132. löggjafarþing — 90. fundur
 21. mars 2006.
tekjuskattur, 1. umræða.
stjfrv., 623. mál (samlagshlutafélög og lífeyrissjóðir). — Þskj. 916.

[15:07]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpi þessu er með því kveðið á um tvær breytingar á lögum um tekjuskatt. Annars vegar er lagt til að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu og hins vegar að kveðið verði skýrar á um undanþágu lífeyrissjóða frá greiðslu tekjuskatts.

Samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt er samlagshlutafélag sjálfstæður skattaðili með sama hætti og hlutafélag og einkahlutafélag, þó svo að hluti félagsaðila í samlagshlutafélagi beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess. Í löggjöf nágrannaríkja Íslands er víða að finna ákvæði þess efnis að samlagshlutafélög séu ekki sjálfstæðir skattaðilar, nema annars sé óskað, og beri því að skattleggja tekjur samlagshlutafélaga hjá eigendum þeirra. Þannig er því t.d. háttað í dönskum rétti, þó svo að önnur ákvæði dönsku hlutafélagalaganna, eins og um skráningu í hlutafélagaskrá, gildi um samlagshlutafélög eftir því sem við á.

Á það hefur verið bent að ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, þar sem kveðið er á um sjálfstæða skattskyldu samlagshlutafélaga, hafi leitt til þess að þetta tiltekna félagaform hafi ekki verið notað í neinum mæli hér á landi þrátt fyrir ýmsa kosti sem því fylgi. Íslensk löggjöf á sviði tekjuskatta sem og hlutafélaga hefur í gegnum tíðina tekið mið af danskri löggjöf og er með frumvarpi því sem hér er mælt fyrir lagt til að sambærilegar reglur gildi í íslenskum lögum um skattskyldu samlagshlutafélaga og eru í danskri löggjöf.

Samkvæmt frumvarpinu verða því tekjur samlagshlutafélags, sem ekki óskar eftir því að vera sjálfstæður skattaðili, skattlagðar hjá eigendum þess. Má því segja að eitt af markmiðum frumvarpsins sé að vekja samlagshlutafélagaformið til lífsins og skapa grundvöll þess að það verði nýtt sem tæki til eflingar fjármögnun, t.d. á sviði nýsköpunar. Taka ber fram að áfram er gert ráð fyrir að reglur hlutafélagalaga gildi almennt um samlagshlutafélög, þar með talið reglur um skráningu.

Í 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu. Þar á meðal eru lífeyrissjóðir, sbr. 5. tölul. 4. gr., svo fremi sem þeir reki ekki atvinnustarfsemi. Í vissum tilvikum hefur leikið vafi á því hvort lífeyrissjóður teljist stunda atvinnustarfsemi, m.a. í tilviki samlagsfélaga. Með frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er á annað borð heimil samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenskir lífeyrissjóðir eru meðal stærstu og virkustu fjárfesta á innlendum fjármálamarkaði, og með þessari breytingu er þeim gert kleift að fjárfesta í formi samlaga eða samlagshlutafélaga, sem t.d. fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, án þess að skattskylda myndist hjá þeim.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[15:10]
Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Ég get ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að koma á framfæri eftirfarandi þar sem hér er til umræðu frumvarp til laga um tekjuskatt.

Ég vildi óska þess innilega að hæstv. fjármálaráðherra stefndi að því að staða eldri borgara væri betri en nú er í sambandi við lækkun á tekjuskatti á lífeyrissjóðsgreiðslur. Við erum að greiða, hæstv. forseti, 36,7% af lífeyrissjóðsgreiðslum sem er að mínu mati mjög hátt vægt til orða tekið. Ég teldi að þessi skattur ætti að vera svipaður og fjármagnstekjuskattur er í dag, þ.e. um 10%. Landssamband eldri borgara hefur margoft ályktað um þessa lækkun. Við eigum þetta inni hjá íslensku þjóðinni og ég vonast heitt og innilega til þess, þar sem ég er nú elsti starfandi þingmaður þessa dagana, að þetta verði íhugað alvarlega af hæstv. fjármálaráðherra.



[15:12]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur ekki farið fram hjá mér og öðrum að hv. þingmaður ber mjög hag eldri borgara fyrir brjósti og kemur það bæði fram hjá honum í ræðu og riti. Það er hins vegar líka á vitorði flestra að ríkisstjórnin hefur skipað sérstaka nefnd til þess að fara yfir kjör og aðstæður eldri borgara. Í þeirri nefnd er kannski ekki sérstaklega vikið að skattamálunum en hins vegar er önnur nefnd að störfum á vegum fjármálaráðuneytisins sem er að fara yfir reynslu okkar af þeim skattalögum og því skattaumhverfi sem við höfum búið við síðan 1988 og meta hvernig til hefur tekist. Þar er út af fyrir sig ekkert undanskilið og eðlilegt að þeir hlutir sem hv. þingmaður nefndi hér verði teknir þar til athugunar að einhverju leyti.

Það ber hins vegar að geta þess í umræðunni að það sem hv. þingmaður er að leggja til gengur í meginatriðum í berhögg við það sem sú skattalöggjöf byggist á en það er það að skattlagningin ráðist af tekjum manna en ekki aðstæðum. Það eru dæmi um að aðstæður komi til áhrifa hvað varðar skattlagninguna en meginatriðin eru öll þau að það séu tekjur en ekki aðstæður sem ráða. En eins og ég segi þegar verið er að meta það hvernig til hefur tekist með þessa skattalöggjöf og það umhverfi sem hún hefur skapað er rétt að skoða þetta í leiðinni.



[15:14]
Jón Kr. Óskarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil benda hæstv. fjármálaráðherra á að góð vísa er aldrei of oft kveðin.



[15:14]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að leggja orð í belg út af þeim umræðum sem hér urðu áðan um skattlagningu og afkomu eldri borgara í landinu. Skattalögin eru þannig útfærð að skattprósentan er ein fyrir alla að undanskildum unglingum sem hafa 6% skatt ef ég man rétt. Síðan er það persónuafslátturinn sem gildir fyrir alla.

Í sjálfu sér er ekkert undarlegt við það að eldri borgarar hafi beitt sér fyrir mikilli umræðu um stöðu sína að því er varðar skattlagningu og skerðingarreglur í þjóðfélaginu. Við í Frjálslynda flokknum höfum sérstaklega beint sjónum okkar að þeim skerðingarreglum sem eldri borgarar verða fyrir ef þeir fá viðbótartekjur, þ.e. aðrar tekjur en frá Tryggingastofnun, hvort sem það eru lífeyristekjur eða atvinnutekjur. Það verður að segjast eins og er að þegar saman eru lögð áhrifin af skerðingarreglunum sem snúa að Tryggingastofnun þar sem tekjur, úr lífeyrissjóði m.a., til eldri borgara valda því að bætur almannatrygginga lækka um 45% — þá er því miður niðurstaðan sú, vegna þess að eldri borgarar eru búnir að nýta persónuafslátt sinn við greiðslur frá Tryggingastofnun, að til viðbótar kemur skerðing sem nemur skattprósentunni eða 36,72%.

Þegar þessar tölur eru lagðar saman, annars vegar 4.500 kr. skerðing á bótum fyrir hverjar tíu þús. kr. sem eldri borgari á rétt á úr lífeyrissjóði og hins vegar til viðbótar 3.672 kr. í álagningu tekjuskatts stendur náttúrlega ekki mikið eftir, hæstv. forseti, eða rétt rúmar 1.800 kr., sem er rauntekjubreyting þessa aðila sem hefur annars vegar notið bóta Tryggingastofnunar og hins vegar viðbótartekna, hvort sem það eru tekjur eða greiðslur úr lífeyrissjóði.

Um þetta fyrirkomulag, hæstv. forseti, held ég að geti aldrei orðið friður við eldri borgara, það er algjörlega útilokað. Þess vegna höfum við í Frjálslynda flokknum bent á það, m.a. með tillögu hér í hv. Alþingi, að það þyrfti að líta á þessar skerðingarreglur og breyta þeim verulega. Við höfum lagt til að það væri ákveðin upphæð sem ekki kæmi til skerðingar á bótunum, ákveðin upphæð út úr lífeyrissjóði, og síðan yrði þá stighækkandi skerðingarregla þar til tekjur úr lífeyrissjóði hefðu náð 100 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingi en þá væri aftur komið að þessari 45% skerðingu á tryggingabótum.

Ég hef litið svo á undanfarin missiri og ár að það yrði ekki hægt að ná neinni sátt við eldri borgara öðruvísi en að fara í þessar skerðingarreglur með einhvers konar svona lagi, að gera það að verkum að eldri borgari fái ekki þessar skerðingar eins og þær eru í dag, þ.e. haldi eftir rúmum 1.800 kr. af hverjum 10.000 kr. þar til hann er búinn að eyða tekjutryggingunni, heimilisuppbótinni og tekjutryggingaraukanum, en eins og allir vita skerða lífeyristekjur ekki grunnlífeyri hjá Tryggingastofnun, gamla ellilífeyrinn sem sumir kalla, 23 þúsund krónurnar. Það er ekki fyrr en komið er þangað niður í bótum Tryggingastofnunar sem eldri borgarar fara að borga eingöngu tekjuskatt af lífeyristekjunum, þ.e. 3.670 kr. fyrir hverjar 10.000. kr. En fram að því tapar eldri borgarinn 8.000 kr. rúmum af hverjum 10.000. kr. sem hann fær út úr lífeyrissjóði. Það gerist annars vegar í gegnum tryggingabæturnar, skerðingarreglurnar þar eru um 45%, og síðan til viðbótar skattprósentunni.

Úr því að við erum hér að ræða skattamál og ívilnanir í sambandi við það er rétt að vekja athygli á þessu máli enn á ný, ekki er vanþörf á. Mín lokaorð eru þau að ég tel að það náist enginn friður við Samtök eldri borgara í þessu landi með því að hafa málin í þeim farvegi sem þau eru nú, það verður að finna aðra lausn. Ef hæstv. fjármálaráðherra er með margar nefndir í gangi sem snúa að skattamálum held ég að hann ætti nú að tengja það við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.



[15:21]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er góðra gjalda vert hjá hv. þingmanni að vekja máls á þessu hér. Það hefur örugglega ekki farið fram hjá honum að þeirri nefnd sem er að störfum á vegum ríkisstjórnarinnar og Samtaka eldri borgara hefur einmitt verið falið að skoða þær skerðingar sem hv. þingmaður var að vekja athygli á og vænti ég þess að við fáum góða og brúklega niðurstöðu út úr því nefndarstarfi.