132. löggjafarþing — 95. fundur
 29. mars 2006.
aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.
fsp. HlH, 518. mál. — Þskj. 757.

[12:40]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn frá hv. þm. Hlyni Hallssyni sem hljóðar svo:

„Hvenær er fyrirhugað að ráðast í framkvæmdir til að bæta aðstöðu farþega á Egilsstaðaflugvelli?“

Um Egilsstaðaflugvöll fóru í fyrra um 127 þúsund farþegar og var það þriðja árið í röð sem metfjöldi farþega fór um flugvöllinn og allt stefnir í enn eitt metárið árið 2006 með sama áframhaldi. Gert er ráð fyrir að millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll þrefaldist á þessu ári. Í fyrra fóru um 30 flugvélar um völlinn í millilandaflugi en þær verða um 100 næsta ár ef áætlanir ganga eftir. Í dag lenda um 150–200 vélar á Egilsstaðaflugvelli í mánuði.

Fyrir þrem árum voru gerð drög að stækkun flugstöðvarinnar á Egilsstaðaflugvelli um 400 fermetra en ákvörðun samgönguyfirvalda hefur látið á sér standa. Plássleysi er því farið að valda starfsmönnum og flugfarþegum sem um völlinn fara miklum óþægindum. Samkvæmt upplýsingum virðist ekkert lát vera á aukinni umferð um Egilsstaðaflugvöll því að í janúarmánuði lentu þar 179 flugvélar, sem er 11% aukning frá því í sama mánuði í fyrra, og farþegum fjölgaði um 32 þúsund og voru 10.519. Helstu þættir sem gera þarf bráðaúrbætur í varða öryggismál, almenn þrengsli í flugstöðinni og tollafgreiðslu.

Hæstv. forseti. Aðstaðan fyrir flugvernd er ófullkomin og fer öll skoðun fram í einni gegnumlýsingarvél sem annars er ætluð fyrir stærri varning svo sem lestarfarangur. Engin leitarvél er sérstaklega ætluð fyrir handfarangur. Þegar innrita þarf í utanlandsflug þarf að loka fyrir innritun í innanlandsflug, sem er náttúrlega ótækt og takmarkar umferð um völlinn. Einnig er bæði innritun og skoðun utanlandsfarþega tímafrek þar sem aðstaða til tollskoðunar, vegabréfaskoðunar og vopnaleitar er nánast engin og notast er við aðstöðu flugverndar. Líkamsleitin fer fram í kaffistofu starfsfólks. Það þýðir að tollafgreiðsla farþega getur ekki hafist fyrr en að lokinni öryggisskoðun og innritun brottfararfarþega. Komusalurinn er 90 fermetrar og aðskilnaður fyrir komu- og brottfararfarþega ekki fyrir hendi. Þetta er andstætt kröfum um flugvernd. Auk þess eru bílastæði ófullnægjandi og fyrirliggjandi tillaga um stækkun er engan veginn nóg eins og umferð er orðin. Eins og staðan var í janúar, og birtist mynd af því í blöðum, voru 202 farþegar í komusalnum og höfðu u.þ.b. hálfan fermetra á mann en 22. janúar voru þeir 396 auk fylgdarfólks.

Samkvæmt nýlegum fréttum lýsti hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson því yfir að flugstöðin á Egilsstaðaflugvelli yrði stækkuð og er það vel. Ráðherra sagði að Flugmálastjórn væri að láta hanna stækkun flugstöðvarinnar og framkvæmdir hefjist á þessu ári. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef í samantektarskýrslu um Egilsstaðaflugvöll liggur fyrir tillaga að stækkun flugvallarins þar sem bent er á að tryggja þurfi fjármagn til framkvæmda verksins.

Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra: Þarf fleiri tillögur eða er hægt að bæta úr aðstöðunni strax? Það er alveg ljóst að ekki er hægt að bjóða fólki upp (Forseti hringir.) á þessa aðstöðu.



[12:43]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og bæði núverandi og fyrrverandi varaþingmanni fyrir þann áhuga sem þeir sýna þessu verkefni. Það er deginum ljósara að bæta þarf úr aðstöðu á Egilsstaðaflugvelli. Sem betur fer er mikil umferð um Egilsstaðaflugvöll vegna stórframkvæmda á Kárahnjúkum og það er meginástæðan fyrir því að stundum er mikil örtröð í flugstöðinni.

Ég hef lýst því yfir að ráðist verði í framkvæmdir á þessu ári en það þarf að sjálfsögðu að gerast á grundvelli þess að gott samráð sé haft bæði við fjárlaganefnd Alþingis og samgöngunefnd, vegna þess að þessi framkvæmd er ekki inni á gildandi samgönguáætlun. Það var talið á þeim tíma þegar samgönguáætlun var afgreidd í þinginu að ekki þyrfti að svo komnu máli að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum en engu að síður var gert ráð fyrir því að við endurskoðun á gildandi samgönguáætlun yrði þetta verkefni tekið til skoðunar. Með sama hætti gerðum við ráð fyrir að við endurskoðun á samgönguáætluninni sem er í gildi núna yrði bæði skoðuð lengingarþörfin á Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli og endurbætur í flugstöðinni. Hins vegar, og sem betur fer fyrir okkur á Íslandi, er aukningin í ferðalögum fólks, bæði til og frá landinu og innan lands um flugvellina, svo mikil að það er óhjákvæmilegt að taka til hendinni eins og við erum að gera og bæta bæði úr hvað varðar flugvöllinn á Egilsstöðum, flugstöðina, og sömuleiðis flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Innanlandsflugið, og þar með talið til Egilsstaða, verður ekki rekið með góðu móti í framtíðinni nema flugvöllurinn verði í höfuðborginni, (JGunn: Vitleysa.) og ég fagna því að hv. þingmaður og fulltrúi Samfylkingarinnar á Alþingi grípi fram í fyrir mér með því að fullvissa mig um að hv. þingmaður styðji þau áform að innanlandsflugið hafi góða aðstöðu í höfuðborginni.

Fyrirspurnin sem hér er til umfjöllunar er fullkomlega eðlileg. Við munum hefja framkvæmdir á þessu ári við að stækka flugstöðina og stórbæta þá aðstöðu sem er ekki eins og hún þarf að vera, eins og kom mjög vel fram í ágætri ræðu þingmannsins. Okkur er það alveg ljóst í samgönguráðuneytinu og það mun ekki líða langur tími þangað til hægt verður að fjalla um þessa framkvæmd og koma henni af stað, bæði á vettvangi ráðuneytisins og Flugmálastjórnar og sömuleiðis skipulagsyfirvalda í sveitarfélaginu. Við þurfum að hlúa mjög að innanlandsfluginu, við þurfum að leita allra leiða og standa mjög vel að framkvæmdum sem styrkja innanlandsflugið. Ísland er dreifbýlt land, sjötta dreifbýlasta land í veröldinni, og við þurfum mjög á flugsamgöngum að halda.

Þess vegna er ég er afar ánægður með hversu góðan stuðning ég hef sem samgönguráðherra hér í þingsölum við þau áform mín að leita allra leiða til að efla innanlandsflugið með því að bæta úr flugvallaraðstöðunni. Við höfum verið að því. Við höfum stórbætt aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli, hann er nýendurbyggður, og verið er að undirbúa samgöngumiðstöð sem gert er ráð fyrir að þjóni honum. Framkvæmdir eru á Ísafjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli til að styrkja innanlandsflugið enn betur. Og verið er að undirbúa að bæta með lengingu Akureyrarflugvöll og flugstöðina á Egilsstöðum. Það er af mörgu að taka, en ég hvet hv. þingmenn til þess að standa áfram með samgönguráðherranum í þeim áformum að efla innanlandsflugið með öllum ráðum.



[12:49]
Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þessari fyrirspurn. Hún er mjög athyglisverð og vel rökstudd. Það er líka vert að velta því fyrir sér hvers vegna þurfi að gera þessar miklu breytingar á Austurlandi, á Egilsstaðaflugvelli.

Ég minnist þess að þegar ég fór um Eyjabakka á sínum tíma og skoðaði Kárahnjúka og þess háttar þá var ekkert mjög mikil umferð á Egilsstöðum, langt í frá. En það er mikill kraftur í atvinnulífinu á Austurlandi núna og því er mjög brýnt að takast á við þetta vandamál, vandamál sem á vissan hátt er jákvætt vegna þess að þarna er svo mikið að gerast. Sjálfur fór ég um þennan flugvöll á föstudaginn var og sá hvað er að gerast þarna. Mér finnst mjög athyglisvert og raunar jákvætt að félagar úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði skuli benda á þetta með þessum hætti og þar með hugsanlega viðurkenna þessa brýnu þörf og gera sér grein fyrir því hvers vegna hún er fyrir hendi.



[12:50]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn sem sett er fram og eins svar hæstv. ráðherra. Miðað við þær stórframkvæmdir sem nú eru fyrir austan er það auðvitað mjög sérkennilegt að við skulum ræða núna árið 2006 nauðsyn á því að stækka flugstöðina á Egilsstaðaflugvelli og ætla að fara að hefja framkvæmdir í haust. Þetta er eitt af því sem við áttum að vera búin að gera áður en þær stórframkvæmdir hófust.

Það er svo margt, virðulegi forseti, sem hefur setið eftir frá hendi ríkisvaldsins hvað þetta varðar. Nú berast neyðaróp að austan úr heilbrigðisþjónustunni. Þar vantar peninga vegna aukinna umsvifa og reksturs. Það fjármagn hefði átt að vera búið að tryggja áður. Virðulegi forseti. Ég fagna því sem á að fara að gera á Egilsstaðaflugvelli. Betra er seint en aldrei.

En mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það ófremdarástand sem er við ferjuhöfnina á Seyðisfirði. Þar hefur líka verið bankað á dyr samgönguyfirvalda um að gera þær endurbætur sem sannarlega verður að gera. Hvernig stendur það mál? Má líka vænta ákvörðunar um það á næstu mánuðum?



[12:51]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það vefjist ekki fyrir nokkrum manni að það er nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir til að bæta aðstöðu farþega á Egilsstaðaflugvelli og þarf varla að eyða löngum tíma í að ræða það.

Ég ætla að fara aðeins inn á aðrar brautir. Hæstv. ráðherra fór í svari sínu inn á trúaratriði sitt varðandi flugvöllinn fyrir innanlandsflugið í Reykjavík. Hæstv. ráðherra sagði að innanlandsflug verði einungis rekið frá Reykjavíkurflugvelli. Það er ótrúlegt að hlusta á hæstv. ráðherra standa í ræðustóli Alþingis og fara aftur og aftur með slíkar skoðanir, oft og tíðum órökstuddar með öllu. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra að halda því fram að það sé einungis hægt að reka innanlandsflug á Íslandi frá flugvellinum í Reykjavík? Af hverju er það t.d. ekki hægt frá flugvellinum í Keflavík? Getur hæstv. ráðherra svarað því?



[12:52]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir þá ágætu fyrirspurn sem hún hefur borið fram, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í annars ágætt svar hæstv. samgönguráðherra finnst mér vanta upplýsingar um það hvað ætlunin er að gera nákvæmlega í sumar, úr hverju á að bæta, nákvæmlega hvaða atriði á að framkvæma, hvað á að gera í sumar og svo næsta sumar. Mér finnst mjög mikilvægt að því sé svarað.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagði það athyglisvert að Vinstri grænir vilji styrkja flugvöllinn á Egilsstöðum. Auðvitað viljum við það. Þarna eru mikil umsvif í gangi og það væri fáránlegt að stinga höfðinu í sandinn eins og framsóknarmenn vilja oft gera, stökkva út um dyrnar og síðan gleyma raunveruleikanum. Raunveruleikinn er sá að það þarf að endurbæta, styrkja og efla starfsemi og aðbúnað á flugvellinum á Egilsstöðum og það ber að gera.



[12:54]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tvískinnungur Sjálfstæðisflokksins í málefnum flugvallarins í Vatnsmýrinni er með nokkrum ólíkindum. Forustumaður Sjálfstæðisflokksins og borgarstjóraefnið Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson boðar það afdráttarlaust, að ég hef heyrt, að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni. Þar hafa menn rætt ýmsar leiðir eins og að hann fari til Keflavíkur og þar verði rekinn einn innanlandsflugvöllur og gerðar verði fyrirtaksbrautir suður eftir þannig að farartíminn á milli Reykjavíkur og Keflavíkur verði ekki nema hálftími.

Á sama tíma og hæstv. samgönguráðherra boðar að byggja skuli nútímalega og glæsilega samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni, eins og ráð hefur verið fyrir gert, hafa báðir stóru flokkarnir í Reykjavík, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, tekið undir það hvor með sínum hætti að flugvöllurinn hljóti að víkja úr Vatnsmýrinni. Margir tala um að hann fari til Keflavíkur, aðrir upp á Hólmsheiði, kostirnir eru nokkrir. En tvískinnungur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli kemur mér verulega á óvart.



[12:55]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmenn hljóti að vera að oftúlka orð hæstv. samgönguráðherra. Ég treysti því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eina stefnu um það að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki í Vatnsmýrinni til framtíðar og að samgönguráðherra sé að vinna að því að finna vellinum annan stað — sannarlega á höfuðborgarsvæðinu en á öðrum stað. Ég held að það væri gott, út af þeim hita sem hér hefur verið í athugasemdum, að hæstv. samgönguráðherra upplýsi okkur um það við þetta tækifæri hvaða staði er verið að skoða og hvaða kosti honum líst best á í því. Hann mætti líka upplýsa okkur um það hvort, í því erfiða atvinnuástandi sem nú er að skapast á Suðurnesjum, ekki megi styrkja atvinnulífið og byggðina með því að flytja þessa mikilvægu starfsemi á þann stað á Reykjavíkursvæðinu sem er Keflavík. Þar eru allir innviðir til að taka við þessari starfsemi sem við erum væntanlega sammála um, ég og hæstv. samgönguráðherra, að hlýtur að víkja úr Vatnsmýrinni.



[12:56]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað mjög skiptar skoðanir um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og það getur vel verið að einhvern tíma í framtíðinni verði þar ekki flugvöllur. En ég held við verðum að horfast í augu við það að þarna verði flugvöllur á næstunni. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það eru líkur á því að stór hluti innanlandsflugs leggist af ef það verður allt frá Keflavík. Það er það langt að keyra þangað. Ef innanlandsflugið verður flutt til Keflavíkur aka menn út á land í stað þess að fljúga.

Síðan er það líka spurning um kostnað við að byggja annan flugvöll í Reykjavík fyrir innanlandsflugið. Það er alltaf mjög mikil barátta um skattfé borgaranna. Ég hefði frekar viljað sjá það fara í velferðarþjónustuna frekar en að það fari í það að leggja niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni og byggja annan flugvöll á Reykjavíkursvæðinu. Við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr því en ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að ég hef efasemdir um að mikið verði flogið innanlands ef flytja á innanlandsflugið til Keflavíkur. (ÍGP: Fyrirspurnin snerist um Egilsstaði.)



[12:58]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, fyrirspurnin átti að snúast um Egilsstaðaflugvöll en ekki Vatnsmýrarflugvöllinn. Ég er hins vegar sammála síðasta ræðumanni hvað það varðar að það eru mjög þverpólitískar og skiptar skoðanir í öllum flokkum um það mál.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og þingmönnum sem hér hafa kvatt sér hljóðs. Vegna andsvaranna fór umræðan svolítið að snúast um annað en mér fannst hún upphaflega eiga að snúast um en ég tek undir athugasemd hv. þm. Kristjáns Möllers hvað varðar ferjusamgöngur á Seyðisfirði. Vissulega þurfa þær að njóta ákveðins forgangs líka. Það er búist við aukinni umferð þar eins og um Egilsstaðaflugvöll.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom með ákveðnar athugasemdir til Vinstri grænna. Ég tel að þetta séu bara bein ruðningsáhrif, sem við þingmenn Vinstri grænna höfum svo gjarnan bent á, vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er eitt af því sem hefur þurft að sitja á hakanum vegna þenslu.

Egilsstaðaflugvöllur býður á stundum farþegum upp á hálfan fermetra í pláss og öryggismálin eru í miklum ólestri, samkvæmt úttekt sýslumannsins á Seyðisfirði. Hún segir, með leyfi forseta:

„Lagfæringar vegna þeirra atriða sem ég taldi upp áðan eru mjög brýnar. Þær geta ekki farið fram án aðkomu tollstjóra þar sem nauðsynlegt er að hagsmunir tollstjóra og umráðaaðila flugstöðvarinnar fari saman.“

Þetta er eitthvað sem sýslumaður Seyðisfjarðar, Ástríður Grímsdóttir, segir að verði að gerast strax. Það getur ekki beðið fram á næsta haust. Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra enn og aftur: Sjáum við einhverjar tímasetningar í þessu máli?



[13:00]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér hafa skapast ágætar umræður, eins og oft áður, um innanlandsflugið. Komið hafa fram nokkur atriði sem er rétt að tæpa á. Fyrst vil ég nefna, sem er reyndar til hliðar við fyrirspurnina sem snýst um flugstöðina á Egilsstaðaflugvelli, að hv. þm. Kristjáns Möller talaði um að bæta þyrfti aðstöðu í ferjuhöfninni á Seyðisfirði og að bankað væri á dyr samgönguráðherra hvað það varðar.

Þeim framkvæmdum sem samgönguráðuneytið hefur staðið fyrir á Seyðisfirði vegna ferjunnar er lokið en það sem hins vegar er verið að tala um að bæta úr er aðstaða vegna tollskoðunar. Það er á vettvangi fjármálaráðuneytisins og ég veit að fjármálaráðuneytið vinnur að skoðun á því máli og mun finna lausn og koma í framkvæmd því sem gera þarf í Seyðisfjarðarhöfninni.

Spurt var hvað gera ætti í sumar. Það kom í fram í svari mínu að við gerum ráð fyrir að setja þessar framkvæmdir af stað í sumar, þ.e. stækkun flugstöðvarinnar. Ég vona svo sannarlega að það taki ekki langan tíma og eigi ekki að þurfa að taka langan tíma þannig að stærsti partur framkvæmdanna verði á þessu ári. Hvað það varðar að öryggismálin séu ekki í lagi á flugvellinum þá vísa ég því til þeirra sem eiga að sjá um þau öryggismál, svo sem eins og viðkomandi tollstjóri. Samkvæmt upplýsingum mínum eru öll öryggismál og eiga að vera í lagi á þessum flugvelli eins og öllum öðrum. (Forseti hringir.) Ef svo er ekki þá er það á ábyrgð viðkomandi embættismanna.