132. löggjafarþing — 87. fundur
 16. mars 2006.
munnleg skýrsla utanríkisráðherra um varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna.

[11:39]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Bandarísk stjórnvöld hafa, eins og kunnugt varð í gær, tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar á brott í síðasta lagi fyrir lok september.

Bandaríkjastjórn lýsti jafnframt yfir eindregnum vilja til að standa við varnarsamning ríkjanna frá 1951 og Norður-Atlantshafssáttmálann sem Atlantshafsbandalagið hvílir á. Hún leggur enn fremur til að viðræður milli landanna um framhald varnarsamstarfsins haldi sem fyrst áfram. Íslensk stjórnvöld leggja í því efni áherslu á að viðræðum verði hraðað því brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum þjóðarinnar.

Ákvörðun Bandaríkjastjórnar veldur íslenskum stjórnvöldum vonbrigðum. Þau hafa í viðræðum við Bandaríkjamenn lagt fram ítarlegar tillögur um að Íslendingar greiði kostnað vegna reksturs og viðhalds Keflavíkurflugvallar og taki yfir þyrlubjörgunarþjónustu við varnarliðið. Með þessu sýndu íslensk stjórnvöld í verki að þeim væri í mun að ná niðurstöðu um varnarmálin. Sú ákvörðun sem nú liggur fyrir hjá Bandaríkjastjórn felur ekki í sér þá niðurstöðu sem vonast var til. En þetta er ákvörðun Bandaríkjaforseta og það hefur legið fyrir að hann ætti síðasta orðið um orrustuþotur varnarliðsins.

Íslenskum stjórnvöldum var tilkynnt þessi ákvörðun í símtali sem Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti við mig laust fyrir hádegi í gær. Þá gekk sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi síðdegis á fund okkar forsætisráðherra og gerði okkur nánari grein fyrir ákvörðuninni. Fram kom að forseti Bandaríkjanna hefði fallist á tillögu Rumsfelds, landvarnaráðherra um að bundinn yrði endi á fasta viðveru orrustuþotna varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni eins og það var orðað. Það felur jafnframt í sér að björgunarþyrlur þess hverfa á brott, enda eru þær hér vegna orrustuþotnanna.

Af hálfu Bandaríkjamanna er tekið fram að íslensk stjórnvöld hafi lagt fram mikilsverðar tillögur á samningafundum ríkjanna í síðasta mánuði um að þau mundu greiða kostnað vegna reksturs Keflavíkurflugvallar og vegna björgunarþjónustu við varnarliðið. Hins vegar valdi breyttar aðstæður í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og mikið álag á Bandaríkjaher í öðrum heimshlutum, og þörf fyrir búnað hans og mannskap þar, því að ákveðið hafi verið að gera umræddar breytingar í Keflavíkurstöðinni.

Þessi ákvörðun Bandaríkjastjórnar nú á sér nokkurn aðdraganda eins og flestum er kunnugt, a.m.k. aftur til vors 2003 þegar hún tilkynnti íslenskum stjórnvöldum um þá ætlan að flytja orrustuþoturnar og þyrlurnar héðan. Frá því var horfið þá og síðan hefur verið unnið að því að reyna að finna ásættanlega lausn og semja um framtíðarfyrirkomulag varnanna.

Í júlí í fyrra hófust viðræður milli landanna um með hvaða hætti Íslendingar gætu tekið þátt í kostnaði sem tengdist veru varnarliðsins hér á landi. Markmið íslenskra stjórnvalda var eftir sem áður að reyna að tryggja að orrustuþotur yrðu áfram í landinu.

Stjórnvöld lýstu sig í upphafi viðræðnanna í fyrrasumar reiðubúin til að semja um að þau greiddu verulegan hluta þess kostnaðar sem hlýst af rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Einnig stæði vilji til þess að kanna í viðræðum við Bandaríkjamenn hvernig Ísland gæti tekið að sér aukið hlutverk á sviði þyrlubjörgunar hér á landi, sem fæli m.a. í sér þjónustu á þessu sviði við varnarliðið.

Tillögur um þetta voru lagðar fram af Íslands hálfu á samningafundi landanna í fyrri hluta september. Þær fólu meðal annars í sér að við tækjum að okkur á umsömdum tíma umsamið hlutfall af kostnaði sem lyti að atriðum eins og slökkviliði og snjómokstri sem og viðhaldi og endurnýjun á ýmsum búnaði, flugbrautum og akstursbrautum.

Viðræður sigldu í strand í október þegar Íslendingar höfnuðu tillögum sem Bandaríkjamenn lögðu fram áður en fundir hófust. Vandinn laut fyrst og fremst að því að þær gerðu ráð fyrir að Íslendingar greiddu rekstur og viðhald flugvallarins en einnig margvíslegan og mikinn kostnað sem laut beinlínis að herstöðinni sjálfri og varnarliðinu. Hér bar mikið á milli aðila.

Snemma í desember síðastliðnum átti ég fund með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var haldinn í tengslum við ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Ljubljana í Slóveníu. Fundurinn með Burns var haldinn að ósk Bandaríkjamanna til að ræða stöðuna í varnarviðræðum landanna. Aðallega var rætt um hvernig koma mætti samningaviðræðum af stað. Í framhaldinu unnu báðir aðilar að því máli, m.a. þannig að til bréfaskipta kom í áliðnum janúarmánuði milli mín og Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Samningaviðræður milli landanna hófust aftur 2. febrúar í Washington. Þann dag átti ég fund með Rice, utanríkisráðherra, í bandaríska utanríkisráðuneytinu til að reyna að hreyfa málum frekar og kynna tillögur sem höfðu verið í undirbúningi hjá okkur. Í þeim fólst einkum að Ísland mundi strax í haust hefja að greiða allan kostnað vegna atriða eins og slökkviliðs og snjómoksturs á Keflavíkurflugvelli og búnaðar vegna flugumferðarstjórnar. Rétt er að skjóta því hér inn að ástæða þess að miðað er við haust, nánar tiltekið mánaðamótin september/október, er að þá hefst fjárlagaárið í Bandaríkjunum. Samkomulag er um það milli aðila að hafa þá viðmiðun.

Þá var einnig gert ráð fyrir í íslensku tillögunum, sem lagðar voru fram 2. febrúar, að Ísland mundi strax á komandi hausti byrja að greiða helming kostnaðar vegna viðhalds og endurnýjunar á flugbrautum, akstursbrautum og flughlöðum og allan kostnað vegna þessara þátta frá og með hausti 2008.

Loks fólst í tillögunum að Ísland mundi frá hausti 2008 greiða allan kostnað vegna þyrlubjörgunar í landinu, m.a. til að þjóna flugvélum varnarliðsins að þessu leyti. Gert var ráð fyrir þeim möguleika að þyrlur yrðu keyptar gegnum sölukerfi það á vegum Bandaríkjahers sem stendur bandamönnum til boða að nýta sér og gæti reynst hagkvæmt. Miðað var við að ef til þessa kæmi yrðu keyptar nýjar þyrlur í gegnum þetta kerfi sem og allir varahlutir og þjálfun áhafna.

Í lok samningafundanna hinn 3. febrúar var fallist á það af Íslands hálfu að greiða samkvæmt nánara samkomulagi einnig kostnað við ýmsan mannskap og byggingar í herstöðinni sem halda mætti fram að tengdust rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar. Heildarkostnaður vegna þessa alls og áðurnefndra tillagna Íslands gæti numið að talið er 1,5–2 milljörðum króna á ári. Það yrði til viðbótar nokkur hundruð milljónum sem við greiðum nú þegar árlega vegna starfsemi Keflavíkurflugvallar. Nákvæmar tölur um þennan kostnað allan eru til ekki tilbúnar enn sem komið er.

Nú liggur fyrir, eins og áður sagði, að bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári með því að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verða fluttar brott í síðasta lagi fyrir lok september. Þetta felur í sér að mannskapur á vegum varnarliðsins verður væntanlega mjög lítill. Jafnframt felur þetta í sér að varnarliðið annast ekki lengur Keflavíkurflugvöll þannig að í haust gerist flest af því sem við höfðum gert ráð fyrir í tillögum okkar í viðræðunum við Bandaríkjamenn, þ.e. að við tökum yfir rekstur og viðhald Keflavíkurflugvallar og þá auðvitað það mannahald sem því tengist. Þeir sem vinna að þessum verkum á vegum varnarliðsins verða starfsmenn opinberra íslenskra aðila.

Þegar tilkynnt var í gær um ákvörðun Bandaríkjastjórnar var sérstaklega tekið fram að verið væri að binda enda á fasta viðveru orrustuflugvéla í Keflavíkurstöðinni. Jafnframt var lagt til að fulltrúar landanna hittust sem fyrst til að ræða með hvað ráðstöfunum og viðbúnaði öðrum en fastri viðveru hér mætti best tryggja við breyttar aðstæður í öryggismálum að Bandaríkin gætu staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum. Þetta var nánar útskýrt með því að ræða ætti í áþreifanlegum atriðum hvernig gera mætti skuldbindingar Bandaríkjanna sýnilegar, eins og það er orðað, án fastrar viðveru orrustuþotna hér á landi.

Nú er sem sagt fram undan að komast að því með viðræðum við Bandaríkjamenn hvaða ráðstafanir og viðbúnaður hér og annars staðar kemur til greina í þessu efni til að tryggja áframhald varnarsamstarfsins. Hér er ekki unnt að fjalla um hvernig þessu kynni að verða háttað, enda órætt mál. Það á eftir koma í ljós í viðræðum landanna hvort þetta er gerlegt. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð rík áhersla á að þessum viðræðum verði hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan varna landsins. Af okkar hálfu hefur verið lagt til að rætt verði einnig og sérstaklega um hvernig koma megi á enn nánara samstarfi en þegar fer fram milli landanna varðandi varnir gegn hryðjuverkum og skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Loks hefur Bandaríkjamönnum verið bent á að í ljósi þess að björgunarþyrlur varnarliðsins hverfi héðan í haust þurfi að nást fljótt niðurstaða í það hvort farin verði sú leið að kaupa nýjar þyrlur ásamt þjálfun og varahlutum gegnum sölukerfi Bandaríkjahers eða hvort leitað verður annað. Hér liggur á, því tryggja verður að nægur þyrlukostur sé í landinu þegar björgunarþyrlur varnarliðsins verða fluttar á brott í haust.

Virðulegi forseti. Ýmsir hafa lýst vonbrigðum með þá niðurstöðu sem nú er fengin með einhliða tilkynningu Bandaríkjastjórnar. Ég tel að það hefði verið heppilegra og eðlilegra að niðurstaða af þessu tagi hefði fengist í samningum viðræðunefnda þjóðanna og að málið hefði þá verið til lykta leitt í heild sinni í stað þess að viðvera orrustuþotnanna væri tekin út úr. Hins vegar hefur það legið fyrir um árabil að í Bandaríkjastjórn stæði vilji til að flytja orrustuvélarnar þangað sem meiri þörf væri fyrir þær en bjóða í staðinn upp á varnarviðbúnað af öðru tagi sem betur hentaði breyttum aðstæðum og nýjum tímum. Verkefnið fram undan er þess vegna að freista þess að ná samningum um slík atriði og það sem fyrst. Ella verður gildi varnarsamningsins frá 1951 lítið sem ekkert.



[11:49]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir að bandaríski herinn mun fara af landi brott með nær allan sinn viðbúnað. Þetta þarf ekki að koma á óvart því að þetta er rökrétt framhald þeirrar staðreyndar að Norður-Atlantshafið er öruggasti hluti heimsins í dag. Það eru auðvitað forréttindi að búa í slíkum heimshluta.

Ég hlýt að lýsa ánægju minni hér með að loks skuli vera komin niðurstaða í 11 ára samningaþóf sem leitt hefur verið af formönnum Sjálfstæðisflokksins, fyrst fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra, og síðan hann hætti núverandi utanríkisráðherra. Niðurstaðan liggur fyrir, árangurinn er enginn. Þeir lögðu af stað í leiðangur, komust aldrei þangað sem þeir ætluðu sér og eru nú aftur á byrjunarreit.

Ástæðan fyrir því er augljós. Þeir lögðu upp með úrelta heimsmynd í farteskinu, röng samningsmarkmið og ranghugmyndir um eigin stöðu gagnvart bandaríska stjórnkerfinu.

Nú hefur það opinberast þjóðinni að ríkisstjórnin, undir þeirra forustu, hefur verið stefnulaust rekald í utanríkismálum. Allt frá árinu 1992 hefur legið fyrir að vegna breytinga í heimsmálunum teldu bandarísk stjórnvöld ekki lengur þörf á þeim varnarviðbúnaði sem hér var, það væri enginn óvinur á Norður-Atlantshafi og engin sýnileg ógnun úr þeirri átt.

Á samningafundi í ágúst 1993 lögðu Bandaríkjamenn fram þá tillögu sína að orrustuþoturnar, sem þá voru 12 talsins, mundu hverfa frá Íslandi. Í ágúst 1993. Af því varð þó ekki og þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, og William J. Perry varnarmálaráðherra undirrituðu í janúar 1994 bókun við varnarsamninginn sem gerði ráð fyrir fækkun þeirra úr 12 í fjórar. Síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við þessum málum hefur ekkert gerst, enginn árangur náðst. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa að vísu farið margar ferðir til Washington og boðið hingað bandarískum ráðherrum og embættismönnum. Þeir hafa dregið íslensku þjóðina inn í stríðsrekstur í Írak í þeirri von að þeim yrði umbunað fyrir það í þessum samningaviðræðum. Þeir hafa talað eins og þeir einir gætu höndlað með þessi mál. Þeir hafa talið þjóðinni trú um að fyrrverandi forsætisráðherra væri í mjög góðum tengslum við Bush og núverandi utanríkisráðherra, Condoleezzu Rice. Þeir ættu leið fram hjá bandaríska stjórnkerfinu. Og hver er árangurinn? Enginn, mældur á þeirra eigin mælikvarða.

Árið 1993, í tíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem utanríkisráðherra, var unnin skýrsla um íslensk öryggis- og varnarmál. Síðan hefur lítið gerst í þeim málum, ef frá er talin ágæt greinargerð reyndar sem unnin var í tíð Halldórs Ásgrímssonar 1999. Engar úttektir eða rannsóknir hafa farið fram á þeim váboðum sem að íslenskri þjóð geta steðjað og hvernig skynsamlegast sé að bregðast við þessum váboðum. Þetta hefur verið vanrækt vegna þess að ríkisstjórnin hefur haldið dauðahaldi í fjórar úr sér gengnar herþotur og sagt að þær væru forsenda þess að hér væri hægt að tala um sýnilegar varnir.

Fyrrverandi utanríkisráðherra talaði skýrt í málinu þegar hann var forsætisráðherra og sagði að ef þetta næðist ekki gæti herinn einfaldlega farið. Núverandi utanríkisráðherra er hins vegar orðinn lítilþægari og segir að hinar sýnilegu varnir geti falist í æfingaaðstöðu og flugsveitum sem geti komið hér til skiptis.

Virðulegur forseti. Nú er tímabært að þessu linni. Það er engin ástæða til að Ísland sé æfingastöð fyrir Bandaríkjaher. Við verðum að horfast í augu við að því öryggissamfélagi sem við höfum tilheyrt, með Bandaríkjunum, er að ljúka. Við eigum að horfa til annarra átta. Það er tímabært að við Íslendingar mótum sjálfstæða utanríkisstefnu, skilgreinum þær ógnir sem að okkur geta steðjað og ákveðum hvaða viðbúnað þurfi til að bregðast við þeim. Við eigum að setja upp sjálfstæða rannsóknarstofnun um öryggis- og friðarmál og þverpólitíska öryggismálanefnd sem vinni að öryggismálum Íslands.

Það er engin árásarhætta í Norður-Atlantshafinu. Það er okkar gæfa. Í því felast miklir möguleikar. Við getum markað okkur stöðu sem herlaus þjóð og málsvarar friðar á alþjóðavettvangi. Við eigum að skipa okkur í hóp með þeim ríkjum sem vilja styrkja mannréttindi í heiminum og efla þjóðarrétt og virðingu fyrir alþjóðalögum og samningum. Við eigum að hugsa stærra og lengra en áður hefur verið gert í íslenskri utanríkisstefnu.

Á þetta hefur Samfylkingin ætíð lagt áherslu á Alþingi í umræðum um utanríkismál og hún mun gera það áfram. Okkar bíður það hlutverk að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum með því að móta nýja íslenska öryggisstefnu sem getur leyst hina úreltu og árangurslausu stefnu Sjálfstæðisflokksins af hólmi



[11:55]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Okkur hafa verið færð mikil tíðindi og söguleg því að ekki verður annað skilið en að Bandaríkjamenn séu að boða brottför herliðs síns frá Íslandi eftir rúmlega hálfrar aldar hersetu í landinu.

Auðvitað er gleðilegt að sá tími kunni að vera að renna upp að Ísland verði án erlends hers. Þetta hlýtur að leiða til þess að herstöðinni á Miðnesheiði verði lokað fyrir fullt og allt, Keflavíkursamningnum frá 1951 verði sagt upp og því lýst yfir að Ísland standi utan hernaðarbandalaga. Allra hernaðarbandalaga. Það er mikilvægt að menn tali núna hreint út og tæpitungulaust um þetta efni.

Þetta er sú krafa sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fylkjum okkur um. Við teljum að besta leiðin fyrir Íslendinga til að láta gott af sér leiða í heiminum, jafnframt því sem við tryggjum öryggi lands okkar og þjóðar, sé að fylgja sanngjarnri og réttlátri stefnu á alþjóðavettvangi en standa sem fjærst herskáum hernaðarveldum á borð við Bandaríkin.

Þótt það hafi lengi verið fyrirsjáanlegt að Bandaríkjamenn mundu draga herlið sitt frá Íslandi vekur engu að síður athygli með hvaða hætti þetta ber að. Það verður ekki annað sagt en að framkoma Bandaríkjastjórnar gagnvart íslenskum stjórnvöldum sé ótrúlega óskammfeilin og niðurlægjandi. Það eru ekki nema örfáar vikur síðan utanríkisráðherra kom frá Bandaríkjunum úr viðræðum um framkvæmd varnarsamningsins, sem svo er nefndur, og var svo að skilja að þær viðræður væru í eðlilegum farvegi. Þá gerist það að Bandaríkjastjórn lýsir því einhliða yfir að hún hyggist fjarlægja herþotur og þyrlur frá Íslandi næsta haust. Þetta gerist með einu símtali og í morgun færa fjölmiðlar okkur þær fréttir að Bandaríkjamenn hafi nú áhuga á því að hefja viðræður við íslensku ríkisstjórnina um framkvæmd varnarsamningsins, sem hún kallar svo.

Ég spyr: Getur það verið að hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde hafi setið einhvern allt annan fund en hann hélt að hann sæti í Washington ekki alls fyrir löngu?

Hæstv. forseti. Þetta færir okkur heim sanninn um að Bandaríkjastjórn hefur ekki og hefur aldrei haft herlið á Íslandi nema til að þjóna eigin hagsmunum. Þegar það hentar bandarískum hernaðarhagsmunum eru Bandaríkjamenn farnir og hirða ekki um lágmarkskurteisi við íslensk stjórnvöld. Verður þó ekki annað sagt en að hér sitji nú á valdastólum menn sem hafa þjónað þeim vel, gert Íslendinga samseka í einhverjum mestu voðaverkum síðari ára.

Það sem máli skiptir nú er að ganga á markvissan og myndarlegan hátt til þess verks að yfirtaka alla starfsemi sem tengist flugvellinum, öryggisþáttum og björgunarviðbúnaði og stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Um þetta þurfa Íslendingar nú að fylkja sér.

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur á þessu yfirstandandi þingi, og á síðasta þingi einnig, lagt fram þingsályktunartillögur sem ganga í þá átt. Við höfum viljað að kannaðir yrðu rækilega möguleikar á því að auka hvers kyns borgaralega atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn og gera tillögur um aðgerðir í því skyni. Við höfum lagt áherslu á að gott samstarf verði haft við heimamenn á Suðurnesjum í slíku starfi.

Síðastliðin 15 ár hafa bandarísk stjórnvöld dregið mjög úr umsvifum í rekstri herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Áhugi bandarískra hermálayfirvalda á að draga enn frekar saman seglin og leggja herstöðina jafnvel niður hefur komið skýrt fram á allra síðustu árum. Slíkt þarf ekki að koma neinum á óvart í ljósi þess hve mikið hefur dregið úr spennu í okkar heimshluta frá því sem var undir lok 9. áratugarins. Í reynd er staðan sú að herinn hefur verið að fara í áföngum á undanförnum árum og hefur ekkert bent til annars en að sú þróun héldi áfram og nú þekkjum við hvað gerst hefur.

Hermönnum á Keflavíkurflugvelli hefur fækkað verulega á síðustu 15 árum, um 56%. Þeir voru yfir 3.000 talsins í byrjun 10. áratugarins en eru núna um 1.500. Sama gildir um Íslendinga sem starfa hjá Bandaríkjamönnum. Í byrjun 10. áratugarins voru þeir yfir 1.000 en eru núna á sjöunda hundraðið.

Það sem er gleðilegt er að við þá fækkun sem orðið hefur hefur ekki skapast atvinnuleysi. Á allra síðustu árum hefur fækkun í störfum Íslendinga hjá hernum eða í starfsemi sem honum tengist dregist saman um sem nemur 535 störfum. Á sama tíma hafa umsvif í tengslum við flugstöðina í Keflavík aukist. Það er sýnt að á komandi árum verður framhald á þeirri þróun. Við eigum að sameinast um að horfa til annarra þátta einnig sem styrkja atvinnulífið á þessum slóðum.

Ég lít ekki svo á, og það gerum við ekki í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að þetta sé áfall í neinum skilningi. Þetta eru gleðileg tíðindi fyrir Ísland og við eigum að líta á þetta sem sóknarfæri til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Við eigum að taka mjög alvarlega þann vanda sem fjöldi einstaklinga og fjölskyldna kann að standa frammi fyrir á næstu mánuðum og missirum vegna atvinnumissis. Hvað þetta varðar eigum við að standa einhuga saman.

Við eigum einnig að leggja áherslu á að taka allt sem lýtur að öryggi landsmanna föstum tökum. Íslensk stjórnvöld hafa að þessu leyti hætt að berja höfðinu við steininn eins og þau gerðu lengi vel. Við fögnuðum því fyrir okkar leyti þegar því var lýst yfir af hálfu hæstv. utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í byrjun febrúar að til stæði að Íslendingar yfirtækju rekstur flugvallarins og þyrlustarfseminnar. Við fögnuðum því.

Hæstv. forseti. Hvað öryggisþáttinn varðar hef ég aldrei skilið, og við höfum átt erfitt með að fá botn í það, hvernig öryggi okkar yrði tryggt með fjórum eða fimm herþotum Bandaríkjastjórnar á Keflavíkurflugvelli. Við höfum aldrei fengið svör við því, þótt eftir væri leitað, hvaðan Íslendingar búist við árás úr lofti. Er það frá Evrópu eða er það frá einhverjum öðrum heimshlutum?

Sú hætta sem steðjar að Íslendingum, eins og öllum þjóðum í heiminum í dag, er af hryðjuverkastarfsemi. Þar aftur ítreka ég það sem ég áður sagði, að við tryggjum öryggi Íslands best með því að fylgja eftir á alþjóðavettvangi sanngjarnri og réttlátri stefnu.



[12:04]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það liggur nú ljóst fyrir að Bandaríkjamenn ætla sér að draga stórlega úr varnarviðbúnaði hér á landi. Við hörmum þessa ákvörðun þeirra og við hörmum það jafnframt hvað hana ber skjótt að og við erum ósáttir við það hvernig að henni er staðið.

Það kemur hins vegar skýrt fram hjá Bandaríkjastjórn að hún hyggst virða varnarsamning ríkjanna þó að vörnum landsins verði hagað með öðrum hætti. Við þessar aðstæður er mikilvægt að horfa fram á veg.

Fyrsta spurningin er: Eigum við að byggja áfram á varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu sem aðalatriði í okkar öryggismálum?

Ég tók eftir því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi varnarsamninginn ekki á nafn, hún nefndi aðildina að Atlantshafsbandalaginu ekki á nafn. Ég hef hingað til haldið að það væri samdóma álit — það var a.m.k. samdóma álit Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks — að það bæri að byggja á þessum hornsteinum. Nú virðist vera orðin stefnubreyting þar á. Á þessum grundvelli hlýtur það að vera fyrsta skrefið að ganga til viðræðna við Bandaríkjamenn til að tryggja megi áfram lágmarks sýnilegar varnir hér á landi sem feli í sér fælingarmátt. Það hefur aldrei verið sagt frá árinu 1993 af okkar hálfu, og það var heldur ekki sagt af hálfu Alþýðuflokksins á þeim tíma, að það væri eina leiðin til þess að tryggja sýnilegan fælingarmátt hér á landi. Það hefur einfaldlega ekki komist niðurstaða í það með hvaða hætti það yrði gert. Það er mikilvægt að hraða þessum viðræðum sem mest og ég mun í dag skrifa Bandaríkjaforseta bréf og óska eftir nánari útlistun af hálfu Bandaríkjastjórnar og hugmyndum Bandaríkjanna um framtíðarvarnir Íslands. Þeir hafa lengi haldið því fram að það væri hægt að tryggja þær með öðrum hætti en hafa aldrei kveðið skýrt á um það.

Það liggur fyrir að ákvörðun Bandaríkjastjórnar mun fela í sér ákveðin þáttaskil í utanríkismálum þjóðarinnar. Hún snertir ekki einungis Ísland, hún snertir líka Atlantshafsbandalagið og öryggi á Atlantshafinu. Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna er hluti af varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins og það ætti öllum að vera ljóst. Ég átti þess vegna í þessu samhengi samtal snemma í morgun við framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og gerði honum grein fyrir stöðu mála. Framkvæmdastjórinn mun á mánudagsmorgun eiga fund með Bandaríkjaforseta og hann mun að minni beiðni taka þetta mál upp, enda snertir það ekki eingöngu Íslendinga. Það snertir allt Atlantshafsbandalagið. Því er eðlilegt að við ræðum þetta mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og hann gerir sér mjög vel ljósa grein fyrir því um hve stórt mál er hér að ræða enda hef ég áður nokkrum sinnum rætt það við hann á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Það er jafnframt ljóst, þegar þetta liggur fyrir, að þessi ákvörðun mun hafa mikil áhrif innan lands, ekki eingöngu í sambandi við okkar öryggismál heldur jafnframt á Keflavíkurflugvöll og atvinnulíf á Suðurnesjum enda er varnarliðið stærsti vinnuveitandinn á því svæði. Það hefur komið fram í þessari umræðu að rúmlega 600 manns vinna hjá varnarliðinu, Íslendingar, og jafnframt margir í verktakastarfsemi. Ég hef í morgun rætt við forustumenn stærstu verkalýðsfélaganna á Suðurnesjum og gert þeim grein fyrir stöðu mála og ég hef jafnframt gert þeim grein fyrir þeim eindregna vilja ríkisstjórnarinnar til tafarlauss samstarfs um að vinna að úrlausn þessara mála. Ég hef jafnframt rætt við bæjarstjórann í Reykjanesbæ og við höfum ákveðið fund með okkur utanríkisráðherra um þessi mál til að ræða þessa alvarlegu stöðu og við munum jafnframt gera það gagnvart öðrum bæjarfélögum á Suðurnesjum.

Það sem mestu máli skiptir við þessar aðstæður er að horfa til framtíðar og huga að leiðum í þeim vanda sem blasir við. Þó að við höfum ekki gert ráð fyrir að þetta bæri að með þessum hætti höfum við verið þess lengi meðvitandi að til þessa kynni að koma. Að þessu verki þurfa margir að vinna, ríkisstjórnin, aðilar á Suðurnesjum og að sjálfsögðu Alþingi. Fram undan er mikið starf sem lýtur að því með hvaða hætti verði brugðist við vegna þessara ástæðna. Það varðar rekstur flugvallarins, slökkvilið og margvíslega þjónustu en við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að það eru mörg tækifæri sem blasa við um nýtingu Keflavíkurflugvallar. Sem betur fer er atvinnuástandið gott í landinu og menn hafa unnið að margvíslegri uppbyggingu á því svæði. Sumt af því hefur verið gert í andstöðu við aðila hér á Alþingi en nú er mikilvægt að menn standi sem best saman og hugi að öllum möguleikum sem bjóðast.

Við þurfum að halda vöku okkar með opnum huga í þessu máli og tryggja öryggi landsins til frambúðar. En ég vil endurtaka það að við eigum að gera það áfram á grundvelli varnarsamningsins og á grundvelli aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu. Það hefur verið grundvallaratriði í utanríkisstefnu Íslands um áratugaskeið og við eigum ekki að hverfa frá því þótt ég hafi skilið formann Samfylkingarinnar þannig að það væri það sem hún vildi gera.



[12:12]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að við séum að upplifa sögulega stund núna. Hér er að ljúka ferli sem fór af stað þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg og Danmörku vorið 1940 og Bretar svöruðu með þeim varnarleik í stöðunni að hernema Ísland til að vernda siglingu skipalesta á milli Bandaríkja Norður-Ameríku og Evrópu, til að vernda skipalestir sem sigldu frá Bandaríkjunum og Bretlandi gegnum Ísland norður á bóginn til Norðvestur-Rússlands. Þetta hélt síðan áfram með hernámi Bandaríkjamanna og þeir hafa verið hér allar götur síðan og ekki síst á árum kalda stríðsins.

Frjálslyndi flokkurinn hefur alltaf stutt af heilum hug veru Íslendinga í NATO. Við teljum að það samstarf hafi verið ákaflega farsælt fyrir þjóðina og mjög mikilvægt. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á að við Íslendingar höfum allar götur frá 1949, þegar við gerðumst aðili að NATO, verið mjög tryggir og trúfastir, unnið þar af heilindum. Hvorki Bandaríkjamenn né aðrar bandalagsþjóðir hafa nokkuð upp á okkur að klaga í þeim efnum, alls ekki. Mér finnst að ríkisstjórn Íslands eigi núna að benda bandalagsþjóðum okkar í NATO á þá staðreynd. Við eigum það hreinlega inni hjá þeim að þeir yfirgefi okkur ekki núna. Þá er ég að tala um Evrópuþjóðirnar innan NATO.

Bandaríkjamenn eru farnir. Það hefur lengi verið ljóst að þeir væru á förum og ég hef ítrekað varað við því að það mundi gerast. Þegar ég var nýsestur inn á þing sumarið 2003 varpaði ég strax upp hugmyndum um það að við Íslendingar yrðum að fara að leita leiða til að athuga hvort ekki væri fyrir hendi einhver grundvöllur til að ná samningum við Evrópuþjóðir NATO um áframhaldandi varnarsamstarf og viðveru NATO-liðs hér á landi, annaðhvort NATO-liðs eða búnaðar.

Ég hef margoft síðan borið fram spurningar um það í ræðustól hvort íslensk stjórnvöld væru að athuga þessa möguleika. Ég hef aldrei fengið nein svör og ég hef enga ástæðu til að ætla að nokkur vinna af þessu tagi hafi farið fram. Nei, íslenska ríkisstjórnin hefur valið þann kost að binda sig á klafa Bandaríkjamanna og fylgt þeim í blindni, meira að segja þegar innrásin í Írak var gerð. Þá er ekki annað að sjá en ríkisstjórninni hafi verið talin trú um það að ef hún mundi skrá okkur Íslendinga á lista hinna staðföstu þjóða þá skyldu þessar fjórar herþotur verða hér áfram, þá skyldi áfram vera mannafli á Keflavíkurflugvelli. Þetta var í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2003 og ég minni á þetta því í dag hefur heldur betur komið í ljós að þessir silfurlituðu blóðpeningar, sem greiddir voru af hálfu Bandaríkjamanna til íslensku ríkisstjórnarinnar, og hafa dregið nafn okkar Íslendinga niður í svaðið, voru innistæðulausir.

Nú koma þeir og segja okkur að þeir hafi fengið símtal í gær, það hringdi síminn vestan frá Washington. Þar var okkur tilkynnt að nú séu þeir farnir og með þessa niðurlægingu sitjum við Íslendingar núna. Fimmtíu ára varnarsamstarfi lýkur með einu símtali vestan úr Washington og svo er skellt á. En áfram ætlar ríkisstjórnin að halda með betlistafinn í hendi. Nú á að reyna til þrautar og skrifa bréf til Bush og það á að spyrja hann, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan, um nánari útlistun á öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Hvers konar aumingjaskapur er þetta eiginlega? Hvernig væri nú að fara að standa í lappirnar gegn Bandaríkjamönnum, segja þeim að við séum frjáls og fullvalda þjóð. Við erum fullgildir meðlimir í NATO, við höfum ávallt staðið okkar plikt í NATO, ávallt. Hvernig væri að segja þeim þetta með skýrum hætti? Hvers virði er þessi varnarsamningur? Ég held að hann sé ekki pappírsins virði. Er ekki kominn tími til að þessi samningur verði hreinlega settur í pappírstætarann og honum eytt og við förum frekar að leita leiða um samstarf við aðrar NATO-þjóðir? Ég held að þetta hljóti að vera lausnin og eins og ég sagði í upphafi máls míns: Við eigum það inni hjá þeim.

Þó að það sé friðsælt í Norður-Atlantshafi núna þá er ekki víst að svo verði um allan aldur. Ástandið í öryggismálum heimsins getur breyst mjög fljótt. Við skulum muna það að Ísland er enn á sama stað á hnettinum og það var fyrir 60 árum. Við erum stór eyja í miðju Norður-Atlantshafi og það geta orðið viðsjárverðir tímar í Norðurhöfum. Rússar eru enn á sínum stað. Það er ekki langt síðan þeir voru hér með mjög stóran herskipaflota sem lá nánast uppi í fjörusteinunum vikum saman, flugmóðurskip, beitiskip, hugsanlega með kjarnorkuvopn um borð. Þeir hafa enn þá áhuga á þessu svæði. Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að Evrópuþjóðir NATO hafi einnig áhuga á því að hafa ítök hér í Norður-Atlantshafi, Bretar, Norðmenn, Danir, Þjóðverjar. (Gripið fram í: Lúxemborg.) Þetta eru staðreyndir málsins og við eigum að nota þessi spil. Þetta eru þau spil sem við höfum á hendi í stöðunni núna.

Ég sé fyrir mér að við Íslendingar gætum núna þurft að grípa til þess að efla og þjálfa íslenskar sérsveitir sem væru til staðar hér. Þetta yrði gert í samstarfi við NATO. Hér yrði komið upp ákveðnum viðbúnaði, mannvirkjum sem NATO-herir gætu gripið til ef í harðbakkann slær og þá er ég að tala um NATO-heri í Evrópu. Hingað gæti borist liðsauki á viðsjárverðum tímum með skömmum fyrirvara, til að mynda frá Noregi, Danmörku og Skotlandi. Það er ekki lengi verið að fara þennan veg.

Landhelgisgæsla okkar Íslendinga gæti fengið aukið hlutverk, til að mynda í samstarfi við NATO við gæslu og eftirlit, ekki bara í íslenskri lögsögu og á hafsvæðunum í kring heldur hugsanlega líka í íslenskri lofthelgi. Við skulum athuga það að íslensk lofthelgi er mjög stór og um hana fer mikil umferð farþegavéla á hverjum degi, yfir Norður-Atlantshaf. Íslensk efnahagslögsaga er líka mjög stór og um hana fer mikilvæg skipaumferð. Þarna þarf að halda uppi ákveðnu öryggishlutverki, ákveðnu eftirliti, og þetta þurfum við að segja NATO-þjóðunum.

Það hefur svo sem ekkert upp á sig, virðulegi forseti, að vera að eyða dýrmætum mínútum í það að skamma ríkisstjórnina meira en orðið er. Hún hefur staðið sig afleitlega í þessu máli. Hún hefur sofið á verðinum, því miður. Núna verðum við öll að leggjast á árar um það að horfa til framtíðar. Við þurfum að velta því vel fyrir okkur hver staðan er. Við verðum að reiða okkur á okkur sjálf og við verðum að standa í lappirnar. Við þurfum ekki að skammast okkur fyrir nokkurn skapaðan hlut. Við erum fullvalda og sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóðanna og það eigum við að segja og bera höfuðið hátt. Við verðum að líta til framtíðar og vega það og meta núna, og gera það hratt, hvernig við ætlum að vinna úr þessari stöðu.

Við þurfum að hugsa til þess að það er fólk á Suðurnesjum, fleiri hundruð manns, sem núna munu missa sín störf og það gerist á þessu ári. Vélarnar fara í haust. Sennilega er búið að skrifa fyrstu uppsagnarbréfin nú þegar. Hvað ætlum við að gera fyrir þetta fólk? Eitthvað af þessu fólki mun sennilega fá vinnu áfram á vellinum en aðrir verða að leita eftir vinnu annars staðar. Þarna hljóta íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, já, við öll sem sitjum hér á Alþingi, að þurfa að íhuga mjög vel til hvaða aðgerða við getum gripið til að þetta fólk þurfi ekki að verða án atvinnu. Ég hef í sjálfu sér ekki lausnina í hendi hér og nú, enda aðeins nokkrir klukkutímar liðnir frá því að okkur bárust þessar fréttir. En þessa umræðu þurfum við öll að taka og við þurfum að taka hana strax. Við getum ekki lifað lengur við þessa óvissu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu og ítreka enn og aftur að nú reynir á sjálfstæði okkar Íslendinga. Það er komið nóg af því að við látum Bandaríkjamenn niðurlægja okkur í þessum samskiptum. Nú stöndum við ein en ég vona að það verði ekki lengi. Þó að Bandaríkjamenn séu farnir á brott þá eigum við enn þá vini og þeir eru í Evrópu.



[12:22]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Með þeim atburði sem gerðist í gær, þegar tilkynnt var af hálfu Bandaríkjastjórnar að þyrlur og þotur hyrfu af Keflavíkurflugvelli, lauk ferli sem hófst í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna árið 1994 þegar þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, skrifaði undir samning við William Perry um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli. Þetta samkomulag var síðan endurnýjað árið 1996 og átti að gilda til 2001, en frá 2001 hefur ekki tekist að ljúka viðræðum á milli ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna fyrr en á þennan veg sem gerðist í gær með þeim þáttaskilum að Bandaríkjastjórn segir: Við höfum ekki tök á því að hafa hér viðvarandi orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli og munum flytja þær á brott og einnig þyrlusveitina. Þetta er ekkert ferli sem kemur á óvart. Þetta hefur staðið yfir frá 1994. Ég gagnrýndi það á sínum tíma að menn væru að skrifa undir samkomulag eins og þá var gert, tímabundið samkomulag um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, og taldi það brjóta í bága við varnarsamninginn og þær hefðir sem hefðu verið í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Þegar rætt er um þetta mál án þess að geta um varnarsamninginn, eins og formaður Samfylkingarinnar gerði, eða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu þá er verið að hlaupa fram hjá meginþættinum í samskiptum okkar og Bandaríkjanna. Það er rétt að lesa upp í þessum umræðum innganginn að varnarsamningnum frá 1951 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum.“

Þetta er grundvöllurinn að varnarsamningnum og er enn í gildi. Þetta grundvallarsjónarmið ræður enn í samskiptum okkar og Bandaríkjanna eins og fram kom í yfirlýsingu þeirra í gær og eins og staðfest hefur verið af hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er þetta sem við verðum að leggja til grundvallar þegar við ræðum um okkar öryggismál, að þessi samningur er enn í gildi. Spurningin er nú hvernig á að framkvæma hann við núverandi aðstæður. Það má segja að samningurinn hafi leitt til mestu hernaðaruppbyggingar á Íslandi á árinu 1985. Þá var spennan mest á norðurslóðum og þá var viðbúnaðurinn mestur á Keflavíkurflugvelli. Frá 1985 tók sú uppbygging að dragast saman og síðan urðu náttúrlega þáttaskil þegar Sovétríkin hurfu af vettvangi og aðstaða í öryggismálum heimsins breyttist.

Það er rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi frá þeim tíma látið reka á reiðanum og ekki mótað sér stefnu eða skoðanir á því hvað ætti að gera í utanríkis- og öryggismálum. Það hafa verið samdar tvær skýrslur. Fyrri skýrslan kom út í mars 1993, Öryggis- og varnarmál Íslands. Þar er lagt á ráðin um það hvað Íslendingar eiga að gera til að tryggja öryggi sitt við þær aðstæður sem skapast höfðu í heiminum. Þar eru tíunduð ákveðin grundvallaratriði sem þarf að taka mið af og þau atriði eru öll í fullu gildi enn þrátt fyrir að þessi breyting verði á fyrirkomulagi framkvæmdar varnarsamningsins á Keflavíkurflugvelli. Síðan var gerð greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót á vegum utanríkisráðuneytisins, sem kom út árið 1999. Þar eru áréttuð þau sjónarmið sem komu í skýrslunni 1993 og síðan lagt á ráðin um það hvað gera þurfi til að tryggja öryggi Íslands við núverandi aðstæður. Ég tel að það hafi ekkert breyst í grundvallaratriðum frá 1999 að því er þetta varðar. Ef menn lesa þessa skýrslu, og þær niðurstöður sem þar eru kynntar, og sjá hvernig staðið hefur verið að framkvæmd stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum frá þeim tíma þá sjá þeir að í stórum dráttum hefur verið fylgt þeim meginsjónarmiðum sem kynnt voru þá og ríkisstjórnin hefur fylgt síðan. Að halda því fram að af hálfu stjórnvalda hafi ekki verið staðið að því að móta hér stefnu í samræmi við breyttar aðstæður er algerlega rangt. Síðan hefur það gerst, eins og þingmenn vita, að hér á þingi hefur á undanförnum missirum verið rætt um ýmis mál sem snerta okkar öryggisþætti og ég hef tekið þátt í þeim umræðum, m.a. vegna breytinga á skipulagi lögreglunnar með því að efla sérsveit lögreglunnar. Þá komu upp þingmenn og töldu að ég væri að leggja drög að því að stofna íslenskan her og töldu að það mál — það var í mars árið 2004, þá stóðu hér þingmenn, sérstaklega frá Samfylkingunni, og héldu því fram að með því að breyta skipulagi lögreglunnar á þann veg sem gert var með sérsveitinni væri ég að stíga fyrstu skrefin í því að stofna íslenskan her, sem að sjálfsögðu er rangt en sýnir að íslensk stjórnvöld hafa verið hér að laga öryggismál að þeim kröfum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

Ég mun koma fram með frumvarp, væntanlega á þessu þingi, um Landhelgisgæsluna, ný lög um Landhelgisgæsluna þar sem tekið verður á stöðu hennar miðað við núverandi aðstæður. Ég heyri það á hv. þingmönnum, sem hér taka til máls, að þeir telja að Landhelgisgæslan hafi nýju og meira hlutverki að gegna þegar litið er til þeirra breytinga sem eru að verða. Í þessari skýrslu frá 1999 segir, með leyfi forseta:

„Kanna þarf möguleika á hagnýtri þátttöku Íslands í norrænum friðargæslu- og björgunaræfingum með aðild Eystrasaltsríkjanna, en slíkar æfingar eiga sér nú stað undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Sérstaklega þyrfti að athuga hvort til greina kæmi að varðskip Landhelgisgæslunnar, eitt eða fleiri, tækju reglulega þátt í slíkum æfingum.“

Þetta er sett fram árið 1999 og þetta eru sjónarmið sem við þurfum að huga að nú ekki síður en þá. Það er fjallað um fleiri slík atriði þegar menn eru að ræða þessi mál og það er í þessum anda sem síðan hefur verið starfað og stefnunni hrundið í framkvæmd.

Það er líka verið að endurskoða lögin um almannavarnir. Almannavarnir skipta máli þegar litið er til þeirra aðstæðna sem við búum við núna og það munu koma fram tillögur um breytingar á skipulagi almannavarna, annaðhvort nú í vor eða næsta haust, þar sem tekið er mið af nýjum aðstæðum og lagt á ráðin um það hvernig við eigum að standa betur að okkar almannavörnum miðað við núverandi aðstæður. Alþingi er að fjalla núna um lög um nýskipan lögreglumála þar sem verið er að stækka liðsheildir lögreglunnar, verið að breyta skipulagi lögreglunnar, m.a. í kringum Keflavíkurflugvöll, styrkja lögreglustjórn á Suðurnesjum og efla lögreglustjórn þar til að takast á við ný verkefni í ljósi breyttra aðstæðna.

Ég minni á það að á undanförnum árum hefur líka verið unnið að því að koma upp öflugri viðbragðs-, stjórnunar- og samhæfingarmiðstöð í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð hér í Reykjavík. Íslendingar standa mjög vel að vígi þegar litið er til þess að huga að viðbrögðum og samhæfingu og stjórnun á hættutímum og þegar taka þarf á málum sem snerta öryggi borgaranna.

Það sem við erum að fjalla um núna er það hvernig við ætlum að haga framtíðarsamskiptum okkar við Bandaríkjamenn í ljósi þess sem okkur hefur verið tilkynnt um, þ.e. það að þeir treysti sér ekki til að hafa orrustuþotur og þessa þyrlubjörgunarsveit áfram á Keflavíkurflugvelli.

Af hálfu Landhelgisgæslunnar hefur verið lagt mat á það hvað þarf að gera til að fylla það skarð. Þær hugmyndir verða að sjálfsögðu ræddar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og hér á Alþingi því að allt kostar þetta fé og líta þarf til fjárfestinga. Ég er sammála því sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, það á að líta til þess hvaða samkomulagi er hægt að ná við bandarísk stjórnvöld varðandi þessa þætti þegar farið er í endurnýjun á þyrlukosti Landhelgisgæslunnar sem er nauðsynleg. En við fyllum t.d. aldrei eitt skarð sem myndast vegna þessa, við munum ekki vera hér með þyrlusveit sem getur notað sér eldsneytisvélar eins og hafa verið á Keflavíkurflugvelli.

Bandaríkjamenn eru eina þjóðin í heiminum sem rekur björgunarstarfsemi og nýtur stuðnings frá eldsneytisflugvélum og getur þess vegna sent þyrlur sínar til björgunarstarfa í stærri radíus frá heimahöfn en ella væri. Það eru svona þættir sem við lítum til en við höfum ekki burði til þess að reka slíka flugvél og munum ekki hanna björgunarstörf okkar með það í huga, heldur huga að því við endurskipulagningu á skipum Landhelgisgæslunnar að þyrlur geti fengið eldsneyti frá þeim skipum og verði búnar með þeim hætti að skipin geti komið þar til aðstoðar.

Það hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra á fundum sem hann hefur átt með starfsbræðrum sínum í Noregi og Danmörku undanfarið að menn hafi fylgst náið með því sem er að gerast hér í öryggis- og varnarmálum okkar. Ég tel skynsamlegt að ganga frá formlegum samningi við Dani um samstarf við öryggisgæslu á Norður-Atlantshafi. Danir halda úti skipaflota og eftirliti á svæðinu frá Færeyjum til Grænlands og við eigum að ganga frá formlegum samningi við dönsk stjórnvöld um það hvernig samstarfi okkar og þeirra er háttað, m.a. til að auðvelda öll samskipti Landhelgisgæslunnar og dönsku flotastjórnarinnar og nýta þau tæki og þann mannafla sem best sem þar er til reiðu.

Það eru fleiri slík atriði sem við eigum að líta til þegar við veltum fyrir okkur öryggi á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Það er eitt viðfangsefni sem við gætum átt samstarf við aðrar þjóðir um og við eigum hiklaust að ganga til slíks samstarfs við nágrannaþjóðir okkar.

Ég tel að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að við því sé að búast að Evrópuþjóðir taki að sér að hlaupa í skarðið fyrir Bandaríkjamenn. Í fyrsta lagi tel ég það ónauðsynlegt vegna þess að varnarsamningurinn er áfram í gildi. Varnarsamningurinn byggist á ákveðnum forsendum, tilmælum frá Atlantshafsbandalagsríkjunum um að Bandaríkjamenn og Íslendingar taki höndum saman um að tryggja öryggi hér á þessum slóðum, fyrir utan það að Evrópuþjóðir NATO ráða ekki yfir neinu því afli og ekki neinu sameiginlegu afli sem getur komið í staðinn fyrir Bandaríkjamenn hér á landi. Ef það er þjóð í nágrenni okkar sem hefur sérstakan áhuga á öryggismálum okkar, fyrir utan Norðmenn og Dani sem ég hef þegar nefnt, er það sú breska. Spurning er hvort við eigum að taka upp nánara samband við Breta. Það hefur verið okkur erfitt í gegnum síðustu áratugina, m.a. vegna landhelgisdeilnanna og þorskastríðanna. Það hefur ekki verið upp á það að hlaupa að menn hafi yfirleitt rætt um það hér á landi að hafa samstarf á milli Íslendinga og breska flotans. Þvert á móti hefur verið spenna í samskiptum okkar. Í ár eru 30 ár frá því að þeim deilum lauk og það stendur m.a. til að senda varðskipið Óðin til Hull í sumar til að minnast þeirra tímamóta og taka þátt í ákveðnum athöfnum þar í tilefni af þessum tímamótum og öðrum.

Ég tel unnt að efla samskipti við Breta. Þeir hafa sérstakra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Þeir hafa líka sent eftirlitsflugvélar hingað reglulega um árabil, og einnig Hollendingar. Sjálfsagt er að líta til þess en ég er þeirrar skoðunar að engin Evrópuþjóð komi í staðinn fyrir Bandaríkjamenn þegar litið er til þessa tvíhliða varnarsamstarfs sem við höfum átt við þá núna í 55 ár á grundvelli samningsins.

Ég tel að þetta sé viðfangsefni sem við eigum að leysa og horfa til framtíðar. Við eigum sjálf að axla meiri ábyrgð á öryggi okkar og óhikað að ræða um það. Við eigum ekki að hafa einhver bannorð í umræðunni um öryggismál okkar. Við eigum að ræða um alla þætti þeirra og hvar við getum látið að okkur kveða. Við eigum að taka af festu og ábyrgð á þeim viðfangsefnum sem við blasa án þess að halda að hér hafi orðið þau þáttaskil að nú sé tími til kominn að leggja árar í bát.



[12:36]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var satt að segja alveg ótrúleg ræða hjá hæstv. dómsmálaráðherra sem hann flutti hérna á 10 mínútum. Allt af því sem hann sagði að nú ættu menn að fara að velta fyrir sér, fara að skoða og reyna að finna lausnir á hefur Samfylkingin síðustu fimm árin bent á að ætti að vera aðfari að þeirri stöðu sem núna er uppi.

Eitt var þó rétt sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði. Hann sagði að þau tíðindi sem gerðust í gær þyrftu ekki að koma neinum manni á óvart. Það var alveg hárrétt. Þetta hefur legið í straumi tímans og það hafa allir skilið nema einn maður. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki skilið það. Þegar hæstv. dómsmálaráðherra heldur ræðu sína um að hugsanlega væri hægt að tala við Breta, kannski ætti líka að tala við Dani og svo væri örugglega líka hægt að tala við Færeyinga, eru þetta allt saman vangaveltur sem koma fram af skyndingu þegar menn standa allt í einu andspænis vandamáli og þeir hafa ekki hugsað fyrir hvernig á að leysa það.

Frú forseti. Við höfum alltaf sagt það og verið sammála, stóru flokkarnir hér á þingi, um að burðarásar í utanríkisstefnu Íslendinga eigi að vera Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn líka. Við höfum líka alltaf verið sammála um eina túlkun á varnarsamningnum. Við, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, höfum túlkað það svo að í varnarsamningnum frá 1951 felist að ekki sé hægt að taka einhliða ákvarðanir um viðbúnað hér á landi. Það hefur verið burðarásinn í viðhorfi okkar til varnarsamningsins sem sjálfstæðrar þjóðar að þarna væru tveir að leik og báðir þyrftu að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Hæstv. dómsmálaráðherra sagði sjálfur í kjölfar atburðanna vorið 2003 að Bandaríkjamenn hefðu ekki rétt til að taka einhliða ákvörðun. Hæstv. dómsmálaráðherra ræddi ekkert um þetta núna. Hæstv. utanríkisráðherra, sem er kvíðinn og örvæntingarfullur yfir því að hafa fallið á sínu fyrsta prófi sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki nefnt það heldur. En þannig er það. Það sem gerðist núna, samkvæmt þeim skilningi sem flokkarnir þrír hafa alltaf lagt í varnarsamninginn frá 1951, er að Bandaríkjamenn brutu samkomulag.

Þegar hæstv. ráðherrar tala um að það sé merkilegt að formaður Samfylkingarinnar skuli ekki tala um Atlantshafsbandalagið eða varnarsamninginn liggur það alveg skýrt fyrir í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar að þetta tvennt hefur að okkar viti verið burðarásar í hinni sameiginlegu utanríkisstefnu. En hverjir setja spurningarmerki við varnarsamninginn í dag? Það er hæstv. utanríkisráðherra sem kemur í fjölmiðla og spyr: Er eitthvert hald í varnarsamningum ef ekki eru sýnilegar varnir? Forveri hans, Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, tók miklu skýrar til orða. Hann sagði einfaldlega: Fari þeir sem fara vilja, þegar við lá að hér kæmi fram fyrir nokkrum missirum að hér yrðu engar þotur.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins talaði líka alveg skýrt. Hann sagði: Það er ekkert hald í varnarsamningnum ef hér verða ekki fjórar þotur. Þá skipti engu þótt þetta væru vopnlausar þotur sem tæki 12 tíma að gera í stand til að komast í loftið. Það eru þessir menn, sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra í ræðu sinni áðan og í Morgunblaðinu í dag, sem setja spurningarmerki við varnarsamninginn. Það er eðlilegt. Varnarsamningurinn er í uppnámi. Það er svo einfalt mál. Hann er að vísu svo úr garði gerður að alltaf hefur þurft að túlka hann með bókunum. Það hefur engin bókun verið í gildi í fimm ár. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur ekki tekist að ná fram neinni niðurstöðu.

En það sem er merkilegt við atburðarásina núna er að hún sýnir ótvíræðan dómgreindarbrest hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur komið hingað aftur og aftur og sagt að það væri landsýn í málinu. Hann var t.d. spurður að því í útvarpi 17. nóvember hvort hann teldi að varnarliðið væri að fara. Alls ekki. Hann taldi góðar vonir til að það héldi áfram dvöl sinni hér á landi. Hann hefur greinilega annað mat en hæstv. dómsmálaráðherra segist nú hafa lengi haft.

Hæstv. utanríkisráðherra kom glaður og reifur í fjölmiðla í byrjun febrúar. Hann hafði þá hitt vini sína. Hann hafði hitt Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra og gerði mikið úr hinu persónulega sambandi sínu við hann. Nicholas Burns hafði sagt hæstv. utanríkisráðherra að hann skyldi bara vera rólegur, málin væru á góðri leið.

Enn kom hæstv. utanríkisráðherra í fjölmiðla, sýnu reifari. Hann hafði hitt Condoleezzu Rice. Hann hafði borðað með henni kvöldverð á NATO-fundi og hún hafði fullvissað hann um að samningar væru í gangi.

Frú forseti. Þeim manni sem stýrði viðræðum Íslendinga við Bandaríkjamenn mátti vera ljóst hvað var í bígerð þegar Bandaríkjamenn, öllum að óvörum, settu fram svo óbilgjarnar kröfur að sendinefnd hæstv. utanríkisráðherra rauk á dyr af því að hún átti ekki von á þessum viðbrögðum. Máttu menn þá ekki skilja hvað væri í gangi? Að sjálfsögðu. En það var dómgreindarbrestur hjá hæstv. utanríkisráðherra að skilja þetta ekki og halda áfram að gefa rangar vísbendingar til okkar Íslendinga. Hann mat stöðuna vitlaust.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir hér að í ráðuneyti hans hafi verið gerð áætlun um viðbúnað. Sú áætlun, um eflingu Landhelgisgæslunnar, um eflingu flugflotans, er nákvæmlega það sama og kemur fram í skýrslu sem hópur á vegum Samfylkingarinnar undir forustu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur lagði til.

Það sem hæstv. ráðherra er núna að tala um, samstarf við Dani, er nákvæmlega sama og við höfum sagt áður. Nú kemur hæstv. dómsmálaráðherra og segir: Við höfum sýnt mikla fyrirhyggju. Hafi hann sýnt fyrirhyggju er a.m.k. ljóst að það er til staðfesting á prenti á því að hæstv. utanríkisráðherra tók ekki undir þá fyrirhyggju.

Þegar Georg Lárusson, yfirmaður Landhelgisgæslunnar, lagði fram hugmyndir sínar í erindi, um eflingu Landhelgisgæslunnar, til að vera viðbúinn þeirri stöðu sem núna er komin upp og sagði að við þyrftum nýtt skip, þrjár þyrlur og ýmislegt fleira kom hæstv. utanríkisráðherra og nánast setti ofan í við yfirmann Landhelgisgæslunnar. Hann sagði að það væri ótímabært. Hann var spurður að því af Ólöfu Rún Skúladóttur í Ríkisútvarpinu hvort hann teldi ekki nauðsynlegt að gera a.m.k. áætlanir um þetta og hæstv. utanríkisráðherra svaraði nei. Hann teldi það ekki. Það er í því viðtali sem hann enn einu sinni endurtekur að hann telji að varnarliðið sé ekkert að fara þegar allir á Íslandi, meira að segja hæstv. dómsmálaráðherra, telja að herinn sé að sjálfsögðu á förum.

Það er alveg ljóst að þeir sem hafa haldið á þessu máli fyrir Ísland hafa haldið illa á því. Þeir hafa sýnt dómgreindarbrest. Þeir hafa sýnt fyrirhyggjuleysi. Þetta er áfall fyrir utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf reynt að draga upp þá mynd af sér gagnvart þjóðinni að hann væri farsæll og traustur flokkur stöðugleika í efnahagsmálum og varnarmálum. Við sjáum stöðugleikann í efnahagsmálunum með því að fylgjast með flugi krónunnar upp og niður þessa dagana.

Núna, frú forseti, sjáum við stöðugleika Sjálfstæðisflokksins í varnar- og öryggismálum. Sú skýrsla sem hæstv. dómsmálaráðherra með réttu vísaði til að hefði verið sett fram 1999 fól í sér mjög jákvæðar og góðar leiðbeiningar til framtíðar. Hvað hefur verið gert með hana? Ekkert. Þar segir t.d. að það eigi að endurmeta stöðuna á fimm ára fresti. Það hefur ekki verið gert. Núna standa þessir herramenn og velta fyrir sér hvort rétt sé að gera hitt eða þetta sem þeir áttu fyrir lifandis löngu að vera búnir að gera.

Hæstv. utanríkisráðherra verður að tala skýrt. Hvaða gildi sér hann í varnarsamningnum? Hann hefur sjálfur sagt að ef þoturnar verða ekki hérna sé ekkert hald í honum. Hann hefur sjálfur talað um sýnilegar varnir. Hvað dugar honum sem sýnilegar varnir? Hvað vill hann leggjast lágt? Er nóg að hafa bandaríska fánann og nokkra húskumbalda?



[12:46]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar fellir stóra dóma, horfir ekki til framtíðar í þessu máli og þessari umræðu sem er hér í dag en ég tel að eins og staðan er í dag feli hún í sér miklar og stórar áskoranir fyrir okkur.

Það sem liggur fyrir núna er að Bandaríkjamenn hafa ákveðið að flytja allar herþoturnar í burtu og þyrlusveitina ásamt öllum mannskap og búnaði sem fylgir en það er líka ljóst að varnarsamningurinn er áfram í gildi. Í viðræðum á næstunni kemur í ljós hver niðurstaðan um hann verður og hvernig hernaðarvarnir Íslands verða tryggðar á grundvelli þess samnings. Það er framtíð annars vegar og framkvæmd varnarsamningsins sem verður rætt í viðræðum núna á næstunni.

Annað sem skeður er að rekstur Keflavíkurflugvallar færist á okkar hendur og fyrir fjölmarga af starfsmönnum varnarliðsins þýðir þetta ekki annað en nýjan vinnuveitanda en það er auðvitað ljóst að hvað aðra varðar má segja að brotthvarfið komi ekki á alversta tíma heldur á tiltölulega hentugum tíma vegna góðs atvinnuástands í landinu. En eins og ég sagði finnst mér þessar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir fela í sér stórar áskoranir. Ég get þó tekið undir að þær voru ekki alls kostar ófyrirséðar og þær þykja auðvitað hafa borið nokkuð bratt og brátt að miðað við hvernig þetta leit út til skamms tíma. En mér virðist líka þurfa að halda því á lofti í þessari umræðu, og hefur að vísu verið lengi ljóst, að öryggishugtakið hefur breyst og fengið allt aðra, nýja og víðtækari merkingu með breyttri heimsmynd og nýjum ógnum og við þurfum að takast á við það eftir öðrum leiðum en með hefðbundnum hernaðarvörnum. Við þurfum að halda áfram að skilgreina þessar ógnir markvisst og við þurfum líka að skilgreina þá hagsmuni sem við ætlum að standa vörð um. Öryggi okkar snýst um annað og meira en viðbúnað á Keflavíkurflugvelli. Það snýst heldur og ekki síður um aðgerðir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma, gegn mengun hafsins, gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum og það snýst um baráttu fyrir mannréttindum og lýðræði.

Nýjar ógnir kalla líka á ný úrlausnarefni í stjórnsýslunni og hér á Alþingi og í umræðunni almennt og þær gera kröfur til samstarfs og samhæfingar þeirra krafta sem við sjálf ráðum yfir. Loftvarnir eru áfram þýðingarmiklar. En við þurfum líka að huga að því að tryggja samhæfingu þeirra og samstarf við þá sem er öðrum fremur ætlað að bera ábyrgð á innra öryggi okkar og hafa fyrr verið nefndir í umræðunni. Það er lögreglan, það er Landhelgisgæslan, hjálparsveitirnar, slökkviliðið, almannavarnir. Við þurfum að huga að því að styrkja samstarf og samhæfingu þessara aðila og samstarf og samhæfingu við það samstarf sem við erum í á grundvelli varnarsamningsins. Ég vil að því leyti sem hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um þetta áðan taka undir orð hans. Við þurfum áfram að hafa samstarf við aðrar þjóðir og okkur er ýmissa kosta völ. Við erum aðilar að Schengen-samstarfinu. Við erum áfram aðilar að Atlantshafsbandalaginu, og í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn á grundvelli varnarsamningsins hljóta menn að ræða — ég hef ekki heyrt annað á orðum hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra — hvernig við ætlum að koma á samstarfi um þessar nýju ógnir, ekki ógnir úr lofti, ekki hernaðarógnir heldur þessar nýju ógnir sem ég hef núna farið yfir. Sú breyting hlýtur að verða á varnarsamstarfinu sem nýjar ógnir kalla á.

Ég held líka að við eigum að líta meira til norræns samstarfs. Við höfum verið að leggja drögin að og efla norrænt lögreglusamstarf og við erum að reyna, til að geta auðveldað það samstarf, að koma í gegnum þingið frumvarpi, sem auðvitað fer í gegnum þingið, um að koma á fót svokallaðri greiningardeild sem á m.a. að greina þessar nýju ógnir. Ég get ekki séð að það sé hægt annað en að líta mjög áleitið til annars norræns samstarfs eins og t.d. um eftirlit á hafsvæðinu og um leit og björgun. Við höfum eflt sérsveit lögreglunnar. Við höfum hrint í framkvæmd skipulagsbreytingum í lögreglunni og til stendur að koma á fót þessari greiningardeild. Við erum með þessu og ýmsu öðru sem við þurfum að takast á við, miðað við þessar nýju áskoranir og aðstæður, að gera okkur það kleift að mæta þessum nýju ógnum.

Frú forseti. Ég lít á þetta sem áskoranir sem við þurfum að takast á við miðað við þessa breyttu heimsmynd og svo þessar breyttu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir frá og með deginum í gær.



[12:51]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var áðan vísað til afstöðu stóru flokkanna á Alþingi sem stutt hafi NATO-aðild og hersetu á Íslandi um áratugaskeið en ég vil segja fyrir hönd flokks sem er ekki ýkja stór að allir flokkar, stórir og smáir og einnig óháð því hvort þeir eigi stóran eða smáan málstað að verja, eigi að sameinast í þeirri vinnu að skilgreina öryggishagsmuni íslensku þjóðarinnar. Því erum við fylgjandi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og höfum margoft flutt tillögur þess efnis.

Mér hefur heyrst við þessa umræðu að fulltrúar flestra flokka annarra hafi horft til þess hvaða NATO-ríki eigi nú að passa upp á Ísland, hvort við eigum að beina sjónum okkar til einhvers NATO-ríkis í Evrópu ef það verður ekki NATO-ríkið Bandaríkin. Við teljum að ef við ætlum að taka upp alvöruumræður um öryggishagsmuni Íslands þurfi allt að vera undir, einnig sú hugmynd og hugsjón sem við nærum í brjósti í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga.

Sú vá sem er alvarlegust og við stöndum frammi fyrir er að sjálfsögðu umhverfisváin. Hvað hernaðarógnina áhrærir steðjar okkur helst hætta af of nánu samstarfi við NATO og ráðandi öfl innan þess hernaðarbandalags og þar er ég að sjálfsögðu að vísa til Bandaríkjanna og fylgispektar íslensku ríkisstjórnarinnar við stefnu þessa herveldis.

Hæstv. forseti. Ég tek undir sitthvað sem fram kom í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra, að nú þurfi Íslendingar að horfa til ýmissa þátta sem varða öryggi okkar. Hann nefndi almannavarnir. Hann nefndi nauðsyn þess að efla Landhelgisgæslu Íslands. Hann nefndi ekki en ég vil nefna Flugmálastjórn og ég vil einnig skjóta því til hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að hverfa frá öllum áformum um að einkavæða eða hlutafélagavæða þessa þjónustu, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem við nú stöndum frammi fyrir og þess að Íslendingar munu að öllum líkindum, og vonandi, standa meira og í ríkari mæli á eigin fótum í framtíðinni. Þegar liggja fyrir hugmyndir um að hlutafélagavæða Flugmálastjórnina á Íslandi. Einnig hafa verið orðaðar hugmyndir um að gera slíkt hið sama við Landhelgisgæslu Íslands. Ég vek athygli á því að innan hins heilaga NATO í Bandaríkjunum og í Evrópu hafa menn verið að hverfa frá slíkum áformum og vinda ofan af hlutafélaga- og einkavæðingarþróuninni innan þessa geira sem er skilgreindur sem grunnþættir í öryggiskerfi þjóðanna. Þá ætla Íslendingar að halda út á braut einkavæðingar með grunnstoðir af þessu tagi og ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að slík áform verði nú sett á hilluna.



[12:55]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið það tækifæri fram hjá mér fara að fá að nota ræðutíma minn til fulls og kem því hér upp öðru sinni. Mig langaði aðeins til að útskýra nánar hvað ég átti við þegar ég talaði í fyrri ræðu minni um að við ættum að leita til Evrópuþjóða NATO. Að sjálfsögðu ímynda ég mér ekki að slíkt komi alfarið í staðinn fyrir það starf sem Bandaríkjamenn hafa innt af hendi, eða kannski inntu frekar af hendi því að segja má að þeir séu í raun farnir og hafi farið fyrir allmörgum árum.

Bandaríkjamenn hafa að sjálfsögðu haft aðrar áherslur en Evrópuþjóðir mundu hugsanlega hafa í svona samstarfi. Það sem ég á við er að við reynum að leita leiða með viðræðum við yfirstjórn NATO, við Evrópuþjóðir innan NATO um það hvort ekki finnist einhverjir fletir á samstarfi varðandi viðbúnað, öryggisgæslu, eftirlit og björgunarstörf.

Núna í hádeginu bárust fréttir af því að Norðmenn eru uggandi vegna þeirra frétta sem nú berast frá Íslandi. Yfirstjórn norska hersins er uggandi út af þessu. Brottför Bandaríkjamanna skapar nefnilega algerlega nýja stöðu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og það er staðreynd sem við getum ekki litið fram hjá, hvorki við né heldur nágrannar okkar í Evrópu, til að mynda á Norðurlöndunum en líka Bretlandi, Skotlandi, Þýskalandi, Hollandi. Það er bara þannig.

Norðmenn hafa t.d. lýst því yfir nú þegar að bara það að þyrlusveit Bandaríkjamanna, sem hefur mjög langdrægar vélar með eldsneytisvélar sér til aðstoðar, hverfur héðan núna gerir það að verkum að mjög erfitt verður að halda úti fullnægjandi björgunarþjónustu í hafinu norður af Íslandi. Norðmenn hafa áhyggjur af því. Vegna hvers? Jú, vegna þess að skip þeirra eru oft á ferli á þeim slóðum, til að mynda í Íshafinu umhverfis Jan Mayen og jafnvel enn norðar. Við höfum líka hafsvæði á milli Íslands og Noregs. Hér var áðan talað um Færeyjar. Það hefur verið bent á það að Danir halda úti öflugri gæslu við Grænland, ekki bara við Austur-Grænland heldur líka við Vestur-Grænland. Gætum við Íslendingar ekki, eins og hæstv. dómsmálaráðherra benti á, einmitt náð einhverjum samningi við Dani um þetta starf?

Nú er verið að tala um að smíða þurfi nýtt skip fyrir Landhelgisgæsluna. Ég held að þessar fréttir hér geri það að verkum að við þurfum að íhuga hvort við þurfum ekki að smíða fleiri skip. Við þurfum fleiri þyrlur. Gæti ekki hugsast að einmitt nágrannaþjóðir okkar væru reiðubúnar til að taka þátt í þessum kostnaði, taka þátt í því að greiða kostnaðinn af rekstri þessara skipa og þessa flugvélakosts en þetta starf yrði síðan unnið af okkur Íslendingum? Í hádeginu bárust líka fréttir af því að allir íslenskir starfsmenn varnarliðsins hætti störfum í haust, fleiri hundruð manns á Suðurnesjum sem verða atvinnulaus.

Virðulegi forseti. Hérna þurfum við að taka skjótar og djarfar ákvarðanir. Því miður, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, höfum við glutrað niður allt of miklu af dýrmætum tíma því að allir sem vildu sjá það vissu og sáu hvert stefndi með viðveru Bandaríkjamanna hér á Íslandi. Ég held að ríkisstjórninni beri hreinlega skylda til þess að hafa strax samband við yfirstjórn NATO og notfæra sér sambönd sín við æðstu ráðamenn í nágrannalöndum okkar ekki seinna en strax til að leita lausna á þeim bráða vanda og ég vil segja þeirri hættu sem nú steðjar að í öryggismálum, ekki bara okkar heldur Vestur-Evrópu. Þetta er hlutverkið og það er þetta sem við ættum að beina sjónum að núna, hvernig við getum unnið úr þessari vandasömu stöðu sem skyndilega er komin upp. Þetta þurfti ekki að koma okkur svo mjög á óvart en því miður fæ ég ekki annað séð og heyrt á orðum ráðherra hér í dag en að þeir séu nánast ráðþrota í stöðunni. Þeir hafa valið þá leið að binda trúss sitt um of við Bandaríkjamenn. Það er í sjálfu sér mjög slæmur hlutur en eins og ég segi megum við ekki láta hendur fallast, við megum ekki leggja árar í bát. Þetta gefur okkur ákveðin sóknarfæri, ákveðna möguleika og við eigum að einbeita okkur að því að reyna að finna lausnir á þessu núna. Tíminn líður hratt og við megum ekki lengur missa neinn tíma í þessu máli.



[13:00]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Það hefur um margt verið athyglisvert að fylgjast með þessum umræðum hér í dag. Hér erum við að ræða grafalvarlegt mál sem varðar miklu um framtíðaröryggis- og varnarhagsmuni íslensku þjóðarinnar. Mér virðist umræðan af hálfu stjórnarandstöðunnar vera nokkuð tvískipt, annars vegar eru þeir sem koma bara hreint út og segja að þeir fagni þeirri niðurstöðu sem komin er. Það eru þeir aðilar sem alla tíð hafa verið á móti og andvígir samstarfinu við Bandaríkjamenn um varnarmál og á móti aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Þessir aðilar eru þrátt fyrir allt sjálfum sér samkvæmir.

Síðan eru hér líka þingmenn sem virðast ekki geta gert upp við sig í hvorn fótinn þeir vilji stíga í þessu máli, nota tækifærið og gagnrýna ríkisstjórnina, saka ráðherrana um dómgreindarbrest og annað þess háttar, en sitja svo kannski sjálf uppi með, eins og hv. formaður Samfylkingarinnar og forveri hennar, stjórnmálaflokk sem gat ekki einu sinni komið sér saman um það á landsfundi sínum hvort hann ætlaði yfirleitt að hafa nokkra stefnu í öryggis- og varnarmálum (Gripið fram í.) og hætti bara við það, hætti við að álykta um öryggis- og varnarmál. Það er kannski ekkert erfitt að átta sig á því, ef maður les gögnin frá þeim, því í plaggi sem ég hef undir höndum frá landsfundi Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) og hv. þingmönnum finnst svona hlægilegt, stendur, með leyfi forseta:

„Um afstöðu til herbúnaðar Bandaríkjastjórnar á Íslandi eru skiptar skoðanir innan hópsins,“ (Gripið fram í.) þ.e. þess hóps sem var að vinna að framtíðarstefnu fyrir Samfylkinguna. „Sumir vilja helst slíta öllu hernaðarsamstarfi við Bandaríkin, en aðrir vilja viðhalda því eins og kostur er.“ (Gripið fram í: … Davíð Oddsson …) Það er ekki nema eðlilegt að þessir aðilar, þessi stjórnmálaflokkur, geti ekki komið sér saman um neina stefnu í þessu máli. Það mál sem er hér til umfjöllunar er að sjálfsögðu miklu alvarlegra en svo að einhver orðaskipti eða undirbúningur á landsfundi Samfylkingarinnar skipti þar nokkru máli. (Gripið fram í.) Það er þannig, virðulegi forseti, að það er grundvallarskylda ríkisstjórnar í hverju landi, og ríkisvaldsins, að tryggja öryggi borgaranna, bæði inn á við og út á við. Samningurinn sem við gerðum við Bandaríkjamenn á sínum tíma um varnir Íslands hafði auðvitað að markmiði að tryggja varnir Íslands gagnvart ógn utan frá. Nú hefur heimsmyndin að sjálfsögðu breyst, það vitum við öll, og það er sennilega alveg rétt sem einhver þingmaður sagði hér í umræðunni, að það stafar engin hefðbundin árásarhætta að okkur hér í Norður-Atlantshafinu. Ég tel að það sé rétt, að Íslandi stafi engin hætta frá öðru sjálfstæðu ríki um þessar mundir, engin hætta sem falla mundi beint undir 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem kveður á um gagnkvæma skyldur ríkjanna til að koma hvert öðru til hjálpar.

Það eru breyttar aðstæður og það er margs konar önnur ógn hér í okkar heimshluta, eins og hæstv. dómsmálaráðherra fór mjög vel yfir og sem sumt hvað heyrir undir hans ráðuneyti að glíma við. Ógnin hefur breyst, en vitum við hvernig hún verður eftir nokkur ár? Ég tók ekki betur eftir en svo að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefði einmitt vitnað til þess að ógnin er breytileg. Vitum við hvaða afstöðu ríkisstjórnir og ríkisvald í þeim löndum sem áður voru okkur andstæð og andvíg munu hafa eftir 5, 10 eða 15 ár? Viljum við taka áhættuna af því að á breyttum tímum þá séu Íslendingar varnarlausir?

Auðvitað viljum við það ekki. Verkefnið er að búa þannig um hnútana að þjóðin verði ekki varnarlaus, (Gripið fram í: Er hún það núna?) hvort sem það gerist með samkomulagi í eitthvað breyttri mynd við Bandaríkin eða með öðrum hætti.

Það sem er mikilvægt við það sem kom fram í gær af hálfu Bandaríkjastjórnar var að sjálfsögðu sá kjarni málsins að Bandaríkin ætla ekki að hlaupa frá varnarsamningnum þó að þeir ætli að skipta hér um varnarviðbúnað í takt við það sem þeir telja að séu breyttar og nýjar aðstæður. (Gripið fram í.) (MÁ: Hvað kemur í staðinn? Hvað kemur í staðinn? Hvað sagði …?)

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa hæstv. utanríkisráðherra frið til að ljúka máli sínu.)

Það hefur verið afstaða okkar í ríkisstjórninni að við þyrftum að hafa hér sýnilegar lágmarksvarnir, tilteknar varnir sem hefðu þann fælingarmátt sem þyrfti til að hingað kæmu ekki andstæðingar eða óvinir okkar með einhverjum hætti sem við getum ekki séð nákvæmlega fyrir hver yrði. (Gripið fram í.) Þannig þurfa allar þjóðir að huga að vörnum sínum. Við höfðum talið að það yrði best gert með viðveru þeirra fjögurra orrustuflugvéla sem hér hafa verið til þessa. Það má þó auðvitað hugsa sér aðra útgáfu af slíkum vörnum, og viðræðurnar sem nú munu fara í hönd snúast nákvæmlega um það. Með hvaða hætti verður það gert, verður það gert með flugvélum sem ekki hafa hér fasta bækistöð eða fasta viðveru, heldur koma hingað með öðrum hætti eða í samstarfi við aðrar þjóðir í Atlantshafsbandalaginu? Þessum spurningum þurfum við að fá svör við og niðurstöðu um á næstu vikum og mánuðum.

Ég er alveg sannfærður um að ef til slíkra viðræðna verður gengið af beggja hálfu, og allra aðila hálfu með það að markmiði að ná viðunandi niðurstöðu mun hún nást. Þá skiptir engu máli hvað menn láta sér detta í hug í Samfylkingunni í Reykjavík.