132. löggjafarþing — 98. fundur
 3. apríl 2006.
greiðslur til foreldra langveikra barna, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 389. mál. — Þskj. 877, brtt. 853 og 896.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:56]

[15:53]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með breytingartillögu stjórnarandstöðunnar sem hér verða greidd atkvæði um er gerð lokatilraun til að leiðrétta alvarlega ágalla á frumvarpinu sem fjöldi umsagnaraðila eins og Umhyggja, félag til stuðnings langveikum börnum, Þroskahjálp og landlæknisembættið hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við.

Í fyrsta lagi er um að ræða að gildissvið laganna er mjög þröngt sem mismunar verulega foreldrum sem búa við sambærilegar aðstæður. Þannig fá foreldrar þeirra langveiku og fötluðu barna sem greindust fyrir síðustu áramót engar greiðslur þó að aðstaða þeirra barna sé nákvæmlega söm og þeirra sem fæddust eftir áramótin. Í nokkrum tilvikum er það svo að foreldrar hafa þurft að vera árum saman utan vinnumarkaðar vegna fötlunar barna sinna sem ekkert munu fá með þessum lögum. Framkvæmdastjóri Umhyggju hefur sagt að margir foreldrar séu sárreiðir vegna þessa misræmis sem er á réttarstöðu langveikra barna.

Í öðru lagi er um að ræða þrepainnleiðingu á lögunum sem ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en á árinu 2008. Þó er þar aðeins um að ræða útgjöld upp á 130 millj. kr. þegar lögin eru að fullu komin til framkvæmda. Það hefur þau áhrif að foreldrum sem búa við nákvæmlega sambærilegar aðstæður er mjög mismunað og það svo að foreldri alvarlega fatlaðs barns sem greindist í desember á þessu ári getur fengið greiðslur þremur mánuðum skemur en barn sem greinist örfáum dögum seinna, þ.e. í byrjun ársins á eftir. Á þessu er tekið í þeim tveimur breytingartillögum sem er að finna á þskj. 896, enda er um að ræða svo mikið misræmi á réttarstöðu hjá foreldrum veikra barna í sambærilegri aðstöðu að það getur varla verið annað en brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Verði breytingartillaga okkar í stjórnarandstöðunni felld munum við engu að síður samþykkja frumvarpið því að hér er um framfaraspor að ræða, að fá þessa viðurkenningu á réttarstöðu fatlaðra barna á lögbókina en það er þá gert í þeirri trú að sem fyrst, og þá þegar á næsta þingi, verði þessir alvarlegu annmarkar á lögunum leiðréttir.



[15:55]
Dagný Jónsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er verið að stórbæta réttindi foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Hér er verið að þétta net velferðarkerfisins með því að koma inn með nýjar greiðslur sem ekki hafa verið greiddar áður og því ber að fagna. Þetta mun koma fjölskyldum langveikra barna til góða sem er svo sannarlega vel þegið enda nægar áhyggjur samt. Ísinn hefur verið brotinn, viðurkenningin er komin og við erum mjög stolt af þessu sanngirnismáli.



Brtt. 853,7 kölluð aftur.

Brtt. 896 felld með 29:17 atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ÁÓÁ,  ÁRJ,  BjG,  BjörgvS,  GAK,  GÖg,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  KJúl,  KolH,  LB,  SigurjÞ,  VF,  ÞBack.
nei:  ArnbS,  ÁMM,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjarnB,  BBj,  DJ,  DrH,  EKG,  EOK,  FG,  GHH,  GHj,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GÖrl,  ÍGP,  JBjart,  KÓ,  MS,  PHB,  SKK,  SÞorg,  SF,  StB,  VS,  ÞKG.
17 þm. (EMS,  HÁs,  HBl,  HHj,  ISG,  JónK,  KHG,  KLM,  MÞH,  MF,  MÁ,  RG,  SAÞ,  SP,  ÞSveinb,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.

Frv.  samþ. með 48 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AKG,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BJJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BBj,  DJ,  DrH,  EKG,  EOK,  FG,  GHH,  GHj,  GAK,  GÞÞ,  GHall,  GÁ,  GÖg,  GÖrl,  ISG,  ÍGP,  JÁ,  JóhS,  JBjarn,  JGunn,  JBjart,  KJúl,  KÓ,  KolH,  LB,  MÞH,  MS,  PHB,  SKK,  SigurjÞ,  SÞorg,  SF,  StB,  VF,  VS,  ÞKG,  ÞBack.
15 þm. (EMS,  HÁs,  HBl,  HHj,  JónK,  KHG,  KLM,  MF,  MÁ,  RG,  SAÞ,  SP,  ÞSveinb,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:57]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra barna. Hér er í fyrsta skipti gripið til sértækra aðgerða til að aðstoða þennan hóp fólks sem mér finnst mjög jákvætt og ég styð það. Auk þess hafa sjúkrasjóðir stéttarfélaganna gert stórátak í að bæta stöðu þessa fólks þannig að hér er stigið mjög mikilvægt skref til framfara og ég segi já.