132. löggjafarþing — 97. fundur
 30. mars 2006.
staða hjóna og sambúðarfólks, fyrri umræða.
þáltill. GHall o.fl., 69. mál. — Þskj. 69.

[17:03]
Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um stöðu hjóna og sambúðarfólks. Flutningsmenn eru Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Ásta Möller.

Í texta segir svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það hlutverk að kanna stöðu hjóna og sambúðarfólks með börn á framfæri með tilliti til skatta, almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar og bera hana saman við stöðu einstæðra foreldra.

Nefndin kanni hvort núgildandi skattalög hafi áhrif á að fólk skilji eða slíti sambúð til málamynda í því skyni að njóta fjárhagslegs hagræðis í kerfinu. Nefndin kanni einnig hvernig styrkja megi stöðu hjóna og sambúðarfólks í framangreindu tilliti.

Skýrslu um málið verði skilað til Alþingis fyrir 1. desember 2006.“

Í greinargerð segir svo:

„Hjúskapur eða sambúð felur í sér fjárhagslegt hagræði, ekki síst fyrir barnafólk. Hagræðið felst m.a. í því að auðveldara er fyrir tvo einstaklinga að halda heimili, þ.e. borga af húsnæði, innkaup o.s.frv. Um þetta er ekki deilt og hefur verið um það almenn samstaða að styrkja beri einstæða foreldra sem ekki njóta þessa hagræðis og hafa bæði ríkisvaldið og sveitarfélög gripið til ýmissa ráðstafana í því skyni. Má þar nefna hærri barnabætur, uppbætur á meðlagsgreiðslur, hærri húsaleigubætur, hærri námslán, lægri leikskólagjöld o.fl. Hér er ekki gerður ágreiningur um þessar ráðstafanir enda gegna þær mikilvægu hlutverki við að jafna lífskjör hér á landi.

Á vef Hagstofu Íslands er þess getið að árið 2004 hafi 1.472 pör gengið í hjónaband hér á landi. Lögskilnaðir voru 552. Samkvæmt hjónavígsluskýrslum 2004 höfðu 87% hjónaefna verið í óvígðri sambúð og nær helmingur þeirra verið í sambúð lengur en fimm ár.

Því hefur verið haldið fram að fólk skilji eða slíti sambúð til málamynda beinlínis með það að markmiði að fá þær bætur og njóta þess hagræðis sem einstæðir foreldrar hafa notið. Þá má ætla að framangreint letji fólk mjög til að ganga í hjónaband eða tilkynna sambúð. Með hliðsjón af tekjutengingu þessara bóta má halda því fram að það sé einkum tekjulágt fólk sem grípur til þessara ráða.

Slíkir málamyndaskilnaðir og sambúðarslit eru vitaskuld ólöglegt athæfi búi fólk eftir sem áður saman en þiggi bætur sem ætlaðar eru einstæðum foreldrum. Eftirlit með því hvort fólk býr saman eða ekki er hins vegar mjög erfitt og hefur ekki verið reynt nema að takmörkuðu leyti. Verst er þó að mati flutningsmanna að í kerfinu skuli vera innbyggðir hvatar til að slíta hjónabandi eða sambúð, hvatar sem hafa jafnframt þau áhrif að draga úr áhuga fólks á því að stofna til hjúskapar eða hefja sambúð. Slíkt getur aðeins haft óheppileg áhrif.

Fram hefur komið hjá þjónandi prestum á höfuðborgarsvæðinu að þeir viti nokkur dæmi um hjónaskilnaði af ástæðum sem að framan greinir.

Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er því fyrst og fremst að kanna mismunandi stöðu fólks í hjúskap eða sambúð og bera hana saman við stöðu einstæðra foreldra og hversu algengt það sé að fólk skilji eða slíti sambúð vegna þess lagalega umhverfis sem hér hefur verið rakið. Í kjölfar þessa er síðan lagt til að nefndin kanni hvernig unnt sé að styrkja stöðu hjónabandsins og stöðu sambúðarfólks. Rétt er að taka fram að þær aðgerðir sem kann að verða gripið til mega ekki á neinn hátt rýra núverandi kjör einstæðra foreldra.

Gert er ráð fyrir að skýrslu um málið verði skilað til Alþingis fyrir 1. desember 2006.“

Virðulegi forseti. Nú hins vegar ber svo við að ég hef dæmi um það að hjón með tvö börn hafa slitið samvistum og greiðslur sem þá hafa komið út úr tryggingakerfinu til konunnar nema allt að 400 þús. kr. á ári. Er það þetta form sem Alþingi vill leiða til með löggjöf sinni? Erum við ekki öll sammála um að hornsteinn þessa þjóðfélags er hjónabandið og er því ekki eðlilegt að löggjafinn leggi meiri áherslu á að vel sé um hnúta búið þannig að það sé aðlægt nútímanum og það kalli á að fólk staðfesti ráð sitt ef hugur þess stendur til þess? Ég tel það, virðulegi forseti.

Þess vegna þykir mér það með ólíkindum að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég flyt þetta mál, en ég verð bara að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég veit ekki hvort þetta er fimmta, sjötta eða sjöunda sinnið. Hér hafa hverjir á fætur öðrum, ráðherrar félagsmála og jafnvel forsætisráðherra komið á góðum stundum og sagt að það þurfi að búa vel að hjónabandinu. Vissulega tek ég undir það. En það er kannski með þessi þingmannamál, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, að þau fá yfirleitt ekki mikinn hljómgrunn í nefndum.

Hér er hins vegar mál sem ég tel að þurfi virkilega skoðunar við og ég treysti því að hv. félagsmálanefnd muni taka þetta mál til alvarlegrar íhugunar og ýta því þannig áfram að til þessarar vinnu verði efnt, að skoða þessa stöðu og skoða hvort ekki sé hægt að breyta til í kerfinu þannig að fólk fari ekki að skilja til þess að, eins og ég sagði hér áðan, hjón með tvö börn geti þess vegna aukið tekjur sínar um allt að 400 þús. kr. á ári, skilið en búið samt saman.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félagsmálanefndar.



[17:10]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hans fyrir tillöguna og það erindi sem hann hefur flutt hér. Ég held að það sé brýnt að skoða þetta en þó sé alveg ljóst að ákveðna hluti þarf ekkert að skoða því við vitum nákvæmlega hvernig þeir liggja.

Það er þannig til að mynda um örorkulífeyrisþega að tekjutengingar við tekjur maka hafa sannarlega verið óhóflegar og kannski yfir höfuð rangar. Eins og hv. þingmaður þekkir þurfti Öryrkjabandalagið að sækja hér á stjórnarmeirihlutann, hvers flutningsmenn eru hluti af, upp í Hæstarétt til þess að fá það þó úrskurðað að hafi maki öryrkja einhverjar tekjur að gagni þá fái öryrkinn þó núna eftir hæstaréttardóminn rúmlega 40 þús. kr. á mánuði sér til framfærslu á meðan hann áður þurfti við að búa við aðeins 20 þús. kr.

Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvort sú tekjuskerðing sem nú er, þrátt fyrir hæstaréttardóminn, sé ekki líka einfaldlega röng og hvort ekki væri rétt að líta svo á að öryrkinn sé sjálfstæður einstaklingur þó að hann sé giftur og að hann þurfi á fullri framfærslu að halda þó að maki hans hafi tekjur. Einnig hvort það sé ekki til of mikils mælst af mökum öryrkja að þeir beri framfærsluábyrgðina á þeim alla ævi og hvort flutningsmenn vilji ekki bara einfaldlega flytja skýrar breytingartillögur við almannatryggingalöggjöfina sem afnemur tekjutengingar örorkulífeyrisþega við tekjur maka. Það dæmi sem hv. þingmaður nefndi hér um hjón sem skildu og fengu þá 400 þús. kr. meira út úr tryggingakerfinu, það gæti einmitt verið vegna þessarar tengingar við tekjur maka og virðist augljóst að það eigi að afnema þá tengingu og líta einfaldlega á hvern og einn einstakling (Forseti hringir.) sem sjálfstæðan því að auðvitað bitna þessar skerðingar fyrst og fremst á konum í tryggingakerfinu.



[17:12]
Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir hans við þessa þingsályktunartillögu en um leið var hann eiginlega að slá hana af og leggur til að við komum með annað mál fram og ýtum þessu til hliðar.

Ég sagði áðan að ég myndi ekki hversu oft ég hefði flutt þetta hér á Alþingi og það er bara með þetta eins og annað sem snýr að þessu máli. Eins og ég sagði áðan þá er hjónabandið talið vera hornsteinn þjóðfélagsins og mér finnst ekki vera nægjanlega horft til þeirrar staðreyndar. Hvort það er í tekjutengingu í hinu sérkennilega og óskiljanlega kerfi Tryggingastofnunar ríkisins eða hvað þá hlýtur það að koma fram í þeirri vinnu sem við leggjum hér til að verði unnin. Þetta mál, hvort sem hér er um öryrkja eða heilbrigðan mann að ræða þá eiga þeir auðvitað að sitja jafnir að og eins og við getum hér um í þingsályktunartillögunni að hvort sem um er að ræða einstæða móður eða aðra þá ætlumst við ekki til þess að þeirra kjör séu með nokkrum hætti skert og teljum að það sé af hinu góða að hagsmuna þeirra sé gætt.

Ég tek alveg undir það, það þarf auðvitað að skoða þetta mál líka. En það gerist ekki með því ef við þingmenn erum hér að vingsa málum til og frá, þá vinnst ekki neitt. Ég held að þetta mál sé mjög brýnt og byrjum á því, hv. þm. Helgi Hjörvar, og sjáum svo hvort ekki er hægt að stilla strengi saman þannig að þetta mál verði til öndvegis fært.



[17:14]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil á engan hátt vísa þessu máli frá og þykir nokkuð til um þrautseigju hv. þingmanna að flytja það hér ár eftir ár og raunar einkennilegt um margt um starfshætti Alþingis að jafnsjálfsagt mál sem flutt er af þingmönnum stjórnarliðsins skuli ekki einu sinni getað náð fram að ganga þó að þau séu flutt ítrekað. Ég held að þessi skoðun sé sannarlega þörf en bendi hv. þingmanni einfaldlega á að við getum engu að síður þegar gripið til aðgerða til að hafa áhrif á kjör hundruða eða þúsunda Íslendinga í þessu efni og spyr þingið og hv. þingmann hvort það séu ekki leifar frá liðinni tíð að hugsa um hjónabandið þannig að ef annað hjónanna verður til að mynda öryrki til lífstíðar þá eigi framfærsluskylda hans að hvíla á makanum og öryrkinn aðeins að fá liðlega 40 þús. kr. á mánuði í bætur sér til framfærslu. Og hvort það sé ekki skoðun okkar á 21. öldinni að hver og einn einstaklingur eigi sjálfstæðan rétt til mannsæmandi lífs og ákveðinnar reisnar í daglegu lífi sínu og hvort við eigum ekki einmitt í þágu hjónabandsins, sem hv. þingmaður ber fyrir brjósti, að afnema tengingar við tekjur maka í örorkulífeyriskerfinu og hugsanlega í fleiri bótakerfum sem við höfum, auk þess að fara í þá skoðun sem hv. þingmenn eru hér að leggja til.



[17:16]
Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að full ástæða væri til að fara ofan í saumana á tryggingakerfinu alveg frá a til ö og ég held að við séum þeirrar skoðunar, þingmenn allra flokka, að það þurfi virkilegrar skoðunar við og uppstokkunar til nútímans. Ég get alveg tekið undir það. Við vonum að þetta mál nái fram að ganga og þá komi vinnan, sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á, að skoðaðir séu allir þættir þess hvort sem einstaklingar eiga við sjúkdóma að etja og teljist til örorkuþega eða ekki. Ég heyri að þeir sem hafa talað vilja framgang þessa máls og það er vel.



[17:17]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki ætla ég að tefja framgang málsins með langri ræðu. Ég hafði ætlað mér að kveðja mér hljóðs í andsvörum en get komið viðhorfum mínum að í stuttri ræðu.

Í fyrsta lagi er ég ekki viss um að ég sé sammála hv. þingmanni um að hjónabandið sé undirstaða samfélagsins. Ég er þeirrar skoðunar að fjölskyldan sé undirstaða samfélagsins. Það er fullt af fólki sem ekki er í hjónabandi og ekki einu sinni í skráðri sambúð sem eigi að síður sinnir sínum góðu skyldum sem góðir samborgarar, bæði gagnvart börnum og öðrum sem eru partur af samfélaginu.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að skilgreiningin á fjölskyldu hafi með tímanum breyst. Sjálfur lít ég svo á að skilgreina beri sem fjölskyldu þá sem eru einstæðir með börn og út af fyrir sig líka þá sem búa einir. Sú litla eining er líka í nútímasamfélaginu fjölskylda. Þetta eru hornsteinar samfélagsins. Kerfið sem við höfum byggt upp hefur með samþykki allra flokka í gegnum tímann reynt að taka mið af þörfum þeirra sem verst eru staddir. Oft og tíðum eru það því miður þeir sem búa einir með lítil börn. Lítil börn krefjast mikils tíma og töluverðs kostnaðar. Sá sem elur önn fyrir börnum í uppvexti hefur ekki sömu möguleika til að afla sér mikilla tekna með jafnmikilli vinnu og er plagsiður okkar Íslendinga. Af því leiðir að stundum eru það einmitt þeir hópar sem þurfa sérstaks stuðnings við. Það kemur fram í hærri barnabótum. Það kemur líka fram í ýmiss konar tilhliðrunum eins og hvað varðar pláss fyrir börn á dagvistarheimilum og líka lægra verði. Þetta hefur verið talið jákvætt og flestir stjórnmálaflokkar hafa haft nokkurn dyn á hugmyndum af þessu tagi. Segja má að þær séu undirstaðan í velferðarkerfi okkar.

Ég tek það alveg skýrt fram að ég tók mætavel eftir því þegar hv. þingmaður sagði að tilgangur tillögunnar væri ekki sá að draga úr því sem þessu fólki er með einhverjum hætti veitt af samfélaginu til að jafna kjör þess, hugsanlega til að koma því í betri stöðu í samfélaginu, líka til að láta því líða betur. Ég held hins vegar að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi náð utan um stærsta hlutann af þeim vanda ef um vanda er hægt að tala. Hv. þm. Helgi Hjörvar gat þess réttilega að það væru ekki síst þeir sem búa eingöngu við framfærslu af hálfu ríkisins, eins og öryrkjar, ekki síst ungir öryrkjar sem líka hafa fyrir fjölskyldu að sjá sem lenda í mikilli fjárhagslegri neyð.

Nú get ég ekki staðfest slík dæmi sem hv. þingmaður nefndi. Vafalítið hefur hann rétt fyrir sér og hefur skoðað þetta. Ég skil hins vegar ákaflega vel þá sem í mikilli fjárhagslegri neyð reyna allt sem þeir geta til að fleyta sér áfram. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum þegar mikil áhersla var á málefni öryrkja, þá fengum við þingmenn bréf þar sem einstakir landar okkar í þeim hópi sögðu að þeir ættu einskis annars úrkosti en hugsanlega að kljúfa fjölskylduna. Vísast er það staðfesting á því sem hv. þingmaður segir að við þær aðstæður geta einstaklingar sem með þeim hætti leysa sundur það band sem tengir fjölskylduna saman í gegnum sambúð komist betur af, en það er því miður algert neyðarúrræði. Sú staðreynd að þetta kunni að vera til í samfélagi okkar sýnir að verulegir gallar eru á samfélaginu.

Ég hugsa að kjör þess fólks sem býr við svona þröngar fjárhagslegar aðstæður hafi heldur rýrnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Með þessu er ég alls ekki að sproksetja hv. þingmann en staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum á síðustu árum séð það gerast að vaxandi hluti af tekjum þeirra sem eru með lágar tekjur falla ofan skattfrelsismarka. Þetta stafar af því að ríkisstjórnin hefur ekki hækkað skattfrelsismörk eins og annað sem hækkað hefur í samfélaginu sem við höfum yfirleitt notað til viðmiðunar þar við. Þetta leiðir mig að þeirri niðurstöðu að sá vandi sem hér er verið að reyna a.m.k. að leiða fram hafi magnast á síðustu árum og hann megi beinlínis að hluta til rekja til núverandi ríkisstjórnar og efnahagsstefnu hennar. Ég rifja það upp að árið 1995 þegar ríkisstjórnin tók við voru þeir sem höfðu framfærslu sína fyrst og fremst af strípuðum bótum að greiða í skatt 1–2% af þeim tekjum sem þeir höfðu sér til framfærslu. Í dag greiða þeir 14–15%. Vel er hægt að færa rök að því að kaupmáttur þeirra eða ráðstöfunartekjur hafi líka aukist á þeim tíma. En það er alveg ljóst að í sumum tilvikum eru menn fastir í gildrum þar sem þeir eru vegna einhvers konar erfiðleika, líkamlegra ágalla, tímabundinna eða varanlegra veikinda ófærir um að afla sér fjár til framfærslu með vinnu, þá lifa þeir á þessum bótum. Við höfum síðan einnig búið við kerfi eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í sinni ágætu ræðu áðan þar sem mjög erfitt er fyrir fjölskyldur sem búa saman þar sem annar er í þeirri stöðu, að auka tekjur sínar með því að hinn heili í sambandinu vinni og vinni mikið.

Ástæðan er sú að það skerðir svo verulega og freklega þær bætur sem hinn aðilinn sem ekki er heill í sambandinu fær frá ríkinu. Þetta held ég að sé stærsti vandinn án þess að ég hafi skoðað þetta út í hörgul. Mér finnst ekki alveg sanngjarnt hjá hv. þingmanni að leiða getum að því að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi verið að vísa þessari tillögu út af borðinu. Mér fannst hann síður en svo vera að gera það þegar hann skoraði á hv. flutningsmenn að taka frekar á þessum vanda með því að leggja fram tillögur um hvernig væri hægt að ráða bót á honum, þ.e. með því að afnema tekjutengingar af örorkugreiðslunum eins og hv. þm. Helgi Hjörvar virtist í máli sínu einskorða sig við. Um þetta risu miklar deilur fyrir nokkrum árum. Um þetta féllu hæstaréttardómar sem voru þess eðlis að þeir þörfnuðust sérstakrar túlkunar við og þeir sem þeim túlkunum sættu fannst sér freklega misboðið.

Nú vil ég, frú forseti, af því að tími minn er að verða búinn, segja það alveg skýrt að ég hef ekki á móti því og vil frekar greiða götu þess að málið nái fram að ganga af því að það felur í sér skoðun á ákveðnum vanda sem hugsanlega er til staðar. Það er sjálfsagt að leiða þá stöðu fram og það speglar þá líka kjör þeirra sem búa við þær aðstæður að eiga einskis annars úrkosti en velta fyrir sér úrræðum af þessu tagi.



[17:25]
Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér flutti hv. þm. Össur Skarphéðinsson lærða ræðu og góða. Ég ætla að byrja á að vera sammála honum um að það er auðvitað alger neyð þegar fólk grípur til þess óyndisúrræðis að slíta samvistum vegna fjárhagslegra aðstæðna. En ég held að við séum alveg sammála um það þótt hv. þingmaður hafi komið inn á það að hann væri mér ósammála um að hjónabandið væri hornsteinn, heldur sagði hann að fjölskyldan væri hornsteinn þjóðfélagsins. Ég hef, hv. þingmaður, eiginlega leitt líkur að því og þarf ekki að hafa mörg orð um það að hjónabandið leiðir oftar en ekki til þess að það verður fjölskylda þannig að þetta er af sama meiði.

Varðandi síðan það sem komið hefur fram og kom fram í ræðu hv. þingmanns þá er það auðvitað allt það sem segja þarf og það eru miklu fleiri mál og atriði sem þarf vissulega að skoða. Við getum svo sem fært þetta í pólitískar umbúðir og sagt að árið 2005 eða 1995 eða hvenær sem það var hafi þessir hlutir gerst og þess vegna sé þetta komið upp og þessi staðreynd blasi við. Við skulum bara láta það liggja á milli hluta. En þeir aðilar sem fengju þennan starfa mundu eflaust leiða okkur í allan sannleika um það og skiptir þá ekki máli hvort menn hafi misstigið sig í pólitíkinni eða ekki en það sem við þurfum að fá fram er staða þessa fólks og eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á áðan þá er það öll flóran.



[17:27]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margir þeirra sem ganga í hjónaband slíta því bandi og búa síðan hvor í sínu lagi. Stundum er forsjá barnanna deilt, stundum ekki. En eftir sem áður verða þær einingar sem úr slíkum slitum verða til partur af samfélaginu og þær eru fjölskyldan. Það er það sem að mínu viti er undirstaða samfélagsins og hornsteinar hennar. Hitt er auðvitað hárrétt að hjónabandið leiðir til þess að til verður fjölskylda með öllum þeim mörgu skyldum sem á því sambandi hvíla, eins og felst auðvitað vel í orðinu fjölskylda.

Ég ætla aðeins að leyfa mér, frú forseti, að segja að það er ábyggilega ekki tilviljun að það mál sem hv. þingmaður flytur hefur aldrei náð fram að ganga. Hv. þingmaður er vel af guði gerður og hefur meira að segja snert af jafnaðarmennsku í blóði sínu. Þess vegna lagði hann sterka áherslu á það í málafærslu sinni fyrir tillögunni áðan að ekki mætti samþykkt hennar og sú rannsóknarvinna sem fer í gang ef samþykkt yrði, leiða til þess að með einhverjum hætti yrði gripið til þess ráðs að rýra kjör þeirra sem fyrir eru. Væntanlega ætlast þingmaðurinn þá til þess að kjör hinna verði bætt. Það mun auðvitað kosta mjög miklar upphæðir þannig að einhvern tíma hef ég getað séð fyrir mér að hæstv. fjármálaráðherra, jafnvel forsætisráðherra, mundu segja að þetta væri útgjaldatillaga og það meira að segja af stærri sortinni. En það kynni þó ekki að vera að einmitt það væri ástæðan fyrir því að hún hefur ekki fengist samþykkt? Ef menn skoða þetta munu þeir væntanlega sjá þarna ákveðna ágalla sem þarf að bæta úr með því að lyfta þeim sem eru í sambúð eða hjónabandi til jafns við hina að þessu leyti og það hlýtur væntanlega að kosta mikla peninga. Þess vegna hefur tillagan ekki verið samþykkt hjá þessum púkum í ríkisstjórninni.



[17:30]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stöðu hjóna og sambúðarfólks og ég vil byrja á því að lýsa yfir fullum stuðningi við þessa tillögu, alfarið, því mér finnst hún góð. Við þurfum stöðugt að vera að kanna hvort um sé að ræða einhverjar gloppur eða oftryggingar í velferðarkerfinu og við þurfum sérstaklega að skoða hvort skatta- og bótakerfið breyti hegðun fólks sem ég hef mjög mikið á móti. Mér finnst að skatta- og bótakerfi eigi ekki að valda því að fólk skilji eða geri einhverja annarlega hluti.

Mér finnst, án þess að ég vilji þynna út tillöguna og án þess að ég vilji gera neinar breytingar, að það þurfi líka að skoða stöðu námsmanna. Ég hef bent á að bæturnar eru þar mjög ríflegar, mjög rausnarlegar og valda jafnvel ákveðinni félagslegri spennu. Mér finnst því að það þurfi að skoða lánasjóðinn í þessu sambandi. Alveg sérstaklega finnst mér að það þurfi að skoða stöðu meðlagsgreiðenda sem eru atvinnulausir. Sú staða er í rauninni allt að því skelfileg og ég vil nefna að atvinnulaus meðlagsgreiðandi sem greiðir með þremur börnum fær um 85 þús. kr. í atvinnuleysisbætur fyrir börnin þrjú og fyrir sjálfan sig en þarf að borga 45 þús. kr. í meðlög og það er engin miskunn. Hann hefur 40 þús. kr. til að lifa sjálfur af á mánuði og það þykir nú öllum, held ég, of lítið. Það mætti því gjarnan víkka þetta örlítið meira út án þess að ég vilji þar með rýra gildi tillögunnar og án þess að menn fari í of mikla skoðun því að tillagan sjálf er góð og ég vil helst að hún verði samþykkt.



[17:32]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Hér er á ferðinni ágætisþingsályktunartillaga frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni og fleirum. En ég hjó eftir því áðan að hv. málflytjandi hafði kvartað yfir því — ég ætla aðeins að hægja á mér, ég er að bíða eftir athygli hérna — að það væri yfirleitt þannig með þingsályktanir að þær kæmust ekki í gegn. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, og það er kannski nýliðabrek, að það vekur furðu mína að aftur og aftur skuli stjórnarþingmenn kvarta yfir þessu hér í púlti, jafnvel þegar þeir leggja fram sín eigin mál. Einhvern veginn hefði ég haldið að þingsályktunartillögur sem lagðar eru fram af meirihlutaþingmönum ættu að geta fengið brautargengi hjá þeim sjálfum og þeirra flokksmönnum. Mér finnst það ljóður á þinginu að aftur og aftur koma menn fram með ágætismál í formi þingsályktana og jafnvel lagafrumvarpa en ef það kemur ekki beint frá ráðherranum sjálfum virðist það ekki ná í gegn. Það vekur áhyggjur mínar, herra forseti, ef þetta er sú þróun sem er í gangi og er jafnvel orðin staðreynd og verður áfram. Það hlýtur að teljast ráðherraræði ef það er eingöngu ráðherrann sjálfur sem getur lagt fram mál og komið því í gegn.

Miðað við orðræðuna hér í dag og áður hafa menn nefnt að 80–90% þingmannamála væru nánast dauðadæmd um leið og þau væru lögð fram. Ég ítreka að mér finnst þetta vera ljóður á störfum þingsins og tel, herra forseti, að hér sé mál sem vert er að athuga og gera tilraun til breytinga á.



[17:34]
Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Bara örstutt. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér tóku til máls og met það mikils og dreg þá niðurstöðu af þeirra málflutningi að menn styðji þessa þingsályktunartillögu og vilji vinna henni brautargengi. Ég þakka fyrir það.