132. löggjafarþing — 85. fundur
 14. mars 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

Íbúðalánasjóður.

[13:33]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja nýjan félagsmálaráðherra, um leið og ég óska honum velfarnaðar í starfi, hvort einhver stefnubreyting hafi orðið varðandi afstöðuna til Íbúðalánasjóðs en athyglisvert er að hæstv. forsætisráðherra notaði ráðherraskiptin til að biðja hæstv. ráðherra að hraða endurskoðun á Íbúðalánasjóði. Fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, upplýsti nýlega á Alþingi að hugsanlegar breytingar á hlutverki sjóðsins tækju tíma og ekki væri að vænta lagabreytinga í því efni á yfirstandandi þingi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur það að menn muni taka sér þann tíma sem þarf og hafa víðtækt samráð við fjölda aðila, m.a. samtök launafólks, neytenda, námsmanna og lífeyrisþega um málið og frumvarp verði ekki lagt fram um það á þessu þingi?

Greinilegt er að vilji hæstv. forsætisráðherra er að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Ég spyr: Er hæstv. félagsmálaráðherra sammála því?

Það er auðvitað nokkuð kaldhæðnislegt að fórna eigi Íbúðalánasjóði og hann eigi að bjarga bönkunum úr þeirri stöðu sem þeir eru sjálfir búnir að koma sér í með óábyrgri útlánastarfsemi. Telur ráðherra það t.d. ekki vera áhyggjuefni að verðbréfafyrirtækið Merrill Lynch segir í nýrri skýrslu að bankarnir geti ekki reiknað með hagnaði af íbúðalánastarfsemi fyrr en framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs hafi verið ákveðið. Á mannamáli er verið að segja að skapa þurfi bönkunum svigrúm til að geta hækkað vexti á íbúðalánum með því að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum. Er það hvatinn sem rekur forsætisráðherra til yfirlýsinga sem í raun eru um að það eigi að jarða Íbúðalánasjóð?

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann muni framfylgja því sem var í skoðun hjá fyrrverandi ráðherra um að breyta viðmiðun við brunabótamat og hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs en með því að stjórnvöld hafa setið á eðlilegum breytingum á hámarksláni og miða við brunabótamat hafa þau auðvitað meðvitað verið að svelta Íbúðalánasjóð út af markaðnum.



[13:35]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir málum Íbúðalánasjóðs eins og þau standa núna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn og mikill vöxtur þeirra á undanförnum árum gefur tilefni til þess að ætla að þeir séu tilbúnir að bjóða íbúðalán til frambúðar og við þær aðstæður þarf að huga að því hvernig best verði hagað aðkomu hins opinbera að íbúðalánakerfinu.

Félagsmálaráðherra skipaði starfshóp í samráði við stjórn Íbúðalánasjóðs sem var falið að fara yfir stöðu mála og skila tillögum. Starfshópurinn taldi, ef horft yrði til frekari breytinga, að eðlilegt þætti að kanna til hlítar hvort rétt væri að þróa hlutverk Íbúðalánasjóðs í átt til heildsölubanka og lagði áherslu á að ef ákvörðun yrði tekin um að ráðist yrði í frekari breytingu á húsnæðiskerfinu yrði það gert með víðtæku samráði við þá sem málið varðar. Það samráð stendur nú yfir. Starfshópurinn vinnur af miklum krafti í þessu máli. Ég vil ekkert segja um hvenær frumvarp verður lagt fram. Ég á von á þeim tillögum starfshópsins inn á borð til mín.

En ég vil leggja áherslu á að það er númer eitt í mínum huga að Íbúðalánasjóður þjóni öllum landsmönnum. Tryggð sé, hverjar sem breytingarnar verða, íbúðalánaþjónusta við alla landsmenn og fólki sem tekur íbúðalán séu tryggð viðunandi kjör. Það er það sem við göngum út frá og við erum í samráði við alla þessa aðila sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi og það samráð stendur yfir þessa dagana.



[13:37]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að nýr hæstv. félagsmálaráðherra lýsir því yfir að horft verði til þess að allt landið sitji við sama borð hvað varðar íbúðalán. Sjálfstæðisflokkurinn vill gera sem flestum kleift að búa í eigin húsnæði, það treystir fjárhagslegt sjálfstæði manna og eykur ábyrgðartilfinningu gagnvart verðmætum. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið og eftirsóknarvert út frá hagsmunum einstaklinga og fjölskyldna.

Íbúðalánasjóður og þar áður Húsnæðisstofnun ríkisins hafa gegnt miklu hlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Við höfum upplifað þá ánægjulegu breytingu að viðskiptabankakerfið hefur nú komið inn á íbúðalánamarkaðinn. Það breytir ekki þeirri staðreynd að viðskiptabankarnir munu væntanlega seint sinna íbúðalánamarkaðnum í dreifðum byggðum landsins. Því hefur Íbúðalánasjóður enn þá mikið hlutverk og nauðsynlegt þar sem íbúðamarkaðurinn er ekki jafnfjörugur og á höfuðborgarsvæðinu.

Það er augljóst mál að ekki verða dramatískar breytingar á Íbúðalánasjóði nema lausnir finnist á því hvernig landsbyggðinni verður sinnt. Þegar farið verður að íhuga breytingar á Íbúðalánasjóði verður að huga að þeim veruleika sem landsbyggðin býr við og því fagna ég orðum hæstv. félagsmálaráðherra hvað þetta varðar.



[13:39]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé landsmönnum mikið áhyggjuefni að heyra síðustu fréttir af ríkisstjórnarheimilinu þar sem það á að vera forgangsatriði að afhenda viðskiptabönkunum Íbúðalánasjóð. Fyrsta skrefið í að einkavæða Íbúðalánasjóð. Menn skulu hugleiða að það er ekki bara gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, heldur líka gagnvart íbúum alls landsins, einnig í þéttbýlinu, sem Íbúðalánasjóður hefur gegnt því lykilhlutverki að veita lán til húsnæðis- og íbúðakaupa eða íbúða í byggingu á sem hagkvæmustu kjörum. Það er ein meginástæðan fyrir því að svo stór hluti af húsnæði hér á landi er í eigu þess fólks sem býr þar. Ef þetta á að verða hlutur Framsóknarflokksins, þess gamla félagshyggjuflokks, að vera beitt fyrir einkavæðingarvagninn enn á ný af hálfu Sjálfstæðisflokksins og að fela bönkunum Íbúðalánasjóð, þá finnst mér það dapurt, frú forseti.

Ég bendi á varnaðarorð sem ágætur fasteignasali birti í viðtali um miðjan nóvember sl., Ingibjörg Þórðardóttir, hjá Híbýlum, þar sem hún sagði að þeir sem minna mega sín og hafa lægri tekjur verði að njóta ívilnunar og það er það sem Íbúðalánasjóður hefur tryggt. En verði hann afhentur bönkunum eins og hér er verið að ýja að í stefnu ríkisstjórnarinnar þá verður þetta ekki þannig.

Ég bið, frú forseti, og skora á félagshyggjuflokkinn gamla, Framsóknarflokkinn, að standa vörð um Íbúðalánasjóð, láta hann ekki fara inn í einkavæðingarvagninn, frú forseti.



[13:41]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið fjallað um frumvarp til vatnalaga hér á þingi á síðustu dögum. Á fundi iðnaðarnefndar í morgun var tekið fyrir erindi frá Birni B. Jónssyni, formanni UMFÍ, sem er stílað á formann iðnaðarnefndar Alþingis og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag 13. mars á blaðsíðu 6 undir fyrirsögninni „Vatnalagafrumvarp verði dregið til baka“ vill undirritaður taka fram:

Ungmennafélag Íslands stóð að yfirlýsingu „Vatn fyrir alla“ ásamt fjölda annarra samtaka á Íslandi síðastliðið haust. Auglýsingar birtust í fjölmiðlum í kjölfarið sem voru byggðar á fyrrgreindri yfirlýsingu.

Hins vegar er umsögn sem send var inn til iðnaðarnefndar Alþingis af hálfu BSRB þann 28. nóvember sl. er varðar frumvarp til vatnalaga, þingskjal 281, UMFÍ óviðkomandi. Undirritaður sá ekki umsögn BSRB fyrr en eftir að hún var send inn til nefndasviðs Alþingis og auk þess ekki efnislega sammála því sem þar stendur og getur þar af leiðandi ekki tekið ábyrgð á innihaldi umsagnarinnar, enda kom Ungmennafélag Íslands ekki á neinn hátt að smíði hennar né hefur samþykkt hana fyrir sitt leyti.

Selfossi mánudaginn 13. mars 2006.

Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ.“

(Gripið fram í: Í hvaða flokki er hann?)

Hæstv. forseti. Við hljótum að harma þá villandi umræðu sem hefur verið í ræðustóli hv. Alþingis og í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga að nafn Ungmennafélags Íslands hafi síendurtekið verið nefnt í andstöðu við það frumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. (Gripið fram í.) Ég, hæstv. forseti, sem formaður nefndarinnar harma þessar rangfærslur og vona svo sannarlega að hér sé einungis um mistök (Gripið fram í.) að ræða sem ekki megi endurtaka sig aftur í löggjafarstarfi á hv. Alþingi.



[13:43]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Þetta eru merkileg tíðindi sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, ber á borð fyrir okkur. Það hefur komið í ljós að þau samtök sem tilnefnd eru sem undirskriftaraðilar að þeirri umsögn sem stjórnarandstaðan hefur hvað mest flaggað í umræðunni um vatnalagafrumvarpið standa ekki að þeirri umsögn. Það segir hér að formaður UMFÍ hafi ekki séð umsögn BSRB fyrr en eftir að hún var send inn á nefndasvið Alþingis og auk þess sé hann ekki efnislega sammála því sem þar stendur og þar af leiðandi innihaldi umsagnarinnar.

Frú forseti. Auðvitað varpar þetta mjög mikilli rýrð á það sem kemur fram í þeirri umsögn og vekur náttúrlega upp alvarlegar spurningar um hvernig þau samtök sem þar eru talin upp, þ.e. Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja, Landssamband eldri borgara, Kennarasamband Íslands, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands voru fengin til að skrifa undir þessa umsögn.

Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem er formaður þeirra samtaka, sem var forsprakkinn að því að leiða þessa aðila saman, a.m.k. innan gæsalappa vegna þess að ljóst er að ekki var öllum þeim aðilum sem tilnefndir eru og tilgreindir í þessari umsögn heimilað að sjá umsögnina áður en þeirra var getið á henni. Auðvitað hlýtur hv. þingmaður sem jafnframt er formaður BSRB að svara því af sinni hálfu og sambandsins hvernig að þessu var staðið. Við hljótum að gera þá kröfu til þingsins og forsætisnefndar þingsins að það verði rannsakað nákvæmlega hvernig að þessu máli var staðið. (Gripið fram í: … rannsóknarnefnd.) Þetta mál er ekki fullklárað, frú forseti.



[13:46]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að tvennu. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja athygli á málefnum Íbúðalánasjóðs og í öðru lagi að lýsa ásetningi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um nauðsyn þess að slá skjaldborg um þessa stofnun sem bankarnir og Sjálfstæðisflokkurinn vilja nú feiga.

Varðandi þær yfirlýsingar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom hér með um afstöðu UMFÍ þá þykir mér leitt að UMFÍ skuli hafa sagt sig frá sameiginlegri umsögn verkalýðssamtaka og almannasamtaka um vatnalögin. Þessi afstaða kemur mér nokkuð á óvart því að hún hefur aldrei komið fram fyrr enda þótt UMFÍ hafi haft þessa umsögn til umfjöllunar frá því í lok nóvembermánaðar. Fyrir fáeinum dögum lýsti UMFÍ og formaður þeirra samtaka, ég er með skeyti þar um því til staðfestingar, samþykki yfir því hvernig staðið yrði að kynningu í iðnaðarnefnd Alþingis á þessari umfjöllun og umsögn sem UMFÍ hefur átt aðild að.

Ég get náttúrlega ekki borið ábyrgð á því þótt forsvarsmenn UMFÍ lesi ekki póstinn sinn eða fari ekki yfir þau gögn sem þessum samtökum berast. (Gripið fram í.) Ef hins vegar hefur verið um misskilning að ræða, sem ég geri fastlega ráð fyrir að hafi verið í þessu efni, þá þykir mér það leitt og ekkert annað en sjálfsagt að taka því vel og fá það staðfest að UMFÍ segi sig frá þessari sameiginlegu umsögn.

Ef menn hafa einhverjar efasemdir um heilindi annarra aðila sem standa að þessari umsögn þá er ekki annað að gera en að snúa sér til þeirra, Kennarasambandsins, Sambands bankamanna, Öryrkjabandalagsins, Landssambands eldri borgara og Náttúruverndarsamtakanna og annarra samtaka sem standa að þessari umsögn. Við skulum gæta okkar á því (Forseti hringir.) að láta Framsóknarflokkinn ekki reyna að slá ryki í augu hvorki þingsins né þjóðarinnar í (Forseti hringir.) þessu efni.



[13:48]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var skrýtin ræða. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir hér ef UMFÍ vill segja sig frá málinu. Það kemur fram í bréfi að þeir hafa aldrei fengið að sjá umsögnina, (ÖJ: Það er bara ekki rétt.) aldrei fengið að sjá hana. Ég fylgdist ágætlega með umræðunni „Vatn fyrir alla“. Það voru yfirlýsingar sem allir gátu tekið undir.

En það sem er að gerast hér, virðulegi forseti, er að menn reyna hvað eftir annað að láta hlutina líta út fyrir að vera eitthvað allt öðruvísi en þeir eru. Það er ágætt að taka þessi tvö mál, virðulegi forseti, forustumaður Vinstri grænna kemur hér og fleiri en einn og segir að verið sé að einkavæða Íbúðalánasjóð (Gripið fram í: Og vatnið.) og vatnið. Það var gott að hv. þingmaður hjálpaði mér með það í ræðunni (Gripið fram í.) því að hér eru menn hreinlega að fara með rangfærslur. Ef menn skilja ekki hvað heildsölubanki er, ef menn skilja það ekki eiga þeir að (Gripið fram í.) kynna sér málið, hv. þingmaður. Þeir eiga ekki að koma hér upp og segja að verið sé að einkavæða Íbúðalánasjóð þegar menn eru að skoða hugmyndir sem hafa verið í umræðunni, og hefur ekki verið mótmælt af stjórnarandstöðunni fram til þessa, um að breyta fyrirkomulaginu í breyttu umhverfi á lánamarkaði og gera úr honum heildsölubanka í staðinn fyrir þá starfsemi sem hann er í nákvæmlega núna. Það er ekki einkavæðing. (Gripið fram í.) Og það á heldur ekki við um vatnið en hér reyna menn að láta það líta svo út að ef við fengjum okkur að drekka úr fjallalæk kæmi einhver bóndi á eftir og rukkaði okkur í kjölfarið. Þetta eru allt saman ósannindi. Það eru hrein og klár ósannindi að hér sé verið að einkavæða vatn og breyta fyrirkomulagi frá því sem nú er.

En hér koma menn og endurtaka sömu ósannindin hvað eftir annað og meira að segja þegar sendar eru inn umsagnir frá aðilum sem hafa ekki séð (Forseti hringir.) umsagnirnar, þá segja menn bara að þeir séu að segja sig frá þeim.



[13:50]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst þær upplýsingar sem hér hafa komið fram töluverð tíðindi og verð að segja að mér finnst sá málflutningur sem stjórnarandstaðan hefur haft í frammi í vatnalagamálinu verða æðiótrúverðugur þegar upplýsingar af þessu tagi eru lagðar fram. Mér finnst raunar að allur málflutningur stjórnarandstöðunnar hafi verið með nokkrum ólíkindum í þessu máli vegna þess að einkum er byggt á misskilningi á núgildandi réttarstöðu og síðan rangtúlkunum á því sem fram kemur í lagatextanum. Það er því kannski ekki að furða að þessi flötur verði nokkuð einkennilegur líka.

Varðandi hitt málið sem er til umræðu þá held ég að allir hljóti að átta sig á því að umhverfið á húsnæðislánamarkaði hefur gerbreyst á tiltölulega fáum missirum. Hér hafa orðið gerbreytingar á aðkomu banka og annarra lánastofnana að þessum markaði og það hlýtur að kalla á endurskoðun á Íbúðalánasjóði sem til þessa hefur verið helsti aðilinn. Nú eru nýir aðilar komnir inn og auðvitað er eðlilegt að hlutverk og starfshættir Íbúðalánasjóðs séu endurskoðaðir í því ljósi. Ekki er hægt að láta eins og ekkert hafi gerst. Þegar menn velta fyrir sér hver framtíðin á að vera þá er það nokkuð ljóst í mínum huga að ástæðulaust sé fyrir okkur að hafa til frambúðar ríkisbanka sem rekur almenna lánastarfsemi á þessu sviði.

Hins vegar geta menn velt því fyrir sér hvernig hægt er að mæta kröfum um að komið sé til móts við þá hópa sem ekki passa inn í almenna húsnæðislánakerfið með sama hætti og þorri íbúðalántakenda gerir. Ég þykist vita að það sé á þeim nótum sem vinna af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra fer fram (Forseti hringir.) að þessu leyti.



[13:53]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var ekki mikill sannfæringarkraftur í máli hæstv. félagsmálaráðherra áðan og ekki að sjá að hann ætli að standa í ístaðinu gagnvart íhaldinu eins og fyrirrennari hans gerði. Ég sé ekki betur en að hæstv. ráðherra ætli að fylgja forsætisráðherra og íhaldinu í því að koma á heildsölubanka. Með hvaða afleiðingum? Hvað hefur eitt verðbréfafyrirtæki sagt nýlega í skýrslu sinni? Að það þurfi að skapa bönkunum svigrúm til að geta hækkað vexti á íbúðalánum með því að koma sjóðnum út af markaðnum. Mér heyrist að einu áhyggjurnar sem ráðherrann hefur sé landsbyggðin og það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af landsbyggðinni ef Íbúðalánasjóður fer út af markaðnum. En það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af félagslega hluta íbúðalánakerfisins, það er líka ástæða til að ætla að þetta geti minnkað þjónustu við íbúðakaupendur og það er líka ástæða til að ætla, eins og þetta matsfyrirtæki segir, að það vextir muni hækka í kjölfarið og þjónustugjöld. (Gripið fram í: Hver var félagsmálaráðherra þegar Byggingarsjóður verkamanna fór á hausinn?)

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki einu sinni kveðið upp úr með það að ekki verði lagt fram frumvarp á þessu þingi. Það er ekki langt sem lifir af því. Hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra fullvissaði okkur þó um að það yrði ekki gert en hæstv. ráðherra getur ekki einu sinni sagt það hér.

Hér vantar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er að gera stjórnsýslulega úttekt á endurskoðunarbeiðni félagsmálanefndar. Ég veit að sú skýrsla mun ekki liggja fyrir, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, áður en þing fer heim í vor. Ég spyr: Mun hæstv. ráðherra bíða eftir þeirri skýrslu? Það er auðvitað grundvallaratriði að það sé gert.

Það eina sem hæstv. ráðherra segir er að hann muni jú hafa samráð við viðkomandi aðila og hann muni vernda landsbyggðina. En það vantar miklu meira til. Þetta vekur auðvitað upp spurningar um það hvort forsætisráðherra telji að nýr félagsmálaráðherra verði auðveldari viðureignar en fyrrverandi félagsmálaráðherra og hann verði líka bandamaður með honum með íhaldinu að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum.



[13:55]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera nokkur tilfinningahiti í þessari umræðu. Hér koma hv. þingmenn og segja að það eigi að einkavæða Íbúðalánasjóð sem er auðvitað alrangt og hefur verið farið í gegnum það hér. Það hefur heldur ekki verið ákveðið hvernig Íbúðalánasjóður verður rekinn í framtíðinni en það er alveg ljóst að það verður í breyttri mynd. Við þurfum að fá á borðið tillögur til að geta metið þetta mál og sú vinna er í gangi og það samráð er í gangi. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn hrópa hátt um það, þau gögn verða fengin inn á borð í félagsmálaráðuneytinu og þar verða þau metin. Þetta er mikil vinna sem verður hraðað eins og forsætisráðherra nefndi hér í gær. Það er alveg ljóst.

Hvað varðar lánsupphæð og veð sjóðsins varðandi lóðir að þá eru þær tillögur á mínu borði líka og ég hef verið að skoða þær, ég hef fengið þær inn á mitt borð og hef verið að líta yfir það mál jafnframt því sem endurskoðun á málefnum sjóðsins stendur yfir. Mér er alveg ljóst að það eru óþægindi af því fyrir sjóðinn að fá ekki þessar reglugerðarbreytingar inn en ég er að skoða þau mál og hef það á mínu borði.

Ég endurtek að aðalatriðið í þessu máli er að tryggja þjónustu við landsmenn um íbúðalán, alla landsmenn án tillits til þess hvar þeir eru búsettir á landinu. (Forseti hringir.) Það eru hin pólitísku markmið í þessu máli.