132. löggjafarþing — 96. fundur
 29. mars 2006.
heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 456. mál. — Þskj. 681, nál. 982.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:09]

[16:54]
Kristinn H. Gunnarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem er að ganga til atkvæða er lagt til að veita heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Málið er skýrt með því að það sé talið nauðsynlegt að afsala til Landsvirkjunar þessari eign vegna þess að gert hafi verið ráð fyrir því í upphafi þegar Landsvirkjun var stofnuð að ríkið legði þessa eign til.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í úrskurði óbyggðanefndar frá 2002, sem í raun hrindir þessu máli af stað, kemur fram að í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum sé hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Í öðru lagi fékk ríkislögmaður málið til umsagnar og komst að þeirri niðurstöðu að hann telur niðurstöðu óbyggðanefndar ágætlega rökstudda, sannfærandi og eðlilega og telur jafnframt líklegt að niðurstöður nefndarinnar varðandi lands- og vatnsréttindi Landsvirkjunar á þessu svæði yrðu staðfestar af dómstólum ef eftir því yrði leitað. Þá kemst ríkislögmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður óbyggðanefndar hafi hvorki breytt eignarhlutföllum né réttarstöðu eigenda Landsvirkjunar. Í ljósi þessara álita ríkislögmanns og úrskurðar óbyggðanefndar vantar tilgang frumvarpsins. Ég spurði eftir því í umræðunni um frumvarpið hvers vegna frumvarpið væri flutt í blóra við álit ríkislögmanns og í andstöðu við úrskurð óbyggðanefndar, og fengust engin svör við því.

Ég spurði líka eftir því hvers virði þau réttindi sem verið væri að gefa Landsvirkjun með þessu frumvarpi væru en það fengust engin svör við því.

Ég vek athygli á því að ef frumvarpið nær fram að ganga er verið að afsala úr höndum ríkisins þessum réttindum að hálfu til annarra aðila. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að vita hvers virði þau réttindi eru. Ég fer því fram á það, virðulegi forseti, að allsherjarnefnd komi saman á milli 2. og 3. umr. og afli upplýsinga við þessum spurningum og kanni tilgang frumvarpsins. Ég treysti mér ekki til að standa að þessu frumvarpi miðað við þær upplýsingar sem ekki hafa fengist og mun því ekki greiða atkvæði um málið, heldur sitja hjá og bíða, vonandi, betri upplýsinga um það við 3. umr. málsins.



[16:57]
Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þær athugasemdir sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði grein fyrir áðan komu fram, réttilega, við 2. umr. málsins í umræðum hér í gær. Það er rétt að fram komi að ég lýsti því í þeirri umræðu sem framsögumaður nefndarinnar í þessu máli að ég teldi að hv. þingmaður læsi hugsanlega fullmikið í frumvarpið miðað við það sem efni þess gæfi tilefni til. Hér er um að ræða frumvarp sem felur það í sér að staðfesta skýrt réttarástand og eignarheimildir sem gengið var frá við stofnun Landsvirkjunar fyrir rúmum 40 árum þannig að ekki væri hugmyndin að fara í neina nýja eignayfirfærslu, heldur fyrst og fremst að staðfesta að þær yfirlýsingar sem þá voru gefnar og það framsal réttinda sem þá átti sér stað með samningi aðila væri staðfest. Sú hefur verið nálgun okkar í allsherjarnefnd í þessu máli og á þeirri forsendu var málið afgreitt út úr allsherjarnefnd.

Hv. þingmaður hefur komið fram með ný sjónarmið í þessu máli, sem ekki höfðu heyrst áður í þessari umræðu, og jafnframt óskað eftir upplýsingum. Ég sem framsögumaður í málinu mun taka það upp á næsta fundi allsherjarnefndar og leggja til að málið verði tekið þar aftur til athugunar til þess að fara yfir þessar athugasemdir og vonandi greiða úr þeim sjónarmiðum sem upp hafa komið þannig að 3. umr. geti hafist án þess að einhverjir þættir séu þar óvissir. Þess vegna mun ég leggja til í allsherjarnefnd að þetta verði aftur tekið til meðferðar. Þó ítreka ég þá persónulegu skoðun mína að ekki sé tilefni til að hafa þær áhyggjur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur. En það er sjálfsagt að fara yfir málið á vettvangi nefndarinnar.



[17:00]
Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eftir samráð við félaga mína sem eiga sæti í allsherjarnefnd geri ég eftirfarandi grein fyrir afstöðu okkar til málsins, nú þegar þessum vangaveltum hefur verið lýst hér. Ég las þetta mál, eins og sennilega flestir, með því að skoða fyrst og fremst athugasemdir við lagafrumvarpið. Í þeim stendur, með leyfi forseta:

„Forsvarsmenn ríkisins voru í góðri trú um að það væri eigandi þeirra réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952.“

Það er ástæða til að halda að þarna sé í raun og veru sett fram röng fullyrðing. Svo heldur áfram:

„Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarrétti að þessum réttindum. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað …“ — Hér er talað um úrskurð óbyggðanefndar en þegar úrskurður hennar er skoðaður kemur það fram sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að í raun sé niðurstaðan sú að þessi gamli samningur, hvað varðar Titan, kemur málinu ekkert við. Óbyggðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að þessar réttarheimildir hafi verið utan við þann eignarrétt sem þar var um að ræða, eða menn töldu að um væri að ræða, eins og segir hérna, með leyfi forseta:

„Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt á svæði því sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau sérstöku réttindi sem löggjafinn hefur veitt Landsvirkjun falla í öllum meginatriðum utan þeirrar hefðbundnu eignarréttarlegu skilgreiningar sem liggur nefndu lagaákvæði til grundvallar.“

Þetta þýðir einfaldlega að það sem Landsvirkjun var lagt til á þessum tíma kom þessu Titan-máli ekkert við. Það hefur ekki orðið nein breyting á því eignarhaldi sem um var að ræða og var lagt til Landsvirkjunar við úrskurð óbyggðanefndar, engin breyting. Það virðist samt vera sem forráðamenn Landsvirkjunar hafi séð sér hag í því (Forseti hringir.) að fá eignarhaldið staðfest með einhverjum hætti.

Við munum sitja hjá við þetta mál núna og óskum eindregið eftir því að málið komi inn til nefndarinnar eins og um var talað en líka að iðnaðarnefnd fái að líta yfir það.



[17:04]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess hér, þar sem ég er einungis áheyrnarfulltrúi fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd, að ég hef haft mjög miklar efasemdir um þetta mál og ég gerði grein fyrir þeim í nefndinni en stöðu minnar vegna í henni hafði ég ekki tök á að gefa hér minnihlutanefndarálit.

Efasemdir mínar byggjast að hluta til á þeirri stefnu þessarar ríkisstjórnar að skilgreina vatn undir einkaeignarrétt. Ég tel að hér sé á ferðinni angi af því máli sem mótast í sjálfu sér af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur í þessum málum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa mótmælt hér harðlega.

Í umræðunni í gær sem ég átti því miður ekki kost á að vera viðstödd velti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson upp ákveðnum atriðum sem ég tel fullt tilefni til að skoða nánar í nefndinni og ég fagna því að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem hefur verið talsmaður nefndarinnar í þessu máli, skuli hafa gefið yfirlýsingu um að málið verði, vegna þessara nýju upplýsinga, kallað inn í nefndina aftur.

Það er nefnilega þannig að þjóðlenduúrskurðurinn frá 2002 leiðir það í ljós, sem jafnvel eru áhöld um, að ríkið hafi ekki haft yfirráð yfir þeim réttindum sem það lagði inn í Landsvirkjun 1965, og með þeim gerningi sem hér er lagt til að farið verði í færir ríkið sér þessi réttindi einhliða og af því að ríkisstjórnin getur það í krafti lagasetningarvaldsins virðist hún vilja gera það. Bent hefur verið bent á að aðrar leiðir séu færar í þessum efnum, t.d. sú sem getið er um í umsögn Umhverfisstofnunar en hún er sú að ríkið héldi réttindunum hjá sér en innheimti leigu eða endurgjald, í samræmi við 3. gr. þjóðlendulaganna, af Landsvirkjun.

Frú forseti. Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Gnúpverjahreppur hefði ekki átt afréttinn sem um ræðir og því hvorki verið til þess bær að afsala þar landi né vatnsréttindum en í mínum huga vakna við lestur þessa máls spurningar um það hvort, þegar öllu er á botninn hvolft, Gnúpverjar hafi ekki haft til að bera næmari tilfinningu fyrir landinu sem í hlut á en Landsvirkjun og hvort þá sé bara ekki réttast að fela þeim þessi réttindi frekar en Landsvirkjun. Landsvirkjun gæti þá greitt þeim (Forseti hringir.) afnotagjald samkvæmt 3. gr. þjóðlendulaganna.

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hv. þingmanna á því að þeir eru hér að fjalla um atkvæðagreiðsluna en ekki efnislega um málið sem er til atkvæða.)



[17:06]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að tjá mig um atkvæðagreiðsluna í þessu máli og lýsi því jafnframt yfir að ég hef miklar efasemdir varðandi málið. Þeir þingmenn sem talað hafa á undan mér hafa í raun og veru lýst því ágætlega. Allt frá því að ég sá þetta frumvarp fyrst læddist að mér sá illi grunur að hér væri vont mál á ferðinni. Sá grunur hefur ekki minnkað. Ég skil ekki hvað gerir það að verkum að svo mikið liggi á að afgreiða málið í gegnum þingið. Mjög alvarlegar spurningar hafa vaknað um það hvort við séum að gera hér rétt eða rangt.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að málið verði tekið fyrir aftur í allsherjarnefnd en að iðnaðarnefnd fái líka að skoða málið og það komi ekki aftur til 3. umr. fyrr en að mjög vandlega athuguðu máli og að kallaðir verði á fund þessara nefnda færustu lögspekingar okkar í þessum málum til að skýra hvaða álit þeir hafi á þeim gjörningi sem hér er að fara fram.

Ég ætla ekki að fara nánar út í málið efnislega hér og nú en lýsi því yfir að ég mun sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.



 1. gr. samþ. með 26 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AHB,  ArnbS,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BBj,  DJ,  DrH,  EOK,  FG,  GHj,  GHall,  GÖrl,  HÁs,  HBl,  JEP,  JónK,  MS,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SÞorg,  SF,  SP,  VS.
21 þm. (AKG,  ÁÓÁ,  ÁRJ,  BjG,  GAK,  GÖg,  JÁ,  JBjarn,  JGunn,  KJúl,  KolH,  KHG,  KLM,  LB,  MÞH,  MÁ,  RG,  VF,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ) greiddi ekki atkv.
16 þm. (BjarnB,  BjörgvS,  EMS,  GHH,  GÞÞ,  GÁ,  HHj,  ISG,  ÍGP,  JóhS,  JBjart,  KÓ,  MF,  SigurjÞ,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um 1. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að forsætisráðherra hafi heimild til að gera nákvæmlega það sama og hann gerði 1965, þ.e. afsala sér ákveðnum réttindum til ákveðinnar virkjunar.

Óbyggðanefnd sló varnagla við að ríkið hefði haft heimild til að afsala þessum réttindum. Það vill svo til að við úrskurð óbyggðanefndar féll eignin til nákvæmlega sama aðila, þ.e. ríkisins. Ríkið er að afsala sér núna nákvæmlega sömu hlutum og það gerði 1965 og er nákvæmlega jafnmikill eigandi og þá þannig að ég sé engan mun á því og greiði atkvæði með þessu.



 2. gr. og viðauki samþ. með 26 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AHB,  ArnbS,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BBj,  DJ,  DrH,  EOK,  FG,  GHj,  GHall,  GÖrl,  HÁs,  HBl,  JEP,  JónK,  MS,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SÞorg,  SF,  SP,  VS.
21 þm. (AKG,  ÁÓÁ,  ÁRJ,  BjG,  GAK,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  KJúl,  KolH,  KHG,  KLM,  LB,  MÞH,  MÁ,  RG,  VF,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ) greiddi ekki atkv.
16 þm. (BjarnB,  BjörgvS,  EMS,  GHH,  GÞÞ,  GÁ,  GÖg,  HHj,  ISG,  ÍGP,  JBjart,  KÓ,  MF,  SigurjÞ,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr.  með 36 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AHB,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BBj,  DJ,  DrH,  EOK,  FG,  GHj,  GAK,  GHall,  GÖrl,  HÁs,  HBl,  JEP,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JónK,  KolH,  KHG,  MS,  MÁ,  PHB,  SAÞ,  SKK,  SÞorg,  SF,  SP,  VS,  ÞSveinb,  ÞBack.
8 þm. (ÁRJ,  BjG,  KJúl,  KLM,  LB,  MÞH,  RG,  ÖJ) greiddu ekki atkv.
19 þm. (AKG,  BjarnB,  BjörgvS,  EMS,  GHH,  GÞÞ,  GÁ,  GÖg,  HHj,  ISG,  ÍGP,  JÁ,  JBjart,  KÓ,  MF,  SigurjÞ,  VF,  ÞKG,  ÖS) fjarstaddir.