132. löggjafarþing — 97. fundur
 30. mars 2006.
stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 392. mál. — Þskj. 1010.

[13:30]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt. Það er kominn tími til að ljúka þessari umræðu. Ég ætla rétt að fara yfir það sem hér hefur komið fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra og einnig formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að þau telji að hlutafélagaformið sé hentugra rekstrarform þegar kemur að samkeppnisrekstri jafnvel þó að ríkissjóður yrði einn eigandi að því hlutafélagi.

Hér hefur mikið verið rætt um áhuga annarra á að kaupa hlut Rariks á viðkomandi svæðum og taldi hæstv. iðnaðarráðherra að betra væri fyrir neytendur að hafa sterk dreifingarfyrirtæki í raforkunni og ekki ætti að kljúfa Rarik upp þar sem það væri ekki gott til frambúðar. Undir þetta tók fulltrúi framsóknarmanna í iðnaðarnefnd og formaður hennar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hér í morgun.

Þegar búið er að háeffa Rarik er ekki hægt að tala um neitt til frambúðar. Enda bera dæmin þess vitni og landsmenn hafa fundið það á eigin skinni. Má þar nefna hlutafélagavæðingu Pósts og síma. Þar hafa störf á landsbyggðinni verið lögð niður vegna óhagkvæmni. Því skyldu landsmenn búast við að farið verði á annan hátt með raforkugeirann?

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að það að veita rafmagni sé hluti af hinni almennu grunnþjónustu sem veita beri einstaklingum, heimilum, atvinnurekstri og fyrirtækjum í atvinnurekstri. Þetta á sérstaklega við um það að verð rafmagns og afhendingaröryggi sé sambærilegt um allt land. Í umræðum hér hefur komið fram að þær breytingar sem gerðar hafa verið í rafmagnsmálum hafa leitt til hækkunar í of mörgum tilfellum að minnsta kosti úti á landi, sérstaklega þar sem ekki er heitt vatn, eins og t.d. í mínu kjördæmi á Langanesi. Þar og víða á köldum svæðum er virkilega þörf á að rafmagni sé veitt á því verði að atvinnulífinu séu búnar samkeppnishæfar aðstæður. Á þessum svæðum hefur líka komið fram að rafmagnsreikningurinn hefur hækkað talsvert með nýju raforkulögunum.

Hv. þingmaður og formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, fullyrti hér í gær að raforkuverð mundi lækka um alla framtíð. Mér fannst hann taka stórt upp í sig. Ég hef ekki trú á því að raforkuverðið verði lægra um alla framtíð því margt breytist þegar Rarik verður hlutafélag. Fyrirtækið verður tekið undan upplýsingalögum og ákveðin viðskiptaleynd þarf að vera í hlutafélögum þannig að þjóðin hefur ekki sömu innsýn í starfsemina og áður. Þá spyr maður sig: Er það neytendavænt?

Mun auðveldara verður að selja og kaupa hluti og arðsemiskrafan verður væntanlega sett í forgang í þessu hlutafélagi sem og flestum öðrum. Það hefur líka komið skýrt fram að allt er til sölu fyrir rétt verð og við vitum að hv. þm. Birkir Jón Jónsson og hv. þm. og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í málinu, Kjartan Ólafsson, tala ekki alveg í takt í þessum efnum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem gerð var að beiðni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fjallar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árið 1998–2003, kemur fram að um er að ræða átta fyrirtæki sem voru að hluta til eða öllu í eigu ríkissjóðs en hafa verið einkavædd og seld. Í skýrslunni kemur einnig fram að jafnan hafi fyrsti áfanginn í söluferlinu falist í að breyta ríkisstofnunum í hlutafélag. Það hlýtur því í ljósi reynslunnar að vera eðlilegt að ég, sem neytandi raforku, hafi áhyggjur vegna þessara aðgerða og því sem gæti orðið í kjölfarið á þeirri háeffun sem hér á að fara fram. Iðnfyrirtæki hafa líka kvartað undan hækkun raforkuverðs sem segir mér að þetta er ekki neikvæðni og nöldur í Vinstri grænum eins og gjarnan er látið að liggja hér úr ræðustól af hv. stjórnarliðum.

Því hefur verið haldið fram að frá því að breytingar á raforkulögunum tóku gildi fyrir örfáum mánuðum hafi raforkan í sumum tilvikum hækkað um allt að 50%. Eflaust hefur raforkan lækkað einhvers staðar, en svona ber að taka alvarlega. Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins 13. janúar síðastliðinn hjá Sveini Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

„Samkeppnin virkar bara ekki hér og þau fyrirtæki sem eru að leita eftir tilboðum frá öðrum rafveitum eru ekki að fá nein tilboð í raun og veru og jafnvel tilboð sem eru yfir almennum töxtum. Og ástæðan er sú að það er ekkert umfram rafmagn í kerfinu og rafveiturnar vilja í raun og veru ekki nýja viðskiptamenn og samkeppni. Þar sem menn vilja ekki nýja viðskiptamenn er auðvitað engin samkeppni.“

Á þetta höfum við í Vinstri hreyfingunni grænu framboði bent, að frekar sé um að ræða fákeppni í svo litlu landi sem okkar er.

Það kom líka fram í frétt Ríkisútvarpsins að fyrirtækið Plastprent er einn stærsti raforkunotandi á Íslandi fyrir utan stóriðjuna. Forsvarsmenn þar segja að raforkuverð hafi hækkað um 20–30% en fyrirtækið kaupir í stórum skömmtum fyrir svona um það bil 20–30 millj. kr. á ári. Af hverju skyldi slíkt fyrirtæki ekki fá sams konar ívilnanir og stóriðjan? Framkvæmdastjóri Plastprents, Sigurður Bragi Guðmundsson, segir í sömu frétt, með leyfi forseta:

„Þó að við séum ekki með nákvæmar upplýsingar um hvað stóriðjan borgar fáum við ekki betur séð en að við, sem erum þó þetta stórir, séum að borga milli 40- eða 50-falt meira fyrir kílóvattsstundina en stóriðjan.“

Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði í 1. umr. þessa máls, með leyfi forseta:

„Við höfum gengið í átt til einkavæðingar og ég er heldur ekki í nokkrum vafa um að það hefur orðið þessari þjóð til heilla og er hluti af því að skila okkur fram veginn.“

Það er akkúrat þessi stefna og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum rætt að okkur þykir sem stjórnarliðar tali ekki alveg í takt. Fyrirtækið er til sölu hjá Sjálfstæðismönnum ef rétt verð fæst og því getum við alls ekki verið örugg um neitt í þessum málefnum til frambúðar. Ég efast ekki um þann góða vilja hv. formanns iðnaðarnefndar, Birkis Jóns Jónssonar, að fyrirtækið verði áfram í eigu ríkisins. En eftir rúmt ár verður kosið hér á þing og það er alls ekki víst að allir hafi þá sýn sem hann hefur talað fyrir. Það er að minnsta kosti ekki hægt að stóla á það, ekki ef miðað er við það sem áður hefur verið gert hér í háeffun og síðan einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Það er sem sagt þessi stefna ríkisstjórnarinnar sem við viljum andmæla nú þegar gera á Rarik, fyrirtæki okkar landsmanna, sem gegnir almannaþjónustu, að hlutafélagi — þeirri stjórn sem tekur við að ári er svo í lófa lagið að selja það hæstbjóðanda ef því er að skipta.



[13:39]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að hafa fáein orð í lok umræðunnar vegna þess að ég tel ástæðu til að skýra örlítið afstöðu okkar samfylkingarmanna í þessu máli. Eins og komið hefur fram í umræðunni tókum við þátt í að afgreiða málið úr nefnd og við studdum breytingartillögur við málið við 2. umr. Við vorum síðan með breytingartillögu við málið líka sem fjallaði um að flytja ætti yfirráð yfir hlutabréfum frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Fyrir því færðum við okkar rök sem ég tel fullgild.

Stundum gerist það hér í sölum Alþingis að menn greiða ekki atkvæði í samræmi við það sem maður hefði haldið að mundi gerast. Ég hafði talað við marga þingmenn um þetta mál og flestir luku upp einum munni um það að vitanlega væri miklu eðlilegra að yfirráð yfir þessum hlutabréfum væru á hendi fjármálaráðherra og það væri vond stjórnsýsla að hæstv. iðnaðarráðherra hefði þessi hlutabréf í sínum höndum. Iðnaðarráðherra er yfirmaður þess fyrirtækis sem hér er fjallað um og líka yfirmaður Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur mörg hlutverk og m.a. hefur hann það hlutverk á sínum höndum að skera úr um hverjir fá rannsóknarleyfi til að nýta orkulindir. Hann hefur líka úrskurðarvald um það hverjir fá nýtingarleyfin.

Það kom mjög skýrt fram í umfjöllun nefndarinnar hjá þeim sem fást við rekstur á þessu sviði — og telja sig vera komna í samkeppnisumhverfi, að þeir séu í samkeppni við þau ríkisfyrirtæki sem framleiða og selja raforku — að þeir teldu það mjög óeðlilegt að iðnaðarráðherra færi með þetta vald. Þess vegna var þessi tillaga flutt. En það sýndi sig að handjárnin héldu og hún var ekki afgreidd eins og við hefðum viljað.

Við Samfylkingarmenn þurfum að ákveða hvort við samþykkjum þetta mál í heildina í lokin þegar fyrir liggur að okkar tillaga í málinu hvað þetta varðar hefur verið felld. Það mun sýna sig við lokaafgreiðslu málsins hvað við gerum. Í heildina töldum við þetta mál til bóta. Við höfum stutt hlutafélagastofnun um orkufyrirtæki á undanförnum árum og teljum að á það eigi að láta reyna til hlítar. Úr því að menn lögðu af stað í þá vegferð að reyna að koma á samkeppni á raforkumarkaði er eðlilegt að halda áfram á þeirri braut og gera það sem ríkisvaldið getur gert til að mynda einhvers konar samkeppni á þessum markaði og halda utan um hana. Það þarf að gera þessa hluti mjög vel ef eitthvert vit á að vera í. Það liggur nú fyrir að neytendur hafa ekki haft hagnað af þeim breytingum á raforkumarkaðnum sem þegar hafa orðið. Það virðist nokkuð ljóst af þeim könnunum sem hafa verið gerðar að raforkuverð hefur í langflestum tilfellum hækkað. Þannig að betur má ef duga skal ef við eigum að fá að sjá hér hagstæðara raforkuverð á næstu árum.

Skref í þá átt er að sjá til þess að fyrirtækin á þessum markaði verði fær um að keppa, að ekki séu eingöngu risar og dvergar á þessum markaði heldur það mörg öflug fyrirtæki að þau geti tekist á sín á milli um verð á raforku. Það fyrirtæki sem hér er verið að ræða um, Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, er að mínu viti, og okkar samfylkingarmanna, fyrirtæki sem á að vera einn af keppendunum á markaðnum. Það er því ekki endilega rétta niðurstaðan að það eigi að vera í eigu ríkisins. Ég tel, og hef sagt það áður, að það gæti alveg eins verið, og ekkert síður, í eigu sveitarfélaganna. Hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni í eigu fleiri aðila. En það er langt þangað til kemur að þeim degi vegna þess að það verður ekki mögulegt að okkar mati, samfylkingarmanna, að einkavæða þetta fyrirtæki og önnur nema menn séu búnir að ganga frá þeim auðlindum sem eiga að vera í þjóðareign og þeim reglum sem eiga að gilda um þær auðlindir. Stóra skrefið í því þarf að stíga við endurskoðun stjórnarskrárinnar en setja þarf inn ákvæði um auðlindir í þjóðareign og lagasetning þarf síðan að koma í framhaldi af því þar sem þær verða afmarkaðar og reglur settar um það með hvaða hætti verði farið með þær.

Ég vildi svona í lok málsins leggja þetta inn í umræðuna. Ég tel að það þurfi að vera skýrt frá okkar hendi, samfylkingarmanna, að við stöndum við að við höfum stutt þetta mál. Við erum auðvitað ekki ánægð með að ekki skyldi nást sú niðurstaða sem við vildum gagnvart því hver eigi að halda utan um yfirráðin yfir þessu fyrirtæki og teljum reyndar að sá tími sé löngu kominn að menn þurfi að stokka upp í stjórnkerfinu með þeim hætti að ekki séu þeir hagsmunaárekstrar sem eru í raun og veru út um allt í þessu kerfi. Iðnaðarráðherra er í þessu tilfelli ágætt dæmi um það. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og hef lokið máli mínu.



[13:47]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður heyrði ég ekki alla ræðu hv. þingmanns þar sem við sátum á nefndarfundi í samgöngunefnd á sama tíma og hér var þingfundur. Því kann að vera að hv. þingmaður hafi komið inn á það mál sem ég ætla að nefna en hann gerir þá grein fyrir því.

Ég spyr: Finnst hv. þingmanni að stefnt sé að samkeppni, eins og stefnt var að með raforkulögunum, ef horft er til þess að e.t.v. geti orðið um fleiri sameignarsamninga á milli fyrirtækja að ræða, eins og látið er liggja að í 5. lið nefndarálits með frumvarpinu þar sem beinlínis er talað um að þetta auðveldi það að fyrirtæki geti sameinast öðrum fyrirtækjum á raforkusviði? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni eftir frétt sem birtist í Bæjarins besta á síðastliðnu hausti um hugsanlega sameiningu Orkubús Vestfjarða, Rariks og Landsvirkjunar í því raforkuumhverfi sem við erum í. Ég fæ ómögulega skilið hvernig menn uppfylla skilyrði raforkulaganna með því að e.t.v. fari ríkið, í ljósi þessarar hlutafélagavæðingar, í það verk að sameina þau hlutafélag sem það á. Það á Orkubú Vestfjarða, það er búið að hlutafélagavæða það. Í svari sem ég mun koma í eftir mun koma fram hvað ráðherra segir um Landsvirkjun.



[13:49]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður vitnaði til í 5. lið á við um það að þetta fyrirtæki geti t.d. keypt litlar rafveitur eins og hefur verið að gerast á undanförnum árum, smærri rafveitur hafa verið að hverfa inn í þær stærri. Ég held í sjálfu sér að það hljóti að gerast. Ég held að litlu rafveiturnar eigi, margar hverjar, ekki endilega mjög langa framtíð fyrir sér. En auðvitað verður það að koma í ljós í þessu umhverfi hvort hægt verður að reka þær. Í sumum tilfellum virðist allt benda til þess en í öðrum tilfellum ekki.

Það virtist vera mjög hagstætt að leggja Andakílsárvirkjun inn í Orkuveitu Reykjavíkur eins og Akurnesingar gerðu fyrir nokkrum árum. Það virtist vera mjög skynsamlegt að gera það. Ég get sagt það strax að við höfum verið andvíg því að Orkubú Vestfjarða og Rarik verði sameinuð Landsvirkjun. Ég hef margsagt að ég sé á móti því og tel ekki neina ástæðu til að gera það. Það er alveg ótrúlegt að sú umræða skulu vera uppi á sama tíma og menn halda því fram að verið sé að búa til samkeppnisumhverfi á þessum markaði. Það er ríkið sem gengur fremst í því og hefur auðvitað það hlutverk að koma á samkeppnisumhverfi en það getur ekki verið trúverðugt að búa til einhvern risa á þessum markaði sem enginn annar getur þá átt í fullu tré við. Það er eitthvað annað í þeirri mysu sem ekki er komið fram eða hefur verið viðurkennt opinberlega. Sumir halda því fram að þessi umræða hafi komið upp vegna þess að eigið fé Landsvirkjunar sé orðið óþægilega lítið.



[13:51]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lagt var upp úr því í heildarlögunum um raforku að m.a. gætu risið upp virkjanir í einkaeigu sem framleiddu inn á Landsnetið og út af því væri hægt að kaupa, m.a. í samningum við viðkomandi fyrirtæki. Þetta var þáttur í því að efla samkeppni á raforkumarkaði.

Ég verð að segja að mér finnst að nú sé verið að stefna í alveg öfuga átt. Ríkið stefnir til sameiningar á þeim fyrirtækjum sem það á þvert ofan í það að búa til samkeppni á raforkumarkaðnum. Þess vegna hef ég ákveðnar efasemdir um þessa vegferð alla.

Því hefur verið haldið fram af hæstv. iðnaðarráðherra eftir að nýju raforkulögin tóku gildi að raforkuverð á landsvísu hafi lækkað. Því var m.a. haldið fram fyrir stuttu í umræðum um raforkuverð á árabilinu 2001–2010, sem ég tengdi við samninga við Norðurál. Hins vegar er rétt að vekja á því athygli að í skýrslu iðnaðarráðherra sjálfrar kemur fram að í mörgum tilfellum hefur raforkuverð til neytenda hækkað eftir að nýju raforkulögin tóku gildi. Maður saknar þess því, hæstv. forseti, ef raforkulögin áttu að leiða til samkeppni að sú samkeppni sé ekki að komast á.



[13:53]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég hef t.d. hér í höndunum ársskýrslu Samtaka iðnaðarins. Innihald þeirrar greinar gengur einmitt út á að lýsa þessu út frá sjónarmiði Samtaka iðnaðarins. Það eru því ekki bara neytendur, venjulegt fólk, með sínar húsþarfir sem kvarta undan því að orðið hafi hækkun á raforku heldur líka fyrirtækin þar sem menn héldu því fram að þar væri kannski meiri von, að stærri notendur fengju þá betra verð vegna samkeppninnar. Þetta hefur ekki gengið eftir. En þegar við tökum afstöðu til þess hvort við viljum hafa Rafmagnsveitur ríkisins í hlutafélagaformi eða ekki, þá get ég ekki séð að það eigi að hafa áhrif á þá niðurstöðu. Ég tel, eins og ég hef áður sagt í umræðunni, að menn verði að halda áfram þessari göngu og reyna að gera þessa hluti skynsamlega. Ríkið ber ábyrgð á að koma á því samkeppnisumhverfi sem talað var um að koma á. Það verður ekki gert með því að búa til eitt fyrirtæki úr Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Það getur ekki verið skynsamleg leið í þessu efni.

Þessi niðurstaða, að gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi, hefur ekki með það að gera. Hér er gert ráð fyrir að ríkið eigi þessi hlutabréf áfram og það þarf nýja lagasetningu á Alþingi ef þetta fyrirtæki á að sameinast öðrum fyrirtækjum í eigu ríkisins. Það er augljóst mál að þá þarf nýja lagasetningu en það þarf ekki nýja lagasetningu þó að þetta fyrirtæki kaupi einhverjar litlar rafveitur.



[13:56]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni í morgun við 3. umr. um þetta frumvarp vék ég að þeim rökum sem mikið hafa verið borin hér á borð að starfsmenn Rariks sæju mikil tækifæri í þessu máli og þeir hefðu sent ótvíræð skilaboð um að þetta væri bráðnauðsynlegt fyrir rekstur fyrirtækisins, framtíð þess og hagkvæmni.

Í 3. tölulið í greinargerð með frumvarpi þessu segir svo, með leyfi forseta:

„Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.“

Hæstv. forseti. Ef maður les út úr þessum orðum ætlast maður vissulega til þess, ef þetta næst fram sem hér segir að þetta stuðli að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri, að þá stefni í að orkuverð lækki almennt til neytenda á orkuveitusvæði Rariks.

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hér í svari hæstv. iðnaðarráðherra fyrir nokkrum dögum, þegar verðlagning á raforku var til umræðu og stefnumið stjórnvalda í þeim efnum þá benti hæstv. ráðherra á að aðeins eitt orkufyrirtæki hefði verið hlutafélagavætt og það væri Orkubú Vestfjarða. Ef ég man rétt úr þeirri umræðu átti það að verða til þess að efla reksturinn og gera hann hagkvæmari o.s.frv. Hver skyldi svo hafa orðið niðurstaðan af því? Í skýrslu sem iðnaðarráðherra lét taka saman um breytingarnar sem fylgdu nýjum raforkulögum, og sýndu m.a. fram á þróun orkuverðs þar, þá kemur það ekki fram varðandi fyrirtækið Orkubú Vestfjarða að rafmagnsreikningar til fólks og verðlagning raforkunnar hafi almennt lækkað.

Það má vafalaust sýna fram á að á þéttbýlustu stöðunum á Vestfjörðum hafi orkuverð til heimilisnota lækkað, þ.e. heildarreikningurinn, en það á alls ekki við í dreifbýlinu. Það stendur m.a. í skýrslu iðnaðarráðherra, sem ég er því miður ekki með í ræðustólnum en man þó nokkuð úr, að orkuverð í dreifbýli á Vestfjörðum hafi hækkað um 24% og er það þó hlutafélag, hæstv. forseti.

Þar var einnig bent á aðrar hækkanir sem höfðu orðið hjá öðrum fyrirtækjum sem ég get ekki farið með hér eftir minni, en miðað við þá reikninga sem við höfum fengið senda, þingmenn, víða að af landinu, líka af svæðum Rariks, þá hefur orkuverð hækkað. Það virðist því koma út á eitt hvort heldur fyrirtækin eru í því rekstrarformi sem þau eru nú eða eru hlutafélag eins og Orkubú Vestfjarða.

Ef það gengur hins vegar eftir sem hér er sagt í 3. lið um aukna hagræðingu og hagkvæmni í rekstri þá hlýtur það að fylgja á eftir að almenningur í landinu fái að njóta þess með lækkandi orkuverði. Ekki síst þegar litið er til stefnumiða stjórnvalda sem liggja fyrir í þingskjölum og hæstv. iðnaðarráðherra fór nýlega yfir í umræðu á hv. Alþingi. Þar var vitnað til þeirrar stefnumótunar sem gerð var við Landsvirkjun á sínum tíma þegar orkusölusamningar til Norðuráls í Hvalfirði voru samþykktir. En þar sagði og vitnaði hæstv. ráðherra til þess að stefnt væri að því, eins og hér segir í svari hennar, með leyfi forseta:

„Í samræmi við niðurstöður viðræðunefndarinnar gerðu fulltrúar eigenda breytingar á sameignarsamningi um Landsvirkjun. Í fylgiskjali S með samningnum er fjallað um arðgjafargjaldskrár og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar. Í 2. tölulið fylgiskjalsins segir að stefnt skuli að því að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækki síðan að raungildi um 2–3% á ári á árunum 2001–2010.“

Þetta kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur.

Ég hef litið svo á að eftir að mikill meiri hluta þingmanna samþykkti þessa stefnumótun hér í hv. Alþingi á sínum tíma, í tengslum við orkusölusamning Landsvirkjunar til Norðuráls, þá hafi sú stefna legið fyrir og henni hefur ekki verið breytt mér vitanlega, að orkuverð til almenningsveitna hér á landi frá Landsvirkjun ætti að lækka um 2–3% að meðaltali á hverju einasta ári í 10 ár frá árinu 2001–2010. Hæstv. ráðherra mótmælti því ekki hér í þessum ræðustól nýlega, þegar þessi mál voru til umræðu, en vitnaði hins vegar til nokkurs sem rétt er að draga inn í umræðuna, m.a. þess að síðan þetta var höfðu verið lagðir skattar á orkufyrirtæki. Það hefði m.a. haft áhrif á rekstrarstöðu virkjunarinnar.

Hvað er þá ríkið að gera í blóra við þá stefnu sem hér lá fyrir? Jú, það er verið að skattleggja orkufyrirtækin, sem hver borgar? Notendurnir, almenningur. Þar með er horfið frá þeirri stefnu að láta almenning hér á landi njóta þeirrar lækkunar sem hafði gilt frá árinu 1997 með áðurnefndri stefnumótun.

Það liggur því fyrir, hæstv. forseti, að stefnumótun stjórnvalda hefur ekki gengið eftir að þessu leyti og ástæðan fyrir því er m.a. að það hafa verið lagðir skattar á orkufyrirtæki, þar sem hluti af arðinum er auðvitað tekinn út úr fyrirtækjunum. Hverjir munu borga? Notendurnir að sjálfsögðu. Þetta er nú ein leiðin í skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Þó verið sé að boða skattalækkun er hækkun tekin út með einhverri annarri aðferð. Það virðist hafa gerst m.a. þarna og orðið til þess að orkuverð hefur ekki lækkað hér eins og að var stefnt.

Það komu einnig fram mjög athyglisverðar upplýsingar í skýrslu iðnaðarráðherra sem hér var lögð fyrir þingið. Sem er að orkuverð á Íslandi til almennings, til almennra notenda, er hærra í krónutölu á kílóvattsstund en m.a. í Danmörku og nokkrum öðrum nágrannalöndum okkar í Evrópu. Þannig að þrátt fyrir hina miklu virkjunarkosti sem við eigum og það að við getum verið að virkja hér og selja á tiltölulega mjög lágu verði til stóriðjunnar, þá greiðir almenningur hér á landi samt mjög hátt orkuverð. Og skattastefna ríkisstjórnarinnar er örugglega þáttur í því máli að því er orkufyrirtækin varðar.

Þessu vildi ég koma að í umræðunni, hæstv. forseti, ég ætla ekkert að lengja hana en taldi nauðsynlegt m.a. að víkja að þessum þáttum málsins. Það virðist því miður ekki lengur vera stefnt að raforkuverðslækkun hér á landi eins og þáverandi iðnaðarráðherra og ríkisstjórn lögðu upp með árið 1997, sem er sú sama og enn situr, þ.e. sömu flokkar. Þó sagt hafi verið í umræddri stefnumótun að gjaldskrárverð verði óbreytt til ársins 2000 en lækki síðan árlega um 2–3% á árunum 2001–2010, virðist fyrri stefnumótunin ekki vera í gildi lengur. Í rökstuðningi iðnaðarráðherra segir að margar breytingar hafi orðið, m.a. á skipulagi raforkumála, sem séu ef til vill orsakavaldar í þá veru að stefnumótunin hafi breyst.

Að öllu samanlögðu, hæstv. forseti, finnst mér liggja fyrir að stefnan í þessum málum, þar sem ætla mætti að stefnumið stjórnvalda væri að þjóna almenningi í landinu og vinna að því að lækka orkuverð, hafi snúist upp í öndverðu sína og orkuverð til neytenda sé að hækka.

Það er ömurleg vegferð, hæstv. forseti, að vera hér að bera inn hvert málið á fætur öðru í hlutafélagavæðingu raforkufyrirtækja, fyrst Orkubú Vestfjarða, núna Rarik og ætli það verði ekki Landsvirkjun næst? Ef til vill er síðar stefnt í einkavæðinguna sem mér sýnist liggja undir ef horft er til þessara stefnumiða og reynt að lesa út úr því sem hér hefur verið sagt. Vissulega hafa þó heyrst hér ræður nú í seinni tíð þar sem m.a. fulltrúi Framsóknarflokksins hefur sagt að það stæði ekki til að einkavæða raforkuframleiðsluna. Ekki í nánustu framtíð að minnsta kosti.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af reynslunni af þróun raforkumála undanfarin tvö ár og þess að stefnumörkunin sem fyrir lá um lækkandi raforkuverð til almennings hefur ekki gengið eftir, hvorki við setningu raforkulaganna né hefur verið hægt að finna það út úr hlutafélagavæðingunni eins og varðandi Orkubú Vestfjarða, þá hef ég ekki trú á að þessi stefnumörkun sé til góðs fyrir almenning og tel mig ekki hafa sannfæringu fyrir því að styðja þetta mál og mun þess vegna sitja hjá við afgreiðslu þess, hæstv. forseti.