132. löggjafarþing — 88. fundur
 16. mars 2006.
uppboðsmarkaðir sjávarafla, 1. umræða.
stjfrv., 616. mál (EES-reglur). — Þskj. 901.

[16:28]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 79 24. maí 2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Hér er verið er að leggja til breytingu á a-lið 3. gr. laganna en þar er kveðið á um hverjir hafi rétt og leyfi til að reka uppboðsmarkaði sjávarafla. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að það sé einungis heimilt íslenskum ríkisborgurum sem eiga lögheimili hér á landi og að erlendir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hér á landi og hafa átt það samfellt í eitt ár geti jafnframt með undanþágum fengið leyfi til að reka uppboðsmarkaði.

Það er alveg ljóst að í gildandi lögum er gengið of langt í því að setja reglur um búsetu og ríkisfang þeirra sem starfrækja fiskmarkaði. Það er ekki í samræmi við tilskipanir og reglur Evrópska efnahagssvæðisins og þess vegna er það lagt til í frumvarpi þessu að því sé breytt á þann veg að leyfi til reksturs fiskmarkaðar skuli jafnframt ná til einstaklinga sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og jafnframt til Færeyinga.

Hér er ekki verið að gera mikla efnisbreytingu, fyrst og fremst er verið að opna skilyrðin varðandi rekstur fiskmarkaða. Fiskmarkaðir eru eins og allir vita starfsemi sem er í eðli sínu alþjóðleg eins og málum er háttað núna. Þetta eru markaðir sem í mjög mörgum tilvikum eru fjarskiptamarkaðir og út af fyrir sig er hægt að starfrækja þá frá starfsstöð sem ekki endilega er hér á landi og því er af þeim ástæðum óeðlilegt að setja þau skilyrði sem sett eru í gildandi lögum og hins vegar er hér ekki um að ræða hefðbundinn sjávarútveg en eins og allir vita gilda sérstakar reglur um takmarkanir á fjárfestingu útlendinga í sjávarútvegi. Það er þess vegna augljóst að ekki er verið að opna á neinar breytingar í þeim efnum heldur eingöngu að því sem snýr að þessum mörkuðum sérstaklega. Síðan er útskýrt nánar í athugasemdum við lagafrumvarpið hvernig þessu víkur við með hliðsjón af Evrópska efnahagssvæðinu og skyldum hlutum. Það er því ekki ástæða til að rekja þetta frekar efnislega.



[16:30]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ósanngjarnt að spyrja núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra þessarar spurningar en engu að síður geri ég það samt. Lögin sem hér er verið að flytja breytingartillögu við eru tæplega ársgömul og þess vegna er dálítið skrýtið að nú skuli vera nauðsyn á að breyta einni grein þeirra og því spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt í fyrra þegar þau voru samþykkt eða er kannski alltaf eitthvað athugavert í svona frumvörpum þegar þau eru afgreidd vegna þess að áðan, rétt áður en umræðu um vatnalagafrumvarpið lauk, kom hæstv. landbúnaðarráðherra og lýsti því hvernig ríkisstjórninni hefði yfirsést í nokkrum atriðum í sambandi við það frumvarp og að því væru mistök en það gæfist tími til að lagfæra það seinna meir?

Eins og ég sagði eru þau lög sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að mæla fyrir breytingartillögu á í einni grein þeirra ekki orðin ársgömul og hér kemur fyrsta breytingartillagan við þau. Var þetta ekki fyrirsjáanlegt fyrir einu ári síðan, virðulegi forseti?



[16:32]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þessari spurningu er nei. Þetta var ekki fyrirséð á þessum tíma. Að minnsta kosti höfðum við sem bárum ábyrgð á málinu á Alþingi, meiri hluti sjávarútvegsnefndar, ekki þann skilning á málinu að það væri eðlilegt að standa þannig að þessari lagagrein, 3. gr. a, eins og gert er ráð fyrir að gera skuli með því frumvarpi sem nú er verið að mæla fyrir og ræða um. Við hefðum að sjálfsögðu hagað lagasetningunni öðruvísi ef við hefðum séð þetta fyrir og talið að þetta væri ekki í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og lúta að Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég hef reynt að fara aðeins í huganum yfir þessa umræðu eins og hún átti sér stað í fyrra. Mig rekur ekki minni til að þetta hafi verið gert að sérstökum ásteytingarsteini, það kann þó að vera, ég man það ekki. En það var a.m.k. ekki, eins og ég man þá umræðu, eitt af stóru málunum sem við vorum að fást við þegar frumvarpið var til umræðu í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma. En út af fyrir sig er eðlilegt, þegar einhver reynsla er komin á lög og menn farnir að vinna eftir þeim, að upp geti komið tilvik sem menn sáu ekki fyrir á Alþingi þó að við reynum alltaf að vanda okkur við lagasetninguna. Þá eiga menn einfaldlega að vera menn til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru, bæði til að vinna í samræmi við þær fjölþjóðlegu og alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og eins að breyta lögum í samræmi við það sem við teljum að til betri vegar megi horfa.



[16:33]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svarið. Auðvitað er þetta eitthvað sem mönnum hefur yfirsést síðast og þegar það gerist, eins og hæstv. ráðherra nefndi, þá eru þeir menn að meiri að breyta því. Það var einmitt það sem við urðum áskynja um áðan í vatnalögunum með hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann kom áður en umræðu lauk og viðurkenndi að ríkisstjórninni hefði sést yfir nokkra þætti þar. Það má því vænta að svo hafi verið. Það má eiginlega segja, því miður, að svo sé með ýmis frumvörp sem koma frá hæstv. ríkisstjórn að fyrir utan það að mörg séu þau vitlaus, eins og vatnalagafrumvarpið, þá eru þau þar að auki meingölluð og þyrfti að lagfæra þau áður en þau verða að lögum.



[16:34]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að metið sem hæstv. landbúnaðarráðherra setti áðan verði seint slegið, þ.e. að koma því til skila að lög sem ekki var búið að staðfesta við 3. umr. væru svo vitlaus að það þyrfti að endurskoða þau strax, en samt gerðu menn það hér. Það er ekki látið standa á því að klára það sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingheim jafnvel þó ráðherra úr ríkisstjórninni komi og segi frá slíku.

En þetta var ekki beinlínis erindi mitt í stólinn þó það hafi gefið tilefni þar sem hér er á ferðinni breyting á lögum sem eru ekki nema ársgömul. Það sem ég vildi gjarnan fá svar við hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra af því að ég átta mig ekki alveg á því, ég taldi að sjávarútvegurinn væri undanþeginn í EES-samningnum og ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Tilheyrir fiskmarkaður ekki sjávarútveginum samkvæmt EES-samningnum? Er það niðurstaðan og hvernig er skilgreiningin á honum? Hvað er undanþegið samkvæmt EES-samningnum? Ef fiskmarkaðirnir eru ekki undanþegnir, eru þá fiskvinnslurnar undanþegnar? Hvað er eiginlega undanþegið af sjávarútveginum? Ég hef litið þannig á að meðferð sjávarafla sé hluti af sjávarútvegsstarfsemi í landinu. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að greina okkur nákvæmar frá því hvernig á því stendur að þetta fer í bága við EES-samninginn sjálfan því hann er frá 1993 og menn hafa örugglega haft hann til hliðsjónar þegar þessi lög voru undirbúin.



[16:37]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sjávarútvegurinn er undanþeginn varðandi þessar tilskipanir og reglur um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er verið að kveða á um annars vegar fiskvinnslustarfsemi og hins vegar útgerðina. Það er alveg skýrt í þeim efnum að bæði útgerð og fiskvinnsla eru undir þá sök seldar að þar er ekki heimiluð bein erlend eignaraðild.

Hins vegar gegnir öðru máli um ýmsa aðra þætti sem við tölum stundum um sem hluta af sjávarútvegi. Ég gæti t.d. í því sambandi nefnt markaðsfyrirtækin, ef við tökum t.d. fyrirtæki eins og Icelandic. Þar er eignaraðild útlendinga að vísu mjög lítil en hún er til staðar og það er ekkert sem bannar það, öðru nær. Ég hygg að við eigum eftir að sjá ýmis dæmi um að fyrirtæki af þessu tagi, þ.e. markaðsfyrirtæki sem starfa erlendis, eru að mörgu leyti að breyta um svip. Þau eru að verða alþjóðleg fyrirtæki sem versla með fisk, ekki bara íslenskan fisk, og þau munu í vaxandi mæli, hygg ég, sameinast útlendum fyrirtækjum og þannig verður til erlend eignaraðild þar í einhverjum mæli. Þannig er það a.m.k. eins og ég sé málið fyrir mér núna og hefur verið að gerast.

Ef við veltum fyrir okkur hvað fiskmarkaður er í rauninni þá er fiskmarkaður auðvitað fyrst og fremst tæki til að búa til verðmyndun á fiski. Vitaskuld er þetta tengt sjávarútvegi en eins og samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er úr garði gerður þá ná þessar tilskipanir ekki til hans. Þegar við fórum betur yfir þessi mál í ljósi reynslunnar og samkvæmt ábendingum þá kom það einfaldlega á daginn að heimildir til þessarar takmörkunar á fjárfestingum útlendinga náðu í rauninni ekki til fiskmarkaðanna og þess vegna var okkur ekki annar kostur fær en að breyta þessum lögum.



[16:39]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessu. Ég hef komið á nokkra fiskmarkaði og hef tekið eftir því að ýmis þjónusta er veitt á þessum mörkuðum. Þarna er verið að slægja fisk og ísa hann upp á nýtt og vinna alls konar verkefni sem eru hluti af fiskvinnslu í landi, meðferð fisks í landi. Á þetta einungis við þá fiskmarkaði sem selja á bryggjunni eða eru ekki með neina slíka þjónustu? Eða er það þannig að hægt sé að ákveða þetta sisvona og að ekki sé litið á þá fiskvinnslu sem tilheyrir mörkuðunum í dag sem fiskvinnslu? Eru þessar skilgreiningar skýrar og eiga menn þá ekki á hættu að gerðar verði athugasemdir við það ef þeim aðilum sem (Forseti hringir.) reka fiskmarkaði finnst á þeim brotið hvað þetta atriði varðar?



[16:40]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þær skilgreiningar sem við höfum varðandi fiskmarkaðinn séu skýrar. Þau lög sem við höfum verið að setja og reglugerðir sem líka eru um starfsemi fiskmarkaðanna gera það að verkum að starfsemi þeirra er býsna skýr, enda held ég að almennt talað hafi fiskmarkaðarnir verið býsna ánægðir með þá löggjöf sem nú er í gildi og við erum að ræða.

Ef fiskmarkaður væri í þeirri stöðu að eignaraðildin væri að einhverju leyti í höndum útlendinga þá hefði það að sjálfsögðu takmarkandi áhrif á hvaða aðra starfsemi slíkur fiskmarkaður gæti tekið þátt í. Fyrir utan það að ég hygg að ekki séu ótakmarkaðar heimildir fyrir fiskmarkaði til að taka þátt í annarri útgerðarstarfsemi vegna þess að það er ætlunin að fiskmarkaðir hafi þá stöðu að vera sjálfstæðir og óháðir aðilar þannig að einhver hagsmunatengsl valdi ekki þeirri verðmyndun sem þar á sér stað. Ég hygg því að það sem hv. þingmaður er að nefna sé í rauninni ekki vandamál en er hins vegar sjálfsagt að menn velti fyrir sér.



[16:41]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta litla frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra vera svolítið skrýtið. Hér sýnist mér að verið sé að reyna að uppfylla ákvæði vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem nú er orðinn 13 ára gamall samkvæmt lögum frá árinu 1993. Hér er verið að hnýta einhverjum ákvæðum við lög sem voru afgreidd frá hinu háa Alþingi í fyrra og ég hlýt að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum sáu menn þetta ekki fyrir þegar þeir voru að semja þessi nýju lög þá? Hver er skýringin á því?

Hið sama má segja varðandi aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Hér er vitnað í ákvæði stofnsamnings EFTA sem var undirritaður sumarið 2001. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningurinn fyrir EFTA eru hvor tveggja gamlir samningar en samt er eins og menn vakni allt í einu upp við vondan draum núna og átti sig á að breyta þurfi með þessum hætti lögum sem afgreidd voru í fyrra. Hvers vegna var þingið ekki upplýst um það þá? Hvers vegna var sjávarútvegsnefnd ekki upplýst um það þá að þessir meinbugir væru á þessu frumvarpi? Mér finnst þetta undarlegt og þetta vekur upp grunsemdir um að það sem hér er að gerast sé í raun og veru það að einhverjir erlendir aðilar vilji ná fótfestu á Íslandi og séu nú að ásælast það og hæstv. ráðherra reki hér erindi þeirra. Er það rétt?

Svo langar mig að spyrja um þennan fríverslunarsamning við Færeyjar. Hvernig er það, þarf ekki að leggja þennan samning fyrir þingið eða þarf ekki að kynna hann fyrir þinginu? Ég hef ekki enn þá séð þennan samning. Hann var undirritaður í lok ágúst árið 2005. Hvar í ósköpunum er þessi samningur? Hvenær fáum við að sjá hann? Hvað er í þessum samningi? Það hefur hvergi komið fram nema eitthvað óljóst í fréttum.



[16:43]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti út af fyrir sig vísað til fyrra svars míns áðan sem ég veitti við fyrirspurn hv. 3. þm. Norðaust. varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns, af hverju menn sáu þetta ekki fyrir. Það er einfaldlega stundum þannig þegar við erum að fara yfir svona lagasetningar að við sjáum ekki alla hluti og upp koma nýjar hliðar á málum sem gera það að verkum að við þurfum að breyta lögum og til þess erum við m.a. hérna. Við þurfum að breyta lagaumhverfi vegna þess að aðstæður breytast og þær kalla á lagabreytingu.

Ég nenni ekki einu sinni að svara svona rugli eins og hv. þingmaður er orðinn þekktur fyrir, að ætla mönnum alltaf einhverjar annarlegar hvatir. Og að ég sé að ganga erinda einhverra útlendinga til að opna inn á fjárfestingarleiðir í sjávarútvegi er náttúrlega ekki svaravert en er hins vegar mjög dæmigert fyrir hv. þingmann sem aldrei virðist geta rætt hlutina efnislega heldur ætlar mönnum alltaf annarlegar hvatir.

Varðandi spurningu hans um fríverslunarsamninginn við Færeyjar þá hélt ég satt að segja að hann væri kominn fyrir þingið en hann er örugglega alveg á leiðinni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessi samningur felur í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar og þær verða auðvitað ekki uppfylltar fyrr en Alþingi hefur tekið afstöðu til þeirra. Ég fagna hins vegar þessum samningi og tel að hann verði til þess að bæta og auka tengsl Íslendinga og Færeyinga og það er mjög af hinu góða.



[16:45]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hljótum að krefjast þess að við fáum að sjá þennan fríverslunarsamning við Færeyinga og ég segi síðan enn og aftur að mér finnst það mjög undarlegt að menn skuli ekki hafa tekið tillit til EES-samningsins og EFTA-samningsins við gerð þessara laga í fyrra því þetta eru grundvallarsamningar, við erum að tala um grundvallaratriði.

Varðandi það að ég sé að gera hæstv. sjávarútvegsráðherra upp einhverjar annarlegar hvatir þá finnst mér alveg réttmætt að spyrja svona því það er einu sinni þannig að af þeim sitja á Alþingi í dag er hæstv. sjávarútvegsráðherra einn fremsti svikari við málstað. Þetta er maður sem margoft hefur svikið fyrirheit sín og loforð og það er alveg full ástæða til að gruna hann um græsku í hvert sinn sem hann kemur með ný frumvörp. Hæstv. ráðherra er ekki treystandi fyrir næsta húshorn. Það er bara þannig.



[16:46]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög stórmannlegt af hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að reyna að skríða í skjól einhverra annarra þegar verið er að fjalla um lagasetningu sem við samþykktum á Alþingi í fyrra. Það er auðvitað á ábyrgð okkar þingmanna þegar við samþykkjum lög og hv. þingmaður situr í sjávarútvegsnefnd Alþingis og hlýtur að hafa verið í nákvæmlega sömu aðstöðu og ég til að kalla eftir svörum við þeim spurningum sem hann vildi leggja fram varðandi tiltekin efnisatriði. Og hafi hann ekki komið auga á þetta fremur en ég þá er það bara þannig að við erum á sama báti með málið, okkur hefur yfirsést að þarna væri um að ræða atriði sem hefði átt hafa öðruvísi við lagasetninguna og þess vegna erum við að fara yfir þessi lög núna og þess vegna erum við að leggja fram þessar breytingar hérna. Það þarf að gera þessar breytingar af ástæðum sem ég hef þegar rakið. Þetta eru bara efnislegar ástæður og það er eðlilegt að Alþingi breyti lögum þegar menn telja að betur megi fara.



[16:47]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég álít rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál vegna þess að ég held að ef okkur hafa orðið á mistök varðandi þessa samninga og okkur beri að gera það sem hér er verið að leggja til, þá hljóti aðalspurningin í því máli að vera: Hver er starfsemi fiskmarkaðanna í dag? Hvernig starfa þeir? Hvað aðhafast þeir? Hvernig meðhöndla þeir sig o.s.frv.? Ég held að á mjög mörgum fiskmörkuðum sé stunduð starfsemi sem gæti þess vegna flokkast undir fiskvinnslu, þ.e. að fiskmarkaðirnir taka iðulega við fiski af fiskiskipum, flokka hann eftir stærð í fyrsta lagi, sjá jafnvel um slægingu fisksins og ef því er að skipta sjá þeir um að fiskurinn sé hausaður og dæmi eru auðvitað um að á fiskmarkaði eða hliðargrein við fiskmarkaði sé fiskur flakaður til kaupenda. Ég hygg því að fiskmarkaðir sem slíkir eins og þeir starfa á Íslandi í dag stundi oft og tíðum fiskvinnslu að hluta til og innlegg mitt í þessa umræðu er eingöngu að beina því til hæstv. ráðherra og hv. formanns sjávarútvegsnefndar að þetta atriði verði skoðað mjög gaumgæfilega. Því ef ég veit rétt þá er það auðvitað þannig að erlendir ríkisborgarar eiga ekki rétt á að taka þátt í fjárfestingum annars vegar í útgerð og hins vegar í fiskvinnslu.

Það er auðvitað vanddregin þessi lína, þ.e. hvað fiskvinnsla nákvæmlega sé. Menn hafa haldið því fram að það mætti jafnvel teygja fiskvinnsluhugtakið það langt að það næði til flokkunar á fiski og frágangi á honum til sölu á erlendum markaði, flokkun, stærðarflokkun, ísun og öðrum frágangi sem dygði til að koma fiskinum úr landi og á erlendan markað, það væri að hluta til fiskvinnsla.

Í öðrum tilvikum hefur því verið haldið fram að það yrði að aðhafast eitthvað við fiskinn, taka af honum hausinn eða slægja hann eða eitthvað slíkt til að það teldist fiskvinnsla. Ég held að það sé vandmeðfarið að draga þessa línu og núverandi starfsemi fiskmarkaðanna kynni að vera gerður óleikur með því að túlka þetta með þessum hætti, við værum í raun og veru með þessu að þrengja að starfsemi fiskmarkaðanna miðað við hvernig starfsemi þeirra hefur verið þróuð á undanförnum árum. Ég held að það væri kannski ekki til góðs, hæstv. forseti. Þess vegna mælist ég til þess við hæstv. ráðherra að hann láti vinna upp gögn varðandi fiskmarkaðina um það hvað einstakir fiskmarkaðir aðhafast í húsnæði sínu og starfsstöðvum og hvort línan sem þarna er á milli annars vegar fiskmarkaðar og hins vegar fiskvinnslu sé nægilega skýr til að hægt sé að samþykkja það lagafrumvarp sem hér er lagt fram með hliðsjón af því ákvæði að erlendum ríkisborgurum eigi ekki að vera heimilt að fjárfesta í útgerð og fiskvinnslu, ef ég veit rétt. Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. ráðherra og síðan til hæstv. sjávarútvegsnefndar að þetta atriði verði skoðað mjög gaumgæfilega. Ég held að þessi lína sé svolítið vandmeðfarin. Þetta atriði gæti þess vegna valdið okkur skaða eða þrengt starfsemi fiskmarkaða sem er ekki víst að þjóni þeim markmiðum sem þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar.



[16:52]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem aðallega upp til að fagna því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur hérna fram. Jafnframt vil ég segja, velkominn í hópinn því ég fæ ekki betur séð en þetta frumvarp sýni ákveðin þroskamerki á hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Hann hefur, eins og við vitum sem höfum fylgst með honum af nokkurri vandvirkni á umliðnum árum, verið í innsta kjarna þess kórs sem jafnan hefur rekið upp gól og kyrjað gegn þeim sem hafa velt því upp að hugsanlega væri allt í lagi fyrir íslenskan sjávarútveg að fá erlent fjármagn og að það væri ekki bara allt í lagi heldur jafnvel gott fyrir íslenskan sjávarútveg að fá erlendar fjárfestingar. Við sem höfum verið í þeim hópi höfum haldið því fram að íslenskur sjávarútvegur mundi ekki bara standa sig vel ef svo mundi verkast að við gengjum í Evrópusambandið heldur hugsanlega blómstra enn frekar en hann gerir nú undir stjórn hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Ég tel að hérna sé stigið lítið skref í þá átt að liðka fyrir möguleikum erlends fjármagns inn í íslenskan sjávarútveg. Þetta er kannski ekki stórt skref en skref er það þó eigi að síður og það er tekið af yfirvegun. Ég trúi nefnilega öllu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir. Hann var spurður að því áðan af hv. þingmönnum í andsvari hvort þetta hefðu verið eins konar mistök hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar, Guðjóni Hjörleifssyni, eða aðgæsluleysi þegar málið var afgreitt út úr sjávarútvegsnefnd í fyrra. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að svo væri ekki og ekki ætla ég að taka undir að það hafi verið nein mistök. En af sjálfu leiðir að það hafi ekki verið hægt að álykta annað en þetta skref sé hugsað sem viðbót af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þarna sé meðvitað verið að opna fyrir erlenda fjárfestingu í fiskmörkuðum og það er vel. Ég trúi því nefnilega þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra og ýmsir forkólfar íslensks sjávarútvegs segja að við Íslendingar séum betri en aðrir til að reka sjávarútveg. Við búum við minni ríkisstyrki en flestar aðrar þjóðir þótt vissulega sé hægt að færa full rök að því að sjávarútvegur sé upp að vissu marki ríkisstyrktur með ýmiss konar hætti hér á landi líka þá er það í minna mæli en annars staðar. Og ég held að hvað sem menn segja um samþjöppun í sjávarútvegi þá sé alveg ljóst að eins og þróunin hefur verið í útgerð og fiskvinnslu á Íslandi þá eru þar menn að verki sem eru afburða hæfir, menn sem kunna mjög vel að aka sínum seglum eftir þeim vindum sem blása í sjávarútveginum. Þeir hafa straumlínulagað fyrirtæki sín með því að sérhæfa sig, með því að sameinast og stækka og þeir reka fyrirtæki sín afskaplega vel.

Hæfni þessara manna og reynsla er mér ákveðin staðfesting á því að það sé engin vá fyrir dyrum þó að opnað yrði fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi og ég hef sagt það áður og ætla að segja það hér að ég tel það enga vá þó að erlent fjármagn mætti renna alla leið inn í útgerðina líka. Annaðhvort erum við Íslendingar bestir í því að reka sjávarútveg eða við erum það ekki. Ég hallast að hinu fyrrnefnda og hef fyrir mér orð hæstv. sjávarútvegsráðherra og margra sem þekkja þessa atvinnugrein miklu betur en ég geri í dag. Það er þess vegna sem ég er þeirrar skoðunar að þegar við höfum verið að ræða hugsanlega aðild Íslendinga að sjávarútvegi, þá sé það allt í lagi og ekki bara það heldur jákvætt fyrir íslenskan sjávarútveg.

Nú er það svo að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur deilt þeirri lífsreynslu með mér að ræða við einn helsta samningamann Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegs. Við heimsóttum hann, Claus Grubbe, sem t.d. við Íslendingar þekkjum og mætti segja að illu, í gegnum samninga okkar um síldina því þessi samningamaður Evrópusambandsins kom árum saman, ég held bara áratugum saman að fiskveiðisamningum fyrir hönd ESB og samdi t.d. við Íslendinga um norsk/íslensku síldina og var harður og illgjarn í þeim viðskiptum en maðurinn hefur yfirburðaþekkingu. Þetta er sá maður sem hafði forustu um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem lokið var held ég 2002.

Ég og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra áttum fundi með þessu ágæta mann í Brussel á síðasta sumri ásamt dómsmálaráðherra, formanni Evrópunefndar og reyndar nefndinni allri, og þegar núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra spurði hann um hvernig lyktir mála yrðu varðandi aflahlutdeild og aflann ef við gengjum í Evrópusambandið þá var svarið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fékk frá þessum helsta samningamanni Evrópusambandsins í fiskveiðimálum: að ef við værum harðir í samningum væri líklegt að staða okkar mundi batna. Þessi ágæti danski sérfræðingur hefur þá væntanlega vera að vísa til þeirrar staðreyndar að það eru 27 samningar sem Evrópusambandið hefur gert við ríki utan þess, um fiskveiðar. Hann hefur væntanlega horft til þeirrar staðreyndar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur oft tekið sér í munn að Íslendingar eru betri en aðrir í sjávarútvegi. Þess vegna mundu þeir geta notað sér þessa möguleika og væntanlega er þetta undirstaðan fyrir þessari staðhæfingu. Það skyldi ekki vera að þrátt fyrir inngróna, innvígða, að ég segi ekki innmúraða andstöðu hæstv. sjávarútvegsráðherra gegn aðild okkar að Evrópusambandinu, þá hafi þarna þrátt fyrir allt í hans bolsévíska kolli kviknað á lítilli týru. Ég vona alla vega að þetta frumvarp sem hér er til umræðu sé fyrsti vísirinn að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé loksins, fjörinu feginn eftir að ný forusta er komin í Sjálfstæðisflokkinn, farinn að leyfa sér þann munað að hugsa svolítið frjálst, farinn að leyfa sér þann munað sem sérhver nútímalegur stjórnmálamaður á að leyfa sér að velta því fyrir sér hvort það sé svo slæmt að erlent fjármagn fái að leika alla leið inn í innviði íslensks sjávarútvegs.

Þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra er með núna gerir það að verkum að útlendingar fá að fjárfesta í íslenskum fiskmörkuðum. Er það bara ekki jákvætt? Ég tel að svo sé. Ég tel að útlendingar eigi að fá að fjárfesta í íslenskri fiskvinnslu og ég er þeirrar skoðunar líka að það sé ekkert að því að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi geti útvegað sér fjármagn með því að hleypa inn erlendu hlutafé. Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra er til viðtals um svona hluti þá er ég alveg til reiðu að ræða hvort það yrði gert í einhvers konar skrefum þannig að ekki yrði óhóflega hröð þróun ef menn vilja fá reynsluna, en ég held að þetta sé prinsippið sem við eigum í reynd að taka upp.

Þá má rifja það upp að einn af fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum, að vísu ekki í sama flokki og hæstv. ráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson, því nú er ég að vísa til núverandi hæstv. forsætisráðherra, en hann hefur ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þremur sinnum með einhvers konar hætti tekið upp þennan möguleika að útlendingar fái að fjárfesta í útgerð. Það hefur væntanlega verið á þessum sérkennilegu sveiflum í skapferli Framsóknarflokksins þegar á þá rennur einhver Evrópuhamur og þeir taka stundum upp heldur blygðunarlítið daður við Evrópusambandið en hrökkva svo jafnan undan eins og ungmær sem verður hálfhrædd þegar henni er sýndur of mikill áhugi. Samt er það þannig að þegar ég horfi yfir þetta finnst mér að innan ríkisstjórnarinnar sé að glæðast skilningur á þessu. Ég vísa til þess að hæstv. viðskiptaráðherra hefur opinberlega talað um þann möguleika að Íslendingar tækju upp evru. Hún hefur að vísu verið atyrt heldur hraklega, bæði af ritstjórum leiðandi dagblaða og sömuleiðis af ýmsum forustumönnum í Sjálfstæðisflokknum. En þetta var alla vega ný hugsun og nú hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra opnað glufu fyrir erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg og þegar ég legg þetta saman, frú forseti, þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að hér sé um batnandi fólk að ræða og slíku fólki er best að lifa og við hæstv. sjávarútvegsráðherra segi ég bara: Bestu þakkir fyrir þetta framtak. Ég styð þetta frumvarp algerlega og vona að það sé einungis upphafið að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gangi í gegnum endurnýjun lífdaganna að því er varðar skoðun og viðhorf til Evrópusambandsins og útlenskra peninga í íslenskum sjávarútvegi.



[17:02]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna er lítið frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mælt fyrir og lýtur að því að heimila einstaklingum sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, að koma inn í rekstur á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla.

Það eru örfá atriði sem ég vildi minnast á í þessu sambandi. Lögin um uppboðsmarkaði sjávarafla voru til meðferðar hjá okkur árið 2005, það er bara tæpt ár ef það nær því þá síðan þau lög voru til ítarlegrar meðferðar í sjávarútvegsnefnd. Þá voru þar einmitt óvissuatriði sem svo sannarlega voru ekki útkljáð í nefndinni áður en lögin voru samþykkt. Það var um eignarhald á uppboðsmörkuðum og sjálfstæði þeirra.

Í nefndinni kom fram að uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla voru gjarnan í eigu útgerðaraðila eða í eigu einstakra fiskvinnslna og slíkt gæti hindrað markmiðssetningu 1. gr. laga um uppboðsmarkaði, þ.e. eins og stendur þar, með leyfi forseta:

„Við veitingu leyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði séu til frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkað.“

Þarna ræddum við einmitt um þau miklu eignatengsl sem virtust vera á milli uppboðsmarkaðanna, útgerðaraðilanna og fiskvinnslustöðvanna. Við vorum svo sannarlega hreint ekki viss um að þessi markmiðsgrein laganna næðist um sjálfstæði uppboðsmarkaðanna. Ég segi fyrir mitt leyti að ég var eiginlega viss um að þeir stæðust ekki því svo sterk voru eignatengslin þarna á milli að erfitt var að sjá að frjáls verðmyndun yrði á uppboðsmarkaði við þær aðstæður sem eru. Við vildum að mig minnir setja inn ákvæði sem kvæði skýrar á um þetta, en það fékkst ekki. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvernig hann líti á þessi nánast skilyrðislausu eignatengsl sem lögin virðast heimila eða ekki koma í veg fyrir. Hvergi í lögunum eru neinar hömlur á því að útgerðaraðilar eða fiskvinnslan geti í rauninni átt þessa uppboðsmarkaði og þar af leiðandi erfitt að sjá að um neina frjálsa verðmyndun sé að ræða eða að hún sé tryggð. Þegar á enn að rýmka eða fjölga aðilum sem geta komið, átt og rekið fiskmarkaði hér á landi hlýtur sú spurning að vera enn meira brennandi hvort ekki verði að setja strangari reglur um eignarhald á fiskmörkuðum til að tryggja sjálfstæði þeirra.

Þessir uppboðsmarkaðir eru mjög mikilvægir fiskvinnslunni í landinu bæði til að tryggja framboð á fiski til fiskvinnslna sem ekki hafa útgerð og einnig til að tryggja eðlilega verðmyndun í sjávarútveginum. En þá verður þetta að vera raunverulegur samkeppnismarkaður. Annars er bara verið að misnota þá möguleika og þá lagaumgjörð sem um það væri búin. Þess vegna vil ég ítreka það og spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki verði að taka á þessum þáttum sem lúta að eignarhaldi og eignatengslum á uppboðsmörkuðum fyrir sjávarafla, lúta að tengslum við fiskvinnslur og útgerð og það verði enn brýnna að gera það ef þetta lagafrumvarp sem hér er á ferðinni verður samþykkt.

Ég vil minna á tillögu til þingsályktunar sem við nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt, sá sem hér stendur, hv. þm. Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Það er tillaga til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Ég hef mælt fyrir þeirri tillögu áður en vil þó leyfa mér að vitna til hennar frú forseti, af því að hún snertir þetta frumvarp. Sú tillaga hljóðaði upp á að fela sjávarútvegsráðherra að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og mögulegar leiðir til að draga úr honum og auka í staðinn fullvinnslu hér innan lands. Í fylgiskjölum með þeirri tillögu til þingsályktunar er rakið ítarlega hversu útflutningur á óunnum fiski hefur verið að aukast, svokölluðum gámafiski, á markaði erlendis og á fiski sem ég hefði talið eðlilegra að kæmi inn á fiskmarkaði hér og innlend fiskvinnsla gæti boðið í fiskinn til jafns við erlendar fiskvinnslur hér á mörkuðum. Ég óttast að frumvarpið sem nú liggur fyrir gæti leitt enn frekar til þess að allt slíkt ferli, uppboðsmarkaður og fiskvinnsla, færist í auknum mæli úr landi en því miður er töluvert mikið af fiski fluttur út óunninn á markaði erlendis sem íslenskar fiskvinnslur hafa engin tök á að bjóða í. Um leið og þessi lög eru opnuð um uppboðsmarkaði sjávarafla finnst mér að skoða eigi þessa þætti.

Eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom inn á og ég vil taka undir eru ekki svo skýr mörk á milli uppboðsmarkaða, fiskvinnslu og reyndar útgerðar. Á uppboðsmörkuðum er fiskur slægður og grunnþættir fiskvinnslu geta farið þar fram. Er ekki verið að fara aftan að lögum um að ekki skuli leyfa erlendum aðilum að fjárfesta með beinum hætti í íslenskum sjávarútvegi? Er ekki verið að fara aftan að þeim með þessu frumvarpi hér? Mér finnst að skoða þurfi það mjög rækilega.

Í lokin, frú forseti, í tengslum við umræðuna áðan um vatnið, um þjóðareign á vatni, þá held ég að sé mjög hollt fyrir okkur að rifja stöðugt upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ég vil minna á að þau lög sem við erum hér að fjalla um, um uppboðsmarkaði, eru í rauninni hluti af þessum heildarlögum um stjórn fiskveiða þar sem stendur m.a.: „Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Lögin um uppboðsmarkaði eru einmitt hluti af þessari heildarsýn sem við hljótum að skoða í mjög nánu samhengi og hefði verið betra að í nýafgreiddum vatnalögum hefði þetta einmitt byrjað svona, að vatnsauðlindin á Íslandi skuli vera sameign íslensku þjóðarinnar alveg eins og nytjastofnarnir. En því kippum við í liðinn þegar þar að kemur. Ég minni á að frumvarp þetta er hluti af þeirri heild og hlýtur að verða að skoðast í því samhengi.



[17:13]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kom upp áðan í umræðunni um þetta frumvarp frá því í fyrra, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla, til að furða mig á því að þessi lög sem eru frá 24. maí árið 2005 skyldu hafa farið í gegn án þess að menn hafi áttað sig á því að þau stönguðust með einhverjum hætti á við ákvæði EES-samningsins eða EFTA-samningsins.

Ég sit í sjávarútvegsnefnd og er ekki lögfræðimenntaður maður en ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á þessu. Ég vil jafnframt benda á að heill her af lögfræðingum vinnur í þessu blessaða sjávarútvegsráðuneyti og maður skyldi ætla að þetta fólk gæti unnið vinnuna sína og séð til þess að ekki komi þaðan lög sem eru svo augljóslega gloppótt hvað þetta varðar, að þegar verið er að búa til lög sé það einmitt skoðað hvort þau eða lagasamning eins og þessi stangist á við umrædda samninga því að þessir samningar eru hornsteinar í, hvað eigum við að segja, viðskiptalífi eða viðskiptum okkar Íslendinga. Mér finnst þetta mjög undarlegt og finnst undarlegt að einmitt þetta skuli ekki hafa verið athugað af því að þeir samningar eru búnir að vera í gildi í mörg ár.

Við sem sitjum í sjávarútvegsnefnd hljótum, virðulegi forseti, að skoða þetta mjög vandlega. Við hljótum líka að spyrja eðlilegra spurninga um hvort þetta sé allt í einu til komið núna vegna þess að einhverjir erlendir aðilar séu að sækjast eftir því að geta fengið að eiga eða fengið leyfi til rekstrar uppboðsmarkaðar hér á landi. Það er fyllilega eðlileg spurning að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort málum sé þannig háttað og ég get ekki séð að í því þurfi að felast neinar dylgjur. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning hvort einhverjir hafi bent ráðuneytinu á að hér væri verið að standa í vegi fyrir því að útlendingar gætu fengið leyfi til að reka fiskmarkaði, uppboðsmarkaði á fiski á Íslandi. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning. Og við sem sitjum í sjávarútvegsnefnd hljótum að kalla eftir svörum við þeirri spurningu.

Við hljótum líka að spyrja hvernig í ósköpunum á því stóð að embættismenn sjávarútvegsráðuneytisins, sem þekkja þessi lög og eiga að þekkja þessi lög út og inn, gátu ekki bent á þetta í fyrra?

Hér er líka talað um þennan fríverslunarsamning við Færeyinga, þennan svokallaða Hoyvík-samning sem var undirritaður 31. ágúst 2005. Mér finnst það mjög undarlegt, stórfurðulegt í raun og veru, að hér sé verið að bera inn, draga inn í þingið frumvarp til laga sem að hluta til er réttlætt með því að vísa í þennan fríverslunarsamning sem Alþingi hefur ekki fengið að sjá. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ætlast menn virkilega til þess að við þingmenn, sem erum þó löggjafarvaldið í þessu landi, a.m.k. í orði, förum að samþykkja þetta svona einn, tveir og þrír án þess að hafa nokkurn tíma séð þennan fríverslunarsamning við Færeyinga? Það voru einhverjar óljósar fréttir sem birtar voru á sínum tíma í dagblöðum hér á landi um þennan samning og látið í veðri vaka að hann væri aðallega um landbúnaðarafurðir, eggjamarkaðinn, kjöt og álegg og eitthvað slíkt, lítið talað um sjávarútvegsmál, enda kom það glögglega í ljós á Norðurlandaráðsþinginu sem var haldið á Íslandi í október að Færeyingar eru mjög óánægðir með þennan fríverslunarsamning. Þeir komu þar í pontu og spurðu mjög gagnrýninna spurninga einmitt um þennan fríverslunarsamning og ég átti tal við nokkra færeyska þingmenn á Norðurlandaráðsþinginu þar sem kom í ljós að þeir eru mjög óhressir með þennan samning vegna þess að þeir telja að í hann vanti ákvæði varðandi viðskipti með fisk. Ég heyrði ekki betur en þeir óskuðu eftir því að þeir gætu komið hingað til Íslands og fengið að bjóða í fisk, kaupa hráefnið hér á Íslandi.

Hvaða afleiðingar skyldi það hafa ef útlendingar fá leyfi til að reka uppboðsmarkaði á Íslandi? Skyldi það hafa einhverjar afleiðingar fyrir útflutning á fersku hráefni, óunnu hráefni frá Íslandi? Ég hef svo sem ekki svörin á reiðum höndum hér og nú en þetta eru spurningar sem maður hlýtur að velta fyrir sér.

Ég hlýt að nota tækifærið hér og nú til að óska eftir því eða hreinlega gera kröfu um það að þetta mál verði ekki afgreitt úr sjávarútvegsnefnd nema fyrir liggi fríverslunarsamningur við Færeyinga þýddur á íslensku og helst kynntur fyrir Alþingi. Ég veit ekki betur en það sé skylda að kynna slíka samninga fyrir Alþingi, en ég er ekki lögfróður maður en mér þætti það ekki ólíklegt. Hér er árviss viðburður að talað sé um og mælt fyrir fiskveiðisamningi milli Íslendinga og Færeyinga í þinginu, hann kynntur fyrir þinginu og fram fari umræður um hann. Ég held að það hljóti að vera sanngjörn og eðlileg krafa eða maður skyldi a.m.k. ætla það að hér ættu að fara fram umræður um þennan fríverslunarsamning við vini okkar og frændur í Færeyjum.

Ég vil taka skýrt fram að ég er alls ekki á móti þessum samningi við Færeyinga, alls ekki. Það litla sem ég hef heyrt af honum sýnist mér vera mjög jákvætt. En nóg um það, virðulegi forseti. Þetta vekur upp ýmsar spurningar og ég hygg að þetta gefi jafnframt ástæðu til að skoða þessi lög um uppboðsmarkaði sjávarafla sem voru sett í fyrra og athuga hvort þau séu þá ekki gölluð með öðrum hætti en hér virðist augljóslega koma fram, það verði vandlega skoðað.

Síðan hafa menn talað um að heimila eigi útlendingum að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Ég er á móti því. Þetta er kannski á margan hátt ótímabær umræða því að ég held að útlendingar hafi í sjálfu sér ekkert voðalega mikinn áhuga á að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Ástand nytjastofna hér á landi er ekki það beysið eftir 25 ár með kvótakerfið að það sé svo sem eitthvað að selja í þeim efnum. Þar fyrir utan er fiskiskipaflotinn að mestu leyti orðinn afskaplega gamall og úr sér genginn að miklu leyti og í ofanálag fátt þar að finna nema kannski skuldir. Ég hef ekki orðið mikið var við það þau ár sem ég hef starfað í sjávarútvegi, ég tala nú ekki um þegar ég starfaði sem sjávarútvegsfréttamaður bæði hér á Íslandi og í Noregi, að útlendingar hefðu nokkurn minnsta snefil af áhuga á að fjárfesta í sjávarútvegi Íslendinga og ég tel að með því værum við að fara út á mjög háskalegar brautir.

Það hlýtur að vera, virðulegi forseti, að eftir alla þessa svokölluðu meintu hagræðingu geti sjávarútvegurinn varla verið í svo mikilli kreppu eftir að finna nýtt fjármagn, eða hvað? Á þetta ekki allt saman að vera svo frábært og stórkostlegt? Ég veit ekki betur. Ég get ekki séð þörfina á því, virðulegi forseti.

Ef ég dreg mál mitt saman í hnotskurn þá hlýtur maður að kalla eftir því að fá að sjá þennan fríverslunarsamning við Færeyinga. Maður hlýtur að skoða þetta og spyrja eðlilegra spurninga um hvort hér séu einhverjir útlendingar sem óska eftir því að fá að eiga eða fá leyfi til að reka fiskmarkaði á Íslandi. Þar af leiðandi hljótum við að kalla til fundar við okkur í sjávarútvegsnefnd ýmsa aðila sem tengjast þessum fiskmörkuðum í dag. Það er eðlilegur hlutur, einnig aðila sem þekkja vel til þessa fríverslunarsamnings við Færeyinga. Þetta mál verður að skoða mjög svo vandlega og læt ég þar með lokið a.m.k. fyrri ræðu minni um þetta mál.



[17:21]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ástæða sé til að menn ræði mál sem tengjast þessu. Menn eru að tala um erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg og fiskmarkaðir eru hiklaust hluti af sjávarútveginum á Íslandi.

Ég hef sagt það áður að ég hef ekki á móti því að erlendir aðilar geti átt í íslenskum fyrirtækjum. Það á við um öll íslensk fyrirtæki. Ég get ekki séð að íslensk stjórnvöld eigi með nokkrum hætti að verja íslenska eigendur í einhverri grein sérstaklega fyrir því að erlendir aðilar komi þar inn og maður hlýtur að spyrja ævinlega: Hvers vegna er það sem íslensk stjórnvöld telja að ekki megi hleypa erlendum aðilum inn í sjávarútveginn? Svarið er einfalt. Eignarhaldsfyrirkomulagið á veiðiréttindum á Íslandi er með þeim hætti að íslensk stjórnvöld þora ekki að bera ábyrgð á því að erlendir aðilar komi inn sem eigendur í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að fyrirkomulagið með eignarhaldið á veiðiheimildum, eins og það er, er óboðlegt og reynslan segir okkur að sá sem á veiðiréttinn á Íslandi fær hagnaðinn af útgerð á Íslandi, enginn annar.

Ef þessum reglum verður ekki breytt og erlendir aðilar fá tækifæri til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi getum við séð landið sjálft lenda í hlutverki kvótalausa sjávarþorpsins. Þess vegna eru menn á móti því að útlendingum verði leyft að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. En ég segi: Við þurfum að gera tvennt. Við þurfum að taka til heima hjá okkur og ganga þannig frá reglum um aðgang að þessari auðlind að arðurinn lendi hjá þjóðinni sem á auðlindina en arðurinn verði ekki fluttur úr landi vegna eignarhaldsfyrirkomulagsins sem komið hefur verið á, vegna einkavæðingarinnar sem menn hafa verið að burðast við að koma á í sjávarútvegi á Íslandi. Þarna liggur auðvitað hundurinn grafinn. Menn þurfa að horfast í augu við þetta og menn verða að horfast í augu við þetta vegna þess að Ísland er lítið land og á allt undir því að geta haft frjáls viðskipti við löndin í kringum okkur. Hnattvæðingin er í raun og veru grundvöllur fyrir hinu góða efnahagslífi sem er á Íslandi. Halda menn virkilega að við getum haldið sjávarútveginum eitthvað sér í framtíðinni og viljum við það? Ætlum við að hafa einhver gæludýr á Íslandi sem eru varin fyrir samkeppni annars staðar frá með sérstökum hætti? Bændur með mjólkurkvóta og útgerðarmenn með kvóta í sjávarútvegi? Auðvitað ekki. Auðvitað þarf að vera jafnræði til að vera í atvinnurekstri á Íslandi og það þarf að gerast um leið og menn opna fyrir möguleika til að fjárfesta í útgerð á Íslandi. En hér erum við að tala um fiskmarkað. Ég tel að engin hætta sé á ferðum þótt menn hleypi erlendum aðilum í að taka þátt í fiskmörkuðum á Íslandi.

Hins vegar er full ástæða til að fara yfir það með hvaða hætti fiskmarkaðir eru reknir og hverjir eiga þá í dag og hvort eignatengslin þar séu þannig að öruggt sé að þeir séu reknir á eðlilegum grundvelli. Við erum í litlu samfélagi þar sem eignatengsl og viðskiptatengsl eru jafnvel mjög persónubundin og fyrirtæki og einstaklingar eru samofin í sjávarútvegi á Íslandi. Ég tel ástæðu til að sjávarútvegsnefnd skoði þetta vandlega og hvort reglurnar um eignarhald á fiskmörkuðum séu með þeim hætti að hægt sé að treysta því fullkomlega að ekki verði árekstrar milli þeirra sem þarna eiga hlut að máli.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég fæ tækifæri til að fjalla um málið í sjávarútvegsnefnd og ég mun auðvitað gera það á jákvæðan hátt. Ég tel ástæðu til að skoða þetta með jákvæðum huga og tel að hér sé á ferðinni lítið skref í þá átt að opna svolítið sjávarútveginn. Ég held að það væri gott að nefndin tæki til umræðu um leið hvort reglurnar um aðgang að fiskvinnslunni í landinu geti komið til endurskoðunar líka. Og það er mjög athyglisvert í því samhengi að ég hef skrifað nokkuð oft upp á frumvarp með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem hefur flutt það hvað eftir annað, að skilja eigi á milli útgerðar og fiskvinnslu. Ef menn gera það sé ég ekki að menn þurfi að óttast um það að erlendir aðilar megi koma í fiskvinnsluna í landinu.

En ég ætla að enda orð mín á því að segja að auðvitað þurfa menn að skoða þetta allt saman í heild sinni og snúa sér að því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í þá áttina að við getum haft sömu reglur um það og annan atvinnurekstur í landinu.



[17:28]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Hér er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79 24. maí 2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Ég fagna þessu frumvarpi heils hugar og lýsi mig samþykkan því í öllum meginatriðum. Ég fagna þeim glugga sem virðist vera opnaður með frumvarpinu. Ég tek heils hugar undir, frú forseti, orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að við getum ekki heimtað allt erlendis frá, allt opið erlendis en svo lokum við öllu þegar aðrir vilja koma hingað. Við viljum hafa frjálsa samkeppni.

Hvernig er með stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins? Er ekki frjáls samkeppni þar?



[17:29]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og það er eðlilegt að hún snerti fleira en bein efnisatriði frumvarpsins. Vissulega getur frumvarp af þessu taginu opnað alls konar umræður sem ekki er óeðlilegt að fari fram. Ég ætla þó eingöngu að snúa mér að þeim spurningum sem hafa verið lagðar fram og snerta frumvarpið og sneru að mér.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson velti fyrir sér hvort við þyrftum ekki að skoða gaumgæfilega hvort þetta þrengdi að stöðu fiskmarkaða. Ég tel að svo sé ekki. Ef gildandi lög eru skoðuð er þar að finna skilgreiningu á hvað sé uppboðsmarkaður og, með leyfi virðulegs forseta, er það „markaður þar sem sjávarafli, eldistegundir bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, vatnafiskur og afurðir úr framantöldu eru seldar á frjálsu uppboði. Uppboðsmarkaður getur jafnframt veitt aðra þjónustu sem tengist sölunni.“

Hér er um að ræða ákaflega afmarkaða starfsemi sem fellur undir hugtakið fiskmarkaður og það sem hér er verið að vísa til varðandi eignarhald og heimildir útlendinga til eignarhalds tekur þá til uppboðsmarkaða eins og því er lýst í gildandi lögum.

Ljóst er að ef um það væri að ræða að fiskmarkaðir tækju þátt í annarri starfsemi útgerðar eða fiskvinnslustarfsemi mundu þau almennu lög fara að gilda sem í gildi eru um eignarhald útlendinga, fiskvinnslu og útgerð. Hins vegar eru eins og menn vita í gildi lög sem heimila óbeina eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi en alls ekki beina eignaraðild.

Þetta er í rauninni líka svar við spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði, þ.e. hvort verið væri að stíga skref sem opnaði eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegi. Svo er ekki eins og ég hef þegar rakið. Hér er eingöngu verið að fjalla um fiskmarkaði samkvæmt þeirri skilgreiningu sem lögin kveða mjög skýrt á um, þ.e. lögin frá því 9. júní 2005.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spurði um samninginn við Færeyinga. Eins og ég sagði áðan er um að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem taka ekki gildi fyrr en Alþingi hefur sagt álit sitt á þeim. Ég fullyrði að áður en þetta mál verður afgreitt verða þau mál komin hingað til Alþingis og að þingmenn hafi þá tekið afstöðu til málsins. Ég er sammála honum um að þetta sé almennt talað samningur sem ég held að verði til góðs fyrir þjóðirnar og geri það að verkum að þau viðskipti sem ég held að eigi sér stað milli Færeyinga og Íslendinga verði greiðari en áður.

Ég tek að öðru leyti undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði áðan, ég tel að engin áhætta sé tekin með þessu máli þó að verið sé að breyta þessum lögum hvað varðar íslenskan sjávarútveg. Hér er um að ræða opnun á eignaraðild útlendinga að afmarkaðri starfsemi sem kveðið er á um í þeirri löggjöf sem er í gildi og hún tekur til þeirra þátta sem ég hef þegar rakið.

Að öðru leyti þakka ég fyrir ágæta umræðu.