir verða vatni og vatnsréttindum, og svo hins vegar um réttarstöðu fasteignareigenda við Jökulsá á Fljótsdal og Lagarfljót þar sem bæta mun í vatn.“

Frú forseti. Hér er aðalhöfundur frumvarpsins til vatnalaga að segja svart á hvítu að það hafi vaknað spurningar, sem ósvarað sé, um réttaráhrif vegna framkvæmdanna fyrir austan. Þess vegna er það eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni spyrjum þá sem fara með þetta mál fram: Er það svo að vatnalagafrumvarpinu sé ætlað að skjóta byttu undir þá leka sem komu á þetta mál þegar menn samþykktu lögin um Kárahnjúka? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem gefur sig út fyrir það að vera sérstakur spekingur varðandi eignarrétt og hefur haldið hér langar ræður um það, kom hér upp í dag og sagði skýrt og skorinort að það þyrfti engin ný lög og engar sérstakar lagaskýringar til þess að hafa allt á hreinu varðandi framkvæmdir eystra vegna þess að það hefði verið samþykkt — þetta sagði lögmaðurinn og þingmaðurinn — með lögum um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Frú forseti. Ég er með þessi lög hér í höndunum. Það er ekkert sem þar er að finna sem varðar eignarnám og heimildir til eignarnáms eða bætur. Aðalhöfundur frumvarpsins, Karl Axelsson, hefur sjálfur sagt — ég er hér með útskrift, frú forseti, úr viðtali við hann sem tekið var af Speglinum — að þessar breytingar á farvegum fljótanna, sem leiði til þess að það hverfur á einum stað en gefur í á öðrum stað, geti leitt til þess að á báðum stöðum kunni skaðabótaskylda ríkisstjórnarinnar að aukast. En hann er ekki viss, málið er óljóst. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að við spyrjum um það svart á hvítu hvort tilgangur þessa frumvarps sé að svara spurningum um það.

Við erum ekki einir um að spyrja um það, frú forseti. Hér sat einu sinni alþingismaður, Árni Gunnarsson, sem var sérstakur sérfræðingur síns flokks á sviði auðlinda. Hann spurði um það í umræðuþætti sem var hér á mánudaginn í einum ljósvakamiðlinum, í fréttaviku Þorfinns Ómarssonar á NFS, þar sem hann er að ræða um vatnalagafrumvarpið, og ég vitna, með leyfi forseta:

„Hver er grunnurinn? Af hverju er farið af stað með þessar breytingar? Er það vegna þess að stjórnvöld vilji gera sér auðveldara um virkjunarframkvæmdir? Er þetta gert fyrir Landsvirkjun? Nú er bara að velta þessari spurningu fyrir okkur: Af hverju er farið af stað núna?“

Þessi fyrrverandi alþingismaður bendir á aðra tengingu sem líka er rétt að hafa í huga:

„Ég vil líka benda á annað. Þau miklu jarðakaup sem hafa átt sér stað hjá efnamönnum hér undanfarin missiri og ár eru ekki bara til þess að ná mjólkurkvóta og ærkvóta. Þau eru líka vegna þess að þeir vissu að það var verið að breyta þessum lögum.“

Frú forseti. Þetta vita allir. Í frétt í Morgunblaðinu í þessari viku kom fram að verð á jörðum hefur hækkað alveg gríðarlega. Ástæðan er sú að menn eru að fjárfesta í þessum eignum. Vegna hvers? Morgunblaðið svaraði þeirri spurningu. Til þess að verða sér úti um aukin hlunnindi. Þetta eru auðvitað margvísleg hlunnindi. En vatnsréttindi eru ein af þeim hlunnindum sem menn eru helst að sækjast eftir í dag. Það eru vatnsréttindi til skemmri tíma til raforkuframleiðslu af því að frelsi til þess að framleiða raforku og dreifa henni er miklu meira en áður og fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi leiða til þess að enn auðveldara verður að skapa sér auð með þeim hætti. En menn eru líka að hugsa til þess, sem ég rakti hér fyrr í ræðu minni, að vatn verður auðlind sem verður miklu dýrari þegar líður fram á þessa öld. Enn vitna ég til tímaritsins Fortune þar sem þau merku orð voru skrifuð að auðlind 21. aldarinnar yrði vatn — það sem hér er, í glasinu — og yrði dýrara en olía á þessari öld. Svo ég velti því nú fyrir mér hvort hér sé ekki samhengi á milli.

Ég tek það skýrt fram að ég held ekki að þeir þingmenn sem hafa verið að verja þetta þingmál hafi gert sér grein fyrir því, a.m.k. ekki hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, sem á auðvitað að vera hér og hlusta á mitt mál en er einhvers staðar víðs fjarri. Honum finnst erfitt að sitja undir því að hlusta á þessar tölur um það sem okkur finnst verulega að við þetta frumvarp. En gæti verið að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað er að gerast hérna?

Ég sagði áðan, frú forseti, að við aðstæður eins og þessar þar sem svona vargöld ríkir um málið í þinginu hlytu menn með einhverjum hætti að reyna að ná einhvers konar sátt um þetta mál þó ekki væri nema framvindu þess. Afstaða Samfylkingarinnar liggur alveg skýr fyrir. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja lög sem flytja nýtingarréttinn yfir í hendur landeigenda og búa til séreignarrétt. En við getum alveg fallist á að það verði sett sérstök lög um nýtingarréttinn með þeim takmörkunum sem að sjálfsögðu ber að setja á auðlindir af því tagi. Var það ekki nákvæmlega hugsun hinna gömlu landsfeðra sem fyrst settu fossalögin 1907 og síðan fossalögin 1923? Um hvað var tekist á þá? Það var tekist á um nákvæmlega þetta. Það var tekist á um það hvort réttindin í vatninu ættu að vera séreignarréttindi eða hvort þau ættu að vera það sem þeir kölluðu því frábæra orði „landsgæði“. Það er það sem við í Samfylkingunni teljum.

Grunnvatnið á að vera landsgæði. Fiskurinn í sjónum á að vera landsgæði. Rafsegulsviðin í ljósvakanum eiga að vera landsgæði. Og heimildir til þess að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið eiga að vera landsgæði. Við teljum að það sé ekki hægt að færa þetta yfir í hendur neins eins aðila sem hafi séreignarrétt að þessu en við erum reiðubúin til þess að setja lög um útfærslu á nýtingarrétti. Um þetta standa átökin í þessu máli alveg eins og í öðrum málum þar sem alltaf hefur verið tekist harkalega á um það hver á auðlindina.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði hér að fyrr skyldi hann dauður liggja en að hann féllist á að vatn yrði gert að séreign einhvers einstaks aðila. Hvað ætli hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi oft kveðið fast að orði um fiskinn í sjónum? Allt hans pólitíska líf hefur snúist um nákvæmlega þau átök, um það að koma í veg fyrir að auðlind sem frá fornu hefur verið í höndum þjóðarinnar sameiginlega sé færð sem eign í hendur annarra, einhverra tiltekinna fárra. Um það hefur barátta hv. þm. Jóhanns Ársælssonar snúist ár og síð frá því að ég kynntist honum fyrst fyrir mörgum árum og um þetta hafa átök á Alþingi Íslendinga snúist. Það eru átök um gæði, um það hver á að eiga hlutina.

Það er auðvitað skiljanlegt að einhverjir menn sem eru aldir upp undir frjálshyggjutrúboði stuttbuxnadeildarinnar í Heimdalli og Sambandi ungra sjálfstæðismanna séu svo forhertir af því trúboði að þeir sjái ekkert nema það að einkavæða hlutina, helst allt sem hreyfist. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það að hv. þm. Sigurður Kári skuli fara hér með miklum gassagangi og tala um nauðsyn þess að einkavæða vatn. En, frú forseti, það hryggir mig þegar ég sé góða og væna uppvaxandi framsóknardrengi haldna sömu firrunni. Það hryggir mig þegar ég sé einn af arftökum Jónasar frá Hriflu renna í sömu slóð og stuttbuxnaíhaldið í Sjálfstæðisflokknum. Það hryggir mig þegar ég sé ungan mann að norðan, — eins og Jónas frá Hriflu var þegar hann kom fyrst til borgarinnar og haslaði sér völl í stjórnmálum og brá sér reyndar til útlanda til vefaranna í Rochester til þess að ná inn í blóð sitt samvinnuhugsjóninni — hv. þm. Birki Jón Jónsson, koma aftur og aftur í þau 30 skipti sem hann hefur talað hér í þessari umræðu eða um fundarstjórn forseta og taka undir með Sigurði Kára. Hann velur þeim sem eru honum andstæðir hin háðulegustu orð. Hann hefur nánast gengið svo langt að kalla þingmenn Samfylkingarinnar druslur. Hann orðaði það með þeim hætti að þeir drusluðust á eftir Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í þessu máli. Hv. þingmanni þótti þetta svo sniðugt hjá sér, af því að einhvers staðar leynist í sálardjúpum hans lítill húmoristi sem bíður eftir því að brjótast út, að hann notaði þetta aftur og aftur.

Ég geri engar athugasemdir við það þó að köpuryrði séu send að mér frá Framsóknarflokknum í þessu máli. En það breytir ekki hinu að hugsjón Framsóknarflokksins var í upphafi allt annars eðlis. Hv. þingmaður telur að hann sé að verja rétt bænda. Þetta snýst ekki um það. Við í Samfylkingunni erum svo sannarlega reiðubúin til þess að semja um útfærslu á nýtingarrétti sem geri bændum kleift að nota vatnið með nákvæmlega sömu takmörkunum og hv. þm. Birkir Jón Jónsson setur þeim í þessu frumvarpi. Það er nefnilega svo að það frumvarp sem hv. þingmaður er hér að verja setur líka landbúnaðinum takmörk.

Má ég benda hv. þingmanni á 3. gr. frumvarpsins þar sem eru skilgreiningar, mig minnir að það sé liður 7. Þar er verið að tala um búsþarfir. Jú, bændur í dag mega verða sér úti um vatn og hvað sem gerist með vatnsréttindi á jörðum þeirra þá verður alltaf að tryggja að það sé vatn til búsþarfa. Hvernig hefur hv. þm. Birkir Jón Jónsson skilgreint búsþarfir? Kvikfjárrækt. Það er þessi hefðbundni búsmali. En hv. þingmaður tekur undan suma bændur. Hann setur ákveðnar takmarkanir á nýtingarrétt bændanna sem hann er að verja. Þeir mega ekki nota þetta vatn nákvæmlega eins og þeim sýnist við ákveðnar aðstæður til ylræktar. Þeir mega ekki nota það til fiskeldis. Og hvað veldur því? (Gripið fram í: Ha!) Þeir mega ekki nota það til fiskeldis og ef hv. þingmaður les frumvarpið kemst hann að því að þegar verið er að skilgreina búsþarfir er fiskeldi undanskilið, skógrækt er undanskilin, ylrækt er undanskilin. Og hvers vegna skyldi þetta vera undanskilið? Væntanlega vegna þess að þetta eru svo vatnsfrekar iðjur. Það er vel skiljanlegt. En það er ekki orðað með þeim hætti í frumvarpinu. Það er sagt að þetta séu ekki hefðbundnar landbúnaðarnytjar.

Mig langar, frú forseti, að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson: Hvað þarf maður að vera margar aldir í Framsóknarflokknum til þess að teljast vera hefðbundinn framsóknarmaður? Veit hv. þingmaður hversu lengi skógrækt hefur verið sinnt hér á landi? Hann þarf ekki annað en að ganga hér handan ráðherrabekkjarins, svipta frá tjöldunum, horfa út um gluggann og þá sér hann tré sem Schierbeck landlæknir gróðursetti fyrir tveimur öldum og hóf skógrækt á Íslandi. Hv. þingmaður gæti farið vítt um sitt kjördæmi, sem er fallegt og gróðursælt, og þar sér hann leifar skógarins sem þakti Ísland samkvæmt Íslendingasögunum — sem ég trúi eins og Biblíunni — milli fjalls og fjöru. Skógrækt hefur auðvitað staðið lengi á Íslandi. Hvað með ylræktina? Hvernig stendur á því að menn vilja ekki skilgreina ylrækt með þessum hætti vegna þess að hér er verið að gera takmarkanir?

Ég nefni þetta hér sérstaklega vegna þess að þetta takmarkar not þeirra sem eiga land til þess að nýta við vissar aðstæður vatn, og grunnvatn sérstaklega, eins og þá lystir. Með öðrum orðum, eignarrétti þeirra eru sett takmörk. (Gripið fram í.) Og hvað varðar fiskeldi — ég nefndi það sérstaklega vegna þess að við tveir þingmenn hér, ég og hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson, erum sérstakir áhugamenn um það, og höfum reyndar varið nokkrum hluta af ævi okkar til að sinna þróun þeirrar iðngreinar. Það er kannski ekki hægt að kalla það hefðbundna atvinnugrein á Íslandi.

Ég vil þó vísa hv. þm. Birki Jóni Jónssyni aftur í aldir, aftur t.d. til þess tíma þegar Ísland var numið. Það er sagt frá því í Íslendingasögum að í kjördæmi hv. þm. Jóhanns Ársælssonar tóku menn fiska úr vötnum og settu í fiskileysu og þar er lækur sem enn í dag heitir Fiskilækur en heitir í landnámi Alifiskalækur. Þannig að vilji menn fara langt aftur gætu þeir hugsanlega fundið margt sem mælir gegn þessari sérkennilegu skilgreiningu Framsóknarflokksins, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson ber hér fram, á því hvað séu búsþarfir og hvað séu hefðbundnar atvinnugreinar.

Það eru aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er að þarna eru eignarréttindin skert með ákveðnum takmörkunum. Við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni viljum skilgreina vatnið sem sameign þjóðarinnar, sem framtíðarauðlind sem við getum í framtíðinni nýtt með þarfir heildarinnar í huga. En við erum reiðubúin til að semja um lagalega útfærslu á nýtingarrétti með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður er að gera gagnvart bændunum sem hann ber svo fyrir brjósti.

Herra forseti. Ég hef áður í þessari ræðu vakið máls á þeirri þverstæðu sem hefur komið fram í máli formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Hann hefur sagt — og ég ætla að segja það aftur af því að nú er hann kominn í salinn — að þetta sé bara formbreyting og það skipti engu máli fyrir réttarstöðu eins eða neins hvort hún verði gerð eða ekki. (BJJ: Er þetta að hafa eftir mér?) Ég er efnislega að vísa til þess sem hv. þingmaður segir að hér sé um formbreytingu að ræða en ekki eðlisbreytingu. Ef ekki er um eðlisbreytingu að ræða þá getur ekki verið að hún hafi áhrif á réttindi eins eða neins. Hv. þingmaður hefur líka sagt í umræðunni að hér sé verið að hnýta réttindin sömu hnútum og gert er í lögunum sem samþykkt voru 1998 um auðlindir í jörðu. Ég man ekki alveg heiti þeirra laga, (Gripið fram í.) lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. En hann segir hins vegar að ef þau réttindi yrðu tekin af mundi það baka ríkinu mikla skaðabótaskyldu. Þetta stenst auðvitað ekki. Ekki er bæði hægt að segja að ef réttindin yrðu tekin í burtu yrði það svo mikil svipting eigna að það bakaði ríkinu skaðabótaskyldu og hins vegar að þetta sé engin formbreyting. Þetta gengur ekki upp samkvæmt einföldustu lögmálum rökfræði. En ég veit að ég þarf ekki að kenna hv. þingmönnum Framsóknarflokksins neina rökfræði og allra síst hæstv. iðnaðarráðherra, sem sýnir okkur þann heiður núna, stjórnarandstæðingum, að ganga í salinn og gægjast um gættina. Ég vildi gjarnan að hæstv. iðnaðarráðherra kæmi hér og svaraði þeim spurningum sem til hennar var beint í dag um hvað skýringar hæstaréttarlögmannsins og aðalhöfundar frumvarpsins um réttaráhrif þýða.

En auðvitað er það makalaust, herra forseti, þó ég ætli ekki að gera mikið mál úr því af því að ég er í eðli mínu friðarins maður eins og hæstv. forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra leggur bara á flótta. Skýst hér inn eins og mús og hleypur út aftur eins og köttur sé á eftir henni. Það sýnir auðvitað að hæstv. ráðherra er hugsanlega í þeirri stöðu sem hún lenti í hér fyrr í vetur að hún skilur ekki sitt eigið frumvarp.

Það er óhjákvæmilegt að rifja það upp fyrir hæstv. forseta og þingheimi. (Gripið fram í.) að fyrr í vetur lá fyrir þinginu frumvarp um leyfisveitingar til rannsókna og auðlindanýtingar og þingið reif sig niður í rass fyrir jól um þetta mál. Hæstv. iðnaðarráðherra átti engin orð yfir því hve stjórnarandstaðan væri óforskömmuð og yfir því hve stjórnarandstaðan, eins og hún orðaði það á sínum tíma, væri óbilgjörn, því að þetta væri svo gott mál. En það var hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem hafði átt nokkurn þátt að því máli, sem benti á að skilningurinn sem ráðherrann lagði í málið í framsögu sinni og bardaga sínum fyrir málinu í þinginu stæðist ekki frumvarpsgreinarnar sjálfar. Það var hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem barðist hvað harðast fyrir því máli en hörð andstaða stjórnarandstöðunnar leiddi til þess að málinu var frestað. Því var frestað fram yfir jól. Þá var aftur tekið til við óspillt málin að reyna að þröngva því frumvarpi gegn.

Þá gerðist það að ráðuneytisstjórinn kom frá útlöndum og hlustaði á hæstv. ráðherra og það rann upp fyrir honum að stjórnarandstaðan hafði rétt fyrir sér. Það rann upp fyrir embættismönnum ráðuneytisins að hæstv. iðnaðarráðherra fór bara með bull og vitleysu. Hún hafði misskilið frumvarpið. Og það sem verra var, hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, lét etja sér út í það að reyna að ryðja þessu vitlausa frumvarpi brautina í gegnum þingið.

Ég spyr nú þann unga mann: Hefur hann lært af reynslunni? Ljóst er að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekkert lært af reynslunni. Það er ekki hlutur sem ég ætla að ræða mikið um en það er hins vegar sameiginlegt vandamál okkar sem sitjum í þessum sal og veltum þessum málum fyrir okkur. Við höfum einfaldlega reynsluna af því að hæstv. iðnaðarráðherra er gjarnt að misskilja mál. Hér hefur það komið fyrir nokkrum sinnum, a.m.k. einu sinni í alvarlegu máli, að hæstv. iðnaðarráðherra skilur ekki sín eigin frumvörp. Þegar það blasir við núna að yfirlýsingar sem koma frá einum af höfundum frumvarpsins benda til þess að vatnalagafrumvarpið kunni að hafa meiri og dýpri áhrif en hæstv. iðnaðarráðherra segir þá hugsa menn auðvitað: Hún hefur áður haft rangt fyrir sér.

Auðvitað má segja að við ættum að hafa skjöld og hlíf í hv. formanni iðnaðarnefndar, Birki Jóni Jónssyni. Hlutverk hans er að brjóta málin til mergjar sem koma til nefndarinnar. Á herðum hans hvílir rannsóknarskylda. Hv. þingmaður er vænn piltur og efnilegur, og ég dreg ekkert úr gæðum hans sem formanns, en það blasir hins vegar við að hann er laminn áfram af hæstv. iðnaðarráðherra sem eirir engu þegar hún er komin í þann haminn.

Nú er hæstv. iðnaðarráðherra komin í þá stöðu að á henni standa mörg spjót. Ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, gerir hróp og hí að henni og segir að hún kunni ekki einu sinni lágmarksreglur Evrópusambandsins. Ég er sammála ritstjóra Morgunblaðsins um það. Hún er rekin til baka með frumvarpið mikla sem hún ætlaði sér heldur betur að hrósa sér af fyrir jólin. Og nú kemur hún hingað með frumvarp og enginn skilur af hverju hún vill kýla það af slíkum krafti í gegnum þingið vegna þess að hún segir sjálf að það skipti í reynd engu. Hinn gamli og vitri Lappi, sá sem sér hlutina eins og þeir raunverulega eru, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, kemur bara hingað ganske pent, svo ég leyfi mér að sletta dönsku, hæstv. forseti, og segir að það skipti engu til eða frá hvort þetta frumvarp sé samþykkt.

Sá ágæti forseti sem situr á forsetastóli núna er friðarins maður, og eins og ég hef greint frá í mínum litla örmiðli tel ég að hann sé bæði kurteis og vitur, fyrir utan að vera skemmtilegur á köflum, en hann hefur líka, þrátt fyrir skamma setu á þingi, sem ég vona að verði miklu lengri, fengið nasasjón af því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér. Hv. þingmaður hefur oft sýnt það, bæði meðan ég var á vistum með honum í efnahags- og viðskiptanefnd og hér sem forseti, að hann kann stundum að bera klæði á vopnin. Ég held að hæstv. forseti ætti að beita sér fyrir því að þetta mál verði skoðað betur. Ég segi þetta sérstaklega með hliðsjón af því að félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hafa sagt hér í dag að rétt sé að kæla málið. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem ég held að eigi sæti í iðnaðarnefnd, talaði hér eins og verulega vitiborinn maður, ég vil nú ekki segja í fyrsta skipti, í dag, en hann gerði það og benti á að menn ættu að reyna að komast að sátt í málinu. Og ég vísa aftur til orða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar.

Ef það er svo að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði orð fyrir þeim í dag, að samþykkt frumvarpsins breyti engu til eða frá, er það þá ekki þannig, herra forseti, að þetta mál snúist bara um hégóma hæstv. iðnaðarráðherra? Það niðurstaða mín. Ég tel það, vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra, eins og ég held bara allir sem hér hafa talað um málið af hálfu stjórnarliðsins, eru þeirrar skoðunar að þetta sé bara formbreyting, að þetta sé engin eðlisbreyting. Þetta er okkur sagt. Ef það er svo, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, að það skipti engu máli til eða frá hvort þetta er samþykkt eða ekki þá eiga menn auðvitað að bera klæði á vopnin með þeim hætti að hlusta á það sem stjórnarandstaðan vill í málinu og athuga hvort þeir komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að ná einhvers konar lendingu um framhald málsins.

Við höfum sagt alveg skýrt að við teljum að hér sé um eðlisbreytingu að ræða og að við teljum að hér sé verið að gera vatn að séreign. Ef það er svo að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telji að það sé mögulegt að lifa með þeirri staðreynd að vatn sé einungis undirorpið nýtingarrétti og enginn beri neinn skaða af því fyrirkomulagi þá er hugsanlegt að við getum náð einhvers konar samkomulagi til framtíðar. En við höfum líka sagt, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að það sé ýmislegt annað við þetta að athuga. Við teljum að hér sé vernd vatns, vernd náttúru, lífríkis og vistkerfis, alls ekki gætt sem skyldi. Ég er viss um að hæstv. forseti, Birgir Ármannsson, er fyrir löngu búinn að lesa þetta frumvarp og komast vel niður í því. Þess vegna veit hann eins og ég að hvergi í frumvarpinu er ótvírætt sagt að hafa beri samráð við Umhverfisstofnun varðandi lífríkið, vistkerfið eða vatnsfarvegi utan á einum stað.

Þegar maður les frumvarpið, ég tala nú ekki um þegar gamall umhverfisráðherra og falleraður líffræðingur leyfir sér að skoða það út frá sjónarhóli vistfræði og líffræði, rekur mann auðvitað í rogastans því að í því eru engir sérstakir varnaglar gagnvart lífríkisröskun, gagnvart því að vatnsvegir séu skemmdir. Í stjórnsýslukafla laganna þar sem Orkustofnun er fært allt vald, og dreg ég ekki úr gæðum þeirrar stofnunar, er sagt af mikilli náð og miskunn gagnvart þeim sem hafa sporð og hreistur og synda um legi vatnsins að þar skuli haft samráð við veiðimálastjóra. Veiðimálastjóri hefur gert sterkar athugasemdir við hversu lítil áhrif hann getur haft um þetta. Ef sótt er um framkvæmdir beint samkvæmt sérstökum lögum til veiðimálastjóra ber honum samkvæmt frumvarpi þessu að senda afrit af því til Orkustofnunar, en það virkar ekki öfugt. Það virkar ekki þannig. Þegar Orkustofnun fær einhvers konar óskir um framkvæmdaleyfi og annað sem tengist fiskvegum er það undir hælinn lagt og vilja hennar hvort málið er sent Veiðimálastjóra til umsagnar.

Þetta er auðvitað algerlega af og frá, herra forseti. Þegar ég tala um möguleika á sátt eða lendingu í þessu máli er ég auðvitað að tala um að menn kæli það aðeins, út frá því sem hér hefur komið fram að málið breyti engu og það skipti engu í reynd hvort það sé samþykkt vegna þess að hér sé bara um breytingu á formi að ræða en ekki eðli. Ég er að hugsa um það en ég er líka að hugsa um annað.

Okkur í stjórnarandstöðunni hefur verið það mikill þyrnir í augum að þetta mál skuli ekki rætt samhliða öðrum málum sem tengjast vatnsvernd. Við höfum lagt þunga áherslu á það ásamt Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun að frumvarp til vatnalaga verði rætt ásamt öðrum bálkum sem því tengjast. Við höfum talað um að vatnamálin þurfi að ræða heildstætt. Þá höfum við auðvitað vísað sérstaklega til þess að Evrópusambandið hefur gefið út sérstaka tilskipun um vötn og vatnsvernd sem við munum þurfa að taka upp að hluta. En vegna þess að við erum aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru ákveðnir hlutar undanþegnir, t.d. samningar um búsvæði, ákveðnir samningar um náttúruvernd og ýmislegt annað. Þess vegna stóðu deilur, það er kannski of fast að orði kveðið, en tekist var á um það milli EES-ríkjanna og Evrópusambandsins hvað ætti að vera í lögum sem byggð væru á vatnatilskipuninni. Þar var a.m.k. vík á milli vina. Í sjálfu sér er ekki hægt að gera sérstakar athugasemdir við það. Þannig eru samskipti ríkja á alþjóðavettvangi, menn hafa mismunandi sjónarhorn og reyna að semja.

Ástæðuna fyrir því að frumvarp til vatnalaga er ekki rætt samhliða vatnsverndarfrumvarpi, eins og stjórnarandstaðan hefur óskað eftir, segja stjórnarliðar þá að niðurstaða sé ekki komin í samningaferlið á millum annars vegar Evrópusambandsins og hins vegar Íslands, Noregs og Liechtensteins. Þess vegna hefur ríkisstjórnin, sérstaklega hæstv. iðnaðarráðherra, sagt að þetta geri að verkum að ekki sé hægt að leggja það frumvarp til. Þó hefur komið fram, mér til nokkurrar furðu, að drög að því frumvarpi séu þegar til í umhverfisráðuneytinu. Reyndar er gengið svo langt að fullyrða að frumvarpið sjálft sé þegar til í ráðuneytinu. Það kemur t.d. fram í greinargerð með vatnalagafrumvarpinu. En þetta hefur verið helsta röksemd ríkisstjórnarinnar gegn því að hægt yrði að ræða saman nýju vatnalögin, vatnsverndarlög og hugsanlega ýmsa aðra lagabálka sem þarft væri að setja með.

Ég spurði á föstudaginn hæstv. umhverfisráðherra hvort það væri rétt sem mér hefði borist til eyrna, en ekki hafði komið fram í fjölmiðlum, að nokkrum dögum fyrr hefði náðst niðurstaða í samningaferlinu innan þessara tveggja stoða Evrópska efnahagssvæðisins. Það var eftirtektarvert að svo vildi til að þegar ég varpaði fram þessari spurningu kom hæstv. umhverfisráðherra í salinn en hafði hratt á hæli og fór. Hún svaraði ekki fyrr en á laugardaginn. Ég geri engar athugasemdir við það. Það hefur margsinnis komið fram að ég hef gott álit á hæstv. umhverfisráðherra. Yfirleitt svarar hún skýrt og vel og lætur menn ekki komast upp með óþarfa moðreyk ef svo ber undir. Ég kann vel við slíka ráðherra. Hún er heldur ekki að fela skoðanir sínar.

Hæstv. ráðherra sagði á laugardaginn, sem svar við spurningu minni frá því deginum áður, að það væri rétt, það væri komin niðurstaða. Þá spyr ég, herra forseti: Ef það er svo að komin er niðurstaða í þessar deilur á milli stoðanna tveggja sem að Evrópska efnahagssvæðinu standa um vatnatilskipunina og hvers konar lög eigi að byggja á henni, þegar haft er í huga að menn segja að engar sérstakar nauður reki til að vatnalögin sem við ræðum um í dag séu rekin í gegnum þingið, er þá ekki flötur á samkomulagi? Er þá ekki mögulegt að ná sátt um að láta vatnalagafrumvarpið bíða, að beðið verði, eftir atvikum fram á vorið eða næsta haust, eftir því að vatnsverndarfrumvarpið, a.m.k. burðargrind þess, verði til í umhverfisráðuneytinu, verði fullbúið og þessi frumvörp lögð fram saman fyrir þingið? Um það hefur stjórnarandstaðan beðið. Þá væri vísast líka hægt að ganga frekar úr skugga um hvað raunverulega liggur í orðum aðalhöfundar frumvarpsins þegar hann talar um að samþykkt þess kunni að hafa áhrif á réttarstöðu.

Auðvitað grunar okkur í stjórnarandstöðunni að fiskur liggi undir stein, í versta falli, en í besta falli að sé enn einn misskilningur hæstv. iðnaðarráðherra á ferðinni. Það hefur náttúrlega áður gerst að mál hafa farið af misskilningi í gegnum þingið. En úr því sem komið er mun sennilega erfitt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að eta ofan í sig stolt sitt og láta reka sig til baka með þetta mál. En þá eiga sniðugir menn eins og hæstv. forseti Birgir Ármannsson og aðrir ágætir forsetar, að reyna að finna leiðir til þess að bjarga hæstv. iðnaðarráðherra úr þessum bölvuðum vanda sem hún hefur enn einu sinni komið sjálfri sér í. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt. Staða Framsóknarflokksins er erfið og staða ráðherra er erfið. Líkast til meinar stolt hæstv. iðnaðarráðherra henni að verða við tilmælum stjórnarandstöðunnar um að taka þetta mál til baka og bíða með það þangað til við höfum heildstæða sýn með því að fá líka vatnsverndarfrumvarpið fram.

Það er ekki vansalaust, herra forseti, hvernig menn ganga fram í þessu máli. Frumvarpið kom fram í fyrra og það var ótrúlegt að lesa viðhorfin sem fram komu í umsögnum hjá þeim eftirlitsstofnunum sem við Íslendingar höfum treyst til að vakta og gæta auðlinda okkar. Þar nefni ég helst til sögunnar tvær burðarstofnanir, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun.

Umhverfisstofnun er ný stofnun. Hún hefur ekki starfað mjög lengi en hún hefur starfað vel. En sú hefur heldur betur fengið að finna til tevatnsins. Sú stofnun hefur verið lamin eins og fiskur af hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa sameinast um að fara með offorsi og harðneskju á hendur henni og reyna að berja hana til hlýðni. Hvers vegna, herra forseti? Búum við ekki í landi frjálsra skoðana og skoðanaskipta? Jú, Umhverfisstofnun er veitt forusta af fólki sem er faglegt og bersýnilega gætt nægilegri hreinskilni og sannleiksást til að segja hlutina eins og þeir eru.

Hver var niðurstaða Umhverfisstofnunar þegar hún samþykkti og sendi umsögn sína til iðnaðarnefndar er frumvarpið kom fram fyrra sinnið? Það var 15–20 síðna plagg þar sem farið var yfir 25 greinar. Nú hef ég, herra forseti, ekki haft fyrir því að telja nákvæmlega saman hvort þær voru 25 eða 30. En þær voru fjölmargar greinarnar sem Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við. En hún rakti síðan lið fyrir lið hversu hraksmánarlega frumvarpið var samsett og niðurstaðan var ekki fögur. Mig langar að veita hæstv. forseta þá ánægju og upplýsingu að lesa upp fyrir hann niðurstöðu Umhverfisstofnunar. Þar segir í sex línum, með leyfi hæstv. forseta:

„Samantekið telur Umhverfisstofnun að hvað varði fyrirhugaðan rétt landeigenda sé frumvarpið í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar, löggjöf í nágrannalöndum, óhagstætt hagsmunum almennings og íslenska ríkisins. Ekki er tekið tillit til líffræðilegs og samfélagslegs mikilvægis vatns og nægu aðgengi að því. Leggst stofnunin því alfarið gegn því að þessi leið verði farin.“

Herra forseti. Ég man ekki eftir því á öllum mínum ferli að nokkur opinber stofnun hafi með viðlíka hætti ráðist jafnharkalega fram gegn stefnu ríkisstjórnar. Hvaða ríkisstjórn er það sem vill láta telja sig faglega en heldur áfram með slíkt frumvarp eftir að hafa fengið þvílíka umsögn? Þarna er beinlínis sagt að frumvarpið stríði gegn hagsmunum íslenska ríkisins, gegn hagsmunum almennings, gegn alþjóðlegum samningum og gegn öllum alþjóðlegum viðmiðunum og skuldbindingum. Þarna kemur líka fram, sem er svo merkilegt, að þetta er allt öðruvísi en löggjöfin í nágrannalöndunum. Ég spyr hæstv. forseta, sem af visku síns hjarta svarar því ábyggilega í huga sínum en þarf ekki að gera það úr ræðustól: Hver er metnaður þeirrar ríkisstjórnar sem ætlar sér með krafti og hörku að keyra í gegn frumvarp sem fær ekki bara falleinkunn heldur algjöra falleinkunn hjá mikilvægustu eftirlitsstofnun hins opinbera á sviði umhverfisverndar? Ég hugsa að það sé ekki hægt að hugsa sér forkastanlegri vinnubrögð en þetta.

Því miður, herra forseti, var athugasemdum Umhverfisstofnunar í engu sinnt. En starfsmenn stofnunarinnar hafa greinilega verið teknir í bakaríið. Það kemur fram þegar lesin er umsögn um frumvarpið þegar það kemur fram í hið síðara skipti, þ.e. í vetur, að þá er búið að skamma embættismennina með þeim hætti að þeir eru látnir gera yfirbót. En sem betur fer gera þeir það, eins og á Kópvogsfundinum, grátandi. Þegar tárin hrjóta niður síðurnar getur maður ekki annað en skilið hlutskipti þeirra. Þeir vita að þeir þurfa að hlýða einhvers konar skipunum ráðherra sem bersýnilega lyftir vendi sínum og hótar tyftun. Þar er dæmi um ráðherraræðið enn einu sinni. En það kemur samt sem áður fram hjá þeim að þeir geri þetta grátandi og þeir eiga heiður skilinn fyrir það.

Herra forseti. Í umsögninni frá Umhverfisstofnun 1. september síðastliðinn segja þeir að stofnunin standi við öll þau faglegu aðfinnsluatriði sem hún hafi sett fram árinu fyrr. Það er frekar að þeir gefi í varðandi tæknilegar úrbætur sem þeir telja nauðsynlegt að gera á frumvarpinu. En síðan segja vesalings embættismennirnir, sem hafa greinilega lent í reiðum ráðherrum sem ekki una því að sitja undir því að embættismenn segi sannleikann — við vitum nú hæstv. forseti, að þegar hæstv. viðskiptaráðherra rennur í skap þá er hún illvíg … (Gripið fram í: Styrmir veit það.) En í umsögninni segir að þegar Umhverfisstofnun hafi veitt umsagnir hafi hún náttúrlega horft til þeirra verkefna sem stofnuninni eru falin og þegar frumvarpið hafi komið fram hafi hún talið óhjákvæmilegt að gera við það verulegar athugasemdir á faglegum grunni.

Seinna í umsögninni segja embættismennirnir að í umræðunum sem fylgdu framlagningu frumvarpsins á síðasta þingi hafi verið nefnt — við munum hvernig hæstv. ráðherra nefndi það á sínum tíma — að Umhverfisstofnun hafi verið að tjá sig um pólitísk atriði. Umhverfisstofnun er stjórnsýslustofnun og harmar að hafa dregist inn í atburðarás með þeim hætti sem stofnunin lýsir, frá síðasta vetri.

Síðan segir stofnunin, með leyfi forseta:

„Markmið stofnunarinnar er að standa vörð um þá málaflokka sem henni er trúað fyrir, og leiðbeina löggjafanum þegar fjallað eru um mál er hana varðar út frá faglegu sjónarmiði. Það var ekki og er ekki ætlun stofnunarinnar að taka þátt í pólitískri umræðu sem kjörnir fulltrúar sjá um.“

Svo kemur þetta óborganlega. Þarna er lýsing á dulmáli á því þegar embættismenn og æðstu yfirmenn Umhverfisstofnunar eru teknir á hvalbeinið hjá hæstv. umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Þarna segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun hefur farið yfir málin með umhverfisráðuneytinu, og fellst á að sumt af því sem kemur fram í umsögninni, einkum í fylgiskjölum með umsögninni, megi skilja þannig að stofnunin væri að taka pólitíska afstöðu varðandi eignarrétt á vatni og hefði orðalag þeirra mátt vera öðruvísi.“

Þetta heitir víst að bjóða embættismönnum gleðileg jól, er það ekki hæstv. forseti, á því máli sem hefð hefur skapast fyrir í tengslum við umræðu um umhverfismál? En í öllu falli, svo allri kátínu sé sleppt og erfið söguleg atriði séu ekki rifjuð hér upp á þessari stundu, þá er alveg ljóst að hæstv. umhverfisráðherra hefur látið taka yfirmenn Umhverfisstofnunar á beinið. Þeir eru látnir lýsa því yfir með vöndinn dynjandi á bakinu að þeir hefðu nú mátt orða þetta öðruvísi. Jú, og þeir biðjast í reynd afsökunar á því að kannski hefði ekki átt að orða þetta með hinum og þessum hætti. Það væri kannski ekki úr vegi, herra forseti, að rifja aðeins upp hvað þessi ágæta stofnun sagði.

Frú forseti. Ég finn það nú ekki alveg í fljótu bragði. Einhvers staðar er það í þessum bunka. En það skiptir ekki máli. (PHB: Því miður.) Hv. þm. Pétur Blöndal gleðst yfir þessu. (Gripið fram í: Nei. Hann ...) Ég misskildi hv. þingmann eitt augnablik og hélt að hann væri að gleðjast yfir því að embættismennirnir hefðu með þessum hætti verið teknir á beinið. Ég gleðst ekki yfir því. Ég sé hins vegar í þessu ákveðna þróun sem hér hefur átt sér stað síðastliðin tíu, tólf ár sem ég hef kallað ráðherraræði og felst í að ráðherrarnir ráða því sem þeir vilja. Þeir koma því fram með hvaða hætti sem það er. Hvort sem það er í gegnum þingið eða ekki þá taka þeir þingmann eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal og bara kúska hann og beygja hann ef svo ber undir eins og við höfum margsinnis séð, með hina miklu staðfestu hv. þingmanns, eða þeir taka embættismennina og kúska þá líka til eins og hér kemur alveg skýrt fram. (PHB: Það er miður að þú skulir ekki finna það.) Það kemur í leitirnar, herra forseti, þegar að því kemur. Ég hef ekki alveg lokið ræðu minni þannig að hugsanlegt er að þetta komi fram seinna.

Í öllu falli ætlaði ég að rifja það hér upp að fyrir utan það að við í stjórnarandstöðunni erum þeirrar skoðunar að það ætti að ræða vatnalagabálkinn samhliða vatnsverndarlagaramma þá skiptir líka annað máli sem ég held að hæstv. stjórnarlið ætti líka að hugsa sig aðeins um út af, þ.e. sú staðreynd að núna er í gangi sérstök vinna við að endurskoða stjórnarskrána. Eitt af því sem menn hafa orðið sammála um hér í þessum sölum, þó það sé ekki til þrautar rætt í stjórnarskrárnefndinni, er að festa í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Þetta er mál sem hér hefur verið töluvert mikið rætt. Það hefur t.d. komið fram bæði hjá fulltrúum Samfylkingarinnar, fulltrúum Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það ætti að fella slíkt ákvæði inn í stjórnarskrá. En ekki bara það, herra forseti. Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar kemur alveg skýrt fram að þessi ríkisstjórn stefnir að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindin í hafinu sé sameign þjóðarinnar. Nú er það ekkert launungarmál. Það hefur komið fram í umræðum síðar, m.a. hjá öðrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og forkólfum Sjálfstæðisflokksins að þeir telja eðlilega að það sé umhendis að setja slíkt ákvæði um eina auðlind. Þeir hafa sagt að það verði að láta sams konar umhverfi ríkja um allar auðlindir. Ég er því sammála. Ég held ég megi segja það alveg skýrt og skorinort að það er ekki bara ég sem er því sammála af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar. Samfylkingin telur að það eigi að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána þar sem beinlínis er í gadda slegið að auðlindir verði í þjóðareign.

Nú hafa verið miklar umræður einmitt af þessu tilefni um vatn. Hópur samtaka hefur lýst skoðun og komið fram með hana í rökstuddu áliti sem þingmenn hafa fengið. Hún hefur m.a. borist bæði hv. iðnaðarnefnd og eins stjórnarskrárnefndinni sem við hæstv. forseti, sem nú situr hér fyrir aftan mig sitjum báðir í. Þar er þess óskað að vatn verði hluti þeirra landsgæða sem stjórnarskrá mælir fyrir um að sé sameign. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra sem setti á stofn stjórnarskrárnefndina, reyndar að frumkvæði fyrrverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar, sagt að æskilegt sé að um endurskoðun stjórnarskrárinnar ríki eins mikil sátt og hægt er.

Er það þá ekki dálítið umhendis að rétt í þann mund sem alvarleg umræða er að byrja um að endurskoða stjórnarskrána með þeim hætti að festa í henni ákvæði um sameign á ýmsum auðlindum þjóðarinnar skuli menn ráðast í það hér að taka eina tiltekna auðlind, vatn, og búa þannig um hnúta að það verður erfiðara, þó það sé auðvitað ekki óframkvæmanlegt, að fá hana samþykkta sem hluta af þeim landsgæðum sem ættu samkvæmt stjórnarskránni að vera í sameign þjóðarinnar? Auðvitað væri það réttast núna að menn slepptu slíkum verknaði og gæfu stjórnarskrárnefndinni tóm en hún á hvort sem er að skila af sér þegar líður fram á þetta ár til forsætisráðherra sé miðað við upphaflegt verklag sem mátti finna í erindisbréfi stjórnarskrárnefndarinnar. Ég held að það hefði verið ráðlegt.

Þess vegna skilur maður ekki alveg þessi vinnubrögð og þennan hraða og þennan asa sem eru á öllum málum hér varðandi þetta frumvarp. Af hverju má ekki bíða með það og leyfa stjórnarskrárnefndinni að komast að niðurstöðu um það hvort vatn eigi að vera partur af hinu nýja ákvæði sem hugsanlega næst samstaða um að verði um sameign á þjóðarauðlindum? Það getur vel verið að aðrir flokkar séu ósammála því þó ég og aðrir þingmenn í stjórnarandstöðunni telji að svo eigi að vera og að fari vel á því og sérstaklega eftir að hafa séð og orðið vitni að ásælni ríkisstjórnarinnar í vatnið. Í öllu falli væri lýðræðislegt að búa þannig um hnúta.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal kvartaði undan því, heyrði ég, áðan með frammíköllum og alls konar gleðilegu látbragði að mér skyldi ekki hafa tekist að finna það orðalag sem var í bréfi og umsögn Umhverfisstofnunar til hv. iðnaðarnefndar vegna vatnalagafrumvarpsins. Svo vill til að ég hef það núna fyrir framan mig. Þar kemur t.d. fram í bréfi sem er dags. 21. mars 2005, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun telur að framlagt frumvarp til vatnalaga sé háð verulegum annmörkum þar sem það lýtur aðeins að hluta þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í tilvísaðri greinargerð sem rök fyrir því að breyta þurfi núgildandi vatnalögum.“

„Umhverfisstofnun telur á hinn bóginn að frumvarpið taki nánast ekkert til umhverfismála, „vatnafars og vatnsbúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess“ ...“

Þarna er sem sagt rakið að Umhverfisstofnun telur að þetta frumvarp stangist á við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar Íslands, og það sem meira er, þessi stofnun sem er hinn faglegi umsagnaraðili umhverfisráðuneytisins telur einfaldlega ef þetta frumvarp verði samþykkt að þá leiði það til réttaróvissu á fjölmörgum sviðum umhverfismála, almannaréttar og vatnsnýtingar.

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi heyrt þetta eða hvort ég þurfi að endurtaka það. En er hann ekki undrandi á að eftirlitsstofnun sem þessi skuli láta slíkt frá sér fara? Hv. þingmaður er undrandi á því. Ég ímynda mér það vegna þess að hv. þingmaður hefur að baki langa vísindamenntun og veit að þeir sprenglærðu sérfræðingar sem er að finna hjá þessari stofnun byggja að sjálfsögðu umsögn sína einungis á grundvelli faglegrar þekkingar. Hvernig gera þeir það? Þeir skoða alþjóðlega samninga. Þeir skoða þær skuldbindingar sem Ísland hefur axlað og bera þær saman við frumvarpið. Og þeir komast að því að þarna stangast sitthvað á í frumvarpinu við það sem er að finna í hinum alþjóðlegu samningum. Þess vegna leyfa þeir sér að gera hv. þm. Pétur H. Blöndal undrandi, alveg eins og ég er sem deildi undrun hv. þingmanns þegar ég las þetta. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að samþykkt þessa frumvarps leiði til réttaróvissu á fjölmörgum sviðum.

Herra trúr, síðan hvenær var það hlutverk hæstv. ráðherra að þröngva með afli og offorsi og vondum rökum, nánast engum, í gegnum þingið frumvarpi sem, ef að lögum verður, er líklegt til að skapa réttaróvissu? Og hvað felst í réttaróvissu? Hugsanlega það að reisa þurfi mál fyrir dómi, þá jafnvel alþjóðlegum dómstólum. Og hver veit til hvers það leiðir? Það getur hugsanlega leitt til að sökum þeirra skafanka sem er finna á þessu frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra þá bakist skaðabótaábyrgð, reyndar alveg eins og má lesa út úr hugsun hv. formanns iðnaðarnefndar Birkis Jóns Jónssonar sem sést ekki í þessum sal þó hann sé formaður iðnaðarnefndar. Hann hefur ekki meiri áhuga á málinu en svo að hann sést ekki í salnum. En látum það vera. Ekki ætla ég að biðja hæstv. forseta að fara með vagn spenntan tólf klárum fyrir og draga hann hingað nauðugan ef hv. þingmaður hefur ekki meiri virðingu fyrir hlutverki sínu sem formaður iðnaðarnefndar en að híma einhvers staðar í afkima þingsins þegar verið er að reyna að spyrja hann spurninga.

Ég vil hins vegar lýsa sérstöku lofi á hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir að vera hér við umræðuna og sýna þennan mikla áhuga, en líka fyrir að deila með mér þeirri undrun sem vaknaði í brjósti mér þegar ég sá þessi hrikalegu ummæli Umhverfisstofnunar um sína yfirmenn. Það þarf kjark til að embættismenn taki svona sterkt til orða um ráðherrana sem eru yfir þeim. Enda létu hæstv. ráðherrarnir greinilega þessa embættismenn finna til tevatnsins vegna þess að þeir voru látnir koma fram fyrir iðnaðarnefnd aftur með nýju bréfi þar sem þeir að vísu undirstrika niðurstöðu sína úr hinu fyrra skjali, en þeir koma samt sem áður á hnjánum og biðjast fyrirgefningar og gráta. En það var eins og á Kópavogsfundinum sem ég minntist á áðan, að þau tár hrjóta sem hagl af síðum þessa álits og við skiljum auðvitað hvað að baki býr. Embættismenn eru hræddir við sína ráðherra og þeir hafa heldur betur verið látnir finna til þess að ef þeir með einhverjum hætti segðu það ekki að orðalagið hefði verið óheppilegt ... (PHB: Sagði fyrrverandi ráðherra.) (Gripið fram í: Ha?) Sem hvað? (Gripið fram í: Sagði fyrrverandi ráðherra.) Sagði fyrrverandi ráðherra sem hér hefur m.a. í þessari umræðu sagt að þetta væri kannski í anda ákveðinnar hefðar sem fyrr á tíð varð upphaf nokkurrar orðræðu. En allt var það á rangindum byggt eins og hér hefur reyndar komið fram mörgum sinnum. En hv. þingmanni er alveg fúst og frjálst að ræða það hérna eins og hann vill enda skemmti ég mér alveg feikilega undir þessum umræðum við hv. þingmann hér sem fljúga hér í gegn með vissum hætti í gegnum andsvör og annað.

Herra forseti. Það gleður mig mjög að sjá hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson koma hingað. (Gripið fram í: Á að vara mig við?) Nú er það svo að ég er einungis rétt að hefja ræðu mína og ég hef viljandi beðið eftir því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson kæmi í salinn af því að ég þarf að fara í gegnum nokkrar frumvarpsgreinar með hv. þingmanni. Herra forseti. Nú ætla ég aðeins á þessum stað í ræðu minni að leyfa mér að varpa fram þeirri frómu ósk eða spyrja hæstv. forseta hvort það komi til greina, af því að ég veit að hann ætlar að fresta fundi hér einhvern tíma í kvöld til að gefa matarhlé, að fresta fundi klukkan sjö vegna þess að ég þarf að fara. Ég verð að halda fund með Soroptimista-klúbbnum í Kópavogi.

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að stefnt er að því að gert verði matarhlé um klukkan sjö og þá mun forseti eiga fund með formönnum þingflokka eftir því sem áætlanir gera ráð fyrir.)

Ég vil til endurgjalds, hæstv. forseti, lofa því að þegar ég hef ræðu mína aftur eftir kvöldmat mun ég verða miklu skemur en ég ella hefði verið af því að hæstv. forseti tekur með mildi á fundarstjórn og ég virði það.

En hvernig er það, herra forseti, væri hægt með einhverjum hætti að fá hv. formann iðnaðarnefndar, Birki Jón Jónsson hingað í salinn? Ástæðan er sú að mig langar til þess að varpa nokkrum spurningum til hans. Ég ætla ekki að vera neitt vondur við hv. þingmann því að ég veit að hann vill vel og gerir ýmsa hluti vel en það er nú samt þannig að ég þarf að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga.

Þangað til vil ég segja það að eitt af því sem undrar mig í þessu frumvarpi er hversu langt er gengið til þess að gera vatn að séreign. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að fylgja fordæmi einhverra annarra ríkja. Ég tók mig til og skoðaði t.d. hvernig þessum málum er háttað hjá ýmsum öðrum þjóðum sem við berum okkur oft saman við eins og t.d. Norðurlöndin, og a.m.k. eins og ég skildi þá lagabálka er það svo að í Noregi og Svíþjóð er farið með vatn eins og almannagæði. Þau eru skilgreind eins og nefndin góða sem vann vatnalögin 1923 skilgreindi slík gæði, sem landsgæði. Ég hef ekki fundið neitt í neinum þeim lögum sem ég hef leitað í og reynt að skoða þetta sem gengur jafnlangt og þetta íslenska frumvarp sem við erum hérna að ræða. Þetta var eitt af því sem ég ætlaði að spyrja hv. þm. Birki J. Jónsson um.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í þessu frumvarpi birtast í reynd átökin milli frjálshyggjunnar, sem hefur farið eins og logi yfir akur síðustu tvo áratugi í Evrópu og á Vesturlöndum, og hins vegar félagslegra sjónarmiða. Ég er þeirra skoðunar að hér sé í reynd verið að stíga skref að því að einkavæða vatn. Hér á Íslandi og reyndar erlendis hefur vatn verið skilgreint sem samfélagsleg gæði af þeirri ástæðu einni að enginn getur verið án þess fremur en loftsins. Og þó að það sé svo að það séu til lífverur sem geta verið án lofts er engin lífvera til sem getur verið án vatns. Þetta gerir það að verkum að vatn er í reynd alveg einstakt efni og það er þess vegna sem menn hafa fært rök að því að vatn eigi sökum þessa sérstaka eðlis að vera skilgreint sem landsgæði, sem sameiginleg gögn allrar þjóðarinnar.

Ég tek alveg fyllilega undir með þeim sem segja: þessi lög munu ekki valda stökkbreytingu í dag. En þau skipta kannski máli eftir hálfa öld, eftir heila öld, eftir tvær aldir þegar vatn verður hugsanlega orðið að miklu dýrmætari auðlind en hún er í dag. Þá mun þetta skipta máli alveg eins og í dag skiptir kvótakerfið alveg gríðarlega miklu máli varðandi dreifingu og skiptingu auðæfa í íslensku samfélagi en menn sáu það ekki fyrir þegar þeir samþykktu þau lög árið 1984. Fyrir mér er það sem ég hef kallað ásælni frjálshyggjunnar í vatnið af sama toga og ásælni hennar í fiskinn sem við áttum einu sinni öll sameiginlega þó frjálshyggjan hafi enn ekki náð að koma fram vilja sínum til séreignarréttar á auðlindum í hafinu að fullu leyti.

Andstaða mín við vatnalagafrumvarpið er ekki síst sprottin af sama toga og þessi sífellda viðleitni sterkra hópa á Íslandi til þess að leggja viðjar lögbundins eignarréttar á fiskinn í sjónum. Fyrir mér er auðvitað megininntak vatnalagafrumvarpsins að verið er að færa nýtingarrétt yfir á lendur séreignarréttarins. Þess vegna er þetta enn eitt skrefið til þess að færa sameiginlegar auðlindir okkar allra, fiskinn í sjónum, fjarskiptarásir í lofti, djúphita, orku fallvatnanna og takmarkaðar heimildir til þess að losa gróðurhúsalofttegundir yfir á þann völl sem búið er að marka innan véa séreignarréttarins. Ég skil ekki af hverju er verið að gera þetta.

Þeir sem ekki skilja þetta, skilja ekki hvert er hið raunverulega inntak í þessu frumvarpi, eiga að hugsa þetta af sjónarhóli fisksins í sjónum og þannig er mjög auðvelt að skilja þetta. Í dag hafa útgerðarmenn einungis nýtingarrétt á fiskstofnunum. Þeir sækja hins vegar fast og stöðugt á að fá lögbundinn einkaeignarrétt á auðlindinni í hafinu, en lögin segja enn þá a.m.k. að þjóðin eigi þrátt fyrir allt fiskinn sameiginlega. Vatnalagafrumvarpið gengur út á sömu baráttu, það gengur út á sama andóf gegn vilja manna til þess að breyta nýtingarrétti í séreignarrétt. Ef mönnum tekst þetta með vatnið eins og aðrar jarðrænar auðlindir, hvenær sölsa þeir þá líka undir sig formlegan eignarrétt að fiskinum í hafinu? Ég spyr eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sem kristallaði í raun kjarna umræðunnar í eftirfarandi spurningum: Hvenær einkavæða þeir loftið? Það má kannski segja að það sé með vissum hætti búið að gera það líka því eins og mál eru að þróast í okkar heimshluta þá er loftið orðin takmörkuð auðlind að því leyti til að það er ekki hægt að hleypa nema ákveðnu magni af mengandi lofttegundum út í það og heimildirnar til þess eru takmarkaðar á Vesturlöndum og það er þess vegna sem menn sækja hingað og fá þessar heimildir án þess að greiða fyrir þær á sama tíma og réttur er að þróast með þeim hætti á Vesturlöndum að stórfyrirtækin þurfa að borga fyrir það þar. Með öðrum orðum, íslenska ríkið, án þess að spyrja kóng eða prest, stendur andspænis því að til hefur orðið ný auðlind eins og ég skilgreini auðlindir, þ.e. heimildir til þess að losa mengandi loft út í andrúmsloftið og þessa auðlind veitir íslenska ríkið án þess að spyrja kóng eða prest stórfyrirtækjunum.

Nú er það svo að þetta er auðvitað ný þróun, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson veit, á allra síðustu árum og menn hafa kannski ekki náð tökum á því að klára nákvæmlega hvernig eigi að skipa réttindum af þessum toga. Það er þess vegna, herra forseti, sem við í Samfylkingunni og í stjórnarandstöðunni höfum verið að segja að það þarf að taka heildstætt á þessum málum. Það er ekki hægt að vera að kroppa í þetta, kroppa í eina auðlind núna og aðra síðar. Við þurfum að hafa heildstætt regluverk sem tekur á þessu öllu, sem tekur líka á því þegar nýjar auðlindir verða allt í einu til fyrir tilverknað framsækinnar og nýrrar tækni. Við getum séð að það eru kannski tvenns konar auðlindir sem með þeim hætti eru að verða til. Ein er fjarskiptarásin í lofti sem er orðin til fyrir tilstilli nýrrar stafrænnar tækni, fyrir tilstilli framsóknar mannsandans, uppfinninga. Allt í einu stöndum við andspænis nýrri tilvist þar sem segja má að til séu orðnir möguleikar sem hægt væri að skilgreina sem almannagæði og hugsanlega að verðleggja í krafti markaðslögmála ef verkast vill til hagsbóta fyrir almenning. Það fer hins vegar eftir aðstæðum hvort slíkt er gert.

Hið sama gildir auðvitað um hina nýju auðlindina sem er að verða til, þ.e. losunarheimildir. Eins og heimurinn er að þróast er alveg ljóst að losunarheimildir munu verða ákaflega verðmætar. Við stöndum frammi fyrir því a.m.k. á meðan léttmelmi eins og ál er jafn gríðarlega nauðsynlegt í framleiðslutækni okkar tíma eins og raun ber vitni að þá verður það stöðugt dýrmætara í heimi, þar sem viðsjár af sjónarhóli mengunar eru alltaf meiri og meiri, að fá heimildir til þess að losa eins og t.d. gróðurhúsalofttegundir og annað sem fellur til við framleiðslu á t.d. áli. Það er kannski þess vegna sem stórfyrirtæki sækja hingað til Íslands ekki bara til að fá ódýra orku heldur líka það sem er að verða svo takmarkandi erlendis, að fá möguleika til þess að losa þessar skaðlegu lofttegundir út í andrúmsloftið.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem hefur náttúrlega lagt þessi mál niður fyrir sér: Telur hann ekki að það sé miklu skynsamlegra að taka heildstætt á þessum málum þannig að settar séu almennar reglur um hvernig eigi að útdeila takmörkuðum gæðum og þá með hvaða aðferðum eigi að taka afgjald fyrir þannig að allir sem eiga þær, þ.e. viðkomandi þjóð, fái afgjaldsins notið? Ég er ekki að segja að það sé skilyrði að það þurfi alltaf að taka einhvers konar afgjald fyrir notin en það ætti að vera meginregla. Hugsanlega þegar ný tækni er að búa til nýja auðlind eins og fjarskiptarásir, og við höfum ekki enn reynt hana til þrautar, þá er kannski hægt að sjá margvísleg rök sem hníga að því að svo sé ekki í upphafi. Hæstv. samgönguráðherra tók ákvörðun um það þegar hér var verið að bjóða út um árið, að nota frekar aðferð fegurðarsamkeppni en útboðs og allt gott um það að segja. En sérstaklega varðandi t.d. losunarheimildir og varðandi fisk finnst mér ekki annað koma til greina en að slíkar reglur séu settar.

Mig langar þess vegna til þess að hæstv. — háttvirtur, vegna þess að Birkir J. Jónsson er ekki enn þá orðinn ráðherra þó að ég sé þess fullviss að ef hann hefur elju og staðfestu til og ef Framsóknarflokkurinn lifir þá muni hann verða það í tímans rás — en mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar að það sé rétt að ráðast í þetta mál heildstætt þannig að það séu settar almennar reglur en að ekki sé verið að gera þetta eins og hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera síðustu árin að taka fyrir eina auðlind og svo aðra og það er engin yfirsýn yfir málið allt saman.

Ég veit að hv. þingmaður mun ekki svara mér um það, en mig langar svo ósköp mikið til þess að vita hvernig stendur á því að flokkurinn, sem einu sinni var að berjast fyrir lítilmagnann, sem einu sinni var að berjast fyrir aukinni dreifingu eða bættri dreifingu tekna og auðæfa og verðmæta í samfélaginu, að hann skuli drattast svona eins og botnlangi aftan í Sjálfstæðisflokknum og láta þröngva sér til hvers hervirkisins á fætur öðru. Hvernig stendur á þessu, herra forseti? Ég ætla ekki að biðja hv. þingmann endilega um að svara því.

Þegar við höfum rætt hér um vatnið … (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill grennslast fyrir um það hvort hv. þingmaður eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Já, virðulegi forseti, ég á töluvert eftir af henni.

(Forseti (BÁ): Þá verður forseti að fara þess á leit við hv. 1. þm. Reykv. n. að hann geri hlé á ræðu sinni meðan gefið er kvöldmatarhlé í hálfa klukkustund og fundi er þá frestað og hlé gert á ræðu hv. þingmanns.)