132. löggjafarþing — 90. fundur
 21. mars 2006.
vegabréf, 1. umræða.
stjfrv., 615. mál (ný gerð vegabréfa, nýr útgefandi o.fl.). — Þskj. 900.

[15:49]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Hér fyrr í dag flutti forsætisráðherra tvö mál sem snúast um það að flytja Þjóðskrá frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Þegar menn sjá þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998, sjá menn að gert er ráð fyrir því að flytja útgáfu vegabréfa frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár. Einnig er gert ráð fyrir því að sýslumenn, lögregla og önnur stjórnvöld taki við umsóknum um vegabréf eftir því sem ráðherra ákveði og einnig að Þjóðskrá geti falið öðrum að annast einstök verkefni við framleiðslu og skráningu upplýsinga í vegabréfabók.

Síðan eru þarna ákvæði um það sem þarf að vera í vegabréfunum og hvaða skilyrði vegabréfin þurfa að uppfylla til þess að við stöndumst alþjóðlegar kröfur um það sem kallað er rafræn lífkenni í vegabréfum. Notkun rafrænna lífkenna í vegabréfum er einkum ætlað að auka nákvæmni auðkenningar og þar með öryggi og skilvirkni í landamæraeftirliti.

Við búum við það hér síðan, ef ég veit rétt, árið 1999 að öll vegabréf sem eru gefin út á Íslandi eru tölvulesanleg en okkar vegabréf bera ekki það sem kallað er stöðluð rafræn lífkenni sem henta fyrir vélrænan samanburð. Lífkenni er íslenskun á orðinu „biometrics“ en samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins frá 13. des. 2004, sem vísað er til í almennum athugasemdum með frumvarpinu, skulu aðildarríki Evrópusambandsins hefja útgáfu nýrra vegabréfa með örflögu sem ber að lífkenna upplýsingar eigi síðar en 28. ágúst árið 2006. Þessi reglugerð er bindandi fyrir okkur og Norðmenn vegna aðildar okkar að Schengen-samstarfinu.

Þess ber að geta að þrátt fyrir ofangreindar breytingar þurfa þeir sem eru með tölvulesanleg vegabréf núna ekki að endurnýja þau þar sem þau munu gilda áfram út sinn gildistíma einnig án áritunarskyldu til Bandaríkjanna. Þess ber að geta að Bandaríkin hafa sett fram þær kröfur að ríki sem vilja halda stöðu sinni í því sem þau kalla Visa Waver Program, þ.e. að borgarar þessara ríkja geti ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar, verði að gefa út vegabréf með örflögu sem í eru stöðluð rafræn lífkenni eftir 26. október árið 2006. Vegabréf gefin út eftir þann dag munu ekki duga til farar til Bandaríkjanna án áritunar nema þau innihaldi lífkenni samkvæmt stöðlum frá Alþjóðlegu flugmálastofnuninni.

Ég vil taka það fram að þetta á ekki við um vegabréfin sem eru gefin út eftir 1999. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að vegabréfin sem gefin voru út eftir 1999, tölvulesanlegu vegabréfin, er hægt að nota út sinn gildistíma til ferða til Bandaríkjanna án þess að fá vegabréfsáritun — ef menn eru að fara til Bandaríkjanna og vilja komast hjá því að vera með vegabréfsáritun verða þeir að hafa tölvulesanlegt vegabréf sem er gefið út eftir 1. júlí 1999 eða þessi nýju vegabréf. Munurinn á þessu tvennu er tæknilegur. Þetta nýja vegabréf verður með sérstakri síðu sem hefur að geyma rafrænar upplýsingar sem eru lesanlegar í vél sem verður komið fyrir á landamærastöðinni og getur borið þær upplýsingar sem eru í vegabréfinu saman við gagnagrunna o.s.frv.

Það er gert ráð fyrir því að í fyrstu atrennu verði lífkennið sem sett verði í vegabréfið stafræn mynd af umsækjanda og síðan er heimild í frumvarpinu fyrir dómsmálaráðherra að bæta við, eins og segir hér:

„Dómsmálaráðherra getur ákveðið að fingraför umsækjanda skuli skönnuð og varðveitt í vegabréfinu.“

Á síðari stigum er gert ráð fyrir því að það skilyrði verði sett að fyrir utan þessa stafrænu mynd verði einnig fingraför hluti af þeim auðkennum sem vegabréfið hefur að geyma. Það er stefnt að því að þetta taki gildi á Schengen-svæðinu árið 2009 þannig að það eru þær dagsetningar sem menn hafa í huga varðandi þetta.

Eins og ég sagði í upphafi er gert ráð fyrir að Þjóðskráin komi í stað Útlendingastofnunar við útgáfu vegabréfanna og Þjóðskráin haldi skilríkjaskrá um öll útgefin vegabréf og önnur skilríki sem Þjóðskrá verður falið að annast útgáfu á og þetta kemur fram í lögunum um Þjóðskrána. Þjóðskrá og lögreglu verði heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Þegar þetta gengur fram mun framleiðsla vegabréfanna flytjast frá Útlendingastofnun til sérstakrar framleiðslustöðvar sem dómsmálaráðuneytið er að koma upp núna í Reykjanesbæ. Þar hefur verið fest fé í tækjabúnaði sem á að gera kleift að framleiða þessi vegabréf þannig að þau fullnægi öllum kröfum. Þetta er framleiðsla sem skapar fjögur ný störf sem menn hafa mikinn áhuga á á þessum slóðum um þessar mundir eins og kunnugt er. Einnig hefur verið fest fé í tækjabúnaði sem gerir kleift að framleiða hér á landi kort eins og ökuskírteini og önnur slík kort sem hingað til hafa verið framleidd erlendis. Með þessu starfi sem undirbúið hefur verið vegna þessa frumvarps erum við að búa til skilríkjaútgáfu á vegum ríkisins sem fullnægir öllum þeim kröfum sem eðlilegt er að gera til slíkrar útgáfu og þess öryggis sem þar þarf að gæta. Við vitum að Íslendingar ferðast mjög mikið og öll eigum við vegabréf og okkur er annt um að hafa vegabréf sem eru þannig að þau fullnægi öllum kröfum.

Ég vil lesa hér, með leyfi forseta, leiðbeiningar sem dómsmálaráðuneytið hefur sett inn á vefsíðu Stjórnarráðsins til þess að bregðast við spurningum sem við teljum algengar þegar um er að ræða hin nýju íslensku vegabréf:

„Í ljósi þeirrar umræðu sem er um væntanlegar nýjungar í íslenskri vegabréfaútgáfu hafa margir haft samband við þær stofnanir sem að vegabréfamálum koma og spurt hvaða áhrif breytingin hafi fyrir hinn almenna íslenska ferðamann. Þess vegna eru birtar hér nokkrar algengar spurningar og svör sem varða útgáfu hinna nýju vegabréfa.“

Spurt er:

„Þarf að sækja um nýtt vegabréf þegar hafin verður útgáfa nýrra vegabréfa?“

Svarið er:

„Nei, öll núgildandi vegabréf halda gildi sínu að fullu. Ekki er stefnt að neins konar innköllun á núgildandi vegabréfum. Öll gild íslensk vegabréf, sem gefin eru út eftir 1. júní 1999, gilda til þess að ferðast án áritunar til Bandaríkjanna. Þeir sem bera íslensk vegabréf útgefin fyrir 1. júní 1999 og ætla til Bandaríkjanna þurfa nú þegar annaðhvort að sækja um áritun til Bandaríkjanna í bandarísku sendiráði eða sækja um nýtt vegabréf.“ — Og mönnum ber að athuga að þetta tengist ekki útgáfu nýju íslensku vegabréfanna heldur bandarískum reglum.

„Margir hafa spurt um hvort þeir þurfi að sækja um hið nýja lífkennavegabréf, þegar útgáfa þess hefst til þess að geta ferðast áritunarlaus til Bandaríkjanna eftir 26. okt. 2006.“

Svarið er:

„Svo er ekki, vegabréf útgefin eftir 1. júní 1999 munu áfram gilda til áritunarlausra ferðalaga til Bandaríkjanna.“

Síðan er spurt hér:

„Hvað er vegabréf með lífkennaupplýsingum, rafrænt vegabréf?“

Svarið er:

„Í þeim vegabréfum sem áætlað er að hefja útgáfu á nú á vordögum 2006 verður örflaga og í henni verða varðveittar upplýsingar unnar úr stafrænni mynd sem tekin verður af umsækjanda vegabréfsins, einnig munu verða varðveittar í örflögunni upplýsingar unnar úr fingraskanni vegabréfshafa.“

Ég vil taka það fram varðandi þetta með stafrænu myndina að á ákveðnu stigi í þessu undirbúningsferli komu fram viðhorf frá ljósmyndurum sem töldu að með því að færa þetta þannig inn til sýslumanna, að menn gætu tekið sjálfir af sér þessar myndir, væri verið að draga úr störfum ljósmyndara en náðst hefur samkomulag við þá um það hvernig þeir geta komið að þessu og sent stafrænar myndir til útgáfuaðila vegabréfanna þannig að þeirra starfsöryggi er ekki stefnt í voða með þessari breytingu.

Þá er spurt:

„Af hverju vegabréf með lífkennaupplýsingum, rafræn vegabréf?“

Svarið er:

„Alþjóðaflugmálastofnunin hefur um árabil unnið að þróun rafrænna vegabréfa með lífkennaupplýsingum. Nú hafa mál þróast þannig að alþjóðasamfélagið krefst rafrænna vegabréfa og til þess að tryggja Íslendingum viðunandi ferðafrelsi er nauðsynlegt að hefja útgáfu slíkra vegabréfa sem fyrst. Evrópusambandið hefur samþykkt að öll ríki þess hefji útgáfu rafrænna vegabréfa eigi síðar en 28. ágúst 2006. Þessi samþykkt Evrópusambandsins er einnig skuldbindandi fyrir Ísland.“

Þá er spurning hér:

„Verða nýju vegabréfin með lífkennaupplýsingum dýrari en eldri vegabréf?“

Svarið við því er:

„Nýju vegabréfin verða nokkuð dýrari í framleiðslu en eldri vegabréf. Ekki er þó ráðgert að hækka verð þeirra til handhafa.“

Ég vil vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að vegabréfið gildi eins og segir hér í 5. gr.:

„Gildistími almenns vegabréfs skal vera fimm ár frá útgáfudegi en heimilt er að lengja þann tíma eftir því sem ákveðið skal í reglugerð. Gildistími annarra vegabréfa skal ákveðinn í reglugerð.“

Þarna er gildistíminn styttur úr tíu árum í fimm og ástæðan fyrir því er sú að menn eru ekki öruggir um það hvernig þessi nýja tækni endist, hvað hún er endingargóð. Ef það kemur í ljós að hún heldur fullu gildi eftir fimm ár er einfalt að gefa út reglugerð um það að þessi vegabréf skuli framlengd um fimm ár eða hvaða tíma sem menn ákveða í því efni þannig að þetta er varúðarákvæði um gildistímann í fimm ár til þess að menn hafi svigrúm í því efni með hliðsjón af reynslunni.

Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að gera svo rækilega grein fyrir þessu litla frumvarpi, sem er nú samt stórt, því að það snertir Íslendinga mjög sem ferðast mikið og vilja hafa ferðaskilríki sín í góðu lagi. Ég vona því að það fái góða umfjöllun hér í þinginu og skjóta afgreiðslu til þess að við getum búið þessi skilríki sem best í hendur okkar borgara og innan þeirra tímamarka sem okkur eru sett.



[16:02]Útbýting:

[16:03]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf og eins og hefur komið fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra þá eru tvær meginbreytingar þar á ferð. Í fyrsta lagi á að taka upp nýja gerð vegabréfa, sem innihalda eiga rafræn lífkenni, og í annan stað er verið að breyta útgefanda á vegabréfum, það er sem sagt verið að flytja þá starfsemi frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár.

Við ræddum fyrr í dag við hæstv. forsætisráðherra í tengslum við annað frumvarp, sem laut að flutningi Þjóðskrár frá Hagstofunni til dómsmálaráðuneytisins, og í þeirri umræðu komu m.a. fram spurningar um hvort það stæði til að flytja Þjóðskrána eða hluta af verkefnum Þjóðskrár út á land. Hæstv. forsætisráðherra vísaði þeirri spurningu á hæstv. dómsmálaráðherra, sem hann vissi að mundi mæla fyrir þessu máli hér á eftir, og það væri fróðlegt að bera þá spurningu upp gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra varðandi þann hugsanlega flutning.

Í greinargerð frumvarpsins segir að krafan um breytingarnar sé vegna alþjóðlegra krafna. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hvort verið sé að ganga eitthvað lengra en alþjóðlegar kröfur gera ráð fyrir. Eru þetta fyrst og fremst kröfur sem Bandaríkjamenn hafa verið að setja? Í greinargerðinni er einnig vísað í samræmdar kröfur Schengen-ríkjanna, talað um samkomulag milli Schengen-ríkjanna um að ríki skuli hefja útgáfu nýrra vegabréfa eigi síðar en 22. ágúst nk. Þá langar mig að spyrja í framhaldi af því hvort þetta séu fyrst og fremst bandarískar kröfur eða evrópskar kröfur varðandi þetta samkomulag Schengen-ríkjanna. Stendur það til að öll Schengen-ríkin verði að hefja nýja útgáfu vegabréfa eins og við erum að gera hér? Er hæstv. dómsmálaráðherra eitthvað kunnugt um það hvort ferðalög innan Schengen-svæðisins geti raskast ef ákveðin Schengen-ríki taka ekki til við að hefja útgáfu þessara nýju vegabréfa? Mig langaði aðeins að fá upplýsingar um það hvað er að gerast á vettvangi Evrópuþjóða hvað þetta varðar því að fókusinn hefur auðvitað verið svolítið á kröfur Bandaríkjamanna.

Í frumvarpinu er lífkenni skilgreint þannig:

„Lífkenni geta til dæmis verið andlitsmynd, augnmynd, fingraför, undirskrift en einnig upptaka af rödd viðkomandi eða önnur þau líkamlegu einkenni sem unnt er að mæla með ákveðinni tækni þannig að þau greini einstaklinga hvern frá öðrum. Lífkenni eru oftast myndir sem unnt er að nota til auðkenningar einstaklings. Til dæmis er andlitsmynd í vegabréfi lífkenni.“

Svo er talað um rafræn lífkenni, svo sem rafrænar andlitsmyndir, sem greina má með tölvubúnaði og þannig má vélrænt aðgreina einstaklinga.

Mig langaði að forvitnast um það hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta sé tæmandi upptalning á því sem honum dettur a.m.k. í hug hvað er lífkenni, því að stundum er umræðan um lífsýni. Er það ekki alveg rétt hjá mér að þetta á ekkert skylt við lífsýni eins og það hefur verið í umræðunni og lífsýni eru ekkert undirflokkur lífkenna ef svo mætti segja, til að fyrirbyggja þann misskilning að við erum ekkert að fara inn á þær brautir?

Önnur meginbreytingin, eins og ég sagði, í þessu frumvarpi snertir útgáfu vegabréfa. Almenn vegabréf verða eftir samþykkt þessa frumvarps gefin út af Þjóðskrá í stað Útlendingastofnunar og Þjóðskráin verður síðan flutt til dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt frumvarpinu verður útgáfa þjónustuvegabréfa og diplómatískra vegabréfa áfram hjá utanríkisráðuneytinu og síðan verður útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga og flóttamenn áfram hjá Útlendingastofnun. Mig langaði að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju voru þessi vegabréf skilin eftir, af hverju eiga vegabréf útlendinga enn þá að vera hjá Útlendingastofnun? Þá er ég kannski að tala um í ljósi möguleika á að nýta mannafla, aðstoð og þekkingu hjá Þjóðskránni sem verður kannski hjá dómsmálaráðuneytinu.

Það væri líka fróðlegt að vita það ef hæstv. dómsmálaráðherra hefur það á takteinum: Hver er eiginlega fjöldi þessara vegabréfa, þ.e. vegabréfa til útlendinga og flóttamanna og síðan þessara þjónustuvegabréfa og diplómatísku vegabréfa? Ég held að upplýsingar um fjölda þjónustuvegabréfa og diplómatískra vegabréfa liggi fyrir í einhverri fyrirspurn sem mikið var gert úr hér í haust. En það er bara svona til að fá einhverja innsýn í hvort þetta sé mikill fjöldi vegabréfa sem er þá skilinn eftir fyrir utan Þjóðskrána.

Eðlilegt er að spyrja: Mun kostnaður við kaup á vegabréfum aukast? Greinargerðin og hæstv. ráðherra segja nei. Það er að sjálfsögðu gott og gilt. Við sjáum líka að frumvarpið segir að þessi nýju vegabréf verði dýrari í framkvæmd og þó að hæstv. ráðherra og frumvarpið segi að gjaldtakan eigi ekki að aukast langar mig að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra geti fullvissað okkur um að hann muni t.d. ekki beita sér fyrir að gjaldtaka vegabréfanna verði aukin í hans ráðherratíð á næstunni a.m.k. Það getur vel verið að menn stefni að því að auka ekki gjaldtökuna en síðan getur það breyst. Getur hann með nokkurri vissu fullyrt að þau muni ekki hækka í verði? Það er væntanlega ákveðin freisting til þess í ljósi þess að framleiðsla þessara nýju vegabréfa verður dýrari. Við sjáum líka að gildistaka vegabréfa styttist úr tíu árum í fimm ár, eins og kemur fram í 5. gr. Þá er ákveðin hætta á því að kostnaðurinn, ef menn þurfa að kaupa sér nýtt vegabréf á fimm ára fresti í staðinn fyrir tíu ára fresti plús það að hugsanlega verða þau dýrari í framtíðinni, verði allnokkur.

Aðeins um 7. gr., svona nánast að lokum. Í greinargerð með 7. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að opinberum stofnunum sé heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu. Þá verði Þjóðskrá og lögreglu heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera.“

Við ræddum þetta einnig við hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag og hann vísaði á hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta varðar. Okkur langaði að vita hvort samvinna Þjóðskrár og lögreglu sé eitthvað að breytast með þessu eða verður þetta bara eins og hefur verið? Er verið að auka aðgang lögreglu að þessum upplýsingum eða er þetta bara eins og það hefur alltaf verið, þannig að hæstv. dómsmálaráðherra geti þá staðfest að þetta sé bara svipað og það hefur verið og engin grundvallarbreyting hvað það varðar eða hvað?

Að lokum er það 4. gr. en þar er kannski þriðja efnisbreytingin:

„Lagt er til að heimild til útgáfu vegabréfs til barns á grundvelli umsóknar frá öðru forsjárforeldra verði þrengd frá því sem nú er. Sú breyting sem hér er lögð til snertir hvorki upptöku lífkenna í vegabréf né breyttan útgefanda bréfanna.“

Þetta á vel við störf allsherjarnefndar þessa dagana þar sem við erum að fjalla um annað frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem lýtur að því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu.

Með leyfi forseta, stendur í 4. gr.:

„Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.“

Mig langaði að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra gæti upplýst hvernig þessi athugun ætti að fara fram. Við sjáum að í greinargerðinni er sagt að athugun Þjóðskrár lúti almennum reglum stjórnsýslulaga — og það liggur auðvitað í augum uppi sem opinber stofnun — og að þessi athugun beinist að því að fá staðfest eftir því sem unnt er að enginn ágreiningur sé á milli foreldranna um útgáfu vegabréfs til barnsins, að raunveruleg vandkvæði séu á því að afla umsóknar beggja foreldra og að sá sem sækir um hafi ekki slík tengsl við annað ríki að hætta sé á að hann hverfi þangað með barnið.

Þetta síðasta efnisatriði, varðandi það að Þjóðskráin athugi hvort viðkomandi hafi ekki slík tengsl við það ríki sem hann er að fara til, það er t.d. ekki í lögunum en það er útskýrt þarna í greinargerðinni. En það væri gott ef hæstv. dómsmálaráðherra gæti dýpkað skilning okkar á því hvernig þessi athugun færi fram sem vel er hægt að ímynda sér að gæti svolítið reynt á a.m.k. í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum fengið.

Að lokum tek ég undir það sem hæstv. dómsmálaráðherra segir, að það er mikilvægt fyrir Íslendinga að búa við góð ferðaskilríki. Íslendingar ferðast mjög mikið og ég held að stór hluti af þjóðinni hafi vegabréf. Án ábyrgðar ætla ég að rifja það upp að ég sá það einhvers staðar að í Bandaríkjunum eru einungis um 15% íbúa með vegabréf, það er merkilegt í ljósi þess fjölda sem við erum vön hvað varðar einstaklinga og borgara sem hafa vegabréf.

Það er gríðarlega mikilvægt að við leggjumst öll á eitt um að Íslendingar geti ferðast tiltölulega óhindrað milli landa og að ferðaskilríkin okkar séu þannig úr garði gerð að Íslendingar lendi ekki í vandkvæðum hvert og hvenær sem þeir fara.



[16:12]Útbýting:

[16:13]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. dómsmálaráðherra mælt fyrir mjög áhugaverðu máli varðandi vegabréfin og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið mjög vel yfir það líka þannig að það er ýmislegt sem er að skoða.

Ég vil aðeins bæta því við sem mér datt í hug þegar ég fór yfir þetta. Heimurinn fór náttúrlega á annan endann eftir 11. september 2001 þannig að það er kannski ekkert skrýtið þó að við þurfum að hugsa allt upp á nýtt. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um tölvulesnu vegabréfin og vegabréfin frá 1999, ég fékk mér tölvulesið vegabréf svo að ég gæti komist til Bandaríkjanna og er mjög ánægð með að ég get þá aðeins notað það áfram. En það kemur að því að ég þarf að fá mér þessa tegund af vegabréfi. Það má ekki gleyma því að þessi vegabréf eru talsvert dýr. Þetta er kostnaður fyrir fjölskyldur og sérstaklega má búast við að þau verði dýrari með hinum nýju örgjörvum sem í þau verða settir.

Þjóðskráin mun nú verða útgefandi og allt í lagi með það. Þá erum við alveg komin í hring. Það var nefnilega þannig áður fyrr að við sóttum um vegabréfin okkar á Lögreglustöðinni hér í Reykjavík og nú erum við komin þangað aftur. Ég hins vegar harma það, og ég veit að við munum fara yfir það í hv. allsherjarnefnd, að útlendingar og flóttamenn eru aðskildir og verða áfram hjá Útlendingastofnun, ég tala nú ekki um út frá þeim hugmyndum að Útlendingastofnun eigi að fara til Reykjanesbæjar. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju sá hluti starfseminnar er tekinn út en við kannski fáum Útlendingastofnun á okkar fund til þess að fara yfir það af hverju það er gert, því að eftirlitið gæti líka — og ég tala nú ekki um allar upplýsingar úr Þjóðskránni og tenging Þjóðskrár og lögreglu. Það ætti algjörlega að vera tryggt að enginn fái vegabréf án þess að upplýsingar liggi fyrir og í rauninni er tenging milli þessara þriggja kerfa mjög skýr. Ég vildi því gjarnan að engin aðgreining væri í því og við værum öll á einum stað og úti á landi gæti fólk leitað til sýslumanna en ekki að það sé það mikið umhendis að Pólverjar á Ísafirði þurfi að tala við Útlendingastofnun í stað þess að tala við sýslumanninn þar. Það eru kannski svona núansar í þessu og er þá kannski eitthvað sem við munum skoða og laga.

Ágúst Ólafur benti jafnframt á 4. gr. og hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir henni og því sem við erum núna að vinna með í hv. allsherjarnefnd varðandi sameiginlega forsjá. Við erum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þar á meðal að koma í veg fyrir brottnám barna. En mér finnst heimurinn orðinn pínulítið, og játa það bara hér, of harður, að t.d. væri hægt að stoppa fólk af að fara erlendis í nám með börnin sín með sér og annað. Við höfum nú rætt það í hv. allsherjarnefnd en auðvitað þurfum við líka að koma í veg fyrir þetta brottnám og passa vel upp á þá þætti.

Það verður áhugavert að vinna málið áfram í hv. allsherjarnefnd.



[16:17]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ágætu umræður. Hver bað um þetta? Hver átti frumkvæðið að því menn fóru út í að gefa út ný vegabréf á alþjóðavísu með þessum hætti. Frumkvæðið kemur í raun og veru frá Alþjóðaflugmálastofnuninni. Það er hún sem má segja að sé frumkvöðull í þessu efni. Síðan eru þjóðir að taka þetta upp og Schengen ríkin eru að gera þetta alveg án tillits til þess hvað Bandaríkjamenn er að gera. Allar þjóðir sem vilja halda uppi öflugri landamæravörslu telja að sú leið sem hér er farin sé nauðsynleg til þess að trygga sem best landamæraeftirlit og besta skráningu á fólki og annað slíkt sem eru nauðsynleg úrræði til að standa vel að landamæravörslu.

Varðandi orðið lífkenni þá er það orð sem við höfum tekið í notkun eftir ábendingu frá Íslenskri málstöð. Það er aðgreint frá orðinu lífsýni. Lífsýni er DNA sýni og annað slíkt. Ég veit ekki hvort það er alveg tæmandi talið það sem menn geta fellt undir lífkenni hér í greinargerð með frumvarpinu. En það er tvennt ólíkt, lífkenni og lífsýni.

Það hefur verið rætt um hvers vegna Útlendingastofnun eigi að gefa út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Ástæðan fyrir því er sú að útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga byggist á skilyrðum sem koma frá Útlendingastofnun og ferðaskilríki fyrir flóttamenn jafnframt. Því var talið eðlilegt að þetta yrði áfram á hendi Útlendingastofnunar sem hefur bestar forsendur til að standa að þessari útgáfu með hliðsjón af þeim skyldum sem henni ber að framfylgja til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Í þessu felst enginn mismunun á neinn hátt heldur er þetta eins og eðlilegt er um verkaskipting á milli stofnana innan ríkisins. Þjóðskráin er útgefandi annarra vegabréfa vegna þess vegabréfin byggjast á samkeyrslu á þjóðskrá og þeim upplýsingum sem vegabréfshafinn leggur fram. Það á ekki við um útlendinga. Þeir eru yfirleitt ekki skráðir á þann veg þegar um þetta er að ræða.

Varðandi það sem segir í 4. gr. þegar menn eru að velta fyrir sér hvaða athugun fram skuli fara þá er þjóðskráin náttúrlega aðili sem þarf að fara, eins og hérna segir, að almennum reglum stjórnsýslulaga og verður að haga störfum sínum í samræmi við það. Það sem þarna er um að ræða — menn verða að lesa lagagreinina. Þar segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.“

Þarna er verið að leggja áherslu á að það verða að vera mjög sérstakar aðstæður sem valda því að slíkt vegabréf sé gefið út og ber að árétta það. En það er náttúrlega ógjörningur líka að það að menn geti ekki gefið út vegabréfið standi í vegi fyrir að foreldri geti farið með barn og fengið vegabréf þegar þannig er ástatt eins og greinin gerir ráð fyrir. Þannig að meðalhófið í þessu er augljóst og það sem um er að ræða er að ef forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt þá leiði það ekki til þess að hitt foreldrið geti ekki farið til Þjóðskrár eða útgefanda vegabréfs og beðið um vegabréf handa barninu. Ég held að það væri verra ástand en að hafa þá heimild í lögum sem þarna er gert ráð fyrir enda verður henni náttúrlega ekki breytt nema samkvæmt orðanna hljóðan og þau eru ströng eins og menn sjá þegar þetta er lesið.

Ég veit ekki hvað hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson telur að ég verði lengi dómsmálaráðherra. Ég náttúrlega veit að ég nýt stuðnings hans til að vera það um mörg ár enn og þess vegna er erfitt fyrir mig að svara spurningunni um hvort ég sjái fyrir mér á næstunni, í tíð minni sem dómsmálaráðherra, að vegabréf verði hækkuð. Það er ekki inni í myndinni. Ef ég hefði talið að hækka þyrfti vegabréfin með útgáfu þeirra á nýjan hátt þá hefði það að sjálfsögðu komið fram. Okkar tilboð og okkar útboð báru það góðan árangur að við fengum tilboð og höfum staðið að þessu á svo skipulagðan og góðan hátt, eins og menn geta kynnt sér þegar þetta mál verður rætt í allsherjarnefnd og fengið upplýsingar um kostnað og hugmyndir sem við höfum um kostnaðinn og hvernig þetta dæmi allt lítur út núna, að þetta gekk það vel fyrir sig að við teljum að við getum selt þessi vegabréf á sama verði og þau sem eru útgefin núna.

En það er mjög athyglisvert þegar hugað er að greiðslu sem fólk er reiðubúið til að inna af hendi vegna kaupa á vegabréfum hve hátt hlutfall manna kemur á síðustu stundu og þarf að borga svokallað hraðgjald. Ef ég man rétt held ég að það sé um þrjátíu af hundraði. Þó man ég þetta ekki alveg. Ég er ekki með þessar tölur í hendi. En það er ótrúlega hátt hlutfall af þeim sem biðja um vegabréf sem koma á síðustu stundu og borga þess vegna mun meira fyrir það en ef þeir sýndu þá forsjálni að vera kannski vikunni fyrr og búa sig undir ferðir sínar með því að afla sér vegabréfs. Það virðist ekki vera kannski að menn séu mikið að hugsa um kostnaðinn við vegabréfin þegar þeir eru að halda í utanlandsferðir þótt það sé óhjákvæmilegt tæki sem menn þurfa að hafa í höndunum til að geta ferðast hindrunarlaust á milli landa. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að afgreiða þetta frumvarp núna í vor svo unnt verði að standa við þetta allt fyrir okkar borgara.

Í 7. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Opinberum stofnunum er heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu. Þjóðskrá og lögreglu er heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera.“

Þetta er rætt aðeins í greinargerðinni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eðli máls samkvæmt þarf lögregla að hafa aðgang að upplýsingum um gögn sem liggja að baki útgáfu vegabréfs vegna starfa sinna við landamæraeftirlit. Unnt þarf að vera að staðreyna að vegabréfi hafi ekki verið breytt og að það sé í höndum þess einstaklings sem fékk það útgefið. Einnig getur lögregla þurft að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera og til þess getur aðgangur að skilríkjaskrá verið nauðsynlegur.“

Þetta er eins einfalt og gegnsætt og verið getur. Síðan segir, með leyfi forseta“

„Þá er lagt til að áréttuð verði heimild til að birta erlendum stjórnvöldum upplýsingar úr skránni er varða glötuð og stolin skilríki. Í baráttunni gegn hryðjuverkum og alþjóðlegri afbrotastarfsemi hefur verið lögð aukin áhersla á að ríki skiptist gagnkvæmt á upplýsingum um glötuð og stolin vegabréf. Íslensk stjórnvöld taka nú þegar þátt í slíkum upplýsingaskiptum á grundvelli Schengen-samstarfsins og á vettvangi Interpol.“

Það eru fréttir um það í blöðum núna, ef ég sá rétt, að íslensk stjórnvöld eru að glíma við vanda af þessum toga. Þetta eru því allt viðfangsefni sem menn þurfa að huga að. Auðvitað væri hægt að ganga lengra í lögheimildum varðandi notkun á þessari skrá fyrir lögregluna. Ef þingmenn hafa áhuga á því þá er það nokkuð sem hægt er að ræða í allsherjarnefndinni. En þetta eru tillögur okkar. En þingmenn geta vafalaust, ef þeir vilja taka það upp við lögregluyfirvöld eða aðra, fengið upplýsingar um að það væri hægt að ganga lengra í þessu efni eins og öðrum.